Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Játning Davíðs

Eftir að hafa lesið þessa frétt Morgunblaðsins, þá eru nokkrir punktar sem vekja athygli mína:

1.  Fjölmiðlum kennt um:

Spurði Davíð að því hvort það hefði verið öðruvísi ef fjölmiðlar hefðu ekki verið í þeim heljargreipum sem þeir voru í.

Um þetta er ekki annað að segja, að fjölmiðlar eiga að flytja fréttir ekki leysa vanda.  Vandamál hverfa ekki þó ekki sé fjallað um þau.

2.  Árangurslausar viðvaranir Davíðs:

Að sögn Davíðs varaði hann ítrekað við útrásinni og fylgifiskum hennar...Vísaði Davíð þar til orða sinna á fundi Viðskiptaráðs fyrir ári þar sem þetta kom allt fram. Á þeim fundi varaði Davíð stórlega við útrásinni og öllu því sem henni fylgdi, svo sem skuldasöfnunin og hvað lítið þurfi til þess að loftið fari allt úr útrásinni með skelfilegum afleiðingum. Jafnframt vísaði Davíð til ræðu sinnar á ársfundi Seðlabankans frá því í mars þar sem hann varaði einnig við því sem gæti gerst.

Orð eru til alls vís, en ef engar aðgerðir fylgja þeim, þá gagnast þau ekkert.

3. Skýrsla eftir fund með matsfyrirtækjum:

Davíð vísaði til fundar sem bankastjórnin átti í Lundúnum  í febrúar með matsfyrirtækjum og háttsettum bankamönnum þar í landi. Segir hann að þó seðlabankamenn hafi haft áhyggjur af ástandi mála fyrir fundinn þá hafi þeim verið brugðið eftir fundinn..Þar hafi verið lesin skýrsla, sem var til eftir fundinn í Lundúnum. Í skýrslunni kom fram að áhyggjur af Íslandi lutu eingöngu að íslensku bönkunum og stöðu þeirra. Ef þeim yrði hált á svellinu þá myndu fleiri falla með.

Davíð sagði, að af skýrslunni megi draga þá niðurstöðu, að íslenska bankakerfið hefði verið í verulega hættu á þeim tíma sem skýrslan var kynnt, það er í febrúar. Þar kom fram að markaðir verði almennt lokaðir íslensku bönkunum sem og öðrum bönkum næstu mánuði og í allt að tvö ár.

Í skýrslunni kemur einnig fram, að skortstaða hafi verið tekin á íslensku bankana í trausti þess að markaðir yrðu þeim lokaðir til langs tíma og ekki væri hægt að bjarga þeim frá falli af Seðlabanka. Niðurstaða skýrslunnar er sú, að ljóst sé að íslensku bankarnir hafi stefnt sér og íslensku fjármálalífi í stórhættu með framgöngu sinni undanfarin ár. Nauðsynlegt sé að vinda strax ofan af stöðunni.

Ok, hér er Seðlabankinn með mikið efni að vinna úr, en hver voru viðbrögð hans.  Erindi á ársfundi bankans.

Hér tiltek ég þrjú atriði úr erindi Davíðs, eins og þau koma fyrir í frétt mbl.is.  Í fyrsta kennir hann fjölmiðlum um, í öðru útrásarmönnum og í hinu þriðja bönkunum.  Hann aftur nefnir hvergi til hvaða aðgerða Seðlabankinn greip til að sporna við þróuninni.  Hann viðurkennir meira að segja að Seðlabankinn hafi ekki áttað sig á því fyrir fundinn með matsfyrirtækjunum í febrúar hve staðan hefði verið alvarleg.  En fyrst að staðan var orðin svona alvarleg:

1.  Af hverju jók Seðlabankinn ekki strax við gjaldeyrisvaraforðann sinn í nóvember á síðasta ári í kjölfar ræðu Davíðs á fundi Viðskiptaráðs?

2.  Af hverju lagðist Seðlabankinn gegn því að Kaupþing gerði upp í evrum?

3.  Af hverju var beðið með það fram í maí að fá heimild hjá Alþingi fyrir stóra láninu, ef Seðlabankinn vissi í febrúar að þörf var á því?

4.  Af hverju gerði Seðlabankinn ekki tillögu að því að leita til IMF strax í febrúar, þegar hann hafði þá skoðun matsfyrirtækjanna að lokað væri fyrir lánsfé til íslensku bankanna og slík lokun gæti staðaið yfir í 12 - 24 mánuði?

5.  Af hverju hafnaði Seðlabankinn þeirri leið í sumar (sbr. orð Davíðs í Kastljósþættinum fræga) að leita til IMF á þeim tíma?

6.  Hvað með að beita einhverjum öðrum stjórntækjum, en bara stýrivöxtum?

Það er nákvæmlega ekkert gagn af Seðlabankanum, ef bankinn bara horfir á og fylgist með, en aðhefst ekkert.   Ég hélt að það væri hlutverk Seðlabankans að koma á stöðugleika, að vera bakhjarl bankanna.  Seðlabankinn er búinn að viðurkenna fyrir sér í febrúar, að hann geti ekki bjargað bönkunum!

Í skýrslunni kemur einnig fram, að skortstaða hafi verið tekin á íslensku bankana í trausti þess að markaðir yrðu þeim lokaðir til langs tíma og ekki væri hægt að bjarga þeim frá falli af Seðlabanka.

Það er því ljóst að aðgerðirnar sem gripið var til gegn Glitni í lok september höfðu verið undirbúnar fyrir löngu.  Seðlabankinn var búinn að ákveða það fyrir löngu að hann gæti ekki staðið við þá skuldbindingu sína að vera lánveitandi til þrautarvara. Þannig í staðinn fyrir að auka við sjóði Seðlabankans, þá fóru menn að útbúa áætlun um yfirtöku bankanna.

Eitt í viðbót.  Þetta heyrði ég í hádegisfréttunum:  Davíð skammaði sjálfan sig í ræðu sinni, þegar hann gagnrýnir að FME hafi verið fært undan Seðlabankann með lögum árið 1998.  Hver skyldi nú hafa verið forsætisráðherra þá?

 


mbl.is Fjölmiðlar í heljargreipum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Námskeið um áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu - Hverjum ætlað og hvers vegna

Í síðustu færslu kynnti ég námskeið um áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu sem Betri ákvörðun, ráðgjafarþjónusta mín, mun halda 8. og 9. desember nk.   Þar sem ég hef fengið fyrirspurnir í tölvupósti um nánari skýringar á námskeiðinu, efni þess, hverjum það er ætlað og hvers vegna þessi tímasetning, þá vil ég freista þess að skýra þetta betur hér.

Efni námskeiðsins.  Efni námskeiðsins er miðað við þær kröfur sem gerðar eru um áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu í reglum Persónuverndar nr. 299/2001 um öryggiskerfi persónuupplýsingar, í leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins nr. 1/2005 um rekstur upplýsingakerfa hjá eftirlitsskyldum aðilum og í reglum Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 1221/2007 um vernd upplýsinga í almennum fjarskiptanetum, nr. 1222/2007 um virkni almennra fjarskiptaneta og nr. 1223/2007 um vernd, virkni og gæði IP fjarskiptaþjónustu.   Jafnframt eru dekkaðar allar almennar kröfur til stjórnunar rekstraráhættu og stjórnunar á samfelldum rekstri fyrirtækja sem ekki þurfa að uppfylla framangreindar reglur.  Kröfur sem endurskoðendur setja gjarnan fram eða matsfyrirtæki á borð við Standard & Poors, Moody's eða Fritch.  Tekið skal skýrt fram að námskeiðið fjallar ekki um áhættustjórnun eða áhættuútreikning vegna útlánaáhættu eða fjárfestingaáhættu, þó svo að vissulega sé hægt að nýta sér þær aðferðir sem kynntar verða við slíka áhættustjórnun.

Námskeiðið styðst við staðla um stjórnun upplýsingaöryggis:  ISO 27001 og ISO 27002; um áhættumat og áhættustjórnun: ISO 27005, BS 31100, AS NZS 4360 og leiðbeiningar frá The Institute of Risk Management og The Association of Insurance and Risk Managers; um stjórnun rekstrarsamfellu: BS 25999, PAS 56 og leiðbeiningar frá Business Continuity Institute, Disaster Recovery Institute og Survive, The Business Continuity Group.  Síðan er byggt á CobiT (Control Objectives for Information and Related Technology) frá IT Governance Institute og The Standard of Good Practices for Information Security frá Information Security Forum.

Hverjum er námskeiðið ætlað.  Námskeiðið er ætlað hverjum þeim sem er að fást við áhættustjórnun í sínu starfi.  Það geta verið forstjórar, framkvæmdarstjórar, stjórnarmenn, millistjórnendur, öryggisstjórnendur eða sérhæfðir starfsmenn svo dæmi séu tekin.  Námskeiðið getur vissulega nýst mun fleiri aðilum, svo sem fulltrúum í borgar-/bæjar-/sveitarstjórnum eða öðrum fulltrúum almennings sem eru að fást við mikla óvissu- eða áhættuþætti í sínu starfi.  Hafa skal í huga, að stjórnun rekstrarsamfellu er ekki það sama og neyðarstjórnun, en hún innifelur hana.

Hvers vegna þessi tímasetning.  Þetta námskeið átti að fara fram fyrr í haust, en var frestað vegna þess áfalls sem þá reið yfir.  Áfallið hefur dregið fram ennþá meiri þörf fyrir þá fræðslu sem innifalin er í námskeiðinu.  Núna eru menn að fást við alls konar áfallastjórnun, sem mjög oft fellst í því að slökkva elda sem blossa upp fyrirvaralaust.  Námskeiðinu er ætlað að leggja mönnum til aðferðir sem hægt er að nota við skipulagningu "björgunarstarfa" og draga úr líkum á óvæntum uppákomum í framhaldi af "björgunarstarfinu".  Einnig er því ætlað að hjálpa mönnum að búa sig undir það óvænta.  Loks er því ætlað að aðstoða þá sem eru í atvinnuuppbyggingu, svo sem sprotafyrirtækjum og fyrirtækjum sem eru í góðum rekstri, að skipuleggja áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu til að draga út líkunum á því að þessir aðilar sogist ofan í svelginn sem myndaðist við fall bankanna.

Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar hefur fengist við ráðgjöf sem tengist stjórnun upplýsingaöryggis í 5 ár.  Þar áður starfaði Marinó við sömu hluti hjá VKS hf. (núna hluti af Kögun) og var öryggisstjóri hjá Íslenskri erfðagreiningu.  Meðal viðfangsefna, sem Marinó hefur fengist við, eru innan íslensku stjórnsýslunnar, heilbrigðisgeirans, hjá lífeyrissjóðum og fjármálafyrirtækjum, auk þess að vera leiðbeinandi hjá Staðlaráði Íslands á námskeiðum þess um staðlana ISO 27001 og ISO 27002 sem fjalla um stjórnun upplýsingaöryggis.  Marinó flutti einnig erindi á ráðstefnunni InfoSec World 2006, þar sem hann fjallaði um áhrif ytri krafna á rekstrarumhverfi fyrirtækja og stofnana.


Námskeið um áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu

Betri ákvörðun, ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar, mun halda námskeið um áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu dagana 8. og 9. desember nk.  Markmið námskeiðsins er að kynna aðferðafræði við áhættustjórnun og samspil áhættustjórnunar og stjórnunar rekstrarsamfellu.

Dagskrá námskeiðsins verður sem hér segir:

Mánudagur 8. desember

Kl. 09.00 - 09.15  Skráning

Kl. 09.15 - 09.55  Kynning. Inngangur.

Kl. 09.55 - 10.10  Kaffihlé

Kl. 10.10 - 11.50  Áhættumat og áhættustjórnun - aðferðir, staðlar, hugmyndafræði 

Kl. 11.50 - 12.40  Hádegismatur

Kl. 12.40 - 13.30  Framkvæmd áhættumats - aðferðir, leiðbeiningar, form, skjalamát

Kl. 13.30 - 14.40  Verkefni:  Áhættumat

Kl. 14.40 - 15.00  Kaffihlé

Kl. 15.00 - 15.30  Kynning á niðurstöðu verkefna og umræður

Kl. 15.30 - 16.40  Stjórnun rekstrarsamfellu - markmið, tilgangur

Kl. 16.40  Fyrri degi lokið

 

Þriðjudagur 9. desember

Kl. 09.00 - 09.15  Upprifjun frá deginum áður.

Kl. 09.15 - 09.55  Stjórnun rekstrarsamfellu - aðferðir, staðlar, hugmyndafræði

Kl. 09.55 - 10.10  Kaffihlé

Kl. 10.10 - 10.50  Áhrifagreining - aðferðir, leiðbeiningar, form, skjalamát

Kl. 10.50 - 11.50  Verkefni:  Áhrifagreining 

Kl. 11.50 - 12.40  Hádegismatur

Kl. 12.40 - 13.30  Kynning á niðurstöðu verkefna og umræður

Kl. 13.30 - 14.40  Neyðarstjórnun - neyðarhandbók

Kl. 14.40 - 15.00  Kaffihlé

Kl. 15.00 - 15.40  Viðbragðsáætlun

Kl. 15.40 - 16.40  Verkefni:  Viðbragðsáætlun

Kl. 16.40 - 17.00  Kynning á niðurstöðu verkefna og umræður

Kl. 17.00  Námskeiði lokið

Reynt verður að laga verkefni, eins og kostur er, að þörfum þátttakenda, þannig að sem flestir geta verið að fást við verkefni úr sínu umhverfi.

Meðal þeirra staðla og aðferða sem stuðst er við á námskeiðinu má nefna ISO 27001, ISO 27002, ISO 27005, BS 25999, BS 31100 og CobiT (Control Objectives for Information and Related Technology).

Leiðbeinandi á námskeiðinu er Marinó G. Njálsson, sérfræðingur í stjórnun upplýsingaöryggis, M Sc og Engineer Degree Operations Research, Stanford Univerity.

Verð kr. 100.000, innifalið námskeiðsgögn, léttar veitingar og hádegisverður.  Veittur er 10% afsláttur ef tveir eða fleiri koma frá sama aðila.

Staðsetning:  Kríunes við Elliðavatn.  Staðsett í milli byggðar og vatns með útsýni yfir vatnið, upp í Heiðmörk og fjöllin kringum Reykjavíkursvæðið. 

Skráning á námskeiðið er hafin og fer hún fram með því að senda tölvupóst á oryggi@internet.is.  Þar eru einnig veittar nánari upplýsingar, ef óskað er.


Aukalán LÍN greidd út á næsta ári!

Það er kominn inn frétt á vef LÍN um aukalán fyrir námsmenn í sárri neyð skólaárið 2008-09.  Þar segir:

Ef námsmaður er í sárri neyð vegna ófyrirsjáanlegrar röskunar á stöðu hans og högum frá því nám hófst í haust, getur hann sótt um sérstakt aukalán, sbr. heimild í gr. 4.9 í úthlutunarreglum sjóðsins. Umsækjanda ber að fylla út sérstakt umsóknareyðublað og senda til sjóðsins ásamt skýringum og fylgiskjölum sem sýna breytta stöðu umsækjanda.  Hvert tilvik verður svo metið af stjórn sjóðsins. Ef slíkt aukalán verður samþykkt, þá verður það greitt út með framfærsluláni.

Ég veit ekki hvort ég eigi að taka þetta alvarlega.  Námsmenn eru margir í alvarlegum og brýnum fjárhagsvanda, en það á að leysa hann á næsta ári!  Það á að bíða þar til það kemur í ljós hver árangur námsmanna er úr prófum, sem þeir hugsanlega geta ekki farið í vegna fjárhagsvandræða, með að ákveða hvort námsmenn fá aukalánið og þá hve hátt lán.

Skilja menn ekki að neyðin er núna og úrræðin þurfa að koma strax.  Aðstandendur námsmannanna hafa ekki sömu úrræði til að hjálpa þeim og áður vegna efnahagskreppunnar.  Ég átti von á meiri skilningi.  Ég get bara ekki sagt annað.  Ég efast um að þetta hafi verið það sem ríkisstjórnin hafði í huga.


Þurfum við stjórnarbyltingu?

Jæja, þá er það komið í ljós.  Hið aldurhnigna ljón breska heimsveldisins hefur fundið mús sem það ræður við.  Hér eru menn lítilla sanda, lítilla sæva.  Hvað segir þetta fólki um möguleika okkar innan ESB?  Viljum við treysta ESB fyrir auðlindum okkar, þegar það á að kúga okkur til undirgefni?  Fyrst rýra Bretar eigur íslensku bankanna í Bretlandi um þúsundir milljarða og skerða þannig möguleika breskra innistæðueigenda til að fá greitt út, en við eigum samt að greiða tjónið.  Þetta er hvílíkt bull, að það þarf virkilega siðblindan einstakling til að skilja ekki ruglið.

Það sem mér finnst samt merkilegast, er að stjórnvöldum þessara stórþjóða finnst hið besta mál að íslenskur almúgi eigi að greiða.  Við tókum á engan hátt þátt í þessu og höfðum ekkert um þetta að segja, en við eigum að borga.  Göfgi þeirra er mikil.  Nú þurfum við að snúa okkur að fulli til Rússa (ef það er ekki um seinan). 

En það er fleira.  Við þurfum líka að skipta um ríkisstjórn án tafar og mynda utanþingsstjórn.  Ef Sjálfstæðisflokkur og Samfylking vilja ekki víkja að sjálfsdáðum, þá sting ég einfaldlega upp á að frjálsir Íslendingar myndi sína eigin stjórn.  Finnum hæfa einstaklinga til að mynda alvöru þjóðstjórn.  (Þá er ég ekki að tala um ríkisstjórn alþýðunnar, eins og DV gerði.)  Við getum alveg gert appelsínugulabyltingu eins og Úkraínumenn.  Við getum fellt múra stjórnleysis og óréttlætis, eins og Austur-Þjóðverjar gerðu.  Að minnsta kosti mæli ég með því að stofnaður verði aðgerðahópur (hafi það ekki þegar verið gert), þar sem saman koma einstaklingar með hugmyndir um hvað þarf að gera.  Menn og konur sem hafa þor, dug og kjark til að setja fram nýjar hugmyndir fyrir nýtt Ísland.  Svo verði auglýst eftir frekari tillögum.  Ég er farinn að hallast að við, fólkið í landinu, verðum að taka völdin af þeim sem sváfu á verðinum. Þetta er margt hið vænsta fólk, en það fékk sitt tækifæri.  Ég viðurkenni fúslega að það nýtti það vel til að byrja með, en svo óx viðfangsefni þeim upp fyrir höfuð.  Nú er kominn tími til að hleypa nýju aðilum að.


mbl.is Fáum ekki lán nema Icesave deila leysist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smjörklípur um allt - Er verið að afvegaleiða þjóðina?

Ég tek eftir því að það er verið að henda smjörklípum um allt til að leiða umræðuna frá aðalviðfangsefninu.  Það virðist ekki skipta mála með hvaða fjölmiðli maður fylgist með, alls konar furðulegar sögur eru farnar að dúkka upp eða athyglinni er beint að aukaatriðum í stað aðalatriða.  Mig langar að nefna þrjú dæmi um þetta sem komu upp um helgina:

  1. Agnes Bragadóttir "skúbbaði" 3 ára gamalli frétt um að Hannes Smárason hefði hugsanlega lánað Pálma Haraldssyni fyrir kaupverðinu á Sterling.  Aðrir fjölmiðlar bitu á agnið og hafa eytt ómældum tíma í að endursegja gamlar fréttir.
  2. Birt er grein í Morgunblaðinu þar sem bent er að Jón Ásgeir sé ennþá skráður í stjórnir 13 hlutafélaga.  Aðrir fjölmiðlar bíta á agnið og eyða tíma og plássi í þetta.
  3. Haldinn er fjölmennur mótmælafundur á Austurvelli.  Fáeinir einstaklingar á fundinum kasta eggjum í Alþingishúsið og "saurga" það og tveir klifra upp á þak. Varla er minnst á fundinn og ekkert á málflutning fundarmanna.

Ég get ekki að því gert, en mér finnst eins og einhver áróðursvél sé komin í gang, sem hefur það að markmiði að beina athyglinni frá klúðri ráðamanna.

Ég er búinn að bíða eftir því í meira en mánuð að fá að vita nákvæmlega hvað gerðist í undanfara þjóðnýtingar Glitnis.  Þetta er áhrifaríkasta ákvörðun sem tekin hefur verið í lýðveldissögu þjóðarinnar og hvernig væri nú að Agnes "skúbbari" reyni nú að skúbba nýrri frétt en 3 ára gamalli sem fjallað var ítarlega um á sínum tíma.  Hvernig væri að einhver alvöru blaðamaður skoðaði, með hjálp sérfræðings, hvaða áhrif tillögur ríkisstjórnarinnar varðandi atvinnuleysistryggingarsjóð hafa á atvinnumarkaðinn eða hvaða úrræði væru önnur eða hvað Tryggvi Þór Herbertsson var að gefa í skyn í viðtalinu við Björn Inga á laugardaginn eða að menn köfuðu ofan í orð Davíðs Oddssonar í Kastljósviðtalinu á sínum tíma eða menn fengju á hreint hvað var reynt í sumar, hvaða svör fengust og hvers vegna þessi svör fengust.  Það eru svo mörg mál sem eru mun brýnni en 3 ára gömul saga um Hannes Smárason.  Trúverðugleiki Hannesar er ekki það sem skiptir máli, heldur skiptir máli að skilja af hverju þrír stærstu bankar landsins hrundu í byrjun október, hvaða skuldir og ábyrgðir við sitjum uppi með vegna hrunsins, hvernig ætlunin er að halda atvinnurekstri í landinu gangandi, hvaða aðgerðahópar á vegum ríkisstjórnarinnar eru í gangi og hvað þeir eru að fást við, hvað ríkisstjórnin er yfirhöfuð að gera til að rétta þjóðarskútuna af, hver aðkoma Alþingis er að málum.  Mér þætti líka forvitnilegt að fá alvöru fréttaskýringu, sem fjallaði um hvað er satt og logið varðandi icesave.


Ríkisstjórn alþýðunnar í DV

Það var hringt í mig á miðvikudaginn frá DV og ég beðinn um að taka þátt í léttu gríni.  Að vera forsætisráðherra í slembuvalinni ríkisstjórn alþýðunnar.  Ég hugsaði mig aðeins um, enda gætu einhverjir litið svo á, að það rigndi upp í nefið á þeim sem tæki þátt í slíku, en ákvað svo að slá til.

Mér voru sendar nokkrar spurningar með tölvupósti og svaraði ég þeim eins og ábyrgur forsætisráðherra.  Niðurstöðuna er að finna í helgarblaði DV, sem kom út í gær.  Ég tók eftir því við yfirlestur svara minna, að þar er ein villa:  Buiter sem ég vísa til er William H. Buiter en ekki Walter Buiter.

Fyrir þá sem ekki hafa aðgang að DV, þá eru spurningarnar og svör mín hér fyrir neðan.  Ég set þau fram eins og ég sé sá sem valdið hefur.  En hafa skal í huga, að allt er þetta í gríni gert, þó tilefnið sé vissulega alvarlegt. 

1.            Hvort ræður Seðlabankinn eða ríkisstjórnin?

Það er hlutverk ríkisstjórnarinnar að stjórna landinu.  Ríkisstjórnin markar stefnu í efnhagsmálum og setur bæður bönkum og Seðlabanka lög og reglur sem eiga að tryggja efnahagsstöðuleika í landinu.  Þetta regluverk á að verja hagsmuni almennings ofar öllu og þarf því að breyta því verulega í ljósi reynslunnar.

a.    Viltu reka Seðlabankastjórnina? Ef já: Af hverju?

Í ljósi þess að Seðlabankanum hefur hvorki tekist að tryggja stöðugleika verðlags eða í gengi krónunnar, þá hef ég ákveðið að víkja stjórn og bankastjórum Seðlabankans.  Nýr yfirbankastjóra hefur verið ráðinn til starfa.  Mun hann vinna til að byrja með, með núverandi bankastjórn á meðan mesta neyðarástandið varir, en tekur svo alveg yfir 1. janúar 2009.  Til starfans var ráðinn fyrirverandi bankastjóri Bank of England og honum til aðstoðar hafa verið ráðnir nóbelsverðlaunahafinn Paul Krugman, William H. Buiter og Þórður Friðjónsson.

b.    Hvernig bera ráðherrar ábyrgð?

Frumskylda hverrar ríkisstjórnar er að tryggja stöðugleika í efnahagsmálum og halda uppi háu atvinnustigi.  Bregðist hún slíkri skyldu, þá á hún að víkja.  Hafi einstakir ráðherrar ekki staðið sig, ber þeim að stíga til hliðar.  Í ljósi atburða síðustu vikna verða boðað til alþingiskosninga og mun þær fara fram laugardaginn 1. mars 2009.  Í millitíðinni verður skipuð utanþingsstjórn og hef ég farið þess á leit við rektor Háskóla Íslands að finna hæfa einstaklinga úr háskólasamfélaginu og atvinnulífinu til að sitja í þeirri stjórn.

2.            Telur þú tímabært að sækja um aðild að ESB?

Aðild að ESB verður að vera á okkar forsendum og má alls ekki vera sem neyðarúrræði.  Það er þó rétt að óska strax eftir slíkum viðræðum, þó svo að viðræðurnar sjálfar hefjist ekki fyrr en hægir um í þjóðfélaginu.

3.            Hvort myndir þú, sem ráðherra efnahagsmála, vilja byggja upp krónuna eða taka upp annan gjaldmiðil?

Krónan hefur runnið sitt skeið sem sjálfstæð mynt.  Það er nauðsynlegt að skoða kosti tengingar hennar við aðra gjaldmiðla eða upptöku annars gjaldmiðils, en ákvörðun um slíkt má ekki taka án undangenginnar greiningar á hvað telst best.  Þessa vinnu þarf að setja strax í gang og kalla til færustu sérfræðinga, en stjórnvöld taka síðan ákvörðunina, ekki sérfræðingarnir.

4.            Ætlarðu að láta Breta komast upp með að sverta ímynd Íslands með hryðjuverkalögum?

Það sem Breta gerðu var ófyrirgefanlegt og við munum sækja fast að þeir bæti okkur upp tjóni okkar.  Til að sýna hver alvarlegum augum við lítum málið, hefur sendiherra okkar í Bretlandi verið kallaður heim til skrafs og ráðagerða.

5.            Treystirðu Alþjóðagjaldeyrissjóðnum fyrir hagsmunum Íslendinga?

Aðkoma IMF er og verður alltaf á okkar forsendum og með það að markmiði að halda atvinnulífinu gangandi.  Komi í ljós að skilyrði IMF eru þannig að hér stefni í mikið atvinnuleysi, þá er það ekki ásættanlegt.  Fyrr munum við aðstoða fyrirtæki með launagreiðslur en að hér fyllist allt af fólki sem mælir göturnar.


Leið ríkisstjórnarinnar er röng

Ég legg það ekki í vanann að lesa efni á xd.is, en ákvað að fylgja hlekk af eyjan.is.  Þar var vísað í pistil með yfirskriftinni Öflugar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að verja stöðu heimilanna.  Þetta er metnaðarfullur lista, það vantar ekki, en það er bara allt of margt rangt í þessum tillögum.  Mig langar hér að skoða listann aðeins og gera mínar athugasemdir við hann.

  1. Sveigjanleiki á vinnumarkaðiTil að sporna við vaxandi atvinnuleysi á að lengja þann tíma sem greiða má tekjutengdar atvinnuleysisbætur.  Ennfremur er gert ráð fyrir að greiðslur úr Ábyrgðarsjóði launa verði miðaðar við tekjur launamanns samkvæmt starfshlutfalli áður en til samdráttar kom. - Er ég að misskilja eitthvað?  Hvernig spornar það við atvinnuleysi að borga fólki hærri bætur?  Hér væri mun betra að greiða atvinnurekandanum þessa upphæð fyrir það að halda starfsmanninum í fullu starfi.  Í staðinn má lækkar byrðar á atvinnulífinu með lækkun tryggingargjalds og tímabundinni lækkun framlags launagreiðanda í lífeyrissjóð. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar auka líkur á atvinnuleysi, þar sem atvinnurekendur vita að skellur þeirra sem missa vinnuna verður ekki eins mikill.
  2. Komið til móts við námsmenn erlendisFallist hefur verið á tillögu stjórnar LÍN um breytingu á úthlutunarreglum sjóðsins fyrir yfirstandandi skólaár. Boðið verður upp á aukalán. Auðvelda á mönnum að hefja lánshæft nám á næsta ári. - Ég bíð spenntur eftir að heyra hverjar þessar breyttu úthlutunarreglur verða og hvað felst í þessu aukaláni og vonandi verður það til hagsbóta fyrir nemendur.  En þá kemur þessi kostulega tillaga að auðvelda fólk að fara í lánshæft nám. Ríkið ætlar sem sagt að hvetja fólk til að fara í frekara nám til þess að það fari á námslán til að tryggja sér og sínum framfærslu. Höfum í huga, að það þarf að greiða lánin til baka og þau borga ekki afborganir annarra lána.  Það á sem sagt að ýta fólki út í meiri lántökur.
  3. Almenn velferð nemenda: Tilmælum beint til skólastjórnenda að huga að almennri velferð nemenda. - Gott og blessað.  Göfug hugmynd.  En hefði ekki verið betra að segja að ríkið ætlaði að leggja 100, 200 eða 300 milljónir í þetta verkefni.  Hvaðan eiga skólarnir að fá þessa peninga?  Nei, þetta er tillaga sem aðrir eiga að borga fyrir.
  4. Mildaðar innheimtuaðgerðirÍbúðalánasjóður getur lengt tímann fyrir þá sem lent hafa í greiðsluerfiðleikum. - Enn og aftur er það tillaga ríkisstjórnarinnar að fólk greiði meira.  Lengri tími þýðir hærri vaxtagreiðsla og þar með hærri heildargreiðsla.  Ríkið ætlar ekki að greiða neitt í þessu.  Ríkið ætlar ekki að taka ábyrgð á því að það leyfði verðbólgunni að æða upp úr öllu. Nei, hér eiga þeir sem geta ekki borgað bara að borga meira á lengri tíma.
  5. Afborganir myntkörfulána frystar: Tilmælum beint til hinna nýju ríkisbanka að þeir frysti tímabundið vexti og afborganir af myntkörfulánum, þar til eðlileg virkni kemst á gjaldeyrismarkaðinn. - Fín hugmynd sem virðist virka, en leiðir bankanna eru misjafnar.  Þetta er bara ekki nóg.  Hvað á að gera ef "eðlileg virkni gjaldeyrismarkaðar" verður með gengisvísitölu í kringum 240?  Ég vona að tillögur um slíkt komi fljótlega.
  6. Breytingar á lánum auðveldaðar: Fella tímabundið niður stimpilgjöld af skilmálabreytingum og skuldbreytingum. - Besta mál, en þarf ekki að breyta lögum?  Það hefur ekki verið gert.  Og aftur þýðir lengri lánstími hærri heildargreiðslu.
  7. Lenging skuldbreytingalána: Nú verður hægt að skulda í 30 ár í stað 15 ára. - Er ekki allt í lagi?  Hvað er skuldari bættur með að vera lengur í skuldafangelsinu?  Og aftur lengri lánstími með hærri heildargreiðslu.  Það þarf að létta skuldunum af fólki, ekki lengja í þeim.
  8. Aukið námsframboð í háskólum og framhaldsskólum: Auka framboð hefðbundins náms og fjölga tækifærum til endurmenntunar. - Gott og blessað, en eru skólarnir tilbúnir að taka við 20 - 30 þúsund nýjum nemendum?  Þeir gera það ekki nema með háum framlögum úr ríkissjóði.  Er ríkið tilbúið að leggja þá peninga til?  Svo er það hitt:  Hvernig á fólk að framfleyta sér meðan það er í námi? Líklegast á að vísa fólki á LÍN, sem eykur á skuldirnar, sem eru nógar fyrir, og námlánin þarf að borga til baka.

Úrræði ríkisstjórnarinnar snúast um að lengja í lánum, bæta við lánum og fjölga þeim sem missa vinnuna.  Þetta er víst finnska leiðin, þó ég eigi erfitt með að trúa því.

Hvernig væri að snúa þessu við og leggja alla þessa peninga, sem eiga að fara í atvinnuleysisbætur, lengingu lána Íbúðalánasjóðs, aukið námsframboð og aukningu námslána, í að halda fólki í vinnu.  Það er eins og ríkisstjórnin gleymi því, að þess fleiri sem fara af vinnumarkaði, þess færri greiða skatta.  Markmiðið á að vera að halda sem flestum á atvinnumarkaði, þannig að sem flestir taki þátt í að greiða fyrir samneysluna.  Að sem flestir geti framfleytt sér á sjálfsaflafé í stað lána eða bóta.  Námslán og atvinnuleysisbætur tryggja í besta falli lágmarksframfærslu og duga ekki fyrir húsnæðisláninu eða bílaláninu.  Það fólk sem fer þessa leið og er með mikla greiðslubyrði fyrir mun bara sökkva dýpra.  Þetta eru ekki úrræði sem bæta ástandið.  Þetta eru úrræði sem viðhalda kreppunni.  Eina leiðin til að sigrast á kreppunni er að auka þjóðarframleiðslu og það verður ekki gert nema fyrirtækjunum verði haldið gangandi og fólki í vinnu.

Ríkisstjórnin hefur núna nokkrar vikur til að hugsa þessar tillögur upp á nýtt áður en holskefla atvinnuleysis skellur á.  Ég skora á menn að hugsa út fyrir þennan kassa félagslegra lausna og færa sig yfir í kassa atvinnusköpunar.  Það er atvinnulífið sem er lífæð þjóðfélagsins.  Sköpum því nýjan rekstrargrundvöll með því að breyta rekstrarumhverfi þess.  Með því að létta undir með því.  Förum ekki leið fjölda atvinnuleysis og aukinnar skuldabyrða heimilanna.

Ef ríkisstjórnina vantar hugmyndir um atvinnuuppbyggingu, þá vísa ég í færslu Kjartans Pétur Sigurðssonar HVERNIG MÁ STÓRAUKA VERÐMÆTI Í ÍSLENSKU HAGKERFI?, en hún er uppfull af góðum hugmyndum.  Síðan skora ég á ríkisstjórnina að fá Róland R. Assier til að vera með fyrir ráðherra, þingmenn og aðstoðarmenn þeirra hraðkúrsinn um atvinnulífið, sem hann er með í Leiðsöguskólanum.  Þar kemur margt fram sem fólk veit almennt ekki um.  Atvinnulífið býður upp á svo mikið að það er synd að nýta það ekki.

Þessu til viðbótar eru fjölmörg verkefni sem setið hafa á hakanum vegna skorts á vinnuafli (og fjármagni), sem tilvalið væri að fara út í.  Má þar bara nefna flokkun og frágangur skjala í Þjóðskjalasafni og héraðsskjalasöfnum, yfirfærsla sjúkragagna af pappírsskrám yfir á rafrænt form og endurbætur og viðhald á opinberu húsnæði.  Ég get ekki skilið að það sé betri kostur að hafa fólk atvinnulaust en að veita því vinnu.  Ég neita að trúa því.

Nú gagnvart áhvílandi lánum, þá á ríkisstjórnin að leita leiða til að gera fólki kleift að greiða af lánum sínum.  Það má gera á ýmsa vegu.  Ég hef áður bent á að taka hluta lánanna til hliðar og leggja á afskriftarreikning sbr. færslan mín Hinn almenni borgari á að blæða.  Önnur leið er að hækka vaxtabætur verulega og greiða þær út mánaðarlega.  Það þýðir ekki að segja að þetta kosti of mikið, þar sem allt kostar mikið, og fátt kostar meira fyrir almenning en að missa húsnæðið sitt.  Málið er líka, að ef tekið er á hlutunum að festu og með hraði, þá verður hægt að draga verulega úr kostnaðinum.  Því lengri tími sem líður, þess hærri kostnaður fyrir alla.

Ég skora á ríkisstjórnina að víkja af þeirri leið sem hún stefnir inn á.  Tryggið fólki atvinnu sem veitir því sjálfsaflafé.  Gangið strax í að létta greiðslubyrði fólks til langframa.  Og gleymið aldrei, að það var á ykkar vakt sem allt fór til andskotans og þið skuldið því fólkinu í landinu uppbyggjandi aðgerðir í stað áframhaldandi niðurrifs.  Ef þið ráðið ekki við verkið, þá er fullt af góðu fólki sem er til í að bretta upp ermarnar og leggjast á árarnar með ykkur.


Aðgát skal höfð í nærveru sálar

Ofsóknaræðið er orðið svo mikið í þjóðfélaginu að menn sjá skrattann í öllum hornum.  Fólk skýtur út í loftið án þess að vita af hverju eða á hvern, vegna þess að það er hrætt og reitt.  Upplýsingaflæðið frá stjórnvöldum er í dropatali, þegar það á að vera stöðugt flæði, eins og í fallegri á og eykur það frekar á fárið.  Þeir sem eiga að vera í því leiðrétta söguburð eða staðfesta fréttir, eru ekki að sinna hlutverki sínu.  Fólk smjattar á fáránlegum orðrómi, eins og um heilagan sannleika sé að ræða.  Ekki misskilja mig.  Ég vil sannleikann, allan sannleikann og ekkert nema sannleikann, eins og frasinn er frá Ameríku.  Ég vil að okkur sé treyst fyrir upplýsingum, en ekki haldið frá okkur, því það gefur sögusögunum undir fótinn.

Hægt er að telja upp ótal "fréttir" á blogg-síðum, spjallrásum og vefsíðum, þar sem lekið er "staðreyndum" sem eiga svo ekki við rök að styðjast eða eru færðar verulega í stílinn.  Síðan fer í gang umræða, þar sem skórinn er níddur af nafngreindum einstaklingum, sem hafa ekkert gert sér til sakar annað en að hafa lent í hamfaraflóðinu með okkur hinum.  Nafnabirtingar á einhverjum undirsátum í bankakerfinu eru gjörsamlega út í hött.  Fæst af því fólki, sem stjórn Kaupþings ákvað að losa undan persónulegum ábyrgðum, bað um það eða kom á nokkurn hátt nálægt þeirri ákvörðun.  Það var bara haft með.

Við verðum að fara að passa okkur á því hvað við segjum.  Ég er alls ekki að biðja fólk um að vera meðvirkt.  Það er eins fjarri mér og hugsast getur.  En það segir einhvers staðar:  Við eigum að hugsa allt sem við segjum og ekki segja allt sem við hugsum.

Ég hitti mann í gær, sem er þekkt nafn í atvinnulífinu.  Hann sagði mér, að erlendir fjölmiðlar hefðu hringt talsvert í hann, en hann hafi ákveðið að ræða ekki við þá.  Ástæðan væri, að hann væri svo reiður að það sem hann segði yrði líklegast út í hött.  Hans fyrirtæki sér fram á að fara úr nokkur hundruð starfsmönnum niður í 30 á næstu mánuðum!  Hann hefur því fullan rétt á því að vera reiður, en hann vill ekki tjá sig við erlenda miðla, vegna þess að hann er hræddur um að segja eitthvað sem hann sér eftir síðar.   Ég held að margir gætu tekið þennan mann sér til fyrirmyndar. 

Það sem við þurfum núna eru lausnir.  Við þurfum að leggjast á skóflurnar og grafa okkur út úr skaflinum.  Við getum ekki beðið eftir því að það hætti að snjóa og byrjað að moka þá. Við þurfum að hjálpa börnunum okkar að skilja ástandið.  Við þurfum að hjálpa hvert öðru og hvetja til dáða.  Við eigum að nota reiði okkar til að vinna okkur út úr vandanum, en ekki grafa okkur dýpra niður.  Það eiga eftir að koma upp fáránlega vitlaus mál, sem ofgera siðferðisvitund okkar, en höldum haus. Sýnum öðrum virðingu.  Munum að gullna reglan er: 

Það sem þér viljið að mennirnir gjöri yður, skulið þér og þeim gjöra. 

Hún er ekki: 

Það sem mennirnir gjörðu yður, skulið þér og þeim gjöra.

Við skulum muna að allt sem við setjum niður hér á internetinu verður á netinu um aldur og ævi.  

Hvað svo sem gerist, pössum okkur á því að missa ekki okkar eigin virðingu.  Styrkjum siðferðisvitund okkar, en veikjum hana ekki.  Aðgát skal höfð í nærveru sálar.


Verðbólga yfir 20% í janúar - í samræmi við mína spá fyrir rúmum mánuði

Í færslu hér 1. október sl. (Skilar sér í vel yfir 20% verðbólgu og 25% stýrivöxtum á næstu mánuðum), þá spáði ég því að verðbólga gæti farið í 24,5% í byrjun næsta árs.  Nú heyrist mér að Seðlabankinn spái 23,9%.  Aðrir hafa ekki viljað spá þetta mikilli verðbólgu fyrr.  Nú er spurning hvort ég verði líka sannspár um stýrivextina, en ég á síður von á því, þar sem við lækkunina í 12% um daginn, þá kom fram vilji hjá Seðlabankanum að vera með raunstýrivexti neikvæða.  Ég held að það hljóti að verða raunin, meðan verðbólgan toppar á næstu mánuðum.
mbl.is Spá 10% atvinnuleysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.9.): 5
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 41
  • Frá upphafi: 1679456

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband