Bloggfærslur mánaðarins, október 2010
28.10.2010 | 22:08
Af vaxtareikningi fjármálafyrirtækja
Ég hef verið að skoða hvernig fjármálafyrirtækin endurreikna bílalánin og verð að segja eins og er að margt kemur mér á óvart. Hingað til hef ég treyst því að vextir væru rétt reiknaðir af þeim lánum sem ég hef verið að borga, en nú verð ég að leyfa mér að efast. Í viðskiptafræðikúrsunum, sem ég tók 1981 - 2 lærði ég að ef ársvöxtum er breytt í vexti fyrir styttra tímabil, segjum mánuð, þá þyrfti ég að reikna út rótartölu af ársvaxtatölunni. Væru vextir gerðir upp á 6 mánaðafresti, þá væri það kvaðratrót, væri gert upp á 3 mánaðafresti væri það fjórðarót og mánaðarlega væri það tólftarót.
Til að velja einhverja heppilega vaxtaprósentu, þá er tólftarót af 12,7% nokkurn veginn 1%. Það þýðir að ég fæ sömu tölu út með því að leggja 1% vexti á 1.000 kr. og uppsafnaða vexti mánaðarlega í heilt ár ásamt og með því að leggja 12,7% vexti á töluna einu sinni í árslok, þ.e. 1.127 kr. En fjármálafyrirtækin reikna þetta ekki svona. Þau deila í 12,7% með 12 og fá út 1,06% og vaxtavaxtareikna þá tölu í 12 mánuði, þannig að 1.000 kr. verða að 1.135. Kannski ekki hinn mesti munur, en þetta gera 6%. Sjá útreikninga hér fyrir neðan:
1.000 | | |||||
12,70% | 1.127 | Einu sinni á ári | ||||
Tólftarót | 1.000 | Deilt með 12 | 1.000 | |||
1,00% | 1.010 | 1,06% | 1.011 | |||
1,00% | 1.020 | 1,06% | 1.021 | |||
1,00% | 1.030 | 1,06% | 1.032 | |||
1,00% | 1.041 | 1,06% | 1.043 | |||
1,00% | 1.051 | 1,06% | 1.054 | |||
1,00% | 1.062 | 1,06% | 1.065 | |||
1,00% | 1.072 | 1,06% | 1.076 | |||
1,00% | 1.083 | 1,06% | 1.088 | |||
1,00% | 1.094 | 1,06% | 1.099 | |||
1,00% | 1.105 | 1,06% | 1.111 | |||
1,00% | 1.116 | 1,06% | 1.123 | Mismunur: | ||
1,00% | 1.127 | 1,06% | 1.135 | 6,0% |
(Vextir eru alltaf lagðir ofan á vaxtareiknaða stöðu mánuðinn á undan.)
Séu ársvextirnir aftur 25%, þá munar 12,3% á því hvort þeir eru reiknaðir mánaðarlega eða einu sinni á ári, þ.e. annars vegar 1.250 kr. hafi maður byrjað með 1.000 kr. og hins vegar 1.281 kr.
Þetta kemur sér vel fyrir þann sem á pening á innlánsreikningi, svo fremi sem þeir eru reiknaðir einu sinni í mánuði (sem sjaldnast er gert). Fyrir þann sem skuldar, þá snýst dæmið við.
Gefum okkur að einstaklingur hafi tekið 15.000.000 kr. að láni til 30 ára í upphafi árs 2005. Lánið er með jöfnum afborgunum, þ.e. 41.667 kr. á mánuði eða 500.000 kr. á ári og ber óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands. Vaxtagreiðslan reynist 9.322.163 kr. sé notuð tólftarótin af vöxtum Seðlabankans hverju sinni til að finna mánaðarvexti, en 9.952.293 kr. þegar deilt er í seðlabankavextina með 12. Munurinn er 630.130 kr. eða sem nemur 25,2% af höfuðstólsgreiðslum tímabilsins og um 6,5% af vaxtagreiðslum tímabilsins.
Ég verð að viðurkenna, að ég skil ekki hvers vegna það á að vera munur á því að hvort vextir eru reiknaðir einu sinni á ári eða mánaðarlega. Heildarvaxtatalan á að vera sú saman, ef höfuðstóllinn er óbreyttur. Ég átta mig á því að fyrr á árum, þá var flókið að reikna tólfturótina af tölu, en nú eru breyttir tímar. Raunar hef ég átt reiknivél frá því á háskólaárum mínum, sem gaf mér tólfturótina án vandkvæða.
Það sem mig langar að vita er: Hvers vegna eru mánaðarvextir ennþá reiknaðir með því að deila með 12 í ársvexti?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
26.10.2010 | 14:20
Gengisvísitalan lækkar og lækkar og menn eru hissa að ávöxtun erlendra eigna sé lítil!
Á tímabilinu frá 1.1.2010 til 30.6.2010 lækkaði gengi evrunnar um 12,85% miðað við krónuna meðan gengisvísitala lækkaði um 7,54%. Þarf það að koma mönnum á óvart að erlendar eignir beri ekki góða ávöxtun, þegar tölum er snúið yfir í íslenskar krónur.
Þetta er líklegast bara byrjunin, þar sem veiking evru, punds og dollars frá áramótum til dagsins í dag er á bilinu 10 - 13,5% og gengisvísitalan hefur veikst um 11,6%. Eignasöfnin þurfa því að vera með nokkuð góða ávöxtun í erlendri mynt til að vega upp þessa veikingu myntanna gagnvart krónunni og verðbólgu ársins.
Ég efast um að nokkur fjárfestingastjóri innan lífeyrissjóðanna sé hissa á þessari þróun. Sé sá aðili til, þá er hann á rangri hillu í starfi. Málið er að þessi þróun á örugglega eftir að halda áfram, þ.e. að gengi krónunnar styrkist gagnvart helstu viðskiptamyntum og þar með lækkun á verðmæti erlendra eigna lífeyrissjóðanna í íslenskum krónum. Áður en sú þróun verður varanleg, mun koma niðursveifla þegar gjaldeyrishöft verða afnumin. Þá kæmi mér ekki á óvart að lífeyrissjóðirnir muni nota tækifærið til að selja stóran hluta erlendra eigna sinna til að rétta af stöðu sjóðanna.
Ég skil raunar ekki af hverju lífeyrissjóðunum hefur ekki verið leyft að kaupa innlendar eignir erlendra aðila og borga fyrir þær með erlendum eignum sínum. Flestar af þessum erlendu eignum voru keyptar þegar gengisvísitalan var á bilinu 100 - 120. Sama á við um innlendar eignir erlendra aðila. Annar aðilinn fær því hátt í 100% hækkun í krónum á sínum hlut meðan hinn þarf að sætta sig við það tap sem þegar er orðið. Menn geta svo sem beðið, enda eru innlendar eignir erlendra aðila með mjög góða ávöxtun á kostnað okkar landsmanna. Ef þeir bíða eftir að krónan styrkist um 20-30%, þá eru þeir jafnvel komnir með betri ávöxtun en þeim býðst i heimalöndum sínum. Vissulega verður fjármagnið bundið í nokkur ár, en fyrir flesta er það ekkert vandamál.
Lífeyrissjóðirnir standa frammi fyrir þeim vanda að þola illa styrkingu krónunnar. 10% styrking krónunnar jafngildir um 50 milljarða lækkun á erlendum eignum. Samkvæmt tölum Seðlabanka Íslands var verðmæti erlendra eigna lífeyrissjóðanna 531 milljarður 31.12.2009 og var búið að lækka í 496 ma.kr. í lok ágúst. Þetta jafngildir ríflega 2% lækkun á heildareignum lífeyrissjóðanna. Verðum við núna að standa vörð um lágt gengi krónunnar svo lífeyrissjóðirnir þurfi ekki að skerða réttindi?
Neikvæð ávöxtun erlendra eigna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
23.10.2010 | 02:02
40 - 50 milljarðar af hvaða upphæð?
Gengisbundin lán heimilanna eru talin nema um 270 milljörðum, þó talan sé á reiki. Samkvæmt tölum FME er bókfært virði þeirra um 186 milljarðar og FME reiknaði út að áhrifin af þeim hugmyndum, sem Árni Páll Árnason vill setja í lög, séu um 46 milljarðar. Margir lánveitendur eru þegar búnir að bjóða í á annað ár úrræði, sem gera jafnvel betur en tilboð ráðherra. Spurningin er hvort lán þessara lántaka séu með í útreikningum ráðherra eða eru fyrir utan.
Öllu máli skiptir út frá hvaða tölum er gengið. Er gengið út frá bókfærðu virði eða er það kröfuvirði? Þetta skiptir öllu máli, þar sem oft getur verið himinn og haf þarna á milli.
Ég held að tölur ráðherra segi ekki alla söguna. Lækkun höfuðstóls þarf ekki að þýða lækkun greiðslubyrði. Hvaða gagn er af því fyrir einstakling í greiðsluvanda að höfuðstóllinn lækki? Jú, vissulega gæti bíllinn eða húsið orðið seljanlegra, en svo ég noti orðfæri bankamanna, þá er núvirt greiðsluflæðið vegna lánsins ýmist hið sama eða það hefur hækkað. Hver þá tilgangurinn með þessu?
Það er ákaflega takmarkað gagn af svona aðgerð nema hún leysi vandann eins mikið og hægt er bæði í nútíð og framtíð. Ég get ekki séð að tillögur ráðherra geri það
Öll gengislán í sama flokk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.10.2010 | 19:25
Afstýra þarf þessu stórslysi
Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, hefur tvisvar fengið þá flugu í höfuðið, að réttlæti felist í því að skipta einum forsendubresti út fyrir annan. Í fyrra skiptið kom Hæstiréttur honum til bjargar og staðfesti það sem margir vissu, að gengistrygging væri óheimil verðtrygging. Nú hefur Hæstiréttur dæmt í bílalánamáli og kveðið upp að í því máli sé rétt og hagkvæmara fyrir lántakann að notaðir séu lægstu verðtryggðir vextir Seðlabanka Íslands. Þetta greip ráðherrann á lofti og hugsaði greinilega ekki nógu djúpt. Niðurstaðan var að allir lántaka gengistryggðra lána hlytu að vera betur settir með vexti Seðlabanka Íslands, hvort heldur verðtryggða eða óverðtryggða, án tillits til lánategundar, hvenær lánið var tekið og hve mikið er eftir á lánstímanum. Til að bíta nú höfuðið af skömminni, þá skal ganga á rétt neytenda til að fá ofgreiðslur endurgreiddar með því að skikka lántaka til að sjá á eftir þeim inn í fyrirtæki, sem við vitum ekkert hvort að séu á vetur setjandi.
Einn banki hefur þegar byrjað að senda lántökum út upplýsingar um stöðu lána sinna. Margir hrósa happi yfir því sem þeir sjá, en aðrir eru augljóslega að fá styttri endann á stráinu. Fjöldi fólks hefur haft samband við mig til að biðja mig um að fara yfir útreikninga og ennþá fleiri haft samband til að lýsa furðu sinni á því sem það sér. Í öllum tilfellum held ég að fólki finnist tölurnar lánveitanda hagfelldari en glamur þeirra sem lýst hafa yfir ánægju sinni yfir málsmeðferðinni hefur gefið í skyn. Ekki bætir út skák að útreikningar eru það ruglingslegir á köflum, forsendur vantar oft eða eru illa útskýrðar eða þá að mistök hafa verið, að nær útilokað er fyrir leikmann að átta sig á því hvað er rétt. Raunar gengur það svo langt, að á fundi með starfsmönnum viðkomandi fjármálafyrirtækis, þá áttu viðmælendur mínir í megnustu vandræðum með að skilja útreikninga. En burt séð frá svona "tæknilegum" vandamálum (sem auðvelt verður að leysa og ég á ekki von á að nokkur verði að endingu rukkaður um meira en rétt er miðað við dóma Hæstaréttar), þá eru það þeir sem skulda fjármálafyrirtækinu pening, þó þeir hafi alla tíð greitt heimsenda greiðsluseðla.
Ég er með nokkur dæmi fyrir framan mig, þar sem fólk hefur lent í þessu. Hvernig getur það verið að sá sem hefur alltaf staðið í skilum geti verið krafinn um upphæð umfram það viðkomandi hafi greitt? Hvað þá að upphæði hlaupi á tugum, ef ekki hundruðum þúsunda? Sjálfur hef ég reiknað, að greiðslur af húsnæðisláni sem ég tók hækki um allt að 300% fyrir þann tíma sem stóð í skilum, ef ég verð þvingaður til að færa lánið yfir í lán samkvæmt vöxtum Seðlabanka Íslands og hinn kosturinn er að borga af stökkbreyttum höfuðstóli. Ég get vel skilið að fjármálafyrirtækin taki þessu fagnandi.
Margt í frumvarpi ráðherra er til þess að greiða úr flækju og er það hið besta mál. Að tengja öll lán við vexti Seðlabanka Íslands er Hér er stórslys í uppsiglingu og því verður að afstýra. Vekja þarf viðskiptaráðherra af hinum rósrauða draumi sem hann er fastur í. Ein leið er t.d. að ráða reiknifæran mann inn í ráðuneytið eða kaupa slíka vinna að.
Ég á sæti í "sérfræðinga hópi" forsætisráðuneytisins sem er að reikna út vanda lántaka. Ég er hræddur um að leið ráðherra muni auka vanda heimilanna svo mikið, að vinna hópsins ónýtist við setningu laganna, fari þau á annað borð í gegn um þingið. Vissulega er ýmislegt í frumvarpinu sem ætlað er að auka á skýrleika og tryggja samræmi, en það þýðir jafnframt að tryggja á að allir sitji í súpunni saman. Ég raunar geng svo langt að segja að þetta frumvarp (sem ég hef séð í drögum), ef það fer óbreytt í gegn, að það muni stefna mjög mörgum þeirra sem eru með svona húsnæðislán beint í gjaldþrot.
Sú staðhæfing að 50 milljarðar verði færðir frá bönkum til lántaka er með öllu órökstudd. Verið getur að höfuðstóll lánanna lækki, en í staðinn standi eftir háar vangreiddar fjárhæðir sem munu líklegast bætast beint á höfuðstól nema fólk geti töfrað þessa upphæð upp úr tómum peningahatti. Og þó svo að höfuðstóllinn lækki, þá skiptir það ekki miklu máli, ef greiðslubyrðin er sú sama. Ég reikna með því að fólk velti ekki mikið fyrir sér hvort krónurnar sem greiðir fari í afborgun af höfuðstóli eða vexti. Gjalddagagreiðsla sem byrjaði í 37.000 kr. og hefur hækkað í 53.000 kr. heldur áfram að vera 53.000 kr. eftir talnaleikfimi ráðherra og hverju er fólk þá bættar? Síðan má fara út í vangaveltur um núvirðingu lánsins og fleiri þannig atriði.
Frumvarp um gengislán lagt fram | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
22.10.2010 | 14:34
Sérkennilegt lýðræði - Kjörnefnd gerir tillögu
Ég verð að furða mig á því, að kjörnefnd skuli hafa skoðun á því hverja eigi að kjósa. Í frétt mbl.is segir:
Guðrún J. Ólafsdóttir, félagi í VR, býður sig fram til forseta gegn Gylfa Arnbjörnssyni forseta ASÍ. Kjörnefnd gerir tillögu um að Gylfi verði kosinn forseti.
Það getur verið að lög ASÍ segi til um að kjörnefnd eigi að segja skoðun sína, en þetta minnir mig meira á kosningar í Kreml í gamladaga en í vestrænu lýðræðisþjóðfélagi. Hvað myndi fólk segja ef landsyfirkjörstjórn myndi mæla með því að fólk kysi Hreyfinguna í næstu kosningum? Flestum væri stórlega misboðið að vera sagt fyrir verkum.
Í mínum huga er það úrelt fyrirkomulag, að kjörnefnd á þingi ASÍ sé að skipta sér af því hvernig þingfulltrúar haga atkvæði sínu. Fyrir utan að kjörnefndina skipa líklegast frekar aðilar sem eru hallir undir núverandi forseta (án þess að ég viti það), þannig að í raun er ómögulegt fyrir þann sem býður sig fram gegn sitjandi forseta að fá stuðning nefndarinnar. Þessu til viðbótar skekkir kjörnefndin stöðu frambjóðenda með því að mæla með einum umfram annan.
Þetta er svo sem eftir öðrum hjá ASÍ, þar sem enginn kemst óvænt til valda, enginn fær stöðu nema hann hafi sína stöðu í goggunarröðinni.
Ég vil svo bæta því við, að ekki fannst mér kjör Gylfa verða ein afgerandi og ég átti von á, miðað við að búið var að gefa óbein fyrirmæli til þingfulltrúa að kjósa sitjandi formann.
Gylfi fær mótframboð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.10.2010 | 15:47
Algjör þvæla
Ég hef ekki önnur orð yfir þetta. ALGJÖR ÞVÆLA.
Ég hvet ASÍ til að hætta skáldsagnaritun og snúa sér að því sem sambandið hefði átt að gera fyrir 30 mánuðum, ef ekki lengur, þ.e. að verja hagsmuni félagsmanna sinna fyrir arðráni fjármálakerfisins.
Lífeyrissjóðir hefðu borið 75% kostnaðar við skuldalækkun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
19.10.2010 | 10:17
Litla gula hæna endurreisnar heimilanna
Mikill skjálfti fer um fjármagnseigendur þessa dagana. Grasrótarsamtök hugsandi fólks settu fram tillögur að því hvernig væri hægt að endurreisa íslensk heimili eftir stærsta rán Íslandssögunnar. Já, Hagsmunasamtök heimilanna gerðu þá tillögu að þeir sem fengu ávinning af ráninu tækju að sér að leiðrétta hlutina. Við brögðin eru ákaflega skýr:
Arion banki segir: "Ekki ég"
Íslandsbanki segir: "Ekki ég"
Landsbankinn segir: "Ekki ég"
Lífeyrissjóðirnir segja: "Ekki ég"
Þetta hljómar frekar kunnuglega. Við lásum flest sögu um 7 ára aldur þar sem þetta var rauði þráðurinn. Enginn vildi leggja á sig neitt til að baka köku. Núna vilja fjármagnseigendurnir ekki leggja neitt á sig til að búa til nýja þjóðarköku. Mér finnst það því bara ósköp einfalt. Fylgjum efnisþræði Litlu gulu hænunnar til enda og þeir fá þá heldur ekki ávinninginn af því að heimilunum verði bjargað af ríkissjóði eða hörðum höndum hinna vinnandi stétta, fólkinu sjálfu.
Ef ég á að segja eins og er, þá á enginn lánveitandi skilið að fá krónu umfram það sem gert var ráð fyrir í lánasamningum. Greiðsluáætlun á bara að gilda og búið mál. En við lántakar erum ekki svo ósanngjarnir að gera slíka kröfu. Við erum tilbúnir að greiða allt af 4% verðbætur árlega ofan á lánin okkar. Jafnvel þó hluti þessara 4% hafi komið til vegna lögbrota, svika og pretta, þá erum við tilbúin að líta framhjá því. Við erum líka tilbúin að líta framhjá því að lögbrotin, svikin og prettirnir hófust fyrir langa löngu, þá ætlum við bara að líta aftur til 1.1.2008.
Af hverju halda málsmetandi menn að það dugi að nota stór orð og þá fallist fólki hendur? Komið með hagfræðilega útreikninga á því, hvers vegna þetta er ekki hægt, en það er hægt að skekkja samkeppni í landinu með því að kaupa fyrirtæki sem ekki var rekstrargrundvöllur fyrir hrun. Sýnið fram á að það sé betra fyrir fjármálakerfið að fá yfir sig holskeflu íbúða sem fólk hefur ekki efni á að búa í. Má ég benda á að árlegur kostnaður af því að eiga 20 m.kr. íbúð slagar hátt í það sama og greiðslubyrði lána af íbúðinni, þegar tekin eru inn fasteignagjöld, tryggingar, viðhald, hiti og rafmagn og annað sem til fellur. Íbúð sem ekki er búið í skemmist hraðar, en sú sem ekki er búið í. Ég skora á hagfræðiprófessora, gamla viðskiptaráðherra og fleiri stóryrta menn að koma með tölur og hætta að tala í upphrópunum.
Einn af grundvallarreglum Hagsmunasamtaka heimilanna er: "Það er ekki til neitt sem heitir "ekki hægt". Þetta er allt spurningin um að finna lausn." Með þetta að leiðarljósi tek ég fyrir hönd samtakanna þátt í sérfræðingahópi ríkisstjórnarinnar umskuldavanda heimilanna. Vona ég innilega að sú vinna skili árangri fyrir heimilin í landinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
17.10.2010 | 01:00
Aðeins tvær leiðir færar: Leiðrétting núna eða afskrift síðar
Mig langar að endurbirta færslu frá því 5. september 2009. Hún birtist einnig í Morgunblaðinu deginum áður. Ég tel þessa færslu hafa staðist tímans tönn. Hafið í huga að hún er 13 mánaða gömul og allar dagsetningar taka mið af því.
Aðeins tvær leiðir færar: Leiðrétting núna eða afskrift síðar
Um áramótin 2007/2008 var nokkuð gott fjárhagslegt jafnvægi á íslenskum heimilum. Krónan hafði vissulega lítillega veikst frá því hún var sterkust um mitt sumar 2007 og verðbólga hafði látið kræla á sér samhliða þessari veikingu, en fjárhagsstaða heimilanna var nokkuð góð. En þetta var svikalogn. Undirniðri var óvættur mikill að undirbúa árás á íslenska hagkerfið og átti hann eftir að kippa fótunum undan velflestum heimilum og fyrirtækjum landsins. Það sem meira er, óvættur átti eftir að éta foreldra sína, fjármálakerfið.
Undanfarna tuttugu mánuði hefur íslenska hagkerfið gengið í gegnum ótrúlegt öldurót. Hver fellibylurinn á fætur öðrum hefur dunið á ströndum hagkerfisins og lagt í rúst fjármálakerfið, ríkissjóð, fyrirtækin í landinu og heimilin. En óvætturinn hefur ekki enn náð að seðja hungur sitt og hefur læst skolt sinn um heimilin og fyrirtækin í landinu. Að foreldrunum gengnum hreiðraði hann um sig hjá nýjum herrum í formi ríkisrekinna banka. Og þar ætlar hann að nærast á bráð sinni og þenjast út, eins og púkinn á fjósbitanum hjá Sæmundi fróða hér forðum.
Heimilin í landinu hafa mörg hver verið mergsogin. Höfuðstólar lána þeirra hafa hækkað upp úr öllu valdi og það hafa afborganirnar líka gert. Ríkisvaldið hefur nokkrum sinnum gripið til vanmáttugra tilrauna til að rétta hjálparhönd, en þær flestar engu skilað og hinar litlu. Fjármálafyrirtækin með nýju bankana í fylkingarbrjósti sýna skilning á ástandi í orði, en ekki á borði. Þau virðast ekki skilja, að eigi framtíðin að snúast um val á milli heimilanna og þeirra, þá verða þau að falla fram á sverðið.
Staða nær allra lántakenda er þannig, að forsendur þeirra fyrir lántökum hafa brostið. Lán sem tekin voru við góð skilyrði hafa tekið breytingum sem enginn gerði ráð fyrir og fáir ráða við. Líkja má breytingunni við efnahagslegar hamfarir með engu minni áhrif en er hraun og aska færði byggðina í Vestmannaeyjum í kaf veturinn 1973. Hvort það var úrlausnum ríkisvaldsins að kenna eða einhverju öðru, þá er íbúatala Vestmannaeyja ekki ennþá búin að ná sömu hæðum og fyrir gos. Er það virkilega þetta sem við viljum sjá gerast fyrir Ísland? Fólki gert að bera tjón sitt óbætt eða lítt bætt og að fólk flytji burtu vegna þess að það treystir ekki samfélaginu eða vill ekki að börn þeirra alist upp við þá ógn sem felst í óstöðugu efnahagsumhverfi.
Fjármálafyrirtækin verða að átta sig á því, að þau munu aldrei innheimta að fullu þau lán sem þau eiga hjá viðskiptavinum sínum. Það getur verið að endurheimturnar verði 70-80% af verðtryggðum lánum, 45-55% af gengistryggðum lánum og eitthvað svipað af öðrum lánum. Þó svo að eignir fólks standi undir veðsetningunni, þá gera tekjur þess það líklegast ekki. Og þó tekjurnar geri það, þá er ekki víst að greiðsluviljinn sé til staðar. Mjög mörgum Íslendingum finnst nefnilega sem fjármálafyrirtækin hafi brotist inn á heimili þeirra og stolið af þeim miklum verðmætum. Fólki finnst síðan óréttlátt að greiða þurfi þjófunum ekki bara upphaflegu skuldina, heldur einnig þann kostnað sem hlaust af innbrotinu.
Allir innlendir lántakendur hafa orðið fyrir miklu tjóni vegna efnahagshrunsins. Vissulega hafa fjármálafyrirtæki líka orðið fyrir tjóni, en munurinn er að mörg þeirra tóku virkan þátt í efla og styrkja óvættinn og hvetja hann til dáða. Þau eru því flest á einn eða annan hátt ábyrg á tilvist hans.
Leiðin niður á við
Eins og ég sé ástandið í þjóðfélaginu, þá er bara um tvær leiðir að ræða. Leið eitt er að fjármálafyrirtækin gangi fram af hörku og innheimti lánin í topp sem mun leiða til fjöldagjaldþrot og yfirtöku fjármálafyrirtækja á þeim veðum sem sett voru fyrir lánunum. Þar sem veðin hafa fallið í verði, þá munu fjármálafyrirtækin annars vegar ekki fá lánin að fullu greidd og hins vegar ekki geta selt eignirnar á því verði sem þær voru teknar yfir á. Nýir eigendur munu því geta keypt fasteignir ódýrt, sem mun valda ennþá meiri verðlækkun á fasteignamarkaði en þegar er orðin. Stór hluti landsmanna, þ.e. þeir sem fóru í gjaldþrot eða greiðsluaðlögun, verða óvirkir á fjárfestingamarkaði í fjölda mörg ár og upp í áratugi, en það veltur allt á því hve lengi fjármálafyrirtækin munu reyna að rukka inn eftirstöðvar lánanna sem ekki fengust greidd upp í topp. Áhrifin verða geigvænleg fyrir íslenskt samfélag. Neysla dregst saman, velta fyrirtækja minnkar, skatttekjur ríkis og sveitafélaga verður ekki svipur hjá sjón. Þetta bitnar á atvinnustiginu, samneyslunni og velferðarkerfinu. Kreppan verður dýpri og lengri en nokkurn órar fyrir. Fólksflótti verður mikill og svört atvinnustarfsemi regla frekar en undantekning. Hagvöxtur dregst verulega saman.
Leiðin upp úr kreppunni
Leið tvö er að lántakendur fái verulega leiðréttingu á höfuðstóli lána sinna, t.d. til samræmis við stöðu lána 31.12.2007 að teknu tilliti til greiðslna inn á höfuðstól og afborganir síðustu 20 mánuði. Í fyrsta lagi eru mörg lagaleg rök fyrir því að þetta verði gert. Bara til að nefna fáein, þá er það 36. gr. laga nr. 7/1936, samningalaga, en þar er fjallað um ógildingu samninga vegna forsendubrests. Í tölulið c segir t.d.: Samningur telst ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag. Í lögum nr. 46/4005 um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir er í 9. gr. ákvæði um að víkja megi til hliðar fjárhagslegri tryggingarráðstöfun, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera ákvæðið fyrir sig. Nú í lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur er greinum 13 og 14 tekið fram, að eingöngu er heimilt að verðtryggja sparifé og lánsfé skv. 13. gr. sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs..Í lánssamningi er þó heimilt að miða við hlutabréfavísitölu.. Tel ég þessi lagalegu rök vera nokkuð traust og vex stöðugt í hópi þeirra lögfræðinga sem telja þau nægilega sterk til að vinna dómsmál gegn fjármálafyrirtækjunum.
Í öðru lagi eru það viðskiptaleg rök. Það hefur oft sýnt sig, að sé komið til móts við skuldara með niðurfellingu, afskrift eða leiðréttingu á höfuðstól láns, þá innheimtist í raun hærra hlutfall af höfuðstólnum en annars myndi gerast. Heildarafskriftin/niðurfærslan/leiðréttingin verður því minni, en annars yrði. Ástæðan er að skuldarinn verður áfram virkur viðskiptavinur fjármálafyrirtækisins og stendur oftar í skilum, þar sem greiðsluviljanum er viðhaldið. Viðskiptavinur sem finnst hann njóta réttlætis og sanngirni, er betri viðskiptavinur, en sá sem finnst hann órétti beittur. Virkur viðskiptamaður er verðmætari fyrir fjármálafyrirtækið, en hinn sem er sífellt á flótta með peningana sína og forðast að greiða skuldir sínar.
Í þriðja lagi eru það siðferðisleg rök. Flest, ef ekki öll, fjármálafyrirtæki tóku á einn eða annan hátt þátt í hrunadansinum. Það er engin afsökun að hafa haft gjaldeyrisjöfnuð í jafnvægi eða hafa ekki ætlað að valda tjóni, dansinn var stiginn taktfastur án þess að hugsað væri fyrir afleiðingunum. Áhættustjórnun fyrirtækjanna brást, of mikil áhætta var tekin og þegar spilaborgin hrundi, þá reyndust viðbragðsáætlanir ekki vera til staðar. Vissulega var hlutur fjármálafyrirtækja misjafn í hruninu, en þeir sem horfðu á og gerðu ekkert til að stoppa ofbeldið eru líka sekir. Það getur því ekkert íslenskt fjármálafyrirtæki talið sig vera saklaust í þessum efnum.
Í fjórða lagi eru það efnahagsleg rök. Þetta eru raunar bara andstæðan við fyrri kostinn. Ef greiðslubyrði lána verður létt með leiðréttingu á höfuðstóli lána, þá eykst neyslan, velta fyrirtækja, skatttekjur, samneysla og við verjum velferðarkerfið. Fleiri verða virkir á fjárfestingamarkaði og verðfall fasteigna stöðvast. Staðið verður vörð um eignir fólks og fyrirtækja. Tiltrúin á hagkerfinu eykst og viljinn til að vera virkur þátttakandi líka. Verulega dregur úr atvinnuleysi og þar með útgjöldum ríkisins til þeirra þátta. Ánægðari þjóðfélagsþegnar skila meiri og betri vinnu og þar með auknum hagvexti. Fólk sér fram á bjartari tíð og að framtíð þess verði best borgið hér á landi. Aukin hagvöxtur og auknar skatttekjur gætu síðan hjálpað við að greiða niður skuldaklafana sem nú hvíla á þjóðinni. Og hvort sem fólk telur það kost eða ókost, aukið líkurnar á skjótri inngöngu Íslands í ESB og upptöku evru.
Leiðréttingin er ódýrari fyrir kröfuhafa
Nú segir einhver að leið tvö sé of kostnaðarsöm og einhver þurfi að borga. Það er bæði rétt og rangt. Leið tvö er ódýrari en leið eitt fyrir þá sem þurfa að bera kostnaðinn. Ástæðan er sú, að sá hluti lánanna sem verður leiðréttur/afskrifaður/færður niður í leið tvö mun hvort eð er að mestu tapast í leið eitt. Þetta er svo kallaður sokkinn kostnaður. Auk þess mun leið eitt hafa í för með sér frekari útlánatöp sem ekki eru komin upp á yfirborðið núna, vegna dvínandi greiðsluvilja, þverrandi greiðslugetu, fjölgun atvinnulausra o.s.frv. Leið eitt mun því í reynd kosta fjármálafyrirtækin meiri afskriftir lána, en leið tvö.
Í mínum huga bendir allt til þess að leið tvö sé leiðin út úr kreppunni. Hún hefur yfirburði yfir leið eitt fyrir alla nema kannski fjármagnseigendur, sem ætla að nýta sér kreppuástandið og brunaútsölur til að komast yfir eignir ódýrt. Fyrir alla aðra er leið tvö hagstæðari. Ég er búinn að nefna lántakendur, fjármálafyrirtækin, fyrirtækin, ríkissjóð og sveitarfélögin, en hvað með lánadrottna fjármálafyrirtækjanna. Gagnvart þeim eru rökin alveg þau sömu og hjá fjármálafyrirtækjunum. Sé greiðslugetu og greiðsluvilja lántakenda (þ.e. heimila og fyrirtækja) haldið við, þá hafa fjármálafyrirtækin meiri tekjur til að nota í uppgjör við lánadrottna sína. Endurheimtur lánadrottnanna verða því betri eftir leið tvö en eftir leið eitt.
Gerðardómur gæti höggvið á hnútinn
Nú vantar bara einhvern með nægilegan kjark til að þróa lausn fyrir skuldara landsins í samræmi við leið tvö. Ég tel fjármálafyrirtækin ekki vera rétta aðilann, a.m.k. án aðkomu annarra, heldur verða lánadrottnar þeirra og fulltrúar neytenda að koma því að skilgreina og útfæra lausnina. Talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason, hefur lagt til gerðardóm sem vettvang slíkrar vinnu. Ég tel það reynandi meðan enginn kemur með betri uppástungu. A.m.k. treysti ég ekki fjármálafyrirtækjum landsins til að koma með sanngjarna og réttláta lausn. Ég treysti ekki heldur stjórnmálamönnum eða embættismönnum. Gerðardómur, þar sem sæti eiga fulltrúar lánadrottna íslensku fjármálafyrirtækjanna, þ.m.t. Íbúðalánasjóðs, fulltrúar neytenda, hlutlausir aðilar skipaðir af Hæstarétti eða lagadeildum háskólanna og síðan fulltrúum fjármálafyrirtækjanna, er leið sem reynandi er að fara. Hvet ég stjórnvöld til að skipa slíkan gerðardóm sem fyrst í samráði við hagsmunaaðila beggja vegna borðsins, sem þá jafnframt gangast undir niðurstöðu hans án undanbragða. Til að tryggja það verður að gæta jafnræðis við skipan dómsins milli þeirra sem gæta hagsmuna neytenda og þeirra sem gæta hagsmuna kröfuhafa.
Marinó G. Njálsson
Höfundur er stjórnarmaður í Hagsmunasamtökum heimilanna og sjálfstætt starfandi ráðgjafi um áhættu- og öryggisstjórnun
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (60)
17.10.2010 | 00:20
Hagfræðingur sendir Hagsmunasamtökum heimilanna tóninn
Þórólfur Matthíassyni, hagfræðingi, virðist eitthvað uppsigað við Hagsmunasamtök heimilanna. Honum er rauna svo uppsiga við þau, að hann reynir að hefja sig yfir þau og tala niður til okkar sem höfum lagt allar okkar frístundir og fórnað talsvert af vinnutíma okkar til að vinna í sjálfboðavinnu fyrir bættum hag heimilanna. Í pistli í Fréttablaðinu fer hann mikinn. Hann byrjar pistilinn á eftirfarandi orðum:
Stjórn samtaka sem kenna sig við hagsmuni heimilanna hefur tekið sér umboð til að krefjast flatrar niðurfærslu húsnæðislánanna.
Um þetta má segja tvennt. Samtökin heita Hagsmunasamtök heimilanna. Við höfum fullan rétt á að nota þetta heiti og þurfum ekki að fá leyfi eins eða neins til þeirrar nafngiftar. Annað er að við tókum okkur ekkert umboð. Stjórnin er kjörin af félagsmönnum á löglega boðuðum aðalfundi. Samtökin eru öllum opin. Tillagan var borin upp á aðalfundi og þar var stjórn veitt heimild til að ljúka útfærslu hennar og koma á framfæri.
Næst segir hagfræðiprófessorinn:
Tvennt er við framgöngu þessara talsmanna heimilanna að athuga. Í fyrsta lagi myndi sú aðgerð sem þeir leggja til duga þeim skammt sem eru í mestum vanda. Því fólki verður að mæta með sértækum úrræðum, afskriftum lána eða öðrum róttækum lausnum hvað svo sem líður almennri niðurfærslu lána.
Greinilegt er að prófessorinn bregst frumskyldu sinni sem fræðimanns. Hann kynnir sér ekki það mál sem hann er að fjalla um. Hagsmunasamtök heimilanna hafa barist fyrir því í mjög langan tíma að farið verði út í almenna leiðréttingu á skuldum heimilanna, svo ekki þurfi eins margir að leita í þau sértæku úrræði sem eru í boði. Er til of mikils ætlast af manni sem situr sem sérfræðingur í nefnd sem hefur eftirlit með framkvæmd laga nr. 107/2009 um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishruns, að hann viti hvað er að gerast í þjóðfélaginu í kringum sig. Ef prófessorinn hefði haft fyrir því að skoða málflutning Hagsmunasamtaka heimilanna, þá vissi hann að samtökin hafa í heilt ár sagt að úrræði sem hingað til hafi verið innleidd dugi ekki, þar sem of mörgum verði með þeim beint í gegn um þau úrræði sem hann hefur í nefndarvinnu sinni haft það hlutverk að hafa eftirlit með. Ég veit ekki betur, en að það hafi verið ein helsta niðurstaða nýútkominnar skýrslu eftirlitsnefndarinnar að of hægt gengi að vinna úr málum fólks og eingöngu 128 einstaklingar hafi komist í gegn um nálarauga fjármálafyrirtækjanna.
Trúir hagfræðiprófessorinn virkilega, að það sé þjóðfélaginu til góða að stórir hópar hafi verulegar skertar tekjur til ráðstöfunar eftir að búið er að greiða af skuldum? Trúir hagfræðiprófessorinn virkilega að gæði lánasafna fjármálafyrirtækja séu það mikil að þau muni lifa á því innheimtuhlutfalli sem þau búa við? Í nýjustu skýrslu AGS segir að innheimtuhlutfallið sé 35% af kröfuupphæð.
Áfram heldur hagfræðiprófessorinn:
Í öðru lagi eru meiri líkur en minni á að aðgerðin skaði efnahagsreikninga heimilanna. Hafa ber í huga að efnahagsreikningur heimilis er mun óræðari stærð en efnahagsreikningur fyrirtækis.
Og þessu til skýringar segir hann:
Sú aðgerð sem hin svokölluðu hagsmunasamtök heimilanna hafa farið fram á felur í sér lækkun á skuldum heimilanna. Afleiðing niðurfærslunnar kæmi fram sem lækkun á eignum lífeyrissjóðanna sem aftur kæmi fram sem lækkun á lífeyrisskuldbindingum. Jafnframt myndi staða Íbúðalánasjóðs versna og ríkissjóður yrði að leggja honum til aukið fjármagn.
(Yfirlæti prófessorsins gagnvart þeim sem vilja ekki viðurkenna forsendubrestinn sem varð nær ákveðnum toppi, þegar hann segir "hin svokölluðu hagsmunasamtök heimilanna". Ætli manninum líði betur við það að gera lítið úr markmiðum og heiti samtakanna?)
Hér klikkar prófessorinn aftur í grundvallarreglum fræðisamfélagsins. Hann kastar fram kenningu um að afleiðingin af niðurfærslunni komi fram sem lækkun á eignum lífeyrissjóðanna, en sannar hana ekki. Mig langar að afsanna hana:
1) Ef gæði lánasafna Íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóðanna verða meiri eftir þá aðgerð sem Hagsmunasamtök heimilanna leggja til, hvernig getur hún leitt til lækkunar á eignum lífeyrissjóðanna. Samkvæmt upplýsingum frá Landssamtökum lífeyrissjóða, þá eru um 10% sjóðfélaga lána í vanskilum eða frystingu. Gefum okkur að þessi tala skiptist jafnt á milli. Næst skulum við skoða hvernig lánþegar fóru að því að halda hinum 90% í skilum. Ein leið var að draga úr neyslu, önnur að greiða ekki af lánum annars staðar og sú þriðja að taka út séreignarlífeyrissparnað. Séreignarsparnaðurinn gaf fólki tekjur upp á 42 milljarða, þar af runnu um 24 milljarðar til þeirra sem tóku út og afgangurinn til ríkis og sveitarfélaga. Nú veit ég ekki hve stór hluti af þessum 24 milljörðum fóru í að greiða af lífeyrissjóðslánum eða lánum Íbúðalánasjóðs, en gefum okkur að það hafi verið helmingurinn í sömu hlutföllum og upphæð lánanna eru, þ.e. 25% í lán lífeyrissjóðanna og 75% í lán Íbúðalánasjóðs. Það þýðir að 3 milljarðar af séreignarlífeyrissparnaði hafa runnið aftur til lífeyrissjóðanna í formi afborgana lána. Miðað við eðlilega greiðslubyrði lána, þá nemur þetta líklegast um 29% af afborgunum ársins (lánin eru 175 milljarðar og 90% í skilum. Greiðslubyrðin er á að giska 5.500 kr. á hverja milljón á mánuði eða alls 10,4 milljarðar á ári og 29% af þeirri tölu gera 3 milljarða og 14 milljónir). Mér sýnist því að láti lántakar lán lífeyrissjóðanna sitja á hakanum á næsta ári sem nemur þessu hlutfalli, þá verði langleiðina 40% af lánum lífeyrissjóðanna annað hvort í frystingu eða vanskilum. Vissulega eiga lífeyrissjóðirnir veð að baki lánunum, en þar sem sjóðirnir eru oft síðari veðhafar, þá mun lækkun fasteignaverðs fyrst bitna á veðum lífeyrissjóðanna. Eignir þeirra í formi sjóðfélagalána munu því rýrna mjög hratt. 40% af 175 milljörðum eru 70 milljarðar. Það er dágóð summa. Hvað ætli tap á 70 milljörðum muni leiða til mikillar skerðingar á lífeyri? Rétt tæp 4%.
2) Störfum mun fækka, þannig að færri greiða í lífeyrissjóði. Atvinnulaus einstaklingur greiðir vissulega í lífeyrissjóð, en það gerir ekki sá sem er utan vinnumarkaðar. Færri einstaklingar standa því undir uppbyggingu sjóðanna, sem þýðir að styttra verður í að sjóðirnir þurfa að ganga á eignir sínar til að greiða út lífeyri.
3) En þetta er ekki búið enn. Eignir Íbúðalánasjóðs hafa rýrnað mikið að undanförnu og munu rýrna ennþá meira á næstu árum, ef ekkert er gert. Þetta kallar á hærri framlög ríkis og þar með skattgreiðenda til sjóðsins. 100 milljarða framlag, sem er líklegast það sem sjóðurinn þarf í dag, er skattahækkun upp á einhver 20 - 25 prósent. Lífeyrisþeginn mun því missa einhvern hluta af lífeyrinum, kannski 5% eða jafnvel meira. Hinn kosturinn er að Íbúðalánasjóður endursemji við lánadrottna sína.
4) Lífeyrissjóðirnir eiga þegar eitthvað af íbúðarhúsnæði sem keypt hefur verið á nauðungarsölum eða tekið upp í uppgjör. Eignaverð hefur farið lækkandi upp á síðkastið, en fasteignamat íbúðarhúsnæðis var um 2.800 milljarðar í árslok 2008. Markaðsverð á þeim tíma var talsvert yfir þeirri tölu, en til einföldunar skulum við nota 2.800 milljarða sem viðmiðunartölu. 10% lækkun á húsnæðisverði þýðir því 280 milljarða lækkun. Miðað við 60% veðsetningu 2008, þá verðmæti veðsins um 168 milljarðar. Nú veit ég ekki hvert er verðmæti þess íbúðarhúsnæðis sem lífeyrissjóðirnir eiga, en það fer greinilega lækkandi í hverjum mánuði.
5) Þá eru það lán fyrirtækja. Það vill nefnilega svo til að lífeyrissjóðirnir lána líka til fyrirtækja. Í lok júlí hljóðuðu þessi lán upp á 140 milljarða. Eftir því sem ástandið í þjóðfélaginu versnar, þá aukast líkur á vanskilum þeirra. Ef eitthvað er að marka tölur AGS, þá er verulegur hluti lána fyrirtækja í vanskilum. Líklegast í kringum 50%, ef ekki allt að 75%. Notum lægri töluna og þá fáum við út að 70 milljarðar af lánum lífeyrissjóðanna til fyrirtækja eru í vanskilum. Veðin eru í fasteignum, en ef verð á íbúðarhúsnæði er í frjálsu falli, þá á ég ekki til orð yfir verð á atvinnuhúsnæði. (Hægt er að fá skrifstofuhúsnæði á besta stað í bænum fyrir vel innan við 1.000 kr. fermetrann.)
Þegar allt þetta er tekið saman, þá er tap lífeyrissjóðanna og sjóðfélaga/lífeyrisþega margfalt meira, ef ekki er farið í þessar leiðréttingar, en ef leiðréttingaleiðin er farin. Ég hvet líka hagfræðiprófessorinn til að kynna sér hugmyndir HH um að skerðingin verði ENGIN hjá þeim sem ekki eiga möguleika á að vinna hana upp, og hækki hlutfallslega eftir því sem lengra er í að sjóðfélaginn komist á lífeyristökualdur. Ekki má síðan gleyma því að mjög margir lífeyrisþegar eru lántakar og fyrir þá þýðir leiðréttingin á höfuðstólnum lækkun greiðslubyrði til langframa.
Annars er ákaflega merkileg villa (vonandi ritvilla) í síðari hluta setningarinnar um lækkun eigna, en þá segir prófessorinn:
sem aftur kæmi fram sem lækkun á lífeyrisskuldbindingum
Ég vona innilega að hér hafi flýtirinn gert prófessornum grikk, því það er ekkert samhengi á milli lífeyrisskuldbindinga og eigna. Lífeyrisskuldbindingar hreyfast ekki í takt við eignir. Það er aftur geta lífeyrissjóðanna til að standa undir skuldbindingunum sem breytist með breytingu á eignum.
Næst fjallar prófessorinn um eitthvað sem á ekkert skylt við tillögur HH og sé ég enga ástæðu til að eyða tíma í það, þ.e. kröfur bankanna á ríkið. Tillögurnar eru nefnilega um grunn að þjóðarsátt og munu því ekki verða að veruleika nema sátt sé um þær.
Næsta atriði skil ég ekki:
Ef bankarnir fá ekki bætur úr ríkissjóði þurfa þeir að auka vaxtamun. Hvaða leið sem yrði farin af hálfu ríkissjóðs og fjármálastofnana yrði ekki komist hjá neikvæðum áhrifum á ráðstöfunartekjur þeirra einstaklinga sem upprunalega átti að bæta. Sagt með öðrum orðum: Tekjuöflunarmöguleikar heimilanna og mannauður þeirra myndi minnka.
Nú skulum við rifja upp að prófessorinn situr í eftirlitsnefnd sem skoðar m.a. ákveðinn þátt í starfsemi bankanna. Hefur hann hvergi rekist á það í starfi sínu eða bara lesið um það að bankarnir fengu ríflega afslætti af lánasöfnunum, þegar þau voru flutt frá gömlu kennitölunni til þeirrar nýju. Samkvæmt tölum AGS voru þetta 420 milljarðar. Inn í þeirri tölu var gert ráð fyrir 137 milljörðum vegna gengistryggðra lána, sem Hæstiréttur hefur nýtt að fullu með dómum sínum 16/6 sl. Þá standa eftir 293 milljarðar og hugmyndir HH ganga út á að um 70 milljarðar af þeirri upphæð verði notuð í að leiðrétta verðtryggð lán. Vissulega gætu fjármálafyrirtækin tapað einhverju af framtíðartekjum vegna gengistryggðra lána, þar sem ekki er gert ráð fyrir að þau beri lægstu óverðtryggðu vexti Seðlabanka Íslands, en fylgi í stað lægstu verðtryggðu vöxtum með þaki á verðbætur. Ég er aftur sannfærður um að bætt innheimtuhlutfall geri gott betur en að vinna það upp.
Þá eru það lokaorð prófessorsins, fyrir utan síðustu setninguna:
Flöt niðurfærsla húsnæðislána myndi því ekki aðeins lækka skuldir heimilanna, hún myndi einnig hafa mikil neikvæð áhrif á eignahliðinni. Efalítið yrði staða sumra heimila örlítið skárri eftir niðurfærslu en var áður. En fyrir mörg önnur heimili yrði niðurstaðan neikvæð. Flöt niðurfærsla húsnæðislána er því ekki fallin til að bæta stöðu heimilanna í landinu, þvert á móti.
Nú er ég viss um að prófessorinn er að reikna í raunvöxtum, enda hagfræðingur. Ég veit að reiknilíkön hagfræðinnar vilja taka heildargreiðsluflæði líftíma aðstæðnanna og núvirðisreikna. En gallinn er að óvissuþættirnir eru svo margir, að núvirðið getur tekið margar niðurstöður. Mitt sérsvið er aðgerðarannsóknir. Ég lærði að nota hagfræðilíkön og setja inn í þau ólíkar forsendur um þróun á því tímabili sem er til skoðunar. Okkur var uppálagt að skoða bestu lausn og verstu lausn og safn punkta þar á milli. Fullyrðing Þórólfs Matthíassonar fengi falleinkunn í mínu fagi, þar sem hún er algjörlega ósönnuð, ekki studd neinum rökum og engin næmnigreining er gerð á henni. Ég tel mig hafa afsannað fullyrðinguna, þó ég sýni vissulega ekki næmnigreiningu á niðurstöðum mínum, en valdi að taka líklegustu niðurstöðu hverju sinni og síðan rauntölur.
Þá er það lokasetningin:
Og eftir stæði að vandi þeirra heimila sem ekki geta greitt af skuldum sínum nú væri enn óleystur.
Nú erum við sammála, en þó bara upp að vissu marki. Málið er að verði farið að hugmyndum HH eða einhverri útfærslu á þeim, þá hefur þeim heimilum fækkað mjög mikið sem ekki geta greitt af skuldum sínum. Til þess var leikurinn gerður, ekki til að bjarga öllum. Slíkt er ekki gerlegt með almennum aðgerðum og nauðsynlegt að grípa til sértækra, m.a. þeirra sem Þórólfur Matthíasson hefur af kostgæfni og fagmennsku (að ég best veit) haft eftirlit með.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
16.10.2010 | 11:07
Þegar menn kynna sér ekki málin er niðurstaðan eftir því
Hann er örugglega vel að sér í eignarréttarákvæðinu, Karl Axelsson, hæstaréttarlögmaður og dósent við lagadeild HÍ, en hefur greinilega ekki kynnt sér tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna. Ég veit að hann hefur ekki fengið kynningu á þeim frá samtökunum og ekki hefur hann beint neinni fyrirspurn til okkar svo ég viti.
Þrátt fyrir að enginn af stjórnarmönnum HH sé löglærður, þá erum við ekki fávitar. Auðvitað vissum við, að yrði leiðréttingin framkvæmd með lögum, þá væri hún bótaskyld. Maður þarf ekki að vera dósent við HÍ til að vita það. Þess vegna segjum við að þessu þurfi að ná fram með samningum og sátt. Þess vegna heita tillögur okkar Grunnur að þjóðarsátt.
Annars finnst mér merkilegt, að engum dósent við lagadeild HÍ hefur dottið í hug að stinga niður penna og tjá sig um hvort aðgerðir bankanna á árunum fyrir hrun hafi verið sviksamleg og ólögleg aðferð til að hafa peninga af fólki, fyrirtækjum, ríkissjóði og sveitarfélögum. En um leið og eitthvað á að gera til leiðrétt þann fáránleika, þá spretta sérfræðingarnir upp úr öllum holum og öskra "lögbrot, lögbrot". Samkvæmt þeirri rökhyggju, sem ég hef heyrt frá nokkrum lögspekingum, þá er í lagi að hafa peninga af fólki með svikum og lögbrotum ef fjármálafyrirtæki er að verki, en ef farið fram á að illa fengnu fé sé skilað, þá er það lögbrot. Merkilegt að eignarréttur minn er ekki varinn ef eftirlitsskylt fjármálafyrirtæki setur upp svikamylluna, en ef það er fyrirtæki sem ekki er í fjármálabransanum, þá er það lögbrot og lögreglan hjálpar mér að endurheimta féð. Þau lög sem verja eignarrétt lögbrjóta eru heimskuleg og þeim á að breyta. Ég tel 72. gr. stjórnarskrárinnar ekki verja þennan eignarrétt. Hún gerir ráð fyrir í samræmi við anda stjórnarskrárinnar, að verið sé að verja þegnanna fyrir órétti. Ekki sé verið að tryggja að þeir sem höguðu sér með ósiðsamlegum og ólöglegum hætti geti krafist eignarhalds á þeim grundvelli.
Það sama má reyndar segja um hagfræðinga Samfylkingarinnar sem láta aldrei heyra í sér nema til að verja ósómann. Af hverju eruð þið að berjast gegn því að illa fengnu fé sé skilað til eigenda sinna? Ég verð að segja eins og er, að ég hef ekki séð nein hagfræðileg rök, bara stóryrði á borð við "fáránlegt", "bull", "argasta vitleysa", o.s.frv. Ég held að ekkert af þessum orðum flokkist undir rökstuðning við hagfræðikenningar. Sýnið með útreikningum hvers vegna þið notið þessu stóru orð, vegna þess að hagfræðingar sem eru sérfræðingar í fjármálakreppum eru ykkur ekki sammála. Ríkisstjórn Bandaríkjanna er ykkur ósammála. Hagfræðingar við Seðlabanka Íslands hafa sagt að þau lönd sem hraðast vinna sig út úr fjármálakreppu eru þau sem taka hratt og vel á skuldavandanum sem fylgir.
Nú skora ég á alla sérfræðingana, sem hafa galað sem hæst, að í fyrsta lagi kynna sér hugmyndir Hagsmunasamtaka heimilanna og í öðru lagi er ég tilbúinn að hitta þá og ræða málin. Svo vil ég benda á, að lausn skuldakreppu eins og þeirrar sem við eru í snýst ekki síst um siðfræði, manngildi og sanngirni. Ekkert af þessu rúmast innan lögfræðinnar eða hagfræðinnar.
Niðurfærsla talin bótaskyld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (52)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 0
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 51
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 46
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði