Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009
30.6.2009 | 14:47
Er ráðherrann að verja hlutinn sinn?
Allar tölur um útlán sýna að skuldabyrði heimila fer sívaxandi. Hvort sem mælt er út frá tekjum, ráðstöfunartekjum eða eignum, skuldabyrðin er komin í hæstu hæðir. Hér kemur gott frumvarp í anda þess sem er við líði í mörgum löndum í kringum okkur sem m.a. mun stuðla að því að skuldabyrði heimilanna lækkar og útlánabrjálæði bankanna er sett takmörk. Hvað gerist þá? Jú, ráðherra, sem jafnframt er stofnfjáreigandi í BYR, sér frumvarpinu eitt og annað til foráttu. Ég get ekki annað en velt því fyrir mér hvort ráðherra sé að verja hagsmuni kjósenda eða eigin hagsmuni sem stofnfjáreiganda.
Það jákvæða við þetta frumvarp er að lánastofnanir verða að vera ábyrgari í útlánum. 100% lán munu heyra sögunni til og jafnvel 80% bílalán fyrir nýjum bílum. (Við vitum, jú, að bílinn lækkar um 20% í verði við það að vera ekið út af bílastæði bílaumboðsins.) Það er bara jákvætt, að lánveitendur verði að taka áhættuna með lántakendum. Það er gjörsamlega fáránlegt, að lánveitendur geti haft meiri tryggingu, en þá eign sem þeir sjálfir samþykktu að taka að veði. Lánasamningurinn var um tiltekna eign, en ekki allar eignir lántakandans, hvað þá tekjur hans um ókomna tíð, þó að lántakandinn væri búinn að tapa eigninni sem sett var að veði.
Kaupþing er í reynd búið að viðurkenna, að veðlausi hluti veðlána, þ.e. sá hluti lánsins sem er umfram verðmæti eignarinnar, verður líklegast ekki innheimtur. Íbúðalánasjóður hefur gert það í mörg ár. Nú er bara spurningin hvort fleiri fylgja í fótspor þessara aðila af sjálfsdáðum eða vegna þess að sjálfsögð réttarbót verði að lögum.Verði frumvarp Lilju Mósesdóttur og fleiri að lögum, þá fyrst verður hægt að verðleggja lánasöfn nýju bankanna og þá verður hægt að hefja endurreisn heimilanna. Þess vegna er nauðsynlegt að málið fái skjóta afgreiðslu á Alþingi og verði að lögum á sumarþingi.
Lánshlutfallið gæti hugsanlega lækkað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
29.6.2009 | 17:26
Ég neita að vera kallaður óreiðumaður út af Icesave
Mér finnst hann furðulegur málflutningur Gylfa Magnússonar. Hann úthrópar Íslendinga óreiðumenn, ef við göngumst ekki undir þann nauðungarsamning sem Icesave samningurinn er. Kannski að blessaður maðurinn hafi ekki heyrt um álit seðlabanka Frakklands og háttsetts aðila innan sænska seðlabankans (eða hvar það nú er). Þessir aðilar hafa bent á, að Tryggingasjóðurinn hafi EKKI verið hugsaður til að standa undir kerfishruni og því væri ósanngjarnt að ætlast til þess að Íslendingar bæti tjónið upp að EUR 20.887 einir.
Mér vitanlega er ekki nein ríkisábyrgð á Tryggingasjóði innistæðueigenda. Ábyrgðin er hjá aðildarfyrirtækjum sjóðsins. Vissulega á ríkið hluta af þeim fyrirtækjum, en þó bara sum þeirra. Landsbankinn, Kaupþing og Glitnir bera ábyrgð á sjóðnum í hlutfalli við innlán hjá þessum aðilum undanfarin ár. Tryggingasjóðurinn á því ríkari kröfu á þessa banka en hamskiptinga þeirra í formi ríkisbanka. Hafi þeir ekki greitt inn í sjóðinn, eins og reglu kváðu á um, þá þarf að tryggja að slíkar kröfur séu forgangskröfur.
Ég er einn af þeim sem viðurkenna ábyrgð Tryggingasjóðsins gagnvart Icesave út frá laganna hljóðan. Ég fellst aftur ekki á það, að íslenskir skattgreiðendur þurfi að taka á sig 3-400 milljarða í vexti vegna þess að Bretar og Hollendingar vilja fá 5,55% vexti af skuldinni. Það er bara bull.
En aftur að óreiðumönnunum. Hvernig fær Gylfi það út að Íslendingar séu óreiðumenn, ef ekki er fallist á Icesave samninginn? Þó samningurinn verði felldur, þá er ekki þar með sagt, að ekki verði gerður nýr hagstæðari samningur sem síðar verður samþykktur. Óreiðumennirnir í þessu máli eru ekki hinn almenni Íslendingur. Við skrifuðum ekki upp á Icesave skuldbindingarnar. Ég frábið mér allt tal um að ég sé óreiðumaður út af Icesave.
Lágkúrleg þykir mér sú staðhæfing ráðherrans, að slæmt sé að líkjast Kúbu og sýnir skort á sögukunnáttu. Kúba var blómlegt land, þar til "stórveldið" Bandaríkin ákvað fyrir um 50 árum, að stjórnvöld á Kúbu væri þeim ekki þóknanleg. Hið mikla "stórveldi" ákvað að leggja efnahag eyjunnar í rúst, vegna þess að Kúbverjar ákváðu að samþykkja ekki nauðasamning "stórveldisins". Kúbverjar bjuggu yfir nægu stolti til að hafna afarkostum "stórveldisins" og búa frekar við fátækt. Allir sem hafa einhvern vott af siðferðiskennd viðurkenna að meðferð "stórveldisins", sem hagað hefur sér eins og villingurinn á skólalóðinni, á nágrönnum sínum, er út í hött. Hér er um skipulagt einelti að ræða og verður "stórveldinu" ekki til sóma í sagnfræðiritum framtíðarinnar.
Frekar vil ég búa á Kúbu norðursins, en þiggja afarkosti Breta og Hollendinga og annarra villinga, sem halda að þeir séu meiri menn af því að þeir geta níðst á 320 þúsund manna þjóð í ballarhafi. Að kalla okkur óreiðumenn vegna þess að við viljum bjóða villingunum byrginn er furðulegu sleikjugangur. Við höfum ekki neitað að borga. Við viljum hafna þeim samningi sem er á borðinu. Um það snýst málið. Svo skulum við ekki gleyma því, að þetta eina prósent sem átti að renna í tryggingasjóðinn íslenska, er lægri upphæð, en stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi hafa af innistæðunum á Icesave reikningunum í formi fjármagnstekjuskatts.
Getum staðið við Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
28.6.2009 | 01:09
Vaxtamunur bankanna: Eru rökin röng?
Ég var að lesa ýtarlega fréttaskýringu Morgunblaðsins á endurreisn bankanna og þeim vandamálum sem þar er staðið frammi fyrir. Höfundurinn, Pétur Blöndal, listar upp fjögur atriði sem skipti mestu máli, þ.e. misvægi í gjaldeyrisjöfnuði bankanna, neikvæðum vaxtamismun, verðtryggingarójafnvægi og verðmatsóvissu. Bent er á að skuldahliðin á efnahagsreikningi nýju bankanna sé að uppistöðu til innlendar innistæður sem færðar voru úr gömlu bönkunum, en eignahliðin sé að mestu í erlendri mynt, eða um 60%, sem felst í lánum til innlendra fyrirtækja og einstaklinga (heimila).
Út frá gjaldeyrisjöfnuði, þá er staða bankanna mjög slæm og standast þeir engan veginn kröfur Seðlabankans sem leyfa 10% misvægi vegna einstakra mynta. Þetta veldur vissulega miklum vanda, en greinarhöfundur telur vaxtamismuninn vera stærra vandamál.
Ég get ekki annað en furðað mig á þessari ályktun greinarhöfundar um vaxtamismuninn. Vissulega eru vextir gengisbundinna útlána lægri en vextir innlendra innlána. Þar munar talsverðu. Málið er að þar sem skuldirnar eru innlendar, þá verður greinarhöfundur og allir þeir sem vinna með þessar tölur að telja gengisbreytinguna frá lántökudegi sem vexti. Hafi aðili (fyrirtæki eða einstaklingur) fengið lán að fjárhæð kr. 10 milljónir í ársbyrjun 2008 og gefum okkur að það hafi hækkað vegna gengisbreytinga í kr. 20 milljónir, þá hefur þetta lán gefið bankanum 100% ávöxtun umfram þá föstu vexti sem eru á láninu. Það er umtalsvert meira en þau u.þ.b. 30% sem innlánin hafa kostað. Það er út í hött að miða vaxtamismuninn eingöngu við vextina sem gengisbundnu lánin bera, en vilja tengja bæði vexti og verðbætur við innlendu innistæðurnar. Horfa verður á upphaflega höfuðstól lánanna og mæla hvað hann hefur hækkað.
Ef skuldir bankanna væru í erlendri mynt að sömu upphæð og eignir þeirra, þá liti þetta allt öðruvísi við. Þær eru það ekki. Það er málið. Menn geta ekki sagt að skuldahliðin hafi breyst á 18 mánuðum með vöxtum og verðbótum, en síðan hefur eignahliðin bara breyst í samræmi við vextina. Slík rök standast ekki. Meðan skuldirnar eru í íslenskum krónum, þá verður að meta hækkun eignanna líka í íslenskum krónum og það mat verður að taka mið af eftirstöðvum lánanna miðað við gengi á lántökudegi. Öll hækkun lánsins umfram þá tölu er því ávöxtun. Að segja eitthvað annað er út í hött. Menn geta ekki stillt annarri hliðinni þannig að ekkert sé tekið tillit til 100% hækkunar eignarinnar í íslenskum krónum frá lántökudegi. Þó svo að"vextirnir" hafi þegar komið fram í bókhaldinu með "markaðsvirðingu" lánanna, þá innheimtast "vextirnir" ekki fyrr en greitt er af láninu. Fram að því er bara um "pappírshagnað" að ræða, sem hefði getað snúist og mun snúast upp í "pappírstap" um leið og krónan styrkist. Það er því bókhaldsaðferðin sem er að mynda vaxtamismuninn, en ekki raunverulega innheimtir vextir. Þessum útreikningum mætti því t.d. "bjarga" með því að hætta að við að færa lánin upp til dagsgengis hinna erlendu gjaldmiðla (enda er það hvort eð er bannað samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur).
Hafa skal í huga, að nýju bankarnir munu þurfa að afskrifa/gefa eftir háar fjárhæðir af útlánum sínum. Heyrst hefur að andvirði útlána til fyrirtækja/lögaðila sé innan við 30% af núverandi "markaðsvirtum" höfuðstóli lánanna og samsvarandi tala vegna lána til einstaklinga sé á bili 50-70%. Mér sýnist (og grein Pétur staðfestir það) að enginn hafi í raun grænan grun um það hvers virði eignasöfnin eru. Snyrtilegasta lausnin virðist vera að nýju bankarnir yfirtaki lánin í íslenskum krónum miðað við gengi á útgáfudegi og síðan sé unnið út frá því. Stór hluti þessara lána er hvort eð er sokkinn kostnaður og það dregur úr líkum bankanna á að eitthvað innheimtist að halda til streitu "markaðsvirtum" höfuðstóli skuldanna. Með þessu eru margar flugur slegnar í einu höggi.
Þetta leysir vandann varðandi gjaldeyrisjöfnuðinn. Þetta leysir vandann varðandi vaxtamuninn, því innheimtist einhver gengismunur, þá færist hann sem vextir. Þetta leysir málið varðandi mat á eignasöfnum. Það vita það allir, að það að nota núverandi gengi sem viðmið til að meta stöðu eignasafna er bara sjálfsmorð fyrir nýju bankana nema menn ætli að stillta krónuna fasta í 180 kr. fyrir 1 evru um ókomna tíð eða að japanska jenið sé fest í 1,34 kr. Gerist það, þá er hagkerfið hvort eð er í rúst og hvorki fyrirtækin né heimilin í landinu eiga sér viðreisnar von, hvað þá bankarnir.
Óttist menn að erlendir kröfuhafar setji sig upp á móti þessu, þá held ég að það sé ástæðulaus ótti. Horfum á þetta raunhæft. Nýju bankarnir munu skulda gömlu bönkunum háar fjárhæðir, þegar uppgjörið á sér loksins stað. Gefum okkur að það verði 270 milljarðar króna í stað 450 milljarða króna, ef markaðsvirðisaðferðinni væri beitt. Ef fyrri leiðin verður farin, þá mun hagkerfið rétta úr kútnum og gengið styrkjast og gefum okkar að evran fari í 135 kr. Þá hefur verðmæti skuldabréfanna vegna uppgjörsins skyndilega hækkað úr 1,5 milljörðum evra í 2 milljarða evra og styrkist krónan frekar, þá gerir upphæðin í evrum ekkert annað en að hækka. Ef við förum hina leiðina, þá er ekkert sem bendir til þess að krónan rétti úr kútnum. Raunar er margt sem bendir til þess að hún haldist veik áfram og jafnvel veikist frekar. 230 kr. fyrir evruna er ekki langsótt niðurstaða. 450 milljarðarnir breytast þá úr því að vera 2,5 milljarðar evra í innan við 2 milljarða evra. Miðað við þessar forsendur hafa erlendir kröfuhafar því meiri hag af því að gefa eftir núna og veðja á styrkingu krónunnar, en það spila af hörku og hreinlega stuðla að veikingu hagkerfisins.
En aftur að upphafinu. Það skekkir verulega allan samanburð að mæla hækkun erlendra gjaldmiðla inn í höfuðstól löngu áður en greiðsla á sér stað. Það er einmitt þannig bókhaldsaðferðir sem komu okkur í þau spor sem við erum í og raunar fjármálakerfi heimsins. Nauðsynlegt er að víkja frá þeirri aðferðafræði og telja ekki vextina (hækkunina) fyrr en krónurnar koma í hús. (Bændur hafa lengi haft þann sið að telja það fé sem kemur af fjalli og er það góður siður.) Ástæðan fyrir því að það sama á ekki við um innlánin, er að verðbætur eru greiddar inn á innistæður reglulega. Peningarnir eru því færðir inn á reikningana og innistæðueigandinn getur nálgast þá með litlum fyrirvara. Lánveitandinn hann verður aftur að bíða þar til afborgun er komin á gjalddaga með innheimta uppreiknaða hækkun afborgunarinnar vegna breytingar á dagsgengi. Þessi grundvallarmunur breytir öllu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.6.2009 | 22:00
Tölur Seðlabankans gefa ranga mynd - staðan er verri
Sé Jóhanna óánægð með stöðu heimilanna samkvæmt tölum Seðlabankans, þá verður hún ennþá óánægðari, þegar hún sér réttar tölur. Ég hef legið yfir þessum tölum undanfarnar 2 vikur og meðal annars komst af eftirfarandi:
1. Tölur Seðlabankans ofmeta stórlega greiðslugetur heimila með lágar og meðalháar ráðstöfunartekjur.
2. Seðlabankinn ofmetur greiðslugetu heimila vegna húsnæðislána, þ.e. algengt er að áætla að allur húsnæðiskostnaður þurfi að vera undir 30% af ráðstöfunartekjum, en Seðlabankinn miðar við að greiðslubyrði lána þurfi að vera undir 30% af ráðstöfunartekjum.
3. Tölur Seðlabankans vanmeta þann fjölda sem eru í slæmum málum vegna gengisbundinna lána, þar sem ekki er gerð tilraun til að greina hver greiðslubyrði lánanna er þegar frystingu lýkur. Hafa skal í huga að milli 1.000 - 1.200 af 2.300 aðilum með gengisbundin lán hjá Kaupþingi eru með lánin sín í frystingu.
4. Tölur Seðlabankans sundurliða ekki greiðslubyrði þeirra heimila með lægstu ráðstöfunartekjurnar og sýna því ekki hvernig dreifingin er hjá þeim hópi sem stendur verst.
Ég hef skrifað grein um þetta sem ég hef óskað eftir birtingu á í Morgunblaðinu. Vonandi birtist hún á allra næstu dögum. Annars mun ég birta hana hér á blogginu mínu. Niðurstöður mínar eru í grófum dráttum að 36% heimila séu með MJÖG ÞUNGA greiðslubyrði, 18% með ÞUNGA greiðslubyrði og 46% séu í hvorugum af þessum hópum. Það þýðir ekki sjálfkrafa að greiðslubyrðin sé viðráðanleg.
(Breytti "sýna" í "sundurliða" í tölulið 4 kl. 11:15 27.6.2009 og lagaði textann fyrir aftan "og" einnig til.)
Frekari aðgerðir vegna skuldsettra heimila | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 27.6.2009 kl. 11:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
25.6.2009 | 00:11
Dropinn holar steininn - Bankar og þingmenn hlusta á HH
Hagsmunasamtök heimilanna hafa barist fyrir því af eldmóði frá því að samtökin voru stofnuð í janúar, að komið væri til móts við kröfur samtakanna um leiðréttingu þeirra lána sem blásist hafa út á undanförum tæpum tveimur árum. Við höfum beitt fyrir okkur alls konar rökum, en þau mikilvægustu eru réttlæti, skynsemi og sokkinn kostnaður. Nú virðist með sem dropanum hafi tekist að hola steininn.
Á fundi í gær (miðvikudag) með Finni Sveinbjörnssyni, bankastjóra Nýja Kaupþings, og Helga Bragasyni, lánastjóra, kynntu þeir fyrir okkur aðferð sem Kaupþing býður viðskiptavinum sínum. Aðferðin felst í því að lækka höfuðstól yfirveðsettra skulda í 80% af veðhæfi/fasteignamatsverði og breyta öllum lánum í verðtryggð krónulán, hámark 30% til viðbótar eru færð í svo kölluð BIÐLÁN og það sem umfram er verður afskrifað/gefið eftir. Biðlánin eru óverðtryggð og vaxtalaus til 2-3 ára, en að þeim tíma liðnum er staðan endurmetin. Endurmatið getur m.a. leitt til þess að um frekari eftirgjöf verður að ræða. Rök Kaupþings fyrir því að fara þessa leið í staðinn fyrir að vísa öllum í greiðsluaðlögun, er fyrst og fremst hversu tímafrek greiðsluaðlögunin er. Viðskiptavinir eiga ekki að þurfa að óttast að koma verr út úr þessu, þar sem Kaupþing hefur einhliða samþykkt fyrirvara um betri rétt neytenda samanber eftirfarandi yfirlýsingu á vef bankans:
Nýi Kaupþing banki lýsir því yfir að þeir viðskiptavinir bankans sem undirrita skilmálabreytingar húsnæðislána, t.d. vegna greiðslujöfnunar og frystingar, fyrirgeri ekki réttindum sínum til að óska eftir öðrum úrræðum síðar, þ.e. úrræðum sem þegar eru til staðar eða úrræðum sem bjóðast í framtíðinni, enda uppfylli þeir skilyrði fyrir nýtingu úrræðanna. Sama gildir um önnur réttindi sem neytendur kunna að njóta samkvæmt lögum.
Annar banki er einnig (a.m.k. óopinberlega) byrjaður að koma til móts við skuldara. Hans leið er að taka yfir yfirveðsettar eign og bjóða gamla eigandanum að kaupa hana aftur með 60-80% veðsetningu. Þá er lánum yfir þessu veðsetningarhlutfalli einfaldlega lyft af eigninni og þau afskrifuð. Munurinn á þessum tveimur bönkum er að annar miðar við fasteignamatsverð, en hinn við gildandi markaðsverð. Kaupþing ákvað að sögn Finns og Helga að miða við fasteignamatsverð vegna þess að ekki sé til neitt "markaðsverð" miðað við núverandi ástand á fasteignamarkaði.
Mér sýnist þessar tvær aðferðir geta fallið undir ákvæði reglugerða nr. 534/2009 sem ég fjalla um í færslunni Reglugerð um skattfrelsi eftirgjafar skulda nýtist ekki öllum. Vissulega mættu þær ganga lengra, þ.e. að taka á vanda þeirra sem ekki eru yfirveðsettir en hafa lent í mikilli höfuðstólshækkun á undanförnum tæplega tveimur árum.
Tillaga Kaupþings er mjög í anda þeirrar tillögu sem ég setti fram 28. september og útfærði nánar 7. október sl. Get ég því ekki verið annað en sáttur við hana, eins langt og hún nær. Þetta er ekki fullnaðarsigur, en án efa áfangasigur.
Veðkrafa takmarkist við veð
Lilja Mósesdóttir, Álfheiður Ingadóttir, Björn Valur Gíslason, Þór Saari, Birgitta Jónsdóttir og Eygló Harðardóttir hafa lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um samningsveð, nr. 75/1997. Frumvarpið er nánast bara eftirfarandi setning:
Lánveitanda sem veitir lántaka lán gegn veði í fasteign sem er ætluð til búsetu samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda er ekki heimilt að leita fullnustu fyrir kröfu sinni í öðrum verðmætum lántaka en veðinu nema krafa hafi orðið til vegna saknæmra athafna eða meintra brota lántaka á lánareglum. Krafa lánveitanda á lántaka skal falla niður ef andvirði veðsins sem fæst við nauðungarsölu nægir ekki til greiðslu hennar. Með lántaka er átt við einstakling. Með lánveitanda er átt við einstakling, lögaðila eða aðra aðila sem veita fasteignaveðlán í atvinnuskyni.
Þetta mál er eitt af heitustu baráttumálum Hagsmunasamtaka heimilanna og fögnum við framkomu þess ákaflega. Nú er bara tryggja framgang þess á þinginu. Miðað við ný viðhorf bankanna til yfirveðsettra eigna, þá er lag að ná fram þessari sjálfsögðu réttarbót.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
24.6.2009 | 23:16
Reglugerð um skattfrelsi eftirgjafar skulda nýtist ekki öllum
Fjármálaráðuneytið hefur gefið út reglugerð um skilyrði þess að eftirgjöf skulda manna utan atvinnurekstrar teljist ekki til tekna o.fl. nr. 534/2009. Full ástæða er að fagna hugsuninni sem liggur að baki reglugerðinni og verður hún mikil réttarbót fyrirfjölmarga skuldara. En eingöngu þá sem eru í verstri stöðu! Skilinn er eftir stór hópur skuldara sem hefur mátt þola mikinn órétt vegna stjórnlausrar hækkunar á höfuðstóli lána langt umfram það sem forsendur lánasamninga gerðu ráð fyrir. Til þess að njóta skattfrelsisins á sanngjarnri leiðréttingu lána, þá verður fólk nefnilega að vera komið á vonarvöl.
Fyrst skal nefna, að í 1. gr. er fest í reglugerð áralöng viðtekin venja, þ.e. að eftirgjöf skulda í tenglum við nauðasamninga og/eða nauðungarsölu hefur (mér vitanlega) aldrei verið tekjuskattskyld, að minnsta kosti hjá einstaklingum en líklegast ekki hjá fyrirtækjum. Munurinn á einstaklingi og fyrirtæki er þó, að fyrirtækið á yfirleitt uppsafnað tap, sem hægt er að nota á móti slíkri eftirgjöf, en einstaklingurinn ekki þrátt fyrir að líklegast hefur heimilisreksturinn verið í góðum mínus mörg undangengin ár áður en til eftirgjafarinnar kemur.
Það getur verið að skuldara hafi borið hingað til að gefa eftirgjöf skuldar upp til skatts. Slíkt hefur bara ekki verið venja. Fróðlegt væri að vita hve miklar skatttekjur ríkissjóður hefur haft af slíkum málum undanfarin 10 ár. Hugsanlega eru þær einhverjar, en þá í mjög fáum málum. Hér skortir mig þekkingu og því vel þegið, ef einhver með betri vitneskju gæti lagt orð í belg. En sé þetta rétt, sem ég segi, þá er með reglugerðinni verið að rjúfa hefð.
Greinin sem ég tel rjúfa hefðina, er grein 3. Þar segir:
Eftirgjöf skulda eða niðurfelling ábyrgðar telst ekki til skattskyldra tekna þótt formleg skilyrði 1. gr. séu ekki uppfyllt, ef sannað er á fullnægjandi hátt að eignir eru ekki til fyrir þeim. Það telst sannað að eignir eru ekki til fyrir skuldum þegar gerðar hafa verið ítrekaðar árangurslausar innheimtutilraunir, þar með árangurslaust fjárnám eða allar eignir skuldara eru metnar yfirveðsettar og fullvíst talið að skuldari og eftir atvikum maki séu ófær til greiðslu.
Skilyrði eftirgjafar skv. 1. mgr. er að fyrir liggi með formlegum hætti að skuld eða ábyrgð hafi verið gefin eftir samkvæmt hlutlægu mati á fjárhagsstöðu skuldara, og eftir atvikum maka hans, sem sýni að engar eignir séu til fyrir skuldum og aflahæfi sé verulega skert til greiðslu skulda að hluta eða öllu leyti þegar ákvörðun um eftirgjöf er tekin. Einhliða ákvörðun kröfuhafa er ekki nægileg í þessu sambandi heldur skal hún studd gögnum hans eða til þess bærra aðila.
Það eru þessi orð: "Það telst sannað að eignir eru ekki til fyrir skuldum þegar gerðar hafa verið ítrekaðar árangurslausar innheimtutilraunir, þar með árangurslaust fjárnám eða allar eignir skuldara eru metnar yfirveðsettar og fullvíst talið að skuldari og eftir atvikum maki séu ófær til greiðslu." Skipta má þessu upp í nokkra OG/EÐA liði:
1. Ítrekaðar árangurslausar innheimtutilraunir, þar með árangurslaust fjárnám: Ekki er gefinn kostur á samningum milli aðila um mál án þess að árangurslaust fjárnám hafi farið fram. Mál þurfa að fara í aðfaraferli áður en hægt er að semja um eftirgjöf, sem nýtur skattfrelsis. Þetta hefur aldrei þurft áður. Kröfuhafi hefur hingað til getað gefið kröfu sína eftir, svo sem afskrifað eða lækkað höfuðstól, án þess að kröfugreiðandi hafi þurft að greiða tekjuskatt af eftirgjöfinni.
2. Allar eignir skuldara eru metnar yfirveðsettar..: Hvað með þá sem tóku lán sem samsvaraði t.d. 30% af veðhæfi fasteignarinnar og er nú komið upp í 70% af veðhæfi vegna annars vegar hækkunar á höfuðstóli og hins vegar lækkunar á fasteignaverði? Á þetta fólk að þurfa að sætta sig við að þurfa að bera hækkunina bótalaust eða greiða annars tekjuskatt af sanngjarnri leiðréttingu lána sinna?
3. ..og fullvíst talið að skuldari og eftir atvikum maki séu ófær til greiðslu: Það er sem sagt ekki nóg með að fólk eigi ekkert lengur eigið fé í fasteigninni sinni, heldur verður það að vera ófært um að greiða. Þarna hefði verið nóg að fólk sé ófært um að greiða.
Raunar ætti að vera nóg, að greiðslubyrði hafi aukist verulega, skuldabyrði hafi aukist verulega eða að innheimtuaðgerðir hafi ekki borið árangur. Útfærsluna er eðlilegt að leggja í hendur kröfuhafa, því það er að lokum kröfuhafinn sem þarf að skera úr hvort betra sé að veita viðkomandi skuldara eftirgjöf eða ekki, sem gæti m.a. falið í sér að setja hann í þrot og láta tilvonandi kaupanda njóta afskriftanna.
Nú verði frumvarp Lilju Mósesdóttur og fleiri um að ekki megi gera kröfu í aðrar eignir skuldara, en það veð sem lagt er undir:
Lánveitanda sem veitir lántaka lán gegn veði í fasteign sem er ætluð til búsetu samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda er ekki heimilt að leita fullnustu fyrir kröfu sinni í öðrum verðmætum lántaka en veðinu nema krafa hafi orðið til vegna saknæmra athafna eða meintra brota lántaka á lánareglum. Krafa lánveitanda á lántaka skal falla niður ef andvirði veðsins sem fæst við nauðungarsölu nægir ekki til greiðslu hennar. Með lántaka er átt við einstakling. Með lánveitanda er átt við einstakling, lögaðila eða aðra aðila sem veita fasteignaveðlán í atvinnuskyni.
Fari þetta í gegn er um mjög mikla réttarbót að ræða fyrir skuldara. Ég myndi þó telja að nauðsynlegt væri að þetta tæki til bílalána einnig.
Loks má benda á reglugerð nr. 119/2003 um meðferð krafna Íbúðalánasjóðs sem glatað hafa veðtryggingu. Í henni er lýst heimildum ÍLS til að koma til móts við skuldara, sem misst hafa eignir sínar á nauðungarsölu, til að lækka höfuðstól lána sem eftir standa til jafns við innborganir skuldara og að fella eftirstöðvar niður að 5 árum liðnum. Fróðlegt væri að vita hve margir hafi nýtt sér þetta úrræði og hvort þeir sem nýttu sér það hafi gefið eftirgjöfina upp til skatts.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Bresk stjórnvöld verja hryðjuverkalögin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.6.2009 | 22:25
8% hátekjuskattur, en 27% "lífeyrisþegaskattur"
Bandormurinn er ómerkileg árás á þá sem minnst mega sín
Samkvæmt mínum útreikningi þá fela tillögur ríkisstjórnarinnar í sér allt að 27% "lífeyrisþegarskatt". Já, 27% meðan hátekjuhópurinn greiðir 8% og aðrir ekki neitt.
Jafnaðarmennska Samfylkingarinnar á sér engan líka.
ÖBÍ: Siðlaus tekjulækkun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
19.6.2009 | 22:15
Bandormurinn er ómerkileg árás á þá sem minnst mega sín
Hún er sérkennileg forgangsröðun ríkisstjórnarinnar, þegar kemur að niðurskurði ríkisútgjalda. Fyrsti hópurinn sem ráðist er á með niðurskurðarhnífnum er gamla fólkið og öryrkjarnir. Sá skattur sem þessir hópar þurfa að sitja uppi með er ekki 8%, eins og þeir tekjuháu þurfa að bera. Nei, hann mælist í tugum prósenta. Já, þau eru lítilmannleg ráðin sem jafnmenn og félagshyggjuöflin búa yfir.
Frítekjumark ellilífeyrisþegar er skert um 60%! Já, 60% og ekki er lengur hægt að "telja 60% af atvinnutekjum til tekna við útreikning tekjutryggingar". Þessi 60% eiga nú að skerða tekjutryggingu sem nemur 38,35% og það er ekki gert eftir skatta, heldur áður en skattar eru reiknaðir. Sá sem hefur nýtt sér upphæðina að fullu, þ.e. jafngildi 100.000 á mánuði, er skattlagður sem nemur 38.35% af 60.000 kr. eða sem nemur 23.010 kr. á mánuði. Þessi einstaklingur fær því 23% "ellilífeyrisþegaskatt" á 100.000 kr. tekjur. Já, þau eru breið bökin sem ellilífeyrisþegarnir hafa. Hver áhrifin verða af því að afnema möguleikann á því að "telja 60% af atvinnutekjum til tekna við útreikning tekjutryggingar" er óljós í krónum talið en "lífeyrisþegaskatturinn" er 23%.
Og eins og þessu sé þá lokið. Nei, aldeilis ekki. Greiðslur úr "skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum" undir 300.000 kr. skertu ekki tekjutryggingu áður, en nú á að lækka þessa upphæð um 60%! Aftur er skellt 23% "lífeyrisþegaskatti" á tekjur þeirra sem hafa minnst milli handanna.
Úps! Í bráðabirgðaákvæði V. við bandorminn er lætt inn nýrri skerðingu. Skerðing vegna tekna er hækkuð úr 38,35% í 45%, þannig að skatturinn er ekki 23% heldur er "lífeyrisþegaskatturinn" 27%. Er ekki í lagi hjá félagsmálaráðherra? Á það að vera réttlæting að þetta var svona 2007. Hættið þessu bulli og takið ykkur saman í andlitinu. Kannski væri rétt að skikka þá sem samþykkja þessa vitleysu til að lifa á þeim tekjum það ætlar öðrum.
Nú aldurtengd örorka á að skerðast. Höfum í huga að sá hluti hópsins, sem kemur verst út úr þessu, eru þeir sem greindust fyrst með örorku og hafa því lengst verið öryrkjar. Þetta er fólkið sem á minnst réttindi í lífeyrissjóðum og fá minnstar greiðslur vegna örorku sinnar. Furðuleg er forgangsröðunin.
Ég veit ekki alveg hvað félagsmálaráðherra gengur til með þessu, en Jóhönnu Sigurðardóttur hlýtur að svíða að sjá sína fyrrverandi skjólstæðinga eiga að borga brúsann. Samkvæmt öllum gögnum er þetta sá tekjuhópur sem stendur verst. Í nýlegum tölum Seðlabankans, þá er þetta sá hópur sem er með hæstu greiðslubyrði sem hlutfall af tekjum. Að öllum líkindum er þetta sá hópur, sem varla getur séð sér farborða. Ég spyr bara: Er það markmið ríkisstjórnarinnar að auka á örbirgðina meðal þessa hóps?
Gleyma menn því, að á annan tug þúsunda ellilífeyrisþega tapaði stórum hluta að ævisparnaði sínum við fall bankanna. Fólk sem hafði safnað af eljusemi og fylgt góðum ráðum um að leggja sparnaðinn í "trygg" hlutabréf bankanna. Fyrst er það svipt eigum sínum og síðan eru tekjurnar skornar niður fyrir hungurmörk.
En hvað þýða þessar skerðingar hjá lífeyrisþegum í krónum og aurum? Ríkissjóður ætlar að spara sér 1.830 milljónir á þessu ári og 3.650 milljónir á næsta ári eða alls 5.480 milljarða á tveimur árum. Auk þess á að spara 1.000 milljónir í barnabætur og 3.040 milljónir í sjúkratryggingar, þó ekki sé skýrt út í lögunum hvernig þær tölur eru fengnar! Til samanburðar er áætlað að hátekjuskattur hafi svipuð áhrif og "lífeyrisþegaskatturinn". Fólkið sem minnst má sín á að bera jafnmiklar byrðar og það sem hæstar tekjurnar hefur. Hún er stórmerkileg þessi jafnaðarmennska Samfylkingarinnar!
Ég verð að viðurkenna, að ég veit ekki hverju ríkisstjórnin ætlar að áorka með sumum af þessum skerðingum hjá lífeyrisþegum. Margir þeirra standa verulega höllum fæti í samfélaginu og með þessu aðgerðum er staða þeirra gerð ennþá verri. Það eru takmörk fyrir því hversu oft er hægt að hafa núðlur og spagettí í matinn, en fyrir mörgum liggur ekki annað fyrir. Greiðslubyrði lána hefur hækkað mikið og það hefur flest allt annað gert líka. Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum greiða tekjulægstu hóparnir í þjóðfélaginu hlutfallslega mest af tekjum sínum í afborganir af föstum lánum. Einstaklingur sem er með 150 þúsund í ráðstöfunartekjur og greiðir 30% í fastar greiðslur lána má ekki við því að tekjurnar skerðist nokkurn skapaðan hlut. Hjón (t.d. ellilífeyrisþegar) með 250 þúsund í ráðstöfunartekjur og 30% greiðslubyrði mega heldur ekki við skerðingu. Samt gerir ríkisstjórnin ráð fyrir að þetta fólk eigi að lifa á lægri tekjum en áður.
Samkvæmt tölum Seðlabanka Íslands eru um 50% þeirra sem eru með ráðstöfunartekjur á bilinu 150 - 250 þúsund á mánuði að greiða meira en 30% af ráðstöfunartekjum sínum í fastar afborganir lána. Ekki er vitað hver staðan er hjá þeim allra tekjulægstu, þar sem Seðlabankinn birti ekki þær tölur! Nú segir einhver að ekki séu það mörg heimili með undir 250 þúsund í ráðstöfunartekjur, en það er rangt. Samkvæmt tölum Seðlabanka Íslands voru 49% heimila í úttekt Seðlabankans um stöðu heimilanna með 250 þúsund eða minna í ráðstöfunartekjur á mánuði í febrúar 2009. Já, 49% heimila voru í tveimur lægstu tekjuhópum þjóðfélagsins. Önnur 17% voru með ráðstöfunartekjur á bilinu 250 - 350 þúsund. Það virðast helst vera hjón með börn sem ná því að vera með 500 þúsund eða meira í ráðstöfunartekjur, en helmingur þeirra ná þeim tekjum.
Úrræði ríkisstjórnarinnar er alvarlega aðför að velferðarkerfinu. Úrræðin leggja fjölmargar nýjar fátæktargildrur í leið þeirra sem eru á fullu að forðast þær sem fyrir eru. Ég skil vel að loka þurfi fjárlagagati þessa árs og næstu ára, en í þetta sinn helgar tilgangurinn ekki meðalið. Það hljóta að vera aðrar leiðir til að ná í þessa 5,4 milljarða en að níðast á þeim sem minnst mega sín.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
19.6.2009 | 17:42
Skoða þarf skyldur SPRON (og Frjálsa) til upplýsingagjafar
Það er nokkuð flóknara að slíta sparisjóði eða banka en öðrum fyrirtækjum. Liggur munurinn í þeim upplýsingum sem fjármálafyrirtæki meðhöndlar fyrir viðskiptavini sína. Í flestum tilfellum er um að ræða upplýsingar sem þurfa ekki aðeins að vera tiltækar heldur einnig rekjanlegar lögum samkvæmt. Ýmis lög gera kröfu um slíkt, m.a. þar nefna skattalög, lög sem kennd eru við MiFID eða gagnsæi í fjármálafærslum og síðan lög til varnar peningaþvætti.
SPRON er fyrsta fjármálafyrirtæki sem óskað er eftir slitum á hér á landi og hefur svona ríka upplýsingaskyldu. Áður hafa sparisjóðir verið yfirteknir og bankar sameinaðir, en eftir því sem ég best veit eru ekki fordæmi fyrir slitum fjármálafyrirtækis á borð við SPRON. Af þeirri ástæðu er ekki víst að menn hafi velt þessu öllu fyrir sér. A.m.k. komst ég að því um daginn, að ekki voru lengur tiltækar upplýsingar á rafrænu formi sem ég þurfti að grípa til við vegna uppgjörs á virðisaukaskatti. Í viðtölum við fólk komst ég að því að fjölmargir aðrir voru í sömu sporum.
Áður en til slita fyrirtækisins kemur verður að huga að þessum málum og finna viðunandi lausn. Hún gæti t.d. falist í því að Teris tæki að sér að veita áfram uppflettiaðgang að upplýsingum viðskiptavina SPRON. Það ætti varla að vera svo flókið mál, þó vissulega hafi það orðið flóknara við það þegar aðgangi að Heimabanka SPRON var lokað fyrir nokkrum vikum.
Vissulega er það á ábyrgð hvers og eins að halda eftir fullnægjandi upplýsingum til að hægt sé að framkvæma skattauppgjör, en rekjanleikareglur spila þarna inn í. Kostnaðurinn við að halda aðgengi að upplýsingum í gengum vefforrit getur varla verið það mikill að ekki sé hægt að bjóða slíka þjónustu. Fyrir utan að það væri stórt skref aftur á bak í sjálfvirknivæðingu skattframtala, ef stór hópur framteljenda þarf allt í einu að taka upp gamla lagið við skattauppgjör.
Sem sérfræðingur í öryggi upplýsinga, þá tel ég nauðsynlegt að þessum málum verið komið fyrir á viðunandi hátt. Hafa skal í huga að upplýsingaöryggi snýst um meira en leynd og trúnað. Það nær nefnilega líka til þess að réttar upplýsingar séu notaðar og að þeir sem til þess hafa heimild geti nálgast upplýsingarnar.
(Efni færslunnar á einnig við um Frjálsa fjárfestingabankann, sem líka hefur óskað eftir slitameðferð, sjá Frjálsi sækir um slitameðferð)
SPRON sækir um slitameðferð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.12.): 38
- Sl. sólarhring: 67
- Sl. viku: 346
- Frá upphafi: 1680484
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 41
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði