Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007
9.6.2007 | 22:38
Dæmisaga 4: Hjólið og ljósið
Þetta er fjórða af fimm austurlenskum dæmissögum sem lýsa því sem góður stjórnandi þarf að búa yfir. Líkt og hinar fyrri er sagan upprunin frá klaustri í Kyund Nam héraði í í Kóreu og birtist í Harvard Business Review í júlí-ágúst tölublaði 1992.
Hjólið og ljósið - the Wheel and the Light
Það var á þriðju öld fyrir Krist. Átökin eftir fall Qin ættarinnar voru rétt að ljúka. Han ættin með Liu Bang sem keisara, hafði náð að sameina Kína í eitt keisaradæmi í fyrsta sinn. Til að halda upp á atburðinn, hafði Liu Bang boðið háttsettum aðilum frá hernum og úr röðum stjórnmálamanna, skáldum og kennurum til mikils fagnaðar. Á meðal þeirra var meistari Chen Cen, sem Liu Bang hafði oft leitað til eftir ráðgjöf meðan barátta hans við að sameina Kína stóð yfir.
Hátíðarhöldin voru í fullum gangi. Veislan var sú mikilfenglegasta sem haldin hafði verið. Við háborðið sat Liu Bang ásamt þremur æðstu ráðherrum sínum: Xiao He, sem sá um að skipuleggja sameininguna, Han Xin, sem stjórnaði öllum hernaðaraðgerðum og Chang Yang sem mótað hafði diplómatíska- og pólitískastefnu. Við annað borð sátu Cheng Cen og þrír lærisveinar hans.
Meðan maturinn var borinn á borð, ræður haldnar, menn heiðraðir og skemmtiatriði fóru fram skein stolt og gleði úr hverju andliti, allra nema lærisveinanna þriggja sem voru með Chen Cen, en þeir litu út fyrir að vera furðulostnir. Hátíðarhöldin voru því næst hálfnuð, þegar þeir loks komu upp orði. ,,Meistari", sögðu þeir, ,, allt er stórfenglegt, allir hafa unun af, en miðpunktur hátíðarhaldanna er okkur ráðgáta." Þar sem meistarinn skynjaði hik þeirra, hvatti hann þá til að halda áfram.
,,Við háborðið situr Xiao He," héldu þeir áfram, ,,Skipulagshæfileikar Xiao He eru óumdeildir. Undir hans stjórn skorti hermenn aldrei mat eða vopn, sama hvar þeir voru. Við hliðina á honum er Han Xin. Herkænska Han Xins er meiri en orð fá lýst. Hann veit nákvæmlega hvar er best að sitja fyrir óvininum, hvenær á að sækja fram og hvenær er best að hörfa. Hann hefur leitt heri sína til sigurs í öllum orrustum sem hann hefur stýrt. Loks er það Chang Yang. Chang Yang áttar sig fullkomlega á pólitískum hreyfingum og diplómatískum samskiptum. Hann veit við hvaða ríki á að mynda bandalag, hvernig á að öðlast pólitískan velvilja og hvernig á að króa af þjóðhöfðingja þannig að þeir sjái sitt óvænna og gefist upp án bardaga. Þetta skiljum við allt. Það sem við getum ekki skilið er sá sem situr í öndvegi við borðið, keisarinn sjálfur. Liu Bang getur ekki stært sig af að vera aðalborinn og þekking hans á skipulagningu, orrustum og ríkiserindrekstri mun minni en sessunauta hans. Hvernig stendur þá á því að hann er keisari?
Meistarinn brosti og bað lærisveina sína að ímynda sér vagnhjól. ,,Hvað er það sem ákvarðar styrk hjólsins svo það geti borið vagninn áfram?" spurði hann. Eftir andartaks umhugsun, svöruðu lærisveinarnir. ,,Meistari, er það ekki styrkleiki píláranna?" ,,En hvernig stendur þá á því tvö hjól gerð með sams konar pílárum geta haft mismunandi styrk?" Eftir stutta stund hélt meistarinn áfram, ,,Horfið umfram það sem sést. Gleymið ekki að hjólið er gert úr fleiru en pílárum, því bilið á milli píláranna skiptir líka máli. Sterkir pílárar sem eru illa staðsettir gera hjólið veikt. Hvort eiginleikar þeirra nýtast veltur á samhljóman þeirra. Kjarninn í vagnhjólasmíði felst í getu handverksmannsins til að sjá fyrir sér og mynda bilið sem heldur og jafnar út pílárunum í hjólinu. Hugleiðið nú, hver er handverksmaðurinn hér?
Skíma af tunglsljósi sást handan dyranna. Þögn ríkti uns einn lærisveinanna tók til máls, ,,En meistari, hvernig tryggir handverksmaðurinn samhljóman meðal píláranna?" ,,Hugsaðu um sólarljósið," svaraði meistarinn. ,,Sólin nærir og lífgar trén og blómin. Hún gerir það með því að gefa af sér ljós. En þegar allt kemur til alls, í hvaða átt vaxa þau? Sama á við handverksmann eins og Liu Bang. Þegar hann hefur sett hvern einstakling í þá stöðu sem dregur fram hæfileika hans að fullu, þá tryggir hann samhljóman þeirra með því að láta hvern og einn eiga heiður af aðgreindum afrekum sínum. Og á sama hátt og trén og blómin vaxa í átt til gjafara síns, sólarinnar, vaxa einstaklingarnir með lotningu í átt til Liu Bang."
Lífspeki | Breytt 14.12.2007 kl. 14:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.6.2007 | 22:24
Aðeins eitt verk óunnið
Mér sýnist sem Eyjólfur Sverrisson eigi aðeins eitt verk óunnið varðandi íslenska landsliðið og það er að segja af sér. Það er með ólíkindum, að hann hafi ekki íhugað afsögn og að hann hafi fullan stuðning stjórnar KSÍ.
Eyjólfur, gerðu það sem er rétt í þessari stöðu og segðu af þér. Það eru 3 mánuðir í næstu leiki og því ætti að gefast góður tími að finna eftirmann.
![]() |
Eyjólfur: Ég á mikið verk óunnið með þetta lið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt 14.12.2007 kl. 14:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.6.2007 | 23:29
Er Seðlabankinn stikkfrí?
Mér finnst stundum eins og Seðlabankinn sé stikkfrí, þegar kemur að því að leita að orsökinni á hækkun verðbólgu, hækkun gengis og þenslunnar á húsnæðismarkaðnum. Það er eins og bankinn gleymi því að 30. júní 2003 voru settar nýjar reglur um eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja (nr. 530/2003). Vissulega gaf Fjármálaeftirlitið þessar reglurnar út, en þær hafa varla farið framhjá bankanum (enda líklegast settar í nánu samráði við hann) og hann hefði því átt að hafa nægan tíma til að bregðast við þeim.
Það sem er svo merkilegt við þessar reglur að í þeim var fyrri áhættugrunni útlána (sem við leikmenn þekkjum kannski helst sem 8% eiginfjárhlutfall) breytt þannig að hann er nú margfaldaður með nýrri áhættuvog, en hún lýsir hversu mikil áhætta felst í því að veita lán. Áhættuvogin gat eftir breytinguna tekið fjögur gildi eftir því hversu áhættusamt lán taldist vera, þ.e. 0,0 þegar engin áhætta var talin fylgja láni, 0,2 þegar sáralítil áhætta var talin fylgja láni, 0,5 þegar lán var með fasteignaveði og 1,0 fyrir öll önnur lán. Málið er að áður voru veðlán í 1,0 flokknum. Og hvað þýddi þessi breyting? Jú, útlánageta fjármálafyrirtækja tvöfaldaðist á einu bretti til þeirra sem höfðu fasteignaveð, þ.e. upp að 80% af fasteignamati íbúðarhúsnæðis eða ýmist 50 eða 60% af fasteignamati atvinnuhúsnæðis eftir því hvenær lán var tekið. Banki sem þurfti áður að eiga 8 kr. í eigið fé fyrir hverjar 100 kr. sem lánaðar voru til húsnæðiskaupa, gat nú lánað 200 kr. út á þessar 8 kr. í eigið fé. Þetta er númer eitt, tvö og þrjú ástæðan fyrir því að allt fór af stað. Og Seðlabankinn hefði átt að sjá þetta fyrir og hafa betri stjórn á atburðarásinni.
Nú spyr einhver: Af hverju átti Seðlabankinn að sjá þetta fyrir? Jú, svarið er einfalt. Ef ég tvöfalda ráðstöfunartekjur mínar, þá er nokkurn veginn öruggt að ég eyði meira en áður. Líklegast er að ég tvöfaldi neysluna/eyðsluna. Það er nákvæmlega það sem gerðist. Útlánageta fjármálafyrirtækja (svo sem bankanna, sparisjóða og Íbúðalánasjóðs) vegna fasteignalána tvöfaldaðist á einu bretti og að sjálfsögðu nýttu þeir sér hið nýfengna frelsi. Fasteignamarkaðurinn hafði verið í langvarandi svelti og verð nýrra íbúða var hreinlega of hátt miðað við þá lánamöguleika sem voru í stöðunni.
En sagan er ekki búin, því 2. mars sl. voru gefnar út reglur nr. 215/2007 um eiginfjárkröfur og áhættugrunn fjármálafyrirtækja, sem koma í staðinn fyrir reglur nr. 530/2003. Í þessum nýju reglum er áhættuvogin fyrir láni tryggðu að fullu með veði í fullbúnu íbúðarhúsnæði á Íslandi lækkuð úr 0,5 (50%) í 0,35 (35%). Þetta þýðir að fyrir 8 kr. í eigið fé getur fjármálafyrirtækið nú lánað 285 kr., þ.e. útlánagetan jókst allt í einu um rúm 40%. Er nema von að fasteignaverð sé áfram á uppleið og illa gangi að ná verðbólgumarkmiðum.
![]() |
Davíð segir gagnrýni SA ekki trúverðuga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 14.12.2007 kl. 14:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.6.2007 | 17:26
Dæmisaga 3: Viskan af fjallinu
Þetta er þriðja af fimm austurlenskum dæmissögum sem lýsa því sem góður stjórnandi þarf að búa yfir. Líkt og hinar fyrri er sagan upprunin frá klaustri í Kyund Nam héraði í í Kóreu og birtist í Harvard Business Review í júlí-ágúst tölublaði 1992.
Viskan af fjallinu - The Wisdom of the Mountain
Í Kína til forna, stóð á efst á Ping fjalli klaustur þar sem Hwan, hinn upplýsti, dvaldi. Af mörgum lærisveinum hans, þekkjum við aðeins einn, Lao-li. Í meira en 20 ár nam Lao-li og hugleiddi undir leiðsögn hins mikla meistara, Hwan. Þrátt fyrir að Lao-li væri einn af efnilegustu og staðföstustu lærisveinunum hafði hann ekki náð stigi hugljómunar. Viska lífsins var ekki hans.
Lao-li stritaðist við sitt hlutskipti daga, nætur, mánuði og jafnvel ár þar til einn morgun, er hann sá kirsuberjablóm falla, að hann viðurkenndi fyrir sjálfum sér. ,,Ég get ekki lengur vikist undan örlögum mínum," hugsaði hann. ,,Eins og kirsuberjablómið, verð ég að sætta mig við hlutskipti mitt." Á þeirri stundu ákvað Lao-li að hverfa af fjallinu og gefa frá sér vonina um hugljómun.
Lao-li leitaði að Hwan til að láta hann vita af ákvörðun sinni. Meistarinn sat undir hvítum vegg í djúpri hugleiðslu. Auðmjúkur nálgaðist Lao-li hann. ,,Þú hinn upplýsti", sagði hann. En áður en hann fékk haldið áfram, tók meistarinn til máls. ,,Á morgun mun ég fylgja þér á ferð þinni niður af fjallinu." Það þurfti ekki að segja neitt meira. Meistarinn mikli skildi.
Næsta morgun, áður en för þeirra niður hófst, meistarinn horfði yfir víðáttuna í kringum fjallstindinn. ,,Segðu mér, Lao-li," sagði hann, ,,hvað sérðu?" ,,Meistari, ég sé sólina vera að vakna rétt undir sjóndeildarhringnum, hæðir og fjöll hlykkjast óravegu og líða niður í dalinn fyrir neðan, vatn og gamalt þorp." Meistarinn hlustaði á svör Lao-li. Hann brosti og hóf síðan förina niður hlíðina.
Klukkutímum saman, meðan sólinn leið eftir himninum, héldu þeir ferð sinni áfram, stoppuðu aðeins einu sinni þegar þeir nálguðust hlíðarfótinn. Aftur bað Hwan Lao-li að lýsa því sem fyrir augum bar. ,,Mikli meistari, í fjarlægð sé ég hana hlaupandi um í hlöðu, kú sofandi innan um vel sprottinn hagann, öldunga sem láta síðdegissólina skína á sig og börn ærslast við læk." Meistarinn hélt göngu sinni þögull áfram þar til að þeir komu að þorpshliðinu. Þar benti meistarinn Lao-li að koma og setjast hjá sér undir gömlu tré. ,,Hvað lærðir þú í dag, Lao-li?" spurði meistarinn. ,,Kannski er þetta síðasta spekin sem ég miðla til þín." Lao-li svaraði með þögninni.
Loks eftir langa þögn, hélt meistarinn áfram. ,,Leiðin til hugljómunar er líkt og leiðin ofan af fjallinu. Hún verður eingöngu þeim fær sem átta sig á því að það sem þeir sjá uppi á fjallinu er ekki það sama og þeir sjá við rætur þess. Án þessarar visku, við lokum huga okkar fyrir öllu sem við sjáum ekki úr þeirri stöðu sem við erum í og takmörkum þar með getu okkar til að vaxa og bæta okkur. En með þessari visku, Lao-li, vöknum við til vitundar. Við meðtökum að hver og einn er með takmarkaða sýn - sem í sannleika sagt er ekki mikil. Þetta er sú viska sem getur opnað augu okkar fyrir framförum, hrundið burt fordómum og kennt okkur að virða það sem við sjáum ekki í fyrstu. Gleymdu aldrei þessari lexíu, Lao-li: Það sem þú sérð ekki er hægt að sjá frá öðrum stað á fjallinu."
Þegar meistarinn hafði lokið máli sínu, horfði Lao-li út á sjóndeildarhringinn og á meðan sólin settist fyrir framan hann, reis hún í hjarta hans. Lao-li sneri sér til meistarans, en hinn mikli var horfinn á braut. Þannig endar hin gamla kínverska frásögn. En það er víst, að Lao-li sneri aftur upp á fjallið og lifði þar alla sína ævi. Hann varð mikill meistari.
Lífspeki | Breytt 14.12.2007 kl. 14:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.6.2007 | 09:46
Sorgleg staðreynd
Það eru tvær greinar á vef BBC um þetta efni. Önnur er sama frétt og er hér á mbl.is en hin er frásögn manns sem er búinn að fylgja Poll eftir síðustu 11 mánuði við gerð þess þáttar sem verður á BBC í kvöld. Í þessum greinum kemur fram að dómarar verða fyrir stöðugu áreiti, bæði innan vallar og utan, vegna starfa sinna. Áreiti sem ég þekki af eigin reynslu sem handboltadómari fyrir margt löngu.
Það er sorglegt að þjálfarar, leikmenn og áhorfendur telji það vera heilagan rétt sinn og skyldu að argast í dómurum allan leikinn í gegn. Og til að bæta gráu ofan á svart, þá ganga viðtöl við þjálfara oft út á gagnrýni þeirra á dómara, en ekki eigið getuleysi eða klaufagang leikmanna. Það er nefnilega staðreynd að það hefur enginn dómari unnið eða tapað leik. Það eru liðin sem gera það. Það er aldrei dómara að kenna, að leikmaður er rekinn útaf eða vítaspyrna dæmd. Fyrir hver ein mistök dómara á velli, þá hafa leikmenn gert líklegast samanlagt í kringum 50 til 100. Ekki er níðst á leikmönnunum fyrir það. Nei, það er eðlilegur hluti af leiknum að leikmaður nái ekki stjórn á auðveldum bolta, gefi lélega sendingu, geti ekki varist, missi manninn inn fyrir sig, klúðri dauðafæri, skjóti í varnarvegg úr aukaspyrnu, skjóti himinn hátt yfir og missi boltann undir sig. (Bíddu var ég að lýsa íslenska landsliðinu í knattspyrnu.) Ekki er leikmönnum blótað hátt og öskrað á þá fyrir hver smámistök sem þeir gera. Nei, en um leið og dómari dæmir eitthvað sem áhorfendum, leikmönnum eða þjálfurum líkar ekki, þá er helt yfir þá svívirðingum.
Það er sorglegt að dæma leik í yngri flokkum og þurfa að hlusta á fullorðið fólk kenna börnum þann ósið að sýna ekki öðrum virðingu. Að verða vitni að því að mikilsmetnir einstaklingar fái útrás fyrir eigin vanlíðan með því að úthúða dómaranum, sem er ekki að gera neitt annað en reglurnar segja að hann eigi að gera. Það er ennþá sorglegra að þurfa síðan að hlusta á íþróttafréttamenn, sem hafa jafnvel ekki haft fyrir því að fylgjast með öllum leiknum, lýsa því yfir í frétt eða viðtali að dómarinn hafi verið lélegur eða gert eintóm mistök. Þegar þessi sami íþróttafréttamaður þekkir ekki einu sinni nöfn leikmanna eða skortir grundvallarskilning á eðli leikreglna.
Það var sorglegt hér um árið að heyra orðbragð Sigurðar Jónssonar, þá fyrirliða Skagamanna, í leik þar sem dómarinn bar á sér upptökutæki. Eða að heyra munnsöfnuð 10 til 12 ára stráka á landsleiknum á laugardaginn, þegar þeir héldu (án þess að hafa nokkra þekkingu á því) að dómarinn hafi dæmt vitlaust. Eða viðbrögð Eiðs Smára Guðjohnsen eftir leikinn, þar sem hann kennir dómaranum um eftir að íslenska landsliðið spilaði verr en byrjenda flokkur í landsleiknum á laugardaginn. (Dómarinn dæmdi ekki víti.) Svo argaðist atvinnumaðurinn út í að hann skyldi missa af leiknum gegn Svíum, eins og hann hafi ekki vitað að með því að renna boltanum í mark eftir að rangstaða var dæmd, að þá fengi hann áminningu.
Eins og ég sagði ofar, þá dæmdi ég í handboltanum í mörg ár. Markmiðið hjá mér var að komast í fremstu röð, þ.e. dæma í efstu deild karla. Þegar því marki var náð, áttaði ég mig á því að þetta var ekkert eftirsóknarvert. Fram að því hafði maður geta farið af leikstað og leikurinn var búinn, en eftir að ég fór að dæma í efstu deild karla (sem stóð ekki lengi yfir), þá gat maður ekki lengur farið á skemmtistaði án þess að verða fyrir aðkasti manna og kvenna sem töldu sig hafa vit á dómgæslu. Hvað er að fólki?
Ég tel að það verði að taka á dómaraníði á sama hátt og kynþáttaníði. Verði áhorfendur uppvísir að slíku koma viðurlög. Þetta er ósiður, sem á að gera útlægan úr boltanum. Sama hvaða íþrótt það er. Íþróttafréttamenn verða að girða sig í brók og hætta endalausri gagnrýni á dómara. Þáttastjórnendur (lesist Heimir og Guðni) verða að hætta að einblína á hvort dómur hafi verið réttur eða rangur. Af hverju velta menn sér ekki upp úr því þegar leikmenn henda sér í völlinn? Gera sér upp meiðsl til að vinna tíma? Af hverju snúa þessir aðilar sér ekki að því að uppræta óheiðarleika úr boltanum í staðinn fyrir að níða skóinn af þeim sem eru að gera sitt besta?
![]() |
Áreiti áhorfenda knúði Poll til að hætta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt 14.12.2007 kl. 14:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.6.2007 | 23:42
Hlýnunin kannski ekki vandamál, en mengunin er
Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að hlýnunin ein og sér sé kannski ekki svo alvarlegur hlutur miðað við hitabreytingar á jörðu undanfarin 10 - 20 þúsund ár og þó svo að við litum á skemmra tímabil. Eins og bent er á í öðru bloggi með þessari frétt, þá erum við ekki einu sinni komin á það hitastig sem var um landnám. Mér fannst t.d. merkileg fréttin um árið, þegar einhver skriðjökull á Suðausturlandi hafði hopað svo mikið að hann hafði skilað mannvistarleyfum sem hann gróf einhverjum 5 - 600 árum eftir Landnám. Ég verð að viðurkenna að ég sá ekki hvert vandamálið var. Að jökullinn var að hörfa eða að fá staðfestingu á því að hitastig jarðar sveiflast.
Það er viðurkennd staðreynd að á tímabilinu frá siðskiptum fram á nítjándu öld (og sérstaklega á sautjándu öld) var fremur kalt. Raunar svo kalt að það hefur verið kallað mini ísöld. Á þessum tíma var t.d. algengt að fólk gat farið á skauta á Thames í hjarta Lundúna. Engum hefur dottið í hug að segja að sú hlýnun sem varð á nítjándu öld og fram á þá tuttugustu hefði verið vandamál. Samt var sú hlýnun mun meiri en hefur átt sér stað á síðustu 50 ár, hvað þá síðustu 10 - 15 ár. Hvert er þá vandamálið? Líklegast að við fylgjumst meira með hitastigi á heimsvísu og sjáum hvaða áhrif (ég vil ekki tala um afleiðingar, þar sem það er neikvætt hugtak) breytingin hefur á umhverfi okkar.
Fyrir 300 árum var algengt að það snjóaði í London, nú þykja það stórtíðindi. En vitum við hvað við þurfum að fara langt aftur í tímann til að finna sambærilegar aðstæður. Hér á landi sjáum við í örnefnum að á Landnámsöld og fram á Sturlungaöld (ef við gefum okkur að megnið af eldri örnefnum hafi verið komið fram á þessu tímabili) að hér var mun hlýrra en jafnvel um þessar mundir. Jarðvegsleifar og steingervingar víða um land vísa til þess að hér á landi hafi einu sinni verið mjög hlýtt. Svona frekar í námunda við það sem er í Suður Evrópu eða þess vegna Karapískahafinu. Hvert er þá vandamálið, þó örlítið hlýni? Jökull í Noregi var að skila 3.000 ára gömlum skinnskó. Þýðir það að það hafi verið hlýrra í Noregi fyrir 3.000 árum eða var eigandinn uppi á jökli þegar hann týndi skónum sínum. Rannsóknir á ískjarna Grænlandsjökuls hafa leitt í ljós að hitasveiflur hafa verið miklar á stuttum tíma. Þetta ber allt að sama brunni: Hitastig jarðar er óstöðugt.
Það er aftur alvarlegt vandamál að við nútímamaðurinn eigum í miklum erfiðleikum með að vernda það umhverfi og þá náttúru sem við höfum til afnota á okkar æviskeiði. Við mengum andrúmsloftið, úthöfin og landið eins og við höfum ekkert betra að gera. Í því felst alvarleiki þess ástands sem er að skapast, ekki hlýnunin. Hlýnunin er ennþá langt innan þeirra marka sem jörðin þolir og flest það líf sem á henni er. Ég lít ekki einu sinni á það sem alvarlegan hlut að einhverjar dýrategundir þoli ekki þessar breytingar. Það hefur gerst áður og mun endurtaka sig. Geti einhver sýnt fram á að hlýnun af mannavöldum geti orðið það mikil, að hnötturinn verði ekki lífvænlegur, þá er um verið að tala um allt aðra hluti. Málið er að engar slíkar heimsendaspár hafa komið. Þær sem eru verstar gera í mesta lagi ráð fyrir að mannkynið eigi erfiðara líf fyrir höndum. Og hvað með það? Við erum hvort eð er bara maurar á þúfu sem heitir Jörð og þó svo að okkur þyki tilvera okkar merkileg, þá mun hún taka endi. Spurningin er bara hvenær og hvort við fáum nokkru um það ráðið.
![]() |
Yfirmaður NASA ekki viss um að bregðast þurfi við loftslagsbreytingum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Umhverfismál | Breytt 14.12.2007 kl. 14:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.6.2007 | 11:57
Er fjölgun nema í háskólum dulið atvinnuleysi?
Við stærum okkur af því að vera með mjög lítið atvinnuleysi, en maður getur ekki annað en hugleitt hvort hin mikla fjölgun nemenda í háskólum hér á landi (um tvöföldun á nokkrum árum) beri ekki vott um dulið atvinnuleysi hjá ákveðnum þjóðfélagshópum. Það væri fróðlegt að vita hvert atvinnuleysið væri ef 8000 háskólanemar hættu námi og færu út á vinnumarkaðinn. Á sama hátt vekur það athygli að svo virðist sem ríflega 3/4 af framhaldsskólanemum fari í háskólanám, ýmist hérlendis eða erlendis. Er það nema von að við þurfum að flytja inn til landsins í stórum stíl annars vegar ófaglært fólk og hins vegar iðnmenntað fólk.
Þetta er enn þá merkilegra, þegar rannsóknir hafa sýnt að arðsemi háskólamenntunar er mjög oft neikvæð. Þetta þýðir að í mörgum tilfellum eru ævitekjur háskólamenntaðra lægri en þeirra sem ljúka iðnnámi eða fara strax að vinna annað hvort eftir grunnskóla eða framhaldsskóla.
Lesa má fleira athyglivert út úr þessum tölum. T.d. að 62,3% háskólanema eru konur. Flestir myndu líta á þetta sem mikla sókn kvenna í meiri menntun, í mínum huga sýnir það ekki síður að nám sem konur sækja meira í stendur annað hvort ekki til boða á framhaldsskólastigi eða þykir ekki lengur boðlegt launalega. T.d. eru flestar iðngreinar hefðbundið karlagreinar. Vissulega hafa konur verið að sækja í þær, en í minna mæli en karlar. Aðrar greinar hafa á undanförnum áratugum verið að færast af framhaldsskólastiginu yfir á háskólastigið (t.d. kennaranám og hjúkrunarnám). Og enn aðrar sem ennþá eru á framhaldsskólastigi væri hægt að fylla af nemendum sem þegar hafa lokið stúdentsprófi, sbr. hársnyrtiiðn, klæðskurður og snyrtifræði, og eru því í raun orðnar að framhaldsnámi eftir stúdentspróf. Það er ekkert að þessari þróun, en hún skekkir allan samburð á milli kynjanna.
Þessar tölur segja okkur líka að yfir 80% kvenna sem fara í framhaldsskóla, halda áfram í háskóla, meðan þetta hlutfall er ekki nema 55% hjá körlum. Munurinn er gríðarlegur, en líklegasta skýring er að fleiri karlar útskrifast með iðnmenntun og ýmsar hefðbundnar karlagreinar krefjast ekki fagmenntunar.
![]() |
Yfir 102 þúsund manns stunda nám á landinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (28.3.): 7
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 52
- Frá upphafi: 1673472
Annað
- Innlit í dag: 6
- Innlit sl. viku: 43
- Gestir í dag: 6
- IP-tölur í dag: 6
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- IT Governance Ltd. Einn staður fyrir allt vegna stjórnunar upplýsingatækni
- ISO 27001
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
- Fjármálaeftirlit
- Póst- og fjarskiptastofnun
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði