Leita í fréttum mbl.is

Jafnræði sparnaðarforma

Það skapaðist mikil umræða á eyjan.is í tengslum við hjálparkall Magnúsar Ólafssonar.  Sumum, sem þar skrifuðu athugasemdir, finnst besta mál að

bankarnir hirði eignir upp í skuldir af þeim sem offjárfestu í góðærinu.  Þá þurfa þeir sem fóru varlega að borga minna og þeir sem tóku tugmiljóna lán eins og brjálæðingar læra af reynslunni.

Ég mótmælti þessum orðum kröftuglega með eftirfarandi:

[Á]tti þá ríkið líka að láta sparifjáreigendur missa sitt við hrun bankanna?  Ríkið baktryggði 1.170 milljarða af innistæðum í bönkunum þremur með neyðarlögunum. Þeir sem voru með meira en 3 milljónir á einum reikningi voru hreinir og klárir fjárglæframenn. Vandamál flestra sem skulda hefur ekkert með offjárfestingu að gera. Þetta hefur með það að gera, að hér á landi hefur verið handónýtt lánakerfi eins lengi og ég man eftir mér. Þetta handónýta lánakerfi var gert ennþá verra með Ólafslögum, þegar verðtrygging var sett á. Þegar fólk og fyrirtæki geta alls staðar í nágrannalöndum fengið lán með lágum vöxtum fyrir fjárfestingar í húsnæði og vegna uppbyggingu rekstrar, þá hefur því ekki verið fyrir að fara hér. Fyrirtæki höfðu þennan möguleika áður en atvinnulánasjóðirnir voru sameinaðir í Fjárfestingabanka atvinnulífsins (FBA). Eftir það hefur varla verið rekstrargrundvöllur fyrir lítil og meðalstór iðnfyrirtæki í landinu. Með tilkomu gengistryggðra lána, þá opnaðist leið til að lækka fjármagnskostnað um 50 - 80%. Að sjálfsögðu nýttu fyrirtæki og einstaklingar sér það. Það hefur ekkert með offjárfestingu að gera. En því miður kom í ljós að jafnvægið sem var í þjóðfélaginu reyndist svikalogn og í kjölfarið fylgdi hamfarastormur. Það er gott, ..., að þú hefur sloppið eða ert þú kannski einn af þeim sem fékkst gefins háar upphæðir vegna þess að innistæður þínar glötuðust ekki. Ég hef velt því fyrir mér, hvort ríkisskattstjóri vilji ekki líka skattleggja þá gjöf, eins og hann er ákafur í að skattlega niðurfellingu skulda.

Þessu var svarað:

Á kostnað hvers voru innistæður bankana tryg[g]ðar ?
Það eru ekki skattgreiðendur sem eru að borga þá gjöf eins og þú kallar það heldur erlendir kröfuhafar, sem með áhættusækni og gróðavon sinni lánuðu íslensku bönkunum of háar fjárhæðir og eru núna að taka á sig tapið.

Ég segi þá á móti:

[Þ]að er ekki rétt að erlendu kröfuhafarnir séu einir að borga fyrir það loforð að tryggja innlendar innistæður. Því fylgdi nefnilega að borga icesave og KaupthingEdge upp í topp líka.

En talandi um erlenda kröfuhafa, þá hafa þeir fallist á að Kaupþing geti fært 954 milljarða af 1.410 milljarða lánasafni sínu á afskriftarreikning. Það er sem sagt búið að ákveða að afskrifa 67,7% af lánum Kaupþings til innlendra viðskiptavina. Allt sem innheimtist umfram þau 32,3% sem eftir eru mun því mynda hagnað fyrir Kaupþing. Af hverju má ekki nota hluta af þessum 954 milljörðum til að færa lánin niður strax. Nei, Kaupþing ætlar að þiggja niðurfellingu skulda, en jafnframt að ná í allt sem bankinn mögulega getur. Ég velti því fyrir mér hvað erlendu kröfuhöfunum finnst um þetta. Mér skilst að það sé til dæmisaga úr Biblíunni um nákvæmalega sams konar hlut. Þar segir af manni sem fékk háa skuld felda niður, en gekk af hörku á manninn sem skuldaði honum sjálfum smápening.

Þessu til viðbótar má bæta við að Landsbankinn (NBI) mun fá 1.100 milljarða í heimanmund frá erlendum kröfuhöfum, en Glitnismenn hafa ekki viljað gefa upp hvað þeir fá.

Þannig að það eru ekki skattgreiðendur sem eru að tapa á því að kröfur séu lækkaðar. Þetta er allt í boði erlendra kröfuhafa.

Aftur var svarað:

Niðurfelling skulda til almennings er glæfraleg og sendir ekki rétt skilaboð út í þjóðfélagið, þess fyrir utan er al[l]s óvíst að nokkur græði á því til lengri tíma l[it]ið vegna þess að ef lán á íbuðahúsnæði verða felld niður um 20% þýðir það að afborganir af húsnæði flestra lækka lítið á meðan tap bankana verður gríðarlegt. Og bankar í taprekstri þeir lána einfaldlega minna sem þýðir að íslenskt viðskiptalíf mun hafa minna fjármagn til að spila úr, sem aftur þýðir MINNI ATVINNA OG LÆGRI LAUN.

Og annar sagði:

Ég hef sömu sögu og ... að segja, litil íbúð ódýr bíll og mjög varfærinn og sparaði innistæðu inná banka.  Hver er sinn gæfu smiður

Ekki ætla ég að mótmæla er sinnar gæfu smiður, en í þessu tilfelli átti það ekki við:

Það er alveg satt að sumum verður ekki bjargað og hver er sinnar gæfu smiður. En það er engin ástæða til þess að mismuna fólki eftir því hvernig það geymir sparnaðinn sinn. Ég vil gera greinarmun á fagfjárfestum og þeim sem eru eingöngu að ráðstafa “fátæklegum” sparnaði sínum. Mér finnst t.d. ekkert réttlæti í því að þeir, sem geymdu 10 milljónir inni á sparnaðarreikningi vitandi að [þeir] voru bara tryggðir upp að 3 milljónum, fái allt sitt bætt, en einstaklingur sem setti sparnaðinn sinn upp á nokkur hundruð þúsund eða milljónir í hlutabréf þurfi að bera skaðann sinn. Sá sem átti 7 milljónir af sparnaði sínum í hlutabréfum í bankanna við hrun þeirra á að njóta sömu tryggingar og sá sem lagði 10 milljónir inn á sparnaðarreikning. Annað hvort eiga báðir að fá tjón sitt bætt eða hvorugur. Báðir tóku sömu áhættu, þ.e. þeir voru báðir þokkalega tryggðir þar til bankarnir hrundu og ríkið tók þá yfir. Ég skil ekki af hverju annar fær allt sitt bætt, en hinum þarf að blæða. Það getur vel verið að öðrum finnist þetta sjálfsagt, en mér þætti þá fróðlegt að fá rökstuðning fyrir því.

Gagnvart lánunum, þá er málið að bankarnir hafa fengið niðurfærslu á sínum skuldum og það er bara eðlilegt að þeir láti sína skuldara njóta þess. Annað finnst mér bara vera fjársvik, þar sem erlendum kröfuhöfum er talið trú um að innlenda eignasafnið sé ekki meira virði en sem nemur 32,3% af stöðu þess við fall bankans. Ef bankinn ætlar að innheimta allt í topp hjá skuldurum sínum, þá er bankinn einfaldlega að segja kröfuhöfunum rangt til og í mínum huga heitir það fjársvik sem er refsivert samkvæmt lögum.

Þessu var svarað fullum hálsi:

Þið ykkar sem eruð að væla yfir því að innistæður hafi verði trygðar, hvernig haldið þið eginlega að ástendið hefði verið ef menn hefðu tapað öllum innistæðum sínum á banka yfir 3 miljónir... 

Þá væri ástandið þannig í dag að það væri enginn með pening inni á bók og bankakerfið væri þessvegna algerlega óvirkt, fólk væri að hamstra gjaldeyri og bankaviðskipti væru orðin neðanjarðarviskipti, ástandið yrði svona svipað og í vanþróuðu löndunum. Þar sem mafían lánar viðskiptafólki beint og bankarnir lána ekkert.

Og ég svaraði:

Ég get ekki séð að það sé nokkur munur á því að fólk hefði tapað innistæðum sínum og því að fólk sé að tapa eiginfé sínum í íbúðum sínum. Þeir sem telja að það sé einhver mismunur á þessu eru á röngu róli. Áhrifin eru þau sömu fyrir einstaklinginn og samfélagið, þ.e. ráðstöfunarfé skerðist, neysla minnkar, erfiðara er að greiða skuldir, viðkomandi lendir hugsanlega í gjaldþroti og missir húsið sitt.

Ég veit ekki hve mörgum var bjargað með því að tryggja innistæður umfram 3 milljónir. Það væri fróðlegt að vita það. Ég efast um að það hafi verið fleiri en 10.000, en ég veit það ekki. Í mínum vinahópi, þá veit ég um eina fjölskyldu og hún var raunar búin að bjarga sér sjálf með því að færa peninga á milli reikninga. Allar hinar eru [meira og minna] í fjárhagsörðugleikum vegna hækkunar lána.

Hlutabréf í bönkunum voru jafn örugg viðskipti og það að eiga umfram 3 milljónir á innlánsreikningi. Hvorugt var öruggt. Þess vegna segi ég að þetta eigi að meðhöndla á sama hátt. Það eru þrjár leiðir:
1. Báðir hópar eru að fullu tryggðir.
2. Báðir hópar tapa einhverju og fá eitthvað bætt
3. Báðir hópar tapa sínu (þ.e. innistæðueigendur því sem er umfram 3 milljónir)

Það er auk þess enginn að tala um bílalán svo ég viti. Það er verið að tala um mismunandi sparnaðarform, þ.e. innistæður, hlutabréf og íbúðarhúsnæði.

Þá fékk ég þessa athugasemd:

Kæri Marinó !ætlar þú að segja mér að það sé gott að skulda og ,ef enginn sparaði í þessu landi þá fengu þínir l[í]kar engin lán.

Sem ég svara með eftirfarandi:

[É]g hef í fyrsta lagi ekki sagt neitt um mína hagi, þannig að ályktun þín er úr lausu lofti gripin. Ég er að gera samanburð á sparnaðarformum og benda á að þeim sé mismunað. Ég er líka að benda á að sparnaður umfram 3 milljónir hafi ekki verið tryggður, þegar peningarnir voru lagðir inn. Það var því fjárglæframennska að leggja slíkar upphæðir inn á innistæðureikning í ljósi aðstæðna á íslenskum fjármálamarkaði. Ég veit um mann sem fór í banka með nokkrar ferðatöskur og tók út 70 milljónir í peningum. Hann hélt að hann myndi tapa peningunum, ef bankinn færi á hausinn.

Ég efast ekkert um að sparnaður sé mikilvægur, en sparnaður á einum reikningi umfram 3 milljónir var sama áhætta og að eiga hlutabréf, ef bankarnir féllu. Um það snýst málið. Við sjáum að þar sem stórir hópar hlutabréfaeigenda hafa misst eignir sínar, þá er hagkerfið nánast á hliðinni. Ruðningsáhrifin af því að eigendur Glitnis misstu 75% af sinni hlutabréfaeign er í raun það sem við erum að kljást við í dag. Það þarf að verja allt eignarform, sama hvert það er, en ekki bara sumt, þó það séu einhverjum þóknanlegra en annað eignarform eða eigendahópurinn er ekki “réttur”.

Við þessum kom:

Í fyrsta lagi - ekki það að ríkið hefði alveg eins getað sett bankana bara á hausinn og látið allar innistæður tapast. Staðan væri bara 10 sinnum verri - þ.e. ef miðað er við kreppuástand í 1,5-2 ár núna þá erum við að tala um að kreppan hefði orðið í 15-20 ár við það að grípa ekki til þessara aðgerða. Enginn hefði nokkurntímann aftur lagt sparifé sitt inn í íslenskt bankakerfi í ótta við að tapa því og þannig myndi enginn banki geta starfað hérlendis og því væri enginn milliliður inn og útlána og viðskiptalíf kæmist ekki á fót í bráð - nema ríkisbyggt og fjármagnað.

Hefði ríkisstjórnin ekki lofað því að tryggja allar innistæður hefðu bankarnir farið á hausinn samdægurs - og frumskógarlögmálið aðeins gilt um hverjir hefðu náð peningum út og hver ekki. Skuldirnar hefðu ekki horfið - einungis breytt um eigendur - þ.e.a.s. erlendir aðilar réðu því hvort þeir hyrtu af þér húsið eða ekki. Athuga þarf hvenær þetta loforð um innistæðutryggingu var gefið en ekki koma með eftirá skýringar þegar bankarnir eru fallnir.

Endurtek svo aftur það sem ég sagði áðan. Það myndast ekki tap hjá ríkinu við að tryggja innistæðurnar - tap mun aðeins myndast ef [útlán] nýju bankana eru afskrifaðar umfram þann afslátt sem þeir kaupa eignasöfnin úr gömlu bönkunum. Allt þetta tal um niðurfellingu heilt yfir um 20% myndi setja bankakerfið aftur á hausinn og þá yrðu engar innistæður tryggðar en í stað þess að ástandið yrði 10 sinnum verra þá yrði það 15 sinnum verra - ef ekki meir - því allir myndu flytja úr landi þar sem skuldirnar yrðu þá orðnar allt of háar (Eigið fé bankana er tæpir 400 milljarðar að mig minnir - ef bankarnir fara aftur á hausinn þá tapast það fé og leggst á skattborgara)

Og mitt svar er:

Ég segi oft: “Ef þið skiljið mig ekki, ekki misskilja mig.” ...ég [get] ekki séð að 20% afskriftir af skuldum fyrirtækja og heimila myndi setja banka á hausinn, þar sem þessar skuldir eru eitthvað um 4.000 milljarðar og því væri 20% um 800 milljarðar. Erlendir kröfuhafar eru þegar búnir að samþykkja að veita 2.800 milljarða í afslátt, þannig að 800 milljarðar eru rétt um 28,5% af þeirri upphæð.

[Þ]á kemur þessi tala eiginfé bankanna ekkert við, þar sem þegar er búið að leggja [þessa] 2.800 milljarða á afskriftareikning. Hver króna sem innheimtist af þessum 2.800 milljörðum hækkar eigið fé, en þær sem innheimtast ekki breyta engu varðandi eigið fé bankanna. Það eru krónur sem þegar er búið að ákveða að séu tapaðar, það á bara eftir að segja okkur hverjir fái að njóta afskriftanna. Mér dettur svo sem í hug að eignarhaldsfélögin, sem skulda yfir 1.700 milljarða verði á undan fyrirtækjum og heimilum í röðinni, svo maður talin nú ekki um einkavini, eigendur bankanna og stjórnendur þeirra.

[Þ]á er enginn að segja að ekki eigi að tryggja innistæður, bara að gæti eigi jafnræðis. Innistæður umfram 3 milljónir voru áhættufé alveg eins og hlutafé, eigið fé í húsnæði eða gengistryggð lán. Það á bara eitt yfir alla að ganga.

Ég verð að viðurkenna, að mér finnst mikil misskilnings gæta í umræðunni um það á hvers kostnað afskrift útlána og björgun sparifjár var.  Ég vil taka það fram að ég er ekki að mótmæla því að ríkið hafi bjargað sparifjáreigendum.  Ég er bara að benda á fordæmið sem þá átti að myndast.  Höfum eftirfarandi á hreinu:

  • Fyrir setningu neyðarlaga voru eingöngu innistæður upp að EUR 20.887 (sem ég umreikna í 3 milljónir kr.) tryggðar af tryggingarsjóði innistæðueigenda.  Allt umfram það var áhættufé.
  • Fram að falli bankanna, þá þóttu hlutabréf í bönkunum vera mjög örugg og algengt var að fólk keypti hlutabréf í þeim til að geyma sparnaðinn sinn.  Þetta voru ekki fagfjárfestar heldur almenningur, sem fóru að ráði ráðgjafa í bönkunum og keyptu hlutabréf, þar sem ólíklegt þótti að bankarnir færu á hausinn.
  • Fjölmargir einstaklingar settu peninga í peningamarkaðssjóði, þar sem fjárfest var í skuldabréfum bankanna þar sem þessi bréf þóttu mjög örugg.  Voru jafnvel með AAA-einkunn hjá matsfyrirtækjum.  Þetta átti því að vera pottþétt sparnaðarleið.

Ríkisstjórnin ákvað að bjarga einum af þessum þremur hópur 100%, öðrum að hluta, en láta þann þriðja sitja uppi með tapið.  Allir tóku þessir hópar sömu áhættuna (þá er ég tala um þá sem voru með innistæðu umfram 3 milljónir) og allir treystu á sömu forsenduna, þ.e. að bankarnir færu ekki á hausinn.  Í ákvörðun ríkisstjórnarinnar fólst því mikið óréttlæti.  Það var ekki spurt hvort innistæðueigendur gætu þolað eitthvað tap.  Nei, allt var tryggt upp í topp.  Afleiðingin af því varð icesave deilan við Hollendinga og Breta.

Það skiptir engu máli hverju er bjargað, það er gert á kostnað kröfuhafa.  Innistæðurnar voru tryggðar með eignum bankanna, að hluta í formi útlána til innlendra og erlendra viðskiptavina.  Dælt var háum upphæðum inn í peningamarkaðssjóði til að draga úr tapi þeirra sem þar áttu peninga, en samt tapaði fólkið 20-35%.  Tveir hópar sitja uppi með sitt tap:  Hlutabréfaeigendur og skuldarar.  Tap hlutabréfaeigenda hefur orðið þess valdandi að eigendur allra stærstu fyrirtækja landsins eru  gjaldþrota og lífeyrissjóðirnir hafa tapað milli 50-100 milljörðum af eignum sínum. Gleymum því ekki að lífeyrissjóðirnir eru við, þannig að tap þeirra er okkar tap. Hagkerfið er á hliðinni vegna þessa. Viðskiptajöfnuður landsins versnaði um 280 milljarðar á 4. ársfjórðungi 2008 út af þessu.  Hinn hópurinn, þ.e. skuldarar, tapaði á falli krónunnar og verðbólgunni sem fylgdi, eftir að hafa treyst því að spár hagdeildar fjármálaráðuneytisins, Seðlabanka Íslands og greiningadeilda bankanna væru marktækar.  Mér finnst sjálfsagt að öll sparnaðarform njóti sömu verndar.  Í mínu tilfelli er það steinsteypa.  Auk þess er ég sannfærður um það, að þegar menn fara skoða ávinninginn af því að færa niður húsnæðislánin, þá verður hann margfalt meiri en ávinningurinn af því að verja innistæður í því magni sem gert var.  Það verða nefnilega mun fleiri sem njóta niðurfærslunnar en þeir sem högnuðust af því að innistæðurnar voru tryggðar í botn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

Úr Mattheusarguðspjalli, 18. kafla.

23Því að líkt er um himnaríki og konung, sem vildi láta þjóna sína gjöra skil. 24Hann hóf reikningsskilin, og var færður til hans maður, er skuldaði tíu þúsund talentur. 25Sá gat ekkert borgað, og bauð konungur þá, að hann skyldi seldur ásamt konu og börnum og öllu, sem hann átti, til lúkningar skuldinni. 26Þá féll þjónninn til fóta honum og sagði: ,Haf biðlund við mig, og ég mun borga þér allt.' 27Og herra þjónsins kenndi í brjósti um hann, lét hann lausan og gaf honum upp skuldina.

28Þegar þjónn þessi kom út, hitti hann einn samþjón sinn, sem skuldaði honum hundrað denara. Hann greip hann, tók fyrir kverkar honum og sagði: ,Borga það, sem þú skuldar!' 29Samþjónn hans féll þá til fóta honum og bað hann: ,Haf biðlund við mig, og ég mun borga þér.' 30En hann vildi ekki, heldur fór og lét varpa honum í fangelsi, uns hann hefði borgað skuldina. 31Þegar samþjónar hans sáu, hvað orðið var, urðu þeir mjög hryggir og sögðu herra sínum allt, sem gjörst hafði. 32Konungurinn kallar þá þjóninn fyrir sig og segir við hann: ,Illi þjónn, alla þessa skuld gaf ég þér upp, af því að þú baðst mig. 33Bar þér þá ekki einnig að miskunna samþjóni þínum, eins og ég miskunnaði þér?' 34Og konungur varð reiður og afhenti hann böðlunum, uns hann hefði goldið allt, sem hann skuldaði honum.

35Þannig mun og faðir minn himneskur gjöra við yður, nema hver og einn yðar fyrirgefi af hjarta bróður sínum."

Þórður Björn Sigurðsson, 9.3.2009 kl. 00:38

2 identicon

Það finnst mér líka fjársvik ef bankar sem hafa fengið skuldir niðurfelldar, ætla að krefjast fullrar gengis- og vísitölutryggingar af útlánum til fólksins.  Og ríkið ætti að taka á þessu.  Fyrir utan það eru forsendur fyrir bæði gengis- og vísitölutryggðum lánum brostnar vegna óvanalegs falls gengisins og meðfylgjandi verðbólgu, sem hvort tveggja hækkaði lán fólksins óeðlilega.  Eins og þið vitið.  Það er rán að ætlast til að fólkið gjaldi mistaka ríkisiins.  Ríkið sjálft ætti að vera ábyrgt fyrir gengisfallinu og hinni fljúgandi verðbólgu.  Ekki fólkið, ekki heimilin, ekki fyrirtækin.  Það var ekki fólksins verk að stoppa fjármoksturinn úr bönkunum og úr landinu.  Það var verk yfirvalda.

EE elle (IP-tala skráð) 9.3.2009 kl. 12:49

3 identicon

Þú segir "Ég get ekki séð að það sé nokkur munur á því að fólk hefði tapað innistæðum sínum og því að fólk sé að tapa eiginfé sínum í íbúðum sínum".

Ég tala bara fyrir sjálfan mig þegar ég segi að ég hef tapað miklu eigin fé í minni íbúð en mér finnst það í einlægni bara gott.  Fasteignagjöldin eru hætt að hækka og ég ætlaði hvorteðer bara að búa hérna. En ég hefði flutt úr landi ef krónurnar í bankanum hefðu gufað upp.

En betra hefði vissulega verið að selja hana fyrir ári og byrja að leigja.

Valdi (IP-tala skráð) 10.3.2009 kl. 11:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 34
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband