Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011

Gott að hafa háleit markmið - þau mega samt ekki skemma fyrir mönnum

Áhugavert hefur verið að fylgjast með viðtölum við leikmenn íslenska landsliðsins hina síðustu daga.  Eitt veit ég fyrir víst, að þegar menn eru farnir að eyða of miklu púðri í að finna að dómgæslunni, þá eru menn á rangri leið.  Ég hitti gamla kempu úr boltanum um daginn og hann sagði út í hött að taka dýrmætan tíma frá undirbúningi í að klippa út atriði í dómgæslu og mæta á fund IHF um málið. 

Tapið gegn Þjóðverjum var ekki dómurunum að kenna.  Tæknifeilar og misheppnuð skot gerðu út um leikinn.  Ég held líka að andlegi þátturinn hafi spilað þar inn í.  Í þriðja sinn mættum við Þjóðverjum í fyrsta leik í milliriðli.  Í hin tvö skiptin komust Þjóðverjar í 6 - 0 og unnu örugglega.  Núna skoruðum við vissulega tvö fyrstu mörkin, en svo kom sex þýsk mörk.  Dejavu.  Menn misstu trúna á því að geta unnið, fóru að flýta sér í sóknarleiknum, ætluðu að vera hetjan sem kom Íslandi aftur inn í leikinn, skora helst tvö mörk í hverri sókn og biðu ekki eftir rétta færinu.  Að ógleymdu því að þýska vörnin var eins og ókleifur hamarinn.

Ég skil vel að menn hafi misst dampinn við að tapa leiknum, en þá á EKKI að færa fókusinn yfir í að finna eitthvað af dómgæslunni.  Hvenær hefur það skipt máli?  Ég man ekki eftir því og þó man ég nokkuð langt aftur, þegar kemur að handbolta.  Eina sem gerðist var, að menn komu ekki tilbúnir inn í leikinn gegn Spánverjum.

Íslendingar lentu í léttasta riðlinum í riðlakeppninni.  Enginn hinna fimm þjóða sem voru með okkur hafa verið meðal hinna fremstu undanfarin ár og jafnvel áratugi.  Ég er sannfærður um að hver sem er af þeim þjóðum sem komust í undanúrslit hefði unnið okkar riðil með fullu húsi stiga.  Það hefðu líka Króatar og Pólverjar gert.  Íslenska liðið vann flesta leikina örugglega og var það glæsilegt.

Eftir á að hyggja var tapið fyrir Þjóðverjum algjörlega óþarft.  Þetta var greinilega besti leikur þeirra í keppninni og raunar eini leikurinn þar sem þeir sýndu eitthvað af viti.  Þetta var okkar slys í keppninni, þó svo að fyrri hálfleikurinn gegn Spánverjum hafi verið lakasti hálfleikur keppninnar.  Málið er bara að Spánverjar eru fanta góðir og síðan hittu þeir á okkur eftir að fókusinn hafði lent úti í móa.

Að menn hafi viljað gull á HM sýnir bara hversu langt þetta lið er komið.  OK, það klikkaði en hve lengi ætla menn að láta það skemma fyrir sér?  Á föstudag er erfiður leikur gegn Króötum um 5. sætið.  Liðið er komið inn í forkeppni OL 2012 og er í dauðfæri að komast á leikana.  Tvö færi gefast og hugsanlega þrjú.  Fyrsta er EM 2012 í Serbíu og þar gefast mögulega tvö tækifæri.  Evrópumeistararnir komast beint á OL 2012, en sé það lið ríkjandi heimsmeistarar, þá kemst liðið í 2. sæti beint til London.  Síðan er það undankeppnin.

Visir.is gerir undankeppninni skil í frétt og út frá henni er ekki ljóst svona fyrirfram hvort það skiptir máli að vinna leikinn á föstudaginn eða tapa honum.  En hér er fyrst riðlaskipting undankeppninnar:

Riðill 1:

2. sæti á HM
7. sæti á HM

Evrópuþjóð - sú þjóð sem nær næstbestum árangri á EM 2012 í Serbíu af þeim sem ekki tryggðu sér sæti í forkeppni ÓL á HM 2011.
Afríkuþjóð - sú þjóð sem nær næstbestum árangri á Afríkumótinu 2011.

Riðill 2:

3. sæti á HM
6. sæti á HM
Ameríkuþjóð
- sú þjóð sem nær næstbestum árangri á Ameríkumótinu 2011.
Evrópuþjóð - sú þjóð sem nær þriðja besta árangri á EM 2012 í Serbíu af þeim sem ekki tryggðu sér sæti í forkeppni ÓL á HM 2011.

Riðill 3:

4. sæti á HM
5. sæti á HM
Asíuþjóð
- sú þjóð sem nær næstbestum árangri á Asíumótinu 2011.
Ameríkuþjóð - sú þjóð sem nær þriðja besta árangri á Ameríkumótinu 2011.

Sigurvegari leiksins fer í riðil 3 og tapliðið, a.m.k. fyrst um sinn, í riðil 2.  Tryggi hins vegar eitt af þeim liðum sem lendir fyrir ofan okkur á HM sæti Evrópumeistara á OL 2012, þá endum við alltaf í riðli 3 sama hvernig leikurinn á föstudaginn endar.  (Þá færast öll liðin upp um eitt sæti.)  Riðill 3 er almennt álitinn léttastur með aðeins tvær Evrópuþjóðir, en á móti kemur að þær ættu að vera mjög jafnar að getu (ekki að það sé almennt mikill getumunur á þessu efstu þjóðum).  Miðað við það, þá er best að vinna leikinn á föstudag og þar með tryggja sig inn í riðil 3, en tap gæti skilað hinu sama.  Til að ganga alla leið, þá reikna ég með að í riðlinum verði Svíþjóð eða Króatía, Ísland, Japan og Brasilía.  Nú er bara að sjá hversu sannspár ég verð.  (Að því gefnu, að Ísland verði hvorki Evrópumeistarar né tapi úrslitaleiknum fyrir ríkjandi heimsmeisturum.)


mbl.is Snorri: Lítur vel út á pappírunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óþarfa annmarkar á kosningum til stjórnlagaþings - Hvenær verða kosningar rafrænar?

Í íslenskum lögum eru skýr ákvæði um framkvæmd kosninga.  Hæstiréttur hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að kosningarnar til stjórnlagaþings hafi ekki uppfyllt þessar kröfur í nokkrum atriðum. Ég fæ ekki betur séð en að þeir annmarkar sem Hæstiréttur nefnir séu allir hræðilega klaufalegir og gjörsamlega óþarfir.

Þau atriði sem kærð voru til Hæstaréttar snúa flest að framkvæmd kosninganna, þó tvö þeirra snúi að talningunni.  Þessi sem snúa að framkvæmdinni vöktu furðu mína, þegar ég kaus sjálfur.  Hér fyrir neðan skoða ég hvert atriði og bendi á hve litlu hefði þurft að breyta til að þetta atriði hefði verið í lagi.

  1. Númeraðir kjörseðlar:  Einhverra hluta vegna ákvað kjörstjórn að hafa kjörseðla númeraða svo hægt væri að sækja einstaka kjörseðla, ef vandamál kæmu upp í myndgreiningu á atkvæðinu.  Með þessu, þá er hægt að rekja hvar atkvæðið var greitt og líklegast á hvaða tíma.  Með aðstoð eftirlitsmyndavéla væri síðan hægt að rekja hver hefði líklegast greitt atkvæðið, a.m.k. í fámennari kjördeildum.  Ég skil vel að menn hafi verið hræddir við nýtt talningarfyrirkomulag og viljað hafa vaðið fyrir neðan sig, en kjörseðlana hefði mátt númera eftir á með því að setja þá í gegn um prentvélar sem prentað hefðu númer á bakhlið seðlanna.
  2. Ekki þurfti/mátti brjóta kjörseðlana saman:  Ég heyrði fyrir kosningar að ekki hafi mátt brjóta kjörseðlana saman, þar sem það hefði aukið líkur á erfiðleikum við lestur atkvæðanna, brotið hefði getað lent ofan í það sem skrifað var á seðilinn.  Einnig hefði farið mikill tími í að slétta seðlana fyrir lestur í talningavél.  Hér hefði verið einfaldast að setja brot í kjörseðlana fyrirfram og gæta þess að brotið lenti á réttum stað.  Í öðrum kosningum hefur ekki verið neitt vandamál að kjörseðlar væru brotnir saman og varla hefði það vafist fyrir vönu talningafólki að undirbúa seðlana í þetta sinn.
  3. Kjörkassa voru opnir og ekki úr traustu efni:  Ég verð að viðurkenna, að mér fundust kjörkassarnir heldur aumingjalegir.  Þeir voru notaðir, þar sem ekki mátti brjóta kjörseðilinn saman, en hefði það verið heimilt, þá hefði verið hægt að nota gömlu góðu kjörkassana.  Eins og ég bendi á að ofan, þá var þessi takmörkun á að brjóta kjörseðlana saman algjörlega óþörf og þar með líka þessi framkvæmd.
  4. Opnir kjörklefar:  Mér skilst að kjörklefarnir sem voru notaðir við kosningar til stjórnlagaþing hafi verið þeir sömu og vegna Icesave.  Þar sem ég kaus utankjörfunda vegna Icesave, þá þekki ég það ekki.  Kjörklefarnir báru þess merki að menn væru að spara.  Líklegast er vandamálið, að það vantar skilgreiningu í lög um það hvaða skilyrði kjörklefar þurfa að uppfylla, þ.e. hæð skilrúma, lýsing og hvort og þá hvernig hægt sé að loka þeim.  Ég sé í sjálfu sér ekki að þessir kjörklefar svipti mig tækifæri til leyndar um það hvernig ég nota atkvæðið mitt, en ég þarf að hafa meira fyrir því að verja leyndina.  Þó svo að það sé tjald fyrir kjörklefa, þá er ekkert sem segir að ég verði að draga fyrir (að ég best veit).  Tjaldið er hjálpartæki.  Í þessum kosningum var ætlast til að einstaklingurinn notaði líkama sinn í stað tjaldsins.  Þetta atriði byggði því á sparnaði og var algjörlega óþarft.
  5. Að talning hafi ekki farið fram fyrir opnum dyrum:  Ég hef aldrei vitað til að þetta væri vandamál og finnst þetta vera hártogun hjá Hæstarétti.  En rétturinn er fastur í formsatriðum og því er um að gera að týna þau öll til.  Aftur er þetta atriði sem auðvelt hefði verið að framkvæma rétt og aftur er það hræðsla manna við nýtt fyrirkomulag, sem rekur menn út í þessa vitleysu.
  6. Frambjóðendur höfðu ekki fulltrúa:  Spurningin hér er hvort það hafi verið réttur frambjóðenda að eiga fulltrúa við talninguna eða hvort það var skylda landskjörstjórnar að tryggja að fulltrúi frambjóðenda væri viðstaddur.  Ég hef ekki næga lagaþekkingu til að vita það, en Hæstiréttur setur út á þetta.  Enn og aftur er þetta heldur aumingjalegt atriði, sem sáraeinfalt hefði verið að hafa rétt.

Með einni undantekningu, þ.e. opinn kjörklefi, þá má rekja öll atriðin til þess að menn panikeruðu vegna fjölda frambjóðenda.  Vegna fjöldans voru fengnar talningavélar og talningakerfi sem skannaði inn alla seðlana.  Menn voru óöruggir með virkni kerfisins og vildu hafa vaðið fyrir neðan sig.  Af þeirri ástæðu voru kjörseðlar númeraðir fyrirfram, ekki mátti brjóta þá saman og þeir voru settir í kjörkassa þannig að lítil hætta væri á því að þeir krumpuðust eða yrðu fyrir hnjaski að öðru leiti.  Að talningin væri ekki opnari en raun bar vitni helgast líklegast af því, að menn vildu ekki hafa almenning hangandi yfir öxlum sér meðan verið var að ráða fram úr tæknilegum vandamálum.  Þetta með fulltrúa frambjóðenda við talningu, þá ber það pínulítið vott um yfirlæti en má líklegast skrifa á klaufaskap.

Rafrænar kosningar

Niðurstaða Hæstaréttar kallar á að sem fyrst verði farið út í notkun rafrænna aðferða við kosningar.  Ætlunin var að hafa slíkt fyrirkomulag í minnst tveimur sveitarfélögum sl. vor, en hrunið kom í veg fyrir það.  Samgönguráðuneytið þurfti að spara og gat ekki séð af þeim peningum sem þurfti í verkið.

Það vill svo til, að ég er einn af þeim sem skoðað hafa fyrirkomulag rafrænna kosninga.  Haustið 2006 var ég beðinn um að skoða rafrænt kosningakerfi sem Samfylkingarfélag Reykjavíkur notaði fyrir prófkjör vegna þingkosninga sem voru vorið 2007.  Um svipað leiti héldu Eistar kosningar sem voru rafrænar og Indverjar nota rafrænar kosningavélar í mörgum kjördæmum.  Í jafn tæknivæddu landi og Íslandi, þá á þetta ekki að vera mikill vandi.  Niðurstaða Hæstaréttar í gær segir mér þó að vanda þurfi til verksins, bæði varðandi lagasetningu og framkvæmd.  Skora ég á innanríkisráðherra að stofna strax starfshóp um verkið svo hægt sé að færa kosningar hér á landi yfir í nútímalegra form.


mbl.is Niðurstaðan vel rökstudd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hálf öld að baki - Ferðalag frá fiskveiði þjóð til tæknivædds samfélags

Já, það var 25. janúar 1961 að ég kom í heiminn.  Hálf öld er liðin og fátt líkt með þessum tveimur tímum.  Eitt virðist vera við það sama, ég er einhvern veginn alltaf á undan tímanum.  Ég átti nefnilega ekki að fæðst fyrr en þremur vikum síðar.  Mamma segir að þetta hafi verið í eina skiptið sem ég hafi flýtt mér alla mína æsku Grin

Ég hef svo sem ekki afrekað neitt stórkostlegt á þessum 50 árum fyrir utan börnin mín.  Oftar en ekki endað uppi með silfurverðlaun, nema að ég varð haustmeistari með KR í 4. fl. karla árið 1973, b-lið.  Ég á silfurverðlaun frá Íslandsmóti 2. fl. karla 1978 eða 1979, en það var eins og að verða meistari.  Við Gróttustrákar eiginlega töpuðum titlinum frekar en að Víkingur hafi unnið hann, en mótherjarnir voru svo sem ekkert slor.  Liðin sem við spiluðum gegn samanstóðu af fyrstu "strákunum okkar", þ.e. liðið sem vann B-keppnina í Frakklandi 1989, Kristján Arason, Siggi Gunn, Palli Ólafs, Hansi Guðmunds, Þorgils Óttar og svo þjálfaði Bogdan Víkingana.

Leið mín lá menntaveginn, Mýró, Való, MR, HÍ og Stanford, síðan KHÍ og loks Leiðsöguskólinn sem var líklegast skemmtilegasta námið.  Fyrirtækin sem ég hef unnið hjá eru flest ekki til í þáverandi mynd, þ.e. Prjónastofan Iðunn, Skipadeild Sambandsins, Tölvutækin Hans Petersen, Iðnskólinn í Reykjavík, deCODE, VKS og síðan eigin rekstur Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta.  Iðunn er farin og sama á við um Tölvutækni, skipadeildin heitir Samskip, Iðnskólinn er núna Tækniskólinn og VKS varð hluti af Kögun sem núna heitir Skýrr.

Þegar ég fæddist var vinstri umferð, ekki var hægt að aka hringinn, ekið var yfir fjallvegi til Siglufjarðar, Ólafsfjarðar, Norðfjarðar, Ísafjarðar og Súgandafjarðar.  Vestfirðir einangruðust hálft árið og bundið slitlag var ekki til utan þéttbýlis.  Leiðin til útlanda lá eftir hlykkjóttum vegi um Vatnsleysuströnd og farið var fram hjá hermönnum til að komast út á flugvöll.  Nema að maður færi með Gullfossi með viðkomu í Edinborg á leið til Kaupmannahafnar, eins og fjölskyldan gerði 1967.  Þotur voru ekki til hér á landi og heldur ekki tölvur.  Sveitasíminn var Facebook þess tíma, þ.e. ef maður vildi að öll sveitin vissi eitthvað, þá talaði maður um þau efni í símann (eins og fólk notar Facebook í dag).  Svo má náttúrulega ekki gleyma því að ég er eldri en Surtsey!

Ferð í Fjörðinn var heilmikið ævintýri enda farið yfir Kópavogsháls, Arnarnesháls og framhjá öllum óbyggðasvæðunum sem þarna voru.  Á Íslandi bjuggu um 177.000 manns, á Seltjarnarnesi bjuggu rúmlega 1.300 manns, 6.213 í Kópavogi og Akureyri var næst stærsti bær landsins með 8.835 íbúa.  Vestfirðir voru ennþá fleiri en Austfirðingar, íbúar Norðurlands Vestra og þar bjuggu líka fleiri en í næst stærsta bæjarfélaginu.  Reykvíkingar ríflega 72.000.  Hafnarfjarðarstrætó hökti leið sína og ef maður var heppinn, þá bilaði hann ekki áður en komið var á leiðarenda. Bara þeir allra frökkustu fóru upp að Elliðavatni og þá þótti við hæfi að gista í sumarbústað við vatnið.  Það var góður dagsspölur að fara á Þingvöll og til baka.  Lagt snemma af stað og komið, þegar kvöld var komið, til baka.  Stórvirkjanir landsins voru Steingrímsstöð, Ljósafoss og Írafoss.

Áburðaverksmiðjan og Sementsverksmiðjan voru liggur við einu framleiðslufyrirtæki landsins sem ekki voru í eigu Sambandsins enda var ekkert álver í Straumsvík.  En það gerðist margt á fyrstu 10 árum ævi minnar.  Þjóðfélagið tók stakkaskiptum.

Fyrsta tölvan kom til landsins 1964 frekar en 1965, Búrfellsvirkjun reis og líka álver kennt við Ísal.  Keflavíkurvegur var lagður og helstu leiðir út úr Reykjavík voru bættar.  Strákagöng og Ólafsfjarðargöng voru grafin og sprengd og þar með var vetrareinangrun Siglufjarðar og Ólafsfjarðar rofin. Fyrstu stóru viðburðirnir voru þó Öskjugos, Surtseyjargosið og morðið á Kennedy.  Jú, Bítlarnir komu fram á sjónarsviðið.  1966, nánar tiltekið 30. september, hófust útsendingar sjónvarpsins.  Þær voru í svart-hvítu og til að byrja með tvisvar í viku.  Handboltinn var spilaður í Hálogalandi, en þó eignuðumst við stjörnur á heimsmælikvarða.  Jón Hjaltalín Magnússon fór meira að segja til Svíþjóðar að spila með Drott.  Laugardagshöllin var tekin í notkun 1967 sama ár og Danir niðurlægðu fótboltalandsliðið 14-2.  Ári síðar komu yfir 20.000 manns til að sjá Benfica spila við Val.  Þetta eru einu tvö metin sem ennþá standa.  KR vann sinn síðasta Íslandsmeistaratitil í yfir 30 ár um líkt leiti og síldin hvarf.

Ég var orðinn 10 ára, þegar aðrir en Sjálfsstæðisflokkur og Alþýðuflokkur komust til valda og um líkt leiti gengum við í EFTA.  Nixon og Pompidou heimsóttu Ísland og Fisher og Spassky háðu einvígi aldarinnar.  Tveimur dögum fyrir 12 ára afmælið hófst gos í Heimaey.  Ásgeir Sigurvinsson varð atvinnumaður í knattspyrnu.  Efnahagur þjóðarinnar hrundi og meðalverðbólga var 40% á ári eða svo.  Fermingarpeningar brunnu upp og það gerðu líka húsnæðislán og eignir lífeyrissjóðanna.  Hafi sjöundi áratugurinn verið áratugur pólitísks stöðugleika, þá var sá áttundi allt annað.  Einu tölvurnar sem voru til á landinu voru í sérstökum reiknistofnunum eða skýrsluvélum og komu ýmist frá International Business Machines eða Digital Equipment Corporation.  Við háðum þorskastríð við Breta og Þjóðverja, þegar við færðum landhelgina út í fyrst 50 mílur og síðan 200 mílur.  Lærðum að veiða loðnu og skutum ennþá hval.  Ísbjörn heimsótti Grímseyinga og ekki má gleyma að Hekla tók upp nýtt munstur, gos á 10 ára fresti.  Loksins gátum við keyrt hringinn og nýr vegur kom niður Kambana og upp í Kjós meðan Sléttubúar máttu ennþá aka troðninga til að komast inn á Kópasker. Hræðilegustu lög lýðveldisins voru sett, þegar verðtrygging var leyfð.

Níundi áratugurinn rústaði efnahag heimilanna, enda ruku verðtryggðar skuldir upp úr öllu valdi.  Kvótakerfið var tekið upp um líkt leiti og verðbólgan toppaði í 134%.  Fjármagnseigendur og kvótaeigendur mæra hlutinn sinn, meðan við hásetarnir hörmum okkar.  Jörð skalf og gaus fyrir norðan í einum mestu náttúruhamförum síðari tíma, enda gliðnaði landið um allt að 8 metra!  RÚV missti einkaleyfi á rekstri ljósvakamiðla.  Reagan og Grobasov heimsóttu Höfða og bundu enda á Kaldastríðið.  Kommúnisminn féll í Evrópu.  Einmenningstölvur flæddu inn í landið og tölvusamskipti urðu að veruleika.  Upplýsingaöldin gekk í garð.

Er Ísland betra í dag en á þessum tíma?  Eru vandamálin okkar stærri eða flóknari?  Ég veit það ekki, en hitt veit ég að samfélagið er sífellt að verða flóknara og hættulegra.  Á mínum yngri árum var framið morð á nokkurra ára fresti, núna eru þau mörg á ári.  Fyrirgreiðslupólitík var landlæg, en það var visst siðgæði í vitleysunni.  Fólk gat skilið húsin sín eftir ólæst um nætur og lykla í bílum.  Kerrum var ekki stolið, þó hæg væru heimatökin.  Þetta var tími sakleysisins, nokkuð sem við höfum glatað og kemur ekki aftur.

Það hafa verið forréttindi að lifa þennan tíma, þegar Ísland breyttist úr fiskveiðiþjóð í tæknivætt þjónustu samfélag.  Að fá að taka þátt í þróuninni og byltingunni.  Margt tókst vel og annað fór úrskeiðis.  Hagstjórnarmistökin hafa verið fleiri en tölu verður á komið og þau hafa versnað eftir því sem á ævina hefur liðið.  En við höfum öll tækifæri til að gera gott úr ástandinu, ef við bökkum aðeins og horfum til fortíðarinnar.  Þetta þjóðfélag varð ekki það sem það er vegna eiginhagsmunagæslu og græðgi, þó svo að vandamál dagsins í dag séu vegna þess. 


Önnur uppreisn héraðsdóms - Ætli Hæstiréttur leiðrétti þetta?

Föstudaginn 12. febrúar 2010 gerðist héraðsdómari svo djarfur að dæma fjármálafyrirtæki í óhag og óbreyttum almúganum í hag.  Þessi dagur er í minnum hafður, þar sem í fyrsta skipti frá hruni eygði almenningur eitthvert réttlæti.  Rúmlega 7 mánuðum síðar var Hæstiréttur búinn að rústa þeirri von.  Nei, fjármálafyrirtækin skyldu fá sitt, þrátt fyrir að þau hefðu fótumtroðið landslög og í leiðinni lagt hagkerfið í rúst.

Aftur eru kominn föstudagur, núna 21. janúar 2011, og aftur gerist héraðsdómari svo djarfur að dæma ótýndum almúganum í hag.  Það vill svo til, að ég fjallaði um ekki ósvipað mál í færslu hér í fyrradag.  Þetta snýst um lygarnar og blekkingarnar sem hafðar voru uppi í tengslum við stofnfjáraukningu hjá nokkrum sparisjóðum (sjá dóm í máli E-2770/2010).  Nú hefur héraðsdómari komist að sömu niðurstöðu og ég hafði komist að, þ.e. beitt var blekkingum til að fá fólk til að skrifa upp á lán með meiri ábyrgðum en til stóð eða eins og segir í dómnum:

Samkvæmt framansögðu þykir í ljós leitt að stefndi hafi vegna villandi ráðgjafar samþykkt lántökuna á þeirri röngu forsendu að áhætta hans takmarkaðist við hin veðsettu stofnfjárbréf. Þá verður að telja að Glitnir banki hafi sýnt af sér alvarlegt skeytingarleysi um hagsmuni stefnda, sem hafði ekki mikla þekkingu á verðbréfaviðskiptum, með því að upplýsa hann ekki um þá áhættu sem fólst í að taka lán til kaupa á svo miklu magni stofnfjárbréfa sem raun ber vitni. Í ljósi aðstæðna stefnda og þeirrar villu sem hann var í um eðli skuldbindingarinnar þykir óvíst að hann hefði tekið lánið ef honum hefði verið veitt rétt ráðgjöf sem hefði skýrt hvaða afleiðingar það hefði ef forsendur um rekstur sparisjóðsins og væntar arðgreiðslur gengju ekki eftir og honum bent á hvaða aðra valkosti hann hefði.

Og síðar segir:

Það er óumdeilt að stefndi getur borið fyrir sig að ósanngjarnt sé að byggja á umræddum lánssamningi, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936, þó að krafa samkvæmt samningnum hafi verið framseld frá Glitni banka til stefnanda. Þegar litið er til framangreindra atriða, er lúta að atvikum við samningsgerðina og stöðu aðila, efni lánssamningsins og atvika sem síðar komu til, er það niðurstaða dómsins að ósanngjarnt sé af stefnanda að bera lánssamninginn fyrir sig að því leyti sem hann felur í sér rétt til að leita fullnustu á greiðsluskyldu stefnda í öðru en hinum veðsettu stofnfjárbréfum og arði af þeim. Því er rétt að breyta efni hans þannig að stefnanda sé einungis unnt að leita fullnustu í stofnfjárbréfunum og arði af þeim. Þar sem krafa stefnanda beinist að því að fá aðfararhæfan dóm um skyldu stefnda til greiðslu eftirstöðva lánsins verður hann sýknaður af kröfum stefnanda. 

Ég er með nákvæmlega eins mál á borðinu hjá mér.  þar var stofnfjáreigendum í Sparisjóði Svarfsdæla boðin lán vegna stofnfjáraukningar.  Í öllum undanfara lántökunnar átti eingöngu að tryggja lánið með veði í bréfunum sjálfum.  Svo kom að síðasta fundi og undirskrift og þá var búið að lauma inn sjálfskuldarábyrgð.  Nú vona ég innilega að Saga Capital alias Saga fjárfestingarbanki taki tillit til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur og hætti innheimtu á umræddum lánum, þar sem hún stangast á við 36. gr. laga nr. 7/1936.

Þetta mál fer örugglega fyrir Hæstarétt.  Rétturinn hefur því miður ekki haft miklar áhyggjur af samningarétti og neytendarétti, þegar almúginn hefur leitað réttlætis gagnvart svikum, lögbrotum og prettum fjármálafyrirtækjanna sem settu Ísland á hausinn.   Hér gefst honum tækifæri til að reka af sér það slyðruorð að hann sé handbendi fjármagnsins.  Vona ég innilega að hann grípi það.


mbl.is Stofnfjáreigendur sýknaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnun upplýsingaöryggis er snúin og rannsókn slíkra brota ennþá snúnari

Ólíkt kollegum mínum, sem ræddu við Morgunblaðið, þá þori ég að koma fram undir nafni í uppfjöllun minni um meinta njósnatölvu í húsakynnum Alþingis.  Ég sendi raunar bréf á þinghóp Hreyfingarinnar í gærkvöldi, þar sem ég setti fram mínar vangaveltur um hvernig umrædd vél var notuð.  Hér koma þær í stórum dráttum:

Ég er sannfærður um að tölvan hafi verið notuð til þess að njósna um samskipti við ákveðna tölvu sem tengd var við sömu tengigrind og umrædd tölva.  Þetta var því hlerunarbúnaður en vélin var líklegast ekki sett upp til þess að sækja gögn af neti Alþingis.  Góðir fagmenn hafðu farið tiltölulega létt með að brjótast inn á kerfi Alþingis utanfrá hafi það verið tilgangurinn.  Vélin hefur verið sett upp líkt og kollegar mínir lýsa með sérstökum hugbúnaði, hugsanlega í vinnsluminni, en gæti líka hafa verið falinn á þeim hluta af diski tölvunnar sem ekki virðist vera í notkun.  Þetta er kunnugleg aðferð hjá þeim sem stunda það að stela kortaupplýsingum.  Hlutverk forritsins var líklegast að endurvarpa samskiptum við ákveðna tölvu, sem ég geri mér bara í hugarlund hver er, til þess aðila sem setti upp "njósnatölvuna".  Þetta er aftur þekkt aðferð og hefur náð mikilli útbreiðslu meðal hakkara sem eru að stela kortaupplýsingum.  Hvort við köllum þetta "man-in-the-middle" árás eða dulgervingu skiptir ekki máli.  Niðurstaðan er sú sama.  Ástæðan fyrir því að net Alþingis tekur ekki eftir þeirri umferð sem kemur frá tölvunni er að hún er dulgerð sem umferð frá upprunalegu tölvunni og á sér stað meðan sú tölva er tengd við netið.

Ég sé fyrir mér að að tilgangurinn hafi verið að hlera öll samskipti við þessa tilteknu tölvu.  Dulkóðuð eða ekki skiptir ekki máli, þar sem ég er sannfærður um að sá sem setti tölvunar upp hafi haft allan þann búnað sem þurfti til afkóða þau samskipti.  Auk þess fylgja hverjum samskiptapakka alls konar upplýsingar sem veita upplýsingar um tölvu ætlaðs móttakanda.

Það er greinilegt að ansi margt hefur farið úrskeiðis.  Flest af því byggir hreinlega á grandvaraleysi Alþingis, þ.e. svona atvik var ekki talið til þeirra ógna sem þörf væri að bregðast við.  Ég ætla ekki að ásaka menn um sofandahátt, þar sem 100% öryggi er ekki til og maður lærir í þessu starfi svo lengi sem maður lifir.  Um leið og búið er girða fyrir eina ógn eða útiloka einn veikleika í kerfum, þá poppar upp nýtt atriði.  Eins og ég segi í fyrirsögninni, þá er stjórnun upplýsingaöryggis snúin og þess vegna hafa ég og kollegar mínir sérhæft okkur í þessu.  Okkar hlutverk er að stærstum hluta að miðla af reynslu okkar og þekkingarbrunni um leið og við veitum fyrirtækjum leiðsögn um uppsetningu og starfrækslu stjórnkerfis upplýsingaöryggis, hvers tilgangur er að draga úr líkum á atvikum.

Ýmislegt fór úrskeiðis í undanfara atviksins, en stærstu mistökin voru gerð eftir að það uppgötvaðist.  Ef þetta hefði verið lík sem fannst í herberginu, þá hefði ekkert vafist fyrir starfsmönnum Alþingis að kalla á lögregluna.  Málið er, að sé grunur um lögbrot, þá mega menn ekki eyðileggja vettvang glæpsins.  Um leið og það er gert, er lögreglunni gert erfiðara fyrir.  Rétt viðbrögð eru því að láta hina grunsamlegu tölvu eiga sig og kalla til lögreglu.  Fylgja síðan leiðsögn lögreglunnar varðandi hvað má gera til að treysta öryggi annarra tölva og þar með upplýsingakerfa í heild.  Kannski túlkuðu starfsmenn Alþingis þetta ekki sem glæp, heldur bara mistök, og verður að virða viðbrögð þeirra í því ljósi.

Hafa skal í huga, að lögreglan ein er til þess bær að rannsaka vettvang glæps.  Eigi sönnunargögn að vera gild fyrir dómi, þá þurfa þau að uppfylla ákveðna formfestu.  Þrjóti tækniþekking lögreglunnar, þá er það hennar hlutverk að kalla til sérfræðinga sér til aðstoðar.  Starfsmenn þess aðila sem glæpurinn beinist gegn, geta ekki sinnt þeirri sérfræðiþekkingu nema undir vökulu auga lögreglunnar.  Hafa verður í huga, að 80-90% allra tölvuglæpa eru framdir af innanbúðarfólki.

Svo við höfum það á hreinu: 

Að eins eru til ein rétt viðbrögð, þegar svona glæpur uppgötvast.

1)  Verja vettvang glæpsins svo hann spillist ekki. 

2) Kalla til lögreglu.

Öll önnur viðbrögð geta spillt sönnunargögnum og komið í veg fyrir að hægt sé að upplýsa glæpinn.

--

Ég hef yfir 18 ára reynslu við stjórnun upplýsingaöryggis og hef undanfarin tæp 8 ár rekið mína eigin ráðgjafaþjónustu á því sviði auk þess að veita ráðgjöf um áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu.  Nánari upplýsingar um þá þjónustu sem ráðgjafaþjónusta mín býður upp á er að finna á vef rekstrarins www.betriakvordun.is.


mbl.is Mögulegt að komast í tölvupósta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spillingin heldur áfram - Þetta lyktar af peningaþvætti

Vigdís Hauksdóttir á heiður skilinn fyrir að upplýsa um þetta mál.  Því miður sýnir það og fjölmörg önnur að spillingin er ennþá grasserandi í íslensku viðskiptalífi.  Mér er svo sem alveg sama hverjir standa að þessu fjárfestingarfélagi Triton meðan þeir stunda viðskipti úti í heimi.  En nú sælist félagið eftir einu verðmætasta og mikilvægasta fyrirtæki landsins og þá á allt að vera uppi á borðum.  Það á einfaldlega að vera bannað samkvæmt íslenskum lögum að fyrirtæki í opinberri eigi stundi viðskipti við félög og fyrirtæki sem ekki upplýsa um eignarhald sitt (afleitt eignarhald líka), hvað þá að þau séu skráð í skattaparadísum í þeim tilgangi að komast hjá eðlilegum skattgreiðslum og borga þar með til þeirra samfélaga þar sem starfsemin fer fram.  Ég verð að viðurkenna að ég hef illan bifur á þessu félagi, Triton.  Annað hvort koma menn hreint fram og greina skilmerkilega frá því hverjir eru eigendur þess og hverjir aðrir koma að þessu tilboði eða hafna á tilboðinu.  Haldi lífeyrissjóðirnir að það sé þeim til framdráttar í þjóðfélaginu að vera í einhverju baktjaldamakki, þá er það mikill misskilningur.  Krafan í samfélaginu er gagnsæi í viðskiptum með almanna eignir og eignir bankanna.

Eignarhald á íslenskum eignarhaldsfélögum fyrir hrun er best lýst með ættartré.  Þó rótin sé sú sama hjá þeim flestum, þá var búið að dreifa eignarhaldinu á 5 til 10 lög móðurfyrirtækja í þeim eina tilgangi að firra raunverulegan eiganda ábyrg og fela hver hann er í raun og veru.  Það er gjörsamlega út í hött, að opinbert fyrirtæki (Landsbankinn) og fyrirtæki í eigu þorra landsmanna (Framtakssjóður Íslands) eigi í viðskiptum við fyrirtæki eða félag sem reynir allt til að fela raunverulegt eignarhald og til að komast hjá því að taka þátt í kostnaðinum við rekstur þeirra þjóðfélaga sem raunverulegir eigendur búa í og sækja alla þjónustu til. 

Séu íslenskir peningamenn að baki tilboði Triton, þá þarf það að koma fram.   Eins og þetta lítur út fyrir mér, þá lyktar þetta af peningaþvætti.  Verið er að koma illa fegnu fé inn í löglega starfsemi.  Sama á við um aðrar eignatilfærslur sem hafa átt sér stað eða eru komnar í gang.  Greint var frá því í fréttum að ÍAV hefði á einhvern undarlegan hátt lent aftur í höndum fyrri eigenda.  Hvaðan komu peningarnir?  Verið var að selja Vífilfell til Coke á Spáni.  Mér kæmi ekkert á óvart að það væri bara leikflétta og Þorsteinn í Kók eignist fyrirtækið aftur innan nokkurra vikna eða mánaða.  Sama verður upp á teningunum þegar önnur þekkt fyrirtæki verða seld.  Á einhvern undarlegan hátt munu þau rata aftur í hendur fyrri eigenda með viðkomu í skúffum um víða veröld. 

Gleymum því ekki að stórar fjárhæðir hurfu út úr hagkerfinu í undanfara hrunsins.  Þessir peningar gufuðu ekki bara upp.  Þeir eru þarna einhvers staðar og þeim þarf að koma í vinnu.  Eru fyrirhuguð kaup Triton fjármögnuð með slíkum peningum eða væntanleg sala Triton til raunverulegra kaupenda?  Ég veit það ekki, en ég held að það sé vel þess virði fyrir efnahagsbrotadeild lögreglunnar að skoða þann möguleika.

Sé það rétt sem Vigdís hefur eftir bankastjóra Landsbankans, að íslenskir aðilar standi að Triton, þá er spurningin hverjir eru það og hvaðan koma peningarnir.  Næst má spyrja hvort greiddur hafi verið skattur af peningunum og hvar sá skattur var greiddur.  Loks má gera þá kröfu að félagið verði skráð á Íslandi og greiði í framtíðinni skatta og skyldur hér á landi.  Eins og áður segir eiga fyrirtæki og félög í eigu landsmanna ekki að stuðla að því að ríkissjóður verði af skatttekjum með því að selja verðmætustu fyrirtæki landsins til félaga í skattaparadísum.  Vilji Triton eiga í viðskiptum, þá verði einfaldlega gerð sú krafa að þau fari fram í gegn um dótturfélag með skattskyldu hér á landi.


mbl.is Segir íslenska aðila standa að Triton
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kolvitlaust að sameina bankana - Þeir eru þegar of stórir fyrir tryggingasjóðinn

Það er arfa vitlaus stefna að vilja sameina tvo af stóru bönkunum og síðan láta Byr ganga inn í þann þriðja.  Læra menn ekki af reynslunni.  Vandamál okkar í dag er að bankarnir voru of stórir og þeir eru ennþá of stórir.  Nýleg lög um innstæðutryggingar ráða t.d. ekki við að einn af stóru bönkunum falli.

Nei, það sem þarf að gera er að draga úr stærð bankanna með því að brjóta þá upp.  Bankarnir þurfa að vera fleiri og smærri.  Þeir þurfa að vera af þeirri stærð að annað hvort megi þeir fara á hausinn án þess að draga allt fjármálakerfið með sér eða þeim sé hægt að bjarga.  Þess fyrir utan, þá þurfa bankarnir að tryggja sig sjálfir.  Það gengur ekki að þeir séu á ábyrgð skattgreiðenda.

Ef ég mætti ráða, þá yrði vexti bankanna settar skorður, þar til þeir hafa uppfyllt þau skilyrði að vera með

  1. nægilegt eigið fé (helst ekki undir 20%);
  2. búnir að verða sér út um tryggingar vegna áfalla eins og riðu yfir 2008;
  3. búnir að koma sér upp innra eftirlitskerfi sem er fullkomlega sjálfstætt og óháð;
  4. hafa farið í gegn um 4 - 5 árlegar úttektir viðurkenndra eftirlitsaðila sem taka út alla helstu þætti í rekstri þeirra;
  5. hafa skilgreint, skjalfest, innleitt og prófað fullnægjandi áætlanir um stjórnun rekstrarsamfellu og áhættustjórnun. 

Það þarf að vera hægt að taka starfsleyfi af fjármálafyrirtækjum sem ekki standa sig eða brjóta reglur án þess að allt fari á annan endann í hagkerfinu.  Bankarnir mega ekki verða það stórir að Fjármálaeftirlit, Seðlabanki Íslands og stjórnvöld hafi ekki getu til að hafa eftirlit með rekstri þeirra.  Takmarka þarf eignarhald tengdra aðila á fjármálafyrirtækjum, þannig að skrípaleikurinn með Kaupþing, Glitni og Landsbankann endurtaki sig ekki. 

Mig langar að benda á, að set hafa verið ný lög um lán til tengdra aðila og stórar áhættur.  Þau eru meingölluð miðað við núverandi kröfu um eigið fé.  Miðað við þau, þá er hægt að lána meira en 100% af öllum lánum í stórum áhættum.  Menn ættu að huga frekar að þessari vitleysu, en því að auka áhættu þjóðfélagsins með sameiningu banka.  Erum við virkilega með svo góða reynslu af því að hafa banka sem voru of stórir til að falla.  Ekki eru lög um innstæðutryggingar neitt mikið skárri.  Vissulega mun tryggingasjóðurinn duga, ef einn ekki of stór banki fellur, en þó ekki fyrr en eftir nokkur ár.  Falli banki sem er með 40 - 50% markaðshlutdeild í innlánum, þá mun sjóðurinn ekki ráða við það.  Kröfur um innborganir í sjóðinn gera ekki ráð fyrir banka sem stærri en 30% af markaðnum.  Ég benti á það sl. vor, að eins og sjóðurinn er hugsaður, þá þarf að hemja vöxt bankanna og ekki bara það, mér sýnist bæði Landsbankinn og Íslandsbanki vera of stórir fyrir sjóðinn til langframa.  Allir þrír eru bankarnir of stórir fyrir sjóðinn næstu 5 - 7 ár.

Vissulega veit ég ekki eins mikið um þessi mál og forstjóri Fjármálaeftirlitsins, en bara stærð tryggingasjóðs innstæðueigenda kemur í veg fyrir að einn banki geti haft stærri markaðshlutdeild en hver og einn af núverandi bönkum.  Þetta veit Gunnar Andersen og því er óábyrgt af honum að tala um sameiningu tveggja stórra banka.


mbl.is Tveir af þremur gætu sameinast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Almenningur hafður að ginningarfíflum - Bankarnir lifa en almenningur tapar öllu

Betur og betur kemur í ljós, að stórir hópar almennra lántaka og lítilla fjárfesta voru hafðir að ginningarfíflum í undanfara gjaldeyris- og bankahrunsins.  Fólk var ginnt til að leggja peninga í peningamarkaðssjóði, logið var að því um öryggi skuldabréfa, otað var skipulega að fólki gengisbundnum lánum, lögð fram gögn byggð á uppskálduðum upplýsingum um stöðu fjármálafyrirtækja til að fá það til að taka þátt í stofnfjáraukningu sparisjóða og svona mætti halda lengi áfram.  Lygar og skáldskapur þótti eðlilegur hluti í daglegum störfum siðblindra stjórnenda og eigenda bankanna.  Ef einhver starfsmaður Fjármálaeftirlitsins var duglegur við að finna veikleika í málflutningi eða gögnum fjármálafyrirtækjanna, var sá hinn sami umsvifalaust ráðinn til einhvers fjármálafyrirtækis.

Bankarnir féllu en úr rústum þeirra risu nýir bankar sem telja sig ekki bera neina ábyrgð.  Nei, þeir fengu kröfurnar sem byggðar voru á blekkingum og markaðsmisnotkun og telja sig geta innheimt þær að fullu.  Er ekki eitthvað rangt við þetta?  Hafi upphaflega krafan verið byggð á blekkingum, þá hlýtur krafan að vera ógild.

Sparisjóður Keflavíkur gaf út nýtt stofnfé og lánaði stofnfjáreigendum gengisbundin lán.  Stofnfjáraukningin var byggð á eignarhlut sjóðsins í Kistu ehf., en félagið hélt utan um eignarhluta sparisjóðanna í Exista sem síðan var stærsti hluthafinn í Kaupþingi.  Komið hefur í ljós að virði hlutabréfa í Kaupþingi var haldið uppi með grófum hætti og þróaðist í þveröfuga átt miðað við t.d. skuldatryggingaálag bankans.  Exista tók mjög grófa stöðu gegn krónunni haustið 2007 og því hefðu stjórnendur fyrirtækisins mátt vita að virði hlutabréf Kaupþings var stórlega ofmetið.  Þar með var virði Exista stórlega ofmetið sem leiddi til sams konar ofmats á virði Kistu.  Eignarhlutur sparisjóðanna í Kistu nam því ekki milljarða tugum heldur í besta falli milljörðum ef nokkuð nema nokkur hundruð milljóna.  Ef verðmat Kaupþings hefði verið rétt, þá hefði eigið fé t.d. Sparisjóðs Keflavíkur ekki hlaupið á milljörðum heldur í besta falli 100-200 milljónir.  Þar með hefði stofnfjáraukning sjóðsins ekki orðið 1,9 milljarðar heldur nær lagi að vera 190 milljónir.

Stofnfjáreigendur sem lögðu fé í stofnfjáraukningu Sparisjóðs Keflavíkur og Sparisjóðs Svarfdæla, svo dæmi séu tekin, voru blekktir þar sem fyrir þá voru lögð gögn byggð á fölsuðum upplýsingum.  Þó svo að einhverjir þeirra sem matreiddu gögnin hafi ekki vitað hversu víðtækur blekkingarvefurinn var, þá höfðu þeir öll tök á því að kanna gildi upplýsinganna.  Raunar vil ég halda því fram að starfsmenn bæði Saga Capital og Sparisjóðs Keflavíkur hafi mátt vita að þær stofnfjáraukningar, sem þessi fyrirtæki fjármögnuðu, voru byggðar á sandi.

En þetta voru ekki einu gildrurnar sem almenningur var ginntur í.  Á undanförnum vikum hafa verið nefnd dæmi um skuldabréfasjóði, sem almenningi var talið trú um að eingöngu keyptu "örugg" bréf, en síðan kemur í ljós að undir þessi "öruggu" bréf heyrðu skuldabréf fyrirtækja í verulegum fjárhagsvanda.  Hlutabréfamarkaðurinn var náttúrulega algjör brandari, þar sem verðmat þeirra byggði á því fjármagni sem þurfti til að greiða upp skuldir fyrri eigenda, en ekki hvers virði hlutabréfin voru.  Eftir því sem skuldir eigenda hlutabréfanna jukust, þá hækkað verð hlutabréfanna.  Oftast var það síðan lánveitandinn sem fékk allt kaupverð bréfanna í hendur enda snerist fléttan um að fyrri eigandi hlutabréfanna gerði upp skuldir við lánveitandann.  Fyrir þetta liðu aðrir kaupendur hlutabréfa.  Einnig myndaðist falskur hagnaður hjá öðrum hlutabréfaeigendum, svo sem lífeyrissjóðunum.  Stærsta og markvissasta ginningin var að bjóða fólki og fyrirtækjum gengisbundin lán, stilla upp aðstæðum fyrir fjármálafyrirtækin að geta hagnast óheyrilega með því að fella gengið.  Samhliða þessu voru nytsamir sakleysingjar notaðir á lakari hlið gjaldeyrisskiptasamninga.  Lýst er í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis hvernig stærstu eigendur Kaupþings keyptu mjög mikið af gjaldeyri á markaði frá miðju ári 2007 og fram að áramótum.  Tóku þeir sífellt meira af gjaldeyrinum til sín en viðhéldu þó veltunni á markaðnum.  Á fyrstu mánuðum 2008 þá breyttu þeir um taktík og ryksuguðu upp allan lausan gjaldeyri.  Við það hrundi krónan.

Allt þetta var gert til að færa peninga frá almenningi, fyrirtækjum og fjárfestum sem voru utan hrings innvígðra og innmúraðra til þeirra sem voru innan hringsins.  Bankarnir voru notaðir til að soga til sína allt tiltækt fé og finna því svo farveg með sviksamlegum lánveitingum til þeirra sem voru innan hringsins.  Umfjöllun fjölmiðla á undanförnum vikum, mánuðum og árum sýnir þetta.  Lán veitt til félags A, sem keypti bréf af félagi B, huldufélags í eigu Fons eða FL Group eða annarra innan hringsins.  Bréfin urðu verðlaus (enda voru þau það), lánið afskrifað og peningurinn hvarf inn á leynireikninga einhvers staðar í heiminum, hugsanlega hér á landi.  Með þessum hætti voru fleiri þúsund milljarðar fluttir til með svikum og blekkingum og sannaði þá tilgátu að til að ræna banka er best að eiga hann.

Það grátlega í þessu, er að stjórnvöld hafa á síðustu tveimur árum eða svo ekki séð ástæðu til að taka upp hanskann fyrir þá sem ginntir voru í gildrur gömlu bankanna.  Þegar gömlu bankarnir veittu nýju bönkunum verulegan afslátt af lánasöfnum við flutning til þeirra nýju, þá stigu stjórnvöld ekki fram og kröfðust þess að lántakar fengju sama afslátt af sínum lánum.  Nei, þau hafa stutt nýju bankana í því að innheimta uppblásnar kröfur þrátt fyrir að virði þeirra hjá nýju bönkunum sé ekki nema brot af því sem reynt er að innheimta.  Þegar skuldarar sætta sig ekki við þetta, þá er sett af stað leikrit, þar sem fjármálafyrirtækin fá að ákveða hvað er skammtað í almenning.  Þau eru sögð hafa afskrifað kröfur, en í reynd þá eru stjórnvöld að styðja þau í að innheimta kröfur langt umfram bókfært virði.  Hvernig er hægt að tala um að lán sem er að bókfærðu virði 50 milljónir í nýja bankanum, stóð í 100 milljónum í gamla bankanum, hafi verið afskrifað um 30 milljónir hjá nýja bankanum við það að innheimta það sem 70 m.kr. hjá honum?  Ég fæ ekki betur séð en að lánið hafi hækkað um 20 m.kr. og ekki verið afskrifað um eitt eða neitt.  Þetta er borið á borð fyrir almenning.  Hækkun á láni um 20 m.kr. að bókfærðu virði er sagt vera afskrift.  Svo aftur á móti eru það þeir sem eru innan hringsins.  Fyrirtæki þeirra og félög fá í sumum tilfellum allar skuldir afskrifaðar.  Varla stendur króna eftir eða að búið er til falskt virði á félögin (langt undir raunvirði), lánin afskrifuð að því marki og gömlu eigendurnir fá að halda þeim.  Önnur útfærsla er að hreinsa fyrirtækin af öllum skuldum, selja þau einhverjum leppum (helst í útlöndum) sem skila þeim svo aftur í hendur fyrri eigenda.  Þriðja útfærslan er að láta gömlu eigendurna fá fyrirtækin til baka beint vegna þess að kröfuhafar krefjast þess.  Hvaða kröfuhafar eru svona gjafmildir?  Ætli það séu eigendur fyrirtækjanna sem svo skemmtilega vill til að eru líka kröfuhafar bankanna annað hvort beint eða í gegn um einhverja leppa.

Ég verð að viðurkenna, að ég treysti engum af fyrri eigendum eða stjórnendum gömlu bankanna.  Ég treysti ekki nýju bönkunum til að koma fram af réttsýni og enn síður stjórnvöldum.  Ég veit ekki hvort réttarkerfinu er heldur treystandi, a.m.k. virðist það ekki hingað til hafa þótt það nægilega merkilegt til ákæru að nær öll fjármálafyrirtæki landsins hafi boðið almenningi, fyrirtækjum og félögum upp á ólöglega afurð í mörg ár.  Hvers vegna hefur Fjármálaeftirlitið ekki svipt þessi fyrirtæki starfsleyfi eða þó ekki væri annað en sett ofan í við þau?  Hvers vegna skiptir meira máli fyrir dómstóla, stjórnvöld og Seðlabanka forsendubrestur fjármálafyrirtækja (sem þau bjuggu til með lögbrotum sínum), en forsendubrestur almennings og fyrirtækja og félaga utan hrings hinna innvígðu og innmúruðu?  Eru dómstólar, stjórnvöld og Seðlabankinn kannski innan hringsins?

Hrunadans fjármálakerfisins hefur skilið tugþúsundir fjölskyldna eftir eignalausar.  Annar eins hópur hefur tapað stórum hluta eigna sinna.  Eina sem gagnslaus stjórnvöld segja er:  "Shit happens!"  Þeim er alveg sama þó einstaklingar og fjölskyldur hafi tapað tugum milljóna á svikum, lögbrotum og prettum fjármálafyrirtækja á árunum fyrir hrun.  Þau hafa ekki frumkvæði á að rannsaka lögbrotin sem snúa að almenningi.  Nei, í staðinn er allt gert til að bæta lögbrjótunum skaðann sem þeir urðu fyrir vegna lögbrota sinna.  Vanhæfni stjórnvalda til að hlusta á almenning lýsir sér best í "úrræðunum" sem fjármálafyrirtækin og lífeyrissjóðirnir voru að því virtist neydd til að fallast á í desember, en voru í raun stórsigur fyrir þessa aðila, þar sem þeir fengu að halda öllum eignum almennings.  Það var ekki ein einasta króna gefin eftir sem á annað  borð var innheimtanleg hjá almenningi.  Eina sem gefið var eftir, voru tapaðar kröfur og sokkinn kostnaður.  Vá, en það örlæti.  Ég hef ekki hitt einn einasta mann sem segist hafa fengið eitthvað út úr úrræðum stjórnvalda, fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóða.  Og síðan lögin hans Árna Páls.  Lán hjá mér sem stóð í 2,1 m.kr. hækkar við endurútreikning í 2,3 m.kr.  Hvernig dettur nokkrum manni í hug að fasteignalán eigi að falla undir sömu vexti og lánskjör og bílalán?  Nei, enn og aftur er verið að hafa almenning að ginningarfíflum.

Ég hef líkt þessu öllu við að stjórnvöld og fjármálafyrirtækin hafi ákveðið að slátra gullgæsinni.  Það vill nefnilega svo til, að heimilin í landinu eru gullgæsir.  Þau eru uppspretta tekna fyrir atvinnulífið og stjórnvöld.  Með því að gera heimilin meira og minna eignalaus, þá hafa þau enga möguleika til fjárfestinga og nýsköpunar.  Velta fyrirtækja hefur dregist mikið saman í magni, þó vissulega haldist hún uppi í krónum talið.  Heilu geirarnir í verslun eru að þurrkast út.  Að vísu eru 3.632 fjölskyldur í landinu svo ríkar að þær kunna ekki aura sinna tal.  En þær eru ekki nógu margar til að halda uppi tímaritaútgáfu, öllum sjónvarpsstöðvunum eða dagblöðum.  Svört vinna grasserar um allt.  Það er búið að færa þjóðfélagið 30 - 40 ár aftur í tímann hvað það varðar.  Svo má ekki gleyma því að aldrei hafa fleiri verið atvinnulausir jafn lengi á hinum síðari árum, ef bara nokkru sinni.  Stjórnvöld berja sér á brjósti með að atvinnuleysið hafi ekki orðið jafn mikið og menn spáðu, en það er hluti af talnaleikfiminni.  Fjöldi á vinnandi fólks er í samræmi við spár um fækkun á vinnumarkaði.  Ástæðan fyrir því að atvinnuleysið mælist ekki meira er að um 8.000 manns á vinnualdir eru fluttir út landi og 4.000 til viðbótar búa hér á landi en eru ekki í atvinnuleit.  Alvarlegast er að á hverjum degi flytja 5 manns úr landi umfram aðflutta.  Þetta eru allt gullgæsir sem leiddar eru til slátrunar.  Gæsir sem hafa verið reittar öllum sínum fjöðrum og munu ekki gefa meira af sér.  Því miður skilja stjórnvöld þetta ekki.  Vangeta þeirra til að hjálpa almenningi er æpandi.


Ekki má vera með afskipti þegar bankarnir gefa eignir frá sér, en um að gera þegar þeir ganga að eignum almennings

Jóhanna Sigurðardóttir getur stundum verið með ólíkindum.  Hún er búin að vera í fararbroddi vinnu sem tryggja á fjármálafyrirtækjum rétt til að eignast allar eignir almennings.  Þá mátti skipta sér af ferlinu og um að gera að hlusta ekki á fulltrúa almennings.  En þegar bankarnir eru að einkavinavæða fyrirtækin sem þeir eru búnir að eignast í upptöku eigna, þá má ekki skipta sér að málunum.  Þegar bankarnir þverbrjóta sínar eigin verklagsreglur um gagnsæi, þá má ekki skipta sér að.

Bullið sem viðgengst í þjóðfélaginu hefur gengið út fyrir allan þjófabálk.  Vestia er selt á 15 milljarða til lífeyrissjóðanna og síðan ætla þeir að selja náfrænda framkvæmdastjóra fjárfestingafélags lífeyrissjóðanna bitastæðasta fyrirtækið, Icelandic Group, út úr á 40 milljarða.  Nær hefði verið að Landsbankinn sjálfur hefði selt IG og notað hagnaðinn til að greiða Icesave vexti.

Ég verð að viðurkenna, að þetta er allt farið að lykta af sama bullinu og áður.  Einkavinavæðing, klíkuskapur, blokkamyndun.  Gamla Ísland er risið úr öskustónni, þó leikendur séu að hluta til aðrir.


mbl.is Þingmenn hafi ekki afskipti af bönkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta það sem koma skal? - Enn eitt dæmi um að úrræðin eru ekki að virka

Ákaflega er það þægileg tilviljun, að þessi dómur sé birtur í dag.  Hann ætti að vera olía á eld mótmælenda við Alþingishúsið.

Ég spyr bara:  Er þetta það sem koma skal?  Bankarnir lögðu hagkerfið á hliðina.  Bankarnir tóku stöðu gegn viðskiptavinum sínum, en bera enga ábyrgð á því.  Viðskiptavinirnir eru rúnir inn að skinni og þegar það dugar ekki eru þeir keyrðir í þrot af afsprengjum hinna sömu banka og keyrðu allt í kaf.  Hún er skemmtileg hin samfélagslega ábyrgð sem bankakerfið er að taka hér á landi.  Þeir fengu lánasöfn gömlu bankanna með gríðarlegum afföllum, afskriftum sem voru á kostnað kröfuhafa gömlu bankanna.  Með einhverjum töfrabrögðum, þá hækka þeir kröfuna langt upp fyrir bókfært virði og krefjast þess að viðskiptavinirnir borgi þeim himinhátt álag.  En þetta er leyfilegt vegna þess að fjármálakerfið má gera hvað sem er.  Það heitir nefnilega viðskipti að kaupa kröfur á viðskiptivini fyrir slikk og leggja drjúgt ofan á áður en byrjað er að rukka.  Í mínum bókum heitir þetta okur og fjárkúgun.  Kaupi banki kröfu með 50% afslætti, þá er það glæpsamlegt okur að krefja skuldarann um 100%.  Forstjóri Ávöxtunar var dæmdur í fangelsi fyrir 20 árum eða svo fyrir að krefjast 8% vaxta eða var það 13%!

Í þeim úrræðum sem standa almenningi og fyrirtækjum til boða, þá taka fjármálafyrirtækin enga áhættu.  Úrræðin ganga út á að innheimta eins mikið af viðskiptavininum og hægt er.  Ekkert er tekið tillit til þess að kröfurnar á viðskiptavinina hækkuðu upp úr öllu valdi vegna lögbrota stjórnenda og eigenda gömlu bankanna.  Ekkert er tekið tillit til þess að gömlu bankarnir voru neyddir til að selja nýju afsprengjum sínum kröfurnar með verulegum afslætti.  Nei, það skiptir ekki máli, þar sem þetta eru fjármálafyrirtæki og um þau gilda hvorki landslög né siðferðisgildi.  Og sé einhver vafi um að fjármálafyrirtækin geti framkvæmt það sem þeim dettur í hug, þá koma stjórnvöld, Seðlabanki og Fjármálaeftirlit hlaupandi þeim til bjargar.  Hæstiréttur dæmdi almenningi í hag 16. júní sl.  Þáverandi efnahags- og viðskiptaráðherra lýsti því strax yfir að við svo mætti ekki búa.  SÍ og FME hlýddu strax og sett var upp leikrit fyrir Hæstarétt.  Höfum í huga, að allt sem gert hefur verið frá því 16. júní er í samræmi við frumvarp þáverandi félagsmálaráðherra sem lagt var fram á þingi í júní áður en dómurinn féll.  Frumvarp sem samið var af fjármálafyrirtækjunum að beiðni ráðherra.  Frumvarp sem ætlað var að traðka á rétti neytenda og tryggja hagsmuni lögbrjóta.

Á hverju einasta degi síðasta árs flutti 5 manna íslensk fjölskylda úr landi umfram aðflutta.  Auk þess fóru úr landi um 8.000 erlendir ríkisborgarar sem hér höfðu verið við störf.  Ég skil vel að fólk sé að forða sér.  Það eina sem býður fólks er eignaupptaka.  Þegar Ingi Freyr Vilhjálmsson, fréttastjóri DV, er farinn að taka undir málflutning Hagsmunasamtaka heimilanna, þá er farið að fjúka í flest skjól.  Þó það muni líklegast aldrei gerast að ég bjóði honum heim til mín, þá verð ég að hrósa leiðara hans í DV í síðustu viku, Stöðutaka gegn almenningi.  Þessi leiðari er til vitnis um að sífellt fleiri eru farnir að sjá ljósið.  Sífellt fleiri eru farnir að sjá óréttlætið sem viðgengst í samfélaginu.


mbl.is Greiðsluaðlögun felld úr gildi vegna vanskila
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband