Leita í fréttum mbl.is

Gjaldeyrislögin - skynsemi eða afleikur?

Lögin sem sett voru í skjóli nætur sl. nótt komu mér ekkert á óvart.  Þetta mátti lesa í þeim fátæklegu upplýsingum sem þó höfðu lekið út til almennings varðandi samning Íslands við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.  Samkvæmt þeim upplýsingum, þá átti að beita gjaldeyrishöftum til að koma í veg fyrir kollsteypingu krónunnar.  Þessi sömu rök koma fram í málflutningi Seðlabankans og flutningsmanna frumvarpsins.

Það eru augljóslega tvær hliðar á þessu máli.  Önnur snýr að því að koma í veg fyrir kollsteypingu krónunnar, sem gæti leitt til yfir 30% verðbólgu hér á landi í febrúar og mars.  Hin snýr að því að nýta lán AGS eins vel og hægt er.  Gefum okkur að útlendingum verði leyft að færa fjármuni sína úr landi á einhverju takmörkuðum tíma upp úr áramótum.  Mundu þeir vilja það og hvaða áhrif hefði það á gengi krónunnar.  Það er sagt að um 400 milljarða sé að ræða í jöklabréfum og 250 milljarða í viðbót í ríkisskuldabréfum.  Þetta eru gríðarlega háar upphæðir og Seðlabankinn á líklegast ekki slíka fjárhæð í gjaldeyri.  Þá má búast við að annað af tvennu gerist: 

A.  Hinir erlendu aðilar greiða hvað sem er fyrir gjaldeyri.  Krónan snarlækkar og Seðlabankinn selur gjaldeyri á ákaflega hagstæðu gengi.  Hagnaður Seðlabankans gæti hlaupið á hundruðum milljarða.  Afleiðingin fyrir innflytjendur eru hörmulegar og verðbólgan gæti farið í hæstu hæðir.  Útflytjendur hagnast aftur vel á þessu.  Það sama á við aðila sem selja erlendar eignir og flytja peninginn heim meðan á þessu stendur.  Gengistryggð lán fara náttúrulega fjandans til eða þannig.

B.  Hinir erlendu aðilar halda að sér höndum, þar sem þeir sjá að það er glapræði að greiða hvað sem er fyrir gjaldeyrinn og þannig í raun fórna stórum hluta eigna sinna.  Það er nefnilega þessu aðilum í hag að krónan styrkist, þannig að þeir greiða færri krónur fyrir hverja evru eða dollar. Bjóðum þeim því að ávaxta fé sitt áfram hér og gefum þeim kost á að taka þátt í uppbyggingunni.

Spurningin er hvort hægt væri að búa til stuttan glugga, þar sem þeir sem vildu gætu flutt peningana sína úr landi.  Segjum sem svo að á tveggja vikna tímabili upp úr áramótum væri gjaldeyrismarkaðurinn opnaður upp á gátt fyrir fjármagnsflutningi úr landi, en síðan yrði skellt í lás í allt að 2 ár.  Gefum okkur að gengisvísitalan færi þennan hálfa mánuð upp í 350.  Dollarinn og evran hækkuðu meira en aðrir gjaldmiðlar, t.d. að dollarinn færi í 280 kr. og evran í 330 kr.  Gefum okkur líka að menn vildu færa 400 milljarða úr landi, helminginn í dollurum og hinn helminginn í evrum.  Á genginu 280 væru 200 milljarðar jafngildi 714 milljóna dollara og 606 milljóna evra samanborið við tvöfaldar þessar upphæðir í dag.  Það vill svo til að Seðlabankinn á þessar upphæðir annars vegar í gjaldeyrisvarasjóði sínu og hins vegar í láninu frá AGS.  Á einu bretti gæti Seðlabankinn hagnast sem nemur tvöföldu láni AGS.  Þetta hefði líklegast líka í för með sér að útflytjendur myndu hraða sér að færa eins mikinn gjaldeyri til landsins og þeir frekast gætu.  Þeir sem skulda í erlendri mynt þyrftu náttúrulega að passa sig á því að greiða ekki skuldir sínar meðan á þessu stendur.  Þetta kæmi sér örugglega illa við einhverja og þá sérstaklega við námsmenn í útlöndum.  Það má örugglega finna leiðir til að lina þær þjáningar.

Mín hugmynd er að meðhöndla jöklabréfin eins og slæmt kýli.  Lausnin er að stinga á það og láta sorann sprautast út.  Ég er nefnilega nokkuð viss um, að íslenska krónan mun ekki ná sér almennilega á strik fyrr en jöklabréfin eru farin út úr kerfinu.  Með því að velja réttan tíma í aðgerðina, þá væri hægt að komast hjá því að afleiðingarnar yrðu slæmar fyrir þjóðarbúið.  Þetta þyrfti ekki að fara inn í verðbólguna, ef glugginn er stuttur, og með því að gera þetta strax fyrstu dagana eftir áramót, þá hefur þetta ekki áhrif á áramótagengið (sem verður alveg nógu slæmt).  Það þyrfti náttúrulega að gefa þeim sem vildu kost á að losa jöklabréfin sín og það gæti kostað viðkomandi einhver afföll, ef þau eru ekki akkúrat á gjalddaga.  Mörgum er alveg sama.  Þeir eru í "damage control" og þá taka menn skellinn frekar en að eiga á hættu að tapa meira síðar.  Aðrir sjá hag sinn í því að fjárfesta lengur á Íslandi og það yrði að vera hin hliðin á þessu.

Skoðum hana nánar:  Hin hliðin er, að stofnaður yrði endurreisnarsjóður sem erlendum eigendum jöklabréfanna og ríkisskuldabréfa væri gefinn kostur á að setja peningana sína í. Markmið sjóðsins væri að leggja fjármagn í innlend fyrirtæki og atvinnustarfsemi.  Sjóðurinn veitti lán á lágum vöxtum, en um leið og lánin væru endurgreidd, þá gætu hinir erlendu aðilar fært greiðsluna úr landi.  Það verður því ekki í formi vaxtanna sem þeir hagnast, heldur með styrkingu krónunnar.  Eftir því sem krónan er sterkari greiða þeir minna fyrir evruna eða dollarann. Ég hef svo sem heyrt það nefnt í fjölmiðlum að menn hafi áhuga á þessu.  Við skulum ekki bara bíða eftir þeim.  Tökum frumkvæðið og bjóðum þeim til samstarfs.

Það getur vel verið að þessi hugmynd sé algjör fásinna, bull og vitleysa.  Allt í lagi, ég get alveg tekið því.  Þetta er bara hugmynd og það kostar ekkert að setja hana fram.


mbl.is Frumvarpið vottur um uppgjöf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: haraldurhar

   Maríno mér þykir þú bjarsýnn að nokkur erlendur aðili er á krónubréf sé tilbúinn að frjárfesta hér á landi, þar sem sett eru ný lög og reglugerðir í sjóli nætur.  Það teystir enginn þessum kjánum lengur er fara með stjórn peningamála hér á landi, og lái ég þeim það ekki.

haraldurhar, 29.11.2008 kl. 01:30

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Haraldur, menn fara með peningana sína þar sem þeir fá ávöxtun.  Ef þeir sitja fastir með peningana hér á landi, þá er alveg eins gott að nota þá í eitthvað uppbyggilegt sem gefur þeim góða ávöxtun.

Málið er að samhliða gjaldeyrishöftunum, þá þarf ekki lengur að halda stýrivöxtunum háum.  Fjármagnið sem byggði á vöxtunum er hvort eð er fast í landinu.  Sem afleiðingu af því er hægt að lækka vexti ríkisskuldabréfa.  Mér sýnist sem það gæti ansi margt hangið hér á spýtunni, sem ekki er komið í ljós ennþá.

Marinó G. Njálsson, 29.11.2008 kl. 01:38

3 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Athyglisverð færsla og nokkuð raunhæfir kostir. Staðan er slik að enginn kostur er góður og þó. Hér sannast vel sú klisja/fullyrðing sem ég nota í mínu daglega lífi.

ÞÚ FINNUR ALLTAF LEIÐ EF ÞÚ LEITAR

Hólmfríður Bjarnadóttir, 29.11.2008 kl. 09:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 36
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband