Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2011

Sjá menn ekki í gegn um þetta? Þetta er leikrit!

Ég skil ekki að fólk sjái ekki í gegn um þetta.  Verið er að undirbúa hækkun lögbundins framlags launagreiðenda til sameignarhluta kerfisins.  Hvers vegna heldur fólk að Gylfi Arnbjörnsson sé ekki froðufellandi yfir þessu?  Hann ætti að vera það.

Málið er að ASÍ og vinnuveitendur hafa lengi séð ofsjónum yfir því að fólkið sjálft geti ávaxtað lífeyrinn sinn.  Sameignarsjóðirnir urðu fyrir verulegum skell í hruninu.  Veruleg skerðing hefur orðið á áunnum lífeyrisrétti sjóðfélaga í fjölda sjóða og framundan er ennþá meiri skerðing nema að framlög í sjóðina verði hækkuð.  Þar sem atvinnulífið hefur ekki efni á hækkun framlaga, þá er sett á svið leikrit.  Skattfrjálst séreignarframlag launagreiðenda er lækkað og svar atvinnulífsins er að lækka framlagið niður í skattfrelsis mörk.  Gylfi og félagar munu krefjast þess í næstu lotu viðræðna, sem gætu orðið í tengslum við enn einn stöðugleikasáttmálann (á næstu vikum), að þetta verði leiðrétt með því að hækka framlag launagreiðenda í sameignarhlutann.  Bingó, sameignarhlutinn verður styrktur á kostnað séreignarhlutans svo ekki þurfi að skerða frekar réttindi.  Með þessu tekst mönnum að fela hluta tapsins sem varð í hruninu.


mbl.is Ekki val heldur lögboðuð þvingun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig getur ríkissjóður tapað? - Virðisaukaskattur 101 - Hvað gengur SFF til?

Framkvæmdastjóri Samataka fjármálafyrirtækja segir í viðtali við Morgunblaðið, að úrskurður Hæstaréttar í máli Íslandsbanka gegn Kraftvélum geti leitt til fjárútláta fyrir ríkissjóð vegna ofgreidds virðisaukaskatts.  Ég er ekki alveg að átta mig á þessu.

Þegar vinnuvélar eru keyptar, þá er innifalið í kaupverðinu alls konar kostnaðarliðir, m.a. virðisaukaskattur.  Hjá öllum fyrirtækjum sem leggja virðisaukaskatt á útselda vinnu, þjónustu eða vöru, þá ræðst virðisaukaskattsuppgjör við stöðuna á milli útskatts, þ.e. virðisaukaskatts sem fyrirtækið innheimtir, og innskatts, þ.e. virðisaukaskatts sem það greiðir.  Verktakafyrirtæki eru með þetta fyrirkomulag hjá sér.

Hækki eða lækki virðisaukaskattur sem viðkomandi fyrirtæki átti að greiða, þá breytir það virðisaukaskattsuppgjöri fyrirtækisins.  Þannig að eigi það endurkröfurétt á Íslandsbanka, þá lækkar innskattur fyrirtækisins um jafnmikið.  Þó svo að bankinn hafi innheimt hærri útskatt, en nam innskattinum sem hann greiddi, þá skiptir það ekki máli.

Dæmi:  Í dæminu eru allur annar innskattur hunsaður og jafnframt annar útskattur hjá bankanum en vegna viðskipta við eitt verktakafyrirtæki.

Fyrir úrskurð Hæstaréttar:

Íslandsbanki greiddi 10 m.kr. í innskatt vegna vinnuvélar sem hann "leigði" verktakafyrirtæki.

Bankinn rukkar verktakafyrirtæki um útskatt samhliða "leigugreiðslum".  Lokið er 50% lánstímans og gengið tvöfaldaðist á þeim tíma, þ.a. verktakafyrirtækið er búð að  greiða 7,5 m.kr. í innskatt sem er þá jafnframt útskattur hjá bankanum.

Bankinn skilar virðisaukaskattsuppgjörum til ríkisskattstjóra, þar sem 7,5 m.kr. hafa komið fram sem útskattur, en 10 m.kr. sem innskattur.  Nettó hefur bankinn fengið 2,5 m.kr. endurgreiddar frá ríkinu.

Verktakafyrirtækið skilar virðisaukaskattsuppgjörum til ríkisskattstjóra þar 7,5 m.kr.  hafa komið fram sem innskattur.  Á móti hefur fyrirtækið fært, bara sem dæmi, 20 m.kr. sem útskatt.  Nettó hefur fyrirtækið greitt 12,5 m.kr. til ríkisins.

Nettóstaða ríkisins af þessum tveimur aðilum (vegna viðskiptanna þeirra á milli) er því 10 m.kr.

Eftir úrskurð Hæstaréttar:

Bankinn færir hvorki innskatt né útskatt í bókhald sitt.  Hann greiðir hvorki innskattinn né innheimtir útskattinn vegna viðskiptanna.  Nettó uppgjör virðisaukaskatts 0 kr.

Verktakafyrirtækið færir 10 m.kr. innskatt beint í bókhaldið sitt.  Á virðisaukaskattsuppgjörum færast 10 m.kr. í innskatt og áfram 20 m.kr. í útskatt.  Nettógreiðsla fyrirtækisins verður því 10 m.kr.

Nettóstaða ríkisins af þessum tveimur aðilum (vegna viðskipta þeirra á milli) er því 10 m.kr.

Staða ríkissjóðs er því óbreytt fyrir og eftir úrskurð Hæstaréttar.

Þó svo að bankinn hefði smurt ótæpilega ofan á reikninginn sinn, þá hefði það samt ekki breytt neinu.  Hærri útskattur hjá bankanum hefði bara hækkað innskattinum hjá verktakafyrirtækinu og nettóáhrifin eru 0.

Furðuleg taktík SFF

Ég get ekki annað en undrast þessa taktík Samtaka fjármálafyrirtækja, að snúa öllu upp í eitthvað annað en það er.  Þau kalla leiðréttingu vegna ólöglegra gengisbindingar afskrift, fullyrða að 33 ma.kr. afskriftir tæmi svigrúm fjármálafyrirtækja sem skila 163 ma.kr. í hagnað, tvítelja afskriftir vegna 110% leiðarinnar til að láta líta út sem þær hafi verið meiri og núna halda þau því fram að nettóuppgjör virðisaukaskatts breytist við það að bankinn verði ekki lengur milliliður.  Ég segi bara: 

Hvað með að sýna aðeins meiri fagmennsku?

Samtök fjármálafyrirtækja eru ákaflega mikilvæg samtök eða ættu að vera það.  Í öllum löndum í kringum okkur, þá eru upplýsingar frá slíkum samtökum taldar hafnar yfir allan vafa.  Hér á landi er ekki hægt að treysta á neitt sem frá samtökunum kemur.

Undanfarin tæp 3 ár hafa upplýsingar og tillögur frá SFF endað nokkuð oft inni á mínu borði.  Öfugt við þá sem útbúa gögn fyrir SFF, þá er ég í sjálfboðavinnu við að lesa yfir það sem frá þeim fer.  Verð ég að furða mig á því ótrúlega fúski sem þar birtist oft og endalausum lúmskheitum.  Ég man ekki eftir einu einasta skjali frá SFF, þ.m.t. athugasemdir við lagafrumvörp, tillögur um úrræði fyrir heimilin eða tölulegar upplýsingar, þar sem ég hef ekki rekist á hluti sem ýmist eru beinlínis rangir eða eru að mínu mati lævísar gildrur.  Vinsælast er að flækja hlutina eins og hægt er svo fjármálafyrirtæki hafi eins frjálsar hendur um túlkun og frekast er unnt.  Talnamengun er nýjast vopnið þeirra.

Á árunum fyrir hrun var þetta engu betra.  Skipti eftir skipti komu samtökin með tillögur sem manni klíaði við.  Samtökin sendu umsögn við frumvarp að vaxtalögum, þar sem þau vara við að verði frumvarpið samþykkt, þá verði gengistrygging lán bönnuð.  Síðan berjast þau um hæl og hnakka við að verja gengistrygginguna og ólöglega feng fjármálafyrirtækjanna.  Ég verð bara að sega: 

Ég skil ekki þessi samtök.  Ég skil ekki þessa taktík þeirra.  Ætli fjármálageirinn að endurheimta traust, þá er ekki vitlaust að breyta þeirri aðferðafræði sem notuð er innan SFF.


mbl.is Ríkissjóður gæti tapað á dómi um fjármögnunarleigu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sleikjugangur við fjármagnseigendur

Maður verður aldrei uppiskorpa með efni til að skrifa um meðan fjármálafyrirtækin og stjórnvöld eru jafn upptekin við að sleikja rassinn á fjármagnseigendum og raun ber vitni.  Stjórnarþingmenn og ráðherrar hafa hrúgast í ræðustóla til að tala um stjórnarskrárvarinn eignarétt kröfuhafa.  Fjármálaráðherra var svo hræddur við kröfuhafa, þegar verið var að semja um endurreisn bankanna, að hann þorði ekki annað en að lúffa fyrir þeim svo þeir færu ekki í mál.  Forsætisráðherra, fjármálaráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra voru svo hrædd við Breta og Hollendinga að þau þorðu ekki annað en að samþykkja ábyrgðir sem þjóðin hafnaði.  Nú bankarnir þorðu ekki annað en að dæla milljörðum á milljörðum ofan inn í peningamarkaðssjóði sína svo fjármagnseigendur töpuðu ekki því sem þeir voru búnir að tapa.  Einhverra hluta vegna, þá hafa útlendingar sem eiga íslenskar krónur fengið alveg sérmeðferð, þar sem þeim eru boðin ofurkjör á ríkisskuldabréfum, toppvextir í boði Seðlabankans á innlánum síðan er þeim, einum hópi kröfuhafa, tryggð útleið.  Þá eru það sægreifarnir sem hafa fengið allt að 70% niðurfellingu lána sinna án þess að nýi bankinn hafi eignast svo mikið sem skitið hlutabréf í fyrirtækjunum.  Aðrir stórlaxar hafa gengið til samninga um skuldauppgjör, sem byggir á því að þeir halda krúnudjásninu þó annað skart fái að fjúka.  Rúsínan í pylsuendanum er náttúrulega þegar hópur ofurríkra Íslendinga fékk ekki bara höfuðstól innstæðna sinna greiddan út upp í topp, heldur líka áfallnar verðbætur og vexti, þegar innstæður voru að fullu fluttar frá gömlu bönkunum til þeirra nýju.

Ofangreind atriði eru bara þau sem ratað hafa í fjölmiðla.  Hvað ætli þau séu mörg sem ekki rata þangað?

Ég er hér að tala um nokkur þúsund milljarða króna sem þannig hefur verið mokað til fjármagnseigenda, en þegar heimilin vilja sjá réttlætinu framfylgt, þá breytast sleikjurnar í grátandi mýs.  "Við erum búin með allt svigrúmið."  "Sjáið, við afskrifuðum 23 ma.kr. og erum búin með allt sem við fengum."  Já, hún er ekki há talan sem þríburarnir hafa í raun og veru afskrifað.  Hvort hún sé 23 ma.kr. eða 10 ma.kr. hærri eða lægri tala, skiptir ekki máli.  Hún er smánarleg og hún er mun lægri en nemur þeim afslætti sem gömlu bankarnir veittu þeim nýju.

Meðan bankarnir hafa ekki afsannað þá tölu sem birtist í skýrslu AGS um fyrstu endurskoðun efnahagsáætlunar sjóðsins og stjórnvalda, þá er ég sannfærður um að hún sé rétt, þ.e. um 360 ma.kr.  Þessi tala fellur vel að þeim upplýsingum sem finna má í ýmsum opinberum gögnum.  Hluti tölunnar er vegna gengistryggðra lána, en það var Hæstiréttur sem sá um leiðréttingu vegna þeirra og ekki tókst honum vel upp með það.

Mig langar að setja leiðréttingar heimilanna, sem búið er að taka 3 ár að toga út úr bönkunum sem heitum töngum, í samhengi við annað sem gert hefur verið án mikillar fyrirhafnar.

Fyrst eru það afskriftir, leiðréttingar og niðurfærslur til heimilanna:

Hér ætla ég að nota tölur sem Samtök fjármálafyrirtækja hafa birt til að gæta fulls hlutleysis.

Niðurfærsla lána einstaklinga orðin 163,6 milljarðar í lok ágúst

14.10.2011

  • Niðurfærsla vegna 110% leiðar um 27,2 milljarðar króna og enn um 5000 mál í vinnslu
  • Heildarniðurfærsla vegna sértækrar skuldaaðlögunar tæpir 5,6 milljarðar króna
  • Niðurfærsla vegna endurreiknings erlendra fasteignalána nemur um 92 milljörðum króna
  • Niðurfærsla vegna bílalána nemur rúmum 38 milljörðum

Þetta er tekið beint af vef SFF.  Nú rétt er að bæta við upplýsingum af vef Landsbankans:

Skipting niðurfærslu lána einstaklinga

NiðurfærslurUpphæð
Endurútreikningur erlendra lána, er falla undir svokallaðan Mótormax dóm 10,1
Endurútreikningur erlendra lána einstaklinga, dómur Hæstaréttar, júní 201023,4
20% vaxtaendurgreiðsla  4,4
Lækkun annarra skulda (úrræði kynnt í maí 2011)  3,6
110% leiðin15,2
Önnur úrræði, þar með talin eldri 110% leið, 25% lækkun erlendra lána o.fl.  4,3
Samtals61,0

Þetta var birt, eins og tölur SFF, hinn 14.10. 2011.

Miðað við þessar tölur, þá hefur Landsbankinn verið ákaflega duglegur og eru t.d. um 56% af niðurfærslu/leiðréttingu vegna 110% leiðarinnar komið frá honum (15,2 ma.kr. af 27,2 ma.kr., síðan ætti að bæta við hluta af þessum 4,3 ma.kr.), ríflega þriðjungur af leiðréttingu gengistryggðra lána hefur átt sér stað hjá Landsbankanum (33,5 ma.kr. af 92 ma.kr. eða 36,4%) og svo hefur hann bætt aukalega í pottinn 8,0 ma.kr. sem hinir hafa ekki gert.

Hafa verður í huga að 130 ma.kr. af þessum 163 er vegna lögbrota og það þurfti nú heldur betur að toga það út með töngum.  Eftir standa sem sagt 33 ma.kr. og hvar standa þeir í samanburði við það sem gert hefur verið fyrir fjármagnseigendur:

  • Ólafur Ólafsson, kenndur við Samskip, fékk 63 ma.kr. niðurfelldar af skuldum sínum í uppgjöri.  Hve stórt hlutfall þetta var af skuldum Ólafs, veit ég ekki, en örugglega bróðurparturinn og hann hélt Samskipum!
  • Björgólfur Thor Björgólfsson fékk (miðað við það sem hefur komið fram í fjölmiðlum, sem sagt óstaðfest) 70 ma.kr. hið minnsta fellt niður í skuldauppgjöri og hélt öllum fyrirtækjum sínum (að ég best veit).
  • 83,6 ma.kr. voru notaðir til að kaupa ónýt skuldabréf út úr peningamarkaðssjóðum bankanna þriggja:  63 ma.kr. hjá Landsbankanum, 12,9 ma.kr. hjá Íslandsbanka og 7,7 ma.kr. hjá Arion banka.  Landsbankinn afskrifaði hátt í 40 ma.kr. af sinni upphæð strax í ársuppgjöri vegna 2008 og Íslandsbanki 10 ma.kr. samkvæmt frétt Morgunblaðsins 8. október 2009.
  • Jöklabréf upp á um 400 ma.kr. frusu inni við hrunið. Þessir peningar liggja ýmist inni á sérstökum reikningum í Seðlabanka Íslands, á krónureikningum í erlendum bönkum eða í íslenskum ríkisskuldabréfum sem voru sérstaklega gefin út til að bjóða þessum hópi góða vexti.  Þó þau beri bara 5% vexti, þá eru það 20 ma.kr. á ári, en ég hef enga trú á öðru en að vextirnir séu talsvert hærri.
  • Innstæður vellauðugra Íslendinga voru tryggðar upp í topp með vöxtum og verðbótum - 4,7% landsmanna áttu 56% allra innstæðna sem tryggðar voru eða 364 ma.kr.  Hin 95,3% innstæðueigenda áttu 281 ma.kr.  Enginn var að biðja um að þessi tæp 5% töpuðu þessari tölu, en hún er tíföld sú upphæð sem búið er að fær lán heimilanna niður um.
  • Fimm sjávarútvegsfyrirtæki fengu, samkvæmt skýrslu eftirlitsnefndar með lögum 107/2009, 61% skulda sinna afskrifaðar eða 12,8 ma.kr. án þess að bankinn fengi nokkuð í staðinn.  Þrettán verslunar- og þjónustufyrirtæki fengu 68% eða 88,5 ma.kr. af skuldum sínum afskrifaðar gegn 9,1 ma.kr. í hlutfé.  Fjárfestingar- og eignarhaldsfélög fengu 83% eða 169 ma.kr. af skuldum sínum afskrifaðar.  Eitthvað af þessu er vegna ólöglegra gengisbundinna lána.
  • Lífeyrissjóðir keyptu lánasöfn af Seðlabankanum/ríkissjóði m.a. svo kölluð Avens-bréf að nafnvirði 121 ma.kr. og greiddur fyrir 87,6 ma.kr., þ.e. fengu afslátt upp á 33,4 ma.kr.

Ég gæti haldið svona endalaust áfram (eða því sem næst).  Smurt hefur verið milljarða tugum, hundruðum, ef þúsundum, undir hina og þessa hópa fjármagnseigenda meðan réttmætar kröfur almennings hafa verið fótum troðnar og það litla sem fengist hefur fram var kreist út úr grátbólgnum andlitum aumingja, aumingja bankanna og lífeyrissjóðanna sem þannig voru að svíka ennþá aumkunnarverða "erlenda" kröfuhafa og að ég tali nú ekki um sjóðfélaga lífeyrissjóðanna.   Nú greyið "erlendu" kröfuhafarnir keyptu flestir kröfurnar á 2 - 10% af nafnvirði og eru í staðinn að fá á bilinu 5% í tilfelli Landsbanka Íslands og upp í 25% í tilfelli Glitnis til baka, þ.e. eru að ávaxta fé sitt ríkulega.  Hinir sem seldu þeim kröfurnar eru síðan búnir að fá skuldatrygginguna greidda út hjá AIG og öðrum áhættufíklum.  Hvað varðar sjóðfélaga í lífeyrissjóðunum, þá væla stjórnendur lífeyrissjóðanna yfir því að hin illu Hagsmunasamtök heimilanna hafi farið fram á að milljarðarnir 33 færu í að lækka lán heimilanna og að sjóðirnir bættu helming þeirrar upphæðar við.  Nei, það var ekki hægt, þar sem þá þurfti að skerða lífeyri.  Ekki kom það fram hjá forráðamönnum lífeyrissjóðanna, að helsta ástæðan fyrir því að skerða þarf lífeyri um ókomna tíð var nokkur hundruð milljarða tap lífeyrissjóðanna, m.a. í vaxtaskiptafjárhættuspili, ástarbréfaviðskiptum, kaup í fjármálafyrirtækjum þar sem forsvarsmenn lífeyrissjóðanna sátu sjálfir í stjórnum og svona mætti lengi telja.  Nei, þetta skipti engu máli, heldur var það klinkið sem Hagsmunasamtök heimilanna báðu um að lífeyrissjóðirnir gæfu eftir svo hægt væri að leiðrétta forsendubrestinn (sem lífeyrissjóðirnir gleyptu í sig eins og blóðþyrstir úlfar) sem íbúðalántakar höfðu orðið fyrir m.a. vegna aðgerða og aðgerðaleysis forsvarsmanns lífeyrissjóðs í stjórn Kaupþings.

Og enn hafa hin ótrúlega ósvífnu Hagsmunasamtök heimilanna komið fram með ósk, frekari en nokkru sinni fyrr.  Þau vilja að bankarnir sýni þeim hvað er satt og rétt.  Hvernig voga þau sér að gera það?  Hvernig datt líka Jóhönnu í hug að samþykkja að þau fái að sjá réttar upplýsingar?  Við sem erum búin að vera að losa "talnamengun" út til almennings, svo enginn maður geti skilið hvað er satt og hvað er rétt.

Þrjú fjármálafyrirtæki, sem hagnast hafa um 163 ma.kr. á 2 árum og 3 ársfjórðungum, hafa notað 33 ma.kr. til að lækka skuldir almennings.  Þau segjast ekki geta gert meira, vegna þess að þau hafi ekki meira svigrúm.  Á sama tíma eru þau búin að gefa einum auðkýfiningi eftir 63 ma.kr. og hann fékk að halda eftir krúnudjásninu, þau eru búin að kaupa verðlaus skuldabréf út úr peningamarkaðssjóðum fyrir yfir 80 ma.kr., afskrifa tugi milljarða af sjávarútvegsfyrirtækjum án þess að eignast einu sinni hlut í þeim.  Þarf ég að halda áfram?  Svigrúmið er víst til staðar.  Það þarf bara vilja til að nota það fyrir almenning í landinu.


Afslættir af lánum heimilanna og afslættir af íbúðalánasöfnum

Ennþá heldur hann áfram orða- og talnaleikur bankanna.  Hagsmunasamtök heimilanna hafa þráfaldlega spurt:

Hver var afslátturinn sem viðskiptabankarnir þrír fengu af lánasöfnum heimilanna þegar þau voru flutt frá gömlu bönkunum til þeirra nýju?

Upplýsingar um þetta hafa verið margar og misjafnlegar.  Skoðum hvað hefur verið sagt af mismunandi aðilum á mismunandi tíma:

1.  Hagtölur Seðlabanka Íslands:

Samkvæmt upplýsingum sem Seðlabanki Íslands hefur safnað frá fjármálastofnunum í rekstri, þá lækkaði bókfært virði útlána innlánsstofnana um 447 ma.kr. milli talna í september og október 2008.

2.  Skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eftir fyrstu endurskoðun, svo kölluð októberskýrsla:

Í skýrslunni er birt súlurit sem sýnir "gross and fair value of household debt" sem hlutfall af þjóðarframleiðslu.  Ein súla sýnir "gross value" og önnur súla sýnir "fair value".  Séu þessar súlur bornar saman, þá kemur í ljós að mismunurinn er rétt innan við 130 ma.kr. fyrir Íslandsbanka, rétt innan við 125 ma.kr. fyrir "New Kaupthing" og tæplega 113 ma.kr. fyrir "New Landsbanki".  Alls gerir þetta ríflega 360 ma.kr.

3.  Svari Árna Páls Árnasonar við fyrirspurn Árbjarnar Óttarssonar:

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, svaraði fyrirspurn frá Ásbirni Óttarssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, í byrjun október 2010 um yfirfærslu lánasafnanna.  Þar greinir ráðherra frá því að bankarnir hafi fengið 90 ma.kr. afslátt af húsnæðislánum og 1.600 ma.kr. af lánum fyrirtækja.

4. Skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna:

Í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna kemur fram á blaðsíðu 30: 

Um það leyti sem endanlega var gengið frá samningum við gömlu bankana heyrðust raddir um að gengistrygging lána kynni að vera ólögmæt. Það atriði var á þeim tíma umdeilt meðal lögfræðinga og algjörlega óraunhæft að meðhöndla öll slík lán sem ólögmæt í samningunum. Bent var á að öll gengistryggð lán hefðu verið afskrifuð um meira en helming við yfirfærslu þeirra til nýju bankanna..

Annars staðar í þeirri sömu skýrslu (bls. 21) segir að allar eignir hafi verið færð á milli bankanna með 45 til 53% afslætti  en ekki er gefin sundurgreining á því hvaða afsláttur var gefinn af lánasöfnum sérstaklega.

5. Svar fjármálaráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þór Þórðarsonar um afslætti á lánasöfnunm:

Í svari Steingríms J. Sigfússonar við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar frá því um miðjan september kemur fram að afsláttur sem Landsbankinn fékk var 79 ma.kr. á lánum heimilanna og 506 ma.kr. á lánum fyrirtækja.  Íslandsbanki gefur bara upp heildartölu og er afslátturinn samkvæmt henni 425 ma.kr.  Arion banki gefur ekki upp afsláttinn heldur bara virði lánasafna.

6. Kröfuhafaskýrslur slitastjóra Kaupþings:

Í Creditor Report Kaupþings voru framan af birtar upplýsingar efnahag nýja bankans.  Eitt af því sem birt var voru upplýsingar um bókfært virði lánasafna sem færð voru frá Kaupþingi til nýja bankans og "impairments", þ.e. varúðarfærslu vegna lánanna.  Lán viðskiptavina sem metin voru á 1.410 ma.kr. fengu á sig 954 ma.kr. "impairment" færslu, þannig að virði þeirra í nýja bankanum hefði því átt að vera 456 ma.kr.  Í skýrslu fyrir september 2009 er hætt að birta þessar upplýsingar, en í staðinn greint frá því að lán að verðmæti 190 ma.kr. hafi verið færð til baka og af þeim hafi 90 ma.kr. verð óveðsett.  Ekki er getið hver "impairment" hafi verið á þessum hluta, en gefum okkur að hlutfallið hafi verið hið sama þá gerir það128 ma.kr. og bingó við fáum 327,5 ma.kr. sem virði yfirfærðra lánasafna viðskiptavina, en það er nánast sama tala og gefin er upp í svari Steingríms til Guðlaugs Þórs.

7. Morgunblaðið 18.10.2011:

Í Morgunblaðinu í dag greinir Guðlaugur Þór Þórðarson frá því að afslættir bankanna á íbúðalánum hafi verið mjög mismunandi eftir bönkum, þ.e. 34% hjá Landsbankanum, 30% hjá Íslandsbanka og 23,5% hjá Arion banka.  Þetta eru svo sem ekki nýjar tölur og voru m.a. birtar í fyrra sumar.

8. Fréttatilkynning Landsbankans 14.10.2011:

Landsbankinn segir í fréttatilkynningu sl. föstudag að bankinn hafi fengið 46 ma.kr. afslátt til að mæta útlánaáhættu af lánum heimilanna.

Hér er ég búinn að benda á átta mismunandi opinberar tölur um afslætti sem nýju bankarnir fengu eða virðast hafa fengið af lánasöfnum heimilanna (ýmist öll lán eða hluti þeirra) og fyrirtækjanna.  Vandinn er að þessar tölur eru ekki samanburðarhæfar.  Berum þær svo saman við  "afskriftirnar" sem bankarnir segjast hafa framkvæmt á lánum heimilanna og þá vandast málið ennfremur.

Greinilegt er að fjármálafyrirtækin vilja ekki að starfshópur forsætisráðherra, þar sem ætlunin er að Hagsmunasamtök heimilanna eigi fulltrúa, taki til starfa.  Af þeim sökum eru þau einstaklega viljug til að birta tölur einmitt núna.  Málið er að tölurnar gera ekkert annað en að ýta frekar á að vinna hópsins fari í gang.  Og hún væri farin í gang, ef ekki væri fyrir tregðu ráðuneytisins sjálfs að koma henni af stað.  Ef allt er satt og rétt hjá fjármálafyrirtækjunum, þá er engin ástæða til að draga lappirnar lengur.  Hefjum þessa vinnu strax og ljúkum henni svo fljótt sem auðið er.

Svigrúmið og hagnaður bankanna

Haft er eftir Höskuldi H. Ólafssyni, bankastjóra Arion banka, í Fréttablaðinu í morgun að svigrúmið sé búið.  Ef svigrúmið er búið, hvernig skýrir bankanstjórinn þá út 163 ma.kr. hagnað bankanna?

Ég veit ekki hve margir vita það, en NBI hf. keypti haustið 2008 bréf af peningamarkaðssjóðum sínum fyrir um 50 ma.kr.  Þar af voru 38 ma.kr. afskrifaðir strax.  Ekki er hægt að líta á þennan gjörning á neinn annan hátt en gjafagjörning.  Ef hann hefði ekki komið til þá hefði NBI hf. skilað 32 ma.kr. hagnaði fyrir fyrstu tæplega þrjá mánuði af líftíma bankans.  Það gerir litlar 385 milljónir kr. á dag, hvern einasta dag frá 9. október til áramóta.  Með þessum 38 ma.kr. þá væri hagnaður bankanna 201 ma.kr. frá stofnun til loka 2. ársfjórðungs á þessu ári.

Ég held að bankarnir séu ekki búnir með svigrúmið.  Þeir þurfa bara að ákveða forgangsröðuina.


mbl.is Loksins upplýst um afslátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímabundið ástand sem réttir sig af

Tölur Páls Kolbeins úr Tiund ríkisskattstjóra eru áhugaverðar, en í þeim er ákveðin skekkja sem mun leiðréttast í næsta skattframtali.  Í síðasta skattframtali var tvennt sem skekkti þessa tölu.  Annað var að fasteignamat lækkaði mjög skarpt á megin þorra húsnæðis um síðustu áramót (gerir betur en að ganga til baka hjá mörgum um næstu áramót), en þetta nýja fasteignamat gilti fyrir það skattframtal sem hér um ræðir.  Hitt er að fjármálafyrirtækin höfðu ekki leiðrétt gengistryggð lán heimilanna til samræmis við dóma Hæstaréttar frá 16. júní 2010.  Fyrra atriðið gerði það að verkum að eign heimilanna í fasteignum lækkaði um 10% að meðaltali eða um hátt í 300 ma.kr.  Síðara atriðið gerði það að verkum að skuldir heimilanna voru ofmetnar um hátt í 150 ma.kr.  Gera má ráð fyrir að stórhluti þessara 150 ma.kr. leggi einmitt til þessarar neikvæðu eignastöðu heimilanna.

Nú ætti ég að vera í hópi þeirra sem taka þessum tölum fagnandi, en ég geri það ekki.  Ástæðan er sú, að þessar tölur voru notaðar í sérfræðingahópnum í fyrra til að réttlæta að fara 110% leiðina í staðinn fyrir að leiðrétta forsendubrest allra.  Þegar síðan tölurnar úr framtali næsta árs birtast, þá munu menn benda á breytinguna til batnaðar og berja sér á brjósti yfir góðum árangri.  Árangri sem byggður er á annars vegar tímabundinni sveiflu í fasteignamati og því að fjármálafyrirtæki sendu Ríkisskattstjóra rangar upplýsingar um raunverulega skuldastöðu heimilanna.

Það sem ég hefði talið að væri áhugaverðast að skoða, er hvernig hefur skuldastaða fólks (heimilanna) breyst frá árslokum 2007 til dagsins í dag (eða síðustu áramóta með réttum upplýsingum).  Hvað hafa skuldir fólks hækkað mikið?  Hver er skuldsetning miðað við eignir?  Hver er greiðslubyrði lánanna?  Hvaða tekjur hafa heimilin eftir skatta og með millifærslum skattakerfisins til að standa undir þessum greiðslum?  Ég þykist alveg vita hver niðurstaðan er, þ.e. að stórir hópar heimila, sem eru ennþá í jákvæðri eign, standa ekki undir greiðslubyrði lána sinna.  Tilteknir hópar heimila, sem eru með neikvæða eignastöðu eru með yfirdrifnar tekjur til að standa undir greiðslubyrði lána sinna.  Síðan eru hópar sem eru skuldlausri, aðrir sem skulda lítið og ráða við skuldir sínar, enn aðrir skulda mikið og hafa engan veginn tekjur til að standa undir því og loks eru það þeir sem skulda mikið, eru í jákvæðri eignastöðu og hafa tekjur til að greiða af lánum sínum.  Þetta er allt vitað.  Samanburðurinn sem ég vil gjarnan sjá er hver var staðan í árslok 2007 og hvernig færðust heimilin milli hópa miðað við stöðuna í árslok 2010.

Ef þetta er rannsakað, þá mun koma í ljós hvernig greiðslubyrðin hefur breyst, þá fyrst og fremst til hins verra, og hvernig hin breytta greiðslubyrði er að skerða getu heimilanna til neyslu og fjárfestinga.  Þetta eru tvö lykilatriði í hagvexti eða eigum við að segja takmörkunar á hagvexti.  Mér er nokkurn veginn sama um eignastöðu og hvernig hún hefur sveiflast.  Eins og ég benti á í séráliti mínum fyrir tæpu ári, þá skiptir núverandi fasteignamat eingöngu máli fyrir þá sem þurfa að selja.  Gagnvart öllum öðrum, þá er hvort heldur eignastaða eða þess vegna markaðsverð, bara tala á blaði.  Það sem skiptir máli er að greiðslubyrðin sé leiðrétt, og þar með skuldastaða, með tilliti til þess forsendubrests sem varð m.a. vegna vanhæfi, blekkinga, svika, lögbrot og pretta stjórnenda, stjórnarmanna og eigenda bankanna í undanfara hrunsins.  Það er ekki nóg að skrifa skýrslu í ótal  bindum, ef við ætlum ekkert að gera með það sem þar kemur fram.  Ef við ætlum bara að láta sem skýrslan sé nóg og nú sé hægt að snúa sér að einhverju öðru.


mbl.is Færri eiga og fleiri skulda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Talnamengunin heldur áfram - Landsbankinn segir eitt og Steingrímur J annað

Ég fagna því að Landsbankinn hf. hafi leiðrétt lán viðskiptavina sinna um 33,4 ma.kr.  vegna þess að dómstólar komust að því að lán sem bankinn tók yfir af Landsbanka Íslands hf. hafi brotið gegn lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur.  Að bankinn haldi því fram, að þetta séu niðurfærslur í bókum bankans er aftur hrein ósvífni.  Þessi upphæð var ALDREI færð til eignar hjá bankanum.

Í fréttatilkynningu bankans segir:

Þegar samið var um kaup Landsbankans hf. á lánasafni einstaklinga af LBI hf. (gamla bankanum) árið 2009 nam niðurfærsla kaupverðsins 46 milljörðum króna til að mæta útlánaáhættu.  Niðurfærsla bankans á lánum einstaklinga nema nú þegar tæðum 61 milljarði króna.  Mismunurinn, 15 milljarðar króna, hefur verið gjaldfærður í reikningum bankans á árinu 2010 og 6 mánaða uppgjöri 2011.

Hér er greinilegt að talnamengunin heldur áfram.  Samkvæmt svari Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar á Alþingi 14. september sl., þ.e. fyrir réttum 4 vikum, þá kemur fram að NBI hf. (þ.e. Landsbankinn hf.) hafi tekið yfir 237.350 m.kr. útlán til einstaklinga frá Landsbanka Íslands hf. (þ.e. LBI hf.) á 158.388 m.kr.  Ég fæ ekki betur séð en að mismunurinn sé 78.962 m.kr. eða tæplega 79 ma.kr., ekki 46 ma.kr. og 18 ma.kr. hærri tala en þessi 61 ma.kr. sem bankinn segist hafa niðurfært.  Nú væri gott að Landsbankinn hf. skýri út fyrir okkur sem kunnum að reikna hvernig 79 ma.kr. eru orðnir að 46 ma.kr.  Fékk bankinn einhvern annan afslátt en "til að mæta útlánaáhættu"?  Hvers vegna var sá afsláttur veittur?  Eða var svar Steingríms J til Guðlaugs rangt?

Ég er ekki að mótmæla því að kröfur bankans á hendur viðskiptavinum hafa lækkað um háar upphæðir miðað við stöðu þeirra í gömlu bönkunum hinn 30. september 2008.  Því miður var hluti þessara krafna byggðar á lögbrotum og því telst lækkun krafnanna vera leiðrétting gagnvart viðskiptavininum, þó hún teljist afskrift í bókhaldi þess sem framkvæmir leiðréttinguna.  Málið er að það var gamli bankinn, ekki sá nýi.  Svo ég vitni aftur í Steingrím J, en í þetta skipti í skýrslu um endurreisn viðskiptabankanna, þá segir í henni á bls. 30:

Mat eignanna miðast við októbermánuð 2008 en á þeim tíma voru tugþúsundir gengistryggðra lána í bönkunum sem greitt var af og engum hafði blandast hugur um að væru gildir gerningar. Seðlabanki Íslands og FME höfðu látið þessar lánveitingar óátaldar og þær höfðu tíðkast um árabil. Um það leyti sem endanlega var gengið frá samningum við gömlu bankana heyrðust raddir um að gengistrygging lána kynni að vera ólögmæt. Það atriði var á þeim tíma umdeilt meðal lögfræðinga og algjörlega óraunhæft að meðhöndla öll slík lán sem ólögmæt í samningunum. Bent var á að öll gengistryggð lán hefðu verið afskrifuð um meira en helming við yfirfærslu þeirra til nýju bankanna, engin greining hefði farið fram á lánaskilmálum m.t.t. ólögmætis og þótt svo færi að hluti þeirra yrði metinn ógildur myndu ákvæði 18. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 leiða til þess að upphaflegur höfuðstóll yrði framreiknaður með óverðtryggðum vöxtum. (Leturbreyting er mín.)

Já, gengistryggð lán voru afskrifuð um meira en helming miða við stöðu þeirra í október 2008, fyrir Landsbankann hf. er það 9. október 2008.

Ég mun vonandi fá tækifæri til að komast að því á næstu dögum hvað er rétt og satt í allri þessari talnamengun.  Hagsmunasamtök heimilanna hafa komist að samkomulagi við forsætisráðherra um vinnu við mat á svigrúmi og nýtingu þess.  Vonandi fer hún í gang fljótlega og verður lokið fyrir 27. október.


mbl.is Yfir 60 milljarðar í niðurfærslu lána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Já, fyllerí bankamanna var öfum þeirra að kenna!

Heldur er það aumkunarvert hjá Ásgeiri Jónssyni að kenna fortíðinni um vanhæfi íslenskra bankamanna á fyrsta áratug þessarar aldar.  Þetta er svona eins og alkinn fari að kenna afa sínum um að hann drekki, vegna þess að afinn datt illa í það fyrir 30 árum.  Ég verð að viðurkenna, að ég geri meiri kröfur til manns sem státar af doktorsgráðu í hagfræði.

Ísland á fyrstu árum þessarar aldar var allt annað Ísland en gekk í gegn um efnahagssveiflur áranna 1970 - 1990.   Alveg eins og Ísland þess tíma var annað en Ísland 1945 - 1970.  Ég er ekki faðir minn og hann ekki faðir sinn.  Báðir höfum við færi á að læra nýja hluti, tileinka okkur það sem hinum stóð ekki til boða á undan, byggja á reynslu þeirra sem á undan okkur gengu.

Greinilegt er að blaðamaður Morgunblaðsins er sammála mér í því að afsökun Ásgeirs og skýring er ótrúverðug.  Sett fram sem réttlæting eða eins blaðamaður segir:  

..tími málsvarnarinnar er sem kunnugt er að fara í hönd..

Hann er aumur sá einstaklingur sem kennir öðrum um eigin gjörðir.  Sigurjón Þ. Árnason gerði það um daginn, en hann hélt sig við nútímann.  Ásgeir Jónsson virðist ætla að kenna samferðamönnum Bjarna afa síns um það sem hann gerði vitlaust.  Eða voru það samferðamenn föður Bjarna sem bera ábyrgðina á hruni Kaupþings árið 2008?  Kannski var það nýsköpunarstjórnin sem var völd af því að Kaupþing hrundi.  Já, svei mér þá eða var það kreppan mikla.  Guðmundur Jaki var þá í farabroddi.  Þetta hlýtur að vera honum að kenna!

Ég vona að bankamenn hrunbankanna fari að axla sína ábyrgð.  Ég er orðinn þreyttur á afsökunum og réttlætingu.  Eins og bankamaðurinn sem sagðist hafa verið að hlíða fyrirmælum, þegar hann var að hringja í gamla fólkið og plata það til að færa peningana úr skjóli innstæðureikninga yfir í sjóði sem keypt höfðu ónýt skuldabréf af eigendum bankans.  Hans afsökun var að eiga fyrir salt í grautinn, því óhlíðnir bankamenn voru reknir.  Hvað ætlar viðkomandi að segja við gamla manninn sem á ekkert lengur nema fyrir salti í grautinn?  Áhyggjulausa ævikvöldið hvarf um leið og peningamarkaðssjóðirnir tæmdust.

Ég geri greinilega meiri kröfu til Ásgeirs Jónssonar, en hann gerir til sín.  Ég velti því líka fyrir mér hvort hann sé ekki með þessu að grafa undan trausti fólks á núverandi vinnustað sínum.  Verð ég núna að taka allt með varúð sem þaðan kemur? Einn af lykilmönnum fyrirtækisins gæti skýrt misheppnaða ráðgjöf á komandi árum í hvarfi síldarinnar árið 1967 eða Móðuharðindum!

Efnahagslífið hrundi vegna þess að menn færðust um of í fang.  Þeir héldu að þeir væru yfirmáta klárir en reyndust svo bara vera meðalmenn.  Teknar voru ákvarðanir, þar sem óheyrileg áhætta var tekin, svipað og að leggja sífellt allt undir á svart í rúllettu.  Það gekk í nokkur skipti, en svo kom rautt.  Í staðinn fyrir að leggja hluta ágóðans fyrir í varasjóð, svo menn þyldu að lenda á röngum lit, þá var alltaf doblað.  Menn héldu að þeir hefðu leyst leyndamál fjármálakerfisins, þegar verið var að lokka þá sífellt lengra inn á hættusvæðið.  Og þegar þeir voru komnir nógu langt og þrátt fyrir að þeir hefðu átt að sjá fallhlerann á jörðunni, þá gengu þeir beint í gildruna eins og mús sem fellur fyrir oststykkinu.  Allt vegna þess að þeir, m.a. greiningadeildin sem Ásgeir stýrði, áhættustýring sem jafnvel ennþá greindari maður stýrði ogyfirstjórnin sem var mönnuð algjörum ofurmennum, voru ekki eins klárir karlar og þeir héldu sig vera.

Ég bíð ennþá eftir því að heyra skýrt og greinilega frá hverjum og einum af æðstu stjórnendum, stjórnarmönnum og eigendum bankanna þriggja:

Mér urðu á herfileg mistök í störfum mínum fyrir Kaupþing/Glitni/Landsbanka Íslands sem urðu til þess að baka þjóðinni óbætanlegu tjóni.  Ég tek á mig fulla ábyrgð á gjörðum mínum og vil gera allt til að bæta fyrir það sem úrskeiðis fór.  Mér líður illa yfir hinu mikla fjárhagslega tjóni sem gjörðir mínar ollu einstaklingum, heimilum og fyrirtækjum og vil biðjast fyrirgefningar á þessu öllu.

Ég ætla ekki að halda niðri í mér andanum eftir að einhver stigi fram og segi þessi orð eða eitthvað í þeim dúr.  Virða verður það við Jón Ásgeir Jóhannesson, að hann er sá sem er næstur því að hafa sagt þetta.  Ég bíð spenntur eftir því að sjá hver stígur næst fram, en ég frábið mér afsakanir og réttlætingar.  Annað hvort eru þessir aðilar menn eða mýs.  Hvort er það?


mbl.is Umræða um hrunið á villigötum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afslátturinn af lánasöfnunum var 1.700 milljarðar króna - Enn hagræðir Árna Páll sannleikanum

Loksins!  Loksins!  Árni Páll Árnason gaf upp við umræðu á Alþingi í dag, að "svigrúmið" væri 1.700 milljarðar króna.  Þremur árum eftir hrun, þremur árum eftir að bankarnir sem nú heita Íslandsbanki, Landsbakinn og Arion banki voru stofnaðir hefur talan verið birt. 1.700 milljarðar er talan sem munar á bókfærðu virði lánasafnanna í gömlu bönkunum og því sem nýju bankarnir greiddu fyrir.

Eftir því sem hefur komist gleggri mynd á ýmsar upplýsingar, þá hef ég gert mitt best til að finna þessa tölu. Í bloggfærslu um daginn, þá komst ég að þeirri niðurstöðu að þessi tala gæti legið á milli 1.680 ma.kr. og 2.000 ma.kr.  Nú er það komið á hreint.  Talan er 1.700 milljarðar krónur.  En er hún rétt?

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður, spurði Árna Pál Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, þriggja spurninga:

Í fyrsta lagi hverjar séu raunverulegar leiðréttingar lánasafns á milli gömlu og nýju bankanna.

Í öðru lagi hvernig standi á því að tölur frá Seðlabanka Íslands séu ólíkar öðrum.

Í þriðja lagi hvernig og hversu hratt hafi þessar leiðréttingar skilað sér til heimila og fyrirtækja.

Svar ráðherra var:

Ég hef engar tölur aðrar en þær sem koma fram stofnefnahagsreikningi bankanna.

Síðan bætti hann við:

Lánasöfnin voru endurmetin og tekin yfir á lægra virði.

1.600 ma.kr. í tilviki fyrirtækja. - Búið er að afskrifa 920 ma.kr.

90 ma.kr. í tilviki heimilanna.  (- Búið er að afskrifa 164 ma.kr. - viðbót frá MGN)

Miðað við svar fjármálaráðherra við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar frá því 14. september sl., þá tók Landsbankinn yfir lán heimilina að bókfærðu virði í Landsbanka Íslands hf. upp á 237,4 ma.kr. á gangvirði 158,4 ma.kr., þ.e. mismunur upp á 79 ma.kr.  Eigum við að trúa því að Íslandsbanki og Arion banki hafi bara fengið 11 ma.kr. afslátt af lánasöfnum heimilanna?  Eða var Árni Páll enn og einu sinni að reyna að reikna og gat það ekki?

Hann svaraði ekki spurningum tvo og þrjú.  Svar við spurningu tvö hefði náttúrulega afhjúpað hversu vitlausir þessi 90 ma.kr. voru.

Annars held ég að Árni Páll eigi alveg að hætta að reikna svona "on-the-fly".  Honum tókst nefnilega að leggja saman 920 ma.kr. og 164 ma.kr. og fá út úr því nærri því 1.200 ma.kr. eða 10% skekkju.  En hann viðurkennir líka að hann kunni ekki að reikna.

Magnús Orri tók til máls í umræðunni og sagði bara hálfa sögu eins oft  gerist hjá samfylkingarþingmönnum.  Hann greindi rétt frá því að menn greindi á um virði lánasafnanna og sömdu um þau færu inn í bankana á lægra virðinu sem kom út úr mati Deloitte.  Framhaldið var hins vegar hagræðing á sannleikanum.  Rétt er að gömlu bankarnir áttu að fá hærri greiðslu, ef betur gekk við innheimtu, en þá sleppti Magnús Orri framhaldinu.  Bara upp að efri mörkum mats Deloitte.  Hann lét það aftur hljóma eins og þeir ættu að fá allt sem innheimtist umfram neðri mörkin.  Þetta gerði hann þrátt fyrir að hann veit betur.  Ég verð að viðurkenna, að ég skil ekki hvers vegna hann fer með svona hálfsagðar sögur.

Ég hvet fólk til að hlusta á umræðurnar, því jafnvel Lilja Rafney var orðið reið út í bankana og kom með tillögu um að innkalla kvóta þeirra fyrirtækja sem fengu skuldir afskrifaðar án þess að láta eitthvað á móti.


mbl.is Mun aldrei flytja skuldir á eignalaust fólk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misskilningur, villur og talnamengun Fréttablaðsins um meintar afskriftir á lánum heimilanna

Í Markaði Fréttablaðsins er stór og mikil grein um skuldavanda heimilanna.  Þar er fjallað á ágætan hátt um margt varðandi greiningu á vandanum, umfjöllun um hann og úrræði.  Því miður læðast inn í greinina villur sem nauðsynlegt er að leiðrétta, önnur atriði þar sem tekin er upp röng túlkun opinberra aðila á gögnum og enn aðrar misræmi í opinberum gögnum sem tekið er gagnrýnilaust upp.

1.   Greiðsluvandi heimila - mat Seðlabanka Íslands.  Seðlabanka Íslands framkvæmdi ítarlega greiningu á stöðu íslenskra heimila á árunum 2009 og 2010.  Niðurstaða Seðlabankans var að 20 til 26% heimila væri í alvarlegum greiðsluvanda.  Því miður heldur þessi greining Seðlabankans ekki vatni og voru viðmið bankans kolröng.  Þannig notaðist hann við naumhyggjuframfærsluviðmið við útreikninga sína.  Viðmið sem enginn annar notaði í þeirri mynd sem hann gerði.  Ekki einu sinni Ráðgjafastofa um fjármál heimilanna notaði þau viðmið sem Seðlabankinn gerði.  Önnur mistök SÍ voru að gera ráð fyrir að allar tegundir heimila gætu ráðið við að setja 40% ráðstöfunartekna í greiðslu lána.  Í vinnu hins svo kallaða sérfræðingahóps var t.d. vikið frá þessari greiningu SÍ og notuð neysluviðmið sem voru umtalsvert hærri en Seðlabankans.

2.  100% leið sérfræðingahópsins er það sem kölluð er 110% leið í dag.  Greinilegt er að annað hvort er skýrsla sérfræðingahópsins ekki nógu skýr eða að blaðamaður hefur ekki kynnt sé málin nógu vel, en það er misskilningur að útreikningar sem getið er um í skýrslunni  sem 110% leið, sé það sem í dag er vísað til sem 110% leiðar.  Sérfræðingahópurinn vann með gögn úr skattframtölum vegna ársins 2009 og með fasteignamat sem þá gilti.  Hvorugt á við í dag.  Hópurinn gerði tilraun til að spá fram í tímann og það var auðvelt að einu leiti, þ.e. fasteignamat fyrir 2011 hafði verið kynnt í júní 2010.  Samkvæmt því átti fasteignamat að lækka að jafnaði um 10%.  Af þeim sökum reiknaði hópurinn út kostnað bæði af 100% leið og 110% leið, þ.e. skuldastaða, greiðslubyrði og kostnaður fjármálafyrirtækja var metið út frá 110% leið miðað við stöðu fasteignamats sem gilti fyrir 2010 og einnig fyrir væntanlegt fasteignamat fyrir 2011.  Í samkomulagi fjármálafyrirtækja og stjórnvalda var miðað við fasteignamat fyrir 2011.  Þetta er atriði sem mér tókst að sannfæra forsætisráðherra og fjármálaráðherra um á fundi í Þjóðmenningarhúsinu í nóvember 2010, þar sem annars yrði 110% leiðin í reynd 120% leið sjö vikum síðar.  Ekki að þetta atriði hafi mætt andstöðu, þar sem fjármálafyrirtækin voru þegar byrjuð að nota nýtt fasteignamat í úrvinnslu sinni.  Kostnaðurinn við 110% leiðin (eins og hún ætti að virka í dag) var því áætlaður 125 ma.kr., en ekki 89 ma.kr. eins og sagt er í grein Fréttablaðsins.  Þar munar litlum 36 ma.kr. eða ríflega 40%.  Áhugavert er hvernig fjármálafyrirtækin hafa síðan þrengt þetta úrræði, þannig að niðurstaðan er líklegast endar leiðrétting vegna 110% leiðarinnar í vel innan við 40% af þessum 89 ma.kr. og 30% af þeirri tölu sem sérfræðingahópurinn gerði ráð fyrir að leiðin kostaði.

3.  Tvítalning leiðréttinga.  Samkvæmt tölum í Þjóðhagsáætlun 2012, þá hafa leiðréttingar, aðrar en vegna gengistryggðra lána, numið 33 ma.kr.  Af þeirri tölu hafa 27,2 ma.kr. komið vegna 110% leiðarinnar og 6 ma.kr. vegna sértækrar skuldaaðlögunar.  Fréttablaðið lætur líta út sem 27,2 ma.kr. hafi verið fært af lánum/leiðrétt vegna 110% leiðarinnar á þessu ári og 9,9 ma.kr. samkvæmt eldri útgáfu úrræðanna.  Það gerir 37,1 ma.kr. sem er heilum 4 ma.kr. hærri upphæð en hefur verið leiðrétt vegna annarra lána en gengistryggðra.  Hið rétta er að leiðrétting vegna nýju útgáfu 110% leiðarinnar er bara 17,3 ma.kr., þ.e. 27,2 mínus 9,9.  Nema náttúrulega að ekki sé að marka opinberar tölur.

4.  Tölur um gengistryggðarleiðréttingar sem ekki passa við aðrar tölur.   Fréttablaðið vitnar í fyrrgreinda Þjóðhagsáætlun 2012 sem Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, lagði fram í upphafi þings.  Í skjalinu segir að í lok ágúst hafi verið búið að "færa niður" lán heimila um alls 164 ma.kr., þar af séu 131 ma.kr. vegna endurútreiknings á gengistryggðum lánum.  Síðan er tölunni skipt enn frekar niður í 92 ma.kr. vegna íbúðalána og 38 ma.kr. vegna bílalána.  Ég fjalla um tölur ráðherra í færslunni Reiknaði Guðlaugur til enda? - Nýjar tölur frá Árna Páli afhjúpa misræmi.  þar bendi ég á að tölur vegna gengistryggðra íbúðalána stemmi ekki við tölur Seðlabanka Íslands um gengistryggð húsnæðislán sem birtast undir hagtölur á vef bankans.  Hugsanlega ganga þær upp, ef önnur gengistryggð lán eru tekin með, en í Þjóðhagsáætlun 2012 segir kýrt og skilmerkilega að gengistryggð íbúðalán hafi verið færð niður um 92 ma.kr.

5.  Afskriftarsvigrúmið og tölur Árna Páls Árnasonar.  Eins og Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, orðaði það svo snilldarlega, þá er talnamengunin mikil þegar kemur að upplýsingum um hvað fjármálafyrirtækin hafa gert og hvað ekki.  Fréttablaðið vitnar í svar Árna Páls á síðasta þingi.  Ég er búinn að gera lúsarleit í umræðum á þingi og finn ekki tilvitnuð orð, en aftur á móti fann ég 11 mánaða gamla frétt í Fréttablaðinu, sem virðist vera rót þessarar fullyrðingar.  Þar segir að húsnæðislán hafi verið færð niður um 90 ma.kr. Samkvæmt upplýsingum á vef Seðlabanka Íslands var staða verðtryggðra húsnæðislána hjá bönkunum 449 ma.kr. í lok september 2008.  Talan lækkaði í 252 ma.kr. í lok október, þ.e. mismunur upp á 197 ma.kr.  Gengisbundin húsnæðislán fóru á sama tíma úr 107,6 ma.kr. í 58,6 ma.kr. eða lækkun um 49 ma.kr.  Og séu öll húsnæðislán heimilanna tekin, þá stóðu þau í 606,9 ma.kr. í lok september, en 310,8 ma.kr. í lok október.  Mismunur upp á 296,1 ma.kr.  Tekið skal fram að milli desember 2009 og janúar 2010 bættust við húsnæðislán upp á 35 ma.kr., þegar Arion banki tók yfir húsnæðislán sem höfðu verið í eigu Eignasafns Seðlabanka Íslands.  Drögu þessa tölu frá 296 og fáum 261 ma.kr.  Meðan ekki eru settar fram fullnægjandi skýringar á þessari tölu, þá verður þetta að teljast hámark þess afsláttar sem nýju bankarnir fengu á húsnæðislánum heimilanna.  Þá er eftir að telja til afslátt af öðrum lánum.

--

Ég fer ekki fram á meira af fjölmiðlum, en að þeir fari rétt með staðreyndir.  Ég skil vel að í allri talnaflórunni sé erfitt að átta sig á tölum, en þá vil ég benda á að Seðlabanki Íslands hefur það hlutverk að safna upplýsingum frá bönkunum.  Vitnið í þessar tölur, þar sem þær eru líklegast áreiðanlegustu upplýsingarnar um skuldir heimilanna við bankakerfið.


Skoðanakönnun eða skoðanamótun

Ég hef lent í þjóðarpúlsi hjá Gallup.  Það eru nokkur ár síðan og kannski hefur eitthvað breyst.  En spurningin sem ég fékk um fylgi við flokka var þessi klassíska:  "Hvaða flokk myndir þú kjósa ef gengið væri til Alþingiskosninga núna?"  Síðan voru nöfn fjórflokksins talin upp og hvort Frjálslyndir fengu að fljóta með.  Ég sagðist ekki hafa gert upp hug minn.  Þá var ég spurður hvern ég teldi líklegast að ég kysi og aftur svaraði á að ég hefði ekki gert upp hug minn.  Áfram var haldið og spurt einnar eða tveggja spurninga í viðbót og alltaf færðist ég undan svara.  Þá kom síðasta spurningin sem ég fékk:  "Hvort þykir þér líklegra að þú kjósir Sjálfstæðisflokkinn eða aðra flokka?"  Því svaraði ég að mér þætti líklegra að ég kysi ekki Sjálfstæðisflokkinn.  Bingó, Gallup var búið að fá eitthvað til að vinna með.

Með því að þráspyrja, þá telur Gallup, að verið sé að fá gleggri mynd af fylgi við stjórnmálaflokka, en að mínu mati er svo ekki.  Fólk nennir ekki þessu spurningaflóði og svarar bara til að komast í næstu spurningu.  Ég vil að Gallup sýni okkur niðurstöðu könnunar á fylgi flokka strax eftir fyrstu spurningu.  Það er nefnilega ekki rétt, að niðurstaða könnunarinnar hafi komið eftir einfalda könnun á fylgi kjósenda við flokkana.  Nei, niðurstaða kom eftir að þátttakendur í könnuninni voru nánast þvingaðir til að láta upp hug sinn og síðasta spurningin "Hvort þykir þér líklegra..?" er notuð til að skipta öllum sem ekki vilja svara á milli flokkanna eftir einhverri formúlu.  Ég er búinn að fá það staðfest frá Gallup.

Margar "skoðanakannanir" eru ekki kannanir á raunverulegum vilja einstaklingsins, heldur snýst þetta orðið um hvernig hægt að draga fram eitthvað sem hægt er að túlka sem vilja.  Þetta er hætt að vera skoðanakönnun, heldur er um hreina skoðanamótun að ræða.  Svo er það jákvætt fyrir könnunarfyrirtækin að sýna fram á árangur í að fækka óákveðnum niður í helst ekki neitt.  Sá sem nær fram hærra svarhlutfalli er nefnilega líklegri til að fá til sín viðskiptavini. 

Það er þekkt að ný framboð líða fyrir það, að sem fæstir séu óákveðnir, meðan rótgróin framboð græða á því.  Skoðanakönnun sem byggir á því að hreinlega útiloka alla óvissu í skoðun þeirra sem spurðir eru, getur því hreinlega torveldað nýju framboði brautargengi.  Fyrir utan að könnun, eins og ég lenti í í febrúar eða mars 2009, hefði getað veitt t.d. framboði Borgarahreyfingarinnar náðarhögg áður sem framboðið var orðið til.  Íslandshreyfingu Ómars var veitt slíkt náðarhögg fyrst og fremst með því að láta alltaf líta út að fáir væru óákveðnir.

Ég myndi vilja gera þá kröfu til Gallup og annarra fyrirtækja, sem kanna hug kjósenda til stjórnmálaflokka, að þau birti:

a) afstöðu aðspurðra til flokka strax eftir fyrstu spurningu;

b) hlutfallstölu allra svara eins og staðan var eftir fyrstu spurningu en uppreikni ekki fylgi, þannig að fylgi þekktra framboða verði samanlagt 100%.  Hafi 16% sagst ætla að styðja einhvern flokk, en aðeins 50% taka afstöðu til flokka, þá er niðurstaðan að fylgi flokksins er 16% en ekki 32%, eins og jafnan er birt, og 50% dreifast á óákveðna, neita að svara, einhvern annan eða ætla ekki að kjósa;

c) hvað þurfti að spyrja oft til að draga fram lokaniðurstöðuna og hvaða spurninga var spurt eða að banna þeim að birta niðurstöður sem byggðar eru á því að þráspyrja.

Það þarf sterk bein til að gefa ekki eftir ítrekuðum spurningum í skoðanakönnunum og stundum eru spurningarnar notaðar til að þvinga fram afstöðu.  Það fyrr er eðlilegt, hið síðara er ófaglegt.


mbl.is „Þjóðin vill óbreytt flokkakerfi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 48
  • Frá upphafi: 1678122

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 43
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband