Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2011
7.8.2011 | 23:44
Saga Maríu Jónsdóttur
Fyrir réttum hálfum mánuði skrifaði ég færsluna Draga fjármálafyrirtæki samninga á langinn svo þau geti innheimt hærri vexti og kostnað? um heldur vafasamar aðferðir fjármálafyrirtækja við að draga samninga og uppgjör eins mikið á langinn og hægt er í þeim vafasama tilgangi (að mér virðist) til að geta mjólkað aðeins fleiri krónur út úr viðskiptavininum. Í gær barst mér í hendur viðtal Guðrúnar Helgu Sigurðardóttur við Maríu Jónsdóttur í ritinu Reykjavík, þar sem María lýsir æði furðulegum samskiptum sínum við Landsbanka Íslands hf., NBI hf. og Landsbankann hf. (Vissulega eru NBI og Landsbankinn sitthvort nafnið á sama bankanum.)
Óhætt er að segja að María fari hörðum orðum um bankann í viðtalinu, en hann hefur og vill kalla sig banka allra landsmanna og hefur sett sér siðareglur. Mál hennar er eins ótrúlegt og hægt er að hugsa sér og getur maður ekki annað en velt því fyrir sér hvort þeir sem komið hafa að því af hálfu bankanna hafi gerst sekir um lögbrot og þá brot á 248. gr. hegningarlaga nr. 19/1940. Hinn möguleikinn er að María sé ekki að segja satt og rétt frá, en ég hef enga trú á að svo sé, þar sem hún hefur svo oft greint frá þessu máli á opnum fundum.
Örstutt yfir málavöxtu: María átti einbýlishús sem hún seldi í ársbyrjun 2008. Í febrúarbyrjun fékk hún greiddar út hlutagreiðslu 70 m.kr. í peningum og áttu þessir peningar að notast við uppgjör á áhvílandi lánum. Þar sem skuldir Maríu við Landsbanka Íslands hf. voru nokkrar, þá krafðist bankinn þess að peningarnir færu inn á handveðsbók og áttu þeir að geymast þar í tvo daga. Núna eru liðnir um 42 mánuðir og uppgjörið hefur ekki átt sér stað. Í millitíðinni hafa lánin, bæði hjá Íbúðalánasjóði og Landsbanka Íslands/NBI/Landsbankanum safnað vöxtum og kostnaði, en peningurinn sem Landsbanki Íslands hf. ákvað að færi inn á handveðsbók hefur borið almenna vexti innlánsreikninga. Bankinn hefur að sögn Maríu bakað henni miklu fjárhagslegu tjóni fyrir utan að hún varð að hætta í námi sem hún ætlaði að fara í haustið 2008. Hefur hún, svo dæmi sé tekið, ekki getað fengið sér varanlegt húsnæði. Nú vanskilafólk það fær helst ekki vinnu, hafi það verið utan vinnumarkaðar, þannig að tjón Maríu felst í mörgu meiru en bara að hafa ekki aðgang að peningunum sínum.
Ég ætla ekki að fara út í smáatriði í þessari sögu, en eins og ég benti á í færslu minni um daginn, þá geta það vart talist löglegir og alveg örugglega ekki siðlegir viðskiptahættir að halda viðskiptavinum sínum í gíslingu (eins og María kemst að orði) í langan tíma af óskiljanlegri ástæðu. Hver er tilgangurinn? Ég sé bara einn og hann er að næla sér í aðeins meiri vexti og kostnað. Að blóðmjólka viðskiptavininn. Það var að minnsta kosti tilboðið sem NBI hf. gerði að hennar sögn tveimur árum eftir að bankinn hafði kyrrsett peningana hennar: Gera skal upp lánin miðað við stöðu þeirra í febrúar 2010. Hún átti að taka á sig allan kostnað sem lagst hafði á lánin frá því að bankinn fékk peningana í hendur, þar til uppgjör fór fram. Já, rausnarskapurinn getur verið mikill hjá þessum blessuðu fjármálafyrirtækjum.
Ég er alveg sannfærður um að Landsbanki Íslands og NBI/Landsbankinn líta þetta mál öðrum augum. Líklegast ber bankinn fyrir sig bankaleynd og hann geti ekki tjáð sig um mál einstakra viðskiptavina. Ég skora samt á bankann að gera grein fyrir sinni stöðu í málinu, þ.e. hvernig standi á því að viðskiptavinur hafi þurft að bíða í mörg ár eftir því að frekar einfalt uppgjör færi í gegn um vinnsluferli hjá bankanum.
Hið ótrúlega er, að þessi saga er ekkert eins dæmi. Ég þekki fleiri svona sögur, þó biðin hafi ekki verið 42 mánuðir. Okkur hefur verið talið trú um, að við búum við "nýtt" viðskiptasiðferði, en reyndin er að lítið hefur breyst. Harka fjármálafyrirtækjanna er í reynd mun meiri í dag, en hún var fyrir hrun. Þá voru meiri mannleg heit og mál voru afgreidd hratt og vel. Kannski í einhverjum tilfellum full hratt, en fyrir þann sem bíður er fátt verra til. Einstaklingur sem bíður, hann getur ekki skipulagt framtíðina. Hvað verður á morgun, í næstu viku, næsta mánuði eða á næsta ári? Getur fjölskyldan farið í sumarfrí, hvar verða næstu jól haldin, eigum við húsið eða er það bankinn? Þessi óvissa er versta upplifunin. Um það eru allir sammála sem ég hef rætt við.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.8.2011 | 13:26
Loksins matsfyrirtæki sem segir sannleikann um skuldir Bandaríkjanna en nokkrum árum of seint
Ég hef nú ekki verið hrifinn af matsfyrirtækjunum vegna oft illa rökstuddra skýringa þeirra á lánshæfiseinkunnum Íslands og íslenskra fjármálafyrirtækja. Stóru matsfyrirtækin þrjú hafa líka, að mínu mati, ekki haft kjark og þor til að fella stóra dóma um skuldastöðu Bandaríkjanna og bandarískra fjármálafyrirtækja. Þannig hefur verið ljóst í undanfarin 10 ár hvert stefndi í skuldastöðu alríkisstjórnarinnar bandarísku, undirmálslánin voru svikavara sem markaðssett var með AAA kossi frá matsfyrirtækjunum, AIG tryggingafélagið var með allt of mikla áhættu í tryggingum vegna skuldabréfa, húsnæðislánafyrirtæki Fannie Mae og Freddie Mac voru tifandi tímasprengja og svona mætti lengi telja, en þrátt fyrir það voru allir þessir aðilar og skuldabréf með hæstu mögulegu einkunn frá matsfyrirtækjunum.
Mér fannst ljóst fyrir fjórum árum hvert stefndi hjá ríkissjóði Bandaríkjanna og skrifaði færslu um það í ágúst 2007. Bush yngri hóf skuldasöfnun alríkisstjórnarinnar í nýjar hæðir til að hefna pabba síns og það var vandi sem vatt hratt upp á sig. Allir sem eitthvað skoðuðu stöðuna sáu hvert stefndi, en matsfyrirtækin í meðvirkni sinni héldu lánshæfismatin í hæstu hæðum. Ég man eftir þætti 60 minutes snemma árs 2007 þar sem fjallað var um skuldir alríkisstjórnarinnar. Rætt var við hagfræðinga sem sögðu allt stefna í að það eina sem tekjur alríkisstjórnarinnar myndu duga til væru útgjöld til hermála og greiðslu vaxta. Slá yrði lán fyrir öllum öðrum útgjöldum.
S&P á hrós skilið fyrir að fylgja ekki hinum beljunum í meðvirkni sinni. Ástandið í Bandaríkjunum er grafalvarlegt og hefur þegar raskað jafnvægið í fjármálakerfi heimsins. Lækkun lánshæfismatsins mun líkalega hafa kveðjuverkun, þ.e. stór fjármálafyrirtæki, fjárfestingabankar og fjárfestingasjóðir sem eiga mikið af skuldabréfum alríkisstjórnarinnar munu líklegast líka lækka í lánshæfismati, þar sem verðmætasta eign þeirra er ekki eins örugg og áður. Siðan ætti lánshæfismat fyrirtækja í eigu hins opinbera að lækka til samræmis við matið á ríkissjóði.
Ef menn hefðu haft kjark fyrir 6 árum eða svo að koma með þetta mát, þá hefði margt farið á annan veg. Þá var ljóst hvert skuldasöfnun alríkisstjórnarinnar stefndi með árlegum halla á fjárlögum upp á 500 - 1.200 milljarða dala. Stríðsreksturinn í Írak og Afganistan hefur kostað nokkrar billjónir dala (1.000 milljarðar) frá því að hann hófst og jafnvel farið upp fyrir 1 billjóná góðu ári. Þessu hefur ekki fylgt niðurskurður í öðrum útgjöldum eða auknar tekjur. Bush raunar lækkaði verulega skatta á ríka fólkið, þannig að skatttekjur drógust saman þegar mest var þörfin á peningunum. Matsfyrirtækin horfðu á þetta og sögðu ekki neitt, en skiptu sér aftur af ríkisfjármálum í löndum annars staðar í heiminum. Í mínum huga heitir þetta meðvirkni og ekkert annað. Hvort það fylgir þessu að menn hafi ekki viljað eiga á hættu að tapa viðskiptum, þá geta þessi fyrirtæki ekki látið það trufla sig. Annað hvort eru þau með það hlutverk að segja mönnum frá því sem rangt er gert eða að menn eru ekki í þessum bransa.
S&P lækkar Bandaríkin í AA+ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
3.8.2011 | 11:38
Einkaframkvæmd er lántaka
Ég skil ekki þennan orðaleik að það minnki skuldbindingar ríkissjóðs (eða sveitarfélaga) að setja framkvæmdir í einkaframkvæmd. Í frétt í Fréttablaðinu, sem mbl.is vitnar til, þá er því haldið fram að forsætisráðherra telji of dýrt fyrir ríkið að taka lán og betra sé að fara í einkaframkvæmd. Ég sé ekki muninn á "einkaframkvæmd" lífeyrissjóðanna og því að ríkið selji lífeyrissjóðunum ríkisskuldabréf til að standa undir verkinu. Hvorutveggja þarf að greiða til baka og verum viss um að lífeyrissjóðirnir vilja fá fyrir stofnkostnaðinum. Munurinn í mínum huga, nema um annað er samið, er að ríkið á annars vegar fangelsið, ef það tekur lán fyrir framkvæmdinni, en hins vegar greiðir það fyrir framkvæmdina án þess að eignast fangelsið. Efast ég um að munur verði á greiðslu nema að einkaframkvæmdin verði dýrari.
Ég skil vel að ríkissjóður sé tómur, en hann verður alls ekki minna tómur við einkaframkvæmd. Einkaframkvæmd er í eðli sínu lántaka, sérstaklega ef hún felur í sér að ríkið eignast mannvirkið eftir einhver árafjöld. Slík einkaframkvæmd er ekkert frábrugðin fjármögnunarleigu en eins og fjölmargir vita, þá komst Hæstiréttur að því í fyrra að fjármögnunarleigusamningur, sem felur í sér að leigutaki eignist tækið/bifreiðina í lok "leigutímans", er lánasamningur ekki leigusamningur.
Tvö atriði sem ég næ alls ekki að skilja:
1. Af hverju ættu lífeyrissjóðirnir að vilja lægri ávöxtun af "einkaframkvæmd" en lánveitingu? Ávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna ætti að vera sú sama fyrir hvorutveggja. Ef ekki, þá eru sjóðirnir annað hvort að hlunnfara sjóðfélaga sina eða misnota stöðu sína gagnvart ríkinu.
2. Af hverju ætti skuldbinding vegna "einkaframkvæmda" að líta eitthvað öðru vísi út í ríkisbókhaldi en útgefin ríkisskuldabréf eða lán? Færslan í ríkisbókhaldinu hlýtur að þurfa að lýsa annars vegar næsta árs greiðslum og hins vegar heildarskuldbindingu að frádregnum næsta árs greiðslum. Skuldbinding vegna einkaframkvæmdar þarf að endurspegla heildarkostnað ríkissjóðs vegna framkvæmdarinnar, því allt annað er bara blekking. Skuldbindingin vegna einkaframkvæmdarinnar er til staðar þar til samningurinn hefur verið gerður upp. Sem sagt skuldbinding vegna einkaframkvæmdar hefur á sér öll sömu einkenni og skuldbinding vegna láns eða útgefinna skuldabréfa.
Bent skal á, að það eru skuldbindingar vegna annars vegar einkaframkvæmdar og hins vegar fasteignafélags, sem hafa verið að valda Álftnesingum og Reykjanesbæ vanda. Og hvers vegna? Jú, vegna þess að þetta voru skuldbindingar sem þarf að greiða af eins og um lán væri að ræða.
Rætt um að breyta Víðinesi í fangelsi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 4.8.2011 kl. 01:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Haft var samband við mig um daginn út af sérkennilegum auðkennisþjófnaði. Einhverjir óprúttnir aðilar hafa tekið upp á því að stela facebook aðgangi fólks. Síðan er aðgangurinn notaður til að "læka" þetta og hitt, oft jafnvel eitthvað misjafnt, bæta inn vinum sem réttur eigandinn myndi aldrei samþykkja og síðast en ekki síst bæta athugasemdum frá viðkomandi út um allt.
Ég skil ómögulega tilganginn með þessu. Hverjum dettur í hug að eyða tíma sínum í að skrifa athugasemdir í nafni annars aðila, bara til að skemma fyrir. Þetta er ennþá vitlausara fyrir það, að menn þurfa að hafa fyrir því að vakta hugsanlega nokkra facebook síður, setja inn nýjar öryggisupplýsingar og stofna nýtt netfang fyrir hverja síðu, sem þannig er tekin yfir.
Annars eru svona asnaprik brot á lögum, þar sem það varðar við lög að brjótast inn á persónulegar síður annarra og þykjast vera viðkomandi. Hvort að fólk leggi það á sig að elta uppi svona kjánagang er annað mál. Það er ekki einu sinni, eins og menn séu að monta sig af einhverju.
Eftir að ég var beðinn um að aðstoða fólk sem hafði lent í því að facebook aðgangi þessi var stolið, þá komst ég að því hversu auðvelt það er í framkvæmd. Greinilegt er að pottur er brotinn í öryggismálum hjá facebook. Með því að gefa upp upplýsingar, sem hvers er getur nálgast, þá er hægt að telja þeim hjá facebook trú um að sá sem vill endurstilla aðgangsorð að facebook síðu sé réttmætur eigandi. Síðan er gefið upp netfang, sem endurstillt aðgangsorð er sent á og björninn er unninn. Ok, maður þarf að bíða í 24 klst. Ekki er einu sinni víst að þó réttur eigandi skrái sig inn meðan beðið er, dugi til þess að facebook hafnar beiðni um endurstillingu aðgangsorðsins, ekkert frekar en að réttur eigandi geti endurheimt aðganginn sinn, þó hann veiti allar réttar upplýsingar.
Ég myndi skilja tilganginn með því að eyðileggja fyrir fólki facebook aðganginn, ef eitthvað væri á því að græða. Svo er ekki. Jú, þetta truflar notkun viðkomandi á facebook, en síðan lítið meira. Oftast stofna menn bara nýjan aðgang og byrja að tengjast upp á nýtt. Til að komast í gamla vinalistann, þá er einfaldast að biðja gamla aðganginn um að gerast vinur sinn og maður er kominn í vinalistann. Síðan sendir maður nýja vinabeiðni á vinina og lætur í leiðinni vita að gamla aðganginum hafi verið stolið. Svo fremi sem maður eigi ekki fleiri þúsund vini, þá tekur á að giska eina kvöldstund að endurnýja vinina og kannski tekur maður til í leiðinni. Stóra málið er samt tilfinningalegi þátturinn. Einhverjum datt í hug að ráðast inn á svæði, sem viðkomandi hefur skilgreint sem sitt. Notandinn hefur persónugert svæðið með tengingum við vini, myndum, tenglum, færslu á vegginn sinn og ýmsu öðru. Það er þess vegna sem svona yfirtaka á facebook síðu (eða hvaða öðru persónulegu persónulegu svæði) varðar við lög.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 1
- Sl. sólarhring: 82
- Sl. viku: 276
- Frá upphafi: 1680564
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 35
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði