Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Bush að redda undirmálslánavandanum!

Mér sýnist sem Bush sé með þessu að bjarga þeim sem tóku undirmálslánin.  Vandinn við þau var fyrst og fremst endurskoðun vaxta sem á sér stað 3 - 4 árum eftir að lánin eru tekin.  Þessi ráðstöfun gæti hugsanlega dregið verulega úr þörf fjármálafyrirtækja fyrir afskriftum og þannig komið hjólum fjármálakerfisins (lánakerfisins) á snúning á ný.

Kannski að Tryggvi Þór, efnahagsráðgjafi, skoði þetta nú og leggi til sambærilegar ráðstafanir hér áður en sambærilegt vandamál kemur upp hér.  Það er mjög líklegt að fjölmargir húseigendur og húsbyggjendur eiga eftir að vera í vandræðum með afborganir lána sinna næstu misserin.  Það er því mikilvægt að stjórnvöld grípi til aðgerða og betra að þær komi áður en komið er í óefni.


mbl.is Bush samþykkir 300 milljarða sjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hversu hátt var verð á bensíni og dísel 8. maí?

Getur einhver sagt mér hversu hátt verðið á bensín og díselolíu var 8. maí sl.?  Ástæðan fyrir því að ég spyr er sú, að þann dag var heimsmarkaðsverð á hráolíu svipað og það var í lok dag í gær eða í kringum USD 122.  Þann dag var sölugengi USD = 78,47 samkvæmt vef Glitnis, en á þegar þessi færsla er rituð er sölugengi USD = 79,90.  Miðað við þessar forsendur ætti lítrinn af bensíni og díselolíu að vera u.þ.b. 2% dýrari í dag en 8. maí.  Nú man ég ekki hve hátt verðið var þennan dag, þannig að ég veit ekki hvort verðið sé hagstæðara eða óhagstæðara núna.

oliuverd.jpg


mbl.is Olíufélög boðuð á fundi um verðmyndun gagnvart neytendum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hreint út sagt óheppileg tímasetning

Olíufélögin hafa hækkað eldsneytisverð um 2 kr. samkvæmt fréttinni.  Á sama tíma og þau gera þetta, þá hefur krónan styrkst um rúm 2% frá opnun í morgun og tunnan á hráolíu er komin niður fyrir 122 USD.  Vissulega hefur krónan verið að veikjast undanfarna daga, en olíutunnan hefur á sama tíma lækkað mikið og stendur þegar þetta er ritað í 121,57 USD.

oliuverd_29-7-08.jpg


mbl.is Eldsneytisverð hækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slæm ákvörðun getur gefið góða útkomu

Í þessari frétt um álit Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er spáð meiri afskriftum á næstu mánuðum m.a. vegna að:

dregið hefur [úr] gæðum lánasafna margra fjármálastofnana í kjölfar samdráttar í efnahagsumsvifum

Ég er ekkert viss um að það sé rétt að ,,dregið [hafi úr] gæðum lánasafna", heldur séu raunveruleg gæði lánasafnanna að koma í ljós og menn hafi ofmetið gæðin áður.  Það þarf ekki annað en að lesa nýlega eftirlitsskýrslu bandaríska fjármálaeftirlitsins, SEC, til að sjá, að margt bendi til þess að matsfyrirtækin hafi ekki verið að meta verðbréf í samræmi við gæði þeirra.  (Sjá blogg mitt Matsfyrirtækin fá ákúru frá SEC og ESB.)  Vissulega voru menn í fjármálafyrirtækjunum í góðri trú um að gæði lánasafna sinna væri meira en raun ber vitni, m.a. vegna þess (að því virðist óverðskuldaða) trausts sem matsfyrirtækin höfðu.  En engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn og í þessari keðju brugðust matsfyrirtækin.  Þar með varð gæðamat fjármálafyrirtækja á lánasöfnum sínum hærra en efni stóðu til.

Þetta er eins og maðurinn sem keypti um árið hús í Hafnarfirði.  Húsið leit mjög vel út við skoðun, en eftir nokkra mánuði fór að bera á einhverri óværu, þ.e. veggjatítlu.  Það eina sem hægt var að gera, var að farga húsinu og flestu sem í því var.  Spurningin er:  Hvenær fór gæðum húsins að hraka?  Þegar menn uppgötvuðu veggjatítluna eða þegar veggjatítla tók sér bólstaði í húsinu?  Svarið er einfalt:  Þegar veggjatítlan tók sér bólstað í húsinu.

Það er svipað með gæði lánasafnanna.  Þau innihéldu ótrausta pappíra sem menn héldu að væru traustir, vegna þess að þeir treystu matsfyrirtækjunum.  Svo kom í ljós við nánari skoðun (og eftir að óværa byrjaði að láta kræla á sér) að matsfyrirtækin höfðu gert mistök og þeim yfirsást, létu glepjast eða höfðu ekki faglega þekkingu til að átta sig á því að undirmálslánin bandarísku voru mun áhættusamari en fyrirtækin töldu.  (Að vísu kemur í ljós í skýrslu SEC, að sum matfyrirtækin, a.m.k., vissu að undirmálslánin stóðu ekki ein og sér undir AAA einkunn og voru að benda fjármálafyrirtækjum á hvernig hægt væri að setja þau saman með öðrum pappírum í vafninga sem stæðust kröfur fyrir AAA.) Þannig að gæði lánasafnanna var aldrei það sem matsfyrirtækin sögðu.

Það sem villti um fyrir mönnum var að fjármálafyrirtækin voru að græða á tá og fingri, m.a. á þessum undirmálslánum.  En það breytti ekki því að fjármálavafningar með þeim í voru mjög áhættusamir pappírar.  Og út frá ákvörðunarfræði, þá var það slæm ákvörðun að fjárfesta í undirmálslánum, þrátt fyrir að útkoman hefði tímabundið verið góð. 

Það er algjört grundvallaratriði í ákvörðunarfræði, að maður má ekki ganga út frá því að góð ákvörðun tryggi góða útkomu eða að slæm ákvörðun leiði af sér slæma útkomu.  Það eru bara líkurnar sem aukast á því að útkoman verði góð í fyrra tilfellinu og slæm í því síðara. 


mbl.is Enginn endi á lánsfjárkreppunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ISO 27005 nýr staðall um áhættustjórnun

Nýlega kom út nýr staðall um áhættustjórnun sem snýr að upplýsingaöryggi, ISO/IEC 27005:2008 Information technology - Security techniques - Information Security risk management.  Hægt er að nálgast staðalinn hjá Staðlaráði og á www.iso.org.  Staðallinn er í bland alþjóðleg útgáfa breska staðalsins BS 7799-3, uppfærsla á stöðlunum ISO/IEC TR 13335-3:1998 og ISO/IEC TR 13335-4:2000, sem jafnframt falla úr gildi, og ritinu Guide to BS 7799 Risk Assessment frá BSI.

Staðallinn ISO/IEC 27005 er fjórði staðallinn í 2700x röð staðla um upplýsingaöryggi sem komið hefur út.  Áður eru út komnir:

  • ISO/IEC 27001:2005 Information technology - Security techniques - Information security management systems - Requirements.  Er til sem íslenskur staðall ÍST ISO/IEC 27001:2005 Upplýsingatækni - Öryggistækni - Stjórnkerfi upplýsinga[öryggis] - Kröfur
  • ISO/IEC 27002:2005 Information technology - Security techniques - Code of practice for information security management.  ER til sem íslenskur staðall ÍST ISO/IEC 27002:2005 Upplýsingatækni - Öryggistækni - Starfsvenjur fyrir stjórnun upplýsingaöryggis
  • ISO/IEC 27006:2007  Information technology - Security techniques - Requirements for bodies providing audit and certification of information security management systems

Þá eru tveir á leiðinni:

  • ISO/IEC 27000  Information technology - Security techniques - Information security management systems - Overview and Vocabulary
  • ISO/IEC 27004  Information technology - Security techniques - Information security management measurements

Innihald staðalsins

Staðallinn inniheldur lýsingu á áhættustjórnunarferlinu fyrir upplýsingaöryggi og aðgerðum tengdu því. Skynsamlegt er að beita kerfisbundinni nálgun við alla áhættustjórnun, hvort heldur vegna upplýsingaöryggis eða annarra þátta, svo hægt sé að bera kennsl á þarfir fyrirtækja fyrir öryggisstjórnun.  Auk þess er áhættustjórnun einatt grundvöllur þessa að hægt sé að koma upp skilvirku öryggisstjórnkerfi. Þannig gera staðlarnir ISO 27001 og ISO 27002 ráð fyrir að framkvæmt sé áhættumat og beitt sé áhættumeðferð við val á ráðstöfunum og við innleiðingu staðlanna.

Í grófum dráttum ætti áhættustjórnun hafa áhrif á eftirfarandi þætti:

  • Að borin séu kennsl á áhættu/ógnir
  • Að áhætta sé metin með hliðsjón af afleiðingum þess fyrir reksturinn/aðstæður og líkunum á því að áhættan/ógnirnar raungerist
  • Að höfð séu samskipti um líkurnar og afleiðingarnar og allir viðkomandi skilji hvað átt er við
  • Að skilgreind sé forgangsröðun vegna áhættumeðferðar
  • Að skilgreind sé forgangsröðun til að draga úr áhættu
  • Að hagsmunaaðilar taki þátt í ákvörðunum varðandi áhættustjórnun og séu upplýstir um gang mála
  • Að eftirlit með áhættumeðferð sé árangursríkt
  • Að áhætta/ógnir og áhættustjórnunarferlið sé yfirfarið og endurskoðað reglulega
  • Að upplýsingum sé safnað til að bæta aðferðir við áhættustjórnun
  • Að stjórnendur og starfsfólk auki þekkingu sína um áhættu/ógnir og ráðstafanir til að draga úr áhrifum.

Segja má að áhættustjórnunarferlið skiptist í fimm þætti:

  1. Áhættumat, sem felst í að greina áhættu/ógnir og meta áhrif þeirra
  2. Áhættumeðferð, sem getur falist í því að draga úr áhættu, að viðhalda áhættu, forðast hana eða flytja hana til.
  3. Samþykja eða viðurkenna áhættu
  4. Gera hagsmunaaðilum grein fyrir áhættunni (láta vita af henni)
  5. Hafa eftirlit með og endurskoða áhættu

Staðallinn fjallar um þessa fimm þætti, auk þess sem honum fylgja nokkrir viðaukar þar sem m.a. er lýst vhernig gott er að standa að afmörkun (viðauki A), hvaða eignir/verðmæti er dæmigert að taka með og hvernig þetta er metið (viðauki B), dæmi um dæmigerðar ógnir (viðauki C), veilur og hvernig er hægt að meta þær (viðauki D), aðferðir við áhættumat (viðauki E) og loks atriði sem geta takmarkað möguleika til að draga úr áhættu (viðauki F).

Nánari upplýsingar um þetta er að finna í staðlinum, en hann er hægt að nálgast á rafrænu formi með því að smella hér - rafræn útgáfa.  Vilji fólk frekar prentaða útgáfu, þá má smella hér-prentuð útgáfa.

Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar veitir ráðgjöf um notkun staðalsins og hefur margra ára reynslu af notkun þeirra aðferða sem þar er lýst.  Nánari upplýsingar veittir Marinó í síma 898-6019, en einnig er hægt að senda tölvupóst á oryggi@internet.is.

 


Er ESB-aðild að hafa áhrif eða er verið undirbúa atlögu?

Elsta barnið á heimilinu er í námi í Ungverjalandi við Hungarian Dance Academy, þar sem hún er í námi í klassískum ballett.  Þetta hefur orðið til þess að ég hef verið að fylgjast með gangi mála í landinu og hef komið þangað nokkrum sinnum á síðustu 12 mánuðum.  Ungverjar eru margir hverjir mjög svartsýnir og neikvæðir á gang efnahagsmála í landinu.  Svo svartsýnir og neikvæðir að þeir tala um ráðamenn sem glæpamenn og þjófa og segja að allt hafi verið betra í tíð kommúnista.  Ég er ekki dómbær á það, en mér virðist sem einhver viðsnúningur hafi orðið í landinu síðustu mánuði. 

Það fer ekkert á milli mála að Ungverjar og nágrannaríki þeirra í norðri, Slóvakía og Tékkland og síðan Pólland, eru farin að njóta inngöngunnar í ESB.  Þó aðlögunartími fyrstu áranna hafi verið erfiður, þá virðist vera sem þessi lönd séu að koma betur út úr fjármálakreppunni sem heltekur önnur lönd ESB.  Af hverju segi ég þetta?  Jú, þegar dóttir mín fór til Ungverjalands sl. haust, þá var ungverska forintan jafnvirði 0,34 IKR (gengi 22.8.2007), en núna er gengið 1 forint = 0,55 IKR (gengi 25.7.2008) eða hækkun upp á rúmlega 61%.  Aðeins tékkneska krónan og pólska zlotyið hafa hækkað meira af öllum þeim myntum sem Glitnir birtir gengi á eða um rúm 69% og tæp 74%.  Á sama tíma hefur USD og GBP hækkað um rúm 25%, evra um rúm 45% og japanska jenið um 33,5%.

Það væri fróðlegt rannsóknarefni fyrir einhverja hagspekinga og stjórnmálafræðinga að skoða hvernig standi á því að þessar fjórar myntir eru að hækka jafn mikið og raun ber vitni gagnvart stóru og sterku myntunum.  Pólska zloty hefur styrkst um 16,4% gagnvart evrunni, tæp 28% gagnvart USD og rúm 23% gagnvart JPY.  Hjá tékknesku krónunni eru þessar tölur 14,3%, rúm 26% og rúmt 21%.  Og hjá ungversku forintunni þá eru tölurnar 10%, 22,5% og 17,25%.  Þetta eru svo ótrúlegar tölur, að þær hljóta að vekja athygli.  Kannski ætti þetta að hringja einhverjum aðvörunarbjöllum, eins og ég kem að á eftir. 

Hvað eru þessar þjóðir að gera sem við erum ekki að gera?  Nú veit ég að verðbólga í Ungverjalandi er mjög há á þeirra mælikvarða og sama á við um stýrivexti og atvinnuleysi.  Þjóðin (almenningur) lifir á lánum svipað og Íslendingar.  Það eru tekin há lán fyrir húsnæði, bílum, ferðalögum og húsmunum.  Á síðasta ári voru yfir 20.000 lúxusbílar teknir af skráðum eigendum, þar sem þeir höfðu ekki staðið í skilum með afborganir.  Fólk er að kikna undan afborgunum lána.  Hljómar kunnuglega?  Í vor gerði svo þjóðin uppreisn, ef svo má segja, þegar hún hafnaði í þjóðaratkvæðagreiðslu að heimila ríkisstjórninni að taka lán frá eftirlaunasjóðum (lífeyrissjóðum) fyrir ýmsum nauðsynlegum framkvæmdum.  Fólk treysti ekki ríkisstjórninni til að greiða lánið.

Þegar maður kemur til Ungverjalands, þá kemst maður ekki hjá því að sjá að þar er uppgangur á sumum sviðum.  T.d. er nýbúið að opna (að þeirra sögn) stærstu verslunarmiðstöð Evrópu í hjarta Búdapest.  Laugavegurinn þeirra í Búdapest (Vaci utca) er alltaf fullur af fólki og sama á við um þær verslunarmiðstöðvar sem ég hef farið í.  Umferð er mikil og almenningssamgöngur mikið notaðar.  En maður fær það aldrei á tilfinninguna að almenningur hafi það gott.  Heimilisleysingjar eru út um allt og betlarar á hverju strái.  Maður fær svolítið á tilfinninguna að velmegunin sé bara hjá útvöldum.

Þannig að ef efnahagsástandið er ekki að skýra styrkingu þessara mynta, hver er þá skýringin?  Ég sé svo sem tvær skýringar. Báðar eru svona íslenskir fortíðardraugar, þ.e. innstreymi erlends fjármagns og vaxtaskiptasamningar. Ég veit að stýrivextir í Ungverjalandi eru komnir vel upp fyrir stýrivexti Seðlabanka Evrópu og stýrivexti Bank of England.  Þar eru því að myndast svipaðar aðstæður og voru hér, nema líklegast sætta menn sig við lægri vaxtamun á krepputímum, en þeir gerðu áður.  Á þessari skýringu er einn hængur, en hann er sá að Slóvakar munu taka upp evru 1. janúar nk. og því hafa spákaupmenn stuttan tíma til að athafna sig, ætli þeir það á annað borð.  Lengra er í að hin löndin taki upp evru. Hugsanlega gera menn ekki greinarmun á Slóvökum og Tékkum og því fljóta þeir með.  En ef þetta er skýringin, þá er hugsanlega verið að leika sama leik gagnvart brasilíska ríalinu, en það hefur einnig hækkað talsvert gagnvart evru, USD, GBP og JPY.  Það væri a.m.k. forvitnilegt að vita hvort nýlega hafi orðið mikil aukning í skuldabréfaútgáfu í myntum þessara landa.


Spáin breytist um 17% á tveimur mánuðum

Það hefur heldur betur orðið viðsnúningur í spám greiningardeildar Glitnis.  Í þjóðhagsspá Greiningar Glitnis sem kom út í lok maí kemur fram að gert er ráð fyrir að meðalgengisvísitala ársins verði 142, en lokagildi 135.  Ég bloggaði um þessa spá (sjá Glitnir: Svartsýni fyrir þetta ár, en bjartsýni fyrir það næsta) og taldi m.a. að til þess að þessi spá Glitnis gæti gengið eftir, þá þyrfti gengið að veikjast talsvert frá því sem þá var:

Mér virðist því Glitnir spá því að gengisvísitala á bilinu 143 til 147 verði það sem við stöndum frammi fyrir alveg til nóvemberloka og það verði ekki fyrr en í desember sem gengið takist að styrkjast svo heitið getur.  Annar möguleiki er að ástandið eigi eftir að versna aftur áður en það tekur að batna.

Nú er komið annað hljóði í strokkinn hjá Glitni og fólk hjá Glitni orðið svartsýnna. Spáð er gengisvísitölu upp á 158 í árslok, sem er heilum 17% lægri vísitala en spáð var í lok maí!  Þetta er umtalsverð breyting á ekki lengri tíma, sem sýnir að menn hafa raunar ekki hugmynd um hvernig hlutirnir munu þróast.  Og á meðan ríkisstjórn og Seðlabankinn gera ekkert til að styðja við gengi krónunnar, þá er alveg öruggt að engum öðrum dettur það í hug.  Ég væri hins vegar til í að taka hátt erlent lán á næstu dögum, ef einhver er til í að veita mér það.


mbl.is Spá lítilli styrkingu krónu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðbólga í takt við væntingar

Það kemur svo sem ekkert mikið á óvart við þessar tölur um hækkun neysluverðvísitölu.  Sjálfur var ég búinn að spá 0,8% hækkun og gekk ég út frá fyrri hegðun eftir svipað skot.  Það er þó eitt sem vekur furðu:  Markaðsverð húsnæðis HÆKKAÐI á milli mánaða!!!!  Það stendur þarna í fréttinni:

Kostnaður vegna eigin húsnæðis hækkaði um 1,1% (0,19%). Þar af voru áhrif af hækkun markaðsverðs 0,11% en áhrif af hækkun raunvaxta voru 0,08%.

Mér finnst þetta svo með ólíkindum, að ég trúi þessu ekki.  Samkvæmt talnaefni Hagstofunnar, þá er undirliður sem heitir Reiknuð húsaleiga. Mælir hann 1,12% hækkun milli júní og júlí sem gefur 0,19% hækkun í vísitölunni.  Þetta er sérlega athyglisvert í ljósi þess að flestir hafa verið að tala um að húsnæðisverð hafi lækkað um allt að 10% undanfarnar vikur.  Þessi "lækkun" hefur því að mestu átt sér stað í því að nafnverð húsnæðis hefur staðið í stað.

Þessar tölur um verðbólgu í júlí ýta ennþá frekar undir þá spá mína frá því í maí (sjá hér), að verðbólga verði að minnsta kosti 14% síðsumars (lesist ágúst).  Ef gert er ráð fyrir að verðbólgan helmingist á milli mánaða næsta mánuðinn og verði því nálægt 0,5%, þá mun verðbólga í ágúst samt hækka og verða yfir 14% (14,1%).  Vandamálið er að það lítur alls ekki út fyrir að vísitöluhækkun milli júlí og ágúst verði lægri en milli júní og júlí.

Venjulega hefur ágúst verið sá mánuður sem hefur verið með lægsta verðbólgu.  Hefur það fyrst og fremst verið vegna að útsöluáhrifin hafa komið inn í þá vísitölumælingu.  Í ár verður breyting á, þar sem verðbólgumælingar eru núna framkvæmdar um miðjan mánuð, en voru áður framkvæmdar í byrjun mánaðar.  Þetta gerir það að verkum, að útsöluáhrifin koma fram í júlívísitölunni og hækkun vegna nýrrar vöru kemur fram í ágústvísitölunni, þ.e. gert er ráð fyrir að útsölur byrji eftir miðjan júní og ný vara komi inn fljótlega eftir Verzlunarmannahelgi.  Það eru því talsverðar líkur á því að vísitalan í ágúst verði eins og septembervísitalan hefur verið venjulega.  Undanfarin 10 ár hefur septembervísitalan alltaf verið hærri en ágústvísitalan svo nemur á bilinu 0,27 og upp í 1,31%.  Ef við gefum okkur sambærilegan mun á júlí og ágúst og hingað til hefur verið á ágúst og september, þá erum við ekki í góðum málum varðandi mælinguna í ágúst. 0,27 til 1,31 punkta viðbót ofan á 0,94% er allsvakalegt.  Lægri talan gæfi okkur ársverðbólgu upp á 14,9%, en hærri talan ársverðbólgu upp á 16%.  Það er víst ekkert annað en að bíða og vona að hækkanirnar verið ekki svona skarpar. 


mbl.is Verðbólgan mælist nú 13,6%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrir þá sem vilja fylgjast með heimsmarkaðsverði

Hér eru tveir tenglar inn á síðu sem sýnir breytingar á heimsmarkaðsverði á annars vegar hráolíu og hins vegar Brent olíu (Norðursjávaroliu).  Hafa skal í huga að Brent olian er alltaf einhverjum dölum hærri en hráolían:

Crude Oil Chart

Brent Oil Chart

Þá er hér tengill á síðuna World Crude Oil Prices, þar sem finna má sögulegar upplýsingar um oliuverð frá mismunandi olíulindum víðsvegar af úr heiminum. 


mbl.is Bensínverð úr takti við heimsmarkaðsverð?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað þurfa raunstýrivextir að vera háir?

Greining Landsbankans er að spá lækkun stýrivaxta í nóvember í spá sem birt var í morgun.  Byggir greiningin m.a. á því að "dregið [hafi] úr verðbólguvæntingum næstu mánuði" og því hafi Seðlabankinn ekki lengur þörf á að halda stýrivöxtum svona háum lengur.  Ekki eru nema nokkrir dagar síðan að greiningardeild Landsbankann birti spá um þróun krónunnar þar sem spáð var að hún yrði veik út árið og þar með að varla kæmi til lækkun verðbólgu vegna styrkingu krónunnar.

Ég trú ekki öðru en að Seðlabankinn velti fyrir sér samspili verðbólgu og stýrivaxta, þegar ákvörðun um stýrivexti eru teknar.  A.m.k. var það skýringin í apríl, þegar stýrivextir voru hækkaðir í 15,5% að halda yrði stýrivöxtum í ákveðinni fjarlægð frá verðbólgunni.  Þá var bilið, þ.e. raunstýrivextir, 3,7% og í blogginu mínu frá 22.5. Viðsnúningurinn hafinn?, þá spáði ég því að raunstýrivextir færu niður fyrir 3% með verðbólgutölum í maí.  Sú varð að vísu ekki raunin, heldur gerðist það mánuði seinna.  Um þessar mundir standa raunstýrivextir í 2,8%, þ.e. verðbólga mældist 12,7% í júní og stýrivextir standa í 15,5%.  Gangi verðbólguspár bankanna eftir verður verðbólgan í júlí á bilinu 13,3 - 13,7%, sem gerir það að verkum að raunstýrivextir verða á bilinu 1,8 - 2,2% og gætu lækkað niður fyrir 1,5% gangi spár eftir um rúmlega 14% verðbólgu í ágúst.

Ég velti í maí vöngum yfir hvaða raunstig stýrivaxta Seðlabankinn teldi nauðsynlegt.  Það er alveg ljóst að miðað við óbreytta stýrivexti munu raunstýrivextir lækka við birtingu næstu tveggja verðbólgutalna, en eftir það hækka þeirra hægt fram að áramótum. Spá um stýrivexti byggir á tveimur forsendum: 

1. Æskilegt raunstig stýrivaxta. 

2. Spá um verðbólgu næstu mánaða.

Skoðum fyrst æskilegt raunstig stýrivaxta.  Reynsla undanfarinna ára er að Seðlabankinn hefur haldið raunstýrivöxtum á bilinu 1,8 - 3,8% á þeim tíma þegar verðbólga hefur verið tiltölulega lág.  Það má því gera ráð fyrir að æskilegt raunstig sé um 2,8-3,3%. (Hér verður 3,3% notað.)

Það sem við vitum um verðbólgu næstu mánaða er að hún á eftir að hækka áður en lækkunarferlið fer í gang.  Svartsýnustu spár bankanna geta þýtt að verðbólga í ágúst fari í 14,5%, en bjartsýnustu virðast gera ráð fyrir 13,7 - 14,1%.  Mjög erfitt er að spá framhaldinu, þar sem það veltur umtalsvert á stöðu krónunnar, en það er sama hvernig ég leik mér með tölur, ég get ekki séð að verðbólga í árslok verði undir 11% og mjög líklega slagar hún í 12,5%.

Þá er komið að því að spá fyrir um stýrivexti.  Í fyrsta lagi, þá megum við þakka fyrir að þeir verði ekki hækkaðir tímabundið eftir birtingu verðbólgutalna í júlí og ágúst.  Seðlabankinn hefur góð og gild rök fyrir því, ef hann miðar bara við að halda tilteknu raunstigi.  Ákveði Seðlabankinn aftur að stinga sér í gegnum öldutopp verðbólguöldunnar, þá má á móti búast við að hann dragi það lengur að hefja lækkunarferlið og ég er ekki viss um að verðbólga hafi hjaðnað nægilega á ársgrundvelli í nóvember til að stýrivextir verði lækkaðir þá.  Raunar held ég að Seðlabankinn muni ekki hefja lækkunarferlið fyrr en ársverðbólga er komin niður fyrir 12%.  Sé eitthvað að marka gengisspá Landsbankans, þá gerist það varla fyrr en í desember og hugsanlega ekki fyrr en í janúar.

Eftir að lækkunarferlið fer í gang, þá er allt sem bendir til þess að það verði skarpt (með fyrirvara um frekari áföll). Miðað við forsendur að ofan má því búast við að stýrivextir breytist sem hér segir (verðbólguspá innan sviga):

Desember 15,0% (11,5%)

2009:

Febrúar 14,0% (10,3%)

Mars 12,0% (9,0%)

Apríl 9,0% (5,6%)

Maí 8,0% (4,4%)

Júní 7,0% (3,7%)

Júlí 6,5% (3,1%)

Ágúst 6,0% (2,7%)

Nóvember 5,5% (2,4%)

Þetta er náttúrulega alveg sérlega mikil bjartsýni, en þessu fylgir mjög líklega talsverður skellur í efnahagslífinu.


mbl.is Spá stýrivaxtalækkun í nóvember
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband