Leita í fréttum mbl.is

15. janúar 2010: Hagsmunasamtök heimilanna eins árs

Það var 15. janúar 2009, að Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð á fundi í Háskólanum í Reykjavík.  Hópur fólks, sem var búinn að fá nóg af aðgerðaleysi stjórnvalda vegna stökkbreyst höfuðstóls lána, tók sig saman og stofnaði samtökin. 

Óhætt er að segja, að samtökunum hefur verið vel tekið af hinum fjölmörgu heimilum, sem eru í bullandi vanda vegna hruns gengisins og verðbólgunnar sem fylgdi í kjölfarið.  Það var strax eftir samtökunum tekið og oft er vitnað til þeirra í hátíðarræðum ráðmanna. 

Málefnin sem við höfum barist fyrir þóttu mörg hver framandi í janúar í fyrra, en nú hefur það breyst.  Krafan um að veð dugi fyrir veðandlagi þótti fjarstæðukennd, en frumvarp þess efnis (lyklafrumvarpið) hefur tvisvar verið lagt fram á þingi og sjáum við jafnvel örla fyrir þeim möguleika að í þessari umferð fari það í gegn.  Frestun nauðungarsölu var önnur djörf krafa en varðandi hana tóku stjórnvöld skjótt við sér.  Leiðrétting fasteignaveðlána var enn ein krafa og þó hún hafi ekki að öllu komist í framkvæmd, þá bjóða fjórir banka nú alls konar lausnir til að létta á greiðslubyrði og samþykkt hafa verið lög um greiðslujöfnun sem koma tímabundið til móts við heimilin. Enn er langt í land að réttlæti sé náð, en okkur hefur tekist að snúa stjórnvöldum og bönkum frá því að ekkert verið gert og engra aðgerða sé þörf yfir í að koma með almennar og sértækar aðgerðir.  Sjálfum finnst mér stjórnvöld og bankarnir ennþá berja hausnum við steininn og þrjóskast við að viðurkenna það sem nauðsynlega þarf að gera.  Að því sögðu, þá áttum við fund með einum bankanna í gær og kvað þar við allt annan tón en áður.  Frumlegast af öllu, sem samtökin hafa staðið fyrir, er líklegast greiðsluverkfallið.  Þar ákváðum við að ganga í smiðju verklýðshreyfingarinnar til að knýja á um bætt kjör.  Tvö eru að baki og fleiri eru framundan.

Óhætt er að segja að barátta Hagsmunasamtaka heimilanna hafi náð athygli flestra landsmanna og raunar hefur athyglin náð langt út fyrir landsteinana.  Það sem einkennt hefur baráttuaðferðir okkar er hófstilltur málflutningur á málefnalegum grunni.  Ég tel að með því höfum við tryggt betur að áhrifaöfl í þjóðfélaginu hlusti á okkur.  Verra hefur gengið að fá þessa aðila til að leggja okkur lið og sakna ég þar sérstaklega liðsinni frá launþegasamtökunum.  (Á því eru heiðarlegar undantekningar.)  Við höfum alltaf litið á baráttu okkar sem lífskjarabaráttu.  Stórhækkuð greiðslu- og skuldabyrði lána er mesta kjaraskerðing sem riði hefur yfir landsmenn a.m.k. hin síðari ár.  Er það því ótrúlegt að verða vitni af því hve óvirk launahreyfingin hefur verið í þessari baráttu.

Það sem vakið hefur mesta furðu mína á þessu ári, er hve talnaefni frá opinberum aðilum (og bönkunum) hefur reynst ótraust.  Það hefur því komið í hlut okkar hjá HH að afhjúpa villur og blekkingar sem frá þessum aðilum hafa komið.  Er staðan orðin sú, að fjölmiðlar leita í miklu mæli til samtakanna um réttar upplýsingar.  Gera þeir það vegna þess, að við höfum sýnt það og sannað, að það sem frá okkur kemur er rétt.

Margt hefur áunnist á þessu fyrsta ári, en ennþá er langt í land.  Árið 2010 mun skera úr um hvort tekið verður að sanngirni og festu á skuldamálum heimilanna eða hvort þau verði bundin í skuldaklafa stökkbreyst höfuðstóls lána þeirra um ókomna tíð.  Til þess að tryggja að á okkur verði hlustað er nauðsynlegt að samtökin séu sem öflugust.  Hvet ég því alla, sem ekki hafa þegar gert það, að ganga í samtökin á www.heimilin.is.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég óska okkur öllum til hamingju með Hagsmunasamtök Heimilanna.  Þau hafa unnið gott verk á fyrsta árinu sínu, vonandi verður framhaldið jafn gott eða betra með fleiri félagsmönnum. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 16.1.2010 kl. 00:08

2 identicon

Til hamingju.

Barátta Hagsmunasamtaka heimilanna hefur verði til fyrirmyndar. Það er ekki auðvelt að halda uppi langvarandi andófi án þess að þreytast eða vera gerður ómarktækur.

Áfram HH! 

Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 16.1.2010 kl. 00:25

3 Smámynd: Þór Saari

Til hamingju Marinó og þið öll í HH.  Þið hafið staðið ykkur frábærlega og það hefur verið mikil ánægja að sjá hvað HH hafa verið vandvirk og málefnaleg og sýnt mikla þrautsegju.  Ríkisstjórnin er að vísu enn með hendur fyrir augum og eyrum í þessum málum og hefur algerlega brugðist en það er bara að hamra áfram og jafnvel krefjast kosninga.

Þór Saari, 16.1.2010 kl. 00:55

4 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Til hamingju með afmælið:)  Ég held að hér sannist hið fornkveðna að oft veltir lítil þúfa þungu hlassi. 

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 16.1.2010 kl. 01:43

5 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Hagsmunasamtök heimilanna fá mínar bestu afmælisóskir, gott framtak í grasrótinni.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 16.1.2010 kl. 12:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 1678162

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 44
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband