Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010
6.1.2010 | 23:46
Þegar rykið sest, þá skilja menn málið betur
Ákvörðun forsetans segir ekkert til um það hvort greiða eigi til baka fyrir Icesave eða ekki, enda er það ekki hlutverk þjóðarinnar heldur er það hlutverk þrotabús Landsbankans. Með neyðarlögunum gerði þáverandi ríkisstjórn gríðarlega mikið fyrir breska og hollenska innstæðueigendur. Hún færð innistæður í forgangskröfur án tillits til upphæðar. Áður voru eingöngu innistæður upp að EUR 20.887 tryggðar, núna eiga innstæðueigendur möguleika á mun hærri endurheimtur innistæðna sinna. Það á að duga að Icesave samningurinn fjalli um það hvernig eignum Landsbankans verði best komið í verð og að þrotabúið verji eigum sínum í að greiða innstæðueigendum. Hafa skal í huga, að þegar neyðarlögin voru sett, þá vissu menn ekki betur en að eignir Landsbankans myndu duga ríflega fyrir öllu Icesave skuldbindingu. Hvernig það endar vitum við ekki fyrr en búið er að gera upp bankann.
Hvar sem við stöndum í þessu máli, þá skulum við hafa í huga, að bresk og hollensk stjórnvöld ákváðu sjálf, án þess að spyrja, að greiða út innistæður á Icesave reikningunum annars vegar upp að 50.000 pundum og hins vegar 100.000 evrum. Þessar upphæðir á Landsbankinn að greiða til baka eins og efni standa til og íslenski tryggingasjóðurinn á að ábyrgjast töluna upp að EUR 20.887. Hafi bresk og hollensk stjórnvöld fjármagnað útborgun sína með lánum (sem ég efast um), þá er sjálfsagt að koma til móts við þau með greiðslu vaxta fyrir lágmarksupphæðinni (EUR 20.887), en ekki það sem umfram er og eingöngu þá vexti sem þessi stjórnvöld þurfa að greiða. Við eigum ekki að greiða eitthvað vaxtaálag. Annars er þetta eins og með íslensku bankana og lækkun höfuðstóls sem sótt er til baka með hækkun vaxta.
Eignir Landsbankans ættu að duga vel fyrir fyrstu EUR 20.887 og því sem þessi tvenn stjórnvöld greiddu aukalega og talsverðu af því sem umfram er. En það sem er mikilvægast af öllu fyrir okkur Íslendinga er að endurgreiðsla fari fram í rökréttri röð, þ.e. borgað sé sama upphæð inn á alla reikninga uns annað tveggja gerist að krafa er að fullu endurgreidd eða peningarnir búnir. Það á ekki að gera það eins og Bretar og Hollendingar kröfðust, að greitt væri jöfnum höndum tvöfalt inn á innistæður umfram EUR 20.887. Það er gegn öllum hefðum, þegar kemur að greiðslur úr þrotabúi upp í kröfur. Eins og áður hefur komið fram, var það ákvörðun þessara tveggja ríkisstjórna að greiða meira en ESB tilskipunin kveður úr um. Þær verða því að axla ábyrgð á þeim reikningi hér eftir sem hingað til. Einfaldasta lausnin væri líklegast að þessar tvær ríkisstjórnir eignist einfaldlega gamla Landsbankann með húð og hár og reyndu sjálfar að gera sem mest mat úr eignum hans, en þá væri íslenski tryggingasjóðurinn laus allra mála. Það gæti auk þess skapað nokkur hundruð störf í þessum löndum á kostnað íslenskra bankastarfsmanna.
Á þessari stundu er mikilvægast af öllu að íslensk stjórnvöld hætti að bölsótast út í allt og alla sem vilja verja hagsmuni þjóðarinnar, þó þau séu ekki sammála leiðinni. Hætti þessu svartnættistali og heimsendaspám. Það er að koma í ljós, að umheimurinn hefur ekki bara skilning á málstað okkar, hann hreinlega styður hann. Það eru allir orðir yfir sig þreyttir á því að einkavæða hagnað en þjóðnýta tapið. Ríkisstjórnin á að nýta höfnun forsetans sem vopn í baráttunni fyrir betri samningi í staðinn fyrir að skríða afsakandi fyrir fætur lénsherranna. Hún á að standa keik, en ekki beygð. Ég held að þegar upp verður staðið, þá fáum við betri samning fyrir vikið.
Hagsmunir fólks settir ofar hagsmunum banka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
6.1.2010 | 17:00
Skynsemisrödd úr óvæntri átt
Óhætt er að segja, að hér komi stuðningur úr óvæntri átt. Moody's tekur allt annan pól í hæðina, en félagar þeirra hjá Fitch Ratings. Raunar má segja að Moody's setji með áliti sínu ofan í við Fitch Ratings og geri svo grín að þeim að auki. Icesave skuldbindingarnar skelli jú ekki á ríkinu fyrr en eftir 8 ár eða svo.
Ég gagnrýndi Fitch Ratings harkalega í færslu í gær. Mér sýnist álit Moody's staðfesta að gagnrýni mín átti fullkomlega rétt á sér. Fitch Ratings hljóp á sig, það er málið. Nú er spurning hvort þeir séu nokkuð of stoltir til að viðurkenna mistök sín og endurskoða þessa dæmalaus ákvörðun frá því í gær.
En álit Moody's kallar líka á gagnrýni á stjórnvöld. Þau hafa haldið því ítrekað á lofti að tafir á Icesave og hvað þá höfnun myndi setja lánshæfismat Íslands í uppnám. Vissulega leit allt út fyrir það eftir, það sem ég vil kalla, frumhlaup Fitch Ratings í gær. Bæði álit S&P í morgun og Moody's núna setja allt annað hljóð í strokkinn. Raunar er álit Moody's svo jákvætt, að það léttir manni barasta lund .
Moody's: Ísland þolir tímabundna óvissu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
6.1.2010 | 13:49
Fyrirsláttur að ekki sé hægt að skrá nöfn rétt
Bróðursonur minn heitir góðu og gildu íslensku nafni Matthías Guðmundur og síðan er hann Þorsteinsson. Þetta gerir 33 stafir með stafabilum. Hann heitir því ekki þessu nafni samkvæmt þjóðskrá. Sama gildir um fjölmarga Íslendinga. Þeir fá ekki að heita nöfnunum sem þeir voru skírðir ásamt kenninafni.
Ég hef nokkrum sinnum á undanförnum 25 árum eða svo rætt við starfsmenn Hagstofunnar og fleiri opinbera aðila um þetta mál og hélt að þessu hefði verið breytt fyrir löngu. Skýringin í upphafi á þessu var tæknilegs eðlis. (Fyrirgefið mér, en nú ætla ég út í umræðu um ævaforna tölvutækni sem þótti fín áður en ég hóf mína skólagöngu.) Allt byggir þetta á bitum og bætum. Í gamla daga voru takmarkanir á lengd sviða í gagnatöflum. Færsla gat verið 128 bæti eða ASCII stafir. Þegar starfsmenn Þjóðskrár (eða hver það nú var) voru að skoða hvaða upplýsingar þurfti að halda utan um, þá var bara 31 stafur til ráðstöfunar fyrir nafnið eftir að búið var að setja niður allt annað sem var bráðnauðsynlegt að hafa. Þannig að 128 ASCII stafa takmörkunin sem var til staðar 1964 (eða hvenær það nú var) ræður því í dag að nöfn geta ekki verið lengri. Þetta er náttúrulega gjörsamlega fáránlegt. Þrátt fyrir miklar tækniframfarir, sú stærsta líklegast þegar færslan stækkaði úr 128 ASCII stöfum í heila 256, hefur þessu bara aldrei verið breytt. Ennþá sitjum við uppi með takmörkun frá því fyrstu tölvurnar komu til Ísland á sjöundaáratugnum.
Það er fyrir löngu búið að skipta út gömlu IBM tölvunum og gagnagrunnunum sem notaðir voru áður en helmingur núlifandi Íslendinga fæddist. Það er búið að stækka gagnatöflur þjóðskrár, þannig að meiri upplýsingar eru skráðar núna. En allt kemur fyrir ekki, það er Þjóðskráin sem ræður hvað fólk heitir en ekki einstaklingurinn (foreldrarnir). Það skal tekið fram, að breytingin á þessu er í reynd mjög einföld og flestir forritarar geta framkvæmt hana á nokkrum mínútum. Þegar ég sá um nemendabókhaldskerfi Iðnskólans í Reykjavík 1992 - 1997, þá breytti ég þessu og því fengu nemendur Iðnskólans að heita réttum nöfnum, ef þeir vöruðu okkur bara við vitleysunni. Ég hafði einfaldlega tvö nafnasvið. Annað með þjóðskrárnafninu og hitt með fullu nafni. Vissulega kom einn og einn með svona "brasilískt" nafn, þ.e. að því virtist óendanlega mörgum millinöfnum, en það voru slíkar undantekningar að þær skiptu ekki máli.
Mér finnst það hálf aumt, að það sé ekki búið að breyta þessu. Eins og ekki sé hægt hjá Þjóðskránni að halda rétt utan um nöfn fólks, þó svo að sú tafla sem send er út til valinna áskrifenda hafi hugsanlega nafnasviðið eitthvað styttra og byggi á 128/256 stafa forminu. Flestir eru með upplýsingakerfi sem ráða við nafnið í fullri lengd. Hvað sem því líður, þá er það óafsakanlegt, að 45 ára gömlu takmörkun á færslulengd í Þjóðskrá skuli ákveða hvað fólk heitir í upplýsingakerfum landsmanna. Þetta er náttúrulega ekkert annað en hneyksli.
Mér finnst að nær hefði verið fyrir umboðsmann Alþingis, að krefjast þess að þessi ritháttur verði lagður niður og tekin upp nútímalegri vinnubrögð. Það er gott og blessað að hafa reglur um forna siði, en betra er leggja af úrelta tækni. Við þurfum ekki einu sinni að færa hlutina til nútímans. Strax 1980 og alveg örugglega 1990 réð tæknin við svona flókin fyrirbrigði eins og 33 stafa nöfn og jafnvel lengri
Ráðuneyti vanrækti í 13 ár að setja reglur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.1.2010 | 19:39
Í dúr við annað frá Fitch
Þessi matsfyrirtæki eru ótrúleg. Þau skilaboð hafa aftur og aftur komið frá þeim, að þess meiri skuldbindingar sem ríkissjóður tekur á sig, þess betri verði lánshæfismatið! Ég held að allir bankamenn séu sammála um, að sá sem skuldar lítið sé líklegri til að geta staðið undir nýjum lánum en sá sem skuldar mikið.
Í haust, þegar Alþingi setti lög með skilyrðum fyrir ríkisábyrgð á Icesave skuldbindingunum, þá lækkaði lánshæfiseinkunnin. Nokkrum vikum síðar, þegar nýr samningur var gerður með auknum byrðum, þá töldu matsfyrirtækin það jákvætt. Erum menn hjá þessum fyrirtækjum að vinna fyrir Breta og Hollendinga? Ég hefði haldið að lögin frá því í haust hefðu átt að styrkja lánshæfismatið, þar sem verið var að setja þak á skuldbindingarnar og að nýr samningur við Breta og Hollendinga hefði átt að veikja lánshæfismatið. Ég satt best að segja skil hvorki upp né niður í röksemdafærslum þessara fyrirtækja.
Orðspor matsfyrirtækjanna er svo sem ekkert sérstakt í mínum huga. Hægt var, að því virtist, að kaupa frá þeim AAA mat á verðbréfum hér á árum áður, enda var samkvæmt skýrslu bandaríska verðbréfaeftirlitsins (SEC) frá sumrinu 2008 enginn aðskilnaður milli þeirra sem öfluðu samninga og sömdu um verk annars vegar og þeirra sem sáu síðan um matið hins vegar. Hvernig er hægt að láta sama aðilann semja um verð og síðan sjá um matið? Mér detta svona samskipti "Bíddu, síðast þegar ég samdi við þig, þá settir þú bréfin mín í ruslflokk. Ég sem ekki aftur við þig." "Nei, þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur. Matið verður betra núna og verðið lækkar aðeins." Þannig var þetta víst árin 2005 - 2008, ef ekki lengra aftur. Skuldabréf Glitnis fengu AAA mat sem er sama og bandarísk ríkisskuldabréf! Kannski er það viðvörun til eigenda bandarískra ríkisskuldabréfa að innan ekki langs tíma fáist eingöngu 5 - 20% fyrir þau!
Fitch lækkar lánshæfismat | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.1.2010 | 16:06
Sorgleg er erlenda pressan
Það er sorglegt að sjá erlendu pressuna. Hver einn og einasti étur upp sömu þvæluna um að Ísland ætli ekki að borga. Sorglegasta dæmið var "sérfræðingur" BBC Business News sem kom blaðskellandi fram með eitthvert það argasta bull sem ég hef heyrt. Guardian, BBC News, Times og Reuters eru með sömu vitleysuna í fréttum sínum. Helst lítur út fyrir að þessir aðilar taki bara við fréttatilkynningum frá breskum stjórnvöldum.
Ætli það sé eins með fólk hérna innanlands. Ég fékk nefnilega póst áðan, þar sem fullyrt var að lögin frá því í ágúst væru verri en lögin sem forsetinn neitaði að samþykkja. Þetta sýnir bara að fáir hafa kynnt sér málið og flestir treysta því að viðmælendur þeirra hafi rétta vitneskju.
Kaldar staðreyndir málsins eru:
- Alþingi samþykkti Icesave samninginn frá því í sumar með skilyrðum. Með þeim lögum gengust íslensk stjórnvöld í skilyrta ábyrgð fyrir Icesave skuldum Landsbankans.
- Ólafur Ragnar Grímsson samþykktin lögin frá því í ágúst með þeim ummælum að lengra yrði ekki gengið. Það mátti því reikna með, að hann féllist ekki á frekari kröfur Breta og Hollendinga.
- Skilyrði Alþingis féllu Bretum og Hollendingum ekki í geð og íslenska samninganefndin gaf (nær?) algjörlega eftir.
- Viðaukinn við Icesave samninginn frá því í september var með skilyrðum sem engin leið var að samþykkja og gengu að sumu leiti lengra en ákvæði upprunalega samningsins.
- Það eru þessi viðbrögð Breta og Hollendinga við skilyrðum Alþingis sem fjallað var um í Icesave málinu hinu síðara (eða ætti víst að segja öðru því fleiri munu fylgja).
- Forsetinn hefur núna vísað frá lögum vegna síðari skilyrða Breta og Hollendinga, þar sem hann telur kröfur landanna ganga og langt
Ákvörðun Íslands hneyksli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
4.1.2010 | 13:22
Er Landsbankinn að bregðast við gagnrýni Hagsmunasamtaka heimilanna? - Bankarnir geta gert betur!
Landsbankinn hefur ákveðið að feta í fótspor hinna bankanna og bjóða niðurfærslu skulda. Bjóða núna allir bankarnir, þ.e. Íslandsbanki, Arion banki og Landsbankinn sambærilegan "pakka", þó vissulega sé einhver bitamunur á útfærslunni. Ég get ekki annað en velt því fyrir mér hvort Landsbankinn sé með þessu að bregðast við útreikningum Hagsmunasamtaka heimilanna, sem birtur var í vikunni fyrir jól, en þar kom Landsbankinn langverst út í samburði.
Annars er það með þessi úrræði eins og önnur sem sett hafa verið fram. Þau ganga of skammt. Svigrúm bankanna þriggja er umtalsvert meira en það sem þeir nýta. Samkvæmt skýrslu AGS þá voru lán heimilanna færð frá gömlu bönkunum til þeirra nýju með um 45% afslætti. Komið hefur fram í gögnum, að skuldir heimilanna hjá bönkunum námu um 700 milljörðum. Af því nema gengistryggð lán um 30% og verðtryggð því um 70%. Heimildir HH greina, að gengistryggð lán hafi verið flutt yfir með a.m.k. 50% afslætti og verðtryggð með allt að 30% afslætti. Þetta eru hvorutveggja tölur sem áreiðanlegur aðili gaf mér upp fyrir um þremur vikum. En gefum okkur að gengistryggð lán séu færð niður um 50% og verðtryggð lán um 20%. Þá hefur verðmæti lánasafnanna færst úr því að vera 100% í 0,5*30% + 0,8*70% = 71% eða lækkað um 29%. Eftir standa þá 45% - 29% = 16% sem hægt er að nota á tvo vegu. Annars vegar til að mæta meiri afskriftum af einstökum lánum eða greiða fyrir hærri fjármögnunarkostnað bankanna.
Varðandi hærri fjármögnunarkostnað, þá snýst það eingöngu um gengistryggða hluta lánanna. Verðtryggð lán eru fjármögnuð með verðtryggðum innlánum og þar hefur vaxtamunurinn haldist nokkurn veginn óbreyttur í nokkurn tíma og banka- og gjaldeyrishrun breytir því ekkert. Það er því eingöngu fjármögnunarkostnaður gengistryggðra lána sem hefur mögulega hækkað eða hvað? Gengistryggð lán voru áður fjármögnuð með vaxtaskiptasamningum sem fólu það í sér að íslensku bankarnir tóku erlend lán og erlendir aðila gáfu út svo kölluð jöklabréf. Íslensku bankarnir skiptu síðan á skuldbindingum við jöklabréfaútgefendur, þ.e. íslensku bankarnir tóku að sér að greiða jöklabréfin en erlendu aðilarnir greiða af erlendu lánunum. Það var þess vegna sem krónan féll. Svo íslensku bankarnir gætu fengið gengishagnað á útlánin sín án þess að það hefði áhrif á útgreiðslu þeirra til jöklabréfaeigenda. En aftur að fjármögnunarkostnaði gengistryggðra lána. Raunar skiptir ekki megin máli hver sá kostnaður var. Það sem skiptir megin máli er hve miklu hærri vexti geta bankarnir greitt fyrir fjármögnun lánanna í dag. Þar skipta þessi 16% sem ekki fóru í lækkun höfuðstóls öllu máli, en þau er hægt að nota til að greiða hærri vexti.
Ef við gefum okkur að gengistryggðu lán séu til 25 ára, þá verður að dreifa 16%-unum yfir öll 25 árin. Þar sem upphæðin lækkar jafnt og þétt, þá lækkar vaxtagreiðslan einnig. Gengisþróun spilar einnig inn í þetta og því gef ég mér að lánum sé breytt yfir í óverðtryggð lán í íslenskum krónu (sem er í sjálfu sér bara viðurkenning á því að lánin voru alltaf íslensk). Eðlilegasta leiðin til að fjármagna þessi lán er að nota óverðtryggð innlán, en slíkir reikningar bera allt niður í 0,5% vexti samkvæmt vaxtatöflum bankanna. En aftur að 16%-unum. Ef við dreifum vaxtagreiðslunum á 25 ár, þá duga þessi 16% fyrir ríflega 4,5 prósentustigum í hærri fjármögnunarkostnað en áður. Þ.e. hafi bankinn fjármagnað sig á 1% vöxtum, þá gæti hann fjármagnað sig á 5,5% vöxtum og samt komið út með smávægilegan afgang, ÞÓ SVO AÐ VEXTIR ÓVERÐTRYGGÐU LÁNANNA YRÐU ÞEIR SÖMU OG VORU Á GENGISTRYGGÐU LÁNUNUM. Gengisþróun hefur verið tekin út úr vandamálinu, þar sem nú eru lánin óverðtryggð í íslenskum krónum. Með 50% afslátt, þá ættu allir að vilja að skipta yfir, sérstaklega þar sem óverðtryggðu vextirnir yrðu mjög lágir.
Með þessari aðgerð, þ.e. að færa verðtryggð lán niður um 20% og gengistryggð niður um 50% og breyta þeim jafnframt í óverðtryggð lán, þá leyfi ég mér að fullyrða, að stærstur hluti lántaka hjá bönkunum þremur mun komast á beinu brautina. Í þeim tilfellum, sem það tekst ekki, verður verðmæti trygginga (þ.e. veðs) oftast nægilega hátt til að standa undir skuldinni. (Höfum í huga að viðkomandi verður búinn að fá 20 eða 50% niðurfærslu.) Vissulega gætu bankarnir myndað varasjóði með því að færa verðtryggð lán niður um, segjum, 18% og gengistryggð um, segjum, 45% og býst ekki við því að nokkur lántaki andmælti því. Eftir standa mun betri lán og bjartari rekstrarhorfum fyrir bankana, þar sem búið væri að greiða úr 99% vandans.
Hafa skal í huga, að Íbúðalánasjóður stendur fyrir utan þetta og samgildir um lífeyrissjóðina og alla smærri sparisjóðina. SPRON, Frjálsi og BYR (samkvæmt nýjustu fréttum) virðast hafa sama/svipað svigrúm og bankarnir. Því þarf að finna lausn á vanda hinna. Ég hef áður bent á að fyrir lífeyrissjóðina, þá er þetta lítið mál. Sjóðfélagalán námu um 10% af eignarsafni sjóðanna 31.12.2008 og 20% niðurfærsla nemur því 2% af eignarsafninu. Það nemur suma daga ekki einu sinni dagsveiflunni. ÍLS og smærri sparisjóðir eru verra mál. Þessir aðilar þurfa að semja við sína lánadrottna eða að þetta verði fjármagnað eftir öðrum leiðum, svo með andvirði af sölu eignarhluta ríkisins í bönkunum, sérstökum fjármagnstekjuskatti eða með skuldbreytingu sem leyfir þessum aðilum að afskrifa niðurfærsluna yfir lengri tíma.
Landsbankinn boðar aðgerðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
1.1.2010 | 17:48
Icesave í þjóðaratkvæði - Mætum á Bessastaði
Það var kostulegt að fylgjast með Icesave umræðunni á Alþingi. Hver þingmaður Samfylkingarinnar kom upp á fætur öðrum og viðurkenndi að nauðsynlegt væri að samþykkja frumvarpið þó það væri vissulega gert í nauð. Við ættum engan annan kost. Ég taldi þá ekki færri en fjóra sem gerðu á þennan hátt grein fyrir atkvæði sínu, en ekki einn einasti skýrði út í hverju nauðin væri fólgin. Og í allri umræðunni skýrði ekki einn einasti fylgismaður frumvarpsins út hvers vegna fallast yrði á hin og þessi ákvæði frumvarpsins með sterkari rökum en "af því bara". Jú, það var minnst á þjóðréttarlegar skuldbindingar, en rökin vantaði.
Ég er alveg til í að samþykkja alls konar hluti, ef færð eru viðhlítandi rök fyrir hlutunum. Það var aldrei gert varðandi Icesave frumvarpið hið síðara. Aldrei. Ég hef heldur aldrei fengið viðhlítandi rök fyrir því að erlendu tryggingasjóðirnir skuli fá eina krónu fyrir hverja eina krónu sem íslenski sjóðurinn fær. Þetta er sú mesta vitleysa sem ég hef nokkru sinni heyrt. Ef tveir aðilar eiga kröfu vegna Icesave, annar upp á EUR 15.000 og hinn upp á EUR 30.000, þá gætu málin axlast svoleiðis, að sá fyrri fengi fljótlega EUR 9.000 greiddar, en sá síðari EUR 18.000, bara vegna þess að sá fyrri á bara eina kröfu á hendur Landsbankanum/íslenska tryggingasjóðnum en sá síðari tvær. Hvaða lagaspekúlanti datt í hug þessi fáránlega aðferð? Það kemur íslenska tryggingasjóðnum ekkert við, að Bretar og Hollendingar ábyrgjast hærri upphæð en íslenski tryggingasjóðurinn og tilskipun ESB segir til um. Ég skil vel að menn vitni í yfirlýsingar Geirs H. Haarde um að engar innstæður tapist, en Björgólfur Thor lýsti því líka yfir og ekki erum við að ganga á hann.
Annað sem ég skil ekki, er að tvisvar var samninganefnd veitt afmarkað umboð til samninga og tvisvar fór samninganefndin út fyrir sitt umboð. Auk þess voru samningarnir gerðir með fyrirvara um samþykki Alþingis. Í sumar hafnaði Alþingi í raun fyrri Icesave samningnum. Með þær upplýsingar að vopni fór samninganefndin aftur viðsemjenda og hvað gerist? Hún kemur til baka með skottið á milli fótanna, þar sem hún ákvað að hunsa lög frá Alþingi. Hvaða heimild hafa embættismenn til að hunsa lögin? Er það eitthvað séríslenskt fyrirbrigði að hópur embættismanna geti ákveðið að lög eigi ekki að standa?
Nú er síðasta hálmstrá vitiborinna Íslendinga, að forsetinn neiti að staðfesta lögin. Því miður tel ég litlar sem engar líkur á því að hann geri það. Forsetanum er nefnilega "falið að tryggja [vilja þjóðarinnar] þótt ætíð verði að meta aðstæður og afleiðingar ákvarðana". Þetta segir mér að Ólafur Ragnar muni í ljósi aðstæðna og líklegra afleiðinga staðfesta þennan jólaglaðning til þjóðarinnar. Jólaglaðning sem er í boði Landsbankans, "banka allra landsmanna", eins og hann auglýsir gjarnan.
Já, það er þessi sami Landsbanki og mun kosta skattgreiðendur um 200 milljarða vegna endurreisnar og þessi sami Landsbanki og býður starfsmönnum kaupauka, ef þeir ná að kreista nógu mikið út úr hverjum viðskiptavini sem gerði þau herfilegu mistök að treysta "banka allra landsmanna". Já, og þetta hinn sami Landsbanki sem hefur neitað alfarið að koma á nokkurn hátt til móts við heimilin í landinu með niðurfellingu stökkbreyttra skulda, stökkbreyting sem á rætur að rekja til glannaskapar fáeinna óvita sem stjórnuðu bankanum. Já, þetta er sami Landsbanki og lánaði eigendum sínum margfalt eigið fé sitt þrátt fyrir að lög bönnuðu slíkt. Já, þetta er sami Landsbanki og hvers stjórnarformaður skilur eftir hátt í 100 milljarða ógreidda í gjaldþroti sínu. Og þessu er ekki lokið, þar sem þessi sami Landsbanki átti háar skuldir hjá Seðlabanka Íslands. Það er óhætt að segja, hvað sem glannaskap Kaupþingsmanna við kemur, að einkavæðing Landsbankans er dýrasta flopp Íslandssögunnar. Reikningurinn, sem þjóðin fær vegna þessa, er vart undir 700 milljörðum og þá er ekki meðtalið tap í formi innstæðna almennings í peningasjóðum, hlutabréfa annarra en fjárglæframannanna, skuldabréfa í eigu lífeyrissjóðanna og annað smávægilegt sem nemur kannski 3-400 milljörðum til viðbótar. Það eru því líklegast 1.000 milljarðar sem skattgreiðendur og almenningur fá í hausinn í staðinn fyrir þessa 10 milljarða sem ríkið fékk á sínum tíma. Ömurleg ávöxtun það.
Séu þetta ekki nægar ástæður fyrir forseta Íslands til að hafna nýju Icesave frumvarpi, þá munu þær aðstæður aldrei skapast að hægt verði að hafna frumvarpi. Vilji þjóðarinnar er skýr. Hún vill þjóðaratkvæðagreiðslu. Skora ég á forseta Íslands að virða vilja þjóðarinnar. Síðan skora ég á fjármálaráðherra að hefja án tafar aðgerð til að kyrrsetja allar eigur helstu eigenda, stjórnenda og stjórnarmanna Landsbankans (þess gamla) hvar sem þær er að finna í heiminum. Það tók stuttan tíma að kyrrsetja eigur Baldur Guðlaugssonar og er glæpur hans lítilfjörlegur samanborið við glæpa hinna. Hann var bara embættismaður sem taldi lögin ekki eiga við sig. Hinir voru a.m.k. eitt af eftirfarandi: heimskir, vanvitar, sofandi, einfeldningar, glannar, vanhæfir eða glæpamenn, svo fátt eitt sé talið upp.
Minni svo alla sem geta að mæta til Bessastaða kl. 11.00 í fyrramálið 2. janúar, þegar undirskriftir með áskorun til forseta Íslands verða afhentar. Hafa skal í huga, að um friðsamlega aðgerð er að ræða. Nánari upplýsingar er að finna í eftirfarandi færslu: Indefence: Mætum öll á Bessastaði á morgun
Meirihluti fyrir þjóðaratkvæði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 3
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 37
- Frá upphafi: 1680018
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 33
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði