Leita í fréttum mbl.is

Andrési Magnússyni svarað og fleira

Andrés Magnússon langar óskaplega til að kenna mér eitthvað í stærðfræði og hlutabréfaviðskiptum.  Hann sendir mér glósu á bloggi sem Elfur Logadóttir birti um daginn (sjá Og meira til maka manna sem stýrðu ríkinu).  Andrés er þar að svara því að mér fannst sem Gísli Marteinn hefði eitthvað fipast útreikningurinn á meintum hagnaði nokkurra nafnkunnra framsóknarmanna sem gætu við sameiningu Geysir Green Energy og Reykjavik Energy Invest eignast um 0,35% í hinu sameinaða félagi.  Gísli Marteinn taldi eins og alþjóð veit, að framsóknarmennirnir hefðu þegar hagnast um fleiri milljarða á tiltækinu.  Ég bent á í minni athugasemd, að til að svo væri þyrfti verðmæti hins sameinaða félags að hafa tífaldast á 5 dögum og vildi með því vekja athygli á kommuskekkju í útreikningum borgarfulltrúa minnihlutans.  Þessi villa hefur síðan verið endurtekin nokkuð oft (því sumir halda að ósannindi verði að sannleika ef þau eru endurtekin nógu oft) og nú vill Andrés færa Gísla Marteini rök og um leið skjóta á mig.  Athugasemd Andrésar var eftirfarandi:

Mar[i]nó ætti að hlusta betur á Björn Inga Hrafnsson, sem taldi framtíðarvirðið sennilega nærri 400 milljörðum króna.

Andrés Magnússon, 16.10.2007 kl. 21:21

Mjög líklega á þetta að vera grín hjá Andrési, en ef haft er í huga það sem hann segir á blogginu sínu undir Svo skal böl bæta, þá er honum full alvara í útúrsnúningnum.  Það er því nauðsynlegt að svara þessum útúrsnúningi.

Í fyrsta lagi, þá hefur enginn hluthafi GGE hagnast eitt eða neitt ennþá á fyrirhugaðri sameiningu GGE og REI.  Ég segi fyrirhugaðri, þar sem hún fellur um sjálft sig, ef eigendafundurinn verður dæmdur ólöglegur, hvað svo sem verður samþykkt á nýjum eigendafundi.

Í öðru lagi sagði Gísli Marteinn að Björn Ingi hefði fært framsóknarmönnunum hagnað upp á fleiri milljarða þá þegar.  Hann var ekki að tala um framtíðarhagnað.

Í þriðja lagi er framtíðarhagnaður ákaflega óviss tala og getur alveg eins endað í tapi.  Ég vona samt innilega að árangur orkuútrásarinnar verði mikill og hagnaðurinn eftir því.

Í fjórða lagi, ef hagnaður hlutahafa með 0.35% hlut er orðinn fleiri milljarðar, þá væri Reykjavíkurborg búin að hagnast um fleiri hundruð milljarða og væri besta sönnunin fyrir því að hugmyndin um sameiningu GGE og REI var virkilega gott viðskiptamódel.  Reykjavíkurborg gæti fjármagnað ansi margar góðar framkvæmdir með vöxtunum af þeirri upphæð einum.

Málið er bara að engum flokki á Íslandi þykir eins sárt að verða undir og Sjálfstæðisflokknum.  Í hvert sinn sem það gerist, fer af stað ófrægingarherferð sem er ætlað að beina athyglinni frá Flokknum.  Dæmi tala fyrir sig sjálf:  Þórði Friðjónssyni datt í hug að gera athugasemd við rökstuðning fjármálaráðuneytisins/ríkisstjórnar.  Hvað gerðist næst?  Jú, Þjóðhagstofnun var lögð niður og umræðan fer frá gagnrýni stofnunarinnar í að fjalla um að hún skuli lögð niður.  Hallgrímur Helgason talaði neikvætt um ríkisstjórn Davíð Oddssonar.  Hvað gerðist næst?  Davíð boðar Hallgrím á fund niður í Stjórnarráð og umræðan snýst frá því að fjalla um skrif Hallríms í að fjalla um fundinn.  Baugur/Hagkaup gagnrýna stjórnvöld fyrir að skapa ekki umhverfi til að lækka matarverð um leið og fyrirtækið hrindir af stað átaki til lækkunar matarverðs (sem ég ætla ekkert að dæma um hér hvernig til tókst).  Hvað gerist næst?  Fyrirtækin eru sökuð af þáverandi forsætisráðherra um að hafa ætlað að bera á hann mútur og umræðan fer frá því að fjalla um getuleysi ríkisstjórnarinnar yfir í það að fjalla um hugsanlegar mútur.  Geta menn ekki bara tekið kinnhestinum og skoðað hvað er hægt að læra af honum í staðinn fyrir að leita að sökudólgi annars staðar. 

Davíð Oddsson viðurkenndi í viðtali við Evu Maríu að hann hefði viljandi beitt þeirri taktík að væri hann sakaður um eitthvað, þá svaraði hann með því að ásaka hina um eitthvað verra.  Með því þyrfti hann ekki að verja sig vegna þess að fjölmiðlarnir eltu alltaf nýjasta hneykslið.  Nú átti sem sagt að nota sömu aðferð einu sinni enn og einu sinni enn féllu fjölmiðlar í gildruna.  Framsóknarmafían var að baki öllu, ekki minnst á sjálfstæðismenn, sem voru með tvo fulltrúa í stjórn OR.  Nei, 5% maðurinn í borgarstjórn hann hafði séð um allt og var gjörspilltur að auki. 7 fulltrúaflokkurinn hafði látið 5% manninn plata sig.  Sjáið, hann lét REI ráða kosningarstjóra Framsóknar, en við skulum ekki nefna að Villi lét þá ráða systurson sinn (sem var örugglega vel að starfinu kominn).  Villi er grandvar og heiðarlegur maður sem lét hinn spillta Björn Inga plata sig.  Þetta er farið að minna á slagorð Survivor-þáttanna - Outwit - Outplay - Outlast.  Come on.  Fólk sem lætur fara svona illa með sig á ekki að vera í borgarstjórn.  Ef það getur ekki passað betur upp á það sem því var falið, þá á það að fara til annarra og ekki eins krefjandi starfa.  Meirihlutasamstarf Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sprakk vegna þess að Sjálfstæðismenn voru ekki með hugann við verkið.  Þetta er ekki heimsmeistaramót í bridds, þar sem hægt er að brosa sig í gengum verkefnin.  Þetta er heldur ekki leynifélag, þar sem hægt er að þagga niður í lýðræðislegri umræðu vegna þess að formaðurinn vill það (sbr. blogg Dofra Hermannssonar um menntaráð).  Og svo að skotið sé á OR líka, þetta er ekki einkafyrirtæki þar sem hægt er að sniðganga þau vinnubrögð sem opinberum aðilum er skylt að fara eftir (sbr. spurningar Umboðsmanns Alþingis).

Ég vil taka það fram, að ég vonaði að fyrrverandi meirihluti myndi ná að ljúka mörgum af þeim góðu verkefnum sem hann stefndi að (það er kannski þess vegna sem þetta mál pirrar mig svona).  Ég er þeirrar skoðunar að það sé holt fyrir öll sveitarfélög að skipta um meirihluta á 8 ára fresti, en ég held líka að 8 ár sé lágmarkstími, ef verkin eiga að ná að tala.  R-listinn var búinn að vera of lengi við völd, nákvæmlega eins og D-listinn áður.  Ekki það að R-listinn var búinn að gera margt gott, alveg eins og D-listinn áður.  Það er samt öllu flokkum holt að setjast á hliðarlínuna öðru hvoru, þó ekki væri nema til að öðlast nýja sýn á verk sín og fyrirliggjandi viðfangsefni.  Opinber stjórnsýsla snýst ekki um það hver kemst fyrstur yfir endalínuna eða getur stært sig af flottustu framkvæmdunum.  Hún snýst um að halda hlutunum gangandi, sama hvað dynur á.  Þess vegna er sorglegt til þess að hugsa, að það sem líklegast hefði orðið stærsta og flottasta minnismerki fyrrverandi meirihluta, varð honum að falli í einhverju stundarbrjálæði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Góð og þörf grein

Helgi Jóhann Hauksson, 20.10.2007 kl. 03:56

2 Smámynd: Bergur Thorberg

Að drepa málum á dreif? Hefur það ekki lengi virkað? Og komast svo upp með allt saman.

Bergur Thorberg, 20.10.2007 kl. 10:09

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Einfalt: Pólitíkusar eru ekki aðnaðarmenn og eiga að láta iðnaðarmenn um að færa skólpleiðslur.

Pólitíkusar eru ekki flugstjórar og ættu ekki undir neinum kringumstæðum að setjast í sæti flugstjóra.

Pólitíkusar eru sjaldan með mikla reynslu í milljarðaviðskiptum og ættu helst að nýta sér reynslu og þekkingu slíkra manna sér til ráðgjafar.

Pólitíkusar eiga ekki að láta fagmenn í viðskiptum nota sig við að afsala eignum umbjóðenda vegna aulaháttar og viðskiptalegra vanburða.

Árni Gunnarsson, 20.10.2007 kl. 12:32

4 identicon

Mjög góð grein hjá þér.

Jón Finnbogason (IP-tala skráð) 20.10.2007 kl. 12:32

5 Smámynd: Björn Heiðdal

Auðvitað mega Framsóknarmenn græða alveg eins og einhverjir tengdasynir kvenna sem vilja ríkisrekin dagblöð.  Hverjur dettur annað í hug, ég bara spyr.  Íslenska þjóðin stendur í þakkarskuld við Finn Ingólfsson því án hans værum við ennþá að elta skottið okkar.  Ekkert risa álver og engin hagvöxtur.  Finnur er naskur að finna peninga, oftast peningana mína.  Þegar ég borga skattana segi ég í hálfum hljóðum, þetta dugar ekki fyrir eftirlaunun hans Framsóknar Finns.  Svo segi ég þegar ég borga fyrir skoðun á bílnum mínum, þetta dugar ekki fyrir kvöldmatnum hans Framsóknar Finns.  Já svona er lífið á Íslandi sem ætti frekar að heita Grænland.  

Björn Heiðdal, 21.10.2007 kl. 01:07

6 Smámynd: Kári Harðarson

Mjög góð grein, takk.

Kári Harðarson, 24.10.2007 kl. 09:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 44
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband