Leita í fréttum mbl.is

Er ráðherrann að verja hlutinn sinn?

Allar tölur um útlán sýna að skuldabyrði heimila fer sívaxandi.  Hvort sem mælt er út frá tekjum, ráðstöfunartekjum eða eignum, skuldabyrðin er komin í hæstu hæðir.  Hér kemur gott frumvarp í anda þess sem er við líði í mörgum löndum í kringum okkur sem m.a. mun stuðla að því að skuldabyrði heimilanna lækkar og útlánabrjálæði bankanna er sett takmörk.  Hvað gerist þá?  Jú, ráðherra, sem jafnframt er stofnfjáreigandi í BYR, sér frumvarpinu eitt og annað til foráttu.  Ég get ekki annað en velt því fyrir mér hvort ráðherra sé að verja hagsmuni kjósenda eða eigin hagsmuni sem stofnfjáreiganda.

Það jákvæða við þetta frumvarp er að lánastofnanir verða að vera ábyrgari í útlánum.  100% lán munu heyra sögunni til og jafnvel 80% bílalán fyrir nýjum bílum.  (Við vitum, jú, að bílinn lækkar um 20% í verði við það að vera ekið út af bílastæði bílaumboðsins.)  Það er bara jákvætt, að lánveitendur verði að taka áhættuna með lántakendum.  Það er gjörsamlega fáránlegt, að lánveitendur geti haft meiri tryggingu, en þá eign sem þeir sjálfir samþykktu að taka að veði.  Lánasamningurinn var um tiltekna eign, en ekki allar eignir lántakandans, hvað þá tekjur hans um ókomna tíð, þó að lántakandinn væri búinn að tapa eigninni sem sett var að veði.

Kaupþing er í reynd búið að viðurkenna, að veðlausi hluti veðlána, þ.e. sá hluti lánsins sem er umfram verðmæti eignarinnar, verður líklegast ekki innheimtur.  Íbúðalánasjóður hefur gert það í mörg ár.  Nú er bara spurningin hvort fleiri fylgja í fótspor þessara aðila af sjálfsdáðum eða vegna þess að sjálfsögð réttarbót verði að lögum.

Verði frumvarp Lilju Mósesdóttur og fleiri að lögum, þá fyrst verður hægt að verðleggja lánasöfn nýju bankanna og þá verður hægt að hefja endurreisn heimilanna.  Þess vegna er nauðsynlegt að málið fái skjóta afgreiðslu á Alþingi og verði að lögum á sumarþingi.


mbl.is Lánshlutfallið gæti hugsanlega lækkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Málið er kannski ekki alveg svona einfalt. Þetta frumvarp hennar Lilju gerir ráð fyrir að þetta komi til með að gilda fyrir öll þegar veitt lán. Nú er það þannig að stjórnarskráin bannar að lög séu afturvirk, þannig að ef Alþingi setur lög sem skerðir hlut kröfuhafa þá einfaldlega verður ríkissjóður ábyrgur fyrir greiðslu þess sem kröfuhafa fá ekki greitt frá skuldara. Þar með talið myndi þá stofnast krafa á ríkið sem kröfuhafar yrðu annars að afskrifa þar sem viðkomandi einstaklingur getur ekki borgað. Við myndum því endurvekja stærðar kröfu á ríkissjóð sem ella félli niður. Það væri því betur heima setið en af stað farið.

Svo er það umhugsunarefni að þingmaður, já meira að segja þingflokksformaður, vinstri grænna leggur fram frumvarp um að hindra að kröfuhafar geti gengið í eignir stóreignarmanna ef íbúðir þeirra nægja ekki fyrir þeim kröfum sem á þeim hvíla. Öðruvísi mér áður brá þegar aðrir þingmenn þessa sama flokks vildu gera eignir stóreignarmanna upptækar og svo væri það hlutverk stóreignarmannanna að sanna að þeir hafi ekki brotið neitt af sér.

Sigurður Geirsson (IP-tala skráð) 30.6.2009 kl. 15:02

2 Smámynd: Jón Svan Sigurðsson

Sigurður. Ég held Lilja sé að horfa á hagsmuni fjöldans frekar en að hér sé hægt að ganga að einhverjum peningum sem útrásarvíkingar munu skulda ef gengið verði að húseignum þeirra og þær duga ekki fyrir húsnæðisláninu. Þetta er það sem tíðkast annars staðar, en hér er því miður hægt að elta fólk endalaust. Það er ekki einnu sinni komið svona fram við þá sem hljóta refsidóma. Þeir afplána og svo ekki meir. En skuldara er hægt að elta þar til hann deyr. Ég segi bara frábært framtak hjá Lilju og hinum sem koma að þessu frumvarpi. Verst er að bílalán séu ekki inní þessu einnig.

Jón Svan Sigurðsson, 30.6.2009 kl. 16:40

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Sigurður, ég held að þú sért að lesa eitthvað allt annað út úr þessu en frumvarpið fjallar um.  Frumvarpið nær eingöngu til íbúðarhúsnæðis.  Um leið og húsnæðið er orðið, t.d. leiguhúsnæði og "stóreignarmaðurinn" hefur tekjur af því, þá fellur það ekki undir lögin (samkvæmt mínum skilningi á texta laganna). 

Þú talar umafturvirkni laganna.  Þau eru það ekki, þar sem þeir sem þegar hafa verið sviptir húsnæði sínu í gegnum nauðungarsölu geta ekki sótt um að ákvæði frumvarpsins gildi um sig.  Meðan ekki hefur farið fram nauðungarsala, þá er ekki vitað hvað fæst fyrir eignina.  Í dag er enginn hvati fyrir kröfuhafa að bjóða sanngjarnt verð fyrir eign, þar sem þeir gátu haldið áfram að elta skuldara út yfir dauða og gröf, eins og sagt er.  Verði frumvarpið að lögum, þá er kominn hvati til að hækka verð eigna á nauðungarsölu, þar sem þeir sem eru aftar í kröfuröðinni (eru á síðari veðréttum) sjá fram á að fá ekki neitt, ef boðið er fáránlega lágt í eignir.  Tökum dæmi sem ég hef heyrt af:  Íbúð í Suðurnesjum var með áhvílandi skuldir upp á um 20 milljónir, fasteignamat eignarinnar var 22 milljónir og hún seld á 1 milljón.  Skuldarinn situr upp með 19 milljónir á bakinu, þó svo að 22 milljóna eign hafi verið seld á nauðungarsölu.  Kröfuhafi á 1. veðrétti keypti eignina á 1 milljón, getur haldið áfram að rukka inn restina af sínu láni og gengið á aðrar eignir skuldarans.  Skýrðu nú út fyrir mér hvert er réttlætið í þessu.

Frumvarpinu er ætlað að koma í veg fyrir svona vitleysu.

Marinó G. Njálsson, 30.6.2009 kl. 16:47

4 Smámynd: Jón Svan Sigurðsson

Miðað við þau viðbrögð sem Árni Páll sýndi varðandi þetta frumvarp þá er maður dauðhræddur um menn skilji þetta ekki. Nákvæmlega þetta sem þú varst að segja Marinó.Skuldarinn situr upp með 19 milljónir á bakinu, þó svo að 22 milljóna eign hafi verið seld á nauðungarsölu.  Kröfuhafi á 1. veðrétti keypti eignina á 1 milljón, getur haldið áfram að rukka inn restina af sínu láni og gengið á aðrar eignir skuldarans.  Skýrðu nú út fyrir mér hvert er réttlætið í þessu. Munu þingmenn okkar skilja þetta???

Jón Svan Sigurðsson, 30.6.2009 kl. 17:09

5 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

,,...ef Alþingi setur lög sem skerðir hlut kröfuhafa þá einfaldlega verður ríkissjóður ábyrgur fyrir greiðslu þess sem kröfuhafa fá ekki greitt frá skuldara."

Að því gefnu að ríkið eigi kröfuna eins og algent er um þessar mundir, þýðir þetta þá að ríkið þurfi að rukka sjálft sig?

Þórður Björn Sigurðsson, 30.6.2009 kl. 17:30

6 identicon

Marinó, mig langar að spyrja þig sem stjórnarmann í Hagsmunasamtökum Heimilana hvort þú eða einhver úr HH hafi verið kallaður fyrir hjá þessari ráðherranefnd sem á að vinna að úrræðum fyrir heimilin í landinu? Þar sem Árni P, Ragna dómsmálaráðherra og Gylfi viðskiptaráðherra eiga sæti í.

Jón Svan Sigurðsson (IP-tala skráð) 30.6.2009 kl. 21:43

7 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Ég er reyndar á því að veðskuldir allar ekki bara húsnæði eigi hér eftir að falla niður við uppboð. Þetta yrði til þessa að lánveitendur vandi lánveitingar sínar. Og eins að fólk geti ekki skuldsett sig endalaust upp í topp. Og sem sagt að ekki sé hægt að ganga að frekari skuldum eftir að nauðungarsölu/uppboð. En ég hef hinsvegar ekki hugmynd um hvort hægt sé að láta þetta gilda afturvirkt? Þó findist mér sérstaklega að þeir sem voru að kaupa sína fyrstu íbúð 2007 og 2008 snemma ættu að geta borið fyrir sig forsendubresti ef hægt er.

En það sem maður vonar náttúrulega helst er að nýjar hugmyndir bankana vegna þeirra sem eru í erfiðleikum vegna íbúðakaupa reynist raunhæfar og hjálpi fólki þannig að fjöldi þeirra sem missa íbúðir sínar á nauðungaruppboð verði ekki of margir.

Magnús Helgi Björgvinsson, 30.6.2009 kl. 22:19

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Jón Svan, nei, við höfum ekki verið kölluð fyrir.  Ég vona að þau geri það, þó svo ég telji það ekki öruggt.

Magnús, ef þú ert að vísa í eitthvað sem ég var að segja, þá ertu að misskilja mig.  Ég var að vísa til tegund húsnæðisins, ekki tegund skuldanna.  Það á eftir að láta reyna á forsendubrestinn fyrir dómi og vonandi tekur það ekki langan tíma. Ég er sammála því að ég voni að ný úrræði bankanna reynist vel.  Byrjunin lofar góðu hjá Kaupþingi, svo er bara að sjá hvort hinir fylgja á eftir.

Marinó G. Njálsson, 30.6.2009 kl. 22:31

9 Smámynd: Jón Svan Sigurðsson

Spurning hvort þið krefjist þess einfaldlega að fá að koma fyrir þessa nefnd! HH á rétt á því að sjónarmið þeirra séu hlustuð á. Því ég efast um að í nefndinni sé nokkur maður eða félag sem kemur sjónarmiðum skuldara á framfæri. Þessir ráðherrar eru svo innilokaðir í sínum fílabeinsturni að "reality" venjulegs fólks er eitthvað sem það þekkir ekki. Það sést best á málflutningi þeirra. Þá sérstaklega Gylfa og Árna. Það er ótrúlega dapurlegt að hlusta á þessa tvo menn þegar þær ræða málefni heimilana í landinu. Gylfi veldur meiri vonbrigðum þar sem hann talaði allt öðruvísi áður en hann varð ráðherra. Árni er bara sannur við sig og óskiljanlegt að hann sé yfirmaður félags- og tryggingamála.

Jón Svan Sigurðsson, 30.6.2009 kl. 22:45

10 Smámynd: Offari

Eitt stærsta vandamálið í dag er að þegar góðir hlutir virðast vera að gerast þá á neikvæðnin það til að drepa hugmyndina. Það verður aldrei til nein gallalaus hugmynd heldu þarf að velja þær humyndir sem koma almennigi best að notum.

Hvað varðar afturvirkni laga þá tel ég að ríkistjórnin neyðist til að beita afturvirkni til að ná lögum yfir þá sem komu okkur um koll.

Offari, 30.6.2009 kl. 23:40

11 identicon

Marinó, dæmið sem þú tókst af suðurnesjunum er ekki alls kostar rétt, ekki nema viðkomandi íbúð sé ekki nema einnar milljónar virði. Ef við tökum þetta dæmi, veðskuldir 20 milljónir, fasteignamat 22 milljónir og selst á uppboði fyrir 1 milljón. Fasteignamat á að endurspegla staðgreiðsluverð íbúðar á viðkomandi tíma en þar sem markaðurinn er lækkandi þá skulum við í þessu dæmi gera ráð fyrir að markaðsvirði húsnæðisins sé 15 milljónir. Í þessu tilfelli telst þá kröfuhafi vera með 15 milljón króna eign í höndum fyrir kröfu sína og á þá ekki kröfu á uppboðsþola nema upp á 5 milljónir, ekki 19.

Nú er það svo að þeir sem tapað hafa eignum sínum á nauðungaruppboði geta ekki skotið sér bak við þessi lög (verði frumvarpið að lögum), en þeir sem eru skuldarar í dag og eru ekki komnir með eignir sínar á uppboð fá heldur ekki niðurfellt það sem útaf stendur af lánum þeirra við uppboð. Kröfuhafar munu eftir sem áður geta leitað í aðrar eignir til að fá fullnustu á kröfum sínum eða haldið kröfunni gangandi áfram. Þannig voru lögin þegar lánin voru veitt og þannig gerði því kröfuhafi ráð fyrir að geta innheimt kröfu sína. Ef þessu verður breytt þá er réttur kröfuhafa orðinn mun minni en hann var áður og hugsanlega verður hann fyrir tapi á kröfu sinni sem hann hefði hugsanlega annars ekki orðið fyrir. Ef þannig lög verða sett þá hefur Alþingi með lagasetningu sinni skapað kröfuhöfum tjóni, sem ríkissjóður verður þá ábyrgur fyrir. Það er það sem ég átti við með afturvirkni. Það er ekkert mál að koma þessu á við ný lán, en það mun væntanlega leiða til óhagstæðari lána til íbúðakaupa en hingað til hefur verið. Bæði í formi lægra lánshlutfalls en áður og jafnvel hærri vaxta vegna þess að áhættuálag þessara lána mun aukast.

Varðandi stóreignamennina þá eru þeir sennilega flestir fluttir fyrir löngu erlendis og eiga þar heimili. Margir þeirra ef ekki allir eiga hins vegar íbúðir eða íbúðarhúsnæði hér á landi. Ef þessi lög verða sett þá þýðir það að þeir geti látið þessar íbúðir sínar fara á nauðungarsölu og ef ekki fæst greiðsla á áhvílandi skuldum við endursölu íbúðarinnar þá er ekki hægt að sækja í aðrar eignir þeirra til að fullnustu á kröfunum, en við skulum hafa í huga fréttirnar sem við höfum verið að fá af sumum þeirra sem eiga íbúðarhúsnæði erlendis sem metið er á milljarða.

Sigurður Geirsson (IP-tala skráð) 1.7.2009 kl. 00:15

12 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Sigurður Geirsson, það er gott að þú þekkir dæmið svo vel að þú skulir geta leiðrétt mig.  Ég hitti sjálfur son eigandans og hann sagði mér málavöxtu.  Þetta er raunverulegt dæmi frá því fyrir nokkrum mánuðum.  Til að gera illt verra, þá voru vanskilin upp á nokkur hundruð þúsund af einu láni.  Öll önnur voru í skilum. Ekki segja mér svo hvað er rétt eða ekki.

Marinó G. Njálsson, 1.7.2009 kl. 00:30

13 Smámynd: Páll Geir Bjarnason

Þetta Keflavíkurdæmi hljómar mjög vafasamt. Glæpsamlega hreinlega.

Páll Geir Bjarnason, 1.7.2009 kl. 02:46

14 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Mér finnst það nú ómerkilegt skot fyrir neðan beltisstað að ætla Árna Páli það að skoðanir hans sé til komnar vegna eignarhluta sínum í Byr. Þetta eru alveg réttmætar athugasemdir hjá honum. Við skulum hafa það í huga að hér er saga mun meiri sveiflna í efnahagslífinu en við höfum að venjast í nágrannalöndum okkar og því er hætt við að lánshlutfall verði lægra en er í öðrum þeim löndum, sem hafa slíkar reglur.

Eins og Sigurður Geirsson bendir á þá er ekki hægt að láta þessa reglu gilda um þegar tekin lán án þess að ríkissjóður baki sér skaðabótaábyrgð. Einnig er að sömu ástæðu ekki hægt að láta kröfuhafa í þrotabú gömlu bankanna taka á sig kostnaðarauka vegna þessa. Slíkt væri brot á eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

Við skulum hafa það í huga að almenna reglan um lánveitngar er sú að lánveitandi getur sett allar eignir lántaka á uppboð greiði hann ekki af láninu. Veð er einungis til frekari trygginga. Það getur verið svolítið vafasamt að hafa reglurnar með þeim hætti að í raun minnki tryggingar á bak við lánin við það að veð sé tekið til frekari trygginga á þann hátt að þá sé ekki lengur hægt að ganga að öðrum eignum, sem annars væri hægt að ganga að ef ekkert veð væri bakvið lánið. Einnig skulum við hafa í huga að það er hægt að setja fleiri en eitt veð bakvið sama lánið. Því gæti lánveitandi einfaldega krafist þess að setja húsið, bílinn og önnur verðmæti öll að veði fyrir láninu og þar með gæti hann gengið að þeim öllum ef ekki væri greitt af láninu.

Ég myndi ekki gráta það ef lánshlutfall bílalána og annarra neyslulána myndi lækka verulega. Það gæti hins vegar verið mjög slæmt varðandi húsnæðislán. Húsnæði er það dýrt hér á landi miðað við laun að það er meira en að segja það að safna sér fyrir 30 til 40 prósentum íbúðaverðs áður en íbúð er keypt.

Leiðin, sem flestir munu fara til að kaupa sér íbúð verður þá með þeim hætti, sem algeng var hér áður en lánshlutfall íbúðalána hækkaði árið 2004 að fólk fær lánsveð hjá foreldrum fyrir því, sem upp á vantar eða megninu af því. Ef viðkomandi lántaki getur síðan ekki staðið í skilum og að í nauðungaruppboði fæst lítið eða ekkert meira upp í skuldir en það, sem hvílir á íbúð hans þá situr hann eftir með lánið, sem er með veði í íbúð foreldra sinna. Er það eitthvað slíkt, sem menn vilja fá í stað núverandi ástands?

Það, sem verra er þetta leiðir þá til þess að fólk, sem ekki hefur aðgang að lánsveðum hjá foreldrum eða öðrum og er ekki með þeim mun betri laun getur ekki eignast íbúð og er þar með dæmt til að vera alla tíð í leiguhúsnæði.

Svo skulum við heldur ekki gleyma því að þetta gæti leitt til hærri vaxta vegna meiri áhættu lánveitanda.

Með það í huga að þetta getur ekki átt við þegar tekin lán án þess að það baki ríkissjóði skaðagótaskyldu þá getur það skaðað hagsmuni þeirra, sem eru í fjárhagsvandræðum ef nú er tekin sú ákvörðun að þessi regla gildi un ný lán héðan í frá. Það gerir því fólkli erfiðara um vik að endurfjármagna lán sín til þess að koma betra skikki á fjármál sín. Lánveitandinn mun þá hugsanlega frekar vilja halda í gamla lánið með meiri rétti hans til að ganga að öðru eignum bæði núverandi og því, sem hann eignast síðar. Einnig mun lækkað lánshlutfall leiða til þess að ólíklegra er að lántaki geti greitt upp óhagstætt lán með nýju hagstæðara láni því það getur hann ekki fyrr en gamla lánið er komið niður fyrir það hámarskveðhlutfall, sem nýr lánveitandi er tilbúinn að fara í.

Að framansögðu þá tek ég undir það að ekki er víst að þessi lagabreyting bæti hag fjölskyldna í fjárhagserfiðleikum. Hún gæti þvert á móti gert stöðuna enn verri í mörgum tilfellum. Því held ég að menn verði að skoða málið vel og þingmenn ættu ekki hlaupa á eftir einhverju, sem hljómar vel í einhverri vinsældarkeppni að lítt- eða óathguðu máli.

Hvað dæmið varðandi uppboðið á Suðurnesjum varðar þá er það alveg rétt að það er svínslegt. Þó er ekki víst að hann standi uppi með 19 milljóna kr. skuld til langframa ef það er rétt, sem fram kom í Kastljósi fyrir nokkum mánuði hjá manninum, sem ætlaði að hætta að greiða af íbúðinni sinn sagði. Hann staðhæfði það að samkvæmt lögum ætti kröfuhafi, sem kaupir íbúð á uppboði til fullnustu kröfu sinni, að greiða mismunin á því verði, sem hann kaupir hana á og því verði, sem hann síðan selur hana á inn á ógreidd lán, sem hvíldu á íbúðinni. Ef þetta er rétt og kröfuhafinn, sem keypti íbúðina selur hana á 15 milljónir þá ber honum að greiða 14 milljónir af því inn á þau lán, sem ekki náðist fyrir á uppboðinu. Ég er hins vegar ekki lögfræðingur og veit því ekki hvort þetta er rétt hjá manninum.

Ég er sammála Marinó í því að það er ekki rétt að hægt sé að elta menn alla æfi vegna skulda, sem menn stofnuðu til í góðri trú en gátu síðan ekki greitt vegna breyttra forsendna, sem skuldari sjálfur átti ekki sök á. Mér finnst að það ætti að gilda annað um slík vanskil en vanskil, sem eru til komin vegna óráðsíu fólks í fjármálum. Ég tel að lausnin á því sé sú að ekki sé hægt að endurvekja fyrningarfrest vegna slíkra lána. Væntanlega væri þá framkvæmdin sú að ef lánveitandi höfðar mál til að endurvekja fyriningafrest þá skuli dómaari meta það hvort um vanskil vegna óráðsíu sé að ræða eða hvort um sé að ræða vanski, sem komu til vegna breyttra aðstæðna, sem skuldari gat ekki ráðið við. Ef um er að ræða vanskil vegna aðstæðna, sem skuldari gat ekki ráðið við þá beri dómar að hafna framlengingu fyringarfrests. Mér skilst að slík regla sé til staðar í einhverjum ríkjum Bandaríkjanna og hugsanlega víðar.

Sigurður M Grétarsson, 1.7.2009 kl. 11:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 45
  • Frá upphafi: 1678155

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 43
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband