Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2011

Fjármálafyrirtækin viðurkenna að hafa reynt að hafa a.m.k. 120 ma.kr. ólöglega af heimilunum

Samtök fjármálafyrirtækja segja að lán heimilanna hafi verið færð niður um 143.9 milljarða króna frá bankahruni.  Þetta kemur fram í frétt á mbl.is.  Flott, ef satt væri!  Það er rétt að lánin hafa lækkað sem þessu nemur, en 119,6 milljarðar af þessari tölu er ekki vegna góðmennsku fjármálafyrirtækjanna heldur vegna þess að þau voru staðin að lögbroti.  Þetta er sem sagt sú tala sem FME, SÍ og stjórnvöld leyfðu fjármálafyrirtækjunum að innheimta ólöglega af heimilum landsins.  Þessu til viðbótar hafa fyrirtækin síðan lækkað skuldir um ríflega 24 ma.kr.

Já, góðmennska fjármálafyrirtækjanna gagnvart heimilum landsins hljóðar upp á 24 ma.kr.  Ekki er það nú ofrausn. Þessir 24 ma.kr. skiptast þannig að 18,7 ma.kr. er vegna þess að fjármálafyrirtækin ætla að afskrifa lán umfram 110% veðhlutfall, þ.e. þau ætla að afskrifa lán án veða.  Þetta er það sem heitir sokkinn kostnaður.  Tæpir 5,6 ma.kr. hafa síðan verið afskrifaðir vegna sértækrar skuldaaðlögunar.

Ætli fjármálafyrirtækin séu öll að tapa á þessu?  Lífeyrissjóðirnir hafa fært lán sín niður um 200 m.kr. sem er vel innan allra skekkjumarka, en telst þó bein afskrift.  Íbúðalánasjóður hefur þegar fært niður 1,6 ma.kr. sem lendir vissulega á skattborgurum, en talan er langt innan þeirra marka sem blásið var út sl. haust að aðgerðin myndi kosta sjóðinn.  Þá eru það bankar og önnur fjármálafyrirtæki.  Sparisjóðirnir eru með þremur undantekningum búnir að fá verulegan afslátt af útistandandi skuldum sínum.  Tapi þeirra vegna afskrifta/niðurfærslu/leiðréttinga hefur því þegar verið mætt.  Þá standa eftir bankarnir þrír: Arion banki, Íslandsbanki III. og Landsbankinn.  Allir fengu þeir verulegan afslátt af lánasöfnum heimilanna við flutning þeirra frá hrunbönkunum.  120 ma.kr. var náttúrulega illa fengið fé með lögbrotum og því ekki lögmæt krafa.  Eftir standa þá líklegast vel innan við 22 ma.kr. sem auðveldlega að rúmast innan þess afsláttar sem bankarnir fengu.  Það sem meira er, að bankarnir munu eiga nokkuð drjúgan hluta eftir af afslættinum.

Hver er fréttin?

Fréttin hér ætti að vera:

Samkvæmt útreikningum fyrirtækja innan Samtaka fjármálafyrirtækja, þá hafa fyrirtækin þegar leiðrétt lán viðskiptavina sinna um 119,6 ma.kr. vegna lögbrota sem fólust í gengisbindingu lána.  Enginn hefur verið dreginn til ábyrgða vegna þessarar grófu tilraunar fyrirtækjanna til að hafa af viðskiptavinum þeirra þessa fjármuni.  Þá hafa fyrirtækin ákveðið að afskrifa 18,7 ma.kr. af þegar töpuðum kröfum, þ.e. kröfum utan veðbanda, og 5,6 ma.kr. af kröfum sem hvort eð er myndu tapast eða voru þegar tapaðar, þ.e. ýmist eða bæði utan grieðslugetu eða utan veðbanda.  Með þessum aðgerðum tekst fyrirtækjunum samt að búa til gríðarlegan hagnað með því að skila ekki til viðskiptavina sinna nema hluta þess afsláttar sem fyrirtækin fengu frá Glitni, Kaupþingi og Landsbanka Íslands þegar lánasöfnin voru færð yfir.


mbl.is Lán lækkuð um 143,9 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er lögmætur eigandi láns?

Samkvæmt mínum upplýsingum var aðgerðum hætt við Breiðagerði eftir að íbúar báru fyrir sig að gerðarbeiðandi væri líklega ekki lögmætur eigandi lánsins sem ágreiningurinn stóð um.  (Kemur sé ég fram í frétt RÚV um málið.)  Málinu verður nú vísað til fyrirtöku hjá úrskurðarnefndar Fjármálaeftirlitsins og mjög líklega eftir það til dómstóla.

Ætli þetta sé vísbending um að stjórnvöld séu hætt að taka orð fjármálafyrirtækjanna góð og gild.  Um daginn var vörslusvipting bifreiðar stöðvuð, þar sem réttarúrskurð vantaði.  Bæði innanríkisráðherra og talsmaður neytenda höfðu áður (og raunar síðar líka) tjáð sig um að slíkan úrskurð þyrfti.  Þrátt fyrir það fullyrðir fulltrúi fjármálafyrirtækisins að hans fyrirtæki sé hafi lögin sín megin og geti farið sínu fram.  Þau viðbrögð lögreglu að hindra þessa vörslusviptingu er dæmi um breytta tíma, því áður hafa vörslusviptingarmenn farið sínu fram eins og þeir væru yfir lög hafnir.  Reikna ég með, að reynt verið að svipta umrædda bifreið við fyrsta tækifæri, því þannig haga menn sér of oft.

Aftur að réttmætum eiganda kröfu.  Hver er eigandi kröfunnar?  Ég er með í höndunum fjölmörg staðfest afrit af skuldabréfum. Nokkur þeirra gefin út af hrunbönkunum og síðan færð yfir samkvæmt ákvörðun FME til nýju kennitölunnar.  Innihald þeirra er fjölbreytilegt, en öll eiga þau tvennt sammerkt.  Ekkert þeirra er handhafaskuldabréf og á ekkert þeirra hafa verið tilgreind eigendaskipti.  Þetta fyrra er mikilvægt vegna þess að sé bréfið handhafaskuldabréf, þá þurfa eigendaskipti ekki að koma fram á skuldabréfinu.  Hið síðara er mikilvægt vegna þess að eingöngu lögmætur eigandi bréfs getur haldið uppi kröfum vegna þess.  Nú er spurningin hvort nóg sé að tilgreina í stjórnvaldsákvörðun að nýr eigandi sé á skuldabréfinu eða hvort þarf að gera breytingu á bréfinu sjálfu og þinglýsa þeirri breytingu.

Ég reikna nú varla með því að FME eða úrskurðarnefnd stofnunarinnar komi með úrskurð sem gangi almenningi í hag gegn fjármálafyrirtæki.  Slíkri réttargæslu hefur stofnunin ekki sinnt svo ég viti til og hafa fjármálafyrirtækin þó ítrekað brotið lög, svo sem með útgáfu gengistryggðra lána.  Á ég því von á því að úrskurðarnefndin segi nýju kennitöluna lögmætan eiganda, þrátt fyrir að það komi ekki fram á skuldabréfinu.  Mér skilst nefnilega að það hefði verið svo tímafrekt og kosnaðarsamt að tilgreina nýjan eiganda á öllum skuldabréfum.  En mestu máli skiptir, að sýslumaðurinn í Reykjavík frestaði gerðarbeiðninni og vonandi mun sú frestun gilda, þar til endanleg niðurstaða verður komin í ágreininginn um hver sé lögmætur eigandi kröfunnar.  Ekki verið farið í skjóli nætur og fólkið borið út.  Það er því miður allt of algeng aðferð í þessu samfélagi.


mbl.is Aðgerðum lokið við Breiðagerði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Seðlabankinn viðurkennir í raun að reglur bankans séu ekki í samræmi við lög

Eftir að hafa lesið svar Seðlabanka Íslands við fyrirspurn umboðsmanns Alþingis vegna fyrirspurnar Hagsmunasamtaka heimilanna, þá fæ ég ekki betur séð, en að Seðlabankinn viðurkenni að reglur bankans hafi ekki lagastoð.  Ef þær hefðu lagastoð, þá myndi bankinn vísa með fáeinum setningu beint á lagaákvæðin sem reglurnar byggja á.  Í staðinn fer bankinn í langt mál með að tala um venjur og hefðir, rétt Seðlabankans og stjórnvalda áður fyrr til að ákveða framkvæmd verðtryggingar, dóma Hæsaréttar sem byggja á úreltum lögum og svona mætti lengi telja.

Hvergi í greinargerð Seðlabankans er vísað í ákvæði laga sem segja skýrt og skorinort að heimilt sé að verðtryggja höfuðstól lána.  Hvergi.  Farið er í langlokur til að lýsa hugsanlegri ætlan árið 1979, sem þó birtist ekki í lögum nr. 13/1979 og sýndir eru útreikningar sem eiga að sanna að ekki skipti máli hvort höfuðstóllinn er verðbættur eða greiðslan.  Málið er að hvorugt af þessu skiptir máli.  Spurning Hagsmunasamtaka heimilanna, eins og ég skil hana, var sáraeinföld:  Er lagastoð fyrir því að verðbæta höfuðstól verðtryggðra lána og ef svo er hvar er hana að finna?

Kostulegust þykir mér þó skýring í síðustu málsgrein á bls. 11 í svari Seðlabankans.  Þar er talað um lögmætisreglu stjórnsýsluréttar og segir:

Lögmætisreglan gerir þær kröfur að ákvarðanir og afhafnir stjórnvalda eigi sér stoð í lögum og megi ekki brjóta í bága við lög.  Reglan gerir ekki þær kröfur að reglur sem löggjafinn hefur falið stjórnvaldi að setja um tiltekið málefni séu orðaðar með nákvæmlega sama hætti og viðkomandi lög.  Leiði reglur stjórnvalds efnislega til sömu niðurstöðu og lögin boða getur ekki verið um brot á lögmætisreglunni..

(Leturbreyting mín.)

Hér er fyrst við það að athuga, að niðurstaðan leiðir ekki til efnislega sömu niðurstöðu.  Verðbættur höfuðstóll er hærri en óverðbættur höfuðstóll.  Áhvílandi lán með verðbættum höfuðstóli er því hærra en sama lán, ef höfuðstóllinn er ekki verðbættur.  Ekki var spurt um greiðslubyrði eða heildargreiðslur heldur hvort verðbætur mættu leggjast á höfuðstól.  Því er ljóst að reglur Seðlabankans leiða ekki til sömu efnislegu niðurstöðu.  Í annan stað, þá heimilar lögmætisreglan, eins og hún er skýrð út af Seðlabankanum, stjórnvaldinu ekki að breyta merkingu laganna, þó svo að hlutirnir séu ekki orðaðir eins.  Lög nr. 38/2001 heimila að verðtrygging nái til greiðslu.  Hvergi í lögunum er vikið að því að verðtryggja höfuðstól.  Á þessu tvennu er munur.  Sjái lögspekingar Seðlabankans ekki mun á höfuðstóli og greiðslu, þá erum við í slæmum málum.  Hvað næst, sjá þeir ekki mun á bíl og bensíni eða menntun og skólabók?

Mér finnst alveg kristaltært á bréfi Seðlabankans, að hann á í erfiðleikum með að verja reglurnar sínar.  Ef það væri auðvelt fyrir hann og augljóst, þá hefði hann ekki þurft 13 blaðsíður.  Ein hefði dugað með stuttri hnitmiðaðri vísun í lagagreinina sem heimilar verðbætur höfuðstóls.  Í staðinn reynir Seðlabankinn að klóra bakkann (og lái ég honum það ekki) með vísan í að efnislega sé niðurstaðan sú sama, greinilega með hliðsjón af heildargreiðslum.  Ályktun bankans um þetta atriði er þó röng.  Efnisleg niðurstaða er að hluta önnur án nokkurra vangaveltna, þ.e. höfuðstóll áhvílandi veðskulda er hærri sé höfuðstóllinn verðbættur.  Hitt atriðið krefst meiri yfirlegu.

Menn tala gjarnan um að raunvirði eða núvirði greiðsluflæðisins sé það sama, hvor leiðin sem farin er.  Þar sem við lántakar tölum ekki allir í raunvirði og núvirðingu, þá er þetta atriði með greiðslubyrðina líka rangt.  Fyrir meginþorra launafólks í landinu, þá hefur þróun launa undanfarin 14 ár eða svo verið sú, að þau hafa ekki haldið í við verðlag.  Fyrir þennan hóp hefur því raunþyngd greiðslubyrði lána aukist með árunum borið saman við heildarlaun þeirra.  Hækkun launavísitölu var á árunum 2003 - 2007 haldið uppi af starfsmönnum í fjármálafyrirtækjum og það er aftur að gerast þessi misserin!  Meðan ein stétt hefur fengið 163% hækkun launa, hefur önnur fengið innan við 50%, en verðbólgan var kannski 120%.  Fyrir þann sem hefur þurft að sætta sig við 50% launahækkun í 120% verðbólgu er augljóslega betra að greiða meira á fyrri hluta lánstímans en þeim seinni, meðan sá sem fékk 163% launahækkun er í öfugri stöðu.  Já, raunvirði greiðslunnar er hugsanlega það sama, en raunvinnutímar sem fólk þarf að leggja að baki til að eiga fyrir greiðslunni eru ekki þeir sömu.  Um það snýst málið líka.

En aftur að bréfi Seðlabankans.  Því lýkur með tveimur áherslupuntkum í V. kafla.  Í öðrum þeirra segir m.a.:

Seðlabankinn getur því ekki séð að meginregla laga nr. 38/2001 um verðtryggingu lánsfjár hafi verið ranglega framkvæmd þó reglur Seðlabankans nr. 492/2001 kveði á um verðbættan höfuðstól en lögin um verðbættar greiðslur. Seðlabankinn getur því ekki séð að 4. gr. reglna nr. 492/2001 skorti lagastoð.

Ég legg mál mitt í dóm.


mbl.is Telur lagastoð fyrir útreikningi verðbóta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinna skal hættumat vegna eldgosa - Stórmerkileg og mikilvæg ákvörðun

Ég hef af og til bent á, að hættumat fyrir Ísland sem land og þjóð hefur verið ófullkomið.  Áhugi minn á málinu er bæði faglegur, sem sérfræðingur í áhættustjórnun, og ekki síður þar sem ég tel mikilvægt að fyrir þjóðfélagið að skilja vel afleiðingar af ýmsum atvikum og atburðum sem riðið geta yfir.

Hættumat og áhættustjórnun hefur því miður allt of oft verið ófullkomið.  Má benda á hrun fjármálakerfisins sem dæmi um áhættustjórnun sem gjörsamlega brást.  Of margir aðilar treysta á guð og lukkuna, þegar kemur að hættum í umhverfinu og veikleikum í rekstrinum, oft með hörmulegum afleiðingum.

Samþykkt ríkisstjórnarinnar sl. föstudag er í senn stórmerkileg og mikilvæg ákvörðun.  Ætlunin er að fara út í kortlagningu á því sem afvega getur farið við eldgos og hvaða viðbúnaður er nauðsynlegur af hálfu stjórnvalda,

m.a. uppsetning viðbragðskerfa og gerð viðbragðsáætlana, mótvægisaðgerðir sem tækju til landnýtingar, innviðavarna, trygginga og varnarvirkja, þekkingaruppbygging í gegnum kennslu, þjálfun, rannsóknir og miðlun upplýsinga og loks að farið yrði yfir lög og reglugerðir með tilliti til ólíkra hlutverka stofnanna í þessu samhengi

eins og segir í fréttatilkynningu umhverfisráðuneytisins.

Hvort sem það er tengt eða ekki, þá hef ég sent innanríkisráðherra tvö erindi í vor og sumar um áhættumat.  Svo merkilega vill til að stuttu eftir að ég sendi fyrri póstinn, þá gaus í Grímsvötnum og eftir þann síðar hljóp Múlakvísl.  Ekki stjórna ég náttúru landsins, en skilaboðin gætu ekki verið skýrari.  Lengur verður ekki beðið með að skoða afleiðingar af náttúruhamförum fyrir land og þjóð og innleiða aðgerðir sem dregið getur úr áhrifunum.

Í mínum huga er þetta ekki nóg.  Hamfarir af mannavöldum árið 2008 reyndust þjóðinni mun skæðari en allar náttúruhamfarir síðustu 220 ára.  Því þarf að ganga lengra en bara skoða áhrif og afleiðingar eldgosa.  Við þurfum að skoða allar grunnstoðir samfélagsins og finna út hvað gæti farið úrskeiðis, skilgreina mótvægisaðgerðir, skjalfesta viðbragðsáætlanir og ekki síst endurreisnaráætlanir.  Ekki gengur fyrir þjóðina að skilgreina öll úrræði eftir að skaðinn er orðinn.

Ríkisendurskoðun sendi frá sér tilmæli á vormánuðum um að allar A-hluta stofnanir ríkisins skuli framkvæma áhættumat.  Þar á bæ hafa menn áttað sig á mikilvægi slíkrar vinnu.  Menn setja fyrir sig kostnaðinn, en vinna mun skila sér margfalt til baka.  Fyrst gerir hún það í betri skilningi starfsmanna og stjórnenda á rekstrinum.  Menn átta sig á því hvað má betur gera, hvaða atriði eru tifandi tímasprengja og ekki síst hvar staðan er góð.

Ég hef unnið áhættumat fyrir nokkur fyrirtæki og stofnanir með tilheyrandi viðbragðsáætlunum, neyðarhandbókum og endurreisnaráætlunum.  Þó samfélagið sé lítið, þá er ótrúleg fjölbreytni í þeim ógnum sem taka þarf tillit til og veikleikarnir sem eru til staðar eru ennþá fleiri.  Oft er hægt að minnka líkur á áföllum eða a.m.k. draga verulega úr áhrifum þeirra með því einu að vera meðvitaður um hvað gæti gerst.  Já, það þarf oft ekki meira til.  Um leið og fólk verður meðvitað um hætturnar, þá breytir það hegðun sinni og það eitt dregur mjög oft úr líkum á atviki.

Ákvörðun ríkisstjórnarinnar sl. föstudag er stórmerkileg og mjög mikilvæg.  Þó menn sjái fyrir sér að verkið taki 15 - 20 ár, þá er hvert skref í rétta átt mjög mikilvægt.  Ef á sama tíma stofnunum ríkisins er gert kleift að framkvæma áhættumat fyrir starfsemi sína, eins og tilmæli Ríkisendurskoðunar hljóða upp á, þá verður vonandi búið að styrkja verulega mikilvægar grunnstoðir samfélagsins.

Bara svo það sé á hreinu, þá rek ég mína eigin ráðgjafaþjónustu Betri ákvörðun ráðgjafaþjónusta Marinós G. Njálssonar um stjórnun upplýsingaöryggis, áhættustjórnun, stjórn rekstrarsamfellu, gerð viðbragðsáætlana og endurreisnaráætlana.  Þetta hefur verið minn megin starfsvettvangur undanfarin 14 ár og verður vonandi næstu 20 - 30.


mbl.is Vinna hefst við hættumat fyrir eldgos
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlegt að enn sé verið að tala um að bjarga bönkum - Þeir eiga að bjarga sér sjálfir eða fara á hausinn

Tvenns konar rekstur virðist búa við  bakstuðning stjórnvalda og skattgreiðenda, með öðrum orðum ríkisábyrgð.  Annar er opinber rekstur, hinn er fjármálastarfsemi.  Munurinn er samt sá, að annar líður fyrir það að verið sé að bjarga hinum.

Út um allan heim er verið að draga saman í opinberum rekstri.  Hér á landi hefur verið skorið niður í öllum opinberum rekstri og þá sérstaklega í velferðarkerfinu.  Á sama tíma hefur ekkert fækkað að ráði í fjármálageiranum og það sem meira er, að meðan opinberir starfsmenn hafa búið við launaskerðingu og mikla rýrnun kaupmáttar, þá hafa laun í fjármálageiranum hækkað.

Ég hef ítrekað fjallað um margt af því sem ég tel að hafi farið úrskeiðis í fjármálakerfinu.  Ég setti þá kenningu fyrst fram í október 2008 og get ekki séð annað en að ég hafi þá strax hitt naglann á höfuðið.  Þessi atriði sem ég nefndi þá (9. október 2008) voru:

  1. Regluverk fjármálakerfisins á Íslandi
  2. Framkvæmd peningamálastefnu Seðlabanka Íslands
  3. Afmörkun og framkvæmd eftirlits FME með fjármálafyrirtækjum
  4. Framkvæmd áhættustjórnunar hjá íslenskum bönkum
  5. Framkvæmd áhættustjórnunar hjá erlendum bönkum
  6. Ótrúleg afglöp matsfyrirtækjanna við mat á fjármálavafningum með undirmálslánum - sem síðar kom lausafjárkreppunni af stað
  7. Of skammur aðlögunartími fyrir Basel II regluverk Bank of International Settlements (Alþjóðagreiðslubankinn, BIS) eða að bankar og matsfyrirtæki hófu undirbúning of seint
  8. Í senn bíræfni, bjartsýni og áræðni íslensku útrásarinnar.  Útrásarmenn tróðu líklegast of mörgum um tær á vegferð sinni og sköpuðu sér þannig óvinsældir og láðist að ávinna sér traust nema í þröngum hópi.
Þegar þessi atriði voru sett fram, þá vissi ég ekki margt af því sem ég veit í dag, eins og með alla spillinguna, óheiðarleikann og vanhæfið sem tröllreið hjá stjórnendum og stjórnarmönnum hinna íslensku fjármálafyrirtækja.  Annað sem ég vissi ekki þá, var að þetta var nákvæmlega eins úti í hinum stóra heimi.  Listinn lítur því svona út í dag:
  1. Regluverk fjármálakerfisins 
  2. Framkvæmd peningamálastefnu seðlabanka um allan heim
  3. Afmörkun og framkvæmd eftirlits með fjármálafyrirtækjum
  4. Framkvæmd áhættustjórnunar hjá fjármálafyrirtækjum, jafnt stýringu áhættu útlána sem rekstrarlegrar áhættu.
  5. Ótrúleg afglöp matsfyrirtækjanna við mat á gæðum fjármálagerninga og rekstrarhæfi fjármálafyrirtækja
  6. Of skammur aðlögunartími fyrir Basel II regluverk Bank of International Settlements (Alþjóðagreiðslubankinn, BIS) eða að bankar og matsfyrirtæki hófu undirbúning of seint
  7. Í senn bíræfni, bjartsýni og áræðni bankstera um allan heim, spilling, vanhæfi, óheiðarleiki, spilafíkn, siðblinda og græðgi.

Bræðalag fjármálaheimsins

Fjármálakerfið er eins og bræðralag.  Menn standa saman sama hvað gerist.  Enginn vogar sér að kjafta frá og gerir þú það, ertu gerður útlægur, sviptur æru þinni og eigum, ef ekki lífinu líka.  Fjármálafyrirtækin hafa komið sér fyrir innan hagkerfisins og tryggt með því áhrif sín við landstjórnina í nær öllum löndum heims.  Lög og reglur hafa verið sérsniðnar svo fjármálafyrirtækin lifi af, skítt með almenning og annan rekstur.  Mitt í þessu öllu eru alþjóðastofnanir sem hafa velferð fjármálafyrirtækja að leiðarljósi og þær láta eins og þær séu alvaldar.  Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) og Alþjóðagreiðslubankinn (BIS) eru tvær slíkar stofnanir.  Þegar AGS kom hér til aðstoðar, þá voru fyrstu fyrirmælin, að ekkert mátti gera til að skerða mögulegar endurheimtur erlendra kröfuhafa.  Fyrirgefið, en hagkerfið fór á hliðina og við áttum að hugsa fyrst um erlenda kröfuhafa, sem notabene voru mest megnis í bræðralagi fjármálafyrirtækjanna.

Fjármálafyrirtæki njóta verndar

Reglulega gerist það að flugfélög lendi í fjárhagsvanda.  Þá hafa ríkisstjórnir gjarnan gripið inn í og veit styrki, en krafan hefur verið að kröfuhafar gefi eftir hluta af kröfum sínum.  Hvers vegna gildir ekki það sama um fjármálafyrirtæki?  Af hverju er það fyrsta krafa AGS að endurgreiðslur til erlendra lánadrottna séu ekki skertar með stjórnvaldsaðgerðum?  Af hverju á almenningur á Íslandi, Írlandi, í Grikklandi eða Portúgal að taka á sig auknar byrðar svo hægt sé að borga fjármálafyrirtækjum til baka það sem þær eru annað hvort sannanlega búnar að tapa eða mjög miklar líkur eru á að sé tapað fé?

Ég velti því stundum fyrir mér hvort fjármálafyrirtæki séu verndaðir vinnustaðir og á það ekki bara við á Íslandi.  Írskir bankar hafa sogað til sín stórar upphæðir úr ríkiskassanum, grískir bankar eru á spena stjórnvalda sem hafa á móti enga burði til að bjarga þeim, dönsk stjórnvöld ábyrgðust alla banka í landinu og svona mætti lengi telja.  Hvers vegna eru fjármálafyrirtæki ekki gerð ábyrg á eigin rekstri?  Hvernig væri að fjármálafyrirtæki keyptu sér tryggingar gegn áföllum.  Þá á ég við aðrar en felast í því að hafa snúið á stjórnmálamenn og fengið þá til að veita fyrirtækjunum nánast ríkisábyrgð. 

Innstæðutryggingakerfið er einn fáránlegasti angi þessa máls.  Bresk stjórnvöld hafa greitt út tugi milljarða punda vegna fallinna banka.  Vissulega greiddu þeir iðgjald til tryggingasjóðsins, en samkvæmt því sem ég hef séð, þá hefur sjóðurinn samt alltaf fengið framlög frá ríkisstjórninni þegar kemur að útgreiðslu.  Iðgjöldin eru nefnilega svo lág að þau duga ekki fyrir lágmarkstryggingunni, hvað þá einhverju meira.  Í Bandaríkjunum hefur alríkisstjórnin eða seðlabankar einstakra fylkja hlaupið undir bagga.  Af hverju eru fjármálafyrirtækin ekki gerð ábyrg fyrir þessu sjálf?

Áhættustjórnun í skötulíki

Fjármálafyrirtæki eru skilduð til að viðhafa áhættustjórnun, þegar kemur að útlánum, en hvað annað varðar, þá virðast þau ekki þurfa hennar með.  Falli þau, þá eru það stjórnvöld sem borga brúsann.
 Stjórnun rekstrarsamfellu er eitthvað sem fæstir stjórnendur fjármálafyrirtækja virðast þekkja, viðbragðsáætlanir eru sjaldnast til staðar og endurreisnaráætlanir enn síður.

Ég efast um að hér á landi hafi mikið fleiri en tvo fjármálafyrirtæki haft haustið 2008 virka áhættustjórnun, stjórnun rekstrarsamfellu, tilbúnar viðbragðsáætlanir og endurreisnaráætlanir sem miðuðu að því að viðhalda eðlilegum rekstri ef áfall skylli á.  Þess vegna fór sem fór.  Menn léku sér að eldinum og höfðu ekki gert ráð fyrir að slökkva þyrfti eldinn.

Fjármálafyrirtæki á að gera ábyrg

Stjórnvöld í hverju landi eiga að skikka fjármálafyrirtæki, sem eru með almenning í viðskiptum til að koma sér upp öllum þeim öryggisnetum sem þörf er á, svo almenningur beri ekki skarðan hlut frá borði eða þurfi að borga reikninginn lendi fjármálafyrirtækið í vanda.  Hingað til hefur verið treyst á leiðsögn frá BIS um slíkar kröfur og reglur, en BIS er hluti af bræðrarlaginu.  Rekstraröryggiskröfur gerðar til fjármálafyrirtækja eiga ekki að vera á neinn hátt veikari en til annarra fyrirtækja.  Afleiðingin af því að standast ekki þær kröfur eiga aftur á móti að vera mjög harðar, mun harðari en fjármálaeftirlit um allan heim hafa beitt hingað til.  Síðan á það að vera alveg kristaltært að standist fjármálafyrirtækin ekki kröfurnar, þá missa þau starfsleyfi sitt.  Til að verja viðskiptavini og almenning tjóni, eiga fjármálafyrirtækin að greiða tryggingafé inn á bundna reikninga líkt og ferðaskrifstofur (eða kaupa sér tryggingar hjá traustum tryggingafélögum) og þetta fé skal eingöngu nota til að bæta viðskiptavinum, stjórnvöldum og almenningi tjón sem fjármálafyrirtækið gæti valdið.  Það sem mestu máli skiptir:  Fjármálafyrirtæki eiga að lúta sömu lögmálum og önnur fyrirtæki, þegar kemur að gjaldþroti.

Sokkinn kostnað á að afskrifa

Út um allan heim eru fjármálafyrirtæki sem eru ýmist gjaldþrota, tæknilega gjaldþrota eða á leiðinni í þessa stöðu.  Hér á landi eru þrjú stór fjármálafyrirtæki sem byggja eignasafn sitt á vafasömum kröfum sem urðu til vegna lögbrota, svika, spillingar, vanhæfi, óheiðarleika og hvað það nú var fleira.  Einhvern tímann mun reyna á það fyrir dómi hvort gríðarleg hækkun höfuðstóls lána standist og falli það fjármálafyrirtækjunum í óhag, þá sé ég ekki að þau haldi áfram rekstri í óbreyttri mynd.  En verði kröfurnar ekki lengur jafn verðmiklar, þá mun það bitna á kröfuhöfum fjármálafyrirtækjanna, sem eru víst erlendir og með beittar tennur.  Fyrir utan að hafa tapað eitthvað á misheppnaðri áhættustjórnun sem þegar er komin í ljós, þá gæti verið að áhættustjórnunin hafi verið ennþá misheppnaðri. 

Ísland er ekki eina landið í heiminum sem þessir ógurlegu kröfuhafar hafa misstigið sig gagnvart áhættustjórnun.  Grikkland, Ítalía, Írland, Portúgal, Bandaríkin og svona mætti lengi telja eru allt lönd þar sem mikill fjöldi fjármálafyrirtækja er ýmist fallinn eða á fallandi fæti.  Önnur berast í bökkum, en geta ekki endurgreitt lánadrottnum sínum.  Lánadrottnarnir hafa tvo kosti:  Annar er að afskrifa strax og hinn er að afskrifa síðar.  Það er ekkert þarna á milli.  Jú, menn eru að reyna að mergsjúga allt það fé sem stjórnvöld í einhverju brjálæði eru að dæla inn í fjármálafyrirtækin svo ekki falli kusk á hvítflibba bankamanna.  Því verður að hætta.  Kröfuhafar verða að skilja, að þeir bera ábyrgð á sinni áhættustýringu og hafi hún brugðist, þá bera þeir tjónið og engir aðrir.  Enginn munur er á töpuðum kröfum vegna lána til illa staddra fjármálafyrirtækja og illa staddra framleiðslufyrirtækja.  Því fyrr sem menn viðurkenna sokkinn kostnað, því fyrr hefst endurreisnin.


mbl.is Illa staddir bankar fari í gjaldþrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Almenningur ber skaðann af óheiðarleika, vanhæfi og spillingu fjármálafyrirtækja

Í Fréttablaðinu í dag er fjallað um kvörtun Hagsmunasamtaka heimilanna vegna mismununar fjármálafyrirtækjanna við úrlausn mála samkvæmt 110% leiðinni.  Eyjan fjallar um málið og eins og venjulega spretta þar fram einstaklingar, sem verja lögbrot, fjárglæfri, svik og pretti hrunbankanna.  (Heimildir mínar fyrir fjárglæfrum, lögbrotum(meint), svik og pretti fæ ég úr skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis sem kom út í apríl 2010.)

Mér finnst merkilegt hvað fólki finnst það eðlilegur hlutur að hækkun lána sem komu til vegna fjárglæfra fjármálafyrirtækjanna, lögbrota, svika og pretta eigi að vera sjálfsögð eign þessara fyrirtækja.  Bankarnir þrír, þ.e. Landsbanki Íslands hf., Glitnir hf. og Kaupþing banki hf., voru valdir að tjóni fyrir íslenskt samfélag upp á þúsundir milljarða, þar á meðal hækkun á lánum heimilanna upp á nokkur hundruð milljarða.  Í hvert sinn sem kemur upp umræða um þá sjálfsögðu kröfu að þetta verði leiðrétt, þá spretta fram einstaklingar, sem flokka sig til jafnaðarmanna eða samfylkingarmanna, og finnst sjálfsagt að nýju kennitölur þessara banka haldi hinu illa fenga fé og tala um að eingöngu eigi að hjálpa þeim sem þess þurfi.  Í mínum huga er þetta ekki spurning um að þeir fái hjálp sem þurfi þess með.  Þetta er spurning um að það sem ranglega var tekið verði skilað.

Ég veit ekki hve oft ég hef fjallað um þetta mál.  Örugglega vel á annað hundrað sinnum.  Afstaða mín hefur alltaf verið mjög skýr:

Það sem bættist á eftirstöðvar lána vegna fjárglæfra, svika, lögbrota og pretta hrunbankanna og annarra fjármálafyrirtækja í aðdraganda og eftirmála hrunsins skal þurrkað út aftur.

Hagsmunasamtök heimilanna lögðu til strax í janúar 2009 að gengistryggðum lánum yrði breytt í verðtryggð lán frá lántökudegi og öll verðtryggð lán (þar með þau sem áður voru gengistryggð) fengju 4% þak á árlegar verðbætur.  Með þessari aðferð tækju lántakar á sig sanngjarnar og eðlilegar hækkanir og í dúr við hærri vikmörk verðbólgumarkmiða Seðlabanka Íslands.  Með þessu væri hlutur allra leiðréttur á sama hátt, allir fengju jafnstóra hluta af tjóni sínu leiðréttan.  Það sem mestu skiptir er, að aðferðin var skjótvirk og fækkaði verulega þeim sem þyrftu sérstaka og einstaklingsbundna meðhöndlun hjá fjármálafyrirtækjunum og umboðsmanni skuldara.  Ef þessi leið hefði verið farin strax á vormánuðum 2009, þá þori ég að fullyrða að yfir 90% af heimilum landsins væru í góðum málum og laus við allar fjárhagsáhyggjur.  Það sem meira er, neysla heimilanna væri meiri og þar með velta fyrirtækja með auknum skatttekjum ríkissjóðs vegna hærra atvinnustigs og meiri neyslu.

110% leiðin

Það var mín skoðun í nóvember og hefur hún ekki breyst, að 110% leiðin er ótrúlega heimskuleg aðferð til að leiðrétta hlut fólks.  Á það benti ég í séráliti mínu í nóvember í fyrra en það varð einmitt til þess að ég þótti sjálfsagt skotmark óvandaðra einstaklinga. 

Í fyrsta lagi er fasteignaverð rangur viðmiðunarpunktur.  Það tekur sífelldum breytingum og getur munað milljónum á nokkrum mánuðum.  Þannig byggist upphæð leiðréttingarinnar á því hvenær aðgerðin fer fram.  Í öðru lagi þá tekur hún ekkert mið af tjóni fólks vegna fjárglæfra fjármálafyrirtækjanna og refsar beinlínis þeim sem voru hagsýnir, en verðlaunar þá sem fóru greitt.  Í þriðja lagi, þá staðfestir hún að fjármálafyrirtæki eru ekki ábyrg fyrir fjárglæfrum sínum, svikum, lögbrotum og prettum.  Það er allt í lagi að stela af almenningi, ef það er gert í nafni löglegra stofnaðra fjármálafyrirtækja. Í fjórða lagi er hún brot á lögum um fjármálafyrirtæki nema greiðslumat fari fram, þar sem lögin kveða á um að framkvæma skuli greiðslumat áður en lánveiting (hvort sem hún er ný, endurnýjun á láni eða endurskipulagning) á sér stað.  Fjármálafyrirtæki er óheimilt að veita einstaklingi lán sem ekki stenst slíkt greiðslumat.

Hvaða fjármálafyrirtæki dettur í hug, að það sé í lagi að lána fyrir 110% af því veði sem lagt er til?  Þessi aðferð er svo vitlaus, að ekki tekur neinu tali.  Síðan er 110% leiðin ekki einu sinni 110% leið.  Hún er í mörgum tilfellum 130% leið eða jafnvel 180% leið, allt eftir því hvaða aðrar eignir viðkomandi á án tillit til skulda.  Þar kemur stærsti brandarinn í þessu.  Eigi viðkomandi 2 m.kr. bíl skuldlaust, þá bætast 2,2 m.kr. við eftirstöðvarnar, en eigi viðkomandi 2 m.kr. Kjarval uppi á vegg, þá bætist ekkert við eftirstöðvarnar.  Samt er það þannig að bíllinn getur verið fólki nauðsynlegur, en Kjarval er bara til skrauts.

Eignarupptaka í boði hins opinbera

Hún ætlar að verða lífseig jafnaðarmannaskoðunin að þeir sem hafa efni á því eigi að sitja uppi með tjónið sem fjármálafyrirtækin ollu þeim.  Bara eigi að koma þeim til hjálpar sem áttu minnst fyrir og helst ekki neitt.  110% leiðin er hrein og klár eignaupptaka og ekkert annað.  Þeir sem áttu eitthvað fyrir eiga að skulda 10% meira en þeir eiga og þeir sem áttu ekkert fyrir eiga áfram ekkert og skulda 10% til viðbótar.  Óheiðarleiki, vanhæfi og spilling stjórnenda og eigenda hrunbankanna er bara eðlilegur þáttur í rekstri banka.  Nokkuð sem viðskiptavinurinn á bara að reikna með og taka á kinnina.  Helst á hann að snúa hinum vanganum að nýju kennitölunni svo hún geti líka slegið hann.

Já, stærsta málið varðandi 110% leiðina er, að hún er fullkomnun á eignarupptökunni sem hrunbankarnir hófu með fjárglæfrum sínum, lögbrotum, svikum og prettum.  Ríkisstjórn vinstri flokkanna hefur farið leið vinstri sinnaðra þjóðarleiðtoga að gera eignir upptækar, en sá er munurinn á þeim og t.d. Hugo Chavez í Venesúela að hann tekur eignir af stórfyrirtækjum og færir almenningi, en hér á landi eru eignir almennings færðar stórfyrirtækjum.

Ef hrunbankarnir og nýju kennitölur þeirra hefðu sent hóp manna til að brjótast inn á heimili fólks til að ræna það eigum sínum, þá væri lögreglan fyrir löngu komin í málið.  Það er nefnilega ólöglegt og brot á hegningalögum.  En sé farið rafrænt inn á eignir fólks og þeim stolið sem afleiðing af lélegum rekstri, óheiðarleika í viðskiptum, afglöpum í starfi, spillingu, svikum, lögbrotum og prettum, þá er ekkert gert.  Jú, vissulega er heilmikið gert.  Þrjár ríkisstjórnir, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Fjármálaeftirlit, Seðlabankinn og dómstólar hafa varið fjármálafyrirtækin í bak og fyrir með lagasetningu, ströngum kröfum, tilmælum, birta ekki lögfræðiálit fyrr en eftir dúk og disk og hafna kröfum um lán séu leiðrétt með vísan í alls að framan auk forsendubrests, neytendaréttar, samningsréttar og stjórnarskrárinnar svo fátt eitt sé nefnt.  Þessir aðilar hafa, með fáeinum undantekningum, barist um hæl og hnakka svo fjármálafyrirtækin fái að halda hinu illa fengna fé sem tekið var með rafrænu innbroti á eigur fólks. 

Gleymum því ekki að sá sem kaupir þýfi er sekur um lögbrot.  Hafi nýja kennitalan keypt illa fengnar kröfur hrunbankanna, þá eru þær jafn illa fengnar eftir sem áður og jafn innstæðulausar.  En þetta skilja ekki íslenskir jafnaðarmenn, vegna þess að ráðherrar þeirra eru svo uppteknir við að kyssa tærnar á "erlendum" kröfuhöfum. 

Héraðsdómur Suðurlands

Kostulegast af þessu öllu er Héraðsdómur Suðurlands.  Túlkar dómurinn eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar á einn hátt, þegar verið er að vernda eignarétt fjármálafyrirtækja, en á allt annan þegar eignarétturinn er lántakans.  Hann komst svo að því að 50% fall íslensku krónunnar væri ekki forsendubrestur og heldur ekki hrun hagkerfisins.  Það væri nefnilega ekki eins alvarlegt og Suðurlandsskjálfti og eldgos í Vestmannaeyjum!  Samt kostaði Suðurlandsskjálfti ekki tjón upp á nema nokkra tugi milljarða meðan hrun hagkerfisins kostaði húsnæðislántaka nokkur hundruð milljarða.  Nei, þetta var ekki forsendubrestur heldur eitthvað sem alltaf má reikna með.  Mig langar að benda dómurum við Héraðsdóm Suðurlands að Heimaey byggðist upp í líklegast 15 mismunandi gosum á löngu tímabili.  Ef eitthvað er öruggt, þá er það að gjósa mun aftur í eyjunni.  Spurningin er ekki hvort heldur hvenær.  Líklegast innan 10.000 ára.  Suðurlandsskjálftar verða reglulega.  Íbúar Selfoss vita að stór skjálfti (upp á 6+ á Richter) verður á svæðinu í skjálftahrinum sem ganga yfir á 60 - 100 ára fresti.  Ein slík hrina hófst árið 2000 og henni er ekki lokið.  Hvernig getur þá slíkur skjálfti verið forsendubrestur?  Hann er fyrirséður að öðru leiti en því að tímasetning er óviss.

Voru fjárglæfrir, svik, lögbrot og prettir íslenskra bankamanna í undanfara hrunsins fyrirsjáanlegir atburðir?  Var þetta eitthvað sem viðskiptavinir bankanna máttu búast við?  Var 50% verðfall íslensku krónunnar á 9 mánuðum frá mars til desember 2008 atburður sem lántakar áttu að reikna með við lántöku árið 2001 eða voru það bara þeir sem tóku lán árið 2007 sem áttu að búast við slíku?  Héraðsdómur Suðurlands komst að þeirri niðurstöðu í dómi sl. haust, að framangreint gæti ekki talist forsendubrestur.  Lántaki átti að reikna með í sinni lántöku að mótaðilinn væri óheiðarlegur, óhæfur og spilltur stjórnandi.  Þetta er gott að vita.  Spurningin er hvort Hæstiréttur verði Héraðsdómi Suðurlands sammála.


Er innbyggð villa í útreikningi verðtryggðra lána?

Hagsmunasamtök heimilanna sendu í sumar kvörtun til umboðsmanns Alþingis, þar sem gerð var athugasemd við að reikniaðferð verðtryggðra lána ætti ekki lagastoð.  Þá er vísað til þess, að í lögum nr. 38/2001 er eingöngu talað um að verðbæta megi greiðslur, en ekkert talað um verðbætur á höfuðstól. 

Margir hafa stigið fram á ritvöllinn og komið í fjölmiðla til að fjalla um þetta mál, flestir því miður af minni kunnáttu og þekkingu en æskilegt hefði verið.  Settar hafa verið fram alls konar fullyrðingar og verið vinsælast að segja að ekki skipti máli hvaða leið er farin.  Ýmist er sagt að greiðslan verði sú sama, hvaða leið sem er farin, eða að núvirt greiðsla verði sú sama.

Hagsmunasamtök heimilanna báðu mig um að skoða þessar fullyrðingar frekar og hef ég því legið yfir nokkrum raunverulegum dæmum og sýnidæmum.  Fyrsta verkefnið var að fá raunverulega útreikninga til að ganga upp, þ.e. fá reiknivél mína til að komast að sömu niðurstöðu og ýmist reiknivélar fjármálafyrirtækjanna eða raunverulegar tölur á greiðsluseðlum.  Fékk ég gögn frá nokkrum fjármálafyrirtækjum og hef skoðað þau.  Þessi fjármálafyrirtæki eru Landsbankinn, Arion banki, Íslandsbanki, SPRON og LSR, en útreikningar frá Lífeyrissjóði starfsmanna sveitafélaga bíða frekari skoðunar.  Aðferðir fyrirtækjanna eru ekki allar eins, en það breytir ekki niðurstöðunni í stórum dráttum. 

Byrjað var að setja upp reiknivélar sem fengu nánast sömu niðurstöðu og raunveruleg dæmi og síðan voru þær notaðar til að reikna sýnidæmi.  Stillt var upp dæmi um 10 m.kr. lán og það skoðað út frá mismunandi lengd lánstíma, þó hér verði tekið dæmi um 40 ára lán.  Útgáfudagur lánsins var settur 10 ár aftur í tímann, þannig að notast er við 10 ára raunverulega verðbólguþróun, en eftir það er gert ráð fyrir 2,5% fastri verðbólgu út lánstímann.  Einhver bitamunur er á vélum fyrirtækjanna, en enginn stærðarmunur.  Má því með nokkurri vissu segja að útreikningar þeirra eru nánast eins.

Núverandi fyrirkomulag

Stóra spurningin er hvort aðferðin sé rétt.  Hún byggir á því að fundin er svo kölluð annuitetsgreiðsla (jafnar greiðslur miðað við fast verðlag) fyrir fyrstu afborgun út frá nafnvöxtum lánsins og fjölda afborgana.  Beri lánið 5,1% vexti, þá er sú tala sett inn í reikniformúlu þar sem deilt er í mánaðarlega vextina (5,1%/12=0,425%) með tölu sem fengin er með því að draga (1/(1 + mánaðarlegir vextir)) fært í veldi af fjölda afborgana frá 1.  Þar sem þessi síðari tala er minni en einn, þá fæst tala sem er örlítið hærri en mánaðarlegir vextir.  Þessi tala er síðan margfölduð með upprunalegum höfuðstóli lánsins.  Miðað við höfuðstól upp á 10 m.kr., 5,1% ársvexti og 478 gjalddaga, þá lítur excel formúla svona út:

=10000000*(0,425/(1-POWER((1/(1+0,425));478)))

og útkoman er 48.946 kr.  Aðferðin gengur síðan út á að fyrst eru fundir vextir af höfuðstólnum, þá verðbæturnar ofan á vextina og sé eitthvað rými eftir þá greiðist inn á höfuðstólinn, þó eru verðbætur vegna afborgunarinnar fyrst teknar af.  Næsta greiðsla er síðan 48.946 kr. verðbættar sem nemur hækkun vísitölu neysluverðs, en allt annað er eins.  Breytingin á höfuðstólnum er hins vegar reiknuð þannig, að afborgunin er dregin af honum og eftirstöðvarnar verðbættar.

Dæmi:

Höfuðstóll miðaður við 15/10/1999

10.000.000 kr.

Annuitetsgreiðsla

48.946 kr.

Vextir (5,1%/12)

42.500 kr.

Verðbætur (rauntala)

1.682 kr.

Afborgun

4.583 kr.

Verðbætur afborgunar

181 kr.

Eftirstöðvar nafnverðs - upprunalegur höfuðstóll mínus afborgun

9.995.417 kr.

Verðbættar eftirstöðvar - eftirstöðvar að viðbættum verðbótum

10.079.500 kr.

Áfallnar verðbætur - mismunurinn á síðustu tveimur tölum

84.083 kr.

Næsta annuitetsgreiðsla - þ.e. sú síðasta verðbætt sem nemur hækkun VNV

51.281 kr.

Í rúmlega 8 árum síðar leit þetta svona út:

Eftirstöðvar nafnverðs - 15/01/2008

9.211.430 kr.

Annuitetsgreiðsla

74.759 kr.

Vextir (5,1%/12)

39.190 kr.

Verðbætur (rauntala)

20.264 kr.

Afborgun

9.798 kr.

Verðbætur afborgunar

5.167 kr.

Eftirstöðvar nafnverðs - upprunalegur höfuðstóll mínus afborgun

9.201.632 kr.

Verðbættar eftirstöðvar - eftirstöðvar að viðbættum verðbótum

14.054.309 kr.

Áfallnar verðbætur - mismunurinn á síðustu tveimur tölum

4.842.879 kr.

Næsta annuitetsgreiðsla - þ.e. sú síðasta verðbætt sem nemur hækkun VNV

74.892 kr.

Áfallnar verðbætur eru orðnar meira en helmingurinn af eftirstöðvum nafnverðs enda verðbólga frá lántökudegi rétt tæplega 49%.  Heildargreiðslur fram til þessa hafa verið 6.158.845 kr.

Við þessa aðferð er þrennt að athuga:

1.  Í Ólafslögum nr. 13/1979 var gert ráð fyrir að verðbætur virkuðu sem vextir og greiddust jafnóðum.  Vegna þeirra "óvanalegu" aðstæðna  sem þá voru (þ.e. mikillar verðbólgu) var sett inn bráðabirgðaákvæði sem gilda skyldi fyrir 1979 og 1980, að heimilt væri að bæta verðbótum hvers mánaðar við höfuðstól lána, en eftir það átti grunnreglan að taka við, að verðbætur reiknuðust og greiddust eins og vextir.

2.  Verðbætur leggjast á fullum þunga á höfuðstól lánanna og eru því íþyngjandi hvað varðar vexti og verðbætur vegna síðari greiðslna.

3.  Ekki er tekið tillit til væntanlegrar verðbólgu við ákvörðun fyrstu annuitetsgreiðslu, þrátt fyrir vilja löggjafans að líta skuli á verðbætur sem hluta vaxta.

Verðbætur greiddar út á hverjum gjalddaga

Nú ætla ég ekki að halda því fram, að lántakar vilji almennt greiða út fullar verðbætur á höfuðstólinn á hverjum gjalddaga.  Slíkt gæti orðið gríðarlega íþyngjandi og mjög líklegt að stórhluti lántaka hefði ekki bolmagn til slíks, þegar verðbólga milli mánaða er mikil.  Skoðum hvernig slíkt fyrirkomulag væri.  Birtar eru upplýsingar fyrir sömu gjalddaga og áður.

Höfuðstóll miðaður við 15/10/1999

10.000.000 kr.

Fyrsta annuitetsgreiðsla

126.932 kr.

Vextir (5,1%/12)

42.500 kr.

Afborgun

310 kr.

Verðbætur (rauntala)

84.122 kr.

Viðmiðunar vísitala neysluverðs

190,2/191,8

Eftirstöðvar nafnverðs - upprunalegur höfuðstóll mínus afborgun

9.999.690 kr.

Verðbættar eftirstöðvar - eftirstöðvar að viðbættum verðbótum

Á ekki við

Áfallnar og greiddar verðbætur - Eru greiddar jafnóðum

84.122 kr.

Næsta annuitetsgreiðsla - þ.e. endurreiknuð greiðsla út frá vöxtum og verðbólgu

121.099 kr.

Og: 

Eftirstöðvar nafnverðs fyrir greiðslu - 15/01/2008

9.496.089 kr.

Annuitetsgreiðsla

106.480 kr.

Vextir (5,1%/12)

40.358 kr.

Afborgun

1.661 kr.

Verðbætur (rauntala)

64.461 kr.

Viðmiðunar vísitala neysluverðs

279,9/281,8

Eftirstöðvar nafnverðs eftir greiðslu – upprunalegur höfuðstóll mínus afborganir

9.494.428 kr.

Verðbættar eftirstöðvar – eftirstöðvar að viðbættum verðbótum

Á ekki við

Áfallnar og greiddar verðbætur – Eru greiddar jafnóðum

3.849.928 kr.

Næsta annuitetsgreiðsla - þ.e. endurreiknuð greiðsla út frá vöxtum og verðbólgu

63.785 kr.

Heildargreiðslan til þessa hefði því verið 8.502.963 kr. samanborið við 6.158.845 kr. eða 2.344.118 kr. hærri tala, en munurinn á eftirstöðvunum er hins vegar 4.559.881 kr.  (Tekið skal fram að á öðrum gjalddögum þá fór afborgunargreiðsla upp í allt að 30.000 kr.)

Þessa aðferð er einnig hægt að útfæra með jöfnum afborgunum og er heildargreiðslan á tímabilinu þá um 9,4 m.kr. og eftirstöðvarnar hefðu staðið í um 7,9 m.kr. í lok janúar 2008.  Gallinn við báðar aðferði í þessum kafla er að einstakar gjalddagagreiðslur geta orðið ískyggilega háar.

Hluti verðbólgu tekinn inn í vexti

Hugmyndin með verðtryggingunni á sínum tíma var að jafna verðbólguskotum út yfir lánstímann.  Af lestri fylgi skjala með frumvarpi að lögum nr. 13/1979 má samt ráða að ekki var ætlunin að jafna allri verðbólgu út lánstímann, eins og framkvæmdin hefur verið.  Verðtryggingin átti að virka eins og vextir og greiðast út, upp að vissu marki, sem slíkir.  Í bráðabirgðaákvæði  sem sett var inn í lög nr. 10/1961 um Seðlabanka Íslands (sem var illa unnið, svo ekki sé meira sagt), er gefin heimild til að bæta verðbótum vegna áranna 1979 og 1980 ofan á höfuðstól.  Í 34. gr. er talað um að greiðslur, þar með talið vextir, skuli breytast í hlutfalli við verðvísitölu og síðan vísað nánar í 39. gr.  Þrátt fyrir þetta er bætt við í 40. gr. frekari ákvæði um að verðbætur megi bæta við höfuðstól.

Ef gengið er út frá því að vilji löggjafans hafi verið að meðhöndla verðbólgu sem vexti, þá er líklegast að taka eigi verðbólguvæntingar inn í vaxtagreiðsluna eða að minnsta kosti þá útreikninga sem notaðir eru til að finna út fyrstu annuitetsgreiðslu lánsins.  Hér fyrir neðan er stillt upp dæmi, þar sem annuitetsgreiðslan er fundin út miðað við 2,5% fasta verðbólgu, þ.e. í staðinn fyrir að miða við 5,1% vexti inn í útreikning á greiðslunni, þá eru notaðir 7,6% vextir og verðbætur.  Breyting annuitetsgreiðslu milli mánaða lækkar sem nemur þeim hluta verðbólgunnar sem færð var inn í vextina.

Fyrsta greiðsla:

Höfuðstóll miðaður við 15/10/1999

10.000.000 kr.

Fyrsta annuitetsgreiðsla

66.590 kr.

Vextir (5,1%/12)

42.500 kr.

Afborgun

0 kr.

Verðbætur (rauntala)

84.122 kr.

Greiddar verðbætur (rauntala)

24.090 kr.

Verðbætur færðar á höfuðstól

60.032 kr.

Viðmiðunar vísitala neysluverðs

190,2/191,8

Eftirstöðvar nafnverðs - upprunalegur höfuðstóll mínus afborgun

10.000.000 kr.

Verðbættar eftirstöðvar - eftirstöðvar að viðbættum ógreiddum verðbótum

10.060.032 kr.

Áfallnar verðbætur - Greiddar og ógreiddar

84.122 kr.

Næsta annuitetsgreiðsla - þ.e. sú síðasta verðbætt sem nemur hækkun VNV að frádregnu 2,5%/12

69.086 kr.

Greiðsla í janúar 2008:

Eftirstöðvar nafnverðs fyrir greiðslu - 15/01/2008

8.892.206 kr.

Annuitetsgreiðsla

82.248 kr.

Vextir (5,1%/12)

47.233 kr.

Afborgun

0 kr.

Verðbætur (rauntala)

35.016 kr.

Viðmiðunar vísitala neysluverðs

279,9/281,8

Eftirstöðvar nafnverðs eftir greiðslu - upprunalegur höfuðstóll mínus afborganir

8.892.206 kr.

Verðbættar eftirstöðvar - eftirstöðvar að viðbættum verðbótum

11.154.034 kr.

Áfallnar verðbætur - Greiddar og ógreiddar

4.163.617 kr.

Næsta annuitetsgreiðsla - þ.e. sú síðasta verðbætt sem nemur hækkun VNV að frádregnu 2,5%/12

82.635 kr.

Heildargreiðslur eru orðnar: kr. 7.498.339 eða  1.339.494 kr. meira en eftir hefðbundinni aðferð.  Á móti kemur að verðbættar eftirstöðvar eru 2.900.275 kr. lægri.

Niðurstöður

Við yfirferð mína á núgildandi reikniaðferðum verðtryggðra lána, þá get ég ekki séð að villur séu í útreikningum fjármálafyrirtækjanna (þ.e. þeirra sem ég hef skoðað).  Einhver mismunur er á framsetningu gagna og á það einnig við um reiknivélar fyrirtækjanna.  Ekki er þó gegnsæinu fyrir að fara hjá fyrirtækjunum við að skýra frá aðferðunum sem notaðar eru.

Sú aðferð að taka nær allar verðbætur að láni að nýju, er einstaklega óhagstæð fyrir lántakann.  Dæmi að ofan sýna það.  Ekki verður heldur séð, að það hafi verið ætlun löggjafans að verðtryggingin yrði útfærð á þann hátt.  Vissulega má deila um orðalag í frumvarpi og einstaka lagatexta, en ég fæ ekki betur séð, en að ætlunin hafi verið að taka tillit til verðbólgu í ígildi vaxta sem greiddir væru jafnóðum.  Slíkt hefði áhrif til hækkunar á hverjum gjalddaga, en á móti væru eingöngu "umframverðbætur" teknar að láni, þ.e. verðbætur sem orsökuðust af meiri verðbólgu en gert er ráð fyrir í forsendum lánsins.  Ekki þýðir fyrir fjármálafyrirtækin að skýla sér bak við, að gert sé ráð fyrir 0% verðbólgu, þar sem slíkt ástand er ekki til a.m.k. yfir 40 ára tímabil.

Meðan ógreiddum verðbótum er bætt á höfuðstól láns, má segja að lántakinn sé að greiða af tveimur lánum.  Annars vegar upprunalega láninu og hins vegar verðbótaláni. Gallinn er, að samkvæmt lögum nr. 38/2001, þá er ekki heimilt að bæta síðara láninu við fyrra lánið.  Vissulega er það ekki bannað, en þá kemur að sömu lögskýringu og notuð var um gengistrygginguna:  Greinar 13 og 14 í lögunum eru ófrávíkjanlegar og því er það eitt heimilt sem er heimilað í þeim.  Það þýðir að ekki má verðbæta höfuðstól lánanna eða þeirra annarra skuldbindinga sem um ræðir, þó svo að greiðsluna megi verðbæta.  Spurningin er því hvort verðtryggð veðbönd séu ekki haldslaus, þar sem ekki má bæta verðtryggingunni ofan á nafnverð lána eða skuldbindinga.  Og framhaldinu af því, mætti enn frekar álykta að verðbótahluti lána sé því í reynd óveðtryggt.

Um vexti verðtryggðra lána

Við athugun mína á verðtryggðum lánum, þá sá ég fjölmörg dæmi um hreint og klárt vaxtaokur.  Dæmi voru um að fjármálafyrirtæki hafi krafist hátt í 12% vexti ofan á verðtrygginguna.  Þegar verðbólga fór síðan í tveggja stafa tölur, þá báru verðtryggð lán hærri ávöxtun en nam dráttarvöxtum.   Eitthvað er stórlega bogið við fjármálakerfi, sem kúgar viðskiptavini sína með slíkum vöxtum.  Öll þau lán sem ég skoðaði voru fasteignaveðlán, þannig að ekki var því fyrir að fara að tryggingar væru slæmar eða áhætta fjármálafyrirtækisins mikil.  Mikið hefur verið talað um samkeppni á fjármálamarkaði, en svona dæmi sýna að því fer víðs fjarri.  Ef hér væri raunveruleg samkeppni, þá byðist lántökum verðtryggð lán með innan við 3% vöxtum í staðinn fyrir þau 4,3 til 7% sem húsnæðiskaupendum býðst í dag. Tilgangur verðtryggingarinnar var ekki að tryggja lánveitendum háa raunávöxtun, þó að það sé framkvæmdin.  Nei, tilgangurinn var að koma í veg fyrir að lánsfé og sparifé brynni upp í verðbólgubálinu.  Ég skil vel að Íbúðalánasjóður þurfi að halda sínum vöxtum í kringum 4,5 - 5%, þar sem hann fjármagnar sig á markaði, en að innlánsstofnun sem fjármagnar sig á mjög lágum vöxtum skuli þurfa að krefjast 4,3 - 7% verðtryggðra vaxta ber bara vott um tvennt:  Annað hvort er fyrirtækið einfaldlega illa rekið eða ávöxtunarkrafa eigendanna er allt of há.

Ég get vel skilið að útlán með ekkert veð eða ótraust veð að baki sér feli í sér áhættu sem kallar á háa vexti.  Besta mál.  Þannig er það um allan heim.  En að lán sem eru tryggð með veði í fasteign, beri jafnháa eða jafnvel hærri vexti en lán til bifreiðakaupa (þar sem bifreiðin lækkar um 15% í verði við það að setja hana í gang og aka henni af stað) er gjörsamlega út í hött.  Háir vextir fasteignalána eru ekki síðra vandamál fyrir lántaka en verðtryggingin.  Þetta tvennt saman er síðan það sem kemur í veg fyrir að heimilin losni undan skuldaklafanum.


mbl.is Verðbólgan nú 5%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Furðuleg styrkleikaröðun hjá UEFA

Hún er ansi hreint furðuleg styrkleikaröðunin hjá UEFA.  Ég átti mig alveg á því hvernig hún er fengin út, en með ólíkindum er að þýsku meistararnir eru í fjórða styrkleikaflokki, liðið sem lenti í 2. sæti er í þriðja styrkleikaflokki, en liðið sem varð þriðja í vor og fór í gegn um forkeppni er í fyrsta styrkleikaflokki.  Frönsku meistararnir raðast í 3. flokk, liðið sem lenti í 2. sæti rétt mer það að vera í 2. flokki og Lyon sem lenti í 3. sæti og fór í gegn um forkeppni er einnig í 2. flokki.  Þá eru ítölsku meistararnir í 2. flokki meðan liðið sem varð í 2. sæti er í efsta flokki.  Rússnesku meistararnir raðast einum flokk fyrir neðan liðið sem varð í 2. sæti.

Ætli einhver velkist í vafa um að Borussia Dortmund er mun öflugra lið en Basel, Olympiacos og BATE og alveg örugglega ekkert síðra en Arsenal, Porto, Lyon, Valencia, Benfica, Villareal, CSKA Moskva, Marseille, Ajax og Bayer 04 Leverkusen.  Samt raðast þýsku meistararnir allt að þremur flokkum neðar en sum af þessum liðum.

Þessi styrkleikaröðun er aftur ávísun á mjög áhugaverða möguleika þegar dregið verður í riðla.  Helst er að Bayern Munchen njóti þess að sterk þýsk lið eru röðuð neðarlega, þar sem með því kemst liðið hjá því að leika við langsterkasta liðið í 4. flokki.  Sterkasti mögulegi riðillinn sem mér sýnist geta komið út úr drættinum á morugn væri:

Barcelona eða Real Madrid/AC Milan/Manchester City/Borussia Dortmund

Önnur skemmtileg samsetning væri Man. Utd., AC Milan, Lille og  Dortmund.  Tveir veikir riðlar væru:

Porto/Villareal/Basel/APOEL

Arsenal/CSKA Moskva/Olympiacos/Genk

Eins og styrkleikaröðunin er, þá eru nokkur lið úr neðri flokkunum ekkert síðri en lökustu liðin úr efri flokkunum og þá nefni ég úr neðri flokkunum Dortmund, Man City, Napoli, Dinamo Zagreb, Lille, Zenit og Leverkusen, meðan Porto, Arsenal, Benfica, Lyon, Villareal og CSKA hafa oft verið sterkari en um þessar mundir og eiga því líklegast ekki inni fyrir hárri röðun sinni.


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðtryggingin ekki ólögleg samkvæmt íslenskum lögum - en aðferðin hugsanlega

Þetta er að hluta endurbirt færsla frá síðustu færslu:

Verðtryggingin er ekki ólögleg, en hugsanlega aðferðin við útreikninga

Einhvers misskilnings virðist gæta varðandi kvörtun Hagsmunasamtaka heimilanna til umboðsmanns Alþingis.  Samtökin eru að kvarta undan þeirri aðferðafræði að bæta verðbótum ofan á höfuðstól lánsins, en samkvæmt lögfræðiáliti sem samtökin hafa í höndunum (og eru raunar búin að hafa í höndunum frá því í janúar) þá heimila ákvæði laga það ekki heldur eingöngu að greiðslur séu verðbættar.

Um hvað snýst ágreiningurinn?

1.  Grein 4 í reglum Seðlabanka Íslands nr. 492/2001 hafi ekki lagastoð, en þar segir m.a.:

Höfuðstóll láns breytist í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs frá grunnvísitölu til fyrsta gjalddaga og síðan í hlutfalli við breytingar á vísitölunni milli gjalddaga. Skal höfuðstóll láns breytast á hverjum gjalddaga, áður en vextir og afborgun eru reiknuð út.

þ.e. undirsktrikaði textinn styðjist ekki við nein lagaákvæði.

2.  Að bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 10/1961 um  Seðlabanka Íslands (sett inn 1978) hafi fallið úr gildi í árslok 1980.  Ákvæðið hljóðar sem hér segir:

Vaxtaákvarðanir á árunum 1979 og 1980 skulu við það miðaðar, að fyrir árslok 1980 verði í áföngum komið á verðtryggingu sparifjár og inn- og útlána, sbr. VII. kafla þessara laga um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Meginreglan verði sú, að höfuðstóll skuldar breytist með verðlagsþróun en jafnframt verði nafnvextir lækkaðir.  Afborganir og vextir reiknist af verðbættum höfuðstól. Verðtrygging verði reiknuð í hlutfalli við verðbreytingar. Samhliða verðtryggingu verði lánstími almennt lengdur og skal setja um þetta efni almennar reglur, þar á meðal um heimildir til skuldabréfaskipta af þessu tilefni.

Takið eftir að ákvæðið átti eingöngu við vaxtaákvarðanir á árunum 1979 og 1980 og hefur því ekkert gildi eftir það.

3.  Að bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 10/1961 hafi ekki haft stoð í lögunum sjálfum, þar sem VII. kafli sem vísað er til er augljóslega í allt öðrum lögum, þ.e. um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár, en ekki lögum nr. 10/1961.  Spurningin er því hvort þetta bráðabirgðaákvæði hafi nokkru sinni verið gilt.

4.  Að fyrri reglur SÍ um sama efni hafi ekki haft lagastoð, ýmist alls ekki (sbr. lið 3), frá árslokum 1980 (sbr. lið 2) eða frá því að lög nr. 36/1986 um Seðlabanka Íslands tóku gildi, en bráðabirgðaákvæðið frá 1978 var ekki endurnýjað í þeim.

Hvaða máli skiptir það hvort verðbætur eru reiknaðar á höfuðstól annars vegar eða greiðslur hins vegar?  Ég hef verið að skoða hver áhrifin eru og hef notað við það reiknivélar bankanna og Íbúðalánasjóðs annars vegar og hins vegar líkön sem ég hef aðgang að.  Auk þess er ég að reyna að bera saman raungreiðslur og útreikninga í samræmi við reiknivélar banka og ÍLS.  Vandamálið er, að reiknivélar bankanna (Landsbankans og Arion banka, vél Íslandsbanka var ekki tiltæk) sýna aðra niðurstöðu en vél ÍLS og munar þar talverðu þó notaðar séu sömu forsendur.  Á ég eftir að skoða betur í hverju þessi mismunur felst.

Guðbjörn Jónsson hefur birt þrjú myndbönd á YouTube, þar sem hann fer ítarlega yfir sína útreikninga og fær út gríðarlegan mun eftir því hvort hans aðferð er notuð eða reiknivél Landsbankans.  Vissulega notar hann ýkta verðbólgu til að sýna fram á muninn, en eingöngu við mjög litla verðbólgu skiptir munurinn á aðferðafræðinni ekki máli svo nokkru nemur.

Fyrsti hluti myndbands Guðbjörns

Annar hluti myndbands Guðbjörns

Þriðji hluti myndbands Guðbjörns

Hvort allt sé rétt sem kemur fram á myndböndunum hef ég ekki sannreynt, en skýringar Guðbjörns eru góðar svo langt sem þær ná.

Viðbót

Í fréttaskýringu Morgunblaðsins eru vangaveltur um hvað verður um höfuðstólinn.  Vissulega gæti höfuðstóllinn lækkað, en í skýringu Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands við setningu tilmæla þessara stofnana í kjölfar dóma Hæstaréttar 16. júní 2010, þá kom fram að það var framtíðargreiðsluflæðið sem skipti mestu máli.  Eign bankanna væri metin út frá þessu greiðsluflæði, en ekki höfuðstóli lánanna.  Nú hlýtur það sama að gilda.  Framtíðargreiðsluflæðið lækkar líklegast eitthvað, en ekki er víst hversu mikið.  Það veltur allt á verðbólgunni á lánstímanum.

Morgunblaðið fer yfir þá þrjá kosti sem einn bankamaður segir vera í stöðunni, en gleymir þeim sem virðist augljósastur.  Kostirnir sem bankamaðurinn sér, er 1) að borga allar verðbætur strax; 2) að verðbætur leggist með nýju láni ofan á það lán sem er fyrir (þ.e. í reynd sama fyrirkomulag og nú er); 3) að óheimilt sé að leggja verðbætur á höfuðstól.  Fjórði kosturinn og sá sem lögin segja til um, er að hver afborgun sé verðbætt líkt og Guðbjörn lýsir í myndböndunum sínum.  Þá er höfðustóllinn óverðbættur, afborgunin fundin fyrir hvern gjalddaga og hún síðan verðbætt.  Það sem stendur þá út af er hvernig á að fara með vextina, þar sem höfuðstóllinn lækkar við hverja afborgun en hækkar ekki eins og núverandi fyrirkomulag segir til um.  Á þá að verðbæta vextina líka?

Stærsta málið varðandi verðtryggð lán er þó óútkljáð, þ.e. standast þau evrópskan neytendarétt?  Um það eru deildar meiningar, en ég ætla ekki að fjalla um það núna.


mbl.is Gætu þurft að afskrifa milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðtryggingin er ekki ólögleg, en hugsanlega aðferðin við útreikninga

Einhvers misskilnings virðist gæta varðandi kvörtun Hagsmunasamtaka heimilanna til umboðsmanns Alþingis.  Samtökin eru að kvarta undan þeirri aðferðafræði að bæta verðbótum ofan á höfuðstól lánsins, en samkvæmt lögfræðiáliti sem samtökin hafa í höndunum (og eru raunar búin að hafa í höndunum frá því í janúar) þá heimila ákvæði laga það ekki heldur eingöngu að greiðslur séu verðbættar.

Um hvað snýst ágreiningurinn?

1.  Grein 4 í reglum Seðlabanka Íslands nr. 492/2001 hafi ekki lagastoð, en þar segir m.a.:

Höfuðstóll láns breytist í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs frá grunnvísitölu til fyrsta gjalddaga og síðan í hlutfalli við breytingar á vísitölunni milli gjalddaga. Skal höfuðstóll láns breytast á hverjum gjalddaga, áður en vextir og afborgun eru reiknuð út.

þ.e. undirsktrikaði textinn styðjist ekki við nein lagaákvæði.

2.  Að bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 10/1961 um  Seðlabanka Íslands (sett inn 1978) hafi fallið úr gildi í árslok 1980.  Ákvæðið hljóðar sem hér segir:

Vaxtaákvarðanir á árunum 1979 og 1980 skulu við það miðaðar, að fyrir árslok 1980 verði í áföngum komið á verðtryggingu sparifjár og inn- og útlána, sbr. VII. kafla þessara laga um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Meginreglan verði sú, að höfuðstóll skuldar breytist með verðlagsþróun en jafnframt verði nafnvextir lækkaðir.  Afborganir og vextir reiknist af verðbættum höfuðstól. Verðtrygging verði reiknuð í hlutfalli við verðbreytingar. Samhliða verðtryggingu verði lánstími almennt lengdur og skal setja um þetta efni almennar reglur, þar á meðal um heimildir til skuldabréfaskipta af þessu tilefni.

Takið eftir að ákvæðið átti eingöngu við vaxtaákvarðanir á árunum 1979 og 1980 og hefur því ekkert gildi eftir það.

3.  Að bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 10/1961 hafi ekki haft stoð í lögunum sjálfum, þar sem VII. kafli sem vísað er til er augljóslega í allt öðrum lögum, þ.e. um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár, en ekki lögum nr. 10/1961.  Spurningin er því hvort þetta bráðabirgðaákvæði hafi nokkru sinni verið gilt.

4.  Að fyrri reglur SÍ um sama efni hafi ekki haft lagastoð, ýmist alls ekki (sbr. lið 3), frá árslokum 1980 (sbr. lið 2) eða frá því að lög nr. 36/1986 um Seðlabanka Íslands tóku gildi, en bráðabirgðaákvæðið frá 1978 var ekki endurnýjað í þeim.

Hvaða máli skiptir það hvort verðbætur eru reiknaðar á höfuðstól annars vegar eða greiðslur hins vegar?  Ég hef verið að skoða hver áhrifin eru og hef notað við það reiknivélar bankanna og Íbúðalánasjóðs annars vegar og hins vegar líkön sem ég hef aðgang að.  Auk þess er ég að reyna að bera saman raungreiðslur og útreikninga í samræmi við reiknivélar banka og ÍLS.  Vandamálið er, að reiknivélar bankanna (Landsbankans og Arion banka, vél Íslandsbanka var ekki tiltæk) sýna aðra niðurstöðu en vél ÍLS og munar þar talverðu þó notaðar séu sömu forsendur.  Á ég eftir að skoða betur í hverju þessi mismunur felst.

Guðbjörn Jónsson hefur birt þrjú myndbönd á YouTube, þar sem hann fer ítarlega yfir sína útreikninga og fær út gríðarlegan mun eftir því hvort hans aðferð er notuð eða reiknivél Landsbankans.  Vissulega notar hann ýkta verðbólgu til að sýna fram á muninn, en eingöngu við mjög litla verðbólgu skiptir munurinn á aðferðafræðinni ekki máli svo nokkru nemur.

Fyrsti hluti myndbands Guðbjörns

Annar hluti myndbands Guðbjörns

Þriðji hluti myndbands Guðbjörns

Hvort allt sé rétt sem kemur fram á myndböndunum hef ég ekki sannreynt, en skýringar Guðbjörns eru góðar svo langt sem þær ná.


mbl.is Eignir í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 37
  • Sl. sólarhring: 66
  • Sl. viku: 345
  • Frá upphafi: 1680483

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 40
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband