Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Mannleg einfeldni oft hættulegust

Flestir tölvuglæpir treysta á mannlega einfeldni og mannlega bresti.  T.d. er talið að 70 - 80% allra öryggistilfella séu vegna starfsfólks, bæði viljaverk og óviljaverk.  Annars er skipting eitthvað í dúr við eftirfarandi:

  • 57% óviljaverk
  • 24% viljaverk
  • 11% bilun í búnaði
  • 3% hugbúnaðarvillur
  • 5% annað

Síðan eru að sjálfsögðu oft tengsl á milli óviljaverka og viljaverka, þ.e. fólk lætur upplýsingar af hendi af asnaskap til aðila sem eru að fiska.

Ég held að það sé alveg öruggt að allir láta einhvern tímann glepjast.  Oftast er það saklaust, en stundum hefur það alvarlegar afleiðingar. 

Stærsta kortasvindl í heimi mun t.d. hafa byrjað sem tölvupóstsending sem varð til þess að Trójuhesti var komið fyrir.  Þetta hefur leitt til þess að nokkur fyrirtæki hafa þurft að greiða meira en 1 milljarð USD í skaðabætur og sektir og hundruð milljóna kortafærslna og greiðslunúmera komust í hendur óviðkomandi.  Hvort sem það er afleiðing eða ekki, þá þurfa núna öll fyrirtæki sem vista greiðslukortanúmer á upplýsingakerfum sínum að uppfylla strangar öryggiskröfur.  Já, svo það fari ekkert á milli mála, ALLIR SEM VISTA GREIÐSLUKORTANÚMER Á UPPLÝSINGAKERFUM SÍNUM ÞURFA AÐ UPPFYLLA ÖRYGGISSTAÐAL GREIÐSLUKORTAFYRIRTÆKJA (PCI DSS).  Það er síðan mismunandi hvernig fyrirtækin þurfa að sýna fram á að þau standist kröfurnar.

Hvort sem okkur líkar það betur eða verr, þá aukast líkurnar á hverjum degi á því að við föllum í einhvera þá gildru sem egnd er fyrir okkur.  Það sem er að færast í vöxt, er að fyrst gerist eitthvað sakleysislegt og meðan því er sinnt, þá kemur aðalárásin.  Þannig að baki vírusaárás gæti verið tilraun til að koma fyrir Trójuhesti eða laumurás.

Fyrirtæki verða að hafa í huga að sakleysisleg mistök og óviljaverk starfsmanna kosta þau líklegast meira, en jafnvel hin lævíslegasta árás.  Vandinn er að menn halda oftast ekki utan um kostnað af mistökum og óviljaverkum starfsfólks.  En nú eru það líklegast viljaverkin sem eru hættulegust.  Staðreyndin er að hvati til viljaverka hefur líklegast aldrei verið meiri.  Þökk sé efnahagsástandinu.  Tölva hverfur, gögn eru afrituð og seld samkeppninni, fjármálafærslur falsaðar, reikningar búnir til eða kreditfærðir til að komast fyrir pening, viðskiptavinir fá afslátt sem þeir eiga ekki að fá og fleira og fleira.  Hvernig er eftirliti háttað á þínum vinnustað?  Er eitthvað eftirlit?

Ég ætla í lokin að benda þeim sem umhugað er um upplýsingaöryggi, já, upplýsingaöryggi ekki bara upplýsingatækniöryggi, á sínum vinnustað, að 22. október heldur Staðlaráð Íslands námskeið í upplýsingaöryggisstöðlunum ISO/IEC 27001 og ISO/IEC 27002.  Hvort sem menn nýta sér svona námskeið eða ekki, þá mæli ég eindregið með því að stjórnendur fyrirtækja og stofnana tryggi að hjá þeim sé einhver sem hefur grunnþekkingu á þessum málum.  Einnig mæli ég með því að fyrirtæki búi yfir þekkingu á áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu.  Ég er að mæla með þessu, vegna þess að ég sé það í mínu starfi hvað menn líta allt öðrum augum á reksturinn eftir að hafa farið í gegnum áhættumat og öryggisgreiningu.

Nánari upplýsingar er að fá á vef Betri ákvörðunar.


mbl.is Stálu auðkennum frá þúsundum reikningseigenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrjár spurningar til ráðherra sem hann gat ekki svarað

Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, bar upp þrjár spurningar til Árna Páls Árnasonar, félagsmálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag.  Spurningarnar eru okkur hjá Hagsmunasamtökum heimilanna vel kunnar, þar sem Margrét hafði samband við okkur og bauð okkur að aðstoða sig við gerð þeirra.  Henni voru sendar nokkrar spurningar og valdi hún eftirfarandi þrjár:

1.  Samkvæmt tillögum háttvirts félagsmálaráðherra, Árna Páls Árnasonar, um greiðslujöfnun heimilanna og leiðréttingu skulda á að taka upp greiðslujöfnunarvísitölu til að reikna út mánaðarlegar greiðslur af verðtryggðum lánum.  Getur háttvirtur ráðherra upplýst hvenær talið er að greiðslur samkvæmt þeirri aðferð verða orðnar jafnháar og greiðslur samkvæmt núverandi aðferð?  Á hverju byggir það álit, þ.e. spár um launaþróun og minnkun atvinnuleysis?

2.  Nú gera tillögur háttvirts ráðherra ráð fyrir að lánstími verðtryggðra lána gæti að hámarki lengst um 3 ár.  Hefur verið reiknað út hve stór hluti lána muni þurfa einhverja lengingu lánstíma og hve stór hluti lánanna verði ekki greiddur upp í lok þriggja ára lánalengingarinnar?

3.  Nú hafnar háttvirkur ráðherra því alfarið í tillögum sínum, að þeir sem geta eingöngu nýtt sér almennar aðgerðir tillagnanna fái nokkra leiðréttingu á höfuðstóli lána sinna, nema hugsanlega í lok lánstímans, þrátt fyrir að fréttir berist af því að lánasöfn heimilanna verði flutt með miklum afslætti frá gömlu bönkunum til þeirra nýju.  Getur háttvirtur ráðherra upplýst þingheim (og þar með mig) hvort það er rétt, að ætlunin sé að færa lánasöfnin á milli með umtalsverðum afslætti og þá hver sá afsláttur er?

Tvær fyrri spurningarnar eru lykilspurningar um virkni almenna hluta tillagna ráðherra, þ.e. um áhrif greiðslujöfnunarvísitölunnar á greiðslubyrði og lánstíma. Af svörum hans að dæma höfðu þessi áhrif ekki verið reiknuð út.  Hann bablaði um leng dýfunnar og þess háttar, en engar tölur komu.  Málið er að hann hafi ekki grænan grun.  Hvernig er hægt að leggja fram tillögur þar sem menn hafa ekkert í höndunum um áhrif tillagnanna?  Ef búið væri að reikna eitthvað, eins og áhugamannasamtökin Hagsmunasamtök heimilanna hafa gert, þá hefði ráðherra getað sagt: 

Sem svari við spurningunni um hvenær greiðslur samkvæmt greiðslujöfnunarvísitölunni ná greiðslum samkvæmt vísistölu neysluverð, þá reiknum við með að þess tímasetning verði eftir 8 - 10 ár (eða hvað það annað sem menn höfðu reiknað).  Varðandi hve margir munu þurfa á lengingu lána að halda, þá reiknum við með að fyrir lán með innan við 10 ár eftir af lánstíma, þá reiknum við með að 45% lántaka þurfi slíka lengingu og 20% þeirra fái afskriftir að þremur árum liðnum. (Þetta eru algjörlega tilbúnar tölur af minni hálfu.)  Séu 10 - 20 ár eftir af lánstíma er reikna með að þessi hlutföll fari niður í 15 og 5%.  Nú fyrir lán umfram 20 ár, þá er í besta falli reiknað með að 5% lána þurfi lengingu, en engar afskriftir verði.

Nú varðandi lánasöfnin sem flutt verða úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju, þá eru staðfestar niðurstöður ekki komnar og því hef ég ekkert handbært um það.

En ráðherra hefur annað hvort ekki látið reikna þetta út eða að niðurstöðurnar eru svo jákvæðar fyrir fjármálafyrirtæki, að hann þorir ekki fyrir sitt litla líf að segja almenningi sannleikann.  Hvort er að það, Árni Páll?  Veistu ekki tölurnar eða sýna tölurnar, það sem okkur hjá HH grunar, að lítið verði um afskriftir?

Svo tek ég heilshugar undir með Lilju, að tillögur ráðherra ganga ekki nógu langt fyrir utan að vera ekki fullmótaðar.

 


mbl.is Ekki nógu langt gengið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bílalánainnheimtur og gripdeildir

Stundum verður maður kjaftstopp.  (Þeir sem þekkja mig vita að það gerist ekki oft Whistling)   Það eru ótrúlegar sögur sem maður heyrir af framferði fjármögnunarfyrirtækja gagnvart neytendum.  Marga grunar að þar gætu verið á ferðinni stórfelld fjársvik, þegar um er að ræða vörslusviptingar á bifreiðum og öðrum lausafjármunum og „uppgjör“ fyrirtækjanna og endurkröfur á viðsemjendur sína í kjölfarið.  Hér fylgir eitt nýlegt dæmi:

Málavextir voru þeir, að fjármögnunarfyrirtæki innkallaði bíl vegna vanskila.  Þetta var ríflega 4 milljóna króna bíll og skuldin var orðin eitthvað hærri.  Svo kom uppgjörið.  Verðmæti bílsins var metið á 1,6 m.kr., m.a. vegna þess að hitt og þetta væri að.  Fyrri eigandi sat því uppi með mismuninn.  Kunnugleg saga, ekki satt. En nú er ekki öll sagan sögð. 

Maðurinn hafði fréttir af því að umrætt fjármögnunarfyrirtæki væri með bílasölu á sínum snærum og þóttist vita að bíllinn færi þangað á sölu.  Svo reyndist vera.  En ætli bílinn hafi þar verið auglýstur á 1,6 m.kr.?  Nei, aldeilis ekki.  Verðmiðinn var 4,5 m.kr.  Maðurinn ræddi við sölumann og spurði hvort ekki væri hægt að fá afslátt.  Í mesta lagi 2-300 þús. kr., þetta væri svo gott eintak!

Það er ýmislegt sem hægt er að læra af svona uppákomu.  Fyrsta er að uppgjörssamningur taki mið af eðlilegu söluverði bifreiðar á markaði samkvæmt mati sjálfstæðs og óháðs matmanns.  Í öðru lagi ættu fyrri eigendur að krefjast upplýsinga um það hvað verður um bifreið eftir að hún er gerð upptæk til þess að geta sannreynt að söluverð bifreiðar sé í reynd í samræmi við uppgjörssamning.  Þriðja er að standa alltaf á rétti sínum sem neytanda.  Hver og einn á rétt á því að hlutlaus aðili meti eign við yfirtöku.

Þessu til viðbótar er rétt að benda á, að EKKI er hægt að vörslusvipta bifreið eða aðra lausafjármuni nema að undangengnum úrskurði yfirvalds. Í slíkri málsmeðferð geta neytendur komið að sjónarmiðum sínum, t.d. um það að samningur aðila standist ekki lög, um sé að ræða forsendubrest eða að verðbreytingarviðmið (gengistrygging) hafi verið ólögmætt frá upphafi.  Þetta vita fjármögnunarfyrirtækin vegna þess að þau hafa oft verið gerð afturræk.  Málið er að þau spila inn á þekkingarleysi neytenda og að fólk veiti ekki viðspyrnu.  Þær handrukkanir, sem fjármögnunarfyrirtækin stunda, eru ólöglegar.  Sé ekki fyrirliggjandi dómsúrskurður, þá er aðgerðin gripdeild, þrátt fyrir að um meint vanskil sé að ræða.  Þeir sem lenda í slíkri uppákomu geta því kært verknaðinn til lögreglu.

Í lögum nr. 141/2001 er að finna heimildir til að fara fram á lögbann og höfða dómsmál til að vernda hagsmuni neytenda.   Það má furðu sæta að engin slík mál skuli nú þegar vera í gangi.  Eitt af þeim félögum og samtökum sem hefur slíka málsaðild er Félag íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB.  Væri ekki rétt að þau samtök tækju nú þegar upp hanskann fyrir varnarlausa bifreiðaeigendur sem verið er að brjóta freklega á um allt samfélagið?  Einnig hlýtur að koma til álit að allir þeir sem telja á sér brotið við uppgjör fyrirtækjanna og telja sig hafa verið beitta svikum, kæri slíkt umsvifalaust til lögreglu!


Það er niðurskurður á mínu heimili. Hvernig er það á þínu?

Núna er 6. október.  Tómstundastarf vetrarins er varla byrjað.  Hvernig geta menn fullyrt að léttari pyngja bitni ekki á íþróttaiðkun?

Ég vona innilega að sem flestum börnum og unglingum verði gert kleift að stunda tómstundir í vetur eins og áður.  Hvort það gengur eftir er erfitt að spá um.  Þar sem ég þekki til, eru flestir að gera einhverja breytingu til sparnaðar.  Fækkað er um eitt atriði á dagskrá barnanna, farið er úr dýrari tómstund í ódýrari, nýtt er úrræði sem skólinn er að bjóða upp á eða jafnvel kirkjan.

Á fundi hjá Lánþegum Frjálsa fjárfestingabankans um daginn stóð ég upp og spurði salinn hve margir hefðu farið þá leið að skera niður í tómstundastarfi barnanna sinna.  Megnið af fólkinu í salnum gáfu merki.  Þetta er sama og kom út úr skoðanakönnun Hagsmunasamtaka heimilanna meðal félagsmanna í vor.  Það getur verið að íþróttaiðkunin sé að sleppa við niðurskurð, en tómstundastarf barnanna í heild er ekki að gera það.

Í könnun HH kom líka fram að fólk er að segja upp áskriftum að fjölmiðlum, tímaritum, bókaklúbbum og öðru þvíumlíku sem það telur sig geta verið án.  Fólk segir að lengra sé á milli heimsókna til tannlækna, í hársnyrtingu, á snyrtistofur og í aðra persónulega þjónustu.  Gamli dekkjagangurinn er látinn endast lengur en góðu hófi gegnir.  Dregið er að fara með tæki í viðgerð og freistast er að gera við eldri tæki sem líklegast eru búin með lífshlaup sitt.

Það á margt eftir að breytast í vetur varðandi neyslumynstur heimilanna.  Boðaðar skattahækkanir, komi þær til framkvæmda, eiga örugglega eftir að gera illt verra.  Ekki að nóg var af fitunni til að losna við í útgjöldum margra, en aðrir hafa lifað við naumhyggjumörk í langan tíma.  Tryggja verður að þetta fólk geti framfleytt sér og sínum, þó við sem erum betur stödd þurfum að herða sultarólina.


mbl.is Léttari pyngja landsmanna bitnar ekki á íþróttaiðkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tillögur um að innheimta í botn

Hagsmunasamtök heimilanna hafa undanfarna daga legið yfir tillögum félagsmálaráðherra um aðgerðir til lausna á greiðsluvanda og skuldum heimilanna.  Afrakstur vinnunnar varð 12 síðna greinargerð sem send var ásamt fréttatilkynningu og ítarefni til fjölmiðla, stjórnvalda og þingmanna núna í morgun.  Niðurstaða samtakanna er skýr:

Tillögur ráðherra eru ófullnægjandi og eru lymskulegt bragð til að tryggja að stökkbreytt lán verði innheimt í botn.

Ekki stendur til að gefa neitt eftir.  Þessu hafa t.d. Landsamtök lífeyrissjóðanna áttað sig á, enda styðja þau tillögur ráðherra.  Þau hafa áttað sig á því að það fé sem heimtist ekki strax af fjalli komi í betri holdum síðar!

Hér fyrir neðan eru nokkrar tilvitnanir í greinargerð HH:

  • Hagsmunasamtök heimilanna hafa tekið tillögur félagsmálaráðherra til ítarlegrar skoðunar.  Samtökin telja að margt sé vel gert í þessum tillögum en annað missi gjörsamlega marks, hafi ætlunin verið að leiðrétta þann órétt sem heimilin hafa verið beitt undanfarin ár.
  • Líkja má aðgerðum fjármálafyrirtækjanna við að þau hafi spilað rússneska rúllettu með fjöregg þjóðarinnar.
  • Hagsmunasamtök heimilanna hafa gert þá kröfu að leiðrétt verði sú hækkun á höfuðstóli húsnæðislána sem fjárglæfrar fjármálafyrirtækjanna orsökuðu. Samtökin telja furðulegt, að lántakendur skuli eiga að bera tjón sitt að fullu, eins og ráðherra gerir ráð fyrir í tillögum sínum.
  • Með tillögum félagsmálaráðherra, sem birtar voru 30. september 2009, er ráðherra að staðfesta þessa eignarupptöku hjá öllum þeim heimilum sem geta eingöngu nýtt sér þær almennu aðgerðir sem boðaðar eru í tillögunum. Hagsmunasamtök heimilanna geta alls ekki fallist á slíka staðfestingu og munu berjast gegn fyrirhugaðri eignaupptöku með öllum tiltækum ráðum. 
  • Með því að viðurkenna þessa eignaupptöku, er félagsmálaráðherra að binda fjölmarga átthaga- og íbúðafjötrum. Fólk mun ekki geta fært sig til, hvorki farið í stærra húsnæði né minnkað við sig um ókomna framtíð.
  • Hagsmunasamtök heimilanna fagna því að fara eigi í leiðréttingu á greiðslubyrði húsnæðislána.  Samtökin telja þó að sú útfærsla sem felst í tillögum félagsmálaráðherra bæði ganga of stutt og vera of flókin.
  • Gagnrýni samtakanna á þessa aðferð er því tvíþætt.  Samtökin telja aðferðina allt of flókna til að bjóða fólki upp á hana og að tilgangur hennar sé að tryggja að engin leiðrétting skulda heimilanna komi til. 
  • Samtökin sjá alveg þann kost við tillögu ráðherra, að greiðslubyrðin mun léttast strax 1. nóvember samkvæmt þessari leið, en sjá það fyrir að þetta sé svikalogn og stormurinn sem fylgir gæti orðið mörgum erfiðari en hamfarir undanfarinna mánaða.
  • Hagsmunasamtök heimilanna vilja ítreka kröfu samtakanna um að sett verði afturvirkt 4% þak á hækkanir höfuðstóls verðtryggðra lána.  Við teljum að það sé sanngjörn og réttlát leið til að leiðrétta þann misrétt sem heimilin voru beitt í aðdraganda kreppunnar og þau hafa þurft að súpa seyðið af síðast liðið ár eða svo.
  • Hagsmunasamtök heimilanna geta ekki fallist á að greiðslujöfnunarvísitala verði notuð til að ákvarða greiðslubyrði verðtryggðra eða gengistryggðra lána til langframa.  Samkvæmt útreikningum samtakanna felst í þessu gildra, þar sem telja á fólki trú um að verið sé að slaka eitthvað á innheimtuklónni, þegar ekkert slíkt er í gangi.
  • Hagsmunasamtök heimilanna vilja ítreka þá skoðun, að ekki verði nein sátt í samfélaginu, nema fólk fái fjárhagstjón sitt bætt.  Samtökin skilja ekki þau rök, að sjálfsagt mál sé að verja sparnað fólks í peningainnistæðum, en gjörsamlega ómögulegt að verja sparnaðinn ef hann er í fasteignum fólks.
  • Það er mat Hagsmunasamtaka heimilanna, að í tillögum ráðherra felist mikilsverð viðurkenning á þeirri kröfu að samtakanna, að þörf sé fyrir almennar aðgerðir til að leiðrétta stöðu heimilanna.  Tillögurnar veita vissulega ákveðið skjól til skamms tíma, en allt bendir til að heimilin verði gerð brottræk úr skjólinu innan fárra ára.
  • Ráðherra hefur sagt að tillögurnar leggi vissan þrýsting á lánastofnanir að halda verðlagi stöðugu og verðlagsbreytingum í lágmarki.  Með því hámarka þær væntanlega endurgreiðslu af lánunum.  En eins og oft, þá eru fleiri en ein leið að hverju marki.  Lánastofnanir geta einnig hámarkað væntanlega endurgreiðslu með því að stuðla að því, að verðlagsbreytingar verði alltaf minni en launabreytingar, þó svo að verðlagsbreytingarnar séu miklar.  Lykillinn að hámarks endurheimtum lánveitenda felst því í kaupmáttaraukningu, ekki tiltekinni þróun verðlags.
  • Ráðherra hefur sagt fleira sem vekur upp ýmsar spurningar. Svo sem að hans fólk hafi verið að vinna í þessum tillögum frá því í sumar.  Sé það rétt, þá telja samtökin að tími sé til kominn að skipta um mannskap í verkinu.  Að það hafi tekið tvo eða þrjá mánuði að breyta fyrri greiðslujöfnunarúrræðum úr því að vera ekki með neitt þak á framlengingu lánstíma í að vera með 3 ára hámark á framlenginguna, er ekki góður vitnisburður um afköst starfsmanna vinnuhópsins.
  • Heimilin hafa þurft og eiga á næstu árum að bera fullan kostnað af hruninu.  Ef það er ekki stökkbreyttur höfuðstóll lána og gríðarleg hækkuð greiðslubyrði til langframa, þá eiga þau á meðan dregið er aðeins úr greiðslubyrðinni að bera 30-40% hærri skatta, ef eitthvað er að marka ný fram lagt fjárlagafrumvarp.
  • Og sé það ekki nóg, þá á að egna þjóðfélagshópum saman á næstu árum, þar sem hækkun launa, t.d. kennara, verkafólks eða bankamanna, mun leiða til hækkaðrar greiðslubyrði lána.
  • Meðan ekkert er gert til að rétta af efnahagsreikning heimilanna, þá eru þessar tillögur ófullnægjandi, þó vissulega sé eitthvað jákvætt í þeim.
  • Það sem meira er, með tillögunum er heimilunum enn einu sinni sýnd langatöng og staðfestur sá grunur samtakanna, að það sé ætlun og eindreginn vilji stjórnvalda að heimilin í landinu eigi að fjármagna kennitöluflakkarabankana með fasteignum sínum.  Þjóðnýta á heimili landsmanna og kóróna þannig getuleysi þriggja ríkisstjórna á einu ári til að gera eitthvað sem mark er á takandi fyrir heimilin í landinu.
  • Ef þetta er réttlæti ríkisstjórnarinnar, biðja samtökin allar góðar vættir að forða okkur frá ranglæti hennar.
  • Tillögur ráðherra eru ekkert annað en stríðsyfirlýsing.
Ég hef tengt þau skjöl sem send voru út með tilkynningu samtakanna við þessa færslu fyrir almenning að lesa.

mbl.is Segja tillögur ráðherra stríðsyfirlýsingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Staðreyndavillur í viðtali

Morgunblaðið birtir í dag viðtal við Agnar Tómas Möller, fyrrverandi starfsmann í áhættustýringu og miðlun hjá Kaupþingi og núverandi starfsmann hjá GAM management.  Þó eitt og annað sé ágætt í viðtalinu, þá er annað gegnum sýrt af staðreyndavillum.  Af þeirri ástæðu sendi ég Agnari og Pétri Blöndal, blaðamanni Morgunblaðsins, sem vann greinina sem frétt mbl.is vísar í eftirfarandi tölvupóst (birtist örlítið styttur):

Ágæti viðtakandi, Agnar Tómas Möller

 

Ég var að lesa viðtalið við þig í Morgunblaðinu og verð að furða mig á vitleysum sem hafðar eru eftir þér.  Ég ætla ekki að útloka að mistökin séu blaðamanns.

 

Í greininni segir:  „Agnar segir afar ólíklegt að launavísitalan vinni upp þá 30% verðbólgu, sem verið hefur frá ársbyrjun 2008, á næstu árum eða áratugum.“  Í þessari stuttu setningu eru þrjár staðreyndavillur:

 

1.        Verðbólga frá ársbyrjun 2008 er um 23%.

2.       Ekki er miðað við launavísitölu heldur greiðslujöfnunarvísitölu.

3.       Reynslan frá síðustu 20 árum er að launavísitalan hefur hækkað um 235% meðan vísitala neysluverðs hefur hækkað um 170%, sem er 38% meiri hækkun.

 

Svo er haft eftir þér:  „Það hefur verið miðað við að launavísitalan hækki að jafnaði um 2% umfram verðtryggingu.  En við höfum ekki langt tímabili til viðmiðunar..“  Eins og ég bendi á, ertu aftur að vísa til launavísitölu, sem er ekki viðmiðið, heldur greiðslujöfnunarvísitala og við höfum yfir 20 ár til viðmiðunar, sem ætti að teljast viðunandi lengd.  Greiðslujöfnunarvísitalan er reiknuð útfrá atvinnustigi og launavísitölu.  Þrátt fyrir að atvinnuleysi sé mjög mikið núna, þá stendur greiðslujöfnunarvísitalan í 95,1 stigi og hefur lækkað um 4,9 stig frá því í nóvember í fyrra (upphafspunktur= 100 var settur þá) þegar atvinnuleysi mældist 3,3% eða hvort 1,9% í október voru nótuð sem viðmið.  Og launavísitalan hefur hækkað úr 340,4 stigum í ágúst 2008 í 358,1 stig í ágúst í ár.  Þetta er 5,3% hækkun meðan VNV hækkaði um 10,9%.  Atvinnuleysið jókst úr 1,2% í 7,9% og greiðslujöfnunarvísitalan var 98,5 í ágúst í fyrra en 94,3 í ár og stendur í 95,1 stigi núna.

 

Nú, þú segist mæla með því að fólk nýti sér 25% lækkunarleið Íslandsbanka.  Gerir þú þér grein fyrir að leið Íslandsbanka lækkar greiðslubyrðina í besta falli takmarkað og versta falli gerir Íslandsbanki betur en að endurheimta upphaflega lánið.  Tilboð Íslandsbanka verður þá og því aðeins hagstætt fyrir lántakann, að gengi krónunnar lækki næstu þrjú ár og að bankinn standist þá freistingu að hækka breytilegu vextina frá þeim 7,5% sem ætlunin er að bjóða.  Hafa skal í huga að bankinn ætlar jafnframt að bjóða þessi lán með 9% föstum vöxtum, sem segir mér að breytilegu vextirnir munu fara hækkandi.  Það er söguleg staðreynd að breytilegir vextir færast í langflestum tilfellum í átt föstum vöxtum en ekki frá.

 

Virðingarfyllst

Marinó G. Njálsson

stjórnarmaður í Hagsmunasamtökum heimilanna

Nú álit Hagsmunasamtaka heimilanna á tillögum ráðherra mun vonandi liggja fyrir annað hvort í dag (sunnudag) eða á morgun mánudag.


mbl.is Gott til skamms tíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta forsmekkurinn að því sem koma skal?

Einu sinni voru orð manna ígildi samninga.  Nú er öldin augljóslega önnur.  Fjárglæframennirnir með hóp færustu lögfræðinga munu vefengja allt sem sagt hefur verið og skrifað undir.  Ég ætla ekki að draga neitt úr rétti þeirra til að verja sig, en ef menn eru ekki meiri menn en svo, að þeir telji það þjóna betur hagsmunum sínum, að standa ekki við orð sín, þá segi ég bara:  Farið hefur betra fé.

Fjárglæframennirnir og vinir þeirra ættu að hafa í huga það sem forfeður okkar vissu:

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama.

En orðstír

deyr aldregi

hveim er sér góðan getur

 

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama.

Eg veit einn

að aldri deyr

dómur um dauðan hvern.

 

Já þær eru tvær vísurnar.  Önnur um góðan orðstír og hin um slæman.  Halda þessir menn að þeir geti virkilega gengið hér keikir um götu meðan almenningur þarf að taka á sig klafann af misheppnuðum ævintýrum þeirra.  Með fullri virðingu, þá ferst mönnum betur að sýna auðmýkt og iðrun.


mbl.is Breskur kaupsýslumaður sýknaður af kröfu VBS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verkfallið er í góðum gír

Nú er fyrsti dagur greiðsluverkfalls að kvöldi kominn.  Ég veit ekki betur en að hann hafi gengið mjög vel, en einhverjar fregnir hef ég haft af undarlegu háttalagi bankanna.

  • Nokkur dæmi eru um að einstaklingar í greiðsluþjónustu hafi kvartað yfir því að greiðslur, sem átti að taka út 1. október, hafi verið skuldfærðar daginn áður.  Hafa menn furðað sig á þessu og velt því fyrir sér hvort bankinn sé ekki að brjóta reglur og samninga.  Séu viðskiptavinir í greiðsluþjónustu, þá eru gerðir samningar um fyrirkomulag og tímasetningu skuldfærslu.  Það þýðir að viðskiptavinurinn heimilar skuldfærsluna á fyrirfram ákveðnum dögum og að skuldfærslan eigi sér stað áður en sá dagur rennur upp hlýtur því að vera óleyfileg skuldfærsla.
  • Annað sem hefur borið á, er að bankar hafa sett takmarkanir á úttektir eða viðskiptavinir beðnir um að koma seinna.  Þetta sýnir annað hvort að bankarnir hafa ekki verið undirbúnir fyrir vel auglýstar aðgerðir eða að þátttakan í aðgerðunum hefur verið meiri en bankarnir gerðu ráð fyrir.  Nema þetta sé brella til að hafa áhrif á verkfallsfólk.
  • Þriðja sem ég hef heyrt af, er að bankastarfsmenn hafa reynt að telja fólk af því að taka þátt í aðgerðunum.  Fólk hefur verið spurt alls konar spurninga, hvort ekki væri rétt að taka minna út eða hvort það sé alveg visst um að það ætli að segja upp kortunum sínum eða greiðsluþjónustunni.
  • Loks eru afmörkuð tilvik um hreinlega dónaleg framkoma einstakra starfsmanna gagnvart kúnnanum og óvarkárni.  Dæmi eru um að þegar peningar eru taldir, þá heyrist það hátt og skýrt í bankanum, seðlabunkum er liggur við hent í kúnnann og sjálfsögð háttvísi og kurteisi látinn lönd og leið.  [Feitletruðu orðin eru viðbætur frá kl. 15:05 vegna þess að einhverjir misskildu að hér væri átt við alla bankamenn.]

Ég veit ekki hvort bankafólk sé að ná sér niðri á fólki vegna útúrsnúnings DV á fréttatilkynningu samtakanna á miðvikudag eða hvort það telji þessum aðgerðum beint gegn þeim persónulega.  Hver svo sem ástæðan er, þá dæmir svona framkoma sig sjálf. 

Ég held að bankafólk eigi að hafa í huga, að dýrmætustu eignir bankans eru viðskiptavinirnir, orðspor og viðskiptavild.  Það vorum ekki við viðskiptavinirnir sem rústuðum traustinu á fjármálafyrirtækjunum.  Það voru þau sjálf og haldi fólk að með því að skipta um nafn og kennitölu, þá ávinni það traustið aftur, þá fer það villu vegar.  Traustið kemur vonandi hægt og sígandi, þegar fjármálafyrirtækin af unnið til þess.  Satt best að segja virðist mér þau lítið gera til þess.  Það hefur þurft að draga afsakanir með töngum út úr stjórnendum fyrirtækjanna.  Auðmýkt og lítillæti virðist ekki þekkjast hjá þeim (þ.e. stjórnendunum).  Þó það sé komið nýtt fólk í brúnna, sem var hugsanlega ekki í starfi hjá fyrirtækjunum fyrir hrunið, þá er það gott fyrsta skref að viðurkenna klúðrið og hvernig brotið var á rétti viðskiptavinanna.  Næsta skref er að koma því til skila í allar deildir fyrirtækjanna að sýna eigi viðskiptavinum virðingu, sanngirni og kurteisi.  Nokkuð sem skortir mjög víða í flestum, ef ekki öllum fjármálafyrirtækjunum.

Höfum það hugfast að Hagsmunasamtök heimilanna hafa í 8 mánuði leitað eftir samstarfi við fjármálafyrirtæki og stjórnvöld um lausn á stöðu heimilanna.  Já, samstarfi, ekki kynningarfundum.  Í 8 mánuði höfum við verið hunsuð og samt erum við einu samtök neytenda sem höfum þetta sem okka megin stefnumál.  Hverju hefur þessi skortur á samstarfi skilað okkur?  Greiðsluverkfalli.  Hvernig væri að fara að vakna af þyrnirósarsvefninum og bjóða okkur til alvöru viðræðna?  Við erum ekki óvinurinn.  Við erum viðskiptavinir ykkar og þið fóruð illa með okkur þegar þið voruð undir gömlu kennitölunni.  Verið bara fengin að við skulum ennþá stunda viðskipti við ykkur.  Það er ekki víst að við gerum það til eilífðarnóns.  Og hvað ætlið þið þá að gera? Loka búllunni?

Ég vil bara segja, að oftast þegar komið er illa fram við mig í viðskiptum, þá gef ég viðkomandi ekki annað tækifæri nema viðkomandi lofi bót og betrun og gefi mér einhverja tryggingu fyrir því.  Ég er að vísu í þeirri stöðu að sá banki sem ég átti í mestum viðskiptum við, er ekki til lengur, þ.e. SPRON/Sparisjóðurinn á Seltjarnarnesi.  Ég var fluttur nauðungaflutningum yfir í Kaupþing á Hagatorgi og varð illt í maganum við þá tilhugsun.  En ástæðan fyrir því að ég ákvað að gera ekkert í málunum í bili er einföld.  Þjónustufulltrúinn minn utan af Nesi hóf störf í útibúinu.  Ef hún væri ekki þarna, þá væri ég löngu farinn eitthvað annað. Og þetta er oftast ástæðan fyrir því að við, viðskiptavinirnir, höldum ennþá tryggð við gömlu bankana okkar þó þeir séu komnir með nýja kennitölu.  Vegna mannlegu samskiptanna sem við höfum byggt upp í gegnum árin.  Þess vegna sárnar okkur, að stjórnendur bankanna skuli ekki skilja angist okkar og áhyggjur.  Skuli ekkert mark taka á því að fjárhagsvandinn, sem gamla kennitalan skapaði, er að éta okkur að innan, valda svefnleysi, magaverkjum, streituköstum, reiði, höfuðverkjum og öðrum andlegum og líkamlegum kvillum.  Við erum að biðja um að nýja kennitalan bæti okkur það tjón sem gamla kennitalan olli.  Ekki málamyndagjörninga eða lengingu í hengingarólinni.  Nei, við viljum sjá aðgerðir sem gera okkur kleift að sofa rólega og vera afslöppuð.  Sem gera okkur kleift að líta björtum augum fram á veginn og skilja skuldaklafann eftir við vegkantinn áður en við höldum áfram ferð okkar í gegnum lífið.  Sem lætur okkur vilja halda áfram að búa í þessu þjóðfélagi og geta sagt við börnin okkar að Ísland sé landið.  Þetta var nefnilega einu sinni frábært land, en það var áður en gamla kennitalan ykkar óð yfir allt á skítugum skónum og skyldi hér allt eftir í rjúkandi rúst.  Og við sátum eftir með reikninginn.  Er það ekki furðulegur andskoti?

Ef þið hafið áhuga, þá vitið þið hvar okkur er að finna.  En hafið hugfast:  Ef þetta greiðsluverkfall dugar ekki til að sannfæra ykkur um samtakamátt okkar, þá boðum við bara annað sem mun vara lengur.  Við vitum hvernig verklýðshreyfingin gerði þetta og hvaða árangri hún náði.  Nýjasta hótun stjórnvalda um hrollvekjandi skattahækkanir mun bara þjappa okkur saman.


Og á hverju eigum við að lifa?

Trú stjórnvalda á getu heimilanna til að draga sama neyslu sína er með ólíkindum.  Fyrst er heimilunum ætlað að standa undir uppbyggingu bankakerfisins með því að gefa bönkunum fasteignir sínar og nú eiga þau að láta stóran hluta tekna sinna renna til ríkissjóðs svo ríkissjóður geti greitt reikninginn sem bankarnir sendu þjóðinni.  Með fullri virðingu, þá hef ég ekki áhuga á að taka þátt í þessari vitleysu.  Við hjónin eigur fjögur yndisleg börn.  Við þurfum tiltekna lágmarksfjárhæð til að framfleyta okkur.  Við viljum bjóða börnunum okkar tiltekin lífsgæði.  Ég get ekki séð að það verði mögulegt á næsta ári, ef næstu árum.

Nálgun ráðstjórnarríkisstjórnar Samfylkingar og VG til fjárlaga og viðréttingar á efnahagslífinu er kolröng.  Ef þetta er það sem AGS vill, þá eigum við að vísa þeim á dyr.  Auk þess legg ég til að reikningurinn frá bönkunum verði endursendur og þeir sjái um að greiða hann sjálfir.  Það verði þeirra verkefni að fjármagna klúður forvera sinna.

Ég mótmæli þeim glórulausu tillögum um aukna skattheimtu sem kemur fram í frumvarpi til fjárlaga.  Ég hvet jafnframt alla landsmenn að mótmæla.  Við látum ekki þetta rugl yfir okkur ganga.  Ég skora á Alþingi að hafna þessu frumvarpi og senda það út í hafsauga.  Ég sting upp á því að samþykkt verði lög sem heimila stjórnvöldum að gera upptækar eigur allra þeirra einstaklinga, sem teljast hafa verið virki þátttakendur í þeim fjárglæfrum sem endaði með hruni efnahagskerfisins.  Eignirnar verði leitaðar uppi með hjálp erlendra ríkja og þær haldlagðar hvar sem þær finnast.  Reikna má með að þær dugi fyrir halla á rekstri ríkissjóðs á þessu ári og því næsta.

Að lokum vil ég endurtaka yfirlýsingu sem Hagsmunasamtök heimilanna birti fyrir nokkrum mánuðum:

Heimilin í landinu eru ekki botnlaus sjálftökusjóður fyrir banka og stjórnvöld

(Tekið skal fram að í þessum pistli sem fleiri er ég að tjá persónulega skoðun mína, en ekki Hagsmunasamtaka heimilanna.)


mbl.is Reikna með 87 milljarða halla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nær eingöngu til skilmála breytilegra vaxta

Áður en fólk fer að hoppa hæð sína í loft upp, þá nær ákvörðun Neytendastofu, sem áfrýjunarnefndin staðfestir, eingöngu til þess þáttar lána Kaupþings/Nýja Kaupþings sem snýr að ákvörðun um breytilega vexti.  Ég birti færslu fyrr í dag um þetta mál (sjá Breytilegir vextir eru ekki hentugleikavextir) eftir að hafa fengið ábendingu í gær um seinagang hjá áfrýjunarnefndinni.  Get ég ekki annað sagt en, að tímasetning niðurstöðunnar er sú furðulegasta tilviljun sem ég hef orðið vitni að.  (Nema náttúrulega að skrif mín séu vöktuð Grin)

Þessi niðurstaða er gríðarlegur sigur fyrir neytendur.  Ástæðurnar eru tvær.  Sú fyrri er að viðurkennt er að breyting á vöxtum lána, sem bera breytilega vextir, verður að byggja á gagnsæu og fyrirfram skilgreindu ferli.  Hitt er að bótaábyrgð lánastofnunarinnar er viðurkennd, þó svo að skuldarinn verði líklegast að sækja bæturnar með því að fara dómstólaleiðina.  (Vissulega gætum við fengið eitt lítið kraftaverk í formi þess, að fjármálastofnun ákveði að semja utan dómstóla, sem auðvitað er það eina skynsamlega.)


mbl.is Skilmálar myntkörfulána voru ólögmætir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 45
  • Frá upphafi: 1678172

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 44
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband