Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2011
17.8.2011 | 12:19
Fölsun upplýsinga heldur áfram
Ég er búinn að vekja athygli á þessu áður og sé mig knúinn til að endurtaka það hér:
Fjármálafyrirtækin sendu rangar upplýsingar til ríkisskattstjóra um stöðu áður gengistryggðra lána heimilanna vegna framtals þess árs. Lánin voru ennþá reiknuð sem gengistryggð þrátt fyrir dóma Hæstaréttar frá 16. júní 2010. Er alveg með ólíkindum að skattstjóri hafi ekki brugðist við ítrekuðum ábendingum mínum til hans um þetta efni. Skil ég ekki hvers vegna rangar tölur eru látnar standa.
Samkvæmt útreikningu Fjármálaeftirlitsins þá námu áhrifin af dómum Hæstaréttar vel á annað hundrað milljarða sem eftirstöðvar lána einstaklinga lækkuðu. Í gagnaskilum til ríkisskattstjóra ákváðu fjármálafyrirtækin að virða að vettugi dómana, eins og þeir hefðu aldrei fallið. Og þrátt fyrir endurteknar ábendingar mínar, þá lætur ríkisskattstjóri (að því virðist) eins og ekkert sé. Er það grafalvarlegur hlutur, þar sem það varðar við sektum og jafnvel þyngri refsingu að gefa upp rangar upplýsingar á skattframtölum. En ekki fyrir fjármálafyrirtækin. Þau virðast geta sent hvaða bull sem er til skattstjóra og hann tekur við þeim þegjandi og hljóðalaust án minnstu tilraunar til að fá réttar upplýsingar. Ætli Steingrímur átti sig á því, að með þessu er skattstjóri að lækka skattstofna ríkisins? Þessi "mistök" fjármálafyrirtækjanna hafa nefnilega áhrif á, svo dæmi sé tekið, auðlegðarskatt.
Nú ratar þessi vitleysa um ranga skuldastöðu heimilanna inn í eitt ritið í viðbót, Peningamál Seðlabanka Íslands. Þaðan fara tölurnar inn í ótal önnur rit, því Peningamál er eitt af þessum grunnritum sem sífellt er vitað í. Hvers vegna ríkisskattstjóri lætur fjármálafyrirtækin komast upp með að mata sig á röngum upplýsingum, er mér með öllu óskiljanlegt og er ekki til að auka traust almennings á íslenskri stjórnsýslu.
Dómur dregur úr óvissu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.8.2011 | 11:50
Spáð 6,8% verðbólgu á fyrsta ársfjórðungi 2012
Á fundi efnahags- og viðskiptaráðuneytisins um verðtryggingarskýrsluna Eyglóar-nefndarinnar sem kom út í vor, þá hélt ég erindi um sérálit meirihluta, þ.e. fulltrúa Framsóknar, Hreyfingarinnar og VG. Í þessu erindi og svörum við spurningum, þá hélt ég því fram að verðbólguhorfur væru heldur dimmar. Gekk ég raunar svo langt að segja að héldist sami hraði á verðbólgunni, þá gætum við staðið frammi fyrir yfir 10% verðbólgu í byrjun næsta árs. Á fundinum var starfsmaður Seðlabankans. Brást hann ókvæða við þessari spá minni. Sagði mig fara með fleipur og ekkert vera hæft í þessu. Auk þess væri hættulegt að koma með svona órökstudda spá. Ég benti honum þá á, að skammtímaverðbólga (3 mánaða) var (á þeim tíma) vel yfir 12% og jafnvel á lengra tímabili var verðbólgan vel yfir 8%. Allt vísaði til þess að ársverðbólgan gæti orði há í janúar 2012.
Viti menn, nú er Seðlabankinn farinn að vara við hárri verðbólgu á 1. ársfjórðungi 2012. 6,8% er talsvert há verðbólga, þegar litið er til síðustu 20 ára eða svo. Ætli hún lendi ekki í topp 15-20% á þessum árum.
Þó svo að spá Seðlabankans sé ekki eins dökk og mín, þá skulum við hafa í huga, að Seðlabankinn hefur sjaldnast spáð lægri langtímaverðbólgu en raunin varð. 6,8% geta því auðveldlega orðið 9% eða þess vegna eitthvað hærra.
Seðlabankinn spáir 6,8% verðbólgu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.8.2011 | 10:51
Er hækkun leiguverðs fjármálafyrirtækjunum að kenna?
Einbýlishús til leigu á tæpar 6 milljónir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
16.8.2011 | 21:23
Fer verðtryggingin sömu leið og gengistryggingin og verður dæmd ólögleg?
Stjórnvöldum og fjármálafyrirtækjum var boðinn góður kostur í janúar 2009. Að færa höfuðstól og greiðslubyrði húsnæðislána niður í þá stöðu sem hún var í ársbyrjun 2008 að viðbættum 4% verðbótum. Þessu var hafnað af yfirgengilegum hroka. Ekki þótti ástæða til að ræða þessa heimskulegu tillögu Hagsmunasamtaka heimilanna, enda litu fjármálafyrirtækin svo á að hægt væri að hunsa samtökin.
En samtökin létu ekki þagga niður í sér. Á vormánuðum 2009 héldu þau á lofti þeirri skoðun að gengistrygging væri ólöglegt form verðtryggingar. Aftur var þessi skoðun samtakanna og fleiri góðra manna þöguð í hel. Seðlabanki Íslands gerðist meira að segja svo grófur að fela lögfræðiálit aðallögfræðings síns sem tók undir skoðun HH og Björns Þorra Viktorssonar um ólögmæti verðtryggingarinnar. Þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra sagði fólki bara að fara í mál, þrátt fyrir að lögfræðiálit aðallögfræðings Seðlabanka Íslands hefði legið í marga mánuði inni í ráðuneytinu.
Niðurstaðan var náttúrulega sú að við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna höfðum rétt fyrir okkur. Hæstiréttur kvað upp sinn úrskurð 16. júní 2010. Vandinn við þann úrskurð var hve augljós niðurstaðan var hefur einn viðmælandi minn eftir einum hæstaréttardómara.
Svo merkilegt sem það nú er, þá höfum við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna nánast alltaf rétt fyrir okkur i túlkunum á lögum, stöðunni í þjóðfélaginu, áhrifum af úrræðum og úrræðaleysi stjórnvalda og lausnum bankakerfisins. Ég man bara ekki eftir einu einasta atriði, þar sem álit samtakanna eða einstakra stjórnarmanna í opinberu nefndarstarfi hefur reynst rangt. Gott væri að fá ábendingar, ef mig misminnir, þar sem minni mitt á stundum til með að bregðast mér.
Ég hef svo sem ekki lagst yfir þetta varðandi verðtrygginguna til að reikna út mismuninn, en það sem ég hef skoðað bendir til þess, að ekki sé lagastoð fyrir þeirri reikniaðferð sem notuð er. Aftur á móti gaf Seðlabankinn út reglur á sínum tíma um framkvæmd útreikninganna, en þær ganga lengra en lögin segja til um.
Nú fær örugglega einhver kvíðakast fyrir hönd Íbúðalánasjóðs. Íbúðalánasjóður getur ekki staðið undir þessu. Málið er að hann þarf ekki að standa undir þeirri leiðréttingu sem gæti átt sér stað. Aftur á móti þurfa eigendur skuldabréfa sjóðsins að standa undir leiðréttingunni og þar eru lífeyrissjóðirnir langsamlega stærstir.
Ég veit svo sem ekki hvernig þetta endar, en vafalaust mun Alþingi setja afturvirk lög til að redda málunum. Búið að reyna það einu sinni og gekk svona glimrandi vel, þannig að best er að reyna það aftur. Nema í þetta sinn munu afturvirk lög ekki duga.
Ætli staðan væri önnur, ef stjórnvöld og fjármálafyrirtækin hefðu gengið til samninga á grunni krafna HH í febrúar eða mars 2009? Í stað endalausra dómsmála og óvissu, væri líklegast kominn á stöðugleiki í þjóðfélaginu og endurreisnin löngu hafin. Fólk og fyrirtæki væri að mestu leiti í góðum málum og ríkissjóður mun betur staddur en hann er núna. Já, bara ef leið samninga, ekki yfirgangs, hefði verið valin.
Umboðsmaður kannar útreikninga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (42)
13.8.2011 | 12:41
Spár Hagsmunasamtaka heimilanna ganga eftir
Mér þykir leitt, en ég verð að segja það:
Við sögðum að þetta myndi gerast.
Flumbrugangur stjórnvalda hefur gert það að verkum, að þúsundir heimila munu missa eignir sínar á nauðungarsölu og einstaklingarnir sjálfir fara í gjaldþrot. Vissulega eru tilfelli þar sem þetta hefði verið niðurstaða, hvað sem hefði verið gert, en að þúsundir á þúsundir ofan skuli vera að horfa á eftir eignum sínum á nauðungarsölur, þar sem stjórnvöld hafa neitað að leiðrétta stökkbreytingu lána heimilanna (og fyrirtækja) sem orsökuðust af svikum, lögbrotum, prettum og fjárglæfrum fjármálafyrirtækja í undanfara hrunsins.
Í reynd er það stærsti glæpurinn sem hefur verið framinn, að líta á illa fengna hækkun lána sem réttmæta eign lánadrottna. Meira að segja í Bandaríkjunum, þar sem fjármagnið stjórnar öllu, hafa menn áttað sig á, að það er óréttlátt að heimilin beri þungann af fjárglæfrum fjármálafyrirtækjanna. En hér á landi, þá skjálfa Steingrímur J og Árni Páll eins og hríslur í vindi yfir mögulegum, já, mögulegum, málaferlum kröfuhafa. Kröfuhafa sem eru margir hverjir ekki upprunalegir eigendur krafna á hrunbankana, heldur keyptu þær á skít á priki af tryggingafélaginu, sem greiddi upprunalegum eigendum út kröfu sína fyrir langa löngu.
Þetta er sami Steingrímur sem hefur í gegn um tíðina lamið á hverri ríkisstjórninni á fætur annarri fyrir linkind og rolugang. Hafa minnst 6 formenn Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Framsóknarflokks fengið að heyra reiðilestur Steingríms, en nú kemur í ljós að hver er sér næstur. Mesta rolan af öllu reynist Steingrímur sjálfur. Honum finnst hið besta mál að fórna almenningi í landinu svo ótilgreindir kröfuhafar banki nú ekki hugsanlega upp á hjá honum og stefni honum mögulega fyrir dóm.
Fjöldi fasteigna sleginn á uppboði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
13.8.2011 | 11:08
Ábyrgð fylgir vegsemd hverri
Gunnar Andersen, forstjóri FME, ber fyrir sig að hann hafi verið uppfylling í tvær stjórnir sem hann sat í á árunum 2001 - 2002 fyrir hönd Landsbanka Íslands hf. Þar sem hann hafi verið uppfyllingarefni, þá beri hann enga ábyrgð og sé stikkfrí vegna þess sem þar fór fram. Samt ljáði hann samþykktum undirskrift sína. Samþykktum sem sæta núna gagnrýni.
Er hörmulegt til þess að vita að Gunnar Andersen, sem æðsti eftirlitsaðili fjármálafyrirtækja í landinu, gefi út þá yfirlýsingu að stjórnarmenn beri ekki ábyrgð. Menn geta alltaf sagt, að þeir hafi verið "uppfyllingarefni" eða "áhorfandi" og þetta hafi verið hinum að kenna.
Sérhver maður sem tekur sæti í stjórn fyrirtækis og bókar ekki mótmæli á stjórnarfundum vegna ákvarðana sem þar eru teknar, vísar ekki mögulega ólöglegum athöfnum til lögreglu eða FME eða hreinlega segir af sér í mótmælaskyni við tekna ákvörðun, mann er hluti af ákvörðuninni, tala nú ekki um þegar viðkomandi setur nafn sitt undir ákvörðunina, hann ber ábyrgð á framkvæmd þeirra ákvarðana sem stjórnin tekur. Hafi Gunnar Andersen þótt svo vænt um launin sín fyrir þessa stjórnarsetu, að hann kaus að þegja og samþykkja aðgerðir með þögn sinni, þá er hann jafn ábyrgur og þeir sem greiddu atkvæði með. Hafi hann mótmælt með ofangreindum hætti, þá er hann í góðum málum. Spurningin er því: Lét Gunnar Andersen bóka mótmæli við einhverjum af þeim ákvörðunum, sem virðast hafa orkað tvímælis, á þeim árum sem hann sat í þessum stjórnum?
Svör við þessari spurningu ættu að finnast í fundagerðabókum félaganna, en Gunnar Andersen getur kannski bara flýtt fyrir og upplýst þetta sjálfur. Samkvæmt upplýsingum í fjölmiðlum gerði hann það ekki og það sem meira er ljáði þessum samþykktum oft undirskrift sína. Uppfyllingarefni eða ekki, þá var hann samkvæmt því ákaflega virkt efni og þau eru þekkt fyrir að skipta máli.
Komist Gunnar Andersen upp með að víkja sér undan ábyrgð á þann hátt sem hann gerir, þ.e. með afsökuninni um að hafa verið "uppfyllingarefni", þá munum við sjá núverandi og fyrrverandi stjórnarmenn í öðrum fyrirtækjum gera það. Ábyrgð stjórnarmanna verður að engu fyrir utan kannski stjórnarformanna, þar sem þeir verða seint "uppfyllingarefni" meðan allir aðrir stjórnarmenn munu geta borið þessu fyrir sig.
Sjálfur notar Gunnar Andersen orðið "áhorfandi" og segir að munur sé á áhorfanda og geranda. Er það í raun svo? Hafi Gunnar Andersen verið áhorfandi að glæp, t.d. nauðgun, þá er hægt að kæra hann fyrir að hafa ekki komið fórnarlambinu til hjálpar. Hafi Gunnar orðið áhorfandi að líklegu lögbroti meðan hann sat í stjórn félaganna, sem um ræðir, þá ber hann jafn mikla ábyrgð á því að ákvörðun stjórnar var hrint í framkvæmd, þar sem hann hreyfði ekki andmælu eða lét FME vita af mögulega ólöglegu athæfi stjórnarinnar. Hann með þögn sinni og veitti því samþykki. Hann er kannski ekki jafn ábyrgur og gerendurnir, en hann gerði ekki það sem hann átti að gera, þ.e. stöðva hið ólöglega athæfi með þeim ráðum sem hann hafi. Það er vissulega munur á áhorfanda og geranda, en hann er ekki sá sem Gunnar Andersen heldur fram.
Munur á gerendum og áhorfendum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.8.2011 | 21:50
Eftirlit með lyfjum en ekki fjárglæfrum bankanna
Skoðum þessa frétt, sem var fyrsta frétt Sjónvarpsins í kvöld:
Karlmaður um þrítugt hefur verið ákærður fyrir að hafa svikið út úr heimilislækni um 1.500 töflur af morfínskyldum lyfjum á sex mánaða tímabili. Þetta kom fram í fréttum RÚV.
Ímyndum okkur nú að fréttin hafi verið svona:
Bankastjórar Landsbanka Íslands hf., Glitnis og Kaupþings hafa verið ákærðir fyrir að hafa svikið út úr heimilum landsins 450 milljarða á 12 mánaða tímabili frá október 2007 til septemberloka 2008.
Nei, við munum aldrei sjá svona fréttir vegna þess að það virðist ekki hafa verið ólöglegt að setja þjóðfélagið á hausinn. Engin lög virðastkoma í veg fyrir að menn geti með staðið í fjárglæfrum sem hafa þær afleiðingar að lán viðskiptavina margfaldast á stuttum tíma. Það sem meira er, að þessi hækkun lánanna telst, að mati fjármálaráðherra og tveggja efnahags- og viðskiptaráðherra, vera stjórnarskrárvarin eign kröfuhafa og bankanna.
Ótrúlega skrítið, en svona er Ísland.
Fer eitthvað á milli mála, að fjármálafyrirtækin Glitnir hf., Landsbanki Íslands hf. og Kaupþing banki hf. bökuðu landi og þjóð óheyrilegu tjóni. Þarf einhverja rannsókn á því? Valdi maður banaslysi, þá er hann ákærður, þó svo að slysið megi ekki á nokkurn hátt rekja háttsemi viðkomandi. Vissulega verður dómurinn vægari eftir því sem sökin er minni. Hvers vegna gildir ekki sama um menn, sem vísvitandi eða ekki bökuðu landi og þjóð ómældu tjóni? Af hverju hefur þeim ekki verið stefnt fyrir að hafa valdið skaðanum? Nei, þeir geta valsað um stræti og torg eða fengið sér vinnu í Kanada, svo dæmi sé tekið, og efnahagshrunið sem þeir ollu með háttsemi sinni, er bara eins og blettur á hvítflibba. Hvað er að réttarfarinu og lögum í þessu landi? Hvers vegna er ekki búið að ákæra þessa menn?
Maðurinn sem sveik út 1.500 töflur af morfínsskyldum lyfjum, hann er ákærður og er það gott. Hann mun fá mun þyngri refsingu, en mennirnir sem stuðluðu að hruni efnahags þjóðarinnar.
Ótrúlega skrítið, en svona er Ísland.
Sveik út morfínskyld lyf | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
10.8.2011 | 04:11
Niðurgreiðslur, beingreiðslur og styrkir til landbúnaðar - tilgangur, áhrif og líkar aðgerðir
Öðru hvoru rís upp umræða um að landbúnaður og bændur séu einhvers konar afætur á þjóðfélaginu vegna niðurgreiðslna, beingreiðslna og styrkja sem bændur fá frá ríkinu. Horfa menn þá til upphæðarinnar sem rennur til bænda, en hún mun vera um 10 ma.kr. á þessu ári, og segja hana vera til vitnis um að þennan afætuhátt.
Ég tók þátt í umræðu á Eyjunni um daginn, þar sem þessi mál voru rædd, oftar en ekki í upphrópunum og út frá pólitískum skoðunum, en staðreyndum. Langar mig að gera hér tilraun til að skýra tilgang niðurgreiðslna/beingreiðslna til landbúnaðarins, hvar áhrifin koma fram og benda á aðrar niðurgreiðslur sem tíðkast í þessu þjóðfélagi.
Tilgangurinn með niðurgreiðslum/beingreiðslum
Tilgangur niðurgreiðslu ríkis eða beingreiðslu eða hvað við köllum aðgerðina er fyrst og fremst að tryggja aðgengi að nauðsynlegri vöru eða þjónustu. Þannig hefur þetta fyrirkomulag virkað um allan heim í fleiri áratugi, ef ekki árhundruð. Ekki er um að ræða aðgengi stjórnvalda að vörunni og/eða þjónustunni heldur markaðarins, þ.e. neytenda vörunnar og þjónustunnar. Hér á landi njóta mjög margir aðilar greiðslna úr ríkissjóði eða sjóðum sveitarfélaganna og þó greiðslan til bænda sé myndarleg, þá er hún líklega ekki eins há hlutfallslega miðað við fjölda neytenda og það sem margir aðrir fá.
Niðurgreiðslur geta verið með fjölbreyttu formi. Algengasta formið er einhvers konar beingreiðsla, þ.e. gerður er samningur við þiggjanda greiðslunnar um ákveðna upphæð gegn því að viðkomandi tryggi tiltekið framboð af þeirri vöru eða þjónustu sem á í hlut. Í öðrum tilfellum, þá kaupir ríkið þjónustu langt umfram þarfir, eins og var varðandi áskriftir að pólitískum málgögnum hér í gamla daga. Síðan er óskilyrt greiðsla um þjónustuafhendingu, en miðað er við rekstrarkostnað. Þá er það afkastatengd greiðsla til einkarekinna fyrirtækja sem bjóða almenna þjónustu, t.d. í samkeppni við ríkisrekna þjónustu. Loks eru niðurgreiðslur í formi styrkja.
Áhrif niðurgreiðslna
Lítið fer á milli mála hver áhrifin af niðurgreiðslunum eru fyrir neytendur. Þeir fá aðgang að vöru eða þjónustu á verði sem mun lægra en hefði þurft að greiða ef engar niðurgreiðslur væru til staðar. Þannig er menntun grunnskólabarna að mestu ókeypis í opinberum grunnskólum og skólagjöld hjá einkareknum grunnskólum mun lægri en ef engar greiðslur kæmu frá sveitarfélögunum. Sama á við um leikhúsmiðann eða miðann á tónleika hjá Sinfóníuhljómssveit Íslands, að væri ekki fyrir greiðslur frá ríki og sveitarfélögum, þá væri umfang starfseminnar líklega minni og miðaverð umtalsvert hærra. Afleiðingin er augljós. Færri hefðu efni á að sækja, t.d. tónleika, og færri fengju vinnu hjá hljómsveitinni. Já, þetta eru allt sambærilegar greiðslur og bændur þiggja, þó við lítum þær líklegast öðrum augum.
Stærstu áhrifin af niðurgreiðslum eru á verðlag og hér á landi því á vísitölu neysluverðs. Ef, t.d. Listasafn Íslands, fengi ekki framlög á fjárlögum, þá myndi örugglega kosta margfalt að skoða sýningar safnsins miðað við það sem nú er. Í tilefni 200 ára afmælis Jóns Sigurðssonar kostar ekkert inn á safn Jóns Sigurðssonar að Hrafnseyri við Arnarfjörð. Þarna er ríkið að greiða niður kostnað almennings af því að sækja viðkomandi safn. Með niðurgreiðslu á landbúnaðarvörum er ríkið að leggja bændum til tekjur svo þeir þurfi ekki að krefja um eins hátt verð á afurðum sínum og annars yrði. Áhrifin eru því til lækkunar á kostnaði almennings við kaup vörunnar eða þjónustunnar og þar sem við búum við verðtryggingu húsnæðislána, þá koma áhrifin einnig fram í minni hækkun þeirra.
Önnur áhrif, en alveg eins mikilvæg, eru á launaþróun í landinu. Væru engar niðurgreiðslur á alls konar vöru og þjónustu, þá þyrfti almenningur að hafa mun hærri tekjur til að standa undir útgjöldum sínum. Hluti vöru og þjónustu stæði hreinlega ekki til boða meðan önnur þjónusta hækkaði mikið í verði. Háskólinn í Reykjavík hefur t.d. samning við ríkið um framlög til skólans og nema þau háum upphæðum á hvern nemanda. Þrátt fyrir það greiða nemendur há skólagjöld, en þau myndu hækka verulega, ef framlag ríkisins myndi hverfa. Höfum í huga, að þetta er framlag sem aðeins nokkur þúsund manns njóta, þar sem eingöngu þeir sem sækja nám í skólanum eru með þessu að fá menntun sína niðurgreidda. (Tekið fram að ég er ekki að hnýta í HR eða greiðslurnar til hans.) Nemandinn sem útskrifast frá HR þarf þess vegna ekki að gera eins háar launakröfur að námi loknum vegna þess að ríkið tók þátt í kostnaði við nám hans/hennar. Íbúar Vestmannaeyja (og þeir sem þangað sækja) njóta niðurgreiðslna í ferðum til og frá Eyjum, hvort heldur farin er sjóleiðin eða landleiðin. Væru þessar niðurgreiðslur ekki til staðar væri kostnaður við búsetu í Eyjum hærri, bæði vegna ferðalaga og vegna hærra vöruverðs. Hærri lifikostnaður leiðir til krafna um hærri laun. Óbeinu áhrifin af niðurgreiðslum eru því í reynd lægri launakostnaður, þ.e. segja má að með niðurgreiðslum á vöru og þjónustu sé óbeint verið að greiða niður launakostnað atvinnulífsins og spara í lífeyrisgreiðslum til lífeyrisþega.
Niðurgreiðslur tíðkast í öllum löndum í kringum okkur
Þær niðurgreiðslur sem mest er talað um hér á landi, eru til landbúnaðarins. Eins og ég bendi á, þá eru margar mun fyrirferðarmeiri, en við kippum okkur ekki upp við þær, þar sem við teljum þær vera eðlilegan hluta af velferðarþjóðfélaginu og er ég sama sinnis. Niðurgreiðslur til landbúnaðarins voru ekki fundnar upp hér á landi, langt því frá. Raunar er staðan sú, að líklegast stingur ekki eitt einasta strá upp kollinum í sumum ríkjum hins vestræna heims öðru vísi en að bóndinn sem á landið þar sem stráið gerir sig heimakomið, fái ekki greitt eitthvað með því. Hveiti, sykur, bómull, maískorn og flest annað sem bændum dettur í hug að rækta fær sína styrki úr viðkomandi ríkiskassa. Markmiðið er að tryggja framboð vöru og þjónustu á frambærilegu verði og slá á verðsveiflur sem verða t.d. vegna duttlunga náttúrunnar.
Kornið, hveitið, sykurinn, grasið og fleiri ræktarplöntur er síðan slegið og sett í fullvinnslu ýmist til manneldis eða sem fóður fyrir skepnur. Hvort heldur sem er, þá verða áhrifin þau sömu. Niðurgreidda afurðin verður fyrir vikið ódýrari til neytendanna og þar með lækkar rekstrarkostnaður annars vegar heimilanna og hins vegar hjá bændunum. Lægri kostnaður hjá bændunum leiðir síðan til þess að þeir geta selt skepnur til slátrunar á lægra verði en ella, sem skilar sér í lægra verði til neytenda.
Niðurgreiðslur á útflutning veldur deilum
Það væri nú gott og blessað, ef niðurgreiðslur næðu bara til innanlands neyslu. En svo er ekki. Síðustu áratugi hafa menn rifist um það innan GATT hvernig nota megi niðurgreiðslur á útflutta vöru og þjónustu. Niðurgreiðslunum hefur nefnilega verið beitt til að grafa undan framleiðslu í öðrum löndum. Þannig hafa stáliðjuver í Bandaríkjunum fengið ríkisstyrki (sem er eitt form niðurgreiðslna) til að geta haldið áfram starfsemi sinni og keppt á alþjóðlegum mörkuðum. Þessu hefur ESB svarað með verndartollum svo niðurgreiðslurnar í Bandaríkjunum skekki ekki samkeppnisstöðu stáliðnaðarins innan ESB.
Hér á landi njótum við á verulegan hátt niðurgreiðslna erlendra ríkisstjórna á vöru og þjónustu sem neytt er hér. Bæði væri ýmis iðnaðarvarningur dýrari, ef ekki kæmi itl niðurgreiðslna eða styrkja, og ekki síst væri bara framboð minna. Færri framleiðendur sæu sér hag í því að framleiða vöruna, þar eftirspurn væri minni, a.m.k. miðað við breytt laun.
Hvar nýtist niðurgreiðslan hlutfallslega best?
Þessari spurningu er fljót svarað. Því framar í framleiðsluferlinu sem niðurgreiðslan kemur, því betur nýtist hún hlutfallslega bæði fyrir framleiðandann og neytandann. Fyrir bóndann er best að hráefnið sem hann notar kosti sem minnst, þar sem lágt hráefnisverð hefur m.a. áhrif á fjármagnskostnað fyrir utan að sjálfsögðu mun kostnaður við hverja skepnu minnka verulega.
Staðreyndin er að verðlagning byggist allt of oft á því að leggja ákveðna hlutfallstölu ofan á innkaupsverð. Tökum dæmi um vöru sem kostar x kr. frá framleiðanda. Heildsalinn leggur 100% ofan á vöruna hvort heldur x er 3 kr. eða 3 m.kr. og smásalinn leggur önnur 100% á vöruna. 3 krónurnar hækka því fyrst í 6 kr. og svo í 12 kr., þ.e. fjórföldun í verði. 10 ma.kr. greiðslur til íslensks landbúnaðar gæti því hugsanlega komið í veg fyrir að verð landbúnaðarframleiðslu hækkaði um 40 ma.kr. til neytenda. Sömu 10 ma.kr. sem greiddar væru beint til neytenda dygðu til að bæta þeim upp 1/4 af hækkuninni, en þeir sætu uppi með 3/4 eða 30 ma.kr. sem yrði að sækja í vasa launagreiðenda. Miðað við núverandi skatthlutfall, þá þyrfti launagreiðandinn að hækka launin um líklega 50 ma.kr. svo launþegi hefði 30 ma.kr. til ráðstöfunar. Þannig gætu 10 ma.kr. niðurgreiðsla, sem hætt er við, orðið að 50 ma.kr. aukningu í launakostnaði laungreiðenda og lífeyriskerfisins. Bætum svo við þetta áhrifum hærra matvælaverðs og aukins launakostnaðar á vísitölu neysluverðs og þá hækka húsnæðislánin okkar um tugi, ef ekki hundruð, milljarða.
Umræðan um íslenskan landbúnað
Mér hefur stundum fundist umræðan um íslenskan landbúnað vera á villigötum. Hún hefur snúist um hvað bændur fá í sinn hlut, en ekki hver ávinningurinn er fyrir land og þjóð. Eins og ég bendi á að ofan, þá er auðvelt að sýna fram á að niðurgreiðslur til landbúnaðarins koma margfalt til baka eða eigum við að segja, að falli þær niður, þá mun það kosta okkur neytendur háar upphæðir. Þær gera líka landið samkeppnishæfara hvað varðar ferðaþjónustu og raunar alla gjaldeyrisskapandi starfsemi.
Eðlilegt er og sjálfsagt að gera ríkar kröfur til hagræðingar, vöruþróunar og gæða i íslenskum landbúnaði. Ég held raunar að margt hafi þróast í þá átt undanfarin ár, en vafalaust er frekara svigrúm. Viljum við hins vegar leggja af beingreiðslur til íslenskra bænda, þá verðum við jafnframt að hafna öllum slíkum niðurgreiðslum á innfluttum matvælum. Annars er samkeppnisstaðan ójöfn. Ég er ekki viss um að íslenskir neytendur yrðu sáttir við það að greiða allt í einu þrefalt verð fyrir maísdós og fimmfalt verð fyrir danska kjúklinga (eða hver hækkunin yrði). Innflutt viðbit myndi skyndilega hækka margfalt og sama gerði sófasettið sem gert er úr niðurgreiddum skinnum. Ég held að betra sé að átta sig á afleiðingunum, áður en tekin er sú ákvörðun að leggja niðurgreiðslur til landbúnaðar af.
Áhrifin á launakostnað mest
Mjög margt í þessu þjóðfélagi er, eins og áður segir, niðurgreitt af ríki og sveitarfélögum. Sund, íþróttaiðkun barnanna, strætómiðar, skólakostnaður, leikhúsmiðar, bókasöfn, heilbrigðisþjónusta og svona mætti lengi telja. Í þessa hluti fara árlega milljarðar á milljarða ofan ýmist úr ríkissjóði eða úr sveitarsjóðum. Tilgangur er sá að gera þessa þjónustu aðgengilegri fyrir neytendur. Sama á við um styrki til landbúnaðarins. Hverfi þessar niðurgreiðslur og styrkir, þá munu útgjöld ríkis og sveitarfélagana breytast. Í staðinn fyrir þessi útgjöld, þá mun koma fram krafa um hærri laun frá opinberum starfsmönnum og lífeyrisgreiðslur. Þær kröfur verða síðan til þess (verði orðið við þeim sem er óhjákvæmilegt) að ekki er hægt að lækka skatta eða lækkun þeirra verður umtalsvert minni en nemur lækkun útgjalda til niðurgreiðslna og styrkja. Launþegar á almennum markaði þurfa því að sækja sinn kostnaðarauka til vinnuveitenda sinna, sem ekki geta mætt slíku án þess að velta kostnaðinum út í verðlagið.
Fyrir atvinnulífið eru niðurgreiðslur á ýmsu formi mjög mikilvægar. Samkeppnishæfni þess gagnvart erlendum aðilum byggir m.a. á því að launaumhverfi sé innlendum fyrirtækjum hagstætt. Hvort heldur niðurgreiðslurnar koma í formi styrkja til landbúnaðarins eða sjómannaafsláttar, þá hefur þetta allt áhrif á rekstrarafkomu fyrirtækja. Bara svo dæmi sé tekið af sjómannaafslættinum, þá hefur ekki verið hægt að afnema hann vegna þess að bæta þarf sjómönnum missinn upp í hærri launum. Hvernig heldur fólk þá að atvinnulífið myndi bregðast við, ef allar niðurgreiðslur hyrfu? Eða eru það bara niðurgreiðslur til íslenskra bænda sem eiga að hverfa, en allir hinir eiga að halda sínu?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
9.8.2011 | 17:48
Skilningsleysi ofurlaunamanna á samfélagslegum ójöfnuði - Hegðun óeirðaskeggja sem minnir á tölvuleik
Forvitnilegt er að lesa ummæli þessara þriggja ofurlaunamanna um ástandið hjá almúganum í Bretlandi. Eins og þeir hafi ekki séð svona hluti gerast áður. Ástandið meðal minnihlutahópa í Bretlandi er og hefur verið eldfimt um mjög langt skeið. Atvinnuleysi er umtalsvert og í sumum fjölskyldum hafa margar kynslóðir aldrei kynnst því að hafa vinnu. Þó þessar óeirðir virðist vera sprottnar upp úr engu, þá hefur það einmitt sýnt sig í gegn um tíðina að oft veldur lítill neisti miklu báli. Í Grikklandi fór allt í bál og brand eftir að lögregluþjónn banaði af slysni ungum dreng. Í Bandaríkjunum hefur margoft gerst að lögregluofbeldi hefur komið af stað gríðarlegum óeirðum. Bretland er svo sem ekki óvant þessu og hafa ýmsar borgir orðið mjög illa úti í gegn um tíðina. Engu er líkar en neisti hafi hlaupið í púðrið og allt fer í háaloft.
Ég horfði á fréttir Sky í gærkvöldi og fram eftir nóttu bæði af áhuga fyrir ástandinu og vegna þess að dóttir mín er búsett í London um þessar mundir. Meðan ég horfði á myndir frá London og Liverpool, þá datt mér helst í hug að krökkunum sem voru þarna fremst í fylkingunni þætti þetta sjálfum bara sport eða líkt og þetta væri tölvuleikur sem yrði síðan resettaður ef ekki gengi nógu vel. Margt hafði einkenni leiksins Grand Theft Auto, sem byrjaði fyrir rúmum 20 árum sem ákaflega saklaus leikur miðað við hvernig hann hefur þróast í dag. Fólk dregið út úr bílum sínum svo hægt sé að kveikja í þeim eða stela, handtöskur rifnar af konum, farið ofan í bakpoka hjá ungum krökkum, kastað molotovkokteilum til að kveikja í byggingum, ráðist á verslanir með nauðsynjar og raftæki.
Stjörnunar þrjár sem vitnað er í, eru hluti af ástandinu, þó þær skilji það ekki. Ég hef fylgst í mörg ár með umræðum á spjallborði eins úrvalsdeildarliðs. Þar hefur sífellt orðið sterkari ólund og óþol fólks fyrir ofurlaunakröfum knattspyrnumanna. Wayne Rooney er t.d. með um 150.000 pund í laun í viku hverri. Flestum úr hópi óeirðaskeggja þætti gott að þéna það á 8 til 10 árum og mánaðarlaun Rooneys á starfsævinni. Rio Ferdinand er með eitthvað lægri laun, en nóg til þess að hann þénar meira á mánuði en margur á starfsævinni. Joey Barton er síðan hálfdrættingur miðað við Rooney, en samt eru vikutekjur hann svo ótrúlegar að velmenntaður sérfræðingur er varla að ná þeim á einu ári.
Allt byrjaði í Tottenhamhverfi sem er jú hverfi Tottenhamliðsins. Þar hafa "hógvær" laun knattspyrnumanna einmitt verið að víkja fyrir ofurlaunum. Nágrannarnir eru Arsenal, þar sem 90.000 pund á viku þykja víst ekki mannsæmandi laun, og jafnvel litlu liðin í úrvalsdeildinni verða að fara að bjóða leikmönnum árslaun sérfræðings í vikulaun ætli þau að geta fengið þá í vinnu. Þessi ofurlaunaþróun manna sem eltast við bolta 90 mínútur í senn er komin út fyrir öll velsæmismörk. Hún verður til þess að félögin hækka verð aðgangsmiða, þannig að færri og færri úr hópi þeirra verr stöddu hafa efni á að sækja leiki. Sums staðar í mið og norður Englandi eru það nánast trúariðkun að sækja leiki liðsins síns og þegar launin hrökkva ekki fyrir miðaverði, þá hrynur tilveran hjá mörgum.
Hinn gríðarlegi aðstöðumunur sem er milli hinna ríku og hinna efnaminni, virðist vera rót vandans. Verið er að sýna þeim sem eitthvað eiga hversu brothætt staða þeirra er. Hversu auðvelt er að kippa fótunum undan tilverunni með rétt staðsettri íkveikju eða innbroti. Þannig var kveikt í sögufrægu húsi sem hýsti húsgagnverslun og -framleiðslu, líklegast vegna þess að fyrirtækið var svo gamalt og ekki af neinni annarri ástæðu. Ráðist var inn á heimili aldraðrar konu sem safnaði bókum og nokkrum bókakössum stolið. Verið er að veikja öryggistilfinningu fólks á eins andstyggilegan hátt og hægt er. Þó þessi fórnarlömd teljist seint til aðalsins, þá virðist sem þetta fólki hafi orðið að skotmarki vegna þess að það hafði það betra en almúginn. (Þetta er svo sem ágiskun án sönnunar.)
Þó ekkert réttlæti þau skemmdarverk og þjófnað sem á sér stað í London og fleiri borgum Englands síðustu daga, þá hefur "kerfið" alið af sér kynslóð eftir kynslóð af einstaklingum sem finna ekki hjá sér neina samfélagslega ábyrgð vegna þess að þeim finnst þeir ekki vera virtir af samfélaginu. Þetta fólk horfir síðan upp á goðin sín, sem eru tónlistarmenn eða knattspyrnumenn, vera með himinháar tekjur sem það getur ekki einu sinni dreymt um að fá. Þessi samfélagslegi ójöfnuður er jarðvegurinn sem nærir óánægjuna, þó hún brjótist sem betur fer ekki út nema örsjaldan í atburðum sem þessum.
Ríkisstjórnir Verkmannaflokksins bera mesta ábyrgð á því að þetta ástand hefur myndast, þó svo að einkennin brjótist ekki út fyrr en Íhaldsmenn og Frjálslyndir eru komnir til valda. Greinilega hefur ekki verið tekið nægilega vel á vanda hinna sem minna mega sín, hvorki með sköpun starfa eða tækifærum til menntunar. Þó svo að Verkamannaflokkurinn eigi að teljast flokkur félagshyggju, þá er ljóst að líkt og hér á landi, þá fara ekki saman orð og gjörðir. Verði ekki brugðist við hinum gríðarlega félagslega vanda sem er víða á Bretlandseyjum, þá má því miður búast við að óeirðir eins og þessar geti endurtekið sig reglulega. Tryggja verður þó að þeir sem tekið hafi þátt í gripdeildum verði látnir skila því sem þeir stálu, þó ég sé þeirrar skoðunar að refsingar muni ekki leiða til sátta.
Fótboltastjörnur áhyggjufullar vegna óeirðanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Útvarpið var með stutt viðtal við Vilhjálm Egilsson hjá Samtökum atvinnulífsins vegna óstöðugleikans á erlendum fjármálamörkuðum. Langar mig að birta fréttina í heild eins og hún er á vef RÚV (tekið skal fram að útsenda fréttin var langri):
Bein áhrif hér á landi
Verðlækkun á hlutabréfamarkaði erlendis hefur bein áhrif á íslenska lífeyriþega því lífeyrissjóðirni hafa fjárfest um fjögurhundruð milljarða í erlendum bréfum.
Þetta segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Hann segir að verðlækkun á hlutabréfamarkaði erlendis hafi bein áhrif á réttindi lífeyrisþega á Íslandi. Lífeyrissjóðirnir hafa fjárfest fyrir um 400 milljarða á erlendum hlutabréfamörkuðum.
"Íslenskir lífeyrissjóðir hafa fjárfest í erlendum hlutabréfum bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Verðlækkun og verðfall á erlendum hlutabréfamörkuðum hefur því mikil áhrif á Íslandi bæði á atvinnu og athafnalíf", sagði Vilhjálmur Egilsson.
Mér finnst aðdáunarvert hvernig Vilhjálmur nær að snúa ástandinu á erlendum mörkuðum upp í hættu fyrir íslenska lífeyrissjóði. Auðvitað hafa verðbreytingar á erlendum mörkuðum mikil áhrif á eignir lífeyrissjóðanna, en hann gleymdi alveg að nefna að áhrif dýfu dagsins á lífeyrisréttindi hér á landi eru mun minni en nær 10% veiking krónunnar á þessu ári hefur haft í hina áttina. Þ.e. verðbólgan sem við höfum verið að upplifa undanfarna mánuði er hefur haft gríðarleg jákvæð áhrif á eignir lífeyrissjóðanna. Í fyrsta lagi, þá er verðbólgan að mestu tilkomin vegna veikingar krónunnar, sem hefur í staðinn orðið til þess að erlendar eignir lífeyrissjóðanna hafa hækkað í krónum talið. Í öðru lagi, þá hefur verðbólgan bætt talsverðum verðbótum á innlendar eignir lífeyrissjóðanna og ólíkt verðfallinu á erlendu eignunum, þá hverfa verðbæturnar aldrei meðan núverandi kerfi stendur óhaggað.
Þrennt finnst mér ógnvekjandi í málflutningi Vilhjáms.
1. Hann lætur eins og lífeyrissjóðirnir séu skammtíma fjárfestar og þeir hafi ekki þolinmæði til að standa af sér dýfu sem þá sem varð í dag. Ef þetta ástand hefur ekki lagast fyrir lok næsta árs, þá hefði ég kannski áhyggjur, en að hafa áhyggjur á fyrsta degi taugaveiklunarniðursveiflu er veruleg taugaveiklun. Mestar líkur eru á, að ástandið komist í samt horf innan nokkurra daga, nú ef ekki þá tekur það kannski nokkrar vikur eða í versta falli 12 - 18 mánuði. Það er út af svona dýfum sem lífeyrissjóðirnir hafa áhættustýringu á eignum sínum. En það sem mestu máli skiptir er að lífeyrissjóðirnir eru langtíma fjárfestar og eiga hvorki né mega fara á taugum þó einhver kippur komi á markaðinn.
2. Hann bendir á að sjóðirnir þurfi um hver áramót að gera upp stöðu sína gagnvart lífeyrisskuldbindingum og laga réttindi sjóðfélaga að þeirri stöðu. (Kom fram í útsendu viðtali.) Ég segi nú bara að eins gott er að svona niðursveifla komi ekki á síðustu dögum ársins, þá hefðu markaðirnir engan tíma til að leiðrétta eignastöðu íslenskra lífeyrissjóða! Ég hef nokkrum sinnum bent á að nauðsynlegt er að lengja það tímabil sem notað er til að meta stöðu lífeyrissjóða gagnvart lífeyrisskuldbindingum. Með því að taka, segjum 10 ára tímabil, þá stæðu sjóðunum minni ógn af stuttum sveiflur á mörkuðum og þó þær væru lengri. Þannig hægði bæði á aukningu réttinda og líka skerðingu þeirra.
Annars sýnir þetta vel, það sem ég hef margoft bent á: Óverðtryggðar eignir lífeyrissjóðanna eru þær sem skipta þá mestu máli. Ekki þær verðtryggðu.
3. Þetta er atriði sem Vilhjálmur minntist ekki á og heldur ekki fréttamaður, þó hann hefði líklegast átt að spyrja Vilhjálm að því. Er það staða lífeyrissjóðanna sem kemur í veg fyrir að krónan styrkist? Ef Vilhjálmur Egilsson sýnir merki taugaveiklunar vegna 3 - 6% verðdýfu á mörkuðum, hvernig ætli ástandið verði á skrifstofu Samtaka atvinnulífsins, ef krónan tæki upp á þeim óskunda að styrkjast um 20 - 30%? Þá fyrst rýrna erlendar eignir lífeyrissjóðanna og það þó svo að erlendir markaðir væru í góðri uppsveiflu.
Ég get ekki lesið neitt annað út úr orðum Vilhjálms Egilssonar, en að hann vilji að krónan veikist í þágu lífeyrisþega. Veikari króna gerir nefnilega stöðu lífeyrissjóðanna sterkari. Hann vill a.m.k. ekki að krónan styrkist, því þannig gætu lífeyrisþegar staðið frammi fyrir frekari skerðingu. Ég benti fyrst á það haustið 2008 að þá hefði verið tækifæri fyrir lífeyrissjóðina að flytja fé heim. Meðan gengisvísitalan var í 250 eða þar um bil var tækifæri fyrir sjóðina að draga inn sín net og hirða afraksturinn. Vandinn var tvíþættur: Í hvað áttu peningarnir að fara og hefðu sjóðirnir tækifæri til að fara með þá úr landi aftur. Þess vegna héldu sjóðirnir sínum erlendu eignum og verða því að taka þeim sveiflum á mörkuðum og gengi krónunnar sem kunna að verða. Höfum líka í huga, erlendar eignir sjóðanna hafa hækkað gríðarlega frá því í ársbyrjun 2008. Raunar má segja að það sé blessaðri krónunni að þakka, að staða lífeyrissjóðanna sé ekki ennþá verri. Ef við hefðum verið með evru, þá hefðu erlendar eignir ekki haft jafn mikil jákvæð áhrif á eignastöðu sjóðannaog krónan gerði. Þá hefði tap þeirra orðið mun meira og þar með skerðing lífeyrisréttinda.
Ekki get ég hrósað framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins fyrir mikla röksnilld í þessu stutta viðtali. Hann ekki bara sýndi ótrúlegan barnaskap, að halda að verðfall í ágúst hefði áhrif á réttindi sjóðfélaga í árslok, eins og markaðirnir gætu ekki tekið við sér, heldur opinberaði hann vanþekkingu sína á þolinmæði lífeyrissjóðanna sem fjárfesta og loks voru óbeinu skilaboðin þau, að krónunni skuli ekki láta sér detta í hug að styrkjast, þar sem það gæti leitt til skerðingar lífeyisréttinda.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 0
- Sl. sólarhring: 87
- Sl. viku: 275
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 34
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði