Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008
12.12.2008 | 16:20
Ályktunargáfa sem á sér ekki sinn líka
Mér brá nokkuð, þegar ég heyrði forsætisráðherrann, Geir H. Haarde, lýsa því yfir við fréttamann RÚV að hækkun opinberra gjalda á bensín og áfengi hefði ekki í för með sér hækkun á verðbólgu. Hvernig getur hagfræðimenntaður maður sagt að hækkun á álögum og þar með útsöluverði valdi ekki meiri verðbólgu. Það skiptir engu máli hvort verið er að "vinna upp" verðbólgu ársins eða ekki, hærra verð á áfengi og eldsneyti fer beint út í verðlagið og þar með mælist það í hækkun á vísitölu neysluverðs (eða minni lækkun, ef verðhjöðnun er í gangi). Ingibjörg Sólrún viðurkenndi þó þessa staðreynd.
Annars hefur líka verið merkilegt að hlusta á ráðherra ríkisstjórnarinnar kenna AGS um niðurskurð útgjalda og hækkun skatta. Það er eins og Ísland hafi ekki haft neina samningsstöðu í málinu. Svo má líka rifja upp, að þetta sama fólk hefur haldið því fram að ekki eigi að hrófla við ýmsum þeim þáttum sem nú eru skornir niður. Það er nákvæmlega ekkert að marka orð þeirra lengur.
Og eitt í lokin. Valgerður Sverrisdóttir benti á í viðtali við fréttamann í gær, að lækkunin vegna útgjalda utanríkisráðuneytisins samkvæmt breyttu fjárlagafrumvarpi, séu ekki í raun lækkun heldur sé verið að taka til baka tillögur til hækkunar á útgjöldum. Þetta er því bara talnaleikur, en ekki raunveruleg lækkun. Þetta minnir mig á það þegar tekjuskattsprósentan var hækkuð, þegar Ólafur Ragnar Grímsson var fjármálaráðherra. Þá hafði kvisast út að tekjuskattsprósentan myndi hækka um 6%, en Ólafur bar það til baka. Það ætti bara að hækka hana um 3,5%!
Forsætisráðherra fer ekki með rétt mál | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
11.12.2008 | 00:18
Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
Núverandi staða í þjóðfélaginu hefur kallað á mikla gagnrýni á notkun verðtryggingar. Lög nr. 13/1979 um stjórn efnahagsmála, o.fl. voru samþykkt frá Alþingi 7. apríl 1979 og tóku gildi þremur dögum síðar, 10. apríl 1979. Í VII. kafla laganna eru ákvæði um verðtryggingu sparisjár og lánsfjár. Þessi lög ganga almennt undir nafninu Ólafslög í höfuðið á Ólafi Jóhannessyni, þáverandi forsætisráðherra.
Óhætt er að segja, að þessi lög hafa haft meiri áhrif á meðhöndlun fjárskuldbindinga á Íslandi undanfarna tæpa þrjá áratugi, en nokkur önnur lög samþykkt á Alþingi fyrr eða síðar. Nokkrum sinnum hefur komið upp sú umræða að fella niður ákvæði lagana um heimild til að verðtryggja lánsfé, en því hefur jafnan verið hafnað sem algerri fásinnu. Landsamband lífeyrissjóða fékk Tryggva Herbertsson til að taka saman greinargerð um þetta og skilaði hann henni í nóvember 2004 (sjá Áhrif afnáms verðtryggingar á íslensku lífeyrissjóðina). Greinargerðin fjallar nær eingöngu um hverjir hagnast og hverjir tapa á afnámi verðtryggingar frá sjónarhóli lífeyrissjóðanna sem lánardrottna og skuldunauta, þ.e. þeirra sem taka lán hjá lífeyrissjóðunum. Kemst hann ekki að neinni einhlítri niðurstöðu varðandi það. Varla er hægt að segja að hann eyði miklu púðri í áhrif afnáms verðtryggingar á skuldbindingar sjóðanna, en það er dekkað með eftirfarandi texta:
Afnám verðtryggingar gæti þannig aukið óvissu lífeyrisþega hvað varðar kaupmátt lífeyris. Skuldbindingar sjóðanna eru þannig verðtryggðar og ef tryggingin yrði afnumin eignamegin er ljóst að hætta gæti skapast á misgengi milli eigna og skuldbindinga.
Í lokaorðum greinargerðarinnar segir Tryggvi:
Hér að framan hefur verið sýnt fram á að ekki er einhlítt hverjir hagnast og hverjir tapa á verðtryggingu. Við mikinn óstöðugleika í efnahagslífinu og tíð óvænt verðbólguskot er líklegra að skuldunautar hagnist á því að verðtrygging sé afnumin en að þeir tapi aftur á móti ef stöðugleiki og jöfn verðbólga ríkja. Ekki er ljóst hvað kæmi í stað verðtryggingar sem grunnur að vöxtum á langtímalánum ef vísitölutenging yrði afnumin en rétt er þó að benda á að afnám verðtrygginga á fjárskuldbindingar myndi taka nokkra áratugi í framkvæmd því ekki er hægt að breyta gerðum lánasamningum auk þess sem misgengi gæti skapast á milli eigna og skuldbindinga lífeyrissjóðanna. Jafnframt er líklegt að ekki yrði hægt að fá lán til jafn langs tíma og nú er.
Það er sem sagt fernt sem Tryggvi telur vinna gegn því að afnema verðtrygginguna:
- Óvissan um hvað tekur við
- Tímann sem það tæki að afnema hana þar sem ekki væri hægt að breyta gerðum lánasamningum
- Misgengi á milli eigna og skuldbindinga
- Ekki verður hægt að fá lán til langs tíma.
Skoðum þessi fjögur atriði. Ég ætla að byrja á atriði nr. 2, en það á við mun fleiri aðila en bara lífeyrissjóðina: Við höfum séð það á síðustu vikum að ýmislegt er hægt að gera í nafni laga, sérstaklega ef þau hafa forskeytið neyðar-. Enda er sagt að neyð brjóti lög og nú held ég að komið sé að þeim tímapunkti. Heimilin og fyrirtækin í landinu eru að kikna undan óhóflegri vaxtabyrði, hvort heldur í formi nafnvaxta eða verðtryggingar. Vakin hefur verið athygli á því að eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar verji eigendur verðtryggðra lánasamninga og er það fullgild ábending. Því er nauðsynlegt að eitthvað komi í stað verðtryggingarinnar eða að henni verði takmörk sett. Ég vill benda enn og einu sinni á leiðir, sem ég tel að geti verið færar. Önnur er að setja þak á verðtrygginguna, þannig að fari verðbólga yfir segjum 6%, þá fær eigandi lánasamningsins verðbólguna ekki bætta umfram þessi 6%. Þessa tölu mætti alveg eins festa við efri vikmök Seðlabankans. Þá mætti hreinlega skipta verðtryggingunni út fyrir fasta vaxtatölu, t.d. efri vikmörkin, þ.e. 4%. Sjálfum lýst mér betur á fyrri leiðina, þ.e. að halda verðtryggingunni til að byrja með, en setja henni takmörk. Samhliða því verði bannað að gera nýja verðtryggðasamninga og þeim sem fyrir eru verði smátt og smátt breytt.
Misgengið: Það er vissulega satt að hátt í 50% af útlánum lífeyrissjóðanna er í formi verðtryggðra útlána og meðan lífeyririnn er verðtryggður, þ.e. eftir að taka lífeyris er hafin, þá taka verðtryggingarákvæði gildi. Undanfarin ár hefur ávöxtun lífeyrissjóðanna flestra verið vel yfir verðbólgu. Undantekning er síðasta ár og síðan mun þetta ár fara illa út. En hvað er það sem hefur skapað þessa ávöxtun? Jú, óverðtryggði hluti ávöxtunarinnar. Við getum ekki horft til áranna fyrir 1979 og sagt að staða lífeyrissjóðanna verði með þeim hætti innan nokkurra ára, ef verðtryggingin verður afnumin. Þó svo að nú hafi komið slæmur skellur, þá hefur hann ekki áhrif í þessu samhengi. Ástæðan er að skellurinn er að mestu að koma á óverðtryggða hluta eignasafns sjóðanna í formi mikillar lækkunar á hlutabréfaeign sjóðanna. Vissulega skerðist eign sjóðanna líka vegna verðtryggðra skuldabréfa, en sú skerðing er alveg óháð verðtryggingunni. Hún hefur fyrst og fremst með fjárfestingastefnu sjóðanna að gera. Við megum heldur ekki líta framhjá því, að sjóðirnir hafa hagnast gríðarlega á undanförnum árum á hlutabréfaeign sinni. Sumir hafa náð að innleysa þann hagnað með sölu bréfanna, en aðrir sitja uppi með nánast verðlausa hluti.
Óvissan um hvað tekur við: Ljóst er að breytilegir óverðtryggðir vextir er það sem kemur í staðinn. Það er engin lausn að bjóða fólki upp á óverðtryggð lán með himinháum breytilegum vöxtum. Þá er verr af stað farið en heima setið. Koma yrði í veg fyrir slíkt. Í Danmörku eru reglur (ég veit ekki hvort það er bundið í lög) þar sem hámark er á þeim vöxtum sem taka má. Sé verðbólga yfir þessum vöxtum, þá ber lánastofnunin það. Mér finnst athugandi að koma á slíku kerfi. Hverjir þeir hámarksvextir ættu að vera, veit ég ekki, en tryggja yrði að lánastofnunin héldi ekki vöxtunum stöðugum í þessum efri mörkum.
Ekki hægt að fá láns til langs tíma: Það er mín skoðun, að verðtryggingin hafi frekar aukið á óstöðugleikann, en dregið úr honum. Allar sveiflur í hagkerfinu verða ýktari og það tekur lengri tíma að jafna þær út. Aðeins örfá lönd í heiminum hafa notast við verðtryggingu. Önnur hafa komist alveg bærilega af án hennar. Í þeim löndum hefur verið hægt að fá lán til langs tíma á lágum vöxtum. Raunar hafa þeir, sem fjárfesta til langs tíma, frekar viljað skuldabréf með lágum vöxtum og veði í íbúðarhúsnæði, en bréf á hærri vöxtum sem bera meiri áhættu. Síðan er spurning hvort hreinlega eigi ekki að banna lán til lengri tíma en 25 ára. Afborgunarbyrði 10 milljón króna láns til 25 ára er kr. 33.333 á mánuði, en sé það til 40 ára er afborgunarbyrðin kr. 20.833. Hér er munur upp á 12.500 kr. Fyrsta afborgun 25 ára lánsins er ríflega 116 þúsund kr. meðan borga þarf 104 þúsund af 40 ára láninu. Eftir 10 ár eru greiðslurnar orðnar þær sömu, þ.e. um 83.000 kr. og eftir það er afborgun með vöxtum lægri á mánuði af 25 ára láninu.
Ástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar og þá sérstaklega áhrifin af falli bankanna, sýnir að ekkert kerfi er óskeikult. Verðtryggðareignir eru ekkert öruggari, en óverðtryggðar. Á næstu mánuðum munu lífeyrissjóðirnir fara í gegnum tryggingafræðilega endurskoðun. Búast má við því að niðurstaða þeirrar endurskoðunar verði skerðing á lífeyrisréttindum sem nemur á bilinu 5 - 15% eftir sjóðum. Í sumum tilfellum verður þetta afturhvarf til réttinda sem áður höfðu verið uppfærð, þannig að ekki er um eiginlega skerðingu að ræða. Í öðrum tilfellum verður skerðingin raunveruleg.
Með skynsamlegri fjárfestingastefnu, þá munu allir lífeyrissjóðirnir vinna upp töp sín á innan við 10 árum. Það gera þeir með því að halda hlutabréfum sínum og bíða eftir að þau hækki, að kaupa ný hlutabréf sem síðar hækka o.s.frv. Í einhverjum tilfellum mun tapið leiða til frekari sameiningar sjóðanna.
Verðtryggingin snertir fleiri en lífeyrissjóðina. Innlánseigendur eru með háar upphæðir á verðtryggðum reikningum. Það er í sjálfu sér ekkert sem mun geta bannað innlánsstofnun að bjóða verðtryggða reikninga, en mér finnst sjálfsagt að um slíka reikninga gildi sömu reglur og um verðtryggð lán. Sett verði þak á hve háir vextir geta verið. Varðandi verðtryggð útlán annarra en lífeyrissjóða, þá gilda alveg sömu rök. Verðtrygging verði annað hvort bönnuð eða henni settar skorður.
Svo ég svari spurningunni, sem ég set fram í fyrirsögninni, þá er svarið játandi. Það er raunhæft að afnema verðtryggingu eða setja henni skorður með einu pennastriki. Það sem meira er, það er heilmikil skynsemi í því. Þó ekki væri nema út frá því sjónarmiði, að lítið réttlæti er í því að lán séu verðtryggð meðan tekjur eru það ekki. Auk þess virðist allt benda til þess að líf íslensku krónunnar sé á enda. Hún á kannski nokkur ár eftir, nema eitthvað kraftaverk gerist. Hvort sem tekin verður upp evra, norsk króna, pund, svissneskir franka, bandarískir dalir eða kanadískir, þá munum við aldrei flytja verðtryggingarkerfið okkar yfir í nýja mynt. Seðlabanki viðkomandi ríkis/Evrópu myndi aldrei samþykja slíkt. Bara út frá þessari ástæðu einni, á verðtryggingin ekki rétt á sér og óhjákvæmilegt er að hún verði lögð niður sem fyrst. Núna er tækifærið og það á að grípa.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
10.12.2008 | 14:07
Nú er búið að þurrmjólka þennan markað. Hvað næst?
Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með því hvernig spákaupmennirnir færa peningana sína á milli markaða. Eina stundina var það .com, þá var það hlutabréfamarkaðir, fjármála- og lánamarkaðir og hárvörumarkaðir. Þessum síðasta var skipt upp í nokkra geira, þ.e. hrávöru í iðnaðarframleiðslu, hrávöru í matvælaframleiðslu og síðan olíu. Allir þessir markaðir hafa verið leikvellir peningamanna, sem hafa haft það eina markmið að ná út eins miklum hagnaði á stuttum tíma og mögulegt var. Gull virðist einn góðmálma ennþá haldast hátt. Silfur, kopar og hvítagull hafa hrapað svo að bara íslenska hlutabréfavísitalan kemst til jafns við þetta.
Ástæður fyrir þessum sveiflum virðast byggðar á rökum sem ekki standast nánari skoðun. Olían átti að hafa hækkað vegna meiri eftirspurnar í Kína, en hækkunin fylgdi engum lögmálum um verðteygni, eins og búast hefði mátt við. Sama var um hækkun á matvælaverði á fyrri hluta þessa árs. Þetta bar allt merki um samráð markaðsráðandi aðila. Svipað og gerðist hér á landi með öll bílnúmera einkahlutafélögin (þ.e. félög sem hétu nöfnum sem minntu á bílnúmer).
Ég hef nefnt þetta áður í færslum hér og þá var gert grín að einfeldni minni og þekkingarleysi á markaðslögmálum, en nú held ég að atburðir síðustu vikna hafi sýnt okkur hér á landi, hvernig menn léku sér að markaðinum til að hámarka hagnað sinn. Þetta er að gerast á mun stærri skala á heimsvísu. Ef einhver aðili myndi taka sig til og rannsaka markaðsíhlutun eða markaðsstjórnun á alþjóðavísu síðustu ár, þá er ég viss um að í ljós mun koma að lítill hópur peningamanna ræður nákvæmlega verði og gengi hrávöru, hlutabréfa, gjaldmiðla, olíu, skuldartryggingarálags og hvað það nú er sem gengur kaupum og sölu á almennum markaði. Frjáls markaður er ekki til. Eftirlitsstofnanir eru vita gagnslausar. Regluverk um markaðsviðskipti er ekki pappírsins virði. Við höfum séð hvernig þetta hefur virkað hér á landi og af hverju ætti þetta að vera eitthvað öðruvísi úti í hinum stóra heimi. Ef maður er ekki einn af skákmönnunum, þá er maður í besta falli peð á taflborði þeirra.
Fréttaskýring: Hamfarir á hrávörumörkuðum hafa áhrif hér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.12.2008 | 13:04
Lofsvert framtak
Nú er komið að Alþingi að sýna hvað í því býr og samþykja án málalenginga þessa tillögu umhverfisráðherra að þrettán nýjum friðlýstum svæðum. Allt eru þetta mikilvægar friðlýsingar hvort heldur frá náttúrufarlegu sjónarhorni eða jarðfræðilegu. Í mínum huga er friðun Langasjávar stórkostlegt skref til þess að varðveita þetta mikilfenglega vatn. Einnig ber að fagna stækkun friðlands í Þjórsárverum. Bæði þessi svæði eru sannar náttúruperlur sem ber að verja, eins og kostur er.
Myndirnar hér fyrir neðan eru annars vegar frá Þjórsárverum og Hofsjökli og hins vegar frá Langasjó.
Þrettán ný svæði friðlýst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.12.2008 | 21:57
Það er verðbólgan að baki sem er mesta vandamálið
Við síðustu mælingu á vísitölu neysluverð, þá reyndist 12 mánaða verðbólga vera komin yfir 17%. Miðað við hvað fleyting krónunnar hefur heppnast vel, þá má búast við að næsta verðbólgumæling verði ekki eins slæm og menn sáu fyrir. Sjálfur hef ég spáð allt að 22 - 24% verðbólgu í janúar miðað við að gengisvísitalan toppaði í nóvember í 250 stigum. Nú gekk það nokkurn veginn eftir að gengisvísitala hafi toppað í 250 stigum, þó svo að alltaf sé varasamt að spá í framtíðina hér á landi og nýr toppur gæti komið síðar. Ég reiknaði með því að gengisvísitalan héldi toppnum í nokkurn tíma, þannig að þessi staða krónunnar (gvt. 250) kæmi fram í næstu vísitölumælingu. Nú hefur krónan styrkst mikið á tveimur dögum og átti ræfillinn það alveg inni. Það hljóta því að vakna spurningar hvort ekki dragi strax talsvert úr verðbólguhraðanum.
Hækkun vísitölu milli október og nóvember var 1,74%. Erfitt er að henda reiður á hver vísitöluhækkun milli nóvember og desember verður, en margt bendir til að hún verði talsvert minni, en milli október og nóvember. Þar kemur til veruleg lækkun eldsneytisverðs og síðan líkleg lækkun húsnæðisverð. Á móti kemur að fjölmargt hækkar vegna veikingar krónunnar í nóvember. Hafi kaupmenn haldið að sér höndum með hækkanir, þá er gengið núna (6.12.) nokkurn veginn það sama og það var í upphafi nóvember og einnig í upphafi október. Það eru sveiflurnar á milli sem gætu orsakað neikvæða mælingu. (Þá á ég við til hækkunar á vísitölu.) En bara til að færa það til bókar, þá reikna ég með að vísitöluhækkun milli nóvember og desember verði ekki hærri en á bilinu 1,1-1,4%.
Stóra málið er hvernig vísitala mun haga sér næstu mánuði upp á verðbótaþáttinn. Þó svo að verðbólga færi í 22% í janúar eða febrúar, þá er það ekki mælingin sem mun skipta máli upp á verðbætur. Það er hækkunin frá janúar mælingunni í ár sem skiptir öllu. Samkvæmt mínum útreikningum var verðbólga frá janúar til nóvember 16,15%. Þetta eru þær verðbætur sem lagst hafa á lánin frá 1. febrúar til dagsins í dag. Gangi spár greiningardeildanna eftir um innan við 7% verðbólgu á næsta ári, þá eru það verðbæturnar sem leggjast á lánin allt það ár. Það hlýtur því hver maður að sjá, að mikilvægara er að taka á þeim verðbótum sem þegar hafa lagst á, en þeim sem eru framundan. Best væri að taka bæði á hækkun þessa árs og þess næsta, en ef ég mætti velja, þá vil ég frekar losna við verðbætur ársins 2008. Þó ótrúlegt sé, þá er það kúfurinn sem þarf að komast yfir, ekki verðbólga næsta árs.
Ég hef lagt það til að verðbætur þessa árs verið teknar til hliðar og lagðar á nokkurs konar afskriftarreikning. Það er tvennt sem vinnst með því. Annað er að lántakendur þurfa ekki að taka á sig hækkun ársins og hitt, sem er ekki síður mikilvægt, er að verðbætur framtíðarinnar leggjast ekki á verðbætur þessa árs. Ég tel svo sem alveg efni til að setja lög um að verðbætur á húsnæðislán megi ekki vera hærri á hverju ári, en sem nemur efri vikmörkum verðbólgumarkmiða Seðlabankans. Með því er ekki verið að afnema verðtrygginguna, heldur setja þak á það hve mikið lántakandinn getur tekið á sig. Þetta er í anda þeirra reglna sem mér skilst að gildi í Danmörku, en þar er vaxtaþak á húsnæðislánum. Til að koma í veg fyrir að nafnvextir hækki upp úr öllu valdi, þá yrði líka sett þak á þá. Auðvitað væri bara best að afnema verðtrygginguna og mun ég fjalla um það í annarri færslu á næstunni.
En svona vegna orða Gylfa Magnússonar, þá eru það verðbætur þessa árs, sem lántakendur þurfa að losna við. Ekki verðbætur næsta árs. Ég geri þá ráð fyrir að það versta sé yfirstaðið og ekki verið fleiri efnahagslegar kollsteypur á næstu mánuðum.
Frysting jafnvel óhjákvæmileg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.12.2008 | 14:48
Olíufatið lækkar úr 96 USD í 44 USD en dollarinn styrkist
Svona til að hafa samanburðinn sanngjarnan, þá hefur olíufatið lækkað úr 96 USD (3. okt) í 44 USD (5. des) (Brent Norðursjávarolía). Á sama tíma hefu USD styrkst um 9,4%. Við höfum því 54% lækkun á heimsmarkaði og 9,4% styrkingu USD gagnvart krónunni. 96 USD 3. okt var nálægt því 10.560 IKR og 44 USD eru nálægt því 5.324 IKR. Munurinn er rétt um 50%. Verð á bensíni lækkar um 38,90 IKR eða eitthvað um 22%. Ef við drögum bensíngjaldið, sem er kr. 52,58, frá verði á dælu, þá fáum við að verð án bensíngjalds (og vsk. vegna bensíngjalds) var kr. 122,4 í byrjun október og samsvarar 38,90 kr. lækkun því 32% lækkun.
Ef kostnaðarverð hefur lækkað um 50% og sá hluti bensínverð sem ræðst af kostnaðarverði hefur lækkað um 32%, þá sýnist mér sem álagning hafi eitthvað hækkað. A.m.k. er verð á dælu hér á landi ekki að taka mið af breytingu á kostnaðarverði/heimsmarkaðsverði.
N1 lækkar eldsneytisverð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.12.2008 | 23:27
FSA vill skylda banka til að fjárfesta í ríkisskuldabréfum
FSA í Bretlandi (FME Bretlands) er að skoða leiðir til að draga áhrifum sem lausafjárkreppa getur haft á breska banka í framtíðinni. Lausnin er í sjálfu sér einföld, en gæti gerbreytt viðskiptalíkani flestra banka. Hún gengur út á að bankar verði skyldaðir til að kaupa ríkisskuldabréf. Með þessu væri búinn til varasjóður fyrir lausafé í bönkunum, sem hægt væri að grípa til með skömmum fyrirvara. Talað er um að ríkisskuldabréf þyrftu að nema 6 - 10% af eignasafni bankanna. Stærri bankar hafa gjarnan haft að jafnaði 5% af eignasafni sínu í ríkisskuldabréfum, meðan þetta hlutfall hefur verið lægra hjá minni bönkum.
Nú veit ég ekki hvert þetta hlutfall er hér á landi, en hefðu Glitnir, Kaupþing og Landsbanki átt ríkisskuldabréf (frá helstu viðskiptalöndum þeirra) sem numið hefðu 7-10% af eignasöfnum þeirra, þá hefði það mjög líklega komið í veg fyrir fall bankanna í byrjun október. Vissulega gefa ríkisskuldabréf ekki sömu ávöxtun og ýmsir aðrir pappírar, en stundum þarf að setja öryggið á oddinn. Þetta sé nokkurs konar tryggingariðgjald. Munurinn á ríkisskuldabréfum og AAA metnum pappírum einkabanka, er að bankarnir geta farið á hausinn (því hefðu pappírarnir kannski ekki geta fengið AAA mat).
FSA virðist eitthvað hnýta í íslensku bankana, því stofnunin vill einnig gera þá kröfu til útbúa erlendra banka í Bretlandi, að þau séu sjálfum sér nóg um fjármögnun, nema móðurbankinn uppfylli ákveðin skilyrði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.12.2008 | 17:30
Ríkisstjórn og Seðlabanki hlustuðu ekki á ráð þeirra sem vissu betur!
Ég hef svo sem talað um þetta áður, en nú hefur jafnvel Morgunblaðið birt frétt um þetta. Ríkisstjórnir og seðlabankar helstu vinaþjóða okkar bentu ríkisstjórninni og Seðlabanka Íslands á það í sumar, að rétt væri að leita til AGS. Það þótti mönnum ekki nauðsynlegt, móðguðust raunar yfir ábendingunni og töldu vinarþjóðir hafa brugðist sér svo illa að leita varð nýrra vina.
Vinur er sá sem til vamms segir. Að bandaríski seðlabankinn, Seðlabanki Evrópu og Englandsbanki hafi allir komist að þeirri niðurstöðu, að vandi Íslendinga væri orðinn það ógnvænlegur, að aðstoðar AGS væri þörf, hefði átt að segja mönnum eitthvað annað, en að allir væru á móti þeim. Það væri gott að fá að vita hverjir tóku þessa ákvörðun, sem svo gott sem felldi íslensku bankana nokkrum vikum síðar. Þetta er sérlega forvitnilegt í ljósi þess, að ríkisstjórnir Ungverjalands og Úkraínu ákváðu að leita til AGS áður en allt var komið í óefni til að koma í veg fyrir sams konar kollsteypu og hér varð.
En það er ekki sanngjarnt að beina allri sökinni að ríkisstjórn og Seðlabanka. Ég hef á undanförnum vikum heyrt og lesið alls konar sögur af fólki sem vissi með góðum fyrirvara að eitthvað mikið væri að gerast. Þannig er sagan af einum af lögmönnum bankanna, sem varaði samferðafólk sitt við því í febrúar að allt ætti eftir að fara á hausinn í byrjun október. Samferðafólkið skellti skollaeyrum við og áleit manni vera að rugla. Ég spyr bara, ef þessi lögmaður var svona viss um að allt færi yfir um 7 - 8 mánuðum áður en kollsteypan varð, af hverju var ekki hægt að bregðast við. Önnur saga er af lögmanni sem sagði sambærilega sögu um mitt sumar, nema hann varaði viðmælendur sína við að geyma fjárfestingar sínar í ákveðnum sjóðum og hlutabréfum tiltekinna fyrirtækja. Vonandi hlustaði einhver á hann. Þriðja sagan er af manninum, sem las það út úr vanda Eimskipa vegna ábyrgða hjá XL, að Landsbankinn væri að komast í þrot. Hans rök voru, að fyrst að Björgólfarnir yrðu að gangast í ábyrgðir, þá væri fokið í flest skjól hjá Landsbankanum. Hann kom peningunum sínum í betri geymslu. Raunar labbaði hann inn í bankann sinn með nokkrar ferðatöskur og tók út 70 milljónir í reiðufé. Mikið hefði verið gott að hafa 100.000 kr. seðil í umferð í staðinn fyrir að hafa þetta allt í 5.000 kr. seðlum.
Rússar beðnir ásjár í ágúst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.12.2008 | 09:53
Betra að fást við viðfangsefni en vandamál
Ég hef lengi haft þann sið, að þegar erfiðar aðstæður koma upp, þá reyni ég eftir kostum að kljást við það viðfangefni sem aðstæðunum fylgja. Að leita að lausnum frekar en að velta mér upp úr vandanum. Ég tekst aldrei á við vandamál, heldur verður hvert vandamál að nýju viðfangsefni sem þarf að leysa.
Þetta ár hefur verið sérlega viðburðarríkt að þessu leiti. Vandinn, sem fallandi gengi krónunnar hefur valdið, hefur fært mér óteljandi viðfangsefni að fást við. En ég tel, að með því að einblína á lausnirnar, þá hefur mér (að ég vona) tekist að koma í veg fyrir meiri erfiðleika. Vissulega hafa aðstæður í þjóðfélaginu farið dagversnandi, en þess brýnna hefur verið að takast á við viðfangsefnin. Það skiptir máli ekki hver ástæðan er, semja þarf við banka, skera niður kostnað eða auka tekjustreymi til að endar nái saman.
Þar sem ég er ráðgjafi, þá get ég náttúrulega ekki leyft mér neitt annað vinnulag. Hann væri nú furðulegur ráðgjafinn, sem kæmi inn og færi að gráta með kúnanum vegna þess að ástandið er svo slæmt. Þetta er líka það sem ég lærði í mínu uppeldi og mínu námi. Mitt sérsvið er aðgerðarannsóknir og innan þeirra einbeitti ég mér að ákvörðunargreiningu. Ákvörðunargreining snýst um að taka hvert viðfangsefni og brjóta það niður í viðráðanlegar einingar sem hægt er að vega og meta með samanburðarbærum hætti. Síðan er bútunum safnað saman og kostirnir, sem staðið var frammi fyrir, metnir í heild. Aðeins þá er hægt að ákveða hvaða kostur er bestur. Aðeins þá er komin lausn á viðfangsefninu. Þetta er svona eins og svarið við gátunni: "Hvernig borðar maður fíl?" Jú, einn bita í einu.
Íslendingar einblína á vandann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.12.2008 | 08:13
Bera menn veiruna á milli?
Samkvæmt frétt á visir.is, þá er farið að bera á sýktri síld úti fyrir Keflavík. Þetta er ennþá óstaðfest. Ef þetta reynist rétt, þá er spurning hvort flotinn sé sjálfur ábyrgur fyrir því að bera veiruna, sem veldur sýkingunni, á milli svæða.
Ég þekki svo sem ekkert sýkingarleiðir í sjó, en ég var búinn að sjá svona lagað gerast. Sömu veiðarfæri eru notuð á báðum stöðum. Skipin hafa siglt í sýktum sjó. Sýktur fiskur hefur verið um borð í skipum sem síðan færðu sig á nýtt veiðisvæði. Ef þetta væri í landbúnaði, þá væri allt sótthreinsað áður en farið væri af sýktum bæ yfir á ósýktan. Viðhöfðu menn einhverjar slíkar ráðstafanir á skipunum? Var veiðarfærum, sem sýkta síldin var veidd í, fargað eða var þeim kastað beint á torfur á nýjum svæðum?
Nú, ef fréttin á visir.is er röng, þá eru það samt góðar forvarnir að nota ekki sömu veiðarfærin á sýktu svæði og ósýktu.
Veiða síld við hafnirnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 1
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 35
- Frá upphafi: 1680016
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 31
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði