Leita í fréttum mbl.is

Við krefjumst skattfrelsis vegna leiðréttinga stökkbreyttra húsnæðisskulda

Í mínum huga er málið sáraeinfalt:  Leiðrétting stökkbreytingar á höfuðstóli lána, sem komin er til vegna forsendubrests, á að njóta 100% skattfrelsis.  Skiptir þá ekki máli hvort forsendubresturinn er vegna hærri verðbólgu eða hruns krónunnar.

Þegar ég heyrði fjármálaráðherra lýsa hugmyndum sínum s.l. miðvikudag, þá hélt ég að hann væri að tala fyrir skattfrelsi á fyrstu 10 milljónunum hjá hverjum einstaklingi og skattlagningu á því sem umfram er.  Í slíku tilfelli fengju hjón skattfrelsi á fyrstu 20 milljónum "afskriftanna".  Nei, hann var klókari en svo og boðar skatt af 50% upphæðarinnar upp að 20 milljónum hjá einstaklingum og 40 milljónum hjá hjónum.  Ég verð að viðurkenna, að ég er alveg jafn illa staddur að þurfa að greiða í 40 ár af ofteknum 20 milljónum, eins og að greiða 4,2 milljónir á þremur árum.

Fjármálaráðherra verður að átta sig á, að þessi skattlagning verður ALDREI samþykkt.  ALDREI!  Hækkun lánanna kom hvergi fram hjá fólki í formi skattaívilnana eða mjög takmarkað.  Í hækkun höfuðstóls lánanna felst tjón fyrir lántaka, eins og hús hans hafi brunnið, leiðrétting höfuðstólsins er því ígildi tryggingabóta og ekki seilist ráðherra í vasa þeirra sem fá bíl bættan eftir bílslys eða húsið bætt eftir bruna.  Lántakar lentu í hamförum af mannavöldum og vilja fá tjón sitt bætt, eins og um náttúruhamfarir hafi verið að ræða.

Rétt er að halda því til haga, að samkvæmt skjali ríkisstjórnarinnar um umfangsmiklar aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna, þá segir í 7. tölulið:

7. Skatturinn spilar með

Endurskoðaðar reglur um niðurfellingu skattkrafna:

  • Skatturinn tekur þátt í sértækri skuldaaðlögun og í frjálsri greiðsluaðlögun.

Frumvarp væntanlegt um skattlagningu niðurfellinga skulda:

  • Hóflegar skuldbreytingar skattfrjálsar.
  • Stórfelldar niðurfellingar skattlagðar.
  • Viðbót við reglur um skattlagningu vegna niðurfellinga á skuldum sem þegar eru í gildi og taka til skattalegrar meðferðar á niðurfellingu skulda samkvæmt lögum um greiðsluaðlögun.
  • Breytingar á skattalögum þar sem heimilt verður að fella niður tekjufærslu vegna hluta af eftirgjöf veðskulda einstaklinga í öðrum tilvikum og að þeirri fjárhæð sem eftir stendur verði dreift á þrjú ár.

Hér verður ekki betur séð, en að hér eigi að veita skattfrelsi af "hóflegum skuldbreytingum".  Spurningin er bara hvað telst hóflegt og ég get ekki séð að 50% af fyrstu 20 milljónunum sé eitthvað skattfrelsi.

 


mbl.is Afskriftir verða skattlagðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nú er mann nóg boðið. Er engin endi á þessu rugli. Skera lántaka niður úr ósanngjarnri skuldhengingaról til að hengja hann aftur í skattahengingaról. Steingrímur og félagar eru bara ekki á sömu blaðsíðu og þjóðin.

Þetta verður borðliggjandi fyrir þann sem stendur frammi fyrir þeim valkosti að semja um 110% leiðina og afskriftir eða gjaldþrot. Gjaldþrotaleiðin verður girnilegri fyrir vikið. Kannski er það sem þessi ríkisstjórn stefnir að. Láta sem flesta fara í þrot þannig að ríkið þurfi ekki að koma með neinar óþægilegar aðgerðir sem pirra AGS eða fjármagnseigendur

Sigurður Sigurðsson (IP-tala skráð) 19.3.2010 kl. 11:37

2 Smámynd: Maelstrom

Þessir menn eru bara algerir fávitar og svo vanhæfir í störfum sínum að það grætir mann.  Steingrímur Skattmann Sigfússon þarf að taka sér 2 vikna frí frá Icesave.  Hann er greinilega svo ósofinn að hann er búinn að missa allt skynbragð á veruleikann.

Þetta er fyrsta skrefið í nýrri tegund af skattlagningu:  Skattleggja tap.  Ef lánveitandi rukkar þig of mikið en er tilbúinn að leiðrétta oftökuna þá borgar þú skatt. 

Hvað um svona dæmi:  Þú ferð í vanskil á húsnæðisláninu þínu og lánið er sent í innheimtu.  20.000 kr. vanskilin þín blása upp í 300.000 kr skuld með lögfræðikostnaði og öðru rugli.  Þú semur við lánveitandann að borga höfuðstól, vexti og dráttarvexti.  Skatturinn þarf samt að fá sitt þannig að kannski 270.000 krónu "afskrift" á lögfræðikostnaði er skattlagður sem tekjur!  Jesús, Jósef og María!!! Hvar eruð þið nú?

Næsta skref er ruglfréttin um skattsvik "bankanna".  127 milljarða skattstofn sem eftir átti að skattleggja vegna sölu á hlutabréfum.  Það á bara eftir að draga frá kaupverðið!!!  Hvað ef kaupverð bréfanna var hærra en söluverð?  Á ekki að skattleggja það líka skv. þessari nýju stefnu?

Athugasemd skattsins um "ráðgjafaþjónustu" sína er síðan kornið sem fyllir mælinn!!  Hvað er að þessu liði?  Stærsta fjármálafyrirtæki landsins sendir inn fyrirspurn til Skattsins og biður um leiðbeiningar um hvernig eigi að skattleggja eitthvað sem veltir tugum milljarða á ári og svarið er:  "Við erum ekki skattaráðgjafar.  Við svörum ekki einu sinni svona spurningum".  Ef þetta lið verður ekki flutt til í starfi og sett í að sópa sandi á hálendi Íslands þá geri ég uppreisn.  Þetta er vanhæfni og hroki af svo stjarnfræðilegri stærðargráðu að það er erfitt að lýsa því.

Maelstrom, 19.3.2010 kl. 13:06

3 Smámynd: Kristján H Theódórsson

Þessar hugmyndir þarf að kæfa í fæðingu. Þvílík endemis rugl í þessari vesalings stjórn. Ef þeir fá samþykkt lög sem kveða á um skattskyldu á vandræði fólks, þá er ekki nema um eitt að gera . Efna til áhlaups á þinghúsið og stjórnarráðið og henda þessu hyski út!

Kristján H Theódórsson, 19.3.2010 kl. 15:31

4 identicon

Hvað ef hæstiréttur úrskurðar um að gengistryggðu lánin séu ólögmæt?
Mun það breyta einhverju eða verður leiðréttingin skattlögð líka?

Þetta er svo mikið ótrúlegt bull að manni langar helst að berja hausnum í vegg.  Ég trúi ekki að mönnum sé að detta í hug að skattleggja tap einstaklinga, fé sem fólk hefur aldrei séð og mun aldrei sjá.

Eins og Maelstrom bendir á hér fyrir ofan þá mætti alveg eins krefja fólk sem fær niðurfelldann kostnað vegna innheimtuaðgerða um skatt af niðurfellingunni.  

Þvílík ótrúleg vitleysa. 

Best væri ef þessi skattasjúka og gagnslausa ríkisstjórn færi að hundskast frá völdum og hleypa hér að fólki sem hefur áhuga á UPPBYGGINGU í stað niðurrifs.

Hrafna (IP-tala skráð) 19.3.2010 kl. 17:58

5 identicon

Nú þurfa menn að staldra við. Sérstaklega þeir sem taka að sér að tala máli almennings.

Í fyrsta lagi eru afskriftir sem til koma vegna greiðsluaðlögunar eða þannig að ljóst er að ekki séu eignir að baki ekki skattskyldar og hafa ekki verið frá því í júní 2009.

Hins vegar hafa afskriftir ALLTAF verið skattskyldar, en nú verður breyting þar á og sú skattheimta takmörkuð.

Þetta veit síðuhöfundur auðvitað, eða ætti amk að vita

Anna Sigrún Baldursdóttir (IP-tala skráð) 19.3.2010 kl. 18:45

6 identicon

Anna Sigrún þetta eru ekki afskriftir heldur leiðréttingar. Það er ekki verið að afskrifa höfuðstól heldur er verið að leiðrétta óréttlæti sem lántakar hafa orðið fyrir. Þetta er svipað því að vera rændur en svo ljónheppin að löggan gómaði þjófinn. En löggan vill að þú greiðir þeim 40% af verðmætinu afþví að þú hefur hag af því að fá eign þína aftur. Það eru bara þeir sem lærðu í Austur þýskalandi sem hugsa svona

Sigurður Sigurðsson (IP-tala skráð) 19.3.2010 kl. 21:16

7 Smámynd: Moldríkur

Það má ekki gleypa þessa frétt hráa, hún segir ekki alla söguna.  Mér skilst að allar afskriftir hafi hingað til verið skattskyldar að fullu sem tekjur.  Ég er ekki í neinum vafa um að skattayfirvöld líta á þessar leiðréttingar sem lækkun höfuðstóls eins og lög eru núna.  Ríkisstjórnin er að leggja til minnka skattinn á fyrstu 20Mkr, en bara að hálfu, þó með einhverju ótilgreindum skattleysismörkum.  Ég er hins vegar sammála Marinó um að leiðrétting stökkbreyttra lána á íbúð & bíl ætti að vera 100% skattfrjáls.  Það er enginn að fá tekjur í búið, þótt lán hans sé lækkað í 110% af verði eignar.   Það virðist hins vegar henta mbl.is að gera sem minnst úr því að um skattalækkun er að ræða.  Hví skyldi það nú vera ?

Moldríkur, 19.3.2010 kl. 22:02

8 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Fjármálaráðherra er augljóslega búinn að stúdera vinnubrögð breskra og hollenskra fjárkúgara í þaula og er augljóslega stórhrifinn. Nú beitir hann afbrigði þeirra vinnubragða gegn eigin fólki.

Af hverju segi ég það?

Jú, aðili sem hefur ekkert gert rangt situr uppi með reikning sem hann skrifaði aldrei uppá (stökkbreyttan höfuðstól og vexti/Ísbjörg). Þess er krafist að hann viðurkenni reikninginn -  þótt rökin séu vafasöm. Síðan er honum boðið að borga hluta reikningsins (samsvörun við innistæðutryggingarhluta Ísbjargar) með þeim hætti að kúgarinn hagnast á öllu saman.

Þetta vekur hjá mér hreinan viðbjóð og makalaust er að sjá fólk reyna að verja jafn steinsmugulega hugsun og málflutning!

Haraldur Rafn Ingvason, 19.3.2010 kl. 22:13

9 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Anna Sigrún, ég veit að það er skattfrelsi ef um er að ræða skilmálabreytingar sem fela í sér núvirðingu þeirra lána sem lántaki er með.  Ég veit líka að það er skattfrelsi, ef afskrift/niðurfærsla/leiðrétting felur ekki í sér myndun jákvæðs eigin fjár.  Ekki taka mig fyrir einhvern kjána.  Þú veist betur en svo.

Það er samt skoðun mín, að allar leiðréttingar á stökkbreyttum höfuðstóli húsnæðislána sem er tilkominn vegna forsendubrests eigi að vera skattfrjáls.  Ef það er ekki að öllu leiti, þá eigi að vera skattfrelsismörk hjá hverjum einstaklingi fyrir sig.  Ég hef heyrt allt of mörg dæmi um einstaklinga sem hafa átt kost á samningum við viðskiptabankann sinn, en hafa orðið að hafna þeim samningi vegna þess að greiða þarf himinháa skatta af af niðurfærslunni.

Marinó G. Njálsson, 20.3.2010 kl. 01:42

10 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Erlent lán sem ég tók apríl 2007 vegna íbúðarkaupa upp á 9.100.000 stendur núna í 22.000.000. Er með lánið í greiðsujöfnun (fæ lán fyrir láninnu) alltaf borgað og ekki í vanskilum. Vegna forsendubrestsins tel ég það vera réttlæti að bankinn taki lánið, uppreikni það eins og hefðbundið verðtryggt lán ig skuldbreyti því þannig, Ég gæri trúað að slíkt lán mundu þá standa í ca. 11.000.000 þrátt fyrir að hafa alltaf borgað og staðið í skilum (þvílík þvæla finnst bara á íslandi).

Þýðir þetta að Steingrímur ætlar að skattleggja þessar 11.00.000 (22.000.000-11.000.000).

Nú er maður orðin svo þvældur í þessari umræðu að maður er farin að tala barnamáli tl að ná sensum á tillögum og úrræðum. Þvílík andskotans þvæla er í gangi.

Haraldur Haraldsson, 20.3.2010 kl. 06:58

11 Smámynd: Hrannar Baldursson

Það er ekki að ástæðulausu sem VG var öll þessi ár í stjórnarandstöðu. Það þurfti byltingu til að koma þeim til valda.

Þetta eru afleiðingarnar.

Sjálfsagt kemur upp hugmynd innan þriggja ára að kosningum verður að fresta vegna óvenjulegra aðstæðna, eða þar til neyðarástandi lýkur, eða eitthvað slíkt. Þetta er allt eitthvað svo Chavez og Castro.

Hrannar Baldursson, 20.3.2010 kl. 07:32

12 identicon

Ísbjargarsamlíkingin er góð Haraldur Rafn. Þetta er nákvæmlega það sem er í gangi.

Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 20.3.2010 kl. 08:32

13 identicon

Sæll Marino

Mikið er ég sammála þér, þú ert okkar vonarstjarna í þessari klikkuðu brjálsemi´. 

En munum eitt, þetta VORU ISLENDINGAR sem komu okkur í þrot og eyðilögðu orðspor okkar.

kmj

Kristinn M (IP-tala skráð) 20.3.2010 kl. 09:22

14 identicon

Ég veit að þú ert ekki kjáni og þess vegna gerði ég athugasemdina.

Mér heyrist reyndar krafan vera að allar afskriftir/niðurfærslur/leiðréttingar/youpickaword ættu að vera skattfrjálsar. Mér finnst það satt að segja skiljanleg krafa - hef heyrt það kallað að skattleggja hrunið.

Ég velti þó fyrir mér hvað slík aðgerð myndi þýða í umræðunni. Vafalaust mun rísa upp á afturfæturna hinn stóri hópur sem engin slíkl lán tók og telur að slíka aðgerð ætti að skattleggja, enda hafi fólk mátt vita betur, ekki tók ég svona lán ... etc, þú veist hvað ég á við. Og jafnvel þó að aðgerðin myndi ekki kosta ríkissjóð neitt (sem ég veit auðvitað ekkert um hvort yrði raunin) þá yrði þetta fólk alveg jafnbrjálað, sbr umræðuna um hugsanlega niðurfærslu bílalána.

Vandi umræðunnar eru mismunadi hagsmunir sem fólk hefur og þar representar HH bara eitt sjónarmið. 

Anna Sigrún Baldursdóttir (IP-tala skráð) 20.3.2010 kl. 10:43

15 Smámynd: Sigurjón Jónsson

Ef þessi lög ná fram að ganga þá er ég hræddur um að bankarnir fari beint á hausinn.

Bankarnir fengu nefnilega stærstu leiðréttinguna, ef þeir þurfa að borga skatt af henni þá er spilið búið.

Ég ráðlegg öllum að taka sína peninga út strax.

Sigurjón Jónsson, 20.3.2010 kl. 11:12

16 identicon

blank_pageÞessi málflutningur sem þú ert að minnast á Anna Sigrún um að fólk muni mótmæla því að hrunið verði ekki skattlagt, "ég tók engin lán" og svo framvegis, lifir fyrst og fremst í umræðunni af því að stjórnvöld byggja alla sína efnahagsstefnu á þessari hugmyndafræði. Þá á ég við það að fólk hafi farið of geyst (flatskjárrökin), þegar það blasir við að hrunið megi fyrst og fremst rekja til skussaskapar fyrri stjórnar og háskalegrar fjármálastarfsemi þeirra fyrirtækja sem núna rukka fólk eins og enginn sé morgundagurinn.

Það fólk sem fór of geyst fyrir hrun er örugglega farið til helvítis núna.  En allur almenningur ber tjón sem er í engu samhengi við meinta ofneyslu. Viðvarandi viðskiptahalli undanfarinna ára vegna t.d. innflutnings á bílum og svo framvegis gaf án efa tilefni til gengisfellingar, en ekki 50% hruns gjaldmiðilsins. Það hefur þegar komið fram í skýrslu Bjarna Kristjánssonar, gjaldeyrismiðlara hjá Landsbankanum, að bróðurpart gengisfallsins megi reka til stöðutöku bankanna gegn krónunni.

Fólk sem er að halda þessu fram eru fyrst og fremst stuðningsmenn stjórnarinnar og þá aðallega annars stjórnarflokksins.  Trúðu mér, við fáum reglulega heimsókn frá þeim inn á þessa síðu.  Þetta gera þessir aðilar í þeirri trú að þar með sé þeim að takast að koma vilja stjórnarinnar til leiðar, þ.e. að hægt verði að nota skuldaafsláttinn sem eiginfjárframlag ríkisins við uppbyggingu nýju bankanna.

Það er ekkert sem kemur jafn mikið í veg fyrir að friður náist í samfélaginu og þessi mannfjandsamlega stefna stjórnarinnar. Við komumst ekki úr sporunum fyrr en stjórnvöld hætta að kenna þeim um sem minnsta eiga sökina.

Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 20.3.2010 kl. 12:41

17 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Marinó,

Ég er sammála þér varðandi skattlagningu af afskriftir einstaklinga sem eru á nástrái vegna húsnæðis og annarra einkaeignalána, en er ekki málið að það er verið að afskrifa þúsund milljarða+ af skuldum til vildarvina og fyrrum eigenda bankanna?  Eiga þeir algjörlega að sleppa við að borga krónu af því sem þeir hirtu af þjóðinni?  Í því ástandi sem er núna þá finnst mér að afskriftir af lánum sem eru sannanlega til komin vegna húsnæðiskaupa, bílakaupa etc. ættu að vera skattfrjálst.  Hinsvegar finnst mér allt í lagi að það sé farið á eftir þessum bófum sem stálu öllu steini léttara og eru svo að senda reikninginn fyrir áratuga fjárglæframennsku til þjóðarinnar.  Ef það þarf að gera það í gegnum ramma skattalaganna:  GO FOR IT!  Hinsvegar MÁ ÞAÐ EKKI koma niður á þeim sem hafa orðið fyrir barðinu á forsendubresti með íbúðarlán o.s.frv. eins og þú réttilega krefst! 

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 20.3.2010 kl. 22:59

18 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Anna Sigrún, taktu vel eftir að ég segi HÚSNÆÐISLÁNA.  Ég er ekki að tala um önnur lán.  Ég hef engar áhyggjur af gengistryggðu lánunum, þar sem ég geri ráð fyrir að Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóm (þó það sé alls ekki fast í hendi).  Gerist það, þá myndast engin skattskylda vegna þeirra.  Við erum því fyrst og fremst að tala um verðtryggð húsnæðislán.

Mér finnst það lítilmannlegt af stjórnvöldum að ætla sér að notfæra sér skuldavanda heimilanna til að verða sér út um skattstofn.  Ég spyr bara hversu lágt er hægt að leggjast?  Heimilin eru búin að taka á sig 50 milljarða króna í hækkun skatta og nú á að sækja 50 - 100 milljarða til viðbótar.  Á sama tíma fá moldríkir einstaklingar fullan skattaafslátt af afskriftum sínum vegna þess að þeir voru búnir að koma öllum áhætturekstri sínum fyrir í einkahlutafélögum.  Vissulega eru þeir búnir að tapa háum fjárhæðum af eignum sínum, en það á líka við okkur hin.  Eigi ég að greiða stökkbreytingu höfuðstóls lána minna og taka á mig 30 - 40% lækkun á verði hússins sem ég er með í sölu, þá nemur tap mitt 60 - 80 milljónum, ef ekki hærri upphæð.  Fái ég höfuðstólinn lækkaðan um, segjum, 40 milljónir, þá ætla stjórnvöld að heimta 8 - 9 milljónir af mér og konunni minni í skatt, sem við góðfúslega fáum að greiða á þremur árum.  Þetta gengur ekki upp.

Mér finnst vera nógu aumt hjá stjórnvöldum að neita alfarið að standa fyrir sanngjarnri leiðréttingu stökkbreyttra lána, þó svo að þau ætli nú ekki að nudda salti í sárið og heimta skatt, ef eðlileg eftirgjöf á sér stað.

Arnór, ég tek undir það að greina þarf á milli ólíkra lána.  Við megum þó ekki gleyma því að margir eru í djúpum skít sem eru með annars konar lán en húsnæðislán eða bílalán.  Dæmi um þetta er gríðarlega mikil fjöldi bankastarfsmanna sem fengu kaupréttarsamninga.  Þeim var veitt lán sem greiðast átti upp með sölu bréfanna.  Nú eru hlutabréfin orðin verðlaus, en fólkið situr uppi með himin há lán.  Þetta fólk á starf sitt undir því að greitt sé úr þeirra málum.

Annars er fjölbreytileikinn í aðstæðum fólks svo mikill, að það er að æra óstöðugan að reyna að greina stöðuna.  Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, lagði til s.l. vor að settur yrði á fót gerðardómur.  Mér fannst það strax góð hugmynd, en stjórnvöld virtu hann ekki viðlits, frekar en þau virða nokkurn viðlits nema hann sé í "klíkunni".  Sorgleg staðreynd.  Af hverju viðurkenna stjórnvöld ekki, að þau hafa ekki lausnir við öllu og kalla að borðinu fjölbreyttan hóp hagsmunaaðila.  Eins og þetta lítur út fyrir mér, þá haga þau sér eins og alkar í afneitun.  Telja sig ráða við stöðuna án þess að gera það.  Það er styrkleika merki að viðurkenna að eitthvað sé manni ofvaxið.  Að þekkja sín takmörk.  Kannski gerist það einhvern tímann að núverandi ríkisstjórn áttar sig á vanmætti sínum gagnvart innlendum viðfangsefnum og óskar eftir samráði og samvinnu.  Hún gerði það varðandi Icesave og ég fæ ekki séð að það hafi drepið neinn.

Marinó G. Njálsson, 21.3.2010 kl. 00:13

19 identicon

Sæll Marinó,

ég vil benda þér á eitt atriði varðandi þessa skattlagningu, það er að fyrirtæki geta nýtt sér skattalegt tap meðan einstaklingar geta það ekki.  Þannig eru einstaklingar skattlagðir meir en fyrirtæki.

Sigurður G (IP-tala skráð) 21.3.2010 kl. 02:40

20 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Haltu áfram að berjast Marinó, við stöndum þétt að baki þér.

Gunnar Skúli Ármannsson, 21.3.2010 kl. 23:07

21 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Marinó,

100% sammála!  

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 22.3.2010 kl. 06:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband