Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009
31.8.2009 | 14:59
Þrátt fyrir þetta hefur launavísitalan HÆKKAÐ
Það eru áhugaverð upplýsingar sem koma fram í þessari frétt. 35% aðspurðra í könnun hafa lent í því að tekjur hafa verið skertar frá hruni bankanna í október. Þrátt fyrir þetta, þá hefur Hagstofan komist að þeirri niðurstöðu að launavísitalan hafi HÆKKAÐ. Atvinnuleysi, sem var um 2% í september á síðasta ári er nú milli 7-10%. Fólk með yfir ákveðinni upphæð í laun hefur lækkað mikið og ofurlaunin hafa horfið úr þjóðfélaginu, en samt reiknast Hagstofunni til að launavísitalan hafi HÆKKAÐ. Ég get ekki annað en velt því fyrir mér hvernig gagnagrunnur Hagstofunnar er samsettur og hvernig stendur á þessu misræmi milli tölfræði Hagstofunnar og þess sem fólk virðist vera að upplifa í raunveruleikanum.
Forvitnilegt væri að fá skýringu Hagstofunnar á þessu, að því virðist, augljósa misræmi.
Um daginn var annað atriði sem vakti athygli mína varðandi útreikninga Hagstofunnar, en það var varðandi gjaldeyrisjöfnuð vegna þjónustu, þ.e. þjónustujöfnuð. Það fannst mér t.d. furðulegt að neysla ferðamanna hér á landi er talin einskorðast við upplýsingar frá hópi fyrirtækja og síðan kreditkortanotkun. Ekki var skoðuð debetkortanotkun eða notkun seðla.
Nú treystum við Hagstofunni fyrir ýmsum mikilvægum útreikningum. Upplýsingar frá stofnunni þurfa því að vera hafnar yfir allan vafa. Hér nefni ég tvö dæmi, sem mér finnst ekki ganga upp. Kannski er þetta bara meinloka í mér.
Þriðjungur launafólks orðið fyrir skerðingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
31.8.2009 | 09:08
Ólöglegt fjármögnunarokur
Það jákvæða við þetta fyrir skuldarana er að gengistryggð lán eru ólögleg. Samkvæmt greinargerð með frumvarpi að lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur er tekið skýrt fram að EKKI er heimilt að tengja skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Nú þýðir ekki fyrir lánveitandann að hártoga og segja að lánið sé ekki skuldbinding í íslenskum krónum. Nær án undantekninga, þá var sótt um lánið í íslenskum krónum, lánið var greitt út í íslenskum krónum, höfuðstóllinn er reiknaður út frá íslenskum krónum, gengisviðmiðunin er gerð út frá íslenskum krónum, afborganir eru rukkaðar í íslenskum krónum og greiðslan fer fram í íslenskum krónum. Lántakandi meðhöndlar aldrei erlendan gjaldeyri, það gerir lánveitandinn ekki heldur og enn síður bílasalinn. Og nefnið mér svo einhvern sem hefur tekið lán upp á 12.562,5 USD eða 1.345.978 jen. Slíkar tölur eru greinilega umbreyting á íslenskri upphæð yfir í gengisviðmiðun til að búa til gengistryggingu.
Það er eingöngu heimilt að verðtryggja íslenskar fjárskuldbindingar við vísitölu neysluverð og síðan hlutabréfavísitölur innlendar og erlendar eða sambland þeim báðum. Gengisviðmið er verðtrygging sem tengd er við dagsgengi erlendra gjaldmiðla, þ.e. tengd verði erlendra gjaldmiðla. Það er eingöngu heimilt samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 að nota verðtryggingu sem miðar við VNV og hlutabréfavísitölur. Þessi regla er ófrávíkjanleg samkvæmt 1. og 2. gr. laganna. Af þessari ástæðu er nauðsynlegt fyrir skuldara að láta á réttarstöðu sína. Það þarf að fara með svona mál fyrir dómstóla og fá úr því skorið hvort samningar og að ég tali nú ekki um uppgjör bílalánafyrirtækjanna standast íslensk lög.
Ég geri mér grein fyrir að fólk valdi það oft af fúsum og frjálsum vilja að taka lánin með þessum tengingum. En verið var að bjóða því ólöglega vöru sem fólk þáði í góðri trú ekki vitandi betur. Þegar slíkt gerist, þá gilda alls konar riftunarákvæði og ógildingarákvæði laga, svo sem samningalaga nr. 7/1936 og laga nr. 46/2005 um fjárhagslegar tryggingaráðstafanir. Ég gæti örugglega nefnt fleiri. Það sem ég skil ekki er, af hverju hefur fólk, sem lent hefur í furðuuppgjöri bílalánanna, ekki látið reyna á uppgjörið fyrir dómstólum? Nú hlýtur það að fara að gerast.
Allt að 12 milljón króna bílalán | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
30.8.2009 | 14:02
Lánakerfið verður ekki byggt upp í óbreyttri mynd
Einhvers staðar rakst ég á frétt, þar sem sagði að bankana vantaði trausta lántakendur. Mig langar að snúa þessu við. Lántakendur vantar trausta lánveitendur. Það er nefnilega staðreynd, að það voru lánveitendurnir sem brugðust lántakendum í undanfara hruns krónunnar og síðan falls bankanna.
Mér finnst það með ólíkindum, að nokkrum detti í hug að kenna lántakendum um að bankarnir geti ekki lánað út peninga. Ég verð að viðurkenna að ég treysti ekki bönkunum. Af hverju ætti ég að gera það? Þeir unnu skipulega gegn okkur lántakendum í mörg ár. Það endaði í hruni krónunnar, mikilli verðbólgu, stökkbreytingu á höfuðstólum lána og falli þeirra sjálfra og hagkerfisins. Það sem meira er, bankarnir hafa ekki sýnt neina auðmýkt gagnvart viðskiptavinum sínum. Nei, það er gengið fram af þvermóðsku og hörku í staðinn fyrir að liðka fyrir og aðstoða fólk. Skýrasta dæmi um þetta, er að setja fólk á vanskilaskrá sem er að sækja um greiðsluaðlögun.
Afleiðing af þessu er að greiðsluvilji almennings hefur dvínað. Margir hafa hætt að greiða af lánum sínum, aðrir fryst þau. Tryggvi Þór Herbertsson, alþingismaður, segir þetta til marks um að lánasöfn lánastofnana séu ónýt. Það er nokkuð djúpt í árinni tekið á mínu áliti. Fólk frysti lánin sín í þeirri von að ástandið myndi batna, en ekki versna. Fólk treysti því að stjórnvöld myndu gera eitthvað fyrir heimilin í landinu, en ekki bara kafa dýpra ofan í vasa þeirra.
Staðreyndir málsins eru að heimilin eiga ekki að borga af lánunum eins og þau standa í dag. Stórhluti lánveitenda vann skipulag (hvort sem það var viljandi eða óviljandi) gegn hagsmunum lántakenda og lántakendur eiga EKKI að líða fyrir það. Best væri að færa stöðu allra lána til þess sem þau voru um áramótin 2007/2008. Sú staða er þekkt. Hún kemur fram í skattframtölum lántakenda. Lánstofnanir verða að viðurkenna að þetta er staðan og semja við sína lánadrottna um að þeir taki þátt í þessu. ÍLS líka. Síðan á að afnema gengistengingu gengistryggðra lána (enda ólögleg) og setja þak á verðtryggingu.
Við búum í nýju Íslandi og það verður ekki byggt upp með því að nota kerfið sem felldi gamla Ísland. Það er ekki nóg að skipta út fólki, ef kerfið er það sama. Það þarf líka að skipta um kerfi. Stærsti þátturinn í þeirri kerfisbreytingu er að fella niður verðtryggingu lána eða setja þak á verðbætur. Verði farin sú leið að setja þak, þá á að miða við verðbólgumarkmið Seðlabankans. Einnig þarf að setja þak á nafnvexti húsnæðislána líkt og gert er í Danmörku. Sé áhugi fyrir því að Ísland gangi í ESB, þarf að hefja undirbúning að aðlögun hagkerfisins að þeirri inngöngu. Stór liður í því, er að laga lánakerfið að nýju umhverfi. Gleymum því ekki, að þó svo að einstaklingar hafi brugðist í aðdraganda efnahagshrunsins, þá var það ekki síður kerfið sem brást. Það var jú kerfið sem gaf mönnum fært að gera það sem þeir gerðu.
Eitt í viðbót. Við verðum að draga úr þeim miklu áhrifum sem Samtök fjármálafyrirtækja hafa haft á setningu laga og reglugerða hér á landi. Neytendur eiga að hafa jafn sterka rödd, þegar kemur að mótun lagaumhverfisins. Löggjafinn á að hlusta á neytendasjónarmið og verja þau. Alþingismenn eru í sinni stöðu í umboði neytenda (kjósendur eru neytendur), ekki fyrirtækja enda hafa þau ekki kosningarétt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.8.2009 | 01:27
Um lögmæti gengistryggðra lána
Ég talaði við lögfræðing í kvöld. Hann sagði það vera lífsnauðsynlegt fyrir afkomu nýju bankanna, að við uppgjör lánasafnanna, sem flytjast frá gömlu bönkunum til þeirra nýja, verði tekið tillit til þess lögleysu gengistryggðra lána. Hann sagði það orðhengilshátt að segja að einhver lán séu erlend. Sótt hafi verið um þau í krónum og þau greidd út í krónum. Eingöngu í þeim tilfellum sem lántakandinn fékk erlendan gjaldeyri í hendur sé hugsanlega hægt að tala um erlend lán. Hann taldi útilokað annað en að dómstólar dæmi þessi lán ólögleg með vísan í 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur. Lykillinn í þeirri ákvörðun fælsit í 1. og 2. gr. laganna sem fjallaði um gildissvið, en þar kæmi fram að eingöngu í II. og IV. kafla laganna væru frávíkjanleg ákvæði. 13. og 14. gr. væru í VI. kafla og þau ákvæði því ófrávíkjanleg. Hann benti einnig á að í fjármunarétti skipti nafn gerningsins ekki máli heldur eðli. Í sínum huga færi því ekkert á milli mála að þessi lán stönguðust á við íslensk lög.
Ég hef frá því í febrúar vakið athygli á hugsanlegri lögleysu gengisbundinna lána. Það hefur svo sem ekki þurft að að sannfæra mig um þetta, en aðrir hafa ekki verið eins vissir. Fjármálafyrirtæki hafa að eðlilegri ástæðu mótmælt þessari túlkun, enda höfum við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna ekki búið yfir nægjanlegri lagalegri þekkingu til að verjast öllum rökum. Lögfræðingurinn sem ég ræddi við í kvöld telst til þeirra sem best þekkir til þessara laga og túlkunar á þeim. Hann er harður á því að þau lán sem veitt hafa verið hér á landi og kölluð erlend lán, eru upp til hópa ólögleg. Þau voru bönnuð með ákvæðum 13. og 14. greinar laga nr. 38/2001. Það sé því formsatriði að bera ágreiningin undir dómstóla. Niðurstaðan sé augljós.
Logfræðingurinn sagði það á misskilningi byggt að skattgreiðendur yrðu fyrir kostnaði við þá eðlilegu leiðréttingu sem þyrfti að eiga sér stað vegna þessara lána. Þ.e. ef tekið verður tillit til leiðréttingarinnar áður en lánasöfnin verða færð frá gömlu bönkunum til þeirra nýju. Kostnaðurinn félli fyrst á skattgreiðendur, ef ekki yrði tekið tillit til ólögmæti lánanna, lánasöfnin metin of hátt við flutning milli gömlu og nýju bankanna og nýju bankarnir þurftu síðan, eftir að dómsniðurstaða er fengin, að afskrifa háar fjárhæðir úr eignasöfnum sínum. Þá þyrfti ríkissjóður að grípa til kostnaðarsamra björgunaraðgerða til að koma í veg fyrir nýtt hrun.
Spurður um leiðir, sagði lögfræðingurinn að skynsamlegast væri að stilla öll lán, verðtryggð og gengisbundin, af eins og þau voru 1. janúar 2008, að teknu tilliti til afborgana sem síðar hafa átt sér stað. Þessi hugmynd er í dúr og moll við það sem ég hef lagt til. Ástæðan fyrir þessari dagsetningu er tvíþætt. Í fyrsta lagi er þetta skattaleg áramótastaða. Í öðru lagi er þetta áður en krónan hefur lækkað of mikið og verðbólgan komst á skrið. Tekið skal fram að Borgarahreyfingin hefur einnig miðað við þessa tímasetningu í tillögum sínum.
Hér er komin enn og ein rödd fyrir því að gengisbundin lán séu ólögleg. Í þetta sinn er það ekki áhugamaður úti í bæ sem heldur þessu fram eða lögfræðingur sem stefnir í málaferli við fjármálafyrirtæki. Nei, í þetta sinn er það mikilsmetinn lögfræðingur sem ofbíður sinnuleysi stjórnvalda og óttast afleiðingarnar fyrir íslensk efnahagslíf, ef ekki verið gripið til aðgerða. Hann vill ekki koma fram undir nafni strax, en það gæti gerst upp úr miðjum næsta mánuði, hafi ekkert gerst í þessum málum.
Ég treysti þessum manni 100%. Hann hefur allar forsendur til að meta stöðuna og veit sínu viti. Í mínum huga dregur ósk hans um nafnleynd ekki úr trúverðugleika álits hans. Staðreyndin er að menn eru tregir við að koma fram undir nafni.
Frá því að ég fór að grúska í þessum málum, hef ég ekki efast um þá túlkun mína á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur að gengisbundin lán hafi verið ólögleg. Það sem ég hef ekki skilið, er hvers vegna hafa ekki til þess bærir aðilar tekið þetta til nánari skoðunar og annað hvort höfðað mál til ógildingar á þessum gjörningum eða lýst yfir lögmæti þessara gjörninga. Þögn þessara aðila verður ekki túlkuð á annan hátt, en að þeir séu sammála þessari túlkun HH á þessum gjörningum.
Hvorki þjóðin né stjórnvöld hafa tíma til að bíða eftir niðurstöðum dómstóla. Ögurstundin í þessu máli eru innan fárra vikna og niðurstaðan þarf að vera ljós þá. Talsmaður neytenda hefur lagt fram tillögu um gerðardóm, sem er ætlað að skera úr um ýmis álitamál varðandi skuldir heimilanna. Ég hvet stjórnvöld til að fallast á þessa tillögu Gísla Tryggvasonar og hrinda henni í framkvæmd svo fljótt sem auðið er. Helst innan tíu daga. Það yrði forgangsmála hjá gerðardómnum að úrskurða um lögmæti gengisbundinna lána. Jóhanna og Steingrímur, ykkar tími er kominn. Hlustið á þjóðina, hlustið á rökin, grípið strax til nauðsynlegra aðgerða.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.8.2009 | 12:06
Greiðsluverkfall boðað frá 1. október
Hagsmunasamtök heimilanna boðuðu á blaðamannafundi í morgun tveggja vikna greiðsluverkfall frá og með 1. október næst komandi. Samtökin telja þetta einu leiðina til að knýja stjórnvöld og fjármálafyrirtæki að viðræðuborðinu til að ræða úrræði fyrir heimilin í landinu vegna hækkunar höfuðstóls húsnæðislána og aukinnar greiðslubyrði í kjölfar hruns krónunnar og verðbólgunnar sem því fylgdi. Lögð er áhersla á að ferli greiðsluverkfallsins fylgi í einu og öllu ferli hefðbundinna verkfalla launafólks.
Þrátt fyrir fögur orð um samráð hafa stjórnvöld ekki boðið Hagsmunasamtökum heimilanna til viðræðna um stöðu heimilanna. Á fyrsta blaðamannafundi fyrri ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur nefndi hún og Steingrímur J. Sigfússon að leitað yrði til Hagsmunasamtaka heimilanna eftir viðræðum. Núna tæpum sjö mánuðum síðar hefur hvorugt þeirra snúið sér til samtakanna og þeir einu fundir sem samtökin hafa fengið við ráðherra hafa verið tilviljunarkenndir og hafa ekki snúist um þau mál sem samtökin telja brýnust. Á þessum sama blaðamannafundi lýstu Jóhanna og Steingrímur því yfir að slegin yrði skjaldborg um heimilin. Það er ýmislegt hægt að segja um fjölmargar ráðstafanir tveggja ríkisstjórna Jóhönnu Sigurðardóttur, en að kalla þær skjaldborg væri mikið öfugmæli. Með örfáum undantekningum, þá hafa álögur verið auknar og skattar hækkaðir. Staða heimilanna eftir tæplega 7 mánaða setu Jóhönnu Sigurðardóttur sem forsætisráðherra er mun veikari en hún var áður. Aðeins er hægt að tala um eina aðgerð sem reynst hefur vörn fyrir heimilin, en það bann við nauðungarsölum til 1. nóvember næst komandi. Þessu til viðbótar voru vaxtabætur hækkaðar um 25% eða svo.
Á móti kemur að álögur á heimilin í landinu hafa hækkað gríðarlega. Verðlag hefur hækkað vegna veikingar krónunnar, verðbólgu og hækkunar þjónustugjalda, skatta og vörugjalda. Ráðstafanir í ríkisfjármálum eru þannig taldar hafa hækkað álögur á heimilin um kr. 90.000 á mánuði.
Mörg heimili eru komin í þrot og önnur að fótum fram. Sífellt stækkar í hópi þeirra sem eru komnir í veruleg fjárhagsvandræði. Talið er að fimmtungur heimila séu komin í vanskil við bankann sinn eða eru með stóran hluta lána sinna í frystingu þar sem greiðslugetan ræður ekki við afborganir. Meira að segja félagsmálaráðherra, sem hefur verið mann þverastur í afneitun sinni, viðurkennir að milli 20 og 30 þúsund manns séu í alvarlegum vanda nú þegar. Sinnuleysi ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur í málefnum heimilanna er ótrúlegt og það hefur staðið of lengi. Þess vegna er það nauðvörn heimilanna í landinu að boða til tímabundins greiðsluverkfalls. Dugi það ekki til að fá viðræður um nothæf úrræði fyrir heimilin í landinu, þá verður örugglega gripið til frekari aðgerða síðar.
(Sjá líka síðustu færslu mína: Greiðsluverkfall er til að knýja fram réttlæti)
Fara í greiðsluverkfall 1. okt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
28.8.2009 | 08:58
Greiðsluverkfall er til að knýja fram réttlæti
Síðustu 80 ár eða svo hefur verklýður á Íslandi nýtt sér verkfallsvopnið til að knýja fram sanngjarna úrlausn sinna mála. Þegar launagreiðendur hafa ekki hlustað á kröfur launafólks um betri aðbúnað, betri starfskjör og betri lífeyrisrétt, þá hafa verkalýðsfélög haft þann möguleika að lýsa yfir verkfalli. Þetta hefur þótt sjálfsagður réttur enda hefur notkun verkfallsvopnsins nýst vel í baráttunni fyrir bættum kjörum.
Ég er viss um að atvinnurekendur á hverjum tíma hafa talið þessa baráttu launafólks fyrir bættum kjörum vera barátta þar sem verið var "að búa til nýtt réttlæti til að mæta óréttlæti" og þeim hafi fundist það "ekki raunhæft".
Skoðum orð forseta Alþýðusambandsins og setjum þau í annað samhengi. Haft er eftir Gylfa:
Ef á að finna lausn á því óréttlæti að lán landsmanna hafi hækkað þá er sú lausn ekki til. Persónulegt stríð við lánastofnun er ekki skynsamlegt. Ég óttast að fólk sem fari þessa leið lendi í enn meiri vanda.
Og svona líta þau út í breyttu samhengi:
Ef á að finna lausn á því óréttlæti að kaupmáttur launamanna hafi lækkað þá er sú lausn ekki til. Persónulegt stríð við atvinnurekendur er ekki skynsamlegt. Ég óttast að fólk sem fari þessa leið lendi í enn meiri vanda.
Réttindabarátta sérhagsmunahópa hafa fært landsmönnum öllum alls konar ávinning í gegnum árin. Verkföll til að knýja fram betri réttindi launafólks þóttu frekjuleg og furðuleg ráðstöfun fyrir 80 árum. "Hvers vegna vill fólk hætta að vinna og tapa launum til að knýja fram hærri laun?" "Hvernig dettur ykkur í hug að skaða hag vinnuveitenda ykkar með því að neita að vinna?" "Þið eruð að valda atvinnurekandanum tjóni með því að neita að vinna." Ég er viss um að eitthvað svona hefur heyrst í gegnum tíðina. Fyrirtæki hafa orðið fyrir skaða, launafólk hefur lent í erfiðri stöðu (ekki átt fyrir nauðsynjum), saklausir vegfarendur hafa liðið fyrir aðgerðir verkalýðsins. En hefur það verið til einskis?
Við Íslendingar njótum baráttu verkalýðshreyfingarinnar á margan hátt í dag. Við erum með mjög almannatryggingakerfi, lífeyriskerfi sem á sér engan líka í heiminum, sjúkrasjóði, orlofssjóði, starfsmenntakerfi og nú síðast bættist við starfsendurhæfingarkerfi. Ætlar forseti ASÍ að halda því fram, að það hafi ekki verið raunhæft að "búa til nýtt réttlæti til að mæta óréttlæti"? Eða er þetta bara óraunhæft vegna þess að þetta er aðgerð sem er fyrir utan kassann? Verkföll launafólks voru utan kassans fyrir 80 árum, en þau báru samt árangur.
Greiðsluverkfall er aðgerð til að knýja fram bætta stöðu fyrir lántakendur. Þeir hafa þurft að láta mikið óréttlæti yfir sig ganga án þess að lánveitendur hafi komið nægilega til móts við kröfur um leiðréttingu. Úrræði stjórnvalda og fjármálafyrirtækja má frekar líkja við máttlaust klór en raunverulegar aðgerðir. Það hefur engin tilraun verið gerði til að ræða við lántakendur og fá á hreint hvað þeir vilja og þá hvort hægt sé að koma til móts við kröfur þeirra. Það sem gert hefur verið má í besta falli líkja við að útvega launamanni eina skyrtu á kroppinn, þegar viðkomandi getur ekki framfleytt fjölskyldunni með laununum sínum.
Vandi heimilanna í dag er sá, að mörg þeirra hafa ekki efni á brýnustu nauðsynjum. Ráðstöfunartekjur hafa dregist gríðarlega mikið saman. Kaupmáttur hefur t.d. minnkað um 14,7% og er kominn á sama stig og fyrir 7 eða 8 árum. Umbjóðendur ASÍ hafa misst vinnuna í stórum stíl sem eykur enn frekar á vanda þeirra heimila. Það eru nokkrar leiðir til að bregðast við þessu. Ein er sú leið sem Hagsmunasamtök heimilanna hafa barist fyrir frá stofnun samtakanna, þ.e. að lán heimilanna verði leiðrétt á þann hátt, að hækkun höfuðstóls, sem orðið hefur vegna hruns krónunnar á síðustu tveimur árum og verðbólgunnar sem fylgdi í kjölfarið, verði að verulegu leiti dregin til baka. Einnig að lögum verði breytt þannig að ekki megi ganga að öðrum eigum en þeim sem lagðar voru til tryggingar.
Ég hefði haldið að þessar kröfur Hagsmunasamtaka heimilanna væri stærsta hagsmunamál launafólks í dag. Ég hefði haldið að þetta væri mál sem hagsmunasamtök launafólks væru á fullu að berjast fyrir til að verja kjör umbjóðenda sinna. Nei, í staðinn velur forseti ASÍ þann kost að grafa undan þessari baráttuaðferð og segja hana óraunhæfa. Ég veit ekki hverra hagsmuna forseti ASÍ er að gæta, en það er í mínum huga ekki hagsmuna umbjóðenda sinna.
Greiðsluverkfallið verður kynnt á blaðamannafundi á eftir (28. ágúst kl. 10.00). Ég ætla því ekki að fara núna frekar út í fyrirkomulag þess. En eitt get ég sagt: Greiðsluverkfall er ekki eins framandi hugmynd í dag og það að leggja niður vinnu til að krefjast bættra kjara var fyrir 80 árum!
Úrræði en ekki óskapnað! | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.8.2009 | 21:59
Batnandi manni er best að lifa. Er friðarpípa í augsýn?
Var að hlusta á viðtal við Árna Pál Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, í Kastljósi. Loksins rúmum 18 mánuðum eftir að kreppan fór að bíta efnahag íslenskra heimila áttar hann sig á því að eitthvað þurfi að gera. Loksins viðurkennir hann að sumar skuldir verða ekki innheimtar. Loksins skilur hann þörfina fyrir aðgerðir fyrir heimilin. Batnandi manni er best að lifa.
Hagsmunasamtök heimilanna hafa frá því í janúar barist fyrir leiðréttingu lána heimilanna. Ég og fleiri forráðamenn samtakanna hófum þessa baráttu í lok september og höfum alla tíð síðan haldið á lofti þeirri kröfu að eitthvað þyrfti að gera. Íbúðalánasjóður áttaði sig á því í ágúst 2008 að eitthvað þyrfti að gera. En það tók Samfylkinguna þar til í 35. viku ársins 2009 að átta sig á þessu. Sem afleiðing á þessu getuleysi Samfylkingarinnar að átta sig á vandanum og grípa til úrræða sem koma að notum, þá hafa margir komist í þrot og tapað háum fjárhæðum.
Ég talaði í dag við mann sem seldi íbúðina sína um daginn. Það væri svo sem ekki frásögufærandi nema hann situr uppi með hátt í 6 milljónir af húsnæðislánunum eftir að nýr eigandi er búinn að taka við íbúðinni. Söluverð var í kringum 28 milljónir, áhvílandi var 31 milljón og til að bankinn samþykkti söluna, þá varð hann að taka með sér hátt í 6 milljónir. Þessi dæmi eru mýmörg. Um daginn var Morgunblaðið með viðtal við Guðbjörgu Þórðardóttur, sem leitaði í greiðsluaðlögun vegna nákvæmlega sams konar dæmis. Finnst félagsmálaráðherra í lagi að almennir borgarar séu þannig að greiða fyrir klúður íslenskra fjármálamanna? (Það skal tekið fram að maðurinn setti fyrirvara í uppgjörssamninginn um betri rétt neytenda, þannig að hann ná einhverja von um að endurheimta hluta af tapi sínu.)
Ég hef alltaf trúað því að dropinn myndi hola steininn. Að blindir myndu að lokum sjá. Nú virðist biðin á enda. Og þó. Ég efast um að lausnirnar komi alveg strax. Samfylkingin stofnaði nefnd um málið um daginn og sérstök "pólitísk vinkona" félagsmálaráðherra stýrir þeirri nefnd. Kristrún Heimisdóttir er allra góðra gjalda verð, en ég treysti ekki pólitískri nefnd til að finna sanngjarna niðurstöðu, þegar yfirmaðurinn (Árni Páll) er búinn að lýsa sinni skoðun eins eindregið og hann sagði í kvöld. Afskriftir, leiðréttingar, niðurfærslur eða hvað við köllum þetta verða eingöngu framkvæmdar á sannanlega tapaðar kröfur. Auðvitað á ég að vera glaður yfir því, að hann er þó búinn að átta sig á hugtakinu "sokkinn kostnaður" sem ég er búinn að vera að benda á í nokkra mánuði. Næst er að hann átti sig á því að sannanlega tapaðar kröfur eru ekki bara kröfur umfram veð. Nei, þær eru fyrst og fremst kröfur umfram greiðslugetu.
En þetta snýst ekki bara um þær kröfur sem eru sannanlega tapaðar. Þetta snýst líka um þær kröfur sem hafa myndast vegna forsendubrests og gætu því fallið niður/tapast, ef dómstólar komast að því að forsendubrestur hafi átt sér stað. Síðan eru það kröfur í gengistryggðum lánum, en svo ég rifji það upp, þá voru þau bönnuð með lögum nr. 38/2001. Það er mjög mikilvægt að leysa úr þessum tveimur álitaefnum áður en efnahagsreikningar nýju bankanna verða gefnir út. Geri efnahagsreikningarnir ráð fyrir annarri niðurstöðu en dómstólar komast að, þá getur það skekkt fjárhagsstöðu bankanna verulega. Það er líka mikilvægt að fá úr þessu skorið fyrir innlenda lántakendur. Ef dómar falla lántakendum í vil, gæti það orðið sú friðarpípa sem mun skapa sátt í þjóðfélaginu. Við skulum ekki gleyma því að innlend lánasöfn gömlu bankanna eru færð yfir í nýju bankanna með miklum afslætti. Hvernig væri að upplýsa almenning um það hvernig lán heimilanna eru metin í yfirfærslunni og bjóða heimilunum nokkurn veginn sama afslátt á eigin lánum? Það væri annars konar friðarpípa sem skilar sama árangri.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
27.8.2009 | 11:17
Útrás orðin að innrás
Íslenskir fjárfestar fóru, að dæmi forfeðra sinna, í víking til Stóra-Bretlands og meginlands Evrópu. Innrásin, sem átti að enda með sterku fjárfestingaveldi víkinganna, hefur núna snúist upp í gagnsókn, enda sóttu menn á öllu liði sínu og skyldi engar varnir eftir hér á landi. Þar sem sóknarliðið var heldur þunnskipað, þurfti ekki mikið til að rjúfa varnir þess og hrundi þá öll spilaborgin á þremur svörtum dögum í október. Það sem meira var, heimalendurnar höfðu engar varnir og stóðu því eftir sem sviðin jörð.
Erlend innrásarlið undir stjórn mismunandi lénsherra hafa nú tekið sér stöðu á hverju horni í borgum og bæjum landsins. Öll helstu fyrirtæki eru komin í eigu eða undir stjórn lénsherranna eða leppa á þeirra vegu. Innrásarliðið heldur á framtíð landsins í höndum sér.
Til að bjarga sjálfum sér, reyna margir af útrásarvíkingunum að semja við einstaka lénsherra svo þeir geti haldið einhverjum ítökum í þjóðfélaginu. Refsingin fyrir útrásartilraunina er öðrum grimm. Þeir missa allt sitt til útlendinganna. Verst er þó ævarandi útskúfunin sem þeir munu hljóta úr íslensku samfélagi. Farið hefur betra fé.
En eins og í öllum stríðum er tjón almennings mest. Heimilin þeirra hafa verið skilin eftir sem rústir einar. Skuldaklafarnir eru ekki bara að sliga almenna launamenn, öryrkja og aldraða, heldur einnig þá sem einu sinni töldust ríflega bjargálnamenn. Sviðna jörð ber að líta alls staðar.
Í ljós hefur komið að útrásarliðið hafði gengið um íslenskt samfélag sem verstu ribbaldar og rónar. Farið ránshendi um sjóði landsmanna og ekki greitt reikninga sína. Nú þarf þjóðin að taka til eftir þá og greiða erlendu lénsherrunum himinháar skaðabætur. Glæstustu eignir og stolt þjóðarinnar hafa verið tekin herfangi af sveitum lénsherranna. Það sem áður var í sameiginlegri eigu landsmanna hefur verið fært í hendur útlendinga og hafi það ekki átt sér stað ennþá, þá er ekki langt að bíða að svo verði.
Sagan ætti að hafa kennt mönnum, að enginn erlendur her hefur lagt Stóra-Bretland. Hvað þá fámennar vígasveitir sveitalubba frá lítilli eyju í ballarhafi. Það er bara á færi stórra, voldugra aðila að nýta sér Microsoft útgáfuna á orðatiltækinu "if you can't beat them, join them", sem Microsoft breytti í "if you can´t beat them, buy them". Íslensku sveitalubbarnir voru hvorki stórir né voldugir og bakland þeirra var veikt, þrátt fyrir að hafa keypt sér banka til að auðvelda aðgang að fjármagni. Nei, það kann ekki góðri lukku að stýra, að troða voldugum aðilum um tær. Hvað þá þegar það er gert með unggæðings-"ég veit allt miklu betur"-hroka. Stundum er betra að hlusta á sér reyndari menn og læra af þeim. Kannski eru fyrirtæki þeirra jafn öflug og gömul og raun ber vitni, vegna þess að þeirra aðferð var sú rétta. Góðir hlutir gerast hægt.
Framundan er ný sjálfstæðisbarátta. Hún verður ekki ólík þeirri síðustu. Þá var erlent yfirvald, þá voru öll helstu fyrirtæki landsins í höndum útlendinga, þá átti almenningur vart til hnífs og skeiðar og alls ekki húsnæðið sitt, þá sendum við afbrotamenn á Brimarhólm. Merkilegt hvað hlutirnir eiga það til að endurtaka sig.
Yfir okkur hangir að samþykkja afarkosti erlendra lénsherra í formi Icesave og skilmála Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hvorutveggja munu kalla auknar þrengingar yfir lýð og land. Er þatta það sem við viljum? Eru afarkostirnir óumflýjanlegir eða eigum við þann kost að standa upp og segja eins og Jón Sigurðsson á Þjóðfundinum forðum: Vér mótmælum!
Spurningin er hvort það muni taka 67 ár að verða fullvalda þjóð (Þjóðfundurinn var 1851 og Ísland varð fullvalda 1918) og önnur 26 til viðbótar til að öðlast sjálfstæði. Eða mun okkur bera gæfu til að hrinda hinni erlendu innrás af okkur áður en núverandi kynslóð er gengin á vit feðranna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
26.8.2009 | 23:30
Svívirðileg hækkun tryggingaiðgjalda
Það er komið að þessu árlega hjá mér. Endurnýjun trygginga. Fyrir nokkrum árum lét ég glepjast af því að fá afslátt með því að hafa allar tryggingar á einum gjalddaga en setja tryggingarnar á boðgreiðslu. Fáránleg mistök þar sem vextirnir af boðgreiðslunum eru mun hærri en afslátturinn.
En það eru hækkanirnar á tryggingunum, sem mig langar að ræða. Ég er með allan pakkann og sumt kemst ég ekki hjá að taka. Annað er valkvætt, en var um tíma ákaflega skynsamlegt. Nú hefur það gerst að á 4 árum, frá 1. september 2005 til 1. september 2009 hafa sumar af þessum tryggingum hækkað um allt að 150%. Já, 150%.
Mig langar að sýna hérna nokkur dæmi um hækkanir. Til þess að uppljóstra ekki hverjar upphæðirnar eru, þá mun ég eingöngu greina frá prósentuhækkun iðgjaldanna. Fyrir aftan er svo þróun vísitölu neysluverðs (VNV).
Endurnýjun | Nafnhækkun | Hækkun VNV | ||
Frá 1/9/05 | Milli ára | Frá 1/9/05 | Milli ára | |
Sjúkdómatrygging | ||||
1.sep.06 | 21,4% | 21,4% | 7,9% | 7,9% |
1.sep.07 | 52,4% | 25,5% | 12,2% | 4,0% |
1.sep.08 | 92,8% | 26,5% | 26,5% | 12,7% |
1.sep.09 | 150,5% | 29,9% | 41,9% | 12,2% |
Líftrygging hjóna | ||||
1.sep.06 | 16,4% | 16,4% | 7,9% | 7,9% |
1.sep.07 | 23,0% | 5,7% | 12,2% | 4,0% |
1.sep.08 | 50,6% | 22,5% | 26,5% | 12,7% |
1.sep.09 | 90,7% | 26,6% | 41,9% | 12,2% |
Slysa- og sjúkratrygging | ||||
1.sep.06 | 14,2% | 14,2% | 7,9% | 7,9% |
1.sep.07 | 22,7% | 7,4% | 12,2% | 4,0% |
1.sep.08 | 43,4% | 16,9% | 26,5% | 12,7% |
1.sep.09 | 75,1% | 22,1% | 41,9% | 12,2% |
Eins og sést á þessum tölum hafa nokkrar tryggingar, sem ætlað er að auka fjárhagslegt öryggi fjölskyldunnar hækkað allverulega. Hækkunin er mæld frá upphæð iðgjalds 1. september 2005 til sama tíma hvert af hinum árunum.
Ég skil ekki svona viðskiptahætti. Þessar hækkanir eru þrátt fyrir að á hverju ári hafi ég hringt og kvartað yfir iðgjöldunum og fengið þau leiðrétt. En núna tók steininn úr. Hækkun sjúkratryggingar er um 29,9%, líftrygging hjóna hækkar um 26,6% og slysa- og sjúkratrygging 22,1%, þegar verðbólgan er 12,2%. Hvers konar bull er þetta? Ég geri mér grein fyrir að ég hef elst um fjögur ár, en þetta er brjálæði.
Síðan er önnur saga að segja frá því, að ég fékk vitneskju um þessa hækkun seinni hluta júlí og hafði samband við tryggingafélagið. Bar ég fram kvörtun mína og fékk samband við deildarstjóra. Viðkomandi lofaði að líta betur á þetta og senda mér tilboð innan 10 daga. Þar sem ég þekkti mitt heimafólk, þá efaðist ég um að ég heyrði nokkuð frá fyrirtækinu fyrr a.m.k. mánuði síðar. Með það í huga sagði ég upp tveimur af þessum okurtryggingum (hélt líftryggingunni), þrátt fyrir að viðmælandinn minn reyndi að fullvissa mig um að ég þyrfti alls ekkert að gera það. Svarið kom sem sagt í dag og prósenturnar eru byggðar á tölunum sem ég fékk í dag. Hinar voru verri.
Ég skil vel að færeyska tryggingafélagið vilji komast inn á íslenskan markað. Hér virðist hægt að okra á neytendum vegna fákeppni. Ég ætla ekkert að segja um hvort tryggingafélögin hafi með sér samráð, enda þarf þess ekki lengur. Hér á landi nægir að hafa þegjandi samkomulag um að enginn ruggi bátnum. Olíufélögin eru skýrasta dæmið um þann skrípaleik. Um leið og N1 hreyfir við verði, þá gera hin eins eða það lítur a.m.k. út fyrir það. Það sama virðist vera upp á teningunum hjá tryggingafélögunum. Ég hringdi nefnilega hringinn í fyrrahaust og komast að því, að það munaði innan við 30 þúsund á 800.000 kr. tryggingapakka hjá félögunum fjórum. Og mismunurinn fólst í því að áherslur voru mismunandi í einstökum tryggingum.
Ég veit ekki hvort það er dæmi um samkeppni að allir séu svona nálægt hverjum öðrum í verði eða hvort það er dæmi um fákeppni. Það er aftur alveg furðuleg tilviljun að iðgöld hafa hækkað nokkurn veginn jafnmikið hjá fjórum tryggingafélögum á fjögurra ára tímabili. Maður hefði haldið að eitthvert þeirra hefði komið betur út fjárhaglslega á þessu tímabili og hefði því betra svigrúm til að reyna að fjölga viðskiptavinum sínum, meðan það með lökustu afkomuna þyrfti að sætta sig einhvern missi viðskiptavina í nokkur ár. Nei, á þessum markaði ruggar enginn bátnum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
26.8.2009 | 18:16
Eru námsmenn ferðamenn og hvað með debetkort?
Ef maður les lýsingu Hagstofunnar á því hvernig hún reiknar út notkun Íslendinga á gjaldeyri á ferðalögum sínum, þá er hún harla innantóm. Það segir:
Ferðaútgjöld Íslendinga erlendis Byggir á upplýsingum um kreditkortanotkun og upplýsingar frá fyrirtækjum.
Af þessu má draga þá ályktun að sé kreditkort notað erlendis, þá sé þar ferðamaður á ferð. Það þýðir að íslenskur námsmaður, sem nota íslenskt kreditkort erlendis, flokkast sem ferðamaður í tölum Hagstofunnar. Það er svo sem allt í lagi, en það mætti skýra betur út.
Skoðum nánar á hverju Hagstofan byggir tölur sínar neyslu erlenda ferðamanna:
Tekjur af neyslu erlendra ferðamanna innanlands Byggir á upplýsingum um kreditkortanotkun og upplýsingar frá fyrirtækjum.
Það vekur furðu mína, að debetkortavelta telst ekki með í útreikningum Hagstofunnar (a.m.k. miðað við þessa forsendu). Ég hef aðeins umgengist erlenda ferðamenn í sumar, enda er ég leiðsögumaður í hlutastarfi. Útlendingarnir nota debetkort umtalsvert og taka út pening í hraðbönkum. Getur verið að það valdi einhverri skekkju í þessum tölum? Ég hef rætt við fólk og það er búið að spara fyrir ferðinni og greiðir stóran hluta útgjalda með peningum sem það á.
Vonandi er þetta bara röng orðanotkun hjá Hagstofunni og öll greiðslukort eru flokkuð sem kreditkort. Sé svo ekki, þá er fullástæða fyrir Hagstofuna að endurskoða útreikninga sína. Ég trúi því ekki að kreditkortanotkun segi allt um útgjöld erlendra ferðamanna hér á landi.
Íslenskir ferðamenn eyða meiru en erlendir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.1.): 0
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 51
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 46
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði