Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

deCODE komið niður í penny stocks

Það er illa komið fyrir markaðsvirði þess fyrirtækis sem einu sinni var verðmætasta fyrirtæki landsins.  Verðmæti á markaði í dag USD 0,96 er ansi langt frá dölunum 60 sem verslað var með á gráa markaðnum fyrir 10 árum eða svo.  Vissulega var verðið á gráa markaðnum algjört bull og í engu samræmi við verðmat fyrirtækisins sjálfs eða innra verðmæti þess.  Á sama hátt er fall þess niður í penny-stock varla það sem eigendum og stjórnendur áttu von á.

Það er yfirleitt erfitt fyrir fyrirtæki að vinna sig upp úr falli niður fyrir 1 dal og þar með teljast til penny-stocks.  Þar sem ég veit að þetta verðmat hefur meira með markaðsatæður að gera en raunverulegt mat á fyrirtækinu, þá held ég að það eigi ekki að valda eigendum og stjórnendum of miklum áhyggjum.  Nú er greinilega kauptækifæri fyrir þá sem hafa pening og eru tilbúnir að fara í langtíma fjárfestingu.  Einnig ættu líkurnar á yfirtöku að hafa aukist verulega.

Ég er einn af þeim, sem hef tröllatrú á því sem fyrirtækið stendur fyrir, enda kynntist ég innviðum þess vel á sínum tíma sem starfsmaður þess.  Viðskiptahugmyndin er öflug, en líklegast er biðin eftir fyrsta lyfinu að reynast því fjötur um fót á markaði.  En gangi viðskiptahugmyndin upp, þá munu afurðir hennar gagnast komandi kynslóðum við að auka lífsgæði (a.m.k. hvað varðar heilsufar). 

Af þeim rannsóknum, sem komnar voru í gang, þegar ég vann fyrir ÍE, þá fannst mér langlífisrannsóknin áhugaverðust.  Það má segja, að með því að finna DNA-ið sem "veldur" langlífi þá finni menn anti-sjúkdómagenið.  Þ.e. það gen sem ver okkur fyrir sjúkdómum.  Hvort það sé síðan eftirsóknarvert að ná háum aldri verður hver að eiga við sig.


mbl.is Gengi deCODE niður fyrir 1 dal á hlut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðdragandinn að stofnun Microsoft

20. ágúst 1992 birtist eftir mig grein í viðskiptablaði Morgunblaðsins þar sem ég fór yfir aðdragandann að stofnun Microsoft með fókusinn á þátt Bill Gates.  Langar mig að endurbirta úrdrátt úr þessari grein hér af því tilefni að Bill Gates hefur ákveðið að stíga til hliðar.  Hana er síðan hægt að lesa í heild á vefsvæði mínu www.betriakvordun.is með því að smella hér.  Grein var unnin upp úr bókinni Hard Drive: Bill Gates and the Making of the Microsoft Empire eftir James Wallace og Jim Erickson, útgefandi John Wiley & Sons, 1992.

Maðurinn bak við Microsoft-veldið

Hin óopinbera saga Bill Gates

Það fer ekkert á milli mála að Bill Gates er snillingur á sínu sviði, hann hefur ljósmyndaminni, óvenjulega hæfileika til að spá fyrir um framtíðina og óþrjótandi kraft til að vera í hlutverki frumkvöðuls.  En Bill Gates er mjög umdeildur maður og hataður af mörgum í tölvuiðnaðinum. Í bókinni Hard Drive, er lýst snilli hans, en ekki síður fjallað um einstaklinginn, sem beitir vitsmunalegum kúgunum, er tilfinningalega vanþroskaður, skortir snyrtimennsku og krefst þess að aðrir vinni allan sólarhringinn eins og hann.  Einnig er lýst keppnishörku hans, þar sem annað sæti er sama og að tapa, sem leitt hefur til rannsókna á viðskiptaháttum fyrirtækisins á vegum bandarískra yfirvalda.

 

Fyrstu árin

William Henry Gates III fæddist 28. október 1955.  Árið 1967 var Trey (eins og hann var kallaður), þá 11 ára gamall, kominn langt fram úr jafnöldum sínum í stærðfræði og raungreinum.  Ákváðu þá foreldrar hans að senda hann í Lakesideskólann í Seattle, sem talinn var bestur allra einkaskóla á svæðinu.  Þar var grunnurinn lagður að lífi tölvusnillingsins Bill Gates.

Það var í Lakesideskólanum sem Gates komst fyrst í snertingu við tölvu.  Það var PDP-10 tölva,  en skólinn fékk aðgang að henni um litla fjarvinnsluvél (teletype machine).  Það var einmitt í tölvuherbergi Lakesideskólans, sem Bill Gates hitti Paul Allen, strák sem var tveimur árum á undan honum í námi.  Sjö árum seinna stofnuðu þeir saman Microsoft.

Bill Gates varð snemma mikill tölvugrúskari (eða hakkari).  Hann og Paul eyddu á stuttum tíma þeim 3.000 USD, sem Lakesideskólinn hafði í tölvukostnað.  Ekki bara það, heldur voru þeir félagar mjög duglegir við að skjóta tölvuna niður.  Af þeim sökum voru þeir fengnir í vinnu af Computer Center Corporation við að finna villur í stýrikerfi PDP-10 tölvu fyrirtækisins.  Í staðinn gátu þeir unnið eins mikið og þeir vildu á tölvunni, þó utan almenns vinnutíma.  Þar með var boltinn byrjaður að rúlla.

Microsoft verður til

Fyrsta fyrirtæki, sem þeir félagar komu á fót, hét Traf-O-Data.  Það bjó til búnað til að túlka gögn um umferðarþunga yfir í auðskiljanlegt tölulegt form.  Fyrirtækið þénaði um USD 20.000 á líftíma sínum, en komst aldrei á skrið.

Haustið 1973 fór Gates í Harvard háskóla, meðan Allen hélt áfram að vinna að verkefnum fyrir Traf-O-Data, en með litlum árangri.  Einn kaldan desemberdag 1974 var Paul Allen að fara í heimsókn til Gates.  Á leiðinni kom hann við í sjoppu og rakst þar á nýjasta tölublað tímaritsins Popular Electroincs.  Á forsíðu blaðsins var mynd af Altair 8080, fyrstu örtölvunni!  Allen keypti blaðið og sýndi Gates með þeim orðum að nú gætu þeir loksins gert eitthvað með BASIC.  Þeir höfðu samband við Ed Roberts, eiganda MITS fyrirtækisins sem framleiddi Altair, til að kynna fyrir honum hugmynd þeirra um BASIC fyrir Altair og fengu þau skilaboð að 50 aðrir hafðu haft samband og að sá, sem kæmi fyrstur með nothæfa útgáfu af BASIC fyrir Altair, hreppti hnossið.

Þeir félagar lögðu nú nótt við dag að búa til BASIC fyrir Altair.  Þegar Allen fór að hitta Roberts, kom í ljós að MITS var lítið meira en bílskúrsfyrirtæki, en það átti eftir að breytast.  Hjá MITS mataði Allen Altair tölvuna (þá fyrstu og einu sem hann hafði unnið á (!)) með BASIC kótanum og prófaði.  Og viti menn, það virkaði fullkomlega, öllum á óvart og Paul Allen ekki síst.

Þetta varð til þess að Microsoft var stofnað sumarið 1975.  Nafnið er stytting á „microcomputer software“.  Bill Gates hætti í Harvard, þrátt fyrir mótmæli frá móður sinni, sem vildi umfram allt að hann lyki námi.  Upphaflega átti Gates 60% hlutafjár en Allen 40%.  Fyrirtækið var stofnað án yfirbyggingar og bruðls.  Allt miðaðist við að það kæmist með sem minnst fjármagn í upphafi.

 


Bill Gates lætur Steve Ballmer eftir völdin

Þær fréttir eru að berast frá Redwood í Washington að valdabarátta hafi átt sér stað milli Bill Gates og Steve Ballmer í um 8 ár og henni hafi lokið með því að Bill Gates hafi ákveðið að yfirgefa fyrirtækið.  Þetta hlýtur að koma flestum í opna skjöldu, sem fylgst hafa með Microsoft veldinu í gegnum tíðina.  Vissulega höfðu menn skrafað um að Steve Ballmer hefði bolað Paul Allen burtu frá Microsoft en talið var að það hefði verið með samþykki Gates. Nú virðist vera sem Ballmer hafi gert það án íhlutunar Gates.

Að Bill Gates, holdgervingur Microsoft í gegnum tíðina, sé að víkja til hliðar eru líklegast ein merkilegustu tíðindi í tölvuheiminum í mörg ár.  Sjá menn fyrir sér miklar breytingar á áherslum fyrirtækisins á næstu misserum, þar sem Ballmer er ekki talinn eins bundinn Windows og PC-tölvum og Gates.  Þetta eru náttúrulega bara vangaveltur, þar sem hingað til hafa menn litið á að Gates og Ballmer hafi verið samstíga samherja.

Að þessi frétt komi í kjölfar annarrar frá Microsoft um að Windows XP verði áfram til sölu næstu tvö ár, vekur upp grunsemdir um að það hafi verið kornið sem fyllti mælinn.  Áður hafði Microsoft ákveðið að taka XP úr sölu í lok mánaðarins.  Ballmer er maðurinn á bak við markaðsmál fyrirtækisins meðan Gates hefur verið í farið fyrir tæknimálum og þróun nýjunga.  Menn hafa gert að því skóna að nú eigi að hægja á nýjungagirninni en einbeita sér að því að halda viðskiptavinum.  Að lengja líftíma XP sé skref í þeirri viðleitni.

Það er kaldhæðni, að á sama tíma og þessar fréttir berast, þá er að koma á markað tölvuleikur, þar sem hægt er að kasta tölvueggjum í Ballmer eða bregða sér í líki Ballmers og víkja sér undan eggjunum.   Kannski á Ballmer eftir að verða fyrir annars konar aðkasti en eggjakasti næstu vikur og mánuði, þar sem Bill Gates hefur verið í guðatölu hjá ýmsum tölvuáhugamönnum.

Wall Street Journal lýsir þessu í blaði dagsins.  Þar er m.a. sagt að valdabaráttan hafi komist á það stig að ekki var hægt að taka ákvarðanir um ýmis mál, þeir hafi öskrað hvor á annan og stjórnarmenn hafi þurft að ganga á milli til að koma á vopnahléi.  Auk þess er haft eftir Ballmer, að þegar Gates er farinn, "Mun ég ekki hafa nokkra þörf fyrir hann. Það er grundvallarákvörðun.  Að nota hann, já, að þurfa hans við, nei."

Ég verð að viðurkenna að maður tekur bara andköf við að lesa þetta og þó telst ég ekki til helstu aðdáenda Microsoft.


Í þögninni eftir storminn kemur þroskinn

Á vefsíðu minni www.betriakvordun.is er að finna hugleiðingu um áhættumat og rekstrarsamfellu í skugga jarðskjálftanna á Suðurlandi í síðustu viku.  Ber hún yfirskriftina:  Í þögninni eftir storminn kemur þroskinn - Hugleiðingar um áhættumat og samfelldan rekstur í skugga jarðskjálfta.  Hér fyrir neðan er hægt að lesa upphaf greinarinnar, en með því að smella á meðfylgjandi hlekk er hoppað yfir á greinina í heild.

Í þögninni eftir storminn kemur þroskinn 

Hugleiðing um áhættumat og samfelldan rekstur í skugga jarðskjálfta

Í annað sinn á 8 árum skekur jörð á Suðurlandi.  Tjónið er mikið og sumt verður ekki bætt.  Margir hafa þurft að yfirgefa heimili sín og sum fyrirtæki eru illa farin.  En lífið heldur áfram hvað sem tjóninu eða skjálftanum líður.  Spurningin er bara hvort eitthvað hefði verið hægt að gera til að takmarka tjónið og gera fólki og fyrirtækjum auðveldara með að taka upp þráðinn að nýju.

Fornt spakmæli segir:  ,,Vita skaltu, að blómið nær fullum þroska í þögninni á eftir storminum - ekki fyrr en þá."  Og það eru orð að sönnu.  Það er nefnilega eftir að við erum búin að ná áttum eftir áfallið að við verðum fær um að líta til baka og sjá hvað hefði mátt gera með öðrum hætti.  Vissulega má segja, að með þessu séum við að reyna að vera vitur eftir á, en í því felst líka þroskinn.  Við verðum að geta horft á afleiðingar hamfaranna og hugsað: Hvað gátum við gert betur?  Hvað er rétt að gera öðruvísi næst?  Grundvallaratriðið er að draga lærdóm af reynslunni og miðla þeim lærdómi til annarra sem ekki lentu í hamförunum.  Vandamálið er að allt of mörgum er ómögulegt að læra af reynslu annarra.

Til að lesa meira smellið hér


Auka reglurnar gengisáhættu?

Fyrst þegar ég skoðaði þessar nýju reglur Seðlabankans, þá sýndist mér sem Seðlabankinn væri með þeim að draga úr gengisáhættu með því að takmarka verulega heimildir til að hafa misræmi milli gengisbundinna eigna annars vegar og skulda hins vegar.  Hugmyndin er líklegast að draga úr þörf fyrir mjög stóran gjaldeyrisvarasjóð, þar sem bankarnir þurfa að baktryggja sig meira sjálfir. En mér sýnist að þessar reglur geti leitt til meiri spákaupmennsku, þar sem í fyrri reglum má svo kölluð opin gjaldeyrisstaða í einstökum myntum ekki sýna meira misvægi en nemur 20% af eigin fé.  Í nýju reglunum hefur þetta atriði verið fellt út og geta því fjármálafyrirtæki safnað skuldum í einni mynt og eignum í annarri svo fremi sem munurinn á gengisbundnum eignum og skuldum, þ.e. almennur gjaldeyrisjöfnuður, fari ekki upp fyrir 10% af eigin fé.  Þessi breyting gæti þannig aukið gengisáhættu í staðinn fyrir að draga úr henni hefði Seðlabankinn haldið inni ákvæðum um að jöfnuð innan einstakra mynta, eins og er í núverandi reglum.  Gera má þó ráð fyrir að sérfræðingar bankanna í áhættustýringu útbúi stífar verklagsreglur til að vinna eftir.

Til langtíma mætti ætla að þessi breyting hafi styrkjandi áhrif á krónuna, en þó má fyrst reikna með einhverri veikingu hennar meðan fjármálafyrirtæki eru að ná nýjum jöfnuði í bókum sínum.  Önnur áhrif geta verið að ennþá þrengra verður á lánamarkaði, þar sem augljósasti kostur bankanna til að lækka skuldastöðu sína eða hækka eignastöðu í erlendum myntum (gerist þess þörf) er að kaupa gjaldeyri af Seðlabankanum í skiptum fyrir íslenskar krónur.  Aðrar leiðir eru að endurmeta erlendar eignir sem þeir telja of lágt metnar (en þær þarf þá að endurmeta mánaðarlega upp frá því), reyna að selja frá sér eignir sem eru seljanlegar og að mati viðkomandi fjármálafyrirtækis undirverðlagðar í bókum þess eða kaupa eignir á undirverði og endurmeta þær til hærra gildis.  Loks má nefna að hægt er að ná slíkum jöfnuði með því að hækka bæði eigna- og skuldahlið verulega (og jafnmikið) þar til mismunur sem er 30% af eigin fé í dag verði 10% eftir 4 vikur.  Ólíklegt er að sú leið verði farin.

Það er eitt sem vekur furðu mína við samlestur á núverandi reglum og þeim nýju.  Í þeim eldri er talað um opna gjaldeyrisstöðu og heildargreiðslujöfnuð þegar verið er að skýra út við hvað greiðslujöfnuðurinn skal miðast og hafa þessi hugtök áður verið skilgreind. Í nýju reglunum er talað um almennan greiðslujöfnuð án þess að skýra neitt út hvað almennur greiðslujöfnuður er og hvernig hann tengist atriðum sem áður hafa verið skilgreind.  (Fyrirtækjunum er síðan í sjálfvald sett hvernig haga skuli áhættustýringu opinnar gjaldeyrisstöðu í einstökum myntum.)  Mér virðist lítil skynsemi í því að skilgreina atriði sem ekki er notað (þ.e. heildargjaldeyrisjöfnuð) og skilgreina ekki það sem er notað (þ.e. almennan gjaldeyrisjöfnuð).


mbl.is Reglur um gjaldeyrisjöfnuð fjármálafyrirtækja þrengdar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Metútflutningur

Það er forvitnilegt að sjá þessar bráðabirgðatölur um innflutning og útflutning.  Það ánægjulega er að jöfnuður er að nást á vöruskiptum við útlönd.  Aðeins fjórum sinnum á síðustu 5 árum hefur vöruskiptajöfnuðurinn verið jákvæður og aðeins einu sinni sem nokkru nemur (í nóvember á síðasta ári). 

Ef reynt er að bera þessar tölur saman við síðasta ár, þá virðist sem innflutningur hafi aukist lítillega á föstu gengi, en það sem er mest um vert að útflutningur hefur aukist um rúm 40% á milli ára á föstu gengi.  En það sem er kannski merkilegast er að 39,3 milljarðar kr. er metútflutningur í krónum talið.  Það er aukning um rúmlega 3 milljarða frá fyrra meti sem sett var í nóvember í fyrra.  Þessar tölur skekkjast eitthvað, ef eldri talan er færð upp miðað við gengið í maí.

En betur má ef duga skal.  Innflutningur hefur ennþá ekki dregist saman sem nokkru nemur í krónum talið, þó svo að mjög líklega hafi dregið úr umfangi hans. Sé litið framhjá krónutölu verðmætis innflutnings, þá er ekki laust við að greina megi viðsnúning sem lýsir sér í minni eftirspurn eftir innfluttum vörum.  Þetta eru kannski ekki stórar tölur, en miðað við að gengið hefur veikst um nærri 20% það sem af er árinu, þá er samdráttur í magni þess meiri. 


mbl.is Nánast enginn halli á vöruskiptum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Skagfirðingum illa við sundkappa?

Á Sturlungaöld var síðast tekist verulega á í Skagafirði.  Voru þá menn vegnir á báða bóga og stærsta orrusta Íslandssögunnar fór fram við Örlygsstaði.  Skagfirðingar eru ákaflega stoltir af sögu sveitar sinnar, enda má segja að hvert strá í firðinum hafi sína sögu að segja.  En eitthvað hefur mönnum þótt vera langt síðan að víg í firðinum vakti aðdáun landsmanna og því lögðust menn í mikið stórvirki.  Fundu menn verðugan andstæðing í líki sundkappa mikils.  Hann hafði unnið sér það til sakar að synda óboðinn í land og leynast í héraði. 

Það verður að viðurkennast að margt er líkt með hinum nýja sundkappa og öðrum sem var á ferð í héraði fyrir tæpum 1000 árum, þ.e. Gretti Ásmundarsyni.  Þó verður að segja að sundkappi nútímans var fremri gömlu hetjunni í sundlistinni.  Sem fyrr þá hugnast Skagfirðingum lítt af köppum sem synda í land óboðnir.  Síðast var sótt að sundkappanum út í Drangey, en í þetta sinn upp í fjall.  Báðir voru búnir að leynast á sínum verustað í nokkurn tíma áður en sveitungar vissu af þeim.  Síðast vildu menn ekki þreyja þorrann og leyfa sundkappanum að vinna sig út úr vandræðunum (mig minnir að Grettir hafi átt nokkra mánuði eftir af útlegð sinni þegar hann var veginn) og er líkt farið nú.  Aðför var nauðsynleg og engu tauti um það komið.  Síðast hræddust menn sundkappann af því að hann öskraði á þá og aftur gerðist það í þetta sinn.  Vegna þess að bangsi teygði úr sér og líkaði ekki að menn nálguðust hann, þá var hann ægileg ógn sem varð að uppræta.  Hvorugur hafði gert neitt á nokkurs hlut eftir að þeir komu í dvalastað sinn og líkaði illa fjölmennið sem að þeim sótti.  Og samlíkingunni er ekki lokið, þar sem Grettir var svo sjúkur að hann gat varla staðið þegar lokaatlagan var gerð að honum og bangsa var lýst sem svo þreyttum og máttlitlum að hann þurfti að leggjast öðru hverju.  Loks voru það Skagfirðingar sem lögðu atgeira sína til sundkappanna að atbeinan skagfirskra valdsmanna.

Er nema von að spurt sé hvort Skagfirðingum sé illa við sundkappa. Grin


Sorgleg niðurstaða

Það er sorgleg niðurstaða, ef satt er, að björninn hafi verið felldur.  Menn bera því við að hafa ekki viljað missa hann upp í þokuna.  Eftir því sem best er vitað hefur björninn verið á svæði í langan tíma og ekki verið til neinna vandræða.  Hverju hefði það skipt þó hann hefði fengið að hverfa í nokkra tíma til viðbótar?  Eru menn svona hræddir við það óþekkta að eina leiðin er að útrýma því?
mbl.is Ísbjörninn felldur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonandi fær hann að lifa

Ég vona að menn grípi nú ekki til skotvopna og felli dýrið.  Við Íslendingar erum svo sem ekkert vanir að fást við svona stóra fjórfætlinga, en þar sem hann er ennþá utan alfaraleiðar, þá ætti að vera hægt að ná honum lifandi.  Eftir það væri hægt að koma bangsa í sín fyrri heimkynni.

Við verðum líka að passa okkur.  Það er búið að setja ísbirni á lista yfir dýr í útrýmingarhættu og gætum kallað yfir okkur heilaga reiði Bandaríkjanna, alþjóðlegra dýraverndarsamtaka og ég veit ekki hvað. Smile


mbl.is Ísbjörn við Þverárfjall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Olíuverðhækkanir verðbóla?

Fyrirsögnin er fengin að láni frá Morgunblaðinu í dag (bls. 13).  Þar er frétt um þann möguleika að olíuverðhækkanir séu fyrst og fremst afleiðing spákaupmennsku.  Mikið er ég feginn að málsmetandi menn eru loksins farnir að tala um þessa hluti opinberlega.  Ég hef haldið þessu fram í nokkrum færslum hér og fengið lítil viðbrögð.  Bara í síðustu viku (blogg 26.5, sjá hér) fjallaði ég um þetta og fékk dræmar undirtektir.  Undirtektirnar voru betri í janúar (sjá hér), en þó einskorðuð við fáeina "sérvitringa".  Ég get ekki betur séð en að flest umræða um olíumarkaðinn beri merki þess að eigendur olíubyrða séu að tala markaðinn upp.  Um þessar mundir er verið að afhenda hráolíu sem keypt var á framvirkum þriggja mánaðasamningum í byrjun mars.  Þá var verðið á tunnunni um 100 USD.  Miðað við verðið í dag upp á rúmlega 125 USD, þá hafa þeir sem keyptu í mars hagnast um 25 USD mínus það sem þeir greiddu fyrir samninginn (líklegast 2 - 4 USD á tunnu).  Hagnaðurinn er samt umtalsverður á ekki lengri tíma.  En til að ná þessum hagnaði, þá hafa menn alveg örugglega verið duglegir við að tala verðið upp.  Svipað og danski blaðamaðurinn sem keypti bréf í fyrirtækjum og skrifaði síðan jákvæða grein um það.

Svo virðist sem verð á olíu á að ráðast af einhverju öðru en grundvallarþáttum þremur: framboði, eftirspurn og verðteygni.  Almennt er reglan sú að hærra verð leiðir til meira framboðs en minni eftirspurnar og síðan snýst þetta við ef verð lækkar.  En hér gilda allt önnur lögmál, sem líklegast má skýra með því að það eru ekki endanlegir kaupendur sem ráða olíuverði, heldur spákaupmenn sem kaupa olíu til að geyma á tönkum út um allan heim í þeirri von að neikvæðar fréttir ýti verðinu ennþá hærra upp.  Þannig búa þeir til eftirspurn sem á sér ekki stoð í olíunotkun á sama tíma og halda því uppi verðinu.  Olían er geymd á tönkum, t.d. í Hvalfirði, þar til umframeftirspurn vegna olíunotkunar myndast á markaði og verð hækkar aftur.  Þá nota menn tækifærið og selja olíu í takmörkuðu magni inn á markaðinn.  Það má svo sem heimfæra þetta upp á leikreglur á frjálsum markaði, en í mínum huga heitir þetta markaðshagræðing eða -stjórnun.

Á sömu síðu í Morgunblaðinu í dag er bent á næstu verðbólu, en það er viðskipti með vatn.  Nú kæmi mér ekki á óvart að spákaupmenn séu búnir að kaupa sig inn í vatnslindir á nokkrum lykilsvæðum og muni nýta sér eignarhald sitt til að draga úr framboði.  Framhaldið er að setja neikvæðar fréttir út í fjölmiðla og skapa panik.  Niðurstaðan verður líklega að vatn verður þyngdar sinnar virði í gulli áður en langt um líður.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 81
  • Sl. viku: 275
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband