Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2011

Gengistryggð lán voru færð niður um meira en helming við yfirfærslu til nýju bankanna

Í síðustu viku kom út skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn íslensku bankanna.  Er þetta mikil skýrsla og fróðleg lesning.  Er ég kominn á nokkurn rekspöl með að lesa hana og vil hvetja alla þá sem vilja skilja hvernig þetta fór fram til að kynna sér efni hennar, en henni var dreift á Alþingi í síðustu viku, þrátt fyrir að á forsíðu sé skýrsla tímasett í mars 2011.  Hvers vegna ráðherra ákvað að draga það í allt að 10 vikur að dreifa skýrslunn, veit ég ekki, en tel það furðulegt.  Kannski var hann að bíða eftir kjördæmaviku svo heldur færi hægt og hljótt um skýrsluna.

Hér vil ég gera eitt atriði að umfjöllunaratriði.   Að sjálfsögðu er ég að fjalla um gengistryggingu.  Um hana er sérstaklega fjallað í undirkafla 2.4.6.2 Lögmæti gengistryggðra lána. Birti ég kaflann hér í heild.

2.4.6.2. Lögmæti gengistryggðra lána
Í tengslum við og eftir dóma Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggðra lána hefur komið upp opinber umræða um hvaða viðhorf hafi verið uppi um þetta atriði hjá samningsaðilum í samningum milli bankanna um yfirfærslu eigna til nýju bankanna. Hafa sumir viljað deila á íslensk stjórnvöld fyrir að hafa ekki í nægilegum mæli tekið tillit til þessa í samningunum og hafa hefði átt fyrirvara um þetta atriði í samningunum.

Eins og greinir hér að framan voru sérstök álitaefni við mat eignanna (útlánanna) tengd þeirri staðreynd að skuldarar gengistryggðra lána voru að miklu leyti aðilar með tekjur í íslenskum krónum. Með falli krónunnar var augljóslega ríkuleg þörf á að færa verðmæti þessara lána niður. Það var gert að verulegu leyti. Þó verður að hafa í huga að ýmis erlend og gengistryggð lán voru og eru í fullum skilum, einkum hjá útflutningsatvinnugreinunum. Við samninga um endurgjald fyrir útlánin var farið niður í neðstu mörk Deloitte-matsins og þannig reynt að girða fyrir að áhættur sem tengdust lánasöfnunum myndu reynast nýju bönkunum ofviða. Ef betur gengi myndi hins vegar vera greitt í formi aukins verðmætis hlutabréfa eða útgáfu viðbótarskuldabréfa eins og áður er rakið.

Mat eignanna miðast við októbermánuð 2008 en á þeim tíma voru tugþúsundir gengistryggðra lána í bönkunum sem greitt var af og engum hafði blandast hugur um að væru gildir gerningar. Seðlabanki Íslands og FME höfðu látið þessar lánveitingar óátaldar og þær höfðu tíðkast um árabil. Um það leyti sem endanlega var gengið frá samningum við gömlu bankana heyrðust raddir um að gengistrygging lána kynni að vera ólögmæt. Það atriði var á þeim tíma umdeilt meðal lögfræðinga og algjörlega óraunhæft að meðhöndla öll slík lán sem ólögmæt í samningunum. Bent var á að öll gengistryggð lán hefðu verið afskrifuð um meira en helming við yfirfærslu þeirra til nýju bankanna, engin greining hefði farið fram á lánaskilmálum m.t.t. ólögmætis og þótt svo færi að hluti þeirra yrði metinn ógildur myndu ákvæði 18. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 leiða til þess að upphaflegur höfuðstóll yrði framreiknaður með óverðtryggðum vöxtum.

Þegar þetta er ritað liggja fyrir dómar Hæstaréttar sem skera úr um ólögmæti bindingar lána í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla og hvernig skuli fara með vaxtareikning slíkra ólögmætra gengistryggðra lána vegna bifreiðakaupa og húsnæðislána. Niðurstaða Hæstaréttar er sú að ákvæði um bindingu fjárhæðar láns í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla sé ógilt. Við mat á því hvort lán vegna bílakaupa og húsnæðislán sé gilt erlent lán eða íslenskt lán með ólögmætri gengistryggingu skipti mestu hvort lánsfjárhæð sé ákveðin í íslenskum krónum og að greiða beri lánið til baka í íslenskum krónum. Lögum um vexti og verðtryggingu var breytt í árslok 2010 með lögum nr. 151/2010 þar sem kveðið var með nákvæmari hætti á um framkvæmd endurútreiknings lána sem dæmd hafi verið ógild, auk ákvæða til bráðabirgða um endurútreikning húsnæðislána.

Ekki liggur enn fyrir að hvaða marki fyrirtækjalán teljast hafa að geyma ólögmæta gengistryggingu en á það mun líklega reyna fyrir dómstólum á næstu misserum, þótt fyrirtæki og bankar hafi raunar í miklum mæli samið um breytingar á þeim lánum. Enn er mjög umdeilt meðal lögfræðinga að hvaða marki fyrirtækjalánin verði talin hafa að geyma ólögmæta gengistryggingu. Hins vegar liggur fyrir að jafnvel þótt stór hluti þeirra falli þar undir mun það ekki hafa í för með sér verulegar umframafskriftir á þeim lánum í heild sinni, þegar tekið er mið af því matsverði sem samningar nýju og gömlu bankanna gerðu ráð fyrir.

Óvissan kringum gengistryggðu lánin var einn af þeim fjölmörgu þáttum sem tekið var tillit til við mat og samninga um eignavirðið. Miðað við þá dóma sem nú þegar hafa fallið um endurreikning ólögmætra lána er tjón nýju bankanna innan þeirra marka sem samningarnir settu. Mikilvægt var á sínum tíma að ljúka samningum og gerð endanlegra stofnefnahagsreikninga bankanna og verður að telja að á heildina litið hafi það verið betri kostur en að stöðva samningaferlið í ljósi þeirrar óvissu sem enn hefur ekki verið eytt að fullu. 

(Feitletranir eru mínar og fjalla ég nánar um þær neðar í færslunni.)

Þessi kafli sveiflast á milli þess að vera bullandi afneitun í að vera virkilega mikilvægt vopn handa þeim sem barist hafa fyrir réttlátri niðurstöðu varðandi hin áður gengistryggðu lán.  Fyrst að afneituninni:

Eins og ég segi, veit ég ekki í hvaða veröld skýrsluhöfundur/ar hrærðust, en þeir voru augljóslega meðal þeirra sem tóku þátt í þeim viðræðum sem lýst er í kafla 2.4.6. Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra sat sjálfur í sjónvarpssal í Kastljósi 8. maí 2009, þar sem þessi mál voru rædd, aðallögfræðingur Seðlabanka Íslands gerði minnisblað í maí 2009 þar sem hún kemst að þeirri niðurstöðu að gengistrygging væri ólögleg, LOGOS útbjó lögfræðiálit fyrir Seðlabankann í maí 2009 þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að gengistrygging sé ólöglög verðtrygging (LOGOS var ráðgjafi í viðræðum um verðmat á lánum), Björn Þorri Viktorsson sendi bréf á alla þingmenn og ráðherra í lok maí 2009, þar sem varða er við því að gengistrygging sé ólögleg,  Gunnar Tómasson sendi sams konar bréf á sömu aðila í september 2009,  Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að gengistrygging væri ólöglegt form verðtryggingar 16. júní 2010 og í þeim dómum var ekkert fjallað um það hvort veðið að baki láninu skipti máli.  Það vill svo til að ég skrifaði færslu í gær um hvað dómstólar hafa sagt (Hvað hafa dómstólar sagt um áður gengistryggð lán?) og það vill svo til að 14. febrúar féllu tveir dómar í Hæstarétti, þar sem niðurstaðan er, að dómar um ólögmæti gengistryggingar gilda óháð lengd láns og tegund veðs þ.e. tilgangi með lántöku.

Mér finnst með ólíkindum að starfsmenn fjármálaráðuneytisins séu að fela sig bak við óvissu til þess að réttlæta það klúður sem gert var í samningum varðandi gengistryggð lán.  Þetta kemur jafnvel ennþá sterkar fram í kafla 2.4.4.2. Útfærsla á gjaldeyrisjöfnuði bankanna, þar sem ekki er minnst einu einasta orði á ólögmæti gengistryggingarinnar, þó svo að hún ein hafi leyst vanda bankanna varðandi gjaldeyrisjöfnuð.  Það er auðvelt að taka sér sterk orð í munn, þegar maður sér þessa umfjöllun, en ég læt þingmönnum um að nota þau þegar skýrslan kemur þar til umræðu.

En fátt er svo með öllu illt að ei boði gott.  Inn á milli eru mikilvægar upplýsingar, raunar svo mikilvægar að þær fletta ofan af blekkingunum sem hafa verið viðhafðar af tveimur efnahags- og viðskiptaráðherrum.  Þar vil ég vísa til eftirfarandi atriða:

  • Mat eignanna miðast við októbermánuð 2008 (gengisvísitala svipuð og núna)
  • Með falli krónunnar var augljóslega ríkuleg þörf á að færa verðmæti þessara lána niður. Það var gert að verulegu leyti.
  • Við samninga um endurgjald fyrir útlánin var farið niður í neðstu mörk Deloitte-matsins og þannig reynt að girða fyrir að áhættur sem tengdust lánasöfnunum myndu reynast nýju bönkunum ofviða.  (Kemur annars staðar fram í skýrslunni að var allt niður í 35% endurheimtuvirði lána, en að jafnaði 45% fyrir öll lán.)
  • Bent var á að öll gengistryggð lán hefðu verið afskrifuð um meira en helming við yfirfærslu þeirra til nýju bankanna.  (Helmingur af gengisvísitölunni 220 er 110!)
  • Hins vegar liggur fyrir að jafnvel þótt stór hluti [fyrirtækjalána] falli þar undir mun það ekki hafa í för með sér verulegar umframafskriftir á þeim lánum í heild sinni, þegar tekið er mið af því matsverði sem samningar nýju og gömlu bankanna gerðu ráð fyrir.  (Bankarnir þola vel að öll gengistryggð lán verði leiðrétt.)
  • Miðað við þá dóma sem nú þegar hafa fallið um endurreikning ólögmætra lána er tjón nýju bankanna innan þeirra marka sem samningarnir settu.
Þetta er það sem kemst næst því að stjórnvöld beri til baka hinn gengdarlausa hræðsluáróður um óstöðugleika í fjármálakerfinu sem hefði hlotist af gengisdómum Hæstaréttar ef FME og SÍ hefðu ekki gripið inn í.  Eins og bent er á, þá var farið niður í neðstu mörk Deloitte-matsins, en á blaðsíðu 21 er þess getið að það mat fari allt niður í 35% af öllum lánum eins bankans.  Hafa skal í huga að bókfært verðmæti eigna gömlu bankanna sem þeir nýju tóku yfir var samkvæmt efnahagsreikningi gömlu bankanna 4.000 ma.kr. (sjá töflu 2 bls. 21), þær voru yfirfærðar á 1.760 ma.kr., en skilyrt verðmætaaukning var 215 ma.kr. (skv. töflu 3 bls. 29).  1.760 af 4.000 gerir 44,0%, en 1.975 af 4.000 gerir 49,4%.  Þetta eru mörkin fyrir öll lán, en gengistryggð lán voru færð yfir með meiri afslætti en verðtryggð lán.  Þessi afhjúpun, sem mér virðist koma fram í skýrslu fjármálaráðherra, sýnir að gert var ráð fyrir að lánin gætu verið ólögleg og þó allt færi á versta veg þá gætu bankarnir staðið það af sér.  Hræðsluáróðurinn var eins og svo oft, fyrr og síðar, innantómt glymur úr tómri tunnu.

Fyrirséð í mörg ár

Loksins átta bandarísk stjórnvöld sig á vanda sínum.  Ekki er hægt að halda endalaust áfram að taka lán fyrir útgjöldum alríkisstjórnarinnar.

Fyrir umheiminn er þetta grafalvarlegur hlutur, þar sem hökkt í bandarísk hagkerfinu getur valdið heimskreppu dýpri en þeim sem við höfum séð hingað til.  Niðurstaðan verður örugglega sú að hækka þakið, en það leysir ekki vandann.  Menn munu bara halda áfram að eyða um efni fram þar til nýja þakinu er náð.  Alríkisstjórnin þarf að fara í gríðarlegan niðurskurð í útgjöldum og skattahækkanir.  Eins og venjulega munu útgjöld til hermála sleppa undan niðurskurðarhnífnum, þ.e. þau sem skipta máli.  Menn munu vafalaust finna einhverja herstöðvar sem hægt er að loka, en stóru tölurnar verða ekki snertar, þ.e. herreksturinn í Írak og Afganistan.  Ekki vegna þess að Bandaríkjamenn vilja ekki fara þaðan burtu, heldur vegna þess að stærsti og öflugasti þrýstihópurinn í Bandaríkjunum er hergagnaframleiðendur.

Í 60 minutes fyrir nokkrum misserum var fjallað um þessa væntanlegu stöðu.  Þar komust menn að þeirri niðurstöðu, að innan skamms tíma hefði alríkisstjórnin ekki efni á neinu öðru en vöxtum og útgjödlum til menntamála og heilbrigðismála.  Síðan hafa útgjöld til heilbrigðismála hækkað mikið vegna Medicare og Medicaid laganna.  Þó svo að þau útgjöld séu dropi í hafi miðað við það sem sett er í öryggismál, bæði innanlands og utan, þá mun sú krafa verða ofan á að framlög til heilbrigðismála verði skert og viti menn, það verður gert.

Timothy Geithner hefur áður staðið frammi fyrir erfiðum ákvörðunum, þá sem seðlabankastjóri New York.  Þá tókst honum að bjarga vogunarsjóðakerfinu, illu heilli, þegar hann greip til þess ráðs að bjarga LTCM vogunarsjóðnum árið 1998, en hann hrundi á fáum dögum í kjölfar rússnesku kreppunnar.  Nú hafa þessir sömu vogunarsjóðir í reynd lagt alríkisstjórn Bandaríkjanna að velli með því að soga til sín um 1.000 milljarða dollara af skattpeningum almennings (mest fengið að láni) í gegn um bankabjörgunina, fleiri hundruð milljarða í tengslum við björgun AIG (ekki séð fyrir endann á því máli), hundruð milljarða dollara frá seðlabönkum allan heim sem fór í að afskrifa eitruð lán og svona mætti lengi telja.  Á sínum tíma var sagt að LTCM hafi verið of stór til að falla, en eftir því sem ég hef skoðað málið betur (og hef ég kafað talsvert ofan í það), þá hefði það orðið vogunarsjóðunum góð lexía ef þeir hefðu tekið á sig fallið af LTCM í staðinn fyrir að Seðlabanki New York steig inn í.  Rétt er að LTCM féll með hávaða og látum, en öllum öðrum var bjargað.

Geithner getur ekki látið Seðlabanka Bandaríkjanna bjarga sér, líkt og hann sjálfur bjargaði vogunarsjóðunum.  Eina lausnin er niðurskurður.  Þar sem allur niðurskurður þarf að fara í gegn um Bandaríkjaþing, þá munu repúblikanar koma í veg fyrir niðurskurð til hermála, en krefjast niðurskurðar í velferðarmálum.  Demókrata munu vilja hafa þetta á hinn veginn.  Eina sem almenningur sér, er lakari lífsgæði og það verður Obama kennt um.  Kaldhæðnin í þessu, er að klandrið sem repúblikanar komu bandarísku þjóðinni í, verður til þess að þeir komast aftur til valda, vegna þess að demókratar þurfa að kljást við vandann með óvinsælum aðgerðum.

Ég hef nokkrum sinnum skrifað um þessi mál hér á þessari síðu og því kemur staða mála mér ekki á óvart.  Þetta hefur verið fyrirséð í mörg ár.  Hver forsetinn á fætur öðrum hefur hunsað viðvörunarmerkin.  Oftast í þeirri vona að halda völdum í Hvíta húsinu.  Skiptir ekki máli í hvorum flokknum forsetinn hefur verið, menn hafa dottið í eyðslufyllerí síðasta árið í embætti í tilraun sinni að halda forsetaembættinu innan flokksins.  Hernaðarbrölt síðustu rúmlega 20 ára hefur síðan kostað þjóðina gríðarlegar upphæðir og ber þar hæst persónuleg hefnd Bush yngri vegna niðurlægingar föður síns í embætti.

En það eru ekki bara vogunarsjóðirnir sem hafa grætt á þessu.  Kínverjar hafa líka hagnast vel.  Er svo komið að þeir, ásamt olíuútflutningsríkjunum við sunnan verðan Persaflóa, eru þeir aðilar sem fá stærstan hluta bandarískra fjárlaga til sín í formi vaxta og afborgana lána eða nýrra skuldabréfa.  Þessi staða er í senn hryggileg og ógnvænleg en um leið ber með sér vissa kaldhæðni.  Gömlu erkióvinirnir (Kínverjar) munu leggja Bandaríkin að velli með kapí­talisma en ekki hervaldi.


mbl.is Skuldir sliga Bandaríkin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrstu batamerkin - en gagnrýnt að ekki hafi verið nóg gert fyrir einkageirann

Ég hef nú ekki verið mesti aðdáandi matsfyrirtækjanna í gegn um tíðina og þetta mat breytir því ekki.  Mér finnst þetta mat þó vera óvenju vel rökstutt miðað við margt sem á undan er komið og ber að fagna því.  Gott er að sjá, að þegar stjórnvöld fara loksins að tala máli okkar Íslendinga og hætta hræðsluáróðri, þá kemur í ljós að þau ná augu og eyrum umheimsins með þann málflutning.  Veltir maður fyrir sér hver staðan væri, ef menn hefðu nú byrjað fyrr að tala fyrir hagsmunum landsins.

Fitch kemur með einn punkt sem ég hef verið óþreytandi að tala um.  Ráðast þarf ekki seinna en núna í að taka á skuldamálum einkageirans.  Skiptir þá ekki máli hvort það er fólk eða fyrirtæki.  Ætli stjórnvöld hlusti þegar þetta kemur frá matsfyrirtæki, því þau hafa ekki hlustað á eigin þingmenn, þau hafa ekki hlustað á stjórnarandstöðuna, þau hafa ekki hlustað á hagsmunaaðila og meira að segja hunsað orð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.  Þar sem stjórnvöldum er meira í mun að þóknast matsfyrirtækjunum en nokkrum öðrum, þá er spurning hvort þau grípi til raunverulegra úrræða fyrir einkageirann í stað þeirrar sýndarmennsku sem hefur verið í gangi.

Í lokin smá slúður:  Mér er sagt að í nóvember hafi verið haldinn fundur í Svörtuloftum, þar sem mættir voru fulltrúar stjórnvalda, Seðlabankans, FME, bankanna þriggja, Deutsche Bank og hugsanlega fleiri aðila.  Á þeim fundi var rætt til hvaða bragða eigi að grípa verði niðurstaðan varðandi áður gengistryggð lán fjármálafyrirtækjunum í óhag, þ.e. megnið af lánunum falli undir fordæmi dóma 93/2010 og 152/2010 frá 16. júní 2010 og að óheimilt verði að endurreikna vexti mörg ár aftur í tímann.  Slúðrið segir að DB hafi krafist þess að þá verði bankarnir látnir falla aftur og að á þetta hafi verið fallist.  Vissulega er þetta bara slúður, en staðreyndin er að stjórnvöld með herra Svörtulofta og FME í fararbroddi hafa hagað sér eins og allt hrynji verði þetta niðurstaðan.


mbl.is Fitch breytir horfum í stöðugar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað hafa dómstólar sagt um áður gengistryggð lán?

Mig langar að rifja upp helstu úrskurði dómstóla varðandi áður gengistryggð lán.  Tekið skal fram að hér er ekki um túlkun mína á þessum dómum að ræða heldur bara hvað sagt er.  Vitnað er í dóma Hæstaréttar í þeim tilvikum sem úrskurðir/dómar réttarins eru komnir, en annars í dóma Héraðsdóms Reykjavíkur.

Dómar Hæstaréttar 92/2010 og 153/2010

1.  Leigusamningar eru lánasamningar - helstu rök að lánasamningar bera vexti, ekki leigusamningar.

2.  Lánin eru í íslenskum krónum, þar sem lánsfjárhæð er í íslenskum krónum, lánið var greitt úr í íslenskum krónum og greiðandi greiðir afborganir í íslenskum krónum.

3.  Gengistrygging er ólögleg form verðtryggingar.

Dómur Hæstaréttar 347/2010

4.  Riftun samnings er óheimil meðan óleystur er ágreiningur um hvort krafa sé í vanskilum eða ekki.

Dómur Hæstaréttar 317/2010

5.  Kyrrsetningargerð, þar sem krafa byggði á gengistryggðu láni, mátti ekki ljúka sem ófullnægjandi án þess að sannreynt væri að veð væru ekki til fyrir kyrrsetningarupphæðinni (til tryggingar kröfunni). - Sýslumanni bar að sannreyna að upphæð kröfu væri rétt.

Dómur Hæstaréttar 471/2010

6.  Vextir Seðlabanka Íslands skulu koma í staðinn fyrir samningsvexti - ekki var tilgreint frá hvaða degi, en vísað til þess að málsaðilar hafi verið sammála um útreikninga.

Dómur Hæstaréttar nr. 603/2010 og 604/2010

7.  Dómar um ólögmæti gengistryggingar gilda óháð lengd láns og tegund veðs þ.e. tilgangi með lántöku.

8.   Ekki var tekið á afturvirkni vaxtaútreiknings, þar sem þeim hluta var ekki vísað til Hæstaréttar.

Dómar Hæstaréttar 30/2011 og 31/2011

9.  Kröfuupphæð má ekki tilgreina uppreiknaðar með gengistryggingu.  Krafan er þó áfram til staðar, en upphæðin er önnur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur E-5215/2010

10.  Fjármálafyrirtæki er ekki aðili að máli nema þann tíma sem lán hefur verið í þess eigu.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur X-77/2011

11.  Ekki er heimilt að reikna á ný afborgun af vöxtum og höfuðstól, ef hún hefur verið greidd að fullu á réttum gjalddaga eins og krafist var.

12.  Mál er ekki reifað nægilega af hálfu sóknaraðila til að unnt sé að reikna skuld varnaraðila, en hún erþó aldrei lægri en upphaflegi höfuðstóll að frá dregnu því sem hefur verið greitt. 

13.  Ekki er hægt að krefja greiðanda um að lýsa gjaldhæfi sínu gagnvart rangri upphæð, þ.e. gengistryggðri upphæð þegar upphæðin á að vera án gengistryggingar.

14.  Fjármálafyrirtæki getur ekki hunsað mótbárur lántaka um upphæð skuldar og knúið fram gjaldþrot þrátt fyrir slíkar mótbárur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur  X-532/2010

15.  Fjármögnunarleigusamningur er lánssamningur, þar sem afborganir bera vexti.

Fleiri dóma væri örugglega hægt að tiltaka, en þetta eru þeir sem ég tel skipta máli.

Í þessum málum hefur reynt á lánssamninga, kaupleigusamninga og fjármögnunarleigusamninga frá eftirfarandi aðilum:

  • SP fjármögnun
  • Lýsingu
  • Íslandsbanka fjármögnun, áður Glitnir fjármögnun og þar áður Glitnir
  • Landsbankanum áður NBI hf og þar áður Landsbanka Íslands hf.
  • Arion banka, áður Nýi Kaupþing banki, Kaupþing banki, KB banki, Kaupþing-Búnaðarbanki.
  • Frjálsa fjárfestingabankanum
Í tilfelli lána í eigu Arion banka, þá kunna þau að hafa verið um tíma í eigu Eignasafns Seðlabanka Íslands.  Einhver lán sem gefin voru út af Landsbanka Íslands hf. eru núna í eigu lífeyrissjóðanna, en voru þar áður a.m.k. lögð að veði hjá seðlabankanum í Lúxemborg og Seðlabanka Evrópu (þekki þetta flækjustig ekki alveg).  Lán gefin út af Glitni, Glitni fjármögnun og Íslandsbanka (áður en hann hlaut nafnið Glitnir) fóru líka eitthvað á flakk.

Þessi 1500 fyrirtæki veita mögulega 15.000 manns vinnu - Ósveigjanleiki fjármálafyrirtækjanna þeim til vansa

Í september 2009  birtist grein eftir mig í Morgunblaðinu og birti ég hana einnig á hér á þessari síðu undir heitinu Aðeins tvær leiðir færar: Leiðrétting núna eða afskrift síðar.  Ekki var hlustað á rökstuðning minn þá að best væri að fara í leiðréttingu strax.  Leiðréttingu sem hefði getað gert heimilin og fyrirtækin í landinu greiðsluhæf.

Greinin fjallaði vissulega mest um heimilin, en einnig var minnst á fyrirtækin.  Hugmyndafræðin var sú sama fyrir báða hópa, þ.e. að betra væri að leiðrétta strax en bíða með að afskrifa síðar.  Tekið skal fram að nokkrum dögum eftir birtingu greinarinnar hélt Seðlabankinn málstofu, þar sem tekið var nánast orðrétt undir innihald hennar.  Þar var niðurstaðan að þær þjóðir, sem unnið hefðu hratt að endurskipulagningu skulda, hefðu stigið hraðast upp úr fjármálakreppum.  Að sjálfsögðu fóru fjármálafyrirtækin ekki eftir þessum ábendingum og af þeim sökum erum við ennþá á bólakafi ofan í skítnum.

Ég hef aldrei getað skilið þessa aðferðafræði fjármálafyrirtækjanna, að ganga eins hart að fólki og fyrirtækjum og kostur er.  Jafnvel núna 11 mánuðum eftir að Hæstiréttur staðfesti ólögmæti gengistryggingarinnar, þá eru fjármálafyrirtæki ennþá að freista þess að rukka lánin eins og þessir dómar hafi ekki fallið.  Í hverri viku (liggur við) falla dómar í héraði eða Hæstarétti þar sem slegið er á fingur fjármálafyrirtækjanna, ef ekki rass, og bent á að gengistrygging er ólögleg.  Annað hvort eru þessir aðilar masókistar eða þeir eru að vona til þess að dómstólar gefist upp á þrákellni þeirra og dæmi þeim í vil.

Samkvæmt svari Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, sem fjallað er um í fréttinni, þá er talið að 1500 fyrirtæki fari í þrot.  Hvað ætli fjármálafyrirtækin tapi miklu á þroti þessara fyrirtækja?  Hvað ætli margir einstaklingar verði keyrðir í þrot vegna persónulegra ábyrgða fari fyrirtækin í gjaldþrot?  Hvað ætli fjármálafyrirtækin tapi miklu á gjaldþroti þessara einstaklinga?  Hvað ætli margir missi vinnuna við það að þessi fyrirtæki fari í þrot?  Hvað ætli margir þeirra þurfi að nýta sér sértæk úrræði fjármálafyrirtækjanna vegna tekjumissisins sem atvinnuleysið hefur í för með sér?

Ég veit um marga aðila sem eru búnir í yfir 2 ár að fá fjármálafyrirtækin til að semja um uppgjör skulda, einhverja leiðréttingu og þó ekki væri nema að frysta skuldir þar til betur árar eða búið er að fá á hreint hverjar skuldirnar eru í raun og veru.  Því miður er vilji fjármálafyrirtækjanna til að koma til móts við viðskiptavini sína nánast enginn.  Séu þau ekki gjörsamlega neydd til þess, þá virðist ekkert vera gert.  Og þegar einstaklingar og fyrirtæki reyna að nýta sér úrræði fjármálafyrirtækjanna, þá veltur túlkun fjármálafyrirtækjanna alveg á því hvoru megin borðsins þau sitja.

Um daginn fékk ég vitneskju um mál einstaklings sem ætlaði að nýta sér 110% leiðina.  Viðkomandi er með 50 fm íbúð á góðum stað, en hann átti aldrei von á því verðmati sem lagt var fyrir hann af bankanum.  Fermetraverð var sagt tæplega 313 þúsund kr. og hafði eigandinn að orði, að jafnvel á toppi verðbólunnar hafi hann ekki fengið slíkt verðmat.  En fjármálafyrirtækin ráða.  Skelli þau fram svona biluðu verðmati, þá getur fasteignaeigandinn lítið gert.  Síðan eru taldar til allar eignir, þannig að ofan á þetta verðmat er bætt eignarhluti í bifreið (eins og hægt er að treysta slíku) og allt það annar sem hægt er að finna.  Þannig verður 110% leiðin ekki 110% af verðmati fasteignar heldur 130% eða 150%.  Í öðru tilfelli frétti ég af einstaklingi sem ætlaði að semja við banka um uppgjör með því að setja fasteign upp í skuldir. Í því tilfelli kom mat bankans á eigninni sem var undir fasteignamati.

Fjármálafyrirtækin virðast halda allt of oft að þau beri enga ábyrgð á því sem gerðist á árunum fyrir hrun.  Mér er alveg sama þó þau heiti nýjum nöfnum og beri nýjar kennitölurnar.  Kröfurnar sem þau eru að halda á lofti, eru frá gömlu kennitölunum og því oft ekki sú innstæða bak við þær og fjármálafyrirtækin vilja vera láta.  Mér finnst að fjármálafyrirtæki eigi að sjá sóma sinn í því að halda ekki á lofti hærri kröfum, en óyggjandi séu og samþykktar eru af báðum aðilum.  Annað verði sett á ís þar til leyst hefur verið úr ágreiningi.  Þetta er ekki ósvipuð tillaga og ég setti fram í lok september og byrjun október 2008 og held ég ennþá að sé besta lausnin.  Mér finnst það a.m.k. ósiðlegt að fjármálafyrirtækin séu að gegna hlutverki handrukkarar fyrir erlenda kröfuhafa.  Þessara sömu kröfuhafa og okkur hefur verið talin trú um að hafi veitt afslátt af lánasöfnum við flutning þeirra frá gömlu kennitölunni til þeirrar nýju.  Eins og ég benti í fyrir ári eða svo var þessi afsláttur að hluta til blekking vegna samninga um hlutdeild kröfuhafanna í betri heimtum.

Rétt er að taka fram, að fjármálafyrirtækin eru misjöfn og þannig berast fæstar kvartanir vegna Íslandsbanka.  Flest dómsmálin virðast vera með NBI/Landsbankann sem annan málsaðila og Landsbankinn og Arion banki eru að fá verstu skellina hjá dómstólum.  Mest er kvartað undan þeim tíma sem Drómi/Frjálsi taka sér að svara erindum og hafa sumir viðmælenda minna líkt þessu við svarthol - sama er hvað fer inn, ekkert kemur til baka.  Byr er nefndur oftar núna í seinni tíð.  Af þessum lýsingum sem mér hafa borist, þá virðist sem mörg fjármálafyrirtæki gleymi því að þau og gömlu kennitölur þeirra voru í viðskiptasambandi við lántaka, en ekki að viðskiptavinurinn hafi átt/eigi að koma einu sinni eða oftar í mánuði til að láta tæma vasa sína.  Við viðskiptavinirnir erum ekki mjólkurkýr fjármálafyrirtækjanna, þó þau virðist helst halda það.

Velta má því fyrir sér hvers vegna viðskiptavinir eigi að viðhalda viðskiptasambandi sínu við fjármálafyrirtæki, sem telja sig eitt hafa rétt fyrir sér, þegar ágreiningur kemur upp.  Ég hef oft sagt að fjármálafyrirtækin þurfi að átta sig á því hvað þurfi að vera til staðar svo viðskiptavinurinn kjósi ekki einfaldlega að fara eitthvað annað.  Vandinn er að ekkert þokkalega stórt fjármálafyrirtæki er að komast óskaddað út úr hruninu.  Menn benda á MP-banka, en hann hefur líka sinn djöful að draga. 

Ég eins og fleiri bíð spenntur eftir því að hér á höfuðborgarsvæðinu opni nýr banki eða sparisjóður.  Ástæðan er einfaldlega sú, að ég get ekki hugsað mér að vera í viðskiptum við fyrirtæki sem hafa rétt minn að engu.  Fyrirtæki sem héldu áfram að krefjast greiðslu eins af áður gengistryggðum lánum, eins og dómar Hæstaréttar 16. júní 2010 hafi ekki fallið allt þar til í apríl á þessu ári.  Fyrirtæki sem fengu háa afslætti af lánunum mínum við flutning þeirra frá gömlu kennitölunni, en telja mig ekki eiga neinn rétt á að fá þennan afslátt til mín.  Fyrirtæki sem halda að þau geti rukkað mig um vexti allt að 7 ár aftur í tímann, þó ég hafi staðið í skilum allt þar til að í september 2009, en þá neitaði ég að viðurkenna rétt þeirra til að krefjast gengistryggingar á lánin.  Fyrirtæki sem svara bréfum eftir dúk og disk, vegna þess að þau vita að meðan þau svara ekki þá geta þau samt krafið mig um vexti.  Fyrirtæki sem hunsað hafa andmælarétt minn, þó í ljós hafi komið að ég hafi almennt haft rétt fyrir.  Fyrirtæki sem hafa mátt þola niðurlægjandi dóma Hæstaréttar skipti eftir skipti, þar sem Hæstiréttur bendir þeim á að þegar séu komnir fordæmisgefandi dómar.  Breyti þessi fyrirtæki sér, þá er ég tilbúinn að hugsa málið upp á nýtt.  Sýni þessi fyrirtæki af sér auðmýkt og lítillæti í samskiptum við viðskiptavini sína, þá er ég tilbúinn að hugsa málið upp á nýtt.  Hlusti þessi fyrirtæki á raddir viðskiptavina sinna og taki gagnrýni þeirra til sín, þá er ég tilbúinn að hugsa málið upp á nýtt.  Annars mun ég nota fyrsta tækifæri til að færa öll mín viðskipti til fjármálafyrirtækis sem er traustsins vert.


mbl.is 1500 fyrirtæki stefna í þrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ferðaþjónustuaðili ræður erlenda leiðsögumenn í stað innlendra

Mér var bent á það í gær að stórir íslenskir ferðaþjónustuaðilar ráða í stórum stíl erlenda leiðsögumenn til starfa hér á landi.  Flestir eru þeir án nokkurrar reynslu af leiðsögn hér á landi og jafnvel án nokkurrar reynslu yfirhöfuð af leiðsögn.  Sá sem sagði mér af þessu nær ekki upp í nef sér af hneykslan.

Nú ganga á annan tug þúsunda Íslendinga atvinnulausir.  Í þeim hópi er eru m.a. leiðsögumenntað fólk.  Mér finnst dapurlegt að loksins, þegar stefnir í að illa launaðir íslenskir leiðsögumenn (já, laun leiðsögumanna eru líelegur brandari) geti haft þokkalegt að gera, þá er hrúgað inn í landið erlendum leiðsögumönnum.  Vissulega er vandamálið að ekki allir íslenskir leiðsögumenn sætta sig ekki við þá aumu taxta, sem eru í boði.  Munurinn á þeim og útlendingunum, er þó að þeir þekkja landið.  Því er mikilvægt að þeir séu við hljóðnemann.  Mikilvægt er að ferðamaðurinn fái á tilfinninguna að fagfólk skipuleggi og annist það í ferðum um landið, en ekki fúskarar. 

Á Spáni gildir sú regla, að innfæddur leiðsögumaður verður að vera í öllum ferðum.  Fyrir nokkrum árum fórum við hjónin til Barcelona og jafnvel í rútunni frá flugvellinum inn að hótelunum sat innfæddur leiðsögumaður með.  Þannig eru reglurnar á Spáni.  (Án þess að hafa það á hreinu, þá býst ég við að leiðsögumaðurinn mætti vera hvaðan sem er af EES-svæðinu, svo fremi sem hann hafi sérmenntað sig í leiðsögn á Spáni.)

Sá sem menntar sig í leiðsögn hér á landi lærir ótrúlega margt um land og þjóð.  Mæli ég með leiðsögunámi, þó ekki væri nema til þess að öðlast þessa þekkingu.  Sjálfur er ég menntaður frá Leiðsöguskólanum í Ferðamálaskólanum í Kópavogi.  (Hann er hluti af Menntaskólanum í Kópavogi.)  Á þessu eina námsári, sem námið tekur er farið í sögu lands og þjóðar frá landnámi til þessa dags, bókmenntir og listir, byggingarlist, handverk, flóru Íslands (plöntur og gróður), fánu Íslands (dýralíf), þróun atvinnulífs, þróun efnahagslífs, þróun stjórnskipunar, jarðfræði, veðurfar, norðurljósin, þjóðmenningar m.a. þjóðminjar og þjóðsögur, þróun byggðar, sérstaklega fjallað um einstaka staði út frá framansögðu, fjallað um heilu landsvæðin í samhengi og svona mætti lengi telja.  Hafi erlendir leiðsögumenn þekkingu á þessum atriðum, þá er besta mál að láta þá leiðsegja útlendingum hér á landi, en hafi þeir það ekki, þá eru þetta hrein og klár vörusvik.  Hvað veit þýskur krakki, blautur bak við eyrun úr námi í Þýskalandi, um þjóðsögur á Íslandi, hætturnar sem leynast undir fótunum, túngarðinn á tæplega 3m dýpi í Þingvallavatni, flutning fólks úr Heimaey að morgni 23. janúar 1973, laugar á Vestfjörðum, afrek og bernskubrek Grettis, söguslóðir Njálssögu og svona mætti lengi telja?  Eða að þó hann sé franskur, svissneskur, austurrískur, pólskur, tékkneskur, ítalskur eða spánskur.

Afleiðingin af því að "leiðsögumaðurinn" er reynslulaus eða lítill, er sú að álagið á bílstjórana eykst gríðarlega.  "Leiðsögumaðurinn" er oftast "mállaus", þ.e. getur hvorki bjargað sér á íslensku né ensku.  Hann getur því ekki séð um samskiptin við hótel og matsölustaði, skilur ekki hvað stendur á skiltum, getur ekki einu sinni lesið landakort með góðu móti, veit varla hvar staðir eru sem ætlunin er að heimsækja.  Afleiðingin fyrir bílstjórann er að hann fær ekki sinn hvíldartíma lögum samkvæmt.  Þá eru dæmi um að slíkir "leiðsögumenn" hengi sig á íslenska leiðsögumenn sem aumkuna sig yfir þá.  Loks má ekki gleyma því, að ekki kemur tekjuskattur eða útsvar til ríkis og sveitarfélaga vegna þessara aðila.


Varamaður í bankaráði Landsbankans hf. sendir launþegum tóninn

Andri Geir Arinbjarnarson heitir maður.  Hann er ágætlega menntaður og í góðu starfi.  Hann er líka mikilsmetinn bloggari, álitsgjafi og síðast en ekki síst varamaður í bankaráði Landsbanks hf. (áður NBI hf.).  Í nýlegri færslu sendir hann launþegum þessa lands heldur kalda kveðju.  Réttlátar launahækkanir þeirra munu draga kreppuna á langinn!  Launþegar landsins eiga að sætta sig við skert kjör svo hægt sé að nota gjaldeyrinn, sem þessir sömu launþegar taka þátt í að skapa, í að greiða m.a. erlendum kröfuhöfum hlutdeild í hagnaði Landsbankans hf. af óvægnum innheimtum bankans af stökkbreyttum lánum viðskiptavina bankans.

Ég setti athugasemd inn á bloggið hans, þar sem ég mótmæli þessari framsetningu hans og vil ég birta hana hér:

Ég veit um eina leið sem gerir fyrirtækjum kleift að standa undir þessum hækkunum án þess að veita þeim út í verðlagið. Hún er ákaflega einföld og varamaðurinn í bankaráði Landsbankans hf (áður NBI hf.), Andri Geir Arinbjarnarson, gæti kannski talað fyrir henni í bankaráðinu. Fjármálafyrirtæki hraði úrvinnslu beinu brautarinnar, þau leiðrétti strax og afturvirkt ólöglega teknar afborganir áður gengistryggðra lána og bjóði fyrirtækjum betri kjör í viðskiptum sínum við bankann. Með þessu myndi sparast verulega í rekstrarkostnaði fyrirtækjanna, sem gæfi þeim svigrúm til að gera betur við starfsfólk sitt. Síðan gæti varamaðurinn líka talað fyrir því í bankaráðinu, en mér skilst að hann sitji alla fundi bankaráðsins, að bankinn virði dóma Hæstaréttar, neytendaréttarákvæði laga og Evrópuréttar, stjórnarskrárvarinn rétt fólks og fyrirtækja og að ég tali nú ekki um siðareglur bankans sjálfs.

Mér finnst þú, Andri Geir, gleyma því að vandi íslensks hagkerfis er fjármálafyrirtækjum að kenna, ekki almenningi og framleiðslufyrirtækjum, ríkisstofnunum, sveitarfélögunum eða aðilum í ferðaþjónustu. Nei, vandi þjóðarbúsins er því að kenna, að Landsbanki Íslands hf., Kaupþing banki hf., Glitnir banki hf. og fleiri illa rekin fjármálafyrirtæku settu hér upp einhverja svæsnustu svikamyllu sem um getur á heimsvísu. Meðan þessi svik hafa ekki verið leiðrétt, þá verður enginn rekstrargrundvöllur hvorki fyrir heimili né atvinnurekstur.

Mér finnst það ósvífið af varamanni bankaráðs kennitöluflakkara að kenna eðlilegum kjarabótum um að endurreisnin verði ekki eins auðveld, þegar Landsbankinn hf. (áður NBI hf.), Arion banki hf. og Íslandsbanki hf. hafa það í hendi sér að laga ástandið. Þú gefur í skyn, Andri Geir, að fólk eigi að sætta sig við skert kjör (sem eru bein afleiðing af svikum, lögbrotum, prettum og blekkingum fjármálafyrirtækjanna) vegna þess að annars gæti það ruggað bátnum. Mér finnst að þú ættir að sýna ögn meiri auðmýkt. Fattar þú ekki að fólk býr hér við fátækt? Kaupmáttur launa hefur lækkað um hátt í 30% á frá því í ársbyrjun 2008, m.a. vegna hátterni fjármálafyrirtækjanna. Og nýju fjármálafyrirtækin, sem eru ekkert annað en kennitöluflakkarar, eiga að vera stikkfrí, vegna þess að þau eru komin með nýja kennitölu. Sveiattan!

Eins og ég segi í inngangsorðum mínum, þá fá kröfuhafar Landsbanka Íslands hf. hlutdeild í hagnaði af betri innheimtum bankans af stökkbreyttum lánum.  Líklegast rennur öll sú hlutdeild upp í Icesave, en þó er það ekki víst.  Samningurinn milli fjármálaráðuneytisins og Fjármálaeftirlitsins annars vegar og erlendra kröfuhafa hins vegar er ekki opinber og við vitum því ekki hvaða leynileg ákvæði eru þar.  Samkvæmt upplýsingum sem komu frá Arion banka um daginn, þá renna 80% af betri heimtum lána til erlendra kröfuhafa en 20% til bankans sjálfs.  Bankinn þiggur sem sagt 20% innheimtuþóknun frá erlendum kröfuhöfum.  Halda menn virkilega að bankinn muni leggja sig í líma við að semja við fólk og fyrirtæki, þegar hann getur makað krókinn á þennan hátt.  Í fjölmiðlum hafa birst fréttir um að starfsmenn Landsbankans hf. fái kaupauka tengda betri heimtum.  Satt best að segja finnst mér það viðbjóðslegt, að fjármálafyrirtæki sem reist eru á rústum fyrirtækja sem lögðu þjóðfélagið bókstaflega í rúst, séu svo ósvífin að vinna frekar með hagsmuni erlendra kröfuhafa að leiðarljósi, en hagsmuni viðskiptavina sinna.  Og allt vegna þess, að þannig leggist þeim til auka hagnaður.  Sveiattan, þið ættuð að skammast ykkar!


Olíuverð lækkar um 8,6 - 8,8% á heimsmarkaði - Ætli íslensku olíufélögin viti af þessu?

Heimsmarkaðsverð á olíu lækkaði í dag um 8,6% í New York og um 8,9% í London.  Á sama tíma hækkaði dollarinn um 1,14% gagnvart krónunni.  Skili þetta sér í verði við dæluna hér á landi, þá má búast við 20 kr. lækkun á bensínverði.  En það er víst til of mikils mælst, að verðið fari jafn hratt niður og það fer upp.

Ef íslensku olíufélögin bregðast ekki strax við þessari lækkun, þá hafa þau endanlega afhjúpað sig.  Mér sýnist, samkvæmt upplýsingum á gsmbensin.is, að einhverjir hafi lækkað um rúma krónu, en þegar tilefnið er 20 kr., þá er krónulækkun ekkert annað gefa neytendum langt nef.  Raunar er tilefni til meiri lækkunar, þar sem verð á hráolíuhefur lækkað úr USD113,89 í byrjun viku niður í USD99,44 í lok dags í dag, sem er 12,7% lækkun á fjórum dögum.  12,7% af 241 gerir lítraverð upp á rétt rúmlega 210 kr.  Á móti hefur dollarinn hækkað úr 110,88 í 112,67 eða 1,6%, þannig að olíufélögin gætu réttlætt að lítraverðið væri 213,2 kr.

En það var fleira en olían sem lækkaði á mörkuðum í dag.  Samkvæmt vefnum CNNMoney.com lækkaði nær öll hrávara verulega í dag.  Í frétt á vefnum er skýring á lækkun olíuverðs sögð vera aukning atvinnuleysis í Bandaríkjunum og að mikill samdráttur hafi orðið í bensínnotkun sem nemur ríflega 2% á einni viku.


Blekkingar á blekkingar ofan

Í janúar birti ég hér færslu undir heitinu Almenningur hafður að ginningarfíflum - Bankarnir lifa en almenningur tapar öllu.  Þar hélt ég því fram að stofnfjáraukningar tveggja sparisjóða, Sparisjóðs Keflavíkur og Sparisjóðs Svarfdælinga, hafi verið byggðar á sandi, þar sem verðmætaaukning í hlutabréfeign sjóðanna hafi verið blekking ein.  Í færslunni segi ég m.a.:

Sparisjóður Keflavíkur gaf út nýtt stofnfé og lánaði stofnfjáreigendum gengisbundin lán.  Stofnfjáraukningin var byggð á eignarhlut sjóðsins í Kistu ehf., en félagið hélt utan um eignarhluta sparisjóðanna í Exista sem síðan var stærsti hluthafinn í Kaupþingi.  Komið hefur í ljós að virði hlutabréfa í Kaupþingi var haldið uppi með grófum hætti og þróaðist í þveröfuga átt miðað við t.d. skuldatryggingaálag bankans.

Og síðar:

Hlutabréfamarkaðurinn var náttúrulega algjör brandari, þar sem verðmat þeirra byggði á því fjármagni sem þurfti til að greiða upp skuldir fyrri eigenda, en ekki hvers virði hlutabréfin voru.  Eftir því sem skuldir eigenda hlutabréfanna jukust, þá hækkað verð hlutabréfanna.  Oftast var það síðan lánveitandinn sem fékk allt kaupverð bréfanna í hendur enda snerist fléttan um að fyrri eigandi hlutabréfanna gerði upp skuldir við lánveitandann.  Fyrir þetta liðu aðrir kaupendur hlutabréfa.  Einnig myndaðist falskur hagnaður hjá öðrum hlutabréfaeigendum, svo sem lífeyrissjóðunum.

Frétt RÚV um skrípaleikinn varðandi viðskipti með hlutabréf í Kaupþingi staðfestir þessa lýsingu mína.  Ekkert var raunverulegt, allt var gert til að falsa raunverulega stöðu.

Ég verð að segja, að þetta er hætt að koma mér á óvart.  Ég bíð bara eftir því, að upp komist að stjórnendur stórs fjármálafyrirtæki hafi stútað einhverjum og komist upp með það.  Mér sýnist það vera það eina sem geti toppað hrokann og óheiðarleikann sem var í gangi.

Annars get ég ekki sagt annað en að ýmislegt í kaupum Samherja á Akureyrarhluta Brims í gær veki upp spurningar.  Samherji borgaði 3,4 ma. kr. og fékk 11 ma.kr. að láni frá Landsbankanum.  Samkvæmt fréttum, þá runnu þessir 3,4 ma. kr. til að greiða upp skuld Brims í Íslandsbanka, vafalaust lán sem veitt var þegar Þorsteinn Már var stjórnarformaður bankans, og 11 ma. kr. lánið fór til að gera upp skuldir Brims við Landsbankann!  Lán Landsbankans til Samherja var stillt á 11 ma. kr. svo Brim gæti gert upp við bankann.  Ákaflega heppilegt fyrir Landsbankann, ekki satt.  Kaupverðið var stillt af svo bankarnir fengju sitt. 

Ég bíð bara eftir því að í ljós komi að Samherji hafi fengið einhverja afbrigðilega fyrirgreiðslu hjá hvorum banka um sig.  Því miður er traust mitt á bankakerfinu ekki meira en þetta.  Sagt er að Samherji fjármagni þessa 3,4 ma.kr. með sölu eigna erlendis.  Ætli þeir hafi fengið söluverðið yfirfært á aflandsgengi?  Tek það fram, að ég hef enga ástæðu til að halda að hér sé óhreint mjöl í pokahorninu, en trú mín á heiðarlegum viðskiptum er bara ekki meiri en þetta.


mbl.is Stórfelld sýndarviðskipti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Metnaðarfullt skjal en útfærsluna vantar víða

Óhætt er að segja að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar sé nokkuð metnaðarfullt.  Vissulega er ansi margt sem á að koma til framkvæmdar síðar, en virða verður viljann fyrir verkið.  Í stórum dráttum sýnist mér yfirlýsingin nefna eftirfarandi:

1.  Hækkun bóta almannatrygginga.  Ekki er skýrt hve mikil hækkunin á að vera, bara að hún eigi að vera "með hliðsjón af niðurstöðum kjarasamninga".

2.  Hækkun atvinnuleysisbóta, þannig að "atvinnulausir njóti hliðstæðra kjarabót og" samningur SA og ASÍ veitir.

3.  Tekju- og eignatenging vaxtabóta og barnabóta verður endurskoðuð vegna næsta árs!

4.  Lögfest að persónuafsláttur taki breytingum í samræmi við verðlagsbreytingar ársins á undan.  Byrjar 2012. -  Er þetta endurtekning á loforði sem einhver önnur ríkisstjórn gaf hér um árið og virkaði í eitt eða tvö ár.

5.  Atvinnutryggingagjald lækki frá ársbyrjun 2012 úr 3,81% í 2,45%, en í staðinn hækka gjald í fæðingarorlofssjóð úr 1,08% í 1,28%, tryggingagjald hækkar um 0,25% og gjald í ábyrgðasjóð laun hækkar um 0,05% - Nettó breyting er því 0,86% til lækkunar (og allt niður í 0,73% fyrir suma, ef atriði 16 er tekið með).

6.  Breytingar á sköttum fyrirtækja verða lagðar fyrir á vorþingi.

7.  Ráðist verður gegn svartri atvinnustarfsemi.

8.  Sporna á gegn kennitöluflakki.

9.  Ná skal atvinnuleysi niður í 4-5% fyrir í lok samningstímans.

10. Efla fjárfestingar, þannig að þær verði árlega ekki lægri en 20% af landsframleiðslu.

11.  Fara á í ýmsar opinberar  framkvæmdir, s.s. nýja Landspítala, Vaðlaheiðagöng, ný hjúkrunarheimili, nýtt fangelsi, nýr framhaldsskóli, opinberar viðhaldsframkvæmdir, framkvæmdir á vegum Ofanflóðasjóðs, úrbætur á fjölsóttum ferðamannastöðum og vegaframkvæmdir á Vestfjörðum.

12. Greiða á fyrir fjárfestingum í virkjunum (hef heyrt þetta áður), m.a. Búðarhálsvirkjun og virkjunaráform á Norðurlandi upp á 70-80 ma.kr.

13.  Greiða á götu lífeyrissjóða til að taka beinan þátt í fjárfestingur og/eða fjármögnun orkuverkefna.

14.  Aukinn aðgangur að framhaldsskólum og námstækifæri fyrir atvinnuleitendur.

15.  Samræming lífeyrisréttinda, taka skal á vanda LSR.

16.  Bætt verður í starfsendurhæfingu og allir launagreiðendur greiði til Starfsendurhæfingarsjóðs.  Einnig komi greiðsla frá lífeyrissjóðunum.

17.  Ný lög um stjórn fiskveiða.

Þetta er langur listi, en víða vantar kjöt á beinið.  Áður en ljóst er hver endanleg útfærsla verður, þá kálið ekki sopið, þó í ausuna sé komið.


mbl.is 60 milljarðar á samningstíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 1680016

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband