Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2010

Vont er þeirra ranglæti - verra þeirra réttlæti

Mig langar að birta hér yfirlýsingu sem stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna sendir frá sér áðan:

Yfirlýsing frá Hagsmunasamtökum heimilanna vegna dóms héraðsdóms um vexti gengistryggðs bílaláns

Reykjavík 25. júlí 2010

 

Hagsmunasamtök heimilanna furða sig á þeirri niðurstöðu héraðsdóms sl. föstudag, að bæta skuli lögbrjóti upp forsendubrest sem varð til vegna lögbrota hans.  Dómarinn fríar lögbrjótinn frá því að taka ábyrgð á lögbroti sínu og í reynd verðlaunar hann, ef dómurinn verður fordæmisgefandi fyrir gengistryggð húsnæðislán.  Samtökin telja einnig að dómurinn gangi gegn c-lið 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, en í 2. mgr. segir:

Samningur telst ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag. Ef slíkum skilmála er vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skal samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans.


Telja samtökin einsýnt að það stríði gegn góðum viðskiptaháttum að vera með ólögleg ákvæði í lánasamningi.  Einnig telja samtökin ekkert því til fyrirstöðu að efna samninginn án gengistryggingarákvæðisins.

Eins og áður segir, furða samtökin sig á því að það sé talinn forsendubrestur fyrir lánveitandann, að hann hafi brotið lög.  Á lögreglan næst að fylgja ökumanni, sem var tekinn fyrir of hraðan akstur, á forgangsljósum á ákvörðunarstað vegna þess að forsendur ökumannsins til að komast á ákvörðunarstað var að þurfa að aka vel yfir hraðamörkum?  Það var niðurstaða héraðsdómara sl. föstudag.  Lántaki, sem er brotaþoli, skal bæta hinum brotlega að fullu upp hinn ólöglega ávinning af lögbrotinu.  Og ekki bara það.  Samkvæmt útreikningum eins stjórnarmanns Hagsmunasamtaka heimilanna, þá skal lántakinn greiða lögbrjótnum allt að 54% aukalega ofan á það sem er þegar gjaldfallið miðað við upphaflega lánasamninginn með gengistryggingu!  Já, einstaklingur sem tók lán til 20 ára um mitt ár 2006, til helminga í japönskum jenum og svissneskum frönkum, þarf að greiða samkvæmt niðurstöðu héraðsdóms 54% ofan á þær greiðslur sem þegar eru gjaldfallnar, þó viðkomandi sé í fullum skilum.  Er þetta vægast sagt frumleg túlkun á neytendaverndartilskipun ESB sem innleidd var í 36. gr. laga nr. 7/1936.  Það getur vel verið að einhvern tímann síðar á lánstímanum gætu hugsanlega skapast þær aðstæður, að lántaki greiði í það heila lægri upphæð, en samkvæmt upphaflegum skilmálum, en það eru fuglar í skógi, ekki í hendi.

Vont er þeirra ranglæti - verra þeirra réttlæti

Hagsmunasamtök heimilanna sjá ekki að sanngirni hafi verið höfð að leiðarljósi með dómsniðurstöðunni, eins og haldið er fram í dómsorðum.  Samkvæmt útreikningum stjórnarmanns á 20. m.kr. láni, eins og lýst er að ofan, þá ætti viðkomandi lántaki að vera búinn að greiða um kr. 9,6 m. á þessum fjórum árum, samkvæmt dómi héraðsdóms á greiðslan að nema um 14,8 m.kr., en samkvæmt upphaflegri greiðsluáætlun um 6,5 m.kr.  Forsendubrestur lántakans er því að fara úr 3,1 m.kr. í 8,3 m.kr., hækkun um 127%.  Ef það telst sanngjarnt að forsendubrestur lántakans hækki um 127% vegna þess að lánveitandinn var staðinn að lögbroti, þá vilja samtökin ekki verða fyrir ósanngirni héraðsdóms.

Rök dómarans eru að hafi gengistryggt lán ekki staðið til boða, þá hefði lántaki tekið annað af þeim tveimur lánaformum sem stóðu til boða.  Dómarinn minnist hinsvegar ekki á að til er þriðji möguleikinn, einnig sá fjórði og síðan sá fimmti.  Þriðji möguleikinn er að snúa sér til annars lánveitanda, fjórði að fjármagna kaupin með öðrum hætti.  Fimmti möguleikinn og sá líklegasti er að lántaki hefði hætt við viðskiptin.

Samtökin telja að engin forsenda sé fyrir því að skoða hvernig þeir lánasamningar, sem í hlut eiga, þróast næstu árin.  Sagan kennir okkur að telji fjármálafyrirtæki að halli á sig, þá munu stjórnvöld, opinberar stofnanir og nú síðast dómstólar sjá til þess að það verði leiðrétt og helst með góðu álagi.  Lántakar verða skyldir eftir með allar byrðarnar, þrátt fyrir að hafa liðið forsendubrest vegna lána sinna.  Forsendubrest, sem samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, kom til vegna umfangsmikilla lögbrota, markaðsmisnotkun og fjárglæfra stjórnenda og eigenda fjölmargra fjármálafyrirtækja.  Á Íslandi eru sumir jafnari en aðrir, svo vitnað sé í Dýrabæ eftir George Orwell.

Hagsmunasamtök heimilanna sjá fyrir sér, verði dómur héraðsdóms fordæmisgefandi fyrir áður gengistryggð húsnæðislán, að gjaldþrotum muni fjölga mikið. Mun það leiða til mikils óstöðugleika bæði í fjármálakerfinu og hagkerfinu í heild.  Nú þegar ná yfir 40% heimila ekki endum saman við hver mánaðarmót.  Fjölmörg heimili munu bætast í þennan hóp þurfi þau nú að greiða fjármálafyrirtækjum allt að 54% til viðbótar á þegar gjaldfallna gjalddaga, þó viðkomandi sé í fullum skilum.  Af þeim sem þegar ná ekki endum saman, þá er búið að gera út um vonir stórs hóps þeirra, að hagur þeirra muni batna.  11% heimila eru samkvæmt tölum Seðlabanka Íslands með gengistryggð húsnæðislán.  Gildi dómur héraðsdóms einnig um þessi lán, þá var verið að senda þessi heimili úr öskunni í eldinn.  

Þá vilja samtökin benda á, að við flutning lánasafna heimilanna frá gjaldþrota fjármálakerfinu til hins ríkisverndaða, þá fékk hið ríkisverndaða um 480 milljarða kr. afslátt af lánum heimilanna, ef marka má októberskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.  Íslandsbanki fékk að eigin sögn 47% afslátt af öllum lánum sínum, NBI (sem kallar sig Landsbankinn) fékk að eigin sögn 34% afslátt af nafnvirði lánanna og Arion banki fékk að eigin sögn 24% afslátt.  Hagsmunsamtök heimilanna krefjast þess að nákvæmar tölur verið birtar yfir þessa afslætti, þar sem þessar tölur stemma ekki við upplýsingar sem Seðlabankinn birtir, þannig að almenningur í landinu viti þó hverju er verið að stela frá þeim.  Samtökin krefjast þess að útreikningar Fjármálaeftirlits og Seðlabanka Íslands á áhrifum dóms héraðsdóms verði þegar birtir opinberlega með öllum undirliggjandi gögnum.  Samtökin krefjast þess að óháðir aðilar verið fengnir til að yfirfara og endurmeta þessa útreikninga, þar sem samtökin treysta ekki þessum stofnunum fyrir því að fara með rétt mál.

Hagsmunasamtök heimilanna eru, eins og margir aðrir, orðin þreytt á feluleiknum varðandi raunverulega fjárhagsstöðu hins ríkisverndaða fjármálakerfis.  Hverju var klúðrað svo herfilega, að það þolir ekki dagsljósið?  Eða hvaða leynisamningar voru gerðir um uppgjör við lánadrottna? Samtökin furða sig líka á því, að stjórnvöldum sé meira annt um afkomu örfárra fjármálafyrirtækja, sem flest eru byggð á rústum fyrirtækja sem settu hagkerfið á hliðina, en afkomu heimilanna og fyrirtækjanna í landinu sem eru fórnarlömb stærstu glæpa Íslandssögunnar.  Hvers vegna vilja stjórnvöld sífellt verðlauna þá sem rústuðu hagkerfinu, en refsa viðskiptavinum þeirra sem unnu sér það eitt til sektar að treysta viðskiptabankanum sínum.

Stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna
heimilin@heimilin.is
www.heimilin.is

 


Dómurinn bætir allt að 54% ofan á það sem þegar hefur verið greitt

Sú ákvörðun dómara að bæta lögbrjótum um "forsendubrest" sem hlaust af því að lögbrot þeirra komst upp fjórfaldar ekki bara vextina.  Nei, hann gerir gott betur.  Sá lántaki sem tók 20 ára lán um mitt ár 2006 til jafns í JPY og CHF og hefur staðið í skilum allan tímann, þarf að greiða lánveitanda sínum 54% til viðbótar við það sem hann greiddi samkvæmt gengistryggingarákvæðinu.  Þetta er veruleikinn, eins ískaldur og hann gerist.  Útreikninga á þessu er að finna í færslunni Dómur héraðsdóms mun fjölga gjaldþrotum einstaklinga og auka óstöðugleika í hagkerfinu. Það getur vel verið að á lánstímanum jafnist þetta út, en við höfum nú séð hvað Seðlabankanum hefur farist vel úr hendi efnahagsstjórnin hingað til og því er það ekki fugl í hendi.  Nei, það sem er í hendi er að skilvís greiðandi þarf að bæta allt að 54% við skilvísar greiðslur sínar.  Ætli að hann þurfi að greiða dráttarvexti líka?
mbl.is Dómurinn fjórfaldar vextina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dómur héraðsdóms mun fjölga gjaldþrotum einstaklinga og auka á óstöðugleika í hagkerfinu

Ég hef verið að skoða hver áhrif dóms héraðsdóms er á ímyndað lán fyrstu 4 ár lánstímans miðað við að lánið hafi verið tekið í júlí 2006.  Niðurstaðan kemur mér verulega á óvart.  Lánið sem ég skoða er 20 m.kr. myntkarfa jen og svissneskir frankar.  Lántaki er búinn að vera í skilum allan lánstímann og mun vera það áfram.  Ég reikna með að krónan hafi styrkst um 20% frá lántökudegi fram á mitt ár 2007, hafi verið um 15% veikari frá miðju ári 2007 fram á mitt ár 2008 miðað við lántökudag, 120% næsta árið þar á eftir og 80% frá miðju ári í fyrra fram á mitt á í ár.  Hafa skal í huga að gengið var veikt í júlí 2006, gvt = 133, JPY = 0,66 og CHF= 61,8.  Notað er meðaltal vaxta Seðlabankans á hverju tímabili, sem var 15,85% fyrsta tímabilið, 16,94% annað, 17,40% það þriðja og 9,1% síðasta árið.  LIBOR vextir á þessum tíma með vaxtaálagi er reiknaðir 3,5%, sem er heldur yfir meðaltali tímabilsins.  (Tekið skal fram að sé lánið tekið ári fyrr eða síðar, þá fæst aðeins önnur mynd 

Niðurstaðan af þessu er að sá sem greiddi af gengistryggðu láni er búinn að greiða 9,6 m.kr. meðan að hann hefði átt að greiða 14,8 m.kr. ef lánið hefði borið vexti Seðlabankans allan tímann.  Munurinn er 5,2 m.kr. eða 54% af 9,6 m.kr.  Hvernig getur það staðist neytendarétt, að lántaki eigi að greiða 54% meira en hefur gert vegna þess að dómarinn metur að lánveitandi hafi liðið forsendubrest?  Það getur vel verið að yfir lánstímann þá geti þetta hugsanlega jafnast út.  Málið er að það er ekki vitað.  Dómarinn getur ekki leyft sér að geta til um framtíðina.  Hann getur eingöngu notað raunverulegar tölur.

Hér eru útreikningarnir sýndir:

Dómur héraðsdóms

 

Höfuðstól til vaxtaútreiknings

Seðlabanka-vextir

Greiðsla

19,5

15,85%

4,1

18,5

16,94%

4,1

17,5

17,40%

4,0

16,5

9,10%

2,5

Samtala

fyrstu 4 árin

14,8

15,5

8,00%

2,2

14,5

7,50%

2,1

13,5

7,00%

1,9

12,5

6,50%

1,8

11,5

6,00%

1,7

10,5

6,00%

1,6

9,5

6,00%

1,6

  

27,7

 

Gengistryggt lán

   

Gengisbreyting

Höfuðstól til vaxtaútreiknings

LIBOR vextir

 Greiðsla

-0,2

15,6

3,50%

1,3

0,15

21,3

3,50%

1,9

1,2

38,5

3,50%

3,5

0,8

29,7

3,50%

2,8

Samtala

fyrstu 4 árin

 

9,6

0,74

26,9

3,50%

2,7

0,68

24,3

3,50%

2,5

0,62

21,9

3,50%

2,4

0,57

19,7

3,80%

2,3

0,53

17,6

3,80%

2,2

0,49

15,6

3,80%

2,1

0,45

13,7

3,80%

2,0

   

25,8

(Gert er ráð fyrir 8% styrkingu krónunnar á ári næstu 6 árin.  Ef hún er 5%, þá er samtalan 26,3 m.kr.)

Berum þetta síðan við greiðsluáætlun.  Hún hljómar upp á enga breytingu á gengi og niðurstaða hennar fyrir fyrstu 4 árin er 6,5 m.kr. eða 8,3 m.kr. (127%) frá niðurstöðu héraðsdóms og 3,1 m.kr. (47%) frá því sem viðkomandi greiddi miðað við gengistryggingu.

Það vill svo til að margir lántakar eru með lán sem eru svipuð þessu dæmi sem ég tek.  Upphæðir og dagsetningar ekki þær sömu.  Ég verð að viðurkenna, að 54% hækkun á greiðslu ofan á það sem lántakinn á að vera búinn að greiða og 127% ofan á greiðsluáætlun (það sem lántakinn miðaði við að greiða) er nokkuð sem fáir ráða við.  Ef lántakinn verður krafinn um þessa upphæð, þá á hann ekki margra kosta völ.  Einn er að lýsa sig gjaldþrota.  Það getur vel verið að eftir 10 ár, þá verði lántakinn kominn í plús, en það er honum líklegast lítil huggun harmi gegn.  Nei, héraðsdómur ákvað í gær (miðað við að dómurinn sé fordæmisgefandi fyrir svona lán sem ég tek dæmi um), að lántakinn eigi eftir að greiða 54% ofan á það sem hann hefur þegar greitt.  Ég verð að viðurkenna, að þetta gengur ekki upp í mínum huga.

Það er kannski ekki sanngjarnt í augum sumra að lántaki eigi inni hjá lánveitandanum mismuninn á því sem hann hefur greitt og upphæð greiðsluáætlunarinnar, en það margfalt sanngjarnara, en að lántaki eigi að greiða 54% til viðbótar við það sem þegar hefur verið greitt.

Hvernig sem á það er litið, þá er það arfavitlaus krafa að ætlast til þess að húseigandi greiði allt að 21% vexti af húsnæðisláni til 20 ára.  (Það er jafnvitlaus krafa að hann greiði 18,6% verðbætur ofan á lán.)  Að dómurinn hafi komist að þeirri niðurstöðu, að með þessu væri verið að bæta lánveitanda forsendubrest, er síðan gjörsamlega óskiljanlegt.  Hvernig er hægt að bæta einhverju forsendubrest með því að láta hann fá 267%% hærri greiðslu en nemur forsendubrestinum?  (267% = (14,8-6,5)/(9,6-6,5) = 8,3/3,1)  Ég skil ekki slíkan rökstuðning. 

Og hvað með forsendubrest lántakans.  Þegar hann tók lánið reiknaði hann með að greiða (miðað við sýnidæmið mitt) 6,5 m.kr. plús í mesta lagi 1 m.kr. (það er 15% hækkun höfuðstóls).  Allt umfram það, þ.e. 2,1 m.kr., er forsendubrestur. Gangi dómur héraðsdóms eftir, þá bætast 5,2 m.kr. ofan á þennan forsendubrest og hann verður samtals 7,3 m.kr. eða nærri jafn há tala og lántaki reiknaði með að verða krafinn um í versta falli.  Dómarinn blæs ekki bara á forsendubrest lántakans heldur ákveður að margfalda hann.  Því fæ ég ekki séð að þetta standist 36. gr. laga nr. 7/1936.


Gengur þvert á fyrri dóma - Hagsmunir neytenda fyrir borð bornir

Eftir að hafa skoðað dóma héraðsdóms, þá er ekki hægt annað en að verða fyrir vonbrigðum.  Er það virkilega niðurstaða dómara, að lántaki hafi ætlað að gangast undir allt að 21% vexti á ári af 5 m.kr. láni?  Það gerir rúmlega 1 m.kr. í vexti.  Ég segi bara:  Guð hjálpi þeim sem eru með húsnæðislán, ef réttlæti Arnfríðar Einarsdóttur mun ganga yfir húsnæðislántaka.

Óhætt er að segja að stjórnvöld, Seðlabanki og Fjármálaeftirlit hafi fengið það sem þau óskuðu eftir.  Lántakar eiga að bjarga fjármálafyrirtækjunum frá sínu klúðri.  Er það sorgleg niðurstaða, svo ekki sé meira sagt.  Lántakar eiga að taka á sig alla áhættu í viðskiptum, en fjármálafyrirtækin mega pissa í alla skóna sína og bíða engan skaða af.

Dómaranum er tíðrætt um hvað fjármálafyrirtækið hafi boðið upp á, en nefnir ekki einu orði kostina sem lántaki stóð frammi fyrir.  Ég veit ekki um marga sem hefðu tekið óverðtryggt lán nóvember 2007 með 16,65% vöxtum.  Það sér það hver heilvita maður að slíkt lán hefði ekki verið tekið.  Af hverju horfir dómarinn framhjá þessum möguleika.  16,65% af 5 m.kr. er 832.500 kr.  Segjum að lánið sé til fimm ára, þá væri vaxtabyrði af slíku láni 749 þ.kr. fyrsta árið, 583 þ.kr. annað árið, 416 þ.kr. þriðja árið, 250 þ.kr. fjórða árið og 83 þ.kr. síðasta árið, alls tæplega 2,1 m.kr.  Ég er ekki viss um að bílasala hefði verið mikil með slíka vexti.

Lántakar stóðu nefnilega frammi fyrir þeim kosti að taka ekki lán.  Er ég nokkuð viss um að margir hefðu valið þann kost umfram það að taka lán með 16,65% vöxtum.  Það er bara út í hött og það er furðulegur rökstuðningur hjá dómaranum að líta framhjá þessum möguleika.

Stærstu vonbrigðin með þennan dóm, er að dómarinn lítur ekki til þeirra fordæma sem áður hafa verið sett.  Áslaug Björgvinsdóttir, þá settur héraðsdómari, og Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, komust bæði að því að samningar skyldu standa að öðru leiti en sem nam gengistryggingarákvæðinu.  Hæstiréttur fellir burt gengistryggingarákvæðið en gerir ekki athugasemdir við aðra liði samninganna.  Arnfríður tekur upp hanskann fyrir lánveitandann og segir að forsendur hans fyrir lánasamningnum hafi brostið.  Er þetta ekki dæmigert?  Hún réttir hlut lánveitandans og býr til nýja forsendubrest.  Lántaki reiknaði hvorki með að borga allt að 20,9% vexti af láninu sínu né að krónan félli til botns eins og steinn.  Hvers vegna á lántakinn að sitja uppi með forsendubrest en ekki fjármálafyrirtækið?

Vissulega voru dómaranum ekki margar leiðir færar fyrst hún hafði á annað borð ákveðið að fallast á rök Lýsingar fyrir forsendubresti.  Það hefði þó verið áhugavert að sjá til hvaða lagabókstafs hún sækir þá heimild.  Í hvaða lögum segir að lántaki megi ekki hagnast á því að lánveitandinn hafi brotið lög?  Það væri fróðlegt að vita um þau lög og þá lagagrein.  Það er nefnilega þannig að sá hluti málflutnings stefnda, sem birtur er í dómsorðum er allur morandi í lagatilvísunum, en í málflutningi stefnanda er eingöngu vísað í 4. og 10. gr. laga nr. 38/2001, en svo merkilegt sem það er, þá á hvorug greinin við þann samning sem dæmt var um.

Þó dómur héraðsdóms virðist vera vandaður og góður við fyrstu sýn, þá stenst hann illa skoðun.  Dómarinn slær um sig með neytendavernd eftir að hún er búin að svipta lántakann helstu neytendaverndinni og eftir standa fimm slæmir kostir.  Hvaða neytendavernd fellst í því að bæta lánveitanda forsendubrest sem hann sjálfur ber ábyrgð á?  Það var lánveitandi sem braut lögin með því að bjóða ólögleg kjör.   Þetta má hugsanlega skrifa á lögmann stefnda, sem bauð ekki upp á nægilega margar varakröfur.  Herfræði lögmanns Lýsingar gekk upp, en hún fólst í því að koma með nokkrar öfgakenndar varakröfur, þannig að sú sem varð ofan á virtist hófsöm, þó í reynd sé hún óaðgengileg fyrir lántaka.

Niðurstaða héraðsdóms er nákvæmlega það sem ég bjóst við, þó ég hafi vonast til annars.  Líkt og í bílalánamálinu sem tapaðist í desember, þá gæti ég sætt mig við niðurstöðuna, ef rökstuðningurinn væri traustur og byggður á lögum.  Hvorugt átti við þá og hvorugt á við núna.  Þess vegna mun ég bíða rólegur eftir niðurstöðu Hæstaréttar, þó ég ætli ekki að gefa mér hver hún verður.  Fyrir Hæstarétti gefst lögmanni stefnda kost á að koma með fleiri varakröfur og skora ég á hann að undirbúa þær af kostgæfni.


mbl.is Miðað við að verðtryggja átti lánið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eiríkur Guðnason biðst afsökunar

Eiríkur Guðnason, fyrrverandi seðlabankastjóri, hefur sent frá sér eftirfarandi afsökunarbeiðni vegna ummæla sinna um að lántakar sem tóku gengistryggð lán hafi verið samsekir:

Ég sé eftir því að hafa notað stórt orð í viðtali við blaðamann Pressunnar þegar ég benti á að báðir aðilar að lánasamningi gengisbundinna lána hafi brotið lög. Vil ég biðjast afsökunar á því. Nú þegar fram er komið að gengisbinding vissra lána stenst ekki lög er ljóst að það voru mistök að gera slíka samninga. Þó ég hafi bent á að báðir aðilar að slíkum samningi hafi gert mistökin skal hitt fúslega viðurkennt að staða lánþega við samningsgerðina er gerólík stöðu lánafyrirtækisins. Flestir lánþegar treysta því að sjálfsögðu að samningur sem lánafyrirtæki hefur útbúið standist lög og reglur.

21. júlí 2010
Eiríkur Guðnason

Er það gott að Eiríkur hafi séð sig um hönd og virði ég það við hann.  Orð hans í Pressuviðtalinu voru utan allra skynsemis- og velsæmismarka.  Er hann maður með meiru að viðurkenna mistök sín og biðjast afsökunar.   Mættu fleiri hér á landi taka hann sér til fyrirmyndar og bregðast hratt og vel við,  þegar þeir hafa orðið uppvísir af mistökum, klúðri, bulli, að ég tali nú ekki um, svindli og svínaríi, eins og riðið hefur húsum í þessu þjóðfélagi síðustu 4 - 6 ár eða svo.


Fyrrverandi seðlabankastjóri sendir fólki fingurinn og viðurkennir samsekt

23.7.2010 kl. 09:15:  Ég ritaði þessa færslu í gær eftir að hafa lesið viðtal við Eirík Guðnason sem birtist í Pressunni. Nú hefur hann sent frá sér afsökunarbeiðni, þar sem hann segist sjá eftir orðum sínum um að lántakar hafi brotið lög.  Virði ég það við hann og þakka honum fyrir að sjá sig um hönd.  Færsluna mun ég samt láta standa að öðru leiti óbreytta, þar sem hún er samtímaskráning viðbragða.

----

Eiríkur Guðnason, fyrrverandi seðlabankastjóri, bítur höfuðið af skömminni og segir í viðtali við Pressuna lántaka hafa átt að þekkja lögin.  Okkur hefur verið sagt að Eiríkur væri vammlaus maður, en þessi ummæli hans benda til annars:

Ég vil benda á að báðir aðilar brjóta lögin, lántakandinn er aðili að samningnum og á að hafa kynnt sér lögin nægilega vel.

Hvers konar bull er þetta? Á ólöglærður lántaki að hafa alla lagabókstafi á hreinu er varða lánasamninga?  Ef lögfræðingar Seðlabanka Íslands, Fjármálaeftirlits, hjá Sérstökum saksóknara, viðskiptaráðuneyti og Neytendastofu sáu ekkert athugunarvert við lánin og leyfði þau átölulaust, á það ekki að vera nóg fyrir almennan lántaka?  Er það hlutverk almenns lántaka að kanna lögmæti lána sem boðið er upp á fyrir opnum tjöldum?

Ekki skánar það með því sem fylgdi:

Seðlabankinn mælti ekki með að menn tækju gjaldeyrislán nema þeir væru með tekjur í erlendri mynt.

Er Eiríkur Guðnason að gefa það í skyn að Seðlabankinn hafi mælt með því að einhverjir tækju svona lán?  Hvatti Seðlabankinn fólk og fyrirtæki til þess að taka lán, sem seðlabankastjórinn, Eiríkur Guðnason, vissi að væru ólögleg. Hann var sjálfur í nefndinni sem samdi lögin, var seðlabankastjóri með fjármálafyrirtækin brutu lögin hægri, vinstri og grjót hélt kjafti allan tímann um lögbrotin.  Mér sýnist hann viðurkenna samsekt sína í málinu.  Kannski að hann sé að biðja um að vera sóttur til sakar fyrir að hafa leyft fjármálafyrirtækjum að viðhafa ólöglega gjörninga á hans vakt án þess að gera athugasemd við það?

Ég held að það sé Eiríki Guðnasyni ekki til framdráttar að koma með svona skæting við almenna lántaka.  Nóg er tap þjóðarinnar vegna starfa hans og félaga hans í bankastjórn Seðlabanka Íslands, þó hann fari nú ekki að ætlast til þess að ólöglærðir lántakar fari að efast um lögmæti lánasamninga sem bankarnir buðu og höfðu að því virðist hafa fengið samþykki allra helstu eftirlitsaðila.  Almenningur treysti á að hér væri minni spilling, svindl og svínarí en reyndist vera.  Almenningur vissi ekki að t.d. seðlabankastjórinn, Eiríkur Guðnason, vissi að lánin voru ólögleg, en ákvað að þegja um það.  Almenningur vissi ekki að Glitnir, Landsbanki Íslands og Kaupþing væru með, að því virðist, samsæri gegn viðskiptavinum sínum, en það átti seðlabankastjórinn, Eiríkur Guðnason, að vita.  Það var hans starf að vita það!

Það var svo sem ólöglærður lántaki í hagsmunagæslu fyrir almenning, sem benti að lokum á það sem Eiríkur Guðnason hefði átt að benda á fyrir löngu, en kaus að þegja yfir.  Já, það var einstaklingur með BS gráðu í tölvunarfræði og MS gráðu í aðgerðarannsóknum, sem fletti ofan af svindlinu, sem Eiríkur Guðnason átti að stöðva í fæðingu, ef hann hefði verið maður til þess.  Nei, í staðinn, þá vogar hann sér að segja lántaka samseka.  Ef þetta var sú rökhyggja sem Eiríkur Guðnason notaði við stjórnun Seðlabanka Íslands, þá skil ég vel að svo fór sem fór.


Hugsanlega innan við 5% verðbólga í júlí og 2,5% í árslok

Ég gleymdi alveg í gær að bæta verðbólguspá inn í færsluna Ánægjulegt að kaupmáttur launa aukist, en afborganir lána hækka meira. - Verðhjöðnun í júlí.  Vil ég því bæta út því núna.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar, þá jókst kaupmáttur launa um 2,6% meðan launavísitalan hækkaði um 2,2%.  Kaupmáttur launa ræðst af launavísitölu og vísitölu neysluverðs og hlýtur því breyting á vísitölu neysluverðs að bera ábyrgð á muninum á 2,6% og 2,2%.  Spurningin er bara hvernig það er reiknað.  Miðað við að vísitala neysluverð lækki að minnsta kosti um þennan mun, þ.e. 0,4%, þá mun hún verða um 5,1% á ársgrunni.  Allt umfram 0,49% lækkun mun þýða að verðbólga fer niður fyrir 5% á ársgrunni og lækkun upp á 1% þýðir að verðbólga mælist innan við 4,5%.

Hvað næstu mánuði varðar, þá er hefðbundið að verðbólga í ágúst sé lægri en í júlí, þar sem útsölurnar spila inn í þá mælingu.  Gangi það eftir, þá má búast við verðbólgu undir 4% í ágúst.  Svo er venja að það komi bakslag í seglin í september með "verðbólguskoti".  Í þetta sinn verður það líklegast hógvært upp á kannski 0,5 - 1%, sem kippir verðbólgunni aftur upp fyrir 4%.

Það sem veldur samt mestu um þróun verðbólgunnar er samanburður við sömu mánuði í fyrra.  Vísitala neysluverðs hækkað t.d. milli júní og júlí í fyrra um 0,17%.  Til þess að verðbólgan lækki, þarf breytingin milli mánaða núna því að vera lægri eða neikvæð.  Út árið var breytingin sem hér segir:

júlí - ágúst 0,52%

ágúst - september 0,78%

september - október 1,14%

október - nóvember 0.74%

nóvember - desember 0,48%

Sé gert ráð fyrir 0,25% hækkun að jafnaði milli mánaða, þá mun ársverðbólgan enda í  2,5% í árslok (miðað við 1% hækkun í september).


mbl.is MP spáir minni verðbólgu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ánægjulegt að kaupmáttur launa aukist, en afborganir lána hækka meira. - Verðhjöðnun í júlí

Gott er að sjá að Hagstofan hafi fundið það út að kaupmáttur sé að aukast.  Ég verð að viðurkenna, að ég finn lítið fyrir því.  Einnig reikna ég með að lífeyrisþegar landsins fari alveg á mis við þessa kaupmáttaraukningu, enda hafa stjórnvöld lítið gert annað undanfarið eitt og hálft ár, en að skerða kjör þeirra.  Það er kannski ekki mælt í kaupmáttarvísitölunni.  Gunnar Axel Axelsson, starfsmaður Hagstofunnar, getur kannski frætt lífeyrisþega um það.

Annað sem er rétt að fólk hafi í huga, sem er með greiðslujöfnuð lán, að 2,2% hækkun launavísitölu milli mánaða og minnkun atvinnuleysis hefur í för með sér hækkun á afborgunum lána sem fylgja greiðslujöfnunarvísitölu.  Samkvæmt upplýsingum á vef Hagstofnunar þá hefur greiðslujöfnunarvísitalan hækkað frá 97,6 stigum fyrir júlí í 100,6 stig fyrir ágúst eða um 3,1% á milli mánaða.  Það er ígildi um 40% hækkunar á ári.  Á síðustu 12 mánuðum þá nemur hækkunin 6,7%.  Skýtur það skökku við, að þrátt fyrir að sífellt færri heimili nái endum saman við hver mánaðarmót, þá eru lántaka þegar byrjaðir að borga til baka "kreppuhala" greiðslujafnaðra lána.  Ég verð að viðurkenna, að það er a.m.k. tveimur árum fyrr en ég reiknaði með í útreikningum mínum í fyrra haust.

Rétt er að benda á, að greiðslujöfnunarvísitalan er þegar orðin hærri en hún var í nóvember 2008, sem er viðmiðunarmánuður fyrir grunngildi vísitölunnar.  Vissulega ber að fagna þessu, þar sem það þýðir að samkvæmt opinberum mælingum þá er það versta yfirstaðið.  Það er sem sagt búið að reikna okkur út úr kreppunni.  Ég er aftur ekki viss um að það sé rétt.  Að nota launavísitölu sem mælikvarða fyrir greiðslujöfnunarvísitöluna er náttúrulega arfavitlaus aðferð.  Laun mæla nefnilega ekki greiðslugetu, þar sem hækkun skatta vegur á móti.  Hagsmunasamtök heimilanna bentu á, að betra hefði verið að nota kaupmátt sem mælingu.  Í þessu tilfelli hefði það ekki skipt öllu máli.

Við getum huggað okkur við, að vísitala neysluverðs hefur líklega lækkað verulega frá júní.  Gunnar Axel, stafsmaður Hagstofunnar, segir það raunar beint út:

Ástæðan fyrir hækkuninni nú er einkum 2,5% almenn launahækkun, sem varð 1. júní, og á sama tíma hefur vísitala neysluverðs verið að lækka.

Kaupmáttur jókst um 2,6% meðan launavísitalan hækkaði um 2,2% milli mánaða.  Mismunurinn getur bara komið til vegna lækkunar á vísitölu neysluverðs.  Nú veit ég ekki hvernig þetta er reiknað, en af vef Hagstofunnar má lesa eftirfarandi:

Kaupmáttur sýnir hversu mikið af vöru og þjónustu hægt er að kaupa fyrir laun. Óbreyttur kaupmáttur frá fyrra ári þýðir að hægt er að kaupa sambærilega vörukörfu og fyrir ári. Kaupmáttur er oftast reiknaður sem breyting launa að teknu tilliti til breytinga á vísitölu neysluverðs. Kaupmáttur eykst þegar laun hækka umfram verðlag en minnkar þegar verðbólgan er meiri en launahækkanir.

Byggi útreikningurinn á því að ∆(VL+VNV) = ∆Kaupmáttar (∆ - þýðir breyting), þá er lækkunin á vísitöluneysluverðs 0,4%.  Ráðist þetta aftur á hlutfallareikningi, þá fáum lækkun vísitölu neysluverðs á bilinu 2,6 - 3,0%.  A.m.k. er ljóst að lækkun vísitölunnar er aldrei undir 0,4% og líklegast talsvert meiri. Hver sem aðferðin er við útreikning á kaupmætti, þá geta lántakar verðtryggðra lána búast við að sjá höfuðstól lána sinna lækka eitthvað á greiðsluseðlum sem kma um tvö næstu mánaðarmót.

 

 


mbl.is Fyrsta hækkun frá janúar 2008
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefur stefnumótun fyrir Ísland átt sér stað?

Eftir rúma vikur eru 22 mánuðir síðan Davíð Oddsson, þáverandi seðlabankastjóri, ákvað án samráðs við aðalhagfræðing Seðlabanka Íslands, að yfirtaka á Glitnir væri óumflýjanleg.  Þessi ákvörðun verður alltaf umdeilanleg, en henni var hrint í framkvæmd.  Hvort það var þessari ákvörðun að kenna eða einhverju öðru, þá hrundi bankakerfið með hvelli og dró hagkerfið nánast með sér í heilu lagi. 

Frá hruni bankanna eru ríkisstjórn, fyrirtæki og landsmenn búin að vera í rústabjörgun.  Við erum með fjármálakerfi, sem virðist á brauðfótum, og skuldum hlaðin og skattpínd fyrirtæki og heimili.  Stjórnvöld hafa ítrekað slegið skjaldborg um fjármálafyrirtækin til að þóknast, að því virðist ábyrgðarlausum kröfuhöfum Glitnis, Kaupþings og Landsbanka Íslands.  Kröfuhöfum sem ákváðu að ausa fé í botnlausa hít bankanna þriggja, Byr og SPRON, þar sem innandyra var hópur manna og kvenna sem héldu að bankarnir væru til þess eins að færa peninga frá almenningi og lánadrottnum til fárra útvalinna stjórnenda og eigenda fjármálafyrirtækjanna og einkavini þeirra.

Á meðan þessu hefur farið fram hefur allt annað setið á hakanum í þjóðfélaginu.  Atvinnuátakið sem talað var um í nóvember 2008 varð að engu.  Skjaldborgin um heimilin varð að engu.  Endurreisn atvinnulífsins hefur falist í því að færa fyrirtæki frá eigendum sínum inn í eignarhaldsfélög bankanna, þar sem hrunkóngarnir ráða m.a. ríkjum.  Eina lausn stjórnvalda er að hækka skatta og hirða fleiri eignir af fyrirtækjum og heimilum landsins.  Hvergi örlar á því að hjálpa atvinnulífinu eða heimilunum.  Hvergi örlar á lausnum sem hafa annað að markmiði en að færa fleiri krónur frá heimilunum og fyrirtækjunum til fjármálafyrirtækja og stjórnvalda.  Keyra á alla niður í svaðið nema nokkur fjármálafyrirtæki.

Þegar einn mánuður var liðinn frá setningu neyðarlaganna, þá skrifaði ég færsluna Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum.  Í henni stakk ég upp á eftirfarandi aðgerðahópum:

  1. Fjármálaumhverfi: Verkefnið að fara yfir og endurskoða allt regluumhverfi fjármálamarkaðarins.
  2. Bankahrunið og afleiðingar þess:  Verkefnið að fara yfir aðdraganda bankahrunsins svo hægt sé að læra af reynslunni og draga menn til ábyrgða.
  3. Atvinnumál:  Verkefnið að tryggja eins hátt atvinnustig í landinu og hægt er á komandi mánuðum.
  4. Húsnæðismál:  Verkefnið að finna leiðir til að koma veltu á fasteignamarkaði aftur á stað.
  5. Skuldir heimilanna:  Verkefnið að finna leiðir til að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot heimilanna í landinu.
  6. Ímynd Íslands:  Verkefnið að endurreisa ímynd Íslands á alþjóðavettvangi.
  7. Félagslegir þættir:  Verkefnið að byggja upp félagslega innviði landsins.
  8. Ríkisfjármál: Verkefnið að móta hugmyndir um hvernig rétta má af stöðu ríkissjóðs.
  9. Peningamál: Verkefnið að fara ofan í peningamálastefnu Seðlabanka Íslands, endurskoða hana eftir þörfum og hrinda í framkvæmd breyttri stefnu með það að markmiði endurreisa traust umheimsins á Seðlabanka Íslands
  10. Gengismál:  Verkefnið að skoða möguleika í gengismálum og leggja fram tillögur um framtíðartilhögun.
  11. Verðbólga og verðbætur:  Verkefnið að fara yfir fyrirkomulag þessara mála og leggja til umbætur sem gætu stuðlað að auknum stöðugleika.
  12. Framtíð Íslands - Á hverju ætlum við að lifa: Verkefnið að móta framtíðarsýn fyrir Ísland varðandi nýja atvinnuvegi.
  13. Framtíð Íslands - Hvernig þjóðfélag viljum við:  Verkefnið að móta framtíðarsýn fyrir Ísland varðandi inniviði þjóðfélagsins.

Vissulega hefur verið farið í eitthvað af þessu, en margt það mikilvægasta hefur setið á hakanum.  Hvers vegna, skil ég ekki.  Ég skil vel að nauðsynlegt sé að hafa stóran hóp manna og kvenna í rústabjörguninni, en það er ekki síður mikilvægt að horfa fram á veginn.  Ísland er alveg nógu fjölmennt land til að við getum skipt liði.  Ég bauð mig fram þá, og býð mig fram aftur, til að stjórna svona starfi.  Ég var líklegast ekki nógu þekktur þá, en hef vonandi áunnið mér traust síðan.

Staða Íslands er dálítið eins og í frægu atriði í Lísu í Undralandi.  Lísa koma hlaupandi eftir einhverjum stíg að krossgötum sem voru undir tré.  Uppi í trénu lá kötturinn.  Lísa sneri sér að honum og spurði:  Hvaða leið á ég að velja?  Kötturinn svaraði:   Hvert ertu að fara?  Lísa segir þá:  Ég veit það ekki.  Kötturinn spyr:  Hvaðan ertu að koma?  Aftur svara Lísa: Ég veit það ekki.  Þá sagði kötturinn:  Ef þú veist ekki hvaðan þú komst eða hvert þú ætlar, þá er alveg sama hvaða leið þú velur.

Jú, vissulega veit Samfylkingin hvert hún ætlar með Ísland, þ.e. inn í ESB.  Málið er að meirihluti þjóðarinnar er ekki sammála Samfylkingunni, ef marka má skoðanakannanir. 

Framtíð Íslands á ekki að byggja á því hvort farið verður inn í ESB eða ekki.  Hún á að byggja á stefnumótun þjóðarinnar fyrir þjóðina.  Stefnumótun sem getur byggt á skoðun á þeim 13 atriðum sem ég nefni að ofan eða einhverju allt öðrum atriðum.  Og síðan þegar þessari vinnu er lokið, þá fyrst erum við tilbúin að velja lausnina, ef svo má segja. ESB getur verið hluti af þessari lausn, en mér finnst að við sem þjóð eigum fyrst að ákveða hvernig þjóðfélag við viljum áður en við ákveðum hvaða "lausn" er heppilegust.

Sjálfur hef ég ekki tekið afstöðu til þess hvort rétt sé að ganga í ESB eða vera áfram utan bandalagsins.  Ástæðan er einfaldlega sú að framtíðarsýnina fyrir Ísland vantar og meðan hana vantar þá erum við í sporum Lísu:  Það skiptir engu máli hvaða leið við veljum ef við vitum ekki hvert við ætlum.


Umræða af Eyjunni vegna orðróms um lagasetningu

Ég má til að setja hér inn svar sem ég setti inn á frétt, þar sem ég svara spurningum Eyjunnar um þann orðróm að setja eigi lög á gengistryggð lán.  Gamall félagi minn af þessari síðu Gunnr, sem búsettur er í Noregi (að ég best veit) setti inn eftirfarandi ádeilu á mig og minn málflutning.  Fyrir neðan birti ég svo mín viðbrögð.

Gunnr:

Þetta eru furðulegar umræður eins og flest á Íslandi. Fólk er þegar búið að taka afstöðu og búið að grafa sig niður í skotgrafirnar og kastar handsprengjum yfir í hina gryfjuna. Hér virðast nánast allir elta sínu persónulega hagsmuni en horfa lítið til heildarinnar á það bæði við um fjölmiðlafólk, stjórnmálamenn og aðra. Því miður er það sem einum er veitt kemur úr vasa annars í þessu agnarsmáa hagkerfi sem er í raun má líkja við lítið fiskabúr, með ónýtan gjaldmiðil bak við gjaldeyrishömlur/múr þar sem í raun fjármálakerfið liggur í fanginu á ríkinu.
Það er augljóst að innistæður í bönkunum voru tryggðar í topp við hrun, sem undirritaður gagnrýndi á þeim tíma, og auðvitað lenti og lendir það á skattborgurum þessa lands sem raunar öll "lánaleiðrétting" sem og væntanlegt hrun á húsnæðisverði mun einnig gera. Það skiptir í raun ekki máli hvernig það er reynt að þokuleggja þetta. Það er varla nokkur sem heldur því fram að umboðsmaður Alþingis eða Hæstiréttur geti haldið uppi fjármálakerfi þjóðar þar sem velferðarkerfið er rekið upp á krít og við erum de facto búin að missa okkar efnahagslega sjálfstæði. Við erum með ráðlausa og sundurlausa stjórn, ráðlausa stjórnarandstöðu og gríðarlega óánægju í samfélaginu.

Sá mæti maður, Marínó G Njálsson er núna komin í krossferð gegn Samfylkingunni, stærsta stjórnarflokki landsins og flaggar Framsóknarflagginu. Varla er það skynsamlegt fyrir samtökin og málstaðin eða er þetta er væntanlega ákaflega líklegt að stjórnmálaþátttaka er nýr vettvangur sem Marínó ætlar inn á. Hann er talnaglöggur maður og hefur ýmislegt gott fram að færa.
Maður hefur séð þetta í gegnum árin hvernig fólk hefur komist til stjórnmálaframa í gegnum Neytendasamtökin og ekki minnast á íþróttastarfsemi. Hliðstæðan er náttúrulega við formann Framsóknarflokksins sem notaði Icesave og Indefence sem nokkurs konar stökkbretti enda er Indefence af mörgum skilgreind sem nokkurs konar flokksdeild í Framsóknarflokknum.
Kannski á að þrengja samtökin niður í "Samtök heimila með gengistryggð lán"? Því að ef samtökin eyða öllu púðrinu á að þeir með gengistryggðu lánin fái sínu framgengt verður augljóslega minna svigrúm fyrir þá með verðtryggðu lánin enda verður þetta að endingu fjármagnað úr ríkissjóði.

(1) Þessi dómur hæstaréttar eins og ég hef lesið hann og er ég ekki löglærður á einungis við um gengistryggðu lána sem sem dæmt var ólögleg en óvíst er að þann dóm má yfirfæra yfir öll gengistryggð lán enda er um hundruð ólíkra samninga að ræða. Þetta felur í sér fjölda mála og gæti tekið mörg ár í dómskerfinu.
Það hefur í raun ekki fallið dómur um fyrirtæki og gengistrygginguna og það verður stórt dæmi ef þau eru einnig ólögleg.

(2) Hitt málið er að dómurinn segir ekki neitt um að nafnvextir koma í stað gengistryggingarinnar og í raun er stjórnvöldum heimilt að setja lög varðandi það. Óvissan er slæm bæði fyrir óburðugt fjármálakerfi landsins og ekki minnst fyrir mörg heimili sem eiga í miklum erfiðleikum.

(3) Klárlega munu kröfuhafar fara í málsókn við ríkið og fara fram á himinháar skaðabætur og það er líklegt að þeir munu ná sínu fram enda virðast Íslendingar vera ótrúlegir amatörar, réttara sagt fífl.

(4) Kostnaðurinn lendir á þjóðinni það er augljóst öllum hvernig sem menn reyna að þokuleggja það.
Það. Ekki kemur fé frá himninum, réttlætisgyðjunni eða hæstarétti og ekki frá erlendum aðilum. Það er ekki gull grafið í bönkunum.
Held að það sé mikilvægt að ná sátt um skuldamálin og þá verði kostnaðurinn einnig að liggja á borðinu.
Afleiðingarnar verða:
(a) Það þarf að leggja til meira fé úr ríkissjóði sem þýðir lántöku á blóðvöxtum og það verður fjármagnað með hækkuðum sköttum og niðurskurði.
(b) Tiltrúin á þjóðinni býður enn meiri hnekki og óvissan um fjármálakerfið mun hægja enn á vexti og halda uppi háu vaxtastigi og gera enn ólíklegra að það verði hægt að komast úr gjaldeyrishömlunum. Allt þetta mun þýða rýri lífskjör og minni þjóðarköku og þá enn meiri niðurskurð og skattpíningu.

Og svo er það mitt svar:

Gunnr, mér finnst nú allt í lagi að fara með rétt mál.  Þú hefur nú bara fylgst með mínum skrifum í minnst tvö ár og ættir að vita betur en að koma með svona vitleysu.  Hvar er ég að flagga "Framsóknarflaggi" í þessari umræðu?  Ég veit ekki betur en að Framsóknarflokkurinn hafi tekið upp baráttumál Hagsmunasamtaka heimilanna um 4% árlegt þak á verðbætur.

Ég er heldur ekkert kominn í "krossferð" gegn Samfylkingunni, en mislíkar hvernig flokkurinn er að keyra allt niður í þjóðfélaginu.  Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson voru einhverjir ákvörðunarfælnustu forystumenn ríkisstjórnar frá stofnun lýðveldisins með því að ítrekað gera ekki neitt.  Jóhanna og Steingrímur er helmingi verri.  Vinur er sá sem til vamms segir.

Vangaveltur þínar um hugsanlegt framboð eru svo úr lausu lofti gripnar að þeim ætti ég ekki að svara, en bara til fróðleiks, þá hafa nokkuð margir aðilar haft samband við mig á undanförnum vikum og beðið mig um að ganga í raðir hinna og þessara fylkinga.  Svarið hefur alltaf verið að störf fyrir Hagsmunasamtök heimilanna og pólitísk þátttaka fara ekki saman.  En enginn veit sína ævi fyrr en öll er.  Ég hef líka fengið áskorun um að bjóða mig fram til forseta, en hló að þeirri uppástungu.

Mér finnst líka allt í lagi, að menn lesi þá umræðu sem er á þræðinum áður en komið er með svona bull um "Samtök heimila með gengistryggð lán".  Í fyrsta lagi, þá eiga Hagsmunasamtök heimilanna engan heiður af niðurstöðu Hæstaréttar.  Þar var dæmt eftir lögum.  Í öðru lagi, hafa Hagsmunasamtök heimilanna barist fyrir því að forsendubrestur allra lána verði leiðréttur.  Í þriðja lagi lögðu HH til allt aðra leið til að leiðrétta gengistryggð lán áður en samtökunum varð ljóst að gengistryggingin væri í mótsögn við lög.  Í fjórða lagi, þá hafa samtökin barist fyrir breytingum á lánakerfinu með það í huga að annað hvort verðtrygging yrði afnumin eða þak yrði sett á árlegar verðbætur.  Gunnr, er veðrið svona gott í Noregi að menn gleyma öllu því sem þeir hafa rætt um áður?  Við erum tveir margoft búnir að fara í gegn um þetta.  (Nema náttúrulega að það sé einhver annar sem skrifar nákvæmlega eins og Gunnr í Noregi og notar sama notendanafn.)  Þú hefur hingað til verið mjög rökfastur í málflutningi þínum og ekki farið í útúrsnúninga eða skáldskap áður.

Varðandi (1):  Dómurinn er þríþættur: 1) Leigusamningur er lánasamningur þar sem lántaki eigast bifreiðina að leigutíma loknum; 2) Samningurinn er í íslenskum krónum, þar sem höfuðstólsfjárhæð er tilgreind í íslenskum krónum; 3) Gengistrygging er ólögleg verðtrygging og er því ákvæði samningsins um tengingu höfuðstóls við breytingar á gengi dæmdur ógildur.  Fordæmisgildið nær því í fyrsta lagi til allra leigusamninga, þar sem hinn leigði munur verður eign leigutaka að leigutíma liðnum.  Í öðru lagi nær fordæmisgildið til lána með höfuðstól í íslenskum krónum, þó annað hafi verið tilgreint í erlendri mynt.  Loks felst fordæmisgildið í því að ekki má nota gengistryggingu til að verðtryggja samninga.  Fordæmisgildið nær ekki til samninga, þar sem höfuðstóll er tilgreindur í erlendri mynt, en hafi verið sótt um lán í íslenskum krónum, þó höfuðstóll sé í erlendri mynt, þá gæti atriði 2) veitt fordæmi, en dómstólar þurfa að skera úr um það.

Varðandi (2):  Dómurinn segir ekkert um vexti, þ.e. hvorki hvort þeir eigi að standa eða breytast.  Það er venja í íslenskum rétti, að það sem ekki er breytt stendur óhaggað.  Þess vegna gilda samningsvextir þar til dómstólar kveða úr um annað, framvirk lög eru sett sem breyta vöxtunum, lánveitandi nýtir sér ákvæði samninganna til að breyta vöxtunum eða samkomulag næst milli lántaka og lánveitanda um breytta vexti.  Ég vil benda á, að áríð 2005 buðu mörg bílaumboð í samstarfi við fjármögnunarfyrirtæki vaxtalaus og óverðtryggð lán.  Að lánin beri 3-9% vexti er augljóslega betra en vaxtalaus lán.  Það er mikil misskilningur í gangi um að öll bílalán hafi verið á lágum vöxtum.  Mörg þeirra eru með ótrúlega háum vöxtum.  Dæmi eru um 6-9% vaxtaálag, þannig að fyrir þá sem eru með slík lán eru vextir Seðlabankans eins og þeir eru núna hagstæðari en samningsvextir.  Svo virðast menn viljandi líta framhjá því að LIBOR vextir hafa bara verið lágir frá haustmánuðum 2008.  Fram að því voru vextir í dollurum, evrum og pundum  allt að 4,5 - 6% misjafnt eftir myntum.  Vegna 36. gr. laga nr. 7/1936, þá geta stjórnvöld ekki gripið inn í hvaða samninga sem er með lagasetningu.  Þeir lögfræðingar sem ég hef rætt við (að einum undanskyldum) telja að 36. gr. verndi neytendur fyrir því að vöxtum verði breytt umfram það sem hver samningur segir til um.

Varðandi (3):  Hvers vegna ættu kröfuhafar að fara í skaðabótamál við ríkið?  Þeir eru þegar búnir að veita fjármálafyrirtækjunum umtalsverðan afslátt, en verða vissulega af framtíðarhagnaði.  Samt ekki, þar sem fjárhagsstaða fjármálafyrirtækjanna verður heilbrigðari eftir að búið er að leiðrétta lánin á þennan hátt og því eru meiri líkur á því að lánin innheimtist á innheimtuaðgerða, fjárnáms og uppboða.  Höfum í huga að fjármálafyrirtækin eru ekki að græða á innheimtuaðgerðum, fjárnámi og uppboðum.  Það eru lögmannsstofur sem hagnast á því á kostnað þess sem annars færi til fjármálafyrirtækjanna.  Kröfuhafa höfðu lögmenn á sínum snærum.  Ekki bara erlenda heldur líka íslenska.  Ef þessi lögmenn (íslenskir og erlendir) vissu ekki af umræðunni um hugsanlegt ólögmæti gengistryggingarinnar, þá voru þeir einfaldlega fúskarar.  Þessir menn geta ekki borið fyrir sig fávisku, þó lögin séu á íslensku.  Hafi dómar Hæstaréttar komið þeim á óvart, þá finnst mér rétt að kröfuhafar fari í skaðabótamál til þá en ekki ríkið.  Þeir unnu sína heimavinnu ekki nógu vel, svo einfalt er það.

Varðandi (4):  Hvaða kostnaður lendir á ríkinu?  Skýrðu mál þitt.  Þetta eru dæmigerðar upphrópanir:  Kostnaðurinn fellur á ríkið.  Kostnaður fellur á skattgreiðendur.  Það er nákvæmlega engin innstæða fyrir þessu.  Hvaða kostnaður fellur á ríkið?  Hvernig er hann fundinn út?  Hvað veldur honum?  Hvernig hafa afslættir á lánasöfnunum áhrif á þennan kostnað til lækkunar?  Er kostnaður vegna lána heimilanna, vegna lána fyrirtækja eða beggja?  Hvernig geta rúmlega 100 milljarða lán heimilanna (samkvæmt gögnum Seðlabankans) sem voru bókfærð á allt að 273 milljarða í gömlu bönkunum valdið meiri kostnaði?  "Það þarf að leggja meiri pening.."  Hverjir segja það?  Varðhundar fjármálafyrirtækjanna innan íslenskrar stjórnsýslu.  Veistu að íslensk fyrirtæki þurfa að greiða íslenskum launamönnum tvöfalda þá tölu í laun, svo launamaðurinn geti greitt af lánunum, sem fjármálafyrirtækin ákváðu að rukka í botn, þrátt fyrir að hafa fengið allt að 47% afslátt.  Fyrirgefðu, en það er ósvífni og glæpsamlegt.  Það féll dómur fyrir nokkrum árum, þar sem rafvirki var dæmdur til að láta konu nokkra njóta þess afsláttar sem hann fékk af efniskaupum hjá heildsala.  Þetta er sambærileg staða.

Tiltrú manna erlendis á íslenska stjórnkerfinu er farin út í veður og vind.  Hvers konar fúsk er það, að leyfa ólögleg lán í 9 ár án þess að aðhafast neitt?  FÚSK er eina orðið sem til er um þetta.  Og varðandi fjármálafyrirtækin var um EINBEITTAN BROTAVILJA.  Formaður Sambands banka og verðbréfafyrirtækja sagði sjálfur í umsögn um frumvarp að lögum nr. 38/2001 að ákvæði 13. og 14. gr. bönnuðu þetta lánaform og bað um að þessu ákvæði yrði breytt.  17. og 18. gr. laganna eru með refsiákvæði, þannig að ljóst er að brotin eru refsiverð.  Þetta sýnir bara því miður annars vegar grófa vanrækslu Fjármálaeftirlits og líklegast Seðlabanka Íslands og síðan ótrúlega bíræfinn brotavilja fjármálafyrirtækjanna.  Heldur þú virkilega, Gunnr, að það séu dómarnir sem rústi tiltrúnni eða ef fyrirtækin verði fyrir frekari skakkaföllum.  Nei, héðan í frá munu útlendingar ekki trúa einni einustu lagalegri túlkun fjármálafyrirtækjanna og biðja um óháð álit í hvert skipti rætt er um lögfræðileg málefni.  Það er mesta áfallið sem dómar Hæstaréttar hafa í för með sér.  Orðspor og tiltrú á lögfræðingum bankanna varð að engu og sama gildir um lögfræðinga FME.  Hafa einhverjir velt því fyrir sér hvaða snillingar voru yfirlögfræðingar FME á þessum árum?  Og hvaða starfi ætli þeir gegni núna?  Það verður flott í CV-inu að hafa verið yfirlögfræðingur FME þegar ólögleg gengistrygging var látin átölulaus.


Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband