Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

,,Hvalveiði" í staðinn fyrir að fara til ,,fiskjar"

Nýjasta nýtt í heimi auðkennisþjófnaðar (e. Identity theft) er að einblína á stóru fiskana.  Þeir sem eru að fiska (e. phishers) eru farnir að egna fyrir fólki í hærri þrepum tekjuskalans og því hafa sérfræðingar í upplýsingaöryggismálum talað um að verið sé að skutla hval (eða stunda hvalveiði).

Hve stór þarf fiskurinn að vera til að komast í þennan flokk?  Samkvæmt rannsóknum í Bandaríkjunum, þá virðast mörkin liggja við $130.000 í árslaun, þ.e. þeir sem eru með tekjur yfir þeirri tölu fá víst 50% meira af ruslpósti en þeir sem ekki haf svo háar tekjur.  Það sem meira er, að fjárhagslegt tap vegna svika virðast vera $1.200 til $1.500 að jafnaði hjá þeim sem eru í lægri tekjuhópnum, en um $5.700 hjá hinum.  Það er því rík ástæða fyrir fjármálastofnanir að veita hinum efnameiri meiri fræðslu um fjársvik og ekki síður að vernda hærra setta starfsmenn sína. 

Phishing í gegnum tölvupóst er mjög víðfeðmt vandamál.  Sjálfur fæ ég fjölmarga pósta með gylliboðum í hverjum mánuði. Ég tel mig nú vita hvað er raunverulegt boð og hvað er tilraun til svika.  Oft er samt erfitt að átta sig á svikurunum, þar sem tækni þeirra er sífellt að batna.  Ráðlegg því fólki að googla viðkomandi sendanda áður en kortanúmer er gefið upp, því oft hafa aðrir brennt sig og sett aðvaranir á vefinn.  Og annað, aldrei senda pening með rafrænni millifærslu sem ekki er hægt að rekja og endurheimta.  Og eitt í viðbót, aldrei treysta RBN (Russian Business Network).  Þeir eru þeir verstu. Auðvitað er nauðsynlegt að hafa síu á póstinum, en jafnvel það dugar ekki.

En aftur að hvalaföngurunum.  Oftast tilheyra þeir skipulögðum glæpasamtökum.  Þeir undirbúa sig vel og beita lymskulegum aðferðum.  Þess vegna er best að opna ekki tölvupóst sem nema maður treysti sendanda.  Ekki nota ,,opt-out" möguleika, því það segir sendanda að netfangið er virkt.  Í staðinn er best að blokka póst frá viðkomandi sendanda, sem gerir það að verkum að hann fer beint í ruslið.  Ekki hafa stillt á lesglugga (reading panel) í ruslpóstsmöppunni og aldrei opna viðhengi sem kemur með ótraustum pósti.

Það eru tvær ástæður fyrir því að þrjótar eru farnir að snúa sér að ,,hvölunum".  Sú fyrri er að eftir meiru er að slægjast og hin síðari er að ,,hvalirnir" eru svo uppteknir að þeir mega oft ekki vera að því að vera varkárir.  Nú svo er náttúrulega sú fáránlega staðreynd, að ,,hvalirnir" eru oft minna meðvitaðir um allar færslur á reikningunum sínum.

Bara til að sýna að allir geta lent í þessu, þá voru tveir menn gripnir um daginn, sem reyndu að hafa ríflega $400.000 út úr Micheal Bloomberg borgarstjóra New York borgar.  Ég býst við að hann hafi verið steypireiður. 

Annað þessu tengt.  Þar sem ég gef mig nú út fyrir að vera sérfræðingur í upplýsingaöryggismálum þá vafra ég mikið á netinu til að lesa mér til og afla upplýsinga um búnað og lausnir.  Um daginn fann ég áhugaverða skýrslu um öryggismál og ætlaði að skoða hana.  Fyrirtækið sem átti í hlut býður upp á eitthvert það besta úrval öryggisbúnaðar fyrir upplýsingatækni sem ég hef bara séð.  Af þeim sökum þótti mér nú í lagi að gefa þeim upp netfangið mitt til að fá skýrsluna.  Í svona tilfellum nota ég alltaf netfang, sem er eingöngu notað í þessum tilgangi.  Þ.e. ég nota það helst ekki til að senda póst, bara til að móttaka.  Ég þurfti jafnframt að svara nokkrum spurningum um hverju ég hefði áhuga á og hvenær ég vildi kaupa o.s.frv.  Jæja, loksins fékk ég skýrsluna og var hún áhugaverð.  En þá var ekki sagan búin.  Strax næsta morgun fékk ég meldingar um að póstþjónar og spamvarnarforrit hefðu stoppað sendingar frá þessu netfangi.  Ég var náttúrulega ekki sáttur við það og sendi öryggisfyrirtækinu póst, þar sem ég benti þeim á að líklegast væru einhverjar öryggisveilur í tölvukerfi þeirra og lýsti málinu fyrir þeim.  Mér bárust nokkrar meldingar í viðbót næstu 24 tíma og ekkert eftir það.  Mig grunar að þetta hafi verið aðferð fyrirtækisins til að hvetja menn til að versla öryggisbúnað hjá sér.  Ég hafði skráð mig sem eiganda og þeir því líklegast haldið að ég myndi biðja öryggissérfræðinginn minn til að athuga málið og að sjálfsögðu benda honum á að skoða búnaðinn sem öryggisfyrirtækið var að bjóða.  Ekki að það muni skaða þetta fyrirtæki neitt sérstaklega, en ég mun aldrei vísa nokkrum manni á það (og þess vegna er það ekki nefnt á nafn) þrátt fyrir að það hafi upp á að bjóða einhverja þá flottustu og heilstæðustu línu öryggisbúnaðar sem ég hef séð.  Traust er nefnilega það mikilvægasta sem til er í viðskiptum með öryggisbúnað.


Þetta sagði ég í júlí - bara með öðrum orðum

Ég má til að grobbast svolítið.  Í viðskiptablaðinu í dag er klausa frá Innherja þar sem vitnað er í Björn Rúnar Guðmundsson forstöðumann greiningardeildar Landsbanka Íslands, en Björn líkti nýlega þróuninni í íslenska hagkerfinu við varanlega hliðrun á framboðs- og eftirspurnarhlið í íslenska hagkerfinu (sjá grein fyrir neðan).  Í bloggi mínu 16. júlí sl. (sjá Er þá verðbólgan lægri hér á landi?) held ég þessu sama fram með öðru orðalagi, en þar segi ég m.a.:

Rök Seðlabankans eru að stýrivextir verði að vera háir til að slá á þenslu og draga úr umsvifum, en getur verið að það sem hafi gerst á síðustu árum er að við höfum færst upp um deild í þessum efnum.  Hagkerfið hafi einfaldlega stækkað svo mikið á stuttum tíma, að það framkvæmdastig sem við búum við um þessar mundir sé hreinlega það sem við munum búa við á næstu árum og gamla framkvæmdastigið sé liðin tíð.  Við sjáum þetta í umsvifum á fjármálamarkaði.  Býst einhver við því að við eigum eftir að hverfa aftur til fjármálaumsvifanna eins og þau voru fyrir einkavæðingu bankanna?  Af hverju ætti önnur starfsemi í þjóðfélaginu að vera á nokkurn hátt frábrugðin?  Þegar knattspyrnuhúsið Fífan í Kópavogi var reist fyrir 4 árum eða svo, þá þótti þetta stór framkvæmd.  Síðan eru kominn Boginn á Akureyri, Reyðarfjarðarhöllin, hús Knattspyrnuakademíunnar í Kópavogi, Risinn í Hafnarfirði og knatthúsið á Akranesi svo einhver séu nefnd og þetta hefur gerst án þess að um það hafi verið rætt.  Fyrir 5 - 7 árum voru svona framkvæmdir stórar, en þær eru það ekki lengur.  Þess vegna segi ég:  Við færðumst upp um deild og nú eru stóru tölurnar orðnar stærri án þess að það þýði að það sé meiri þensla en áður.

Vissulega eru miklu meiri umsvif núna en árið 1999, en er núverandi ástand ekki bara meira normal en fyrra jafnvægi.  Við skulum hafa í huga, að ríki og sveitarfélög hafa frestað mörgum stórum framkvæmdum sem munu fara í gang á næstu mánuðum og árum.  Er þá þensla áfram vegna þess að þessi verkefni eru í gangi?  Hvenær hættir þenslan?  Hver eru viðmiðin?

 Ef við þýðum þetta yfir í hagfræðihugtök, þá er ég að tala um að kominn sé nýr jafnvægispunktur milli framboðs og eftirspurnar.  Kannski ég ætti að fara að sækja um vinnu hjá einhverjum af þessum greiningardeildum.  Grin

 

Vskblad


Verkferli við söfnun og skráningu persónuupplýsinga - víða pottur brotinn

Sá úrskurður Persónuverndar sem fjallað er um í frétt mbl.is gæti líklegast átt við um nær alla aðila sem safna persónuupplýsingum beint frá hinum skráða.  Af hverju Alcan lenti í því að vera klagað fyrir sömu háttsemi og fjölmargir aðrir aðilar viðhafa sýnir fyrst og fremst hörkuna sem var í undanfara íbúakosningarinnar í Hafnarfirði.

Ég held að það sé öllum, sem safna persónuupplýsingum beint frá hinum skráða, hollt að skoða forsendur úrskurðar Persónuverndar, þannig að ég ætla að birta meginmál samantektar úrskurðarins hér:

Í málinu liggur fyrir að á tímabilinu 10. – 15. mars 2007 voru svör einstaklinga rekjanleg og að viðmælendur voru ekki upplýstir um að svör þeirra yrðu skráð niður. Alcan hefur hins vegar sagt að eftir þann tíma hafi upplýsingarnar verið gerðar ópersónugreinanlegar. Það reyndist ekki unnt að staðreyna þar sem vinnsluaðili Alcan hafði þegar eytt gögnum úr kerfinu þegar Persónuvernd fékk aðgang að því.

Í niðurstöðu Persónuverndar kemur fram að skv. 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga um persónuvernd skuli persónuupplýsingar unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að ef vinnsla persónuupplýsinga eigi að vera með sanngjörnum hætti verði hinn skráði að geta fengið vitneskju um að skráning persónuupplýsinga og önnur vinnsla fari fram. Í þessu felist því skilyrði um ákveðinn fyrirsjáanleika og gagnsæi skráningar og vinnslu persónuupplýsinga. Meðal annars beri að veita fræðslu um það hver standi fyrir öflun upplýsinga, í hvaða tilgangi, hvað sé skráð og hvernig varðveislu sé hagað.

Þetta ákvæði sé í nánum tengslum við 20. gr. laganna sem fjallar um fræðsluskyldu þegar afla skal upplýsinga hjá hinum skráða sjálfum. Þar er kveðið á um að fræða skuli hinn skráða um nánar tiltekin atriði, þ. á m. upplýsingar að því marki sem þær séu nauðsynlegar, með hliðsjón af þeim sérstöku aðstæðum sem ríki við vinnslu upplýsinganna, svo hann geti gætt hagsmuna sinna. Þetta felur í sér jákvæða athafnaskyldu sem hvílir á ábyrgðaraðila vinnslunnar. Í málinu liggi fyrir að Alcan hafi ekki gert ráðstafanir til þess að tryggja að menn fengju fræðslu og því hafi söfnun Alcan á upplýsingum um skoðanir einstakra íbúa í Hafnarfirði brotið í bága við ákvæði laga um persónuvernd.

Ég held að það gæti líka verið gott að skoða nokkur önnur ákvæði persónuverndarlaga (þ.e. lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga).  Byrjum á einni skilgreiningu.  Í 2. gr. er hugtakið samþykki skilgreint sem hér segir:

7. Samþykki: Sérstök, ótvíræð yfirlýsing sem einstaklingur gefur af fúsum og frjálsum vilja um að hann sé samþykkur vinnslu tiltekinna upplýsinga um sig og að honum sé kunnugt um tilgang hennar, hvernig hún fari fram, hvernig persónuvernd verði tryggð, um að honum sé heimilt að afturkalla samþykki sitt o.s.frv.

Næst er það gildissvið.  Í 3. gr. laganna um efnislegt gildissvið segir:

Lögin gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga. Lögin gilda einnig um handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá.

Í 7. gr. er fjallað um meginreglur um gæði gagna og vinnslu.  Persónuvernd hefur þegar vísað til 1. töluliðar, en ég tel einnig rétt að vekja athygli á 2. tölulið, en þar segir:

[Við meðferð persónuupplýsinga skal allra eftirfarandi þætta gætt:]

2.  að þær séu fengnar í yfirlýstum, skýrum, málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ásamrýmanlegum tilgangi..

Í 8. gr. er fjallað um almennar reglur um heimildir fyrir vinnslu persónuupplýsinga.  Af 7 töluliðum fjalla 6 um að vinnslan sé nauðsynleg af ýmsum ástæðum (sem eiga ekki við hér) en í 1. tölulið segir:

[Vinnsla persónuupplýsinga er því aðeins heimil að einhverjir eftirfarandi þátta séu fyrir hendi:]

1. hinn skráði hafi ótvírætt samþykkt vinnsluna og veitt samþykki sk. 7. tl. 2. gr.

Þegar þetta er allt sett í samhengi, þá er það mín niðurstaða, að langsamlega flestir aðilar sem sjá um að safna upplýsingum beint frá hinum skráða eru EKKI að uppfylla þessi ákvæði.  Það sem oftast klikkar er fræðslan og að fá samþykki fyrir vinnslunni.  Oft nægir að bæta við litlum reit á umsóknareyðublöð (hvort heldur hefðbundin pappírseyðublöð eða rafræn) þar sem viðkomandi hakar við að hann samþykki frekari vinnslu og vörslu upplýsinganna.  Þar með er formlegt samþykki fengið.

Nú fyrst farið er að nefna vörslu upplýsinga, þá segir í 26. gr., þar sem fjallað er um eyðingu og bann við notkun persónuupplýsingar sem hvorki eru rangar né villandi:

Þegar ekki er lengur málefnaleg ástæða til að varðveita persónuupplýsingar skal ábyrgðaraðili eyða þeim. Málefnaleg ástæða til varðveislu upplýsinga getur m.a. byggst á fyrirmælum í lögum eða á því að ábyrgðaraðili vinni enn með upplýsingarnar í samræmi við upphaflegan tilgang með söfnun þeirra.

Ótrúlega margir ábyrgðaraðilar vinnslu persónuupplýsinga hafa enga hugmynd um það hve lengi er eðlilegt, hvað þá leyfilegt, að varðveita persónuupplýsingar (sjá nánar:  http://www.betriakvordun.is/index.php?categoryid=24).


mbl.is Persónuvernd til skammar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það jákvæða við sameiningu REI og GGE

Hún er búin að vera fróðleg hin pólitíska umræða sem hefur átt sér stað undanfarna daga um samruna Reykjavik Energy Invest og Geysir Green Energy.  Andstæðingar ákvörðunarinnar virðast hafa komist í feitt og hella sér yfir Vilhjálm borgarstjóra og Björn Inga og reyna eins og hver best getur að koma sem þyngstu höggi á þá.  Án þess að vera málið skylt á nokkurn hátt, þá finnst mér þess gagnrýni flest sýna litla víðsýni og ganga í berhögg við þá gagnrýni sem borin var á borð í einkavæðingarferli bankanna.  Þá var gagnrýnt að nokkrir vildarvinir hefðu fengið ríkisbankana á silfurfati og þjóðin orðin af hagnaðinum.  Nú er gagnrýnt að Reykvíkingar eigi að taka áhættu við uppbyggingu á orkufyrirtæki, sem á líklega sér engan líka á heimsvísu.  Það er gagnrýnt að Orkuveita Reykjavíkur skuli hafa eignast nær ókeypis 10 milljarða hlut í fyrirtækinu.  Hlut sem reiknað er með að þrefaldist hið minnsta í verði á næstu þremur árum.  Þegar menn svo áttuðu sig á því að þessi gagnrýni virkaði kjánalega, þá voru dregnar upp samþykktir um kaupréttarsamningar, reynt að níða skóinn af hugsjónarmönnunum bak við þetta og síðan byrjuð áróðursherferð sem minnir um margt á það þegar Þórólfur Árnason varð að víkja úr sæti borgarstjóra.

Ég verð að viðurkenna, að mér finnst hugmyndin bakvið sameiningu REI og GGE vera snilldargóður leikur.  Nú hef ég engar innherjaupplýsingar um þetta mál og lýsi því bara sem ég held. 

Orkuveita Reykjavíkur hefur byggt upp undanfarin ár mjög mikla þekkingu á sviði jarðvarmaverkefna sem nýtt hefur verið við að kynna möguleika á nýtingu jarðvarma víða út um heim.  Nokkrir starfsmenn fyrirtækisins eru í fremstu röð í heiminum á sínu sviði.  Þau verðmæti sem felast í þessari þekkingu hafa fyrst og fremst nýst fyrirtækinu í útrásarverkefnum sínum, en hafa á móti kostað fyrirtækið útgjöld.  Þeir starfsmenn, sem hér eiga í hlut, hafa þrátt fyrir ýmsar freistingar (sem m.a. gætu falist í því að fara sjálfir í samkeppni við OR) haldið áfram að starfa innan OR að þessari hugsýn fyrirtækisins.

Reykjavik Energy Invest er stofnað til að aðskilja útrásarhluta OR frá starfseminni á Íslandi.  REI sækir þekkingu á jarðvarmaverkefnum til starfsmanna OR og þar á bæ (þ.e. hjá REI) átta menn sig betur og betur á verðmæti umræddra starfsmanna.  Þar sem REI er meirihluta eigu OR, þá eru vaxtarmöguleikar REI takmarkaðir nema með framlögum frá OR eða með lánsfé.

Geysir Green Energy er stofnað af aðilum sem eru til í að leggja háa fjármuni í útrásarverkefni á svið jarðvarma.  GGE áttar sig á því að samlegðaráhrif af samvinnu við REI eru mikil, sem lýsa sér helst í því að annar aðilinn hefur mikla fjármuna til ráðstöfunar, en hinn mikla þekkingu.

Við sameiningu REI og GGE gafst OR tækifæri til að setja verðmiða á þá þekkingu sem byggst hefur upp innan fyrirtækisins.  10 milljarðar króna er líklegast hæsta upphæð sem greidd hefur verið fyrir þekkingu og viðskiptasambönd hér á landi til þessa.  Að starf örfárra einstaklinga í nokkur ár hjá borgarfyrirtækinu Orkuveitu Reykjavíkur sé 10 milljarða virði umfram allt annað sem þessir einstaklingar hafa áorkað í sínu starfi, er náttúrulega bara stórkostlegt.  Það er ekkert athugavert við það, að verðlauna átti þessa einstaklinga með góðum kaupréttarsamningum.  Án þeirra væri sameiningin ekki eins góð hugmynd.  Án þeirra væri tækniþekking hins sameinaða fyrirtækis ekki eins mikil.

Það er mikill misskilningur að OR og Reykvíkingar séu að taka meiri áhættu með sameiningu REI og GGE en áður.  Áhættan er minni, þar sem hún dreifist á fleiri.  Það má ekki gleyma því að áður var Reykjavík ein í ábyrgð á útrásarverkefnum OR/REI.  Þá mótmælti enginn.  Í staðinn hreyktu menn sér af áhættusamri framtakssemi OR/REI.  En núna, þegar OR er óvænt búin að auka verðmæti eigna sinna um 10 milljarða, þá fara allir í panik.

Mér finnst vanta að menn spyrji sig af hverju þessi sameining er að ganga í gegn núna og af hverju þessir kaupréttarsamningar.  Ég hef mína kenningu og hún er að Orkuveitan hafi hreinlega staðið frammi fyrir samkeppni um mannauð, þ.e. þeir einstaklingar sem búa yfir þeirri þekkingu sem orðið hefur til innan OR, hafi hreinlega verið orðnir eftirsóttir.  Hugsanlega hafa einhverjir þeirra verið komnir með atvinnutilboð, sem erfitt var að hafna.  Ef ég væri stjórnarmaður hjá OR, þá hefði ég haft áhyggjur af yfirboðum samkeppnisaðila í þessa lykilstarfsmenn.  Ein leið til að tryggja starfskrafta þeirra áfram var með því að bjóða þeim kaupréttarsamninga sem þeir gátu ekki hafnað.  Það var eingöngu hægt að gera í fyrirtæki sem vinnur samkvæmt lögmálum almenns markaðar.  OR gat ekki sem borgarfyrirtæki farið að borga þessum mönnum himinháar greiðslur til að halda þeim.  Það hefði aldrei verið liðið.

Það getur vel verið að ýmislegt vitlaust hafi verið gert í þessu ferli, en það má ekki yfirskyggja þá staðreynd að hugmyndin er mjög góð og að Reykjavíkurborg hefur sjaldan hagnast eins mikið á eins stuttum tíma. 


,,Hefðbundnar

Ómar Ragnarsson er með pistil á blogginu sínu, sem mig langar til að benda fólki á að lesa HVAÐ ERU "HEFÐBUNDNAR" LÆKNINGAR?.  Í pistlinum er Ómar að mótmæla því að nálastungur falli undir skottulækningar, enda aldagömul vísindi. 

Ég setti athugasemd inn á bloggið hans Ómars og langar mig að birta hana hérna fyrir neðan. 

Ég hef aldrei geta skilið hvernig mörg hundruð eða mörg þúsund ára lækningar geta kallast ,,óhefðbundnar" meðan innan við 100 ára þekking er ,,hefðbundin".  Fæst eldra en frá síðustu öld í vestrænum lækningu getur kallast til vísinda.

Ég á mína upplifun af nálastungum sem svínvirkuðu þegar ,,hefðbundnir" læknar voru búnir að segja að engin lækning væri til.  Þetta gengi kannski til baka á 6 mánuðum til 3 árum, ef það gengi þá til baka.  Ég fékk það sem heitir Bells Palsy, sem er lömun í andliti.  Hálft andlitið lamaðist alveg og varð ég að líma augað aftur svo það ofþornaði ekki.  Dómurinn á taugadeild Landspítalans var eins og áður segir.  Ég vildi ekki una því og fann við leit á Internetinu að nálastungur höfðu virkað.  Ég heimsótti Kínverjana á Skólavörðustígnum og í lok fyrstu heimsóknar hafði ég vald á augnlokinu.  Tíu dögum og 6 heimsóknum síðar var allt komið í samt horf.  Meðferðin var nálastungur og nudd!!!

Það getur vel verið að eitthvað í höfuðbeina- og spjaldhryggmeðferðinni sé framandi og fullyrðingar meðferðaraðilans stílfærðar, en þannig er það með allt sem reynst hefur vel.  Byggja vísindin ekki á því að sett er fram kenning sem síðar er reynt að sanna.  Hvað ætli það hafi dáið margir eftir líffæraflutning og samt köllum við það vísindi.  Afstæðiskenningin var sett fram á fyrri hluta síðustu aldar, en sönnun lét bíða eftir sér.  Það er fásinna að ætla að heimurinn sé bara það sem augað sér.  Það er líka fásinna að það eitt sé satt sem vísindi dagsins í dag geta sannað.  Ég held að hin frægu orð ,,hún snýst nú samt" ættu að vera vísindunum áminning um að skoðun meirihlutans er ekki alltaf rétt.

Ég skil ekki þessa flokkun milli þess sem kallað er hefðbundnar lækningar og óhefðbundnar lækningar.  Af hverju eru ,,hefðbundnar lækningar" hefðbundnar?  Og af hverju eru ,,óhefðbundnar lækningar" óhefðbundnar?  Er það vegna þess að aðrar eru kenndar í vestrænum kennslubókum í læknaskólum sem eru viðurkenndir af ,,hefðbundnum" læknum, en hinar eru ekki kenndar þar fyrst og fremst vegna þess að Bretar og kristnir menn ólu með sér fordóma gagnvart öllu sem var framandi og litu á það sem villutrú.

Það er staðreynd að vestrænar lækningaraðferðir henta mun betur í mjög mörgum tilfellum.  En það er líka staðreynd að þær skortir stundum svar (sbr. reynsla mín af Bells Palsy).  Ég las fyrir nokkrum árum viðtal við einn af Kínverjunum sem var á stofunni á Skólavörðustígnum (og er þar vonandi enn).  Hann reyndist vera útskrifaður úr læknadeild ríkisháskóla í Kína með ,,hefðbundnar" lækningar sem aðalfag.  Hann hafði líka lært ,,óhefðbundnar" lækningar, þ.e. nudd, nálastungur o.fl.  Að hans áliti, þá væru ,,hefðbundnar" vestrænar lækningaraðferðir árangursríkari í 60% tilfella og mjög oft eina leiðin, t.d. við brotin bein og tannskemmdir, en ,,óhefðbundnar" austurlenskar aðferðir hentuðu vel/betur í 40% tilfella.

Mér finnst það lýsa fordómum, þegar menn neita að trúa því, að árangur hafi náðst með aðferð sem þeir þekkja ekki.  Vísindi dagsins í dag geta ekki sannað allt og þannig mun það alltaf vera.  Þó svo að Galileo hafi ekki getað sannfært rannsóknarmenn kaþólsku kirkjunnar á sínum tíma um að hann hefði rétt fyrir sér, þá kom það ekki í veg fyrir að Jörðin snerist í kringum sólu.  Spurningin er hvort að hann hafi skort sannanir og sannfæringarkraft eða hvort hina hafi skort vilja (og getu) til skilja það sem Galileo var að segja.


« Fyrri síða

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.1.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 1681235

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband