Leita í fréttum mbl.is

Eitt að styðja tryggingasjóðinn, annað að tryggja allar innstæður

Ég skil ekki þessa tortímingarstefnu sumra þingmanna VG.  Þeim er svo í mun að Íslendingum blæði eins mikið og mögulegt er vegna Icesave, að þeir búa til alls konar rök fyrir því að það sé gert.  Nýjasta útspilið er frá Birni Vali Gíslasyni.  Í gær staðhæfði hann (samkvæmt frétt á visir.is og ruv.is) að þegar FSA (breska fjármálaeftirlitið) ætlaði sumarið 2008 að loka Icesave, þá hafi ríkisstjórn Geirs H. Haarde gefið út yfirlýsingu um að allar innstæður væru tryggðar.  Nú hefur komið í ljós að engin slík yfirlýsing var gefin.  Lýst var yfir að íslenski tryggingasjóðurinn yrði styrktur til að standa við skuldbindingar sínar!

Það er himinn og haf á milli staðhæfingar Björns Vals og þess sem lýst var yfir af hálfu viðskiptaráðherra (ekki ríkisstjórnin).  Þegar Birni Vali var bent á þetta, þá bakkaði hann og sagði að hann hefði átt við yfirlýsingu í fjölfar neyðarlaganna.  Hvenær 6. október varð að sumardegi á Íslandi veit ég ekki og finnst mér eftiráskýring þingmannsins heldur klén.

Staðreyndir málsins eru að með neyðarlögunum voru innistæður tryggðar eins og eignir bankanna leyfðu.  Með því að gera innistæður að forgangskröfum snarbreyttist staða innstæðueigenda.  Í staðinn fyrir að þurfa að bíða upp á von og óvon um það hvort eitthvað fáist upp í ótryggðar innstæður, þá er nokkuð ljóst fyrirfram að lítið sem ekkert tapast.  Þetta var a.m.k. raunveruleikinn hjá Icesave innstæðueigendum þar til bresk stjórnvöld notuðu bálk úr hryðjuverkalögum til að frysta eigur Landsbankans.

Mér finnst að Björn Valur Gíslason ætti að hugsa um að tala fyrir málstað Íslands í staðinn fyrir að tala fyrir málstað Breta og Hollendinga.  Mergur málsins í þessari deilu er sú krafa Breta og Hollendinga, að hver krafa sé tvær jafn réttháar kröfur, þ.e. ein upp að EUR 20.887 og önnur þar fyrir ofan upp að GBP 50.000/EUR 100.000.  Greiða skuli jafnt inn á kröfurnar, sem þýðir að fáist 30.000 EUR upp í EUR 35.887 kröfu, þá þarf íslenski tryggingasjóðurinn að greiða erlendu sjóðunum 5.887 EUR, en þeir fá allt greitt af sínum hluta ábyrgðarinnar.  Þetta er skandallinn við Icesave samninginn og er ástæðan fyrir því að ég hef frá upphafi verið mótfallinn samningnum (ásamt nokkrum öðrum atriðum).  Annars hef ég aldrei geta skiliði hvers vegna innistæður umfram tryggingar Hollands og Bretlands (þ.e. umfram EUR100.00 eða GBP 50.000) mynda ekki þriðju kröfuna, sem er líka jafn rétthá hinum.  Ef menn ætla að vera samkvæmir sjálfum sér, þá ætti þetta að vera með þessum hætti.

Ég var í þessu að hlusta á Björn Val í viðtali í hádegisfréttum RÚV.  Þar fer hann aftur með sama misskilninginn og hann fer með á blogginu sínu um að Alain Lipietz hafi samið tilskipunina um innstæðutryggingar.  Lipietz sagði í Silfri Egils í gær, að hann hefði ekki komið að þeirri tilskipun, heldur um fjármálaeftirlit (2002/87/EB).  Björn sagði Lipietz misskilja stöðu Íslands, þar sem fjármálastofnun með höfuðstöðvar innan EES lúti eftirliti heimaríkis.  Það er alveg rétt að eftirlitið er núna hjá heimaríki, en það hefur ekki alltaf verið þannig.  Þessari tilskipun var breytt fyrir ekki löngu (2006 eða 2007, jafnvel snemma árs 2008).  Fram að því var eftirlitið í höndum gistiríkis.  Hugsanleg er hluti vandans, að FME hafði ekki náð að laga sig nægilega vel að þessari breytingu, enda fékk stofnunin skyndilega upp í hendurnar gríðarlega umfangsmikið verkefni, sem fólst í því að hafa eftirlit með íslenskum fjármálafyrirtækjum út um allan heim.

(Ég tek það fram, að ég hef, undanfarin 9 ár, m.a. unnið að ráðgjöf fyrir fjármálafyrirtæki á sviði upplýsingaöryggismála, stjórnunar rekstrarsamfellu og persónuverndar.  Af þeim sökum hef ég þurft að kynna mér alls konar tilskipanir ESB sem innihalda kröfur til fjármálafyrirtækja til þess m.a. að átta mig á hvar eftirlitið með fjármálastofnuninni lá hverju sinni og þar með hver uppruni öryggiskrafna var.)


mbl.is Segir margt athugavert við málflutning Lipietz
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Það þarf að setja fréttabann á alla ráðherra og þingmenn varðandi þetta mál. Þeir eru búnir að klúðra því og nú þarf þjóðin frið fyrir þeirra málflutningi. Best væri ef Steingrímur segði sig frá þessu máli og Jóhanna fæli öðrum ráðherra forsjá þess. Þá væri kannski hægt að finna flöt sem Bretar og Hollendingar gætu sammælst um. Samningurinn frá síðasta hausti Ice save 1 gæti jafnvel virst hagstæður fyrir þá í ljósi þeirrar umræðu sem málið hefur fengið í fjölmiðlum í UK og víðar. En víst er að synjun forsetans vakti óraunhæfar væntingar fjölda fólks um að við þyrftum ekki að borga þessar innistæður.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 11.1.2010 kl. 14:01

2 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Marinó,

Ég er alveg steinhættur að botna þetta.  Bloggaði um þetta aðeins áðan (http://www.arnorbld.blog.is/blog/arnorbld/entry/1004280/)  Maður er alveg bara dolfallinn yfir þessari ríkisstjórn í þessu máli, svo sem óháð pólitíkinni! 

Ég vil líka benda á að lögin sem Ólafur synjaði um undirritun eru lög um breytingar á lögumog innihalda ekki Icesave samninginn, heldur einungis nokkrar breytingar á fyrri lögum.  Gömlu lögin frá í September innihalda það sem við kemur samningnum.  Þess vegna er samþykkt eða synjun þeirra ekki samþykkt eða synjun á Icesave samningnum sem slíkum heldur aðeins seinni samningnum og ég lít svo á að ef lögunum verður synjað þá einfaldlega falla þau burt og lögin frá í September eru enn í fullu gildi, óbreytt.  Þetta virðist vera mjög almennur misskilningur sem var pumpaður upp af fjölmiðlum, bæði innlendum og erlendum og jafnvel af stjórnarliðum.  Að minnsta kosti er þetta hvernig ég skil þetta og hvernig lög um breytingar á lögum virka.  Það var allt í voða þegar í raun ekkert hafði breyst lagalega!  Að sjálfsögðu þarf að ganga frá þessu máli en það þarf að láta nýtt fólk í þetta, sem getur séð útfyrir kassann.  Þessir menn sem eru í þessu núna eru búnir að vera grafnir í því í ár og eru löngu orðnir úrvinda á þessu og sjá ekki orðið á milli augna.

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 11.1.2010 kl. 21:51

3 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Framkoma ríkisstjórnarinnar, og þingmanna hennar, er viðvarandi hneyksli.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 12.1.2010 kl. 01:41

4 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Einstakir þingmenn ríkisstjórnarinnar verða að fara að svara því hvaða hagsmuni þeir hafi af því að taka stöðu gegn ríkisstjóði Íslands.

Sigurður Þórðarson, 12.1.2010 kl. 08:08

5 identicon

Eins gott að Stallone en ekki Björn Valur sá um að leika Rocky, hann hefði aldrei staðið upp og unnið á endanum.

Bjorn Jonasson (IP-tala skráð) 12.1.2010 kl. 10:20

6 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Einsog þið vonandi vitið þá hef ég stutt ríkisstjórninga í þessu máli einsog það liggur fyrir. - ég get hinsvegar ekki sagt að hún hafi talað máli breta og niðurlendinga heldur varið samninginn útfrá rökum sem hann er reistur á en allir samningar hafa tvær hliðar.

IceSafe er ekki samningur við okkur sjálf. Þá hefði hann verið allt öðruvísi. Það er því augljóst að til að ræða samninginn verður að benda á málstað viðsemjenda til að gera hann skiljanlegan. Það þýðir ekki að málstaður íslands hafi verið á nokkurn hátt fyrir borð borinn.- Þó þið séuð duglegir bloggarar þá megið þið ekki falla í gryfju áróðurs og ritskoðunar til að verja einhliða skoðanir ykkar og banna skoðanir annara. (sbr Laxdal hér að ofan)

Þessi samningur er ekki "Íslenskur" hann er milliríkjasamningur. Hann er ekki við okkur sjálf.

Þið talið einsog klagandi foreldrar barns sem hefur skítfallið á prófinu og á að færast niður um bekk og taka aukatíma sem kosta tíma og stórfé.

Gísli Ingvarsson, 12.1.2010 kl. 10:25

7 Smámynd: Haraldur Baldursson

Sé sú kjaftasaga (og það er hún eiginlega ekki) rétt að við fengjum 5-600 milljarða við inngöngu í ESB og etv. sér þar að finna "glæsilegu" lausnina hans Svavars-ég-nenni-ekki-að-semja-lengur Gestssonar, er þá ekki líklegasta ályktunin sú að Steingrímur berjist svona rosalega gegn endurupptöku Icesave ? Er þá ekki Steingrímur, burt séð frá yfirlýsingum hans, þegar genginn í ESB ?

Haraldur Baldursson, 12.1.2010 kl. 11:07

8 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Já, maður hefur heyrt þetta tal, að reddingin væri frágengin - og það frá einstaklingum, sem telja sig stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar, ekki andstæðinga.

En, slíkar humyndir, hefði maður einmitt haldið, að andstæðingar hennar væru líklegri til að sjóða saman, og hennar fólk til að bera til baka - vegna augljósra ástæðna.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 12.1.2010 kl. 11:13

9 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Gísli - þegar samningur, augljíóslega, setur grunnhagsmuni þjóðar, í hætti, og mjög bersýnilega hefur ekki verið saminn, með þá í huga - þá augljóslega svíður fólki, þegar manns eigin ríkisstjórn, ver þann samning.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 12.1.2010 kl. 11:15

10 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Nú er klárt, að ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms vinna GEGN þjóð sinni en með kvölurum okkar og kúgurum.

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar: Enginn vafi að innlán í útibúum erlendis eru á okkar ábyrgð

stjornarradid1.jpgRíkisstjórn Íslands hefur sent frá sér tilkynningu vegna fjölmiðlaumfjöllunar um ábyrgð gistiríkja á eftirliti útibúa fjármálastofnana innan sinnar lögsögu. Er það hrakið það sem Evrópuþingmaðurinn Alain Lipietz hélt fram í þættinum Silfur Egils í gær að Ísland bæri engar ábyrgðir vegna Icesave reikninga Landsbankans í Bretlandi og Hollandi.

Tilkynningin er svohljóðandi: 

Með aðild sinni að EES-samningnum gerðist Ísland hluti af innri markaði Evrópu. Samkvæmt tilskipunum ESB sem Ísland hefur tekið upp með lögum frá Alþingi gildir eftirfarandi:

·        Banki sem er með höfuðstöðvar í EES ríki stofnar útibú í öðru EES ríki: þá gildir ábyrgð tryggingarsjóðs heimaríkisins, þar sem höfðustöðvar bankans eru.
·        Banki sem er með höfuðstöðvar í ríki utan EES stofnar útibú í EES ríki: þá gildir ábyrgð tryggingarsjóðs gistiríkisins, þar sem útibúið starfar.

Ljóst er af þessu að þar sem Ísland er EES ríki féllu skyldur vegna trygginga á innlánum í útibúum íslenskra banka í öðrum EES ríkjum á íslenska tryggingasjóðinn.  Þótt meginreglan sé einnig sú að eftirlit með því að fjármálastofnun geti greitt út innlán hvíli á heimaríki hefur af hálfu Íslands samt sem áður verið bent á að eftirlitsstofnanir gistiríkis séu ekki undanþegnar eftirlitsskyldum.

Samkvæmt tilskipun 94/19/EB um innlánatryggingakerfi sem Ísland hefur tekið upp er það skylda sérhvers aðildarríkis EES að tryggja að á yfirráðasvæði þess sé komið á fót innlánatryggingakerfi, sem nái til fjármálastofnana með höfuðstöðvar í því ríki sem og útibúa þeirra á Evrópska efnahagssvæðinu. Tilskipunin kveður skýrt á um að útibú í öðrum aðildarríkjum EES falli undir innlánatryggingakerfi heimaríkisins.

Íslensk stjórnvöld hafa á öllum stigum Icesave-málsins haldið því fram gagnvart Bretum, Hollendingum og Evrópusambandinu að um lagalega óvissu væri að ræða varðandi ábyrgð ríkissjóða við kerfishrun á lágmarkstryggingum innstæðueigenda. Jafnframt var strax í upphafi lögð áhersla á að fá úr málinu skorið fyrir viðeigandi úrskurðaraðila eða dómstól, en öllum tilraunum til þessa hefur verið hafnað af öðrum samningsaðilum en það er meginregla í þjóðarétti að ríki geta ekki leyst úr ágreiningi sín á milli fyrir dómstólum nema allir aðilar samþykki. Þessi fyrirvari sem áréttaður er í 2. gr. l. nr. 1/2010 breytir þó engu um þá niðurstöðu að ábyrgð tryggingarsjóðs heimaríkis gildir um útibú banka innan EES þótt annað hafi verið fullyrt undanfarna daga.  

Bjarni Kjartansson, 12.1.2010 kl. 13:02

11 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Það getur hinsvegar verið rétt athugað að íslenska samninganefndin (-irnar) hafi láðst að leggja fram aðgengileg drög til samnings fyrir mótaðilann og þannig misst frumkvæðið þegar Bretar og Niðurlendingar koma vel undirbúnir til leiks. Um framgang samningafundanna veit ég hinsvegar ekkert og því síður hvort "okkar" menn lögðu sig alla fram og meira til. - Hinu verður ekki hlaupist frá að þessi samningur fer aldrei langt úr umræðunni og verður alltaf grunnurinn að frekari umræðu ef hún býðst sem er víst verið að kanna. Við verðum að byggja skoðanir okkar á því sem er en ekki því sem við hefðum helst viljað sjá. Óskhyggja er ekki það sem við þurfum á þessu stigi.

Gísli Ingvarsson, 12.1.2010 kl. 13:07

12 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Gísli:  Ég þekki ekki til milliríkjasamninga, en þar sem annar samningsaðilinn (Bretar og Hollendingar) þvertekur fyrir í samningnum að hinn samningsaðilinn (Ísland) geti á nokkurn hátt leitað réttar síns fyrir dómstólum, þá er það í mínum huga ekki samningur heldur nauðbeyging.  Hér í Bandaríkjunum er varla dregin upp stafur á servíettu að ekki sé getið um varnarþing viðkomandi og hvar mál skulu rekin;)  Það er einfaldlega hluti af samningum og það litla sem ég þekki til samninga á Íslandi og í Danmörku þar sem ég hef búið, þá er þetta svipað.  Hollendingar og Bretar gerðu samning við sjálfa sig um að Ísland ætti að borga.  Þeir borguðu allt upp í topp þó þeir þyrftu þess ekki og sendu svo reikninginn til Íslenskra skattborgara.  Frá mínum bæjardyrum séð er það hvorki réttlátt, löglegt eða réttmætt.

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 13.1.2010 kl. 00:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband