Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

Niðurstöður þverpólitískrar vinnu undir stjórn HH

Hagsmunasamtök heimilanna kölluðu í febrúar til þverpólitísks samstarfs grasrótarhópa stjórnmálaflokkanna um skuldavanda heimilanna.  Niðurstöður hafa nú loksins komist í vinnuna og voru þær sendar út á fjölmiðla í morgun.  Vil ég birta þær hér.  Tekið skal fram að vinnan náði til almennra skulda heimilanna.

Tillögur til sátta um lausn á skuldavanda heimilanna

Niðurstöður úr þverpólitísku lausnamiðuðu samstarfi

Hagsmunasamtök heimilanna stóðu fyrir þverpólitískum vinnufundi um leiðir til frekari aðgerða fyrir heimilin í landinu þann 20. febrúar síðast liðinn. Þingmenn og grasrótarfólk allra flokka tók þátt í fundinum og eftirvinnslu. Markmið vinnunnar var að leita frekari leiða til að slá á þann bráða fjárhagsvanda sem steðjar að heimilum landsins. Ekki var eingöngu fjallað um beinan skuldavanda, heldur líka hvernig nauðsynlegar almennar aðgerðir til handa öllum neytendum sem hafa orðið fyrir forsendubresti og horfa upp á stökkbreyttan höfuðstól verð- og gengistryggðra lána sinna geti komið til. Skoðanir voru skiptar um útfærslur en almenn sátt og skilningur var um mikilvægi frekari aðgerða. Í ljósi stærðar vandans og áhrifa á hagkerfið í heild er vandséð að stjórnvöld geti horft framhjá almennum aðgerðum til að ná sáttum í samfélaginu til endurreisnar hagkerfisins og samfélagsins í heild.

Stjórnvöld og þingflokkar eru því hvött til að skoða alvarlega og nýta þær tillögur sem hér eru kynntar á komandi þingi. Hluti umræddra atriða samstarfsins hafa þegar komið fram í nýlega kynntum aðgerðum ríkisstjórnar.

Áhersluatriði til umfjöllunar voru:

Varnarlína; til að koma í veg fyrir frekara fjárhagstjón heimilanna

Jöfnun ábyrgðar, bætt réttargæsla neytenda og endurskoðun þrotameðferðar

Hækkun höfuðstóls lána heimilanna ‐ hvað er gerlegt?

Helstu atriði vinnuhópsins, sem beint er til frekari greiningar, umræðu, og útfærslu þings og ráðuneyta:

1. Eyða lagalegri óvissu um lögmæti gengistryggðra lána sem allra fyrst og finna leiðir til almennra úrlausna sambærilegra lána, til dæmis með gerðardómi.

2. Frestun á nauðungarsölu verði heimiluð þar til lagaóvissu lána hefur verið eytt og réttarstaða neytenda / lántaka hefur verið bætt.

3. Veð takmarkist við veðandlag í lánum neytenda.

4. Hópmálsókn. Úrræðið er hluti almennra réttinda neytenda vestrænna lýðræðisríkja. Lögleiða tafarlaust og taki gildi sem allra fyrst, í síðasta lagi áður en frestur vegna nauðungarsölu rennur út.

5. Höfuðstólsleiðrétting. Nauðsynlegt er að leiðrétta þann forsendubrest sem orðið hefur hjá lántökum frá 1. janúar 2008 vegna hruns krónunnar, verðbólgu og falls bankanna. Meta skal það svigrúm, sem myndaðist við lækkun höfuðstóls lána þegar þau voru flutt frá gömlu bönkunum til þeirra nýju. Meta skal áhrif sambærilegrar leiðréttingar á Íbúðalánasjóð og lífeyrissjóðina. Jafnframt skulu metin afleidd áhrif slíkrar leiðréttingar á neyslu heimilanna, veltu fyrirtækja, atvinnuleysi, endurheimtur útlána fjármálafyrirtækja og skatttekjur. Þessari vinnu skal lokið fyrir 1. maí 2010.

6. Skýrt og fullt skattfrelsi höfuðstólsleiðréttinga.

7. Afnám lántöku
‐ stimpil og uppgreiðslugjalda.

8. Verðtrygging. Koma þarf á jafnvægi í hagkerfinu um fjárhagslega ábyrgð milli aðila, auka svigrúm og áhrif til beinnar efnahagsstjórnar og stuðla að alþjóðlega samkeppnishæfum lánskjörum. Verðtryggingin sjálf viðheldur verðbólgu, sem leiðir til mun hærri vaxta og fjármagnskostnaðar fyrir heimili, atvinnulíf og opinbera aðila, en samkeppnislönd búa við, með neikvæðum áhrifum á þróun gengis krónunnar. Verðtrygging veðskuldbindinga er ein af höfuðorsökum kerfishrunsins og afnám hennar er jafnframt eitt að lykilatriðum endurreisnar. Tryggja verður ábyrgð lánveitenda með vaxtaþaki á óverðtryggðum lánum til neytenda.

9. Þörf er á tafarlausri víðtækri endurskoðun og lagaúrbótum til að bæta réttarstöðu neytenda til jafns við það sem tíðkast á norðurlöndum og í ríkjum ESB. Auka þarf eftirlit og refsiábyrgð fyrirtækja við brotum á rétti neytenda. Gera þarf skýran mun á rétti neytenda og lögaðila í viðskiptum við fjármálafyrirtæki. Skýra þarf tilefni til forsendubrests veðsamninga hjá báðum aðilum. Tryggja þarf virkt eftirlit með virðisskráningu krafna í vanskilum og þrotaferli til Fjármálaeftirlits.

Samantekt fyrir hönd vinnuhópa allra þingflokka og Hagsmunasamtaka heimilanna

Andrea J. Ólafsdóttir, Friðrik Ó. Friðriksson og Marinó G. Njálsson ‐ Reykjavík 31. mars 2010

Þátttakendur í starfinu voru margir þingmenn Framsóknarflokks, Hreyfingarinnar, Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar - Grænt framboð, auk fulltrúa frá Hagsmunasamtökum heimilanna.  Starfið fór fram í þremur vinnuhópum, þar sem voru tveir fulltrúar frá hverjum.  Við þrjú, sem eru sett undir fréttatilkynninguna, stjórnuðum hópunum og unnum úr niðurstöðunum, sem síðan voru sendar út til hvers hóps um sig til frekari umræðu og síðar samþykktar.  Erum við mjög ánægð með viðbrögð og þátttökum allra í starfinu.  Okkur er sagt að hluti þeirra hugmynda, sem komu upp í vinnunni, hafi þegar ratað inn á borð ríkisstjórnarinnar.

Hvað framhaldið varðar, þá er það von Hagsmunasamtaka heimilanna, að hóparnir eigi eftir að hittast og ræða saman frekar.  Hver og einn er þó óbundinn af hinum að koma með sína útfærslu á einstökum atriðum og munum við hjá HH koma með okkar tillögur um lausn skuldavandans á næstu dögum.  (Við höfum verið að bíða eftir niðurstöðum grasrótarvinnunnar.)

Það er von okkar, sem stóðum að þessu, að þetta verði upphafið að einhverju meiru.  Loks vil ég sjálfur þakka Ámunda Loftssyni og Andreu J. Ólafsdóttur fyrir þrautseigju þeirra við að koma þessu grasrótarstarfi á koppinn.


Tók myndir af bakhliðum húsa!

Nágranni minn bankaði upp á hjá mér á sunnudaginn og vildi vara mig við.  Hún hafi séð torkennilegan mann á vappi milli húsa í götunni og var viðkomandi að taka ljósmyndir af bakhliðum húsanna.  Ekki var hún ánægð með þetta framferði og fór því út.  Maðurinn forðaði sér þá, en konan gafst ekki upp.  Náði hún honum við bíl hans, sem lagt var í næstu götu.  Spurði hún hann út í ástæðu þess, að hann væri að mynda bakhliðina á húsinu hennar og annarra í nágrenninu.  Svaraði hann henni á bjagaðri íslensku, en gaf enga haldgóða skýringu. Hún var ekki í vafa um ástæðuna og vildi því vara mig við.

Full ástæða er fyrir fólk að vera á varðbergi.  Ganga vel frá öllum gluggum og hurðum, ef farið er frá húsum.  Sérstaklega á jarðhæð og kjallara og þar sem hægt er að komast að gluggum og hurðum með því að príla upp á svalir eða af stigapöllum.  Þessum mönnum dugar lítil rifa til að koma kúbeini á milli.

Mér finnst það merkilegt, að ekki sé hægt að hafa hendur í hári þessara þjófaflokka, sem vaða yfir allt á skítugum skónum.  Erlendu þjófaflokkarnir ganga víst mun snyrtilegra um en þeir íslensku og ganga jafnvel frá eftir sig(!) svo fólk uppgötvar oft ekki fyrr en nokkrum dögum síðar, að óboðinn gestur hafi laumast inn.  Þýfinu er undantekningarlaust komið úr landi með gámum og þá oftar en ekki falið sem hluti búslóðar.  Það hlýtur að vera hægt að stöðva útflutning á þýfi.  Ég legg til að þegar um "vafasaman" útflutning búslóða er að ræða, þá verði fólki gert að sanna eignarhald sitt.  Eins að gámar, sem sendir eru úr landi og koma frá öðrum en viðurkenndum útflytjendum, verði kannaðir áður en útflutningur er heimilaður.  Það er ekki eins og um margar hafnir sé að ræða.  Sama þarf að gera vegna ferða drekkhlaðinna bíla með Norrænu.  Kanna verður ástæður eru fyrir því, að menn aki drekkhlöðnum bílum þar um borð.

Komist þjófagengin að því, að erfitt sé að flytja þýfið úr landi, þá fara þau annað.  Það er með öllu óþolandi, að í ekki stærra samfélagi, þá komist skipulögð þjófagengi upp með að vaða inn á heimili fólks eða fyrirtæki án þess að vörnum sé við komið.


Síðast gaus 1821

Ekki er mikið að finna um síðasta gos, en þetta er algengasti textinn:

Síðasta gos var á árunum 1821-23.  Þá brauzt þriggja klukkustunda risaflóð undan skirðjökli að norðanverðu og fyllti Markarfljótsdalinn, þannig að hvergi sást í stein milli Fljótshliðar og Eyjafjalla.

Hér er því dauðans alvara á ferð.


mbl.is Gos talið hafið í Eyjafjallajökli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við krefjumst skattfrelsis vegna leiðréttinga stökkbreyttra húsnæðisskulda

Í mínum huga er málið sáraeinfalt:  Leiðrétting stökkbreytingar á höfuðstóli lána, sem komin er til vegna forsendubrests, á að njóta 100% skattfrelsis.  Skiptir þá ekki máli hvort forsendubresturinn er vegna hærri verðbólgu eða hruns krónunnar.

Þegar ég heyrði fjármálaráðherra lýsa hugmyndum sínum s.l. miðvikudag, þá hélt ég að hann væri að tala fyrir skattfrelsi á fyrstu 10 milljónunum hjá hverjum einstaklingi og skattlagningu á því sem umfram er.  Í slíku tilfelli fengju hjón skattfrelsi á fyrstu 20 milljónum "afskriftanna".  Nei, hann var klókari en svo og boðar skatt af 50% upphæðarinnar upp að 20 milljónum hjá einstaklingum og 40 milljónum hjá hjónum.  Ég verð að viðurkenna, að ég er alveg jafn illa staddur að þurfa að greiða í 40 ár af ofteknum 20 milljónum, eins og að greiða 4,2 milljónir á þremur árum.

Fjármálaráðherra verður að átta sig á, að þessi skattlagning verður ALDREI samþykkt.  ALDREI!  Hækkun lánanna kom hvergi fram hjá fólki í formi skattaívilnana eða mjög takmarkað.  Í hækkun höfuðstóls lánanna felst tjón fyrir lántaka, eins og hús hans hafi brunnið, leiðrétting höfuðstólsins er því ígildi tryggingabóta og ekki seilist ráðherra í vasa þeirra sem fá bíl bættan eftir bílslys eða húsið bætt eftir bruna.  Lántakar lentu í hamförum af mannavöldum og vilja fá tjón sitt bætt, eins og um náttúruhamfarir hafi verið að ræða.

Rétt er að halda því til haga, að samkvæmt skjali ríkisstjórnarinnar um umfangsmiklar aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna, þá segir í 7. tölulið:

7. Skatturinn spilar með

Endurskoðaðar reglur um niðurfellingu skattkrafna:

  • Skatturinn tekur þátt í sértækri skuldaaðlögun og í frjálsri greiðsluaðlögun.

Frumvarp væntanlegt um skattlagningu niðurfellinga skulda:

  • Hóflegar skuldbreytingar skattfrjálsar.
  • Stórfelldar niðurfellingar skattlagðar.
  • Viðbót við reglur um skattlagningu vegna niðurfellinga á skuldum sem þegar eru í gildi og taka til skattalegrar meðferðar á niðurfellingu skulda samkvæmt lögum um greiðsluaðlögun.
  • Breytingar á skattalögum þar sem heimilt verður að fella niður tekjufærslu vegna hluta af eftirgjöf veðskulda einstaklinga í öðrum tilvikum og að þeirri fjárhæð sem eftir stendur verði dreift á þrjú ár.

Hér verður ekki betur séð, en að hér eigi að veita skattfrelsi af "hóflegum skuldbreytingum".  Spurningin er bara hvað telst hóflegt og ég get ekki séð að 50% af fyrstu 20 milljónunum sé eitthvað skattfrelsi.

 


mbl.is Afskriftir verða skattlagðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verið að meðhöndla einkennin ekki sjúkdóminn

Ríkisstjórnin kynnti í dag það, sem kallar er "umfangsmiklar aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna".  Ég hef á síðustu dögum fengið tvær kynningar á þessum aðgerðum, fyrst af hálfu félagsmálaráðherra á fund þverpólitísks starfshóps Alþingis um skuldavanda heimilanna og fyrirtækja og hins vegar á fundi með aðstoðarkonu félagsmálaráðherra.  Margt sem kemur fram í þessum pakka ríkisstjórnarinnar kemur ekki á óvart, þar sem er í dúr og moll við atriði sem hinn þverpólitíski stafshópur hefur lagt til.  Fyrir réttum mánuði sættist hópurinn á 24 atriði sem lögð voru fyrir félagsmálaráðherra.  Mér sýnist, sem aðgerðir ríkisstjórnarinnar taki á hátt í 17 af þessum atriðum.  Get ég ekki verið annað en sáttur við þau viðbrögð, en vil velja á athygli á því að stærstu álitamálin bíða úrlausna.

Förum fyrst yfir þau atriði sem bera hæst í aðgerðum ríkisstjórnarinnar:

1. Umboðsmaður skuldara:  Sett verður á fót ný stofnun sem á að gæta hagsmuna lántaka.  Hún á að halda utan um greiðsluaðlögunarferlið, auk þess að fylgjast með og koma með ábendingar um það sem betur má fara.

2.  Ný greiðsluaðlögunarlög þar sem fyrri lög eru sameinuð í ein og þar með verður eitt ferli fyrir bæði samningskröfur og veðkröfur.  Allar kröfur verða undir í einum samningi.  Greiðsluaðlögun getur átt sér stað í frjálsum samningi, en gangi það ekki, þá er það hlutverk umboðsmanns skuldara að fara með greiðsluaðlögunarsamning fyrir dómara.  

3.  Gert er ráð fyrir að einstaklingar sem flust hafa úr landi geta sótt um greiðsluaðlögun svo fremi sem meiri hluti skulda þeirra sé hér á landi.  Er þetta mikil réttarbót fyrir þá sem farið hafa í nám eða til starfa utan landsteinanna.

4.  Rýmkaðar eru heimildir starfandi einyrkja til að sækja um greiðsluaðlögun, en áður þurfti fólk að hafa hætt rekstri fyrir minnst þremur árum.

5.  Bjóða á upp á úrræði fyrir fólk með tvær eignir.

6.  Gert er ráð fyrir úrræðum vegna bílalána, en það hefur ekki verið útfært.

7.  Fólki verður gert kleift að búa áfram í húsnæði sem það hefur misst á nauðungarsölu.

8.  Takmarka á innheimtukostnað sem hægt er að rukka skuldara um.  Dómsmálaráðherra fær heimild til að ákveða hvað má heimta úr hendi skuldara, en lögmenn geta áfram rukkað kröfuhafann um það sem þeim finnst nauðsynlegt.

9.  Bætt er inn úrræði fyrir fólk sem lent hefur í tekjumissi.

10.  Afskrift í lok greiðslujöfnunar verður skattfrjáls.  Það á einnig við um "hóflega" afskrift.

11.  Íbúðalánasjóður fær heimild til að veita óverðtryggð lán.

12.  Móta á nýja húsnæðisstefnu og taka upp húsnæðisbætur í stað vaxtabóta og húsaleigubóta.

Ýmislegt má segja um þennan pakka.  Hér er fyrst og fremst verið að gera lagfæringar á ýmsum atriðum vegna ábendinga um að fyrra fyrirkomulag hafi ekki verið nægilega gott.  Flest atriðin eiga það sammerkt að lækna á einkenni skuldavanda heimilanna, en orsökin er látin eiga sig.  Við skulum hafa í huga, að væri höfuðstóll lána heimilanna leiðréttur í samræmi við tillögur, t.d. Hagsmunasamtaka heimilanna, þá væri lítil þörf fyrir að meðhöndla einkennin. 

Hér varð gríðarlegur forsendubrestur vegna lána heimilanna og fyrirtækja.  Afleiðing af því er að flestir lántakar þurfa að standa undir stökkbreyttri skulda- og greiðslubyrði sem leitt hefur til verulega skertrar eignastöðu eða neikvæðrar eiginfjárstöðu.  Lausn ríkisstjórnarinnar fjármálafyrirtækjanna er að svipta fólk og fyrirtæki eigum sínum.  Fyrirtækin sem voru völd að því að allt fór á hliðina (og afsprengi þeirra), sjá þá einu lausn að yfirtaka eigur lántaka.  Þau hafa ekki þá hugmyndauðgi að leiðrétta af sanngirni og réttlæti höfuðstól lánanna.  Nei, þau telja sig ekki bera neina skyldu (siðferðislega eða lagalega) til að bæta fyrir þann skaða sem þau ollu.

Af atriðunum að ofan, þá er ég nokkuð sáttur við atriði 1, 2, 3, 4, 8, 9, 10, 11 og 12.  Lítið er hægt að segja um atriði 5 og 6, en þetta með að fólk fái að búa í eign sem það er búið að missa á nauðungarsölu er í mínum huga heldur aumt.  Ekki hefði ég áhuga á að búa í húsnæði, sem búið væri að selja ofan af mér.  Nær hefði verið að leita leiða til að koma í veg fyrir nauðungarsöluna.

Ég hef í rúmlega 18 mánuði talað fyrir því að lán heimilanna væru leiðrétt.  Í tillögum mínum frá 7. október 2008 stakk ég upp á því að hverju láni fyrir sig væri skipt í gott lán og slæmt lán.  Góða lánið endurspeglaði t.d. stöðu lánsins 1. janúar 2008, en slæma lánið það sem umfram væri.  Lántaki greiddi af góða láninu, en slæma lánið væri sett á frost eða afskrifað á nokkrum árum.  Ég held ennþá að þetta sé besta lausnin.  Raunar sú eina rétta. Ef við ætlum ekki að leggja þetta samfélag alveg í rúst, þá verða að koma fljótlega tillögur sem koma í veg fyrir þá miklu eignaupptöku sem nú er í gangi.  Það er ekki nógu gott að 70 - 80 þúsund einstaklinga hafi þurft að nýta sér sértæk úrræði.  Með ekki er tekið föstum tökum á skulda- og greiðsluvanda heimilanna, þá mun þeim fjölga sem þvingað er í sértæk úrræði.


Brýnustu málin - Önnur gömul færsla sem sýnir að allt er við það sama

Hér er önnur færsla frá síðasta ári.  Þessi er frá 23. apríl 2009 og rituðu um það leiti sem gengið var til kosninga:

Nú eru þær að hellast yfir okkur kosningarnar.  Ég var að horfa á svo kallaðan borgarafund RÚV rétt áðan og sá varla nokkurn "borgara" leggja fram spurningar.  Þarna komu frambjóðendur af hinum og þessum listum flokkanna og spurðu spurninga sem áttu að láta sinn frambjóðanda líta vel út og reyndu að koma höggi á andstæðingana.  Mér fannst á þessum fundi eins og öðrum vantar skýrari svör hjá þeim sem sátu fyrir svörum, varðandi hvað væri brýnast, hvers vegna B, D, S, V og F hefðu ekki komið því þegar í kring og hvenær það yrði gert.  Í staðinn tipluðu frambjóðendur í kringum spurningarnar eins og kettir í kringum heitan graut.

Mig langar að skoða hvað mér finnast vera brýnustu verkefni næstu ríkisstjórnar.  Þau voru brýnustu verkefni núverandi ríkisstjórnar og ríkisstjórnarinnar þar á undan.  Ég geri mér engar vonir um að næstu ríkisstjórn farnist neitt betur en hinum fyrri en útiloka það ekki.

1.  Koma á fót starfhæfu bankakerfi:  Meðan fjármálakerfið virkar ekki eðlilega, þá flæðir blóðið ekki um hagkerfið.  Það er betra að ríkisstjórnin einblíni á að byggja upp einn banka og geri hann vel starfhæfan, en að reyna að byggja upp þrjá og hjakka sífellt í sama farinu.  Lausnin er að kröfuhafar gömlu bankanna taki yfir t.d. Íslandsbanka og Kaupþing, en ríkið haldi Landsbankanum.  Ríkið leggi sínum banka til þá 385 milljarða sem áttu alls að fara inn í bankana, en kröfuhafarnir sjái um að endurfjármagna bankana sem þeir fá í hendur.  Þessu þarf að ljúka innan 30 daga.

2.  Stöðva aukningu atvinnuleysis:  Það hefði átt að vera fyrsta hlutverk ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að gera allt til að aðstoða fyrirtæki við að hafa fólk í vinnu.  Í staðinn var farin sú leið að safna fólki á atvinnuleysisbætur. Þetta voru líklegast stærstu mistök þeirrar ríkisstjórnar í kjölfar bankahrunsins.  Núverandi ríkisstjórn hefur ekki boðið upp á nein úrræði.  Fyrir hvert starf sem hefur tapast, þarf að vinna upp eitt starf.  Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar skyldi ekki þennan einfalda sannleika.  Þess vegna eru hátt í 20 þúsund manns án atvinnu.  Ég hef lagt til að fyrirtækjum sé borgað fyrir að hafa fólk í vinnu í staðinn fyrir að borga fólki fyrir að hafa ekki vinnu.  Ráðast þarf í verkið strax.  Ekki eftir viku eða hálfan mánuð eða í haust.

3.  Skapa atvinnulífinu eðlilegt rekstrarumhverfi svo endurbygging þess geti hafist:  Það er atvinnulífið sem skapar störfin.  Ríkisstjórnir skapa skilyrðin.  Búið er að setja milljarða á milljarða ofan í atvinnuleysisbætur, sem hægt hefði verið að nota til að aðstoða atvinnulífið.  Fái einn ríkisbanki 385 milljarða framlag frá ríkinu, þá ætti að vera hægt að koma hjólum atvinnulífsins í gang. Kröfuhafar hinna tveggja sjá um að endurfjármagna þá og samkeppni myndi vonandi skapast.  Ráðast þarf í víðtækar breytingar á lögum. T.d. þarf að fella tímabundið niður öll launatengd gjöld.  Fyrirtæki eru að greiða hátt í 14% í mótframlag í lífeyrissjóð og tryggingargjald.  Með því að fella þessi gjöld niður í 12 mánuði má skapa skilyrði fyrir 8 - 10% fjölgun starfa og 4% hækkun launa, þar sem launakostnaður lækkar sem þessu nemur.  Síðan má endurvekja þessi gjöld á næstu 3 - 5 árum, þegar efnahagslífið hefur rétt úr kútnum.  Ég átta mig á því að sum fyrirtæki þurfa ekki á þessu að halda, en hvað með það.  Við erum að bjarga fjöldanum.

4.  Skapa heimilunum eðlileg skilyrði svo þeim hætti að blæða:  Atriði 1 og 3 hjálpa heimilunum mikið, en það þarf meira til.  Lækka þarf greiðslubyrði lána og leiðrétta höfuðstól þeirra.  Með því er komið til móts við heimilin vegna óréttlátrar hækkunar höfuðstól vegna hruns krónunnar.  Heimilin eru mörg hver komin með bakið upp við vegg.  Úrræði þessara heimila er að hætta að greiða lánin eða hætta neyslu.  Margir eiga ekki aðra úrkosti.  Við skulum hafa í huga að sífellt stærri hluti lána heimilanna eru að tapast vegna þess að þau ráða ekki við þau.  Því fyrr sem lánveitendur átta sig á því að hér er um sokkinn kostnað að ræða og fara í afskriftir, þess betra.  Talsmaður neytenda mun leggja fram tillögur á sunnudag, sem ég hvet stjórnmálamenn til að taka til alvarlegrar athugunar.  Ég hef fengið þær til umsagnar og tel þær vera raunhæfa leið út úr vandanum.  Það á svo sem líka við um tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna um setja 4% þak á verðtryggingu á ári frá 1. janúar 2008.

5.  Fara þarf í aðgerðir til að verja velferðarkerfi:  Lífeyrisþegar hafa margir farið mjög illa út úr kreppunni.  Huga þarf að stöðu þeirra.  Einnig þarf að huga að stöðu atvinnulausra, en enginn nær að framfleyta sér og fjölskyldu á atvinnuleysisbótum samhliða því að greiða af húsnæðislánum.

6.  Móta þarf framtíðarsýn fyrir Ísland:  Það er tími til kominn að stjórnvöld ákveði hvaða stefnu á að taka í nokkrum grundvallar málum. Ég gerði tillögu að eftirfarandi aðgerðahópum í færslu hér 6.11. og 24.11. og er ég eiginlega gáttaður á því að þeir hafi ekki verið settir á fót strax á fyrstu dögum eftir bankahrunið:

  1. Fjármálaumhverfi: Verkefnið að fara yfir og endurskoða allt regluumhverfi fjármálamarkaðarins.
  2. Bankahrunið og afleiðingar þess:  Verkefnið að fara yfir aðdraganda bankahrunsins svo hægt sé að læra af reynslunni og draga menn til ábyrgða.- Er í vinnslu
  3. Atvinnumál:  Verkefnið að tryggja eins hátt atvinnustig í landinu og hægt er á komandi mánuðum.
  4. Húsnæðismál:  Verkefnið að finna leiðir til að koma veltu á fasteignamarkaði aftur á stað.
  5. Skuldir heimilanna:  Verkefnið að finna leiðir til að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot heimilanna í landinu.
  6. Ímynd Íslands:  Verkefnið að endurreisa ímynd Íslands á alþjóðavettvangi.
  7. Félagslegir þættir:  Verkefnið að byggja upp félagslega innviði landsins.
  8. Ríkisfjármál: Verkefnið að móta hugmyndir um hvernig rétta má af stöðu ríkissjóðs.
  9. Peningamál: Verkefnið að fara ofan í peningamálastefnu Seðlabanka Íslands, endurskoða hana eftir þörfum og hrinda í framkvæmd breyttri stefnu með það að markmiði endurreisa traust umheimsins á Seðlabanka Íslands - Er í gangi
  10. Gengismál:  Verkefnið að skoða möguleika í gengismálum og leggja fram tillögur um framtíðartilhögun.
  11. Verðbólga og verðbætur:  Verkefnið að fara yfir fyrirkomulag þessara mála og leggja til umbætur sem gætu stuðlað að auknum stöðugleika.
  12. Framtíð Íslands - Á hverju ætlum við að lifa: Verkefnið að móta framtíðarsýn fyrir Ísland varðandi nýja atvinnuvegi.
  13. Framtíð Íslands - Hvernig þjóðfélag viljum við:  Verkefnið að móta framtíðarsýn fyrir Ísland varðandi inniviði þjóðfélagsins.

Í færslunni 24.11. bætti ég auk þess við:

Almenningur bíður eftir áætlunum frá stjórnvöldum um hvað á að gera.  Þá er ég að tala um áætlanir sem greiða úr þeim vanda sem almenningur stendur frammi fyrir. Þær tillögur sem hingað til hafa komið, hafa einblínt á að auka skuldir fólks og tryggja því atvinnuleysisbætur.  Ég get ekki séð að þetta sé það sem fólkið í landinu vill.  Ég fyrir mína parta vil sjá að tekjur mínar dugi fyrir útgjöldum.  Ég vil sjá að fyrirtækjum verði gert kleift að halda fólki í vinnu og að rekstur þeirra breytist ekki of mikið.  Ég vil sjá að rekstrargrundvöllur fyrirtækja og heimila í landinu verði styrktur, þannig að þjóðfélagið dafni en grotni ekki niður.  Ég vil sjá hið opinbera fara út í mannaflsfrek verkefni, þó svo að það kosti pening.  Ég vil sjá hið opinbera viðhalda þjónustustigi sínu, en ekki samdrátt. ... Ég hef kallað eftir því farið sé í endurreisn íslenska þjóðfélagsins, en ekki aukið á samdráttinn með niðurskurði.  Það besta sem hægt er að hugsa sér fyrir samfélagið, er að tekjur fólks aukist, að sem flestir borgi skatta, að framleiðsla aukist, að útflutningur aukist.  Þetta er grunnurinn að nýju Íslandi og þennan grunn er hægt að leggja strax.  Við þurfum öll að leggjast á árarnar svo að þetta megi verða. 

Ég skora á öll framboðin að skoða þetta mál vandlega og leggist saman á árarnar.  Ég skora á stjórnmálaflokkana að koma upp úr skotgröfunum og stofna þjóðstjórn að loknum kosningum.  Verkefnin þarf að leysa í sameiningu og fá til þess aðstoð færustu sérfræðinga.

Aðeins eitt atriði er komið eitthvað áleiðis, þ.e. að koma á starfhæfu bankakerfi, en því máli er ekki einu sinni lokið!  Allt annað eru verkefni sem ýmist er ekki byrjað á eða að lausnirnar eru ófullnægjandi.

 


Aðgerðir fyrir heimilin - endurbirt rúmlega árs gömul færsla

Mig langar að endurbirta hluta færslu frá 2. febrúar 2009 til að sýna að í reynd hefur sáralítið breyst á þessum rúmum 13 mánuðum:

Ég vil byrja á því að fagna þeim ásetningi hinnar nýju ríkisstjórnar að stoppa nauðungarsölur á íbúðarhúsnæði næstu 6 mánuði.  Þetta er mikilvægt skref til að koma í veg fyrir að fjölskyldur verði sendar út á Guð og gaddinn.

Í mínum huga eru nokkur verkefni ákaflega brýn:

  1. Að ráðast strax að hinu vaxandi atvinnuleysi.  Ég hef sagt að það sé betra að borga fyrirtækjum fyrir að hafa fólk í vinnu, en að borga fólki bætur fyrir að hafa ekki vinnu.  Fjölmörg fyrirtæki eru að líða fyrir það núna, að heimilin og fyrirtæki eru að skera niður útgjöld.  Þjónusta þessara fyrirtækja er mikilvæg fyrir samfélagið, þó svo að einhverjir geti verið án hennar.  Má þar nefna alls konar tómstundastarfsemi og útgáfufélög.
  2. Afnema þarf verðtrygginguna.  Í mínum huga eru tvær ástæður fyrir því.  Fyrst er að verðbætur hafa samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum verði ofmetnar um áraraðir og því erum við að greiða hærri verðbætur á verðtryggð lán en við ættum í raun og veru að hafa gert.  Síðari ástæða er sú sem Gunnar Tómasson lýsti í Silfri-Egils í gær.  Verðtrygging er skuldaaukning án verðmætaaukningar.  Í nærri 20% verðbólgu hefur sú upphæð sem heimilin þurfa að greiða af lánum sínum aukist um ríflega 200 milljarða, en á sama tíma er mikil samdráttur á þjóðarframleiðslu og tekjum.  Það getur einfaldlega ekki staðist að lánakerfið getið tekið þessa 200 milljarða til sín.  Ég hef sett fram svipaða hugmynd og Gunnar nefndi í gær, þ.e. setja hluta af höfuðstól lánanna í afskriftarsjóð, sem annað hvort yrði greitt af eftir sérstökum reglum eða afskrifað á löngum tíma (sjá Tillögur talsmanns neytenda frá 9. október!).  Málið er að núna er tækifæri til að afnema verðtrygginga.  Verðbólgan er á hraðri niðurleið og verður (vonandi) komin niður fyrir 5% við árslok.  Ég hef áður lagt til að byrjað verði á því að setja þak á verðbætur (og vexti líka).  Aðrir hafa gengið lengra og hreinlega lagt til að verðtryggingin verði aftengd strax og þær verðbætur sem ættu að leggjast á lán annað hvort falli niður eða leggist í afskriftarsjóð.  Hvor leiðin sem farin er, þá væri hægt að afnema verðtrygginguna alveg á 2-3 árum.
  3. Bregðast við hækkun höfuðstóls og greiðslubyrði.  Búin hefur verið til greiðslujöfnunarvísitala vegna verðtryggðra lána.  Hún dregur tímabundið úr greiðslubyrði, en frestar bara vandanum.  Sama á við, ef útbúið verður einhvers konar greiðslujöfnunargengi.  Eins og ég bendi á að ofan, þá stendur engin verðmætaaukning að baki hækkunar höfuðstóls lánanna.  Það er því vonlaust að fólk geti nokkru sinni unnið upp hækkunina, án þess að meiri verðbólga verði sem hækkar þá höfuðstólinn enn frekar.  Mér finnst mikilvægt að skoða hvaða skuldbindingar liggja að baki lánunum hjá lánastofnunum.  Við skulum hafa í huga að búið er að leggja háar upphæðir af almannafé í að bjarga ríkisbönkunum.  Mér finnst bara allt í lagi að almenningur njóti þess með niðurfærslu höfuðstóls lánanna.  Ég legg til að höfuðstóll lánanna verði miðaður við gengi og vísitölu 1. mars 2008.
  4. Gæta þarf að því, að hluti íbúðalána fólks er hjá öðrum en ríkisbönkunum þremur eða Íbúðalánasjóði.  Mér finnst það oft gleymast.  Það hefur ekkert verið gert út af þeim lánum.  Allt er miðað við þríburana eins og ekkert annað sé til.
  5. Jafnræði þarf að vera á milli aðgerða.  Búið er að leggja tugi, ef ekki hundruð, milljarða í að bjarga sparifé hluta landsmanna.  Af hverju eitt sparnaðarform er varið með sértækum aðgerðum á kostnað allra landsmanna, en það er talið í lagi að aðrir beri tap sitt.  Hér þarf að hugsa málið betur.  Það gengur ekki að almennir hlutafjáreigendur eigi að bera allt sitt tjón óbætt, meðan sá sem lagði peninginn inn á sparireikning fær sitt bætt.  Á þeim tíma sem fólk keypti þessi hlutabréf, þá voru þau jafn örugg sparnaðarleið og innistæðureikningar.  Það er því út í hött að öðrum eigi að bjarga en ekki hinum.  Sama gildir um þá sem lögðu sparnað sinn í steinsteypu.  Ég geri mér grein fyrir að verðmæti húsnæðis sveiflast, en hér erum við að tala um hrun á eigin fé, sem sambærilegt tap sem hefði orðið á innlánsreikningum, ef ríkið hefði ekki komið til bjargar.  Ég fæ ekki betur séð, en að hér sé verið að fara á skjön við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.  Ég verð að viðurkenna, að ég skil ekki af hverju sumir eiga að tapa milljónum, ef ekki milljóna tugum, að sparnaði sínum af því að þeir völdu að hafa hann ekki á innlánsreikningum.
Mér líst mjög vel á það að slá eigi skjaldborg um heimilin, en það verður ekki gert nema gripið verði til alvöru aðgerða.  Ég býð spenntur.

Það er ótrúlegt hvað allt það sem ég skrifaði um í byrjun febrúar í fyrra á ennþá við í dag.


Sannleikurinn er sagna bestur!

Ég verð að leyfa mér að efast um sannleiksgildi svars Arion banka.  Enginn banki hefur veitt meiri upplýsingar um stöðu lánasafna sinna og jafnframt hve mikið hefur verið fært á afskriftarreikning og Kaupþing.  Þessar upplýsingar er að finna í skýrslu til kröfuhafa (Creditors Report), sem Ólafur Garðarsson, skiptastjóri Kaupþings, hefur gefið reglulega út frá febrúar í fyrra.  Þar er því að finna marg fróðlegt.

Í fyrstu skýrslu til kröfuhafa kom fram að lánasöfn að verðmæti 1.410 milljarðar króna hafi verið færð yfir til Nýja Kaupþings.  Síðan kemur fram að 954 milljarðar hafi verið færið á afskriftarreikning (Impairment on loans to customers), þannig að bókfært verðmæti sé aðeins 456 milljarðar króna.  Þessi afskrift tengist eingöngu þeim lánum sem flytjast til Nýja Kaupþings nú Arion banki, en lán til viðskiptavina, sem urðu eftir í gamla bankanum voru að verðmæti 962 milljarðar króna, en sannvirði talið 250 milljarðar króna.  Þessi lán eru til viðskiptavina í Bretlandi (661 milljarður króna), á Norðurlöndum (123 milljarðar króna), í Lúxemborg (83 milljarðar króna) og annars staðar (96 milljarðar króna).  Jafnframt kemur fram að lán til einstaklinga námu 52 milljarðar kr., til eignarhaldsfélaga var lánað 318 milljarðar króna, "industry" fengu 187 milljarða króna að láni, fasteignafyrirtæki 158 milljarða króna, þjónustufyrirtæki 136 milljarða króna og "trade" 112 milljarða króna.

Í nýjustu skýrslunni koma fram frekari upplýsingar um skiptingu lánanna.  Þar segir meðal annars að verðmæti lána sem flutt voru til Arion banka séu skráð á "transfer price", þ.e. á því mati sem notað var við flutning lánanna til Arion banka.  Einnig er tekið fram, að lán undir 2 milljörðum eru metin samkvæmt flokkun og margfeldi á tilteknu bili (e. "valued based on categorisation and multiples at certain intervals").  Þetta er mikilvægt, þar sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gaf upp í októberskýrslu sinni að heildareignir Nýja Kaupþings voru 624 milljarðar kr. miðað við stöðu 31.12.2008 (töflur á bls. 19 og 46).  Í nýjustu skýrslu til kröfuhafa er tekið fram að þessar eignir hafi eitthvað lækkað, þar sem einhverjar eignir voru færðar til baka. 

En snúum okkur aftur að skýrslu AGS.  Á bls. 21 eru birt tvö gröf með súluritum.  Annað grafið er með upplýsingar um skuldir heimilanna að brúttó virði og sannvirði.  Lesa má það út úr súluritunum að brúttó virði skulda heimilanna sem fluttar voru yfir í Arion banka hafi verði um 280 milljarðar kr. en sannvirði um 155 milljarðar kr.  Hitt grafið er með upplýsingar um skuldir fyrirtækja og fyrir Arion banka eru þær tölur 930 milljarðar kr. brúttó en 310 milljarðar að sannvirði.  Höfum í huga að þessi lán eru, samkvæmt skýrslu til kröfuhafa Kaupþings, bókfærð á "transfer price".  Við höfum því að verðmæti lánasafna heimilanna hjá Arion banka er því 55% af því sem þau voru í hjá Kaupþingi.  Og nú langar mig að vitna í skýrslu AGS, þar sem sjóðurinn er að skýra hvernig nota má þennan mismun:

The authorities acknowledged the importance of safeguarding credit discipline and of distinguishing between viable debtors (who can be rehabilitated) and non-viable debtors (whose rapid exit should be arranged through credible and efficient liquidation and bankruptcy procedures). For these reasons, they have rejected calls for across-the-board debt relief. The authorities recognized that there would be no room for further fiscal assistance. However, they noted that the compensation agreement between the new and old banks will provide the new banks with a margin to fund restructuring: the difference between the face value and new book value of their loans (text figure). This would be used judiciously, with representatives of old banks monitoring the process.

Þarna er sem sagt viðurkennt að nýju bankarnir hafi svigrúm til að fjármagn endurskoðun skulda.  Hjá Arion banka er þetta svigrúm vegna lána heimilanna sagt vera 125 milljarðar kr. eða 45% af brúttó virði lánanna.   Það er gjörsamlega útilokað að Arion banki hafi þegar nýtt þetta svigrúm, eins og segir í tilkynningu bankans.  Að halda því fram, eins og kom fram í einhverri frétt, að afskriftir eignarhaldsfélaganna sé að koma í veg fyrir frekari leiðréttingu lána heimilanna, er aum skýring.  Í fyrsta lagi, þá eru skuldir heimilanna óháðar skuldum eignarhaldsfélaganna.  Í öðru lagi, þá hef ítrekað verði hamrað á því að ekki megi nota svigrúm frá einum hópi lántaka til að nýta til afskrifta hjá öðrum.  Og í þriðja lagi, þá urðu skuldir eignarhaldsfélaga að mestu eftir í Kaupþingi.

Ég hef áður sýnt fram á, að þó svo að gengistryggð lán heimilanna séu færð niður um 50% og verðtryggð og óverðtryggð lán um 20%, þá er ennþá eftir svigrúm hjá Arion banka upp á yfir 40 milljarða kr. til að mæta öðrum töpuðum útlánum og hærri fjármögnunarkostnað af þeim 155 milljörðum sem teljast sannvirði lána.  Tilkynning Arion banka gerir ekkert til að hrekja þá staðhæfingu eða sanna hið gagnstæða.  Hún er bara fullyrðing án nokkurs sönnunargildis.  Vil ég því skora á forráðamenn Arion banka, líkt og ég skoraði á forráðamenn Íslandsbanka, að sanna þá staðhæfingu sína að svigrúmið sé að fullu nýtt.  Ég verð að viðurkenna að það gengur ekki upp í mínum huga.

Svona til frekari upplýsinga, þá hefur Arion banki kynnt að um 10.500 viðskiptavinir hafi þegið greiðsluaðlögun verðtryggðra lána.  Sú aðgerð hefur engin áhrif á "svigrúmið".  Um 2.000 til viðbótar hafa þegið önnur úrræði, þar af um helmingur greiðslujöfnun gengistryggðra lána.  Af þessum 2.000 var frekar fámennur hópur með háar skuldir og meðal "afskrift" var vel innan við 10 m.kr. eða vel innan við 20 milljarðar kr. alls.  Þá eru a.m.k. 105 milljarðar kr. eftir af "svigrúminu" samkvæmt mínum útreikningum.  Nú bíð ég bara eftir nánari útreikningum frá Arion banka og Íslandsbanka sem sanna staðhæfingar þeirra.


mbl.is Gerðu ráð fyrir útlánatapi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég skora á Íslandsbanka að sanna orð bankastjórans

Þau eru áhugaverð ummæli Birnu Einarsdóttur, bankastjóra Íslandsbanka, að bankinn "sé nú þegar að nýta það svigrúm sem hann hefur til afskrifta, bæði gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum."  Skora ég á bankann að sýna fram á hvernig bankinn er að nýta þetta svigrúm.  Samkvæmt októberskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins voru lánasöfn heimilanna færð frá Glitni til Íslandsbanka með 44% afslætti eða úr um 290 milljörðum króna niður í um 160 milljarða króna.  Mismunurinn er því 130 milljarðar króna.  Þau úrræði sem Íslandsbanki býður upp á til einstaklinga/heimilanna heggur lítið í þessa upphæð.

Hæsta almenna leiðrétting/lækkun, sem bankinn býður upp á, er samkvæmt núverandi gengi rétt rúmlega 30%.  Fæst hún með því að breyta gengistryggðu láni með jena viðmið í óverðtryggt lán án slíks viðmiðs.  Bankinn miðar "leiðréttingu" sína við gengi 29. september 2008, en þann dag var gengi jensins 0,944 kr. en í dag er gengið 1,383 kr. (miðað við miðgengi þessara tveggja daga samkvæmt upplýsingum á vef Íslandsbanka/Glitnis).  Sé miðað við lán tryggt við svissneska franka, þá er hlutfallsleg lækkun rétt rúm 20%.  En lækkun höfuðstólsins segir ekki allt.  Ef lántaki kýs að nýta sér höfuðstólslækkunina, þá breytast vextirnir frá því að vera LIBOR vexti (sem núna standa í um 0,25% á hvorri mynt um sig) með álagi (2,9% samkvæmt upplýsingum frá bankanum í haust) yfir í fasta eða breytilega vexti (nú 6%, en voru fyrst 7,5%). 

Að halda því fram, að hér sé bankinn að nýta svigrúm sitt er harla einkennileg stærðfræði, svo ekki sé meira sagt.  Ég hef átt í samskiptum við upplýsingafulltrúa bankans út af þessari framsetningu bankans á upplýsingum, auk þess sem mér var boðið á fund með Birnu Einarsdóttur í september.  Bankinn lagði fram útreikninga sem áttu að sýna hve mikið bankinn var að koma til móts við lántaka.  Því miður reyndust þessir útreikningar ekki bakka þá staðhæfingu bankans uppi.  Tekið var dæmi um 20 milljón kr. gengistryggt lán, sem fært var niður um 25% í 15 milljóna krónu óverðtryggt lán.  Útreikningar bankans sýndu að á þriggja ára tímabili námu heildargreiðslur af hvoru láni um sig (þ.e. óbreyttu láni og síðan óverðtryggðu láni) um 3 milljónum króna.  Greiðslubyrðin af óverðtryggðu láni var um 60.000 kr. lægri eða innan við 2.000 kr. á mánuði.  Það sem meira var, að höfuðstólsafborgun af óverðtryggða láninu nam rúmlega 340 þúsund kr., en 1.700 þúsund kr. af gengistryggða láninu!  Mismunurinn er hærri vaxtagreiðsla af óverðtryggða láninu.

Þetta dæmi, sem ég fékk að skoða hjá Íslandsbanka í september, endurspeglar kannski ekki nákvæmlega það úrræði, sem Íslandsbanki býður upp á, þar sem útfærslunni var eitthvað breytt.  Það er aftur nokkuð fært í stílinn hjá Birnu Einarsdóttur og hreint og beint ósanngjarnt gagnvart lántökum, að halda því fram að með þessu úrræði sé verið að nýta "svigrúmið".  Í fyrsta lagi, þá er "svigrúmið" mjög breytilegt fyrirbrigði.  Þannig minnkar það, ef gengið styrkist og stækkar ef gengið veikist, meðan lánið er gengistryggt.  Í öðru lagi, komst héraðsdómur að því í febrúar að gengistrygging væri óheimil samkvæmt lögum nr. 38/2001 og framkvæmdastjóri Sambands banka og verðbréfafyrirtækja (forveri Samtaka fjármálafyrirtækja) viðurkennir í umsögn samtakanna frá 2001 um frumvarp að lögunum að svo sé.  Staðfesti Hæstiréttur dóm héraðsdóms, þá verður Íslandsbanki að færa niður höfuðstól gengistryggðra lána langt umfram það sem bankinn er að bjóða núna.  Í þriðja lagi, getur bankinn varla talist vera að nýta "svigrúmið", ef hann er bara að núvirða greiðsluflæði sitt, eins og reyndin er með þessa reiknikúnst sem felst í því að breyta gengistryggðu láni með LIBOR vexti í 20- 30% lægra óverðtryggt lán á 6 - 7% vöxtum.  Það eina sem bankinn er að gera, er að færa innflæði peninga á milli reikninga í bókhaldi.  Í fjórða lagi, þá er "afslátturinn" sem bankinn veitir langt frá því að nýta það "svigrúm" sem myndaðist við færslu lánasafnanna frá Glitni til Íslandsbanka.  Þó svo að öll gengistryggð lán heimilanna hjá bankanum væru færð niður um 50% og verðtryggð um 20%, þá væri bankinn líklegast ekki að nýta nema 2/3 af svigrúminu (ef hægt er að taka mark á upplýsingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins).  Þá er eftir 1/3 sem hægt er að nota til að mæta hærri fjármögnunarkostnaði og afskriftum umfram 50 prósentin annars vegar og 20 prósentin hins vegar. Í fimmta lagi, þá er bankinn að fastsetja tap lántaka með því að breyta hinum ólöglegu gengistryggðu lánum yfir í óverðtryggð lán á tíma þegar gengið er mjög óhagstætt án nokkurra ákvæða um að lántakinn njóti styrkingar krónunnar.

Ég hef fulla trú á því að Íslandsbanki, líkt og fleiri fjármálastofnanir, hafa mun meira svigrúm til leiðréttinga á höfuðstóli lána, en bankastjórinn vill láta í veðri vaka.  Raunar held ég að bankinn sé undir það búinn, að dómstólar dæmi lántökum í hag bæði hvað varðar gengistryggingu og forsendubrest.  Annað væri óábyrgt af hálfu bankanna.  Bankarnir standa frammi fyrir mikilli lagalegri óvissu sem getur haft veruleg áhrif á verðmæti lánasafna þeirra.  Hafi þeir ekki gert ráð fyrir því, að dómstólar gætu dæmt þeim í óhag, þá hafa menn einfaldlega ekki unnið heimavinnu sína.  Það er ekki hægt að vera með hræðsluáróður, eins og Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, hefur haft uppi um að bankarnir fari á hausinn, ef lántakar reynast með réttinn sín megin.  Leiði slíkt til fall bankanna, þá þýðir það bara að menn hafa ekki gert ráð fyrir að dómar féllu þeim í óhag.  Hversu fjarlægur möguleiki sem slíkt er í hugum bankamanna, þá væri það óafsakanlegt kæruleysi að gera ekki ráð fyrir því.  Raunar er bönkum gert skylt í a.m.k. tvennum reglum að vera með stjórnkerfi rekstrarsamfellu.  Slíkt stjórnkerfi væri ekki rétt innleitt, nema gert væri ráð fyrir því að dómar í mikilvægum málum féllu bönkunum í óhag.  Ég segi þetta, þar sem ég hef atvinnu af því að veita ráðgjöf um uppbyggingu stjórnkerfis rekstrarsamfellu og veit því hvaða kröfur eru gerðar til slíkra kerfa og hvaða kröfur eru gerðar til fjármálafyrirtækja um tilvist slíkra kerfa.  Annars ættu öll fyrirtæki, sem taka rekstur sinn alvarlega, að vera með innleitt stjórnkerfi rekstrarsamfellu.


mbl.is Birna: Erum að nota svigrúmið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjármálafyrirtæki vissu árið 2001 að gengistrygging lána var óheimil

Hin grimmi slagur sem fjármögnunarleigur eru í við viðskiptavini sína er með ólíkindum.  Það er ekki bara að þau beiti lántaka miklum órétti við uppgjör á vörslusviptum bílum og bílum sem hefur verið skilað inn, heldur virðast þau þverbrjóta þær heimildir sem þau hafa til starfrækslu fyrirtækjanna.  Má þar t.d. benda á nýlegt flopp hins nýskipaða slitastjóra VBS í svari við kvörtun viðskiptavinar Avants til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki.

En það vellur sífellt meiri skítur undan teppum fjármálafyrirtækjanna.  Nýjasta tilfellið er umsögn Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja (SBV, undanfari Samtaka fjármálafyrirtækja) frá 24. apríl 2001 um frumvarp til laga um vexti og verðtryggingu.  Þetta frumvarp varð síðan að lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur.  Í umsögninni segir:

Til viðbótar við framangreind atriði telja umsagnaraðilar nauðsynlegt að gera athugasemdir við ákvæði 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins, sem gerir ráð fyrir að verðtrygging sparifjár og lánsfjár skuli miðast við vísitölu neysluverðs.  Í 2. mgr. 14. gr. er síðan tekið fram að þó sé heimilt að miða við hlutabréfavísitölu, eða safn slíkra vísitalna, þegar um lánasamninga er að ræða.  Ekki verður séð hvaða rök eru fyrir því að takmarka verðtrygginguna við við þessar vísitölur.  Það gengur gegn almennu samningsfrelsi, enda getur verið fullkomlega eðlilegt að viðsemjendur fái að nota aðrar viðmiðanir sem þeir koma sér saman um.  Til að skýra þetta betur má benda á að eins og lögin eru í dag (og verða að óbreyttu frumvarpi) er óheimilt að tengja lánssamninga í íslenskum krónum við erlenda mynt, t.d. danskar krónur.  Hins vegar er ekkert sem bannar að lána beint í erlendu myntinni.  Slík lög leiða eðlilega til þess að menn velja síðari leiðina, ef þeir sjá sér hag í því, enda skiptir lántakandinn erlendu myntinni í íslenskar krónur við móttöku lánsfjár.  Þá ýtir það undir að aðilar fari aðrar og mun áhættusamari leiðir, t.d. með því að gera afleiðusamninga sín á milli fremur en almennan lánssamning, en afleiður eru undanþegnar verðtryggingu sbr. 2. mgr. 13. gr frumvarpsins.  Tenging við vísitölur eða sérstakar viðmiðanir er eðlilegur hluti af áhættustýringu á fjármálamarkaði í dag.  Óeðlilegt er að opinber fyrirmæli hindri þann þátt starfseminnar.  Brýnna er að opinbert eftirlit vinni í samvinnu við markaðsfyrirtækin að því að tryggja að skilmálar í slíkum samningum séu skýrir og valdi engum vafa um túlkun síðar.

Þessi hluti umsagnarinnar er alveg ótrúlegur.  Tekið skal fram að hún er undirrituð af Guðjóni Rúnarssyni, framkvæmdastjóra SBV, en hann er núverandi framkvæmdastjóri SFF.

Skoðum nokkur atriði nánar:

Til að skýra þetta betur má benda á að eins og lögin eru í dag (og verða að óbreyttu frumvarpi) er óheimilt að tengja lánssamninga í íslenskum krónum við erlenda mynt, t.d. danskar krónur.

Þarna er það alveg kýr skýrt að fjármálafyrirtækin vissu að gengistrygging lánasamninga var og er ólögleg!  Samt ákvað stórhluti fjármálafyrirtækja að bjóða upp á afurð, sem framkvæmdastjóri samtaka þeirra hafi viðurkennt í umsögn til Alþingis að væri ólögleg.  Það hlýtur að vera sársaukafullt fyrir lögmenn, sem hafa verið að verja þessa fjármálagjörninga, að sjá þessa umsögn SBV.

Og það er haldið áfram:

Hins vegar er ekkert sem bannar að lána beint í erlendu myntinni.  Slík lög leiða eðlilega til þess að menn velja síðari leiðina, ef þeir sjá sér hag í því, enda skiptir lántakandinn erlendu myntinni í íslenskar krónur við móttöku lánsfjár.

Hér er stóra málið, að lántakar fengu aldrei erlenda mynt í hendur til að skipta yfir í íslenskar krónur.  Fólk sótti um í íslenskum krónum, t.d. kr. 10 milljónir, og fékk þá upphæð að frádregnum lántökukostnaði.  Lántakar voru ekki einu sinni rukkaðir um þóknun fyrir að "skipta" úr erlendu myntinni yfir í íslenskar krónur, eins og gert er í gjaldeyrisviðskiptum.  Það fóru því aldrei nein gjaldeyrisviðskipti fram.

Þá er það ábending um það hvernig hægt væri að fara framhjá ákvæðum laganna:

Þá ýtir það undir að aðilar fari aðrar og mun áhættusamari leiðir, t.d. með því að gera afleiðusamninga sín á milli fremur en almennan lánssamning, en afleiður eru undanþegnar verðtryggingu sbr. 2. mgr. 13. gr frumvarpsins.

Nú klikkuðu mörg fjármálafyrirtæki illilega, þar sem starfsleyfi þeirra takmörkuðu heimildir þeirra til að eiga viðskipti með óskráða afleiðusamninga við viðskipti við fagfjárfesta.  Afleiðusamninga er ekki hægt að nota sem lánasamninga á neytendamarkaði.

Ég ætla ekki að fara dýpra ofan í þessa umsögn SBV.  Hún segir allt sem segja þarf:

Fjármálafyrirtæki vissu árið 2001 að gengistrygging lána var óheimil.


mbl.is Mótmæla innheimtuaðferðum fjármögnunarfyrirtækja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband