Leita í fréttum mbl.is

Brýnustu málin - Önnur gömul færsla sem sýnir að allt er við það sama

Hér er önnur færsla frá síðasta ári.  Þessi er frá 23. apríl 2009 og rituðu um það leiti sem gengið var til kosninga:

Nú eru þær að hellast yfir okkur kosningarnar.  Ég var að horfa á svo kallaðan borgarafund RÚV rétt áðan og sá varla nokkurn "borgara" leggja fram spurningar.  Þarna komu frambjóðendur af hinum og þessum listum flokkanna og spurðu spurninga sem áttu að láta sinn frambjóðanda líta vel út og reyndu að koma höggi á andstæðingana.  Mér fannst á þessum fundi eins og öðrum vantar skýrari svör hjá þeim sem sátu fyrir svörum, varðandi hvað væri brýnast, hvers vegna B, D, S, V og F hefðu ekki komið því þegar í kring og hvenær það yrði gert.  Í staðinn tipluðu frambjóðendur í kringum spurningarnar eins og kettir í kringum heitan graut.

Mig langar að skoða hvað mér finnast vera brýnustu verkefni næstu ríkisstjórnar.  Þau voru brýnustu verkefni núverandi ríkisstjórnar og ríkisstjórnarinnar þar á undan.  Ég geri mér engar vonir um að næstu ríkisstjórn farnist neitt betur en hinum fyrri en útiloka það ekki.

1.  Koma á fót starfhæfu bankakerfi:  Meðan fjármálakerfið virkar ekki eðlilega, þá flæðir blóðið ekki um hagkerfið.  Það er betra að ríkisstjórnin einblíni á að byggja upp einn banka og geri hann vel starfhæfan, en að reyna að byggja upp þrjá og hjakka sífellt í sama farinu.  Lausnin er að kröfuhafar gömlu bankanna taki yfir t.d. Íslandsbanka og Kaupþing, en ríkið haldi Landsbankanum.  Ríkið leggi sínum banka til þá 385 milljarða sem áttu alls að fara inn í bankana, en kröfuhafarnir sjái um að endurfjármagna bankana sem þeir fá í hendur.  Þessu þarf að ljúka innan 30 daga.

2.  Stöðva aukningu atvinnuleysis:  Það hefði átt að vera fyrsta hlutverk ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að gera allt til að aðstoða fyrirtæki við að hafa fólk í vinnu.  Í staðinn var farin sú leið að safna fólki á atvinnuleysisbætur. Þetta voru líklegast stærstu mistök þeirrar ríkisstjórnar í kjölfar bankahrunsins.  Núverandi ríkisstjórn hefur ekki boðið upp á nein úrræði.  Fyrir hvert starf sem hefur tapast, þarf að vinna upp eitt starf.  Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar skyldi ekki þennan einfalda sannleika.  Þess vegna eru hátt í 20 þúsund manns án atvinnu.  Ég hef lagt til að fyrirtækjum sé borgað fyrir að hafa fólk í vinnu í staðinn fyrir að borga fólki fyrir að hafa ekki vinnu.  Ráðast þarf í verkið strax.  Ekki eftir viku eða hálfan mánuð eða í haust.

3.  Skapa atvinnulífinu eðlilegt rekstrarumhverfi svo endurbygging þess geti hafist:  Það er atvinnulífið sem skapar störfin.  Ríkisstjórnir skapa skilyrðin.  Búið er að setja milljarða á milljarða ofan í atvinnuleysisbætur, sem hægt hefði verið að nota til að aðstoða atvinnulífið.  Fái einn ríkisbanki 385 milljarða framlag frá ríkinu, þá ætti að vera hægt að koma hjólum atvinnulífsins í gang. Kröfuhafar hinna tveggja sjá um að endurfjármagna þá og samkeppni myndi vonandi skapast.  Ráðast þarf í víðtækar breytingar á lögum. T.d. þarf að fella tímabundið niður öll launatengd gjöld.  Fyrirtæki eru að greiða hátt í 14% í mótframlag í lífeyrissjóð og tryggingargjald.  Með því að fella þessi gjöld niður í 12 mánuði má skapa skilyrði fyrir 8 - 10% fjölgun starfa og 4% hækkun launa, þar sem launakostnaður lækkar sem þessu nemur.  Síðan má endurvekja þessi gjöld á næstu 3 - 5 árum, þegar efnahagslífið hefur rétt úr kútnum.  Ég átta mig á því að sum fyrirtæki þurfa ekki á þessu að halda, en hvað með það.  Við erum að bjarga fjöldanum.

4.  Skapa heimilunum eðlileg skilyrði svo þeim hætti að blæða:  Atriði 1 og 3 hjálpa heimilunum mikið, en það þarf meira til.  Lækka þarf greiðslubyrði lána og leiðrétta höfuðstól þeirra.  Með því er komið til móts við heimilin vegna óréttlátrar hækkunar höfuðstól vegna hruns krónunnar.  Heimilin eru mörg hver komin með bakið upp við vegg.  Úrræði þessara heimila er að hætta að greiða lánin eða hætta neyslu.  Margir eiga ekki aðra úrkosti.  Við skulum hafa í huga að sífellt stærri hluti lána heimilanna eru að tapast vegna þess að þau ráða ekki við þau.  Því fyrr sem lánveitendur átta sig á því að hér er um sokkinn kostnað að ræða og fara í afskriftir, þess betra.  Talsmaður neytenda mun leggja fram tillögur á sunnudag, sem ég hvet stjórnmálamenn til að taka til alvarlegrar athugunar.  Ég hef fengið þær til umsagnar og tel þær vera raunhæfa leið út úr vandanum.  Það á svo sem líka við um tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna um setja 4% þak á verðtryggingu á ári frá 1. janúar 2008.

5.  Fara þarf í aðgerðir til að verja velferðarkerfi:  Lífeyrisþegar hafa margir farið mjög illa út úr kreppunni.  Huga þarf að stöðu þeirra.  Einnig þarf að huga að stöðu atvinnulausra, en enginn nær að framfleyta sér og fjölskyldu á atvinnuleysisbótum samhliða því að greiða af húsnæðislánum.

6.  Móta þarf framtíðarsýn fyrir Ísland:  Það er tími til kominn að stjórnvöld ákveði hvaða stefnu á að taka í nokkrum grundvallar málum. Ég gerði tillögu að eftirfarandi aðgerðahópum í færslu hér 6.11. og 24.11. og er ég eiginlega gáttaður á því að þeir hafi ekki verið settir á fót strax á fyrstu dögum eftir bankahrunið:

  1. Fjármálaumhverfi: Verkefnið að fara yfir og endurskoða allt regluumhverfi fjármálamarkaðarins.
  2. Bankahrunið og afleiðingar þess:  Verkefnið að fara yfir aðdraganda bankahrunsins svo hægt sé að læra af reynslunni og draga menn til ábyrgða.- Er í vinnslu
  3. Atvinnumál:  Verkefnið að tryggja eins hátt atvinnustig í landinu og hægt er á komandi mánuðum.
  4. Húsnæðismál:  Verkefnið að finna leiðir til að koma veltu á fasteignamarkaði aftur á stað.
  5. Skuldir heimilanna:  Verkefnið að finna leiðir til að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot heimilanna í landinu.
  6. Ímynd Íslands:  Verkefnið að endurreisa ímynd Íslands á alþjóðavettvangi.
  7. Félagslegir þættir:  Verkefnið að byggja upp félagslega innviði landsins.
  8. Ríkisfjármál: Verkefnið að móta hugmyndir um hvernig rétta má af stöðu ríkissjóðs.
  9. Peningamál: Verkefnið að fara ofan í peningamálastefnu Seðlabanka Íslands, endurskoða hana eftir þörfum og hrinda í framkvæmd breyttri stefnu með það að markmiði endurreisa traust umheimsins á Seðlabanka Íslands - Er í gangi
  10. Gengismál:  Verkefnið að skoða möguleika í gengismálum og leggja fram tillögur um framtíðartilhögun.
  11. Verðbólga og verðbætur:  Verkefnið að fara yfir fyrirkomulag þessara mála og leggja til umbætur sem gætu stuðlað að auknum stöðugleika.
  12. Framtíð Íslands - Á hverju ætlum við að lifa: Verkefnið að móta framtíðarsýn fyrir Ísland varðandi nýja atvinnuvegi.
  13. Framtíð Íslands - Hvernig þjóðfélag viljum við:  Verkefnið að móta framtíðarsýn fyrir Ísland varðandi inniviði þjóðfélagsins.

Í færslunni 24.11. bætti ég auk þess við:

Almenningur bíður eftir áætlunum frá stjórnvöldum um hvað á að gera.  Þá er ég að tala um áætlanir sem greiða úr þeim vanda sem almenningur stendur frammi fyrir. Þær tillögur sem hingað til hafa komið, hafa einblínt á að auka skuldir fólks og tryggja því atvinnuleysisbætur.  Ég get ekki séð að þetta sé það sem fólkið í landinu vill.  Ég fyrir mína parta vil sjá að tekjur mínar dugi fyrir útgjöldum.  Ég vil sjá að fyrirtækjum verði gert kleift að halda fólki í vinnu og að rekstur þeirra breytist ekki of mikið.  Ég vil sjá að rekstrargrundvöllur fyrirtækja og heimila í landinu verði styrktur, þannig að þjóðfélagið dafni en grotni ekki niður.  Ég vil sjá hið opinbera fara út í mannaflsfrek verkefni, þó svo að það kosti pening.  Ég vil sjá hið opinbera viðhalda þjónustustigi sínu, en ekki samdrátt. ... Ég hef kallað eftir því farið sé í endurreisn íslenska þjóðfélagsins, en ekki aukið á samdráttinn með niðurskurði.  Það besta sem hægt er að hugsa sér fyrir samfélagið, er að tekjur fólks aukist, að sem flestir borgi skatta, að framleiðsla aukist, að útflutningur aukist.  Þetta er grunnurinn að nýju Íslandi og þennan grunn er hægt að leggja strax.  Við þurfum öll að leggjast á árarnar svo að þetta megi verða. 

Ég skora á öll framboðin að skoða þetta mál vandlega og leggist saman á árarnar.  Ég skora á stjórnmálaflokkana að koma upp úr skotgröfunum og stofna þjóðstjórn að loknum kosningum.  Verkefnin þarf að leysa í sameiningu og fá til þess aðstoð færustu sérfræðinga.

Aðeins eitt atriði er komið eitthvað áleiðis, þ.e. að koma á starfhæfu bankakerfi, en því máli er ekki einu sinni lokið!  Allt annað eru verkefni sem ýmist er ekki byrjað á eða að lausnirnar eru ófullnægjandi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Maður er orðin svo þreyttur a ekkert gerist, spurning að skríða í sömu holu og stjórnvöld. Þar er víst svo mikið að gerast....

Hannes Þórisson (IP-tala skráð) 17.3.2010 kl. 15:20

2 Smámynd: Offari

Var ekki stjórnin að gera eitthvað í dag?

Offari, 17.3.2010 kl. 22:15

3 Smámynd: Axel Pétur Axelsson

Getur það kallast "starfhæft" bankakerfi sem safnar peningum eins og blóðkýli. Hráefnið í þetta krabbamein er fjárhagsleg velferð heimila landsins.

Í mínum huga er það helsjúkt bankakerfi sem þjónar engu nema sér sjálfu.

Axel Pétur Axelsson, 17.3.2010 kl. 23:35

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Starri, það sem kynnt var í dag snýr eingöngu að einkennum skulda- og greiðsluvandans, en hunsar alveg orsökina.

Marinó G. Njálsson, 18.3.2010 kl. 01:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 4
  • Sl. sólarhring: 122
  • Sl. viku: 687
  • Frá upphafi: 1677709

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 52
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband