Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Glæsilegt - til hamingju

Þetta eru búnir að vera skemmtilegir 6 dagar að fylgjast með Birgi Leifi og gaman að hafa lýsingar þeirra á Víkurfréttum.  Það er nokkuð ljóst af þeim lýsingum, að vippurnar hans Birgis eru góðar, en pútterinn mætti vera beittari.  Það var alveg ótrúlegt að lesa hversu oft sentimetrarnir gerðu útslagið um það hvort fuglinn næðist og hefði skorið auðveldlega geta orðið 6 - 10 höggum betra.

Takk fyrir þetta Víkurfréttir og til hamingju Birgir Leifur.


mbl.is Birgir: „Ég hef aldrei verið eins stoltur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlutabréfasala 1994

Ég var að fletta í gegnum gömul viðskiptablöð Morgunblaðsins, þegar ég rakst á þessa annars áhugaverðu auglýsingu, en hún birtist fimmtudaginn 15. desember 1994.  Nokkrir einstaklingar og fyrirtæki vilja selja hlutabréf og sjá þá leið eina að auglýsa í Morgunblaðinu og bjóða vaxtalaus lán í allt að 24 mánuði.  Maður mundi nú þiggja það í dag.

 

Hlutabref

 


Umboðsmaður hunsaður

Ég sá í hádeginu hluta af umræðum á Alþingi um skýrslu Umboðsmanns Alþingis.  Ég hef ekki lesið skýrsluna, þannig að ég hef upplýsingarnar ekki frá fyrstu hendi, en það kom fram að stjórnvöld gera mjög mikið af því að hunsa tilmæli umboðsmanns.  Og ekki bara tilmæli umboðsmanns, heldur annarra eftirlitsstofnana og laga sem þau hafa sjálf staðið að að semja, skrifa umsagnir um, flytja á Alþingi og samþykkja.  (Auðvitað á það að heita að löggjafarvaldið sé ábyrgt fyrir þessu, en við vitum alveg hvernig þessu er háttað.)  Stjórnsýslulög og upplýsingalög eru sérstaklega tekin fyrir í þessari nýjustu skýrslu umboðsmanns og sér hann ástæðu til að benda mönnum á að þau skuli virða!  Vá!!

Það virðist á þessu, að margur lagabókstafurinn sé bara í orði en ekki á borði.  Ég spyr:  Til hvers erum við að hafa lög sem ekki er farið eftir?  Til hvers er verið að stofna til embættis Umboðsmanns Alþingis, ef stjórnvöld telja sig ekki þurfa að fara eftir úrskurðum hans og tilmælum?  Til hvers erum við yfirhöfuð að hafa eftirlitsstofnanir, ef menn telja sig ekki þurfa að hlíta ákvörðunum þeirra og úrskurðum?  Umboðsmaður Alþingis, Persónuvernd, Póst- og fjarskiptastofnun, Fjármálaeftirlit, Samkeppniseftirlit og hvað þeir nú heita þessir eftirlitsaðilar leggja sig virkilega fram að koma með vandaða úrskurði og ákvarðanir sem eiga að vera stjórnvöldum, fyrirtækjum og einstaklingum til leiðbeiningar um hvernig eigi að standa að hlutunum.  Stundum eru þetta bein fyrirmæli, en þá hefur oftast verið fullreynt að hin leiðin gekk ekki. 

Þrátt fyrir þetta halda menn áfram sínum gölluðu starfsháttum.  Síðast í gærkvöldi fékk ég sölusímtal, þar sem viðkomandi aðili var að brjóta gegn ákvörðun einnar af þessum stofnunum.  Það hefði verið skiljanlegt, ef ákvörðunin hefði verið vegna starfshátta einhvers annars fyrirtækis, en svo var ekki.  Það var bara eins og fólkinu í markaðsdeildinni hefði ekki verið gerð grein fyrir því að það hafði fengið skömm í hattinn.  Eða að menn telji sig ekki þurfa að athuga hvort símanúmer séu x-merkt vegna þess að þau séu ekki x-merkt á þeirra lista.  Þetta er kannski léttvægt, en endurspeglar samt virðingarleysi fyrir þessum eftirlitsaðilum.  Sá sem fengið hefur á sig úrskurð getur ekki borið fyrir sig að honum finnist úrskurðurinn vitlaus, erfiður í framkvæmd, gleymsku, þekkingarleysi o.s.frv.  Vilji hann ekki una úrskurðinum, þá er það gert með því að kæra hann til æðra stjórnvalds eða fara með hann fyrir dómstóla.

Vandamálið við flesta af þessum eftirlitsaðilum er úrræðaleysi þeirra, ef ekki er farið að tilmælum þeirra.  Fjármálaeftirlitið virðist eitt hafa alvöru tól til að beita.

En aftur að Umboðsmanni Alþingis.  Í umræðunni á Alþingi í dag, kom fram vilji margra þingmanna til að styrkja embættið og vil ég hvetja fjárlaganefnd til að gera það.  Það er virkileg þörf að skoða stjórnkerfið, lög og reglur með þeim gleraugum sem Umboðsmaður Alþingis hefur.  Fyrir utan það, að umboðsmaðurinn er málsvari okkar og í gegnum hann getum við m.a. leitað réttar okkar.


Í minningu Silla

Hún móðir mín hringdi í mig áðan og sagði mér að hann Silli á Húsavík væri dáinn.  Hann lést í morgun á sjúkrahúsinu á Húsavík.

Sigurður Pétur Björnsson fæddist 1. nóvember 1917 og varð þar með 90 ára fyrir bara nokkrum dögum.  Ég er búinn að þekkja hann alla mína ævi eða eigum við að segja að hann hafi þekkt mig frá fæðingu.  Það var alltaf gaman, þegar hann kom í heimsókn, enda maðurinn kominn langt að eða alla leið frá Húsavík.  Það var ekki að ósekju að sagt er að fjarlægðin geri fjöllin blá og langt til Húsavíkur, eins og ég sá einhvern tímann málað á gamlan Volswagen rúgbrauð.

Ég man eftir ferðum til Húsavíkur til að heimsækja Silla frá þeim tíma er ég var ennþá það lítill að ég sofnaði auðveldlega í stuttum bíltúr.  Í einum slíkum ókum við eftir Garðarsbrautinni í norður og áleiðis út úr bænum.  Ég sofnaði vært og vaknaði svo þegar við ókum aftur inn í bæinn.  Ég man alveg hvað það var skrítið að til væri annar bær alveg eins og bærinn hans Silla.   Ferðirnar urðu ekki margar á þessum árum, enda ekki jafn auðvelt með ferðalög eins og síðar.  Þó var hægt að taka áætlunarflug til Húsavíkur á þessum tímum, sem er talsvert meira en hægt er að segja í dag.

Ég kynntist ekki Silla almennilega fyrr en ég gerðist dagmaður í vél á olíuskipum Skipadeildar Sambandsins á unglingsárunum og síðar þegar ég tók út skyldur mínar sem farandsölumaður fjölskyldufyrirtækisins.  Á 8 ára tímabili heimsótti ég hann a.m.k. tvisvar á sumri og fékk oftar en ekki að halla höfði í einu af herbergjunum fyrir ofan Landsbankann.  Í íbúðinni hans Silla áttum við margar góðar stundir við spjall.  Hann saumaði út, hvort það var stóll eða klukkustrengur, og við ræddum um heima og geima.  Einu sinni fékk ég meira að segja að aka um í bílnum hans góða, sem hann síðar gaf Þjóðminjasafninu.  Spjall okkar fór um víðan völl, en alltaf hafði það viðkomu í kvennamálum.  Hann vildi vita allt um mig og í staðinn þá fékk ég að vita eitt og annað um hann.  Hann afsakaði sig (í gríni) með að konan væri ekki heima, hún væri væntanleg eða hefði rétt skroppið frá.  En hann þurfti ekkert að afsaka sig með, því hann var höfðingi heim að sækja.  "Maddi Gunni, má ekki bjóða þér kex?" "Maddi Gunni, viltu mjólk?" og svo voru veitingarnar sóttar og bornar á borð.

Ég man sérstaklega eftir tveimur skiptum, þegar ég heimsótti hann.  Fyrra skiptið var á Sjómannadaginn árið 1978.  Kom upp á 4. júní, ef mig brestur ekki minni.  Ég var á Litlafellinu og sem dagmaður í vél mátti ég ekki vinna þennan dag.  Við vorum á Sauðárkróki og áttum að fara þaðan til Húsavíkur.  Mér datt í hug að gaman væri að fara á puttanum til Húsavíkur í staðinn fyrir að hanga yfir engu um borð í skipinu.  Ég fékk faraleyfi og hoppaði frá borði.  Innan við fjórum tímum síðar hringdi ég á bjöllunni hjá Silla.  Hann var að sjálfsögðu hissa á að sjá smyrjarann á tröppunum hjá sér en tók mér fagnandi.  Höfðum við báðir félagsskap hvor af öðrum á góðri Sjómannadagshátíð.  Hitt skiptið var 18. ágúst 1986.  Þetta var á 200 ára afmæli Reykjavíkurborgar.  Horfðum við á alla hátíðardagskránna í sjónvarpsholinu hans, meira að segja flugeldasýninguna í lokin.

Öll þessi skipti sem ég kom til hans brást það ekki, að hann þurfti að fara út á elliheimili að lesa fyrir gamla fólkið.  Skipti það engu máli, þó hann hafi sjálfur verið komin á eftirlaun.  Þessi óþreytandi elja hans var einkennandi fyrir hann, hvort heldur í starfi sínu hjá Landsbanka Íslands, fyrir Völsunga, sem fréttaritari Morgunblaðsins eða við skráningu leiða í kirkjugörðum.  En nú er komið að hvíldartíma manns sem hefur nýtt tíma sinn vel.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama.

En orðstír

deyr aldregi

hveim er sér góðan getur.



Marinó Gunnar Njálsson

 


FIRST LEGO keppnin

Ég fylgdist með FIRST LEGO keppninni sem fram fór í dag.  Eldri sonur minn, sem er 11 ára, var þátttakandi.  Hann hefur ásamt liðsfélögum sínum unnið baki brotnu síðust vikur við að undirbúa sig fyrir keppnina, en þeir voru í einu af þremur liðum sem Salaskóli sendi til leiks.

Það er óhætt að segja að keppnin hafi verið bráðskemmtileg.  Hugmyndaauðgin sem kom fram í útfærslum krakkanna var með ólíkindum.  Þrautirnar sem þurfti að leysa voru margar mjög flóknar og raunar það flóknar að það var eingöngu á færi þeirra allra hugmyndaríkustu að leysa sumar þeirra.   Þarna höfðu menn takmarkaðan tíma til að vinna verkið og oft varð stressið mönnum að falli.  Verkefnið fólst í því að búa til farartæki, sem átti að leysa ýmis verkefni með hjálp tölvustýringa.  Ýta, toga, safna, fella, draga hluti til og frá á borði með afmörkuðum reitum.  Stig voru ýmist gefin eða tekin eftir því sem til tókst.  Sigurvegararnir í þessum hluta keppninnar voru 3 drengir úr Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi og settu þeir m.a. mótsmet þegar þeir náðu 370 stigum í einni umferðinni.  Fyrra met átti sveit Salaskóla frá því í fyrra og var það 295 stig.

En það var ekki bara keppt í tímaþrautum.  Krakkarnir þurftu að halda dagbók um vinnu sína, skýra út fyrir dómurum hvaða hugmynd var að baki farartækjum sínum og síðan vinna rannsóknarverkefni.  Veittar voru viðurkenningar fyrir framangreinda þætti, en einnig besta skemmtiatriðið, samheldasta hópinn og síðan fékk sá hópur sem hafði lagt mest á sig líka viðurkenningu.  Mig langar að vekja athygli á tveimur af þeim hópum sem fengu viðurkenningar.

Fyrst vil ég nefna lið Korpuskóla, en af einhverjum ástæðum ákvað skólinn ekki að taka þátt í keppninni.  Þetta sætti hópur drengja sig ekki við og þeir mynduðu keppnishóp, fundu liðstjóra, skráðu sig í keppnina, greiddu þátttökugjöld og fundu sér húsnæði til að stunda æfingar og undirbúa sig fyrir keppnina.  Þetta er alveg frábært framtak og vona ég að Korpuskóli láti það ekki gerast aftur að skrá ekki lið til keppni [svo þessir drengir fái að sýna hvað í þeim býr]*.

Hitt liðið sem ég vil fjalla um er lið sonar míns, Orkugjafar frá Salaskóla, en það fékk viðurkenningu fyrir rannsóknarverkefni sitt.  Viðfangsefnið heitir Orkuviti, en það er um vita sem sér sjálfum sér fyrir raforku.  Hugmyndin kom vissulega frá einum af kennurum Salaskóla, en útfærsla og framsetning var drengjanna.  Hugmyndin gengur úr á að nota sólarorku og vindafl til að búa til rafmagn, sem ýmist er notað beint til að senda straum í peru vitans eða hlaða rafgeymi sem síðan er hægt að nota þegar hvoru tveggja fer saman að sólar nýtur ekki við og að úti er logn.  Þeir byggðu frumgerð úr Lego kubbum með spaða og sólarsellu og sýndu dómurum og áhorfendum hvernig þetta virkaði.  Til að virkni sólarsellunnar sæist betur, tengdu þeir mótorinn við spaðana, þannig að sólarsellan sneri þeim um leið og hún safnaði orku.   Fyrst var haldin glærusýning, þar sem hugmyndin var skýrð og farið í rafmagnsfræðina að baki henni.  Þá var sýnt hvernig vitinn virkaði í raun.  Strákarnir notuðu vindafl (þ.e. blésu) á spaðana og það kviknaði ljós á peru vitans.  Þá var reynt að nota ljósið í salnum til að virkja sólarselluna.  Það dugði ekki strax, en þá var þeim bent á að nota ljós skjávarpans.  Sólarsella vitans var borin upp að skjávarpanum og það kviknaði bæði ljós og spaðarnir snerust.  Frábær lausn hjá þessum hópi drengja, sem eru nemendur í 5., 6. og 7. bekk í Salaskóla.  Viðurkenning er uppreisn æru fyrir þá, þar sem þeir lentu í miklum vandræðum með farartækið sitt í keppninni og gafst ekki færi á að sýna þar hvað í þeim bjó.

Það sem var skemmtilegast við þessa keppni í dag, var ánægjan og gleðin sem skein úr andlitum allra keppenda.  Það voru allir að gera sitt besta um leið og þeir voru að sýna hugvitsamlegar lausnir sínar.  Alls tóku 18 lið þátt frá 16 skólum, en Salaskóli sendi 3 lið til keppni eins og áður sagði, þar á meðal sigurvegarana frá því fyrra, Liðið hans Jóns míns (þetta er nafnið á liðinu).  Kynjahlutföll voru drengjum í hag, en alls ekki í því mæli sem maður hefði búist við.  T.d. voru nokkur lið þar sem stúlkur voru í miklum meirihluta, þó stúlkur vantaði alfarið í önnur.

Til hamingju krakkar og liðstjórar með frábæra keppni, þið voruð öll til sóma.  Sérstakar hamingjuóskir til Ísjaka úr Hafnarskóla með von um gott gengi á Evrópumótinu í vor.

 

*Bætt við 13.11. kl. 23:30, þar sem fólk var farið að misskilja setninguna sem gagnrýni á Korpuskóla, en ekki  hvatningu, eins og hún átti að vera.


mbl.is Skapandi vísindi hjá grunnskólabörnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Já, Persónuvernd samþykkti þetta, en með trega

Fyrirsögnin er tilvísun í síðasta blogg mitt, þar sem ég bloggaði við frétt um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vátryggingasamninga. 

Mér skilst að textinn sem kemur fram í frumvarpinu, sé einhvers konar sátt í málinu (sjá umsögn Persónuverndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vátryggingasamninga, nr. 30/2004 ).  Í umsögn Persónuverndar segir m.a.:

Skýrt skal tekið fram að Persónuvernd telur að meginstefnu varhugavert að heimila aðilum utan heilbrigðiskerfisins umfangsmikla skráningu eða aðra meðferð heilsufarsupplýsinga án þess að til komi upplýst samþykki hlutaðeigandi einstaklinga. Þá skal því haldið til haga að, eftir því sem Persónuvernd best veit, er sjaldgæft í framkvæmd að upplýsingar um heilsufar skyldmenna vátryggingartaka eða vátryggðs leiði til þess að tryggingafélög óski eftir frekari rannsókn á heilsufari umsækjanda á því tímamarki sem hann sækir um vátryggingu. Þvert á móti eru upplýsingarnar í reynd notaðar til þess rökstyðja hærri iðgjöld, setningu sérskilmála eða synjun um vátryggingu vegna þess að tryggingafélög telja líklegt að umsækjandi þrói með sér eða fái tiltekinn sjúkdóm í framtíðinni. Persónuvernd er því enn þeirrar skoðunar að öflun upplýsinga um heilsufar skyldmenna geti eðli málsins samkvæmt ekki falið í sér annað en könnun á því [að] hætta sé á arfgengum sjúkdómi, þrátt fyrir að ekki sé gengið svo langt að láta umsækjendur gangast undir erfðarannsókn í því skyni.

Í því samhengi sem hér um ræðir hefur verið bent á að afli tryggingafélögin ekki upplýsinga um heilsufar skyldmenna vátryggingartaka og vátryggðra geti ákvæði í endurtryggingarsamningum hugsanlega leitt til þess að iðgjöld hækki verulega og að það dragi úr framboði á persónutryggingum hérlendis. Hins vegar bendir Persónuvernd á að út frá sjónarmiðum um persónuvernd og friðhelgi einkalífs er æskilegra að þessara upplýsinga sé ekki aflað. Persónuvernd bendir einnig á að engin gögn hafa verið lögð fram sem sýna fram á hversu miklar afleiðingar það kynna að hafa í för með sér fyrir vátryggingamarkaðinn að afla ekki upplýsinga um heilsufar skyldmenna, s.s. um hversu mikið iðgjöld myndu hækka, en slík matsgerð liggur hugsanlega fyrir hjá hagsmunaaðilum.

Þrátt fyrir þennan fyrirvara og í reynd andstöðu Persónuverndar, þá leggur stofnunin til að þessi öflun persónuupplýsinganna verði leyfð, vegna kröfu frá endurtryggjendum.  Við þetta þarf að stoppa.  Í fyrsta lagi, þá falla nær allir endurtryggjendur íslenskra vátryggingafélaga undir tilskipun Evrópusambandsins 95/46/EC (directive 95/46/EC of the European Parliament and of the Council of 24 October 1995 on the protection of individuals with regard to the processing of personal data and on the free movement of such data eða Data Protection Law).  Krafa frá þessum aðilum um þær upplýsingar sem hér um ræðir er því augljóslega í andstöðu við þessa tilskipun.  Það eru því ekki haldgóð rök, að vegna þess að aðrir vilji að maður fari á svig við lög, þá eigi maður að fara á svig við lög.  Lögin voru sett til að vernda friðhelgi einkalífsins og þau eiga þá að verka sem skjöldur á friðhelgi einkalífsins.  Ef lögin geta ekki verið þessi skjöldur, þá er alveg eins gott að afnema þau.  Það gengur ekki að sumir eigi að beygja sig aftur á bak og áfram til að uppfylla kröfur laganna meðan stór erlend endurtryggingafélög geta valtað yfir þau eins og ómerkilegan pappírssnepil.  Sú upplýsingasöfnun sem endurtryggjendurnir fara fram á er samkvæmt íslenskum lögum óheimil nema fyrir liggi upplýst samþykki.  Hvernig getur Persónuvernd þá fallist á eitthvað annað en að upplýst samþykki liggi til grundvallar upplýsingagjöfinni? Hér átti Persónuvernd að spyrna við fótum og neita að fallast á þá málamiðlun sem gerð var.  Það góða er að stofnunin hefur ennþá tækifæri til að endurskoða afstöðu sína og senda nýtt álit til þeirrar nefndar sem málið fer til.

Í öðru lagi, þá vantar allar upplýsingar um það hvernig þessar upplýsingar eru notaðar og hvort þau áhættustýringarlíkön sem liggja að baki séu studd einhverjum vísindalegum rökum eða (eins og Persónuvernd segir) hér er eingöngu um yfirvarp að ræða til að félögin geti krafist hærri iðgjalda.  Kannski að Fjármálaeftirlitið geti komið að málinu og krafist nánari skýringa á þeim tryggingafræðilegu útreikningum sem liggja að baki.  Hafa þessi félög innan vébanda sinna lækna sem hafa sérhæft sig í erfðafræði sjúkdóma?  Eru tölfræðiupplýsingar félaganna byggðar á reynslu miðað við núverandi styrk, tækni og getu heilbrigðiskerfisins?  Hafa verið færð haldgóð rök fyrir hverri einustu ákvörðun um hærri iðgjöld og skertar bætur eða er bara flett upp í töflu til að finna skerðingarstuðli?  Það gengur ekki að annar aðilinn eigi að upplýsa um sínar viðkvæmustu upplýsingar, meðan hinn aðilinn felur sig bak við erlendan endurtryggjanda.  Af hverju fjalla lagabreytingarnar ekki um upplýsingaskyldu vátryggingafélagsins til tryggingatakans?

Í þriðja lagi má spyrja (eins og ég geri í fyrra bloggi mínu um þetta efni), hver er munurinn á því að veita blóðsýni sem hægt er að vinna úr erfðaupplýsinga og að greina frá sjúkrasögu fjölskyldumeðlima?  Við skulum hafa í huga, að þó svo að sífellt finnist fleiri og fleiri gen, sem samkvæmt erfðarannsóknum eru talin auka líkurnar á því að einstaklingur fái tiltekinn sjúkdóm, þá virðist stökkbreyting í geninu oftast eingöngu auka líkur lítillega. Erfðaupplýsingar, hvort sem þær eru fengnar með blóðsýni eða munnmælum, gefa þess vegna bara vísbendingu en eru almennt ekki óyggjandi.  Þekking á erfðum sjúkdóma er enn sem komið er frekar takmörkuð, þ.e. menn geta almennt ekki sagt óyggjandi að hafi foreldri fengið Alzheimer eða Parkinsonsjúkdóminn eða MS o.s.frv. að afkvæmið muni einnig einn dag fá viðkomandi sjúkdóm.  Sjúkdómssaga náskyldra veitir því ekki öruggar upplýsingar um að umsækjandi um tryggingu muni einnig fá einhvern af þeim sjúkdómum sem hrjá aðra fjölskyldumeðlimi.  Tryggingafélögin virðast aftur á móti líta svo á að komi einhver sjúkdómur fyrir hjá nánustu ættingjum, þá sé það góð og gild ástæða fyrir því að hafna umsókn, hækka iðgjald eða lækka bótafjárhæð.  Ef bara þessi röksemdarfærsla tryggingafélaganna héldi vatni, þá væri hægt búa til frábæran þekkingargrunn fyrir heilbrigðisstarfsfólk.  Málið er bara að það er ekkert sem bendir til að rökin haldi.  Ég held raunar að árulesarar, lithimnulesarar og aðrir með viðlíka náðargáfu geti sagt tryggingafélögunum mun nákvæmar frá líkamsástandi og heilsufari tryggingatakans en sjúkdómssaga nákominna ættingja gerir.  Bestu upplýsingarnar fást samt með ítarlegri læknisskoðun.

Ég vil taka það fram, svo það fari ekkert á milli mála, að ég treysti vátryggingafélögunum fullkomlega til að varðveita á öruggan máta allar trúnaðarupplýsingar, sem þeim er treyst fyrir.  Málið snýst ekki um það.  Málið snýst um rétt (eða eigum við að segja réttleysi) vátryggingatakans til að veita þriðja aðila upplýsingar sem leynt eiga að fara og njóta verndar laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.  Málið snýst um rétt/réttleysi þriðja aðilans að óska eftir upplýsingum um einstaklinga sem ekki eru aðilar að máli sem er til meðferðar.  Málið snýst um rétt sjúklings að eingöngu þeir sem hann annast hafi vitneskju um sjúkdóm hans nema hann sjálfur ákveði að um sjúkleika hans verði fjallað á öðrum vettvangi.  Málið snýst um að viðkvæmar persónuupplýsingar eru verndaðar af persónuverndarlögum og önnur lög eiga ekki að heimila skerðingu á þeirri vernd nema mjög brýnir hagsmunir liggi því til grundvallar.  Áhættumat vegna persónutrygginga eru ekki slíkir hagsmunir.  Krafa erlendra endurtryggingafélaga, sem hóta að hækka annars iðgjöld, eru ekki slíkir hagsmunir.

Ég skora á þingmenn að standa vörð um friðhelgi einkalífsins í samræmi við gildandi lög í landinu.  Ég skora á þá að hafna þeirri kröfu erlendra endurtryggingafélaga, að íslenskir neytendur þurfi að láta utanaðkomandi aðilum í té viðkvæmar persónuupplýsingar um sína nánustu.  Krafa sem er skýlaust brot á tilskipun Evrópusambandsins nr. 95/46/EC og lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.


Samþykkir Persónuvernd þetta?

Það er mótsögn í þessu frumvarpi ráðherra.  Tryggingafélögum er óheimilt að nýta sér rannsóknargögn um erfðafræði umsækjenda um persónutrygginga, en mega nota óábyggileg munnleg gögn um hugsanlega erfðafræði umsækjanda!  Hvað eru upplýsingar um heilsufar systkina og foreldra annað en aðferð til að finna út hugsanlega erfðasjúkradóma?  Ég sé ekki muninn.

Viðskiptaráðherra ætlar að leyfa tryggingarfélögum að afla viðkvæmra persónugreinanlegra heilsufarsupplýsinga um aðila sem er hugsanlega félaginu alveg óviðkomandi.  Það skal gert með því að hlusta á munnmæli og slúður. 

Ég spyr: Hef ég leyfi, samkvæmt persónuverndarlögum og lögum um réttindi sjúklinga, að veita þriðja aðila upplýsingar um heilsufar minna nánustu?  Nei, ég hef það ekki og auk þess eru alls ekki víst að ég hafi fullnægjandi upplýsingar um heilsufar minna nánustu.  Til þess að ég megi veita upplýsingarnar, verð ég að afla upplýsts samþykkis viðkomandi.  Raunar mega tryggingarfélögin ekki taka við slíkum upplýsingum nema tilkynna viðkomandi það og gefa honum/henni kost á að mótmæla tilvist þeirra, fá upplýsingunum eytt eða þær leiðréttar.  Af hverju eiga vátryggingarfélögin að fá slíkar persónugreinanlegar upplýsingar hendur, þegar þjóðin hafnaði því að deCODE fengi þær ópersónugreinanlegar í gagnagrunni á heilbrigðissviði?

Ég bý að því að hafa unnið hjá Íslenskri erfðagreiningu og vera auk þess sérfræðingur í stjórnun upplýsingaöryggis meðal annars á sviði persónuverndar.  Ég tel mig því vita nokkuð hvað ég er að segja.  Ég fullyrði að það standist ekki lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga að vátryggingarfélag geti safnað óbeinum erfðafræði upplýsingum um hugsanlega vátryggingataka með því að óska eftir því að umsækjandi um persónutryggingu láti félaginu í té ónákvæmar, viðkvæmar, persónugreinanlegar persónuupplýsingar um sína nánustu.  Persónuverndarlögin voru sett m.a. með það í huga að vernda slíkar trúnaðarupplýsingar.  Það getur vel verið að þetta hafi verið tíðkað í gegnum tíðina, en nú er tíðin önnur.  Vátryggingafélög hafa ýmis önnur úrræði til að kanna heilsufar umsækjanda og er ítarleg læknisskoðun mun heppilegri aðferð en það sem lagt er til í frumvarpi ráðherra.  Niðurstaða læknisskoðunarinnar á að duga vátryggingarfélaginu til að taka sína ákvörðun.

Með fullri virðingu fyrir því að tryggingarfélög vilji lágmarka áhættu sína, þá er það ekki eðlilegt að félögin geti hafnað öllum sem eru í áhættuhópi og tryggt bara þá sem þau þurfa litlar áhyggjur að hafa af.  Þess fyrir utan, get ég sem tryggingartaki ekki verið öruggur um að vátryggingarfélagið hafi hæfan lækni á sínum vegum sem kann að lesa úr þeim upplýsingum sem veittar eru um mína nánustu?  Það er flókið mál og ekki á færi almennra heimilislækna að ákvarða hvort tiltekinn sjúkdómur erfist.  Það eru raunar ekki til neinar sannanir að um tengsl erfða og velflestra sjúkdóma.  Það eru bara til vísbendingar byggðar á líkindum.  Í aðeins örfáum tilfellum eru til haldgóðar upplýsingar um að hafi einhver nákominn einstaklingi tiltekinn sjúkdóm, þá séu mjög miklar líkur á því að viðkomandi einstaklingur muni einnig fá þennan sjúkdóm.  Tengsl erfða og sjúkdóma eru flókin.  Oft eru það umhverfisþættir sem virka sem vaki fyrir tiltekinn sjúkdóm.  MS uppgötvast t.d. oft þegar kona er að eiga barn.  Fyrir aðrar konur er heilsa þeirra aldrei betri en á meðgöngu og meðan brjóstagjöf stendur.  Sjúkdómurinn leggst nær aldrei á systkin, en oft á systkinabörn.  Sjúkdómurinn virðist hoppa yfir ættliði, þannig að afinn og amman hafa kannski haft sjúkdóminn og svo barnabarnið.  Nefnið mér einn lækni tryggingarfélags sem þekkir allar kenjar MS-sjúkdómsins, hvað þá allra hinna sjúkdómanna.  Beinar erfðafræðiupplýsingar gætu hugsanlega varpað einhverju ljósi á líkur fyrir sjúkdómi, en óbeinar í formi viðkvæmra persónugreinanlegra munnmæla, sem mjög líklega eru mjög ónákvæm, gera það ekki.

PS.  Ég er EKKI að mæla með því að vátryggingafélög fái að nota gögn byggð á erfðafræðirannsókn á erfðaefni umsækjanda.  Ítarleg læknisrannsókn á að vera fullnægjandi.


mbl.is Heimild tryggingafélaga til að afla heilsufarsupplýsinga takmörkuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menn verða að gæta hvers þeir óska

Ég man eftir því fyrir nokkuð mörgum árum, að þá var takmörkun á fjölda útlendinga sem máttu vera í liði í Evrópumótum félagsliða.  Þrír útlendingar máttu vera inni á vellinum í einu.  Mig minnir að það hafi gerst á dögum "stóra" Ron Atkinson sem framkvæmdarstjóra Manchester United, að búið var að stilla upp liði og skrifa leikskýrslu, þegar dómari leiksins benti honum vinsamlega á að hann mætti bara nota takmarkaðan fjölda útlendinga.  Stjórinn kváði, þar sem hann var með einn Íra og svo alla hina Breta.  Þá var honum bent á að allir utan Englands væru útlendingar.  Liverpool lenti í svipuðu og þurftu að grafa eftir leikmönnum ofan í varalið sitt til að geta stillt upp löglegu liði, enda skartaði liðið þá upp á leikmenn eins og Kenny Daglish, Graham Souness, Alan Hansen, Jan Mölby, Bruce Grobular til að nefna fáa.  Ég held að mönnum á Englandi hætti dálítið til að telja leikmenn frá Wales, Skotlandi og Norður-Írland gjaldgenga sem heimamenn í svona tilfellum.  Í frægum leik lenti þjálfari Stuttgart í því að skipta svona "útlendingi" inn á fyrir "leyfilegan" leikmann og í stutta stund voru fjórir "útlendingar" inni á vellinum.  Enginn tók eftir þessu nema hann, en hann benti UEFA á þetta og Stuttgart var dæmdur leikurinn tapaður 0:3.

Í leik ManU við Arsenal á laugardaginn stillti United upp fjórum Englendingum í byrjunarliði og einn var á bekknum.  Það er vissulega mun meira en Arsenal getur státað af, en SAF er vill greinilega með þessu koma höggi á Arsenal. Ef þessi regla hefði verið við líði undanfarin 5 ár eða svo, þá hefði Wenger örugglega haldið í Steve Sidwell, David Bentley, Matt Upson, Jereme Pennant og Steven Taylor bara til að nefna nokkra enska leikmenn sem voru á mála hjá Arsenal, en voru of óþolinmóðir til að bíða eftir að röðin kæmi að þeim. 

Svo er spurningin hvort þessi regla hefur áhrif á leikmenn sem fengið hafa evrópskt vegabréf, eftir að hafa spilað 3 ár á Spáni.  Eru þeir þá Spánverjar?  Svona reglu má ekki setja, nema menn skilji nákvæmlega hvað í henni felst og hvernig hún er útfærð.

Ég held að þessi regla, ef hún verður tekin upp, eigi eftir að reynast okkur Íslendingum dýrkeypt.  Verði hún að veruleika munu möguleikar íslenskra leikmanna á að spila með erlendum félagsliðum takmarkast verulega.  Þeir munu vissulega geta æft með liðunum, en aðeins þeir allra bestu munu fá tækifæri til að spila eða hlutskipti þeirra verður að spila í lakari deildum eða með lakari liðum.  Hugsanlega mun þetta verða til þess að íslenska deildin mun styrkjast, en landslið okkar mun veikjast.  Ég skora því á KSÍ að beita sér gegn þessum hugmyndum FIFA og UEFA. 


mbl.is Ferguson samþykkur kvóta á erlenda leikmenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af samræmdum prófum 9 ára barna

Það hafa fjölmargir komið að máli við mig og beðið mig um að halda áfram þessari umræðu sem ég hóf um daginn, um samræmd próf 8 - 9 ára barna (hér eftir talað um 9 ára börn).  Þetta hafa að mestu verið kennarar og foreldrar barnanna sem þurftu að ganga í gegnum þessi gjörsamlega tilgangslausu próf, en líka aðrir kennarar og síðan bara fólk sem ég hef hitt. 

Allir eru sammála um tilgangsleysi prófanna sem samræmda mælingu á stöðu/getu barnanna.  Það er mál manna, að það eigi ekki að vera í verkahring opinberrar stofnunar að mæla og meta miðlægt getu svona ungra barna.  Það eigi heldur ekki að reyna á þessum aldri að ákveða áherslur í kennslu, fyrir utan það að margt í efni prófanna sé hreint og beint út í hött.  Lagt sé fyrir börnin efni sem eigi sér enga skírskotun til veruleika þeirra.  Dæmi um þetta eru endalausir lestrarkaflar um veruleika afa þeirra og ömmu.  Sveitasögur, strætóferðir, mjólkurbúðir o.s.frv. eiga ekkert erindi inn í raunveruleika 9 ára barna árið 2007.  Ég veit ekki hvaða fortíðarhyggjurómantík þetta á að vera.  Sama er í stærðfræðinni.  Hvaða 9 ára barn getur t.d. lesið út úr leiðaráætlun strætó?  Ég veit ekki um neitt, vegna þess að jaðrar við að vera barnaverndarmál, ef 9 ára barn er sent eitt í strætó.  Þetta var allt öðruvísi fyrir 30 - 40 árum, þegar veröldin var miklu öruggari og fjarlægðir minni.

En efni prófanna er ekki það sem fer mest í taugarnar á fólki.  Það að prófin séu yfirhöfuð til, er það sem angrar fólk mest.  Námsmatsstofnun gerir tilraun til að réttlæta prófin í bréfi til foreldranna.  En það tekst ákaflega illa.  Skoðum fyrst hluta af skilgreiningu á samræmdum prófum sem birt er á vef Námsmatsstofnunar:

Samræmdum prófum er ætlað að veita nemendum, foreldrum/forráðamönnum og kennurum upplýsingar um stöðu nemenda í viðkomandi námsgreinum auk þess sem því er ætlað ákveðið hlutverk við mat á skólakerfinu. Niðurstöður samræmdra prófa byggja á því að meta stöðu hvers nemanda með samanburði við jafnaldra hans á landinu öllu. Niðurstöðurnar gefa því kost á að meta stöðu nemenda í öðru samhengi en námsmat innan skóla gerir. Samræmd próf veita nemendum, foreldrum og kennurum mikilvægar upplýsingar um stöðu nemenda.

Í bréfi til foreldra kemur svo eftirfarandi fram:

Markmið með fyrirlögn prófanna eru aðallega tvíþætt. Í fyrsta lagi að gefa upplýsingar um að hvaða marki nemendur hafa náð grundvallarkunnáttu og færni sem frekara nám byggir á. Í öðru lagi að vera foreldrum, kennurum og skólayfirvöldum til leiðbeiningar um námsstöðu nemenda. Með því að leggja samræmd könnunarpróf fyrir að hausti, gefast tækifæri til að nýta niðurstöður þeirra við skipulag náms og kennslu.

Hvað af þessu er hjálplegt fyrir foreldra eða kennara 9 ára barns?  Er það hjálplegt fyrir þessa aðila að 9 ára barn sé öðrum 9 ára börnum hæfari eða lakari að leggja saman eða skilja sveitarstörf eins og þau voru unnin árið 1930 eða átta sig á hvernig leiðartafla strætó virkar?  Hefur Námsmatsstofnun eða öllu heldur menntamálaráðuneytið ekki átta sig á því að það eina sem skiptir máli á þessum aldri og alveg fram að samkeppnisprófum á efri skólastigum er að hlúð sé að hverjum einstaklingi eins og hann er, ýtt undir styrkleika hans og honum veittur stuðningur þar sem þörf er?  Þetta heitir einstaklingsmiðað nám.

Skoðum betur það sem kemur fram í bréfinu til foreldra.  Prófin eiga "að gefa upplýsingar um að hvaða marki nemendur hafa náð grundvallarkunnáttu og færni sem frekara nám byggir á." Hér vantar skilgreiningu.  Hvaða kunnáttu á barn sem fætt er í janúar 1998 að hafa náð og hvaða kunnáttu á barn sem fætt er í desember 1998 að hafa náð?  Það er ósanngjarnt að ætlast til þess að bæði hafi náð sömu kunnáttu.  Það munar 12% á aldri þessara barna.  Er einkunnin leiðrétt miðað við aldur barnsins.  Er sanngjarnt að gera sömu kunnáttu til 18 ára einstaklings og 16 ára einstaklings í segjum ensku?  Það er líka 12% aldursmunur á þeim.  Nei, það er ekki sanngjarnt að gera sömu kröfur.  Hvaða gagn er að því að bera saman stöðu 9 ára barns við jafnaldra þess á landinu?  Nákvæmlega ekkert.

"Að vera foreldrum, kennurum og skólayfirvöldum til leiðbeiningar um námsstöðu nemenda".  Hvað er það í samræmdu prófi sem veitir þessar upplýsingar umfram það sem komið hefur fram í samskiptum kennara og nemanda og foreldra og nemanda.  Nákvæmlega ekki neitt.  Þetta markmið er móðgun við alla kennara.  Þetta er gróf aðför að faglegum heiðri hvers einasta kennara.  Hvor aðilinn er færari um að meta stöðu nemandans: kennarinn sem er með nemandanum í kennslustund á hverjum degi eða samræmt próf sem hefur enga möguleika á að skynja nálgun nemandans að lausn verkefna heldur getur í besta falli metið færni nemandans til að taka próf.  Ég verð að viðurkenna að ég treysti kennaranum til verksins, en ekki prófinu.

Ég get alveg skilið, að höfð séu samkeppnispróf til að komast inn í háskóla þegar um er að ræða að viðkomandi skóli getur tekið við takmörkuðum fjölda nemenda.  Ég skil aftur ekki af hverju er verið að draga grunnskólanemendur í dilka og hleypa bara þeim vænstu inn í "fínu" framhaldsskólana.  Kannski einhver af skólameisturum þeirra geti útskýrt það.  Fyrirgefið, þeir eru víst rektorar.


Af hverju fær þetta ekki umfjöllun?

Ein og hálf milljón manna hafa þurft að flýja heimilin sín.  Talið er að 300.000 manns hýrist á húsþökum og annars staðar sem fólk hefur getað flúið undan vatnavöxtum.  Og hvaða umfjöllun fær þetta í íslenskum fjölmiðlum.  10 - 15 línur af texta.  Fyrir ári urðu minni flóð í borg við aðra strönd Mexikóflóa.  Þaðan voru beinar útsendingar í fréttatímum, endalausar umfjallanir og sendar hjálparsveitir.  100% af uppskeru héraðsins sem um ræðir er ónýt.

Sjá nánar frétt á vef BBC http://news.bbc.co.uk/2/hi/americas/7074271.stm 


mbl.is Mikil flóð í Mexíkó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 81
  • Sl. viku: 275
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband