Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2011

Dómur Héraðsdóms Suðurlands heldur ekki vatni

Héraðsdómur Suðurlands kvað upp úrskurð um vexti áður gengistryggðra lána núna fyrir helgi.  Rökstuðningur dómarans var að þar sem lögum hefði verið breytt í desember væri hægt að hunsa stjórnarskrána, neytendavernd, evrópulöggjöf, samningalög og ég veit ekki hvað.  Vegna hinna nýju laga, þá væru allar kvittanir ógildar allt að 10 ár aftur í tímann og fullnaðaruppgjör væri bara einhver pappírssnepill sem hefði ekkert að segja.  Verð sem sett væri upp fyrir þjónustu væri hægt að breyta afturvirkt með lögum hvenær sem ef stjórnmálamönnum myndi detta það í hug.

Orkuveita Reykjavíkur ætti að fagna þessum dómi.  Hér er búið að leggja í hendur fyrirtækinu lausn á vanda þess.  Orkuveitan fær bara þingmenn Reykjavíkur og Suð-vestur kjördæmis til að samþykkja lög á Alþingi sem kveður úr um að heitt vatn og rafmagn frá fyrirtækinu skuli hækka um 50% afturvirkt til ársbyrjunar 2001.  Nú olíufélögin hefðu líka getað bjargað fjárhag sínum á þennan hátt, en bankarnir urðu fyrr til.

Ég skil vel að héraðsdómari vilji ekki rugga bátnum of mikið.  Gott og blessað.  Hann hlýtur þó að vita, að afturvirk löggjöf er brot á stjórnarskránni!  Rökstuðningurinn sem hann notar er greinargerð með frumvarpinu, þ.e. tilvísun í dóma frá annars vegar Noregi árið 1962 og síðan Hæstarétti árið 1953 er áhugaverð söguskýring en af hverju notaði hann ekki umsagnir fjölmargra aðila og þar á meðal frá lögmanni erlendra kröfuhafa sem efuðust um hvort lögin stæðust stjórnarskrána.

Mér finnst með ólíkindum að dómari samþykki afturvirkalöggjöf með þeim rökum að verið sé að bjarga fjárhagskerfinu.  Voru færðar fram sannanir fyrir þessari staðhæfingu?  Er eitthvað sem bendir til þess að fjárhagskerfið hrynji við það að vextir verði ekki afturvirkir?  Hagnaður bankanna þriggja frá stofnun þeirra í október 2008 er eitthvað um 100 milljarðar króna.  Bendir þetta til þess að bankarnir standi á brauðfótum?  Þessi staðhæfing:

þar sem lögin væru þáttur í margþættri tilraun til að lagfæra fjárhagskerfi þjóðarinnar og koma því í fastari skorður

er einhver flugufótur fyrir því að afturvirk lagasetning stuðli að þessu?  Ég hef nú fylgst nokkuð vel með þessum málum og aldrei hefur verið færð fram nokkur sönnun fyrir því að þetta sé rétt.  Svo má spyrja hvort réttlætanlegt sé að níðast á saklausum almenningi til að ná þessum innistæðulausum markmiðum.  Einnig má velta fyrir sér hvort fjárhagskerfi þjóðarinnar komist nokkuð frekar í fastar skorður með þessu, en með því að afturvirkir vextir verði dæmdir ólöglegir.  Í hverju á festan að felast.

Ég get ekki lokið þessari færslu án þess að hnýta agnarögn í ráðherrann fyrrverandi sem tekur svo skýrt til orða að dómurinn sé staðfesting á dómi Hæstaréttar.  Ætli þetta hafi verið rætt yfir eldhúsborðið heima hjá henni?  Lögmaðurinn sem pantaði lagasetninguna og viðbrögð FME og Seðlabankans í fyrra er jú eiginmaður þingmannsins.  Varla fer hún að segja eitthvað sem er í andstöðu við viðhorf þeirra sem halda uppi heimilishaldinu.  Eins og segir í ensku málshætti, þá er það ekki til góðs að bíta höndina sem gefur manni að borða.

Viðbót kl. 20:50:

Eitt sem ég gleymdi varðandi dóminn:  Dómarinn hafnar því að nýju bankarnir hafi keypt lánasöfnin af gömlu bönkunum:

Ekkert liggur fyrir um að stefnandi hafi keypt umrædda kröfu.  Þvert á móti er upplýst að með stjórnvaldsákvörðunum Fjármálaeftirlitsins, á grundvelli heimildar í 100. gr. a í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, var eignum Glitnis banka hf. ráðstafað til Nýja Glitnis banka hf., sem breytti síðar um nafn og varð Íslandsbanki hf.

Hér þrýtur dómarann alveg rök.  Hvað heitir það, þegar eign skiptir um hendur og gjald er greitt fyrir?  Auðvitað keypti nýi bankinn lánasöfnin af gamla bankanum.  Við getum svo sem notað alls konar orðalag, en það áttu sér stað viðskipti.  Yfirtaka á lánasafni með miklum afslætti er verslun með lánasöfnin.  Nýi bankinn greiddi fyrir lánasöfnin með því að taka yfir skuldir á móti.   Þegar úthlutað er úr dánarbúi, þá er eign ráðstafað án þess að gjald komi á móti.  Íslandsbanki greiddi fyrir hin niðurfærðu lánasöfn með því að taka yfir skuldir á móti.  Dómarinn þarf ekki annað en að horfa til Landsbankans (áður NBI) til að sjá hvernig bankinn greiddi fyrir lánasöfn með skuldabréfi sem greitt er af.  Samkvæmt skýringu dómarans, þá teljast það ekki kaup, ef ég eignast bifreið með því að taka yfir lán sem eru áhvílandi.  Stjórnvaldsákvörðun breytir ekki eðli viðskiptanna, þ.e. að Íslandsbanki eignaðist lánasöfn með því að taka yfir jafnháar skuldir á móti.

Svo mætti líka hnýta í skýringu dómarans á hvað telst fullnaðarkvittun.  Hann segir að kvittunin teljist ekki ógild, þar sem hún nýtist sem sönnun fyrir greiðslu en gleymir því að allt í einu er fullnaðargreiðsla orðin hlutagreiðsla.  Ef þessi lögskýring dómarans stendur, þá geta neytendur aldrei treyst kvittunum sem þeir fá, þar sem gagnaðilinn getur komið með viðbótarkröfu hvenær sem er og kvittun sem áður var fullnaðarkvittun er allt í orðin að innágreiðslukvittun.


mbl.is Staðfestir túlkun á dómi Hæstaréttar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virkjanir, náttúruvernd og orkusparnaður

Vegna umræðu um rammaáætlun um virkjanir langar mig að velta upp tveimur spurningum:
1. Hvaðan á hagvöxturinn að koma í framtíðinni, ef við hlaupum til og nýtum alla hagkvæma og fýsilega virkjunarkosti á næstu segjum 30-40 árum?
2. Þurfum við ekki að virða rétt komandi kynslóða til aðgangs að landinu og nýtingar á gæðum þess?

Nú er ég ekki á móti virkjunum en ég vil að þær uppfylli tilteknar kröfur:
1.  Þær verða að vera hagkvæmar.
2.  Þær verða að skila þjóðinni eðlilegan arð.
3.  Orkuna frá þeim skal nýta til atvinnuuppbyggingar hér á landi.
4.  Þær mega ekki skerða náttúruverndarsvæði.
5.  Þær verður að byggja í sátt við aðra nýtingu á landinu, svo sem til útivistar og ferðaþjónustu

Hér á landi er talið að sé virkjanlegt orka upp á 195.000 Gwst.  Af þeim eru 20-40.000 Gwst. fýsilegir og hagkvæmir virkjanakostir sem uppfylla ofangreind skilyrði.  Ef við nýtum alla þessa kosti á stuttum tíma, 30 - 40 árum, hvaða virkjanir eiga þá komandi kynslóðir að byggja?

Nokkur umræða hefur verið um útflutninga á raforku.  Ég vil benda á að mjög stór hluti vöruútflutnings þjóðarinnar er vegna nýtingar á raforku.  Á þann hátt erum við að flytja út raforku og þetta er sá háttur sem við eigum alla jafna að hafa við útflutninginn. Gerir fólk sér grein fyrir, að ef við förum að flytja út rafmagn sem hrávöru, þá lendum við í sömu sporum og Norðmenn.  Eftir að raforkuframleiðendur fóru að selja rafmagn til ríkja í Vestur-Evrópu, þá hækkaði verðið til almenningsveitna í Noregi mjög mikið.  Kemur þar tvennt til.  Annars vegar selja menn hæstabjóðanda og ef hann er í Frakklandi, þá einfaldlega fer rafmagnið þangað (a.m.k. óbeint).  Hins vegar er samkvæmt reglum ESB óheimilt að mismuna neytendum eftir staðsetningu.  Þannig mætti Landsvirkjun ekki selja á lægra verði til almenningsveitna hér á landi, en til almenningsveitna í öðrum löndum.  Vissulega væri hægt að komast framhjá þessu með einhvers konar uppboðsmarkaði fyrir tiltekinn hluta orkuframleiðslunnar, en reikna mætti með því að slíkur uppboðsmarkaður leiddi hægt og rólega til hærra verðs hér á landi.

Í bili felast bestu "virkjanakostir" okkar í: 1) orkusparnaði, 2) betri nýtingu núverandi virkja með nýjum aflvélum sem meira fæst út úr, 3) framleiðslutækni sem nýtir orkuna betur.  Þetta þarf að eiga sér stað samfara uppbyggingu framleiðslufyrirtækja sem treysta á raforku.  Bara að færa alla lýsingu yfir í sparneytnari perur og nýta raftæki sem ganga fyrir lægri straumi getur jafngilt orkuframleiðslu í Kröflu. Með því að tengja verð á rafmagni við aflnotkun, en ekki bara orkunotkun væri hægt að auka vitund neytenda fyrir þeim kostnaði sem felst í því að vera með afltoppa.  Það sem hefur bjargað þessu hingað til, er að Landsvirkjun hefur getað selt svo kallaða umframorku til stórnotenda utan álagstíma heimilanna og hins almenna atvinnulífs.  Ef hægt er að lækka mestu aflnotkun heimilanna um 10-15% og jafnvel meira, væri hægt að útvega orku til nýrra stórnotenda án þess að reisa nýja virkjun.  Landsvirkjun hefur verið að skipta út gömlum aflvélum og setja upp nýjar sem auka framleiðslugetuna um 20 - 50%.  Ef það væri hægt í öllum eldri virkjunum, þá fæst ígildi Búrfellsvirkjunar og Blönduvirkjunar til viðbótar inn í framleiðslu kerfið.  Gera þarf síðan kröfu til stórnotenda að þeir noti besta framleiðslubúnað sem völ er á.  RioTinto Alcan hefur t.d. verið að auka framleiðslugetu sína á sama afli og áður.  Þetta er einfaldlega gert með betri búnaði.  Með þessu tókst fyrirtækinu að auka framleiðslugetu sína verulega án þess að kaupa meiri orku af Landsvirkjun.

Læt þessar pælingar duga í bili.


Orðhengilsháttur og útúrsnúningur fjármálafyrirtækja - Láta á reyna á hvert einasta lánaform

Eftir því sem ég best veit hafa á annan tug mála vegna gengistryggðra lánasamninga farið fyrir Hæstarétt og a.m.k. á þriðja tug fyrir héraðsdóma landsins.  Niðurstaða er fengin úr fjölmörgum þeirra og allar hafa þær fallið lántökum í hag, þ.e. lánaformin innihalda ólöglega gengistryggingu.  (Hafi eitthvert fallið á annan veg, þá biðst ég afskökunar á yfirsjóninni.)  Hefur pirringur Hæstaréttar í sumum málum verið slíkur yfir þvermóðsku fjármálafyrirtækjanna, að í tveimur málum rassskellti rétturinn NBI hf. (nú Landsbankinn hf.) með því að dæma lántökum í hag þrátt fyrir að þeir mættu ekki til munnlegrar fyrirtöku í málinu.  Þetta er það sem heitir útivist og nánast undantekningalaust er dæmt þeim í óhag sem ekki mætir.  Nei, niðurlæging Landsbankans var algjör í málunum.  Lét hann sé segjast?  Bankinn gerði það ekki og fór með Mótormax málið fyrir Hæstarétt, þrátt fyrir að um sams konar lánaskilmála væri að ræða (samkvæmt upplýsingum í dómi Hæstaréttar) og í hinum útivistuðu málum.

Nú kemur yfirlýsing frá Íslandsbanka, þar sem segir að þeirra lánaform séu ólík lánaforminu í Mótormax málinu.  Gott og blessað, en mig langar að vita hvort mismunurinn sé það mikill að hann skiptir máli.  Eins sleppir Íslandsbanki alveg að geta þess, að Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp úrskurð 21. janúar 2011 í máli nr. E-1998/2010 og frá 19. apríl í máli nr. X-532/2010, þar sem lánaform bankans voru dæmd innihalda ólöglega gengistryggingu.  Vissulega kemur á móti dómur frá 8. apríl í máli nr. E-2070/2010, þar sem að virðist sambærilegur samningur er dæmdur vera löglegur.

Annars er áhugavert að skoða hvað dómstólar, yfirvöld og fjármálafyrirtæki gera nú gagnvart eldri málum, þegar allir þessir dómar eru fallnir.  Sem dæmi vil ég nefna dóm Héraðsdóms Reykjavíkur 23. mars 2009 í máli nr. Z-4/2009, þar sem augljóslega ólögleg krafa NBI hf. var látin standa í nauðungarsölumáli.  Krafist var nauðungarsölu vegna ólögmætrar kröfu upp á um 120 m.kr., eign slegin bankanum á 25 m.kr. á þeirri forsendu að hún hafi ekki staðið undir 120 m.kr. kröfunni.  Upprunalegur höfuðstóll var 47 m.kr. og stóð eignin vel undir honum.  Hvað ætli það séu mörg svona mál?  Hvað hafa yfirvöld, réttarkerfið og fjármálafyrirtæki gert til að leiðrétta hlut þeirra sem þannig voru beittir órétti?  Hvað ætli það séu margir aðilar sem hafa borið verulega skertan hlut frá borði, að ég tala nú ekki um hafa gengið svo langt að taka sitt eigið líf vegna lögbrota fjármálafyrirtækjanna gegn þeim?  Hvernig ætla fjármálafyrirtækin að bæta það tjón sem þau hafa valdið þessu fólki og fjölskyldum þess.

Því miður þá sýnist mér ekki fjármálafyrirtækin sýna neina iðrun.  Tvö fjármögnunarleigufyrirtæki eru t.d. enn á fullu í vörsluskiptingu á grunni fyrri krafna, þrátt fyrir dóma og lög.  Bara síðast í gær var frétt um vörsluskiptingu vegna óljósrar kröfu.  A.m.k. eitt slíkt fyrirtæki mun vera með svæði í Hollandi, þar sem tæki vörslusvipt hér á landi eru geymd svo fyrrum viðskiptavinir fyrirtækisins geti ekki notið atbeina íslenskra dómstóla til að fá tækin aftur í hendur.  Viðskiptasiðferði þessara fyrirtækja er, að mínu mati, ekki alltaf á háu stigi og það þrátt fyrir að móðurfyrirtæki tveggja þeirra hafi sett sér siðferðisgildi (sem gildir líklegast bara fyrir aðra).


mbl.is Mótormaxdómi fagnað en áhrif sögð lítil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misskilningur blaðamanns

Hér er á ferðinni ótrúlegur misskilningur blaðamanns.  Stuðlarnir sem eru gefnir sýna líkindi fyrir því að hvert land fyrir sig vinni mótið, ekki endanlega sætaskipan.  Þannig gæti Ísland spilað til úrslita í mótinu, en það væri mat veðbankanna að það myndi tapa fyrir fimm af sjö mögulegum andstæðingum sínum í úrslitaleiknum. 

Skekkja blaðamanns er enn augljósari fyrir það, að þrjú af fjórum liðum í riðli Íslands eru í sætum 5 til 8 á listanum og það er getur aldrei gerst.  Tvö þeirra munu alltaf spila í undanúrslitum, þannig að þau lenda í sætum 1 til 4.  Ef menn vilja lesa sætaskipan út úr þessu, þá er spáin sú að Spánn og England komist upp úr B-riðli og Danmörk og Sviss upp úr A-riðli.  Þau lið sem eftir verða fara heim og lenda þar með í sætum 5 - 8.  Sigurvegarar undanúrslitaleikjanna spila svo til úrslita, en ekki er leikið um þriðja sætið.


mbl.is Strákunum spáð 6.-7. sætinu á EM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérfræðingur umboðsmanns skuldara vann fyrir fjármálafyrirtæki

Athygli mín var vakin á því í dag, að annar af sérfræðingu Raunvísindastofnunar sem vann fyrir umboðsmann skuldara að úttekt á endurútreikningum fjármálafyrirtækja, veitti einu fjármálafyrirtæki ráðgjöf um hvernig standa ætti að útreikningunum.  Hann var sem sagt að taka út eigin vinnu.  Hvers konar bull er þetta?  Hefur fólk enga sómakennd?

Þetta koma upp á fundi viðskiptanefndar Alþingis í morgun með fjölmörgum aðilum um endurútreikning lánanna.  Þar sátu m.a. fulltrúar Hagsmunasamtaka heimilanna, Samtaka lánþega, umboðsmaður skuldara, fulltrúar frá fjármálafyrirtækjunum og fleiri góðir gestir.  Á fundinum var, samkvæmt mínum upplýsingum, farið vítt og breitt yfir málin og kom ýmislegt fróðlegt í ljós. Atlaga þingmanna beindist mest að umboðsmanni skuldara sem átti í vök að verjast, samkvæmt mínum heimildum.

Mér finnst það því miður skína í gegn um umræðuna um endurútreikningana, að verið væri að efast um að bankarnir reiknuðu rangt út úr líkönum sínum.  Svo er ekki, heldur hefur stirrinn staðið um að líkönin séu röng.  Ég velti því upp um daginn, hvernig umboðsmanni skuldara hafi dottið í hug að fá stærðfræðinga til að koma með lagatúlkun.  Ég efast ekki eitt andartak um hæfi þeirra til að reikna, en hvað túlkanir varðar, þá geta þeir haft sína skoðun, en hún er nákvæmlega það, þ.e. skoðun.  Ef ég vil leita mér lögfræðiálits, þá fer ég ekki til félagsráðgjafa, stjórnmálafræðings, viðskiptafræðings eða stærðfræðings.  Ég fer til lögfræðings.  Hvernig datt umboðsmanni skuldara að fá tvo stærðfræðinga til að koma með lögfræðilegt álit og túlkun á lögum nr. 151/2010?  Það er svo mikil fásinna, að hálfa væri nóg.  Og síðan kemur í ljós, að annar stærðfræðinganna hafði nú ekki meiri siðferðiskennd en svo, að hann sagði sig ekki frá verkinu vegna aðkomu á fyrri stigum fyrir aðila sem hann átti að taka út!

Í mínum huga er úttekt Raunvísindastofnunar ónýtt plagg.  Það getur vel verið að innihaldið sé satt og rétt, en það ómarktækt vegna vanhæfi annars sérfræðingsins sem vann það.  Þess fyrir utan er það brandari að umboðsmaður skuldara skuldi fá stærðfræðinga til að vinna lögfræðitúlkun.

Mesta vitleysan í þessu öllu er þó, að umboðsmaður skuldara sendi harðorða umsögn um mál nr. 206 sem síðar varð að lögum nr. 151/2010 og kennd eru við gengislán. Í umsögninni segir beint, eins og ég hef áður bent á, að embættið efast um að lögin standist ákvæði EES-samningsins:

Sú aðferðafræði sem lögð er til í frumvarpinu um endurútreikninga þeirra lána virðist í veigamiklum atriðum ganga gegn þeim skyldum sem íslenska ríkið ber á grundvelli EES-samningsins.

Annars staðar í umsögninni segir:

Rétt er að árétta að UMS leggst alfarið gegn því að skuldurum verði í kjölfar endurútreiknings gert að sæta hækkun á eftirstöðvum höfuðstóls, eða eftir atvikum gert að greiða bakreikning t.d. vegna þegar efndrar skuldbindingar.

Og síðan:

Vandséð er að mögulegt sé að beita afturvirkni við útreikning vaxta m.v. 4. gr. á vangreiðslur skuldara vegna ólögmætra vaxta og/eða verðtryggingar...Það gengur þvert gegn neytendaverndarsjónarmiðum að reikna afturvirkt vexti á vangreiðslur sem voru í raun ekki vangreiðslur þar sem skuldari stóð fyllilega í skilum með umsamdan lánasamning.

Því miður virðist mótstöðu umboðsmanns hafa lokið með þessari umsögn, þar sem hann hefur því miður ekki tekið upp hanskann fyrir skuldara eftir þetta og beit svo höfuðið af skömminni með því að stærðfræðing til að koma með lögfræðilega og stærðfræðilega úttekt á eigin vinnu.

Í lokin vil ég benda á grein Gunnlaugs Kristinssonar, löggilts endurskoðanda, um endurútreikningana á vefnum visir.is.


Bankarnir haga sér eins og vogunarsjóðir - Kaupa kröfur með miklum afslætti og gefa ekki eftir fyrr en í rauðan dauðann

Í umræðum á Alþingi um daginn varð þingmönnum tíðrætt um hina illu vogunarsjóði.  Eftir niðurstöðu Hæstaréttar í gær og yfirlýsingu Landsbankans í fjölfar dómsins finnst mér rétt að árétta það sem fram kom í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn bankanna og ég fjallaði um í færslunni Afslættir sem bankarnir fengu á lánasöfnum heimila og fyrirtækja hinn 26. maí sl.

Ég fæ ekki betur séð að bankarnir þrír, Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki, séu að haga sér nákvæmlega eins og vogunarsjóðirnir agalegu sem að sögn hafa keypt kröfur "erlendra kröfuhafa" á hendur hrunböndkunum þremur, Landsbanka Íslands hf., Glitnis hf. og Kaupþing banka hf.  Samkvæmt upplýsingum á vefnum keldan.is þá ganga skuldabréf gömlu bankanna kaupum og sölu á frá 6 kr. fyrir hverjar 100 kr. hjá Landsbanka Íslands til 28 kr. fyrir hverjar 100 kr. hjá Glitni, þ.e. kröfuhafar Landsbanka Íslands reikna með að fá 6% af kröfum sínum greiddar meðan kröfuhafar Glitnis reikna með 28%.  Kröfurnar ganga kaupum og sölum og eru erlendir vogunarsjóðir taldir helstu kaupendur.

Nýju bankarnir þrír keyptu lánasöfn af gömlu hryggðarmyndum sínum með verulegum afslætti.  Komið hefur fram að þessi afsláttur er misjafn eftir lánasöfnum og bönkum, en mín niðurstaða er að aflátturinn hafi að jafnaði verið um 40-45% af lánum heimilanna og 60-65% af lánum fyrirtækja (lægri talan tekur tillit til 215 ma.kr. viðbótargreiðslu til gömlu bankanna).  Nú í staðinn fyrir að bankarnir séu bara ánægðir með að fá lánasöfnin með afslætti og geta hafið enduruppbyggingu þjóðfélagsins með því að skila stærstum hluta afsláttarins beint til þeirra viðskiptavina, sem skulda, þá haga þeir sér nákvæmlega eins og vogunarsjóðirnir og gera allt sitt til að auðgast með því að krefjast hæsta mögulega verðs fyrir lánin, þ.e. fullnaðargreiðslu.  Vogunarsjóðirnir, sem alþingismönnum fannst vera andlit hins illa, eru ekki að krefja gömlu bankana um fulla greiðslu.  Þeir eru ekki að krefjast 100 kr. af Glitnir fyrir 100 kr. nafnvirðis skuldanna.  Nei, þeir sætta sig við 30 kr. og yrðu hæst ánægðir með 35 kr. fyrir hverjar 100 kr.

Tæknilega þá afskrifuðu gömlu bankarnir kröfur á innlenda viðskiptavini sína sem nemur þessum hlutföllum og seldu lánasöfnin niðurfærð til nýju bankanna.  Þ.e. nýju bankarnir keyptu skuldir sem búið var að afskrifa verulega, þ.e. á 35-40 kr. fyrir hverjar 100 kr. af skuldum fyrirtækja og 55-60 kr. fyrir hverjar 100 kr. af skuldum heimilanna.  Ef bankarnir höguðu sér eins og vogunarsjóðirnir, þá myndu þeir semja við fyrirtækin um að greiða þeim til baka 45-50 kr. fyrir hverja 100 kr. sem þau skulda og heimilin þyrftu að greiða 65-70 kr.  Eftir sætu bankarnir með dágóðan afgang sem hægt væri að nota til að mæta þeim töpum, sem þar fyrirtæki og heimili gætu ekki einu sinni greitt framangreindar upphæðir.  En sætta bankarnir sig við þetta?  Nei, þeir vilja allt upp í topp þar sem það er mögulegt og ekkert múður.  Ég fæ ekki betur séð en að siðferði vogunarsjóðanna sé skömminni skárri en siðferði bankanna.  Vogunarsjóðunum dettur ekki í hug að krefjast fullrar greiðslu, en bönkunum þykir það sjálfsagt.

Þá er það dómur Hæstaréttar og yfirlýsing Landsbankans.  Dómurinn er mjög afdráttarlaus, þó vissulega sé hann ekki einróma.  Yfirlýsing Landsbankans er þó nokkuð furðuleg.  Í fyrsta lagi segir að gerð hafi verið gjaldfærsla í reikningum til að mæta áhrifum dómsins.  Í fréttum fjölmiðla hefur komið fram að viðskiptavinum bankans  hafi með dómnum tekist að verjast 15 ma.kr. ólögmætri kröfu bankans. (Raunar var sagt að tap bankans hafi verið 15 ma.kr., en ég held að hitt sé rétt.)  Samkvæmt athugasemdum 56 og 57 í ársreikningi NBI hf. fyrir 2010, þá kemur fram að "allowance for impairment" hækkuðu um tæplega 15 ma.kr. milli 2009 og 2010, af þessari upphæð var innan við 13,4 ma.kr. vegna lána til viðskiptavina og þar af 1,7 ma.kr. vegna lána til einstaklinga.  Eftir standa þá 11,7 ma.kr. vegna lána til fyrirtækja og tel ég ólíklegt að öll sú upphæð hafi verið vegna þessara lána. (Upphæðin hækkaði um 2,5 ma.kr. á fyrsta ársfjórðungi þessa árs en það gerir samt bara 14,2 ma.kr.  á móti kemur þá hækkaði tala um 3,4 ma.kr. fyrstu níu mánuði síðasta árs og getur sú tala vart verið vegna dóma sem þá voru ekki fallnir!)  Mér finnst þetta benda til annars af tvennu:  1) að Landsbankinn er ekki að greina rétt frá í yfirlýsingu sinni varðandi að gert hafi verið ráð fyrir þessu í reikningum fyrir 2010; 2) að Landsbankinn hafi aldrei fært til eigna hluta þeirrar upphæðar sem hér um ræðir.  Í öðru lagi segir, að dómurinn muni ekki hafa áhrif á fjárhagsstöðu bankans.  Nú er ég alveg sammála bankanum, þar sem eitthvað sem ekki var fært til eignar getur ekki myndað tap hjá bankanum.  Vissulega varð hann af hugsanlegu framtíðargreiðsluflæði en mér þykir það þó ólíklegt.  Í þriðja lagi segir bankinn að framundan sé mikil vinna við endurútreikninga lána sem falla undir dóminn.  Ég hef tvennt við þetta að athuga:  1) ég hélt að bankinn væri búinn að átta sig á áhrifunum og hefði tekið tillit til þess í reikningum sínum, ef svo er þá eru endurútreikningarnir þegar til; 2) forvitnilegt verður að sjá hve langt bankinn teygir sig í að undanþiggja lán frá áhrifum dómsins.

Nú hefur komið fram að um 70% af lánum fyrirtækja hjá hrunbönkunum hafi verið gengisbundin.  Landabankinn segir að dómurinn í gær snerti tiltölulega lítinn hluta lánanna og því spyr ég:  Hvað um öll hin?   Ætlar Landsbankinn að þrást við og fara með öll þau lán líka í gegn um dómskerfið eða mun hann nú leita sátta við viðskiptavini sína.

Vogunarsjóðaháttsemi nýju bankanna er farin að fara verulega í taugarnar á viðskiptavinum þeirra.  Hvar sem ég fer trúir fólk mér fyrir vantrú sína á réttláta meðferð.  Fólk talar um að hætta viðskiptum við viðskiptabankann sinn, þar sem það getur ekki lengur komið inn í afgreiðslur þeirra með sama fólkið fyrir framan sig og áður.  Skiptir ekki máli hjá hverjum af þríburunum það var í viðskiptum.  Fólk er búið að fá upp í kok og er með æluna í hálsinum.  Hvenær ætla bankarnir að skilja það, að þetta eru viðskiptaVINIR þeirra, en ekki mjólkurkýr eða einhver til að riðlast á?  Hvenær ætla bankarnir að hætta að hafa sér eins og siðlausir vogunarsjóðir?


mbl.is Mikil vinna við endurútreikning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótormax 4 - Landsbankinn 3, tæpara gat það nú ekki verið

Ég er bæði hissa og ekki yfir niðurstöðu Hæstaréttar í dag.  Fyrst og fremst er ég þó hissa að dómur sé kominn 3 dögum eftir að málflutningi lauk. 

Í færslu um daginn, þá velti ég því fyrir mér af hverju ákveðið var að endurflytja mál fyrir fullskipuðum rétti.  Ég gaf upp nokkrar mögulegar skýringar, þ.e.

A.  Hæstiréttur er orðinn pirraður á endalausum málferlum vegna gengistryggðra lána.

B.  Hæstiréttur ætlar að fjalla um túlkun á stjórnarskránni. 

C.  Ætlunin er að kveða úr um vexti lánanna.

D.  Breyta á fyrri niðurstöðu um lögmæti gengistryggingar.

E.  Breyta á fyrri niðurstöðu um vexti lánanna.

Ég verð að viðurkenna, að ég sleppti viljandi einni skýringu, sem ég hef aftur tjáð mig um í hópi félaga minna, og mér sýnist sem hún hafi verið raunin

F. Niðurstaða 5 manna dóms breytti fyrri dómum.

Samkvæmt því sem kom fram í fréttum Stöðvar 2 í kvöld, þá voru þeir þrír sem mynduðu minnihluta réttarins í dag í 5 manna dómi þegar málið var flutt í hið fyrra skipti fyrir Hæstarétti.  Miðað við að málið var flutt fyrir 7 manna dómi sl. mánudag, þ.e. fyrir þremur dögum, þá er ljóst (að mínu mati) að dómarar voru ekki að taka afstöðu í málinu á þessum rúmlega tveimur sólarhringum frá því málflutningi lauk.  Þriggja manna minnihlutinn myndaði þriggja manna meirihluti áður.

Meirihlutinn bendir á í sínu áliti að rétturinn hafi áður dæmt um ólögmæti sambærilegra lánasamninga í málum 30/2011 og 31/2011:

Þá er til þess að líta að Hæstiréttur hefur í dómum sínum 8. mars 2011 í málum nr. 30/2011 og 31/2011 tekið afstöðu til þess að lánssamningar, sem höfðu að geyma sömu skilmála og fram koma í lánssamningnum í þessu máli, hafi verið um skuldbindingar í íslenskum krónum. Samkvæmt þessu verður að líta svo á að hér sé um að ræða lán sem ákveðið var í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla.

Þeir dómar féllu 2/1, þ.e. Garðar Gíslason og Árni Kolbeinsson mynduðu meirihluta og Jón Steinar Gunnlaugsson minnihluta.  Núna mynda Garðar og Jón Steinar minnihluta ásamt Markúsi Sigurbjörnssyni.  Hvers vegna hefur Garðar skipt um skoðun?  Er það vegna þess að í málum 30/2011 og 31/2011 var ekki munnlegur málflutningur og hann fékk ekki rökstuðning lögmanns Landsbankans, eins og hann fékk núna?  Mér finnst Garðar þurfa að skýra út hvers vegna hann skiptir um skoðun.

Ljóst er að forseti réttarins, Ingibjörg Benediktsdóttir, hefur ekki getað hugsað sér að rétturinn skipti um skoðun á ekki lengri án þess að hann væri fullskipaður.  Ég veit ekki hverjir þeir tveir dómarar voru sem bættust við frá 5 manna dómnum, en ef marka á fréttir Stöðvar 2 í kvöld, þá virðast þeir hafa ráðið niðurstöðunni.

Hvaða skilaboð hefði hin niðurstaðan gefið?  Í fyrsta lagi að Hæstiréttur gæti ekki ákveðið sig, þ.e. að ekki er hægt að treysta því að rétturinn dæmi á sama hátt í sambærilegum málum.  Í öðru lagi að fyrri niðurstöður réttarins um gengistryggð lán væru ekki fordæmisgefandi fyrir sambærileg mál.  Í þriðja lagi, að fjármálafyrirtækin ættu endilega að halda áfram með sín málaferli, þar sem sannfærandi málflutningur gæti snúið dómurum.

Merkilegast við þessa niðurstöðu í dag, er að þetta snýst meira og minna um sömu málsgrein í lánasamningnum:

..um fjölmyntalán til 5 ára að jafnvirði kr. 150.000.000, - Krónur eitthundrað og fimmtíu milljónir 00/100, í neðanskráðum myntum og hlutföllum: CHF 25% JPY 15% USD 35% EUR 25%.  Fjárhæð hvers gjaldmiðils ákvarðast þó ekki fyrr en einum virkum bankadegi fyrir útborgunardag lánsins.

Meirihlutinn segir að þar sem upphæð skuldar í hverri mynt verði ekki ákveðinn fyrr en síðar, þá sé augljóslega um ólöglega gengisbindingu að ræða, en minnihlutinn segir að þar sem tiltekið sé að um fjölmyntalán sé að ræða sé augljóslega um löglegt lán að ræða.  Báðir aðilar koma með frekari rökstuðning, en það er samt túlkunin á ofangreindum texta í lánasamningnum sem virðist skipta mestu máli.  Ég get ekki annað en spurt mig:  Hvernig er hægt að túlka ofangreinda texta á svona gjörólíkan hátt?  Spyr sá sem ekki veit.

Afleiðingarnar

Ég held að menn átti sig ekki alveg á afleiðingum dómsins.  Hér segir Hæstiréttur beint út, að öll lán þar sem höfuðstóll er tilgreindur í krónum er krónulán og ekkert annað.  Eins og rétturinn bendir á, þá gefur Landsbankinn ekki viðhlítandi skýringu á því hvers vegna upphæðin er tilgreind í krónum hafi átt að lána erlendar myntir.  Það er sem sagt ekki hægt að fela sig á bak við hlutföll, heldur verður að gefa upp upphæð í erlendri mynt til þess að um löglegt lán í erlendri mynt sé að ræða. 

Næst þarf að láta reyna á hvort lán sem sótt var um í íslenskum krónum, höfuðstóllinn er tilgreindur í erlendri mynt, en útgreiðsla og afborganir fara fram í íslenskum krónum, eru lögleg lán í erlendri mynt eða enn eitt form á gengistryggðu láni.


mbl.is Lánið ekki í erlendri mynt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilskipun frá 1798 um áritun afborgana á skuldabréf - Vaxtakvittun gildir gagnvart öllum eigendum viðskiptabréfs

Ýmislegt skemmtilegt er til í íslensku lagasafni.  Sum lög eru t.d. öðrum lífseigari og þar eru lífseigust allra lög frá 1275 Kristinréttur Árna biskups Þorlákssonar.  Í þjóðlendumálum hafa menn síðan gjarnan vitnað til Jónsbókar frá 1281.  Um ferminguna eða "uppvaxandi upgdómsins confirmation" er getið í konungstilskipun frá 1736 og aftur í tilskipun frá 1759.  Allt er þetta mismikilvægt og þannig á líka við um tilskipun frá 9. febrúar 1798 um áritun afborgana á skuldabréf.

Tilskipunin er frekar stutt, þannig að ég ætla bara að birta hana hér í heild:

1. gr. Eins og það er skylda lánardrottins, þegar skuldunautur borgar allan höfuðstól skuldabréfs, að skila honum aftur bréfinu með áritaðri kvittun, eins á hann, þegar nokkuð er afborgað af höfuðstólnum, að hafa við höndina frumrit skuldabréfsins, og vera skyldur til, í nærveru skuldunauts eða umboðsmanns hans, að rita bæði á bréfið sjálft það, er afborgað er, og að gefa auk þess sérstaka kvittun fyrir því.

Ef lánardrottinn skorast undan að gera þetta, þá er skuldunaut (sem vottfast býður fram afborgun þá, er greiða skyldi) heimilt að fresta afborguninni, þangað til lánardrottinn gegnir fyrrgreindri skyldu sinni; og er skuldunaut eigi skylt, meðan svo stendur, að svara vöxtum af þeim hluta höfuðstólsins, sem í gjalddaga var fallinn og boðinn var fram.

2. gr. Kvittanir á lausu blaði fyrir afborgunum af höfuðstól, er skuldabréf er fyrir, skulu, ef afborganirnar eru eigi einnig ritaðar á skuldabréfið sjálft, aðeins hafa gildi gagnvart þeim, sem gaf þær út, en eigi teljast gildar gagnvart öðrum, sem fyrir veðsetningu, framsal eða á annan löglegan hátt eru orðnir réttmætir handhafar skuldabréfsins.

3. gr. Þó má vaxtagreiðsla vera undanþegin þessum fyrirmælum, og sérstakar kvittanir fyrir vöxtum vera fullgildar, eigi aðeins gagnvart þeim, er út gaf kvittunina, heldur og gagnvart hverjum öðrum, sem skuldabréfið hefir síðar verið selt í hendur að veði eða til eignar.

Árita skal afborgun á frumrit skuldabréfs

Tilskipunin lýsir því að árita eigi afborganir á skuldabréf til sönnunar því að afborgun hafi átt sér stað.  Hafi lánardrottinn ekki gert það, þá er lántaka (skuldunaut) heimilt að fresta frekari afborgunum uns lánardrottinninn hefur orðið við þessu.  Það sem meira er, óheimilt er að reikna vexti vegna hinnar gjaldföllnu en ógreiddu afborgunar meðan áritun hefur ekki farið fram.

Ansi er ég hræddur um að fá fjármálafyrirtæki uppfylli ákvæði þessarar tilskipunar.  Mér er sagt að fyrir 15 árum hafi þetta verið mjög tímafrekur og mikilvægur starfsþáttur hjá útlánsfyrirtækjum, en síðan hafi þetta lagst af.  Bent hefur verið á að lög nr. 131/1997 sé hugsanleg orsök fyrir því að þessi háttur var lagður af, en í 20. gr. laganna segir m.a.:

Lokafærsla verðbréfamiðstöðvar um greiðslu afborgunar og vaxta inn á reikning til eignarskráðs rétthafa hefur sama gildi gagnvart skuldara og áritun á skuldabréf

Málið er að lögin gilda bara um "rafræna útgáfu verðbréfa og skráningu eignarréttinda yfir þeim."  Þau sem sagt gilda ekki um verðbréf sem gefin eru út á pappír.

Miðað við orðanna hljóðan í tilskipuninni frá 1798, þá geta lántakar (skuldunautar) núna labbað inn til síns viðskiptabanka og neitað að greiða næstu afborgun lána sinna þar til bankinn er búinn að árita hverja einustu undangengna afborgun á skuldabréfið sjálft og dugar þá ekki að gera það á eitthvert afrit, þetta skal gert á frumrit bréfsins.  Sé ég fyrir mér kaosinu sem yrði í bönkunum, ef lánþegar ætla að krefjast þessa af bankanum sínum.  Nú dugir ekki fyrir löggjafann að hlaupa til og breyta þessu, þar sem lög geta ekki verið afturvirk.  (Asni er ég.  Þegar kemur að því að bjarga fjármálafyrirtækjum úr klemmu, þá er hægt að setja afturvirk lög.  En þegar bjarga á almúganum, þá er það brot á rétti ímyndaðra "erlendra kröfuhafa".)

Kvittun fyrir vöxtum telst fullgild gagnvart öllum

En þetta er nú ekki stærsta málið í þessari ágætu tilskipun.  Í grein 2 og 3 segir nefnilega að kvittanir á lausum blöðum hafi ekkert gildi nema fyrir þann sem gaf þær út nema að þær séu fyrir vöxtum.  Þannig "má vaxtagreiðsla vera undanþegin þessum fyrirmælum, og sérstakar kvittanir fyrir vöxtum vera fullgildar, eigi aðeins gagnvart þeim, er út gaf kvittunina, heldur og gagnvart hverjum öðrum, sem skuldabréfið hefir síðar verið selt í hendur að veði eða til eignar".

Nú er ég ekki löglærður, en þarna sýnist mér tilskipunin segja að kvittunin sem ég fékk fyrir vöxtunum sem ég greiddi árið 2005 af þá gengistryggða láninu mínu teljist fullgild "gagnvart hverjum öðrum, sem skuldabréfið hefir síðar verið selt í hendur að veði eða til eignar".  Þ.e. bankinn með nýju kennitöluna sem fékk fyrirmæli frá Fjármálaeftirlitinu að taka við láninu mínu, hann getur ekki innheimt aðra vexti aftur í tímann en þá sem ég hef greitt, hafi ég í höndunum kvittun á lausu blaði um að greiðslan hafi átt sér stað.  Eins gott að maður hafi kvittanirnar við höndina.

Krefjumst þess að fjármálafyrirtæki fari að lögum

Ég held að kominn sé tími til að fjármálafyrirtækin fari að lögum.  Þau komust upp með það í 9 ár að brjóta gegn lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur.  Í hátt í 15 ár hafa þau líklega brotið gegn tilskipuninni frá 1798 vegna þess að þau tóku að sér að túlka lög nr. 131/1997 frjálslega sér í hag.  Nú ætla sum þeirra (tek fram að þau sem ekki lánuðu gengistryggt eru saklaus) að rukka stóran hluta heimila um nýja vexti þrátt fyrir að tilskipunin frá 1798 segi að kvittun sem send hafi verið af fjármálafyrirtækinu teljist fullgild þó svo að skuldabréfið hafi komist í eigu annarra eftir að vaxtagreiðslan átti sér stað.

Ég er búinn að eiga í bréfaskiptum við eina af nýju kennitölunum og bent þeim á, að vilji þeir rukka mig um vexti aftur í tímann, þá hafi ég staðið í skilum við hrunbankann og verið í skilum þegar nýja kennitalan eignaðist lánin mín.  Þeir blésu náttúrulega á það eins og afmæliskerti, en svo virðist sem illa gangi að slökkva á kertinu.  Líklegast svona trixkerti.  En svo virðist sem tilskipunin frá 1798 komi mér til hjálpar.  Kvittanirnar sem ég hef fyrir vöxtunum frá maí 2004 til október 2008 teljast fullgild (og þar með fullnaðar-) kvittun fyrir vaxtagreiðslunni.  Eigandi skuldabréf getur ekki, þó ekki sé sá sami og tók við vaxtagreiðslunni, krafist þess að vextir verði greiddir aftur af sama gjalddaga.

Ættu fjármálafyrirtækin að óttast innihald tilskipunarinnar frá 9. febrúar 1798?  Ja, svari nú því hver fyrir sig.  Ekki fer á milli mála að 3. gr. verður mörgum þeirra þungur baggi, svo mikið er víst.  En hvað myndi nú gerast, ef lánþegar (skuldunautar) krefjast þess að farið sé að 1. greininni.  Í hvernig málum gætu fjármálafyrirtækin þá lent?  Hvað ætli taki langan tíma að árita allar afborganir á skuldabréf til 10 ára með mánaðarlegum gjalddögum?  Það eru 120 áritanir sem þurfa að vera á bréfinu.  Líklegast búa þau til tölvuforrit til að sjá um þessar áritanir, en það þarf að sækja hvert einasta skuldabréf í hvert sinn sem greitt er af því og árita það.  Er ég hræddur um að starfsmannafjöldinn í fjármálafyrirtækjunum mundi ekki duga, ef allir lántakar nýttu sér þetta.  Ekki að ég myndi nenna því, þar sem um langan veg er að fara, 20-25 mínútur bara aðra leiðina.  Síðan myndi bætast við löng bið í bankanum, þar sem líklegast hefðu fleiri fengið þessa hugmynd.  En ég held að fjármálafyrirtækin ættu að óttast það, að lántakar krefjist að þau uppfylli ákvæði 1. gr. tilskipunar frá 1798.

Framkvæmd tilskipunarinnar prófspurning

Þegar ég var að leita upplýsinga fyrir þessa færslu, þá rakst ég á próf í viðskiptabréfaviðskiptum frá því 6. nóvember 2010.  Í C-hluta prófsins er einmitt spurning sem snýr að þessu efni, þ.e. er kvittun fyrir vöxtum fullnaðarkvittun.  Án þess að hafa svarið fyrir framan mig, þá þykist ég alveg átta mig á hvert það var.  Það var nefnilega gefið upp í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 31. október 2007, en þar segir í dómsorðum:

Þá leiða reglur um viðskiptabréf til þess að stefnda getur borið greiðslukvittun fyrir sig gagnvart stefnanda, sbr. 2. gr. tilskipunar frá 9. febrúar 1798 um áritun afborgana á skuldabréf.

Búmm, ég heyri varnir fjármálafyrirtækjanna falla, sérstaklega ef ég bæti ákvæði 3. gr. við um vextina.

(Ég vil taka það fram að Sturla Jónsson (gjarnan kallaður Sturla bílstjóri) á heiðurinn af því að rannsaka þessa tilskipun og koma með ábendinguna.)


Brandari ársins - Vilja skattleggja leiðréttingu Landsbankans!

Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld kom fram að í fjármálaráðuneytinu væru menn að hugleiða að skattleggja viðskiptavini Landsbankans sem nýta sér ný úrræði til að létta undir með skuldaþrælum landsins.  Mikil er mannvonska Steingríms J. að geta ekki lynt fólki það að fá eitthvað af ránsfengnum til baka án þess að skattleggja endurgreiðsluna.  Eru menn ekki í lagi, spyr ég bara.  Búið er að blóðmjólka fólk með óréttmætum kröfum og þegar loksins einum banka dettur í hug að koma örlítið til móts við skuldaþrælana, þá skal í staðinn gera þá að skattaþrælum.

Ég veit að hugsjónir kommúnista í gamla daga voru ættaðar frá gömlu Sovétríkjum Stalíns, þar sem allir áttu helst að vera öreigar.  Ég hélt að þetta væri liðin tíð, en kannski er ég bara svona barnalegur.

Þegar þýfi er skilað, þá telst það ekki gjöf.  Ofteknir vextir og stökkbreyttur höfuðstóll lána vegna svika, lögbrota, blekkinga og pretta hrunbankanna er ekkert annað en þýfi og því telst það ekki gjöf þegar því er skilað.  Fjármálaráðherra með fulltingi forsætisráðherra hefur aftur staðið fyrir því að verja þjófnaðinn, þar sem með því vill hann refsa fólki fyrir að hafi hleypt honum fyrr að kjötkötlunum.  Hann hefur frekar viljað stefna skuldastöðu landsins við útlönd í hættu, en að standa með almenningi í landinu.  Hann skelfur á beinum út af ímynduðum "erlendum kröfuhöfum" og líka þeim sem hann vissi hverjir voru.  Ítrekað hefur verið sýnt fram á að ákvarðanir hans varðandi Icesave voru rangar, en nei þetta var ekki honum að kenna heldur sjálfstæðismönnum.  Honum hefur verið bent á fáránleikann í samningum við ímyndaða "erlenda kröfuhafa", en aftur var það allt sjálfstæðismönnum að kenna.  Og núna, þegar hann hefur tækifæri til að standa með fólkinu í landinu, þá getur hann ekki setið á sér að hugsa um skattlagningu.  Ætli það sé líka sjálfstæðismönnum að kenna?

Steingrími væri hollt að fara yfir æðruleysisbænina:

Guð gefi mér æðruleysi,

til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,

kjark til að breyta því sem ég get breytt

og vit til að greina þar á milli

Það er nefnilega þetta með kjarkinn og vitið sem hefur vantað aftur og aftur hjá ráðherranum, þegar komið hefur að því að standa með fólkinu í landinu.  Ítrekað hefur komið fram að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, sem í augu flestra vinstri manna, er táknmynd mestu hægri öfgahyggju sem til er, já, meira að segja AGS, hefur viljað ganga lengra til aðstoðar skuldugum heimilum landsins, en hins svo kallaða "vinstri velferðarstjórn" Steingríms og Jóhönnu hefur viljað gera.  Nú hvet ég Steingrím til að seilast eftir þeim mikilvæga kjarki sem hann þarf að sýna til að stuðla að réttlæti í þjóðfélaginu og nýta sér það vit sem honum var fært í vöggugjöf til að finna leið til að koma á sátt í þjóðfélaginu.  Fyrsta skref í þá átt er að bera þessa vitleysu um skattlagningu til baka áður en dagur rís.


Gott að Seðlabankinn nær áttum - Hærri endurheimtur lána hækka skuldir enn meira

Morgunblaðið fjallar í dag um gjörbreyttar upplýsingar um erlendar skuldir þjóðarbúsins.  Seðlabanki Íslands gaf í vikunni út  ársfjórðungslegar upplýsingar um erlenda stöðu þjóðarbúsins og er óhætt að segja að heldur líti þetta verr út en áður.  Í frétt bankans segir m.a.:

Gerð hefur verið breyting á framsetningu á stöðu þjóðarbúsins án innlánsstofnanna í slitameðferð með því að telja beina erlendra fjármunaeign með eignum þeirra. Það hefur ekki verið mögulegt fyrr m.a. vegna skorts á nákvæmum upplýsingum og flókins utanumhalds um erlendar fjárfestingar. Vegna þessa teljast eignir þeirra hærri en áður hefur verð sett fram hér. Það hefur þau áhrif að erlend staða þjóðarbúsins án innlánsstofnanna í slitameðferð telst verri sem nemur beinni fjármunaeign þeirra. 

Heldur er þetta hógvært hjá bankanum miðað við að breytingin sem þar hefur orðið er all svakaleg.  Ég skil að vísu ekki allar breytingarnar hjá bankanum, þ.e. þær koma hist og her.  Þannig hafa erlendar eignir verið lækkaðar mikið (15-24%) fyrir allt árið 2009 og fram á 3. ársfjórðung 2010, en á 4. ársfjórðungi 2010, þá eru það skuldirnar sem hækka verulega (10,7% í stað mest 1,7%) meðan breyting á eignum er bara 3,5%.  Ég get ekki gert af því, en þessar tölur eru ekki að meika sens.

Mér finnst þessi mikli munur sem er á tölum Seðlabankans núna og fyrir þremur mánuðum vera með ólíkindum.  Hvers konar trúverðugleika hefur bankinn eftir svona kúgvendingu í tölum?  Það er ekki skýring að ekki hafi verið hægt að reikna þetta áður vegna skorts á upplýsingum.  Hagtölum fyrir 30 mánaðatímabil er nánast snúið á hvolf og það er ekki einu sinni undirmálsgrein í excel-skjali bankans um breytinguna.  Í frétt bankans er nánast ekkert fjallað um þessa kúgvendingu, en ég hefði haldið að þetta kallaði á ítarlega greinargerð, þar sem skýrt er nákvæmlega hvers vegna hrein staða við útlönd án innlánsstofnana í slitameðferð er núna talin, svo dæmi sé tekið, 140% verri í árslok 2009 en hún var í sambærilegum upplýsingum bankans fyrir þremur mánuðum og að um síðustu áramót sé hún allt í einu talin 90% verri en fyrir þremur mánuðum.

Hér fyrir neðan eru upplýsingar úr excel-skjölum Seðlabankans fyrir erlenda stöðu þjóðarbúsins.  Bornar eru saman tölur úr skjölum gefnum út 2. mars 2011 og  1. júní 2011.

erlend_sta_a_thjo_arbusins_samanbur_ur.jpg

Afslættir, betri innheimtur og greiðslur til hrunbankanna

Finnist fólki þessi staða vera alveg nógu slæm, þá getur hún hæglega versnað.  Fjármálaráðherra upplýsti t.d. um daginn að gerður hafi verið samningur um að ríflega 215 ma.kr. gætu runnið til hrunbankanna frá nýju kennitölunum þeirra, ef þær væru duglegar að rukka stökkbreytt lán og ósvífnar kröfur.  Já, erlendar skuldir þjóðarbúsins munu hækka sem nemur betri innheimtum lánanna, en gert var ráð fyrir í flutningi þeirra við endurreisn bankakerfisins.  Nú verði nýju bankarnir mjög duglegir, þá geta þeir tæmt gjaldeyrisforða þjóðarinnar.  Kaldhæðnislegt, ekki satt?

Ég hef verið nokkuð ötull við að benda á þessar staðreyndir (og Morgunblaðið líka), en fáir innan stjórnsýslunnar og enn færri innan stjórnarflokkanna hafa séð ástæðu til að taka mark á þessu.  Nú hefur Seðlabankinn áttað sig á þessu. Næst er að vita hve langan tíma mun það taka menn að átta sig á því, að hver króna sem Íslandsbanki, Landsbankinn og Arion banki innheimta af lánum viðskiptavina umfram það sem gengið var út frá við gerð stofnefnahagsreiknings þeirra mun vinna gegn styrkingu efnahagslífsins og þá sérstaklega krónunnar.


mbl.is Skuldir þjóðarbúsins mun hærri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 37
  • Sl. sólarhring: 66
  • Sl. viku: 345
  • Frá upphafi: 1680483

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 40
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband