Leita í fréttum mbl.is

Stór hópur fjölskyldna hefur ekki efni á húsnæðinu sínu eða neyslu

Eftir að hafa setið yfir tölum í nokkrar vikur um afkomu heimilanna, greiðslugetu og skuldastöðu, þá finnst mér einsýnt að hér munu hlutirnir ekki færast í samt lag nema kaupmáttur aukist með hækkandi tekjum.  Slík hækkun tekna verður að ná til allra hópa með undir 450 þús.kr. í laun á mánuði.

Því miður er staðan sú, að tiltekinn hópur fjölskyldna hefur ekki tekjur til að standa undir lágmarksneyslu, hvað þá að hafa eitthvað afgangs til að greiða fyrir húsnæði.  Þetta er vandamál sem nær til allra fjölskyldugerða, en þó síst hjá barnlausum hjónum.  Ef maður skoðar neyslutölur sem Hagstofan safnar, þá er myndin mjög dökk.  Hér fyrir neðan eru nokkur dæmi úr tölum Hagstofunnar fyrir árin 2006-2008 og er að finna í Hagtíðindum fyrir 2006-2008.  Sýni ég neyslu fyrir svo kallaða viðmiðunareiningu, en hún jafngildir neyslu fyrsta fullorðins einstaklings í hverri fjölskyldu.  Hver fullorðinn eftir það telst 0,7 neyslueiningar og hvert barn 0,5 neyslueiningar.  Hjón með tvö börn telst því 2,7 neyslueiningar.

Meðalútgjöld 2006-2008  kr. 2.720.465 (kr. 226.705 á mánuði)
Höfuðborgarsvæðið  kr.  2.853.017 (kr. 237.751 á mánuði)
Annað þéttbýli  kr.  2.521.790 (kr. 210.149 á mánuði)
Dreifbýli  kr.  2.537.509 (kr. 211.459 á mánuði)
Einhleypir  kr.  3.072.827 (kr. 256.069 á mánuði)
Hjón/sambýlisfólk án barna  kr.  3.490.970 (kr. 290.914 á mánuði)
Hjón/sambýlisfólk með börn  kr. 2.485.025 (kr. 207.085 á mánuði)
Einstæðir foreldrar  kr. 2.224.329 (kr. 185.361 á mánuði)
Önnur heimilisgerð  kr.  2.314.274 (kr. 192.856 á mánuði)
Meðalneysla á heimili eftir ráðstöfunartekjum:
1. fjórðungur kr.  2.440.158 (203.346 á mánuði)
2. fjórðungur kr.  2.417.810 (201.484 á mánuði)
3. fjórðungur kr.  2.685.297 (223.775 á mánuði)
4. fjórðungur kr.  3.411.412 (284.284 á mánuði)
Meðalneysla á heimili eftir útgjaldafjórðungum:
1. fjórðungur kr.  1.728.292 (144.024 á mánuði)
2. fjórðungur kr.  2.129.329 (177.444 á mánuði)
3. fjórðungur kr.  2.585.046 (215.420 á mánuði)
4. fjórðungur kr.  3.881.563 (323.464 á mánuði)

Ef við tökum 1. fjórðung út frá útgjöldum, þá sýnir sú tala meðalneyslu þeirra 25% landsmanna sem eru með lægst neysluútgjöld.  Inni í kr. 1.728.292 er húsaleiga og reiknuð húsleiga upp á 20,7% af tölunni en enginn kostnaður vegna kaupa á bifreið.  Ef ég tek þennan lí út, þá standa eftir kr. 1.370.535 eða kr. 114.211 á mánuði.  Þetta er sem sagt meðalneysla einstaklings í lægsta útgjaldafjórðungi á Íslandi árin 2006-2008 á verðlagi ársins 2008 (þ.e. framreiknað miðað við breytingar á vísitölu neysluverðs).  Til þess að hafa efni á þessari neyslu, þá þarf viðkomandi að hafa kr. 121.500 á mánuði í tekjur miðað við að greitt sé í lífeyrissjóð og séreignarsparnað eða kr. 1.458.000 á ári.  Í þessum hópi eru að meðaltali 2,59 einstaklingar, sem samsvara 2,03 neyslueiningum.  114.211 * 2,03 = 231.848 kr. í neyslu kallar á tekjur upp á rúmlega 323.000 kr. á mánuði ef fyrirvinnan er ein, en 243.000 kr. ef fyrirvinnur eru tvær.

Skoðum þá næst húsnæðiskostnað.  Hér er um tvo kosti að ræða, þ.e. að vera á leigumarkaði eða verða í eigin húsnæði.  Ég ætla að taka dæmi af íbúð með 10 m.kr. áhvílandi láni.  Greiðslubyrði af þvi er hér stillt á 5.000 kr. á hverja milljón á mánuði eða 50.000 kr.  Það þýðir að framfærslukostnaðurinn fyrir þessa fjölskyldu fer úr kr. 231.848 í kr. 281.848 á mánuði.  Nú vill svo til að hátt í 22 þúsund fjölskyldur sem eiga húsnæði eru með ráðstöfunartekjur að hámarki 250.000 kr.  Þær eru vissulega misstórar, en alveg má reikna með því a.m.k. helmingurinn sé í þeirri stöðu að hafa ekki efni á húsnæðinu sem hann býr í, jafnvel þrír-fjórðuhlutar.  Er þetta þrátt fyrir að verið sé að skoða neyslu þeirra sem spara mest við sig í neyslu.  Húsnæðisskuld upp á 10 m.kr. er síðan ekki há tala og sýnist mér af tölum Seðlabanka Íslands að rúmlega 63% heimila skuli meira en 10 m.kr. í húsnæði sínu.  Án þess að hafa neitt sérstakt fyrir mér, þá grunar mig að stærsti hluti þeirra heimila, sem eru með 10 m.kr. eða minna í húsnæðisskuld sé í aldursflokknum 55 ára og eldri en jafnframt er algengast að sá hópur hafi ekki börn á heimilinu. 

Raunar er áhugavert að sjá hve lítill munur er á neyslu þriggja lægstu neysluhópanna og hvernig þeir neysluglöðustu toga upp meðaltalið, þegar kemur að tekjuhópunum.  Munurinn á fyrrnefndu hópunum þremur er innan við 270 þús.kr. á ári á hverja neyslueiningu eða 22.500 kr. á mánuði, þrátt fyrir að það muni rúmlega 100 þús.kr. á mánuði í ráðstöfunartekjur.  Samkvæmt tölum Hagstofunnar vill svo til að heimilisstærð er nokkurn vegin sú sama hjá þessum hópum (2,44-2,47 einstaklingar), þannig að neysla ræðst hjá þeim af heimilisstærð en ekki tekjum!  Tölur Hagstofunnar sýna einnig að tveir neðri hóparnir eyða meira en þeir afla.

Allt virðist þetta bera að sama brunni:  Stór hópur landsmanna hefur ekki efni á því lífi sem þeir lifa, hver svo sem ástæðan er.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Marinó,

Þó ég hafi ekki handbærar tölur, þá sýnist mér þetta vera svipuð þróun og hefur átt sér stað hér í Bandaríkjunum.  Skuldir einstaklinga og heimila hafa hækkað mjög ört undanfarna tvo áratugi eða svo, stór hópur fólks býr í húsnæði sem það hefur í raun ekki efni á og það kemur svo niður á ráðstöfunartekjum til að kaupa heilsugæslu og jafnvel nauðþurftir eins og mat! 

Ég sá sérstakt dæmi um þetta eitt ár þegar ég fór og tók myndir þegar kirkjan sem við vorum í var með útbýtingu á mat og nauðþurftum fyrir jól eða páska eitt árið.  Talsvert af fólki kom í nýlegum pallbílum sem kostuðu þá um 25-30 þúsund dollara til þess að fá mat að borða!  Það var ekki fyrr en ég kom heim og var að skoða þessar myndir að ég áttaði mig á að það var eitthvað alvarlega gallað við þetta!!!  Ef þú hefur efni á þrjátíu þúsund dollara, V8 pallbíl með öllum græjum en átt svo ekki krónu (hvað þá dollar;) til þess að éta fyrir þá er eitthvað meira en lítið að!  Vissulega vorum við þarna í mjög spænskum (hispanic) hluta Bandaríkjanna (San Antonio) þar sem útlitið skipti öllu máli - þetta er ekki alveg svona ruglað hérna á norðvestur horninu, en samt sem áður þá lýsir þetta ástandinu ágætlega.  Kreditkortaskuldir hér hafa hækkað og eru að mig minnir eitthvað um 20 þúsund dollarar að meðaltali pr. heimili. 

Fólk lifir um efni fram.  Spurningin er hvernig fólk og heilu þjóðfélögin geta tekið á þessu og komist út úr þessum vítahring.  Það er ekki endalaust hægt að slá lán til að borga gömlu lánin, hvort sem um er að ræða einstaklinga eða þjóðríki!

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 7.11.2010 kl. 04:20

2 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Marinó,

Takk fyrir góðan pistil.  Ísland varð láglaunaland í október 2008.  Það tók tíma fyrir marga að átta sig á þessu.  Ísland er harðbýlt land og það þarf miklar tekjur til að viðhalda velferðarkerfi hér.  Húsnæði þarf að vera vel vandað og er því dýrt og flest allt þarf að flytja inn fyrir gjaldeyri.  

Öldum saman höfðu landsmenn ekki efni á öðru en torfkofum, það var eina húsnæðið sem þoldi veðráttuna og menn höfðu efni á.

Á 20. öldinni tókst okkur að byggja upp velferðarkerfi með því að taka lán og nýta orku og fiskstofna.  

Nú er lokað á lán, nema okurlán, sjávarútvegur fullnýttur og ekki má fara út í meiri stóriðju.  Þá verður eitthvað að gefa eftir.

Þetta ætti að vera frekar augljóst.  Aðeins stóraukinn hagvöxtur mun breyta þessu.  En hvar á hann að koma? Fyrir einstaklinginn og fjölskyldu hans er auðveldast að leysa málið með landflótta.

Þetta er hinn vítahringur sem aðrar þjóðir þekkja og er skelfilegur en tekur 15-20 ár. 

Andri Geir Arinbjarnarson, 7.11.2010 kl. 09:42

3 Smámynd: Steinar Immanúel Sörensson

Sæll Marinó, og takk fyrir þetta, skv þessum tölum er mín fjölskylda 3.7 neyslueiningar - gæti ég notað þetta með þvi að margfalda 207.085 X 3.7 til þess að sjá svona nokkurnveginn hvað teldist eiga að vera eðlileg mánaðarlega innkoma á okkar heimili ?

Steinar Immanúel Sörensson, 7.11.2010 kl. 11:30

4 Smámynd: Aðalsteinn Agnarsson

700.000 krónur á mánuði, getur fólk haft á litlum árabát,

fiski það 100kg. á dag með sjóstöng, 5 daga vikunar.

100 x 5 = 500 x 4 vikur = 2 tonn x 350 kr. kílóið = 700.000 kr.

 Sennilega veiðir fólk meira en 100 kg. á dag.                             FRJÁLSAR HANDFÆRA VEIÐAR, leysa fátæktar og atvinnu vanda

Íslendinga!

Mætið á Austurvöll, fáið Jóhönnu til að standa við orð sín,

frjálsar handfæra veiðar!

Aðalsteinn Agnarsson, 7.11.2010 kl. 12:20

5 Smámynd: Sigurpáll Ingibergsson

Andri Geir:

Þú hamrar mikið á ógninni um landflótta. Það er ekki alltaf lausnin. Sjáðu bara hann Sturlu vörubílsstjóra. Hann flúði til Noregs og nú er hann kominn heim, stórlaskaður í baki.

En hvað er hagvöxtur?  Getur þú skilgreint þennan hagvöxt þinn. Það er til góður hagvöxtur og einnig vondur hagvöxtur.

Hagvöxtur mælir eingöngu efnahagsstærðir en leggur ekki mat á afleiðingar eða langtímaáhrif, gildi eða gæði hluta.

Í myndinni Draumalandið, þá er fjallað um hagvöxt. Þar var gott dæmi sett fram. Ef mannfólkið yrði svo þroskað að það hætti að drepa hvort annað með vígvélum, þá yrði neyðarástand í hinum vestræna heimi. Hagvöxtur yrði núll!

Þá er spurningin, hvernig hagvöxt viljum við?

Sigurpáll Ingibergsson, 7.11.2010 kl. 13:01

6 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Sigurpáll

Held reyndar að Sturla hafi farið erfiðu leiðina og það eru sumir sem velja hana. Sonur minn er nýfluttur til Noregs með konu og 3 börn. Hann er í góðri vinnu við sitt fag, vinnur nánast eingöngu dagvinnuna og konan er ekki enn komin í vinnu. Börinin eru að aðlagast og það gengur bara vel. Þau eru ánægð að vera farin úr öllu ruglinu hér.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 7.11.2010 kl. 14:08

7 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Marinó.

Lífskjaraskerðingin sem við urðum fyrir er að stórum hluta til fólgin í genginu og okkar ónýtu krónu.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 7.11.2010 kl. 14:13

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Mér finnst fólk misskilja þessar tölur Hagstofunnar.  Það er ekki búið að taka inn í þær stóran hluta verðhækkana og þær hafa ekki gengið til baka.  Vísitala neysluverðs hefur hækkað líklegast um ríflega 10% frá árslokum 2008 og kaupmáttur hefur rýrnað að auki.  Fólk hafði meiri tekjur 2008 en 2009.  Við vitum ekki hver talan er 2010, en Hagstofan er að meta það sem svo að kaupmáttur sé enn að rýrna og það í lágri verðbólgu.

Marinó G. Njálsson, 7.11.2010 kl. 14:24

9 Smámynd: Aðalsteinn Agnarsson

Marinó, lærum af Færeyingum, sendum 50 til 60 frystiskip út fyrir

200 mílur, til að ná í fisk, stóraukum strandveiðar og gefum frjálsar

handfæra veiðar, sem mundu leysa fátæktar og atvinnu vanda

Íslendinga!

Aðalsteinn Agnarsson, 7.11.2010 kl. 14:26

10 identicon

Marínó, átti ekki að tilkynna þessar lausnir í dag, sunnudag?

albert (IP-tala skráð) 7.11.2010 kl. 15:08

11 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Það er fátt annað að gera en að vera vitur og pakka saman sínu hafurtaski meðan maður er enn réttu megin við núllið

Jón Aðalsteinn Jónsson, 7.11.2010 kl. 15:19

12 identicon

Það er búið að vera ljóst frá hruni að engin ein leið væri fær og það yrði aldrei alger sátt um neinar aðgerðir. En aðgerðarleysið hefur fært flokka A það langt fram af brúnninni að það er hagkvæmara fyrir flokk A og þjóðfélagið að núlla það með breytingum á gjalþrotalögunum og gera þeim aðilum fært að byrja aftur að taka þátt í þjóðfélaginu , flokkur B stendur á brúninni en sér það ekki, flokkur C heldur hann sé öruggur út af því að óskhyggjan ræður í útreikningum á væntanlegum framtíðarhorfum.

Þó svo við hefðum lög til að taka á gömlu ( og nýju ) spillingunni þá mun það ekki breyta myndinni. Tíminn líður og það að setja leikinn í framlengingu með þykjustuaðgerðum gerði málin bara verri.

En eitt atriði vil ég benda á og það er að það er hægt að minnka jaðaráhrif hækkanna.

Orkuveitan þarf ekki endilega að hækka takstann og láta það svo velta út í verðlagið gegnum neysluvísitölu og annað. Hún getur notað sömu aðferðir og notaðar voru á bankaárunum og t.d. búið sér til vildarvinahóp sem njóta annrs verðlags en borga þess í stað fyrir vildarvinaþjónustuna það gjald sem Orkuveitan þarf inn til að standa undir sínum kostnaði.

Tölfræði og bókhaldsleikir voru notaðir til að pumpa upp ímyndina, það má líka nota þá til að "hagræða".

Hlynur Jörundsson (IP-tala skráð) 7.11.2010 kl. 15:54

13 Smámynd: Hrannar Baldursson

Hárrétt hjá Hólmfríði hér fyrir ofan. Landflótti er ekki auðveld lausn. Hún er afar erfið. Það er erfitt að taka þá ákvörðun að flytja í burt frá fjölskyldu og vinum. Það getur verið erfitt að læra nýtt tungumál og nýja siði, og þar að auki er ekki jafn auðvelt að fá vinnu þegar maður fer út fyrir tengslanetið. Það tekur tíma að vinna sér inn orðspor á nýjum slóðum. Að tala um landflótta sem auðvelda lausn er afar fjarri sannleikanum. Þetta er sorgleg leið sem fólk neyðist til að fara og kostar gífurlegar fórnir, sem ekki allir eru tilbúnir að færa.

Hrannar Baldursson, 7.11.2010 kl. 15:59

14 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Marinó,

Vil benda Andra Geir á að skv. greininni er hér um að ræða hagtölur fyrir árin 2006 - 2008, þannig að eftir hrun er aðeins 3 mánuðir af þessum 36 sem hagtölurnar eru fyrir.  Þetta eru því að mestu tölur frá því fyrir hrun.  Þetta er því svipuð þróun og átti sér stað hér vestan hafs og ein ástæða þess hversu illa kreppan kom við þorra almennings og fyrirtækja, sem höfðu líkt og á Íslandi - etv. ekki alveg eins brjálæðislega - skuldsett sig mjög mikið á árunum áður en kreppan skall á og höfðu því mun minni möguleika á neyðarfjármögnun heldur en ef skuldsetning hefði verið minni.  Því miður vill það verða svo að í góðæri þá skuldsetja allir sig því allir reikna með að uppsveiflan haldist.  Þegar harðnar svo á dalnum þá verður niðursveiflan þeim mun erfiðari vegna þess hversu miklar skuldir eru og fólk hefur ekki tækifæri til að standast áföll.  Þarna mættu menn taka Norska Olíusjóðinn sér til fyrirmyndar!  Norðmenn gætu rekið ríkið tekjulaust árum saman með eignum sjóðsins ef til þess kæmi! 

Ef þessar tölur væru fyrir 2009 og/eða 2010 þá væru þær mun dekkri því, eins og Marinó segir, þá ná þessar tölur ekki nema að litlu leiti yfir þær gífurlegu breytingar sem urðu við hrunið!

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 7.11.2010 kl. 17:43

15 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

16.000 hafa flutt af landi brott, sannarlega nokkur fjöldi komið inn á móti. Heildarfækkunin er því ekki svo risa stór. En, þetta er samt sem áður hin rétta tala - þ.e. 16.000 á einungis tveim árum.

Horfum aðeins lengra, og sjáum aftur 16.000 fara næstu 2 ár. Líklega mun draga úr innflæði á móti.

Punkturinn er sá, að vanalega eykst brottflutningur eftir því sem kreppur verða lengri.

Við erum sennilega að verða vitni að mesta brottflutningi frá Íslandi, sem hlutfall af landsmönnum, síðan á árunum milli 1880 og 1890.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 7.11.2010 kl. 17:47

16 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Það var merkilegt að hlusta á Árna Pál og Bjarna Ben, þá hvað þeir voru oft sammála.

Hugmyndir um svokallaða aðlmenna leiðréttingur virðast af borðinu, og Sjálfstæðismenn eru svo samálla því.

Er Bjarni Ben að biðla til Samfylkingar, um stjórnarmyndun?

Ég hef það svo sterkt á tilfinningunni.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 7.11.2010 kl. 17:54

17 identicon

Góð yfirferð Njáll sem vekur mann til umhugsunar um að Ísland hefur alltaf verið láglaunaland. Almenningur hefur aldrei haft efni á að eigin húsnæði. Verðbólgan brenndi upp lánin áður og þegar spariféð var farið tók verðtrygging og niðurgreiddir vextir við. Það er æfistarf fyrir venjulegan launamann að koma yfir sig þaki og skiptir litlu þegar hann geispar golunni hvort hann átti eða leigði. Auðvitað verður kaupmáttur að hækka en til þess að venjulegt fólk verði ekki að þrælum eignahyggju verður húsnæðisframboð að fara að taka mið af raunveruleikanum.

stefan benediktsson (IP-tala skráð) 8.11.2010 kl. 00:39

18 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Hrannar Baldursson

Sonur minn er svo heppinn að vera með góða fagmenntun og frábæra ferilskrá. Hann er vélvirki og rennismiður og gat strax valið úr vinnustöðum í Noregi.

Hann er líka svo heppinn að hann og kona hans völdu gott svæði og lítinn þéttbýlisstað (4 þúsund manna bæ skammt sunnan Lillehammer sem heitir Moelv) á Norskann mælikvarða.

Þar hittu þau fyrir lítinn en afar samhentan hóp Íslendinga sem tók þau beinlínis í fangið og hefur verið þeirra stuðningsfjölskylda.

Þó allt hafi í raun gengi mjög vel, er þetta eigi að síður mikið átak að taka sig upp og flytja í annað land.

Sturla Jónsson hefur trúlega farið í "svarta" vinnu þarna ytra, því hann segist ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum eftir heimkomuna.

Það eru alltaf til aðilar sem nýta sér aðstöðu fólks eins og Sturlu og ráða það í vinnu framhjá kerfinu, samanber starfsmannaleigurnar sem hér spruttu upp í kring um Kárahnjúkavirkjun og byggingabóluna á Höfuðborgarsvæðinu.

Sturla er líka svo mikið til í að leika "fórnarlamb" að það hálfa væri nóg.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 8.11.2010 kl. 07:58

19 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Stefán, ég held ég haldi bara mínu nafni og leyfi pabba að hafa sitt

Marinó G. Njálsson, 8.11.2010 kl. 12:21

20 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

stefan benediktsson (IP-tala skráð) 8.11.2010 kl. 00:39 ...sem vekur mann til umhugsunar um að Ísland hefur alltaf verið láglaunaland.

---------------------

Þ.s. þarf að gera, er að þróa ísl. framleiðsluhagkerfið. Okkur vantar verðmætari útflutningsgreinar, svo það verði hægt að borga hærri laun hérlendis.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 8.11.2010 kl. 12:55

21 identicon

Sorry Marinó! Þekkti líka nafna þinn.

stefan benediktsson (IP-tala skráð) 8.11.2010 kl. 19:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband