Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

Smákrimmar dæmdir en þeir stóru sleppa

Hún er allra athygli verð frétt Morgunblaðsins um ungu mennina tvo sem stálu 2 milljónir úr spilakössum og fá fyrir það og ýmis önnur afbrot 8 og 12 mánaða fangelsi.  Langar mig að endursegja þessa frétt undir öðrum formerkjum, þ.e. fjalla um hryðjuverkamennina sem lögðu efnahag landsins í rúst.

Fréttin hljóðar þá svona í  endurritun minni:

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í morgun tvo karlmenn á fimmtugs aldri í 12 mánaða og átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir fjölda brota.

Mennirnir voru ákærðir sameiginlega fyrir að brjótast inn í Landsbankann í Austurstræti í Reykjavík á árunum 2005 - 2008 og stela þaðan 664 milljörðum krónum í reiðufé með því að búa til málamyndagjörninga. Einnig fyrir að brjótast inn í Kaupþing í Reykjavík á sama árabili en þaðan höfðu þeir á brott með sér um 1.500 milljarða króna.

Sá sem lengri dóminn hlaut var m.a. sakfelldur fyrir að ana um viðskiptalíf landsins undir áhrifum græðgi og hroka. Hann sinnti ekki varúðarorðum eða fylgdi almennu viðskiptasiðferði.

Hann var reyndar sakfelldur fyrir sex auðgunarbrot til viðbótar.  Var hann ýmist undir áhrifum græðgi eða hroka, þegar þau voru framin.

Einnig var hann sakfelldur fyrir hylmingu og fjármálamisferli. Í eitt skiptið var hann með í vörslum sínum 100 milljarða sem hann hafði greitt sjálfum sér sem arð, þó fyrirtækið hafi verið eignalaust og skilað tapi.

Maðurinn sem er 45 ára á að baki nokkurn feril í alþjóðaviðskiptum. Alloft hefur hann verið staðinn að græðgi, hroka,málamyndagjörningum og fjársvikum. Við mat á refsingu var litið til þess að hann játaði brot sín greiðlega.

Hinn maðurinn var sakfelldur fyrir fjögur græðgibrot. Í eitt skipti var hann undir áhrifum hroka og mikilmennskubrjálæðis. Tók hann þá 150 milljarða lán í bankanum sínum í nafni eignarhaldsfélags sem átti engar eignir.  Þar sem hann var aðaleigandi bankans, þá voru ekki gerðar athugasemdir við þennan gjörning. Hann var einnig tekinn með 50 milljarða arð, sem hann greiddi sjálfum sér út úr eignalausu eignarhaldsfélagi sínu, auk þess sem hann braust inn í flest fyrirtæki landsins og um 20.000 heimili og tók þaðan drjúgan hluta rekstrarfjár og ráðstöfunartekna, svo og möguleika fyrirtækja til að halda verðlagi lágu og fólki í störfum, tækifærum landsmanna til að lifa sæmilegu lífi, búa börnum sínum öruggt og heilbrigt umhverfi og svona mætti lengi telja. Maðurinn á að baki nokkurn feril í alþjóðaviðskiptum og hefur áður gerst sekur um græðgi og hroka. Leit dómurinn til gagna sem maðurinn lagði fram, sem staðfesta vilja hans til að snúa lífi sínu til betri vegar.  Hann sagðist iðrast gjörða sinna.

Nú er bara spurning einhver verði nokkru sinni dæmdur fyrir þau brot sem ég lýsi.


mbl.is Stálu 2 milljónum úr spilakössum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er landið í þunglyndi?

Ég brá mér frá í nokkra daga til að hlaða rafhlöðurnar.  Ótrúleg tilbreyting.  Að komast í umhverfi sem er laust við allt þetta sem hefur hvílt sem mara á þjóðlífinu síðustu 18 mánuði, ef ekki lengur.  Staðurinn skiptir kannski ekki megin málin, en ég fór til Boston.  Fór í verslanir og áttaði mig á því að tekjurnar geta dugað fyrir nauðþurftum.  Heimsótti Harvard og MIT og áttaði á mig hvað þessi háskólasamfélög eru eins og eyjur án tenginga við umheiminn.  Um leið og maður komst inn fyrir mörk háskólasvæðanna, þá var eins og eitthvað breyttist.  Þarna var ekki raunveruleikinn heldur einhver sýndarveruleiki áhyggjuleysis og akademískrar umræðu.

En það var ekki ástandið í Boston sem ég ætlaði að lýsa, heldur sjokkið við að koma aftur heim.  Ástandið hér er svakalegt.  Þá á ég við andlegt ástand þjóðarinnar.  Það er einhver drungi sem liggur yfir öllu.  Nærtækast er að líkja þessu við að fara inn í herbergi, þar sem virkilega slæm orka, loftleysi eða eitthvað þess háttar er til staðar.  Hafi maður verið inni í herberginu í langan tíma, þá finnur maður ekki fyrir þessu, en svo fer maður út og kemur til baka og skilur ekki hvernig maður gat setið þarna inni klukkutímunum saman.  Þannig er Ísland í dag.  Orkuhjúpur landsins er hlaðinn þunglyndi, vonleysi, depurð, úrræðaleysi.

Ég er ekki að furða mig á ástandinu.  Ég skil það mæta vel.  Á hverjum degi hringir í mig fólk, sem er að leita ráða eða segja mér sögu sína.  Og sögurnar versna með hverjum deginum.  Örvæntingin er að ná tökum á sífellt fleiri einstaklingum.  Harka fjármálafyrirtækjanna er sífellt að aukast.  Eingöngu þeir, sem eru svo "heppnir" að vera með öll sín viðskipti á einum stað, virðast fá úrlausn sinna mála.  Sértæk skuldaaðlögun er útfærð á mismunandi vegu hjá hverjum og einum banka og hafi beiðni um sértæka skuldaaðlögun komið frá banka A, þá virðast allir hinir líta á það sem heilaga skyldu sína að hafna þátttöku.  Fjármögnunarfyrirtækin virða að vettugi samkomulag sem gert hefur verið og hirða bíla af fólki að næturlagi, þegar fólk kemur engri vörn við.  Hvert spillingarmálið kemur upp á fætur öðru og málsvörn hinna spilltu er að einhver annar hafi borið meiri ábyrgð.  Er það nema von að þunglyndi ríði hér húsum?

Ég tilheyri fámennum hópi fólks, sem hefur reynt sitt besta til að berjast fyrir réttlæti og sanngirni.  Þá er ég að tala um stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna.  Í tæpa 18 mánuði hefur kjarninn úr þessum hópi staðið vaktina og unnið baki brotnu.  Þar af síðustu 14 undir merkjum HH.  Þetta tekur alveg gríðarlega á.  Vissulega höfum við áorkað miklu, en það hefur verið á kostnað tekjuöflunar og ekki síst fjölskyldunnar.  Við höfum ekki næg fjárráð til að standa uppi í hárinu á þremur öflugum bönkum og ótal minni fjármálafyrirtækjum.  Við höfum ekki tíma til að sækja alla þá fundi þar sem nærveru okkar er óskað.  Við höfum ekki orku til að sinna öllum erindum sem okkur eru send.  Þetta er jú allt sjálfboðavinna.

Ég tek það skýrt fram, að samtökin hafa fengið mikinn stuðning og góðan hljómgrunn meðal almennings.  Hvatningarpóstar sem okkur berast eru margir alveg frábærir.  Slíkir póstar hafa oft fleytt mér yfir erfiða hjalla og ég býst við að það eigi líka við um ýmsa félaga mína í stjórn HH.  Er ég þakklátur fyrir slíkan stuðning.  Vissulega hefur líka verið hreytt í okkur ónotum, en það er sjaldgæft.  Það er samt eitt sem ég hef ekki verið nægilega sáttur við.  Það er hve hægt gengur að fjölga félagsmönnum í samtökunum.  Þegar þetta er skrifað eru félagsmenn tæplega 3.500.  Það er vissulega yfir 1% þjóðarinnar, en þegar um 30.000 heimili eru í alvarlegum vanda og þar af hátt í 10.000 í mjög alvarlegum vanda, þá hefði verið gott að sjá fleiri félagsmenn.  Setji einhver félagsgjöld fyrir sig, þá er ekki skylda að greiða þau og þau eru ekki forsenda fyrir þátttöku í starfinu.  Vil ég því hvetja alla, sem ekki eru þegar í samtökunum, að ganga í þau með því að fara inn á www.heimilin.is og styrkja þau því í baráttu sinni fyrir réttlæti og sanngirni.  


Rök sem ekki standast - Matsfyrirtækin með hótanir

Það stenst engin rök, að lánshæfismat lækka þó þjóðin hafni viðaukanum við Icesave samkomulagið.  Það hefur komið fram að þegar liggur á borðinu mun betri samningsdrög, en það hefur samt ekki orðið til þess að lánshæfimatið hafi hækkað eða í veðri látið vaka að svo verði.  Þetta er því í besta falli hræðsluáróður, en í versta falli kúgun.

Ég hef farið yfir þetta oftar en einu sinni.  Það varð engin breyting á lánshæfismatinu, þegar Alþingi setti fyrirvarana.  Það varð engin breyting, þegar Bretar og Hollendingar höfnuðu fyrirvörunum.  Það varð engin breyting, þegar viðaukasamningurinn var gerður.  Hvers vegna ætti matið að breytast við það að þjóðin hafni viðaukanum?

Á undanförnum dögum hafa löndin þrjú átt í viðræðum.  Fram hefur komið að greiðslubyrði Íslands hefur lækkað um hátt í 100 milljarða bara með breytingum á vaxtakjörum.  Af hverju tjá matsfyrirtækin sig ekkert um það?  Er það vegna þess, að þau eru föst í sjálfsmikilvægi sínu og telja sig geta sagt íslensku þjóðinni fyrir verkum, eins og þau hafa sagt sveitarfélögum á Bretlandi fyrir verkum og jafnvel milljónaborgum í Bandaríkjunum.

Ég vil hvetja sem flesta til að fara á kjörstað og merkja við "Nei, ég vil ekki að lögin taki gildi".


mbl.is Lánshæfismat mun lækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afnemum verðtryggingu í skrefum - Bönnum hana á lánum einstaklinga og heimila

Hún er merkileg þessi hræðsla manna við að afnema verðtrygginguna af lánum.  Á sínum tíma tók það dagstund á Alþingi að afnema verðtryggingu launa.  Þá skipti engu máli, þó fólk hefði gert framtíðaráætlanir sínar miðað við að laun væru verðtryggð.  Voru skuldbindingar þeirra launasamninga, sem þá voru í gildi, eitthvað öðru vísi en lánasamninga?  Er samningsákvæði kjarasamninga minna virði en ákvæði í verðtryggðum lánasamningum?

Lausnin sem margoft hefur verið bent á, er að setja þak á verðbætur sem trappað er niður á nokkrum árum.  Hagsmunasamtök heimilanna hafa gert tillögu um 4% árlegt þak frá 1. janúar 2008 til 31.12.2009, þakið lækki í 3% fyrir 2010 og 2011, þá 2%, 1% og loks hverfi.  Samtökin hafa vissulega bara gert kröfu um að þetta nái til húsnæðislán og þá aðeins þau lán sem sannanlega eru vegna húsnæðiskaupa, byggingar á nýju húsnæði, viðhalds húsnæðis eða framkvæmda við húsnæðið.  Hvernig væri bara að byrja á þessu?

Það að setja þak á verðbætur þarf ekki að breyta verðtryggingarkerfinu nokkurn skapaðan hlut.  Það er eingöngu ef verðbólgan verður hærri en þetta þak sem áhrifin koma fram.  Þar sem verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands voru frá apríl 2001 til loka árs 2008 (eða svo) 2,5%, þá ættu áhrif af 3 eða 4% þaki ekki að vera nein.  Það sem meira er, að það myndast hvati í fjármálakerfinu að halda verðbólgunni niðri, þar sem skuldabréfaeigendur "tapa" engu meðan verðbólga er undir þakinu.  Takist síðan að halda verðbólgunni lágri í nokkur ár, þá kemur nægilegur stöðugleiki til að afnema verðtrygginguna alveg.

Afnámi verðtryggingarinnar verður að fylgja þak á vexti húsnæðislána (sbr. þau lán sem ég taldi upp að ofan).  Hagsmunasamtök heimilanna hefur verið að líta til lánakerfisins í Danmörku, þar sem bankarnir ákváðu sjálfir að taka upp 5% þak.  Hér hafa bankarnir sæst í bili á 6% þak.  Þetta þak þarf að vera til frambúðar.  Nú segja einhverjir að erfitt sé að fjármagna lán til 25 - 40 ára á svo lágum vöxtum.  Málið er að það er ekki nauðsynlegt.  Ef skoðuð er reynsla Norðmanna, þá skiptir fólk um húsnæði að meðaltali á 8,5 ára fresti.  Fjármögnun lánanna þarf því eingöngu að vera til 8 - 9 ára.   Í þeirra kerfi flytjast lán ekki á milli eigenda heldur eru öll áhvílandi lán gerð upp við eigendaskipti.  Ekkert uppgreiðslugjald er, ekkert lántökugjald þegar um húsnæðiskaup er að ræða og að sjálfsögðu ekkert stimpilgjald. Danir endursemja um vextina (innan þaksins) á 3-5 ára fresti og þá eru lánin jafnframt uppgreiðanleg.  Viðkomandi getur flutt viðskipti sín til annars fjármálafyrirtækis og því er virk samkeppni á markaði.

Þannig að, Steingrímur, þetta er spurning hvort þetta er hægt með stuttum fyrirvara,heldur hvernig við viljum fara að þessu. Núna er mjög mikilvægt að taka einhver skref, þar sem búast má við verðbólguskoti, þegar gjaldeyrishöftin verða afnumin.  Vil ég því hvetja til þess að frumvarp Framsóknar um 4% þak verði samþykkt án tafa.


mbl.is Meinsemd hve verðtrygging er fyrirferðarmikil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óveruleg áhrif ef gengistrygging verður dæmd ólögleg - Má þá ekki leiðrétta strax?

Samkvæmt frétt Morgunblaðsins meta formenn skilanefnda banka að "áhrifin yrðu óveruleg, hvernig sem endanlegar dómsniðurstöður yrðu" varðandi lögmæti gengistryggðra lána.  Má þá spyrja hvers vegna bankarnir geta ekki bara komið strax til móts við lántaka og leiðrétt lánin í samræmi við þann forsendubrest sem flestir eru sammála um að hafi orðið.

Ég vakti athygli á því í febrúar í fyrra, að tenging fjárskuldbindinga íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla væri óheimilar samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur.  Þessi túlkun vann sér smátt og smátt fylgi og loks tók héraðsdómur undir þessa túlkun í dómi sínum 12. febrúar.  Hvort sem þetta er ástæðan eða ekki, þá virðast bankarnir hafa gert ráð fyrir lakari heimtum á gengistryggðum lánum en öðrum við flutning lánasafnanna frá gömlu bönkunum til þeirra nýju.  Þannig má lesa það úr orðum Árna Tómassonar, formanns skilanefndar Glitnis, í frétt viðskiptablaðs Morgunblaðsins, að búið sé að niðurfæra verðmæti lánasafnanna í bókum nýju bankanna og þó svo að Hæstiréttur snúi dómi héraðsdóms, þá aukist endurheimtuhlutfall lítið sem ekkert.

Ef þessi túlkun mín á viðbrögðum formanna skilanefndanna er rétt, þá má spyrja: Hvers vegna hafa bankarnir þá ekki verið viljugri til að koma til móts við viðskiptavini sína?  Á þessu máli sem fleiri eru margar hliðar.  Ein hliðin, sem vert er að hafa í huga, er að dæmi dómstólar tengingu höfuðstóls við dagsgengi erlendra gjaldmiðla ólögmæta, þá fellur niður skattskylda á höfuðstólsleiðréttingunni.  Það getur því betra fyrir lántaka að bíða þolinmóðir eftir niðurstöðu Hæstaréttar og vona að hann falli lántökum í vil.  Túlkun Ríkisskattstjóra er nefnilega, að leiðrétting lána sem veldur eignamyndun, þ.e. býr til veðrými á eign, er skattskyld.  Á móti þegar eiginfjárhluturinn var étinn upp, þá kom engin skattívilnun!

Niðurstaðan af þessu öllu er, að það skiptir bankana litlu máli hver niðurstaða Hæstaréttar verður, þar sem bankarnir hafa þegar gert ráð fyrir lélegum endurheimtum.


mbl.is Kröfuhafar spyrjast fyrir um erlend lán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 87
  • Sl. viku: 275
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband