Bloggfærslur mánaðarins, október 2011
31.10.2011 | 22:13
Hvar og hvenær eiga ferðamenn að versla?
Ferðamaðurinn sem er í Reykjavík, hann er oft á þeysingi inn og út úr borginni eða að hann kom ekki hingað til að versla. Matur, drykkur og afþreying hefur lækkað í evrum. Ferð Gullna hringinn hefur lítið hækkað í krónum þrátt fyrir hrun krónunnar sem þýðir veruleg lækkun í evrum. Meira að segja bjórglasið er farið að þykja ódýrt. Bara Bláa lónið hefur látið verðið halda sér í erlendri mynt.
Ef við viljum að ferðamenn eyði meiru hér á landi, þá verðum við að gefa þeim færi á því. Klukkutíma stopp á Geysi, þar sem svæðið er skoðað og borðaður hádegismatur, gefur ekki nægilegt svigrúm fyrir ferðamanninn til að versla í annars góðri verslun á staðnum. Ennþá styttra stopp á Gullfoss þýðir að eingöngu örfáir nota tækifærið til að versla. Og ekki er verslunin upp á marga fiska á Þingvöllum. Þetta er samt sú ferð sem býður upp á mesta fjölbreyttni í verslun af dagsferðum út frá Reykjavík.
Skipulag ferða verður að leyfa verslun
Grundvallaratriði í því að örva verslun ferðamanna, er að skipuleggja hlutina þannig að varningi sé nánast haldið að þeim og að þeir hafi tíma til þess að sinna þessum þætti heimsóknarinnar. Fáar ferðir eru þannig skipulagðar. Ég er búinn að nefna Gullna hringinn og hringferðir. Þetta á líka við um aðra túra. Ekki er gert ráð fyrir að fólk hafi tíma til að versla. Það er rétt svo að það geti fundið sér húfu eða vettling, en ef einhver fyrirhöfn fylgir kaupunum, þá er varla tími.
Ekki dugar að nota þá afsökun að hin erlenda ferðaskrifstofa vilji ekki skipuleggja þannig að gert sé ráð fyrir tíma til innkaupa. Ég hef ekki ennþá hitt þá konu (ekkert illa meint) sem hefur ekki sýnt því áhuga að skoða í verslun. Karlarnir eru ekki miklir eftirbátar, en þeir hafa minni þolinmæði. Lengjum stoppin á Goðafossi, Mývatni, í Vík, á Geysi, svo nokkrir staðar séu nefndir, og gefum ferðamanninum kost á að skilja gjaldeyrinn eftir. Annað sem við þurfum að gera, er að auka fjölbreyttnina og passa okkur á því að hafa ekki sömu vöruna alls staðar. T.d. er mjög áhugavert að koma í verslunina á Goðafossi, vegna þess að þar er verið að selja öðruvísi vöru. Eða kaupfélagið á Hólmavík. Ef hver staður getur skapað sér sérstöðu, þá eru meiri líkur á að ferðamaðurinn kaup eitthvað á hverjum stað. Sé sami varningurinn alls staðar, þá hættir ferðamaðurinn að skoða eftir að hafa kíkt í tvær verslanir.
Ferðamenn vilja versla
Ég hef farið þó nokkuð margar ferðir með ferðamenn, mest hér á SV-horninu. Eina ferðin sem hreinlega gerir ráð fyrir verslunarstoppi er Suðurstrandarferðin, þar sem hádegisstopp er tekið í Vík og fólki er beint í verslun Víkurprjóns þar. Fólk kemur líka alltaf með fullt af pokum með sér inn í rútuna. Bláa lónsferðin gefur líka gott tækifæri til að versla. Í öðrum ferðum hefur fólk kvartað undan því að hafa ekki tíma, sérstaklega í skipaferðunum. Eins og ég benti á fyrr í færslunni, þá fór ég hringferð þar sem gáfust innan við 2 klukkutímar til að versla á 12 dögum! Hvaða minjagripi á ferðamaðurinn að hafa með sér heim, ef stoppin eru svo knöpp að hvergi gefst tími til að versla? Eða gjafir handa börnum og barnabörnum eða öðrum nástöddum? Ekki er verið að tala um að hætta að sýna fólki landið, bara að skipuleggja hlutina þannig að hádegishléið sé að stað þar sem góð ferðamannaverslun er og að stoppað sé nægilega lengi. Kaupfélag á landsbyggðinni er t.d. mjög vinsæll áningarstaður.
Auðvitað á þetta, sem ég tala um, ekki við um allar ferðir eða alla ferðamenn. Sumir hafa loksins náð að öngla saman fyrir draumaferðinni og eru ekki komnir hingað til að versla. Aðrir versla alveg helling. En hvort sem er, þá verðum við að fjölga tækifærum þeirra til að versla og vera með meiri fjölbreyttni í vöruúrvali. Því miður eru íslenskar ferðamannaverslanir allt of líkar og þegar maður hefur komið inn í tvær til þrjár, þá hefur maður á tilfinningunni að maður hafi séð þær allar.
Ferðaþjónusta | Breytt 6.12.2013 kl. 01:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
31.10.2011 | 13:13
Guðmundi Gunnarssyni svarað
Guðmundur Gunnarsson, stjórnarmaður í lífeyrissjóðnum Stafir, birtir eftirfarandi ummæli á bloggsíðu sinni á Eyjunni:
Þú ættir að lesa pistilinn aftur Marínó og þú ættir að kynna þér betur afstöðu verkalýðshreyfingarinna til hárra vaxta.
Þú ert búinn að bera ómerkilegar sakir á saklaust fólk, verið með innistæulaust persónuníð um starfsfólk stéttarfélaganna.
Öll stéttarfélögin hafa árum saman barist við það að tekið væri á efnahagsástandinu ogþannig að það væri hægt að ná niður vöxtum og skapa stöðugleika.
Þú ættir að kynna þér hvað verðtrygging er í raun og veru, en það er ljóst af skrifum þínum að þú hefur ákaflega takmarkaða þekkingu á því sem þú skrifar um þau mál.
Þetta var svar við athugasemd minni við pistli Guðmundar. Nú mætti halda að ég hafi verið að fjalla um háa vexti eða minnst á neikvæðan hátt á starfsfólk verkalýðsfélaganna eða verið að fjalla um verðtrygginguna. Nei, ég var að fjalla um hvað hafði komið fram á ráðstefnunni í Hörpu sl. fimmtudag og benda honum á að hann hafi farið með rangt mál, þar sem hann segir í færslu sinni:
Ég var ákaflega undrandi á fréttamati RÚV í gærkvöldi þar sem fram kom að helsta atriði ráðstefnunnar í gær um stöðu efnahagsmála hefðu verið að krónan væri bjarghringur Íslands, auk þess að fyrirlesarar væru furðu lostnir yfir því að íslendingar vildu skipta henni út fyrir Evru.
..Ég veit það núna að svo var og það voru Mr. Wolf og Krugman sem dásömuðu krónuna ekki aðrir.
Hvernig hann fær út allt sem hann segir, m.a. um persónuníð, út frá athugasemd minni skil ég ekki, en hún hljóðar svona:
Hvernig getur þú, Guðmundur, sem ekki sast ráðstefnuna lagt [mat] á fréttamat þeirra sem sátu ráðstefnuna? Ég sat ráðstefnuna og glósaði nokkuð vel hvað menn sögðu. Þú nefnilega snýrð þessu á hvolf. Það voru tveir sem sögðu að við hefðum verið betur sett án krónunnar, en allir aðrir, já, allir aðrir sögðu að það að vera með krónuna hafi komið okkur til góða.
Rauði þráðurinn á ráðstefnunni var: afnema verðtrygginguna (meira að segja Gylfi A sagðist ekki vera sérstakur varðhundur hennar), við erum betur sett með krónuna en evru, ganga þarf hraðar og lengra fram í afskriftum og koma þarf fjárfestingum á fullt.
Margir, bæði innlendir og erlendir ræðumenn, lokuðu augunum fyrir því að endurreisnin hefur kost almenning fót og arm í lækkuðum kaupmætti, atvinnuleysi, stökkbreytingu lána, o.s.frv. Mér tókst að fá Julie Kozack til að hálf biðjast afsökunar á því að hafa skautað yfir það.
Hrunið orsakaðist ekki af því að við höfðum krónuna. Hrunið varð vegna þess að fjármálakerfið var fullt af fólki (bæði hér á landi og erlendis) sem hélt að það væri svo snjallt að það þyrfti ekki að sýna varúð og sýndi því af sér afglapahátt.
Hvergi er í þessum texta hnjóðsorð um starfsmenn stéttarfélaganna, persónuníð, "ómerkilegar sakir á saklaust fólk" eða fjallað um verðtrygginguna sjálfa. Ég fjalla um skoðanir sem komu fram hjá frummælendum á ráðstefnunni í Hörpu og bæta síðan við ábendingu um að orsakir hrunsins eru mannanna verk.
Nú ef Guðmundur skyldi vera að vísa til eldri ummæla minna og noti tækifærið til að hnýta í þau, þá hef ég ALDREI verið með persónuníð um starfsmenn stéttarfélaganna. Ég kannast raunar ekki við að hafa nokkru sinni minnst á nafngreinda starfsmenn stéttarfélaga. Skora ég á Guðmund að benda á þessi ummæli mín.
Kannski er Guðmundur að vísa til ummæla minna um að áður en verðtryggingin kom inn, þá hafi "karlar af kajanum" haft umsjón með ávöxtun lífeyrissjóðanna. Þetta er ekki gagnrýni á þá sem stóðu í þessu, heldur ábending um að "karlar af kajanum" eru ekki best til þess fallnir að sinna slíku starfi. Ég er að benda á þá brotalöm sem var í starfsemi lífeyrissjóðanna, ekki stéttarfélaganna, á þessum árum. Kannski er Guðmundur líka að benda á gagnrýni sem ég hef beint að Gylfa Arnbjörnssyni, en hann fer ekki fyrir neinu stéttarfélagi svo ég viti til og hann er ekki starfsmaður stéttarfélags. Hann er örugglega aðili að stéttarfélagi, en mér vitanlega er ekki í stjórn neins. Hann er forseti ASÍ, en ASÍ er ekki stéttarfélag. ASÍ er samtök stéttarfélaga og raunar eru félögin ekki beinir aðilar ASÍ heldur eru þau aðilar að landssamtökum sínum og síðan eru landssamtökin aðilar að ASÍ. Á þessu eru sjö undantekningar og um þau félög hef ég aldrei fjallað í pistlum mínum. Sýndu mér nú, Guðmundur, hvar ég hef farið með persónuníð um starfsmenn stéttarfélaga. Ég bíð spenntur.
Hvað er verðtrygging?
Varðandi ábendingu Guðmundar um að ég eigi að kynna mér verðtrygginguna og um hvað hún er í raun og veru, þá vill svo til að ég veit ýmislegt um verðtrygginguna. Gott væri að Guðmundur skýrði út um hvað hún er í raun og veru að hans mati.
Svo ég rifji upp, þá var verðtryggingunni ætlað á sínum tíma að verja sparnað, lán og laun fyrir því að brenna upp á báli verðbólgunnar. Nákvæmlega það er verðtrygging. Verðtryggingu var ætlað að viðhalda verðmæti sparnaðar, lána eða launa í samræmi við breytingar á verðlagi samkvæmt samræmdri vísitölu. Verðtrygging er líka sjálfvirk aðferð fyrir fjárfesta að viðhalda verðmæti eignasafna sinna. Hún er sjálfvirk aðferð til að skapa misvægi milli tekna fólks og útgjalda. Hún er sjálfvirk leið til að færa eignir fólks frá því til kröfuhafa. Hún er loks sjálfvirk leið til að leggja allan kostnað af verðsveiflum á lántakann, en gera lánveitandann alveg stikkfrí gagnvart því að viðhalda efnahagslegum stöðugleika. En þetta er líklegast ekki skilningurinn sem "varðhundar verðtryggingarinnar" vilja að haldið sé á lofti.
Verðtryggingu var ætlað stórt hlutverk. En henni var ekki ætlað að stuðla að endalausri eignatilfærslu frá almenningi til fjármagnseigenda. Minnst þrisvar hafa orðið slíkar kollsteypur í íslensku efnahagslífi, síðan verðtryggingin var tekin upp, að nánast öll eignamyndun fólks í húsnæði þess hefur horfði. (Ég geri grín af því að í hvert sinn sem mín hógværu námslán (ég fékk um 1.400.000 kr. í námslán árin 1985 til 1988) komast niður í 1.700.000 kr., þá kemur verðbólguskot sem skýtur þeim upp í 2.200.000 kr. Eftir að hafa greitt af lánunum í 20 ár, þá skulda ég ennþá álíka tölu og þegar ég byrjaði að greiða af þeim.) Já, ég veit alveg út á hvað verðtrygging gengur.
Nú segir vafalaust einhver að verðtrygging sé mikilvæg fyrir lífeyrissjóðina. Það er kjaftæði. Ekkert samhengi er milli þess að vera með markmið um 3,5% raunávöxtun og að þjóðfélagið þurfi að vera verðtryggt. Slíkt er bara þægileg útskýring þeirra sem vilja halda í verðtrygginguna. Fyrir utan að 3,5% raunávöxtunin er bara viðmiðunartala, eins og sést á því að fjölmargir lífeyrissjóðir hafa skert réttindaávinning sjóðfélaga á undanförnum árum, m.a. á árunum fyrir hrun, þegar uppsveiflan var á fullu.
Mig langar að benda á staðreynd sem þeir sem mæra verðtrygginguna í balk og fyrir viðrast ekki átta sig á:
3,5% raunávöxtun er hægt að ná án verðtryggingar og verðtrygging tryggir ekki 3,5% raunávöxtun.
Greinilegt er að Guðmundur er að gagnrýna hugmyndir mínar, Hagsmunasamtaka heimilanna og fleiri um afnám verðtryggingar. Hann bara gerir eins og margir aðrir og sleppir seinni hluta setningarinnar. Við viljum nefnilega afnema verðtryggingu af lánum til heimilanna. Aldrei hefur verið amast við því að aðrir geti verið með verðtryggðar fjárskuldbindingar. Við segjum að þeir einir eigi að vera með verðtryggðar skuldbindingar sem eru með verðtryggðar tekjur. Sömu reglur eiga að gilda um þá, sem taka verðtryggð lán, og fjármálastofnanir. Viðkomandi þarf að geta náð verðtryggingarjöfnuði innan eðlilegra vikmarka, þ.e. munurinn á verðtryggðum skuldbindingum og tekjum má aðeins vera innan þessara vikmarka. Þannig var þetta þegar verðtryggingu var komið á með Ólafslögum. Bæði tekjur og lán voru verðtryggð. Síðan var annarri hlið jöfnuðarins kippt í burtu, eftir það báru lántakar kostnaðinn af hagsveiflum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
28.10.2011 | 22:33
Hæstiréttur: Neyðarlögin voru almenn og framvirk; Jón Steinar: Neyðarlögin voru sértæk og afturvirk
Ég er búinn að vinna mig í gegn um dóma Hæstaréttar frá því í dag. Í mjög mörgum atriðum fer rétturinn eftir sömu línu og Hérðsdómur Reykjavíkur. Ýmislegt áhugavert er að finna í dómsorðum Hæstaréttar og langar mig að vekja athygli á þeim sem mér finnst standa upp úr.
Tjón hámarkast af kaupverði
Þegar rætt er um tjón sóknaraðila, þ.e. kröfuhafa, þá segir:
Að þessu virtu verður hafnað málsástæðu varnaraðila um að ekki sé nægilega sýnt fram á að þeir úr hópi sóknaraðila, sem eignuðust kröfur sínar fyrir setningu laga nr. 125/2008, muni vegna setningar laganna fá minna en ella hefði orðið við greiðslu upp í samþykktar kröfur á hendur varnaraðilanum Landsbanka Íslands hf.
Tökum eftir þessu, að þeir sem áttu kröfurnar fyrir setningu laganna munu" fá minna en ella hefði orðið". Rétturinn vísar með þessu frá tjónskröfu þeirra sem keyptu kröfur með afslætti.
Næst er fjallað um upphæð krafna og þá tjónsins:
Áður er fram komið að hluti upphaflegra almennra kröfuhafa hefur selt kröfur sínar eftir 6. október 2008 og að þær hafi haft eitthvert fjárgildi í viðskiptum þótt óumdeilt sé að það hafi verið lágt. Um það nýtur ekki við nánari upplýsinga í málinu. Að öllu þessu virtu þykja sóknaraðilar ekki hafa rennt stoðum undir þær staðhæfingar sínar að kröfur þeirra hafi eða muni tapast að öllu leyti vegna setningar laga nr. 125/2008 þótt ókleift sé á þessu stigi að komast að niðurstöðu um hve mikið kunni að fást greitt af þeim þegar upp verður staðið.
Sem sagt, viðurkennt er að lítið fæst hugsanlega greitt upp í almennar kröfur, en vegna þess að sumir eignuðust kröfurnar fyrir slikk, þá rýrir það gildi kröfu þeirra fyrir dómi. Hæstiréttur ætlar ekki að gefa vogunarsjóðum óeðlilegan hagnað af þeim kröfum sem keyptar voru fyrir nokkra aura á krónuna.
Kröfuréttur viðurkenndur sem eign..
Sóknaraðilar telja að kröfur þeirra séu varðar af stjórnarskránni og 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu. Um þetta segir:
Varðandi þetta er fallist á með sóknaraðilum að kröfuréttindi þeirra teljist vera eign í merkingu stjórnarskrár og 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu.
Hæstiréttur er alveg ótvíræður í þessu. Ekkert fer á milli mála að kröfur séu varða af stjórnarskrá. Ef svo er hvernig getur hann þá komist að þeirri niðurstöðu að hægt sé að skerða endurheimtur kröfuhafa?
..en kröfuröð er breytanleg..
Hæstiréttur vísar til þess að mörg fordæmi séu fyrir því að löggjafinn krukki í réttindaröð kröfu, raunar allt frá 1974. Þetta fordæmi sé nógu ríkt til þess að:
Þegar þetta er virt verður ekki fallist á með sóknaraðilum að þeir hafi með réttu getað skapað sér væntingar um að löggjafinn myndi ekki aðhafast að þessu leyti þeim til óhags, og á það alveg sérstaklega við um þá úr hópi sóknaraðila, sem eignuðust kröfur sínar eftir 6. október 2008, en þeim var fullljós sú áhætta sem þeir tóku.
Í fyrsta lagi voru fordæmin þess eðlis að réttindaröð hafði oft verið breytt og hitt að þeir sem eignuðust kröfur eftir setningu laganna vissu að hverju þeir gengu. Mér sýnist sem Hæstiréttur sé að setja ofan í við vogunarsjóðina, að láta sér detta í hug að þeir gætu fengið skjótfenginn gróða með því að kaupa kröfur á slikk og fá svo Hæstarétt til að tryggja þeim hærri greiðslu úr búin en þeir höfðu keypt kröfurnar á.
..og henni var breytt áður en slitameðferð hófst
Hæstiréttur hafnar að breyting á kröfuröð hafi haft afturvirk áhrif. Bankinn var ekki kominn í slitameðferð þegar lögin voru sett og því sé engin afturvirkni.
Lögin eru almenn
Hæstiréttur fjallar næst um að lög 125/2008, Neyðarlögin, hafi verið almenn lög um breyttar reglu við slit fjármálafyrirtækja. Ekki sé hægt að horfa eingöngu til endurheimta frá Landsbanka Íslands, þegar lögin væru skýrð. Vissulega væri óheppilegt að lítið fengist upp í almennar kröfur hjá LÍ, en hið sama ætti ekki við um hina bankana.
Lögin voru ekki sett til að gilda tímabundið heldur fela þau í sér nýja skipan til frambúðar. Verður samkvæmt þessu að leggja til grundvallar að með lögunum hafi verið ákveðið með almennum hætti hvernig skipað skuli réttindaröð krafna við slit fjármálafyrirtækja, sem getur raskað réttindum mjög margra kröfuhafa íslenskra fjármálafyrirtækja en ekki sóknaraðila einna.
Réttháum kröfuhöfum ekki mismunað
Hæstiréttur staðfestir niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur um að réttháum kröfuhöfum hafi ekki verið mismunað og vísar bara í rökstuðning héraðsdóms, en í honum segir:
Hið rétta er að kröfur innstæðueigenda eru ekki sambærilegar kröfum sóknaraðila. Er þá jöfnum höndum litið til eðlis krafnanna, úrræða kröfueigenda til greiðslu þeirra, ólíkra möguleika kröfuhafa til að tryggja hagsmuni sína og síðast en ekki síst til nauðsynjar þess fyrir banka- og fjármálakerfi að innstæðueigendur geti treyst því að sparnaður þeirra sé í öruggum höndum. Alkunna er að skortur á slíku trausti getur leitt til áhlaups á banka með alvarlegum afleiðingum fyrir stöðugleika fjármálakerfisins og jafnvel efnahagshruns. Með sömu rökum stoðar ekki sóknaraðila að vísa til ákvæða 4. og 40. gr. EES-samningsins.
(Merkilegt er að Hæstiréttur vísar í héraðsdóm um rökstuðning og birtir hann svo í næstu málsgrein í sem hluta af öðrum rökstuðningi. Ég hef stundum á tilfinningunni, að Héraðsdómur Reykjavíkur ætti að kæra Hæstarétt fyrir höfundarréttarbrot svo orðrétt eru heilu setningarnar og nánast málsgreinarnar notaðar.)
Var nauðsynlegt að færa innstæður til?
Markmið neyðarlaganna var meðal annars að bankastarfsemi héldi áfram í landinu með virku greiðslukerfi. Niðurstaða Hæstaréttar er að það hefði ekki tekist nema með því að færa innstæður til í kröfuröð og gera að forgangskröfum. Sem sagt að málefnalegar ástæður hafi verið fyrir ákvæði neyðarlaganna.
Hæstiréttur telur að ekki hafi verið sýnt fram á aðra aðferð sem hefði verið eins árangurrík eða betri aðferð. Hann hafnar einnig þeirri ábendingu sóknaraðila að nóg hefði verið að breyta forgangsröðun vegna innlendra innstæðna með þeim rökum að um óleyfilega mismunun innstæðueigenda hefði þá verið að ræða.
Var nauðsynlegt að tryggja þær upp í topp?
Sóknaraðilar báru fyrir sig varakröfu um að innstæður væru þá aðeins tryggðar upp að lágmarki. Hæstiréttur notar upplýsingar úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um að innlendir reikningar sem voru eingöngu með innstæður undir lágmarkstryggingarmörkum (EUR 20.887) hafi einungis num 91 ma.kr. af 1.065 ma.kr. innstæðum. Að tryggja bara lágmarkið hefði því ekki komið í veg fyrir bankaáhlaup og þar með markmið laganna.
Önnur atriði
Tekið er á nokkrum öðrum atriðum í dómnum, en þau eru meira tæknilegs eðlis og hafa ekki eins afgerandi áhrif og þau sem ég hef nefnt að ofan. Sleppi ég því umfjöllun um þau.
Sérálit Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Ekki þarf að koma á óvart að Jón Steinar Gunnlaugsson skili séráliti. Tölfærðin segir okkur að hann geri það oftar en nokkur annar dómari og hann hefur líka sýnt það í ýmsum dómum upp á síðkastið að hann er með aðra lögskýringu á mörgum atriðum er varða samninga- og eignarrétt en aðrir dómarar. Er hann, að mínu áliti, mjög bókstafstrúar á lögin. Þetta hefur bæði sína kosti og sína galla.
Meginþemað í rökstuðningi Jóns Steinars er að lögin hafi í reynd verið afturvirk, þ.e. að við setningu þeirra hafi verið ljóst hvert stefndi og því væri hér blekking falin í því að tala um að um framvirk lög væri að ræða. Jón Steinar hafnar þó ekki því að skerða megi eignarréttinn í ástandi eins og skapaðist hér í október 2008. Spurningin er bara hve langt megi ganga í þeirri skerðingu og hvenær sé of langt gengið. Niðurlagsorð hans eru sem hér segir:
Eignarréttur er verndaður í 72. gr. stjórnarskrár. Til efnisþátta ákvæðisins telst regla um jafnrétti, hliðstæð þeirri sem felst í 65. gr. stjórnarskrár. Með vísan til þess sem að framan greinir er það niðurstaða mín að ekki fái staðist þá vernd eignarréttinda, sem tryggð er með 72. gr. stjórnarskrárinnar, að skerða kröfuréttindi sóknaraðila við slit á varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. á þann hátt að veita kröfu varnaraðilans FSCS forgangsrétt samkvæmt 6. gr. laga nr. 125/2008, sbr. nú 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, svo sem fallist var á með hinum kærða úrskurði. Tek ég sérstaklega fram að í þessari afstöðu felst ekki að þetta lagaákvæði standist ekki sem almenn lög í landinu, þannig að innlán í bönkum njóti á grundvelli þess í framtíðinni réttarstöðu samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 við slit fjármálafyrirtækis. Í henni felst aðeins að með setningu ákvæðisins voru skert þau eignarréttindi sóknaraðila sem fólust í kröfum þeirra á hendur varnaraðilanum Landsbanka Íslands hf., þannig að í bága fór við nefnt ákvæði stjórnarskrárinnar. Tel ég samkvæmt þessu að taka beri til greina kröfur sóknaraðila um að hafna viðurkenningu á forgangsrétti kröfu varnaraðilans FSCS við slitin..
Niðurstaða Jóns Steinars er því að neyðarlögin hafi ekki verið almenn lög heldur sértæk lög sem til framtíðar áttu að fá almennt gildi. Þau hafi verið sett í þeim tilgangi að afla fjár frá lánveitendum til að greiða fyrir innstæður og slíkt sé ekki réttlætanlegt.
Lokaorð
Dómar Hæstaréttar (hér er notaður dómur í máli nr. 340/2011) eru um ítarlegir og skýrir. Ágreiningur milli meirihluta og minnihluta er um stöðu neyðarlaganna, þ.e. voru þau sértæk og afturvirk eða almenn og framvirk, en að öðru leiti eru menn sammála. Þessi munur er þó nægur til þess að greina á milli feigs og ófeigs.
Hafa skal í huga, að meirihluti viðurkennir að eignarréttur sé á kröfum. Allt veltur á þessu atriði hvort a) viðurkennt sé fyrir því að löggjafinn breyti kröfuröð og b) var sú breyting framvirk eða afturvirk. Búast má við að málinu verði vísað til Strassborg og er gjörsamlega ómögulegt að segja til um hver niðurstaðan verður þar. Hitt er alveg dagljóst, að ríkissjóður mun aldrei geta reitt fram 2/3 af þeim 2.700 ma.kr. sem er upphæð innstæðna sem liggur undir í þessu máli. Allar væntingar um slíkt eru út í hött.
Neyðarlögin gilda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Icesave | Breytt 6.12.2013 kl. 01:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
28.10.2011 | 14:06
Hæstiréttur: Neyðarlögin halda!
Niðurstaða Hæstaréttar um að neyðarlögin haldi er mikill léttir, svo ekki sé meira sagt. Rétturinn tekur með þessu undir niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur, sem komst að þeirri niðurstöðu að neyðarlögin mismunuðu vissulega kröfuhöfum, en það væri gert á samræmdan og réttlætanlegan hátt. Engin mismunun ætti sér stað innan hvers hóps kröfuhafa, hvorki eftir upphæðum, landfræðilegri staðsetningu, stærð eða stöðu kröfuhafa né þjóðerni.
Meira um þetta síðar.
Icesave | Breytt 6.12.2013 kl. 01:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
28.10.2011 | 12:04
Verður Ísland gjaldþrota í dag?
Klukkan tvö í dag kveður Hæstiréttur upp úrskurð í einum 14 dómsmálum sem varða neyðarlögin. Strangt til tekið er Hæstiréttur að taka fyrir gjaldþrotaúrskurð fyrirtækisins Ísland. Falli dómurinn kröfuhöfum í vil, þá munu íslensk stjórnvöld þurfa að leita nauðasamninga við kröfuhafa bankanna eða finna stóran hluta af 2.300 ma.kr. innstæðum sem tryggðra voru í neyðarlögunum með því að færa þær til í kröfuröð.
Ég veit ekki hvort fólk átti sig almennt á mikilvægi niðurstöðunnar í þessum málum. Með ákvörðun Hæstaréttar gæti allur árangurinn sem náðst hefur í ríkisfjármálum þurrkast út. Lánshæfismat Íslands mun falla niður í F, þar sem útilokað er að ríkissjóður geti pungað út 1.000 til 1.500 ma.kr. hvorki núna né nokkru sinni í framtíðinni.
Mér finnst ótrúlegt að nánast ekkert hefur verið fjallað um þetta. Ætli það sé vegna þess, að menn sjá ekki tilgang í því eða þykir ekki tilhlíðilegt að hafa með slíkri umræðu áhrif á niðurstöðu Hæstaréttar.
Falli úrskurðurinn kröfuhöfum í hag, þá verður það ótrúlegt högg á ríkissjóð og hagkerfið. Við erum að tala um, að skiptingin milli gömlu og nýju bankanna verður í uppnámi, krafan sem fellur á íslenska innstæðutryggingasjóðinn fer úr litlu og upp í hæstu hæðir, ríkissjóður fær á sig skaðabótakröfur úr öllum áttum, gjaldeyrisforðinn þurrkast upp á augabragði.
Falli úrskurðurinn kröfuhöfum í hag, þá fyrst getum við virkilega lagst á bæn og beðið Guð um að hjálpa Íslandi.
Eftir tvo tíma kemur í ljós hvort þess er þörf, hvort Ísland sé gjaldfært eða gjaldþrota. Eftir tvo tíma kemur í ljós hvort þessar vangaveltur mínar hafa eitthvað að segja. Hafi 6. október 2008 verið áhrifadagur fyrir íslenska þjóð, þá er 28. október 2011 enginn eftirbátur.
Icesave | Breytt 6.12.2013 kl. 01:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
28.10.2011 | 10:49
Ástandið versnar þvert á staðhæfingar stjórnvalda og AGS
Á ráðstefnunni í Hörpu í gær, þá voru nokkrir sem töluðu máli stjórnvalda og héldu því fram að allt væri á réttri leið. Julie Kozack, yfirmaður AGS gagnvart Íslandi var ein af þeim. Hún sagði að með AGS prógramminu hafi tekist að varðveita norræna velferðarkerfið og það sem hún kallar "the social fabric" (samfélagsgerðin). Kannski er þetta rétt út frá einhverjum tölfræðilegum samanburði þar sem fundnir eru réttar viðmiðunartölur, en mér sýnist aftur sem tölur Hagstofunnar a.m.k. varpi skugga á þessa staðhæfingu hennar.
Eftir að Julie flutti sitt erindi, þá spurði ég hana einfaldrar spurningar:
Getur þú skýrt fyrir almenningi á Íslandi sem hefur þurft að þola miklar skattahækkanir, hrun í kaupmætti, atvinnuleysi á áður ókunnum slóðum, mesta fólksflótta í yfir eina öld, gríðarlegan fjölda nauðungarsalna, gjaldþrot einstaklinga og fyrirtækja sem aldrei áður, að lokað sé fyrir nauðsynlega þjónustu á landsbyggðinni og áratuga sparnaður tapast? Hvernig getur nokkur haldið því fram að það hafi tekist að verja norræna velferðarkerfið eða að samfélagsgerðin hafi ekki raskast?
Er óhætt að segja að hún hafi orðið vandræðaleg og viðurkenndi að vissulega hefði almenningur þurft að þola margt.
Ég nefni þetta, vegna þess að upplýsingarnar í Hagtíðindum falla svo gjörsamlega að tilfinningu okkar sem höfum staðið í hagsmuna baráttu fyrir almenning í landinu. Brestirnir í velferðarkerfinu og samfélagsgerðinni eru bæði áberandi og mjög víða. Það er ekki hluti af norrænu velferðarkerfi eða samfélagsgerð okkar að stórir hópar fólks séu að missa húsnæðið sitt og lenda á götunni. Norrænt velferðarkerfi myndi ALDREI leyfa að gengið væri á fjölskyldur vegna afglapa bankamanna á árum áður. Norrænt velferðarkerfi myndi sjá til þess að tjónið sem afglaparnir ollu væri leiðrétt, þannig að foreldrar gætu búið börnum sínum áhyggjulítið líf. Norrænt velferðarkerfi myndi veita sanngjörn úrræði svo fólk gæti náð réttláttri niðurstöðu í samningum við lánadrottna sína. Íslensk samfélagsgerð hefur gengið út á að tryggja afkomu fólksins í landinu. Réttláta skiptingu auð, að jafna byrðinni á fólk og fyrirtæki. Núna hefur dæmið snúist þannig að þrír bankar hagnast um 163 ma.kr. meðan yfir 50% heimila á í erfiðleikum með að ná endum saman og stór hluti atvinnulífsins er í gjörgæslu bankakerfisins. Það er ekki bara að samfélagsgerðinni hefur verið kollvarpað, heldur hefur samfélagssáttmálin verið rofinn.
Upplýsingarnar í Hagtíðindum sýna að þó einhverjum hagfræðilegum botni hafi verið náð og þjóðhagslegar stærðir benda til þess að nú liggi leiðin upp á við, þá eru heimili í sárum og verði ekki gripið strax til róttækra aðgerða til að rétta hlut þeirra, þá mun stórum hluta þeirra blæða út. Fyrir gríðarlegan hluta íslenskra heimila, þá er gjaldþrot betri kostur en að halda þessu ströggli áfram. Mér finnst liggja beinast við, að bankarnir þrír verða að láta hagnað síðustu þriggja ára renna til endurreisnar velferðarsamfélagsins. Það er þeirra siðferðilega skylda, það er hluti uppgjörsins við hrunið og leið til að koma á sáttum. Einnig eiga þeir undabragðalaust að skila öllum afslætti á lánasöfnum til viðskiptavina sinna.
Leiðrétting
Steinþór Pálsson leiðrétti við mig í gær að hann hafi 15 ára starfsreynslu úr bankakerfinu og er því hér með komið á framfæri. Mér varð það á í færslu um daginn að segja hann frían af tengslum við gömlu bankana, en svo er sem sagt ekki. Það breytir samt ekki því, að við mig hafa sagt starfsmenn innan Landsbankans, að þeir telji hann ekki alltaf skilja bankastarfsemi. Tekið fram að þetta er ekki mín skoðun, þar sem ég hef hvorki vit né skoðun á hans störfum. Hef bara átt með honum einn alvöru fund og rætt við hann kannski þrisvar og hef ég ekki verið neitt sérlega hrifin af þeirri samskiptataktík sem hann notar. Það er kannski þess vegna sem hann er bankastjóri, en ég er einyrki.
Mörg heimili í vandræðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Endurreisn | Breytt 6.12.2013 kl. 01:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.10.2011 | 00:58
Ráðstefna stjórnvalda og AGS
Mér var boðið á ráðstefnu stjórnvalda og AGS um hvernig endurreisn Íslands hefði gengið fyrir sig. Margt forvitnilegt kom fram þar, bæði hjá innlendum og erlendum fyrirlesurum. Sjaldan var reynt að málamyndina bjartari litum og oft heyrðist mikil gagnrýni á áherslu AGS og stjórnvalda í endurreisninni.
Senuþjófur dagsins
Senuþjófurinn var án efa Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands. Blés Gylfi á ýmsar goðsagnir um það hvernig hlutirnir hefur gengið fyrir sig. Benti hann t.d. á að eins ástæðan fyrir því að bönkunum var ekki bjargað, var að ríkissjóður hefði ekki haft efni á því. Það hafi ekki verið í planinu að hlaupa frá skuldum bankanna, heldur hafi hlutirnir bara æxlast svona, vegna lélegra stöðu gjaldeyrisvarasjóðsins. Þetta hafi því verið hundaheppni en ekki útpæld aðgerð að bankarnir voru látnir falla á lánadrottna þeirra. Ennþá meiri heppni hafi verið að AGS hafi ekki verið kallaður að borðinu fyrr, þar sem þá var vandinn ekki eins mikill og menn hefðu því freistast til að ausa peningum í bankana. Hann sagði einnig að þetta með Icesave innstæðurnar hafi byggt á sömu heppni, þ.e. ef peningarnir hefðu verið til, þá hefði ríkið greitt út lágmarksinnstæðunar.
Ummæli dagsins
Gylfi Arnbjörnsson átti ummæli dagsins, þegar hann segist ekki ætla að verja verðtrygginguna.
Samantekt
Ráðstefnan byrjaði á heldur döpru erindi Jóhönnu Sigurðardóttur, en á eftir henni kom Árni Páll Árnason með alveg fyrirtaks erindi. Má segja að með því hafi Árni Páll gefið tóninn fyrir það sem á eftir fór. Byrjaði hann á að greina frá ummælum Poul Thomsen, yfirmanni AGS gagnvart Íslandi, sem sagði að ástandið hér haustið 2008 hafi verið "near death experience". Þ.e. sjúklingurinn Ísland hafi verið nær dauða kominn í þá mund sem AGS kom hingað. ÁPÁ benti á, að gömlu bankarnir þrír hafi verið fyrstu AA fyrirtæki til að fara í vanskil á greiðslum (default). Hann sagði að ríkisstjórnin hafi verið að hugsa um hag heimila og fyrirtækja með því að verja innstæður (nokkuð sem ég átta mig ekki á, þar sem eingöngu lítill hluti einstaklinga og fyrirtækja áttu stóran hluta innstæðna). Hann ítrekaði svo að stjórnvöld vildu og hafa alltaf viljað að skuldir umfram greiðslugetu væru afskrifaðar (hlutur sem illa hefur gengið að hrinda í framkvæmd að mínu mati). -- Mér fannst ÁPÁ bara nokkuð hreinskilinn í erindi sínu og velti því fyrir mér hvers vegna hann tali ekki á þessum nótum oftar í staðinn fyrir að vera sífellt í vörn.
Fyrsti hluti
Stiglitz: Erindi hans hafði verið tekið upp og því sýnt á tjaldi. Hann sagði í sjálfu sér ekki mikið, en myndbandið var flott. Hann sagði þó að rétt hafi verið að láta hluthafa og skuldabréfaeigendur taka á sig skellinn.
Friðrik Már Baldursson: Hann greindi frá því að nettókostnaður ríkisins af hruni bankanna hafi numið um 20% af vegri þjóðarframleiðslu eða um 340 ma.kr. Hann tiltók að 1 ma.EUR skuldabréfaútgáfa í sumar hafi sannað að ríkissjóður gæti tekið lán erlendis, en samkvæmt mínum upplýsingum, þá seldust bréfin til fjárfesta víða um heim. Hann fullyrti að slæm lán hefðu verið skilin eftir í gömlu bönkunumm, sem fékk mig til að valta því fyrir mér hvers vegna nýju bankarnir væru því að reyna að innheimta þau. - Í einkasamræðum þá sagði Friðrik að líklegasta skýringin væri að menn vissu ekki hvaða lán væru slæm og hvaða lán væru góð!
Willem Buiter: Hann blés á þá staðhæfingu að Ísland hefði lent í aftakaveðrinu mikla (perfect storm). Það væri réttlæting á því sem hefði gerst! Hér hefði ríkt múgheimska, þar sem allir hefðu látið stjórnast af sameiginlegu brjálæði. Að halda að hægt væri að vera með alþjóðlegt bankakerfi án þess að vera með alþjóðlega viðurkenndan gjaldmiðil væri mikil skammsýni. Telur hann að m.a. Bretland sé of lítið til að vera með alla þá bankastarfsemi sem er í landinu. Eins og ýmsir síðar, varaði hann við því að heimilin fengju að taka gengisbundin lán og það þyrfti að verja heimilin fyrir sjálfum sér. Alls ekki ætti að bjarga bönkunum út þeim vanda sem þeir kæmu sér í. Það væri hlutverk eigenda og bankanna sjálfra. Hann benti á að væri ekki nógu mikið af hæfileikaríku fólki til að sinna mikilvægum störfum, þá væri lausnin að sækja það til útlanda. Önnur lausn væri að ganga í stærri klúbb, þ.e. ESB. Hann hafði miklar áhyggjur af skorti á fjárfestingu og núverandi hlutfall kæmi niður á komandi kynslóðum. Buiter sagði of miklar skuldir vera í kerfinu og landið þyrfti hreinlega á skuldahreinsun á 50 ára fresti. Lausnin væri að afskrifa eða breyta þeim í eign, þ.e. skuldir væru færðar niður í 70% og bankinn eignaðist í staðinn 30%. Hann sagði 110% leiðina klikkaða. Hann varaði við að hefta nýju bankana með óleystum skuldamálum (overhanging debts). Binda ætti enda á verðtryggingu og skipta bönkum í góða banka og slæma banka. Buiter vildi að bankarnir störfuðu sem bankar en ekki viðeignastýringu. Stjórnvöld hefðu gert mistök við að tryggja innstæður upp í topp. Nóg hefði verið að tryggja þær upp að vissu marki og síðan senda það sem umfram var í almenna kröfuröð.
Vilhjálmur Egilsson: Honum var tíðrætt um gjaldeyrishöftin og óttaðist að þau myndu vara endalaust, ef markmiðið væri að verja stöðugleika krónunnar. Allt sem væri frjálst á markaði sveiflaðist og það vildum við. Gjaldeyrishöftin væru vantraustsyfirlýsing á krónuna! Opna yrði markaði til að hafa þá heilbrigða. Verðlagsstýringar fyrr á árum hefðu ekki haldið verðlagi niðri og hið sama ætti við um gjaldeyrishöft. Hann saknaði vaxtaráætlunar.
Franek Rowzadowski, fulltrúi AGS: Hann lýsti markmiði áætlunar AGS og stjórnvalda, sem var að koma á stöðugleika, upphaflega aðeins gagnvart gengi, en við komu AGS var gjaldeyrisvarasjóðurinn ekki nógu öflugur. Gjaldeyrishöftin hafi verið nauðsynleg aðgerð því allt stefndi í að allur gjaldeyrir kláraðist.
Annar hluti
Stefán Ólafsson: Fyrirlestur Stefáns var sorglegt dæmi um það hvernig menn geta látið tölfræði segja hvað sem er. Ég skrifaði í glósur mínar "hvítþvottur" og tóku ýmsir undir þetta með mér. Hann fór nokkru eftir að hann var búinn með erindi sitt og því var ekki hægt að spyrja hann spurninga. Ég skil t.d. ekki hvernig honum datt í hug að horfa á útgjaldabreytinga fyrir 2007 til 2010, þegar hrunið varð ekki fyrr en á þriðja ársfjórðungi 2008 og kom því EKKERT inn í fjárlög til velferðarmála fyrr en í fjárlögum 2009. Ég get ekki tekið svona framsetning gagna alvarlega.
Jón Daníelsson: Hann kallaði erindið sitt The good, the bad and the ugly. Það góða var að samdrátturinn varð minni en menn óttuðust, gjaldþrot ríkissjóðs var forðað, menn afneituðu ekki skuldunum, tekist hefur að komast á fjármálamarkað á góðum kjörum og atvinnuleysi hefði orðið minna en búast mátti við. Slæmi hlutinn er að gengið hefði hrunið, útflutningur hefði ekki tekið við sér og fjárfesting er í lægð. Sá ljóti er gjaldeyrishöftin a la 6. áratugurinn, þ.e. röng aðferð sem skilar ekki réttum árangri. Hafi menn ætlað að ná jafnvægi með krónuna, þá hefðu verið meiri sveiflur gagnvart evru, en hjá Svíum. Vaxtastefnan væri kolröng. Bönkunum skipt í innlenda - erlenda, en ekki góða og slæma og tveimur komið í hendur hrægammasjóðum. Tími þeirra færi í að hámarka skammtímaeignabjörgun í staðinn fyrir að veita bankaþjónustu. Regluverk hafi verið of lítið fyrir hrun og of mikið eftir hrun. Innlendir bankar þyrftu ekki regluverk fyrir alþjóðlega starfsemi. Bankarnir stjórna 50% fyrirtækja sem skekkir samkeppni og dregur úr hvöt til fjárfestinga. Vantar að viðurkenna töpuð útlán, en það bæði skekkir bókfærða stöðu og heldur aftur af batanum. Í umræðum sagði Jón að gjaldeyrishöft ættu að byggja á skattlagningu á heitu fé.
Gylfi Arnbjörnsson: Ég er ekki sammála þeim sem segja að hann hafi verið afleitur. Hann þarf að læra að setja upp glærur því engin ástæða er að setja allt á glærurnar sem maður ætlar að segja. Hann var mjög gagnrýninn og hef ég ekki áður séð hann jafn gagnrýninn. Gjaldeyrismálin voru honum hugleikin bæði fyrir og eftir hrun. Hneykslaðist hann á því að gjaldeyrisvarasjóðurinn bæði nú og strax eftir hrun hafi vreið tekinn að láni. Hann vill skipta um gjaldmiðil. Hann sagði að lélegir bankamenn hefðu fengið rammann sem þeir unnu innan frá stjórnmálamönnum. (Þ.e. sökin fyrir hegðun bankamanna væri hjá stjórnmálamönnum sem ég kaupi ekki. Hver maður er ábyrgur fyrir sinni hegðun.) Hann taldi að sveigjanlegur gjaldmiðill virkaði ekki í litlu opnu hagkerfi. (Fékk á baukinn frá erlendu hagfræðingunum fyrir þetta síðar. Ég held að sú yfirhalning hafi verið óverðskulduð og sýna örlítinn menntahroka. Menn geta verið ósammála, en þá eiga menn bara að segja það.) Gylfi benti á að 30% tekna heimilanna fari í vexti. Í umræðum hrökk upp úr Gylfa, að hann ætlaði ekki að verja verðtrygginguna.
Paul Krugman: Hann var framan af fastur í tölfræðisamanburði sem átti að sýna að Ísland hafði ekki farið svo illa út úr hruninu. (Gerði að hluta sömu mistök og Julie Kozack síðar.) Hann sagði að áhugi sinn á Íslandi væri að það væri mikilvægt til samanburðar. Óleyst skuldamál væru stærsta vandamálið. Var ósammála um að hægt væri að lyfta gjaldeyrishöftunum og sagði evruna ekki þá lausn sem Ísland þyrfti. Betra væri að hafa krónuna.
Matarhlé
Steingrímur J. Sigfússon hélt ræðu í matarhléinu, þar sem hann opinberaði að óbeit hans á AGS hafi verið á misskilningi byggð. Þetta hafi verið hið vænsta fólk! Ég held að hann hafi endurtekið það svona fimm sinnum, eins og hann væri að venjast því að segja það. Að öðru leiti var ræða hans ekki innihaldsrík. Endurtekning á því sem hann hefur sagt ítrekað inni á Alþingi.
Þriðji hluti
Þorvaldur Gylfason: Hvatti menn til að skoða ákvæði um hæfi stjórnarmanna í lögum um fjármálafyrirtæki.
Gylfi Magnússon: Erindi hans var mjög gott, skýrt og skilmerkilegt. Viðhalda efnahagslegri endurreisn, auka við fjárfestingu, endurfjármögnun opinberra lífeyrissjóða, endursköpun regluverks fyrir fjármálageirann eru það sem ég punktaði hjá mér.
Simon Johnson: Án efa sá hreinskilnasti í salnum. Var ánægður með að menn hefðu losað sig við flestar afsakanir/blekkingar, þó væru nokkrar eftir og hann ætlaði að henda þeim út. Fyrst spurði hann hvort við værum í raun núna að horfast í augu við alheimskreppu. Evrusvæðið væri að leysast upp. Hve mikið væru Þjóðverjar tilbúnir að borga til að halda uppi lífsstandard Berlusconis. Menn yrðu að átta sig á því að engin mörk væru á því hvað ríki gætu skuldsett sig. Hann benti á að það sem þyrfti til að halda nútíma banka gangandi væri nógu stór efnahagsreikningur. Hann spurði salinn hvort hann héldi að Goldman Sachs gæti fallið. Nær engin viðbrögð komu. Málið væri samt að fjármálakerfið væri ekki komið í lag nema hvaða banki sem er gæti fallið. Benti á að launahæstu bankastjórarnir hefðu fengið á þriðja milljarð dala í kaupauka, þar af hefðu 2 ma. USD runnið fimm manna, þ.e. hjá Lehman Brothers, Bears Stern, AIG, NationWide og til eins í viðbót sem ég man ekki. Öll þessi fyrirtæki fór illa út úr hruninu og nokkur þeirra eru ekki til lengur. Laun og árangur fer greinilega ekki saman.
Finnur Oddsson: Flutti mjög áhugavert erindi sem ég hvet fólk til að kynna sér með því að skoða glærurnar hans.
Julie Kozack, AGS: Hún skýrði frá því sem þyrfti að gera á næstu misserum: auka vöxt, draga úr atvinnuleysi, aflétta gjaldeyrishöftum, lækka skuldir hins opinbera, halda áfram endurbótum á fjármálamarkaði, ljúka við endurskipulagningu skulda heimila og fyrirtækja. Hún var ánægð með góðan árangur í skuldabréfaútboði ríkissjóðs, en sagði að fjárfestingar væru nauðsynlegar. Aflandakrónu væru í kringum 30% af vergri landsframleiðslu, þ.e. um 3,5 ma. USD. Óvirk lán í bankakerfinu væru líka um 30% af lánunum. Hún kom með nokkra ákaflega vafasamar yfirlýsingar, sem hún dró til baka þegar ég bað hana um að skýra það út fyrir almenningi sem hefði lent i ótrúlegum hremmingum.
Fjórði hluti
Þessi hluti var samræður sex einstaklinga í pallborði og síðan var opnað fyrir spurningar. Hér fóru flestir í panellnum á kostum nema helst Nemat frá AGS sem var að passa sig á að tala ekki af sér. Sérstaklega ber að nefna stórkostlega frammistöðu Gylfa Zoega, sem ég minnist á fram í þessum pistli. Reittu menn af sér brandara hægri vinstri og fór stundum lítið fyrir alvarlegri umræðu, þó alvaran lægi alltaf undir. Kaldhæðni ætti ég kannski frekar að segja.
Mín upplifun
Ég var ánægður með margt sem kom fram á ráðstefnunni. Allt of margt var það sem ég, Hagsmunasamtök heimilanna og einstaklingar innan þeirra, Samtök lánþega, Lilja Mósesdóttir, Eygló Harðardóttir, Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari höfum verið að halda fram síðustu ríflega þrjú ár. Veit ég ekki hvort ég eigi að vera ánægður með það, hvað erlendu sérfræðingarnir sögðu oft hluti sem ég fjallað um eða vera reiður yfir að stjórnvöld hafi ekki verið að hlusta.
Steingrímur og Jóhanna voru með minnsta innihaldið í sínum ræðum og svo voru nokkur erindi sem mér fannst litlu skila inn í umræðuna. Fyrirspurnir komu nánast eingöngu frá okkur í órólegu deildinni, þ.e. hópi sem kom saman á miðvikudag og komum okkur saman um að spyrja ögrandi spurninga. Því miður gafst minni tími til spurninga en æskilegt hefði verið, sérstaklega var Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri, lélegur í sinni tímastjórnun og komust því nánast engar spurningar að í fyrsta hlutanum, þó ærið tilefni hafi verið til.
Rauði þráðurinn í erindum margra var að halda í krónuna, burt með verðtrygginguna og ganga yrði lengra í afskriftum skulda heimila og fyrirtækja. Eftir ráðstefnuna ræddi ég við tvo aðila sem eru framarlega í íslensku viðskiptalífi um verðtrygginguna (nefni engin nöfn). Benti ég á að ekki ætti að bjóða neinum verðtryggingu nema sá hinn sami gæti náð verðtryggingarjöfnuði. Þannig hafi kerfið verið í upphafi og þannig ætti það að vera. Þetta væri ekki spurningin um að afnema verðtrygginguna heldur banna hana á neytendalánum. Báðum fannst þetta áhugavert sjónarhorn og vona ég að þau fylgi þessu eftir á sínum vettvangi. Staðreyndin er sú að fjármálakerfið er rekið á jöfnuði vegna gjaldeyrisviðskipta og verðtryggingar. Hvernig getum við með sanni sagt að fjármálafyrirtækin séu með verðtryggingarjöfnuð, þegar sá sem er á annarri vogarskálinni er ekki með hann?
Hrósið fá: Aðstandendur ráðstefnunnar fyrir að halda hana og safna saman góðu liði panelista. Ég hélt að hún yrði já-bræðralags fundur, en svo varð ekki.
Loðinn og krúttlegur AGS | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Endurreisn | Breytt 6.12.2013 kl. 01:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
26.10.2011 | 18:10
Kreppan og endurreisnin - Er Fönix risinn úr öskustónni?
Í síauknu mæli virðist vera orðið ljóst að hagstjórn er meira en fólk með brennandi áhuga á stjórnmálum ræður við. Hin gamla kunna aðferð að kjósa áhugafólk um stjórnmál á þing í þeim erindagjörðum að reka þjóðfélagið af ábyrgð, virðist vera að renna sitt skeið á enda. Út um allan heim erum við að sjá hagkerfi komin niður á hnén, ef þau eru ekki alveg fallin til jarðar. Japanska kreppan var fyrir 20 árum og landið hefur ekki enn náð að vinna sig út úr vandanum. Hvað ætli það taki Ísland, Írland eða Grikkland langan tíma að koma sér á svipað ról og fyrir 2008?
Stjórnmálamenn um allan heim eru að komast að því, að þeir hafa ekki hundsvit á fjármálum. Þeir hafa ennþá minna vit á bankamálum og alls ekkert á því hvernig fjármálakerfi heimsins virkar. Með fullri virðingu fyrir Geir H. Haarde, Ingibjörgu S. Gísladóttur, Steingrími J. Sigfússyni og Jóhönnu Sigurðardóttur, þá held ég að þau hafi ekki áttað sig á því hvað fólst nákvæmlega í áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir Ísland. Ég held að ekkert þeirra hafi áttað sig á því fyrir hvern AGS var að vinna í raun og veru. Sama á við um stjórnmálamenn í öðrum löndum þar sem AGS hefur farið inn.
Ég er með þessu hvorki að hallmæla stjórnmálamönnunum né AGS, bara að benda á staðreyndir. Hér á landi hefur nefnilega komið í ljós, að vanþekking íslenskra stjórnmálamanna á hlutverki AGS er að kosta okkur háar upphæðir. AGS kom ekki hér til að byggja upp Ísland. Nei, sjóðurinn kom hingað til að sjá til þess að kröfuhafar Íslands yrðu ekki hlunnfarnir í uppbyggingu hagkerfisins. Stjórnvöld þorðu ekki annað, líklegast vegna þess hve stjórnmálamenn skömmuðust sín fyrir ástandið, en að samþykkja alls konar hluti sem engin ástæða var til að samþykkja.
Ég hef aldrei getað skilið hvers vegna almenningur á Íslandi átti að greiða fyrir klúður bankamanna. Eins og ég fjalla um í næstu færslu, þá eru allar stofnanir sem koma að stefnumótun í fjármálakerfinu, búnar að komast að þeirri niðurstöðu að það voru fyrst og fremst innri verkferlar fjármálafyrirtækjanna sem klikkuðu, voru rangir eða ekki til staðar. Út um allan heim er almenningur að gjalda fyrir það. Hér á landi er búið að skera niður heilbrigðisþjónustu út um allt land meðan bankarnir græða á tá og fingri. Er ekki eitthvað rangt við þá mynd?
Á morgun (fimmtudag) verður haldin ráðstefna í Hörpu um hvernig endurreisn Íslands hefur tekist til. Þar munum við örugglega heyra margar ræður með innihaldi sem hinn almenni landsmaður getur ekki samsamað sig við. Menn munu berja sér á brjósti og hrósa sér fyrir velheppnaða endurreisn. En er hún vel heppnuð? Bera tölur um gjaldþrot einstaklinga og fyrirtækja þess vitni að endurreisnin sé vel heppnuð. Eða fjöldi nauðungarumboða á eignum einstaklinga, yfirtökur fjármálafyrirtækjanna á rekstrarfyrirtækjum, atvinnuleysistölur, brottflutningur, niðurskurður í velferðarkerfinu, fjárfestingar á síðustu þremur árum og svona mætti lengi telja.
Ég viðurkenni alveg að stjórnvöld hafa náð stjórn á þjóðarskútunni. Þau hafa raunar unnið afrek, sem ég tel að þeim beri að hrósa fyrir. En þjóðarskútan er illa löskuð og áhöfnin hamast á dælunum. Hætt er við að komi stormur, þá endi hún á hafsbotni. Á meðan áhöfnin hamast, þá sigla þrjú glæsifley framhjá en áhafnir þeirra telja sig ekki þurfa að hjálpa. Er það ekki ósanngjarnt og hreinlega rangt, að meðan nærri allt á Íslandi líður fyrir hrunið sem gömlu bankarnir ollu, þá vaða þeir nýju í peningum sem vinnandi hendur landsmanna hafa aflað. Er ekki eitthvað rangt við það, að nýju bankarnir skili 163 ma.kr. hagnaði meðan heimilin og fyrirtækin í landinu þurfa að sjá á eftir fjármunum sínum og eignum til þessara sömu banka. Banka sem reistir voru á rústum bankanna sem settu allt á hliðina. Ég vil að bankarnir þrír greiði þessa 163 ma.kr. til ríkissjóðs sem framlag sitt til endurreisnar Íslands. Þeir eiga ekki að hagnast á óförum þeirra sem urðu fyrir skaða vegna aðgerða gömlu bankanna. Meðan þetta ástand varir, þá get ég ekki samþykkt að Fönix hafi risið úr öskustónni. Ég get ekki samþykkt að endurreisnin hafi heppnast. Hún er misheppnuð!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
26.10.2011 | 02:44
Er Hæstiréttur að senda skilaboð um vexti í dómi sínum í máli nr. 274/2011?
Eftir úrskurð Hæstaréttar í máli Íslandsbanka gegn AB 258 ehf. (áður Kraftvélar), þá fletti ég upp dómi Hæstaréttar í máli nr. 274/2011 Arion banka gegn Agla ehf., en hann hafði alveg farið framhjá mér þegar dómurinn var kveðinn upp í vor. Ástæðan fyrir því að ég gerði það, er að í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur hafði dómarinn, Jón Finnbjörnsson, sagt svo skýrt og skorinort:
Þá er ekki heimilt að reikna á ný afborgun af vöxtum og höfuðstól, ef hún hefur verið greidd að fullu á réttum gjalddaga eins og krafist var.
Ég gerði ekkert meira með þetta, en í kvöld fékk ég nafnlaust SMS, þar sem mér var bent á orð í dómi Hæstaréttar þar sem segir:
Án tillits til málsástæðna varnaraðila, sem lúta að gengistryggingu lánssamningsins, verður ekki horft fram hjá því að ekkert er fram komið til að hnekkja þeirri ályktun í hinum kærða úrskurði að krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila geti ekki verið lægri en sem nemi upphaflegum höfuðstól skuldarinnar [25 m.kr.], eins og hann var sagður jafngilda fjárhæð í íslenskum krónum, að frádregnum áðurgreindum innborgunum [4.435.659 kr.] eða 20.564.341 krónu.
Spurningin er hvaða skilaboð er Hæstiréttur að senda með þessum orðum. Hvernig sem á það er litið, þá útilokar rétturinn ekki að krafan sé upprunalegur höfuðstóll að frádregnu því sem greitt hefur verið, þ.e. að þegar greiddir gjalddagar standi og þar með að afturvirk vaxtahækkun eigi ekki við. Er þetta í samræmi við þá niðurstöðu sem Jón Finnbjörnsson komst að. Hann útilokar heldur ekki hærri upphæð.
Það væri hreint og beint óábyrgt af Hæstarétti að gefa í skyn að skuldin gæti verið allt að þetta lág, ef rétturinn túlkaði síðan sinn eigin úrskurð í máli 471/2010 frá 16. september 2010, þannig að endurreikna ætti alla gjalddaga afturvirkt. Slík túlkun myndi aldrei koma eftirstöðvum lánsins niður í rétt rúmar 20,5 m.kr. heldur væru þær nær því að vera 45-50 m.kr.
Vissulega er sá möguleiki fyrir hendi að Hæstiréttur sé ekki að segja neitt annað, en að sama hversu lág krafan yrði, þá ætti viðkomandi ekki eignir til að standa undir skuldbindingunni eða tekjur til að greiða af henni. Mér finnst hann samt vera að opna fyrir eitthvað, sem gæti kollvarpað gæti túlkun fjármálafyrirtækja á dómnum frá 16. september 2010, með því að taka í reynd undir þá niðurstöðu Jóns Finnbjörnssonar að ekki sé ástæða til að endurreikna áður greidda gjalddaga. Málið er nefnilega, að greiddir gjalddagar upp á 4.435.659 kr. verða að talsvert hærri upphæð séu þeir endurreiknaðir. Hversu mikið hærri, veit ég ekki, en þar með yrði hærri tala dregin af upprunalegum höfuðstóli. Rétturinn getur ekki fullyrt án þess að það sé stutt með meira en orðum að uppreiknaðir gjalddagar leiddu til lægri eftirstöðva höfuðstóls en rétt rúmlega 20,5 m.kr. Hann hlýtur því að vera að gefa til kynna, að þegar greiddir gjalddagar verði ekki teknir upp enda hafi þeir verið greiddir í samræmi við kröfu bankans.
Ég veit að það er ljótt að gefa fólki von, þegar svona mikil óvissa er í gangi. Full ástæða er þó til að skoða þennan dóm vel, þar sem tveir af þremur dómurum í máli nr. 274/2011 voru Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson, en þau dæmdu bæði í máli nr. 471/2010 og eru talin bestu dómarar réttarins. Þriðji dómarinn var svo Páll Hreinsson, sem almennt er talinn óskeikull í lögskýringum.
Fyrir þá sem hafa misst þráðinn, þá lýsir Hæstiréttur því yfir að innborganir upp á ríflega 4,4 m.kr. setji neðri mörk á skuld lántaka vegna láns er fyrir dómi. Hversu rökrétt sem það er, að eftirstöðvarnarnar geti aldrei orðið lægri en upphaflegur höfuðstóll að frádregnu því sem hefur verið greitt, þá dugar það ekki sem skýring nema rétturinn leggi rökin fram (sem hann gerir ekki). Þar sem óvissa er um túlkun á dómi 471/2010, þá gilda ekki "af því bara" rök, heldur verður að líta svo á, að rétturinn sé að taka undir með héraðsdómi, að þegar greiddir gjalddagar eigi að standa.
Hvers vegna var það ekki tilgreint í dómi í máli 471/2010?
Eðlilegt er að fólk velti því fyrir sér hvers vegna rétturinn úrskurðaði ekki í máli nr. 471/2010 að ekki mætti hrófla við þegar greiddum gjalddögum. Ástæðan er einföld. Honum stóð það ekki til boða.
Lykilregla í dómsmálum er að dómur getur ekki tekið tillit til annarra krafna en lagðar eru fyrir dóminn og þeirra lagaraka sem höfð eru uppi. Fimmta varakrafa Lýsingar í því máli var að samningsvextir ættu að gilda, en fjórða varakrafa að óverðtryggðir vextir Seðlabankans giltu. Varnaraðilinn hafði uppi fjölbreytt rök fyrir því að rétturinn ætti að fallast á fimmtu varakröfu Lýsingar, en hvergi í greinargerðinni sem skilað var til Héraðsdóms Reykjavíkur er minnst á þá sjálfsögðu kröfu eða vísað til lagagreina því til stuðnings að þegar greiddir gjalddagar stæðu óbreyttir. Þ.e. aldrei var gerð krafa um að þær greiðslur sem inntar höfðu verið af hendi teldust fullnaðargreiðsla fyrir þann gjalddaga sem þær áttu við. Ég veit ekki til þess að þessari kröfu eða rökum hafi verið bætt við greinargerðina sem fór til Hæstaréttar. Þess vegna gat Hæstiréttur ekki tekið tillit til slíkrar kröfu.
Átti Hæstiréttur samt að líta til þessa atriðis? Já, alveg hiklaust. Samkvæmt niðurstöðum Evrópudómstólsins í nokkrum málum, þá ber dómstólum að huga að atriðum er varða neytendavernd, þó svo að þau séu ekki höfð uppi í dómsmáli. Nokkur dæmi eru til um þetta. Eitt var ekki flóknara en það, að spánskur dómstóll átti að vísa máli frá þar sem neytanda var gert erfitt um vik að verja sig, vegna þess að málinu var stefnt fyrir dómstóli fjarri heimabyggð neytandans. Þessi krafa var ekki höfð upp í málinu, en Evrópudómstóllinn kvað úr um að héraðsdómstólnum hafi samt borið að rétta hlut neytandans á þennan hátt. Nú vill svo til að dómar Evrópudómstólsins eru fordæmisgefandi hér á landi í gegn um EES samninginn. Ég hef svo sem skilning á því að fámennur Hæstiréttur Íslands hafi ekki alla dóma Evrópudómstólsins á takteinum, en núna er búið að vekja athygli hans á þessu og því hefur hann ekki neina afsökun fyrir því að fylgja þessu fordæmi í framtíðinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.10.2011 | 23:30
Sorgleg niðurstaða - Við viljum fagmennsku en bara með réttri niðurstöðu
Ég veit að ég mun ekki afla mér vinsælda með þessari færslu, en mér finnst þessi niðurstaða, að stjórn Bankasýslunnar hafi ákveðið að segja af sér, sorgleg. Í mínum huga sýnir hún, að við höfum ekkert komist áfram. Ég get alveg tekið undir að ráðning Páls Magnússonar var ekki það sem flestir vildu sjá, en það er ekkert sem bendir til þess að vinnubrögðin við ráðninguna hafi verið ófagleg. Raunar verð ég að viðurkenna, sem menntaður á sviði ákvörðunarfræði, þá hef ég ekki séð betra ráðningarferli af þeim sem hafa verið gerð opinber. Ég segi þetta með þeim fyrirvara, að ég hef bara séð það sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum.
Við getum haft hverjar þær skoðanir sem við viljum á Páli Magnússyni, en mér virðist sem verið sé að kenna honum um eitthvað sem hann afrekaði ekki. Að láta sér detta í hug að aðstoðarmaður viðskiptaráðherra hafi haft eitthvað með það að gera að S-hópurinn hafi fengið Búnaðarbanka Íslands er nú heldur langt gengið. Í fyrsta lagi, þá sendi ríkisstjórn Davíðs Oddssonar þetta mál til einkavæðingarnefndarinnar, þar sem það fékk (vonandi) faglega meðferð, og þegar Halldóri og Davíð líkaði ekki niðurstaðan, þá tóku þeir málið yfir ásamt aðstoðarmönnum sínum, Birni Inga og Illuga Gunnarssyni. Hvorki Páll né Valgerður komu mér vitanlega að málinu eftir það og hef þó lesið það sem segir um það í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Í öðru lagi, þá er ákvörðunarvald Framsóknar ekki hjá aðstoðarmanni ráðherra. Það er hjá nokkurs konar æðstaráði flokksins, en gert er grín af því að helst sé hægt að átta sig á því hverjir þar sitja með því að fylgjast með fundum Eignarhaldsfélags Samvinnutrygginga nú Gift. Það er því barnalegt að ætla að refsa Páli Magnússyni fyrir einkavæðingu bankanna. Hann var í versta falli nytsamt verkfæri, en ákvarðanirnar voru annarra.
Þannig að ráðningarferlið var eins faglegt og frekast er hægt að gera kröfu um og ólíklegt er að Páll hafi ráðið nokkru um að Ólafur Ólafsson fékk að kaupa stóran hluta í Búnaðarbankanum. (Ekki ætla menn að kenna Páli um Björgólfar eignuðust Landsbankann.) Þá stendur eftir hvort Páll hafi verið a) hæfur og b) hæfastur.
Varðandi það hvort Páll hafi verið hæfur, þá hef ég ekki hugmynd um það. Samkvæmt upplýsingum stjórnar Bankasýslunnar, þá stóðst hann hæfiskröfur ásamt þremur öðrum og fór því í viðtöl og próf. Ef einhver hefur nánari upplýsingar um það hvers vegna hann hefði ekki átt að teljast hæfur, miðað við rökstuðning stjórnar Bankasýslunnar á hæfismati þeirra, þá væri gott að fá að vita það. Að aðeins fimm hafi sótt um stöðuna, segir ansi margt um starfið. Að einn hafi strax dottið út, segir að ekki voru allir hæfir í starfið og því hefði Páll dottið út á því stigi, ef það hefði verið mat þeirra sem komu að ráðningarferlinu að hann stæðist ekki lágmarkskröfur. En hann komst upp á næsta stig.
Varðandi það hvort hann var hæfastur, þá hefur Þorsteinn Þorsteinsson, fyrrverandi formaður stjórnar Bankasýslu ríkisins, lýst því nákvæmlega hvernig Páll stóð sig á hinum mismunandi prófum. Stundum var hann lakastur, stundum næst lakastur, stundum næst bestur og stundum bestur. Þegar allt var lagt saman, þá reyndist Páll einfaldlega hafa staðið sig best. Eitt er þó alveg ljóst, að enginn þessarra fjögurra sem voru metnir hæfir, sköruðu afgerandi fram úr. Við erum því hvorki að tala um að Páll hafi verið áberandi hæfastur eða að einhver annar hafi verið áberandi sístur, a.m.k. hefur ekkert slíkt komið fram.
Gott ákvörðunarferli eykur líkur á góðri útkomu
Eins og áður segir, þá er ég með menntun á sviði ákvörðunarfræði, þ.e. ég er með tvær gráður í aðgerðarannsóknum frá Stanford háskóla. Ég sótti nánast alla áfanga í ákvörðunartöku (decision making), ákvörðunargreiningu (decision analysis) og ákvörðunarfræði (decision theory) sem ég vissi af í skólanum. Eitt af því mikilvægasta sem ég lærði í þessu námi var að láta ekki eigin vilja trufla leiðina að niðurstöðu. Hafi maður ákveðið að fylgja ferli og það ferli er hafið yfir vafa (a.m.k. eins hafið yfir hann og hægt er), þá verður maður að sætta sig við það sem út úr ferlinu kemur. Þannig komst ég að því við vinnu lokaverkefnis míns, þvert á allt sem mér hafði dottið í hug áður, að ekki væri alltaf hagkvæmt að virkja vatnsföll og jarðgufu til að selja rafmagnið til stóriðju. Verðið fyrir rafmagnið skipti meira máli. Landsvirkjun líkaði ekki niðurstaðan haustið 1988, en núverandi forstjóri áttar sig á þessum sannindum. Þar leiddi, sem sagt, ferlið mig að niðurstöðu sem mér hafði ekki hugkvæmst áður. Hvað átti ég að gera? Afneita niðurstöðunni, breyta ferlinu og vonast til að fá aðra niðurstöðu? Nei, ég aftur framkvæmdi næmnisathuganir á niðurstöðunni og skoðaði hvað þyrfti að gerast svo niðurstaðan breyttist. En niðurstaðan stóð óhögguð og hún fór í skýrsluna mína ásamt útkomu næmnisathugana. Í dag er þetta viðurkennd staðreynd.
Margt er líkt með þessari reynslu minni og niðurstöðu stjórnar Bankasýslunnar. Menn settu upp ferli og keyrðu umsækjendur í gegn um það. Og út kom að Páll Magnússon var metinn hæfastur. Hvað átti stjórn Bankasýslunnar að gera? Átti það að vera gamla Ísland, þar sem bara þeir sem eru þóknanlegir valdhöfunum sleppa í gegn um nálaraugað eða átti það að vera nýja Ísland, þar sem allir eru jafnir gagnvart því ferli sem var notað. (Ég hef séð menn ýja að, að ferlinu hafi verið breytt til að fá fram þessa niðurstöðu. Auðvitað er ekki hægt að útiloka slíkt, en segja slíkar vangaveltur ekki meira um hvað viðkomandi dettur í hug, en hvað öðrum dettur í hug.) Kannski var framkvæmd næmisgreining á niðurstöðunni til að sjá hve mikið einstakar útkomur eða vægi þeirra þyrftu að breytast svo niðurstaðan breyttist. Það veit ég ekki, en það hefði getað bæði styrkt og veikt þá ákvörðun að ráða Pál.
Nýja Ísland eða gamla Ísland
Ég held að stjórn Bankasýslunnar hafi mátt vita að ráðning Páls yrði umdeild. Samt var ákveðið að fylgja niðurstöðu ferlisins. Ég get ekki séð annað, en að með því væri verið að sýna vandaða stjórnsýslu. Verið var að kveðja gamla Ísland, þar sem niðurstöðum var breytt til samræmis við pólitískan vilja ríkisstjórnarinnar eða eitthvað þess háttar. Vissulega hefði enginn hreyft nein andmæli fyrir Páls hönd, ef hann hefði ekki fengið stöðuna. Á sama hátt er ekki verið að taka upp hanskann fyrir hönd eins sérstaks umsækjanda í því fjölmiðla- og bloggheimafári, sem gengið hefur yfir. Allt hefur snúist um að Páll sé vanhæfur vegna þess að hann aðstoðaði Valgerði Sverrisdóttur árið 2003 og að stjórn Bankasýslunnar hafi dregið taum Páls vegna fyrri samskipta formanns stjórnar og Páls fyrir langa löngu.
Alveg er ljóst, að ekki er möguleiki að ráðning Páls hafi veirð pólitísk nema í gangi sé risastórt samsæri. Verið sé að launa Framsókn fyrir stuðning við eitthvað sem ekki er ljóst ennþá hvað er. Einnig er ljóst að Steingrímur J. hefur ekki verið að koma "sínum manni" að í stöðuna. Hann gerði það ekki þegar Elín Jónsdóttir var ráðin og gerði það ekki heldur núna. (Svona út frá kómísku hliðinni, þá er gott að vinna fyrir Kópavog, ætli menn að komast í forstjórastól Bankasýslunnar. Elín var tilsjónarmaður með Lífeyrissjóði starfsmanna Kópavaogsbæjar og Páll er bæjarritari í Kópavogi.) Ekki er Páll stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar, þannig að sú tenging er farin. Við getum því nokkuð örugglega útilokað pólitíska spillingu.
Mér sýnist flest benda til þess að ákvörðun Bankasýslunnar hafi verið tekin á hreinum faglegum forsendum. Þá á ég við faglegum út frá aðferðafræði mannauðsstjórnunar. Stillt var upp ferli, því fylgt eftir og ákvörðun um ráðningu byggð á því. Að ráðast á stjórn Bankasýslunnar fyrir að vera fagleg er hreinlega ósanngjarnt. Ég viðurkenni alveg, að þegar ég sá nafn Páls á lista yfir umsækjendur, þá átti ég ekki von á því að hann fengi djobbið. Reyndin var önnur.
Eru allir bankamenn vanhæfir?
Mér finnst það hrein kaldhæðni, að loksins þegar einhver aðili vandar sig af slíkri kostgæfni við ráðniningarferli, eins og stjórn Bankasýslunnar virðist hafa gert, þá hrökklast hún frá. Menn kalla hana vanhæfa og í henni hafi setið vanhæft fólk vegna þess m.a. að það hafi tengst gömlu bönkunum. Steinunn Þórðardóttir fær á sig blammeringar sem standast ekki einu sinni skoðun og síðan er vitnað til þess að hún hafi starfað hjá Íslandsbanka II/Glitni. Höfum í huga, að nær allir sem hafa alvöru þekkingu á bankamálum hér á landi, eru með tengsl við gamla fjármálakerfið. Hinir eru svo ný byrjaðir í bransanum að þeir hafa ekki reynsluna til að taka að sér stjórnarstörf fyrir Bankasýsluna. Hvað eigum við að gera í þessari stöðu? Hvert eigum við að sækja hæfa einstaklinga?
Vandinn er ærinn og fyrst fyrrverandi stjórn Bankasýslunnar var talin vanhæf, þá fæ ég ekki betur séð en á hann hafi bætt. Arion banki og Landsbankinn sóttu menn utan bankakerfisins til að gerast bankastjórar. Ég hef heyrt ákaflega skiptar skoðanir á því hvernig það hefur tekist. Um báða er sagt að ljóst sé að þá vanti reynslu af bankamálum. Ég lít á það sem hrós, en ég held að undirmenn þeirra líti á það sem ókost. Hæfisskilyrði stjórnarmanna í Bankasýslunni er að viðkomandi hafi þekkingu og reynslu tengda fjármálakerfinu. Hvar er það fólk hér á landi sem er jafnframt "hreint" af hruninu? Ég hreinlega veit það ekki. Menn hafa lagt það til að sækja fólk til útlanda, en er ástandið eitthvað betra þar? Allur fjármálaheimurinn er svo samofinn og þar sem hann er meira og minna allur í bulli, þá hefur fækkað allverulega í hópi "æskilegra". Næst er að spyrja hvort fólk vilji setjast í þessi heitu sæti, þar sem ákvarðanir sem ekki þóknast fjöldanum munu leiða til þess að dregnar eru upp sögur um afglöp fjölskyldumeðlima.
Ég held að við verðum að fara að slaka aðeins á. Gefið var út opið skotleyfi á mig fyrir tæpu ári, þar sem ég vogaði mér að krefjast þess að unnið væri af heilindum. Fylgt væri réttum ferlum við úrlausn mála, en ekki ferlum sem hentuðu bönkunum. Í dag var það stjórnarmaður í Bankasýslunni sem fékk skothríðina yfir sig, af þeirri einni ástæðu, að hún vann af heilindum. Hvernig ætlum við að fá besta fólkið til að stíga fram og taka þátt í endurreisninni, ef ein "röng" ákvörðun verður til þess að viðkomandi er tekinn af lífi í fjölmiðlum eða bloggheimum. Ef þetta er nýja Ísland, má ég þá biðja um það gamla aftur.
Stjórn Bankasýslu vill hætta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (41)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 0
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 51
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 46
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði