Leita í fréttum mbl.is

Verðmætin felast í viðskiptavinunum

Það eru til tvær kenningar um það í hverju verðmæti þjónustufyrirtækis felast.  Önnur segir að starfsmaðurinn sé verðmætasta eign hvers fyrirtækis og viðskiptavinurinn komi svo.  Hin segir að viðskiptavinurinn sé verðmætasta eignin og starfsmaðurinn komi svo.  Ég tek almennt undir þá fyrri, því starfsmaður, sem er ánægður í starfi, hann gerir viðskiptavininn ánægðan, þó hann þurfi að bera honum slæm tíðindi einfaldlega vegna þess að hann reynir að aðstoða eftir bestu getu.

Nú eru flestar fjármálastofnanir landsins í því ástandi, að starfsmenn eru settir í ómögulega stöðu.  Þeir geta ósköp lítið gert til að gera viðskiptavinina ánægða.  Yfirstjórnir fjármálafyrirtækjanna hafa sett starfsmönnum mjög þröngar skorður til að aðstoða viðskiptavinina.  Þá gerist það allt í einu að reyna fer á þolinmæði viðskiptavinanna.  Valdið og verðmætin færast til þeirra.

Á undanförnum vikum hef ég heyrt að allt of mörgum tilfellum, þar sem þolinmæði viðskiptavina fjármálafyrirtækjanna hefur brostið.  Þeim er einfaldlega nóg boðið.  Fólk sem hefur alltaf staðið í skilum biður um smáfyrirgreiðslu og fær neitun.  Yfirdrættir eru ekki framlengdir og ráðstöfunarfé mánaðarins er horfið á einu bretti vegna þess.  Kortaheimildir eru lækkaðar án skýringa.  Ég skil vel að menn þurfi að draga saman í útlánum og það er bara hið besta mál að færa þjóðfélagið úr kreditneyslu yfir í debetneyslu, en á öllu svona löguðu þarf að vera fyrirvari.  Það þarf að gæta sanngirni.

Sterkasta vopn hvers einasta viðskiptavinar er að beina viðskiptum sínum annað.  Sparisjóður Suður-Þingeyinga finnur vel fyrir því um þessa mundir.  Þangað streyma nýir viðskiptavinir í svo miklu mæli, að það er eiginlega farið að valda vandræðum.  Og hvaðan skyldu þessir nýju viðskiptavinir koma?  Þeir koma frá fjármálafyrirtækjum á Reykjavíkursvæðinu.  Þetta er fólk, sem er ósátt við þá þjónustu sem er verið að bjóða því og það sýnir skoðun sína með fótunum.  Það fer annað með launareikninginn sinn.

Nú óttast einhver að þá verði lánin gjaldfelld með tilheyrandi veseni, vegna þess að þegar íbúðalánin voru tekin, þá var það skilyrði sett að lántakandinn hefði launareikninginn sinn hjá fjármálastofnuninni.  En höfum í huga, að samningurinn var gerður við lánastofnun sem kannski er ekki til lengur eða banka sem ekki eru lengur með opin útbú á Íslandi.   Hvernig getur samningur sem gerður var við gamla bankann fest einhvern í viðskiptum við nýja bankann?  Það virkar ekki þannig.  Vilji nýi bankinn að samningurinn gildi áfram, þá finnst mér líklegast að hinn aðili samningsins þurfi að samþykkja það fyrirkomulag.

Það sem rak mig í þessa hugleiðingu, var bloggfærsla sem ég las.  Þar lýsir viðkomandi hvernig útibússtjóri í útibúi eins af nýju bönkunum neitaði honum um 10.000 kr. yfirdrátt í nokkra daga.  Viðkomandi var ekki með neinn yfirdrátt fyrir og hafði, að eigin sögn, ALLTAF verið í skilum.  Nei, það er alveg ljóst, að þessum útibússtjóra fannst viðskipti þessa viðskiptavinar ekki mikilvæg fyrir bankann.  Líklegast var, að þetta var slæmur viðskiptavinur, vegna þess að hann var alltaf í skilum!  Kannski hafði þessi útibússtjóri ekki heimild til að veita 10.000 kr. yfirdrátt í 10 daga.  Kannski var hann í slæmu skapi og lét það bitna á viðskiptavininum.  Eða kannski mat hann sem svo, að dráttarvextirnir á láninu sem dróst fyrir vikið væru verðmætari fyrir bankann, en ánægja viðskiptavinarins.

Þarna kemur einmitt ástæðan fyrir því að öllum finnst starfsmaðurinn ekki alltaf verðmætasta eign þjónustufyrirtækis.  Því á sama hátt og starfsmaðurinn getur breytt rigningu í sólskin með réttu viðmóti, þá getur hann líka verið sá sem traðkar á fingrum þess sem hangir á bjargbrúninni.  Og þá getur hann orðið skaðlegur fyrir fyrirtækið.

Kannski þurfa bankarnir ekkert að óttast.  Mér skilst að þeir séu yfirfullir af peningum, sem þeir geta ekki lánað út.  Þeir segja að það sé vegna þess að þá vanti trausta lántakendur, en ég held að það sé vegna þess að nýju bankarnir eru ekki búnir að ávinna sér traust lántakenda.  Hvað hafa nýju bankarnir gert til að ávinna sér slíkt traust?  Spyr sá sem veit ekki.  Ekki misskilja mig.  Ég vil gjarnan að bankarnir ávinni sér traust landsmanna aftur.  Endilega.  Ég vil að þeir geri það sem skynsömum aðgerðum til að rétt við hag heimilanna.  Ég vil að heimsóknir mínar í bankana mína, já ég er út um allt með viðskipti, verði ánægjulegar en ekki endalaust suð og tuð.  Ég vil ekki þurfa að bíða vikum og mánuðum saman eftir því að erindi séu afgreidd og að hver ný spurning kosti 2 vikna töf.  Ég óska einskis frekar en að þessu leiðindarástandi létti.  Málið er bara, að ég sé ekkert koma frá bönkunum sem bendir til þess að þeir deili þessari sýn með mér.  Það verður að breytast ekki seinna en strax.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Banki án viðskiptavina er kannski draumur sumra bankastjóra.  Bankastjórarnir og bankastjórnirnar hljóta að leggja starfsfólki línurnar í sambandi við viðskiptavinina? 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 16.10.2009 kl. 00:43

2 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Það kemur nú úr hörðustu átt frá þessum fyrirbærum, bönkum, að þeim skorti TRAUSTA lántakendur! Treystir einhver bönkunum eftir þá helför sem þeir fóru í gagn þjóðinni? Ekki ég.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 16.10.2009 kl. 01:30

3 Smámynd: Jón Svan Sigurðsson

Veistu það Marinó það er ekkert að breytast. Ef eitthvað er þá er þetta að versna. Það er til dæmis verið að krefjast nauðungarsölu á heimili vinar mins. Það er vegna skuld þar sem höfuðstólinn er 110.000 kr. Með kostnað er þetta komið í 180.000 kr. Skráður fasteignaeigandi er ábyrgðarmaður á þessu láni og skal tekið fram að ekki var gefið veð í húsinu fyrir þessari skuld. Þetta eru aðferðirnar sem bankarnir nota. Í þessu tilfelli er um að ræða Nýja Landsbankann en skuldin kemur úr gamla Landsbankanum. Þetta fólk er í verulegum vandræðum vegna lækkandi launa og allar þær hækkanir sem hafa orðið og eflaust eiga fleiri eftir að krefjast nauðungarsölu hjá þessu fólki með þrjú börn, en engin hefur gert það. Því er þetta fyrsta krafan og hún er vegna smápenings. Eflaust fylgja svo allir hinir á eftir þegar þetta verður auglýst í Lögbirtingarblaðinu. Þetta fólk gafst upp fyrir nokkrum mánuðum og hætti að greiða af lánum sínum þar sem það sá engan tilgang lengur. Allt sem þau gátu borgað fór alltaf í lögfræðikostnað, dráttarvexti, annan innheimtukostnað og hið óendanleg hyldýpi sem skuldirnar eru orðnar. Skuldirnar hækkuðu jafn mikið og var borgað í hverjm mánuði. Ástandið er ógeðslegt í þessu landi og virkilega sorglegt og óhugnalegt hvernig er komið fram við fólk í landinu sem hefur aldrei gert neitt nema að vinna myrkrana á milli til þess að koma sér upp heimili og fjölskyldu. Skömm ríkisstjórn Íslands og annara er mikil !!!

Jón Svan Sigurðsson, 16.10.2009 kl. 09:39

4 identicon

Ég er ein þeirra sem alltaf hef borgað mitt og verið skilvís og ætla að halda því áfram svo lengi sem ég get. Í gegnum tíðina hef ég fundið fyrir því að fólk eins og ég þykja ekki ýkja merkilegir viðskiptavinir. Það finnst mér eiginlega undarlegt. Þeir sem ætla að skulda grilljónir eru geta hins vegar valsað og gert það sem þeim sýnist, þeir sömu og sem síðan fela slóð sína með ehf-um og nýjum kennitölum.

Jóna Ingibjörg Jónsdóttir (IP-tala skráð) 16.10.2009 kl. 11:33

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Jón Svan, það eru því miður alltof margar svona sögur til.

Jóna, það sagði einu sinni bankastjóri eftirfarandi við hann karl föður minn, en hann var alltaf með allt sitt á hreinu:   "Það versta við þig, Njáll minn, er að við höfum ekkert tak á þér."  Átti hann þar við, að þar sem engin voru vanskilin (eins og hjá flestum öðrum fyrirtækjum landsins), þó gæti bankinn (sem ég held að hafi verið Iðnlánasjóður frekar en Iðnaðarbankinn) hótað honum með fjárnámi eða nauðungarsölu.  Mér sýnist stundum sem bönkunum líði best, ef þeir geta haldið viðskiptavinunum á tánum.  Menn mega þó ekki gleyma því, að það er skilvísa fólkið sem gerir það að verkum, að hægt er að lána hinum!

Marinó G. Njálsson, 16.10.2009 kl. 11:44

6 Smámynd: Jón Svan Sigurðsson

Já Marinó það er því miður rétt hjá þér. Ég vona bara að stjórnvöld hlusta á kröfu HH um að framlengja frestinn vegna nauðungaruppboða um 6 mánuði. Mér hryllir við þá tilhugsun að íslenskum fjölskyldum verði hent út á götu.......en mig hryllir en meir við þá tilhugsun að það verði gert í miðjum íslenskum vetri. Einnig óska ég þess að fleiri gangi inní Hagsmunasamtök Heimilana því þá verða þau en sterkara afl til að knýja fram breytingar og kannski þá hætta stjórnvöld að koma með eintóma plástra.
( Hæ Jóna Ingibjörg frænka  ) 

Jón Svan Sigurðsson, 16.10.2009 kl. 17:15

7 identicon

Marínó; það er þetta sem átt er við með siðrofi: þegar heiðarlegt fólk er einskis virði annað en að vera gólfið sem myndar grunninn fyrir hina óheiðarlegu til að traðka á. Það má ekki og getur ekki verið til hins góða.

Hæ Jón Svan frændi!

Jóna Ingibjörg Jónsdóttir (IP-tala skráð) 16.10.2009 kl. 21:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband