Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Kristilegt siðgæði

Kristilegt siðgæði er nú allt í einu orðið að bitbeini vegna þess að í frumvarpi að nýjum/breytingum á grunnskólalögum er gert ráð fyrir að þessi tvö orð falli út.  Það er gert á þeirri forsendu að taka eigi tillit til breytinga í þjóðfélaginu.  Í staðinn eiga að koma nokkur orð sem bæta eiga upp inntak þess siðgæðis sem við köllum kristilegt.

Ég verð að viðurkenna að ég hef lítið lesið af því sem ritað hefur verið um þetta efni á öðrum bloggþráðum og því getur verið að einhver hafi sagt áður það sem ég ætla að segja.

1.  Kristilegt siðgæði hefur í sjálfu sér ekkert með trú að gera.  Það er safn skynsamlegra atriða sem svo vill til að haft er eftir Kristi í Nýja testamentinu.  Þessi atriði eru vissulega hluti kristinnar trúar, en eru ekki trúin sjálf, þar sem hún gengur út á tilganginn með fæðingu, lífi og dauða Krists.  Undir kristilega siðgæði fellur t.d. bara sumt af því sem Kristur sagði, en mjög margt af því sem hann gerði.

2.  Öll þau atriða, sem teljast til kristilegs siðgæðis, koma fram í öðrum siðferðisboðskap, svo sem Bókinni um veginn, Hávamálum, grískri heimspeki, kenningum Búdda, kenningum spámannsins (Íslam), Bhagavad Gita, Vedabókunum, kenningum Tíbetans og svona mætti lengi telja.  Vissulega koma þau ekki í heilu lagi fyrir í neinu ofangreiddra rita, en í þeim koma líka ýmis atriði sem gætu hæglega talist til kristilegs siðgæði án þess að falla undir texta guðspjallanna.

3.  Kristilegt siðgæði er það siðgæði sem við byggjum lög þessa lands á og raunar þjóðfélagið í heild.  Við viljum halda í þetta siðgæði, þó svo að menn kalli sig húmanista, siðleysingja, ásatrúar, búddista, íslamista, kristna eða hvað það nú er, vegna þess að grunnur kristins siðgæðis er virðing.  Gullna reglna, eins og hún er nefnd, (það sem þér viljið að mennirnir gjöri yður, skulið þér og þeim gjöra) er grunnur kristilegs siðgæðis, en ekki bara kristilegs siðgæðis heldur siðgæðis flestra trúarbragða og menningarheima vegna þess að hún er nokkurn veginn allt sem segja þarf.  Í henni kemur fram krafa um virðingu, umburðarlyndi, tillitssemi, frið og næði, tækifæri til vaxtar, menntunar, mannsæmandi lífs, frelsi til athafna og tjáningar svo fremi sem það meiði ekki, líf án ofbeldis, þvingana og yfirgangs, mannréttindi o.s.frv.

4.  Kristilegt siðgæði er miklu meira en það sem á að koma í staðinn í grunnskólalögin.

5.  Kristilegt siðgæði er engin ógn við "annað" siðgæði, en með orðanotkuninni fáum við tilvísun í hvað er átt við.  Kristilegt siðgæði útilokar ekki aðrar siðareglur, þó þær séu andstæðar inntaki kristilegs siðgæðis, þar sem einn af hornsteinum kristilegs siðgæðis er umburðarlyndi.

6.  Kristilegt siðgæði er ekki ógn við önnur trúarbrögð en kristni eða trúleysi, vegna þess að það mismunar ekki fólki.  Því er öfugt farið með kristna trú, vegna þess að hún stundar trúboð sem byggir á því að ein trú sé annarri betri.

Það er sorglegt að tilraun til pólitískra rétthugsunar sé farin að breyta grunngildum samfélagsins.  Samfélags sem byggst hefur á þessum grunngildum, þó vissulega hafi ekki alltaf verið eftir þeim farið.

 


Rafræn skilríki opna dyr að nýjum tímum

Þau eru loksins að verða að veruleika rafrænu skilríkin fyrir almenning.  Rúm 7 ár eru síðan að vinna við þetta verkefni fór í alvöru af stað.  Þá var farið af stað með hugmynd sem gekk út á samstarf hins opinbera og bankanna.  Fyrirtækið Auðkenni var stofnað í október eða nóvember 2000.  Haldin var ráðstefna um málið á vordögum 2001 og lög samþykkt á Alþingi.  Grunnurinn var lagður að kerfi sem auðveldlega hefði verið hægt að hrinda í framkvæmd haustið 2001.  Þá gerðist það, að ríkið ákvað vera ekki með.  Áhuginn dvínaði og Auðkenni missti frá sér þá tvo menn sem höfðu dregið vagninn.  Það var synd.

Ég og Þorsteinn Þorbergsson (sem þá var hjá Búnaðarbankanum, en er nú hjá Landsbankanum) fengum það verkefni að koma þessu verkefni á koppinn.  Mitt verk var að skanna markaðinn, kynna mér regluverkið og öryggismálin og vera síðan ráðgjafi við verkið.  Hlutverk Þorsteins var að vera fulltrúi bankanna í verkinu og sjá til þess að hlutirnir hreyfðust.  Innan nokkurra vikna vorum við staddir í Barcelona og komnir í samband við helstu frumkvöðla Evrópu á þessu sviði.  Þar var líka með okkur fyrsti framkvæmdarstjóri Auðkennis, Guðlaugur Sigurgeirsson, sem komið hafði frá Ratsjárstofnun.  Það var litlu til sparað, þar sem verkið átti að ganga hratt og vel fyrir sig.  Næst bættist í hópinn Birgir Már Ragnarsson, lögfræðingur, og var hópurinn orðinn virkilega flottur.  Ég sá fyrir mér að þarna væri framtíðarstarfið mitt komið, þegar fyrirtækinu væri búið að vaxa fiskur um hrygg.  Önnur ferð var farin og í henni fengum við að fara inn í herbergi, sem teljast verður eitt það mikilvægasta fyrir rafræn viðskipti í heiminum.  Ég sagði eitt, þar sem þau eru líklega þrjú í það heila í heiminum rýmin, þar sem rótarbúnaður vegna rafrænna skírteina er geymdur.

Hugmyndin sem farið var af stað með haustið 2000, var að útvíkka finnska módelið og gefa út kort sem bæði gæti virkað sem rafrænt skilríki fyrir opinbera þjónustu og notað fyrir aðgang og auðkenningu í bankaviðskiptum.  Munurinn átti þó að vera sá, að í Finnlandi sækir notandinn kortið til lögreglunnar, en hér á landi áttu bankarnir að sjá um dreifinguna.

Því miður varð ekkert úr þessu þá, þar sem ríkið ákvað að fara í samstarf við Skýrr.  Í stað rafrænna skilríkja á örgjörva var farin sú leið að gefa út stafræn skilríki fyrir rafræn samskipti og til að votta vefþjóna.  Umfang útgáfunnar var ekki nóg til að halda úti metnaðarfullri starfsemi og því endaði Auðkenni eiginlega ofan í skúffu hjá fyrirtækinu Fjölgreiðslumiðlun (FGM).  FGM er ekki beint þekkt fyrirtæki, en það sér um svo kallaða RÁS-þjónustu fyrir greiðslukortaviðskipti.

Það var alveg ljóst, að rafræn skilríki/auðkenni þyrftu að koma á einhverjum tímapunkti og því bara tímaspursmál hvenær Auðkenni risi endurskapað upp úr öskunni, eins og fuglinn Fönix forðum.  Það gerðist svo á síðasta ári með tilkomu auðkennislykla vegna vefbankaaðgangs.  Staðan var ósköp einföld.  Vefbönkum stóð ógn af tölvuþrjótum sem farnir voru að veiða notendakenni og aðgangsorð með hjálp trójuforrita og leynirása.  Litlum forritsbútum var smyglað með tölvupósti inn á tölvur notenda og þegar notendur slógu inn notendakenni og aðgangsorð sáu forritsbútarnir um að senda upplýsingarnar til eigenda sinna.  Það þurfti því bara einfalda kostnaðargreiningu til að ákvarða hvort og þá hvenær tímabært væri að taka upp auðkennislykla.

En draumurinn var að nota stafræn skilríki (digital certificate) og það var ekki gert nema að nota örgjörvakort.  Núverandi auðkennislyklar gera raunar ekkert annað en að framkalla talnaröð út frá tilteknu sæði sem er hugsanlega það sama fyrir alla lykla.  Þó það sé ekki hlaupið að því, þá er bara tímaspursmál hvenær einhverjum tekst að brjóta upp algrímið sem er notað.  Örgjörvakortin eru því næsta skref í þróuninni.  Þau byggja á tveggja laga auðkenningu/sannprófun, þ.e. með einhverju sem notandinn hefur (kortinu) og einhverju sem notandinn veit (lykiltölu/aðgangsorði).  Þetta er raunar sama og auðkennislykillinn, en nú er auðkenningin ekki einstefnuauðkenning, heldur er hægt að nota tvístefnuauðkenningu þar sem innskráningartölvan og kortið geta skipst á upplýsingum og örgjörvinn á kortinu getur sannprófað tætisummu þeirra upplýsinga sem berast frá innskráningartölvunni áður en hann sendir auðkenningargögn til tölvunnar.  Auk þess getur kortið sent frá sér tætisummur sem innskráningartölvan sannreynir.  Það verður því mun erfiðara að brjótast inn í þetta öryggisferli og komast á óheimilan hátt inn á bankareikninga.  Vissulega er notað aðgangsorð eða lykiltala, en hægt er að stilla kortin þannig, að með því að slá inn tiltekna ranga lykiltölu, þá læsist kortið og verður ónothæft.  Einnig er hægt að stilla kortin þannig, að aðgangur að t.d. vefbönkum sé eingöngu heimill frá ákveðinni tölvu nema viðbótarlykilnúmer sé notað líka.  Þar sem það númer er annað hvort notað sjaldan eða er síbreytilegt (t.d. sent í GSM síma eða fengið af auðkennislykli), þá er dregið verulega úr líkum á óheimilum aðgangi.  Næsta skref er þriggja laga auðkenningu/sannprófun, sem byggir þá á einhverju sem notandinn hefur (kortinu), einhverju sem hann veit (aðgangsorði eða lykiltölu) og einhverju sem hann er, þ.e. lífkenni (t.d. fingrafari).  Þegar er hægt að fá kort sem nema fingraför og hafa þau verið á markaðinum í a.m.k. 7 ár.

Ég spáði því í mars (sjá blogg mitt frá 1. mars Rafrænar kosningar í Eistlandi) að boðið verði upp á rafræn kosningakerfi við sveitarstjórnarkosningarnar árið 2010.  Nú er bara að sjá hvort það rætist.


Frétt um andlát samræmdra prófa stórlega ýkt

Hún virðist hafa verið röng fréttin sem birtist í fyrradag um að leggja ætti af samræmd próf.  Það á að færa þau til í skólaárinu hjá 10. bekk, en ekkert meira.  Jú, reyndar.  Nú á hugsanlega að fjölga þeim greinum sem falla undir samræmd próf með því að bæta inn list- og verkgreinum.  Og hver er tilgangurinn.  Ef marka má orð menntamálaráðherra er það til að hjálpa framhaldsskólum við að meta nemendur inn í skólana.

Það skiptir ekki mál hvað samræmd próf kallast eða hvenær þau eru haldin, þau munu alltaf stýra skólastarfi. Þau munu alltaf vera notuð til að meta hæfi nemenda til að taka próf, en ekki nema að takmörkuðu leiti hæfi nemenda til að leysa úr verkefnum, kunnáttu þeirra til sjálfstæðrar hugsunar og getu þeirra til að starfa í hóp.

Það gefur samræmdum prófum í skólakerfi, sem byggir á menntastefnu einstaklingsmiðaðrar menntunar (sbr. grunnskólalög), ekkert vægi þó einhverjir aðrir ætli að apa vitleysuna upp eftir okkur eða auka áherslu sína í sömu átt.  Samræmd próf í grunnskólum eða framhaldsskólum eru tímaskekkja.  Það skiptir engu máli, þó fjölgað er eða fækkað þeim prófum sem nemendur hafa val um að taka, framhaldsskólarnir sem geta leyft sér að velja úr umsóknum munu velja fyrst þá inn sem hafa tekið flest samræmd próf og þar með í raun gera það að skyldu að taka þau öll.

Kaldhæðnin í þessu öllu er svo, að þeim skólum sem tekið hafa inn þá nemendur sem lakast hafa staðið sig á samræmdum prófum og því þurft að "endurtaka" einstök grunnskólafög, er í reynd ekki gert kleift að sinna þessu starfi.  Frétt í fjölmiðlum um daginn, sagði frá því að nokkrir skólar hefðu þurft að gera betur grein fyrir nemendatölum sínum.  Fjárframlög til skólanna miðast af einhverjum ástæðum við fjölda sem lýkur prófum, en ekki fjölda sem mætir í tíma.  Það er staðreynd að brottfall er mest hjá þeim nemendum sem eiga erfiðast með nám og eru þess vegna ekki í fullu námi samkvæmt skilgreiningu menntamálaráðuneytisins.  Munurinn í brottfalli er því mikill á milli skóla.  Samkvæmt tölum Hagstofunnar var brottfall á skóla árinu 2002-3 sem hér segir:

Brottfall úr framhaldsskólum eftir kyni, námsári og kennsluformi 2002-2003  


AllsFullt nám
 Hlutanám
Fjöldi brottfallinna  
1. ár957493
2. ár505162
3. ár21881
4. ár7455
Ótilgreind námstaða2040
Hlutfall brottfallinna  
1. ár17,041,8
2. ár13,033,0
3. ár6,923,3
4. ár3,112,0
Ótilgreind námstaða24,30,0

41,8% nemenda, sem komu inn á fyrsta ár í framhaldsskóla og gátu eingöngu innritað sig í takmarkað fjölda eininga eða höfðu bara vilja til að innrita sig í takmarkaðan fjölda eininga, hættu námi.  Og hvaða nemendur skyldu þetta hafa verið?  Af reynslu minni frá Iðnskólanum í Reykjavík á sínum tíma, þá eru þetta upp til hópa nemendur sem "féllu" á samræmdum prófum í grunnskóla.  Mörgum af þessum nemendum var vísað frá þeim skóla, sem þá langaði helst í, og voru því teknir inn í skólana sem þurftu að gera grein fyrir nemendatölum sínum, þ.e. Iðnskólann í Reykjavík, Fjölbrautarskólann í Breiðholti, Flensborgarskólann í Hafnarfirði, Fjölbrautarskólann við Ármúla og Menntaskólann í Kópavogi.  "Fall" á samræmdum prófum heldur því áfram að elta nemendur inn í framhaldsskólana og flækir að óþörfu fyrir þeim frekara nám. 


Lítil staðfesta neytenda

Tryggvi Axelsson, forstjóri Neytendastofu, var í viðtölum í fjölmiðlum á föstudag eða laugardag, þar sem hann var m.a. að tala um litla staðfestu neytenda í þeim skilningi að fólk léti of oft alls konar vitleysu yfir sig ganga.  Það kvartaði ekki, þegar það ætti fullan rétt á að kvarta og sækti ekki rétt sinn þegar gert hefði verið á hlut þess í viðskiptum.  Ég er nú einn af þeim, sem stend nokkuð fast á mínu, en stundum verður maður bara svo hlessa á vitleysunni sem maður fær framan í sig, að maður nennir ekki að standa í stappinu.

Í gær og í dag lenti ég í tveimur slíkum atvikum, þar sem viðmælandanum var ekki við bjargandi.  Í fyrra tilfellinu voru börnin að fara í bíó.  Mjög greinilega stendur utan á miðasölunni og upp um alla veggi að miði fyrir 0 - 7 ára kosti kr. 450 og 8 - 12 ára kostar miðinn kr. 650.  Við erum með þrjú börn á þessum aldri, eitt í yngri aldursflokknum og tvö í þeim eldri.  Það hefði því mátt búast við að við hefðum þurft að greiða kr. 1.750.  Raun var önnur.  Þrír miðar kosta kr. 1.800 á þessa mynd.  Það er nefnilega tilboð á miðum á myndina sem börnin voru að fara á.  Allir greiða kr. 600.  Meðan flestir greiða minna, en á aðrar sýningar, þá greiða börn 0 - 7 ára 33% meira fyrir miðann, en venjulega.  Þegar ég benti starfsmanninum í miðasölunni, að hann væri að brjóta lög með því að rukka 150 kr. um fram auglýst verð fyrir 0 - 7 ára, þá varð hann alveg gapandi af undrun og svaraði:  ,,Nú er það.  Ég vissi það ekki."   Dyravörður skammt í burtu setti sig í stellingar, eins og ég væri einhver vandræðagemlingur.  Ég var svo hissa á viðbrögðunum, að ég ákvað að láta þetta kyrrt liggja.  Ég skil ekki hvernig kvikmyndahúsinu dettur í hug að hækka verð fyrir yngstu áhorfendurna, þó svo að verið sé að bjóða eitthvað tilboð fyrir þá sem eldri eru.  En vanþekking starfsmannsins á þeirri einföldu reglu að sé auglýst verð lægra en "kassaverð", þá gildir auglýsta verðið, þó svo að allir aðrir græði.  Ég fylgdist með miðasölunni í nokkrar mínútur og mér taldist til að kvikmyndahúsið hafi grætt 50 kr. af hverri einustu fjölskyldu sem keypti miða á þeim tíma, þrátt fyrir "tilboðið".  Ansi veglegt tilboð þar á ferð.

Hitt tilfellið kom upp í dag.  Tölvupósturinn minn virkaði ekki nema að hluta.  Ég er með þrjú netföng, eitt einka og tvö út af vinnunni. Einkanetfangið virkaði ekki.  Ástandið byrjaði upp úr kl. 2 í dag og 90 mínútum síðar var ég alveg viss um að vandamálið var ekki hjá mér.  Því hringdi ég í þjónustuverið.  ,,Vandamálið er hjá þér, ekki hjá okkur," var svarið sem ég fékk.  ,,Nei, ég er búinn að leita af mér allan grun og ástandið kom upp fyrirvaralaust eftir að allt hafði verið í lagi í allan dag og fram að þessu," sagði ég á móti.  ,,Nei, þetta er vandamál hjá þér.  Eyddu út reikningnum þínum og settu hann upp aftur."  Hvernig er hægt að tala við fólk, sem hefur engan vilja til að hlusta og alls ekki vilja til að skoða.  Viðmælandi minn hafði ekki aðgang að tölvupóstinum, hann gat ekki skoðað tengingar mínar við póstþjóninn og hafði engan vilja til að beina mér til þjónustuaðila.  Hvað er hægt að gera, þegar maður lendir á svona þjónustuvilja?  Leggja á, hringja aftur og vona að maður lendi á einstaklingi með þjónustulund næst.  Ég lét það eftir honum að eyða netfanginu og stofna það aftur í Outlook, en viti menn ekkert gerðist.  Ég gerði frekari greiningu og fann út að vandamálið var á hinum endanum.  Örugg tenging fékkst ekki við póstþjóninn, en hægt var að koma á óöruggri tengingu en það vill eldveggurinn minn ekki.  Þegar ég ætlaði að hafa samband aftur var óendanleg bið.  Allt í einu fóru fyrstu póstarnir að sleppa í gegn og loks var eins og stíflan brysti.  Ég hafði ekki gert neitt, þannig að ljóst var að vandamálið var á hinum endanum.  Tekið skal fram, að þetta er í fyrsta sinn sem fæ svona þjónustulund frá þessu fyrirtæki.  Öll önnur skipti hafa starfsmenn lagt sig í líma við að leysa vandamál og unnið verk sín fumlaust.

Það er eitthvað mikið að, þegar maður þarf liggur við að rífast við ,,þjónustuaðilann" til að fá hann til að hlusta og veita þá þjónustu sem gert er ráð fyrir að hann veiti.  Það er því bara eðlilegt, að neytendur nenni ekki að leita réttar síns.  Það er nefnilega allt of algengt að starfsfólkið sem maður lendir á, hefur ekki hundsvit á því sem það á að svara fyrir.  Það þekkir ekki grundvallarreglur um neytendarétt.  Það vill komast eins auðveldlega frá hlutunum og hægt er, en áttar sig ekki á grundvallaratriðum góðrar þjónustu.  Það skilur heldur ekki, að viðskiptavinurinn hefur val.  Það er ekki víst að hann komi aftur þar sem ekki er borin virðing fyrir honum.  Ég geri það, þegar því verður komið við.  Það eru fjölmargar verslanir á Íslandi sem ég fer aldrei inn í vegna þess að mér hefur verið sýnd óvirðing af starfsmanni.  Það merkilega er, að ég sakna þeirra ekkert.

Það eru líka dæmi um hið gagnstæða, þ.e. þar sem þjónustan kemur manni svo á óvart, að maður á ekki orð af aðdáun.  Mig langar að nefna eitt dæmi, sem samkeppnisaðili fyrirtækisins hefur notað til að reyna að koma höggi á fyrirtækið.  Þegar ToysRus opnaði, þá kom ótrúlegur fjöldi til að versla þar.  Venjulega þegar vinsælar búðir opna hér á landi, þá er ekki gert ráð fyrir nægum mannafla til að sinna viðskiptavinunum, hvað þá fylla á hillur, þegar varan er rifin út.  En þetta kunnu eigendur ToysRus.  Fenginn var mikill fjöldi starfsmanna frá verslunum fyrirtækisins á Norðurlöndum.  Vissulega töluðu þeir ekki íslensku, en þeir höfðu þekkingu á vörunni, voru röskir verka, sáu til þess að aldrei vantaði neitt og studdu íslenska starfsfélaga sína sem voru að taka sín fyrstu skref í nýju starfi.  Alveg til fyrirmyndar og varð örugglega til þess að hægt var að selja fyrir milljónirnar 70 opnunarhelgina.  Með venjulegri íslenskri opnun hefði allt verið uppselt og tómt eftir örfáa tíma og ekki verið hægt að fylla á að nýju fyrr eftir lokun.


Samræmd próf aflögð

Það er gott að sjá að ætlunin er að leggja niður samræmd próf.  Greinilegt er að þetta hefur verið í bígerð í nokkurn tíma og ber að fagna því að loksins eigi að hrinda þessu í framkvæmd. 

Ég var í fyrsta árganginum sem tók samræmd próf fyrir rúmum 30 árum.  Þá var þegar ljóst að skólastarf myndi meira og minna snúast í kringum þessi próf, þó svo að þá hafi verið rennt blint í sjóinn.  Nú hefur sem sagt 31 árgangur mátt þreyta samræmd próf 9./10. bekkjar og nokkuð margir líka samræmd próf í 4. og 7. bekk.  Margir hafa verið brennimerktir af einkunnum sínum og mátt þola að vera vísað frá af sínum hverfisskólum, vegna þess að einkunn á samræmdu prófi hefur ekki verið í samræmi við kröfur skólans.  Og hver var tilgangurinn?  Eftir á að hyggja er hann óljós, nema kannski að útvega skólum verkfæri til að forgangsraða umsóknum um skólavist.  Kannski var ætlunin að þvinga tiltekinn hóp nemenda í verknámsskólana.  Ég veit það ekki, en þau ár sem ég vann við innritun nýnema við Iðnskólann í Reykjavík, þá mátti maður horfa upp á ansi marga nemendur sem hafði verið hafnað af þeim skóla sem viðkomandi hafði sett efst á blað hjá sér.  Ástæðan var fall í einu fagi á samræmdum prófum, þrátt fyrir mjög góðar einkunnir í öðrum fögum og á skólaprófum.  Og tilgangurinn, fullkomlega óljós.  Hefði þessi sami nemandi sótt um skólavist á vorönn í stað haustannar, þá hefði hann flogið inn.

Það á svo sem eftir að koma í ljós hvort eitthvað komi í stað samræmdra prófa.  Og það á eftir að koma í ljós hvaða aðferðum skólarnir munu beita til velja og hafna nemendum.

Ég hef aldrei geta skilið hvernig hægt var að ákveða að einkunn á einum tilteknum tímapunkti ætti að hafa jafnmikil áhrif á framtíð einstaklings og einkunnir fyrir samræmd próf í lok grunnskóla gerðu.  Hugsanlega var það ekki ætlunin, en það breytir ekki niðurstöðunni.

Megi samræmdu prófin fá langa og góða hvíld.  Þeirra verður ekki saknað. 


mbl.is Samræmd próf aflögð og kennaranám lengt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

947 km = Kópavogur - Húsavík - Kópavogur

Eins og kom fram í bloggi mínu um daginn, þá lést hann Silli á Húsavík 13. nóvember sl.  Jarðaförin var sl. laugardag og því var ekki annað en að leggja land undir fót.  Ferðalagið reyndist 947 km og tók 30 tíma með gistingu í höfuðstað Norðurlands.  Þrátt fyrir að veturkonungur hafi eitthvað verið að hrista sig, þá tafði hann ferðalagið eiginlega ekki neitt og var flennifæri nær allan tímann sem við vorum á þjóðvegi nr. 1.  Það var rétt á Öxnadalsheiði og í Víkurskarði á leiðinni norður og á Holtavörðuheiði á leiðinni suður sem aðstæður kröfðust sérstakrar aðgátar.  Á móti var þjóðvegur nr. 85 úr Ljósavatnsskarði til Húsavíkur og til baka í Ljósavatnsskarðið seinfarin án þess að nokkur hætta væri á ferð.

Á ferð minni rakst ég nokkrum sinnum á bíla Vegagerðarinnar á þjóðvegi nr. 1, en á þjóðvegi nr. 85 var eins og þjónustunni sleppti.  Ég ók veg 85 fram og til baka með nokkurra tíma millibili.  Það hefði ekki verið óeðlilegt að mæta ruðningstæki á annarri hvorri leiðinni eða kannski fá það á tilfinninguna að slíkt tæki hefði farið þar um.  Því var ekki fyrir að fara, þrátt fyrir að þetta væri eini hlutinn af þeim 947 km sem ég ók frá síðari hluta föstudags fram á laugardagskvöld, sem þurfti alvöru athygli.  Hugsanlega var færðin annars staðar svona góð vegna þess að þær slóðir fengu athygli Vegagerðarinnar, en með fullri virðingu (og það kemur mínu ferðalagi ekkert við), þá er það ekki boðlegt fyrir fólk sem þarf að fara á milli þéttbýlisstaða á landsbyggðinni að þjónustan sé ekki forgangsröðuð miðað við aðstæður heldur eitthvað allt annað.  Hér fyrir nokkrum árum hefðu menn ekki kallað út tæki fyrir þær aðstæður sem voru á Öxnadalsheiði eða Holtavörðuheiði.  Það hefði einfaldlega verið gert ráð fyrir að umferðin hægði á sér til samræmis við aðstæður. 

Það getur vel verið að aðstæður á þjóðvegi nr. 85 hafi ekki þótt neitt varhugaverðar fyrir þá sem venjulega aka þá leið, en á móti hljóta þá aðstæður það sem eftir var til Akureyrar að hafa verið eins og sumarfærð.  Hvað ræður ákvörðunum um "mokstur", veit ég ekki, en mér fannst þetta einkennileg forgangsröðun.

Nú Húsavík var öðru vísi en ég á að venjast, enda í fyrsta sinn sem ég kem þangað í vetrarveðri (þó það hafi nú vart talist merkilegt vetrarveður fyrir þá sem þar búa).  Bærinn lætur alltaf jafn lítið yfir sér og fellur vel inn í landslagið.  Þar hafði merkilega lítið breyst frá því að ég kom þar síðast fyrir 12 árum eða svo, en þá kom ég reyndar fjórum sinnum á stuttum tíma, þar af tvisvar að vetrarlagi til að dæma handboltaleiki.  Það er svona ýmist í ökkla eða eyra.  Breytingarnar eru aftur meiri, ef maður fer á að giska 25 - 30 ár aftur í tímann, en þá var ekki búið að breyta aðkomunni að sunnanverðu eða gera upp gömlu húsin gengt kaupfélaginu.  Nú verður forvitnilegt að sjá hvort Húsavík verður fórnarlamb biðar eftir stóriðju (eins og gerðist á Austurlandi) eða hvort menn halda áfram að treysta á sjálfan sig og þann kraft sem hefur alltaf búið með Húsvíkingum.  Þetta er nú bara sagt með það í huga, að það liðu hátt í 30 ár frá því að fyrst var farið að ræða um stóriðju við Reyðarfjörð þar til álver Alcoa tók til starfa.  

Ég vona bara að haldið verði eins og kostur er í gömlu bæjarmyndina, því við hér sunnan heiða erum farin að uppgötva að menningarverðmætin, sem í henni felst, eru hröðum skrefum að glatast í höfuðborginni.  Miðjan í þessari gömlu bæjarmynd er kirkjan, sem er með þeim sérstökustu á landinu.  Staðsetning hennar í bænum, er einstök, en það sem gerir kirkjuna merkilegasta er að ekki er gengið inn um miðskip hennar.  Falleg kirkja á fallegum stað í fallegum bæ á einum fallegasta stað landsins.

 


Jólamót Kópavogs í fótbolta

Mig langar að vekja athygli á því að Jólamót Kópavogs í knattspyrnu, sem Breiðablik og HK standa að í sameiningu, fer fram eins og venjulega milli jóla og nýárs, þ.e. dagana 27. - 30. desember.  Keppt er í öllum yngri flokkum karla og kvenna að undanskyldum 8. flokki.  Keppt verður í Fífunni og Kórnum, þannig að allir leikir fara fram á gervigrasi.  Í  2. og 3. flokki karla og kvenna verður keppt í 11 manna bolta á heilum velli, en aðrir flokkar keppa í 7 manna bolta. 5. og 4. fl. keppa á hálfum velli (þ.e. tveir leikir samtímis), en 6. og 7. flokkur á fjórðungsvelli (þ.e. fjórir leikir samtímis).  Upplýsingar um þátttökugjöld verða veittar fljótlega á heimasíðu mótsins www.jolamot.is en upphæð þátttökugjalda verður eins og alltaf stillt í hóf. Hægt er að senda inn þátttökuskráningar með því að senda póst á skraning@jolamot.is.  Í fyrra tóku 209 lið þátt.

Dagskrá mótsins er ekki tilbúin, þar sem hún ræðst af þátttökutilkynningum, en miðað er við að elstu flokkarnir byrji og yngstu flokkarnir endi.  Því má gróflega reikna með að 2. og 3. fl. karla og kvenna leiki fimmtudaginn 27. desember. 3. flokkur fyrrihluta dags, en 2. flokkur seinni hluta; 4. flokkur leiki á föstudeginum 28. desember; 5. flokkur á laugardeginum 29. desember ásamt annað hvort 7. flokki karla eða kvenna; og 6. flokkur leiki sunnudaginn 30. desember ásamt þeim 7. flokki sem ekki leikur á laugardeginum.  Nánari upplýsingar verða birtar fljótlega eftir helgi á síðu mótsins. 

Fyrir hönd mótsstjórnar

Marinó G. Njálsson 


Það er þá 5. styrkleikaflokkur

Ekki að niðurstaðan eigi að koma á óvart, en samkvæmt þessum nýjasta lista FIFA, þá verðum við í 5. styrkleikaflokki í Evrópu, þegar dregið verður í riðla vegna undankeppni HM 2010 á sunnudaginn.  Mér sýnist sem styrkleikaflokkarnir verði sem hér segir:

1. styrkleikaflokkur:   Ítalía, Spánn, Þýskaland, Tékkland, Frakkland, Portúgal, Holland, Króatía og Grikkland

2. styrkleikaflokkur:  England, Rúmenía, Skotland, Tyrkland, Búlgaría, Rússland, Pólland, Svíþjóð og Ísrael 

3. styrkleikaflokkur:  Noregur, Úkraína, Serbía, Danmörk, Norður-Írland, Írland, Finnland, Sviss og Belgía

4. styrkleikaflokkur:  Slóvakía, Bosnía, Ungverjaland, Moldavía, Wales, Makedónía, Hvítarússland, Litháen og Kýpur

5. styrkleikaflokkur: Georgía, Albanía, Slóvenía, Lettland, ÍSLAND, Armenía, Austurríki, Kazakhstan og Azerbaijan 

6. styrkleikaflokkur: Liechtenstein, Eistland, Malta, Luxemborg, Svartfjallaland, Andorra, Færeyjar og San Marino

Það má svo sem sjá jákvæða hluti við það að vera í 5. styrkleikaflokki.  Við losnum þó a.m.k. við að fara í langferðir til Georgíu, Armeníu, Kazakhstan og Azerbaijan.


mbl.is Ísland lækkar um 10 sæti á lista FIFA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Álit mitt í 24 stundum

Í gær fékk ég upphringingu frá 24 stundum og ég beðinn um að gefa álit mitt á deCODEme arfgerðargreiningu Íslenskrar erfðagreiningar.  Ég stóðst ekki freistinguna og því birtist álit mitt í blaðinu í dag (22. nóv.).  Þar sem nokkur umræða hefur átt sér stað í bloggheimum um þessa þjónustu ÍE, þá vil ég birta þetta álit mitt hér.  Tekið skal fram að stíllinn er knappur, þar sem álitið varð að rúmast í 300 orðum.

 

Arfgerðargreiningin deCODEme

Hún er áhugaverð hugmynd Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE) að bjóða upp á arfgerðargreiningu fyrir þá sem hafa áhuga og eru til í að leggja fram litlar 60.000 kr.  Ég er raunar búinn að bíða í nokkurn tíma eftir einhverju svona, þó svo að ég hafi frekar átt von á því að þjónustunni yrði beint að heilbrigðisstofnunum.  En nú er búið að opna fyrir deCODEme þjónustuna og verður forvitnilegt að sjá hvaða viðtökur hún fær.

 Ganga þarf gætilega um þær upplýsingar sem úr arfgerðargreiningu koma og mikilvægt að um þær gildi sömu reglur og um aðrar heilsufarsupplýsingar.  Út frá persónuvernd, sé ég ekki mun á þessum upplýsingum og rannsóknarniðurstöðum fengnum á sjúkrahúsi eða heilsugæslustöð.  Blóðmæling, sem leiðir í ljós sykursýki, gefur einstaklingi líklega meiri upplýsingar um sína nánustu en arfgerðargreining sem setur einstaklinginn í áhættuhópa vegna sykursýki. Ástæðan er, að einstaklingur, sem greindur hefur verið með sykursýki, þekkir fjölmörg ytri einkenni á þeim sem eru með sykursýki, einkenni sem arfgerðargreiningin gefur engar upplýsingar um.

Gæta þarf almennrar persónuverndar við söfnun, vinnslu, varðveislu og förgun lífssýna og upplýsinga í tengslum við deCODEme.  Þetta vita forráðamenn ÍE vel eftir að hafa unnið eftir ströngum reglum Persónuverndar og Vísindasiðanefndar í á annan áratug.  Það er því eðlilegt og sjálfsagt að útbúin sé traust umgjörð um þessa vinnu, en ég get ekki séð að gera þurfi aðrar kröfur til hennar en þær sem Landspítali háskólasjúkrahús þarf að uppfylla eða eru í þeim reglum sem Persónuvernd hefur sett fyrirtækinu hingað til.

Ef stjórnvöld telja sig þurfa að setja einhverjar reglur vegna þessarar þjónustu ÍE, þá held ég að þær eigi fyrst og fremst að snúast um að gera það óheimilt að krefja einstakling um að láta arfgerðarupplýsingar af hendi.  Skiptir þá ekki máli hvort það eru yfirvöld (þ.m.t. lögregla), tryggingarfélög eða atvinnurekendur.  Þetta eru viðkvæmar persónuupplýsingar sem á að umgangast sem slíkar.

 

Höfundur er sérfræðingur í stjórnun upplýsingaöryggis og öryggi persónuupplýsinga

Marinó G. Njálsson

oryggi@internet.is

www.betriakvordun.is

 

 


Fleiri furðuleg tilvik

Það er til annað sjónarhorn á afrek Sjölands, en eins og kemur fram í fréttinni lenti hann í 22.-30. sæti eftir að hafa fengið örn á þriðju síðustu holu (og síðan skolla á næst síðustu).  Hefði hann "bara" fengið fugl, hefði hann samt komist áfram og tekið Doug McGuigan, Scott Barr, Cruz Tiago og Matthew Cort með sér, þar sem þá hefðu þeir allir verið jafnir á -2 og lent í  30. - 34. sæti.  Reglur mótins tilgreina nefnilega að 30 efstu og þeir sem eru þeim jafnir í 30. sæti komist inn á Evrópskumótaröðina.  Þannig að draumahöggið hans Sjölands felldi fjóra félaga hans!

Það voru síðan fleiri sem fóru á taugum á síðustu holunum og má þar nefna Alessandro Tadini frá Ítalíu sem tapaði tveimur höggum á síðustu fjórum holum og endaði á -1, Peter Senior fékk tvo skolla á síðustu þremur holunum til að enda á -1, Miguel Rodriguez bætti um betur með því að tapa 5 höggum á síðustu sjö holum til að enda einu höggi undir pari og Ben Mason kórónaði líklegast allt með því að tapa 6 höggum á síðustu 5 holunum og tókst með því að hrapa niður um 33 sæti miðað við endanlega röð.  Líklegast hefur veðrið eitthvað verið farið að setja strik í reikninginn undir lokin, þar sem efsti maður mótsins, Martin Wiegle frá Austurríki, tapaði einnig 6 höggum á þessum sömu 5 holum, en vann samt með tveggja högga mun!


mbl.is Aðeins 3,4% keppenda komust inn á Evrópumótaröðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 4
  • Sl. sólarhring: 122
  • Sl. viku: 687
  • Frá upphafi: 1677709

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 52
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband