Leita í fréttum mbl.is

Stýrivextir geta lækkað meira

Greining Íslandsbanka kemur hér með spá um 0,5% lækkun stýrivaxta.  Það er alveg rétt ályktun, ef gengið er út frá núverandi verðbólgu.  Málið er að Seðlabankinn hefur aldrei miðað við verðbólgu á hverjum tíma við ákvörðun stýrivaxta.  Það hefur alltaf verið litið til verðbólgu næstu mánaða.  Vissulega er núna komin sérstök peningastefnunefnd hjá Seðlabankanum og hún mun líklegast nota önnur viðmið en áður voru notuð.  Verðbólguvæntingar hljóta þó að skipta máli.

Nú stefnir allt í að verðbólgumæling fyrir mars gefi ársverðbólgu upp á 16 - 16,5% og í apríl verði ársverðbólgan komin niður í 12,5 - 13,5%.  Eftir það dragi úr verðbólgu sem nemur 1 - 1,5% á mánuði það sem eftir lifir árs.  Miðað er við að ekkert nýtt áfall ríði yfir þjóðina á þessum tíma.  (Kannski er það full bjartsýnt.)  En hvað kemur þetta stýrivöxtum við?  Jú, þetta er spurning um hver háir raunstýrivextir eiga að vera.  Víðast hvar í heiminum eru raunstýrivextir neikvæðir um 3 - 5%.  Ef við gefum okkur að slíkt gerist líka hér á landi, þá gætu stýrivextir farið strax niður um 5 - 7%.  Sé miðað við að raunstýrivextir séu á núlli, þá gætu stýrivextir lækkað um 1,5 - 2%. Ég sé aftur enga ástæðu til þess að raunstýrivextir séu jákvæðir í því efnahagsástandi sem núna ríkir.

Hver sem niðurstaðan verður núna, þá mun gefast tækifæri til að lækka stýrivexti um 3 - 3,5% í lok apríl og síðan um 1 - 1,5% á mánuði það sem eftir er árs.


mbl.is Spá stýrivaxtalækkun á fimmtudag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er kostnaðurinn af niðurfærslu húsnæðislána? Fyrir hvern vinnur ASÍ?

Í Morgunblaðinu í dag er birt undir stúfnum Skoðun grein eftir Henný Hinz, hagfræðing hjá ASÍ.  Greinin ber yfirskriftina Greiðsluaðlögun er grundvallaratriði. Mig langar að birta þessa grein hér og vonandi fyrirgefur Morgunblaðið mér það.

„Aðgerðir stjórnvalda í þágu heimilanna miða allar að því, með einum eða öðrum hætti, að gera fólki kleift að standa við skuldbindingar sínar,“ segir Henný Hinz, hagfræðingur hjá ASÍ. „Þetta er kjarninn í flestum þeim aðgerðum sem kynntar hafa verið. Það er hins vegar ljóst að það er ekki verið að gefa neitt eftir af skuldum fólks.“

Henný segir að ASÍ hafi að undanförnu talsvert mikið skoðað þau mál er snúi að stöðu heimilanna.  Hagdeild sambandsins hafi til að mynda sent frá sér skýrslur í síðasta mánuði um skuldir heimilanna
annars vegar og horfur í efnahagsmálum hins vegar.

„Niðurstaða okkar var meðal annars sú, að niðurfærsla á skuldum heimilanna, eins og lagt hefur verið til, sé engan veginn raunhæfur kostur þar sem kostnaðurinn yrði allt of mikill. Því yrði að beina aðgerðum í þágu heimilanna að þeim hópi þar sem þörfin er mest. Það þurfi að grípa til almennra aðgerða sem fólk í tímabundnum vanda, svo sem vegna tekjuskerðingar eða atvinnuleysis, geti nýtt
sér, þar til fram líða stundir og viðkomandi getur farið að greiða af lánum sínum með eðlilegum hætti
á ný.“

Eini raunhæfi kosturinn

Að sögn Hennýjar duga almennar aðgerðir í þágu heimilanna ekki öllum. Segir hún að ASÍ telji að greiðsluaðlögun sé nauðsynlegt úrræði þessum heimilum til handa.

„Þeir sem þurfa á greiðsluaðlögun að halda eru þau heimili sem eru allra verst stödd og sem sjá ekki fram á að nokkuð muni lagast með þeim almennu aðgerðum sem boðið verður upp á, þó svo að aðstæður í þjóðfélaginu breytist til hins betra. Þetta eru heimilin sem eru komin í þá stöðu að það er fyrirséð að dæmið gengur ekki upp. Við metum það svo, að greiðsluaðlögun sé eini raunhæfi kosturinn fyrir þessi heimili.“

Henný segir að ASÍ leggi ríka áherslu á að Alþingi samþykki lög um greiðsluaðlögun áður en þingi verður slitið. „Það er mikið eftir áður en greiðsluaðlögun verður orðin að lögum. Við höfum lengi lagt áherslu á þetta úrræði og það er aldrei mikilvægara en einmitt nú,“ segir Henný.

Það eru nokkur atriði í orðum Hennýjar sem ég verð að fjalla um:

1.  Því hefur aldrei verið haldið fram að niðurfærsla höfuðstóls muni ein og sér duga öllum.  Með slíkri niðurfærslu mun þeim fækka sem munu þurfa viðameiri aðgerðir.

2.  Að ætla að taka 30, 40 eða jafnvel 80 þúsund manns í gegnum greiðsluaðlögun mun taka mörg ár, ef ekki áratugi.  Það er því ekki raunhæfur kostur.  Mun betra er að koma með almennar aðgerðir sem taka kúfinn af hópnum og eingöngu þeir verst settu fara í greiðsluaðlögun.

3.  Henný nefnir, eins og svo margir aðrir, kostnaðinn af niðurfærslunni en segir hvorki hver kostnaðurinn er né hver beri þann kostnað.  Ég hélt í einfeldni minni að ASÍ væru hagsmunasamtök launþega, en ekki fjármálafyrirtækja.  Ég hef greinilega eitthvað misskilið hlutina.  Mér finnst það alveg út í hött, að hagsmunasamtök launþega telji það eðlilegra að launþegar greiði fyrir klúður fjármálafyrirtækja, en ekki öfugt.  En burt séð frá þessum viðsnúningi í hagsmunabaráttu ASÍ, þá langar mig að fá að vita hver er þessi kostnaður.  Samkvæmt bestu manna útreikningi eru húsnæðisskuldir landsmanna eitthvað á bilinu 1.300 - 1.500 milljarðar.  20% niðurfærsla, sem Framsókn hefur lagt fram (og ég tek fram eru önnur leið en Hagsmunasamtök heimilanna mælir með), þýðir þá 260 - 300 milljarða kr.  Það vill svo til að gert er ráð fyrir að erlendir kröfuhafar þríburanna gefi eftir 2.800 milljarða af verðmæti innlendra lánasafna bankanna.  Við skulum líka hafa í huga að ríkisstjórnin ætlar/er búin að borga 270 milljarða inn í Seðlabankann, ábyrgjast 1.100 milljarða vegna innistæðna í bönkunum og lagði 200 milljarða inn í peningasjóði.  Af hverju á það þá að vefjast fyrir mönnum að nota 9,5 - 11% af 2.800 milljörðum, sem eiga að fara í afskriftir hjá bönkunum, til að færa niðurhúsnæðisskuldir heimilanna.  Ok, hvað með lífeyrissjóðina og Íbúðalánasjóð?  Sjóðfélagalán lífeyrissjóðanna er 10% af eignum.  20% niðurfærsla nemur því 2% af eignum sem er brotabrot af öðru tjóni sjóðanna.  Þessi tala skiptir sjóðina engu máli.  Gagnvart Íbúðalánasjóði, þá vill svo til að bankarnir eiga 135 milljarða í íbúðabréfum.  Þar sem þeir eiga 2.800 milljarða til að afskrifa, þá er einfaldast að þeir afskrifi þessa upphæð.

4.  Skoðum kostnaðinn fyrir húsnæðismarkaðinn og bankana af því að gera þetta ekki.  Þurfi bankarnir að leysa til sín tugi þúsunda húseigna, þá mun það hafa skelfilegar afleiðingar fyrir húsnæðismarkaðinn og stefna stórum hópi fólks í gjaldþrot.  Ekki bara þeim sem eru í vanda núna, heldur mun bætast verulega í hópinn.  Fólk verður bundið í átthagafjötra, þar sem skuldir þess verða mun hærri markaðsverð. Tap bankanna verður auk þess mun meira. Stór hluti niðurfærslunnar sem Framsókn er að leggja til, er þegar tapaður peningur fyrir bankana.  Auk þess vil ég benda mönnum á að lesa tillögurnar áður en haldið er áfram að fullyrða um flatan niðurskurð fyrir hvern sem er.  Hér hef ég klippt út fyrirsögn greinarinnar úr tillögum Framsóknar:

AÐGERÐIR TIL BJARGAR SKULDSETTUM HEIMILUM 
OG FYRIRTÆKJUM
 
 
20% niðurfelling skulda (með hugsanlegu hámarki á heildarupphæð)

Hvað segir þarna?  Á að bjarga öllum um allt? Nei, það er nefnt hugsanlegt þak á upphæðir.  En ég ætla ekki að verja hugmyndir Framsóknar, heldur snýst þetta um það réttlæti að almenningur sitji ekki einn uppi með klúður í efnahagsstjórn, að almenningur sitji ekki einn uppi með fall krónunnar og afleiðingar þess í hækkun verðbólgu.

5.  Hver er ávinningurinn fyrir samfélagið?  Velta í einstökum geirum smásöluverslunar dróst saman í febrúar um allt að 56% (að mig minnir) samkvæmt frétt sem birtist í síðustu viku. Fólk er búið að skrúfa fyrir neyslu.  Ég hefði nú haldið að ASÍ hefði meiri áhyggjur af því, þar sem slíkt er ávallt undanfari aukins atvinnuleysis.  Slíkur samdráttur á neyslu bitnar líka á ríkissjóði og verður til þess að skera þarf niður útgjöld ríkissjóðs.  Og þegar búið er að skera niður alla fitu, þá verður velferðarkerfið næst.  Hefur ASÍ virkilega meiri áhyggjur af því að bankar og lífeyrissjóðir þurfi að færa niður húsnæðisskuldir, en að hér aukist atvinnuleysið enn frekar eða að skera þurfi niður í velferðarkerfinu.  Ávinningurinn af því að fólk hafi meira milli handanna til að setja í neyslu er mun mikilvægari tala en kostnaðurinn af niðurfærslunni.


Ofurhagfræðingur sammála Hagsmunasamtökum heimilanna

Mig langar að fá lánað hér efni frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.  Hann skrifar á eyju-blogginu í færslunni Ofurhagfræðingur sammála Framsókn að "ofurhagfræðingurinn" Nouriel Roubini telji að eina skynsamlega sem hægt er að gera í húsnæðislánavandanum sé flöt niðurfærsla höfuðstóls lánanna.  Roubini var uppnefndur "doktor dómsdagur", þegar hann kom ítrekað fram og varaði við fyrirsjáanlegu hruni bankakerfisins meðan allir aðrir voru uppveðraðir af "efnahagsundrinu".

So what can the government do? The easy part is lowering interest rates and buying toxic assets. The hard part, he says, will be tackling housing. Roubini says that the housing market, like a company restructuring in bankruptcy, needs to have “face value reduction of the debt.” Rather than go through mortgages one by one, he says reduction has to be “across the board…break every mortgage contract.”
 
Hvað getur þá ríkisstjórnin gert? Auðveldi hlutinn er sá að lækka vexti og kaupa eitraðar (óseljanlegar) eignir. Það erfiða, segir hann, er að fást við húsnæðismálin. Roubini segir að húsnæðismarkaðurinn, rétt eins og fyrirtæki sem endurskipulagt er við gjaldþrot, þurfi „nafnverðslækkun skulda” Fremur en að skoða húsnæðislán hvert fyrir sig þarf ,,flata niðurfellingu…rjúfið hvern einasta húsnæðislánasamning.”

Hagsmunasamtök heimilanna, og áður mörg okkar sem eru þar í forsvari, hafa krafist leiðréttingu á höfuðstóli húsnæðislána. Það sé ekki um annað að ræða, ef koma á í veg fyrir fjöldagjaldþrot heimilanna sem muni síðan hafa í för með sér víðtæk áhrif fyrir fyrirtæki og samfélagið í formi minnkandi samneyslu, snertrar opinberar þjónustu og flutnings fólks úr landi í stórum stíl.

Sjálfur hef ég skrifað óteljandi færslur og athugasemdir um nauðsyn þess að koma til móts við húsnæðiseigendur vegna mikillar hækkunar höfuðsstóls lána og aukinnar greiðslubyrði.  Fyrsta færsla um þetta mál á þessum nótum er frá 28.9.2008.  Þar segi ég:

[R]íkið verður að koma að því að greiða niður slíkar skuldir.  Það getur gert það með breytingu á vaxtabótakerfinu, þar sem vaxtabætur verða þre- til fjórfaldaðar næstu 10 árin eða svo.  Það getur gert það með því að stofna einhvers konar afskriftarsjóð lána, þar sem bankar geta sótt pening til að afskrifa/lækka höfuðstóla húsnæðislána og bílalána.  Svo gæti ríkið í samvinnu við sveitarfélögin afnumið fasteignagjöld af íbúðarhúsnæði eða a.m.k. lækkað verulega.  Loks getur ríkisstjórn og Seðlabanki lagt út í viðmiklar aðgerðir til að styrkja íslensku krónuna.

Síðan hafa komið alls konar tillögur, en markmið þeirra allra er að færa höfuðstól og greiðslubyrði lána niður svo fólk geti staðið í skilum, bankarnir fengið peninga inn í veltuna og komið verði í veg fyrir fjöldagjaldþrot og brunaútsölur.

Hér fyrir neðan eru nokkrar krækjur frá mér:

Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning

Tillögur talsmanns neytenda

Hinn almenni borgari á að blæða

Færa þarf höfuðstól lánanna niður

Nú hef ég sem sagt fengið stuðning (samkvæmt færslu Sigmundar Davíðs) frá ekki ómerkari manni en "doktor dómsdegi" Nouriel Roubini.  Sýnist mér það vera til merkis um að vert sé að gera meira en að hugsa um þessa leið.  Það þarf að útfæra hana og hrinda í framkvæmd.

Nú áður en einhver fer að tala um að greiða skuldir óreiðumanna, þá snýst þetta ekki um það.  "Óreiðumenn" eru um allt í samfélaginu (samkvæmt skilgreiningu ömmu Davíðs Oddssonar) og þeim verður ekki "bjargað" með svona aðgerð.  Þetta er spurningin um að koma í veg fyrir að veltan í samfélaginu dragist saman niður í ekki neitt.  Þetta er spurningin um að öll sparnaðarform séu meðhöndluð á sama hátt.  Þetta er spurningin um að koma í veg fyrir mestu fjöldagjaldþrot sem þjóðin hefur upplifað.

Tekið skal fram að Hagsmunasamtök heimilanna hafa aldrei nefnt flata 20% niðurfærslu heldur viljum við:

  • að sett verði afturvirkt þak á verðbætur, þannig að þær geti hæst verið 4% á ári frá 1. janúar 2008. 
  • að öllum verðtryggðum húsnæðislánasamningum verði breytt þannig að þetta þak verði sett inn í þá. 
  • að sett verði þak á vexti, þannig að ekki verði hægt að sækja bætur fyrir verðbólguna með hærri vöxtum. 
  • að boðið verði upp á að breyta gengistryggðum lánum í verðtryggð lán miðað við upphæð höfuðstóls á útgáfudegi.  Verðbætur fram til 1. janúar 2008 fylgi verðbólgu, en eftir það komi 4% verðbótaþakið. 
  • að veð takmarkist við þá eign sem sett er að veði (og skiptir þá ekki máli hver eignin er)
  • samfélagslega ábyrgð lánveitenda 
  • að ekki sé hægt að elta fólk ævilangt vegna skulda heldur virki fyrningarfrestur þannig að skuld fyrnist við lok hans.  Það er út í hött, að hægt sé að rjúfa fyrninguna endalaust og halda fólki þannig í ævilöngu skuldafangelsi.

Við teljum að ávinningur af þessum aðgerðum verði:

  • Fjöldagjaldþrotum heimilanna og stórfelldum landflótta er afstýrt
  • Unnið er gegn frekara hruni efnahagskerfisins
  • Jákvæð áhrif á stærðar- og rekstrarhagkvæmni þjóðarbúsins
  • Líkurnar á að hjól atvinnulífsins og hagkerfisins haldi áfram að snúast aukast, þar sem fólk mun hafa ráðstöfunartekjur til annarra útgjalda en afborgana af íbúðum
  • Þjóðarsátt skapast um vanda heimilanna vegna efnahagskreppunnar
  • Traust almennings í garð stjórnvalda og fjármálastofnanna eflist á ný
Við teljum að ofangreindur ávinningur skili mun meira í þjóðarbúið og til fjármálafyrirtækja, en hin leiðin.  Ástæðan er einföld:  Vegna lækkandi húsnæðisverðs munu lánveitendur hvort eð er þurfa að afskrifa háar upphæðir.  (Raunar er þegar farið að reikna slíkt inn í virði lánasafna nýju bankanna.) Við sjáum ekki muninn á því að núverandi eigendur, sem margir hafa verið tryggir viðskiptavinir fjármálafyrirtækjanna (og forvera þeirra) í áratugi, njóti þessara afskrifta eða að einhverjir aðrir njóti þeirra.  Við teljum að það sé mikilvægara fyrir viðskiptabankana og sparisjóðina að halda viðskiptavinum sínum með því að koma til móts við þá, en að hrekja þá í burtu, þess vegna úr landi.  Það er nefnilega það sem gerist, ef gjaldþrotaleiðin verður farin.

Ávinningurinn skiptir máli, ekki kostnaðurinn

Mark Flanagan heldur áfram með þessa klisju. Ekki er rétt að fara í 20% niðurfærslu íbúðalána, þar sem "[m]argir fengju aðstoð, sem ekki þurfa á henni að halda, og hún yrði afar kostnaðarsöm fyrir ríkið", eins og segir í frétt mbl.is. Ég hef ítrekað bent...

Við vitum vel að norrænir menn voru ekki fyrstir

Ég hélt að það væri viðurkennt, að hér voru menn áður en norrænir menn námu hér land. Ártalið 874 (eða 871) er viðmiðun fyrir landnám norrænna manna. Líklegast verður því ekki breytt. Aftur á móti er ekki vitað hvenær keltar/Írar/papar komu hingað. Það...

Gjaldmiðlastríð að hefjast?

Svo virðist sem svissneski seðlabankinn hafi ákveðið að grípa til aðgerða til að auka samkeppnishæfni landsins. Aðgerðin felst í inngrip í gjaldeyrismarkað með það að markmiði að lækka gengi svissneska frankans gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Undanfarið...

Tvö námskeið um stjórnun upplýsingaöryggis, áhættustjórnun og stjórnun rekstrarsamfellu

Mig langar að vekja athygli á tveimur námskeiðum sem haldin verða í apríl. Fyrra námskeiðið er haldið 2. apríl á vegum Staðlaráðs Íslands og er um Stjórnun upplýsingaöryggis samkvæmt ISO/IEC 27001 og 27002 - Lykilatriði og notku . MARKMIÐ námskeiðsins er...

Uppstokkun almannatrygginga tímabær

Til stóð í fyrra haust að leggja fram frumvarp að nýjum almannatryggingalögum. Nefnd hafði verið starfandi um þetta mál í rúmt ár og áttu, samkvæmt upplýsingum frá Ágústi Þór Sigurðssyni skrifstofustjóra tryggingasviðs, niðurstöður nefndarinnar að liggja...

Áhugaverð lesning

Ég renndi í gegnum glærur Seðlabankans (sjá Skýrslan í heild ) og þar kemur margt áhugavert fram. Mér finnst samt ekki allt stemma, en hugsanlega er það vegna þess að mig vantar forsendur. Ég held samt að þessi útreikningur Seðlabankans fegri hugsanlega...

Bjargar ný króna málunum?

Helsta vandamál hagkerfisins um þessar mundir, er að mikið magn þeirra peninga sem eru í umferð eru hreinlega týndir. Þeir eru ekki í bönkunum og aðeins að hluta hjá almenningi. Stórar fúlgur fjár eru á einhverjum "leynireikningum" auðmanna í útlöndum...

Verðtrygging vs. gengistryggingu

Í tilefni af færslu á Silfri Egils, þá langar mig að birta þetta graf. Það sýnir þróun gengis nokkurra gjaldmiðla, gengisvísitölu og verðbólgu síðustu 9 ár eða svo. Með því að smella tvisvar á myndina, sést hún í fullri

Uppþurrkun eiginfjár

Ég fékk póst áðan sem ég verð bara að birta. (Ég vona að sendandanum sé sama.) Pósturinn fjallar um erindi Vilhjálms Bjarnasonar sem hann hélt í gær hjá Oddfellow reglunni. Vilhjálmur hafði samband við mig og sagði innihald póstsins ekki sannleikanum...

Hin níu áður ógnvænlegu orð sem allir vilja heyra í dag

Financial Times heldur úti mikilli umræðu um hina alþjóðlegu efnahagskrísu. Í grein í dag ( Seeds of its own destruction ) er fjallað um fall átrúnaðargoðs, þ.e. frjálsræðis án ríkisafskipta. Það er sérstaklega vitnað í orð Ronald Reagans forseta...

Jafnræði sparnaðarforma

Það skapaðist mikil umræða á eyjan.is í tengslum við hjálparkall Magnúsar Ólafssonar. Sumum, sem þar skrifuðu athugasemdir, finnst besta mál að bankarnir hirði eignir upp í skuldir af þeim sem offjárfestu í góðærinu. Þá þurfa þeir sem fóru varlega að...

Eru þetta ekki samningar Sjálfstæðisflokksins?

Það er alveg ótrúlegt að hlusta á (lesa um) málflutning Sjálfstæðismanna. Það er bara eins og flokkurinn hafi ekkert komið að landsstjórninni hér undanfarin 17ár eða svo. Dæmin eru svo mörg þar sem þeir moldviðrast yfir hverju málinu á fætur öðru, sem...

Virkur markaður með krónur erlendis

Ég fékk spes verkefni í vikunni sem varð til þess að ég þurfti að setja mig i samband við erlendan aðila sem hefur þekkingu á gjaldeyrismarkaðnum. Ég fékk tiltekna spurningu, sem ég hafði verið beðinn um að svara við. Eftir nokkra eftirgrennslan, þá var...

Einkennileg umferðarstjórnun

Ég keyrði framhjá staðnum eftir að skólaakstrinum var lokið. Umferðin inn í Reykjavík var frekar létt og svo kom ég þar að sem bíllinn stóð brunninn uppi á umferðareyju. Lögreglubíll með blikkandi ljós stóð á akreininni við hlið eyjunnar og svo teygði...

Er nýr banki að koma?

Ég get ekki annað en velt því fyrir mér, þegar ég sé ítrekað fréttir um brotthvarf lykilstjórnenda frá Kaupþingi, hvort nýr banki sé í burðarliðunum. Það er ekki eins og menn í þessum stöðum vaði í atvinnutækifærum hér á landi og varla er orðspor...

Svona á að fara að þessu

Ég get ekki annað en furðað mig á þeim ummælum Jóhönnu Sigurðardóttur, að hún átti sig ekki á því hvar eigi að taka þá peninga sem þarf til þess að færa niður húsnæðislán heimilanna. Einnig furða ég mig á að hún tali um að lækka skuldir hálaunafólks,...

Furðuheimar bílalánasamninga

Ég get ekki annað en furðað mig á þessum sögum sem flæða yfir okkur um uppgjör bílalánasamninga. Ef bílum er skilað, þá er verð bílsins fyrst lækkað í samræmi við markaðsverð og síðan er það lækkað vegna viðgerðarkostnaðar, ástandsskoðunar, þrifa,...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband