Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2012
20.1.2012 | 15:57
Keypt álit eða af virðingu fyrir fræðunum?
Ég get ekki annað en velt fyrir mér hvort komin sé upp sams konar samband milli sérfræðinga innan háskólasamfélagsins og "hinna ósnertanlegu" hér á landi og lýst var í myndinni Inside job að hafði myndast milli "sérfræðinga" í bandarískum háskólum og fjármálakerfisins. Ástæðan fyrir þessum vangaveltum mínum eru fimm fréttir sem birst hafa nýlega, þar sem málsmetandi menn innan lagadeildar HÍ hafa tjáð sig um málsvarnir "hinna ósnertanlegu".
Þeir eru svo sem ekki einir um að tjá sig um mál, sem snerta "hinna ósnertanlegu" á þennan hátt. Margir málsmetandi lögfræðingar (sjálfstætt starfandi lögmenn) hafa líka ítrekað tjáð sig um mál, þar sem oftar en ekki hefur verið haldið uppi nokkuð skeleggri málsvörn fyrir þá sem settu þjóðfélagið á hliðina, þ.e. þá sem ég hef hér kallað hina ósnertanlegu. Nú hef ég ekki hugmynd um hvort eitthvað af þessum greinum, umsögnum eða viðtölum hafi verið kostuð, en mig grunar að í einhverjum tilfellum sé svo. A.m.k. halda menn í allt of mörgum tilfellum óhikað áfram gagnrýni sinni og málflutningi, þó svo að Hæstiréttur hafi komist að gagnstæðri niðurstöðu. (Ekki að Hæstiréttur sé óskeikull.)
Vandinn er að vita hvenær viðkomandi tjáir sig eingöngu af virðingu fyrir lögunum og hvenær viðkomandi hefur verið greitt fyrir að sá fræjum tortryggni (sem vissulega getur verið af virðingu fyrir lögunum). Þetta er sérstaklega mikilvægt varðandi fræðimannasamfélagið. Raunar finnst mér að fræðimannasamfélagið eigi að bíða með sínar vangaveltur þar til eðlilegar, fræðilegar rannsóknir hafa farið fram og setja þær síðan fram með viðeigandi vísanir í lög og réttarreglur. Sumir gera það af stakri prýði, en aðrir hlaupa til og hafa uppi órökstuddan málflutning liggur við "af því bara" (og er ég þá ekki að vísa til þeirra sem fréttirnar fjölluðu um). Hef ég setið nokkra fundi, þar sem menn hafa tjáð fyrir allfrjálslega um hvernig þeir halda að hlutirnir séu og svo hefur Hæstiréttur komist að andstæðri niðurstöðu. Finnst mér það hvorki faglegt né fræðilegt.
Ekki væri grunnur fyrir þessum vangaveltum mínum, ef þessir sömu aðilar væru að tjá sig jöfnum höndum um þau mál sem snerta okkur almenning út frá þeim réttarreglum sem gögnuðust okkur. T.d. ef topparnir í lögmannastéttinni (og fræðimannasamfélaginu) tjáðu sig um vörslusviptingar, áhrif dóma Hæstaréttar á samband kaupanda bifreiðar og lánveitandans, afturvirkni vaxta samkvæmt Árna Páls lögunum og fleira í þeim dúr. Vissulega hafa einhverjir gert það, en þá hefur ekkert farið á milli mála að þeir voru að tala um mál skjólstæðinga sinna. Ég hefði aftur áhuga á að vita skoðun, t.d., forseta lagadeildar HÍ á afturvirkni vaxtanna. Hvers vegna hefur maður sem er í hans stöðu ekkert tjáð sig um slíkt grundvallarmál, þ.e. hvenær löggjafinn má setja afturvirk lög með íþyngjandi ákvæðum fyrir almenning og hvenær ekki? Mér þætti ákaflega fróðlegt að vita hans skoðun sem fræðimanns á þessu atriði.
Trúverðugleiki fræðimanna innan háskólasamfélagsins er háskólunum mjög mikilvægur. Sumar stöður eru kostaðar, en það jafngildir ekki því að kostunaraðilinn eigi að fá hagfelda umfjöllun. Nei, kostunaraðilinn á að fá nákvæmlega sömu meðhöndlun af fræðimönnum háskólanna og hinir sem borga til þeirra í sköttunum sínum. Sá sem lætur það hafa áhrif á rannsóknir sínar og fræðistörf hver kostaði rannsóknina, er ekki lengur fræðimaður. Hann er leiguliði.
Nú er ég ekki að væna menn innan háskólasamfélagsins um að láta kaupa sig. Hitt er alveg ljóst að launakjör innan a.m.k. Háskóla Íslands gera menn hvorki feita né ríka. Þeir hafa því örugglega tekið að sér verkefni gegn greiðslu, þar sem er hreint og beint verið að greiða fyrir nafnið. Á þessu verða menn að passa sig. Þegar þeir eru að tjá sig sem fræðimenn, þá mega þeir flagga háskólatitlum sínum, en þess fyrir utan eru þeir bara menn (og konur) með tiltekna menntun og reynslu. Stóra málið er svo, að fræðimenn tjá sig ekki um einstök mál, heldur um grundvallarspurningar fræðigreinar sinnar.
(Ég skrifaði þessa færslu að mestu um síðustu helgi, en vildi ekki birta hana, nema hafa meira í höndunum. Nú hefur komið í ljós að bæði Stefán Már Stefánsson og Róbert Spanó þáðu greiðslur frá tveimur af þeim sem þeir virtust verja út frá fræðunum. Er það ákaflega óheppileg staða svo ekki sé meira sagt.)
Dægurmál | Breytt 6.12.2013 kl. 00:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Eru "árásir" á ríkissjóði nokkurra Evrópulanda bara tilviljun? Var nauðgunarákæran á Dominique Strauss-Kahn (DSK) óheppilegt atvik? Er tímasetning arabískavorsins eða átaka við Íran bara eitthvað hlaut að koma að í lýðræðislega elskandi heimi? Er hækkun á heimsmarkaðsverði á gulli og silfri bara afleiðing á óstöðugleika á fjármálamarkaði?
Ekkert í heiminum er tilviljunum háð þegar kemur að alþjóðaviðskiptum eða alþjóðafjármálakerfinu. Ég, eins og fleiri, hef fylgst með því sem er að gerast úti í heima af hliðarlínunni hér á Íslandi og verið að velta fyrir mér hinu stærra samhengi. Hafandi fylgst með heimsmálunum í hartnær fjóra áratugi, þá veit ég að það er oft annað orsakasamhengi á milli hlutanna, en það sem liggur í augum uppi. Í síðasta pistli fjallaði ég um ósjálfbærni fjármála- og efnahagskerfis þjóða á Vesturlöndum. Þar benti ég á að staða BNA er í raun og veru orðin óbærileg, þ.e. skuldasöfnun alríkisstjórnarinnar er orðin meiri en nokkurt ríki gæti staðist ef leikreglurnar væru jafnar. En leikreglurnar eru ekki jafnar.
Bandaríkin (BNA) hafa undanfarin 50 ár eða svo haft eitt fram yfir aðrar þjóðir heims. Stjórnvöld þar geta prentað USD og gera það ótæpilega. Hvers vegna hefur þetta verið mikilvægt? Jú, vegna þess að USD er gjaldgengur nánast alls staðar í heiminum. Eingöngu örfá ríki hafa ekki talið USD gjaldgengan, s.s. Kúba, Norður-Kórea og síðan er Íran að færast yfir á það stig. Ætli það sé tilviljun að þetta eru taldir hættulegustu óvinir vestrænna ríkja (lesist BNA)?
Í heiminum á hverjum tíma er alls konar valdabarátta. Sú sem hefur líklegast mest áhrif þessi misserin er baráttan um hvaða mynt er alþjóðamyntin, þ.e. sú sem notuð er mest í heimsviðskiptum. Í mínum huga er vandi evrusvæðisins angi af þeirri baráttu, sama á við um arabískavorið, nauðgunarkæran á DSK, spennan milli BNA og Írans, hækkunin á heimsmarkaðsverði á góðmálmum og uppkaup Kínverja á landi og fyrirtækjum út um allan heim. Hljómar eins og ég sé gjörsamlega búinn að tapa því, en svo er ekki.
Hvað gerist ef USD fellur af stalli sem mynt alþjóðlegra viðskipta? Líklegast er að Bandaríkin verði gjaldþrota. Ástæðan er einföld. Þurfi Bandaríkjamenn að kaupa erlenda gjaldmiðla til að eiga í viðskiptum yfir landamæri, þá mun dollarinn hrynja með tilheyrandi óðaverðbólgu í landinu. Þá munu stjórnvöld í BNA ekki lengur geta prentað sig út úr fjárlagahallanum án þess að það bitni á verðbólgu innanlands. Þá munu bandarísk fyrirtæki ekki lengur geta notað peningana sem stjórnvöld prentuðu til að eiga viðskipti yfir landamæri. Því til viðbótar munu stjórnvöld ekki lengur geta selt skuldir sínar um allar jarðir, þar sem önnur lönd munu ekki lengur vilja USD sem greiðslu fyrir vöxtum og afborgunum. Þess vegna er það sem er að gerast í efnahagslífi heimsins í dag örvæntingafull tilraun BNA til að halda stöðu USD sem hinnar alþjóðlegu myntar og þegar menn líta þetta þeim augum, þá er auðveldara að tengja saman punktana.
Skoðum það sem ég nefndi að ofan:
- Ástandið á evrusvæðinu: Með því að grafa undan evrunni, þá er verið að koma í veg fyrir að evran geti komið í staðinn fyrir USD í alþjóðaviðskiptum. Evran fékk að styrkjast allt þar til að hún fór að vera of áberandi í viðskiptum landa á milli. Evrusvæðið er stærsti viðskiptamarkaður í heimi, með meiri veltu en nokkur annar. Þegar mörg lönd eru með sama gjaldmiðil, þá þurfa þau ekki að nota USD í viðskiptum sín á milli. Það dró úr mikilvægi USD og ógnaði stöðu hans. Lausnin er að reyna að brjóta upp evrusamstarfið. Skuldastaða margra evruríkja gerði það að verkum, að auðvelt var að finna fullt af "veikustu" hlekkjum. Þeir voru ekkert endilega svo veikir. T.d. eru skuldir BNA mun meiri sem hlutfall af útgjöldum ríkisins, en held ég örugglegra allra evruríkjanna, þ.e. hvers fyrir sig. En evruríkin geta ekki prentað evrur og þess vegna hafa þau ekki sömu úrræði og BNA. Þau geta ekki svindlað sér út úr vandanum, heldur verða að taka á sínum málum. Ég gæti haldið svona áfram, en ég held að fólk skilji hvað ég er að fara.
- Arabískavorið: Þetta er kannski langsótt, en samt ekki. Arabískavorið snýst á yfirborðinu um lýðræði til handa fólkinu, en trúir því einhver virkilega, að það sé málið? Í mínum huga snýst arabískavorið um yfirráð yfir auðlindunum, þ.e. olíuauðlindunum. Hvers vegna ætli mótmælendur í Sýrlandi hafi ekki náð að steypa Assad af stóli? Helsta ástæðan er að þeir fá ekki erlendan stuðning og það er líklegast vegna þess að eftir fáu er að slægjast í Sýrlandi. Uppreisnaröflin í Líbíu fengu hins vegar NATO sér til stuðnings liggur við áður en þeir báðu um nokkurn stuðning. Ástæðan er einföld: Olía. En það er líka önnur ástæða: Gaddafi var hættur að ganga í takt, þ.e. hann var farinn að selja olíu í evrum! Nú ertu alveg að missa þig í samsæriskenningum, hugsa einhverjir, en hverjir ráða öllu sem þeir vilja ráða innan NATO? Jú, Bandaríkjamenn og þeir vilja gera allt sem er í þeirra valdi til að olíuviðskipti fari fram í USD. En það var skipt um stjórnvöld í Egyptalandi. Jú, en var skipt um stjórnarfar? Sama á við um nokkur önnur lönd sem gengu í gegn um arabíska vorið. Einum einvaldi var skipt út fyrir annan. Fólk á götum Kairó er farið að efast um að nokkuð hafi breyst og þá er eðlilegt að við gerum það líka.
- Nauðgunarkæran á DSK: Þið verðið að fyrirgefa, en ég hef enga trú á að um nauðgun hafi verið að ræða heldur var spennt gildra og bráðin var DSK. Málið var að það þurfti að koma DSK frá völdum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Ástæðuna má rekja til tillögu sem hann setti fram í febrúar 2011. Hún gekk út á að ríki notuðu SDR (sérstök dráttarréttindi, sem er nokkurs konar mynt AGS) í viðskiptum sín á milli. DSK hafði víst haft þetta að sérlegu áhugamáli um nokkurt skeið og setti tillöguna fram, sem sagt, í febrúar á síðasta ári. Hvað liður 3 mánuðir og þá var búið að hrekja hann frá völdum. Honum var haldið föngum í nokkrar vikur, en síðan vatnaði undan kærunni og hún loks felld niður. Markmiðinu hafði verið náð: Honum var komið frá og líklegast verður ekki minnst í bráð á að SDR verði að alþjóðlegri mynt.
- Spennan milli Íran og BNA: Aftur er þetta spurningin um í hvaða mynt olíuviðskipti eiga sér stað og hver hefur yfirráð yfir auðlindunum. Segja má að um tvö mál sé að ræða. Stærsti kaupandi olíu af Íran eru Kínverjar og BNA vilja gjarnan takmarka aðgang Kínverja að olíu. Hitt er að Íran hefur verið að selja olíu í evrum! Á þessu er síðan enn einn snúningur. Olíuútflutningsríki við Persaflóa ásamt ríkjum í Suður-Ameríku hafa velt fyrir sér að búa til sérstaka mynt (eða myntkörfu) fyrir olíuviðskipti. Menn innan OPEC hafa lengi horft til ástandsins í BNA og óttast áhrifin á stöðu landa sinna, ef USD missir stöðu sína. Fyrir nokkrum árum breyttu þeir ákvörðun verðlagningar olíu. Þannig hefur olíaverð í reynd ekki verið miðað við USD, þó það sé skráð í USD, í nokkur ár heldur er verðið miðað við evrur og síðan breytt yfir í USD þegar kemur að viðskiptum í kauphöllum. Ástæðan er hin gríðarlega prentun BNA stjórnvalda á USD og dreifing þeirra um heiminn. Er nú svo komið að offramboð af dollurum á alþjóðamarkaði er farið að mynda alþjóðlega verðbólgu á hrávörumarkaði. Líkja má þessu við að stjórnvöld einhvers ríkis auki stöðugt peningamagn í umferð án þess að raunverðmæti aukist nokkuð. Slíkt leiðir til verðhækkunar.
- Hækkun á verði góðmálma (og hrávöru): Hér er líklegast augljósasta dæmið um vantrú manna á USD sem framtíðarmyntar í alþjóðaviðskiptum. Út um allan heim eru fjárfestar að kaupa góðmálma í stórum stíl. Verð á kopar, silfri og gulli hefur hækkað upp út öllu valdi og þó eilítið bakslag hafi komið í seglin, þá má búast við að mun meiri hækkanir séu í farvatninu. Kaldhæðnin í þessu er að seðlabankar um allan heim geta mögulega bætt verulega fjárhagsstöðu sína með því sitja fast á sínu gulli og kaupa allt sem býðst á markaði. (Þannig hækka þeir verð gullforða síns!) Stærsta málið í þessu er ekki endilega hækkunin á góðmálmunum, heldur hin hliðin á peningnum, þ.e. virðisrýrnun USD gagnvart þeim. Gull er bara gull og um árhundruð var það notað sem mælieining á verðmæti. Gullfótur var notaður til að stilla af verðmæti peninga í umferð. Hafi gull hækkað um 100% í verði í USD, þá þýðir það jafnframt að USD hafi rýrnað um 50% í verðgildi. Ég er ekki að hafa endaskipti á hlutunum. Staðreyndin er sú að offramboð á USD er farið að valda virðisrýrnun hans á markaði. Það kemur fram í hækkun alls á markaði, en þegar maður festir viðmiðið við verð á hrávöru, t.d. hveiti, þá kemur í ljós nokkuð merkilegur hlutur. Aðrar hrávörur og líka góðmálmar hafa þróast á ekki ólíkan hátt, en aftur hafa pappírsgjaldmiðlar heims lækkað. Ástæðan er að sífellt fleiri peningar (og þá sérstaklega USD) eru að keppa um tiltölulega fast magn af hrávöru. Slíkt veldur verðbólgu á heimsvísu og verðbólga er ekkert annað en virðisrýrnun peninga, í þessu tilfelli USD sem síðan dregur aðra með sér, þar sem menn vilja halda ákveðnu jafnvægi, sem alveg eins má kalla ógnarjafnvægi.
- Verslunaræði Kínverja: Kínverjar eiga svo mikið af USD að þeir kunna ekki aura sinna tal. Þeir óttast það sem koma skal og sjá hvernig virði USD hefur verið að rýrna á alþjóðahrávörumörkuðum. Þess vegna eru þeir á fullu að skipta þeim í önnur verðmæti sem ekki ráðast af stöðu USD. Vissulega er ákveðin hætta fólgin í þessu, þ.e. eignabóla, en þeir virðast meta hættuna minni, en að hanga á sínum dölum. Margt bendir meira að segja til þess, að þeir telji áhættuna tengda USD eign sinni vera svo mikla, að þeir eru tilbúnir að kosta talsverðu til að koma dölunum sínum út. Stórar yfirtökur á fyrirtækjum, jarðakaup, kaup á hrávöru langt umfram þarfir, boð um að létta undir með illa stöddum Evrópuríkjum, allt eru þetta tilraunir til að losna við USD og færa eign sína yfir í aðra gjaldmiðla. Skilaboðin eru skýr: USD er óstöðugur gjaldmiðill til lengri tíma.
Vissulega eru mörg af þessu bara mín eigin túlkun á stöðunni, en annað er fengið frá aðilum sem hafa lagt fram mjög traust rök studd haldgóðum gögnum sem eru aðgengileg öllum sem þau vilja skoða. Innan Bandaríkjanna eru meira að segja ýmsir farnir að hafa áhyggjur af þessar þróun. Að S&P hafi vogað sér að lækka lánshæfismat alríkisstjórnarinnar er sterkustu skilaboðin sem send hafa verið hingað til. S&P tók það einmitt fram í umsögn sinni, að verði ekki tekið á hinni miklu skuldasöfnun bandarískra stjórnvalda, þá geti þróunin orðið sú að USD missi stöðu sína sem mynt alþjóðlegra viðskipta.
Alveg er á hreinu að BNA geta ekki haldið áfram að prenta sig út úr vandanum. Magn USD í umferð er þegar orðið svo mikið, að farið er að flæða út úr öllum skápum, kistum og kössum. Hvenær verður komið nóg? Hvenær kemur að því að þjóðir heims munu eiga svo mikið af USD að þær geta ekki tekið við meira? Ef einn gjaldmiðill er með svona yfirflæði á markaðnum, þá kemur að því, að seðlabankar heims eiga svo mikið af honum, að þeir verða að dömpa honum. Þá fer allt fjandans til.
Bandarísk stjórnvöld berjast með oddi og egg við að halda stöðu USD á alþjóðamörkuðum. Þau munu nota öll tiltæk ráð og heiðarleiki verður ekki látinn stjórna för. Gjaldfærni Bandaríkjanna er að veði. Daginn sem USD verður ekki ráðandi gjaldmiðill á alþjóðamörkuðu, munu Bandaríkin missa völd sín. Ekki vegna þess að þau hafi ekki margt fram að færa, heldur vegna þess að þá geta stjórnvöld ekki lengur hunsað vandamálin heima fyrir.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt 6.12.2013 kl. 00:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
19.1.2012 | 00:08
Lengra verður ekki gengið - Sjálfbærni er ekki fyrir hendi
Það er nánast sama hvert litið er, efnahagur ríkja á Vesturlöndum er molum. Skuldasöfnun þjóða, hvort heldur ríkjanna sjálfra eða einkageirans er orðin svo mikil að útilokað er að þessar skuldir verði nokkru sinni greiddar. Bara vextirnir af skuldunum eru komnir upp fyrir öll þolmörk. Kerfið er ekki lengur sjálfbært.
Grunnur allra hagkerfa er sjálfbærni. Að kerfið hafi getu til að viðhalda sjálfu sér. Fjármálakerfið er ein mikilvægasta eining hagkerfisins ásamt heimilunum, fyrirtækjum og hinu opinbera. Sjálfbærni kerfisins þarf að virka þannig að seinni stoðirnar þrjár hafi efni á að eiga í viðskiptum við þá fyrstu. Því þarf að vera heilbrigður vöxtur í fyrirtækjahlutanum (sem fjármálakerfið og hið opinbera vissulega tilheyrir, en þá bara sem vinnuveitendur) svo hinir tveir afli nægilegra tekna til að standa undir útgjöldum sínum. Við getum sagt að rekstrarafgangur heimilanna, fyrirtækja og hin opinbera fyrir fjármagnsliði þurfi að vera nægilega hár til að standa undir þeim vöxtum og afborgunum sem þarf að greiða. Þar stendur hnífurinn í kúnni.
Ísland
Nærtækast er að horfa til stöðunnar hér á landi. Skuldir almennings hafa hækkað úr 25% af ráðstöfunartekjum árið 1980 í hátt í þriðja hundrað prósent. Ef ekki væri fyrir baráttu Hagsmunasamtaka heimilanna og fleiri aðila fyrir leiðréttingu og niðurfærslu á stökkbreyttum skuldum værum við vafalaust komin yfir 300%. Alvarlegi hlutinn í þessu er að raunvextir á þessum skuldum eru á bilinu 4 - 12% og að meðaltali líklega í kringum 7% (verð að viðurkenna að ég hef ekki þá tölu á takteinunum), en það þýðir að nafnvextir eru að jafnaði 4% hærri. Raunvextir á lánum fyrirtækja eru ekki lægri nema síður sé. Svona raunvextir eru hér allt lifandi að drepa. Þeir hneppa fólk og fyrirtæki í ánauð fjármálakerfisins vegna þess að enginn getur staðið undir svo háu vaxtastigi til langframa.
Hver er staða heimilanna fyrir fjármagnsliði? Undanfarin 30 ár hafa heimilin í landinu að jafnaði ekki haft nægan afgang til að greiða vexti og afborganir og lausnin hefur verið frekari lántaka, sem síðan hefur undið upp á sig með frekari vanda í greiðslu fjármagnsliða. Skýringarnar á þessum skorti á sjálfbærni íslenskra heimila er vafalaust margar. Lág laun eru veigamikil skýring, hár framfærslukostnaður er önnur, en sú sem vegur þyngst er hve fjármagnsliðir eru háir í rekstrarreikningi heimilisins og þar eru vextir veigamikill þáttur. Stór hluti heimila í landinu er að greiða yfir 40% af ráðstöfunartekjum sínum í afborganir og vexti lána. Af þeirri tölu er ekki óalgengt að vextir og verðbætur nemi 2/3 - 3/4 af greiðslunni, ef ekki meira. Ég fullyrði að enginn stendur undir slíku til lengdar, enda almennt talað um, að fari greiðslubyrðin yfir 26%, þá sé hún orðin það há að ekki verði við ráðið.
Bandaríkin
En þetta sjálfbærni vandamál er ekki bara á Íslandi. Skuldaþak bandarísku alríkisstjórnarinnar stendur í ríflega 16 billjónum dala ($16 trillion). Miðað við 1,5% ársvexti, þá þarf að greiða 200 milljarða dala bara í vexti og þá á eftir að greiða lánin niður, sé það á annað borð ætlunin (sem ég er ekki viss um). Tvöfaldist vextirnir þá fer talan í 400 milljarða USD. Útgjöld ríkissjóðs er eitthvað í kringum 2,4 billjónir USD ($2,4 trillion), en vandinn er að skatttekjur alríkisstjórnarinnar eru (að því að ég best veit) bara 1,1 billjón USD, þ.e. það er halli upp á 1,3 billjón USD. Vaxtagreiðslurnar eru því um 18% af tekjum og tvöfaldist vextirnir (sem líklegt er að gerist á næstu 5 árum), þá erum við að tala um 36% af tekjum (miðað við núverandi tekjur og skuldastöðu). Staðan er greinilega ósjálfbær. Skuldastaða alríkisstjórnarinnar er orðin slík að í veruleg óefni er komið og sér ekki fyrir endann á því.
Ríki Evrópu
Því miður einangrast þetta ástand ekki við Bandaríkin. Mjög margir ríkissjóðir í Evrópu eru líka í þessari stöðu. Við höfum fengið að fylgjast með þróun mála í Grikklandi undanfarna mánuði og bendir allt til þess að Grikkland muni lýsa sig gjaldþrota innan fjögurra vikna. Ekki einu sinni 50% afskriftir/eftirgjöf skulda ríkissjóðs er nóg til að rétta skútuna af. Ástæðan er enn og aftur að þær skuldir eru of háar til að halda gríska hagkerfinu sjálfbæru. Ítalía, Írland, Ungverjaland og mörg önnur Evrópulönd eru í sömu stöðu. Fáir átta sig á því, að Austurríkismenn eru á nálum út af stöðunni í Ungverjalandi. Ástæðan er að austurrískir bankar eru búnir að taka allt of mikla áhættu þar. Gangi maður um götur Búdapest, þá bera ótrúlega margir bankar nöfn austurrískra banka. Deustche Bank á líka mikið undir þar. Munurinn er sá, að hlutfallslega eiga austurrísku bankarnir meira undir. Fari Ungverjaland sömu leið og Grikkland, þá er ekki um neitt annað að ræða fyrir austurrísk stjórnvöld en að þjóðnýta marga stærstu banka Austurríkis eða láta þá fara á hausinn. Þar með dregst Austurríki inn í hóp þeirra ríkja sem eru í mestum vanda.
Er hægt að ná sjálfbærni?
Þegar stór er spurt er oft fátt um svör. Ég get ekki séð að hægt sé að ná sjálfbærni við núverandi skuldastöðu þjóða í Vestur-Evrópu og Bandaríkjanna. Nokkur lönd Suður-Ameríku hafa gengið í gegn um þetta og Argentína ákvað einfaldlega að stilla kröfuhöfum upp við vegg og segja að þeir gætu bara fengið það sem Argentína hefði efni á. Allt annað yrði afskrifað. Sumir eru að reyna telja heiminum trú um að það sé það sama og gert var hér á landi. Svo er þó ekki. Hér var að mestu ákveðið að kröfuhafar fengju það sem eignir landsmanna stæðu undir. Á þessu tvennu er regin munur. Þess vegna er staða fyrirtækja og heimila, sem farið hafa í gegn um úrræði bankanna, ennþá býsna erfið. Ekki var gengið nógu langt, þar sem sjálfbærni var ekki höfð að leiðarljósi.
Lykillinn að sjálfbærni er vaxtastigið. Vaxtastig sem er t.d. hærra en hagvöxtur getur ekki verið sjálfbært. Ef fjármagnseigendur taka meira til sín en nemur verðmætaaukningu í þjóðfélaginu, þá er í reynd minna eftir til uppbyggingar. Fjármagnseigendur eru ekki í endurreisnarstarfinu. Þeir eru bara að hagnast á því að láta aðra nota sína peninga í endurreisnina. Krefjist þeir of hárra vaxta, þá annað hvort vill enginn fá peningana þeirra eða að þeir sem gera það þurfa að vera með ævintýranlegan vöxt hjá sér. Fjármagnseigendur geta því reynt að halda uppi vöxtunum og reynt að þvinga lántaka til að sætta sig við ofurkjör eða þá að þeir lækka vaxtakröfuna sína og koma peningunum í vinnu. Hér á landi eru bankarnir á fullu við það fyrra, þ.e. eru að halda fólki og fyrirtækjum í spennitreyju hárra vaxta sem viðkomandi er neyddur til að greiða, þar sem engin raunveruleg samkeppni er á fjármálamarkaði. Höfum í huga að bankarnir eru fullir af ódýru sparifé sem bankarnir borga nánast ekkert fyrir. Lífeyrissjóðirnir safna og safna inn á reikninga í bönkunum og hjá Seðlabankanum. Þessir aðilar ættu því að vera að bjóða ódýrt lánsfé, en svo er ekki. Meðan vaxtakrafan er jafn há og raun ber vitni, þá sitja peningarnir þar áfram. Fólk og fyrirtæki eru nefnilega búin að átta sig á því, að afgangur fyrir fjármagnsliði leyfir ekki frekari skuldsetningu. Hvorugur aðili er með sjálfbæran rekstur. Ef hér á landi væri raunveruleg samkeppni um lántaka, þá væru bankarnir á fullu að undirbjóða hver annan. Raunvextir væru komnir niður í það stig, að fólk sæi hag sinn í að skipta um viðskiptabanka. Fá Arion banka til að fjármagna uppgjör á hávaxtalánum hjá Íslandsbanka eða Landsbanka og svo öfugt. Þannig skapaðist svigrúm fyrir lántakann að taka meira að láni til að fara í arðsamar, sjálfbærar fjárfestingar. Nei, í staðinn er kostnaði við fjármagn haldið það háu, að heimilin og fyrirtæki eru sífellt að skera niður á rekstrarreikningi sínum (og þar með draga úr veltu í þjóðfélaginu) til að greiða af fjármagnsliðum. Lausn sem eykur á vanda þjóðfélagins.
Þjóðfélögin
Segja má að allt of mörg þjóðfélög á Vesturlöndum standi frammi fyrir þríþættum vanda, þ.e. stór hluti bankakerfis landanna gengur á gufunni og er í reynd ógjaldfær, ríkissjóðir ganga á gufunni og eru í reynd ógjaldfærir og innanlandsneysla er langt umfram innanlandsframleiðslu sem endar í ógjaldfærni þjóðfélaganna. Ég er búinn að fjalla um tvennt þetta fyrra, en þá er það þetta þriðja. Það heitir með öðrum orðum að viðskiptajöfnuður sé neikvæður. Slíkt kallar á erlendar lántökur sem bitnar á greiðslujöfnuði við útlönd. Ísland er gott dæmi um þjóðfélag, sem er ekki sjálfbært vegna þess að verðmætasköpun í landinu hefur ekki undan þeirri neyslu sem er í landinu. Þess vegna lækkar krónan alltaf, þess vegna eru við stöðugt með hærri verðbólgu en í nágrannalöndum okkar. Þjóðfélagið er ekki sjálfbært. En við erum ekki ein um þetta.
Allt of mörg lönd í Evrópu eru með neikvæðan viðskiptajöfnuð. Fyrir tíma evrunnar, þá sigu gjaldmiðlar Grikklands, Ítalíu, Frakklands, Spánar og Portúgal jafnt og þétt gagnvart þýska markinu og svissneska frankanum. Margt var líkt með hegðun þessara mynta og krónunnar. Ástæða var sú sama. Sífellt var verið að fella gengið til að hemja innanlandseftirspurn eftir erlendum varningi. Pesetinn spánski var í fjölda mörg ár í kringum hálf króna, sama hvað krónan féll gagnvart dollar eða pundi.
Hegðun gjaldmiðla er ein sterkasta vísbending um sjálfbærni. Gjaldmiðil sem sífellt er að lækka, gerir það þar sem þjóðfélagið er ekki sjálfbært. Það er ekki jafnvægi milli þess sem er framleitt í landinu og þeirrar neyslu sem þar á sér stað. Vissulega getur matvælaframleiðsla í landinu satt alla landsmenn, en flytja þarf inn hráefni til iðnaðar eða iðnaðarvörurnar sjálfar. Stjórnvöld hafa ekki vilja til að sporna við þessu eða að afnám hafta og tolla opnaði fyrir innflutning, oft að kröfu stórra landa eins og Bandaríkjanna eða Þýskalands. Nú flæðir t.d. þýsk framleiðsla um alla Evrópu og verður oft til þess að kæfa niður innanlandsframleiðslu sem smátt og smátt leggst af.
Svo hastarlegt sem það er, þá þurfa þjóðir að setja upp múra hafta og tolla til að stuðla að jafnvægi milli innflutnings og útflutnings, a.m.k. þær þjóðir sem geta ekki látið gjaldmiðil sinn falla. Þetta þýðir að lífsgæði munu versna. Þeim mun fækka sem hafa efni á uppþvottavél eða vera með fleiri en einn bíl, svo dæmi séu tekin. Sófasettið verður að endast lengur og sama á við um tölvuna. Stilla verður kaupmátt að því sem þjóðfélagið hefur efni á, en ekki það sem við viljum hafa.
(Tekið skal fram að allar skoðanir í þessum pistli og ályktanir eru mínar, þó svo að ég styðjist við margt sem ég hef lesið bæði fyrr og síðar.)
Efnahagsmál | Breytt 6.12.2013 kl. 00:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
13.1.2012 | 16:05
Verðtryggður vandi í hnotskurn - 600 ma.kr. að láni, 685 ma.kr. í verðbætur á 14 árum
Framundan er borgarafundur í Háskólabíói undir heitinu Er verðtryggingin að kæfa heimilin? þann 23. janúar nk. Verð ég þar með framsögu og mun fjalla bæði um fortíð og framtíð en einnig reifa hugmynd hvernig taka má á hluta fortíðarvandans.
Tilefni þessara skrifa er bæði fundurinn, en ekki síður póstur sem mér barst áðan. Hann lýsir verðtryggðum veruleika allt of margra Íslendinga. Í staðinn fyrir að endursegja efni póstsins, þá vil ég birta drjúgan hluta hans:
Ástæða þess að ég skrifa þetta e-mail til þín núna eru þessar undanfarandi vangaveltur mínar og til glöggvunar þá tók ég mið af eigin láni sem tekið er síðla árs 2004 þegar við hjónin keyptum eða stækkuðum við okkur íbúð og tókum 18.100.000.- íbúðalán með 4.2 % föstum vöxtum ásamt verðtryggingu. Lánið er tekið hjá Landsbanka Íslands.
Ég vil byrja á að taka fram að lánið er í skilum og hefur alltaf verið það.
Það breytir ekki því að þegar ég skoðaði greiðsluseðil sem ég er með núna vegna greiðslu í janúar á þessu ári þá eru eftirstöðvar lánsins 29.600.000.- liðlega og hefur því hækkað um 11.500.000. á þessum 7 árum.
Til viðbótar þessu hefur verið greitt mánaðarlega í þessi 7 ár um 100.000,- kr að meðaltali (byrjaði í c.a 90 þús er nú í 109 þús) í þessi 7 ár eða c.a 8.400.000.-
Samanlögð hækkun ásamt greiddum afborgunum er því 19.900.000.- eða með öðrum orðum tvöföldun láns að viðbættum 1.800.000.- (þetta eru svona einfaldaðar og afrúnnaðar tölur allt saman ekki kr og aurar). Skv. þessu þá er kostnaður minn við það að fá þessa peninga lánaða, um 19.900.000.- í þessi sjö ár eða með öðrum orðum þeir vextir sem hafa fallið á lánið frá 2004. Og má því e.t.v. segja að vextir lánsins á þessum 7 árum séu 109 % (eða kostnaðurinn áf láninu er 109%). [Raunar 109,94%]
Hvernig getur svona lagað verið látið viðgangast? Viðkomandi greiðir allar greiðslur eins og um er beðið, sem nema 46,4% af upprunalegri lánsfjárhæð og skuldar samt 63,5% umfram upprunalega lánsfjárhæð. Eins og hann reiknar út, þá jafngilda afborganir, vextir og verðbætur fyrir þetta 7-8 ára tímabil 110% af upprunalegri lánsfjárhæð.
600 ma.kr. teknar að láni en 685 ma.kr. bæst á sem verðbætur
Verðtryggðar skuldir heimilanna við fjármálafyrirtæki voru um 1.285 ma.kr. í lok september á síðasta ári samkvæmt upplýsingum á vef Seðlabanka Íslands. Erfitt er að segja nákvæmlega til um hve stór hluti af þessari tölu er verðbætur (Seðlabankinn veit það, en gefur ekki upp), en hægt er að nálga töluna með einföldum hætti. Seðlabankinn á tímaraðir sem sýna skiptingu lána heimilanna í verðtryggð lán, óverðtryggð og gengisbundin aftur til 31.12.1997. Samkvæmt þeim voru verðtryggðar skuldir heimilanna 342 ma.kr. í árslok 1997 en komnar í 1.285 ma.kr. lok september 2011. Hafa skal í huga að útlán nýju bankanna þriggja er á kaupvirði krafnanna úr gömlu bönkunum, þ.e. af frádregnum afslættinum sem bankarnir fengu, þannig að líklegast er verið að krefja lántaka um eitthvað hærri upphæð. Til að reikna út hve háar verðbætur eru á hverju ári, þá tek ég stöðuna í árslok og margfalda með verðbólgu næsta árs. Með þessari aðferð fæ ég út að verðbætur frá árslokum 1997 nemi rúmlega 685 ma.kr., þ.e. að af núverandi stöðu lánanna, séu 600 ma.kr. það sem tekið var að láni, en 685 ma.kr. eru verðbætur!
Nú væla einhverjir hagfræðingar og segja að fái maður einn hest að láni, þá eigi maður að skila hesti, eða hvernig þessi myndlíking er. Mér sýnist aftur að ekki sé bara verið að skila einum hesti, heldur séu þeir ríflega tveir á 14 árum. Sé farið lengra aftur í tímann versnar myndin.
Burt með verðtrygginguna
Í ótrúlega misheppnaðri skýrslu sem Gylfi Magnússon, þáverandi ráðherra, pantaði vorið 2010 um verðtrygginguna koma fyrir nokkrar kostulegar setningar. Hér eru tvær:
Varðandi fjölbreytni fjárfestingarkosta þá má líta svo á að verðtryggð ríkisskuldabréf séu áhættulaus eign og að án þeirra sé enginn slíkur fjárfestingarkostur til staðar...
Fullyrða má að þau rök að verðtryggðir fjárfestingarkostir leiði til minni hættu á óviljandi eignatilfærslum sé rétt...
Skýrslan heitir "Verðtrygging á Íslandi - Kostir og gallar", en fjallaði bara um kosti hennar fyrir fjárfesta og ókostina fyrir fjárfesta, ef hún væri ekki til staðar.
Ofangreindar setningar segja allt sem segja þarf. Lánveitendur vilja halda í verðtrygginguna vegna þess að þá þurfa þeir ekki að hafa fyrir lífinu og vegna þess að með henni á sér stað viljandi eignatilfærsla frá lántökum til lánveitenda.
Efnahagsmál | Breytt 6.12.2013 kl. 00:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
13.1.2012 | 12:41
Ætli Steingrímur gefi kvóta af ótta við lögsókn?
Ég get ekki að því gert, að óttast niðurstöður samningaviðræðna sem Steingrímur ber ábyrgð á fyrir hönd Íslendinga. Fjórum sinnum hefur hann og/eða samninganefnd sem hann skipaði lúffað í samningum við erlenda aðila og meinta erlenda aðila. Þrjár Icesave umferðir voru farnar og í öll skiptin tókst samninganefndunum að sneiða hjá vilja Alþingis. Í millitíðinni lúffaði Steingrímur skjálfandi af hræðslu yfir meintum erlendum kröfuhöfum, þegar samið var um að heimilin í landinu ættu að taka á sig klúður vanhæfra íslenskra bankamanna, en ekki þeir sem lánuðu þeim og sýndu með því enn meira vanhæfi.
Hingað til hefur Steingrímur ekki átt í vandræðum með að skilgreina samningsviðmið. Í hvert sinn hefur nánast aðeins eitt þeirra nást, en hinum verið fórnað, þ.e. að ná samningi. Óttast ég því að, eins og í fyrri samningum, fái mótaðilarnir nærri því allt sitt í gegn og við sitjum uppi með samning sem gengur þvert gegn íslenskum hagsmunum.
Vilji hjá Íslandi til að semja | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 6.12.2013 kl. 00:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.1.2012 | 21:11
Tökum vel á móti fjárfestum þvert á það sem sagt er af ýmsum!
Án allrar kaldhæðni, þá eru þetta góðar fréttir. Ekki bara það, þetta er í ótrúlegri andstöðu við málflutning hér innanlands um þetta efni. Umræðan undanfarin misseri hefur snúist um það hvað "kerfið" væri andsnúið erlendri fjárfestingu. Vá, Alþjóðabankinn er algjörlega ósammála! Níunda sæti með mörg sterkustu hagkerfi heimsins fyrir aftan okkur í röðinni.
Ok, þetta segir ekkert til um hversu auðvelt er að stofna fyrirtæki hér á landi. Bara hver staðan er í samanburði við önnur lönd. Þau eru kannski bara ennþá erfiðari, en við samt erfið. Eða getur verið að menn séu svo æstir í að galopna Ísland, að þeir átta sig ekki á því að hér er gott umhverfi fyrir fjárfesta. A.m.k. var ekkert mál fyrir Magma Energy að opna skúffu í Svíþjóð og þá var fyrirtækið komið til Íslands.
Skoði maður töflu á bls. 143, þá kemur svo sem í ljós að margt af því sem virðist jákvætt út frá rekstrarforsendum hér á landi, er ekki endilega jákvætt út frá réttarstöðu launþega. Upptalning á bls. 109 sýnir aftur stöðu í þeim atriðum sem notuð eru til að raða þjóðlöndum. Þar kemur fram að í einu atriði skorum við hæst, þ.e. aðgangur að rafmagni, í öðru er landið í þriðja sæti, þ.e. knýja á um framkvæmd samninga, í tveimur er landið í 11. sæti, þ.e. skráning eigna og gjaldþrotameðferð, en í öðrum atriðum raðast landið lægra og lægst er skorið í viskiptum milli landa (81. sæti sem helgast líklegast helst af því að stór hluti flutninga til og frá landinu er með skipum og vegna fjarlægðar og magns kostar meira en gengur og gerist hjá þjóðum í kringum okkur).
Þessi skýrsla Alþjóðabankans um þennan hluta samkeppnishæfni þjóðarinnar er áhugaverð lesning. Hún segir okkur hvar við stöndum okkur vel, en ekki síður hvar eru tækifæri til bæta samkeppnisstöðu okkar sem þjóðar. Helst af öllu dregur hún upp allt aðra mynd af stöðu landsins, en heyra hefur mátt frá ýmsum hagsmunasamtökum.
Gott að stofna fyrirtæki á Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Endurreisn | Breytt 6.12.2013 kl. 00:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
9.1.2012 | 13:30
Stefán Jón og spillingin
Egill Helgason ræddi við Stefán Jón Hafstein í Silfrinu í gær. Nú er ég búinn að hlusta á þetta viðtal þrisvar sinnum og þó margt í því þoli að hlustað sé á það aftur og aftur, þá fer endurtekin hlustun ekki eins mjúkum höndum um annað.
Stefáni Jóni er tiðrætt um spillinguna eins og hún hafi orðið til eftir að Ísland varð lýðveldi. Þetta er náttúrulega ekki rétt. Þessi spilling sem hann lýsir er angi af höfðingjaveldinu og er búin að vera til staðar hér á landi frá landnámi. Þetta byrjaði með Ingólfi Arnarsyni sem nam land og leyfði fólki tengdu sér að setjast að í sínu landnámi. Seinna færðist þetta á goðorðin í íslenska þjóðveldinu og þaðan yfir á eigendur kirkjujarða. Enginn fékk neitt eða gat gert nokkurn skapaðan hlut nema með samþykki goðanna, síðar kirkjunnar og konunga. Þar sem valdið var í sveitunum, þá var eðlilegt að "spillingin" væri mest í sveitunum. Höfðingjastéttin íslenska var eins og aðallinn í Englandi eða Frakklandi. Fyrir ofan báða þessa aðila í goggunarröðinni voru hirðmenn/ráðsmenn konunga og síðan konungarnir sjálfir.
Þessi þróun hélt áfram, en með einokunarversluninni kom hingað ný höfðingjastétt sem smeygði sér á milli sveitahöfðingjanna (og jafnvel kirkjunnar) annars vegar og hirðmanna/ráðsmanna hins vegar, þ.e. einokunarkaupmenn. Undir verndarvæng þeirra fengu sumir að gera hluti og eignast meðan aðrir fengu það ekki. Engeyjarættin er dæmi um ætt sem fékk meðan sveitarmenn af t.d. Víkingslækjarætt fengu ekki. Önnur varð í kjölfarið valdamikil, en hin ekki. (Auðvitað eru margir Íslendingar af báðum.)
Það var inn í þessa stéttarskiptingu sem lýðveldið fæddist. Þ.e. "spillingin" var til staðar þegar lýðveldið var stofnað, en var ekki orsök spillingarinnar.
Spilling í útdeilingu fjár frá Alþingi var engu minni á 19. öld, en hún er í dag. Þingmenn gerðu allt sem þeir gátu til að fá pening fyrir sitt kjördæmi á kostnað annarra. Það var bara ekki kallað spilling á þeim tíma. Sparisjóðir voru stofnaðir til að tryggja fjármögnun í heimabyggð. Í því fellst ekki spilling, en hún felst í því að sumir í heimabyggðinni fengu fjármagn til framkvæmda meðan aðrir máttu éta það sem úti fraus.
Bæði stjórnmálamenn og fjármálafyrirtæki hafa haldið áfram sínu striki, að meira skiptir hvert bað um peninginn en að skynsamlegt væri að láta viðkomandi hafa peninginn. Kolkrabbinn, Sambandið, einkavæðingin, Hagar, gagnslausar eftirlitsstofnanir og núna síðast lífeyrissjóðavaldið eru allt angar af því sem var hér á Sturlungaöld, tímum Thors Jensen, einokunarverslunarinnar eða þess vegna þegar valdið var að Skálholti og Hólum.
Hugsanlega hefur okkur gengið verr að losa þjóðfélagið úr viðjum höfðingjasamfélagsins. Ég er samt ekkert svo viss um að öll héruð Þýskalands þoli ítarlega skoðun. Eins og Stefán Jón nefndi, þá er Ítalía fast í ótrúlegri spillingu tengdri skipulögðum glæpum.
Í dag hefur í raun fátt breyst, þ.e. Alþingi og fjármálaöflin ráða. Vilji meirihluti Alþingis sniðganga skynsemi og réttlæti, þá getur hann gert það. Vilji fjármálafyrirtæki hygla einum en refsa öðrum, þá getur það gert það. Málið er að þetta er sama spilling og var síðari hluta 19. aldar, hvorki ný né breytt.
Gleymum því aldrei að þessi spilling er alls staðar í heiminum, þar sem er veruleg stéttarskipting. Hún er ýmist meiri eða minni hér á landi eftir því hvaða land er miðað við. Þar sem við viljum bera okkur saman við Norðurlönd, þá er ljóst að mikið verk er eftir óunnið til að koma hlutunum í sama horf og mjög oft efast ég um að það muni nokkru sinni takast.
Dægurmál | Breytt 6.12.2013 kl. 00:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Á vef dv.is er lítil frétt um skuldauppgjör "tískuverslanaveldisins NTC" við Landsbankann. Ég ætla ekki að gera það uppgjör að umtalsefni heldur ummæli sem DV hefur eftir talsmanni Landsbankans:
Talsmaður Landsbankans vill ekki tjá sig um það hvort skuldauppgjörinu sé lokið því bankinn tjáir sig ekki um einstök mál en segir að í tilfellum þar sem aðilar tóku erlend myntkörfulán fyrir hrun, geti þeir búist við að fá að meðaltali um 40 prósenta niðurfellingu af lánunum.
Ég get ekki annað en dáðst af þessari fullyrðingu talsmannsins, þar sem ég hef verið að fara yfir útreikninga hjá fjölmörgum aðilum og ekki í eitt einasta skipti er niðurfellingin að ná 40% niðurfellingu hvað þá að meðaltalið sé eitthvað nálægt þessu hlutfalli. Kannski er það þannig, að litli maðurinn fær ekki svona niðurfellingar, heldur bara stóru fyrirtækin sem síðan eru færð yfir til Framtakssjóðs.
Þessi fullyrðing talsmanns Landsbankans er ekki síður áhugaverð fyrir þær sakir, að samkvæmt skýrslu Steingríms J. Sigfússonar, þáverandi fjármálaráðherra, um endurreisn bankakerfisins, þá fengu nýju bankarnir 50% afslátt af öllum gengistryggðum lánum (miðað við gengi í október 2008, frekar en lok september það ár). Samkvæmt þessu er bankinn að hagnast að meðaltali um 20% á þessum lánum og meira á umbjóðendum mínum.
Landsbankinn hefur svo sem gengið lengra en aðrir bankar í endurskipulagningu skulda einstaklinga. Á hann hrós skilið fyrir það. Uppgjör hans sýna þó að hann á ennþá meira svigrúm inni og hvet ég bankann til að nota það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.1.2012 | 16:58
Af norðurljósum og hitastigi
Tvisvar með stuttu millibili hafa birst fréttir, þar sem fjölmiðlafólk (þ.e. blaðamaður mbl.is og fréttakona á RÚV) tengja möguleikann á því að sjá norðurljósin við hitastig. Þar á milli eru ENGIN tengsl.
Bara til að hafa eitt á hreinu, þá myndast norðurljós og suðurljós allt árið um kring, hvor í kringum sinn segulpólinn. Eina ástæðan fyrir því að við sjáum ekki norðurljósin í júní eru óhagstæð birtuskilyrði!
Þeir sem ekki vita betur, tengja norðurljós við kulda af þeirri ástæðu einni, að þau sjá best í heiðskýru veðri þegar dimmt er úti. Slíkar aðstæður geta verið frá um miðjum ágúst fram til apríl loka. Vissulega heldur skýjaleysi meiri útgeislun og því að það kólni, en kuldinn einn og sér skapar ekki neinar kjöraðstæður til að sjá norðurljósin. Úti getur verið 20 stiga frost án þess að norðurljósin láti á sér kræla eða 20 stiga hiti og þau dansa af mikilli ákefð um himinhvolfin.
Von á flottum ljósum í kvöld
Fyrir þá sem sjá í gegn um skýjahuluna, þá er von á flottum norðurljósum í kvöld, ef marka má spár um ljósin. Meðfylgjandi mynd sýnir styrkleika og dreifingu ljósanna kl. 16:11. Styrkleiki þeirra er hár, þ.e. 8, og ná þau mjög langt í suður. Þegar þetta tvennt fer saman, þá má ekki bara búast við kröftugum ljósum heldur verða þau sýnileg um allt land, verði himininn á annað borð heiðskýr.
Rauða örin sýnir hvar sólin er og skýrir það hvers vegna styrkur ljósanna er minnstur þar. Ísland er þar sem 60 er, en það er jafnframt 60. breiddargráða. Ljósin ná að 60. breiddargráðu yfir Síberíu, þannig að þau munu ná vel suður fyrir hana hér síðar í kvöld og nótt. Má búast við miklu sjónarspili ef allt fer sem horfir. Skýjahuluspá fyrir kvöldið er ágæt fyrir Reykjavíkursvæðið, en fyrir þá sem vilja heiðan himinn, þá er best að fara upp í Borgarfjörð eða út á Mýrar hér SV-lands og síðan er gert ráð fyrir heiðskýru yfir allri SA-ströndinni.
Tekið skal fram að styrkurinn breytist með litlum fyrirvara og það er með ljósin eins og margt annað, það sem lítur glimrandi vel út eina stundina er heldur aumt að sjá hina næstu.
Fastir í norðurljósaskoðun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðaþjónusta | Breytt 6.12.2013 kl. 00:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 0
- Sl. sólarhring: 81
- Sl. viku: 275
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 34
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði