10.8.2011 | 04:11
Niðurgreiðslur, beingreiðslur og styrkir til landbúnaðar - tilgangur, áhrif og líkar aðgerðir
Öðru hvoru rís upp umræða um að landbúnaður og bændur séu einhvers konar afætur á þjóðfélaginu vegna niðurgreiðslna, beingreiðslna og styrkja sem bændur fá frá ríkinu. Horfa menn þá til upphæðarinnar sem rennur til bænda, en hún mun vera um 10 ma.kr. á þessu ári, og segja hana vera til vitnis um að þennan afætuhátt.
Ég tók þátt í umræðu á Eyjunni um daginn, þar sem þessi mál voru rædd, oftar en ekki í upphrópunum og út frá pólitískum skoðunum, en staðreyndum. Langar mig að gera hér tilraun til að skýra tilgang niðurgreiðslna/beingreiðslna til landbúnaðarins, hvar áhrifin koma fram og benda á aðrar niðurgreiðslur sem tíðkast í þessu þjóðfélagi.
Tilgangurinn með niðurgreiðslum/beingreiðslum
Tilgangur niðurgreiðslu ríkis eða beingreiðslu eða hvað við köllum aðgerðina er fyrst og fremst að tryggja aðgengi að nauðsynlegri vöru eða þjónustu. Þannig hefur þetta fyrirkomulag virkað um allan heim í fleiri áratugi, ef ekki árhundruð. Ekki er um að ræða aðgengi stjórnvalda að vörunni og/eða þjónustunni heldur markaðarins, þ.e. neytenda vörunnar og þjónustunnar. Hér á landi njóta mjög margir aðilar greiðslna úr ríkissjóði eða sjóðum sveitarfélaganna og þó greiðslan til bænda sé myndarleg, þá er hún líklega ekki eins há hlutfallslega miðað við fjölda neytenda og það sem margir aðrir fá.
Niðurgreiðslur geta verið með fjölbreyttu formi. Algengasta formið er einhvers konar beingreiðsla, þ.e. gerður er samningur við þiggjanda greiðslunnar um ákveðna upphæð gegn því að viðkomandi tryggi tiltekið framboð af þeirri vöru eða þjónustu sem á í hlut. Í öðrum tilfellum, þá kaupir ríkið þjónustu langt umfram þarfir, eins og var varðandi áskriftir að pólitískum málgögnum hér í gamla daga. Síðan er óskilyrt greiðsla um þjónustuafhendingu, en miðað er við rekstrarkostnað. Þá er það afkastatengd greiðsla til einkarekinna fyrirtækja sem bjóða almenna þjónustu, t.d. í samkeppni við ríkisrekna þjónustu. Loks eru niðurgreiðslur í formi styrkja.
Áhrif niðurgreiðslna
Lítið fer á milli mála hver áhrifin af niðurgreiðslunum eru fyrir neytendur. Þeir fá aðgang að vöru eða þjónustu á verði sem mun lægra en hefði þurft að greiða ef engar niðurgreiðslur væru til staðar. Þannig er menntun grunnskólabarna að mestu ókeypis í opinberum grunnskólum og skólagjöld hjá einkareknum grunnskólum mun lægri en ef engar greiðslur kæmu frá sveitarfélögunum. Sama á við um leikhúsmiðann eða miðann á tónleika hjá Sinfóníuhljómssveit Íslands, að væri ekki fyrir greiðslur frá ríki og sveitarfélögum, þá væri umfang starfseminnar líklega minni og miðaverð umtalsvert hærra. Afleiðingin er augljós. Færri hefðu efni á að sækja, t.d. tónleika, og færri fengju vinnu hjá hljómsveitinni. Já, þetta eru allt sambærilegar greiðslur og bændur þiggja, þó við lítum þær líklegast öðrum augum.
Stærstu áhrifin af niðurgreiðslum eru á verðlag og hér á landi því á vísitölu neysluverðs. Ef, t.d. Listasafn Íslands, fengi ekki framlög á fjárlögum, þá myndi örugglega kosta margfalt að skoða sýningar safnsins miðað við það sem nú er. Í tilefni 200 ára afmælis Jóns Sigurðssonar kostar ekkert inn á safn Jóns Sigurðssonar að Hrafnseyri við Arnarfjörð. Þarna er ríkið að greiða niður kostnað almennings af því að sækja viðkomandi safn. Með niðurgreiðslu á landbúnaðarvörum er ríkið að leggja bændum til tekjur svo þeir þurfi ekki að krefja um eins hátt verð á afurðum sínum og annars yrði. Áhrifin eru því til lækkunar á kostnaði almennings við kaup vörunnar eða þjónustunnar og þar sem við búum við verðtryggingu húsnæðislána, þá koma áhrifin einnig fram í minni hækkun þeirra.
Önnur áhrif, en alveg eins mikilvæg, eru á launaþróun í landinu. Væru engar niðurgreiðslur á alls konar vöru og þjónustu, þá þyrfti almenningur að hafa mun hærri tekjur til að standa undir útgjöldum sínum. Hluti vöru og þjónustu stæði hreinlega ekki til boða meðan önnur þjónusta hækkaði mikið í verði. Háskólinn í Reykjavík hefur t.d. samning við ríkið um framlög til skólans og nema þau háum upphæðum á hvern nemanda. Þrátt fyrir það greiða nemendur há skólagjöld, en þau myndu hækka verulega, ef framlag ríkisins myndi hverfa. Höfum í huga, að þetta er framlag sem aðeins nokkur þúsund manns njóta, þar sem eingöngu þeir sem sækja nám í skólanum eru með þessu að fá menntun sína niðurgreidda. (Tekið fram að ég er ekki að hnýta í HR eða greiðslurnar til hans.) Nemandinn sem útskrifast frá HR þarf þess vegna ekki að gera eins háar launakröfur að námi loknum vegna þess að ríkið tók þátt í kostnaði við nám hans/hennar. Íbúar Vestmannaeyja (og þeir sem þangað sækja) njóta niðurgreiðslna í ferðum til og frá Eyjum, hvort heldur farin er sjóleiðin eða landleiðin. Væru þessar niðurgreiðslur ekki til staðar væri kostnaður við búsetu í Eyjum hærri, bæði vegna ferðalaga og vegna hærra vöruverðs. Hærri lifikostnaður leiðir til krafna um hærri laun. Óbeinu áhrifin af niðurgreiðslum eru því í reynd lægri launakostnaður, þ.e. segja má að með niðurgreiðslum á vöru og þjónustu sé óbeint verið að greiða niður launakostnað atvinnulífsins og spara í lífeyrisgreiðslum til lífeyrisþega.
Niðurgreiðslur tíðkast í öllum löndum í kringum okkur
Þær niðurgreiðslur sem mest er talað um hér á landi, eru til landbúnaðarins. Eins og ég bendi á, þá eru margar mun fyrirferðarmeiri, en við kippum okkur ekki upp við þær, þar sem við teljum þær vera eðlilegan hluta af velferðarþjóðfélaginu og er ég sama sinnis. Niðurgreiðslur til landbúnaðarins voru ekki fundnar upp hér á landi, langt því frá. Raunar er staðan sú, að líklegast stingur ekki eitt einasta strá upp kollinum í sumum ríkjum hins vestræna heims öðru vísi en að bóndinn sem á landið þar sem stráið gerir sig heimakomið, fái ekki greitt eitthvað með því. Hveiti, sykur, bómull, maískorn og flest annað sem bændum dettur í hug að rækta fær sína styrki úr viðkomandi ríkiskassa. Markmiðið er að tryggja framboð vöru og þjónustu á frambærilegu verði og slá á verðsveiflur sem verða t.d. vegna duttlunga náttúrunnar.
Kornið, hveitið, sykurinn, grasið og fleiri ræktarplöntur er síðan slegið og sett í fullvinnslu ýmist til manneldis eða sem fóður fyrir skepnur. Hvort heldur sem er, þá verða áhrifin þau sömu. Niðurgreidda afurðin verður fyrir vikið ódýrari til neytendanna og þar með lækkar rekstrarkostnaður annars vegar heimilanna og hins vegar hjá bændunum. Lægri kostnaður hjá bændunum leiðir síðan til þess að þeir geta selt skepnur til slátrunar á lægra verði en ella, sem skilar sér í lægra verði til neytenda.
Niðurgreiðslur á útflutning veldur deilum
Það væri nú gott og blessað, ef niðurgreiðslur næðu bara til innanlands neyslu. En svo er ekki. Síðustu áratugi hafa menn rifist um það innan GATT hvernig nota megi niðurgreiðslur á útflutta vöru og þjónustu. Niðurgreiðslunum hefur nefnilega verið beitt til að grafa undan framleiðslu í öðrum löndum. Þannig hafa stáliðjuver í Bandaríkjunum fengið ríkisstyrki (sem er eitt form niðurgreiðslna) til að geta haldið áfram starfsemi sinni og keppt á alþjóðlegum mörkuðum. Þessu hefur ESB svarað með verndartollum svo niðurgreiðslurnar í Bandaríkjunum skekki ekki samkeppnisstöðu stáliðnaðarins innan ESB.
Hér á landi njótum við á verulegan hátt niðurgreiðslna erlendra ríkisstjórna á vöru og þjónustu sem neytt er hér. Bæði væri ýmis iðnaðarvarningur dýrari, ef ekki kæmi itl niðurgreiðslna eða styrkja, og ekki síst væri bara framboð minna. Færri framleiðendur sæu sér hag í því að framleiða vöruna, þar eftirspurn væri minni, a.m.k. miðað við breytt laun.
Hvar nýtist niðurgreiðslan hlutfallslega best?
Þessari spurningu er fljót svarað. Því framar í framleiðsluferlinu sem niðurgreiðslan kemur, því betur nýtist hún hlutfallslega bæði fyrir framleiðandann og neytandann. Fyrir bóndann er best að hráefnið sem hann notar kosti sem minnst, þar sem lágt hráefnisverð hefur m.a. áhrif á fjármagnskostnað fyrir utan að sjálfsögðu mun kostnaður við hverja skepnu minnka verulega.
Staðreyndin er að verðlagning byggist allt of oft á því að leggja ákveðna hlutfallstölu ofan á innkaupsverð. Tökum dæmi um vöru sem kostar x kr. frá framleiðanda. Heildsalinn leggur 100% ofan á vöruna hvort heldur x er 3 kr. eða 3 m.kr. og smásalinn leggur önnur 100% á vöruna. 3 krónurnar hækka því fyrst í 6 kr. og svo í 12 kr., þ.e. fjórföldun í verði. 10 ma.kr. greiðslur til íslensks landbúnaðar gæti því hugsanlega komið í veg fyrir að verð landbúnaðarframleiðslu hækkaði um 40 ma.kr. til neytenda. Sömu 10 ma.kr. sem greiddar væru beint til neytenda dygðu til að bæta þeim upp 1/4 af hækkuninni, en þeir sætu uppi með 3/4 eða 30 ma.kr. sem yrði að sækja í vasa launagreiðenda. Miðað við núverandi skatthlutfall, þá þyrfti launagreiðandinn að hækka launin um líklega 50 ma.kr. svo launþegi hefði 30 ma.kr. til ráðstöfunar. Þannig gætu 10 ma.kr. niðurgreiðsla, sem hætt er við, orðið að 50 ma.kr. aukningu í launakostnaði laungreiðenda og lífeyriskerfisins. Bætum svo við þetta áhrifum hærra matvælaverðs og aukins launakostnaðar á vísitölu neysluverðs og þá hækka húsnæðislánin okkar um tugi, ef ekki hundruð, milljarða.
Umræðan um íslenskan landbúnað
Mér hefur stundum fundist umræðan um íslenskan landbúnað vera á villigötum. Hún hefur snúist um hvað bændur fá í sinn hlut, en ekki hver ávinningurinn er fyrir land og þjóð. Eins og ég bendi á að ofan, þá er auðvelt að sýna fram á að niðurgreiðslur til landbúnaðarins koma margfalt til baka eða eigum við að segja, að falli þær niður, þá mun það kosta okkur neytendur háar upphæðir. Þær gera líka landið samkeppnishæfara hvað varðar ferðaþjónustu og raunar alla gjaldeyrisskapandi starfsemi.
Eðlilegt er og sjálfsagt að gera ríkar kröfur til hagræðingar, vöruþróunar og gæða i íslenskum landbúnaði. Ég held raunar að margt hafi þróast í þá átt undanfarin ár, en vafalaust er frekara svigrúm. Viljum við hins vegar leggja af beingreiðslur til íslenskra bænda, þá verðum við jafnframt að hafna öllum slíkum niðurgreiðslum á innfluttum matvælum. Annars er samkeppnisstaðan ójöfn. Ég er ekki viss um að íslenskir neytendur yrðu sáttir við það að greiða allt í einu þrefalt verð fyrir maísdós og fimmfalt verð fyrir danska kjúklinga (eða hver hækkunin yrði). Innflutt viðbit myndi skyndilega hækka margfalt og sama gerði sófasettið sem gert er úr niðurgreiddum skinnum. Ég held að betra sé að átta sig á afleiðingunum, áður en tekin er sú ákvörðun að leggja niðurgreiðslur til landbúnaðar af.
Áhrifin á launakostnað mest
Mjög margt í þessu þjóðfélagi er, eins og áður segir, niðurgreitt af ríki og sveitarfélögum. Sund, íþróttaiðkun barnanna, strætómiðar, skólakostnaður, leikhúsmiðar, bókasöfn, heilbrigðisþjónusta og svona mætti lengi telja. Í þessa hluti fara árlega milljarðar á milljarða ofan ýmist úr ríkissjóði eða úr sveitarsjóðum. Tilgangur er sá að gera þessa þjónustu aðgengilegri fyrir neytendur. Sama á við um styrki til landbúnaðarins. Hverfi þessar niðurgreiðslur og styrkir, þá munu útgjöld ríkis og sveitarfélagana breytast. Í staðinn fyrir þessi útgjöld, þá mun koma fram krafa um hærri laun frá opinberum starfsmönnum og lífeyrisgreiðslur. Þær kröfur verða síðan til þess (verði orðið við þeim sem er óhjákvæmilegt) að ekki er hægt að lækka skatta eða lækkun þeirra verður umtalsvert minni en nemur lækkun útgjalda til niðurgreiðslna og styrkja. Launþegar á almennum markaði þurfa því að sækja sinn kostnaðarauka til vinnuveitenda sinna, sem ekki geta mætt slíku án þess að velta kostnaðinum út í verðlagið.
Fyrir atvinnulífið eru niðurgreiðslur á ýmsu formi mjög mikilvægar. Samkeppnishæfni þess gagnvart erlendum aðilum byggir m.a. á því að launaumhverfi sé innlendum fyrirtækjum hagstætt. Hvort heldur niðurgreiðslurnar koma í formi styrkja til landbúnaðarins eða sjómannaafsláttar, þá hefur þetta allt áhrif á rekstrarafkomu fyrirtækja. Bara svo dæmi sé tekið af sjómannaafslættinum, þá hefur ekki verið hægt að afnema hann vegna þess að bæta þarf sjómönnum missinn upp í hærri launum. Hvernig heldur fólk þá að atvinnulífið myndi bregðast við, ef allar niðurgreiðslur hyrfu? Eða eru það bara niðurgreiðslur til íslenskra bænda sem eiga að hverfa, en allir hinir eiga að halda sínu?
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (9.9.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 30
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 22
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Sæll Marinó,
Ætla að lesa þetta betur yfir á morgun, en vildi bara bæta við að skv. fjárlögum ESB þá er landbúnaðarhlutinn þar, sem tekur yfir allar greiðslur og markaðsinngrip vegna landbúnaðar, rétt um 50 milljarðar evra á yfirstandandi fjárlagaári. Skv. upplýsingum hér, er beinn stuðningur við bændur í Bandaríkjunum í kring um 30 milljarðar dollara, en skv. Kanadískri skýrslu (sem ég hef því miður ekki fundið, en hef séð talað um hana) þá er talinn að beinn og óbeinn stuðningur við bandarískan landbúnað nemi um 180 milljörðum dollara á ári. Skv. öðrum tölum sem ég fann nýlega þá er talið að um 61 sent af hverjum dollar sem bændur fá í sinn hlut hér í Bandaríkjunum komi frá stuðningi ríkis, fylkja, sýslna og annarra opinberra aðila með beinum eða óbeinum hætti. Þó þessar tölur séu loðnar, þá gefa þær svolitla innsýn inn í hinn "frjálsa" verðmyndunarheim á landbúnaðarvörum hér vestan hafs sem lengi hefur verið í hávegum hafður af íslendingum, sem finnst allt grænna hinumegin við pollinn;)
Kveðja og góða nótt,
Arnór Baldvinsson, 10.8.2011 kl. 06:44
Asssskodans,,,, Fjósalykt er af þessari viðarmiklu grein þinni Marino. Ég held að þú vitir manna best að það þarf hagræðingu hjá bændastéttini, fækka kotrunum og koma á alvöru verksmiðju-búum, það þarf t.d. ekki nema 2-3 mjólkurbú á Norðurlandi til að þjóna landinu öllu og svo nokkur suaðfjárbú á Suðurlandi, á Vestfjörðum og Austfjörðum þarf engin bú en þar eiga men að snúa sér að sjósókn og ferðamennsku o.fl.fl.. Þessar 10.0000.0000.00 (ef þær eru þá til í ríkiskassanum ) sem færa í niðurgreiðslur eiga svo að fara í atvinnu-uppbyggingu og atvinnusókn um land allt, við verðum að auka hagvöxtinn Marino, þú veist það manna best tel ég
Kristinn Jonsson (IP-tala skráð) 10.8.2011 kl. 07:41
Góð grein hjá þér Marínó að vanda, þótt ekki sé ég þér fullkomlega sammála.
Mín skoðun hefur ætið verið sú að alífuglaeldi og svínaeldi eru í raun iðnaðarframleiðsla, þar sem korn er flutt inn í stórum stíl. Þessar greinar ættu því að geta verið reknar í samkeppni við ekki niðurgreiddan innflutning.
Hvað mjólk og sauðfjárrækt viðvíkur eru þetta þjóðlegar greinar en það þarf að vera krafa um framleiðni og fáránlegt að flytja niðurgreiddar afurðir til útlanda. Þetta ætti í raun að vera fyrir heimamarkað.
Það er gríðarlegur halli á ríkisútgjöldum og vaxtagreiðslur eru núna þriðji stærsti útgjaldaliðurinn en getur ennþá hækkað og var í fyrra um 19% og þetta gæti snarhækkað innan skamms og þarf ekki mikið útaf aðbregða.
Auðvitað átti að ráðast í niðurskurðarferlið strax við hrun en núna er búið að vefja þjóðfélaginu inn í 500 miljarða skuldir vegna þess að lifað er fram um efni fram frá hruin og 80 miljarðar í atvinnuleysisbætur. Það ber ekkert á aukinni hagræðingu í bankakerfinu sem liggur á þjóðfélaginu eins og mara og sogar lífskraft úr því.
Skjaldborgin var "fake" byggð á innistæðulausri óskhyggju um að þjóðnýta skuldir í hámarki innistæðulausrar eignabólu. Vextir byggjast að grunni af áhættu og þeir munu þurfa að snarhækka til að byggja undir krónuna ef tekst að koma henni á flot. Það er búið að loka dyrum, gluggum og þétta fyrir og súrefnið er að klárst, allar foresendur byggjast á vexti en því miður hagkerfið er að minnka og spái 7 mögrum árum en því miður menn hafa verið allt of seinir að skera niður ríkið og vafið okkur í skuldir þanning að svigrúmið er í raun farið, málum hefur verið klúðrað og viðbúið að íslenska hagkerfið þurfi að skrapa botninn í langan tíma.
Gunnr (IP-tala skráð) 10.8.2011 kl. 09:12
Sæl Marinó og þakka þér fyrir góða og skilmerkilega grein. Vonandi síast inn í huga fólks að niðurgreiðslur í landbúnaði lækka vöruverð og bæta almennt lífskjör almennings en eru ekki aumingjastyrkir til bænda. En það virðist vera í tísku þessi misserin að tala niður til bænda og gera lítið úr þeim samanber innlegg Kristinns hér að ofan. Fólk sem deilir hans skoðunum horfir nú ekki mikið lengra en niður á tærnar á sér.
Sigurður Baldursson, 10.8.2011 kl. 09:53
Gæti eiginlega ekki verið meira mótfallinn þessum rökum.
Vil fyrst segja að mér finnst ekki rétt að blanda saman niðurgreiðslum/styrkjum til fyrirtækja eða atvinnugreina annars vegar og almennra félagslegra réttinda hinsvegar eins og ókeypis skólagöngu barna.
Niðurgreiðslur á vöru eða þjónustu gerir það eitt að flytja fjármuni frá þeim sem ekki nýta sér þjónustuna til þeirra sem það gera. Þetta á bæði við landbúnaðarvörur og sinfóníuhljómsveitina. Niðurgreiðslan er í engu skilyrði fyrir því að varan eða þjónustan sé í boði, aðeins hver borgar kostnaðinn.
Niðurgreiðslur færa framleiðsluþætti (fólk, fjármagn) úr hagkvæmum rekstri (sem þarf ekki niðurgreiðslur) yfir í óhagkvæmar (sem þurfa niðurgreiðslur).
Landbúnaður er einmitt gott dæmi. Þrátt fyrir allan stuðning við landbúnaðinn sitjum við uppi með dýrar vörur (þegar tekið er tillit til kaupmáttar), fátæka bændur, óhagkvæma atvinnugrein sem tekur til sín of stóran hluta landsframleiðslu mv. framleiðsluverðmæti, einsleitt úrval í verslunum, innflutningshöft á landbúnaðarvörum og skert matvælaöryggi vegna innræktunar og einangrunar íslenskra húsdýra (ein lítil kvefpest getur nánast lagt íslenska hestinn að velli !!!).
Hvað er eiginlega GOTT í íslenska landbúnaðarkerfinu ? (tek fram að ég set meira að segja ? við hin meintu gæði íslenskra landbúnaðarafurða).
Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 10.8.2011 kl. 10:00
Hallo hallo Sigurður Baldursson. Ég tala ekki niður til bænda, mér þykir vænt um það harðduglega yndislega fólk, sjálfur er ég úr bóndasonur úr fallegri sveit, til áratuga. Ég er bara að benda á að það þarf hagræðingu og fækkun búa, fækka kotrunum, ég man t.d. þegar heyhleðsluvagnin ruddi sér rúm og nú rúllubindivélin og öll sú hagræðing sem þessu fylgdi. Og eitt í lokinn Sigurður; eitt kryddlegið lambalæri kostar 6-8000 út úr búð, þetta heiftarlega óðgeðfelda verð fyrir lambalærið, þarf að þéna 10-11000 fyrir skatta. Og svo á eftir í raun að bæta við ósýnilegu niðurgreiðsluverðinu per kg. Þetta nær bara ekki nokkurri átt...... þetta hlýtur hver heilvita maður að sjá.............. p.s ég mun aldrei talað niður til bænda
Kristinn Jonsson (IP-tala skráð) 10.8.2011 kl. 10:27
Takk fyrir viðbrögðin.
Gunnr og Magnús, ég segi það sjálfur að gera skal kröfu um hagræðingu, þróun og gæði. Að því leiti er enginn munur á því sem við segjum nema þið notið önnur orð.
Magnús, er það ekki félagslegt réttlæti að fólk geti keypt matvöru á hagstæðu verði? Hver er munurinn á því að geta fætt sig án þess að stofna fjárhagnum í voða og að geta menntað sig á sömu forsendu eða notið heilbrigðisþjónustu? Ég sé hann ekki. Út um allan heim hefur matvælaverð hækkað svo mikið að víða líður skort af efnahagslegum ástæðum. Sumar ríkisstjórnir hafa brugðist við með niðurgreiðslum svo almúginn hafi efni á að kaupa matvælin. Ekki segja mér að kaupa matvæli á viðráðanlegu verði teljist ekki til mannréttinda. Annars staðar í heiminum hefur fólk ekki efni á heilbrigðisþjónustu og þurfum við ekki annað en að taka tannlæknaþjónustu á Íslandi sem dæmi. Tannlæknar hafa ítrekað óskað eftir þátttöku ríkisins í kostnaði við tannlæknaþjónustu, en ekki orðið ágengt. Hvað er kostnaðarþátttaka annað en niðurgreiðsla?
Ég er ekki að taka upp hanskann fyrir bændur á einn eða neinn hátt, heldur að reyna að fjalla um tiltekið málefni með þeim rökum sem ég sé eiga við. Svo það sé á hreinu, þá er ég hins vegar hlyntur því að matvælaframleiðsla haldist í landinu og hún anni sem mestri innanlandseftirspurn. Allt annað finnst mér glapræði og gera okkur um of háð erlendum þjóðum og nóg erum við háð þeim með ýmis aðgöng.
Marinó G. Njálsson, 10.8.2011 kl. 10:43
Halló Kristinn. Fyrirgefðu Marinó að ég skuli nota bloggið þitt til að svara Kristni. Lambalærið sem þú keyptir á 6-8000 krónur úr búðinni, seldi bóndinn á ca 4-500kr í sláturhúsið.. Hver heldur þú að hafi stungið mismuninum á sig.?? Ekki blanda saman greiðslum til bænda og ofurálagningu í verslunum.
Sigurður Baldursson, 10.8.2011 kl. 12:15
Jú..ég tel það vera hluti af félagslegu hlutverki samfélagsins að sjá til þess að fólk hafi í sig (og á) og að það sé hlutverk ríkisvaldsins að sjá til þess að svo sé. Þessvegna borga ég skatta.
En til þess að ná fram þessu markmiði þarf ekki niðurgreiðslur á innlendri framleiðslu landbúnaðarafurða til. Þetta er hægt að gera í gegnum skattkerfið með beinum styrkjum til fátækra fjöldskyldna, láglaunabótum, hærri persónuafslætti, barnabótum osfrv.
Við sjáum t.d. að þessu markmiði væri eiginlega best mætt með því að gefa innflutning MATVÆLA frjálsan (það er fleira matur en feitt ket einsog þar segir). Það myndi tryggja rétt framboð af fjölbreyttum mat á því verði sem er hagstæðast á hverjum tíma.
Íslendingar eru algerlega háðir innflutningi matvæla. Við flytjum inn u.þ.b. 50% af þeim hitaeiningafjölda sem við þurfum, eiginlega allt í formi kolvetnis vegna þess að Íslendingar framleiða nánast eingöngu prótein og bönnum innflutning á erlendu próteini nema þar sem við erum samkeppnishæf, þ.e. fisk. Enda er eiginlega enginn fiskur fluttur inn heldur.
Að tala um að við getum verið sjálfum okkur næg um matvæli er firra og ef innflutningur matvæla leggst af vegna t.d. stríðs myndi öll þjóðin svelta. Hugsanlega gæti fiskurinn bjargað okkur frá mannfelli en það er erfitt að ná til hans frá ströndinni því væntanlega er engin olía til heldur. Það tæki okkur ca. 6 mánuði að stinga síðustu rollunni úr tönnunum og hvað þá?
En ég er kominn mílur út fyrir umræðuefnið...
Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 10.8.2011 kl. 14:42
Magnús, með fullri virðingu, þá hef ég hvergi séð einkaframtakið halda á lofti merkjum félaghyggju. Yfirleitt alls staðar, þar sem slíkt frelsi hefur verið gefið hefur tvennt gerst: a) verð hefur hækkað; b) þjónusta hefur versnað. Ég kannast ekki við að verð á innfluttri vöru sé lág hér á landi þó hún sé ekki háð neinum höftum. Hvers vegna ætti það að vera þannig með landbúnaðarvörur?
Hvað heldur þú, Magnús, að smásala minnki kostnað sinn mikið á því að mega skila vöru sem er kominn fram yfir síðasta söludag? Ekki fengju þeir að gera það, ef mjólkin væri innflutt, svo mikið er víst.
Merkilegt að þú skulir fara út í þessa umræðu um fæðuöryggið, því ekki gerði ég það, og koma með rök gegn því að hægt sé að nálgast fiskinn þar sem engin olía sé til. Þú heldur sem sagt að það verði til olía til að flytja matvælin yfir hafið, en ekki af miðunum í land! Þó er það mun skemmri vegalengd og metanól er framleitt í landinu.
Landbúnaður snýst um fleira en rollur, svo mikið er víst.
Marinó G. Njálsson, 10.8.2011 kl. 15:22
Ég efast ekki um að hægt sé að hagræða í landbúnaðarmálum hér á landi og sjálfsagt full ástæða til að gera það með einum eða öðrum hætti, en það eru nokkur atriði sem vefjast svolítið fyrir mér í umræðunni um bændur,styrki og matvælaverð:
Geta íslendingar frekar komist hjá því að styrkja sinn landbúnað en aðrar þjóðir sem við erum í viðskiptum við?
Eins og fram hefur komið kaupum við olíu og áburð til landsins, en ef lokast fyrir olíuinnflutning, þá hef ég frekar trú á að við gætum notað þann lífræna áburð og innlenda orku sem til fellur og haldið áfram að framleiða mat án innflutts áburðar, en að sækja okkur mat til annarra landa án eldsneytis á skip og flugvélar.
Viljum við lifa á eyju langt út í hafi án þess að hafa nokkra möguleika á að bjarga okkur um mat ef við, einhverra hluta vegna, einangrumst um einhvern tíma?
Svo er það matarverðið?? Bara á höfuðborgarsvæðinu er nægilega mikið verslunarpláss til að þjóna a.m.k. 10x fleira fólki en býr á landinu öllu, er ætlast til þess að við trúum því að það kosti ekkert eða að verslunarrekendur taki að sér af góðmennsku einni gagnvart neytendum að standa sjálfir undir þeim kostnaði sem stafar af offjárfestingum í verslunarhúsnæði? Fer ekkert af þeim kostnaði út í verðlagið? Er hátt verð bara "helvítis bændamafíunni" að kenna?
Dagný (IP-tala skráð) 10.8.2011 kl. 17:09
Velti fyrir mér hvort Marinó hafi haft með í huganum hvort þessir 97 miljarðar sem ríkið er að greiða í vexti séu líka amk. að hluta til niðurgreiðsla fyrir einhvern.
Við gætum hæglega greitt 107 miljarða í vexti ef við hættum að styrkja landbúnaðinn og bættum því við þessa 97 ma. styrk. Eða að hluta til styrk.
Kristján Sigurður Kristjánsson, 10.8.2011 kl. 20:26
Kristján, ef þú getur ekki tekið þátt í umræðu án útúrsnúninga, þá áttu að sleppa því að taka þátt.
Marinó G. Njálsson, 10.8.2011 kl. 22:57
Jæja! Það er þá útúrsnúningur að fullyrða að ríkið sá að greiða niður einkaskuldir.
Kristján Sigurður Kristjánsson, 10.8.2011 kl. 23:03
Það er útúrsnúningur á umræðunni sem er í gangi á þessum þræði að blanda vaxtagjöldum ríkissjóðs inni í hana.
Marinó G. Njálsson, 10.8.2011 kl. 23:05
Umræðan hér að ofan er hjá sumum byggð á miskilningi og vanþekkingu. Einn segir að svína og kjúklingaræktin ætti að geta keppt við óniðurgreiddann innflutning þeirra vara. Fyrir það fyrsta þá er hvergi framleiddar slíkar slíkar vörur í löndum hins vestræna heims án ríkisstyrkja og styrkur við þær greinar hér á landi er mun lægri en t.d. Danmörku.
Ég skildi grein Marinós þannig að hann væri að benda á að niðurgreiðslur, hvort sem er vegna landbúnaðar eða annars, séu hagstjórnartæki sem flest vestræn ríki beita. Að með því að niðurgreiða hluti og þá helst sem næst frumframleiðslunni, gæfi besta raun og skapaði mestann hagnað.
Fáir hafa rætt þetta í athugasemdunum, heldur er hrópað gegn landbúnaðnum og hann gerður að einhverju illu. Talað um "fjósalykt".
Það er ekkert í grein Marinós sem mælir gegn frekari þróun í landbúnaði. Þó landbúnaðurinn sé sennilega sú atvinnugrein sem lengst hefur gengið í þróun og framsækni, undanfarin tuttugu til tuttugu og fimm ár, má þó alltaf gera betur.
Það má endalaust deila um hvort og þá hvað skuli niðurgreitt, en við verðum þó alltaf að miða við aðstæður hverju sinni og ekki síður samanburð við önnur lönd. Ef ákvörðun er tekin um að hætta niðurgriðslu einhverrar vöru er hætt við að framleiðsla hennar leggist af, enda ekki hægt að keppa við sömu vöru niðurgreidda af öðrum þjóðum. Það er þó alsendis óvíst að við fengjum þær vörur keyptar hingað til lands á niðurgreiðsluverði, sérstaklega eftir að framleiðslu vörunnar hefur verið hætt hér á landi. Þá eru meiri líkur á að þau lönd sem við myndum kaupa vöruna af verðlegðu vöruna til okkar á framleiðsluverði.
Gunnar Heiðarsson, 10.8.2011 kl. 23:30
Þá benda þeir, sem vilja einangra þessa umræðu við landbúnað, á að til að halda uppi landbúnaði hér á landi, þurfi að flytja inn svo og svo mikið af hráefni og rekstrarvörum. Þetta er vissulega rétt en eftir stendur að sjálf framleiðslan fer fram hér á landi og til viðbótar við það sem er flutt inn til hennar, þarf innlenda orku, landrými, verkkunnáttu og vinnuafl. Þetta er allt innlennt og leiðir af sér virðisauka og gefur þjóðfélaginu tekjur.
Því hlýtur alltaf að vera ódýrara, til lengri tíma litið, að framleiða það hér á landi sem við notum, ef hægt er og landbúnaðarvörur getum við sannarlega framleitt. Auk þess að vera hagstæðara þá er hvert kíló af kjöti sem framleitt er hérlendis og hver líter af mjólk hluti af því fæðuöryggi sem allar þjóðir leggja mesta áherslu á. Að vera háður öðrum þjóðum um matvæli er eitthvað sem engin þjóð kærir sig um.
Gunnar Heiðarsson, 10.8.2011 kl. 23:45
Takk fyrir innlitið, Gunnar. Rétt er það að ég hefði kannski átt að klæða greinina í búning lærðramannahugtaka, þ.e. tala um hagstjórnartææki og þess háttar. Ég gerði það viljandi að sneiða hjá því.
Ég held að fólki muni hrökkva í kút yfir kostnaðinum, ef niðurgreiðslur til landbúnaðar legðust af. Tala nú ekki um ef landbúnaður yrði aflagður hér á landi og allt yrði flutt inn í staðinn. Átta menn sig ekki á því að allt sem er framleitt hér á landi sparar gjaldeyri og ekki er eins og við eigum nóg af honum. Verðbólgan sem fylgdi myndi hækka lán heimilanna um nokkur hundruð milljarða, vöruverð myndi hækka og kaupmáttur rýrna um tugi prósenta nema launagreiðendur tækju á sig rögg og hækkuðu launin um tugi prósenta.
Marinó G. Njálsson, 11.8.2011 kl. 00:22
Þakka þér fyrir Marinó. Greinin er frábær og kemur á réttum tíma.
Snorri Hansson, 11.8.2011 kl. 01:47
Nokkur augljós atriði (sem ekki eiga bara við landbúnað).
Þegar framleiðsluþáttum er stýrt með niðurgreiðslum úr hagkvæmum greinum í þær sem eru minna hagkvæmar (eða hreinlega óhagkvæmar) þá EYÐAST verðmæti. Þau sparast ekki, færast ekki til eða nokkuð annað, þau hreinlega eyðast, koma engum að gagni og gera þjóðfélögin sem þessa iðju stunda fátækari en þau væru ella.
Þetta á við um landbúnaðinn...við erum með of mikið af fólki og fjármunum bundið í grein sem skapar minni verðmæti en það gæti gert ef það væri að vinna í annarri grein. Og því er tómt mál að tala um "gjaldeyrissparnað" í sömu setningu og landbúnaður því við gætum, ef við vildum, nýtt þetta fólk og fjármuni í greinum sem í raun og veru búa til gjaldeyri, t.d. ferðamennsku, fullvinnslu sjávarafurða, já eða álvinnslu. Í þessum greinum myndi fólkið búa til meiri gjaldeyri en við þyrftum á að halda til þess að flytja inn matvælin og við værum því í nettó gróða.
Fyrir utan það að auðvitað mun íslenskur landbúnaður ekkert leggjast af. Hann mun breytast...og batna...en ekki leggjast af.
Getur íslenskur landbúnaður keppt án niðurgreiðslna vegna þess að aðrar þjóðir niðurgreiða ? Afhverju ekki ?!?...íslendingar niðurgreiða ekki fiskveiðar, þeir LIFA á þeim! Allar aðrar þjóðir moka peningum í fiskveiðar sínar með sömu rökum og íslendingar moka peningum í landbúnað. Og hafa uppskorið óhagkvæmni (sbr. íslenskan landbúnað), offjárfestingu (sbr. íslenskan landbúnað) og ofnýtingu (sbr. íslenskan landbúnað). Að það VERÐI að niðurgreiða og styrkja er huglæg meinloka en ekki raunveruleg þörf.
Nokkir punktar:
Frjáls markaður var "fundinn upp" til þess að leysa "vandamálið" um framleiðslu, dreifingu og sölu landbúnaðarafurða. Þetta átti sér stað fyrir 4000 árum hjá Súmerum. Markaðstorgið varð til, borgin varð til í kringum markaðstorgið, sérhæfni spratt upp og mannkynið lagði á stað þangað sem það er í dag. Frjáls markaður sá um þetta "vandamál" án styrkja eða niðurgreiðslna í 3950 ár og "vandamálið" varð til í huga stjórnmálamanna sem voru að kaupa sér atkvæði landsbyggðarfólks fyrir 60 árum. Við eigum að vita betur nú orðið...
Matvælaöryggi. Ef við getum ekki flutt inn mat þá getum við líklega ekki flutt inn aðföng til matvælaframleiðslu, t.d. olíu, tæki, áburð, lyf og vörur til geymslu matvæla (freón osfrv.). M.ö.o. við myndum færast aftur á tíma sjálfsþurftarbúskapar þegar landið gat brauðfætt 50-60þ manns. Þetta er hinn grimmi veruleiki sem blasir við. Því held ég að það hljóti að vera íslendingum kappsmál að stuðla að sem frjálsustum viðskiptum með landbúnaðarvörur og vona að fyrir þann krana skrúfist aldrei. Það er okkar eina von...fyrir utan risastórar matvælaskemmur fullar af matvælum (erlendum væntanlega því kornvörur geymast best og ódýrast)
Niðurgreiðslur og innflutningartakmarkaðnir eru jú hagstjórnartæki og hefur verið strangast beitt hjá löndum þar sem "hollur er heimafenginn baggi" stefnan er virkust, t.d. Norður-Kóreu, Kúbu og Rúmeníu Sáseskús.
Virðisauki á sér ekki stað við notkun innlendra framleiðsluþátta nema hagnaðurinn af notkuninni sé meiri en sem nemur fórnarkostnaðinum við það að nota framleiðsluþættina ekki annarsstaðar. Við erum að "fórna" framleiðsluþáttum í landbúnaði...
Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 11.8.2011 kl. 10:10
Magnús, ég held að það gæti misskilnings hjá þér með eitt og annað í þessu svari þínu:
Gjaldeyrissköpun á einum stað kemur ekki í staðinn gjaldeyrissparnað á öðrum stað, sérstaklega þegar óöryggi er í kringum gjaldeyrissköpunina, en öryggi er í kringum gjaldeyrissparnaðinn.
Bændur eru þegar á kafi í ferðaþjónustu.
Ferðaþjónusta er láglaunagrein og er því ekki að gefa nægilega mikið af sér til þeirra sem vinna í greininni.
Munurinn á fiskveiðum og landbúnaði er að hér á landi höfum við mikla sérstöðu varðandi fiskveiðar en enga varðandi landbúnað. Fiskveiðar annarra þjóða í kringum okkur eru ekki að anna eftirspurn, en það gerir landbúnaðurinn hins vegar.
Það má alltaf deila um hvort grein er hagkvæm eða ekki. Af hverju segir þú að landbúnaður sé ekki hagkvæmur? Ertu að halda því fram að það felist ekki hagkvæmni í því að framleiða mjólkurvörur og setja á markað nýja og ferska vöru, fyrir utan allt hagræðið. Telst það hagkvæmt að flytja vöru yfir hafið, þannig að á hana leggist himinhá flutningsgjöld umfram það sem leggst á innlenda framleiðslu.
Með sömu rökum og þú notar, þá ættum við að leggja af alla sérhæfingu í heilbrigðisþjónustu, þar sem hægt er að fá hana ódýrari annars staðar.
Varðandi öryggisþáttinn, þá er að aðfangakeðjan (supply chain) er ekki sterkari en veikasti hlekkurinn, en þú lætur þetta hljóma eins og engin aðföng muni berast í fjölda ára. Ekki bila allar vélar í einu og hægt er að nota eina vél sem varahluti í margar. Eldsneytisframleiðsla er þegar hafin hér á landi og auðvelt er að forgangsraða hverjir fá það til notkunar. Rafknúin tæki nota innlenda orku. Matvæli koma ekki bara frá landsbúnaði heldur einnig fiskveiðum. Ég er hins vegar sammála þér að það sem mun stöðva matvælaframleiðslu (a.m.k. ef fylgja á lögum og reglum) er hreinlæti í sláturhúsum og síðan það sem þú nefnir ekki, þ.e. umbúðir eða öllu heldur skortur á þeim. Þetta með freonið er hægt að leysa á ýmsan hátt.
Það er gott að rifja upp gamlar sögur, en heimurinn er ekki svona í dag. Falli niður flutningar milli Íslands og umheimsins, þá getum við átt von á að því að frjálsi markaðurinn taki við sér aftur, þar sem hver mun reyna sem best getur að bjarga sér. Þá verður það hestafólk sem verður í bestri aðstöðu, þeir sem eiga góð hjól og farartæki drifin áfram af rafmagni eða metanóli.
Marinó G. Njálsson, 11.8.2011 kl. 10:45
Enginn misskilningur...
Það getur enginn unnið á 2 stöðum í einu, þ.e. á sama tíma...þannig getur sami einstaklingur ekki unnið sem bóndi og sparað gjaldeyri og verið á sama tíma að sinna ferðaþjónustunni og aflað gjaldeyris. Það væri hagkvæmast að hann sinnti eingöngu því starfi sem annaðhvort sparar meira en hitt sem aflar eða aflar meira en hitt sem sparar. Hann ætti að einbeita sér að ferðaþjónustunni.
Þetta er ein af grundvallarreglunum í hagfræði um hlutfallslega yfirburði. Við höfum ekki hlutfallslega yfirburði á aðrar þjóðir í framleiðslu landbúnaðarafurða (og afhverju svo er er rannsóknarefni..ódýrt land, vatn, orka, laun osfrv). Við höfum hreinlega einokun þegar kemur að ferðamennsku til Íslands...
Landbúnaður er líka láglaunagrein...það eru þó greidd hærri laun í ferðaþjónustu en landbúnaði.
Það er ekki meira óöryggi í öflun gjaldeyris í útflutningsgreinum en í sparnaði gjaldeyris með innlendri framleiðslu. Ef svo væri þá ættum við einfaldlega ekki að stunda útflutning...það er svo óöruggt.
Það er enginn eðlismunur á fiskveiðum erlendra þjóða vs. íslendinga. Eini munurinn er sá fjöldi einstaklinga sem auðlindina nýtir...við erum fá sem nýtum litla auðlind...þau eru mörg sem nýta stærri auðlind. Það nebbla gleymist oft að fiskveiðiauðlind íslendinga er einungis stór í hlutfalli við fjölda íslendinga...en ekki í hlutfalli við neitt annað. Noregur..einn og sjálfur...ræktar meira af laxi en við veiðum af bolfiski.
Íslenskur landbúnaður er óhagkvæmur vegna þess að við erum með stærri hluta mannafla okkar (og fjármuna) bundinn í landbúnaðarframleiðslu en aðrar þjóðir (en erum samt ekki sjálfum okkur nóg). Skýrsla á eftir skýrslu til sem sýnir þetta....
Auðvitað fylgir því kostur að setja á markað nýja og ferska vöru sbr. mjólk. Þessvegna held ég að íslenskur landbúnaður muni ekkert leggjast af þó niðurgreiðslur og millifærslur og uppbætur og beingreiðslur og styrkir og hvað þetta allt saman heitir leggist af. Mér alveg sama þó ég borgi 4000 kall fyrir lambalærið sem ég borga 2000 kall fyrir í dag. Ég myndi samt aðeins leyfa mér það 2svar á ári.
Íslensk heilbrigðisþjónusta er hagkvæm vegna þess að við erum með minni hluta mannafla okkar (og fjármuna) bundinn í heilbrigðisþjónustu en aðrar þjóðir en njótum samt sambærilegs heilbrigðis. Skýrsla á eftir skýrslu til sem sýnir þetta.... M.ö.o...við getum ekki fengið ódýrari heilbrigðisþjónustu erlendis (við sambærilegum gæðum) einsog við fáum heima. Heilbrigðisþjónusta er reyndar óniðurgreidd útflutningsgrein...augnaðgerðir og brjóstastækkanir.
Dittó t.d. skólakerfið (smá spurning með gæðin þó)
Öryggisþátturinn. Sviðsmyndin sem þú ert að lýsa er bara "slow death" útgáfan af minni.
Sammála síðustu setningunni þinni nema ég öfunda hestamennina ekkert meira en aðra því við munum éta hestana líka....svo hnakkana
Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 11.8.2011 kl. 12:04
Magnús,
Hvar ætlar þú að finna óniðurgreiddar landbúnaðarvörur til að keppa við óniðurgreiddar íslenskar landbúnaðarafurðir? Hvar er "frelsi" í viðskiptum með landbúnaðarvörur? Ekki í Evrópu og ekki í Norður Ameríku. Beggja vegna Atlandshafsins er óhemju fjármunum varið í vernd landbúnaðarframleiðslu.
Kveðja,
Arnór Baldvinsson, 11.8.2011 kl. 13:49
Þau rök að ein helsta hættan fyrir íslenskann landbúnað sé að ef innfluttningur falli niður af einhverjum ástæðum, þá muni landbúnaðurinn hrynja, er vægast sagt barnalegur.
Hvernig í ands... á að flytja inn matvöru ef innfluttningur stöðvast og hvað með allt annað í landinu.
Eru menn virkilega svo vitlausir að halda að landbúnaðurinn einn sé háður innflutningi?
Hvað með þær greinar sem halda uppi gjaleyrissköpuninni, stóriðja og fiskveiðar? Þessar greinar eru að öllu leyti háðar innfluttningi, en landbúnaðurinn gæti tórað ótrúlega lengi þó allir flutningar til landsins stöðvist.
Þá er einna helst að skilja á flutningi þessara manna að íslenskur landbúnaður geti með einhverjum hætti einn stöðvað innflutninginn. Hvernig má það vera?
Gunnar Heiðarsson, 11.8.2011 kl. 22:40
Sæll marínó, beingreiðslur munu vera nálægt 11 milljörðum í ár. Heildarstuðningur við landbúnaðinn 2010 var 13.6 milljarðar en Ísland er hæst miðað við Oecd. Samkvæmt búvöru samningi er greitt 6000 krá hvert ærgildi. Heildarfjöldi ærgilda er ca. 360000 í landinu öllu. Framleiðslumagm bendir til þess að framleiðslumagn sé talsvert meir en ærgildi(ca. 18 kílo)en beingreiðsla á einingu minnkar eftir því sem bændur framleiða meira. Auk þess fá bændur álagsgreiðslur vegna gæðamats. Beingreiðsla er framleiðslustyrkur óháð magni en ef magn fer niður fyrir ákv. lágmark skerðast greiðslur. Hvernig lítur nú malið út í hnotskurn? Áður en neytendur kaupa landbúnaðarvörur hafa þeir þegar greitt 11 milljarða til að lækka framleiðslukostnað bænda, verð á vörunni og fjölmargar vísitölur sem hafa áhrif á lánakjör og fleria.Neytendur kaupa síðan dýrustu landbúnaðarvörur í Evrópu miðað við kaupmátt. Þegar bændur hafa fengið sitt skilaverð eru þeir lausir allra mála. Við taka sláturleyfirhafar og kjötvinnsla. Þeir eiga kjötið og koma því til verslana hérlendis og erlendis.Allir aðilar allt til neytenda bæta við verð vörunnar og ríkið fær sinn vks.Nú hefur neysl á kindakjöti minnkað mikið innanlands og með hruni kr´æonunnar og hækkandi verði á erlendum mörkuðum verður útflutningur æ fýsilegri kostur. Raunverð hækkar um 50% á 3 árum. Hagnaðurinn af sölunni rennur til sláturleyfishfa sem vegna beingreiðslna fá kjöt á lágu verði en selja á háu verði erlendis. Þetta sjá bændur og vilja hækka sitt skilaverð.
Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 12.8.2011 kl. 07:28
Takk fyrir góða grein og greiningu Marinó.
Við hana er litlu að bæta, hún segir allt sem þarf um samhengi ríkisstyrkja og velferðar almennings.
Magnús Birgisson er á villigötum eins og allir þeir sem líta á landbúnað sem ,,málaflokk" - eitthvað sem hægt sé að sleppa, maður lokar bara á sveitabæjum, eins og að loka skólum, pósthúsum, bönkum og deildum á sjúkrahúsum vegna hagræðingar. Hætta þessum landbúnaði og gera eitthvað annað í staðinn.
En Magnús minn Birgisson, hér eru fréttir handa þér: Allur innflutti maturinn sem þú borðar (fyrir utan sjávarfang) ER landbúnaðarvörur. Hvert einasta grjón, kaffibaun, súkkulaðikex eða tómatssósudropi er úr landbúnaði.
Af öllum ,,málaflokkunum" sem fjallað er um er landbúnaður sá eini sem er lífsnauðsynlegur. Meira að segja Magnús getur ekki lifað án matar, án landbúnaðar sem sagt.
Af öllum þessum matvælum sem við flytjum inn eru engir tollar á yfir 80% af því sem við setjum í körfuna. Það er bara frjáls verslun með allt haframjölið, ávaxtasafann, maísinn, pasta, Jamie Oliver og hvaðeina. Finnst Magnúsi þessar vörur vera ódýrar?
Berglind Hilmarsdóttir (IP-tala skráð) 12.8.2011 kl. 13:00
Ég er að hugsa um að fara að framleiða sykur á Íslandi. Rækta sykurreyr í gróðurhúsum. En til að þetta borgi sig þá þarf ég innflutningsbann á sykur og ríflega styrki.
jkr (IP-tala skráð) 13.8.2011 kl. 00:04
Gunnar !..sviðsmyndin um engan innflutning er sett fram til að benda á það að rökin með niðurgreiddum landbúnaði vegna "matvælaöryggis" er ekkert annað en falsrök, sett fram í blekkingarskyni. Það er ekkert til sem heitir "matvælaöryggi" og hægt að tala um í sambandi við íslenskan landbúnað. Eitt meðaleldgos gæti lagt af sauðfjárrækt í landinu.
Ég er ekki að segja að styrkur komi ekki til greina eða aðlögunartími að breyttum aðstæðum. En landbúnaður einsog hann er rekinn á Íslandi í dag er einfaldlegla orðin fáránleg vitleysa.
Landbúnaðurinn mun lifa af...í breyttu formi.
En fyrir ykkur niðurgreiðslustyrkjatollainnflutningsbannsmenn...lesið grein Þórólfs í Fréttablaðinu í dag. Þar er einfaldlega bent á, með tölum frá landbúnaðinum sjálfum, að framlag hvers starfsmanns í landbúnaði til landsframleiðsunnar á mánuði er ca. 5000 krónur....5000 krónur !!! Meðalíslendingurinn skaffar 750.000.- !!! Hvernig getið þið varið landbúnaðarkerfið ?!?!
Og ekkert skítkast útí Þórólf...það er ömurlegur plagsiður á Íslandi að ráðast á manninn ef fólki þrýtur rök. "Félag ungra bænda" varð sér til skammar í umræðunni í vikunni með því að kalla eftir atvinnumissi, ritskoðun, skoðanakúgun og ég veit ekki hvað...
Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 13.8.2011 kl. 09:28
Mér er það ekkert kappsmál að eiga síðasta orðið og ég ætla að hafa þessi mín síðustu. En vegna þess að Berglind ávarpar mig svona beint þá get ég ekki stillt mig...
Hvergi í pistulunum mínum hvet ég til þess að bæjardyrum sé lokað. En...mér finnst dæmigert að af orðum Berglindar má ráða að henni finnist það ekki mikið mál að loka skólum, sjúkrahúsum osfrv...en meiri háttar mál að búskapur leggist af á einhverjum bæjum! Forgangsröðun Berglind !...forgangsröðun ! 11 milljarðar á ári sem við veitum landbúnaðinum í beina styrki myndi reka nokkuð mörg sjúkrarúm eða skólastofur.
Mér finnst innflutt matvæli hvorki dýr né ódýr. Ríkisvaldið hefur margvísleg áhrif á verð þessara vara með tollum, innflutningsgjöldum, virðisaukaskatti, tekjuskatti fyrirtækja, tryggingargjaldi osfrv. Það sem eftir stendur er einfaldlega það verð sem myndast á markaði og er hvorki hátt eða lágt...bara rétt. Ég hef síðan val um að kaupa eða ekki...sem ég hef ekki þegar kemur að íslenskum landbúnaðarvörum. Þær eru það eina sem býðst og ef ég kaupi EKKI borga ég samt...sem skattgreiðandi.
Hvað er landbúnaður er skilgreiningaratriði. Bændur sjálfir tala niður til hænsnabúa og svínabúa og tala um verksmiðjuframleiðslu. Er ræktun í gróðurhúsum endilega "landbúnaður" ?
En það er ekki málið...hvað er landbúnaður og hvað ekki. Það má ekki rugla saman landbúnaðinum annarsvegar og landbúnaðarkerfinu hinsvegar. Landbúnaður verður áfram til þó við breytum landbúnaðarkerfinu. Ég sagði í fyrri pistli að þetta sama sem merki sem er á milli landbúnaðarvöruframleiðslu annarsvegar og styrkja eða niðurgreiðslna hinsvegar er hugsanavilla sem ég ráðlegg öllum að losa sig við til hagsælli framtíðar.
Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 13.8.2011 kl. 10:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.