Leita í fréttum mbl.is

Mat á áhrifum tillögu HH - úr séráliti mínu

Hér fyrir neðan birti ég kafla 10 úr séráliti mínu, en álitið í heild hef ég hengt við sem pdf-skjal.

10      Mat á áhrifum

Sérfræðingahópurinn átti að meta áhrif aðgerða (leiða) á eftirfarandi þætti:

  • Áhrif á efnahagslíf og atvinnustig
  • Áhrif á ríkissjóð í bráð og lengd.
  • Áhrif á eigna- og tekjudreifingu landsmanna.
  • Áhrif á greiðslubyrði lántaka
  • Áhrif á stöðu lífeyrissjóða í bráð og lengd.
  • Áhrif á fjárhag Íbúðalánasjóð.
  • Áhrif á fjárhag banka og annarra lánastofnana.
  • Áhrif á efnahagslega hvata einstaklinga og lánastofnana.
  • Áhrif á framtíðarskipan og fjármögnun íbúðarlána.

Ekki tókst að ljúka þeirri vinnu.  Þó er ljóst að öll niðurfærsla lána mun hafa jákvæð áhrif á efnahagslífið ef heimilin nota þann pening, sem annars hefði farið í greiðslu lána, til aukinnar neyslu.  Misjafnt er eftir leiðum hve mikil lækkun á greiðslubyrði kemur fram.  Miðað við greiðslubyrði upp á 5.000 kr. á hverja milljón á mánuði, þá hefur 100 milljarða lækkun höfuðstóls í för með sér 500 milljóna kr. lækkun afborgana.  Ekki er sjálfgefið að allur sá peningur fari í neyslu, en geri hann það getur það þýtt allt að 100 m.kr. í hærri virðisaukaskatt til ríkisins á mánuði eða 1,2 milljarða kr. á ári.  Ruðningsáhrif 6 milljarða á ári geta verið umtalsverð, en höfundur álitsins hefur ekki þekkingu til að meta þau.

Áhrifin á ríkissjóð í bráð og lengd veltur á því hvort hann þurfi að hlaupa undir bagga með ÍLS eða ekki.

Áhrifin á eignadreifingu landsmanna geta ekki orðið nema jákvæð, þar sem fleiri fjölskyldur geta haldið heimilum sínum.  Því fleiri sem njóta aðgerðanna, því jákvæðari verða áhrifin.  Ruðningsáhrif aukinnar neyslu munu verða til þess að störfum fjölgar, sem styrkir tekjur heimilanna.  Hvort það verði til þess að tekjudreifing aukist eða minnki er erfitt að segja.  Tekjutenging í breyttum tillögum HH mun auka á jöfnuð í þjóðfélaginu.

Lækkun höfuðstóls lána kemur strax fram í lægri greiðslubyrði.  Þar sem tillögur HH ná til allra lántaka, þá breytist greiðslubyrði þeirra allra.  Það á líka við um niðurfærslu miðað við upphaflegan höfuðstól og vaxtalækkun.

Annað sem ekki má gleyma eru eignirnar sem verið er að verja með hverri aðgerð.  Ekkert fer á milli mála að eftir því sem aðgerð er víðtækari, þá er verið aðstoða fleiri við að halda eignum sínum.  Fasteignamat þess húsnæðis sem er með áhvílandi fasteignalán nemur tæplega 1.900 milljörðum, breyttar tillögur HH ná til eigna að verðmati um 1.300 milljarðar.

Staða lífeyrissjóðanna er mjög völt um þessar mundir.  Gæði eignasafna sjóðanna hafa versna mjög mikið og á eftir að leysa úr mörgum málum vegna þess.  Húsnæðislán sjóðanna hafa tekið á sig högg eins og aðrar eignir.  Sum lán hafa misst veð eða eru á skertu veði.  Almenn niðurfærsla á borð við tillögur HH, auka líkurnar á því að eftirstöðvar lána lífeyrissjóðanna hafi tryggt veð að baki sér.  Vissulega tapast 15,5% af húsnæðislánum sjóðanna, en í staðinn hafa þeir í höndunum traust lán og öruggara greiðsluflæði.

Áhrifin á Íbúðalánasjóð er á margan hátt sambærileg við stöðu lífeyrissjóðanna.  Hluti niðurfærslu lánanna verður bara viðurkenning á þegar töpuðum kröfum eða kröfum sem líklegast myndu tapast ef ekkert væri gert.  Í öðrum tilfellum styrkist tryggingin að baki lánunum.  Mikilvægust er líklega sú tiltekt sem verður í lánasafni sjóðsins.  Líklegt er að ÍLS geti ekki borið niðurfærsluna án þess að eitt af þrennu komi til:  1) framlag úr ríkissjóði; 2) hækkun vaxta; eða 3) samningar við lánardrottna.

Áhrifin á banka og aðrar lánastofnanir verða margvísleg.  Löngu tímabær endurskipulagning skulda mun eiga sér stað.  Vandi flestra fjármálafyrirtækja um þessar mundir er að stór hluti lánasafna þeirra eru það sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kallar í nýjustu skýrslu sinni „non-performing loans“, hér kölluð óvirk, þ.e. lán sem ekki er verið að greiða af, þar sem þau eru annað hvort í vanskilum eða frystingu.  Samkvæmt AGS er um 63% allra lána bankakerfisins óvirk, þegar miðað er við kröfuupphæð lánanna, en 45% þegar miðað er við bókfært virði lánanna.  Eitt helsta markmið þessara aðgerða er fjölga í hópi virkra lán og um leið fækka í hópi óvirka.  Með því mun efnahagur fjármálafyrirtækjanna styrkjast og framtíð þeirra verða tryggð.  Fyrirtæki sem er með um 37% heimtur af kröfum sínum er í slæmum málum og þó heimturnar færu upp í 85%, þá er rekstrarhæfi þess ennþá mjög dapurt.>

Áhrifin á efnahagslega hvata einstaklinga og lánastofnana, þá getur sá hvati ekki annað en aukist með víðtækum leiðréttingum lána heimilanna.  Núverandi ástand einkennist að algjöru vantrausti heimilanna á lánakerfið.  Fólk þorir ekki að fara út í miklar lántökur, þar sem það veit ekki nema innan fjármálakerfisins sitji menn á svikráðum.  Brennt barn forðast eldinn.  Náist ekki sátt milli lánveitenda og lántaka, þá mun landið ekki ná að rísa úr öskustónni og kreppan mun dýpka.  Í stað hvata til uppbyggingar verður hræðsla ríkjandi og stöðnun.  Afleiðingin af því eru frekari vanskil, fleiri nauðungarsölur og fjölgun gjaldþrota.  Fólk mun flytjast úr landi ef því finnst það ekki njóta sanngirni og réttlætis.  Um leið og fólki líður betur gagnvart viðskiptabankanum sínum, þá mun það hafa mikið efnahagsleg áhrif.  Það mun taka mörg ár fyrir sárin að gróa og tortryggnin mun líklegast verða mikil um ókomin ár hjá þeim fjölskyldum sem eru að upplifa ástandið á eigin skinni.  Ef vel tekst til við leiðréttingu lána heimilanna, þá mun okkur vonandi auðnast að stytta tímann sem endurreisnin tekur.

Áhrif á framtíðarskipan og fjármögnun íbúðarlána verður mikil.  Í fyrsta lagi, þá verðum við að horfast í augun við að verðtryggingin er barn síns tíma.  Ísland er fyrsta þjóðfélagið sem fer í gegn um fjármála- og skuldakreppu með verðtryggingu sem megin lánaformið.  Annars staðar hefur ein leið stjórnvalda til að leiðrétta misvægi launa og skulda verið að auka á verðbólgu og henda skuldum á verðbólgubálið.  Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa t.d. ákveðið að fara þá leið.  Þar á að prenta peninga og hrúga þeim út í hagkerfið til þess að mynda þenslu og verðbólgu.  Hér á landi er það ekki hægt, þar sem verðbólga mun bara hækka höfuðstól verðtryggðra lána.  Af þessum sökum er ákaflega mikilvægt að hverfa frá verðtryggingu lána neytenda eins fljótt og hægt er.  Ekkert mælir í sjálfu sér gegn því að fyrirtæki og fagaðilar taki verðtryggð lán, en þau eiga ekki að vera í boði á neytendamarkaði.  Hagsmunasamtök heimilanna hafa sett fram tillögur um framtíðarskipan húsnæðislánakerfisins.  Þar er í grófum dráttum lagt til að verðtrygging detti út í áföngum með því að setja til að byrja með 4% þak á árlega verðbætur.  Þetta þak lækki árlega uns það hverfi.  Í stað verðtryggða lánakerfisins komi óverðtryggð lán með þak á vexti.  Gert er ráð fyrir að vextir geti verið fastir, breytilegir eða fljótandi.  Lántakar semji við lánveitendur til skamms tíma um kjör lánanna, en sé jafnframt frjálst að flytja sig á milli lánastofnanna með lágmarkstilkostnaði.  Með þessu fáist meiri samkeppni um veitt lán og markaðurinn verði virkari.  Öll lán greiðist upp við eigendaskipti sem þýðir jafnframt að nauðsynlegt er að afnema stimpilgjöld.  Þar sem lán eru greidd upp við eigendaskipti, þá þurfi lánveitendur ekki að fjármagna hvert lán nema til 6 - 8 ára í senn, þó svo að greiðslubyrði lánanna miði við 20 - 40 ára lánstíma.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Þakkir fyrir þessa fínu greiningu, þ.s. gerð er tilraun til að benda á þá þætti, sem koma á móti kostnaði við aðgerðirnar.

Varðandi kostnað sem mörgum virðist yfirsjást - þ.e. að ódýrari aðgerðirnar eru að sjálfsögðu ódýrari vegna þess að þær lækka skuldir um lægri upphæðir.

Þ.e. mikil þörf á að létta undir með atvinnulífinu og heimilunum á sama tíma - því annars rætist klárlega ekki spá Seðlabanka um hagvöxt á grunni aukinnar neyslu og aukinna innlendra fjárfestinga.

Síðan þarf að vinna að því að lækka vexti í þjóðfélaginu, þ.e. næsta aðgerð í kjölfarið.

Auðvitað verður einnig vælt mikið, um að lækkun ávöxtunarkröfu lífeyrissjóða kosti alltof mikið - að það muni lækka iðgjöld o.s.frv.

En, ég verð að segja, að mér liðir til mikilla muna betur ef sjóðirnir væru að ávaxta sig í t.d. Þýskum ríkispappírum sem þeir hafa ekki heimild til að nýta sér í dag.

Sbr. færsla: Lífeyrissjóðir halda uppi vöxtum í þjóðfélaginu!

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 15.11.2010 kl. 23:27

2 identicon

Hvað fá þeir sem engin lán tóku bæði húseigendur og leigendur,þ.e.a.s. skuldlaust fólk annað en hærri skatta sem sagt refsingu fyrir ráðdeild(ekki eyða um efni fram). Eins og ég hef reynt að benda þér á eru ekki allir þú(margur heldur mig sig). Höfum eitt á hreinu,að taka lán í annarri mynt en maður hefur í tekjur er í besta falli heimska. Svo leikur mér forvitni á því hvernig getur maður misst "sína" eign sem maður tók 100% lán fyrir, keypti innbúið á raðgreyðslum og bílinn á erlendum lánum 100%. Veit um nokkur slík dæmi. Tek það fram að ég er ekki hagfræðistúdent ef það gæti gefið þér nýja vídd í svívirðingaflaumnum um þá sem eru ekki sammála þér.

Guðmundur Ingi Kristinsson (IP-tala skráð) 16.11.2010 kl. 02:44

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þakka enn eina góðu samantektina Marinó.

Hvernig væri ef einhverjir reyndu að leggja mat á hvað það kostar að gera ekki neitt. Það er að sjálf sögðu erfitt að leggja mat á slíkt en þó ætti að vera hægt að koma með hugmyndir miðað við mismunandi forsendur.

Sá kostnaður mun lenda á lánastofnunum, lífeyrissjóðum og almenningi, óháð hvort um lánþega er að ræða eða ekki.

Þessi kostnaður hlýtir því að dragast frá þeim kostnaði sem stjórnvöld telja að leiðréttingar muni kosta.

Það er til lítils og raunar út í hött að velja leiðréttingaraðferð eingöngu eftir útreiknuðum kostnaði, í stað þess á að velja þá leið sem leysir vandann.

Gunnar Heiðarsson, 16.11.2010 kl. 07:46

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Guðmundur Ingi, mjög margir af þeim sem eru skuldlausir fengu innstæður sínar tryggðar umfram það sem lög sögðu til um.  Þeir hafa því fengið sínar bætur.  Síðan vil ég nefna:

1.  Samkvæmt upplýsingum frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, þá fengu bankarnir þrir 90 milljarða afslátt af íbúðalánum og er sá afsláttur verulega umfram þau 15,5% sem tillögur HH gera ráð fyrir.

2.  Lífeyrissjóðirnir fengu 33,4 ma.kr. afslátt af  íbúðabréfum Íbúðalánasjóðs frá okkur skattborgurum.  Það er ríflega 6 ma.kr. hærri upphæð, en gæti orðið hæsta mögulega leiðrétting á sjóðfélagalánum samkv. tillögum HH.

3.  Íbúðalánasjóður metur að tillögur HH kosti um 50 ma.kr., þó svo að mitt mat sé hærra, af þessum 50 ma.kr. eru hátt í 20 ma.kr. utan veðs og mun sú tala hækka um áramót þegar nýtt fasteignamat tekur gildi.  Loks metur sjóðurinn að háar upphæðir til viðbótar séu tapaðar.  Upphæð leiðréttingar vegna krafna HH lækka verulega vegna þessa.

4.  Gæði lánasafna eykst verulega við þessa aðgerð og gæti komið í veg fyrir að einhver lán fari í vanskil eða tapist.

5.  Ég tek undir með Gunnari Heiðarssyni, að  eftir er að skoða annan kostnað svo sem lögfræðikostnað, kostnað hjá dómskerfinu, félagslega kerfinu og heilbrigðiskerfinu.

6.  Loks vil ég benda á útreikninga sem ég lagði var á öðrum þræði, en þar bendi ég á að 6 ma.kr. í auknar neyslu gæti bæði sparað ríkinu háar upphæðir og aukið tekjur þess.  Sparnaður í vaxtabótum væri líklegast um 1 ma.kr., sparnaður í atvinnuleysisbótur 1 ma.kr., auknar tekjur í virðisaukaskatti um 1 ma.kr. og auknar skatttekjur ríkis og sveitarfélaga gæti hlaupið á um 500 m.kr.  Aukist neyslan um 9 ma.kr. þá hækka þessar tölur hlutfallslega.

Marinó G. Njálsson, 16.11.2010 kl. 10:52

5 identicon

Þú hefur ekki svarað spurningum mínum frá því í gær, því langar mig að endurtaka þær.

Tvær einfaldar spurningar.

1. Hvað er forsendubrestur lána? og hvernig er forsendubresturinn fundin út?.

2. Hvernig ætlar þú að haga þessari niðurfærslu lána, á ríkið að færa vísitöluna aftur um 15,5% eða eiga lánveitendur að gera það? Lækka þá verðtrygðar innistæður í leiðinni?

Jonas kr (IP-tala skráð) 15.11.2010 kl. 20:43

Einnig langar mig að vita hvernig þú ætlar að fjármagna lán með vaxtaþaki? hverjir eiga að leggja til peningana?

Jonas kr (IP-tala skráð) 16.11.2010 kl. 13:21

6 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Jonas, ég er líklega búinn að svara spurningunni um forsendubrestinn um 50 sinnum og get ekki endurtekið svarið í hvert sinn, þar sem það verður ekki gert í stuttu máli svo vel sé, en hér er styttri útgáfan:

Varðandi verðtryggð lán, þá voru verðbólgumarkmið Seðlabankans 2,5% og fólki var talið trú um að þegar hún færi yfir 4% þá yrði allt gert til að ná henni niður.  Verðbólga umfram 4% er því að mati HH forsendubrestur.

Varðndi gengistryggð lán, þá var féll króna um tugi prósenta vegna grófrar markaðsmisnotkunar, svika og pretta.  Haldið var að fólki auglýsingum, þar sem kostir þessara lána voru mærðir, auk þess sem starfsfólk fjármálafyrirtækja, að ég tali nú ekki um falsspádeildir þeirra, fyrirgefðu greiningardeildir, héldu ítrekað á lofti hinum argasta leirburði um þróun gengis.  Allt það sem fór fram yfir spádóma greiningardeildanna lít ég á sem forsendubrest.

Spurningu 2 svaraði ég í gær.

Varðandi síðustu spurninguna, þá er svarið með stöðugleika.  Þegar stöðugleiki verður kominn á, þá verða lán með 5-6% þaki á óverðtryggða vexti líklega með 3-4% ef ekki hærri raunvexti.

Marinó G. Njálsson, 16.11.2010 kl. 13:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 47
  • Frá upphafi: 1678107

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband