Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Bréf frá bankamanni

Mér barst um daginn nafnlaust bréf frá reynslu miklum starfsmanni fjármálastofnunar.  Ég veit ekkert hver þetta er, þar sem það barst með almennum pósti.  Mig langar til að birta þetta bréf hér, en hef tekið út þá einu vísbendingu sem er í bréfi um bréfritara.

Eftir nærri xx ára starf hjá fjármálastofnun og banka get ég ekki orða bundist yfir ráðaleysi og hringlandahætti við að laga skuldavanda fólks.  Það virðist mest unnið að því að gera einfalda hluti flókna, og Parkinsonslögmálið er allsráðandi.

Í öllum bankastofnunum svigna skrifborðin undan þykkum stöflum af margskonar upplýsingum um fjármál fólks til að vinna úr greiðslumat, það er vitað og viðurkennt að greiðslumatið gildir bara í einn dag, daginn sem það er gert, og er því skynsamlegt að draga stórlega úr þeirri vinnu, eða jafnvel hætta henni.

Hér virðist vera einblínt á húsnæðislán, en vandinn liggur víðar, og ástæður þess að fólk er í vandræðum eru margar.  Það á að nægja að fólk sýni skattskýrslur, þar sem kemur flest fram, launaseðla og kvittanir fyrir afborgunum, þá getur hvaða meðalgreindur bankastarfsmaður sem er afgreitt mál á stuttum tíma.

Í öllum bönkum er hægt að fresta greiðslum, frysta lán, lækka vexti, fella niður eða lækka dráttarvexti, jafnvel fella niður vaxtagreiðslur um tiltekinn tíma, allt þetta er betra en að fólk verði gjaldþrota, eða að það þurfi að ganga í gegnum þennan flókna og jafnvel niðurlægjandi feril sem boðið er upp á núna.  Það ætti líka að endurskoða stighækkandi vexti eftir efnahag manna.  Er rétt að fátækur fjölskyldufaðir greiði meira fyrir brauðið en sá efnaði?  Íbúðalánasjóður á tvímælalaust að hagræða fyrir fólk sem er í vanda, hafa þar frumkvæði og líta ekki á svokallað greiðslumat.

Úr hvaða vasa er greitt ef höfuðstóll lána er lækkaður sem nemur hluta af verðbótum síðustu ára?  Eru reglur til útreiknings á verðbótum réttar?  Eru viðmiðanir sem eiga að sýna greiðslugetu lífeyrissjóðanna áratugi fram í tímann réttar?  Hvað mikið af þessu eru bókhaldstölur, reglur sem einhverjir hafa sett, rétt eins og viðskiptavild?

Parkinsonslögmálið er allsráðandi, það sýnir best aukning á starfsemi umboðsmanns skuldara, þar er unnið gott starf, en því má sleppa, bankarnir geta þetta, eiga að leysa þessi vandamál og það á sem stystum tíma.

Mér finnst margt mjög áhugavert koma fram í þessu bréfi og sýna að bankamenn hafa sömu áhyggjur af hlutunum og við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna.

Mig langar til að fjalla nánar um einn lið úr þessu bréfi sérstaklega hér á næstu dögum, en það er spurningin:  

Eru reglur til útreiknings á verðbótum réttar?

Allt innlegg í þá umræðu er vel þegið.


Mat á áhrifum tillögu HH - úr séráliti mínu

Hér fyrir neðan birti ég kafla 10 úr séráliti mínu, en álitið í heild hef ég hengt við sem pdf-skjal.

10      Mat á áhrifum

Sérfræðingahópurinn átti að meta áhrif aðgerða (leiða) á eftirfarandi þætti:

  • Áhrif á efnahagslíf og atvinnustig
  • Áhrif á ríkissjóð í bráð og lengd.
  • Áhrif á eigna- og tekjudreifingu landsmanna.
  • Áhrif á greiðslubyrði lántaka
  • Áhrif á stöðu lífeyrissjóða í bráð og lengd.
  • Áhrif á fjárhag Íbúðalánasjóð.
  • Áhrif á fjárhag banka og annarra lánastofnana.
  • Áhrif á efnahagslega hvata einstaklinga og lánastofnana.
  • Áhrif á framtíðarskipan og fjármögnun íbúðarlána.

Ekki tókst að ljúka þeirri vinnu.  Þó er ljóst að öll niðurfærsla lána mun hafa jákvæð áhrif á efnahagslífið ef heimilin nota þann pening, sem annars hefði farið í greiðslu lána, til aukinnar neyslu.  Misjafnt er eftir leiðum hve mikil lækkun á greiðslubyrði kemur fram.  Miðað við greiðslubyrði upp á 5.000 kr. á hverja milljón á mánuði, þá hefur 100 milljarða lækkun höfuðstóls í för með sér 500 milljóna kr. lækkun afborgana.  Ekki er sjálfgefið að allur sá peningur fari í neyslu, en geri hann það getur það þýtt allt að 100 m.kr. í hærri virðisaukaskatt til ríkisins á mánuði eða 1,2 milljarða kr. á ári.  Ruðningsáhrif 6 milljarða á ári geta verið umtalsverð, en höfundur álitsins hefur ekki þekkingu til að meta þau.

Áhrifin á ríkissjóð í bráð og lengd veltur á því hvort hann þurfi að hlaupa undir bagga með ÍLS eða ekki.

Áhrifin á eignadreifingu landsmanna geta ekki orðið nema jákvæð, þar sem fleiri fjölskyldur geta haldið heimilum sínum.  Því fleiri sem njóta aðgerðanna, því jákvæðari verða áhrifin.  Ruðningsáhrif aukinnar neyslu munu verða til þess að störfum fjölgar, sem styrkir tekjur heimilanna.  Hvort það verði til þess að tekjudreifing aukist eða minnki er erfitt að segja.  Tekjutenging í breyttum tillögum HH mun auka á jöfnuð í þjóðfélaginu.

Lækkun höfuðstóls lána kemur strax fram í lægri greiðslubyrði.  Þar sem tillögur HH ná til allra lántaka, þá breytist greiðslubyrði þeirra allra.  Það á líka við um niðurfærslu miðað við upphaflegan höfuðstól og vaxtalækkun.

Annað sem ekki má gleyma eru eignirnar sem verið er að verja með hverri aðgerð.  Ekkert fer á milli mála að eftir því sem aðgerð er víðtækari, þá er verið aðstoða fleiri við að halda eignum sínum.  Fasteignamat þess húsnæðis sem er með áhvílandi fasteignalán nemur tæplega 1.900 milljörðum, breyttar tillögur HH ná til eigna að verðmati um 1.300 milljarðar.

Staða lífeyrissjóðanna er mjög völt um þessar mundir.  Gæði eignasafna sjóðanna hafa versna mjög mikið og á eftir að leysa úr mörgum málum vegna þess.  Húsnæðislán sjóðanna hafa tekið á sig högg eins og aðrar eignir.  Sum lán hafa misst veð eða eru á skertu veði.  Almenn niðurfærsla á borð við tillögur HH, auka líkurnar á því að eftirstöðvar lána lífeyrissjóðanna hafi tryggt veð að baki sér.  Vissulega tapast 15,5% af húsnæðislánum sjóðanna, en í staðinn hafa þeir í höndunum traust lán og öruggara greiðsluflæði.

Áhrifin á Íbúðalánasjóð er á margan hátt sambærileg við stöðu lífeyrissjóðanna.  Hluti niðurfærslu lánanna verður bara viðurkenning á þegar töpuðum kröfum eða kröfum sem líklegast myndu tapast ef ekkert væri gert.  Í öðrum tilfellum styrkist tryggingin að baki lánunum.  Mikilvægust er líklega sú tiltekt sem verður í lánasafni sjóðsins.  Líklegt er að ÍLS geti ekki borið niðurfærsluna án þess að eitt af þrennu komi til:  1) framlag úr ríkissjóði; 2) hækkun vaxta; eða 3) samningar við lánardrottna.

Áhrifin á banka og aðrar lánastofnanir verða margvísleg.  Löngu tímabær endurskipulagning skulda mun eiga sér stað.  Vandi flestra fjármálafyrirtækja um þessar mundir er að stór hluti lánasafna þeirra eru það sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kallar í nýjustu skýrslu sinni „non-performing loans“, hér kölluð óvirk, þ.e. lán sem ekki er verið að greiða af, þar sem þau eru annað hvort í vanskilum eða frystingu.  Samkvæmt AGS er um 63% allra lána bankakerfisins óvirk, þegar miðað er við kröfuupphæð lánanna, en 45% þegar miðað er við bókfært virði lánanna.  Eitt helsta markmið þessara aðgerða er fjölga í hópi virkra lán og um leið fækka í hópi óvirka.  Með því mun efnahagur fjármálafyrirtækjanna styrkjast og framtíð þeirra verða tryggð.  Fyrirtæki sem er með um 37% heimtur af kröfum sínum er í slæmum málum og þó heimturnar færu upp í 85%, þá er rekstrarhæfi þess ennþá mjög dapurt.>

Áhrifin á efnahagslega hvata einstaklinga og lánastofnana, þá getur sá hvati ekki annað en aukist með víðtækum leiðréttingum lána heimilanna.  Núverandi ástand einkennist að algjöru vantrausti heimilanna á lánakerfið.  Fólk þorir ekki að fara út í miklar lántökur, þar sem það veit ekki nema innan fjármálakerfisins sitji menn á svikráðum.  Brennt barn forðast eldinn.  Náist ekki sátt milli lánveitenda og lántaka, þá mun landið ekki ná að rísa úr öskustónni og kreppan mun dýpka.  Í stað hvata til uppbyggingar verður hræðsla ríkjandi og stöðnun.  Afleiðingin af því eru frekari vanskil, fleiri nauðungarsölur og fjölgun gjaldþrota.  Fólk mun flytjast úr landi ef því finnst það ekki njóta sanngirni og réttlætis.  Um leið og fólki líður betur gagnvart viðskiptabankanum sínum, þá mun það hafa mikið efnahagsleg áhrif.  Það mun taka mörg ár fyrir sárin að gróa og tortryggnin mun líklegast verða mikil um ókomin ár hjá þeim fjölskyldum sem eru að upplifa ástandið á eigin skinni.  Ef vel tekst til við leiðréttingu lána heimilanna, þá mun okkur vonandi auðnast að stytta tímann sem endurreisnin tekur.

Áhrif á framtíðarskipan og fjármögnun íbúðarlána verður mikil.  Í fyrsta lagi, þá verðum við að horfast í augun við að verðtryggingin er barn síns tíma.  Ísland er fyrsta þjóðfélagið sem fer í gegn um fjármála- og skuldakreppu með verðtryggingu sem megin lánaformið.  Annars staðar hefur ein leið stjórnvalda til að leiðrétta misvægi launa og skulda verið að auka á verðbólgu og henda skuldum á verðbólgubálið.  Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa t.d. ákveðið að fara þá leið.  Þar á að prenta peninga og hrúga þeim út í hagkerfið til þess að mynda þenslu og verðbólgu.  Hér á landi er það ekki hægt, þar sem verðbólga mun bara hækka höfuðstól verðtryggðra lána.  Af þessum sökum er ákaflega mikilvægt að hverfa frá verðtryggingu lána neytenda eins fljótt og hægt er.  Ekkert mælir í sjálfu sér gegn því að fyrirtæki og fagaðilar taki verðtryggð lán, en þau eiga ekki að vera í boði á neytendamarkaði.  Hagsmunasamtök heimilanna hafa sett fram tillögur um framtíðarskipan húsnæðislánakerfisins.  Þar er í grófum dráttum lagt til að verðtrygging detti út í áföngum með því að setja til að byrja með 4% þak á árlega verðbætur.  Þetta þak lækki árlega uns það hverfi.  Í stað verðtryggða lánakerfisins komi óverðtryggð lán með þak á vexti.  Gert er ráð fyrir að vextir geti verið fastir, breytilegir eða fljótandi.  Lántakar semji við lánveitendur til skamms tíma um kjör lánanna, en sé jafnframt frjálst að flytja sig á milli lánastofnanna með lágmarkstilkostnaði.  Með þessu fáist meiri samkeppni um veitt lán og markaðurinn verði virkari.  Öll lán greiðist upp við eigendaskipti sem þýðir jafnframt að nauðsynlegt er að afnema stimpilgjöld.  Þar sem lán eru greidd upp við eigendaskipti, þá þurfi lánveitendur ekki að fjármagna hvert lán nema til 6 - 8 ára í senn, þó svo að greiðslubyrði lánanna miði við 20 - 40 ára lánstíma.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Ranghugmyndir hagfræðinema

Ég get eiginlega ekki orðabundist vegna greinar Leifs Þorbergssonar, hagfræðinema, á Pressunni í gær.  Þar birtir hann færslu undir fyrirsögninni "Ranghugmyndir um flata niðurfærslu skulda".  Ekki það að rökstuðningur hagfræðinemans heldur hvorki vatni né vindum og vona ég innilega að þetta sé ekki dæmi um þá rannsóknahæfileika sem er verið að kenna hagfræðinemum.

Í fyrsta lagi virðist hagfræðineminn ekki hafa kynnt sér sérálit mitt vegna vinnu sérfræðingahópsins.  En nú langar mig að skoða röksendir hagfræði nemans.  Hann tekur til nokkrar ranghugmyndir og reynir að finna höggstað á þeim.

1.  Flöt skuldaniðurfærsla skapar aukinn kaupmátt heimilanna sem hefur ruðningsáhrif, eykur neyslu, fjárfestingar og skatttekjur ríkisins.

Rökstuðningur Leifs:  Þó svo að einhver heimili komi auðvitað til með að auka neyslu sína þegar skuldir þeirra eru afskrifaðar (þeim rétt fé á silfurfati) þá koma þeir aðilar sem urðu fyrir eignamissi til með að eyða minna í neyslu og fjárfestingar (og þá hækka vextir).

Villa í rökstuðningi:  Í fyrsta lagi, þá er ekki verið að rétta einum eða neinum eitthvað á silfurfati, heldur er verið að leiðrétta.  Í öðru lagi, þá er ekki víst að kröfuhafi hefði fengið kröfu sína greidda.  Í þriðja lagi, er ekkert sem bendir til þess að kröfuhafinn (bankar, lífeyrissjóður, Íbúðalánasjóður) hefðu notað innborgunina í neyslu.  Í fjórða lagi, þá hefur ekki verið sýnt fram á og hagfræðineminn gerir það ekki, að leiðréttingin kosti fjármálafyrirtækin í reynd nokkuð, þar sem þau hagnast á betri heimtum af öðrum hluta skuldarinnar.  Í fimmta lagi, þá reynir hagfræðineminn ekki að skoða hver ruðningsáhrifin eru og bera saman ruðningsáhrif af aðgerðinni og því að gera hlutina ekki.  Kastað er fram staðhæfingu án sannana.  En bara til að upplýsa hagfræðinemann, þá væru frumáhrif af segjum 100 milljarða leiðréttingu um 6,0 milljarðar kr. á ári.  Þessari tölu fylgir síðan um 1 milljarða lækkun á vaxtabótum, þannig að nettó áhrif eru 5,0 milljarðar.  Ef öll tala fer í neyslu, þá fer 1 milljarður til ríkisins í formi virðisaukaskatts og 4 milljarðar fara í veltuaukningu.  Stórhluti af þessari veltuaukningu eykur hæfi fyrirtækja til að greiða af sínum lánum, hluti fer í laun og um 38% af laununum enda hjá ríki og sveitarfélögum.  Hringurinn endurtekur sig með auknum ruðningsáhrifum.  Þó svo að fjölgun starfa sé líklegast ekki nema um 500 vegna aðgerðanna, þá eru atvinnuleysisbætur þeirra um 1 milljarður.  Hagnaður ríkisins af aðgerðinni er því orðinn 1 ma.kr. vegna vaxtabóta, 1 ma.kr. vegna virðisaukaskatts, 1 ma.kr. vegna færri án atvinnu og síðan 500 m.kr. vegna tekjuskatts.  Ruðningsáhrifin til ríkisins eru því 3,5 ma.kr.  Ekki slæmt af ekki hærri tölu.  Nú þýðir ekki að segja að fyrirtækin fái virðisaukaskattinn endurgreiddan eða eigi innskatt á móti útskatti.  Það er nefnilega þannig að nær allur sá útskattur sem lendir á neytanda (neytandi er lánþegi og þar sem einstaklingur en ekki lögaðili) hann endar hjá ríkissjóði.  Eina undantekningin er þar sem ríkissjóður endurgreiðir neytandanum virðisaukaskatt vegna t.d. húsbyggingar.

Niðurstaða mín er að það er engin ranghugmynd í gangi varðandi það að leiðréttingin skapi meiri veltu, fjárfestingu og skatttekjur til ríkissjóðs.

2.  Forsendubrestur hefur orðið vegna stökkbreytts höfuðstóls

Þetta atriði er jafngilt fyrir flest önnur úrræði sem skoðuð voru og er því ekki sértækt fyrir flata leiðréttingu.

Rökstuðningur Leifs:   Allt tal um forsendubrest verðtryggðra lána er innantómt raus þeirra sem beinna hagsmuna eiga að gæta.

Villa í rökstuðningi:  Úps! Rökin eru að þetta sé innantómt raus.  Ég hef nú séð sterkari rökstuðning.

Rökstuðningur Leifs:  Eins og ég nefndi í fyrri pistli mínum, þá fylgir þróun launavísitölu alltaf verðlagsvísitölu til langs tíma.

Villa í rökstuðningi:  Það er einmitt þetta litla orð "fylgir" sem skiptir hér sköpum.  Launaþróun kemur alltaf á eftir.  Þar til búið er að leiðrétta launin að verðlagsvísitölu, þá er forsendubresturinn fyrir hendi.  Leifur viðurkennir að forsendubresturinn hafi hingað til verið leystur með hækkun launa.  En núna kemur fram hugmynd um, að í staðinn fyrir að velta leiðréttingunni út í verðlagið og launaumslagið, þá sé hækkunin einfaldlega tekin til baka.  Ég sé ekki neina ranghugmynd  í  þessu atriði.  Staðreyndin er að forsendubrestur hefur orðið vegna stökkbreyst höfuðstóls

3.  Úrræði sem i boði eru hjá umboðsmanni skuldara lengja einungis í hengingarólinni.

Fyrst vil ég segja, að ekki má takmarka þessa fullyrðingu bara við umboðsmann skuldara, þar sem hans úrræði byggja að umtalsverðu leiti á því að flýta hinu óumflýjanlega.  Fullyrðingin sem slík er því röng.  Það sem aftur hefur verið satt er að greiðslujöfnun, sértæk skuldaaðlögun og frysting lán lengi einungis hengingarólina.  En ég ætla að láta sem Leifur hafi ætlað að fjalla um þetta.

Rökstuðningur Leifs:   Flest þau úrræði sem í boði eru hjá umboðsmanni skuldara miða að því að minnka tímabundið afborganir af lánum, án þess að hrófla við höfuðstólnum og fresta nauðungauppboðum.

Villa í rökstuðningi:  Þarf ég að segja eitthvað meira.  Hann byrjar á því að koma með rökstuðning fyrir atriðinu og er vart hægt að gera það betur.

Rökstuðningur Leifs:  Þess vegna eru það hagsmunir lántakenda að nýta sér úrræði umboðsmanns skuldara, uns kauplags- og verðlagsþróun ná jafnvægi.

Villa í rökstuðningi:  Þetta er sama villa og að ofan, þ.e. hann viðurkennir að verið er að lengja í hengingarólinni, en svo á fólk að sjá til hvort launaþróun komandi ára bjargi.

4.  Fáir hafa leitað til umboðsmanns skuldara vegna þess að úrræðin eru niðurlægjandi fyrir þá sem þangað leita

Ég kannast að vísu ekki við að þetta tengist umræðunni um flata leiðréttingu lána umfram aðra leiðréttingu lána.  Satt best að segja, þá er þetta nákvæmlega ekkert tengt kröfum t.d. Hagsmunasamtaka heimilanna, og því ætla ég ekki að taka þetta með hér.

5.  Bankarnir og lánastofnanir geta vel afskrifað húsnæðislán þar sem þau voru flutt úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju með miklum afslætti. Það verða því bara ólánsamir erlendir lánadrottnar gömlu bankanna sem tapa.

Rökstuðningur Leifs:  Eignirnar í nýju bönkunum voru metnar með það fyrir augum að starfsfólk bankanna myndi hámarka verðmæti eignasafnsins. Með því að ríkisstjórnin tæki ákvörðun um flata niðurfærslu skulda, væri hún að taka fram fyrir hendur þeirra sem vinna við að hámarka verðmæti eignasafnsins og að sjálfsögðu myndi slíkt leiða til taps bankana. Eins og bent hefur verið á myndi einungis lítill hluti þeirra skuldara sem eru á leið í gjaldþrot ná að forða sér frá því með 15,5% flatri niðurfærslu höfuðstóls.

Það er í raun ótrúlegt að nokkrum skuli hafa dottið það í hug að Íslendingar hefðu komist upp með það að mynda nýja banka á grunni þeirra föllnu og færa hærri eignir en skuldir yfir á kostnað erlenda kröfuhafa gömlu bankanna.

Villa í rökstuðningi:  Ég veit eiginlega ekki hvar er best að byrja.  Í fyrsta lagi, þá er kröfuvirði lánasafnanna sem flutt var yfir (skv. AGS) 3.700 ma.kr. en bókfært virði 1.700 ma.kr.  Í öðru lagi, þá segir AGS að óvirki hluti safnanna, þ.e. sá sem ekki er verið að greiða af, sé annars vegar 63% og hins vegar 45%.  Helsta markmið bankanna er því að færa sem mest af lánum úr óvirkum hluta í virkan hluta lánasafna sinna.  Fjölmargir aðilar eru ekki með greiðslugetu til að borga af 100% af láninu sínu en gætu greitt af 60 - 90% af því.  Lækkun höfuðstóls um 15,5% mun því fjölga talsvert í hópi þeirra sem geta greitt af lánunum sínum, þó svo að ennþá verði margir sem ekki hafa greiðslugetu.  Í öðru lagi, hefur aldrei verið ætlast til þess að ríkið gripi fram í fyrir hendur fjármálafyrirtækja.  Verið er að óska eftir samningum við fjármálafyrirtækin um þetta og eina ástæðan fyrir aðkomu ríkisins er að það er eigandi Íbúðalánasjóðs.

Varðandi að eitthvað sé á kostnað erlendra kröfuhafa, þá er ég orðinn ákaflega þreyttur á meðvirkni manna með þeim.  Þegar erlendir bankar ákváðu að lána íslenskum bönkum, þá fór slík lánsumsókn alveg örugglega í gegn um fastmótað ferli hjá hinum erlenda aðila.  Þetta ferli er kennt við áhættustýringu.  Mér sem lántaka á Íslandi kemur nákvæmlega ekkert við þó áhættustýring hins erlenda aðila hafi klikkað.  Það er hans mál en ekki mitt.  Hvers vegna eru menn að verja hagsmuni erlendra kröfuhafa, þegar tjón þeirra felst í þeirra mistökum?  Þeir ákváðu af fúsum og frjálsum vilja að veita þessi lán og verða að bera afleiðingar þeirrar ákvörðunar.  Síðan held ég, að hagsmunum erlendra kröfuhafa sé betur borgið með því að gæði lánasafna aukist.  Með því að fjölga virkum lánum á kostnað óvirkra.  Með því að bæta rekstrarhæfi fjármálafyrirtækjanna.

Það er staðreynd að lán voru flutt með miklum afslætti á milli gömlu og nýju bankanna.  Hvað er rangt við það, að sá afsláttur renni til lántaka?  AGS vill að það sé gert og vitna ég í þau orð Marks Flanagans frá í desember í fyrra um að AGS vilji sjá viðeigandi skuldalækkun hjá lífvænlegum lántökum.  AGS var ekki að tala um þá verst settu, heldur þá sem eru í hópunum þar fyrir ofan.

En þess fyrir utan, þá á þetta atriði við 8 af þeim níu leiðum sem voru skoðaðar og ég spyr mig, af hverju á þessi "ranghugmynd" bara við þessa?

6.  Bankarnir eiga að taka upp flata niðurfærslu lána upp á sitt einsdæmi, því það eykur verðmæti eignasafns þeirra (þeir fá meira út úr útlánum sínum).

Rökstuðningur Leifs:   Með þessari fullyrðingu er verið að gera ráð fyrir því að bankastarfsmenn sem vinna að því að hámarka gæði eignasafns síns séu annað hvort heimskir eða illmenni. Skynsamur maður myndi að sjálfsögðu álykta að þeir væru hvorugt. Ef almenn niðurfærsla lána myndi auka verðmæti eignasafns bankans þá myndi hann að sjálfsögðu leita þeirrar leiðar. Það er því ótækt að áætla annað en það ágæta fólk sem vinnur í bönkunum og Íbúðarlánasjóði hafi það að markmið að hámarka gæði eignasafnsins frekar en að hámarka vesæld skuldara.

Villa í rökstuðningi:   Fyrst vil ég nefna, að bankarnir eru á fullu við að færa niður lán einmitt á þessari forsendu, þ.e. að gæði lánasafna aukist.  Hagsmunasamtök heimilanna vilja að þessi niðurfærsla, sem við köllum leiðréttingu, sé gerð fyrst með almennum aðgerðum og síðan sértækum vegna þess að sértækar aðgerðir eru að taka of langan tíma og erfiðlega gengur að fá alla með í aðgerðina.  Við viljum ekki að það skipti máli hjá hvaða fjármálastofnun viðkomandi lántaki er, hann eigi að fá mjög líka eða sem næst eins meðhöndlun.  Með fullri virðingu fyrir þeim mörgu starfsmönnum bankanna sem eru að vinna af heilindum að málefnum lántaka, þá eru á meðal þeirra svartir sauðir.  Það rigna yfir okkur hjá Hagsmunasamtökum heimilanna og hvert og eitt okkar persónulega alls konar málum, þar sem maður getur ekki annað en velt fyrir sér hugarfari þess starfsmanns fjármálastofnunar sem á í hlut.  Án þess að nefna fyrirtækið á nafn, þá er eitt bílalánafyrirtæki oftast nefnt þegar kemur að ósvífni starfsfólks.  Einn banki er oftast nefndur, þegar kemur að úrræðaleysi eða viljaleysi.  Annar banki heldur að best sé að svara ekki fyrirspurnum.  Veistu hvað, Leifur, kannski hittist þér rétt á munn, en mörgum finnst a.m.k. ákaflega furðulegt að eiga í samskiptum við sama fólkið áfram.

7.  Niðurstaða

Orð Leifs:  Það er mikið fagnaðarefni að sífellt fækkar í þeim hópi stjórnmálamanna sem tala fyrir almennri niðurfærslu skulda, enda slíkt algjört glapræði og óþarft umfram þau úrræði sem þegar hafa verið í boði. Allt tal um almenna niðurfærslu skulda er ekkert nema argasti kommúnismi með ósanngjarnri eignatilfærslu, þar sem eignarrétturinn er látinn fara lönd og leið.

Villa í orðum:  Það er engin eignatilfærsla að eiga sér stað frekar en að það hafi verið eignatilfærsla í hina áttina áður.  Hér voru framdir glæpir gegn þjóðinni.  Hækkun lánanna er illa fenginn gróði af þeim glæpum. 

Mín lokaorð

Ég bíð ekki í það, ef þetta verður rökstuðningur hagfræðinga framtíðarinnar.  Hvergi í allri grein Leifs er reynt að tengja hagfræðikenningar eða bara skoðanir mikilsvirtra hagfræðinga við umræðuna.  Við höfum fengið ókeypis álit margra þekktra erlendra hagfræðinga, sem segja nákvæmlega það sama og við hjá HH.  Almenn leiðrétting á borð við það sem við segjum  er það eina rétta.  Hagfræðingar Seðlabanka Íslands hvöttu til þess í september 2009 að hraðað yrði aðgerðum við endurskipulagningu skulda heimilanna.  Í minni næstu færslu mun ég koma með mörg af þeim rökum sem hagfræðinemanum yfirsáust í sínum skrifum.  Síðan verð ég að viðurkenna að þau frjálshyggjuviðhorf sem koma fram í skrifum hans hélt ég að hefðu verið jörðuð í kjölfar hrunsins.  Það er búið að afsanna þá kenningu frjálshyggjunnar að markaðnum sé best treystandi til að framkvæma hlutina.  Ástæðan er ekki hugmyndafræðileg heldur snýst hún um mannlegt eðli og er eftirfarandi:

Þegar menn þurfa að velja á milli stundargróða og eiginhagsmuna annars vegar og langtíma hagnaðar og hagsmuna heildarinnar, þá velja þeir það fyrra, þó allar líkur séu á að það sé leiðin til glötunar.


Eru bætur of háar eða launin of lág?

Vilhjálmur Egilsson getur stundum gengið fram af manni.  Í fréttum á Stöð 2 í kvöld segir hann vandamál að bætur séu orðnar of háar og fólk telji hag sínum borgið með að vera á bótum frekar en að þiggja lágmarkslaun.  Nú skora ég á Vilhjálm að lifa á lægstu launum í svo sem 6 mánuði og segja okkur svo hvort vandmálið sé að bætur séu of háar eða launin of lág.

Staðreyndir tala sínu máli.  Af þeim ríflega 72.000 fjölskyldum sem eiga sitt húsnæði (eða skulum við segja keyptu sér húsnæði, hvað sem þær eiga í því í dag) og eru með húsnæðislán, þá kemur í ljós að á bilinu 3.650 til 7.100 eiga ekki fyrir neyslu sinni, hvað þá að geta greitt upp í lán sín.  Við erum að tala 5 - 10% fjölskyldna úr þessum hópi.  Skoðun sérfræðingahóps forsætisráðuneytisins náði ekki til fólks á leigumarkaði og því má búast við að mun fleiri séu í þessari stöðu.

Mér finnst að forsvarsmenn samtaka á atvinnumarkaði eigi að forðast að tala um að bætur séu of háar.  Raunar finnst mér skammarlegt að heyra menn segja slíkt.  Vilji menn koma slíkri skoðun á framfæri, þá er hægt að gera það með þeim hætti að segja að bil milli bóta og lægstu launa sé ekki nægjanlegt.  En á meðan hvorki bætur né lægstu laun duga fjölskyldum til framfærslu og þær þurfi í stórum stíl að leita til hjálparstofnana eftir matargjöfum, fatagjöfum, jólaskreytingum og jafnvel jólaklippingu, þá er byrjað á öfugum enda að tala um að bætur séu of háar.


Fróðlegt verður að sjá þessa útreikninga

Ég ætla ekki í augnablikinu að bera brigður á þessa útreikninga, en skora á fjármálaráðuneytið að leggja fram upplýsingar sem styðja þessa útreikninga.  Vil ég í þessu samhengi benda á, að Hæstiréttur hefur þegar úrskurðað gengistryggingu ólöglega.  Það þýðir að lán sem falla undir fordæmisgildi dóma Hæstaréttar eiga ekki að telja til þess kostnaðar, sem hér um ræðir.  Vissulega segir í frumvarpinu:

Fjármálaeftirlitið gerir ráð fyrir að vænt tap lánastofnana vegna gengistryggðra bíla- og íbúðalána geti orðið allt að 108 milljarðar kr. og þar af eru 50 milljarðar kr. vegna einstaklinga og 58 milljarðar kr. vegna fyrirtækja.

(Áhugavert er að í fréttinni segir að fjármálaráðuneytið áætli þetta "tap", en í frumvarpinu segir að það sé fjármálaeftirlitið.)

Svo má spyrja sig hvort áhrif lögbrota fjármálafyrirtækjanna teljist "tap".  Er illa fenginn hagnaður sem þarf að skila tap?  Það skiptir engu hvort menn gerðu það viljandi eða ekki, lögbrot er lögbrot og ágóða af lögbroti á að skila.

Mér finnst alveg lágmark að menn skilji að áhrif dóma Hæstaréttar, þar sem fjármálafyrirtækjunum er bent á að landslög gildi líka um þau, og áhrifin af frumvarpinu.  Þau áhrif taka nefnilega bara til þeirra lána sem ekki falla undir fordæmisgildi dóma Hæstaréttar.  Að skella hér fram tölu, sem þessari, er óábyrgt og eingöngu gert til að mála myndina svartari eða mikla þá leiðréttingu sem verið er að gera.  Afleiðingar lögbrota fjármálafyrirtækjanna á  nákvæmlega ekkert erindi inn í skýringar eða athugasemdir með frumvarpi.  Nær væri að slíkt efni væri í innihaldi kæru Fjármálaeftirlitsins til lögreglu.

Áhugavert er síðan að bera saman þessar tölur, þ.e. 108 milljarða, og tölur FME frá því í lok júlí.  Þá fullyrti FME að þessi sömu áhrif væru rúmlega 134 milljarðar eða um 25% hærri.  Þá reiknaði FME líka út að kostnaður lántaka af því að farin væri leið frumvarpsins í staðinn fyrir að samningsvextir giltu væri rúmlega 213 milljarðar.  Mínir útreikningar sýna aftur að hér er líklegast um mjög mikið ofmat að ræða og hljóti að ganga út frá því að LIBOR vextir verði lágir um allan aldur í samanburði óverðtryggða íslenska vexti og síðan virðast menn gleyma vaxtaálaginu sem leggst ofan á LIBOR vexti.  

Ég get ekki annað en furðað mig á því að nær engir útreikningar fylgja frumvarpinu.  Þeir litlu útreikningar sem eru birt koma án skýringa.  Nauðsynlegt er að þeir séu bæði skýrðir og ekki síður að gerð sé næmnigreining á þeim.  Hvernig breytast þessar tölur miðað við tilteknar vaxtaforsendur, bæði LIBOR vaxta og seðlabankavaxta, er eitthvað sem er mikilvægt að vita.  Hvaða gengisþróun eru menn að miða við, þar sem hún er lykilstærð í þessu.

Ég hef annars ekki kynnt mér efni frumvarpsins nægilega vel til að geta sagt til um öll áhrif þess á gengisbundin lán.  Vil ég þó koma þrennu á framfæri:

1.  Ég tel mjög mikilvægt að uppgjör mála verði einfaldað eins og kostur er m.a. með því að láta gjalddaga fram til 1.1.2008 eða jafnvel 1.4.2008 halda sér, en láta endurreikninginn bara ná til gjalddaga eftir það.  Ástæðan er sú, að með því er ekki verið að taka upp gjalddagagreiðslur sem lántaki greiddi í samræmi við greiðslukröfu.  Það er óréttlátt gagnvart greiðanda að vaxtareikna eigi upp á nýtt langt aftur í tímann og síðan dagvaxtareikna mismuninn á raungreiðslu og útreiknaðri greiðslu, en sá mismunur er oftast greiðanda í óhag, þ.e. að um vangreiðslu hafi verið að ræða.

2.  Skora ég á Alþingi, að leita álits Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) á þessu máli.  Ég held að Alþingi megi ekki við því að afgreiða frá sér lög, sem síðar kæmi í ljós að stönguðust á við tilskipanir sem falla undir EES samninginn.  Ef ESA gefur grænt ljós á frumvarpið, þá er það bara hið besta mál og þeirri lagaóvissu er eytt.  Komi ESA með einhverja aðra skoðun, þá getur Alþingi tekið á því áður en frumvarpið verður að lögum.

3.  Ég tel að mjög mikilvægt sé að allur vafi sé tekinn af um hvernig reikna eigi vexti af lánum.  Í þeim gögnum sem lögð voru fyrir Hæstarétt 6. september og voru notuð í dómnum sem kveðinn var upp 16. september voru vextir á mánaðarlegum gjalddagagreiðslum fundnir með því að taka gildandi lægstu óverðtryggða vexti Seðlabanka og finna tólfturót af ársvöxtum, en í útreikningum sem ég hef séð frá fjölmörgum fjármálafyrirtækjum er deilt í 12 í ársvextina.  Á þessu tvennu er talsverður munur, eins og ég sýndi fram á í færslu hér um daginn.  Í mínum huga er rétta aðferðin að finna tólfturótina og margfalda með henni og rökstyð ég það með því haldist vextir óbreyttir í 12 mánuði, þá eigi margföldun á vöxtum allra tólf mánaðanna að gefa ársvextina.  Dæmi:  Vextir eru 12,7%, tólftarótin er 1%.  Þegar ég hef (1+0,01) upp í tólftaveldi, þá fæ ég 12,7% vexti.  Ef ég aftur deili í með 12 og hef (1 + 0,127/12) upp í tólftaveldi, þá fæ ég 13,5%.  Munurinn er 6,3% (þ.e. 13,5/12,7 = 1,063) sem eru þá ofreiknaðir vextir.  En þetta er kannski of tæknilegt mál fyrir flesta.


mbl.is 108 milljarða tap banka vegna myntkörfulána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þessi frétt, hvað mig áhrærir, á sér enga stoð í raunveruleikanum

Ég skil ekki svona frétt, þar sem blaðamaður bar hana undir mig í gær og ég þvertók fyrir að hún væri rétt.  Ég sagði mig aldrei þessu starfi, þó svo að ég áskilji mér að hafa sjálfstæðar skoðanir.  Þegar ég bar spurningu blaðamanns undir Sigurð Snævarr, þá kannaðist hann ekki við að hafa sagt að ég hafi sagt frá vinnu hópsins.

Ég skil ekki hvers vegna blaðamaður var að hafa fyrir því að bera "fréttina" undir mig, ef hann ætlaði ekki að taka mark á orðum mínum.

Sérálit mitt hefur fyrst og fremst með það að gera að ég vildi sjá meira í skýrslu hópsins.  Ég stend að baki þeim útreikningum sem eru í aðalskýrslu hópsins, en geri athugasemd við framfærsluviðmið og nokkur smáatriði, sem ég fjalla um í mínu séráliti.


mbl.is Hefði tekið mánuði eða ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hækkun vaxtabóta er smáskammtalækning sem litlu breytir

Ég er ekki viss um að Ólöf Nordal átti sig á þeirri gildru sem felst í hugmyndinni um breytingar á vaxtabótum.  Vissulega á að hækka þær um 2,1 milljarð eða svo og þær verða heilir 13,1 milljarðar kr. eftir breytingu eða sem svarar til innan við 13% af vöxtum og verðbótum þessa árs.  Þá er eftir að bæta við þessa tölu afborgunum lánanna.  En það er ekki megin galdurinn við tillöguna.  Til að átta sig á trixinu, þá er rétt að birta töflu úr skýrslunni:

 

Núverandi vaxtabætur

Tillaga um breyttar bætur

 

 

Kostnaðar-

auki

 

Fjöldi

Fjárhæð m.kr.

Fjöldi

Fjárhæð m.kr.

Einhleypir

14.077

2.712

12.394

3.796

1.084

Einstæðir foreldrar

5.684

1.469

5.349

2.436

967

Hjón/sambýlisfólk

24.107

6.793

18.781

6.878

85

Alls

43.868

10.974

36.524

13.110

2.136

Núverandi vaxtabótakerfi er ákaflega fjandsamlegt hjónum og sambýlisfólki en hyglir einhleypum.  Ástæðan er einfaldlega að tekjuviðmið þess eru röng og einnig er vangeta þess til að taka tillit til fjölskyldustærðar.  Einhleypur einstaklingur fær þannig hlutfallslega mun hærri bætur en samsvarar þeim markmiðum vaxtabótakerfins að jafna stöðu fólks. 

Höfum í huga að alls töldu rúmlega 28.000 einstaklingar (einhleypir eða einstæðir foreldrar) fram fasteignaskuldir til vaxtabóta.  Á móti töldur 44.249 hjón/sambýlisfólk fram slíkar skuldir.  Almennt virkar það þannig, að tveir eða fleiri einstaklingar þurfa stærra húsnæði en einn.  Þess vegna kostar nauðsynlegt húsnæði fyrir hjón/sambýlisfólk og einstæðaforeldra meira en húsnæði sem er einstaklingi nauðsynlegt.  Mér finnst það öfugsnúið að verið sé að leggja til breytingar á vaxtabótakerfi, sem eykur vaxtabætur einhleypinga tæp 40% meðan vaxtabætur hjóna/sambýlisfólks hækka um 1,25%.  Þessu til viðbótar á að fækka þeim hjónum/sambýlisfólki um rúm 22% sem fá vaxtabætur.

Ég hef áður lagt til þær breytingar á vaxtabótakerfinu að það taki tillit til fjölskyldustærðar.  Þannig á 4 manna fjölskylda (sama hvort hún er 1 fullorðinn og þrjú börn eða tveir fullorðnir og tvö börn) að falla undir sömu reglu um vaxtabætur.  Vissulega eru margir skráðir einhleypir sem eru með börn á sínu framfæri, en það er enginn vandi að taka tillit til slíks í okkar nútíma tölvuumhverfi.  En ég get ekki samþykkt að einhleypir eigi að fá, mér liggur við að segja, forgang á aðra hópa vegna þess að þeir þurfa minnstar tekjur til að framfleyta sínu heimili samanborið við aðrar heimilisgerðir.

En ég á eftir að nefna trixið.  Fækka á þeim sem fá vaxtabætur um  ríflega 7.300 eða 16,7%.  Hvert á þetta fólk að fara til að bæta sér upp tapaðar vaxtabætur?  Spyr sá sem ekki veit.


mbl.is Mikilvægir útreikningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rangur fréttaflutningur RÚV - Ruglar saman skuldastöðu og greiðsluvanda

Vegna fréttar á RÚV um að tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna nýtist bara 1.500 heimilum í skuldavanda, þá vil ég taka eftirfarandi fram:

Tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna nýtast yfir 20.000 heimilum í skuldavanda, en bæta stöðu um 1.500 heimilum í alvarlegum greiðsluvanda.  Á þessu er mikill munur.  Aðeins ein önnur tillaga nýtist jafn mörgum heimilum í skuldavanda, þ.e. tillaga um að lækka skuldir að 100% af fasteignamati eigna, og aðeins tvær nýtast fleirum í alvarlegum greiðsluvanda, þ.e. sértæk skuldaaðlögun sem þegar er boðið upp á og lækkun vaxta í 3%, en hún er jafnframt dýrasta tillagan sem metin var.

Það er síðan annað mál hvort við viljum hjálpa öllum sem eru í skuldavanda, þar sem í þeim hópi er mjög stór hópur, sem er hreinlega með húsnæðisskuldir upp á punt eða vegna þess að það var hagstæðara fyrir viðkomandi að taka húsnæðislán en að flytja peninga sína úr öðrum fjárfestingum!  Yfir 3.500 fjölskyldur eru í þessari stöðu.

Því er einnig haldið fram að sértæk skuldaaðlögun muni nýtast best, en sértæk skuldaaðlögun er ekkert annað en eignaupptaka.  Hún gengur út á að fólk losi sig við eignir til að eiga fyrir stökkbreyttum skuldum.  Ekki á leiðrétta neitt fyrr en búið er að hafa af fólki flestar eignir á niðursettu verði.  Viljum við virkilega svipta tug þúsundir manna afrakstri ævistarfs síns?  Ef svo er, þá vitum við jafnframt að landflótti mun stóraukast og kreppan mun dýpka.  Verði þeim að góðu sem vilja þetta réttlæti.

Í færslu hér um daginn sagði ég að engin ein leið bætti stöðu allra.  Ég hef ekki skipt um skoðun. Samkvæmt gögnum sem nefndin vann með eiga nokkur þúsund heimil ekki fyrir lágmarksneyslu samkvæmt neysluviðmiðum.  Einhverjir í þessum hópi eru neyslugrennri en viðmiðin segja til um og er það bara mjög gott, en aðrir eru upp á matargjafir eða náð og miskunn annarra komnir.  Á bilinu 10.700 til 17.700 fjölskyldur eiga ekki fyrir reiknuðum afborgunum fasteignalána, hvað þá afborgunum annarra skulda.  (Lægri talan miðast við lægra neysluviðmið.)  Þær tillögur sem skoðaðar voru munu áfram skilja stærstan hluta þessa hóps eftir á köldum klaka.  Hans bíður lítið annað en gjaldþrot og röðin eftir matargjöfum.

Stjórnvöld verða að vakna til lífsins um alvarlegan vanda margra heimila.  Hvert er það þjóðfélag sem við ætlum að bjóða börnunum okkar?


mbl.is 10.700 heimili í greiðsluvanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samkvæmt þessu má auglýsa vef um kynlífsþjónustu

Hann er merkilegur rökstuðningur lögmannsins, að auglýsa megi vefsvæði sem inniheldur þjónustu sem er bönnuð.  Samkvæmt þessu er heimilt að auglýsa vef, þar sem boðið upp á kynlífsþjónustu, þó svo að slík þjónusta sé bönnuð með lögum.  Það er jú bara verið að auglýsa vefinn!

Menn geta ekki skilið á milli vefsvæðis og þjónustunnar sem vefsvæðið er ætlað að auglýsa eða kynna.  Vefsvæðið er ekkert án þjónustunnar og þjónustan ekkert án vefsvæðisins.  Ef vefsvæðið innihéldi bara almennar upplýsingar um leiki, þ.e. væri fræðsluvefur, án þess að hvetja til þátttöku í leikjunum eða benda á staði nema með almennum hætti, þar sem hægt að stunda leikina, þá lítur málið öðruvísi við. En svo er ekki.  Fari maður inn á umrætt vefsvæði, þá blasa við tenglar inn á tungumálasvæði með leikjum.  Efst á síðunni segir:  "Welcome to poker, betting, casino and more thrills - what's yours?"  Vefurinn gengur sem sagt út á að auglýsa þjónustu sem bannað er að auglýsa hér á landi með þessum hætti.

Ég tek það fram, að ég er á engan hátt að taka afstöðu til þess ágreinings sem felst í banni við að auglýsa þá þjónustu sem umræddur vefur býður upp á, enda hef ég að lifibrauði að hjálpa slíkum fyrirtækjum sem og öðrum að halda starfsemi sinni öruggri.


mbl.is Ekki happdrætti heldur vefur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin ein leið bjargar öllum - Tillögur HH skjótvirkar og skilvirkar

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, á sér enga líka þegar kemur að röksemdafærslu.  Í frétt á Stöð 2 í gærkvöldi og Silfri Egils í gær þá sagði hann að millistéttin myndi þurrkast út, ef fara á í almenna niðurfærslu skulda, vegna hærri skatta.  Mér finnst að ráðherra eigi að kynna sér málin betur áður en hann fer með svona málflutning í fjölmiðla.

Staðreyndir málsins er að hin svo kallaða millistétt er nánast gjaldþrota eða hefur orðið fyrir mjög grófri eignaupptöku í skjóli þriggja ríkisstjórna sem Samfylkingin hefur setið í.  Verði þessi eignaupptaka ekki leiðrétt, þá verður nánast engin millistétt eftir í landinu.  Þegar eru læknar teknir að flýja land, verkfræðingar eru líka að fara og sama á við um arkitekta.  Heilu fyrirtækin eru að flytja starfsemi sína úr landi.  Það er búið að þurrka millistéttina út.

Ég hef setið á undanförnum vikum í vinnuhópi á vegum forsætisráðuneytisins.  Verði farið í skera alla yfirskuldsetningu af húsnæðisskuldum heimila landsins, þá eru það 125 milljarðar samkvæmt síðasta skattframtali.  Nýtt fasteignamat tekur gildi í desember og þá hækkar þessi tala í 175 milljarða.  Bankarnir hafa efni á þessu, en ekki almennri leiðréttingu upp á 186 milljarða!  Sko það að færa yfirskuldsetningu niður í 100% af fasteignamati er almenn niðurfærsla.  Úps, ég gleymdi því að bankarnir lögðu aðra leiðina til, en hinn illu Hagsmunasamtök heimilanna hina.

Annað dæmi um dæmalausan rökstuðning ráðherra:  Hann er að undirbúa frumvarp um að gengisbundnum húsnæðislánum verði breytt í verðtryggð lán.  Ég er búinn að reikna út hvaða áhrif þetta hefur og skoðum það:

Leið

Greiðslur frá lántökudegi

Greiðslur 1.1.08 - 30.9.2010

Staða 1.1.2008

Áætluð staða 30.9.2010

1. Gengisbundin lán

33,2 ma.kr.

26,5 ma.kr.

54,1 ma.kr.

116 ma.kr.

2. Óverðtryggð lán

43,3 ma.kr.

31,2 ma.kr.

50,1 ma.kr.

71,8 ma.kr.

3. Verðtryggð lán

29,0 ma.kr.

22,7 ma.kr.

53,8 ma.kr.

80,6 ma.kr.

4. Leið HH

27,1 ma.kr.

20,3 ma.kr.

54,1 ma.kr.

68,6 ma.kr.

5. Gtr. til 1.1.08 og verðtryggt eftir það

28,2 ma.kr.

21,5 ma.kr.

54,1 ma.kr.

81,4 ma. kr.

Skoðum áhrifin af frumvarpi Árna Páls.  Gengisbundin lán stóðu í 54,1 milljarði 1.1.2008, en voru í 116 milljörðum 30.9. sl.  Frumvarp Árna Páls gerir ráð fyrir (samkvæmt mínum útreikningum) að höfuðstóll lánanna lækki í 80,6 milljarða eða um 35,4 milljarða, ef þeim verður breytt í verðtryggð lán.  Það er þó mismunandi eftir lánum hvort einstakir lántakar skuldi vegna vangreiddra gjalddaga eða eigi inni vegna ofgreiddra. Sé lánunum breytt í óverðtryggð lán, fer höfuðstóllin tæplega 72 milljarða, en greiðslubyrðin hefur á móti aukist verulega.  Þannig að Árni Páll er að undirbúa frumvarp sem gæti lækkað höfuðstól gengisbundinna lána um 35 - 45 milljarða í almennri aðgerð.  Heitir þetta eitthvað annað en almenn skuldaleiðrétting?  Þegar Hagsmunasamtök heimilanna leggja til almenna aðgerð sem lækkar höfuðstól lánanna um 48 milljarða, þá er það ógn við millistéttina í landinu.  Þú getur gert betur en þetta, Árni Páll.  3 milljarðar eru ekki munurinn á milli feigs og ófeigs fyrir millistéttina í landinu.

Hluti þessarar upphæðar, sem Árni Páll ætlar að lækka með lögum, fellur vissulega undir 175 milljarðana sem áður voru nefndir.  Gefum okkur að það sé 3/4 af upphæðinni, þ.e.  26 til 34 milljarðar.  Þá lækkar umframupphæðin úr 175 milljörðum í 141 - 149 milljarða.  Tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna gera, samkvæmt álíka grófum útreikningi, ráð fyrir að önnur lán en gengisbundin lán lækki um 186 milljarða, þ.e. 37 - 45 milljörðum meira en Árni Páll (og bankarnir) telja að fjármálakerfið þoli.  Að viðbættum 3 milljörðunum frá því áðan, þá gerir þetta 40 - 48 milljarða.  Tekið skal fram að HH hafa sagt að hægt sé að útfæra tillögur samtakanna með skurði á tekjur og eignir, en það er því miður mín tilfinning, að enginn vilji sé til þess hjá stjórnvöldum og bönkunum.  Ekki má skerða möguleika þeirra sem eru með íbúðalán upp á punt eða vegna þess að það er hagkvæmara fyrir þá að skulda þessi lán, en að nota aðrar eigur sínar til að greiða fyrir húsbygginguna.  Svona skurður mun lækka upphæðina úr 186 milljörðum í 110 -125 milljarða, en þá munu þeir einstaklingar sem hafa ráðstöfunartekjur yfir 5 m.kr. á ári og þau hjón sem hafa yfir 8 m.kr. í ráðstöfunartekjur á ári ekki fá neina leiðréttingu (gert er ráð fyrir að mörkin hækki um 660 þús.kr. fyrir hvert barn á heimili).

Það er rétt hjá ráðherra að almenn niðurfærsla samkvæmt tillögum HH verður ekki nóg fyrir alla, en það á líka við um niðurfærslu að eignarmörkum.  Stór hluti lántaka hefur ekki efni á að greiða af lánum sem eru langt undir fasteignamati eignarinnar.  Aftur eru bankarnir tilbúnir að bera þann kostnað.  Ég hef ekki hugmynd um hver kostnaðurinn er, enda skiptir nákvæm tala ekki máli.  Milli 8 - 17 þúsund fjölskyldur eiga ekki fyrir almennri framfærslu, hvað þá afborgun af húsnæði eða leigu.  Heldur Árni Páll að skuldaaðlögun niður að 110% skipti þetta fólk máli eða breyting á gengisbundnu láni í verðtryggt lán.  Af hverju dettur Árna Páli og Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, að til sé einhver ein leið, sem bjargar hinum verst settu um leið og hún bjargar stóreignar- og hátekjufólkinu úr snörunni.  Hún er ekki til.  Leið Hagsmunasamtaka heimilanna er aftur skilvirkasta og skjótvirkasta leiðin til að fækka í hópi þeirra sem þarf að hjálpa með sértækum hætti. Og annað: Þær eru ekki dýrasta útfærslan á leiðréttingu á skuldum heimilanna.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband