Leita í fréttum mbl.is

Samsetning stjórna lífeyrissjóðanna ekki vandinn

Það er erfitt að meta hvað er eðlilegt og hvað ekki, þegar kemur að því að ákveða hverjir eiga að sitja í stjórnum lífeyrissjóðanna.  Við megum ekki gleyma því, að atvinnurekendur greiða háar upphæðir í lífeyrissjóðina vegna starfsmanna sinna.  Þeir vilja því tryggja að farið sé vel með peningana og þess vegna er ekki óeðlilegt að þeir eigi stjórnarmann.  Sjóðirnir eru "eign" sjóðsfélaganna, þ.e. starfsmanna fyrirtækjanna.  Þeir vilja því tryggja að farið sé vel með peningana og þess vegna er ekki óeðlilegt að þeir eigi stjórnarmann.  Lífeyrissjóðirnir eru til vegna ákvæða í kjarasamningum sem síðan voru lögleidd.  Stéttarfélögin vilja því að vel sé farið með peningana og þess vegna er ekki óeðlilegt að þeir eigi stjórnarmann. 

Nú eru stjórnir lífeyrissjóðanna fjölskipaðar, oftast með fimm aðalmönnum og fimm varamönnum.  Mér sýnist því lausnin vera að hver um sig úr þessum hópi eigi einn fulltrúa í stjórn lífeyrissjóðanna, en síðan held ég að það þurfi að hafa tvo aðila í stjórn lífeyrissjóðanna, sem eru óháðir öllum þessum aðilum (sé því yfirhöfuð komið við hér á landi), til að tryggja jafnvægi og þekkingu á sviði fjármála og fjárfestinga.  Þessa aðila má skipa þannig að stéttarfélögin velji annan, en atvinnurekendur hinn.  Skilyrðið væri að viðkomandi sé ótengdur viðkomandi samtökum og uppfylli tiltekin hæfisskilyrði. 

Annars er það, að mínu mati, ekki skipan í stjórnir sem skiptir meginmáli eða að löggjöf um lífeyrissjóði hafi verið röng.  Samkvæmt löggjöfinni á fjárfestingastefna þeirra að vera með þeim hætti að dregið sé eins og kostur er úr áhættu, að innra eftirlit sjóðanna sé virkt og að áhættustjórnun þeirra sé skilvirk.  Í mínum huga er ekkert sem bendir til annars en að sjóðirnir hafi verið að standa sig vel á undanförnum árum.  Hluti af vandanum var mun fremur að umfang þeirra var orðið svo mikið, rúmlega 1.600 milljarðar í lok síðasta árs, að erfitt var fyrir þá að fjárfesta hér á landi nema í sífellt einsleitari og þar sem áhættusamari fjárfestingum.  Það eru takmörk fyrir því hvað sjóðirnir mega eiga stóra eignahluta í skráðum sem óskráðum fyrirtækjum.  Það eru takmörk fyrir því hve mikið er af ríkisskuldabréfum á markaði.  Það eru takmörk fyrir því hve mikið sjóðirnir mega fjárfesta í erlendum hlutabréfum og skuldabréfum.  Áhættulitlir kostir voru einfaldlega á þrotum og síðan má svo sem ekki gleyma því að bankabréf voru taldir öruggir kostir alls staðar í heiminum, þar til að Lehman Brothers féll.

En hvernig var eignasafn þriggja stærstu lífeyrissjóðanna um síðustu áramót?  Hér eru upplýsingar úr ársskýrslum þeirra:

1.  Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) er stærstur með eignir upp á 317 milljarða um síðustu áramót eða 18,8% af eignum lífeyrissjóðanna.  Eignasafn LSR skiptist þannig:

  • Ríkistryggð bréf 15,6%
  • Skuldabréf lánastofnana 8.6%
  • Skuldabréf sveitarfélaga 4,9%
  • Skuldabréf fyrirtækja 9,8%
  • Sjóðfélagalán 13,9%
  • Erlend skuldabréf 2,6%
  • Innlend hlutabréf 15,9%
  • Erlend hlutabréf 27,0%
  • Ýmsir sjóðir 1,7%31

2.  Lífeyrissjóður verslunarmanna (Live) er næst stærstur með eignir upp á 269 milljarða 31.12.2007 eða 15,9% eigna lífeyrissjóða.  Eignasafn Live skiptist sem hér segir:

  • Sjóðfélagalán  9,2%
  • Íbúðabréf 27,0%
  • Bankar og sparisjóðir 3,7%
  • Fyrirtæki 2,6%
  • Innlend hlutabréf 37,0%
  • Erlend verðbréf 20,3%
  • Annað 0,2%

3. Gildi lífeyrissjóður er þriðji stærsti sjóðurinn með eignir upp á rúmar 238 milljarða í árslok 2007 eða 14,1% heildareigna lífeyrissjóða.  Eignasafn Gildis skiptist sem hér segir: 

  • Erlend hlutabréf 21,1%
  • Framtaks- og fasteignasjóðir 4,2%
  • Vogunarsjóðir 2,9%
  • Innlend hlutabréf 22,3%
  • Ríkistryggð bréf 25,6%
  • Skuldabréf fyrirtækja 8,3%
  • Skuldabréf banka og sparisjóða 4,7%
  • Veðskuldabréf 4,7%
  • Skuldabréf sveitarfélaga 2,9%
  • Önnur skuldabréf 3,3%

Ég get ekki séð að þessi eignasamsetning sé gagnrýni verð miðað við stöðuna um síðustu áramót.  Að sjálfsögðu er hægt að vera vitur eftir á og gagnrýna stöðu þeirra í hlutabréfum, hvort heldur innlendum eða erlendum.  Getum við ekki alveg eins gagnrýnt þá fyrir að hafa ekki átt meira og þannig tryggt þeim meiri ítök í stjórnum bankanna?  Kannski hafði það breytt einhverju.

Ef eitthvað brást, þá er það helst íslenski fjármálamarkaðurinn.  Hann var því miður, miðað við það sem er að koma í ljós um þessar mundir, hálfgerður sýndarveruleiki og morandi í alls konar svikamyllum.  Það var ekkert að marka opinberar upplýsingar fjármálafyrirtækjanna.  Flækjurnar í eignatengslum og skuldum voru slíkar, að eingöngu innvígðir og innmúraðir gátu skilið það.  Við þurfum að skoða hvernig það gat gerst, en ekki refsa þeim sem sáu ekki í gegnum flækjurnar.  Hvernig stendur á því að hægt var að flækja hlutina svona mikið?  Hvernig stóð á því að FME framkvæmdi álagspróf í ágúst sem ekki tók á mögulegum lausafjárvanda í miðri lausafjárkreppu?  Hvernig stóð á því að Seðlabankinn beitti engum gengisvörnum, hvorki til að koma í veg fyrir of mikla styrkingu krónunnar né veikingu?  Það hefði engu máli skipt, þó allir stjórnarmenn lífeyrissjóðanna hefðu komið úr hópi sjóðfélaga, sjóðirnir hefðu samt lent í vanda vegna þess að það voru innviðir fjármálakerfisins sem voru fúnir.  Þeir voru fúnir vegna þess að reglur fjármálakerfisins leyfðu það, vegna þess að eftirlitið brást, vegna þess að menn urðu græðginni að bráð, vegna þess að áhættustýring brást, vegna þess að menn virtu lög og reglur að vettugi.


mbl.is Vilja atvinnurekendur úr stjórnum lífeyrissjóða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Hvaða upphæðir eru það sem atvinnurekendur greiða vegna starfsmanna sinna? Áttu við að samnings- og lögbundin starfskjör launafólks séu eins samfelld góðgerðarstarfsemi ,,atvinnurekenda?"

Sannast sagna frábið ég mér svona helvítis kjaftæði. Lífeyrissjóðirnir eru eign þeirra sem í þá greiða af vinnu sinni.

Jóhannes Ragnarsson, 23.12.2008 kl. 15:17

2 identicon

Tek undir þetta.  Lífeyrisgreiðslur eru laun og ástæða veru atvinnurekenda í stjórnum sjóða eru ekki áhyggjur meðferð sjáoðanna á peningunum.  Heldur ákvörðun um fjárfestingar sjóðanna. L-ngu kominn tími til að leggja þetta arfavitlausa kerfi af.

Itg (IP-tala skráð) 23.12.2008 kl. 15:25

3 identicon

"atvinnurekendur greiða háar upphæðir í lífeyrissjóðina vegna starfsmanna sinna.  Þeir vilja því tryggja að farið sé vel með peningana og þess vegna er ekki óeðlilegt að þeir eigi stjórnarmann"

Hvaða bölvað rugl er þetta? Þessar greiðslur eru hluti af launakjörum starfsmanna og hafa ekkert með launagreiðendur að gera frekar en annar hluti launagreiðslna. Þeim kemur ekkert við hvernig þessir peningar eru ávaxtaðir.

Atvinnurekendur hafa verið í stjórnum sjóðanna til að geta vélað um fjárfestingar þeirra - sjálfum sér til góða. Þeir hafa beinlínis unnið að eigin hagsmunum í gegnum lífeyrissjóðina á meðan launagreiðendur, sem eiga fjármuni lífeyrissjóðanna, hafa engin áhrif. Þetta eru með fasistalegri vinnubrögðum sem um getur í þessu samfélagi spillingar og klíkuskapar. 

Ömurlegur málflutningur hjá þér...

Babbitt (IP-tala skráð) 23.12.2008 kl. 15:27

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Jóhannes, hvernig sem þú lítur á þetta, þá greiða launagreiðendur háar upphæðir í lífeyrissjóðina.  Það heitir mótframlag launagreiðanda.  Þetta mótframlag er ekki eign eins eða neins, það rennur í sameigina.  Vissulega er að hluti af starfskjörum, en það er ekki eign launamannsins og það er ekki af launum starfsmannsins.  Ég sé að þetta er viðkvæmt mál, en þú mátt ekki gleyma því, að það er líka samningsbundið að atvinnurekendur eigi fulltrúa í stjórnum sjóðanna eins og það er samningsbundið að þeir eigi að greiða tiltekið mótframlag í sjóðina.

Annars sé ég að á blogginu þínu, þá viltu að eingöngu fullgildir sjóðfélagar eigi rétt til setu í stjórnum þeirra.  Ég vildi frekar að eingöngu hæfir einstaklingar eigi rétt til setu, þ.e. einstaklingar sem uppfylla ákveðnar hæfiskröfur um þekkingu á starfsemi sjóðanna.

Marinó G. Njálsson, 23.12.2008 kl. 15:30

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Það er gaman að sjá hvernig fólk tekur eitt atriði út og lítur framhjá öllu öðru. Hvað sem sagt er, þá eru þetta rökin sem notuð voru á sínum tíma og þetta er jafn samningsbundið atriði eins og greiðslurnar.  Atvinnurekendur neituðu að hækka framlag sitt í lífeyrissjóði fyrir hönd starfsmanna sinna nema þeir fengju menn í stjórn.  Valið stóð á milli þess að hækka framlag atvinnurekenda og hleypa þeim inn í stjórn eða að ná ekki fram hækkun á framlaginu.  Af hverju spyr sig enginn af hverju þurfti að hækka mótframlag atvinnurekenda um 2% í sameignarsjóðinn á kostnað séreignarsjóðsins í staðinn fyrir að hækka bara launin um 2%.

Marinó G. Njálsson, 23.12.2008 kl. 15:43

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Eins og öllum er kunnugt eru greiðslur í lífeyrissjóð hlutfall af launum og eins og öllum ætti að vera kunnugt eru sjóðirnir ætlaðir sem lífeyrir launþeganna sem þessar greiðslur eru tengdar við.

Launþegum er  því get skylt með lögum að láta 12% launa sinna renna til lífeyrissjóða.  Það ætti að vera mál launþeganna hverjir sitja í stjórn lífeyrissjóðanna.  Því það má vera ljóst að laun væru ca. 12% hærri ef ekki væri fyrir þennan lögbundna skyldusparnað sem í lífeyrissjóðunum felst.

Magnús Sigurðsson, 23.12.2008 kl. 18:31

7 Smámynd: Theódór Norðkvist

Það var upphaflega stofnað til lífeyirssjóðsiðgjalda sem hluta af kjörum verkafólks í kjarasamningum við atvinnurekendur. Þeim síðarnefndu kemur því ekkert við hvernig farið er með þetta fé, ekki frekar en þeim kemur það við inn á hvaða bankareikning starfsmenn þeirra leggja fyrir af launum sínum.

Þetta er hluti af launum starfsmanna. Ef ekki væri lífeyrissjóðsiðgjöld ættu launin að vera hærri. Hinsvegar þræti ég ekki fyrir að búið er að fara herfilega með lífeyrissjóðina og sóa þeim í svikamillur braskara. Þar bera bæði atvinnurekendur og verkalýðsforkólfar sök.

Fegnastur yrði ég ef lífeyrissjóðskerfið yrði lagt niður, laun hækkuð sem því nemur og fólk fengi sjálft að ávaxta sitt fé. Enda fær lífeyrissjóðsþeginn aðeins brot af því sem lagt hefur verið í sjóðina af launum hans eða hennar.

Gleðileg jól öll sömul.

Theódór Norðkvist, 23.12.2008 kl. 20:03

8 Smámynd: Vilhjálmur Árnason

Æ Æ Æ Æ og þetta þarf ekki einusinni að vera svona.

Ímyndið ykkur konuna sem vinnur í tuttugu ár.

Ef við værum með gulltryggða mynt .

Hún gæti valið að geyma sjóð sinn í gulli. Þó að það væri bara 50 %

Getið þið ýmindað ykkur ávöxtunina. Miðað við gömlu krónuna.

Auðvitað væri ávöxtunin lítil á gullinu miðað við gulltryggða krónu en það væri allavegana tryggt.

Það er alveg sama hvaða vandamál er krufið allt mundi það leisast með gulltryggingu.

En samt þrjóskast fólk við að viðhalda gamla kerfinu með þúsund hagfræðingum. Og gamla konan kemur að krúsinni sinni tómri.

Þetta átt aldrey að vera svona og þessu verður að ljúka.

Og þið sem eruð að pæla í þessu verðið að fara að pæla í lausnum framtíðarinnar.

Framtíðn er að losna við þessa hagfræði sem er stöðugt að réttlæta sjálfa sig.

Vilhjálmur Árnason, 23.12.2008 kl. 23:24

9 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Marinó.

Þessi færsla þín eru orð í tíma töluð og þar er einmitt staðreynd að greiðslur til sjóðanna koma bæði úr vasa launþega og atvinnurekenda. Ég er búin að vinna hjá verkalýðsfélagi í 16 ár og hef því kynnst þeim málum vel. Mér finnst leitt að sjá hér á síðunni, þessi gömlu viðhorf að launþegar og atvinnurekendur séu andstæðingar. Ég lít svo á þar séu allir í sama liðinu til að ná sem bestum árangri í því að vinna saman.

Tillögur þínar með stjórnarmenn lífeyrissjóða með fagþekkingu á fármálamarkaðnum eru mjög góðar og vel þess virði að þær séu skoðaðar af aðilum vinnumarkaðarins. Þegar sjóðirnir voru stofnaðir var allt annað samfélag á Íslandi og lög um skipan í stjórnir bera vissulega keim af því.

Við þá sem vilja að sjóðirnir séu lagðir niður eða telja að fólk fái ekki nema brot af sínu til baka, vil ég segja að þarna er á ferðinni ákveðinn vanþekking á uppbyggingu sjóðanna í bland við fordóma.

Við skulum taka tvo sjóðsfélaga A og B.

Báðir byrja að vinna fyrir sér um 20 ára aldur.

A slasast um 30 ára aldur og verður öryrki. Hann fær greidda örorku eins og hann sé þegar orðinn 67 ára og hefði unnið fyrir svipuðum launum í þau 37 ár sem vantar á starfsævina og hann hefur unnið fyrir síðustu 3 árin fyrir slysið. Hann fær því greiðslu eins og hann hafi greitt til sjóðsins í 47 ár (vann þó bara 10 ár) 

A fær framreiknaðar örorkubætur fyrir 37 ár af líklegu vinnuframlagi sem hann getur ekki skilað vegna slyssins og greiddar bætur í samræmi við laun sín í þau 10 ár sem hann hefur unnið.

A fer svo á ellilaun 67 ára sem eru þau sömu og örorkubætur hans. Hann deyr 80 ára.

B vinnur til 67 ára aldurs og fer þá á ellilaun. Hann fær greiddar bætur í samræmi við sín laun í þau 47 ár sem hann hefur unnið. B fær bætur sem eru reiknaðar eftir á af virku vinnuframlagi allan tímann. Hann deyr 80 ára.

A fær greiðslur í 50 ár

B fær greiðslur í 13 ár.

Af því sjóðirnir eru sameignarsjóðir er unnt að greiða A bætur eins og hann hafi skilað fullri starfsævi, og B miðað við að hann skilaði fullri starfævi.

Viljum við hafa samhjálp eða að hver bjargi sér sjálfur eins og dýrin í frumskóginum. Það er stóra spurningin sem hver verður að svara fyrir sig. Það fæðist enginn með bréf upp á fulla heilsu til æviloka.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 24.12.2008 kl. 01:11

10 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Hólmfríður, ég er alveg sammála þér í þessu, þ.e. að vinnuveitendur og launafólk er saman í liði og þetta með akkinn af samtryggingunni.  Ég hef unnið það mikið fyrir lífeyrissjóði til að skilja mikilvægi þess að fólk nýti sér rétt sinn til að greiða í samtryggingar sjóð. 

Mér finnst það furðulegt, að fólk skuli virkilega halda að lífeyrissjóðirnir hafi verið að standa sig illa vegna þess að þeir tapi á hruni bankanna.  Þetta er eins og að segja að byggingaefirlitið á Selfossi hafi staðið sig illa vegna þess að hús skemmdust í jarðskjálfanum í vor.  Það gengu yfir hamfarir af mannavöldum.  Nær allir fjármagnseigendur urðu fyrir tjóni.  Vegna stærðar sinnar varð tjón lífeyrissjóðanna hærra í tölum talið, en margra annarra.  En tjón þeirra varð samt ekki meira en svo, að þeim tókst að meðaltali að halda sjó miðað við síðustu áramót. 

Að halda því fram að tjón þeirra hafi orðið af þessari stærðargráðu vegna setu fulltrúa atvinnurekenda í stjórnum sjóðanna er ekki stutt neinum rökum.  VVivitum ekki hvert tjónið hefði orðið, ef stjórnir sjóðanna hefðu eingöngu verið skipaðar fulltrúum a) sjóðfélaga, b) stéttarfélaga eða c) atvinnurekenda.  Slíkt getur bara verið byggt á getgátum.  

Marinó G. Njálsson, 24.12.2008 kl. 01:42

11 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Því miður er hér eitt dæmið af mörgum í íslensku samfélagi þar sem hagsmunir skarast og atvinnurekendur skyldu aldrei hafa komið inn í stjórnir lífeyrissjóða launamanna, en þar sem enginn þekkir mörk lengur , þá fer sem fer.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 24.12.2008 kl. 02:41

12 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Það er ekki hægt annað en að vera sammála því að atvinnurekendur og launþegar eru í sama liðinu.  Samt sem áður finnst mér sem atvinnurekanda ekki við hæfi að ég sé að ráðskast með sparnað launþega minna.  Eftir að hafa verið atvinnurekandi 25 ár vil ég vera laus við það að þurfa að koma á okkurn hátt nálægt þeim dulbúna þjófnaði sem greiðslur í lífeyrissjóði hafa verið í gegnum tíðina. 

Ég er sannfærður um að hinn almenni launamaður myndi ná betri ávöxtun á sparifé sínu en lífeyrissjóðirnir.  Það minnsta sem hægt er að ætlast til er að launfólk hafi sjálft um það að segja hverjir gæta hagsmuna þeirra á lífeyrissparnaði þess, burt frá áliti atvinnu- og verkalýðsrekenda.

Magnús Sigurðsson, 24.12.2008 kl. 07:47

13 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Magnús Sigurðsson

Ég vil biðja þig að rökstyðja þá fullyrðingu þína að greiðslur til lífeyrissjóðanna hafi verðið og sé dulbúinn þjófnaður. Er það kannski það atriði að sjóðirnir eru sameignarsjóðir sem gerir það að verkum að þú kallar greiðslurnar þjófnað.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 24.12.2008 kl. 08:51

14 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæl Hólmfríður, ástæðan fyrir því að ég kalla þetta þjófnað er sú að fram til 1998 hafði ég greitt í Lífeyrissjóð Austurlands þar sem stjórnendur fengu þá hugmynd að best væri að ávaxta peninga sjóðsfélaga m.a. með í knattspyrnufélaginu Stoke.  Fárestingar sjóðsins fóru vægast sagt mjög illa svo illa að ekki er talinn ástæða til að senda sjóðfélögum yfirlit yfir eign sína enda var hún að mestu afskrifuð.

Eftir 1998 greiddi ég í Íslenska lífeyrissjóinn og  í LÍF IV (ætlað fyrir 65 ára og eldri) eftir árið 2006.  Ekki var hægt að skilja það öðruvísi en sú leið væri 100% örugg samkvæmt þeim upplýsingum sem þá voru aðgengilegar (sé reyndar að það er búið að stórminnka upplýsingararnar um þetta á heimasíðu Landsbankans).  Nú hefur mér verið tilkynnt bréflega að 20,1 % rýrnun hafi orðið á LÍF IV og yfir30% rýrnun ef miðað er við 6 október s.l.. 

Launþega eru skyldaðir með lögum að láta 12% tekna sinna renna til lífeyrissjóða, þess vegna hlýtur það að vera saknæmt ef blekkingum er beitt við að ná til þessara peninga.  Þar sem mér er vel kunnugt um hvaða upphæðir ég hef greitt til lífeyrissjóða í gegnum tíðina og hvernig stór hluti þeirra hefur gufað upp get ég ekki notað annað orð en þjófnað.  Ef ég sem sjóðfélagi kæmi að því á einhvern hátt að ávaxta minn sparnað sjálfur myndi ég nota orðið klúður.

Ég vil taka það fram að mér hefur aldrei til hugar komið að greiða í séreignasjóð.

Magnús Sigurðsson, 24.12.2008 kl. 10:35

15 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Dæmið um Lífeyrissjóð Austurlands er afar sorglegt og sem betur fer undantekning. Reglur um fjárfestingar sjóðanna eru frekar strangar og til þess gerðar að svona gerist ekki. Almennt talið eru sjóðirnir vel reknir og kostnaður við rekstur þeirravhefur lækkað sem hlutfall af tekjum, með stækkun þeirra. Séreignasjóðirnir eru ákvörðun hvers og eins.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 28.12.2008 kl. 16:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 44
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband