Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010
22.11.2010 | 08:29
DV birtir úreltar upplýsingar
Ég vil bara taka það fram, að upplýsingar DV um skuldastöðu okkar hjóna eru rangar. Er snilli þessara mann slík að þeir vita ekki hvað þeir eru að tala um. Ég benti blaðamanni á það í klukkutíma löngu símtali í gærkvöldi að tala hans væri röng, en það hefur ekki komist til skila. Ekki er tekið tillit til dóma Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggingar. Ég held ég hafi nefnt við hann 6 sinnum í símtalinu að þessi tala væri röng. En menn láta ekki sannleikann flækjast fyrir sér, þegar hægt er að bera ósannindi á borð fyrir alþjóð.
Annað sem blaðamaður skilur ekki er hvernig framkvæmdalán virka. Um er að ræða EITT lán, sem greitt er út í hlutum og gefið út veðskuldabréf í hvert sinn. Fjöldi lána er því líka rangur.
Mál þetta verður kært til siðanefndar Blaðamannafélagsins. Hver sá fjölmiðill sem tekur þessa frétt upp má búast við sambærilegri kæru.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
22.11.2010 | 00:47
Héraðsdómur vill álit EFTA-dómstólsins
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.11.2010 | 00:07
"Ef þið viljið skrifa ruslfrétt, þá skrifið þið ruslfrétt"
Fyrirsögnin er tilvitnun í breskan biskup, sem var með sjálfstæða skoðun á konungsfjölskyldunni bresku og lét hana í ljós á facebook síðunni sinni. Þegar fjölmiðlar fóru heim til hans til þess að spyrja hann nánar út í þessi ummæli, þá sagðist hann ekki ætla að svara og sagði bara þessi fleygu orð: "Ef þið viljið skrifa ruslfrétt, þá skrifið þið ruslfrétt." Líklegast var blessaður biskupinn að vísa til þess að fjölmiðlar láta stundum ekki sannleikann koma í veg fyrir að skrifa það sem þeim dettur í hug. Við leiðsögumenn segjum oft, að standi valið á milli staðreynda og góðrar sögu, þá hefur sagan vinninginn.
Á síðustu dögum hef ég fengið að finna fyrir því að fjölmiðlar geta bitið hluti í sig. Menn kunni ekki að greina á milli mannsins og skoðana, umræðu og einkalífs. Hefur þetta valdið miklum óþægindum og hugarangri hjá heimilisfólki. Hvernig skýrir maður það fyrir barni að fjölmiðlar vilji slúðra um mann vegna þess að þeir þurfa að selja miðilinn sinn?
Ég fékk annað símtal í kvöld frá blaðamanni sem gat ekki gert greinarmun á mér sem baráttumanni fyrir réttlæti í þjóðfélaginu og mér sem fjölskyldumanni og heimilisföður sem allar þær skuldbindingar sem fylgir þeirri stöðu. Líkt og í síðustu viku, þá vildi blaðamaðurinn blóði væta góm án þess að sjá neitt athugavert að taka mig út einan allra sem standa í þessari baráttu. Og það skipti viðkomandi engu máli að ég væri hættur í stjórn HH.
Mér skilst að ástæðan fyrir því að skuldastaða mín sé svona spennandi umfjöllunarefni er að húsið sem við hjónin byrjuðum að byggja á haustmánuðum 2006 sé svo stórt. Glæpur minn er að húsið er stórt. Ástæðuna hef ég margoft gefið upp: Fjölskyldan er stór (6 manns), ég er með eigin rekstur heima hjá mér, konan mín hefur áhuga á að vera með sinn rekstur heima líka og kjallarinn bættist við vegna aðstæðna á staðnum. Annað atriði, sem gefið er upp, er að ég sé svo skuldsettur. Já, þegar fólk situr uppi með tvö hús, þá fylgir því að skuldir eru meiri en þegar maður er með eitt hús. Við hjónin gætum nýtt okkur lög um úrræði fyrir fólk með tvær eignir, en höfum ekki gert það ennþá vegna þess að við viljum freista þess að vinna úr þessu sjálf. Í þessu tilfelli er glæpur okkar að hafa ekki nýtt okkur lagaleg úrræði, vegna þess að við vonumst til að fá kaupanda. Kannski gerist það að til okkar kemur kaupandi sem er með nógu gott kauptilboð. Eins og staðan á fasteignamarkaðnum er, þá finnst mér ólíklegt að við fáum slíkt tilboð, en aldrei segja aldrei. Því auglýsi ég eftir áhugasömum aðila, sem vantar 207 fm raðhús á besta stað í Kópavogi og hefur góð fjárráð. Kannski væri ég minna spennandi umfjöllunarefni, ef okkur hefði tekist að selja fyrir löngu og tekið á okkur tap upp á 10 - 15 m.kr. En svo ég skýri það út af hverju við settum ekki á sölu fyrr, er að konan mín er með MS-sjúkdóminn. Vafstur í kringum flutninga reyna mikið á hana sem leiðir til ennþá skertari starfsorku, en hún býr þó við, í kannski nokkrar vikur eða mánuði. Þess vegna færðum við okkur ekki yfir í leiguhúsnæði tímabundið, heldur ætluðum bara að flytja einu sinni.
Þriðja atriðið sem borið er á mig, er að ég sé að skara eld að minni köku. Ég hef beðið menn um skilgreina þetta betur. Einatt er bent á að ég hljóti að njóta þess umfram aðra, ef fallist verið á kröfur HH. Nú vill svo til að þeir sem hringt hafa eru með veðbókarvottorð yfir húsin tvö í höndunum, en þeir hafa ekki haft fyrir því að skoða hlutina. Að vita hvað felst í kröfum HH væri góður byrjunarpunktur. Sú þekking hefur ekki verið til staðar. Næst væri ekki vitlaust að skoða hvaða áhrif dómar Hæstaréttar hafa á þau lán sem eru talin upp. (Tekið skal fram að ég skapaði mér ekki vinsældir innan stjórnar HH, þegar ég hvatti til þess eftir dómana 16. júní, að við héldum okkur við upprunalegar kröfur HH og sýndum fjármálafyrirtækjum sömu sanngirni og við höfðum óskað eftir frá þeim. Sanngirnin þyrfti að ganga í allar áttir.) Jafnvel mætti skoða hvaða áhrif aðrar tillögur hafa á lánin, t.d. 110% leiðin og sértæk skuldaaðlögun, en báðar þessar tillögur njóta stuðnings fjármálafyrirtækjanna. Við þetta má bæta að í sérfræðingahópnum sem ég var í, var sérstaklega skoðuð ný útfærsla af 110% leiðinni, svo kölluð 60-110% leið og naut hún líka stuðnings fjármálafyrirtækjanna. Vandamálið er að menn hafa ekki haft fyrir því að skoða eitt eða neitt. Það hlýtur bara að vera að ég sé að skara eld að minni köku. Ja, margur heldur mig sig.
Mér þykir það leitt að segja hnýsnum fjölmiðlamönnum það, en ég hef fyrst og fremst verið að vinna fyrir hagsmunum annarra. Það hljóta að vera mikil vonbrigði fyrir blaðamenn að uppgötva, að ég er ekki þeir. Raunar hef ég bent þeim á að allur tími sem farið hefur í þetta brölt mitt hefur skaðað tekjuöflun mína. Ég er jú minn eigin herra, sem sjálfstætt starfandi ráðgjafi, og því bitnar það á tekjuöflun rekstrar míns, ef tíminn fer í sjálfboðavinnu fyrir HH. Gróflega reiknað eru það á bilinu 3 til 5 milljónir sem þannig hafa ekki komið í kassann, ef ekki meira, á þessum rúmlega tveimur árum frá hruni. Það er tvö- til þrefaldur ávinningurinn, sem ég gæti haft af leiðréttingu verðtryggðu lána heimilisins. Æi, var ég að eyðileggja rökin ykkar fyrir því að ég væri að hagnast á þessu.
Það sem mér finnst grófast í öllu þessum stormi er að verið er að vega að grunni lýðræðisins. Lýðræðið fellst í því að allir eigi að hafa tækifæri til að taka þátt í opinberri umræðu og koma að mótun þess þjóðfélags sem við erum hluti af. Með því að virða ekki friðhelgi einkalífs þess sem þannig tekur þátt í lýðræðislegri umræðu, í þessu tilfelli hagsmunagæslu fyrir hóp heimila, er verið að koma þeim skilaboðum til þeirra, sem síðar koma, að gæta að sér að verða ekki of áberandi því þá gæti verið að viðkomandi verði gerður að skotskífu fjölmiðlanna. Já, fjórða valdið gerir það að glæp að vera of áberandi. Tekið skal fram, að enginn fjölmiðill hefur gert eina einustu tilraun til að fá að ræða við mig um mig sjálfan. Líklegast er það ekki nógu spennandi.
Vald fjölmiðlanna er mikið. Þeir geta nánast ráðið því hvaða mál komast í umræðuna. Þeir ráða líka nokkurn veginn hverjir komast í fjölmiðlana. Ég var "bara" meðstjórnandi í stjórn HH, en samt völdu fjölmiðlamenn að hafa samband við mig. Vissulega hefur nafn mitt verið á fréttatilkynningum samtakanna, en fréttatilkynningar þar sem nafn mitt eru undir hafa verið fáar og langt á milli að ég best veit. Nú er ég að líða fyrir að hafa verið almennilegur við fjölmiðlafólk og vera nánast alltaf tilbúinn að svara spurningum þeirra, koma í viðtöl og skýra út hlutina. Já, einn af mínum stærstu glæpum er líklegast að hafa verið of almennilegur við fjölmiðlafólk. Ef ég hefði vísað viðtölum frá mér og haldið mér í bakgrunni, þá væri ekki þessi gassagangur. Sjaldan launar kálfurinn ofeldið.
(Tekið skal fram, að allt sem kemur fram í þessari færslu um skuldamál mín og eignastöðu hefur verið birt áður á þessari síðu.)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.11.2010 | 17:07
Icesave í Hollandi: Þeir vissu ekki neitt Björgvin og Geir!
Ég er nú ekki búinn að verða mér út um bókina hans Björgvins G. Sigurðssonar, fyrrverandi viðskiptaráðherra, en ætli hún verði ekki í jólapakkanum. Ég get samt ekki annað en furðað mig á ummælum upp úr bókinni, sem birt eru í frétt á visir.is í dag. Þar segir:
Björgvin segir í bókinni að um tilvist reikninganna hafi hvorki hann né nokkur annar ráðherra í ríkisstjórn Geirs H. Haarde vitað fyrr en síðsumars 2008 þegar Björgvin hafi spurt forstjóra FME um stöðu Icesave í kjölfar bréfs breska fjármálaeftirlitsins til Landsbankans og FME.
Ég get ekki annað en velt því fyrir mér, hvort þessir menn hafi ekki verið með fólk í vinnu hjá sér, þar sem bankinn fór ekkert leynt með þetta. Nú hefur komið fram í fjölmiðlum og skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, að yfirmenn hjá Bank of England höfðu lýst yfir áhyggjum vegna Icesave í Bretlandi. Tóku Björgvin og Geir ekki eftir því? Voru þeir ekki upplýstir eða var andúð Davíðs á Björgvin svo mikil að hann bannaði starfsfólki sínu að halda starfsfólki viðskiptaráðuneytisins upplýstu?
Ófáar fréttir birtust í fjölmiðlum um útrás Landsbankans til Hollands eftir að hún hófst 29. maí 2008. Ég er ekki að kaupa það, að Björgvin og Geir hafi ekki vitað af þessu. Ég raunar sannfærður um að bankinn hafi gert þetta með blessun þeirra.
Við lestur frétta á mbl.is frá þessum tíma um þessi mál, þá eru tvær greinar sem vekja athygli mína. Önnur birtist 7. júlí 2008, þar sem greint er frá umfjöllun Financial Times um öryggis sparifjár. Þar er talað við Halldór J. Kristjánsson, bankastjóra Landsbankans, og haft eftir honum:
Um þetta gilda afar skýrar Evrópureglur, en því miður hefur nokkurs misskilnings gætt um þetta, segir Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans. Í Evróputilskipun um innlánatryggingar er kveðið á um samræmda lágmarkstryggingu. Með því hvílir sú skylda á stjórnvöldum að ef svo beri undir sé jafnskilvirkt fyrir einstaklinga að fá bætur, hvert sem bankinn á rætur sínar að rekja á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins. Í hverju ríki skal vera til samtryggingarsjóður, sem gjarnan er rekinn af viðkomandi seðlabanka.
Halldór segir að í umræðu af þessu tagi sé því oft haldið fram að of lítið fjármagn sé í þessum sjóðum. Hins vegar séu sjaldnast greiddar miklar fjárhæðir inn í sjóðina fyrirfram, heldur eru þeir fjármagnaðir með lántökum eftir á ef svo ólíklega vill til að á þarf að halda.
Guðbjörn Jónsson bloggar um þessi ummæli Halldórs og verður að viðurkennast að hann kemst að kjarna málsins, þar sem hann skrifar:
Þarna viðurkennir aðalbankastjóri Landsbankans að bankarnir sjálfir greiði lítið sem ekkert í tryggingasjóð innlána og að sjóðurinn sé líklega of lítill. En fari svo að að á hann reyni muni Seðlabanki viðkomandi lands taka lán til að greiða út tryggingabætur.
Með þessu er verið að segja að, eftir að áfallið er dunið yfir og tryggingabætur greiddar, muni skattgreiðendur og sparifjáreigendur þurfa að greiða niður lánið sem tekið var til að greiða tryggingarnar út, en eigendur og stjórnendur bankanna sitja að sínum auði óskertum, því bankinn var bara hlutafélag.
Þetta segir mér bara að Landsbankamenn vissu upp á hár, að þeir væru að taka áhættu á kostnað skattgreiðenda. Guðbjörn er að vísu mjög góður í að sjá ýmsa svona hluti, en í frétt mbl.is er hreinlega játning fjárglæframanns og það er sorglegt til þess að hugsa (í baksýnisspeglinum), að enginn innan stjórnsýslunnar hafi kveikt á þessu, nema náttúrulega að þetta hafi allt verið gert í samráði og með samþykki stjórnvalda.
Hin fréttin, sem vakti athygli mína, er frá 5. ágúst 2008. Fréttin fjallar um afskriftir, en þar er klausa sem lýsir gríðarlegum misskilningi manna á eðli innlána:
Bankarnir hafa styrkt stöðu sína við erfitt efnahagslegt árferði og dregið m.a. úr skuldsetningu og hafa Kaupþing og Landsbanki aukið til muna hlutfall innlána í fjármögnun sinni með erlendu innlánsreikningunum Icesave og Kaupþing Edge.
Ég skil ekki hvernig blaðamaðurinn getur dregið þá ályktun að skuldsetning hafi minnkað við aukningu innlána. Eina leið fyrir banka að minnka skuldsetningu er með aukningu eiginfjár. Innlánin breyttu bara eðli skuldsetningarinnar og juku, samkvæmt orðum Halldórs að ofan, áhættu skattgreiðenda. Líklegast er blaðamaðurinn að endursegja upp úr fréttatilkynningu einhverrar greiningardeildar eða endursegja það sem viðmælandi hefur sagt honum. Niðurstaðan er samt sú, að íslensku bankarnir voru skipulega að færa áhættuna af rekstrinum frá hluthöfum til skattgreiðenda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.11.2010 | 00:43
Windows 25 ára
Hver hefði trúað því að örverpið sem sýnt var almenningi fyrir 25 árum yrði að því sem það er í dag? Ekkert fer á milli mála að Windowsstýrikerfið er vinsælasta stýrikerfið í dag. Útbreiðsla þess er gríðarleg og tungumálaútgáfur nánast óteljandi. En fyrstu skref þess lofuðu ekki góðu.
Ég hafði nýlokið námi mínu í tölvunarfræði við Háskóla Íslands, þegar Windows kom á markað. Það keyrði ofan á DOS eins og við keyrum forrit í dag innan Windows. Þetta var sem sagt bara hvert annað forrit. Apple hafði sett Lísu (LISA) á markað tveimur árum fyrr og vakti hún að sjálfsögðu athygli okkar háskólanema. Fór menn í hálfgildings pílagrímsferðir upp í Radíóbúð á horni Skipholts og Nóatúns. Þar stóð Lísan á borði upp á 2. hæð og nálguðust menn hana eins og guðum líka veru.
Windows 1.0 og raunar allt fram að 3.0 var aftur eins og fyrirburi. Hafði ekki sömu burði og Lísan. En þegar forritin komu eitt af öðru þroskaðist Windows með. Gísli J. Johnsen í Kópavogi og Skrifstofuvélar á Hverfisgötunni höfðu á þessum tíma umboð fyrir Microsoft hugbúnað hér á landi. Fyrstu árin var eingöngu hægt að fá Windows hjá þeim, en svo fór kerfið að koma með vélum annarra framleiðenda. Sumarið 1987 fékk ég sumarstarf hjá tölvudeild Hans Petersen hf. sem var til húsa inn af ljósmyndavöruverslun fyrirtækisins í Austurveri við Háaleitisbraut. Þar seldum við Tandon tölvur, harða diska og jaðartæki. Tandon var mjög sérstakur karl og krafðist þess að með vélunum færi þeirra eigin útgafa af DOS. Með því fylgdi Windows, fyrst útgáfa 1.1 og síðan skyndilega útgáfa 1.3. Gallinn við þessar útgáfur, líkt og margt annað er varðaði tölvur á þessum tíma, var að ekkert af þessu skildi íslenska stafi. Mönnum hafði tekist að koma með viðbætur í DOS, en Windows birti bara engilssaxneska starfrófið.
Ég fékk það verkefni að breyta þessu, þ.e. fá Word, Notepad og önnur forrit til að nota íslenska stafi á réttan hátt. Útgáfa 1.3 varð fyrir valinu. Áður hafði ég patchað lykilborðsrútínur, minniskubba skjákorta og jafnvel prentara. Félagar mínir hjá tölvudeild HP, bræðurnir Hans Pétur og Sigurður Jónssynir, höfðu lært hvernig ætti að gera þetta, en þar sem það var svo leiðinleg vinna, þá var ég gerður að vinnudýri. Microsoft var ekki hrifið af því verið væri að patcha Microsoft forrit en lét það samt viðgangast með lágmarks stuðningi. Þegar Windows kom á markað var í reynd lagt blátt bann við slíkri pötchun, en þar sem við vorum með allt frá Tandon, þá litum við svo á að við hefðum meira frelsi.
Í nútíma tölvuumhverfi þá er næstum fáránlegt að tala um að forrit skilji ekki nýtt tungumál. En staðreyndin er að baki hverju tungumáli eru ólíkar reglur. Varðandi íslenskuna er það dauða komman á hástöfum, ý, þ og ð. Við vorum svo heppin að séríslenskir stafir komust strax inn í svo kallaða ASCII töflu. Þar deildum við að vísu sætum með nokkrum spænsku táknum og þar sem hinn spænskumælandi heimur er mun stærri en hinn íslenskumælandi, þá kom allur búnaður til landsins með n-tilda og fleiri slíkum táknum. Hér þurfti því að taka alla minniskubba skjákorta (PROM) og skipta þeim út fyrir endurforritaða minniskubba (EPROM). En það var ekki nóg. Segja þurfti tölvunni að þegar stutt var á dauða kommu, þá ætti bendillinn ekki að færast á skjánum heldur bíða eftir næsta innslætti. Loks þurfti að kenna tölvunni að sækja réttan staf í stafatöflu skjákortsins til að birta á skjánum, en áður en það var hægt varð að vera búið að breyta tákninu í viðeigandi íslenskan staf. Tölvunni sjálfri var alveg sama hvernig táknið leit út, þar sem allt var þetta vistað sem 0 og 1 á harða diskinn.
Windows var aðeins flóknara en DOSið, þar sem nú voru stafir ekki lengur sóttir í EPROM-ið. Í þetta verk réðst ég í ágúst 1987 og lauk því á tveimur dögum eða svo. Teiknaði íslenska stafi inn í stafatöflu Windows, fékk forritið til að skilja hvernig íslenskt lyklaborð hagaði sér og fékk það til að birta rétta stafi á skjánum. Þannig var það Tandon Windows sem varð fyrsta Windowsið til að skilja íslensku.
Microsoft komst fljótlega að því að Windows yrði að geta skilið alls konar tungumál, en ekki bara þau algengustu. Því var það í útgáfu 2.0 að tungumálareklar fylgdu með fyrir íslensku og önnur minni málsvæði.
Hausti 1991 byrjaði ég að skrifa um upplýsingatæknimál fyrir Morgunblaðið og fjallaði ég þá meðal annars um Windows 3.1 og Windows NT fljótlega eftir að þessi stýrikerfi komu út. Windows 3.0 kom út á vordögum 1990 og þótti ekki nógu gott. Gaf Microsoft eiginlega strax út yfirlýsingu um að útgáfa 3.1 myndi sjá dagsins ljós fljótlega. En Microsoft hefur sjaldan verið fyrir það að standa við tímasetningar og því dróst að útgáfa 3.1 kæmi. Í pistli eftir mig sem birtist í viðskiptablaði Morgunblaðsins 9. apríl 1992, er fjallað um 3.1, sem hafði verið kynnt á COMDEX tölvusýningunni í Las Vegas nokkrum dögum fyrr. Þar segir ég m.a.:
Windows umhverfið er fyrir löngu orðið staðall fyrir tölvur byggðar á Intel-örgjörvanum, þannig að nú er ekki lengur talað um IBM-samhæfðar tölvur heldur Windows samhæfðar tölvur.
Þegar Windows 3.0 kom út sögðu margir að nú hefði Microsoft loksins komið með notendaskil, sem gerðu gluggavinnslu jafn sjálfsagða á Pésum eins og hún er á Mökkum. Og það gekk eftir. Með Windows 3.0 ruddi Microsoft veginn fyrir hugbúnaðarfyrirtæki að koma með staðlað gluggaumhverfi. Umhverfi, sem allir gætu sætt sig við og vissu að mundi ná nægilegri útbreiðslu til að það borgaði sig að aðlaga hugbúnað sinn að. Nú er svo komið að allir helstu framleiðendur hugbúnaðar hafa annað hvort þegar komið með Windows-útgáfur af forritum sínum eða eru að koma með þær.
Einn stór munur var á Windows 3.0 og Windows 3.1 og um það segi ég í greininni:
Microsoft lætur ekki staðar numið þó Windows 3.1 sé komið á markaðinn. Næsta útgáfa, Windows 4.0, er væntanleg um mitt næsta ár og líka stýrikerfisútgáfa af forritinu, sem nefnd hefur verið Windows NT. Raunar er sú nýjung á Windows 3.1 pakkanum, að forritið er sagt vera stýrikerfi. Með þessu er Microsoft bara að staðfesta grun undirritaðs, að Windows32 (eldra þróunarnafn á Windows NT) væri ætlað að koma í staðinn fyrir gamla DOSið og fullkomna þar með færsluna úr stýrikerfi, sem notendur elskuðu að hata, yfir í kerfi sem jafnvel hörðustu gagnrýnendur PC-tölva geta verið ánægðir með.
Nú Windows 4.0 kom ekki ári síðar, heldur varð að bíða eftir Windows 95. Annað sem breytist heldur ekki, að DOSið hvarf ekki, heldur var það alltaf keyrt upp fyrst og síðan Windows ofan á. Windows Vista var fyrsta tilraunin til að losna við DOSið og sú breyting fullkomnuð með Windows 7.
Windows NT kom út mánuði síðar. Það merkilega við NT er að stýrikerfið var byggt á OS/2 3.0 stýrikerfinu sem Microsoft og IBM unnu að í sameiningu. Er þetta í eina skiptið svo ég viti til, sem Microsoft notaði vinnu IBM við þróun Windows. Ástæðan fyrir þessu er að slitnað hafði upp úr samstarfi fyrirtækjanna. IBM vildi að OS/2 væri þróað fyrir RISC örgjörva fyrirtækisins meðan Microsoft hélt tryggð við x86 arkitektúrinn. Vissulega ætlaði Microsoft að koma með útgáfu af NT fyrir önnur umhverfi, en það gekk aldrei almennilega upp.
En Bill Gates hafði þegar framtíðarsýn fyrir Windows og fjallaði ég lítillega um hana í sérblaði Morgunblaðsins um tölvur sunnudaginn 7. mars 1993. Þar segi ég m.a.:
Á starfsmannasamkomu í október síðastliðnum opinberaði Bill Gates, aðaleigandi Mircosoft, framtíðarsýn sína. Þar talaði hann um margmiðlun, textavarp með öflugum gagnabanka, hlutbundin stýrikerfi og veskistölvur (ekki reiknivélar heldur tölvur). Markmið hans var ekki að umbreyta Microsoft eða tölvuiðnaðinum, heldur hvernig fók nær í upplýsingar. Hluti af framtíðarsýn hans verður varla að veruleika fyrir en eftir einn til tvo áratugi. Þetta er það sem hann kallaði "Upplýsingar við fingurgómana" (Information at Your Fingertips)...
..Allt verður þetta byggt í kringum hugbúnað frá Microsoft. Windows verður notað í einu formi eða öðru í alls konar tækjum af öllum stærðum og gerðum; tölvur, sem skilja ritað mál og talað, lófatölvur, fistölvur, borðtölvur, sjónvarpstölvur og veggtölvur.
Óhætt er að segja að þessi framtíðarsýn Bill Gates hafi ræst. Alls konar tæki keyra núna á Windows. Símar eru orðnir af lófatölvum sem gera notandanum kleift að ekki bara nálgast upplýsingar, heldur vinna með þær. Ég hef séð ísskápa sem eru með Windows viðmót, öryggiskerfi sem keyra ofan á Windows og svona mætti lengi telja áfram. Nú textavarpið með gagnabanka er einfaldlega leitarvélar á internetinu.
Afmælisbarnið hefur náð þroska langt umfram það sem foreldrar áttu vona á, þegar króginn kom í heiminn. Ferðin með því í gegn um árin hefur ekki alltaf gengið vel og ennþá er það óútreiknanlegt í hegðun. Ófáar stundir hafa farið í að bölva því, endurræsingar, vírusar, enduruppsetningar, glötuð gögn og glataðar vinnustundir eftir system krass. Bláir skjáir með torkennilegum skýringum, restore points, hæggengar tölvur og allt þetta. En ekkert fer á milli mála, að Windows er ein merkasta afurð sem sett hefur verið á markað með fullri virðingu fyrir Apple. Ekkert forrit tengir eins marga um allan heim saman. Maður getur talað við Kínverja og hann skilur "Windows-málið", sama á við um Norðmanninn eða Þjóðverjann. Windowska, ef ég má nota það, er bæði tungutak og aðferðafræði sem hefur orðið til og mun bara ná sterkari tökum á heiminum eftir því sem tíminn líður.
Ég óska afmælisbarninu, þá sérstaklega foreldrunum, til hamingju með tímamótin og vona að því farnist vel í framtíðinni. Jafnframt vona ég að hegðun þess í framtíðinni taki mið af þroska sínum og það hætti unggæðingslegum kjenum og tiktúrum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
20.11.2010 | 22:09
Rangar upplýsingar í frétt Fréttablaðsins - Baráttan heldur áfram
Mig langar að koma á framfæri leiðréttingu við frétt helgarblaði Fréttablaðsins. Þar er fjallað um stuðning þriggja þingkvenna við mig. Stuðning sem ég met mikils. En Fréttablaðið skáldar upp í fréttinni að ég sé stjórnarmaður í Hreyfingunni. Vil ég fyrir alla muni leiðrétta þetta. Ég er ekki virkur félagsmaður í neinni stjórnmálahreyfingu og alls ekki stjórnarmaður. Raunar vissi ég ekki að Hreyfingin ætti slíka stjórnarmenn, en hvað ég veit skiptir ekki máli.
Vegna fréttarinnar sendi ég ritstjórn Fréttablaðsins eftirfarandi tölvupóst:
Ágæti viðtakandi
Vegna fréttar á bls. 6 í helgarblaði Fréttablaðsins, þá vil ég taka það fram, að ég er ekki stjórnarmaður í Hreyfingunni og hef aldrei tengst Hreyfingunni öðrum böndum, en að hafa setið fyrir þeirra hönd í nefnd á vegum þingsins um framkvæmd laga nr. 107/2009 um úrræði fyrir einstaklinga, heimili og fyrirtæki vegna banka- og gjaldmiðilshruns. Þess fyrir utan hef ég átt í góðum samskiptum við þingmenn Hreyfingarinnar um málefni heimilanna og tel þá til þeirra þingmanna sem sýna þessu málefni mestan áhuga auk Lilju Mósesdóttur, Eyglóar Harðardóttur og Ögmundar Jónassonar. Kann ég þeim öllum miklar þakkir fyrir þann stuðning sem þau hafa sýnt þeirri baráttu. Hafa þessir þingmenn allir verið mikilvægir bandamenn okkar sem staðið hafa í framvarðasveit þeirrar baráttu.
Virðingarfyllst
Marinó G. Njálsson
Ég tel þennan hluta fréttarinnar einfaldlega byggjast á misskilningi og les ég því ekkert frekar út úr þessu klúðri.
Ég vil síðan taka fram að ég er ákaflega þakklátur öllum þeim sem tekið hafa upp hanskann fyrir mig í þessu máli öllu. Finn ég fyrir mikilli auðmýkt, þar sem svona stuðningur var alls ekki það sem ég bjóst við. Ég vil líka taka fram að ég lít svo á að "erjur" mínar við Fréttatímann séu að baki og mun ég ekki erfa við þá þetta fréttamat þeirra.
Ég mun hér eftir sem hingað til berjast fyrir réttlæti og sanngirni fyrir heimili landsins. Sú barátta mun ekki einskorðast við skuldamál, þó þau séu ofarlega á baugi núna, heldur taka til fleiri réttlætismála. Mun ég vinna það þessum málum með Hagsmunasamtökum heimilanna, enda tel á að þau mun halda áfram að gera góð hluti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
19.11.2010 | 16:08
Svartari tölur en áður hafa sést um stöðu heimilanna
Lífskjararannsókn Hagstofu Íslands sýnir svartari tölur en áður hafa sést um stöðu heimilanna í landinu. Nær undantekningarlaust ástandið í ár mun verra en nokkrum sinnum fyrr. Hafa skal í huga að um úrtakskönnun er að ræða og tók 3.021 heimili þátt í könnuninni. Af þeim sökum eru skekkjumörk talsverð á einstökum liðum.
Í færslum hér og skrifum fyrir Hagsmunasamtök heimilanna hef ég margoft haldið því fram að stór hluti heimila eigi í miklu greiðsluerfið leikum. Mitt mat á fjölda hefur ætíð verið fyrir ofan opinbera útreikninga eða eigum við að segja túlkun Seðlabanka, en stjórnvöld hafa einatt byggt sín viðbrögð á tölu SÍ. Í greinargerð Hagsmunasamtaka heimilanna frá 4. júlí 2009 segir:
Miðað við ofangreindar forsendur, þá eru 46% heimila með viðráðanlega greiðslubyrði, 18% með þunga greiðslubyrði og 36% með MJÖG þunga greiðslubyrði. Meirihluti heimila, eða 54% þeirra, eru því með þunga eða mjög þunga greiðslubyrði, en ekki 23% heimila eins og Seðlabankinn heldur fram. Það er mikill munur á 23% og 54% og þetta gerir ekkert annað en að versna, nú þegar lán koma úr frystingu og tímabundnar skilmálabreytingar renna út.
Mig langar til að skoða þessa fullyrðingu mína frá því fyrir ári og bera hana saman við tölur í lífskjararannsókn Hagstofu Íslands.
Í fyrra sagði Seðlabankinn að 23% heimila væri með þunga eða mjög þunga greiðslubyrði. Var sú tala fenginn út frá því að allir ættu að geta sett 40% af ráðstöfunartekjum sínum í afborganir lána óháð tekjum og fjölskyldugerð/stærð. Ég taldi þá og tel enn að þetta velti á þessu tvennu og því sé ekki hægt að vera með þá einföldun sem Seðlabankinn setti fram. Tölur Hagstofunnar styðja við mína túlkun. Ef skoðaðar eru upplýsingar í töflu 3 á bls. 5 kemur í ljós að fjöldi þeirra heimila sem að erfitt (erfitt/nokkuð erfitt/mjög erfitt) sé að ná endum saman hefur farið úr 30,1% árið 2008 í 49,3% í ár. Er það talsvert nær mínu mati, en mati Seðlabankans, svo ekki sé meira sagt. Þetta er líka talsvert hærri tala en kom fram í skýrslu sérfræðingahóps ríkisstjórnarinnar um daginn, enda leit hann ekki á greiðslubyrði annarra lána en húsnæðislána.
Hér fyrir neðan er í tveimur töflum dregnar út tölur sem ég tel vera lykiltölur.
Fjölskyldugerð | Vanskil húsnæðis-lána | Þung byrði húsnæðis-lána | Vanskil annarra lána |
Alls | 10,1% | 16,5% | 13,3% |
Heimili án barna | 6,9% | 12,8% | 9,2% |
Einst.foreldrar | 23,5% | 31,5% | 27,4% |
Hjón án barna | 5,7% | 9,5% | 7,3% |
Hjón með 3+ börn | 19,2% | 24,0% | 25,3% |
Undir 30 ára | 8,7% | 18,9% | 17,8% |
30 - 39 ára | 17,0% | 22,0% | 20,4% |
40 - 49 ára | 13,6% | 19,6% | 16,9% |
Fjölskyldugerð | Þung byrði annarra lána | Erfitt að mæta óvæntum útgjöldum | Erfitt að ná endum saman |
Alls | 19,2% | 35,9% | 49,3% |
Heimili án barna | 14,5% | 34,6% | 43,0% |
Einst.foreldrar | 35,8% | 66,5% | 77,2% |
Hjón án barna | 12,0% | 20,2% | 34,4% |
Hjón með 3+ börn | 29,2% | 34,5% | 68,4% |
Undir 30 ára | 18,4% | 53,1% | 53,3% |
30 - 39 ára | 28,5% | 43,0% | 61,7% |
40 - 49 ára | 24,4% | 31,9% | 55,3% |
Skýringar: Til barna á heimili heyra allir þeir sem eru undir 18 ára að aldri og þeir sem eru 1824 ára, eru án vinnu og búa hjá að minnsta kosti öðru foreldri. Fullorðnir teljast þeir sem ekki falla undir skilgreininguna um börn. Aldur er skilgreindur sem meðalaldur fullorðinna einstaklinga á heimilinu.
Ef skoðað er eftir einstökum hópum hverjir eiga erfiðast að ná endum saman, þá kemur í ljós að það er barnafólk annars vegar og hópurinn 30-39 ára. (Líklegast er að sama fólkið sé mikið til í báðum hópum.) Hópurinn 30-39 ára ekki bara oftast með börn á framfæri, heldur er líklegast að hann hafi keypt húsnæði á árunum 2004 - 2007. Högg hans er því úr tveimur áttum.
Mér finnst skilaboðin til stjórnvalda vera skýr. Í fyrsta lagi verður að rétta hag einstæðra foreldra og hjóna með mörg börn. Næst er það fólk á fertugsaldri og þá þarf að skoða stöðu fólks á þrítugs- og fimmtugsaldri. Aðrir hópar en skoðaðir eru í töflunum að ofan "skora" misjafnlega í hinum ólíku flokkum og eru yfirleitt ekki með "skor" í námunda við þau sem ofangreindir hópar hafa. Á því eru undantekningar.
Yfir 10% heimila í vanskilum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
18.11.2010 | 15:42
Úrsögn úr stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna
Vegna ítrekaðrar hnýsni fréttamanna í mín einkamál, sé ég mig tilneyddan til að segja af mér stjórnarmennsku í Hagsmunasamtökum heimilanna. Jón Kaldal, ritstjóri Fréttatímans, og Óskar Hrafn Þorvaldsson, fréttastjóri Fréttatímans, hafa ákveðið að mínar skuldir séu söluvara. Hafa þeir ákveðið, þrátt fyrir óskir um hið gagnstæða, að birta frétt um skuldastöðu mína og konu minnar í næsta tölublaði. Mér finnst þetta frekleg innrás í mitt einkalíf og konu minnar sem hefur það eitt sér til sakar unnið að vera gift mér.
Ég kýs að segja mig úr stjórn HH til að freista þess að verja fjölskyldu mína fyrir frekari hnýsni af þessum toga. Ég gaf konunni minni loforð um að gera það, ef til svona hluta kæmi. Þar sem ég er maður minna orða, þá stend ég við það.
Þeir félagar, Óskar og Jón, bera fyrir sig furðulegum rökum, m.a. um að ég sé "opinber talsmaður þrýstihóps um niðurfellingu skulda". Bara þetta eina atriði sýnir hvað Fréttatíminn hefur lítinn skilning á baráttu Hagsmunasamtaka heimilanna. Það er himinn og haf á milli þess að berjast fyrir leiðréttingu á þeim forsendubresti sem varð vegna aðgerða innan við 100 einstaklinga í undanfara hruns íslenska hagkerfisins og biðja um niðurfellingu skulda. Hvergi í málflutningi HH er farið fram á niðurfellingu skulda. Auk þess er ég ekki opinber talsmaður samtakanna heldur hafa fjölmiðlar mjög oft samband við mig. Kannski tala ég skýrar en aðrir í stjórninni eða er bara skemmtilegri, ég veit það ekki, en ég hef aldrei óskað eftir viðtölum og margoft vísað þeim á aðra stjórnarmenn fyrir utan að fjölmiðlar snúa sér líka beint til annarra stjórnarmanna. Sé einhver opinber talsmaður samtakanna, þá er það formaðurinn. En hann er víst ekki nógu spennandi umfjöllunarefni, þar sem hann býr bara á hæð í austurbæ Reykjavíkur.
Við svona menn er ekki hægt að rökræða og mun ég ekki gera það.
Ég hef unnið af heilindum í mínu starfi fyrir HH. Ég mun ekkert hætta að berjast fyrir því sanngirni og réttlæti sem öll vinna mín og HH hefur snúist um.
Hagsmunagæsla snýst mjög oft um að maður sjálfur þekki málin á eigin skinni. Þannig eru besta baráttufólk gegn fíkniefnaváinni aðstandendur fíkla. Ekki kannast ég við að þeirra sögur séu dregnar fram í sviðsljósið í óþökk þeirra. Harðasta baráttufólk fyrir rétti samkynhneigðra er samkynhneigt fólk. Það er nákvæmlega ekkert óeðlilegt við það að þeir sem eru í hagsmunabaráttu séu m.a. að gæta sinna eigin hagsmuna. Ég reikna t.d. með því að fjölmiðlar muni hafa skoðun á frumvarpi til fjölmiðlalaga. Þýðir slík barátta að maður sé að skara eld að sinni köku? Í mínu tilfelli er ekki um það að ræða. Allar þær leiðréttingar sem ég gæti fengið miðað við ýtrustu tillögur HH er langt fyrir neðan allar meðaltalsupphæðir. Það breytir samt ekki því að meðan lög skylda mig ekki til að bera skuldatölur mínar á torg, þá vil fá að njóta friðhelgi einkalífs míns.
Ég geri mér grein fyrir að hægt er að nálgast alls konar upplýsingar í opinberum bókum. Tilgangurinn er að tryggja lagalegan rétt fólks til að verja sig. Hlutverk þinglýsingabóka er að tryggja að einhvers staðar séu skráðar kvaðir á eignum. Hlutverk þeirra er ekki að svala forvitni manna. Ég verð að viðurkenna, að mér hefur alltaf fundist svona hnýsni aumkunnarverð og enginn munur vera á henni og því að leggjast á glugga hjá fólki.
Ég mun halda áfram að vinna með stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna að þjóðþrifamálum, auk þess sem ég mun hafa meiri tíma til að sinna viðskiptavinum ráðgjafaþjónustu minnar, sem margir hafa sýnt tímaleysi mínu mikinn skilning.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (138)
18.11.2010 | 10:26
Greiðsluvandi fólks mun aukast - Vaxtabótakerfið refsar hjónum fyrir að eiga börn
Gangi tillögur fjárlagafrumvarpsins eftir um skerðingu barnabóta og vaxtabóta, mun það eingöngu auka á greiðsluvanda heimilanna. Settur er snúningur á hlutina með því að hvetja fólk til að taka út meiri sparnað sem átti að gera því lífið léttara í ellinni. Við skulum ekki gleyma því eitt augnablik að að eign í séreignarsjóði er sparnaður og ekki bara hvaða sparnaður sem er, nei, þetta er óaðfararhæfur sparnaður.
Greiðsluvandi um 40.000 heimila er annað hvort alvarlegur eða við það að verða alvarlegur. Líklegast munu tillögur fjárlagafrumvarpsins lina stöðu þeirra sem eru í mjög alvarlegum vanda hvað varðar vaxtabætur, en hafa lítil sem engin áhrif hvað varðar barnabætur. Að vísu vill svo til að barnlausir einstaklingar eru að fá mun drýgri hluta vaxtabóta, en fjöldi þeirra segir til um. Helgast það fyrst og fremst af því að þeir þurfa lægri tekjur til að framfleyta sér.
Vaxtabótakerfið refsar hjónum fyrir að eiga barn/börn (hér eftir talað um börn). Svo merkilegt sem það er, þá er gerður í kerfinu greinarmunur á því hvort um einstakling eða einstætt foreldri er að ræða, en ekki er gerður greinarmunur á barnlausum hjónum/sambýlisfólki og þeim sem eru með börn. Er þetta furðulegt óréttlæti, eins og það sé minni kostnaðarauki fyrir hjón að eiga börn en einstakling. Tekjutengingar vaxtabótakerfisins gera það að verkum, að ætli hjón með börn að ná að framfleyta fjölskyldunni, þá eru tekjurnar líklegast að verða of miklar til að fá vaxtabætur eða að þær skerðast verulega.
Ég hvatti Steingrím og Jóhönnu til að breyta þessu á fundi í Þjóðmenningarhúsinu sl. fimmtudag. Ég hef svo sem lengi verið þeirrar skoðunar að þetta fyrirkomulag sé ekki bara óréttlátt heldur mismuni það hjónum með börn. Þeim er ætlað að taka á sig skerðingu vaxtabót fyrir það eitt að þurfa hærri tekjur, þar sem rekstrarkostnaður heimilisins hækkar með hverju barni. Aftur að fundinum í Þjóðmenningarhúsinu. Ég hvatti sem sagt Steingrím og Jóhönnu til að breyta þessu og sagði það bæði réttlætis og sanngirnismál.
Skoðum nokkrar tölur. Einstætt foreldri má hafa 31,3% hærri vaxtagjöld en einhleypingur (barnlaus einstaklingur). Ef sama viðmið væri varðandi muninn á barnlausum hjónum og hjónum með börn, þá hækkaði hámark vaxtagjalda þeirra um 281.870 kr. Og hvað varðar vaxtabætur, þá geta vaxtabætur einstæðs foreldris orðið 28,6% hærri en einhleypings eða rúmlega 70.000 kr. Væri sami hlutfallslegi mismunur á hjónum/sambýlisfólki, þá ætti barnafólkið rétt á tæplega 117.000 kr. hærri vaxtabótum en það barnlausa. (Allar tölur eru miðaðar við núverandi fyrirkomulag.) Hafa skal í huga að hjón með börn eru almennt með hærri tekjur en hjón á barna og því kemur meiri tekjuskerðing inn hjá barnafólkinu.
(Ég tek það fram að ég á þrjú börn undir 18 ára aldri og myndi af þeim sökum njóta þeirra breytinga sem ég nefni hér. Tillagan er þó sett fram sem réttlætismál.)
0,5% kaupmáttarlækkun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.11.2010 | 23:07
Guðmundur Franklín hnoðar saman leirburði
Fuglatíst á ónefndum miðli birtir leirburð eftir Guðmund Franklín Jónsson. Hann er svona:
Marinó og félagar vilja sameina HH og Borgarahreyfinguna og ætla í pólitík vinstra megin við miðju. Það er alltaf erfitt að hafa bara eitt áhugamál. Það er samt svo freistandi að komast í 40 milljónirnar sem Borgarahreyfingin fær frá ríkinu í janúar.
Bara svo það sé á hreinu, þá er ekkert til í þessum málflutningi. Ég var beðinn um að mæta á fund sl. sunnudag og þegar leið á fundinn komst ég að því að hann hafði verið boðaður á fölskum forsendum. Verið var að kynna nýjar hugmyndir Borgarahreyfingarinnar. Ég hef nákvæmlega engan áhuga á að taka þátt í pólitísku starfi á vegum Borgarahreyfingarinnar og mun því ekki mæta á fleiri svona fundi. Ég lít svo á að ég hafi verið blekktur til að koma á fundinn, en hefði ég aldrei láð máls á því að mæta, ef ég hefði vitað að þetta væri gert í nafni Borgarahreyfingarinnar. ALDREI!
Ég veit ekki hvaða "félagar" þetta voru sem GFJ vísar til. Vissulega þekki ég fólk sem var á fundinum, en ekkert þeirra er í framvarðarlínu Hagsmunasamtaka heimilanna.
Mér finnst hún merkileg þessi ófrægingarherferð sem farin er í gang. Hvert er markmið hennar? Hver er tilgangurinn? Af hverju geta menn ekki bara flutt fréttir sem eru sannleikanum samkvæmt? Ætli GFJ sé að hefna sín fyrir að ég vildi ekki ræða við hann í sumar?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (17.9.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 31
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 28
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði