Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Fjárkröfu Lýsingar vísað frá dómi vegna vanreifunar

Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í gær frá dómi kröfu Lýsingar á hendur manni, sem hafði haft bíl hjá fyrirtækinu á leigusamningi.  Ástæða frávísunarinnar var vanreifun Lýsingar á fjárkröfum sínum í stefnunni.  Eða eins og segir í dómnum:

Eins og fram hefur komið er lýsingu málavaxta og málsástæðna í stefnu verulega ábótavant þegar horft er til lögskipta aðila samkvæmt gögnum málsins auk þess sem krafa stefnanda er ekki sundurliðuð. Í stefnunni er hvorki með viðhlítandi hætti greint frá þeim málsástæðum sem stefnandi byggir málsókn sína á, né öðrum atvikum sem þarf að greina til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst, eins og krafa er gerð um í e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Verður ekki fallist á það með stefnanda að framlagning yfirlits um uppgjör, sem á engan hátt er fjallað um í stefnu, leysi hann undan þeim kröfum ákvæðisins að búa stefnuna þannig úr garði að hún ein og sér gefi stefnda fullnægjandi mynd af sakarefninu og stefnda þar með til kynna að hvaða atriðum varnir hans geta beinst. Að þessu virtu verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá dómi.

Ég fæ ekki betur séð, en að dómari sé að benda Lýsingu vinsamlega á, að vanda verður til gerðar fjárkrafna/stefnu, þannig að ljósar séu ástæður og forsendur kröfunnar/stefnunnar.

----

Ég fékk upplýsingar um þetta mál sendar í tölvupósti.  Sendandi segir tvennt í pósti sínum, sem vil minnast á án þess að ég aflétti nokkurri leynd.

1.  ..veit kannski ekki hvað þetta þýðir, amk. sýnist mér þetta þýða að fjármögnunarfyrirtækið getur ekki bara rukkað og rukkað hvað sem er þegar búið er að taka bílinn af viðkomandi og greiða lítið fyrir hann. Þeir þurfa amk. að gera grein fyrir því.

Ég held að þetta sé alveg rétt ályktun, þ.e. að ekki er verið að amast við því að fjármögnunarfyrirtækin rukki lántaka, en rukkunin þarf að byggja á föstum grunni.

2.  .. vinur minn lenti í því að missa bíl hjá ... þar sem þeir greiða 1,7 fyrir bílinn, svo er hann kominn á sölu og ásett 3,6 og þeir senda honum reikning upp á 6,5 millj.

Þeim fjölgar alltaf sögunum, þar sem greint er frá ósvífni fjármögnunarfyrirtækjanna.


Verðmætin felast í viðskiptavinunum

Það eru til tvær kenningar um það í hverju verðmæti þjónustufyrirtækis felast.  Önnur segir að starfsmaðurinn sé verðmætasta eign hvers fyrirtækis og viðskiptavinurinn komi svo.  Hin segir að viðskiptavinurinn sé verðmætasta eignin og starfsmaðurinn komi svo.  Ég tek almennt undir þá fyrri, því starfsmaður, sem er ánægður í starfi, hann gerir viðskiptavininn ánægðan, þó hann þurfi að bera honum slæm tíðindi einfaldlega vegna þess að hann reynir að aðstoða eftir bestu getu.

Nú eru flestar fjármálastofnanir landsins í því ástandi, að starfsmenn eru settir í ómögulega stöðu.  Þeir geta ósköp lítið gert til að gera viðskiptavinina ánægða.  Yfirstjórnir fjármálafyrirtækjanna hafa sett starfsmönnum mjög þröngar skorður til að aðstoða viðskiptavinina.  Þá gerist það allt í einu að reyna fer á þolinmæði viðskiptavinanna.  Valdið og verðmætin færast til þeirra.

Á undanförnum vikum hef ég heyrt að allt of mörgum tilfellum, þar sem þolinmæði viðskiptavina fjármálafyrirtækjanna hefur brostið.  Þeim er einfaldlega nóg boðið.  Fólk sem hefur alltaf staðið í skilum biður um smáfyrirgreiðslu og fær neitun.  Yfirdrættir eru ekki framlengdir og ráðstöfunarfé mánaðarins er horfið á einu bretti vegna þess.  Kortaheimildir eru lækkaðar án skýringa.  Ég skil vel að menn þurfi að draga saman í útlánum og það er bara hið besta mál að færa þjóðfélagið úr kreditneyslu yfir í debetneyslu, en á öllu svona löguðu þarf að vera fyrirvari.  Það þarf að gæta sanngirni.

Sterkasta vopn hvers einasta viðskiptavinar er að beina viðskiptum sínum annað.  Sparisjóður Suður-Þingeyinga finnur vel fyrir því um þessa mundir.  Þangað streyma nýir viðskiptavinir í svo miklu mæli, að það er eiginlega farið að valda vandræðum.  Og hvaðan skyldu þessir nýju viðskiptavinir koma?  Þeir koma frá fjármálafyrirtækjum á Reykjavíkursvæðinu.  Þetta er fólk, sem er ósátt við þá þjónustu sem er verið að bjóða því og það sýnir skoðun sína með fótunum.  Það fer annað með launareikninginn sinn.

Nú óttast einhver að þá verði lánin gjaldfelld með tilheyrandi veseni, vegna þess að þegar íbúðalánin voru tekin, þá var það skilyrði sett að lántakandinn hefði launareikninginn sinn hjá fjármálastofnuninni.  En höfum í huga, að samningurinn var gerður við lánastofnun sem kannski er ekki til lengur eða banka sem ekki eru lengur með opin útbú á Íslandi.   Hvernig getur samningur sem gerður var við gamla bankann fest einhvern í viðskiptum við nýja bankann?  Það virkar ekki þannig.  Vilji nýi bankinn að samningurinn gildi áfram, þá finnst mér líklegast að hinn aðili samningsins þurfi að samþykkja það fyrirkomulag.

Það sem rak mig í þessa hugleiðingu, var bloggfærsla sem ég las.  Þar lýsir viðkomandi hvernig útibússtjóri í útibúi eins af nýju bönkunum neitaði honum um 10.000 kr. yfirdrátt í nokkra daga.  Viðkomandi var ekki með neinn yfirdrátt fyrir og hafði, að eigin sögn, ALLTAF verið í skilum.  Nei, það er alveg ljóst, að þessum útibússtjóra fannst viðskipti þessa viðskiptavinar ekki mikilvæg fyrir bankann.  Líklegast var, að þetta var slæmur viðskiptavinur, vegna þess að hann var alltaf í skilum!  Kannski hafði þessi útibússtjóri ekki heimild til að veita 10.000 kr. yfirdrátt í 10 daga.  Kannski var hann í slæmu skapi og lét það bitna á viðskiptavininum.  Eða kannski mat hann sem svo, að dráttarvextirnir á láninu sem dróst fyrir vikið væru verðmætari fyrir bankann, en ánægja viðskiptavinarins.

Þarna kemur einmitt ástæðan fyrir því að öllum finnst starfsmaðurinn ekki alltaf verðmætasta eign þjónustufyrirtækis.  Því á sama hátt og starfsmaðurinn getur breytt rigningu í sólskin með réttu viðmóti, þá getur hann líka verið sá sem traðkar á fingrum þess sem hangir á bjargbrúninni.  Og þá getur hann orðið skaðlegur fyrir fyrirtækið.

Kannski þurfa bankarnir ekkert að óttast.  Mér skilst að þeir séu yfirfullir af peningum, sem þeir geta ekki lánað út.  Þeir segja að það sé vegna þess að þá vanti trausta lántakendur, en ég held að það sé vegna þess að nýju bankarnir eru ekki búnir að ávinna sér traust lántakenda.  Hvað hafa nýju bankarnir gert til að ávinna sér slíkt traust?  Spyr sá sem veit ekki.  Ekki misskilja mig.  Ég vil gjarnan að bankarnir ávinni sér traust landsmanna aftur.  Endilega.  Ég vil að þeir geri það sem skynsömum aðgerðum til að rétt við hag heimilanna.  Ég vil að heimsóknir mínar í bankana mína, já ég er út um allt með viðskipti, verði ánægjulegar en ekki endalaust suð og tuð.  Ég vil ekki þurfa að bíða vikum og mánuðum saman eftir því að erindi séu afgreidd og að hver ný spurning kosti 2 vikna töf.  Ég óska einskis frekar en að þessu leiðindarástandi létti.  Málið er bara, að ég sé ekkert koma frá bönkunum sem bendir til þess að þeir deili þessari sýn með mér.  Það verður að breytast ekki seinna en strax.


En Vinnumálastofnun segir 7,63%

Samkvæmt upplýsingum á vef Vinnumálastofnunar var atvinnuleysi á þriðja ársfjórungi 8,0% í júlí, 7,7% í ágúst og 7,2% í september.  Meðaltalið af þessu er 7,63% eða 27% meira atvinnuleysi en Hagstofan mælir.  Munurinn á þessum tveimur tölum er allt of mikill til þess að mark sé á þeim takandi.  Munurinn er ekki ásættanlegur. 

Hagstofan segir að 10.900 manns hafi að meðaltali verið án vinnu og í atvinnuleit á þriðja ársfjórðungi, meðan Vinnumálastofnun segir tölunar vera 12.145 í september, 13.387 í ágúst og 13.756 í júlí.  Þetta er dálítið langt yfir þeim 10.900 sem Hagstofan mælir.

Hvor stofnunin er að mæla "rétt"?  Hvernig stendur á þessum mikla mun?  Svara verður þeirri spurningu hvernig standi á því að stofnunin, sem hefur það hlutverk að fylgjast með vinnumarkaðinum, er að mæla 27% meira atvinnuleysi, en stofnunin sem sérhæfir sig í mælingum.  Síðan verður að svara því hvort skekkjan, sem kemur þarna fram, hjá hvorum aðilanum sem hún er, komi á sama hátt fram í öðrum mælingum viðkomandi stofnunar.


mbl.is 6% atvinnuleysi á 3 fjórðungi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og hvað þýða þessar tölur fyrir Icesave?

Samkvæmt tölum á glærum sem fylgja fréttinni, þá kemur fram að Icesave innstæður í Bretlandi og Hollandi nema 1.311 milljörðum (979 ma.kr. í Bretlandi og 332 ma.kr. í Hollandi).  Af þessari tölu erum um 750 ma.kr. (samkvæmt fréttum) lán Breta og Hollendinga sem allt snýst um.  Hluti af þeim eignum sem eiga að koma á móti munu innheimtast á löngum tíma.  Það er því nær ómögulegt að segja hve mikið innheimtist á þeim 7 eða 8 árum sem tekjur gamla Landsbankans renna upp í Icesave skuldirnar áður en skattgreiðendur taka við.  Að halda því fram, að þetta þýði að aðeins 75 ma.kr. af Icesave skuldunum falli á íslenska skattborgara, eins og segir í frétt á visir.is er einfaldlega ekki rétt.

Allt bendir til þess að níutíu prósent fáist upp í Icesaveskuldbindingar Íslands miðað við uppgjör milli gamla og nýja bankans sem gert var um helgina. Um 75 milljarðar króna falla þá á íslensku þjóðina auk vaxta.

Þetta veltur á nokkrum atriðum:

  1. Hve hratt skuldabréfi frá NBI (þ.e. nýja Landsbankanum) verður greitt upp og hvenær hægt verði að skipta greiðslunum yfir í evrur og pund.
  2. Hve hratt aðrar innlendar kröfur Landsbankans innheimtast og hvenær hægt verði að skipta greiðslunum yfir í evrur og pund.
  3. Hve hratt erlendar kröfur Landsbankans innheimtast.
  4. Vextir sem innheimtast af kröfum í liðum 1 til 3.
  5. Hvort eitthvað innheimtist umfram það mat sem lagt er á eignirnar/kröfurnar.  Afskriftir eru metnar á bilinu 52 - 86%, að meðaltali 61,5%
  6. Hvort NBI muni greiða Landsbankanum 90 ma.kr. aukalega eða ekki.
  7. Gengisþróun mun ráða miklu um hver endanleg greiðsla verður.  Þar sem 59,2% eigna/krafna eru á Íslandi, þá gæti jákvæð gengisþróun skipt miklu (nema að eignir/kröfurnar séu þegar í erlendri mynt).
Hvernig menn geti fullyrt að aðeins 75 ma.kr., auk vaxta, falli á skattgreiðendur, er mér gjörsamlega óskiljanlegt.  Það er ekki nokkur leið á þessari stundu út frá birtum upplýsingum að draga slíka ályktun.  Svo einfalt er það.
mbl.is 90% upp í forgangskröfur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reglur sem vantar

Hér eru nokkrar reglur sem vantar:

1.  Ráðherra skal segja þjóð sinni satt eða þegja ella. 

2.  Ráðherra skal ekki blekkja þjóðina með því að segja bara hluta sögunnar

3.  Ráðherra sem verður uppvís að því að greina rangt frá eða beita þjóðina blekkingum, skal umsvifalaust víka úr starfi.

4.  Ráðherra skal ætíð taka hagsmuni þjóðarinnar umfram hagsmuni sjálfs síns eða flokks síns

5.  Ráðherra skal ekki halda mikilvægum upplýsingum frá þjóðinni

6.  Ráðherra skal tryggja að hagsmunahópar neytenda hafi sama rétt til tillagna og málfrelsis, þegar ræddar eru tillögur sem skipta neytendur miklu máli. 

Lýst er eftir fleiri reglum sem vantar.


mbl.is Ráðherrum settar siðareglur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrunið 2: Einkavæðing bankanna

Þetta er annar pistill minn um það sem ég tel vera ástæður fyrir hruni hagkerfisins síðast liðið haust.

Menn eru örugglega með skiptar skoðanir um það, hver eru afdrifaríkustu mistökin við einkavæðingu bankanna.  Ég hef viljað líta fyrst aftur til síðustu aldar, þegar stórfeldar kennitölusafnanir áttu sér stað til að tryggja bönkunum sjálfum hluti hver í öðrum.   Ferli sem hefði getað orðið fyrirmyndaraðferð til að tryggja dreifða eignaraðild að bönkunum varð að leiksýningu.  Hlutirnir söfnuðust fljótlega á hendur fárra aðila og hér á landi myndaðist ný eignastétt, bankaeigendur.  Að hluta til tilheyrðu þessi nýja eignastétt ekki gömlu blokkunum í kringum kolkrabbann og Sambandið, en að hluta voru þetta aðilar sem spruttu upp úr þessu umhverfi.  Það sem skipti líklegast mestu máli, var að þessir aðilar áttu eftir að verða aðalleikendur í fjármálakerfi nýrrar aldar.

Hvort sem við lítum til fyrsta skrefs í einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands, Landsbanka Íslands eða Fjárfestingabanka atvinnulífsins (FBA), þá var sala hluta til almennings algjört klúður.  Ástæðan er fyrst og fremst sú, að ekki voru sett tímamörk á eignarhald.  Kaupin snerust fyrst og fremst upp í það fyrir almenning að ná í skjótfenginn gróða.  Með því að kaupa skammtinn af bréfum í hverjum banka fyrir sig og selja strax, þá mátti hala inn nokkra tugi þúsunda í hagnað á hverjum banka.  Sjónarmiðið að koma bönkunum strax í almenningseigu varð undir.  Lítill banki í samstarfi við nokkra sparisjóði var áberandi í þessu og komu þar fram fyrstu ábendingarnar um draum bankans um að verða stór.  Þarna á ég við Kaupþing.  En einnig leituðu menn úr sjávarútveginum í þessa átt, auk þeirra sem voru betur þekktir í fjárfestingum.  Merkilegast verður þó að teljast ásælni Búnaðarbankans í bréf í Landsbankanum og Landsbankans í bréf í Búnaðarbankanum.

Þegar FBA var sett í sölu, þá atvikaðist það þannig að Kaupþing eignaðist talsverðan hluta í bankanum.  Líklega hafa Kaupþingsmenn litið til þess að stjórnandi FBA var fyrrum starfsmaður bankans og menn því vitað hvaða stjórnunarstefnu hann fylgdi.  Eftir á að hyggja, þá hljóta það að teljast mikil mistök hjá ríkinu, að velja óharðnaðan mann vart kominn af unglingsaldri til að stjórna bankanum.  Með fullri virðingu fyrir Bjarna Ármannssyni, þá hafði hann ekki þá yfirsýn eða reynslu til að sinna þessu starfi.  Það sem verra var, valið á Bjarna varð að einhverri fyrirmynd um að reynsluleysi og óbeislaðar hugmyndir væru það sem byggja ætti íslenskt bankakerfi á.  Furðuleg afleiðing af því, var að góðir og traustir bankamenn af gamla skólanum voru ekki taldir falla inn í hina nýju staðalímynd sem ráðning Bjarna skapaði.

Að ráðamönnum hafi dottið í hug, að framsækni næðist best með því að ráða ungan mann í svona ábyrgðarstöðu, er mér hulin ráðgáta.  Viðtöl við Bjarna í fjölmiðlum upp á síðkastið sýna, svo ekki verður um villst, að hann var ekki tilbúinn í starfið.

Færum okkur þá yfir á þess öld.  Eftir að ríkið var búið að selja nærri helminginn í ríkisbönkunum í lok 20. aldarinnar, þá kom að því að selja restina.  Farin var auðvelda leiðin við að selja FBA.  Bankinn var sameinaður Íslandsbanka og til varð Íslandsbanki - FBA.  Þar mættust nýi og gamli tíminn.  Það getur vel verið að Valur Valsson hafi ekki fallið vel að ímynd FBA, en Bjarni féll ekki heldur vel að ímynd Íslandsbanka.  Að því leiti var raunar út í hött að af þessari sameiningu hafi orðið.   En hún varð og allt í einu breyttist Íslandsbanki í framsækinn, hugmyndaríkan og djarfan banka eða það áttum við a.m.k. að halda.  Mín upplifun af honum var aftur, að þar voru menn svo uppteknir af að koma með nýjungar að þær voru oft illa útfærðar og úthaldið var takmarkað.  Frá mönnum sem ég þekki/þekkti innan bankans, þá bárust mér alls konar sögur um holur í hugbúnaðarkerfum, tæknilegar útfærslur voru ekki tilbúnar og flýtirinn að vera fyrstur varð varúð oft yfirsterkari.  Þó að ótrúlega fá mál um slíkt hafi ratað upp á yfirborðið og þar með í fjölmiðla, þá hefur eitt orðið mjög áberandi, þ.e. þegar gjaldeyriskaupaforritið sneri kaup- og sölugengi á haus.  En kannski það sem almenningur varð mest var við (og mikið var rætt), var sú stefna, sem virtist ríkja hjá bankanaum, að yngja upp í hópi starfsmanna.  Gert var grín af því, að stefna bankans væri að enginn mátti vera eldri en Bjarni Ármannsson (sem var náttúrulega ekki satt).

Hafi einkavæðing FBA verið byggð á veikum grunni, þá var hún samt hátíð á við það sem átti eftir að gerast með Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands.  Talsvert hefur verið ritað um einkavæðingu þessara banka og því meira sem kemur fram því furðulegra verður málið.

Lagt var upp með fögur fyrirheit, þegar ákveðið var að selja 51% hlut ríkisins í Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands.  Koma átti ráðandi hlutum í bönkunum í hendur erlendum bönkum, sem gætu komið hingað til lands með alþjóðlega bankaþekkingu.  Niðurstaðan varð þveröfug.  Bönkunum var komið í hendur aðilum sem höfðu enga alþjóðlega bankaþekkingu og takmarkaða þekkingu á rekstri banka að öðru leiti.  Ég ætla ekki að fara yfir einkavæðingarferlið, enda aðrir mér hæfari til þess.  Var það ferlið sem brást eða voru það pólitíkusar í helmingaskiptaleik sem rugluðu ferlið, verður fyrir sagnfræðinga að deila um.

Einkavæðing bankanna breytti miklu í íslensku þjóðfélagi.  Margt mjög jákvætt gerðist meðan nýir eigendur héldu sig á mottunni og ráku bankanna sem almenna banka, en það átti eftir að breytast.  Með innleiðingu nýrra reglna um fjármálamarkaði og aukinn aðgang að fé breyttist eigendahópur bankanna.  Búnaðarbankinn var sameinaður Kaupþingi, Íslandsbanki komst í hendur einni viðskiptablokkinni og þó fáir hafi áttað sig á því í upphafi, þá höfðu nýir aðaleigendur Landsbankann ekki næga burði til að byggja bankann upp.  Og enginn af aðaleigendum bankanna hafði þolinmæði til að láta uppbyggingu þeirra eiga sér stað, eins og hefðbundið hefur verið í hinum alþjóða bankaheimi, þ.e. með innri vexti.  Nei, menn höfðu stórveldisdrauma og það átti að gerast strax.  Fé til uppbyggingarinnar var fengið að láni, nákvæmlega eins og allt fé til upprunalegu kaupanna hafði verið fengið að láni.  Eigendur þeirra voru hvergi að leggja raunveruleg verðmæti inn í bankana.  Allt var upp á krít.

Líklegast var það þetta viðhorf sem vó þyngst í því, að bankarnir voru alltaf án baklands í eigendahópum sínum.  Og líklegast var það þessi veika eiginfjárstaða eigendahópanna, sem síðan varð til þess, að bankarnir breyttust í raun úr bönkum í einkaeigu í einkabanka eigendanna.  Í baksýnisspeglinum, þá hljóta það að hafa verið afdrifaríkustu mistök einkavæðingar bankanna, að bankarnir voru keyptir upp á krít án nægilegra sterkrar eiginfjárstöðu kaupendanna. Mistök sem áttu eftir að fylgja bönkunum alla lífdaga þeirra.


Ríkisstjórnin nýtti frestunina illa

Ég verð að lýsa furðu minni á þeim orðum, sem notuð eru í frétt mbl.is, að

viðkomandi einstaklingum hafi því ekki tekist að vinna í sínum málum

Hvort þetta eru orð blaðamanns eða einhverjum starfsmanni sýslumannsins í Reykjavík, veit ég ekki.

Það þarf tvo í tangó.  Kröfuhafar þurfa líka að sýna vilja til samninga.  Fólk horfir upp á að bankarnir afskrifi milljarða skuldir fyrirtækja til hægri og vinstri, en því er ætlað að greiða stökkbreyttan höfuðstól sinna lána upp í topp.  Það sem meira er bankarnir virðast helst vera með mikið samráð sín á milli.  Svo furðulegt sem það virðist vera, þá lítur helst út að þeir skiptist á um að neita að semja.   Og ekki bara það, þeir eru líka búnir að koma sér saman um hver kaupir eign sem er á uppboði og á hvaða verði.

Mér finnst ómaklega vegið að fólki með þeim orðum sem ég vitna í.  Staðreyndir málsins, að á þeim tíma sem liðin er frá frestun nauðungarsölu, þá hafa ekki komið fram nein alvöru úrræði sem eiga að mæta kröfu almennings um niðurfærslu skulda. Félagsmálaráðherra kom með tillögur fyrir viku, en í þær vantaði sértæk úrræði.  Íslandsbanki kom með tillögu sem leysir ekki skuldavandafólks, þar sem eftirgjöf skulda er bara færð inn í vextina.  Nú ætlar Landsbankinn að lepja þetta upp eftir Íslandsbanka.  Eina hugmyndin, sem á einhvern hátt getur flokkast undir úrræði til hjálpar þeim verst settu var kynnt fyrir stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna af Finni Sveinbjörnssyni, bankastjóra Kaupþings, en þegar þær voru síðan kynntar almenningi, þá var búið að þynna þær út.

Fólk getur ekki unnið úr málum sínum, ef annar samningsaðilinn er ekki tilbúinn í samninga.  Fólk getur ekki unnið úr sínum málum, ef það er sífellt að bíða eftir útspili stjórnvalda.  Nei, er það nema vona að fólki hafi ekki tekist að vinna úr málum sínum, þegar ríkisstjórnin nýtti tímann jafn illa og raun ber vitni.

Annars hef ég frétt að framlengja eigi bann við nauðungarsölu tilviljunarkennt.  Fólk fái frest í einn til þrjá mánuði.  Þann tíma eigi kröfuhafar og skuldarar að nýta til að forða nauðungarsölunni.  Nú er spurning hvort kröfuhafar kom með samningsvilja og samningsumboð til þeirra viðræðna.


mbl.is Frestur ekki lengdur óbreyttur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árni Páll ekki með staðreyndir á hreinu

Ég náði að hlusta á hluta af viðtalinu við Árna Pál Árnason, félagsmálaráðherra, á Bylgjunni áðan.  Þar kom hann upp um þekkingarleysi sitt og ótrúlega lélega stærðfræðikunnáttu.  Á þeim stutta tíma sem ég hlustaði fullyrti ráðherra m.a. spurður af hverju megi ekki lækka höfuðstól lánanna (gróf endursögn):

Ef við förum í höfuðstólslækkun og við lendum í nýju áfalli, nýrri lækkun krónunnar, þá stendur fólk í sömu sporum og áður.

Þetta var það sama og Magnús Orri Schram hélt fram í Kastljósi í gærkvöld.  Ég spyr bara:  Hvaða snillingur fann upp þessa skýringu?

Skoðum dæmi: 

Höfuðstóll verðtryggðs láns stendur í 10 m.kr.  Nú er ákveðið að lækka höfuðstólinn um 15%, þá lækkar hann strax í 8,5 m.kr.  Nýtt verðbólguskot skellur á og ársverðbólga fer í 15%.  Höfuðstóllinn hækkar þá um 15% eða í 9,8 m.kr.  Ef höfuðstóllinn hefði ekki verið leiðréttur, þá færi hann úr 10 m.kr. í 11,5 m.kr.  Fólk er sem sagt 15% betur sett.

Tökum síðan gengistryggt lán: 

Raunar gilda alveg sömu rök.  Höfuðstóllinn er lækkaður, en núna um 40%.  10 m.kr. höfuðstóllinn lækkar því í 6 m.kr.  Gjaldeyrishöftin eru afnumin og krónan fellur um 20% sem þýðir að erlendir gjaldmiðlar hækka um 25%.  6 m.kr. höfuðstóllinn hækkar í 7,5 m.kr., en óbreyttur höfuðstóll færi í 12,5 m.kr.  Fólk er eftir sem áður 40% betur sett.

Hvernig getur nokkur maður sagt að lántakandinn sé í sömu sporum og áður?  Samfylkingin á aðgang að einum mesta stærðfræðisnillingi þjóðarinnar í formi Þorkels Helgasonar.  Ég mæli með því, að menn fái fræðslu hjá honum áður en menn láta svona bull út úr sér og afhjúpi þannig eigin vanþekkingu.

Auðvitað er fólk betur sett, ef það fær lækkun á höfuðstóli, þó svo að gengi hrapi aftur eða verðbólgan fari af stað.  Ekki bjóða fólki upp á svona málflutning.  Ekki opinbera vankunnáttu ykkar svona svakalega.

Annað sem ráðherra sagði, var að dagsetningin 2. maí hafi verið ákveðin fyrir löngu, áður en hann kom að verkinu.  Ég hélt að þetta væru HANS tillögur, en ekki tillögur fjármálafyrirtækja!  En það var ekki það versta.  Í umræðunni sem fylgdi, þá spurði hún Kolla af hverju ekki önnur dagsetning.  Þá kom tungubrjótur stjórnmálamannsins:

Við verðum að hafa í huga að gengið var í sögulegu LÁGMARKI í janúar 2008.

Vafalaust á hann við að gengisvísitalan hafi verið í sögulegu lágmarki í janúar 2008 og túlka ég orð hans þannig.  Hér er ráðherra greinilega mjög illa upplýstur, er að misskilja eitthvað eða vill nýta sér vankunnáttu fólks á gengisþróun.  Ég veit eiginlega ekki hvað af þessu er verst.  En, staðreyndin er sú, að krónan var í sögulegu HÁMARKI í janúar 2006.  Þá var gengisvísitalan rétt rúmlega 100 stig.  31. desember 2007 stóð gengisvísitalan í 120,5 eða 20% hærri (sem þýðir að krónan var veikari) en þegar þessi vísitala var sterkust.

Hélt ráðherra virkilega að hann gætti sett fram svona vitleysu og hann kæmist upp með það?  Málið er að líklegast gerir hann það, þar sem stór hluti þjóðarinnar er ekki að fylgjast með þróun gengisvísitölunnar, en þá er komið að fjölmiðlum.  Nú þurfa fréttamenn Stöðvar 2 eða RÚV að stökkva á ráðherrann og spyrja hann út í bullið, því það er ekki hægt að kalla þetta neitt annað, og birta svör hans á besta útsendingartíma.  Það á ekki að láta ráðamenn komast upp með að bera svona rugl á borð fyrir þjóðina.

Af hverju vil ég ekki að hann komist upp með þetta?  Vegna þess að þetta er kjarninn í rökstuðningi ráðherra fyrir því að ekki er hægt að fara í leiðréttingar/niðurfærslu á höfuðstóli lána heimilanna.

Nú viðurkenni ég, að morgunverk heimilisins komu í veg fyrir að heyrði allt viðtalið.  Hafi restin verið eins og fyrstu 5 mínúturnar, þá boðar það ekki gott.  Ég vona innilega, ráðherrans vegna, að hann hafi farið betur með tölur og staðreyndir í þeim hluta, sem ég heyrði ekki.  Það var virkilega vandræðalegt að hlusta á villurnar sem frá honum komu.  Ef hann er ekki betur að sér en þetta, hvað segir það um skilning hans á eigin tillögum?  Ef grunnurinn er ónýtur, þá hrynur allt sem á honum er byggt.

----

Ég hlustaði á síðari hluta viðtalsins og verð að viðurkenna, að ég hef ekki geð í mér, að minnsta kosti í bili, að leiðrétta hinar vitleysurnar sem komu frá ráðherra.  Trúir hann virkilega því sem hann segir?  Er verið að semja við fjármálafyrirtæki um þessa vitleysu ÁN AÐKOMU NEYTENDA?


Vandræðaleg uppákoma Magnúsar Orra í Kastljósi

Ég var að hlusta á Magnús Orra Schram, þingmann Samfylkingarinnar, í Kastljóssviðtali.  Með honum var Björn Þorri Viktorsson lögmaður.  Því miður voru svo margar rangfærslur í málflutningi Magnúsar Orra, að það var virkilega vandræðalegt. 

Höfum alveg á hreinu:

  • Þó tillögur félagsmálaráðherra dragi tímabundið úr greiðslubyrði lána eru áhrif þeirra til langs tima neikvæð fyrir megin þorra almennings.  Þeim er fyrst og fremst ætlað að fresta vandanum.
  • Tillögur félagsmálaráðherra eru ekki að tryggja megin þorra landsmanna leiðréttingu.
  • Það er ekki verið að bjarga þeim sem þurfa á því að halda.  Þær tillögur eru ekki fram komnar.
  • Það er engin sanngirni í tillögum félagsmálaráðherra.  Heimilin eiga að greiða allt tjónið sem fjárglæfrar fjármálafyrirtækjanna ollu.
  • Það er ekkert réttlæti í tillögum félagsmálaráðherra, þar sem þeir sem söfnuðu mestum skuldunum fá niðurfærslu skulda, en hinir sem fóru varlega eiga að borga stökkbreyttan höfuðstól lánanna.
  • Það nýtist fólki strax ef höfuðstóll lána þeirra er leiðréttur núna.

Ég vorkenni mönnum sem eru svo auðtrúa að halda að verið sé að gera eitthvað marktækt fyrir skuldara.  Vissulega lækkar mánaðarleg greiðsla tímabundið, en svo verður ástandi verra en núna.  Nei, þeir sem helst fá hugsanlega eitthvað út úr þessu, eru þeir sem skulda meira en þeir eiga og eru því tæknilega gjaldþrota.  Það á því ekki að hjálpa þeim á annan hátt en að tryggja að þeir verði ekki eltir um aldur og ævi af innheimtulögfræðingum fjármálafyrirtækjanna.  Ef hér væru eðlilegar fyrningarreglur, þá væri ekki hægt að rjúfa fyrningu og halda kröfu lifandi um aldur og ævi.  Þær eru virkilega ómerkilegar hrææturnar, sem mæta á uppboð og bjóðast til að kaupa kröfur á lágu verði í þeim eina tilgangi að elta skuldarann út í eitt.

Ef Magnús Orri Schram heldur virkilega að hann geti komið í Kastljós og sagt fólki ósatt, þá skjátlast honum.  Það ættu náttúrulega að vera viðurlög við því að menn hagræði sannleikanum eins og hann gerði.  Auðvitað er möguleikinn, að hann skilji ekki tillögur félagsmálaráðherra, en þá á hann ekki að tjá sig um þær.  Þegar þingmenn mæta í Kastljós, þá verður að gera þá kröfu til þeirra, að þeir viti um hvað þeir eru að tala.

Skoðum nokkur ummæli hans (eru ekki orðrétt, en ekkert er slitið úr samhengi):  (MOS:  Magnús Orri Schram; MGN: Marinó G. Njálsson, þ.e. mín viðbrögð við orðum hans.)

MOS:  Afláttur á lánasöfnum, sem fæst við færslu þeirra frá gömlu bönkunum til þeirra nýju, verður notaður til að aðstoða ÞORRA almennings.

MGN:  Þorri almennings fær engan afslátt af lánum sínum samkvæmt tillögum ráðherra.  Tillögurnar ganga einmitt út á að þorri almennings beri tjón sitt óbætt.  Heimilin í landinu eiga að greiða fjármagnseigendum upp í topp.

MOS: Verið er að láta afskriftir fara til þeirra sem þurfa mest á þeim að halda. 

MGN:  Nei, það er verið að láta afskriftirnar fara til þeirra sem bankarnir geta ekki innheimt eitt eða neitt af.  Þeir sem þurfa mest á þeim að halda, eru þeir sem ennþá geta eða eiga að geta staðið í skilum en hafa þurft að skera umtalsvert niður í neyslu til þess að halda sér í þeirri stöðu.  Fólkið sem er á mörkum þess að lenda í verulegum vandræðum, en mun gera það verði ekkert gert.  Fólkið sem mun fara yfir mörkin, þegar skattahækkanir næsta árs skella á þeim, eins og flóðbylgja.

MOS:  Verið er að leiðrétta stöðuna í það sem hún var fyrir hrun.

MGN:  Þetta er rétt gagnvart verðtryggðum lánum, en ekki gengistryggðum.  Gengið byrjaði að lækka í júlí 2007 og fyrra hrun þess varð í mars 2008, ekki eftir 2. maí 2008.  Nær engin breyting varð á gengi krónunnar frá 2. maí til 1. september 2008.  Munurinn á þessum tveimur dagsetningum er um 5% úr 152,6 stigum í 159,8 stig (breyting á gengisvísitölu).  Valið á 2. maí er eingöngu gert til að mars og apríl fall krónunnar sé inni í greiðslubyrðinni.

MOS:  Tillögur ráðherra hafa mjög jákvæð áhrif á fasteignamarkaðinn... Fólk mun taka lánin með sér ... Þær hjálpa fasteignamarkaðnum að endurskipuleggja skuldir.

MGN:  Hvernig getur það hjálpað fasteignamarkaðnum að auka óvissu um hvort lán verða færð niður eða ekki?  Hvað á fólk að gera með "kreppuhalann" þegar það minnkar við sig, stækkar við sig, selur til að flytjast úr landi?  Hvernig hjálpar það ungu fólki að koma inn á húsnæðismarkaðinn, að stór hluti húsnæðis er með "kreppuhala"?

MOS:  Er ekki betra að fólk borgi í samræmi við laun?

MGN:  Þetta er skýrasta dæmið um að þingmaðurinn skilur ekki tillögurnar.  Það er enginn að fara að greiða af lánum í samræmi við launin sín.  ENGINN.  Fólk á að fara að greiða í samræmi við þróun launa í þjóðfélaginu og atvinnustig.  Ef kennarar fá 20% kauphækkun, þá hækkar mánaðarleg greiðsla lögregluþjónsins sem jafnvel lækkaði í launum vegna niðurskurðar eða breytinga á vaktafyrirkomulagi.  Greiðslujöfnunarvísitalan er ekki beintengd við laun hvers og eins.  Hún mælir breytingar hjá fjöldanum.  Og þrátt fyrir afleitt atvinnuástand og mikla kjaraskerðingu stórra hópa, þá hefur hún lækkað um rétt 4-5 stig (4-5%) á einu ári. Á sama tíma hefur atvinnuleysi farið út 3,3% í 7,7% eða aukist um 133%.

MOS: Leiðrétting á höfuðstóli nýtist ekki fólki núna.

MGN: Úps! Ég legg málið í dóm.  (Þetta voru raunar eitt það fyrsta sem hann sagði, en ég enda á þessu gullkorni.)  Ég er ekki viss um að Magnús Orri hafi skilið hvað hann var að segja.  Skoðum þetta betur:  "Leiðrétting á höfuðstóli nýtist ekki fólki núna."  Það nýtist ekki fólki að lækka töluna, sem ákvarðar mánaðarlegar greiðslur, um 20 - 50%.  Það nýtist ekki fólki til að liðka fyrir fasteignaviðskipti að lækka höfuðstól lána um 20 - 50%.  Ég gæti sagt svo margt um þessi ummæli Magnúsar Orra, en læt það ógert.  Þau dæma sig sjálf.

Ég velti því fyrir mér hvort Magnús Orri hafi skilning á tillögum félagsmálaráðherra eftir að hafa hlustað á hann í Kastljósi.  (Ég er búinn að fara vel yfir viðtalið á vefnum, svo ég sé ekki að taka neitt eftir minni.) Hann sýndi það ekki í þessu viðtali og fann ég til með Birni Þorra að þurfa að sitja undir vandræðalegum málflutningi þingmannsins.


Einkatölvupóstur og fyrirtækjatölvupóstur

Það er kannski að nefna snöru í hengds manns húsi, að skrifa færslu um þetta á Mogga-blogginu.  En í þessari færslu ætla ég EKKI að fjalla um mál blaðamannsins heldur þær grundvallarreglur sem gilda út frá þekkingu minni á viðfangsefninu, sem sérfræðingur og ráðgjafi á þessu sviði.

Allir eiga rétt til friðhelgi einkalífs, sama hver staða þeirra er.  Þetta er ein af grundvallarreglum almennra mannréttinda.  Vandamálið er að skilgreina skilin milli einkalífs og annarra athafna sem hver og einn tekur þátt í.  Þetta er sérstaklega erfitt, þegar einstaklingur móttekur einkatölvupóst í sama tölvupósthólf og vinnutengdan tölvupóst eða þegar vinnutengdur tölvupóstur getur innihaldið viðkvæmar upplýsingar, sem ekki eru ætlaðar hverjum sem er.  Nokkrar stéttir eru í sérstakri stöðu vegna þessa síðarnefnda, þ.e. móttaka upplýsingar með pósti og/eða tölvupósti, sem ekki má eða á að komast á annarra vitorð.  Stærsti hópurinn er heilbrigðisstarfsfólk og starfsfólk fjármálafyrirtækja.  Minni en ekki síður mikilvægur hópur er fjölmiðlafólk.  En ég ætla ekki að fjalla þetta út frá stéttum.

Fleiri en ein lög tilgreina, að aðgangur að upplýsingum skuli takmarkaður við þann sem málið skiptir.  Þetta á auðvitað að vera meginreglan.  T.d. hefur forstjóri Landspítalans ekkert að gera með að fletta upp upplýsingum sem koma fram í rafrænu læknabréfi eða færslu í sjúkraskrá.  Á sama hátt hefur starfsmaður á fjárfestingasviði lífeyrissjóðs ekkert með að vita stöðu tiltekins sjóðfélaga, hvort heldur stöðu áunninna réttinda eða lánastöðu.  Enn síður þarf gjaldkeri í banka að vita hvaða færslur eru á kortareikningi viðskiptavinar.  Svona mætti lengi telja og eru tilfelli jafn margvísleg og þau eru mörg.  Grunnreglan er þó að aðgangur að upplýsingum eigi að vera á byggð á þörf fyrir vitneskju.  ENGINN á að hafa aðgang að persónuupplýsingum, sem viðkomandi hefur ekki þörf á starfs síns vegna.   Ég held að flestir séu sammála um þetta.

Sömu reglur gilda um tölvupóst.  Sá er þó munurinn, að almennt hefur bara móttakandi aðgang að mótteknum tölvupósti.  Af þeim sökum hefur Persónuvernd skilgreint mjög skýrar reglur um umgegni um tölvupóst starfsmanna.  Reglurnar eru í grófum dráttum sem hér segir:

  • Vinnuveitandi hefur rétt til að skoða tölvupóst starfsmanns, en áður en það er gert, skal starfsmanni tilkynnt það og verið boðið að vera viðstaddur eða tilnefna fulltrúa sinn.
  • Ekki er heimilt að skoða tölvupóst sem augljóslega er einkapóstur eða gera má ráð fyrir að sé einkapóstur.
  • Starfsfólki skal bent á að aðgreina einkatölvupóst frá starfstengdum pósti með auðkenningu í efnislínu eða með því að vista einkatölvupóst í sérmerktri möppu.
  • Fyrirtæki geta bannað starfsmönnum að móttaka einkatölvupóst á netfang sem fyrirtækið leggur til starfsins vegna og gert þá kröfu að einkatölvupóstur fari um einkanetföng starfsmanna.  Fyrirtækjum er einnig heimilt að setja alls konar hömlur á notkun tölvupósts og siðareglur.  Slíkt banna veitir samt ekki rétt til að skoða einkatölvupóst sem ber öll þess merki að vera einkapóstur.
  • Til þess að það sem að ofan er nefnt geti gilt, þarf fyrirtækið að setja reglur um það og tilkynna starfsmönnum um innihald reglnanna, þannig að ÖLLUM starfsmönnum eigi að vera ljóst hvaða reglur gilda.  Hafi slíkt ekki verið gert, þá getur fyrirtækið hafa fyrirgert rétti sínum til að skoða tölvupóst starfsmanna.  Það má því segja:  Engar reglur, engin skoðun.

En það má ekki hver sem er skoða tölvupóstinn.  Almenna reglan ætti að vera, að eingöngu næsti yfirmaður viðkomandi starfsmanns megi skoða póstinn.  Ástæðan fyrir því er einföld.  Tölvupósturinn getur innihaldið upplýsingar, sem ekki eiga að vera á vitorði annarra innan fyrirtækisins.  Í einhverjum tilfellum eiga upplýsingarnar ekki einu sinni að vera á vitorði yfirmannsins, svo sem þarf yfirmaður meðferðarheimilis ekki að vita um öll samskipti meðferðaraðila og sjúklings, þó svo að yfirmaðurinn þurfi að vita eitthvað um samskiptin.  Einnig, ef yfirmaðurinn er sá sem málum er "áfrýjað" til, þá getur það gert hann vanhæfan til að fjalla um "áfrýjunina" þekki hann vel til málsins eða hafi jafnvel komið að ákvörðun um niðurstöðu.

Tekið skal skýrt fram að allar þessar hömlur halda þó uppi grunur um refsiverðan verknað.  Ástæðan er einföld:  Fyrirtækið er ekki rannsóknaraðili í slíku máli, heldur er það lögreglan.  Það sem meira er, fyrirtækið gæti eyðilagt sönnunargögn með því að framkvæma sjálfstæða skoðun á tölvupósti áður en lögreglan vinnur sína vinnu!  Það er sem sagt ekki víst að sannanir í tölvupósti teljist tækar í rétti, þar sem lítill vandi er að falsa slíkar upplýsingar eða eyða út póstum sem benda til sýknu.

Á ofangreindu sést að af mörgu þarf að hyggja og þó er upptalningin að ofan ekki tæmandi.  Ráðgjafarþjónusta mín, Betri ákvörðun ráðgjafaþjónusta Marinós G. Njálssonar, veitir ráðgjöf á þessu sviði sem og mörgum öðrum sem koma að verndun og öryggi persónuupplýsinga.  Fyrir þá sem vantar frekari upplýsingar, þá er bara að hafa samband með því að senda tölvupóst á oryggi@internet.is eða símleiðis.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 82
  • Sl. viku: 276
  • Frá upphafi: 1680564

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband