Leita í fréttum mbl.is

Fordæmi sett fyrir afskriftir heimilanna?

Í pistli Sigrúnar Davíðsdóttur í Speglinum í kvöld kemur fram að einbýlishús við Gnitanes hafi verið selt á 75 milljónir.  Nafn kaupandans var gefið upp, en ég ætla ekki að velta mér upp úr því.  Það er gott að menn geta gert góð viðskipti við bankana og ekki við kaupanda að sakast vilji seljandinn slá af verðinu.

Ég fékk símtal í kvöld, þar sem mér var bent á nokkrar staðreyndir málsins.  Þær sannreyna að margt sem ég hef skrifað hér um og Hagsmunasamtök heimilanna hafa verið að berjast fyrir.  Hverjar eru þessar staðreyndir?

Án þess að fara djúpt ofan í smáatriði, þá leysti banki eignina til sín af fyrri eiganda vegna greiðsluerfiðleika.  Það skiptir raunar ekki máli.  Það sem skiptir máli er að eignin, sem er seld á 73 milljónir, er með fasteignamat upp á 102,7 milljónir.  Hún var því seld á um 70% af fasteignamati!  (Samkvæmt Fasteignaskrá, þá er eignin skipt í tvær íbúðir og er fasteignamat annarrar tæplega 42 m.kr. og hinnar rúmar 60 m.kr.  Svo virðist sem kaupsamningurinn nái til beggja eignanna, en nái hann bara til annarrar, þá er ekkert meira um þetta að segja.  Hér er gengið út frá því að húsið hafi verið selt í einu lagi.)

Bankinn sem á í hlut, hefur boðið viðskiptavinum sínum svo kallaða 110% leið.  Hún felst í því að lán verði færð niður í 110% af fasteignamati og núverandi fasteignaeigandi heldur áfram að greiða af láninu.  Hér er ný aðferð.  Eignin er tekin af eigandanum og hún seld öðrum, ekki á 110% af fasteignamati, heldur um 70% af fasteignamati!  Mér sýnist sem hér sé bankinn að setja fordæmi.  Verst að hann er bara að litlu leiti í eigu skattborgara. 

Fyrst það var hægt að afskrifa stökkbreyttan höfuðstól lána við sölu til þriðja aðila, þá get ég ekki annað en valt því fyrir mér hvers vegna ekki er hægt að bjóða lántökum bankans hið sama.  Höfum í huga, að ástandið í þjóðfélaginu er þannig, að nær öll lán hafa hækkað (vegna aðgerða fjármálafyrirtækja) um tugi prósenta umfram það sem spár þessara sömu fjármálafyrirtækja gerðu ráð fyrir.  Á sama tíma hefur virði eigna lækkað umtalsvert.  Fyrir suma skiptir þessi lækkun engu máli, þar sem þeir keyptu áður en fasteignabólan reið yfir og eru ekkert á leiðinni að selja.  Fyrir aðra þýðir þessi lækkun verulegt tap á útlögðu eiginfé við kaup á fasteign á árunum 2004 - 2008.  Hvernig sem við lítum á þetta þá hefur höfuðstóll lána hækkað mjög mikið, meira en stór hluti lántaka ræður við með góðu móti og fyrir alla lántaka hefur þetta í för með sér verulega skerðingu á neyslu.

Í mínum huga hefur viðkomandi banki sett fordæmi.  Hann hefur með þessum kaupsamningi lýst því yfir, að markaðsverð stórs einbýlishúss á besta stað í Reykjavík sé einungis 70% af fasteignamati.  Maður getur því ekki annað en spurt sig:  Hvers vegna býður hann ekki öllum lántökum sínum upp á sama kost, þ.e. að færa öll lán niður í 70% af fasteignamati?  Það er jú mat bankans, að 70% af fasteignamati er eðlilegt verð fyrir dýra eign.  Kæmi mér ekki á óvart, þó markaðsverð eignarinnar hafi verið eitthvað um 150 - 200 m.kr. fyrir 2 árum.

Mergur málsins er mat viðkomandi banka á verði fasteigna. Það kemur fram á Eyjunni, að bankinn tók eignina yfir í maí 2009 og seldi hana í október.  Hún var því ekki lengi á sölu og bankanum hefði verið í lófa lagið að bíða eftir betra tilboði, hafi hann á annað borð talið að hærra verð fengist.  Hann gerði það ekki.  Hvað þýðir það?  Hefur bankinn ekki meiri trú en svo á fasteignamarkaðnum, að verð sem er 30% undir fasteignamati er talið ásættanlegt?  Ég verð að draga þá ályktun.  Í mínum huga er það nokkuð alvarlegt.  Bankarnir eru, jú, að bjóða 110% leið, þ.e. að lækka lán niður í 110% af fasteignamati, en fyrir stórar eignir virðist fasteignamatið vera 50-60% yfir markaðsverði.  Mér virðist sem flestar fasteignir verði yfirveðsettar í ansi langan tíma.

Það skal tekið fram, að Hagsmunasamtök heimilanna vöruðu við því, þegar lög um sértæka skuldaaðlögun voru samþykkt, að í þeim fælist innbyggð lækkun á verði stærri eigna.  Yfirskuldsettir húsnæðiseigendur þyrftu í stórum stíl að setja stórar eignir á sölu til að lækka skuldir sínar.  Við það skapast offramboð af stórum eignum, sem óhjákvæmilega hefur í för með sér mikla verðlækkun.  Salan á húsinu í Gnitanesi átti sér stað áður en lögin voru samþykkt, þannig að ekki voru þau að hafa áhrif, en bankinn vissi af lögunum og hann vissi af verklagsreglunum.  Líklegast taldi bankinn sig ekki geta fengið hærra verð í bráð!

Niðurstaðan af þessu máli er líklegast að fasteignamat allt of hátt.  Hugsanlega 30 - 40%.  Vandinn er að sveitarfélög tengja hluta tekjustofna sinna við fasteignamat.  Veruleg lækkun fasteignamats veldur því tekjuskerðingu fyrir sveitarfélögin.  Þá er það Fasteignaskránin.  Hvað eru margir sem vissu að Fasteignaskráin (áður Fasteignamat ríkisins) er með fasteignamatið sem tekjustofn?  30 - 40% lækkun fasteignamats skerðir því tekjur Fasteignaskrár!  Þetta er klaufalegt, svo ekki sé meira sagt.  Mér dettur ekki í hug að væna starfsmenn Fasteignaskrár um óheilindi, en þeir eru settir í ólíðandi stöðu. Tekjur stofnunarinnar velta á því hvernig þeir meta fasteignir í landinu.  Lækki þeir matið á stórum svæðum, þá gætu þeir stefnt fjárhagslegri afkomu stofnunarinnar í voða og þar með starfsöryggi sínu.  Þessu þarf að breyta, enda líklega mun nærtækara og eðlilegra, að tekjur stofnunarinnar byggi á fjölda eigna, en ekki fasteignamati þeirra.  (Ég tek það skýrt fram, að ég hef talað við fjölmargar starfsmenn Fasteignaskrár (Fasteignamats ríkisins) í gegn um árin og ekki fundið fyrir neinu öðru en faglegum vinnubrögðum.)

Allt leiðir þetta að "lausnum" bankanna.  Ég hef haldið því fram frá því í byrjun október 2008, að eina skynsamlega í stöðunni sé að skipta öllum lánum upp í tvö lán:  Annað er "gott lán" sem t.d. gæti verið í samræmi við stöðu lánanna 1. janúar 2008.  Það væri sá hluti sem lántaki greiddi af og tæki breytingum í samræmi við ákvæði lánssamningsins með hugsanlega þaki á árlegar verðbætur.  Hitt væri "slæmt lán", sem væri munurinn á upphæða "góða lánsins" og stöðu höfuðstóls eins og hann er við skiptingu lánsins í tvo hluta.  "Slæma lánið" væri sett á ís, en verði breyting til hins betra í hagkerfinu, t.d. kaupmáttaraukning, styrking krónunnar, verðbólga helst lág í langan tíma eða aðrir jákvæðir þættir, þá tekur lántaki að sér að greiða hluta af "slæma láninu".  Samhliða þessu væri fjármálafyrirtækjunum skylt að safna í afskriftasjóð, t.d. hluta af hagnaði eða helming þess sem annars færi í arðgreiðslur, og nota þann pening jafnóðum til að afskrifa "slæmu lánin" (hlutfallslega jafn mikið hjá öllum).  Ég held ennþá, að þetta gæti verið sú lausn sem sátt gæti náðst um.  Hún þarfnast nánari útfærslu sem ætti ekki að taka langan tíma sé á annað borð vilji hjá fjármálafyrirtækjum fyrir því að fara þessa leið.


mbl.is Fengu húseignir á góðum kjörum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef eitthvað væri gert, þyrfti ekki að biðja um uppboð - Kröfur okkar eru einfaldar

Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, lýsti því yfir við fréttastofu RÚV, að engin lausn sé í því að fresta uppboðum.  Mikið er það rétt hjá blessuðum ráðherranum.  Það er engin lausn, en það vill svo til að það er EINA lausnin sem fólki býðst.

Þremur ríkisstjórnum hefur tekist að gera nánast ekki neitt á þeim rúmum 15 mánuðum frá falli bankanna og um 22 mánuðum frá falli krónunnar.  Úrræðaleysi stjórnvalda og seinagangur bankanna að koma til móts við viðskiptavini sína er með ólíkindum.  Fólk sem hefur nákvæmlega ekkert sér til sakar unnið annað en að treysta fjármálakerfi landsins þarf núna að sjá á eftir ævisparnaði sínum í hendur þessu sama fjármálakerfi, þar sem stjórnvöld hafa ákveðið að verja það með kjafti og klóm á kostnað heimilanna í landinu.

Árni Páll vonast til þess að hægt verði að finna úrræði fyrir sem flesta.  Það eru 6 vikur þar til frestur á uppboðum rennur út.  Ríkisstjórnin er búin að 8 mánuði til að koma með úrræði.  Það eina sem hefur komið eru úrræði úr smiðju fjármálafyrirtækjanna.  Þau reyndust ekki betur en svo að 1400 beiðnir um nauðungarsölur frá Íbúðalánasjóði einum liggja hjá sýslumönnum landsins.  Já, 1400 stykki.  Mikið eru þau frábær úrræði ráðherrans.

Komið hefur í ljós að úrræði fjármálafyrirtækjanna duga ekki til að koma heimilum landsins til bjargar.  Nú er kominn tími til að hlusta á almenning.  Kröfurnar eru einfaldar. 

Við viljum:

  • tafarlausa 20% lækkun höfuðstóls verðtryggðra lána,
  • tafarlausa 50% lækkun höfuðstóls gengistryggðra lána,
  • 4% þak á árlegar verðbætur afturvirkt frá 1. janúar 2008,
  • að veð (eign) dugi fyrir veðandlagi (veðláni) (taki strax til allra veðlán vegna kaupa á húsnæði og bifreiðum),
  • jafna ábyrgð lántaka og lánveitenda,
  • að stjórnendur fjármálafyrirtækja, stjórnmálamenn og embættismenn verði dregnir til ábyrgðar fyrir þátt sinn á árunum 2006 til 2008 í hruni krónunnar, bankanna og hagkerfisins,
  • heimilunum verði bættur sá skaði sem ofangreindir aðilar ollu heimilunum með aðgerðum sínum eða aðgerðaleysi.

Hagsmunasamtök heimilanna eru búin að vara við þessu lengi

Niðurstaða könnunar Félags vélstjóra og málmtæknimanna (VM) kemur okkur hjá Hagsmunasamtökum heimilanna ekkert á óvart.  Þetta er sama niðurstaða og hefur komið fram í tveimur könnunum samtakanna, annarri meðal félagsmanna í fyrra vor og hinni sem Gallup framkvæmdi á landsvísu fyrir samtökin sl. haust. Fólk á í miklum erfiðleikum með að láta enda ná saman og um 54% heimila landsins voru í haust ýmist ekki að gera það eða rétt mörðu það.

Þrátt fyrir þetta ákvað ríkisstjórnin að hækka skatta á almenning um tugi milljarða.  Þrátt fyrir þetta þarf að toga leiðréttingu lána með töngum út úr bankakerfinu.  Þrátt fyrir þetta örlar ekkert á mildandi aðgerðum fyrir heimili landsins af hálfu lífeyrissjóðanna.  Og þrátt fyrir þetta heldur forysta launþegahreyfingarinnar sig inni í fílabeinsturni sínum og lætur ekkert í sér heyra.

Bjarki Steingrímsson, þáverandi varaformaður VR, talaði á útifundi Hagsmunasamtaka heimilanna og Nýs Íslands fyrir áramót og gagnrýndi forystumenn launþegahreyfingarinnar.  Hann uppskar það að vera REKINN úr embætti.  Það er nefnilega bannað að rugga bátnum. Vilhjálmur Birgisson talaði á útifundi sl. laugardag og var harðorður.  Ætli honum verði vísað á dyr hjá ASÍ næst þegar hann á leið hjá?

Ég hef sagt það oft, að baráttan fyrir leiðréttingu á stökkbreyttum höfuðstóli húsnæðislána, er stærsta kjarabaráttan í dag.  Vilhjálmur Birgisson ítrekaði þennan punkt á laugardaginn.  Ég er viss um að Guðmundur Ragnarsson, formaður VM er orðinn okkur sammála.  Ég býð honum að taka slaginn með okkur fyrir leiðréttingu lánanna og bættum kjörum.


mbl.is Telja launin ekki duga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingmenn mæta á Austurvöll

Það var góður fjöldi fólks sem mætti á Austurvöll í dag. Ég er fyrir löngu hættur að átta mig á talningu fjölmiðla, en nokkur hundruð er teygjanleg tala. A.m.k. var þétt staðið á öllum göngustígum. Vilhjálmur Birgisson var frábær og var ekkert að skafa...

15. janúar 2010: Hagsmunasamtök heimilanna eins árs

Það var 15. janúar 2009, að Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð á fundi í Háskólanum í Reykjavík. Hópur fólks, sem var búinn að fá nóg af aðgerðaleysi stjórnvalda vegna stökkbreyst höfuðstóls lána, tók sig saman og stofnaði samtökin. Óhætt er að...

Eitt að styðja tryggingasjóðinn, annað að tryggja allar innstæður

Ég skil ekki þessa tortímingarstefnu sumra þingmanna VG. Þeim er svo í mun að Íslendingum blæði eins mikið og mögulegt er vegna Icesave, að þeir búa til alls konar rök fyrir því að það sé gert. Nýjasta útspilið er frá Birni Vali Gíslasyni. Í gær...

Hrunið - hluti 3: Regluverk og eftirlit með fjármálafyrirtækjum

Ég, eins og fleiri, hóf að líta um öxl á orsakir bankahrunsins í lok september og boðaði þá í færslunni Dagurinn sem öllu breytti , að ég myndi birta skoðun mína á 12 atriðum, sem ég tel mestu skipta. Ég hef þegar birt tvær færslur, þ.e. Hrunið - hluti...

Bretum gengur illa að skilja

Það er með ólíkindum hvað margir illa upplýstir aðilar ryðjast fram á sjónarsviðið og blaðra tóma vitleysu um þetta mál. Í þetta sinn er að Roy Hattersley, lávarður og fyrrverandi aðstoðarutanríkisráðherra. Maður sem aldrei getur komist yfir það, að...

Lýðnum hótað svo hann gegni

Mér finnst hann nú frekar ómerkilegur þessi málflutningur, að ríkisstjórnin muni segja af sér, ef landsmenn voga sér að vera ósammála henni í einu máli. Ég veit ekki betur en að Steingrímur J. Sigfússon hafi ítrekað lýst því yfir í þingræðum í lok...

Þegar rykið sest, þá skilja menn málið betur

Nú þegar mesti stormurinn er genginn hjá eftir höfnun forsetans, virðist mér sem fleiri og fleiri séu farnir að átta sig á því að ákvörðunin var rétt. Hún var rétt vegna þess, að hún túlkar lýðræðislegan vilja þjóðarinnar. Hún er rétt vegna þess, að...

Skynsemisrödd úr óvæntri átt

Óhætt er að segja, að hér komi stuðningur úr óvæntri átt. Moody's tekur allt annan pól í hæðina, en félagar þeirra hjá Fitch Ratings. Raunar má segja að Moody's setji með áliti sínu ofan í við Fitch Ratings og geri svo grín að þeim að auki. Icesave...

Fyrirsláttur að ekki sé hægt að skrá nöfn rétt

Bróðursonur minn heitir góðu og gildu íslensku nafni Matthías Guðmundur og síðan er hann Þorsteinsson. Þetta gerir 33 stafir með stafabilum. Hann heitir því ekki þessu nafni samkvæmt þjóðskrá. Sama gildir um fjölmarga Íslendinga. Þeir fá ekki að heita...

Í dúr við annað frá Fitch

Þessi matsfyrirtæki eru ótrúleg. Þau skilaboð hafa aftur og aftur komið frá þeim, að þess meiri skuldbindingar sem ríkissjóður tekur á sig, þess betri verði lánshæfismatið! Ég held að allir bankamenn séu sammála um, að sá sem skuldar lítið sé líklegri...

Sorgleg er erlenda pressan

Það er sorglegt að sjá erlendu pressuna. Hver einn og einasti étur upp sömu þvæluna um að Ísland ætli ekki að borga. Sorglegasta dæmið var "sérfræðingur" BBC Business News sem kom blaðskellandi fram með eitthvert það argasta bull sem ég hef heyrt....

Er Landsbankinn að bregðast við gagnrýni Hagsmunasamtaka heimilanna? - Bankarnir geta gert betur!

Landsbankinn hefur ákveðið að feta í fótspor hinna bankanna og bjóða niðurfærslu skulda. Bjóða núna allir bankarnir, þ.e. Íslandsbanki, Arion banki og Landsbankinn sambærilegan "pakka", þó vissulega sé einhver bitamunur á útfærslunni. Ég get ekki annað...

Icesave í þjóðaratkvæði - Mætum á Bessastaði

Það var kostulegt að fylgjast með Icesave umræðunni á Alþingi. Hver þingmaður Samfylkingarinnar kom upp á fætur öðrum og viðurkenndi að nauðsynlegt væri að samþykkja frumvarpið þó það væri vissulega gert í nauð. Við ættum engan annan kost. Ég taldi þá...

..og aldrei það kemur til baka

Annus Horribilis er líklegast það eina sem hægt er að segja um þetta ár sem er að líða. Þrjár ríkisstjórnir hafa setið og nær engu áorkað í uppbyggingu landsins eftir hrunið. Úrræðaleysi þeirra hefur verið algjört varðandi vanda heimilanna. Það hefur...

Ábyrgð lánveitanda er engin!

Það vill svo til að þetta er 10 daga gömul frétt eða a.m.k. birtist hún á visir.is 18 .desember sl. Gerði ég færslu um fréttina þá og vil endurbirta hana núna. --- Hæstiréttur staðfest í dag synjun Héraðsdóms Reykjavíkur um tímabundna greiðsluaðlögun...

Jólakveðja

Mig langar að senda öllum bestu kveðju um gleðileg jól og farsælt komandi ár. Erfitt ár er að lokum komið, annus horribilis, eins og Breta drottning orðaði það svo smekklega um árið. Sagt er að ástandið fari að skána seinni hluta næsta árs og er vonandi...

Lántakar eiga að fá raunverulegar lausnir, ekki sjónhverfingar

Hagsmunasamtök heimilanna hafa lagt umtalsverða vinnu við að skoða þær lausnir sem bankarnir bjóða upp á. Byrjað var að skoða tölur í kjölfar útspils Íslandsbanka í lok september og útbúið reiknilíkan til að finna út áhrif greiðslujöfnunar á lánin í...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.9.): 2
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 1682116

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband