Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009
27.2.2009 | 20:28
Furðuheimar bílalánasamninga
Ég get ekki annað en furðað mig á þessum sögum sem flæða yfir okkur um uppgjör bílalánasamninga. Ef bílum er skilað, þá er verð bílsins fyrst lækkað í samræmi við markaðsverð og síðan er það lækkað vegna viðgerðarkostnaðar, ástandsskoðunar, þrifa, affalla, sölulauna, kostnað við uppgjör og geymslukostnað. Hugmyndaflugi bílalánafyrirtækjanna er greinilega engin takmörk sett.
Skoðum aðeins þessa frádrættarliði:
Markaðsverð: Það er sjálfsagt og eðlilegt að afföll verði á verði bifreiðarinnar og það ætti að endurspegla ástand bifreiðarinnar. Besta mál
Viðgerðarkostnaður: Bílar eru í ábyrgð í allt að 3 ár og sumir jafnvel lengur. Hafi bíllinn ekki lent í tjóni, þá á mest allur, ef ekki allur, viðgerðarkostnaður að falla undir ábyrgð. Sé rukkað fyrir slíkan kostnað er í mínum huga verið að svína á fyrri eiganda. Einnig er gert ráð fyrir í markaðsverði bifreiðarinnar að hann hafi verið notaður. Allt annað er ósanngjarnir viðskiptahættir og samningar því hugsanlega riftanlegir án þess að lánþegi beri nokkuð tjón af. Rukkun fyrir þennan lið er því í mínum huga ekkert annað en svik.
Ástandsskoðun: Almenna reglan í bílaviðskiptum er að sá sem biður um ástandsskoðunina greiði fyrir hana. Ef ekki er getið um það í samningnum að lántaki greiði, þá á þessi kostnaður að falla á lánafyrirtækið.
Þrif: Sé bíll gerður upptækur og eiganda ekki gefið færi á að þrífa bílinn, þá getur lánafyrirtækið varla staðið á því að rukka fyrir þrif.
Afföll: Þessi liður er djók. Það er búið að taka tillit til affalla í markaðsverði. Hvernig er hægt að reikna þau aftur inn í þessum lið?
Sölulaun: Annar liður sem er gjörsamlega óskiljanlegur. Bifreiðin er tekinn af eigandanum vegna vanskila. Það var ekki verið að kaupa hann eða selja. Hann var ekki boðinn upp. Hér er í mínum huga annar liður sem er ekkert annað en tilraun til að búa til kostnað.
Kostnaður við uppgjör: Hvernig getur kostnaður við uppgjör numið tugum þúsunda, þegar það er bara prentað út úr tölvu af starfsmanni sem er með 2.500 kr. á tímann. Það er ljóst að bílalánafyrirtækin kannast ekki við nýleg innheimtulög. Aðeins má rukka fyrir sannanlega útlagðan kostnað.
Geymslukostnaður: Hugsanlega sanngjarn kostnaður, ef hann er raunverulegur.
Mér sýnist margt í furðuheimum bílalána benda til þess að bílana megi ekki nota. Þá eigi að geyma undir dúk inni í bílskúr sem enginn gengur um.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
27.2.2009 | 12:27
Hvar er skjaldborgin um heimilin?
Tíminn líður hratt og nú eru réttar 4 vikur frá því að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við. það var minna kossaflens í kringum hana og fáar yfirlýsingar. Þær sem komu voru þó afdráttarlausar:
Slá skal skjaldborg um heimilin
Nú spyr ég: Hvar er skjaldborgin? Lögð hafa verið fram lagafrumvörp um stöðvun aðfara og nauðungaruppboða til 31. ágúst 2009 og frumvarp um greiðsluaðlögun. Þau eru stopp í nefnd og er ekki vitað hvenær þau koma þaðan út.
Ég auglýsi eftir aðgerðum sem nýtast heimilunum og fyrirtækjunum í landinu. Nei, ég krefst aðgerða af hálfu ríkisvaldsins og fjármálafyrirtækja, sem koma til móts við síversnandi efnahag heimilanna og fyrirtækjanna. Um þessar mundir eru 12 mánuðir síðan hrun krónunnar hófst. Það eru 18 mánuðir síðan fyrsta "verðbólguskotið" kom. Og á þessum 12 - 18 mánuðum hefur ríkisvaldið EKKERT gert til að hjálpa heimilum og fyrirtækjum í landinu. Það eina sem kemur er "Það er ekki hægt.." Hér er röng hugsun í gangi. Í staðinn fyrir að segja "þetta er ekki hægt", þá á spyrja "hvernig getur við farið að þessu" og "hver er ávinningurinn af því að fara þessa leið".
Þjóðfélagið er fullt af fólki sem er til í að tala allar hugmyndir niður. Gefum því frí núna og virkjum fólkið sem er með hugmyndirnar. Notum aðferðir hugflæðifunda við að leita lausna, en þá er fyrst öllum hugmyndum hent fram og er bannað á því stigi að gagnrýna hugmyndirnar. Næst eru hugmyndir flokkaðar og þær efnilegustu útfærðar nánar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
26.2.2009 | 15:21
Á óvenjulegum tímum duga engin venjuleg ráð
Í dag sendu Hagsmunasamtök heimilanna sendur frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu í dag:
Á óvenjulegum tímum duga engin venjuleg ráð
Hagsmunasamtök heimilanna telja tillögur Framsóknarflokksins í efnahagsmálum, sem fela m.a. í sér almennar aðgerðir vegna skuldavanda þjóðarinnar, skref í rétta átt þó útfæra þurfi þær frekar. Hagsmunasamtök heimilanna hafa lagt ríka áherslu á að gripið verði til almennra aðgerða þar sem jafnræði og jöfnun áhættu milli lánveitenda og lántakenda sé höfð að leiðarljósi.
Tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna eru m.a.:
Leiðrétting á gengistryggðum íbúðalánum
Lýsing: Gengistryggðum íbúðalánum verði breytt í verðtryggð krónulán.
Útfærsla: Boðið verði upp á að gengistryggð íbúðalán verði umreiknuð sem verðtryggð krónulán frá lántökudegi einstakra lána.
Leiðrétting á verðtryggðum íbúðarlánum
Lýsing: Verðbótaþáttur íbúðalána verði endurskoðaður frá og með 1. janúar 2008.
Útfærsla: Verðbótaþáttur, frá og með 1. Janúar 2008, takmarkist við efri mörk verðbólgumarkmiðs Seðlabanka Íslands, eða að hámarki 4%. Aðgerð þessi er fyrsta skrefið í afnámi verðtryggingar.
Hagsmunasamtök heimilanna hvetja stjórnvöld til að afgreiða frumvörp laga um frestun fullnustuaðgerða og greiðsluaðlögun sem allra fyrst.
Ávinningur af aðgerðum þessum:
· Fjöldagjaldþrotum heimilanna og stórfelldum landflótta afstýrt
· Spornað við frekari hruni efnahagskerfisins
· Jákvæð áhrif á stærðar- og rekstrarhagkvæmni þjóðarbúsins
· Líkur aukast á að hjól atvinnulífsins og hagkerfisins haldi áfram að snúast þar sem fólk mun hafa ráðstöfunartekjur til annarra útgjalda en afborgana af lánum
· Þjóðarsátt um vanda heimilanna vegna efnahagskreppunnar
· Traust almennings í garð stjórnvalda og fjármálastofnanna eflist á ný
Hagsmunasamtök heimilanna skora á stjórnvöld að tilkynna nú þegar um þær aðgerðir sem stjórnvöld muni grípa til, hvernig þær aðgerðir verða útfærðar og hvenær þær komi til framkvæmda.
26. febrúar 2009
Hagsmunasamtök heimilanna
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.2.2009 | 15:17
Saga af venjulegum manni
Ég hef margoft talað um hina miklu eignaupptöku sem er að eiga sér stað í skjóli verð- og gengistryggingar. Í leiðinni hef ég gagnrýnt að ábyrgðin á gengis- og verðbreytingum sé öll hjá lántakendum, sem hafa takmörkuð eða engin áhrif á þróun gengis og verðlags. Ýmsir (líklegast flestir úr hópi þeirra sem fengu spariféð sitt bætt að fullu við fall bankanna) hafa verið að hnýta í þessa gagnrýni mína og sagt að fólk hafi átt að kunna fótum sínum forráð og því sé nær að taka lán.
Mér barst í dag bréf frá manni lýsir stöðu sinni og hef ég fengið leyfi hans til að birta það. það sem hann lýsir er nákvæmlega raunveruleiki mjög margra landsmanna. Hægfara eignaupptaka sem mun eingöngu enda á einn hátt, verði ekki gripið inn í. Almenningur mun ekki eiga neitt. En hér er bréfið:
Sæll Marinó.
Ég og fjölskylda mín eru ein af fjöldamörgum sem er í þeirri aðstöðu að hafa nýlega keypt húsnæði fjármögnuðum að hluta með verðtryggðum lánum.
Við höfum verið varkár í okkar fjárfestingum, við höfum aldrei tekið bílalán og höfum aldrei fjármagnað daglega neyslu með lánum. Öll okkar lán snúa að því að koma þaki yfir höfuðið á okkur og börnunum okkar 5.
Við erum með tekjur fyrir neðan meðallag og hefur neysla okkar alltaf miðast við þá staðreynd.
Við keyptum hús fyrir 48 milljónir, áttum u.þ.b. 20 milljónir sem okkur hafði tekist að nurla saman með miklu harki og vinnuálagi. Afgangurinn var fjármagnaður með verðtryggðu láni frá Kaupþing. Nú hafa þessi lán hækkað um tæplega 8 milljónir, á þessum síðustu árum, launin okkar hafa ekkert hækkað á sama tíma. Það má segja að lánin séu á góðri leið með að éta upp helming þess sem við áttum jafnvel þó að ekki sé tekið tilllit til lækkunar fasteignaverðs.
Maður á hús og svo nokkrum árum seinna á maður ekki hús, bankinn á það. Er þetta ekki eignatilfærsla? Svo maður noti vinsælt orð hjá hagfræðingum.
Ég get ekki fyrir nokkra muni skilið afstöðu meirihluta hagfræðinga, að telja að verðtryggingin sé eitthvað sem megi alls ekki snerta á nokkurn hátt. Eftir því sem ég skoða þessi meira finnst mér ég alltaf komast að því að meira og meira að verðtrygging, við aðstæður eins og þær eru í þjóðfélaginu í dag, gengur ekki upp og mismunar fólki stórlega eftir eigna og skuldastöðu.
Það er margt óskiljanlegt í afstöðu þeirra,t.d. það er eins og þeir ímyndi sér að um leið og kreppunni ljúki þá rjúki kaupmáttur fyrirvaralaust í það sem hann var, og þar með verði greiðslubyrðin sambærileg. Ég held því fram að það sé óhugsandi, þeir sem skammta sér sín laun sjálfir munu vitanlega hækka þau asap, en fyrir aðra, þá sem þurfa að reiða sig á kjarasamningaleiðina, þá mun þetta taka allt upp í tugi ára að byggja upp sama kaupmátt, að því gefnu að Íslandi komist úr þessari stöðu í bráð.
Einnig er mér fyrirmunað að skilja afstöðu verkalýðsfélaganna, sem virðast eingöngu hafa að leiðarljósi hagsmuni eldri kynslóðarinnar og virðast kæra sig kollótta um það að sú kynslóð sem vinnur að því núna að koma þaki yfir höfuðið mun missa allt sem hún átti í þessari sérstæðu stöðu sem þjóðfélagið er í og þeir aðilar sem ekki fara hreinlega á hausinn munu sitja eftir í nokkurskonar skuldafangelsi það sem eftir er ævinnar.
Þetta er því miður alltof algengt í dag og skilningsleysi yfirvalda er eiginlega yfirþyrmandi. Það þarf að leita lausna. Hagsmunasamtök heimilanna hafa komið með tillögur að lausn, sem felst í því að setja afturvirkt þak á verðbætur, þannig að verðbætur takmarkist við 4% frá 1. janúar 2008 og gengistryggð lán verði færð yfir í verðtryggð lán miðað við höfuðstól á útgáfudegi. Framsókn kom fram með sína tillögu um 20% flata niðurfærslu og hefur Bjarni Benediktsson (sem er líklegast næsti formaður Sjálfstæðisflokksins) sagst vera hrifinn af þeirri hugmynd. (Ég myndi setja þak á niðurfærsluna við segjum 20 milljónir á hvern einstakling (40 milljónir á hjón) og síðan 5 milljónir til viðbótar fyrir hvert barn undir 18 ára aldri. Einnig myndi ég setja þak á fyrirtæki en það er flóknara að útfæra.) Það er allt betra en að stórhluti heimila í landinu missi húsnæði sitt á nauðungarsölu, því þannig endar þetta verði höfuðstóll lánanna ekki lækkaður með handafli.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.2.2009 | 10:46
Verðbólgan leyfir mikla lækkun stýrivaxta
Það er gott að verðbólgan er aftur farin að vera fyrirsjáanleg. Þó verðbólgan sé ennþá talsverð, þá er 3 mánaða verðbólguhraðinn kominn niður í 10,9% sem mér finnst vera sterkasta vísbending um að hægt sé að lækka stýrivexti verulega. Hér áður fyrr voru sterkustu rök fyrir háum stýrivöxtum "verðbólgu þrýstingur og þensla", en nú er hvorugt til staðar og því tel ég að lækka megi stýrivexti niður í 12,5% og samt viðhalda sama mun á stýrivöxtum og 3 mánaða verðbólgu og var fyrir mánuði. Slík lækkun gæti verið sem vítamínsprauta fyrir atvinnulífið.
(Skýring: 3 mánaða verðbólga er verðbólga síðustu þriggja mánaða færð yfir á heilt ár.)
Mér finnst menn líta framhjá því við hagstjórnina, að það eru í reynd bara tveir mánuðir á síðasta ári sem eru að halda uppi verðbólgutoppunum. Án þeirra værum við að tala um 3-4% lægri verðbólgu að minnsta kosti. Þetta snertir stýrivextina sérstaklega.
Ég er með lítið "líkan" þar sem ég leik mér með verðbólgutölur. Það byggir á sögulegum breytingum og ágiskunum, en hefur reynst mér ágætlega við að gera spár um verðbólgu næstu 6 - 12 mánaða. Í líkaninu mínu hef ég alveg frá því í desember gengið út frá því að hækkun vísitölu milli janúar og febrúar yrði 0,60% sem er nokkuð nærri lagi. Nú ég er bjartsýnn fyrir næsta mánuð og spái 0,25 - 0,40% breytingu á milli febrúar og mars, sem gefur okkur í kringum 16,25% ársverðbólgu. Stóra stökkið kemur síðan í apríl, en þá spái ég að ársverðbólgan verði komin niður fyrir 13%. Það mikilvægasta í mínum huga er að 3 mánaða verðbólgan verður komin niður fyrir 6% í mars og niður fyrir 4,5% í apríl.
Þetta er að sjálfsögðu allt byggt á því að draumatölurnar verði dregnar út úr lottói verðlagsbreytinganna.
Verðbólga mælist 17,6% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.2.2009 | 01:22
Það er víst hægt að færa lánin niður
Nú eru menn farnir að rífast um það hvort hægt sé að færa niður lán heimilanna um 20% eins og Framsókn gerir tillögu að. Forsætisráðherra segir slíkt setja Íbúðalánasjóð á hausinn og Henny Hinz hjá ASÍ telur þær of kostnaðarsamar. Mér finnst hvorugur aðili líta á heildarmyndina. Þessi 20% sem Framsókn stingur upp á er u.þ.b. 20% af þeim afskriftum sem Kaupþing og Landsbanki hafa þegar boðað að verði afskrifað af innlendum útlánum bankanna. Þessi 20% eru svipuð tala og ætlunin er að nota til að bjarga Seðlabankanum. Þessi 20% eru vel innan við þá upphæð sem ríkissjóður ætlar að leggja bönkunum til í nýtt eigið fé.
Ég skil svo sem áhyggjur fólks af því að þetta sé há upphæð ein og sér, en mig langar að skoða leiðir til að framkvæma þetta án þess að það kosti ríkið eða skattgreiðendur of mikið til viðbótar við það sem þegar hefur verið ákveðið. Fyrir þessu eru fyrst og fremst tvær ástæður:
A. Gömlu bankarnir eru þegar búnir að ákveða að færa niður lánasöfnin sem færð verða inn í nýju bankana. Fram kemur í gögnum frá Kaupþingi að heildar niðurfærsla lánasafna Nýja Kaupþings muni nema 935 milljörðum til viðbótar þeim 19 milljörðum sem þegar höfðu verið færð á afskriftarreikning. Landsbankinn ætlar að færa sín lánasöfn niður um 1.452 milljarða, auk þess sem "[l]ánasöfnin sem voru færð yfir í nýja bankann hafa líka verið færð heilmikið niður", eins og Morgunblaðið hefur eftir Lárusi Finnbogasyni formanni skilanefndar bankans. Það er svo sem ekki skilgreint hve mikið lánasöfn NBI hafa verið færð niður, en "heilmikið" hlýtur að vera mælt í tugum prósenta.
B. Ríkissjóður ætlar að "kaupa" eitruð skuldabréf að andvirði 345 milljarða af Seðlabankanum fyrir 270 milljarða. Skuldabréfin voru lögð fram af smærri fjármálafyrirtækjum sem trygging vegna lána þeirra hjá Seðlabankanum. Þau eru flest, ef ekki öll gefin út af stóru bönkunum þremur og geng ég út frá því í máli mínu hér á eftir. Ríkissjóður áætlar að afskrifa þessi skuldabréf þegar um 220 milljarða.
Ég legg til að eftirfarandi leið verði farin:
- Ríkissjóður kaupi skuldabréfin af Seðlabankanum eins og fyrirhugað er, en afskrifi þau ekki.
- Ríkissjóður skipti á skuldabréfunum fyrir lán heimilanna hjá smærri fjármálafyrirtækjum að andvirði 345 milljarða í réttu hlutfalli við hlutdeild útlána hvers fjármálafyrirtækis fyrir sig til heimilanna. Verðmæti lánanna fyrir ríkissjóð er 270 milljarðar. Helmingurinn af þessum 270 milljörðum verði afskrifaður, ásamt þessum 75 milljörðum sem fékkst í afslátt. Afgangurinn, 135 milljarðar, verði frystir í 5 til 10 ár á 3% óverðtryggðum vöxtum, en komi þá til innheimtu samkvæmt reglum sem um þetta verða settar. Einnig mætti hugsa sér að þessi upphæð verði afskrifuð smátt og smátt á löngum tíma. Fjármálafyrirtækin eignast skuldabréf frá gömlu bönkunum.
- Nýju bankarnir greiða smærri fjármálafyrirtækjunum upp skuldir sínar, þ.e. greiða 345 milljarða og fá í staðinn skuldabréfin.
- Nýju bankarnir draga úr fyrirhugðum afskriftum sínum sem nemur þessum 345 milljörðum (nemur líklegast um 12% af afskriftum nýju bankanna).
- Næst geri ég ráð fyrir að bankarnir (bæði gömlu og nýju) eigi húsnæðisbréf gefin út af Íbúðalánasjóði. Lagt er til að bankarnir afskrifi hluta af þessum skuldum, t.d. aðra 345 milljarða, og nýti meðal annars þegar fram komnar tillögur um niðurfærslu á skuldum annarra lánastofnana við bankana.
- Nýju bankarnir leyfa öllum lántakendum að njóta strax góðs af niðurfærslu lánasafna, sbr. það sem haft er eftir Lárusi Finnbogasyni að ofan.
- Íbúðalánasjóður færi niður húsnæðislán um 345 milljarða.
Niðurstaðan:
1. Seðlabankinn fær 270 milljarða í nýtt "eigið fé", eins og hann hefði fengið eftir hugmyndum ríkisstjórnarinnar.
2. Breytingar á eignastöðu smærri fjármálafyrirtækja er á núlli. Þ.e. 345 milljarðar inn og 345 út í viðskiputm við ríkissjóð, síðan 345 milljarðar út og 345 inn í uppgjöri við bankana.
3. Breytingar á eignastöðu Íbúðalánasjóðs er á núlli, þ.e. 345 milljarðar í lækkun skulda hjá bönkunum og 345 milljarðar í lækkun útistandandi skulda.
4. Breytingar á eignastöðu nýju bankanna eru flóknari. Þeir hafa greitt 345 milljarða vegna skulda gömlu bankanna, en í staðinn voru fyrirhugaðar afskriftir lækkaðar um 345 milljarða. Þannig að það kemur út á núlli. Þá er spurningin um húsnæðisbréf gefin út af Íbúðalánasjóði. Þar er um að ræða 345 milljarða sem ýmist falla undir fyrirhugaðar afskriftir við fjármálafyrirtæki eða myndu draga lítillega úr afskriftum lána til viðskiptavina. Nettó breyting hjá þeim er því engin.
5. Breytingar á stöðu ríkissjóðs velta á því hve stór hluti af 135 milljörðunum fást greiddir saman borið við 50 milljarðana, sem ekki átti að afskrifa.
6. Skuldir heimilanna hafa verið lækkaðar um 555 milljarða, auk þess sem kemur út úr niðurfærlsu lánasafna bankanna. Það sem meira er þetta kostaði ríkissjóð, Íbúðalánasjóð og smærri fjármálafyrirtæki ekki neitt aukalega og bankarnir hafa eingöngu nýtt hluta af þegar ákveðnum afskriftum. Þessu til viðbótar eru talsverðar líkur á að ríkissjóður geti innheimt stærri hluta af skuldabréfum heimilanna, en gert var ráð fyrir að hægt væri að innheimta af skuldabréfum bankanna.
Ég er viss um að nú koma einhverjir fortölumenn og segja að ekki eigi að bjarga þeim sem fóru of geyst í lántökum eða ekki þarf að bjarga. Ég hef nokkur mótrök við því:
- Flestir sem tóku lán gerðu það í ljósi þeirra spáa sem komu frá fjármálafyrirtækjunum og fjármálaráðuneytinu. Allir þessir aðilar gáfu út spár um nokkuð stöðugt verðlag og að þó svo að gengið væri eitthvað ofmetið, þá væri væntanleg lækkun þess ekki meiri en 10%.
- Það verður ekki öllum bjargað með þessum aðgerðum, en þetta mun duga fyrir mjög marga.
- Öllum innistæðueigendum var bjargað, þó svo að ljóst var að einhverjir hefðu þolað talsverðan skell. Áður en neyðarlögin voru sett, þá voru tryggingar þeirra bara upp á um 3 milljónir en allt var bætt. Með þessu var sparnaðarformum mismunað.
- Verði skuldabyrðin ekki minnkuð, þá mun stór hluti skuldara fara í gjaldþrot og eignir þeirra á nauðungaruppboð. Eftir uppboðin munu kröfuhafar þurfa að afskrifa háar upphæðir sem verða ekki bættar nema hægt verði að elta skuldara til eilífðarnóns.
- Fjölskyldur munu fara á vergang eða eiga þann einn kost að fara á leigumarkaðinn, þar sem eigið fé þess er uppurið. Það mun taka fjölskyldur mörg ár að safna nægilegu eigin fé til að geta fjárfest aftur í hentugu húsnæði. Þetta mun hrekja fólk úr landi í stórum stíl.
- Veltan í hagkerfinu mun minnka, þar sem þeir sem ennþá halda heimilum sínum, þurfa að nota sífellt stærri hluta tekna sinna til að greiða af lánum sínum. Minnkandi velta mun hafa áhrif á stöðu fyrirtækja, atvinnustig og samneysluna. Staða ríkissjóðs mun versna og brestir koma í velferðarkerfið. Kreppan mun dýpka.
Ég geri mér grein fyrir að tillögur mínar þarfnast frekari útfærslu, en tel þær jafnvel í þessari einfölduðu mynd hafa mikla yfirburði yfir aðra kosti.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
23.2.2009 | 12:56
25% af ráðstöfunartekjum þrátt fyrir frystingu lána!
Morgunkorn Greiningar Íslandsbanka birtir hér áhugaverðar tölur. Á tveimur árum óx hluti afborgana og vaxta um þriðjung af ráðstöfunartekjum, þrátt fyrir launahækkanir í þjóðfélaginu. Þessar launahækkanir voru ríflega 8% á milli ára frá 2006 til 2008 eða hátt í 17%. Miðað við þetta, þá hafa afborganir og vextir lána hækkað um nærri 50% á þessum tíma og þetta gerist þrátt fyrir að allir sem mögulega gátu frystu lán sín síðustu 2-3 mánuði ársins, ef ekki lengur.
Mér finnst þessi niðurstaða vera uggvænleg, þó hún geri ekkert annað en að staðfesta skoðun mína og aðvaranir frá því í fyrra vor á alvarlegri stöðu heimilanna. Það sem meira er, að meðan bankarnir soga til sína sífellt hærri hluta af ráðstöfunartekjunum, þá fer minna í einkaneyslu. Minni einkaneysla bitnar á tekjuöflun fyrirtækja, sem dregur úr getu þeirra til að greiða laun. Allt virkar þetta síðan á tekjur ríkissjóðs, dregur úr samneyslunni og þar með þjónustustigi velferðarkerfisins.
Stjórnvöld og stjórnendur fjármálafyrirtækja verða að fara að vakna til meðvitundar um að þetta gengur ekki. Það gengur heldur ekki að lengja í lánum nema þess sé gætt að heildargreiðslubyrðin aukist ekki. Já, ætli menn að lengja í lánum, þá verður að gera það á lægri vöxtum! Best er að fara niðurfærsluleið, þ.e. færa niður höfuðstóla lána.
Ég reiknaði það út um daginn, að líklegast væru 700 milljarðar af 2.000 milljarða skuldum heimilanna vegna verð- og gengistryggingar frá árinu 2000. Þ.e. upphæð sem lagst hefur ofan á höfuðstól lánanna vegna verðbólgu og falls krónunnar. Ég bar þessa tölu í gær undir Ingólf H. Ingólfsson hjá Spara.is og hann taldi þetta vera nokkuð nærri lagi. Þessir 700 milljarðar eru axlabönd og belti lánveitenda sem lántakendur verða að borga. Ef þessir 700 milljarðar væru ekki á lánunum okkar, þá væri staða heimilanna bara mjög góð. Þá væri greiðslubyrði sem hluti af ráðstöfunartekjum vel undir 18%, sem verður að teljast mjög viðunandi.
Ég er ekki að búast við því að allir þessir 700 milljarðar hverfi af lánum heimilanna. Ég tel hins vegar að hægt verði, ljósi fyrirhugaðra afskrifta nýju bankanna, að skera vel ofan af þessari tölu. Bara Nýja Kaupþing og NBI (Nýi Landsbankinn) virðast ætla að afskrifa rúmlega 2.050 milljarða af útlánum gömlu bankanna hér innanlands. Mér sýnist sem borð sé fyrir báru hjá bönkunum koma til móts við viðskiptavini sína. Við megum ekki gleyma því að greiningardeildir þessara sömu banka lögðu áherslu á það í hagspám sínum ár eftir ár, að búast mætti vð hæfilegri verðbólgu hér og að þó krónan væri hátt skráð um tíma, þá væri mætti ekki búast við að gengisvísitalan færi ofar en 127 -130. Svartsýnasta spá sem ég sá framan af ári 2008 var að jafnvægisgengi væri í gengisvísitölu upp á 135.
Ég gerði ráð fyrir því, þegar ég tók mín lán, þegar gengisvísitalan stóð í 112 til 120, að hún gæti farið upp í 132-135. Með því fannst mér ég vera nokkuð raunsær eða eigum við að segja skrambi svartsýnn. Þetta voru mínar væntingar og það sem meira er, þetta voru væntingar lánveitandans. Ég hafði engin tök á því að stjórna framhaldinu, en það gátu lánveitendur mínir (a.m.k. sumir). Ég var því í ósanngjarnri stöðu gagnvart þeim og spurningin er hvort slíkt gefi tilefni til afturvirkrar riftunar á verð- og/eða gengistryggingaskilmálum samninganna. Þetta hafa lögfræðingar bent mér á og telja góðan grundvöll fyrir riftunarmáli á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Mér þætti betra, ef fjármálafyrirtæki byðust til að semja um þessa hluti, einfaldlega vegna þess, að þeim er meiri akkur í því að fólk greiði reglulega af 60% lánanna, en að það greiði ekkert af 100% þeirra. Kalla ég eftir umræðum um lausn þessara mála, þar sem allir aðilar komi að borðinu og öll spil verði lögð á borðið.
Fjórðungur tekna í afborganir og vexti af lánum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.2.2009 | 19:17
Ræðan mín í dag
Ég er búinn að setja ræðuna mína frá því í dag inn á bloggið mitt og er hana að finna hér:
Stöndum vörð um heimilin - Ræða flutt á Austurvelli 21.02.2009
Tuttugasti útifundurinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.2.2009 | 17:19
Stöndum vörð um heimilin - Ræða flutt á Austurvelli 21.02.2009
Það er komin ný ríkisstjórn og það örlar á breytingum, enda tími til kominn. Um þessar mundir er tæpt ár frá því að efnahagslífið tók sína fyrstu skörpu dýfu sem endaði í hruninu í haust. Það var nefnilega í mars á síðasta ári sem krónan féll og verðbólgan fór verulega á skrið. Samt er verið að telja okkur trú um að fyrst og fremst þurfi að leysa vandann vegna hruns bankanna. Það er bara ekki satt. Vissuð þið að verðbólga frá janúar fram í maí í fyrra var meiri en á jafn mörgum mánuðum frá september í haust fram í janúar á þessu ári. Það munar umtalsverðu. Svo segja menn að það þurfi ekki að leysa vandann sem skapaðist fyrir hrunið. Ég heyri fólk meira að segja kvarta yfir því verið sé að bjarga þeim sem lentu í vanda áður en bankarnir hrundu. Þeim hafi bara verið nær að passa sig ekki betur.
Ég sit í stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna. Stjórnarskiptin um daginn eru ekki endalok baráttu okkar fyrir hagsmunum heimilanna. Við erum rétt byrjuð. En við getum það ekki nema með ykkar hjálp og því vil ég hvetja alla, sem ekki hafa gert það, að ganga í samtökin með því að skrá sig á heimsíðum samtakanna. Við ætlum ekki að hætta baráttu okkar fyrr en búið er að slá skjaldborg um heimilin og verja það verðmætasta sem til er í samfélaginu, fjölskylduna og þá fyrst og fremst börnin, fyrir ágangi kröfuhafa. Þessara sömu kröfuhafa, sem keyrðu allt í kaf og ætla nú að nota húsnæðið OKKAR til að bjarga sjálfum sér. Þeir eiga ekkert inni hjá okkur. Það erum við sem eigum heilmikið inni hjá þeim. Til dæmis væri einföld beiðni um fyrirgefningu gott fyrsta skref í staðinn fyrir að segja Ég ber ekki ábyrgð. Við vitum alveg, að þetta átti ekki að enda svona. En ælan er samt út um allt.
Við eigum kröfu um að þeir komi að borðinu með alla sína peninga, líka þá sem geymdir eru á leynireikningum í skattaskjólum, og taki byrðarnar af almenningi. Við eigum kröfu um að þeir komi og þrífi æluna upp eftir sjálfa sig.
---
Ég skil vel að það þurfi að endurfjármagna bankakerfið. Ég skil vel að það hafi þurft að vernda innistæður á bankareikningum. Ég skil líka vel að rétta þurfi af Seðlabankann eftir að stjórnendur hans settu hann í þrot. En ég skil ekki af hverju það á að gera þetta allt með fasteignum landsmanna, fasteignunum okkar. Ég skil ekki af hverju ríkisbönkunum er sett sjálfdæmi um það hverjir fá að halda húsum sínum og hverjir ekki. Ég skil heldur ekki hvers vegna ekki var gengið strax í að stöðva aðfarir og nauðungarsölur. Og ég skil alls ekki, af hverju kröfuhafar geta keypt eignir á spottprís og síðan krafið þann sem var að missa húsið sitt, fyrir næstum ekki neitt, um afganginn af skuldinni. Hér er eitthvað stórvægilegt að. Þessu verður að breyta.
En hver er vandi heimilanna? Okkur er talið trú um að allt sé þetta hruni bankanna að kenna. En það er ekki rétt. Greiðslubyrði minna lána jókst löngu áður en bankarnir hrundu og löngu áður en krónan tók dýfu í mars 2008. Vissuð þið að hækkun vísitölu neysluverðs er yfir 65% frá því að Seðlabankinn tók upp verðbólgumarkmið í marslok árið 2001. Vissuð þið að á þeim 95 mánuðum sem Seðlabankinn hefur haft verðbólgumarkmið, hefur bankanum aðeins 17 sinnum tekist að halda verðbólgunni innan þeirra marka. (Það þætti nú ekki góð frammistaða á prófi.) Og vissuð þið að frá árinu 2000, þá hafa lán heimilanna hækkað um sem nemur 700 milljörðum vegna verðtryggingar og gengistryggingar. Já, þessir 700 milljarða hafa lagst á lánin okkar vegna verðbólgu og lækkunar á gengi krónunnar. Af 2.000 milljarða skuldum heimilanna um síðustu áramót voru yfir 700 milljarðar sem við tókum ekki einu sinni að láni, en eigum samt að borga.
Það er sagt að bankarnir hafi gert Ísland að risastórum vogunarsjóði, en vitið hvað: Ísland er búið að vera risastór vogunarsjóður frá því að verðtrygging lána var tekin upp. Verðtryggingin verður að hverfa og það sem fyrst.
Monopoly leik bankanna er lokið. Einn leikmaðurinn er eftir með nánast allt. Hinir eru gjaldþrota eða veðsettir upp fyrir haus. Hvaða afleiðingu hefur það? Tekjustreymið stoppar. Fólk hættir að geta greitt fyrir nauðþurftir, fyrirtæki leggja upp laupana og störf tapast, innviðir samfélagsins bogna eða jafnvel brotna. Meðan stærri og stærri hluti tekna heimila og fyrirtækja fer í að greiða bönkunum, þá hægist á hagkerfinu. Peningakerfið er blóðrás hagkerfisins og peningarnir blóðið. Ef einn hluti hagkerfisins sogar til sín allt blóðið, þá veslast aðrir hlutar upp og deyja. Þess vegna verðum við að breyta flæðinu. Við verðum að beina peningunum um allt hagkerfið. Þannig og aðeins þannig verndum við störfin. Og þannig og aðeins þannig sláum við skjaldborg um heimilin. Þetta verður ekki gert nema með því að fara í gríðarlega niðurfærslu skulda. Við getum sagt að bankakerfið þurfi að skila góssinu. Það þarf að gefa upp á nýtt.
Við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna höfum sett fram kröfur um breytingar. Sumar þarf að uppfylla ekki seinna en strax. Aðrar eru lengri tíma markmið. En kröfur okkar eru skýrar, nauðsynlegar og réttlátar:
- Við viljum tafarlausa tímabundna stöðvun fjárnáma og nauðungaruppboða heimila. Frumvarpið er komið fram, en þar til það hefur verið samþykkt halda aðfarir áfram.
- Við viljum leiðréttingu á verðtryggðum lánum. Okkar hugmynd er að sett verði afturvirkt til 1. janúar 2008 þak á verðtryggingu, þannig að árleg verðtrygging geti hæst verið 4%.
- Við viljum leiðréttingu á gengistryggðum lánum.
- Við viljum að frumvarp til laga um greiðsluaðlögun verði afgreitt svo fljótt sem auðið er sem lög frá Alþingi
- Við viljum afnám verðtryggingar innan fárra ára.
- Við viljum jöfnun á áhættu milli lánveitenda og lántakenda með þaki á vexti.
- Við viljum að ekki sé hægt að elta skuldara eftir að búið er að taka eign sem sett var að veði.
- Síðan viljum við sjá samfélagslega ábyrgð fjármálafyrirtækja, þar sem hagsmunir þjóðarinnar skipta meira máli en stundargróði.
Ég vil einnig sjá að staðið sé vörð um störfin í landinu. Ég vil frekar að fyrirtækjum sé borgað fyrir að hafa fólk í vinnu, en fólki sé borgað fyrir að hafa ekki vinnu. Ég auglýsi eftir nýrri hugsun í atvinnusköpun og uppbyggingu. En fyrst og fremst þá þurfum við von. Við þurfum að sjá að landinu stjórni ríkisstjórn sem þorir, getur og vill.
Takk fyrir mig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (39)
21.2.2009 | 01:09
Verð með ræðu á Austurvelli í dag kl. 15
Ég verð í púlti á Austurvelli í dag kl. 15.00. Þar mun ég fjalla um mín hjartans mál, þ.e. verðtryggingu, gengistryggingu og hagsmuni heimilanna. Vonandi sjá sem flestir sér fært að mæta.
Það má svo nefna að í dag er Þorraþræll, síðasti dagur Þorra. Á morgun hefst Góa á konudegi.
Laugadagurinn 21. febrúar er líka dagur alþjóðlegur dagur leiðsögumanna. Áður en fólk fer á fundinn getur það komið við upp við Hallgrímskirkju og þar verða einhverjir leiðsögumenn sem bjóða fram ókeypis leiðsögn um svæðið í kring frá kl. 11 - 15.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 0
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 51
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 46
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði