Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2011

Kaupmáttur 2,5% lægri en árið 2000

Tölur Hagstofu Íslands um ráðstöfunartekjur heimilanna segja allt sem segja þarf um ástandið í þjóðfélaginu.  Ég geri mér grein fyrir að þetta eru tölur fyrir 2010 og nú er október 2011, en þó einhver viðsnúningur hafi hugsanlega átt sér stað, þá sér vart högg á vatni.

Séu tölur Hagstofunnar skoðaðar nánar, þá kemur í ljós að kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur dregist  saman þrjú ár í röð.  Fyrsta árið, þ.e. 2008, var samdrátturinn aðeins 0,6%, en síðan koma tvö ár upp á 16,4% og 12,6%.  Á þessum þremur árum hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna því lækkað um 27,4% á mann!!!!  Þetta jafngildir því að fólk hefði misst 3,3 mánaða kaupmátt, þ.e. tekjur fyrir 8,7 mánuði þurfa að duga fyrir útgjöldum ársins. Kannski þetta sé árangurinn sem Steingrímur og Jóhanna eru að tala um.

27,4% skerðing kaupmáttar er meira en að segja það og skýrir betur en nokkuð annað hvers vegna raðirnar hjá hjálparstofnunum hafa verið að lengjast, fyrirtæki hafi verið að segja upp fólki og vanskil hafa aukist svo fátt eitt sé nefnt.

Í sögulegu samhengi, þá var kaupmáttur í lok árs 2010 nánast hinn sami og í lok árs 2001 og 2,5% lægri en árið 2000. Þó ráðstöfunartekjur hafi farið úr 1.243 þús.kr. á mann árið 2000 í 2.211 þús.kr. á mann, þá erum við að fá minna fyrir peninginn!  Á sama tíma hefur greiðslubyrði verðtryggðs láns sem tekið var árið 2000 eða fyrr  hækkað um ríflega 80%.  Vissulega er vaxtaþátturinn tekinn inn í útreikninga Hagstofunnar, en ekki afborgunarþátturinn.

Ráðstöfunartekjur á mann eru 74 þúsund kr. lægri árið 2010 en árið 2007 í yfir 30% verðbólgu.   Kannski þetta sé árangurinn sem Steingrímur og Jóhanna eru að tala um.

Ekki má líta framhjá því, að kaupmáttur er m.a. reiknaður út frá launavísitölu.  Hún mælir launahækkanir allra stétta í landinu og þeim skipt upp í hópa.  Þegar hækkun launa á almennum markaði, þar sem eru 2/3 vinnandi mann, er skoðuð nokkur ár aftur í tímann, þá kemur í ljós að aðeins einn hópur launþegar heldur hækkuninni upp, þ.e. starfsfólk fjármálafyrirtækja.  Áhugavert væri því, ef Hagstofan gæti reiknað út hver kaupmáttarbreytingin væri, ef þessum hópi væri sleppt út úr útreikningunum.  Frá árinu 2000 hafa meðallaun hækkað um 93,8% á almennum markaði samkvæmt tölum Hagstofunnar, þ.e. til ársloka 2010.  Þar af hafa laun í iðnaði hækkað 94,2%, laun í byggingarstarfsemi hækkuðu um 72,7%, laun í verslun og ýmisri viðgerðaþjónustu var hækkunin 83,9% og í samgöngum og flutningum nam hækkunin 75,3%, en hjá fjármálaþjónustu, lífeyrissjóðum og vátryggingum var hækkunin 120,8%.  Á sama tíma hækkaði launavísitalan um 93,6% sem bendir til þess að þeir sem ekki teljast til almenns vinnumarkaðar hafi hækkað að jafnaði jafn mikið og þeir sem eru á almennum markaði.  Þetta þýðir að kaupmáttur einnar stéttar, þ.e. fólks í fjármálafyrirtækjum hefur hækkað umtalsvert umfram aðra og í staðinn fyrir að vera 2,5% lægri en árið 2000, þá er hann um 25% hærri, opinberir starfsmenn og starfsmenn í iðnaði hafa að meðaltali haldið kaupmætti ársins 2000 (örlítil lækkun), en aðrar stéttir voru í árslok 2010 vel undir kaupmætti ársins 2000.  Þ.e. hrunið og eftirleikur þess hafa þurrkað út meira en 10 árum af kjarabaráttu þessara hópa og 10% að auki.  Ætli þetta sé árangurinn sem Steingrímur og Jóhanna eru að tala um.


mbl.is Samdrátturinn 8,2%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reiknaði Guðlaugur til enda? - Nýjar tölur frá Árna Páli afhjúpa misræmi

Ég hef aðeins skoðað hvernig tillögur sjálfstæðismanna virka á lán og er ekki hrifinn.  Skoðum skýringu þeirra á virkni tillögu þeirra:

Í frumvarpinu er lagt til að þessari aðferð við endurútreikning verði breytt til hagsbóta fyrir skuldara þannig að allar greiðslur sem inntar hafa verið af hendi fram að uppgjörsdegi komi þegar til frádráttar upphaflegum höfuðstól en að sú fjárhæð sem þá stendur eftir verði vaxtareiknuð í samræmi við almennt vaxtaviðmið laga um vexti og verðtryggingu frá upphafi samningstímans.

Fyrst vilja þeir að það sem hefur verið greitt verði vaxtalaust og síðan að greiddir verði okurvextir af restinni frá lántökudegi.  Lánþegar hafa aldrei beðið um að fá eitthvað ókeypis heldur bara að greiddir greiðsluseðlar marki hámark þeirrar greiðslu sem krafist er fyrir hvern gjalddaga og hitt að ekki verði um afturvirka hækkun vaxta að ræða.

Ég skoðaði gróflega dæmi um 10 m.kr. lán tekið árið 2004.  Alls hafa verið greiddar um 3 m.kr. í vexti og afborganir af því.  Samkvæmt aðferð sjálfstæðismanna verður höfuðstóll lánsins 7 m.kr., þ.e. upprunalegur höfuðstóll mínus allar greiðslur, og síðan bætast hvorki meira né minna en 88,4% vextir ofan á, þ.e. 8.3% fyrir 2004 + 11,0% (2005) + 14,2% (2006) + 16,3% (2007) + 18,1% (2008) + 13,0% (2009) + 7,5% (2010) eða alls 88,4% og þá reikna ég enga vexti fyrir árið í ár.  Eftirstöðvar lánsins standa því í 13,2 m.kr. plús/mínus eitthvað vegna þess að þetta eru grófir útreikningar.  Séu gjalddagagreiðslur látnar halda sér og vextir SÍ taka við frá og með dómi Hæstaréttar 16. september 2010, þá breytist myndin.  Um helmingur af gjalddagagreiðslum reyndist vera vextir, þ.e. afborganir voru því 1,5 m.kr.  Um þriðjungur af vöxtunum reyndust ofteknir vextir umfram vanreiknaða miðað við að samningsvextir legðust á lán sem ekki tók breytingum miðað við gengi.  Alls dragast því 2 m.kr. frá upprunalegum höfuðstól og 1 m.kr. er vextir til 16/9/2010 (allt gróflega áætlaðar tölur og afrúnaðar).  Eftirstöðvar lánsins 16/9/2010 voru því 8 m.kr. og ofan á þá tölu leggjast 6% vextir til dagsins í dag.  Uppreiknaðar eftirstöðvar eru því um 8,5 m.kr. samanborið við 13,2 m.kr. samkvæmt tillögu sjálfstæðismanna.  Mismunurinn er litlar 4,7 m.kr.  Ég spyr bara hvers vegna eru menn að leggja til þessa afturvirkni vaxtanna?

Líklegast eru þessar 13,2 m.kr. eitthvað lægri en endurútreikningur samkvæmt lögum nr. 151/2010.  Ég veit það ekki og held að það velti m.a. á lántökudegi, lánstíma, hvernig fólki tókst að standa í skilum og síðan samningsvöxtunum.  En hvers vegna á lántaki að greiða hærri vexti afturvirkt en hann var krafinn um af fjármálafyrirtækinu á greiðsluseðlum og ekki voru gerðar neinar athugasemdir við á sínum tíma?  Ég átta mig ekki á því.

Nýjar tölur frá Árna Páli

Samkvæmt  Skýrslu umefnahagsstefnu - Þjóðhagsáætlun 2012 sem lögð var fram á Alþingi af efnahags- og viðskiptaráðherra 4. október sl., þá eru meintar afskriftir fjármálafyrirtækjanna af lánum heimilanna komnar í 164 ma.kr. miðað við stöðuna í lok ágúst 2011.  Þar af eru afskriftir vegna gengisbundinna lána 131 ma.kr., þ.e. 92 ma.kr. vegna íbúðalána og 38 ma.kr. vegna bílalána, 27 ma.kr. vegna 110% leiðarinnar, þar af 9,8 ma.kr. vegna "gömlu" 110% leiðarinnar, og loks 6,2 ma.kr. vegna sértækrar skuldaaðlögunar.

Þessar tölur ráðherra eru á margan hátt mjög áhugaverðar.  Fyrst eru það áður gengistryggð húsnæðislán.  Samkvæmt gögnum Seðlabanka Íslands, þá stóðu gengistryggð húsnæðislán í 107 ma.kr. í lok september 2008.  Að þessi lán hafi verið færð niður um 92 ma.kr. gengur ekki upp.  Í fyrsta lagi voru þau aðeins metin á 58,5 ma.kr. í bókum bankanna í lok október 2008 (samkvæmt hagtölum SÍ) og í öðru lagi þá virðist ekki vera tekið tillit til vaxta sem leggjast á höfuðstól lánanna eftir endurútreikning né breytingu á framtíðargreiðsluflæði til hækkunar sem er mjög algeng.  Sem sagt niðurfærsla höfuðstólsins er færð inn sem afskrift, en endurútreiknaðir vextir ekki dregnir frá þeirri tölu.

Varðandi gengistryggð bifreiðalán, þá eiga þau að hafa lækkað um 38 ma.kr.  Þetta er tala sem ég er tilbúinn að samþykkja, en þætti gott að fá hana samt betur skýrða út.

Þá er það 110% leiðin.  Hún er sögð bera ábyrgð á 27 ma.kr. af "afskriftum" og þar af eru um 10 ma.kr. vegna "gömlu" 110% leiðarinnar, þ.e. það sem gert var áður en samkomulag fjármálafyrirtækja og stjórnvalda var undirritað 3. desember 2010.  Það þýðir að 17 ma.kr. af afskriftum séu tilkomnar vegna samkomulagsins.  Þetta er einkar áhugavert, þar sem í útreikningum sérfræðingahópsins sem ég sat í á síðasta ári, var gert ráð fyrir að 110% leiðin kostaði 125 ma.kr.  (skoða verður tölu fyrir 100% leið í upplýsingum á vef forsætisráðuneytisins, þar sem gert var ráð fyrir 10% lækkun fasteignamats sem tók gildi um síðustu áramót).  Í þeirri tölu var ekki gert ráð fyrir áður gengistryggðum lánum, svo það sé á hreinu.  Hér vantar því litla 108 ma.kr. sem gert var ráð fyrir að fjármálafyrirtækin lækkuðu lán heimilanna um, en ætla augljóslega ekki að gera.  Ok, segjum að óuppgerð mál bæti einhverjum milljörðum við afskriftirnar, en ennþá verða eftir um 100 ma.kr.  Svona til að gæta fullkominnar sanngirni, þá reiknuðu stjórnvöld og fjármálafyrirtækin að úrræðin sem skrifað var undir 3. desember 2010 myndu kosta milli 90 og 100 ma.kr., samkvæmt glæru 20 í kynningu á úrræðunum sem finna má á vef velferðarráðuneytisins.  Þar kemur líka fram að niðurfærsla gengistryggðra lána muni kosta 50 ma.kr. (þar af 15 ma.kr. líka taldir annars staðar), að kostnaður bankanna yrði 56 ma.kr., Íbúðalánasjóðs 12 ma.kr. og lífeyrissjóðanna 10 - 15 ma.kr. (dásamlegt hvað menn eru góðir í stærðfræði, því ég fæ 113-118 ma.kr. út úr þessu). Sem sagt 95 - 100 ma.kr. vantar í niðurfærsluna svo staðið sé við viljayfirlýsinguna frá 3/12/2010.  Eða var kostnaðarútreikningurinn bara settur fram til að blekkja?

Ekki þýðir að benda á þessa 92 ma.kr. í gengistryggðum húsnæðislánum, þar sem þeir voru fyrir utan útreikninga sérfræðingahópsins.  Auk þess voru gengistryggð lán færð niður um 50% við flutning þeirra frá gömlu bönkunum til þeirra nýju, samkvæmt skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna.  Vissulega voru ekki öll gengistryggð lán hjá bönkunum þremur, en upphæðirnar hjá SPRON og FF voru ekki það háar að þær breyti þessari tölu svo nemi tugum prósenta.

Ég fagna því að ráðherra birti þessar tölur vegna þess að þær sýna svikin loforð fjármálafyrirtækjanna.  Vissulega eru engar tölur nefndar í samkomulaginu frá 3. desember 2010, en það var byggt á útreikningum sérfræðingahópsins og menn hafa barið sér á brjósti yfir því að þetta hafi staðið til.  Önnur ástæða er fyrir því að ég fagna birtingu þessara talna.  Árni Páll Árnason hefur slegið því um sig og Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, notaðið það í Kastljósi um daginn, að verðtryggð húsnæðislán hafi verið færð niður um 90 ma.kr.  Í tölum ráðherra segir aftur að aðrar niðurfærslur en vegna áður gengistryggðra lána hafi bara verið 33 ma.kr.  Ég benti á það um daginn, að Guðjón hefði eingöngu notað þessa tölu vegna þess að Árni Páll hefði slegið henni fram og hún væri líklegast úr lausu lofti gripinn.  Ég fæ ekki betur séð en að ráðherra staðfesti það með upplýsingum sínum.  Áhugavert væri að fá hans skýringu á þessu.

Vandinn við að segja ekki rétt frá er að samræma misræmið.  Tölur ráðherra eru augljóst dæmi um hvernig allt fer í steik, þegar menn samræma ekki misræmið.  Ég er ekki með því að segja að þessar tölur séu rangar, en þær sýna að stjórnvöld og fjármálafyrirtæki skirrast ekki við að segja það sem þeim dettur í hug án þess að flugufótur sé fyrir því sem þau segja.  Enn og aftur hvet ég aðila til að segja satt og rétt frá.  Það er betra fyrir alla og sparar mönnum roða í kinnum þegar flett er ofan af misræminu.  Fyrir utan að menn ávinna sér hugsanlega traust með því að greina rétt frá.


mbl.is Endurflytur frumvarp vegna endurútreikninga erlendra lána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steve Jobs - Goðsögn í lifandi lífi fallin frá

Tveir guttar um tvítugt byrjuðu á fikti í bílskúr heima hjá öðrum þeirra fyrir réttum 35 árum.  Þeir voru með hugmynd að einmenningstölvu sem síðar var nefnd Apple.  Í dag er þetta eitt af 10 verðmætustu vörumerkjum heims.  Þessir hugmyndaríku guttar voru Steven Paul Jobs og Steve Wozniak en á þeim var 5 ára aldursmunur.  Saman stofnuðu þeir fyrirtækið Apple ásamt þriðja manni, Ronald Wayne, árið 1976.  Þá var Steve Jobs aðeins 21 árs gamall.

Langt mál væri að lýsa ferli þessa snillings.  Hann ólst upp í Mountain View í Kaliforníu, skammt frá Stanford háskóla.  Á lóð skólans var rannsóknarstofa Xerox rafeindafyrirtækisins (Xerox Palo Alto Researc Center, Xerox PARC) og þangað fór hann einhverju sinni í heimsókn.  Það sem hann sá þar opnaði augu hans fyrir framtíðinni.  Grafískt notendaviðmót tengt við mús, tölvunet, geislaprentara og ýmislegt fleira.

Þó Apple II tölvan hafi náð miklu vinsældum var hugur þeirra nafna annars staðar.  Afraksturinn af þeirri vinnu var Apple Lisa.  Hún kom á markað árið 1983 og man ég að við strákarnir í tölvunarfræðinni fórum í hálfgerðar pílagrímsferðir í Radíóbúðina við Skipholt þar sem Lísunni var stillt upp á 2. hæð.  En Lísan virkaði illa og Jobs og Apple hættu þróun hennar til að einbeita sér að annarri vél sem fékk nafnið Macintosh.  Hún var fyrst kynnt í einni eftirminnilegustu Super Bowl auglýsingu sem sýnd hefur verið.  Í þeirri auglýsingu, sem sýnd var í janúar 1984, fékk heimurinn að kíkja inn í framtíðina.  Með Makkanum kom AppleTalk, postscript geislaprentari og margt fleira sem var algjör nýjung.  Ég man á mínum Stanford árum að menn notuðu Makkann til alls, m.a. sem console fyrir ofurtölvu skólans.

En lífið hjá Apple var ekki alltaf dans á rósum.  Jobs hafði tekist árið 1983 að tæla til Apple manninn sem gerði Pepsi stórt, þ.e. John Sculley.   Það eru kannski ekki margir sem vita það, en Sculley er maðurinn á bak við stórar gosdrykkjaumbúðir og  hafði með því komið Pepsi á kortið.  Jobs sá bæði afbragðs markaðsmann í Sculley, en ekki síður stjórnanda sem gat leyft honum að dunda sér í þróunarvinnunni.  Sú ákvörðun að ráða Sculley átti samt eftir að hafa alvarleg eftirköst fyrir Jobs sem hrökklaðist frá Apple vegna deilna við Sculley.  Deilurnar voru um tæknistefnu fyrirtækisins og þykir örugglega skjóta skökku við, að gosdrykkjamaðurinn hafi unnið tæknitröllið í þeirri baráttu.  á þeim tíma skiptust allir notendur Apple búnaðar í tvo hópa.  Þeir sem héldu með Jobs og hötuðu Sculley og hinir sem töldu Sculley í guðatölu og Jobs sem skúrkinn.  Ég var í fyrrnefnda hópnum og sá mikið eftir Jobs þegar hann hrökklaðist í burtu.

Steve Jobs sagði síðar, að hafa verið rekinn frá Apple hafi verið það besta sem fyrir hann gat komið.  Þetta var honum bæði vakning en ekki síður þá losnaði hann undan því álagi sem fylgdi því að vera tæknileiðtogi fyrirtækisins.  Ekki leið á löngu að Jobs var kominn á fullt með nýjar hugmyndir og fæddist þá enn eitt tækniundrið NeXT vinnustöðin.  Vandinn við NeXT var að vélin var langt á undan sínum tíma.  Margt sem NeXT tölvan bauð upp á kom ekki fram hjá öðrum framleiðendum fyrr en áratug síðar.  Á þeim árum þegar Jobs vann við þróun NeXT tölvunnar og ekki síður stýrikerfis og hugbúnaðar var ég fyrst starfsmaður Tölvutækni Hans Petersen og síðar tölvukennari við Iðnskólann í Reykjavík og tölvudálkahöfundur hjá viðskiptablaði Morgunblaðsins.  Eyddi ég því löngum tíma í að lesa um Jobs og afrek hans og skráði það allt á Macintosh tölvuna sem ég keypti í Palo Alto árið 1986 um líkt leiti og Jobs keypti fyrirtæki sem síðar var nefnt Pixar og er þekkt fyrir að framleiða stóran hluta teiknimynda Disney.  Kaupin á Pixar sýna hvað Jobs var framsýnn og tæknilega þenkjandi, en þau sýndu líka að hann var ekki alltaf að hugsa um praktísku hliðina á málunum, þar sem mörg ár liðu frá því að hann keypti fyrirtækið, þar til það fór að gefa af sér.

En Jobs sneri aftur til Apple árið 1996 þegar Apple keypti NeXT.  Apple hafði ekki gengið nógu vel og verið í rauðum tölum í mörg ár.  Fyrirtækið hafði reynt að halda sérstöðu sinni, en hún kostaði það í staðinn skrifstofumarkaðinn.  Apple tölvur voru einfaldlega of dýrar fyrir hinn almenna fyrirtækjamarkað, en nær allir í grafískri hönnun og á auglýsingamarkaði notuðu Apple.  Alls konar lausnir voru reyndar og ein var fyrsta dual boot vélin, þ.e. er vél sem gat bæði ræst sig upp sem DOS vél og Macintosh.

Með kaupunum á NeXT fékk Apple yfirráð yfir i-tækninni.  Framleiðslulína fyrirtækisins hefur nánast síðan verið með forskeytið i á undan öllum nöfnum,  iMac, iTunes, iPhone, iPod, iPad.  Lögð var sífellt meiri áhersla á útlitshönnun búnaðar og einfalda notendaviðmót.  Allt var þetta meira og minna úr smiðju Jobs.

Ekkert fer á milli mála að Jobs var snillingur.  Hann töfraði aftur og aftur fram tækninýjungar sem fengu tækniheiminn til að halda niðri í sér andanum.  Fyrirtækið var stöðugt að taka fram úr sér og marka nýja strauma og stefnur.  Hin síðari ár meðan Jobs stríddi við sjúk þann, sem að lokum lagði hann að velli, þá þurfti hann oft að taka sér frí frá störfum.  Þó svo að það væri ekki tilkynnt sérstaklega, þá tóku tækninördarnir eftir því, þar sem ýmsar misheppnaðar uppfærslur á búnaði litu dagsins ljós.  Svo kom hann beint aftur af sjúkrabeðinu og náði að snúa öllu við á augabragði.

En nú er tæknitröllið allt.  Við sem eftir stöndum höfum misst einn hugmyndaríkasta tæknimann veraldar.  Mann sem hefur breytt því hvernig við notum tölvu- og fjarskiptatæknina.  Manninn sem steypti tölvunni og símanum saman í eitt.  Þróaði tónhlöðuna iTunes, gaf okkur iPod, iPhones og nú síðast iPad.  Í dag er enginn í lagi nema hann eigi eitthvað i-tæki.  Ég á bara eldgamlan iPod, þannig að ég er rétt á mörkunum, en það er sama hvert maður fer á kaffihús eða stóra fundi, út um allt eru i-græjurnar hans Steven Paul Jobs.  Ætli hann hafi séð þetta fyrir þegar þeir nafnar stofnuðu Apple fyrir 35 árum?

Steve Jobs, takk fyrir allt sem þú hefur fært heiminum síðustu 35 ár!  Án þín hefðum við verið mun fátækari og ekki komin eins langt í tækniþróun.

Viðbót 6.10. kl. 12:00

Ég verð að bæta við ræðu Steve Jobs sem hann hélt við útskrift hjá Stanford háskóla árið 2005.  Hún er algjört meistarastykki.  Fyrst ræðan eins og hún birtist okkur á YouTube

 

Síðan er slóð á vef Stanford háskóla, þar sem ræðan er birt í heild í rituðu máli.


mbl.is Steve Jobs látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sparnaður er svo fjárfestar fái ódýrt lánsfé! - Raunverulegt hlutverk lífeyrissjóða er ekki sparnaður

Fyrir helgi barst mér póstur frá konu sem sagði farir sínar og mannsins síns ekki sléttar gagnvart lífeyrissjóðnum hans.  Hann var með séreignarsparnað hjá tilteknum sjóði og líka lán.  Á nokkurra ára tímabili hafði lánið hækkað verulega en séreignarsparnaðurinn óverulega. 

Ólafur Margeirsson, doktorsnemi í hagfræði fjallaði um þetta mál á síðunni sinni í færslunni Saga sjóðfélaga.  Þar kemst hann að þeirri niðurstöðu að ekkert vit sé í því að greiða í séreignarsjóð og hvetur fólk til að taka út séreignarsparnaðinn sinn.  Umfjöllun Ólafs um málið er einfaldlega það góð, að ég hef lítið við það að bæta.  Vona ég að sendandinn erfi það ekki við mig, þó ég fjalli ekki beinum orðum um málið hér.

Gunnar Heiðarsson setti athugasemd inn á færslu mína Svör um verðtryggingu, sem ég birti í gærkvöldi, þar sem hann bendir á misvægi milli lántöku og sparnaðar.  Munur á 1 m.kr. til 5 ára er á fjórða hundrað þúsund eftir því hver á peningana.

Hvorugt af þessu þarf að koma á óvart.  Fjármálakerfið virkar svona.  Þá á ég við, að taka peninga ódýrt að láni og lána þá út á hærra verði.  Verum ekki svo einföld að halda, að betra sé að eiga peninga á lágum vöxtum í banka og skulda á hærri vöxtum, en að nota sparnaðinn til að greiða niður lán.  Hér er sáraeinfalt dæmi:  Sé 1 m.kr. á 1% vöxtum á sparisjóðsbók og sami aðili sé með 1 m.kr. lán á 11% vöxtum til 5 ára hjá bankanum sínum, þá er viðkomandi að tapa 250 þús.kr. á lánstímanum.  (Meðallánsfjárhæð er 500 þúsund kr. og vaxtamunurinn 50 þúsund á ári eða alls 250 þúsund.)  Í þessu tilfelli er hagkvæmast fyrir viðkomandi að nota peningana á sparireikningnum til að greiða upp lánið og leggja vaxtamuninn inn á sparireikninginn.

Raunverulegt hlutverk lífeyrissjóðanna

(Mig langar að vera dálítið brútal núna og setja fram ögrandi mynd á raunverulegu hlutverki lífeyrissjóðanna.  Ekki skal líta á það sem á eftir kemur sem alhæfingu og á því sem sagt er, eru að sjálfsögðu undantekningar.)

Lífeyrissjóðakerfið er stærsta hítin.  Hvergi tapar almenningur peningum sínum eins hratt og þar.  Í hverjum mánuði er greitt fyrir þann sem er með 250.000 kr. í mánaðarlaun 30.000 kr. í lífeyrissjóð.  10.000 kr. koma af launum viðkomandi og 20.000 kr. koma frá atvinnurekandanum og eru ekkert annað en laun, þó við köllum það ekki því nafni.  30.000 kr. á mánuði er 360.000 kr. á ári.  Ef í staðinn fyrir að greiða þetta á þennan hátt inn í sjóðina, fengi viðkomandi að nota peninginn til að greiða niður lán sín, þá græðir viðkomandi líklegast 10% af tölunni árlega í lægri vöxtum vegna lánsins síns.  Hvers vegna á ég að greiða 12% af launum mínum til lífeyrissjóðsins míns til að geta tekið lán hjá þessum sama lífeyrissjóði á mun hærri vöxtum en ég fæ af peningunum sem hann fékk frá mér?  Það er eitthvað stórlega rangt við það.

Tekið skal fram, að ég er ekkert á móti lífeyrissjóðum, en köllum hlutina réttu nafni:

1.  Lífeyrissjóðirnir eru til að greiða niður útgjöld ríkisins.  Lífeyrisgreiðslur voru fyrir 30 - 40 árum hugsaðar til að bæta kjör aldraðra í ellinni og hag örykja.  Í dag eru þær fyrst og fremst niðurgreiðsla á framlagi ríkisins til velferðarkerfisins.   Sá sem á mikil réttindi frá lífeyrissjóðnum er lítið bættari en sá sem á nánast engin réttindi eða mjög takmörkuð.  Skiptir þá ekki máli hvort viðkomandi býr einn, með maka sínum eða er á vistheimili.  Kerfið sem við búum við í dag gengur út á jöfnuð, þannig að allt sem við spöruðum í lífeyrissjóði á starfsævinni umfram manninn í næsta hús er ekki að nýtast okkur nema að mjög takmörkuðu leiti vegna þeirrar tekjujöfnunar sem felst í kerfinu. Nýlega steig fram kona sem var með á fimmta hundrað þúsund í greiðslur úr lífeyrissjóði á mánuði.  Hún bjó á sambýli eldri borgara og þangað runnu nær allar tekjur hennar.  Hún hafði ekki einu sinni efni á að kaupa jólagjafir handa barnabörnunum.  Draumurinn um ferðalög í ellinni var brostinn vegna þess að sambýlið hirti nær allt af henni.  Á næsta gangi var kannski einstaklingur sem hafði um 100 þúsund frá lífeyrissjóðnum og hann hafði sömu ráðstöfunartekjur og blessuð konan.  Til hvers var konan þá að ávinna sér þessi réttindi og geyma þau í lífeyrissjóði, ef það bætti hag hennar ekkert?  Nei, því miður hafa stjórnvöld eyðilagt þann hluta lífeyrissjóðakerfisins sem gekk út á "áhyggjulaust ævikvöld".  Núverandi almannatryggingakerfi gengur nefnilega út á að gera hlut allra jafn nöturlegan.

2.  Hlutverk lífeyrissjóðanna í dag er að útvega fé til fjárfestinga.  Staðreynd málsins er að lífeyrissjóðirnir eru stærstu fjárfestar landsins.  Þeir safna lánsfé frá iðgjaldsgreiðendum og þó svo í orði kveðnu þeir eigi að skila góðri ávöxtun, þá standa þær dyr galopnar.  Ávöxtunarkrafan er nefnilega tengd afkomu sjóðanna, þannig að endurgreiðsla lánsfjárins fer allt eftir því hvernig fjárfestingastjórar sjóðanna standa sig og síðan efnahagsumhverfinu.  Gangi allt á afturfótunum eins og síðustu 4 ár, þá segir framkvæmdastjórinn af sér!  Nei, nei, nei.  Þá tapar sjóðfélaginn peningunum sínum.  Framkvæmdastjóranum líður kannski illa yfir þessu, en hann heldur laununum sínum og bílnum og hinum og þessum fríðindum.  Sjóðfélaginn, hann aftur á móti þarf að sætta sig við 20% skerðingu og þaðan af meiri.  Nú gangi vel, þá nýtur sjóðfélaginn þess vissulega, en framkvæmdastjórinn er líklegast verðlaunaður.  Ánægðastir eru þó fjárfestar, þar sem þeir fá meiri pening til að leika sér með.

Íslensku lífeyrissjóðirnir eru orðnir allt of stórir fyrir Ísland.  Fjárfestingageta þeirra stefnir í 2.000 ma.kr. og það þrátt fyrir að hafa tapað fleiri hundruð milljörðum árið 2008.  2.000 ma.kr. er um 30% umfram árlega þjóðarframleiðslu!  Bara það eitt er hættumerki.

3.  Sjóðfélagar hagnast meira á því að greiða niður lán en eiga peninga í lífeyrissjóðum.  Ólafur Margeirsson komst að þessari niðurstöðu í sinni grein og ég er að sumu leiti sammála honum.  Eins og staðan er í dag í þjóðfélaginu, þá er skuldlaus maður frjáls maður.  Ég á einhverja milljóna tugi inni í mínum lífeyrissjóðum miðað við það sem ég hef greitt inn í þá. Ég hef fengið lán hjá einum þeirra og telst mér til að ég greiði um 5% hærri vexti af láninu, en það sem ég fæ út úr peningum mínum hjá sjóðnum.  Ef öll lífeyrisiðgjöld vegna mín hefðu verið greidd inn á reikning, sem ég hefði getað notað í stað lántöku (notkunin háð ströngum skilyrðum), þá væru skuldir mínar brot af því sem þær eru í dag og þar með væri eignarhlutur minn í húsinu mínu mun hærri.  Hugsanlega ætti ég það skuldlaust.  Við aðrar efnahagsaðstæður gæti staðan snúist við, þ.e. hagkvæmara væri að taka lán og eiga pening í lífeyrissjóði.  Þannig var það t.d. á árunum 2004 - 2006 fyrir þá sem tóku gengistryggð lán.  Í dag er verið að flá þetta fólk lifandi með okurvöxtum Seðlabanka Íslands.

4.  Lífeyrissjóðir geyma framtíðarskatttekjur ríkissjóðs og sveitafélaga.  Þetta er líklegast einn mikilvægasti tilgangur lífeyrissjóðanna, þ.e. að taka skatttekjur nútímans og geyma þær til framtíðar.   Því miður er ekki víst að þetta reynist ríkissjóði vel.  Hafi lífeyrissjóðirnir tapað 4 - 5 hundruð milljörðum vegna hrunsins, þá tapaði ríkið (og sveitafélög) í leiðinni á bilinu 133 - 166 ma.kr. miðað við að þriðjungur upphæðarinnar fari í skatta.  Ef ríkissjóður hefði þá reglu að innheimta skatt strax af lífeyrisiðgjöldum og safna honum í varasjóð sem hefði ávaxtast á sama hátt og hjá sjóðunum, þá hefði ríkið (og sveitafélög) átt um 600 ma.kr. í þessum varasjóði í lok september 2008.  Sú upphæð hefði örugglega breytt ýmsu varðandi úrræðin sem ríki og sveitafélög hefðu getað gripið til í því skyni að endurreisa efnahagslífið.  Spurningin er bara hvort ríkið hefði ekki verið búið að eyða þessum peningum fyrir löngu í einhverja vitleysu.

Ég er þeirrar skoðunar, líkt og margir fleiri, að nauðsynlegt sé að endurskoða framkvæmd lífeyrissparnaðar og opna þar meira fyrir einstaklingsbundinn sparnað.  Samtryggingakerfið bólgnar út án þess að halda í við kröfurnar sem ætlast er til að það standi undir.  Ólafur Margeirsson hefur sagt kerfið vera Ponzi svikamyllu, þ.e. þeir sem fyrst komast á eftirlaunaaldur fá sitt á kostnað þeirra sem síðar koma og loks þegar kemur að þeim verði ekkert eftir.  Staðreyndin er sú, að lífeyrissöfnun almennings hefur að miklu leiti hrakið af leið hins upprunalega tilgangs.  Það þarf að leiðrétta.


Svör um verðtryggingu

Rakel Sigurgeirsdóttir ritaði færsluna Stefnumót við stjórnvöld á bloggið sitt.  Bloggari að nafni Jón Bragi Sigurðsson setur þar fram nokkrar spurningar og leitaði Rakel til mín og nokkurra annarra að svar þeim.  Brást ég glaður við þeirri beiðni og setti inn svar sem birtist hér fyrir neðan.  Fyrst vil ég þó birta spurningar Jóns Braga:

1.  Ég hef beint þeirri spurningu til Hagsmunasamtaka Heimilanna hvað þau vilja að komi í stað verðtryggingar en ekki fengið nein svör. Viljið þið sem krefjist afnáms verðtryggingar hærri vexti í staðinn, neikvæða vexti eða...?

2.  Og Rakel, verðtrygging er engin trúarbrögð fyrir mig frekar en fyrir þig eða HH. Hins vegar er ég það gamall að ég man eftir því hvernig hlutirnir voru áður en verðtryggingin var tekin upp. Þá var stolið af mér sparimerkjum og öðrum sparnaði og gefið þeim sem skulduðu. Viljum við það ástand aftur?

3.  P.s. Hvenær var það sem laun voru verðtryggð?

4.  Það er alla vega ágæt byrjun að vita hvers vegna verðtryggingu var komið á í upphafi.  ..aðalástæðan var sú að hindra að stolið væri peningum frá þeim sem áttu sparifé og gefið þeim sem skulduðu. Vextir voru neikvæðir þannig að verðbólgan át upp lánin og sparifé. 

Hér er svo innleggið mitt:

Jón Bragi, þegar þú áttir sparimerki, þá var nánast ekkert til sem hét hagstjórn á Íslandi.  Karlarnir af kajanum sáu um að reka lífeyrissjóðinn sinn og hér var óðaverðbólga í kjölfar áralangrar verðstöðvunar viðreisnarstjórnarinnar.  Olíuverð hafi allt í einu rokið upp úr öllu og síldin hafði horfið nokkrum árum fyrr.  Landið treysti á fiskveiðar og þegar ekki tókst að selja fiskinn nægilega háu verði, þá var gengið fellt um 5, 10 eða 15% jafnvel nokkrum sinnum á ári.  Ert þú að jafna efnahagsástandinu núna við það ástand þegar sparimerkin þín brunnu upp?  Fermingapeningarnir mínir (og líklegast Rakelar þar sem við fermdumst sama árið) brunnu líka upp í óðaverðbólgu, en mér dettur ekki í hug að vilja halda í verðtrygginguna vegna þess að þeir hurfu í verðbólgubáli ríkisstjórnar Geirs Hallgrímssonar og Ólafs Jóhannessonar.

Verðtryggingu var komið á til að stöðva eignabruna allra.  Bæði launafólks og fjármagnseigenda.  Síðan var launafólkinu hent út og fjármagnseigendurnir hafðir áfram inni.  Frá þeim tíma hefur Ísland haft tvo gjaldmiðla, þ.e. verðtryggða krónu og óverðtryggða krónu.  Fjármagnseigendur hafa í ríku mæli átt verðtryggðar krónur, en við hin höfum mátt sætta okkur við óverðtryggðar.

Verðtrygging átti að vera tímabundið fyrirbæri og meðan óðaverðbólgan væri við líði.  Verðtrygging átti líka að stuðla að lækkun nafnvaxta lána, en það hefur hún ekki gert ef við lítum á verðbætur sem vexti.  Afsökunin er sú að við búum við svo lélega mynt.  En verðtryggða krónan er mjög sterk mynt.  Hún er ein sterkasta mynt í heimi.  Sá sem hefur átt hana frá setningu Ólafslaga hefur náð að breyta 100 kr. árið 1980 (nýjar krónur) í  5.466 kr. í dag.  Ég er ekki með gengisþróun nema aftur til maí 1988 og þá hafði 100 kr. frá janúar 1980 hækkað í 1.555 kr. og fyrir það fengust 20 GBP eða 37,4 USD.  Fyrir 5.466 kr. fást í dag tæplega 30 GBP eða 46,2 USD, þannig að verðtryggða krónan er 50% öflugri gjaldmiðill en GBP og 23,5% öflugri en USD.

Hvað á að koma í staðinn fyrir verðtryggingu?  Í fyrsta lagi hefur enginn talað um að afleggja eigi verðtryggingu.  Eingöngu er talað um að afleggja verðtryggingu á lánum heimilanna.  Í öðru lagi, þá líður nágrannaþjóðum okkar alveg ágætlega og engri þeirra hefur dottið í hug að íþyngja þegnum sínum með verðtryggðu neytendalánum eða húsnæðislánum.  Við förum ekki fram á neitt annað en það sem nágrannar okkar hafa, þ.e. óverðtryggð neytendalán og húsnæðislán með óverðtryggðum föstum, breytilegum eða fljótandi vöxtum, þar sem ávöxtunarkrafa húsnæðislána sé til að byrja með ekki hærri en 6% og fari síðan lækkandi niður í hámark 4%.  Þetta er það sem við viljum.  Við teljum að þetta muni stuðla að stöðugleika, þar sem fjármálafyrirtæki og fjárfestar verða ekki lengur varðir fyrir tjóni óstöðugleikans, heldur þurfi að takast á við afleiðingar óstöðugleikans alveg eins og við hin.  Þá verður best fyrir alla að viðhalda stöðugleika og því munu allir verða þátttakendur í því að viðhalda honum.

Það er ótrúlegur misskilningur að vaxtastig á hverjum tíma eigi að tryggja jákvæða raunvexti.  Ef svo væri, þá væru bankarnir ekki að bjóða 0,55% vexti á innstæðureikingum.  Nei, fyrir langtímafjárfesti er markmiðið að fá jákvæða raunvexti á líftíma fjárfestingarinnar.  Hvergi í heiminum, nema á Íslandi gera fjárfestar kröfu um jákvæða raunvexti sama hvað dynur á án þess að þurfa að hafa fyrir því.  Það á ekki að vera auðvelt mál að ná góðri ávöxtun á hverju einasta ári.  Menn eiga að þurfa að hafa fyrir því, alveg eins og foreldrar þurfa að hafa fyrir því að búa börnum sínum gott líf.  Það er bara hinn ofdekraði íslenski fjárfestir sem heldur því fram að góð raunávöxtun eigi að koma áreynslulaust.

Þú spyrð hvenær laun voru verðtryggð.  Þú segist hafa misst sparimerkin þín í óðaverðbólgu og veist ekki hvenær laun voru verðtryggð.  Ég veit ekki hvort hægt er að taka þig alvarlega eða hvort minni þitt sé valkvætt.  Laun voru verðtryggð frá 1979 fram á vor 1983 er þau voru aftengd verðtryggingu um það leiti sem ársverðbólgan fór yfir 130%.  Þá fór í gang gríðarleg eignarupptaka og stór hópur húsnæðiseigenda tapaði öllu.  Þáverandi ríkisstjórn bar ekki gæfu til að leysa það mál farsællega, þannig að mjög mörg heimili fóru í gjaldþrot eða það tók þau 10, 15 og jafnvel 20 ár að vinna sig út úr vandanum.

--

Svo mörg voru þau orð.  Greinilegt er að mikil misskilningur er í gangi varðandi áhrif af afnámi verðtryggingarinnar.  Einnig má sjá að óðaverðbólga sem rann sitt skeið fyrir ríflega 20 árum er föst í hugum þeirra sem eldri eru.  Já, sparifé brann upp á áttunda áratugnum og verðbólga hélst há allan þann níunda, en síðan hefur aðeins eitt tímabil keyrt úr hófi hvað verðbólgu varðar, þ.e. frá apríl 2008 til september 2009 en allan þennan tíma var verðbólga yfir 10% á ársgrunni.   Merkilegt er samt til þess að vita, að bæði á níunda áratugnum og núna á nýrri öld, þá er stærstur hluti sparifjár landsmanna sem geymt er í bönkum óverðtryggður á smánarvöxtum.  Þess fyrir utan er almenningur almennt ekki með sparifé sitt á verðtryggðum reikningum.  Stærsti hluti sparnaðar almennings er í fasteignum eða í lífeyrissjóðum.  Hvorugt er verðtryggt, þó svo að lífeyrissjóðirnir reyni það.  Nú hváir einhver og telur lífeyrisréttindi verðtryggð.  Þau eru það ekki.  Það er eingöngu ávöxtunarkrafan sem miðar við 3,5% raunávöxtun, en síðan verða sjóðirnir að breyta réttindaávinningi og lífeyrisgreiðslum í samræmi við afkomu án tillits til þess hvert markmiðið er.

Verðtryggingin er að brenna upp sparnað stórs hluta almennings, ekki verja hann.  Verðtryggingin er að færa peninga frá almenningi til fjármagnseigenda.  Vissulega er hluti þessara fjármagnseigenda félagar í lífeyrissjóðum, en þeir hafa enga tryggingu fyrir því að verðbæturnar sem þeim er gert að greiða skili sér til þeirra.

Eins og ég segi að ofan, þá á eiga fjárfestar ekki að búa við "örugga" fjárfestingu.  Þeir eiga að vinna jafn hörðum höndum fyrir ávöxtun sinni og launamaður á kajanum vinnur fyrir sínum launum.  Enginn fjárfestir á að vera varinn sjálfkrafa fyrir tjóni sem óstöðugleiki veldur, þar sem þá er honum sama um óstöðugleikann og gæti hreinlega stuðlað að honum.  Fjárfestir sem er á tánum fyrir ógnum og tækifærum í umhverfinu er líklegri til að standa sig vel, en sá sem heldur að ávöxtun komi fyrirhafnarlaust.  Verðtrygging er áskrift að værukærð fjárfestans fyrir utan að skekkja hina almennu ábyrgðarskiptingu sem alls staðar er milli fjárfestis og lántaka.  Báðir hagnast í góðu árferði og báðir taka á sig tjón í slæmu.  Viðskipti verða að veita báðum ásættanlega niðurstöðu til lengdar, en ekki tryggja öðrum allt á kostnað hins.  Þess vegna er verðtryggingin gjörsamlega klikkað viðskiptamódel.


Já-bræðraráðstefna ríkisstjórnarinnar

Ég fagna því að stjórnvöld ætla að halda um árangur Íslands í baráttunni við efnhagskreppuna.  Á vef efnahags- og viðskiptaráðuneytisins segir:

Á ráðstefnunni Ísland á batavegi: Lærdómar og verkefni framundan koma saman íslenskir og erlendir ráðamenn, fræðimenn og fulltrúar félagasamtaka. Meðal helstu ræðumanna verða nóbelsverðlaunahafinn Paul Krugman og hinir kunnu alþjóðahagfræðingar Willem Buiter og Simon Johnson.

Ráðstefnan skiptist í þrjá hluta. Þátttakendur munu leggja mat á þau úrræði sem notuð voru til að bregðast við kreppunni, svo sem beitingu gjaldeyrishafta og endurskipulagningu bankakerfisins. Þá verður fjallað um það markmið Íslands að standa vörð um velferðarkerfið á sama tíma og ráðist var í umfangsmiklar aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum. Loks verður rætt hvernig þessi stefnumál voru útfærð í efnhagsáætlun stjórnvalda sem unnin var í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og lauk í ágúst síðastliðnum.

Mjög gott er að fá hingað menn á borð við Martin Wolf, Simon Johnson, Willem Buiter og Paul Krugman til að ræða málin, en hvað vita þeir í raun og veru um stöðuna á Íslandi.  Ég efast ekki um að stjórnvöld munu senda þeim alls konar upplýsingar, en ég vil leyfa mér að efast um réttleika þeirra.

Svo þegar maður skoðar frá hvaða "félagasamtökum" ræðumenn eru, þá eru það Samtök atvinnulífsins (Confederation of Icelandic Employers), Alþýðusamband Íslands (Confedration of Trades Unions) og Viðskiptaráð (Chamber of commerce), þ.e. Vilhjálmur Egilsson, Gylfi Arnbjörnsson og Finnur Oddsson. Tveir sem tala fyrir hönd fjármálafyrirtækjanna og einn fyrir hönd lífeyrissjóðanna.  Hvar er einhver sem talar fyrir hönd almennings í landinu?

Aðrir innlendir ræðumenn og pallborðsaðilar eru:  Arnór Sighvatsson, Friðrik Már Baldursson, Katrín Ólafsdóttir, Jón Daníelsson, Stefán Ólafsson, Gylfi Magnússon, Már Guðmundsson og Gylfi Zoega.  Ég leyfi mér að fullyrða, að ekki nema í mesta lagi tveir af þessum eru gagnrýnir á störf ríkisstjórnarinnar og er annar þeirra Jón Daníelsson.  Aðrir hafa að jafnaði fylgt sér í já-bræðra lið ríkisstjórnarinnar. 

Hvers vegna er ekki einhverjum boðið sem hefur haft uppi opinberri gagnrýni á úrræði ríkisstjórnarinnar og fjármálafyrirtækjanna.  Þá á ég við aðila eins og Hagsmunasamtaka heimilanna eða Lilju Mósesdóttur?  Hræðist ríkisstjórnin að hinir erlendu gestir fái að heyra sannleikann um það að kröfuhafar voru teknir fram yfir almenning.  Að það sem haldið er á lofti í erlendum fjölmiðlum af stjórnvöldum er tilbúningur.  Að "norræna velferðarstjórnin" hafi viljað ganga lengra að almenningi í landinu en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem þó hélt uppi vörnum fyrir erlenda kröfuhafa og þar með fjárhættuspilara.

Ég skora á skipuleggjendur ráðstefnunnar að leiðrétta skekkjuna sem er í hópi fyrirlesara og þátttakenda í pallborði, þannig að sjónarmið þeirra sem á öndverðum meiði við ríkisstjórnina komist á framfæri í öllum hópum og í pallborði.


mbl.is Ræða um lærdóma af kreppunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagnaður bankanna ógn við gjaldeyrisstöðugleika

Það er svo gaman að endurtaka sig, þar sem aldrei er að vita nema fleiri hlusti í þetta sinn.  Annas Sigurmundsson, blaðamaður á DV, hefur skrifað fjölmargar greinar um bankana, hagnað þeirra, svigrúm til afskrifta og nú síðast hagnað eigenda bankanna.  Í grein sem birtist í dag, bendir hann á það sem ég hef bent á nokkrum sinnum áður: 

Hagnaður eigenda bankanna mun fara úr landi í því mæli sem eigendurnir eru erlendir.

Annas skýrir þetta ágætlega út í sinni grein.  Eigið fé Íslandsbanka og Arion banka hækkar virði eignarhaldsfélaga þeirra sem myndar þannig hagnað hjá þeim.  Þessi hagnaður mun fara úr landi með tíð og tíma, þegar afleitt verður hömlum á því að greiða arð til út úr þessum tveimur bönkum.  Málið snýr á annan hátt gagnvart Landsbankanum, þar sem ríkissjóður er eigandi bankans.

Þjóðhagslega hagkvæmt að skila afslætti til lántaka

Mikið hefur verið rætt um meinta afslætti sem nýju bankarnir fengu frá þeim gömlu.  Svona alveg burt séð frá því hvaða afslættir fengust, þá er það þjóðhagslega hagkvæmt að honum sé skilað til lántakanna.  Mig langar að skýra það betur út:

1.  Hvað gera bankarnir við hagnaðinn?  Bankarnir hafa nánast bara tvær leiðir til að "eyða" hagnaði sínum.  Þeir greiða hann út í arð eða styrkja eigið fé sitt.  Hvort sem er, þá eru eigendur bankanna að hagnast.  Nú myndi einhver segja að bankarnir hafi þriðja kostinn, þ.e. að styrkja rekstur sinn með kaupum á fyrirtækjum.  Já, sá kostur er fyrir hendi, en þeir þurfa þess ekki.  Mun einfaldara er fyrir þá að taka yfirskuldsett fyrirtæki bara yfir.  Auk þess eru varla nokkur fyrirtæki eftir á landinu, sem ekki eru þegar í eigu bankanna og gætu styrkt rekstur þeirra.  Nú séu þau til, þá kosta þau bara brotabrot af hagnaðinum, þannig að það sér ekki högg á vatni.

2.  Fyrirtæki og einstaklingar sem fá afsláttinn til sín stuðla að auknum hagvexti.  Stærsta vandamálið frá hruni hefur verið samdráttur í neyslu heimilanna og veltu fyrirtækja.  Þetta hefur leitt til þess að þeir skattstofnar sem voru til staðar haustið 2008 hafa rýrnað mjög mikið.  Til að ná sömu skatttekjum hefur ríkisvaldið því þurft að hækka allar álögur og bæta við nýjum tekjustofnum.  Afleiðingin hefur verið enn frekari samdráttur í neyslu heimilanna og veltu fyrirtækjanna og þar með nýr samdráttur í skattstofnum sem hefur gert það að verkum að enn hefur þurft að hækka álögur og finna nýja skattstofna.  Sagt er að ríkið hafi breytt sköttum 100 sinnum frá hruni.  Ég hef ekki talið og tek því þessa tölu í blindni, en þó hún væri bara 50, þá væri það hellingur.  Allt þetta hefur valdið fjölgun atvinnulausra og hægari viðsnúningi.

Ef farin hefði verið sú leið, sem ég lagði til fyrir 3 árum, að taka til hliðar þann hluta skulda heimila og fyrirtækja sem bæst höfðu á þær frá árslokum 2007, þ.e. lántakar hefðu bara greitt af stöðu lána sinna, eins og hún var í árslok 2007, þá hefði dæmið snúist við.  Neysla heimilanna hefði haldist tiltölulega há og þar með stutt við veltu fyrirtækjanna, sem hefðu ekki þurft að fækka eins hjá sér störfum haustið 2008 og fram á vor 2009.  Skattstofnar hefðu ekki rýrnað nema mjög takmarkað og þar með dregið verulega úr þörfinni fyrir auknum álögum og niðurskurði.

3.  Ef farin hefði verið mín leið, þá væri mun hærri hluti lána virkur, þ.e. samkvæmt upplýsingum sem hafa komið m.a. fram í skýrslum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og árs- og árshlutareikningum bankanna, þá er allt að 60% af lánum fjármálafyrirtækja óvirkur, þ.e. ekki er greitt af þeim.  Ég reikna að vísu með því að stórhluti þessara 60 prósenta séu lán sem ekki eru færð til bókar hjá bönkunum.  Ef fjármálafyrirtækin hefðu fylgt þessari hugmynd minni (mér skilst að Nýi Kaupþing banki hafi viljað fara þá leið sumarið 2009, en fjármálaráðuneytið og efnahags- og viðskiptaráðuneytið bannað þeim það), þá er ég viss um að heimtur þeirra hefðu orðið betri.  Mestu málið hefði þó skipt að friður hefði komist á í þjóðfélaginu, greiðsluföll hefðu orðið sjaldséðnari, ekki hefði þurft að eyða dýrmætum tíma lántaka og lánveitenda í allt þetta karp sem átt hefur sér stað, fækkað hefði í greiðsluaðlögun, sértækri skuldaaðlögun, 110% leiðin verið óþörf, lítil umferð verið um Beinu brautina, o.s.frv., o.s.frv.

Hvað ætli lántakar hafi eytt stórum hluta tíma síns í að leysa lánamál sín?  Hvað ætli margar fjölskyldur hafi splundrast vegna skuldasúpunnar?  Hvað ætli margir hafi farið í gjaldþrot vegna þess, misst heimilið sitt og jafnvel eitthvað meira? 

Það er alveg á hreinu í mínum huga, að allt sem lagðist á lán landsmanna (og fyrirtækja) á árinu 2008 var tilkomið vegna lögbrota, blekkinga, svika, pretta og/eða vanhæfi stjórnenda, stjórnarmanna og eigenda bankanna, stjórnenda og stjórnarmanna lífeyrissjóðanna, ráðherra, þingmanna og embættismanna.  Hlutur hvers og eins var misjafn, en vanhæfi var líklegast mest áberandi þátturinn hjá öllum.

4.  Við stöndum frammi fyrir því að þurfa að fara mjög varlega með gjaldeyrisforða þjóðarinnar, þar til kemur að því að við köstum krónunni fyrir einhvern trúverðugri gjaldmiðil.  Af þeirri ástæðu einni er glapræði að nýju bankarnir séu að rembast, eins og rjúpan við staurinn, við að innheimta það sem ekki er fært til bókar hjá þeim.  Fyrstu 320 ma.kr. af því sem innheimtist umfram bókfært virði rennur beint til gömlu bankanna og þaðan fer peningurinn til kröfuhafa.  Hluti (og ansi stór) kröfuhafa er erlendur.  Þeir fá því sinn hlut greiddan í dýrmætum gjaldeyri.  Sama á við um arð sem kemur í framtíðinni frá nýju bönkunum.  Hann mun renna inn í eignarhaldsfélögin sem síðan greiða hann til eigenda sinna sem eru sömu kröfuhafarnir og áður hefur verið getið.

Hér hef ég nefnt fjögur veigamikil atriði sem styðja það, að það væri í þjóðarhag, að bankarnir innheimit eingöngu það sem þeir greiddu fyrir lánasöfnin.  Vafalaust væri hægt að finna fleiri og eins væri hægt að finna atriði sem vega á móti.

Meiri innheimtur leiða til veikingar krónunnar

Svo fáránlegt sem það er, þá er best fyrir krónuna, að nýju bankarnir innheimti eingöngu það sem þeir greiddu fyrir lánasöfnin og ekki krónu meira.  Hagnaður þeirra og betri innheimtur eru ógn við gjaldeyrisstöðugleikann og ættu samkvæmt öllum hagfræðilögmálum að stuðla að veikingu krónunnar.   Ástæðan er sú að hagnaður hjá Íslandsbanka og Arion banka sem greiddur verður út sem arður mynda eftirspurn eftir erlendum gjaldeyri.  Sama á við um innheimtur umfram neðri mörk mats Deloitte á viriði lánasafnanna upp að efri mörkunum.  Þessi mismunur er 320 ma.kr. og samkvæmt skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn bankakerfisins, þá skulu nýju bankarnir greiða þeim gömlu allt að þessari upphæð.  Arion banki er raunar þegar búinn að gera upp við gamla bankann, en hinir eru eftir.  Þar eru ríflega 200 ma.kr. (líklegast allt að 240 ma.kr.) sem gætu farið til þrotabúa Landsbanka Íslands og Glitnis og þaðan að stórum hluta til erlendra kröfuhafa.  Þetta er til viðbótar þeim 280 ma.kr. eða svo sem Landsbankinn ætlar að greiða gamla bankanum.  Hér eru því mögulega 520 ma.kr. sem eiga eftir að fara í erlendum gjaldeyri út úr gjaldeyrisforða sem lekur stöðugt.  Niðurstaðan getur bara orðið veiking krónunnar og meiri verðbólga. 

(Ég hef svo sem enga trú á því að íslenska krónan lúti einhverjum markaðslögmálum.  Hreyfingar hennar undanfarna mánuði hafa ekki sýnt það.)


« Fyrri síða

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 1681248

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband