Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

En hann hefur samt skorað fleiri stig úr vítum en góðu skytturnar

Tölfræði getur stundum verið snúin.  Hér er frétt um skotnýtingu Shaquille O'Neal, þar sem er verið að gera lítið úr hittni hans af vítalínunni.  Það kemur fram að hann hafi "klúðrað" yfir 5.000 skotum, en jafnframt sagt að hann hafi 52,5% nýtingu, sem þýðir að hann hefur skorað meira en 5.100 stig af vítalínunni.  Nokkuð góður árangur, sem er betra en meðaltal 12 bestu vítaskyttna NBA, en þær hafa að jafnaði tekið 1.350 færri vítaskot en Shaq hefur skorað úr!  Eða þá liðfélagi Shaq, Steven Nash, sem vissulega er með 90% nýtingu, en aðeins úr 2.500 skotum.  Miðað við þetta, þá er betra fyrir þau lið sem Shaq hefur spilað með að hann skori bara úr öðru hverju skoti, en að fyrir liðin með 12 bestu vítaskytturnar í NBA að þær skori úr 9 af hverjum 10.  Best væri náttúrulega, að það væri jafnmikil ógn af þessum meistaraskyttum og af Shaq, þannig að menn væru sífellt að brjóta á þeim.

Ekki það, að ég hef aldrei verið aðdáandi Shaq og er alveg sama hvað hann "klúðrar" oft af vítalínunni.  Það er bara tölfræðin í þessari frétt sem vekur áhuga minn.  Stundum er nefnilega lakari árangur betri en góður árangur.


mbl.is Shaq hefur „klúðrað“ yfir 5.000 vítaskotum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samsetning stjórna lífeyrissjóðanna ekki vandinn

Það er erfitt að meta hvað er eðlilegt og hvað ekki, þegar kemur að því að ákveða hverjir eiga að sitja í stjórnum lífeyrissjóðanna.  Við megum ekki gleyma því, að atvinnurekendur greiða háar upphæðir í lífeyrissjóðina vegna starfsmanna sinna.  Þeir vilja því tryggja að farið sé vel með peningana og þess vegna er ekki óeðlilegt að þeir eigi stjórnarmann.  Sjóðirnir eru "eign" sjóðsfélaganna, þ.e. starfsmanna fyrirtækjanna.  Þeir vilja því tryggja að farið sé vel með peningana og þess vegna er ekki óeðlilegt að þeir eigi stjórnarmann.  Lífeyrissjóðirnir eru til vegna ákvæða í kjarasamningum sem síðan voru lögleidd.  Stéttarfélögin vilja því að vel sé farið með peningana og þess vegna er ekki óeðlilegt að þeir eigi stjórnarmann. 

Nú eru stjórnir lífeyrissjóðanna fjölskipaðar, oftast með fimm aðalmönnum og fimm varamönnum.  Mér sýnist því lausnin vera að hver um sig úr þessum hópi eigi einn fulltrúa í stjórn lífeyrissjóðanna, en síðan held ég að það þurfi að hafa tvo aðila í stjórn lífeyrissjóðanna, sem eru óháðir öllum þessum aðilum (sé því yfirhöfuð komið við hér á landi), til að tryggja jafnvægi og þekkingu á sviði fjármála og fjárfestinga.  Þessa aðila má skipa þannig að stéttarfélögin velji annan, en atvinnurekendur hinn.  Skilyrðið væri að viðkomandi sé ótengdur viðkomandi samtökum og uppfylli tiltekin hæfisskilyrði. 

Annars er það, að mínu mati, ekki skipan í stjórnir sem skiptir meginmáli eða að löggjöf um lífeyrissjóði hafi verið röng.  Samkvæmt löggjöfinni á fjárfestingastefna þeirra að vera með þeim hætti að dregið sé eins og kostur er úr áhættu, að innra eftirlit sjóðanna sé virkt og að áhættustjórnun þeirra sé skilvirk.  Í mínum huga er ekkert sem bendir til annars en að sjóðirnir hafi verið að standa sig vel á undanförnum árum.  Hluti af vandanum var mun fremur að umfang þeirra var orðið svo mikið, rúmlega 1.600 milljarðar í lok síðasta árs, að erfitt var fyrir þá að fjárfesta hér á landi nema í sífellt einsleitari og þar sem áhættusamari fjárfestingum.  Það eru takmörk fyrir því hvað sjóðirnir mega eiga stóra eignahluta í skráðum sem óskráðum fyrirtækjum.  Það eru takmörk fyrir því hve mikið er af ríkisskuldabréfum á markaði.  Það eru takmörk fyrir því hve mikið sjóðirnir mega fjárfesta í erlendum hlutabréfum og skuldabréfum.  Áhættulitlir kostir voru einfaldlega á þrotum og síðan má svo sem ekki gleyma því að bankabréf voru taldir öruggir kostir alls staðar í heiminum, þar til að Lehman Brothers féll.

En hvernig var eignasafn þriggja stærstu lífeyrissjóðanna um síðustu áramót?  Hér eru upplýsingar úr ársskýrslum þeirra:

1.  Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) er stærstur með eignir upp á 317 milljarða um síðustu áramót eða 18,8% af eignum lífeyrissjóðanna.  Eignasafn LSR skiptist þannig:

  • Ríkistryggð bréf 15,6%
  • Skuldabréf lánastofnana 8.6%
  • Skuldabréf sveitarfélaga 4,9%
  • Skuldabréf fyrirtækja 9,8%
  • Sjóðfélagalán 13,9%
  • Erlend skuldabréf 2,6%
  • Innlend hlutabréf 15,9%
  • Erlend hlutabréf 27,0%
  • Ýmsir sjóðir 1,7%31

2.  Lífeyrissjóður verslunarmanna (Live) er næst stærstur með eignir upp á 269 milljarða 31.12.2007 eða 15,9% eigna lífeyrissjóða.  Eignasafn Live skiptist sem hér segir:

  • Sjóðfélagalán  9,2%
  • Íbúðabréf 27,0%
  • Bankar og sparisjóðir 3,7%
  • Fyrirtæki 2,6%
  • Innlend hlutabréf 37,0%
  • Erlend verðbréf 20,3%
  • Annað 0,2%

3. Gildi lífeyrissjóður er þriðji stærsti sjóðurinn með eignir upp á rúmar 238 milljarða í árslok 2007 eða 14,1% heildareigna lífeyrissjóða.  Eignasafn Gildis skiptist sem hér segir: 

  • Erlend hlutabréf 21,1%
  • Framtaks- og fasteignasjóðir 4,2%
  • Vogunarsjóðir 2,9%
  • Innlend hlutabréf 22,3%
  • Ríkistryggð bréf 25,6%
  • Skuldabréf fyrirtækja 8,3%
  • Skuldabréf banka og sparisjóða 4,7%
  • Veðskuldabréf 4,7%
  • Skuldabréf sveitarfélaga 2,9%
  • Önnur skuldabréf 3,3%

Ég get ekki séð að þessi eignasamsetning sé gagnrýni verð miðað við stöðuna um síðustu áramót.  Að sjálfsögðu er hægt að vera vitur eftir á og gagnrýna stöðu þeirra í hlutabréfum, hvort heldur innlendum eða erlendum.  Getum við ekki alveg eins gagnrýnt þá fyrir að hafa ekki átt meira og þannig tryggt þeim meiri ítök í stjórnum bankanna?  Kannski hafði það breytt einhverju.

Ef eitthvað brást, þá er það helst íslenski fjármálamarkaðurinn.  Hann var því miður, miðað við það sem er að koma í ljós um þessar mundir, hálfgerður sýndarveruleiki og morandi í alls konar svikamyllum.  Það var ekkert að marka opinberar upplýsingar fjármálafyrirtækjanna.  Flækjurnar í eignatengslum og skuldum voru slíkar, að eingöngu innvígðir og innmúraðir gátu skilið það.  Við þurfum að skoða hvernig það gat gerst, en ekki refsa þeim sem sáu ekki í gegnum flækjurnar.  Hvernig stendur á því að hægt var að flækja hlutina svona mikið?  Hvernig stóð á því að FME framkvæmdi álagspróf í ágúst sem ekki tók á mögulegum lausafjárvanda í miðri lausafjárkreppu?  Hvernig stóð á því að Seðlabankinn beitti engum gengisvörnum, hvorki til að koma í veg fyrir of mikla styrkingu krónunnar né veikingu?  Það hefði engu máli skipt, þó allir stjórnarmenn lífeyrissjóðanna hefðu komið úr hópi sjóðfélaga, sjóðirnir hefðu samt lent í vanda vegna þess að það voru innviðir fjármálakerfisins sem voru fúnir.  Þeir voru fúnir vegna þess að reglur fjármálakerfisins leyfðu það, vegna þess að eftirlitið brást, vegna þess að menn urðu græðginni að bráð, vegna þess að áhættustýring brást, vegna þess að menn virtu lög og reglur að vettugi.


mbl.is Vilja atvinnurekendur úr stjórnum lífeyrissjóða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misheppnuð handstýring?

Nú hefur gengið verið á floti með kút og kork í nokkrar vikur.  Það byrjaði allt vel og gengisvísitalan (GVT) fór niður fyrir 200 stig á fyrstu dögunum.  Nú hefur gengið sigið um rúm 10% frá hæstu stöðu og er GVT komin í 224 stig.  Evran er í 175 kr., GBP er 185 kr. og USD er 125 kr. miðað við stundargengi Glitnis.  Mjög fáir aðilar virðast versla með gjaldeyri á millibankamarkaði og því er vafasamt að tala um að gengið fljóti.  Frekar að um handstýringu sé að ræða.  Gott og blessað.  Ég er í sjálfu sér ekkert ósáttur við að krónan finni eitthvað jafnvægi sem hægt er að nota til að hleypa peningaeign erlendra aðila úr landi á ekki of sterku gengi.  Ég benti á það í færslu hér í gær (sjá Bull rök fyrir háum stýrivöxtum) að skynsamlegra væri að hleypa erlendum fjárfestum út með fjármuni sína þegar evran er 200 kr., en þegar evra en 100 kr.  Með því sparast fleiri hundruð milljarðar af gjaldeyrisforðanum.

Það sem hlýtur aftur að vekja furðu mína, er að Barclays (sjá hér) er með skráningu á íslensku krónunni, sem er talsvert hagstæðari en það gengi sem býðst á Íslandi.  Þar er evran 152 kr.,GBP er 161 kr. og USD er 109 kr. Þetta er munur upp á um 15%, þ.e. greiða þarf 15% meira á Íslandi fyrir þessa gjaldmiðla en hjá Barclays.  Spurningin er svo hvort virkilega sé hægt að kaupa evrur, pund og dollara á þessu gengi í skiptum fyrir íslenskar krónur.

Að krónan hafi lækkað í gengisskráningu hér innanland gefur til kynna að háir stýrivextir eru ekki að hafa tilætluð áhrif.  Spurningin hvort það sé ekki trúverðugleikinn stjórnun efnahags- og peningamála sem skipti meira máli en stýrivextirnir og það verður að segjast að það eru líklegast ekki margir sem hafa trú á því að stjórnvöld og Seðlabankinn ráði við þá stöðu sem nú er uppi.  Ástæðan er líklegast sú, að enginn sem máli skiptir hefur vikið sæti á þeim nærri 3 mánuðum síðan bankarnir hrundu.  Það sem meira er, að enginn hefur sagt af sér síðan hrunið byrjaði í ágúst á síðasta ári.  Já, þetta byrjaði allt þá.

Það er mín skoðun, að til að auka trúverðugleika á efnahagsstjórninni, þá þurfi að miða hana við að halda atvinnulífinu í landinu og heimilunum gangandi.  Það verður ekki gert með himinháum stýrivöxtum og útgáfu ríkisskuldabréf og ríkisvíxla með svimandi háum vöxtum.  Það er eins og menn skilji ekki, að ríki og Seðlabanki verða að ganga á undan með góðu fordæmi og lækka þá vexti sem eru í boði.  Hvernig á vaxtarstigið í landinu að lækka, ef ríkið og Seðlabanki halda því uppi í samkeppni við fyrirtækin í landinu?  Hvernig eiga fyrirtækin í landinu að geta fengið hagstæð lán, ef ríkið og Seðlabankinn yfirbjóða með fáránlega háum vöxtum?

Ég er sannfærður um að krónan muni styrkjast um leið og vaxtastigið lækkar.  Ástæðan er einföld.  Þá munu fjárfestar sjá að vilji er til að endurreisa fyrirtæki landsins og verðmætasköpun getur átt sér stað.  Einnig verður með þessu vikið frá gjaldþrotastefnunni, sem virðist eiga sér það eitt markmið að koma sem flestum eigum landsmanna undir banka og sparisjóði.  Það er nefnilega þannig sem þetta endar, ef haldið er áfram á sömu braut.


mbl.is Lækkun gagnvart evru 17% á tveimur vikum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bull rök fyrir háum stýrivöxtum

Ég hef verið að skoða rök Seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir háum stýrivöxtum, en þau eru að styrkja við gengi krónunnar.  Mér finnst þetta á engan hátt standast, þar sem slík rök eiga eingöngu við þegar markaður með krónuna er frjáls.  Núna eru gjaldeyrishöft og þau þýða að stýrt er hvaða gjaldeyrir má koma inn í landið og hvaða gjaldeyrir má fara út.  Það er þess vegna ekki við neitt að styðja eða hvað þá eitthvað að styrkja.

Mér sýnist ástæðan fyrir háum stýrivöxtum fyrst og fremst vera að tryggja þeim erlendu aðilum, sem eru fastir með peninga sína í landinu, háa ávöxtun á peningana sína.  Ef 600 milljarðar eru fastir í landinu og þeir eru á 18% vöxtum, þá vex þessi upphæð um 9 milljarða á mánuði eða alls 108 milljarða á ári.  Það þýðir að bæta þarf 108 milljörðum á ári í gjaldeyrisforða þjóðarinnar til að geta greitt þessum aðilum eignir sínar.  Með því erum við að veikja krónuna, ekki styrkja.

Ég get ekki séð, að það þurfi háa stýrivexti til að halda innistæðu og  eignum erlendra aðila hér á landi.  Ég hef fjallað um þetta áður (sjá Gjaldeyrislögin - skynsemi eða afleikur?) þar sem ég tel mig færa fín rök fyrir því að það sé hagur hinna erlendu aðila, að krónan styrkist.  Hvort ætli sé betra fyrir þá að skipta krónum í evru á genginu 200 eða 100?  Svarið er augljóst.  600 milljarðar duga fyrir 100% fleiri evrum á genginu 100 miðað við gengið 200.  Gjaldeyrishöftin eru því í reynd neikvæð fyrir stöðu krónunnar, þar sem þau ganga að því sem vísu að menn vilji frekar tapa 50% af eignum sínum með því að fara út með peninginn strax.  Gott og vel, en er það ekki betra fyrir gjaldeyrisforða þjóðarinnar að menn fari út með peninginn strax.  Ef Seðlabankinn á, segjum, jafngildi 5 milljarða evra í gjaldeyri, þá eru það 500 milljarðar á genginu 100, en 1000 milljarðar á genginu 200. 

Hvort er þá betra fyrir gjaldeyrisforðann?  Í mínum huga er svarið augljóst.  Opnum gjaldeyrismarkaðinn, losum út þann gjaldeyri sem vill út.  Þetta hefur aðra hlið, en hún er að innlendir aðilar sem hafa fjárfest í útlöndum geta notað tækifærið til að losa um fjárfestingar sínar og flutt gjaldeyri heim.  Slíkt gæti styrkt verulega stöðu lífeyrissjóðanna og bankanna, svo dæmi séu tekin.  Vissulega hefði þetta tímabundið neikvæð áhrif á erlend lán en með því að frysta slíkar greiðslur meðan kúfurinn gengur yfir, þá verða áhrif minni en efni standa til.

Ef halda á stýrivöxtum háum, þá mun það eitt vinnast, að eignir sem flytjast munu úr landi aukast.  Og ekki bara það, það þarf sífellt meiri gjaldeyri til að skipta þessum fjármunum úr krónum í gjaldeyri.  Háir stýrivextir eru því fyrst og fremst hagsmunir erlendra aðila, ekki landsmanna.  Háir stýrivextir auka eignir útlendinga hér á landi og veikja stöðu innlendra aðila.  Háir stýrivextir ýta undir verðbólgu, þar sem þeir halda uppi vaxtastigi, sem síðan mælist í verðbólgunni.  Háir stýrivextir þýða að ganga þarf meira á gjaldeyrisforða þjóðarinnar til að losa um fjármuni erlendra aðila hér á landi.

Eitt að lokum.  Víðast hvar í heiminum eru stýrivextir langt undir verðbólgumælingu í viðkomandi landi.  Þau halda því ekki heldur rökin að raunstýrivextir þurfi að vera jákvæðir.


Það er vont en það venst

Hækkun vísitölu neysluverðs er heldur meiri en ég spáði í bloggi hér fyrir hálfum mánuði (sjá Það er verðbólgan að baki sem er mesta vandamálið).  Þá spáði ég 1,1 - 1,4% hækkun milli mánaða, en síðan hækkaði ríkisstjórnin ýmsar álögur á áfengi, tóbak, bensín og olíu, sem taldar voru hafa áhrif upp á 0,5%.  Muna ekki allir eftir því, að forsætisráðherra sagði að þær hækkanir hefðu ekki áhrif á verðbólgu! (sjá Forsætisráðherra fer ekki með rétt mál og Ályktunargáfa sem á sér ekki sinn líka).

En þetta á eftir að versna áður en það byrjar að batna.  Samkvæmt töflu á vef Hagstofunnar, þá var hækkun vísitölu neysluverð 0,2% milli desember 2007 og janúar 2008.  Til þess að verðbólgan verði lægri í næsta mánuði, þá þarf hækkunin milli desember 2008 og janúar 2009 að vera undir 0,2%.  Verður það að teljast ákaflega ólíklegt.  Taflan sýnir áhrif mismunandi hækkunar á vísitölu neysluverðs milli desember og janúar á verðbólgutölur í janúar.

 

Hækkun milli des. og jan.

Verðbólga í jan.

0,3%

18,3%

0,6%

18,6%

0,9%

19,0%

1,2%

19,3%

1,5%

19,7%


mbl.is Verðbólgan mælist 18,1%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna

Nú hefur ríkisstjórnin, fyrirgefið meirihluti fjárlaganefndar, lagt til breytingar á fjárlagafrumvarpi upp á litla 385 milljarða króna svo hægt sé að leggja bönkunum þremur til nýtt eigið fé.  Þetta kemur svo sem ekkert á óvart, þar sem búið var að boða þessar aðgerðir fyrir löngu.  Það kemur heldur ekki á óvart að enginn veit hvað tekur svo við.  Jú, við vitum að almenningur á að borga meira í skatta, en síðan ekkert meira.  Við vitum ekki til hvaða aðgerða verður gripið til að snúa efnahag landsins við.  Við vitum ekki hvaða skilmálar eru í samningi ríkisstjórnarinnar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.  Við vitum ekki hve lengi gjaldeyrishöft verða í landinu.  Við vitum ekki til hvaða sérfræðinga var leitað um leiðir til úrlausna.  Við vitum raunar ekki þær ráðstafanir sem þegar hefur verið gripið til eru tillögur ríkisstjórnarinnar eða AGS.  Við vitum ekki hvort og þá hvenær verður skipt út í yfirstjórn Seðlabankans, Fjármálaeftirlitsins eða ríkisstjórn.  Við vitum ekki hvað er að gerast bakvið tjöldin eða hvort yfirhöfuð eitthvað sé að gerast bakvið tjöldin.  Almenningi í landinu er ætlað að borga brúsann, en við fáum ekki að vita neitt.

Þetta gengur ekki lengur.  Það gengur ekki lengur, að þeir sem sofandi stefndu þjóðarskútunni að feigðarósi, haldi áfram að stýra skútunni án þess að upplýsa okkur landsmenn um það hvað þeir eru að gera.  Mér þætti langbest, ef birtur væri listi yfir alla sérfræðinga og ráðgjafa sem hafa verið ríkisstjórninni innan handar við þá vinnu sem hefur verið í gangi.  Mér þætti líka vænt um að fá að vita af hverju hagsmunasamtök atvinnulífs og launafólks hafa verið gjörsamlega hunsuð í vinnunni við gerð fjárlaga.  Loks vildi ég gjarnan vita hvaða aðgerðahópar eru að vinna fyrir ríkisstjórnina við lausn mála, hverjir sitja í þessum aðgerðahópum og hvað það er sem gerir þessa einstaklinga svona hæfa til að taka þátt í þessari vinnu. 

Ég verð bara að segja að þiggi ríkisstjórnin einhverja utanaðkomandi ráðgjöf, þá finnst mér hún á margan hátt misráðin.  Hvaða vitglóra er í því að stefna stórum hluta fólks í atvinnuleysi í staðinn fyrir að hjálpa fyrirtækjum við að halda fólki í vinnu?  Hvaða vitglóra er í því að hvetja fólk til að fara í nám, en skera síðan niður framlög til skólamála?  Hvaða vitglóra er í því að þykjast vera að verja hag hinna verst settu, en tryggja ekki elli- og örorkulífeyrisþegum nægar tekjur til framfærslu? 

Ég hélt að sterkasti leikur ríkisstjórnarinnar væri að fjölga þeim sem geta borgað skatta.  Það er gert með því að halda sem flestum í vinnu.  Það er ekki gert með því að gera fólk atvinnulaust eða hvetja það til að fara í skóla.  Hvar eru allar hugmyndirnar um mannaflsfrekar framkvæmdir? Það á að setja 10 milljarðar í atvinnuleysisbætur.  Hvernig væri að taka hluta af þessari upphæð og setja í mannaflsfrekar framkvæmdir?  Borgum fyrirtækjum fyrir að hafa fólk í vinnu, í staðinn fyrir að borga fólki fyrir að vera ekki í vinnu.

Eitt í viðbót:  Af hverju er fjármagnstekjuskattur ekki hækkaður til jafns við annan tekjuskatt?  Af hverju er ekki sett fyrir þá vitleysu, að fólk sem eingöngu hefur fjármagnstekjur geti komist hjá því að gefa upp reiknað endurgjald?  Það eiga allir að taka þátt í að greiða reikninginn vegna falls bankanna, ekki bara launafólk.  Tillögur VG eru góðar, þegar kemur að þessum málum og ég hvet þingheim til að samþykja þær.


mbl.is Sendaherrabústaðir verði seldir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðverk í gær leyfir ekki lögbrot í dag

Það fer ekkert á milli mála að tilkoma Bónusar var gott mál fyrir íslenska neytendur.  Hér breyttist verðmyndun á dagvörumarkaði og vöruverð lækkaði til muna. Málið er að það var fyrir langa löngu. Og það var áður en Bónus varð hluti af Baugi.  Ég er ekki þar með að segja að Bónus hafi breyst í eitthvað skrímsli við sameininguna við Hagkaup, bara benda á að þá breyttist staða fyrirtækisins á samkeppnismarkaði.  Bónus varð hluti af markaðsráðandi fyrirtæki á matvörumarkaði.  Fyrirtæki sem hefði hvergi annars staðar fengið að vera til.

Ég er svo sem ekki í aðstöðu til að meta áhrif Haga á vöruverð í landinu í dag. Þar er örugglega margt jákvætt og annað neikvætt. Ég er samt ekki viss um að við vildum vera án verslana Haga af þeirri ástæðu að undir hatti Haga eru mörg ákaflega góð fyrirtæki sem stuðlað hafa að fjölbreytni í verslun og tiltölulega hagstæðu vöruverði.  Ég hef svo sem ekki alltaf verið sammála aðferðum fyrirtækisins við að færa út kvíarnar, en það er kannski þess vegna sem þeir eru stórir en ég er sjálfstætt starfandi í harkinu. Business er harður heimur og þeir feðgar, Jóhannes og Jón Ásgeir, hafa náð langt vegna þess að þeir hafa bein í nefinu, ekki vegna þess að þeir séu í góðgerðarmálum.

Þetta mál snýst bara ekkert um það. Þetta mál snýst um að notaðar voru ósiðlegar aðferðir til að koma í veg fyrir að samkeppnisaðili, Krónan, gæti aukið markaðshlutdeild. Það er enginn að andmæla því að Bónus mátti bregðast við. Þeir notuðu bara aðferðir, sem að mati samkeppnisyfirvalda, voru ólöglegar. Samkeppnisyfirvöld hafa ekkert leyfi til að milda afstöðu sína vegna áhrifa verslana Haga til hugsanlegrar lækkunar verðlags. Það er þessu óskylt. Góðverk í gær gefur mönnum ekki leyfi til lögbrota í dag. Um það snýst málið og ekkert annað.

Ég tek það fram, að ég er þakklátur þeim Baugsmönnum fyrir margt sem þeir hafa gert. Á sama hátt er ósáttur við annað. Þeir eru í andstreymi núna út af falli bankanna og Monopoly leiknum sem þeir hafa tekið þátt í undanfarin ár með íslenskt efnahagslíf. Því miður virðist sem þeir hafi lent í því sama og fyrri valdastéttir þjóðarinnar, þ.e. að kunna sér ekki hóf, að vita ekki hvenær á að stoppa. Við erum að bíta úr nálinni með það núna og því er taktískt rangt hjá þeim að koma með mótbárur í þessu máli. Það besta sem þeir gera í þessu máli er að viðurkenna mistökin og læra af þeim. Það vissi það hvert einasta mannsbarn á Íslandi, að aðferðir þeirra í verðstríðinu við Krónuna stönguðust á við gott viðskiptasiðferði og gátu ekki staðist. Nú hafa samkeppnisyfirvöld staðfest það. Af hverju getur Jóhannes ekki bara kyngt þeirri staðreynd? 

Ég viðurkenni alveg að sektin er há, en það er eðli sekta við samkeppnisbrotum.  Bónus vissi alveg, að verslunin mátti ekki bregðast við samkeppninni frá Krónunni með því að borga með vörunni.  Það eru skýr ákvæði um það í samkeppnislögum.  Ef Bónus hefur talið, að Hagar væri ekki markaðsráðandi aðili, þá voru menn í afneitun.  Víða í heiminum eru fyrirtæki með 30% markaðsstöðu talin markaðsráðandi, ef enginn annar aðili er stærri.  Markaðshlutdeild Haga á matvörumarkaði var á þessum tíma 60% á höfuðborgarsvæðinu.  Á lágvörumarkaði var Bónus nær einrátt.  Það er sama hvernig litið er á þetta:  Bónus var markaðsráðandi.  Sú staðreynd setur fyrirtækinu alls konar hömlur, eins og Síminn hefur margoft rekið sig á.  Menn höfðu dæmin fyrir framan sig, en héldu samt sínu striki.  Nú er komið að skuldadögum.

Það hefur komið fram að tap Bónusar á verðstríðinu hafi verið um 700 milljónir.  Spurningin sem þarf að svara er hver var hagur Bónusar á verðstríðinu?  Hve mikið tókst Bónus að takmarka aukningu á markaðshlutdeild Krónunnar með viðbrögðum sínum við markaðsátaki Krónunnar?  Hve vel heppnaðist Bónus að verja verðið á vöru sinni með hinum grimmu viðbrögðum við markaðsátaki Krónunnar?  Ég hef ekki lesið skýrslu Samkeppniseftirlitsins, þannig að ég veit ekki hvort lagt er mat á þessi atriði, en það er eðlilegt að sektin sé eitthvað margfeldi af þessu.  Það er nefnilega hagur Bónusar af viðbrögðunum sem skipta máli, ekki hvað Bónus hefur gert fyrir neytendur í gegnum tíðina.

Ég vil hvetja forráðamenn Haga til að halda áfram að stuðla að lágu vöruverði.  Samkeppniseftirlitið hefur ákvarðað að þið skiptið meira máli fyrir íslenska neytendur en flest önnur íslensk fyrirtæki á sama markaði.  Takið því sem hrósi, en lærið í leiðinni af mistökunum.


mbl.is „Dapurleg jólagjöf“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lánshæfi risabanka lækkað

Áhrif fjármálakreppunnar eru farin að koma fram í lánshæfi risabankanna. Matsfyrirtækið S&P tilkynnti í dag lækkun á lánshæfismati 11 af stærstu bönkum heims.  Þessir bankar eru:  JPMorgan Chase, Bank of America, Wells Fargo, Citigroup, Morgan Stanley, Goldman Sachs, Barclays, Credit Suisse, Deutsche Bank, Royal Bank of Scotland og UBS.  Almennt var um lækkun um einn flokk að ræða.

Þessi ákvörðun S&P þarf ekki að koma á óvart vegna ástandsins á fjármálamörkuðunum.  Allir hafa þessir bankar tapa háum upphæðum á undanförunum mánuðum og sér ekki fyrir endann á því.  Virðist sem nýleg framlög til margra af þessum bönkum hafi lítil áhrif eða hugsanlega hafa þau komið í veg fyrir frekari lækkun. Það hlýtur að valda yfirvöldum í Sviss áhyggjum að tveir af stærstu bönkum landsins hafi lækkað svona. Ljóst er að bankakerfið í landinu er komið á hættulegar slóðir og stefnir í hörmungar svipaðar þeim sem við erum að ganga í gegn um.  Á hverjum degi koma fréttir um tapaðar fjárfestingar, þannig að leiðin liggur bara niður á við fyrir svissnesku bankana, eins og flesta aðra stórbanka á Vesturlöndum.  Tap þeirra á svindli Bernard Madoff er örugglega ekki inni í mati S&P og mun það bara auka á vanda bankanna.

Það fer lítið á milli mála að næstu vikur verður róinn lífróður.  Seðlabankar um allan heim (nema á Íslandi) eru komnir með stýrivexti niður í ekki neitt.  Olíuverð hrynur þrátt fyrir mikinn samdrátt í framleiðslu.  Breska pundið er farið að nálgast evruna að verðgildi.  Allt er á sömu bókina lagt og það þarf meira en lítið kraftaverk til að snúa þróuninni við.  Árið að baki hefur verið viðburðaríkt, en mér sýnist árið framundan ekki bera bjartari tíð í skauti sér.


Þetta átti Kaupþing að gera!

Það er búið að gagnrýna Kaupþing mikið fyrir að hafa fellt niður ábyrgðir starfsmanna sinna vegna hlutabréfakaupa.  Hér er Sparisjóðabankinn búinn að sýna Kaupþingi hvernig átti að fara að hlutunum. Gera veðkall og leysa síðan hlutina til sín.  Það er nákvæmlega ekkert athugavert við það og enginn hefði getað sagt neitt.  Starfsmennirnir hefðu vissulega þurft að láta hlutabréfin af hendi, en þau urðu hvort eð er að engu stuttu síðar.
mbl.is Sparisjóðabankinn eignast hlut Ómars í Icelandair
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Deutsche Bank neitar að borga!

Deutsche Bank hefur tilkynnt að bankinn muni ekki greiða EUR 1 milljarðs skuldabréfaflokk sem er á gjalddaga í janúar.  Hefur bankinn þannig reitt til reiði marga af tryggustu viðskiptavinum sínum um leið og þetta veldur mönnum áhyggjum yfir stöðu bankans.  Það sem veldur fjárfestum þá mestum áhyggjum er að fleiri bankar fari að fordæmi Deutsche Bank.

Nú er spurningin hvort spilaborgin sé að hrynja.  Ef Deutsche Bank hefur ekki efni á að endurgreiða ekki hærri upphæð, hver er þá staða annarra banka og hverjir fylgja í fótspor D Bank?

Á sama tíma vindur Madoff hneykslið upp á sig og sífellt koma í ljós nýir aðila sem hafa tapað háum fjárhæðum.  Það er alveg ljóst að fjármálaeftirlit um allan heim hafa verið blekkt á undanförunum árum eða sofið á verðinum.  Við hér þekkjum hve illa FME stóð vaktina, en nú kemur í ljós að frammistaða þeirra er hátíð á við bandaríska fjármálaeftirlitið.  Hvert hneykslið á fætur öðru hefur rekið á fjörur þess, allt frá glæpsamlegri hegðun matsfyrirtækjanna til ótrúlegs klúðurs íbúðalánasjóðanna og nú þessi að því virðist USD 50 milljarða svikamylla Bernard Madoff.

Niðurstaðan af þessu öllu er að regluverkið klikkaði, eftirlitið klikkaði, áhættustýringin klikkaði, en það sem er verst af öllu, að græðgi manna er engin takmörk sett.  Siðblinda margra velgefinna einstaklinga er slík að þeir eiga hvergi heima nema bak við lás og slá.  Það sem meira er, ég er reikna með að í ljós eiga eftir að koma verri tilfelli en Bernard Madoff.  Þá á ég við menn, sem tengjast stærstu vogunarsjóðunum.  Á sama hátt og peningar Madoffs virðast hafa gufað upp, þá sé ég fyrir mér að stór hluti eigna mjög margra vogunarsjóða hafi gert það líka.  Menn eru svo sem byrjaðir að tilkynna 50% tap hjá mörgum minni sjóðunum, en það mun fyrst hrikta verulega í stoðum, þegar stóru sjóðirnir koma með uppgjör sín fyrir þessa síðustu mánuði þessa árs.  Ég er farin að halda, að best sé að endurstilla heiminn um áramót, þannig að þá verði allt eins og það var í ársbyrjun 2007!Whistling

Loks finnst mér merkilegt, að Barclays metur krónuna ríflega kr. 15 sterkari gagnvart evru en skráningin er hér á landi.  Á vefsíðu bankans má sjá að 1 EUR = 155,655 IKR meðan 1 EUR = 171,57 IKR hjá Glitni.


Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 37
  • Sl. sólarhring: 66
  • Sl. viku: 345
  • Frá upphafi: 1680483

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 40
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband