Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010
22.1.2010 | 23:34
Dýr verður Landsbankinn allur
Það er alltaf að koma betur og betur í ljós, að eitthvað stórvægilegt fór úrskeiðis í rekstri Landsbanka Íslands, þ.e. "gamla" Landsbankans. Icesave reikningurinn stefnir í að vera ekki lægri en 100 milljarðar og hafa menn reiknað hann upp í 1.000 milljarða í versta falli. Til að komast hjá hinu versta verður að hafna lögum nr. 1/2010 í þjóðaratkvæðagreiðslu og sannfæra Breta og Hollendinga um að fyrirvarar í lögum nr. 96/2009 sé það lengsta sem við Íslendingar getum teygt okkur. Ég hef sagt það áður og endurtek hér, að við eigum að setja það sem ófrávíkjanlegt skilyrði, að endurgreiðslur frá Landsbankanum renni fyrst upp í ábyrgð íslenska tryggingasjóðsins áður en króna/pund/evra kemur í hlut hinna tryggingasjóðanna. Við skulum samþykkja að íslenska ríkið greiði vexti af ógreiddum hluta ábyrgðarinnar og að þeir vextir verði greiddir jafnóðum.
Samtals eru kröfurnar á íslenska tryggingasjóðinn vegna Icesave upp á um 704 milljarða króna miðað við gengi í dag (GBP 2,35 * 200 kr./GBP + EUR 1,3 * 180 kr./EUR). En þetta eru ekki einu innistæðurnar sem eignir Landsbankans þurfa að duga fyrir. Þegar ríkisstjórn Geirs H. Haarde ákvað að vernda allar innistæður í íslenskum bönkum (um 1.100 milljarðar króna) reyndust hátt í helmingur þeirra vera í Landsbankanum. Núna þegar rykið hefur sest, kemur í ljós að ríkið þarf að leggja bankanum til um 280 milljarðar í eiginfjárframlag. Það helgast af því að eignir Landsbankans reyndast vera ónógar til að uppfylla skilyrði um 8% eigið fé. Ef innistæður hefðu EKKI verið færðar til í kröfuröð og gerðar að forgangskröfum og jafnframt tryggðar upp í topp, þá hefði ríkið EKKI þurft að leggja bankanum til þetta eiginfjárframlag. 280 milljarðarnir eru því í reynd skattpeningar sem notaðir eru til að borga innstæðueigendum innistæður sínar að fullu. Þetta er sama tala og ríkissjóður lagði Seðlabankanum til. Hvar er nú fólkið, sem hélt því fram að það hefði ekki kostað skattgreiðendur neitt að tryggja innistæðurnar í topp? Þetta er hærri upphæð en myndi kosta að leiðrétta öll húsnæðislán landsmanna samkvæmt kröfum Hagsmunasamtaka heimilanna.
Kostnaður skattgreiðenda af falli Landsbankans verður því á bilinu 380 til 1.280 milljarðar króna. Við þetta má svo bæta, að erlendir kröfuhafar munu síðan bera um 1.220 milljarða króna til viðbótar vegna innlenda hluta bankans. Hvert tap kröfuhafa er vegna erlenda hluta starfseminnar er ómögulegt að segja á þessari stundu, en það hleypur á þúsundum milljarða. Já, dýr verður Landsbankinn allur eða á ég að segja: Dýr verður Sigurjón allur.
![]() |
Eðlilegt að undirbúa viðræður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.1.2010 | 00:21
Fordæmi sett fyrir afskriftir heimilanna?
Í pistli Sigrúnar Davíðsdóttur í Speglinum í kvöld kemur fram að einbýlishús við Gnitanes hafi verið selt á 75 milljónir. Nafn kaupandans var gefið upp, en ég ætla ekki að velta mér upp úr því. Það er gott að menn geta gert góð viðskipti við bankana og ekki við kaupanda að sakast vilji seljandinn slá af verðinu.
Ég fékk símtal í kvöld, þar sem mér var bent á nokkrar staðreyndir málsins. Þær sannreyna að margt sem ég hef skrifað hér um og Hagsmunasamtök heimilanna hafa verið að berjast fyrir. Hverjar eru þessar staðreyndir?
Án þess að fara djúpt ofan í smáatriði, þá leysti banki eignina til sín af fyrri eiganda vegna greiðsluerfiðleika. Það skiptir raunar ekki máli. Það sem skiptir máli er að eignin, sem er seld á 73 milljónir, er með fasteignamat upp á 102,7 milljónir. Hún var því seld á um 70% af fasteignamati! (Samkvæmt Fasteignaskrá, þá er eignin skipt í tvær íbúðir og er fasteignamat annarrar tæplega 42 m.kr. og hinnar rúmar 60 m.kr. Svo virðist sem kaupsamningurinn nái til beggja eignanna, en nái hann bara til annarrar, þá er ekkert meira um þetta að segja. Hér er gengið út frá því að húsið hafi verið selt í einu lagi.)
Bankinn sem á í hlut, hefur boðið viðskiptavinum sínum svo kallaða 110% leið. Hún felst í því að lán verði færð niður í 110% af fasteignamati og núverandi fasteignaeigandi heldur áfram að greiða af láninu. Hér er ný aðferð. Eignin er tekin af eigandanum og hún seld öðrum, ekki á 110% af fasteignamati, heldur um 70% af fasteignamati! Mér sýnist sem hér sé bankinn að setja fordæmi. Verst að hann er bara að litlu leiti í eigu skattborgara.
Fyrst það var hægt að afskrifa stökkbreyttan höfuðstól lána við sölu til þriðja aðila, þá get ég ekki annað en valt því fyrir mér hvers vegna ekki er hægt að bjóða lántökum bankans hið sama. Höfum í huga, að ástandið í þjóðfélaginu er þannig, að nær öll lán hafa hækkað (vegna aðgerða fjármálafyrirtækja) um tugi prósenta umfram það sem spár þessara sömu fjármálafyrirtækja gerðu ráð fyrir. Á sama tíma hefur virði eigna lækkað umtalsvert. Fyrir suma skiptir þessi lækkun engu máli, þar sem þeir keyptu áður en fasteignabólan reið yfir og eru ekkert á leiðinni að selja. Fyrir aðra þýðir þessi lækkun verulegt tap á útlögðu eiginfé við kaup á fasteign á árunum 2004 - 2008. Hvernig sem við lítum á þetta þá hefur höfuðstóll lána hækkað mjög mikið, meira en stór hluti lántaka ræður við með góðu móti og fyrir alla lántaka hefur þetta í för með sér verulega skerðingu á neyslu.
Í mínum huga hefur viðkomandi banki sett fordæmi. Hann hefur með þessum kaupsamningi lýst því yfir, að markaðsverð stórs einbýlishúss á besta stað í Reykjavík sé einungis 70% af fasteignamati. Maður getur því ekki annað en spurt sig: Hvers vegna býður hann ekki öllum lántökum sínum upp á sama kost, þ.e. að færa öll lán niður í 70% af fasteignamati? Það er jú mat bankans, að 70% af fasteignamati er eðlilegt verð fyrir dýra eign. Kæmi mér ekki á óvart, þó markaðsverð eignarinnar hafi verið eitthvað um 150 - 200 m.kr. fyrir 2 árum.
Mergur málsins er mat viðkomandi banka á verði fasteigna. Það kemur fram á Eyjunni, að bankinn tók eignina yfir í maí 2009 og seldi hana í október. Hún var því ekki lengi á sölu og bankanum hefði verið í lófa lagið að bíða eftir betra tilboði, hafi hann á annað borð talið að hærra verð fengist. Hann gerði það ekki. Hvað þýðir það? Hefur bankinn ekki meiri trú en svo á fasteignamarkaðnum, að verð sem er 30% undir fasteignamati er talið ásættanlegt? Ég verð að draga þá ályktun. Í mínum huga er það nokkuð alvarlegt. Bankarnir eru, jú, að bjóða 110% leið, þ.e. að lækka lán niður í 110% af fasteignamati, en fyrir stórar eignir virðist fasteignamatið vera 50-60% yfir markaðsverði. Mér virðist sem flestar fasteignir verði yfirveðsettar í ansi langan tíma.
Það skal tekið fram, að Hagsmunasamtök heimilanna vöruðu við því, þegar lög um sértæka skuldaaðlögun voru samþykkt, að í þeim fælist innbyggð lækkun á verði stærri eigna. Yfirskuldsettir húsnæðiseigendur þyrftu í stórum stíl að setja stórar eignir á sölu til að lækka skuldir sínar. Við það skapast offramboð af stórum eignum, sem óhjákvæmilega hefur í för með sér mikla verðlækkun. Salan á húsinu í Gnitanesi átti sér stað áður en lögin voru samþykkt, þannig að ekki voru þau að hafa áhrif, en bankinn vissi af lögunum og hann vissi af verklagsreglunum. Líklegast taldi bankinn sig ekki geta fengið hærra verð í bráð!
Niðurstaðan af þessu máli er líklegast að fasteignamat allt of hátt. Hugsanlega 30 - 40%. Vandinn er að sveitarfélög tengja hluta tekjustofna sinna við fasteignamat. Veruleg lækkun fasteignamats veldur því tekjuskerðingu fyrir sveitarfélögin. Þá er það Fasteignaskránin. Hvað eru margir sem vissu að Fasteignaskráin (áður Fasteignamat ríkisins) er með fasteignamatið sem tekjustofn? 30 - 40% lækkun fasteignamats skerðir því tekjur Fasteignaskrár! Þetta er klaufalegt, svo ekki sé meira sagt. Mér dettur ekki í hug að væna starfsmenn Fasteignaskrár um óheilindi, en þeir eru settir í ólíðandi stöðu. Tekjur stofnunarinnar velta á því hvernig þeir meta fasteignir í landinu. Lækki þeir matið á stórum svæðum, þá gætu þeir stefnt fjárhagslegri afkomu stofnunarinnar í voða og þar með starfsöryggi sínu. Þessu þarf að breyta, enda líklega mun nærtækara og eðlilegra, að tekjur stofnunarinnar byggi á fjölda eigna, en ekki fasteignamati þeirra. (Ég tek það skýrt fram, að ég hef talað við fjölmargar starfsmenn Fasteignaskrár (Fasteignamats ríkisins) í gegn um árin og ekki fundið fyrir neinu öðru en faglegum vinnubrögðum.)
Allt leiðir þetta að "lausnum" bankanna. Ég hef haldið því fram frá því í byrjun október 2008, að eina skynsamlega í stöðunni sé að skipta öllum lánum upp í tvö lán: Annað er "gott lán" sem t.d. gæti verið í samræmi við stöðu lánanna 1. janúar 2008. Það væri sá hluti sem lántaki greiddi af og tæki breytingum í samræmi við ákvæði lánssamningsins með hugsanlega þaki á árlegar verðbætur. Hitt væri "slæmt lán", sem væri munurinn á upphæða "góða lánsins" og stöðu höfuðstóls eins og hann er við skiptingu lánsins í tvo hluta. "Slæma lánið" væri sett á ís, en verði breyting til hins betra í hagkerfinu, t.d. kaupmáttaraukning, styrking krónunnar, verðbólga helst lág í langan tíma eða aðrir jákvæðir þættir, þá tekur lántaki að sér að greiða hluta af "slæma láninu". Samhliða þessu væri fjármálafyrirtækjunum skylt að safna í afskriftasjóð, t.d. hluta af hagnaði eða helming þess sem annars færi í arðgreiðslur, og nota þann pening jafnóðum til að afskrifa "slæmu lánin" (hlutfallslega jafn mikið hjá öllum). Ég held ennþá, að þetta gæti verið sú lausn sem sátt gæti náðst um. Hún þarfnast nánari útfærslu sem ætti ekki að taka langan tíma sé á annað borð vilji hjá fjármálafyrirtækjum fyrir því að fara þessa leið.
![]() |
Fengu húseignir á góðum kjörum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
19.1.2010 | 22:16
Ef eitthvað væri gert, þyrfti ekki að biðja um uppboð - Kröfur okkar eru einfaldar
Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, lýsti því yfir við fréttastofu RÚV, að engin lausn sé í því að fresta uppboðum. Mikið er það rétt hjá blessuðum ráðherranum. Það er engin lausn, en það vill svo til að það er EINA lausnin sem fólki býðst.
Þremur ríkisstjórnum hefur tekist að gera nánast ekki neitt á þeim rúmum 15 mánuðum frá falli bankanna og um 22 mánuðum frá falli krónunnar. Úrræðaleysi stjórnvalda og seinagangur bankanna að koma til móts við viðskiptavini sína er með ólíkindum. Fólk sem hefur nákvæmlega ekkert sér til sakar unnið annað en að treysta fjármálakerfi landsins þarf núna að sjá á eftir ævisparnaði sínum í hendur þessu sama fjármálakerfi, þar sem stjórnvöld hafa ákveðið að verja það með kjafti og klóm á kostnað heimilanna í landinu.
Árni Páll vonast til þess að hægt verði að finna úrræði fyrir sem flesta. Það eru 6 vikur þar til frestur á uppboðum rennur út. Ríkisstjórnin er búin að 8 mánuði til að koma með úrræði. Það eina sem hefur komið eru úrræði úr smiðju fjármálafyrirtækjanna. Þau reyndust ekki betur en svo að 1400 beiðnir um nauðungarsölur frá Íbúðalánasjóði einum liggja hjá sýslumönnum landsins. Já, 1400 stykki. Mikið eru þau frábær úrræði ráðherrans.
Komið hefur í ljós að úrræði fjármálafyrirtækjanna duga ekki til að koma heimilum landsins til bjargar. Nú er kominn tími til að hlusta á almenning. Kröfurnar eru einfaldar.
Við viljum:
- tafarlausa 20% lækkun höfuðstóls verðtryggðra lána,
- tafarlausa 50% lækkun höfuðstóls gengistryggðra lána,
- 4% þak á árlegar verðbætur afturvirkt frá 1. janúar 2008,
- að veð (eign) dugi fyrir veðandlagi (veðláni) (taki strax til allra veðlán vegna kaupa á húsnæði og bifreiðum),
- jafna ábyrgð lántaka og lánveitenda,
- að stjórnendur fjármálafyrirtækja, stjórnmálamenn og embættismenn verði dregnir til ábyrgðar fyrir þátt sinn á árunum 2006 til 2008 í hruni krónunnar, bankanna og hagkerfisins,
- heimilunum verði bættur sá skaði sem ofangreindir aðilar ollu heimilunum með aðgerðum sínum eða aðgerðaleysi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
18.1.2010 | 14:11
Hagsmunasamtök heimilanna eru búin að vara við þessu lengi
Niðurstaða könnunar Félags vélstjóra og málmtæknimanna (VM) kemur okkur hjá Hagsmunasamtökum heimilanna ekkert á óvart. Þetta er sama niðurstaða og hefur komið fram í tveimur könnunum samtakanna, annarri meðal félagsmanna í fyrra vor og hinni sem Gallup framkvæmdi á landsvísu fyrir samtökin sl. haust. Fólk á í miklum erfiðleikum með að láta enda ná saman og um 54% heimila landsins voru í haust ýmist ekki að gera það eða rétt mörðu það.
Þrátt fyrir þetta ákvað ríkisstjórnin að hækka skatta á almenning um tugi milljarða. Þrátt fyrir þetta þarf að toga leiðréttingu lána með töngum út úr bankakerfinu. Þrátt fyrir þetta örlar ekkert á mildandi aðgerðum fyrir heimili landsins af hálfu lífeyrissjóðanna. Og þrátt fyrir þetta heldur forysta launþegahreyfingarinnar sig inni í fílabeinsturni sínum og lætur ekkert í sér heyra.
Bjarki Steingrímsson, þáverandi varaformaður VR, talaði á útifundi Hagsmunasamtaka heimilanna og Nýs Íslands fyrir áramót og gagnrýndi forystumenn launþegahreyfingarinnar. Hann uppskar það að vera REKINN úr embætti. Það er nefnilega bannað að rugga bátnum. Vilhjálmur Birgisson talaði á útifundi sl. laugardag og var harðorður. Ætli honum verði vísað á dyr hjá ASÍ næst þegar hann á leið hjá?
Ég hef sagt það oft, að baráttan fyrir leiðréttingu á stökkbreyttum höfuðstóli húsnæðislána, er stærsta kjarabaráttan í dag. Vilhjálmur Birgisson ítrekaði þennan punkt á laugardaginn. Ég er viss um að Guðmundur Ragnarsson, formaður VM er orðinn okkur sammála. Ég býð honum að taka slaginn með okkur fyrir leiðréttingu lánanna og bættum kjörum.
![]() |
Telja launin ekki duga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.1.2010 | 17:08
Þingmenn mæta á Austurvöll
Það var góður fjöldi fólks sem mætti á Austurvöll í dag. Ég er fyrir löngu hættur að átta mig á talningu fjölmiðla, en nokkur hundruð er teygjanleg tala. A.m.k. var þétt staðið á öllum göngustígum.
Vilhjálmur Birgisson var frábær og var ekkert að skafa utan af hlutunum, frekar en venjulega. Gagnrýndi hann harðlega sinnuleysi verkalýðshreyfingarinnar og þá sérstaklega Alþýðusambandsins í því máli sem er líklegast mikilvægasta lífskjarabarátta launafólks í dag, þ.e. baráttan fyrir lækkun stökkbreyst höfuðstóls lána heimilanna. Sagði hann ástæðuna fyrir þessu sinnuleysi ASÍ líklegast skýrast af hinum sterku tengslum ASÍ og lífeyrissjóðanna, en 13 miðstjórnarmenn munu víst sitja í stjórnum lífeyrissjóða. Var gerður góður rómur af máli Vilhjálms, en vil ég vara hann við, að síðast þegar háttsettur stjórnarmaður í launþegahreyfingu talaði á fundi hjá Hagsmunasamtökum heimilanna og Nýju Íslandi, þá var sá settur af! Sýnir það hve viðkvæm launþegahreyfingin getur verið fyrir eðlilegri og sanngjarnri gagnrýni.
Þingmenn voru óvenju fjölmennir á fundinum að þessu sinni. Voru þar á einhverjum tímapunkti þingmenn frá öllum flokkum nema VG. Ekki er hægt að sakast við þingmenn VG, að þeir hafi ekki mætt, þar sem þeir eru vonandi allir á flokksráðsfundi á Akureyri. Þeir sem ég hitti voru: Valgerður Bjarnadóttir, Samfylkingu, Vigdís Hauksdóttir og Gunnar Bragi Sveinsson, Framsókn, Birgitta Jónsdóttir, Hreyfingunni, og síðast en ekki síst Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson, Sjálfstæðisflokki. Þannig að með Margréti Tryggvadóttur sem ég hitti ekki, þá voru þarna hið minnsta 7 alþingismenn. Það hefur því virkað herbragð vina okkar hjá Nýju Íslandi að vekja þingmenn hefur virkað. Nú er bara að fá ennþá fleiri næst.
![]() |
Mótmæltu skuldabagganum á Austurvelli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.1.2010 | 23:49
15. janúar 2010: Hagsmunasamtök heimilanna eins árs
Það var 15. janúar 2009, að Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð á fundi í Háskólanum í Reykjavík. Hópur fólks, sem var búinn að fá nóg af aðgerðaleysi stjórnvalda vegna stökkbreyst höfuðstóls lána, tók sig saman og stofnaði samtökin.
Óhætt er að segja, að samtökunum hefur verið vel tekið af hinum fjölmörgu heimilum, sem eru í bullandi vanda vegna hruns gengisins og verðbólgunnar sem fylgdi í kjölfarið. Það var strax eftir samtökunum tekið og oft er vitnað til þeirra í hátíðarræðum ráðmanna.
Málefnin sem við höfum barist fyrir þóttu mörg hver framandi í janúar í fyrra, en nú hefur það breyst. Krafan um að veð dugi fyrir veðandlagi þótti fjarstæðukennd, en frumvarp þess efnis (lyklafrumvarpið) hefur tvisvar verið lagt fram á þingi og sjáum við jafnvel örla fyrir þeim möguleika að í þessari umferð fari það í gegn. Frestun nauðungarsölu var önnur djörf krafa en varðandi hana tóku stjórnvöld skjótt við sér. Leiðrétting fasteignaveðlána var enn ein krafa og þó hún hafi ekki að öllu komist í framkvæmd, þá bjóða fjórir banka nú alls konar lausnir til að létta á greiðslubyrði og samþykkt hafa verið lög um greiðslujöfnun sem koma tímabundið til móts við heimilin. Enn er langt í land að réttlæti sé náð, en okkur hefur tekist að snúa stjórnvöldum og bönkum frá því að ekkert verið gert og engra aðgerða sé þörf yfir í að koma með almennar og sértækar aðgerðir. Sjálfum finnst mér stjórnvöld og bankarnir ennþá berja hausnum við steininn og þrjóskast við að viðurkenna það sem nauðsynlega þarf að gera. Að því sögðu, þá áttum við fund með einum bankanna í gær og kvað þar við allt annan tón en áður. Frumlegast af öllu, sem samtökin hafa staðið fyrir, er líklegast greiðsluverkfallið. Þar ákváðum við að ganga í smiðju verklýðshreyfingarinnar til að knýja á um bætt kjör. Tvö eru að baki og fleiri eru framundan.
Óhætt er að segja að barátta Hagsmunasamtaka heimilanna hafi náð athygli flestra landsmanna og raunar hefur athyglin náð langt út fyrir landsteinana. Það sem einkennt hefur baráttuaðferðir okkar er hófstilltur málflutningur á málefnalegum grunni. Ég tel að með því höfum við tryggt betur að áhrifaöfl í þjóðfélaginu hlusti á okkur. Verra hefur gengið að fá þessa aðila til að leggja okkur lið og sakna ég þar sérstaklega liðsinni frá launþegasamtökunum. (Á því eru heiðarlegar undantekningar.) Við höfum alltaf litið á baráttu okkar sem lífskjarabaráttu. Stórhækkuð greiðslu- og skuldabyrði lána er mesta kjaraskerðing sem riði hefur yfir landsmenn a.m.k. hin síðari ár. Er það því ótrúlegt að verða vitni af því hve óvirk launahreyfingin hefur verið í þessari baráttu.
Það sem vakið hefur mesta furðu mína á þessu ári, er hve talnaefni frá opinberum aðilum (og bönkunum) hefur reynst ótraust. Það hefur því komið í hlut okkar hjá HH að afhjúpa villur og blekkingar sem frá þessum aðilum hafa komið. Er staðan orðin sú, að fjölmiðlar leita í miklu mæli til samtakanna um réttar upplýsingar. Gera þeir það vegna þess, að við höfum sýnt það og sannað, að það sem frá okkur kemur er rétt.
Margt hefur áunnist á þessu fyrsta ári, en ennþá er langt í land. Árið 2010 mun skera úr um hvort tekið verður að sanngirni og festu á skuldamálum heimilanna eða hvort þau verði bundin í skuldaklafa stökkbreyst höfuðstóls lána þeirra um ókomna tíð. Til þess að tryggja að á okkur verði hlustað er nauðsynlegt að samtökin séu sem öflugust. Hvet ég því alla, sem ekki hafa þegar gert það, að ganga í samtökin á www.heimilin.is.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.1.2010 | 13:20
Eitt að styðja tryggingasjóðinn, annað að tryggja allar innstæður
Ég skil ekki þessa tortímingarstefnu sumra þingmanna VG. Þeim er svo í mun að Íslendingum blæði eins mikið og mögulegt er vegna Icesave, að þeir búa til alls konar rök fyrir því að það sé gert. Nýjasta útspilið er frá Birni Vali Gíslasyni. Í gær staðhæfði hann (samkvæmt frétt á visir.is og ruv.is) að þegar FSA (breska fjármálaeftirlitið) ætlaði sumarið 2008 að loka Icesave, þá hafi ríkisstjórn Geirs H. Haarde gefið út yfirlýsingu um að allar innstæður væru tryggðar. Nú hefur komið í ljós að engin slík yfirlýsing var gefin. Lýst var yfir að íslenski tryggingasjóðurinn yrði styrktur til að standa við skuldbindingar sínar!
Það er himinn og haf á milli staðhæfingar Björns Vals og þess sem lýst var yfir af hálfu viðskiptaráðherra (ekki ríkisstjórnin). Þegar Birni Vali var bent á þetta, þá bakkaði hann og sagði að hann hefði átt við yfirlýsingu í fjölfar neyðarlaganna. Hvenær 6. október varð að sumardegi á Íslandi veit ég ekki og finnst mér eftiráskýring þingmannsins heldur klén.
Staðreyndir málsins eru að með neyðarlögunum voru innistæður tryggðar eins og eignir bankanna leyfðu. Með því að gera innistæður að forgangskröfum snarbreyttist staða innstæðueigenda. Í staðinn fyrir að þurfa að bíða upp á von og óvon um það hvort eitthvað fáist upp í ótryggðar innstæður, þá er nokkuð ljóst fyrirfram að lítið sem ekkert tapast. Þetta var a.m.k. raunveruleikinn hjá Icesave innstæðueigendum þar til bresk stjórnvöld notuðu bálk úr hryðjuverkalögum til að frysta eigur Landsbankans.
Mér finnst að Björn Valur Gíslason ætti að hugsa um að tala fyrir málstað Íslands í staðinn fyrir að tala fyrir málstað Breta og Hollendinga. Mergur málsins í þessari deilu er sú krafa Breta og Hollendinga, að hver krafa sé tvær jafn réttháar kröfur, þ.e. ein upp að EUR 20.887 og önnur þar fyrir ofan upp að GBP 50.000/EUR 100.000. Greiða skuli jafnt inn á kröfurnar, sem þýðir að fáist 30.000 EUR upp í EUR 35.887 kröfu, þá þarf íslenski tryggingasjóðurinn að greiða erlendu sjóðunum 5.887 EUR, en þeir fá allt greitt af sínum hluta ábyrgðarinnar. Þetta er skandallinn við Icesave samninginn og er ástæðan fyrir því að ég hef frá upphafi verið mótfallinn samningnum (ásamt nokkrum öðrum atriðum). Annars hef ég aldrei geta skiliði hvers vegna innistæður umfram tryggingar Hollands og Bretlands (þ.e. umfram EUR100.00 eða GBP 50.000) mynda ekki þriðju kröfuna, sem er líka jafn rétthá hinum. Ef menn ætla að vera samkvæmir sjálfum sér, þá ætti þetta að vera með þessum hætti.
Ég var í þessu að hlusta á Björn Val í viðtali í hádegisfréttum RÚV. Þar fer hann aftur með sama misskilninginn og hann fer með á blogginu sínu um að Alain Lipietz hafi samið tilskipunina um innstæðutryggingar. Lipietz sagði í Silfri Egils í gær, að hann hefði ekki komið að þeirri tilskipun, heldur um fjármálaeftirlit (2002/87/EB). Björn sagði Lipietz misskilja stöðu Íslands, þar sem fjármálastofnun með höfuðstöðvar innan EES lúti eftirliti heimaríkis. Það er alveg rétt að eftirlitið er núna hjá heimaríki, en það hefur ekki alltaf verið þannig. Þessari tilskipun var breytt fyrir ekki löngu (2006 eða 2007, jafnvel snemma árs 2008). Fram að því var eftirlitið í höndum gistiríkis. Hugsanleg er hluti vandans, að FME hafði ekki náð að laga sig nægilega vel að þessari breytingu, enda fékk stofnunin skyndilega upp í hendurnar gríðarlega umfangsmikið verkefni, sem fólst í því að hafa eftirlit með íslenskum fjármálafyrirtækjum út um allan heim.
(Ég tek það fram, að ég hef, undanfarin 9 ár, m.a. unnið að ráðgjöf fyrir fjármálafyrirtæki á sviði upplýsingaöryggismála, stjórnunar rekstrarsamfellu og persónuverndar. Af þeim sökum hef ég þurft að kynna mér alls konar tilskipanir ESB sem innihalda kröfur til fjármálafyrirtækja til þess m.a. að átta mig á hvar eftirlitið með fjármálastofnuninni lá hverju sinni og þar með hver uppruni öryggiskrafna var.)
![]() |
Segir margt athugavert við málflutning Lipietz |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
8.1.2010 | 23:13
Hrunið - hluti 3: Regluverk og eftirlit með fjármálafyrirtækjum
- Meingallað regluverk fjármálakerfisins, þ.m.t. fyrirkomulag eftirlits með fjármálafyrirtækjum
Mín reynsla var líka sú, að eftirliti með fyrirtækjunum var ábótavant og eins voru margar brotalamir í því regluverki sem mönnum var ætlað að fara eftir. Þriðja atriðið var að mjög mörg fjármálafyrirtæki eru einfaldlega það lítil, að þau hafa ekki getu eða möguleika á að hlíta öllum reglum eins og best væri.
Ég þekki einstakar reglur misvel. Það sem ég þekki best til eru að sjálfsögðu allt um upplýsingaöryggi og persónuvernd, en þessu tengjast atriði eins og ýmsir kaflar laga um fjármálafyrirtæki, innri endurskoðun, peningaþvætti og fleira í þeim dúr. Í sumum tilfellum var ég að vinna með regluverk í fleiri en einu landi og kom þá berlega í ljós, að það vantar alla dýpt (ef svo má segja) í íslenska regluverkið. Hér var/er meira byggt á rammareglum og fjármálafyrirtækjum látið eftir að fylla inn í rammann. Þannig eru gefin út leiðbeinandi tilmæli um eitthvað efni upp á 2 til 4 blaðsíður sem eru það sem heitir á ensku "top level guidelines". Þetta voru/eru skjöl sem stjórnarmenn gætu skilið, en ekki átt nokkurn möguleika að átta sig á hvernig ætti að útfæra, hvað þá innleiða. Jafnvel sérfræðingarnir á gólfinu voru oft í vafa um hvernig best væri að nálgast lausnina og það sem verra var, starfsmenn FME höfðu, að því virtist, enga sérstaka skoðun á því heldur. Besta dæmið sem ég þekki eru leiðbeinandi tilmæli nr. 1/2005 um rekstur upplýsingakerfa eftirlitsskyldra aðila.
Tilmælin komu út í drögum árið 2004. Ég fékk drögin til yfirlestrar og leyst ágætlega á þau sem drög, en taldi að það vantaði kjöt á beinið. Hóf ég því rannsóknarvinnu til að skoða hvernig þessu væri háttað í örðum löndum. Ég fann sambærilegar reglur í Noregi, Danmörku, Bretlandi, Lúxemborg, Belgíu, Þýskalandi og Frakklandi. Danir voru með frekar fátæklegar reglur, en öll hin löndin voru með þokkalega skjalfest regluverk, þó það væri almennt orðað hjá þeim flestum. Undantekningarnar voru Lúxemborg og Noregur. Tekið skal fram að FSA Handbook í Bretlandi er nokkuð ítarlegt skjal, en oft vantaði að fara niðurfyrir yfirborðið. Það var ekki málið í Lúxemborg og sérstaklega í Noregi. Við samburð kom í ljós, að FME hafði gengið í smiðju Kredittilsynet í Noregi. Drögin að tilmælunum voru unnin upp úr norsku reglunum, en Norðmenn áttuðu sig á einu sem FME virtist annað hvort ekki átta sig á eða lét gott heita, að reglurnar þurftu stuðning í nánari leiðbeiningum. Og það er kannski munurinn á aðferðafræðinni í Noregi og hér. Norsku reglunum fylgdu talsvert ítarlegar leiðbeiningar og það sem meira var, að þær voru miðaðar við ákveðna alþjóðlega aðferðafræði (CobiT) um stjórnun upplýsingatækni og þar með upplýsingaöryggi. Ég tók þessar norsku reglur upp í mína vinnu og einnig CobiT. En þegar á reyndi, þá veit ég ekki hvort það skipti nokkru máli hvað ég lagði mikla vinnu í að undirbúa ráðgjöf mína við fjármálafyrirtækin. Eina eftirlitið sem flest þeirra fengu á þessu sviði var rafrænt spurningablað sem menn hefðu getað svarað hvernig sem er.
Eftirlit með fjármálafyrirtækjum var oft nokkuð sérstakt. Í stórum dráttum byggði það á rafrænum skýrsluskilum og rafrænum spurningalistum. Þetta má sjá með því að fara inn á vef FME. Vissulega er þetta mjög góð aðferð til að kalla inn mikið af upplýsingum á stuttum tíma. Starfsmenn fjármálafyrirtækja gátu unnið í ró og næði að skýrslum og sent þær inn án þess að hitta nokkru sinni starfsmenn FME. Eftir einhverjar vikur eða mánuði brast síðan bréf, þar sem annað hvort var óskað eftir nánari upplýsingum, skýringum á tilteknu atriði eða sagt að samkvæmt skoðun FME á hinni rafrænni skýrslu, þá sæi FME ekki ástæðu til að aðhafast neitt frekar í málinu. En eftirlit felst ekki í slíku. Svona aðferðafræði leyfir eftirlitsskyldum aðilum nánast að setja hvað sem er í skýrslurnar. Hjá einu fyrirtæki (sem ég vann aldrei fyrir) var mér sagt, að starfsmaður hafi fengið spurningarlista frá FME til að svara og senda inn. Viðkomandi hafði litla sem enga þekkingu á viðfangsefninu, en var þekktur fyrir að bjarga sér. Hann fékk auk þess þær leiðbeiningar, að hefði hann einhverjar spurningar ætti hann bara að hringja í FME. Sem hann gerði. Vandamálið var að starfsmaður FME gat lítið leiðbeint eða taldi sig ekki mega það til að glata ekki hlutleysi sínu! Listanum var því svarað eftir bestu getu en þó meira eins og starfsmaðurinn taldi að yrði til þess að fyrirtækið stæðist skoðun. Svörin voru send inn rafrænt og nokkrum mánuðum síðar barst bréf, þar sem fyrirtækinu var tjáð að FME teldi allt vera í góðu lagi!
Þegar FME sendi út rafrænt spurningaform um mitt sérsvið, þ.e. tilmælin um rekstur upplýsingarkerfa hjá eftirlitsskyldum aðilum, þá datt mér ekki annað í hug en að FME myndi nota vettvangsskoðun til að sannreyna svörin. Sendi ég því þáverandi aðstoðarforstjóra tölvupóst, þar sem ég bauð fram sérfræðiþekkingu mína, enda efaðist ég um að fámennt starfslið FME kæmist yfir að heimsækja alla. Ég fékk svar tveimur mánuðum síðar um að þess gerðist ekki þörf, en um það er í sjálfu sér ekkert nema allt gott að segja. Fylgdist ég nú með hjá viðskiptavinum mínum hvort FME kíkti ekki í óvænta heimsókn til að grilla menn, en ekkert gerðist. Kannski truflaði það að bankarnir hrundu nokkrum vikum síðar og allt komst í uppnám. Truflunin var nú ekki meiri en sú, að áður en árið var á enda fóru menn að fá bréf um að engar athugasemdir væru gerðar. Kannski var minni vinnu treyst svona vel, ég veit það ekki, en enginn þeirra aðila sem ég vann að ráðgjöf hjá fékk heimsókn. Heldur ekki þeir aðilar aðrir sem ég hleraði um. Ekki einu sinni þessi, sem svaraði meira til að svara en segja sannleikann. Í ljós kom, að innihaldi svaranna var treyst í blindni. Og ef menn viðurkenndu, að ekki var allt í lagi, þá fengu menn bara klapp á bakið og hvatningu um að halda vinnunni áfram.
Ég veit það fyrir víst, að mjög stór hluti eftirlitsskyldra aðila uppfyllti ekki tiltekinn atriði í hinum leiðbeinandi tilmælum. Ég hélt líka að FME vissi það, en það virtist ekki skipta máli.
Ég hef ekki hugmynd um hvort þetta hafi verið hin almenna aðferðafræði hjá FME. Þ.e. hvort rafræn skýrslu- og spurningaskil hafi verið látin duga. Ég vona ekki.
En það var ekki öllu skilað rafrænt. FME heimsótti marga eftirlitsskylda aðila, suma oftar en aðra. Margar sögur hafa farið af slíkum heimsóknum og lýsti Elín Jónsdóttir, nýskipaður forstjóri Bankasýslu ríkisins, því í viðtali við Viðskiptablað Morgunblaðsins (að mig minnir) haustið 2008. Hún lýsti því að í hvert sinn sem starfsmenn FME komu í heimsóknir til stóru fjármálafyrirtækjanna til að ræða einhver mál, sama hve einföld þau voru, þá var þeim mætt með hópi lögfræðinga sem virtust hafa það eina hlutverk að vefengja og mótmæla öllu sem kom frá FME. Það virtist ekkert atriði vera það ómerkilegt, að því væri ekki mótmælt, áfrýjað eða vísað til dómstóla.
Loks má ekki gleyma einni taktík fjármálafyrirtækjanna í viðbót og hugsanlega starfsmanna FME. Ef einhver starfsmaður FME sýndi óvenjulegt innsæi í starfsemi fjármálafyrirtækjanna, þá var hann einfaldlega keyptur yfir. Það var auðvelt, þar sem FME gat ekki keppt við fjármálafyrirtækin í launum. Kvað svo rammt að þessu, að ýmis töldu fljótlegustu leiðina til að komast í góða stöðu hjá bönkunum felast í því að ráða sig til FME. Fólk vissi nefnilega sem svo, að ef það stóð sig þar, þá fékk það innan tíðar starfstilboð frá einhverjum af bönkunum. Kvartaði Jónas Jónsson, þáverandi forstjóri FME, einhvern tímann yfir þessu í blaðaviðtali. Hvort það var ásetningur hjá fjármálafyrirtækjunum að halda niðri þekkingu og reynslu hjá FME, þá varð það reyndin.
Hvort sem ástæðan var að starfsmönnum FME var mætt með ókleifan vegg af lögfræðingum, að rafræn skil voru látin duga eða örar mannabreytingar hjá FME, þá er niðurstaðan sú, að eftirlit með fjármálafyrirtækjum var ófullnægjandi. Kannski varð það til þess að allt fór hér í kaldakol, um það er ómögulegt að segja. Ætli menn sér að sniðganga reglur, þá finna þeir leið til þess sama hversu gott eftirlitið er.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.1.2010 | 13:37
Bretum gengur illa að skilja
Það er með ólíkindum hvað margir illa upplýstir aðilar ryðjast fram á sjónarsviðið og blaðra tóma vitleysu um þetta mál. Í þetta sinn er að Roy Hattersley, lávarður og fyrrverandi aðstoðarutanríkisráðherra. Maður sem aldrei getur komist yfir það, að breska ljónið laut í lægra haldi fyrir litla Íslandi í þorskastríðunum.
Annars ætla ég ekki að eyða mörgum orðum í blessaðan lávarðinn. Ekki var hann nú betri Paul Mason hjá BBC Newsnight í innganginum að viðtalinu við Ólaf Ragnar í fyrrakvöld. Ég held að það hafi verið staðreyndavilla í hverri einustu setningu sem kom út úr manninum. Sama gildir um margar fréttir BBC um málið. Þeim virðist fyrirmunað að skilja, að Alþingi er búið að samþykka takmarkaða ríkisábyrgð en það strandaði á Bretum og Hollendingum að hún tæki gildi.
Ég vil taka það fram, að ég hef aldrei verið sáttur við Icesave samninginn, eins og lesa má í nokkrum færslum mínum um málið frá síðasta sumri. Mér finnst sem ýmsu hafi verið snúið á haus og í reynd sé verið að gera Íslendinga ábyrga fyrir mun hærri upphæð, en haldið hefur verið fram. Skoðum nokkrar staðreyndir:
- Iinnstæður á Icesave, KaupthingEdge og Save&Save námu 1.656 milljörðum í lok september 2008.
- Icesave innstæður í Bretlandi voru 4,6 milljarðar punda, af því falla 2,3 milljarðar punda á íslenska tryggingasjóðinn.
- Icesave innstæður í Hollandi voru 1,6 milljarður evra, þar af fellur 1,3 milljarður evra á íslenska tryggingasjóðinn.
- Icesave samningurinn gerir ráð fyrir að eignir Landsbankans eigi að ganga upp í greiðslu á þessum 4,6 milljörðum punda og 1,6 milljarði evra.
- Icesave samningurinn gerir ráð fyrir að komi til greiðslu að hálfu íslenska ríkisins, þá gerist það ekki fyrr en eftir 7 ár.
- Icesave samningurinn gerir ráð fyrir að íslenski tryggingasjóðurinn greiði 5,55% vexti af lánum sem Bretar og Hollendingar veita sjóðnum til að standa skil á sínum hluta, þ.e. 2,3 milljaðra punda og 1,3 milljarðs evra.
- Icesave samningurinn gerir ráð fyrir að greiðslur frá Landsbankanum fari jafnt upp í fjórar kröfur, þ.e. tvær kröfur hins íslenska tryggingasjóðs (ein vegna hvors lands), eina frá breska tryggingasjóðnum og eina frá hollenska tryggingasjóðnum, þar til annað af tvennu gerist, krafa er uppgreidd eða peningarnir búnir.
Það er þetta síðasta sem ég hef alltaf gert athugasemd við og ítrekað gagnrýnt. Með því að samþykkja hann lét íslenska samninganefndin einfaldlega plata sig. Höfum í huga, að væri eingöngu greitt inn á fyrstu 20.887 EUR, þar til sá hluti væri uppgreiddur, þá reyndi ekkert á ábyrgð ríkisins. Greiðslum til Hollendinga væri lokið á 7 árum, en Breta á 5 árum. Vaxtakostnaðurinn af þessum greiðslum, þ.e. 2,3 milljörðum punda í 5 ár og 1,3 milljarði evra í 7 ár með lækkandi eftirstöðvum væri miðað við 5,55% og gengi í dag eitthvað um 108 milljarðar. Það væri kostnaðurinn sem félli á íslenska ríkið og þar með skattgreiðendur. 108 milljarðar sem dreifast á 7 ár er mun viðráðanlegri tala, en 278 milljarða vaxtagreiðsla þó hún dreifist á 15 ár auk höfuðstólsgreiðslunnar, sem við vitum ekki hver verður.
Tvo stærstu mistökin sem gerð voru í upprunalega Icesave samningum voru, að mínu áliti, að samþykkja annars vegar að greiða jafnmikið inn á tryggingar Breta og Hollendinga eins og tryggingar íslenska tryggingasjóðsins og hins vegar að fallast á að vextir væru 5,55%. Höfum í huga að 5,55% vextir eru hærri vextir, en boðið var á Icesave reikningunum, LIBOR vextir á pund hafa verið innan við 5% í mörg ár og LIBOR vextir á evrur ennþá lægri. 5,55% vextir eru okur, svo einfalt er það.
![]() |
Hinir þrjósku Íslendingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.1.2010 | 10:47
Lýðnum hótað svo hann gegni
Mér finnst hann nú frekar ómerkilegur þessi málflutningur, að ríkisstjórnin muni segja af sér, ef landsmenn voga sér að vera ósammála henni í einu máli. Ég veit ekki betur en að Steingrímur J. Sigfússon hafi ítrekað lýst því yfir í þingræðum í lok Icesave umræðunnar, að Icesave samningurinn væri nauðungarsamningur. Hvernig væri fyrir stjórnvöld að fara með skoðun þjóðarinnar fremur sem vopn í baráttunni fyrir nýjum samningi, en að vera með þetta væl að vera ekki memm nema hún fái að ráða.
Ef þroski íslenskra stjórnmálamanna er ekki meiri en þetta, þá er best að þeir segi strax af sér. Fólk sem getur ekki tekið það á kinnina án þess að fara að væla á ekkert erindi í stjórnmál. Menn eiga frekar að læra af reynslunni og hlusta á vilja þjóðarinnar. Það vill svo til að stjórnmálamenn eru að vinna fyrir þjóðina, ekki sjálfan sig. Ef menn láta sitt eigið egó þvælast fyrir, þá kominn tími til að fá sér aðra vinnu.
Nú ég óska Önnu Margréti, frænku minni, góðs gengis í Noregi. Þeim fer fjölgandi, sem ég þekki þar. Ef ríkisstjórn Geir H. Haarde hefði strax farið í að verja störfin í október 2008, þá væru örugglega fleiri með vinnu hér á landi. Nei, það var ákveðið að ekki væri hægt að gera neitt og sama tók við hjá næstu tveimur ríkisstjórnum. Nánast ekkert hefur verið gert til að verja störfin. Afleiðingin af því er að skatttekjur ríkissjóðs hafa minnkað og útgjöld aukist.
![]() |
Gylfi: Stjórnin frá ef Icesave fellur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.5.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði