Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Svæðið milli Grindavíkur og Skálafells er eftir

Skjálftahrinan sem gengið hefur yfir landið undanfarin 9 ár minnir okkur á að Ísland er á mörkum tveggja stórra fleka, Norður-Ameríkuflekans og EvróAsíuflekans.  Þó það sé nú reyndar þriðji flekinn, Hreppaflekkinn, sem er að valda mestu vandræðunum á Suðurlandi, þá er hann líklegast bara saklaust fórnarlamb sem er að kremjast á milli hinna tveggja.

Nú hafa orðið hreyfingar á Suðurlandi allt að Skálafelli (við Hellisheiði) og síðan á svæðinu í kringum Grindavík, en hvað þá með svæðið á milli? Það á eftir að brotna.  Svæðið frá Skálafelli og út á Reykjanestá er á mörkum heimsálfuflekanna.  Hluti af sprungusvæðinu liggur frá Krísuvík um Sveifluháls og Trölladyngju í gegnum Þingin í Kópavogi og alveg upp í Mosfellsbæ. Sigdalurinn í Heiðmörk er hluti af þessu kerfi.  Jarðskjálftarnir í Fagradalsfjalli eru einmitt á þessari sprungurein.  Þetta er svo kallað Trölladyngjukerfi.  Annar hluti liggur sunnar um Brennisteinsfjöll, Bláfjöll, Vífilsfell og yfir á Mosfellsheiði (Brennisteinsfjallakerfi).  Þriðja sprungukerfið, Hengilskerfið, byrjar svo rétt ofan við Selvog og liggur um Skálafell og Hengilinn yfir í Almannagjá og upp í Skjaldbreið og myndar m.a. Þingvallasigdældina og þar með Þingvallavatn.  Nöfnin á kerfunum vísa til virku eldstöðvakerfanna sem eru í kjarna/miðju svæðanna.  Nú vestan við Trölladyngjukerfið er síðan Reykjaneskerfið, sem gengur út í sjó vestan við Straumsvík (nær líklegast yfir á Seltjarnarnes) og skáhallt yfir Reykjanesið og út í sjó á svæðinu frá Grindavík að Sandvík um Reykjanestá. Reykjavíkursvæðið liggur að mestu á milli Reykjaneskerfisins og Trölladyngjukerfisins.

sprungukerfi-reykjanes.jpg

Sögulega þá hafa ekki verið stórir jarðskjálftar á norðaustur hluta Trölladyngjukerfisins, þ.e. á þeim sprungum sem ganga í gegnum Reykjavíkursvæðið.  Þetta sprungusvæði er líklegast leifar af eldra rekbelti, sem síðar hefur færst austar og fer núna annars vegar um Hengilssvæðið og hins vegar austan við Heklu og nær líklegast alveg að Vatnajökli.  En það breytir því ekki að sunnanvert Reykjanesið tilheyrir EvróAsíuflekanum og norðanvert Norður-Ameríkuflekanum og þessi skil eru að færast í sundur.  Núna er tilfærsla búin að eiga sér stað á hluta kerfisins og þá hljóta hinir hlutarnir að fylgja eftir.  Spurningin er því bara hvenær, en ekki hvort, svæðin suðaustan Reykjavíkursvæðisins og yst á Reykjanesi hugsa sér til hreyfingar.

rekbeltin.jpg

Annað sem rétt er að hafa í huga, er að eftir að gliðnunin hefur átt sér stað, þá þarf að fylla upp í, þ.e. gliðnunin kallar á eldgos!  Ég veit ekki hve margir gera sér grein fyrir því, en mörg hraun alveg frá Garðabæ og suður á Reykjanestá eru um og innan við 1000 ára gömul.  Það sem meira er, að vitað er að eldgosahrinur verða á þessu svæði á um 1000 ára fresti.  Loks eru það gömul sannindi að "þar sem hraun hafa runnið, geta hraun aftur runnið". 

Við getum því átt von á einhverjum hristingi og meira af jarðfræðilegu fjöri hér um ókomna tíð.  Hvort núverandi kynslóð eigi eftir að upplifa eldgos á svæðinu er heldur ólíklegt, en hristingur verður það.  Svo mikið er víst.

(Þetta er sem sagt nýútskrifaði leiðsögumaðurinn, Marinó G. Njálsson, sem greinir hér frá Cool.)


mbl.is Skjálftahrinan að fjara út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðarsátt um þak á verðbætur

Birti hér fyrir neðan ályktun og hvatningu Hagsmunasamtaka heimilana til þjóðarsáttar um þak á verðbætur:

Hagsmunasamtök heimilanna undrast að ríkisstjórninni finnist sjálfsagt mál að grípa einhliða til aðgerða sem leiða til hækkunar á höfuðstól verðtryggðra íbúðalána.  Á tímum þegar nauðsynlegt er að gera allt sem hægt er til að draga úr skuldsetningu heimilanna, þá sýnir ríkisstjórnin algjört skilningsleysi á því ófremdarástandi sem hér ríkir.

Hagsmunasamtök heimilanna krefjast þess að ríkisstjórnin grípi tafarlaust til aðgerða sem koma í veg fyrir að þær hækkanir, sem samþykktar voru á Alþingi [á fimmtudagskvöld], þyngi lánabyrði heimilanna.  Samtökin taka undir tillögur þingflokks Framsóknarmanna um að sett verði 4% þak á verðbótarþátt fjárskuldbindinga, enda er það ein af grundvallarkröfum samtakanna. Frumvarpið endurómar tillögur margra flokka og einstakra þingmanna í öðrum flokkum. Hvetja samtökin því til þess að frumvarpið fái sem fyrst þinglega meðferð, þrátt fyrir að um þingmannamál minnihluta sé að ræða. Fólkið í landinu er örvæntinarfullt og þingið þarf að sýna að það skilji neyð þess. Nú er ekki tíminn til að karpa um hver lagði frumvarpið fram eða hver fær heiðurinn af því.

Með því að setja 4% þak á verðbótaþátt fjárskuldbindinga gefst ríkisstjórninni auk þess svigrúm til frekari tekjuaflandi aðgerða, án þess að slíkar aðgerðir hafi áhrif á greiðslubyrði lána um ófyrirséða framtíð. 

Samtökin gera sér fulla grein fyrir að fleira er verðtryggt en fjárskuldbindingar, svo sem lífeyrir, bætur úr ríkissjóði og skattleysismörk.  Vissulega þurfi að fara varlega í að rjúfa sumar slíkar tengingar með einu pennastriki, en ef tíminn til áramóta er nýttur vel, þá má örugglega finna farsæla lausn á þeim vanda.  Í því samhengi lýsa samtökin yfir eindregnum samstarfsvilja.

Hér mun aldrei ríkja þjóðarsátt um aðhaldsaðgerðir af neinu tagi nema að skuldsettar fjölskyldur sjái að staða þeirra batni við aðgerðir stjórnvalda í stað þess að versna.  Fólk verður að sjá ljós við enda ganganna.  
 
Mikilvæg aðgerð á þeirri vegferð er að grípa án tafar inn í verðlagstengingu lána.  Því fara samtökin þess á leit við Alþingi að frumvarp Framsóknarflokksins um breytingar á lögum nr. 38/2001 verði afgreitt hratt og vel.  Hagsmunasamtök heimilanna hvetja Alþingi til að senda þjóðinni skýr skilaboð um að það skilji áhyggjur þjóðarinnar og skuldbindi sig til aðgerða sem veiti henni von inn í framtíðina.
 
29. maí 2009

Hagsmunasamtök heimilanna

www.heimilin.is


Hugmyndafæð ríkisstjórnarinnar æpandi

Ég veit ekki hvort menn eru búnir að reikna það út, að það hækki vísitölu neysluverðs minna að hækka álögur á bifreiðaeigendur, en að hækka einhverja aðra þætti.  A.m.k. er það stórfurðulegt að þegar hækkun bensínverð var stór áhrifavaldur við hækkun vísitölu neysluverðs núna í maí, þá sé gripið til þess að hækka það enn frekar.

Ég verð einnig að gera athugasemd við hækkun bifreiðagjalda.  Undanfarið ár hefur verið nær engin sala á nýjum bifreiðum.  Með hækkun bifreiðagjalda hækkar verð bifreiða sem dregur ennþá frekar úr eftirspurn.  Þessi 10% hækkun mun því ekki rata í ríkissjóð.  Nær hefði verið að lækka gjöldin og reyna þannig að örva eftirspurn.  Ég er alveg handviss um að tekjur ríkissjóðs yrðu meiri með því að örva eftirspurnina, en með aðferð ríkisstjórnarinnar.

Dökka hliðin á aðgerðum ríkisstjórnarinnar er náttúrulega áhrif þeirra á vísitölu neysluverðs.  Tryggva Þór Herbertssyni reiknast það til, að aðgerðin hækki lán landsmanna um 8 milljarða.  Það er fjórföld sú tala sem fór í hækkun vaxtabóta í vetur.  Já, FJÓRFÖLD hækkun vaxtabótanna.  Það hefði verið nær að afturkalla þessa hækkun vaxtabótanna!  Nú þetta er nokkurn vegin sama tala og komið hefur inn vegna tekjuskatta af innlausn séreignalífeyrissparnaðar.  Merkilegt hvað endalaust er hægt að níðast á heimilunum.

Vilji ríkisstjórnin auka tekjur sínar, þá verður að auka veltuna í þjóðfélaginu.  T.d. með því að leyfa frjálsa innlausn séreignalífeyrissparnaðar (og skatt frjálsa) væri ekki ólíklegt að landsmenn myndu taka út 80 - 120 milljarða, ef ekki meira af séreignalífeyrissparnaði.  Stór hluti af þessari tölu færi í neyslu, sem aftur færi inn í veltu fyrirtækjanna og sem veltuskattar til ríkissjóðs.  Vissulega fengi ríkissjóður ekki tekjuskattinn, en veltuskattarnir myndu gera meira en að vega það upp.  Ég held nefnilega að ástæðan fyrir því að fólk hefur ekki tekið meira út af séreignalífeyrissparnaði er vegna þess að því finnst blóðugt að missa 37% af upphæðinni í skatta.  Viðhorf fólks gagnvart veltusköllum er allt annað.  Flestum finnst í lagi að greiða 24,5% virðisaukaskatt af sjónvarpi, en ekki 37% tekjuskatt og útsvar.  Lykillinn er þó, að 80% af upphæðinni fer inn í veltu fyrirtækisins sem varan er keypt hjá.  (Ég segi 80% vegna þess að19,6% er virðisaukaskattur sem rennur til ríkisins mínus innskattur rekstrarvöru.)  Þessi 80% fara í að greiða innkaupsverð vörunnar og upp í rekstrarkostnað fyrirtækisins.  Með þessu dregur úr líkum á uppsögnum og þar með sparast atvinnuleysisbætur.  Það á alls ekki að fara þá leið, sem nefnd hefur verið, að skylda fólk til að greiða niður lán sín.  Bankarnir eru, að því mér skilst, yfirfullir af peningum sem enginn vill taka að láni vegna hárra vaxta og þess að fólk treystir ekki bönkunum sem lánveitendum.

Ég get skilið að ríkissjóður þurfi að auka tekjur sínar og/eða draga úr útgjöldum.  Besta leiðin til þess að auka tekjur ríkissjóðs er að auka neyslu heimilanna og veltuna í þjóðfélaginu.  Það er sem sagt ekki gert með skattahækkunum, heldur með skattalækkunum!  Það er gert með því að veita skattfrjálsu fé út í þjóðfélagið í þeirri von að það verði notað í neyslu.  Slík aðgerð mun virka sem bremsa á aukningu atvinnuleysis og loksins verða atvinnuaukandi.  Ég hélt að þetta væri algild hagfræði.  Það sem ríkissjóður þarf núna eru fleiri skattgreiðendur, en ekki færri.  Það þarf fleiri sem geta tekið á sig byrðarnar af bankahruninu og best væri að hver um sig bæri léttari byrðar.  Hin leiðin mun enda með miklu landflótta og mun meira atvinnuleysi en nokkur gerir sér í hugarlund. 

Höfum það á hreinu að á morgun gætum við fengið fregnir af umfangsmiklum uppsögnum sem taka gildi eftir þrjá mánuði.  Gerist þetta ekki á morgun, þá tefst þetta í mesta lagi um einn mánuð.  Auk þess hafa bankarnir þrír ekki þörf fyrir allt það starfsfólk sem þar er.  Gefum okkur að helmingur núverandi starfsmanna bankanna verði sagt upp það sem eftirlifir árs, þá erum við að tala um nokkur þúsund manns ofan á að minnsta kosta annað eins sem fá uppsagnabréf á næstu 4-5 vikum.  Þessu til viðbótar eru allir þeir nemendur framhaldsskóla og háskóla sem ekki munu fá vinnu í sumar eða fá bara hlutastörf.  Hafa stjórnvöld velt því fyrir sér hvaða áhrif það mun hafa á þarfir LÍN fyrir lánsfé á næsta skólaári.  Auðvitað hafa þau gert það. Eða það vona ég.


mbl.is Ríkið fær 2,7 milljarða - lánin hækka um 8 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig væri að sýna skilning?

Sem stjórnarmaður í Hagsmunasamtökum heimilanna, þá fæ ég alls konar símhringingar frá fólki sem er komið í þrot, hefur misst greiðsluviljann eða er bara reitt.  Ég verð bara að viðurkenna að sumar sögurnar eru svo fáránlegar, að maður er bara hlessa.  T.d. talaði við mig um daginn kona, sem lent í vandræðum 2003.  Hún gerði samning við bankann sinn og hefur borgað í samræmi við það samkomulag.  Nú vildi hún fá sér debetkort hjá bankanum (hvernig hún komst af án debetkorts í allan þennan tíma er mér ráðgáta), en viti menn.  Bankinn sagði nei.  Hún væri á vanskilalista og þess vegna fær hún ekki DEBETKORT!!!  Hún var ekki að biðja um heimild og hún er búin að vera í skilum í þau 5 ár síðan að samkomulagið var gert, en hún væri ennþá á vanskilalista og þess vegna sagði bankinn NEI.

Er það þetta sem býður 30% þjóðarinnar, ef ekki fleiri?  Er það þetta sem við viljum láta bjóða okkur?  Bankarnir sem settu þjóðina á hausinn þykjast yfir okkur hafnir vegna þess að við skuldum þeim pening sem við fengum ekki lánaðan heldur varð til vegna fjárglæfrastarfsemi bankanna.  Hvar er auðmýktin?  Hvar er iðrunin?

Í annað sinn hringdi í mig aðili utan af landi.  Þau hjónin eru í svipaðri stöðu og margir landsmenn, tekjurnar hafa haldist óbreyttar eða lækkað lítillega, en útgjöldin, þá sérstaklega afborganir lána, hafa hækkað umtalsvert.  Leitað var til bankans, en hann telur sig ekkert geta gert, vegna þess að þau uppfylltu ekki skilyrðið í samkomulagi fjármálafyrirtækja og stjórnvalda um greiðsluerfiðleikaúrræði um "að greiðsluerfiðleikar stafi af óvæntum tímabundnum erfiðleikum vegna veikinda, slysa, minni atvinnu, atvinnuleysi eða af öðrum ófyrirséðum atvikum", eins og segir í samkomulaginu.  Þetta er greinilega túlkað þannig, að viðkomandi verði að hafa orðið fyrir tekjumissi.  Skjalið sem á að vera útfærsla á greiðsluerfiðleikaúrræðum Íbúðalánasjóðs er nefnilega samið fyrir lánastofnanirnar, ekki lántakendur.  Það virðist eiga að tryggja að bankarnir fái örugglega sitt, en ekki að leggja til eins mörg úrræði og hugsast getur fyrir þá sem eru fórnarlömb fjárhættuspils bankanna.  (Meira um þessar reglur í færslu hér síðar.)

Aftur að hjónunum.  Þau eru búin að þrauka og standa í skilum alveg þar til núna í maí.  Þá var allt lausafé búið og varasjóðurinn tæmdur.  Rætt var við bankann um að frysta fasteignalánin, en svarið var nei.  "Þið hafið ekki orðið fyrir tekjumissi."  Mér finnst þetta alveg dásamleg röksemdarfærsla.  Sjáið sko, bankinn verður fyrir tekjumissi, ef hann fær ekki verðbæturnar sínar, en launamaðurinn verður ekki fyrir tekjumissi, ef launin hans standa í stað.  merkilegt nokk.  En það er kannski ekki það sem skiptir máli í þessu tilfelli:  Hækkun útgjalda er það sem skiptir máli.  Hjón sem höfðu, segjum, 270.000 kr. til ráðstöfunar í upphafi síðasta árs og hafa 270.000 kr. núna, vantar 54.000 til að vera með sömu greiðslugetu og í janúar í fyrra.  Kr. 54.000 er pláss fyrir tvö börn á leikskóla (a.m.k. sums staðar), það er áskrift að Stöð2 í heilt ár eða mánaðarleg borgun af 8.000.000 kr. láni.  Hvernig er hægt að segja, að ef einhvern vantar 54.000 kr. inn í ráðstöfunartekjur sínar, hafi sá aðili ekki orðið fyrir "óvæntum tímabundnum erfiðleikum...af öðrum ófyrirséðum atvikum"?

Tilfinning okkar hjá Hagsmunasamtökum heimilanna er að núna sé að koma önnur bylgja vandræða.  Fólkið sem nýtti sér öll úrræðin í haust og vetur, er að koma aftur og biðja um framlengingu frystinga eða frekari úrræði.  Einnig er fólkið, sem átti varasjóði til, að sækja til bankans síns um úrræði þar sem peningurinn er uppurinn.  Málið er að nú þurfa bankarnir ekki að samþykkja frystingu, það eru nefnilega komin "úrræði".  Þessi úrræði heita "greiðsluaðlögun", "greiðslujöfnun" og öðrum svona framandi heitum.  Bara þeir sem hafa orðið fyrir verulegum tekjumissi geta nýtt sér hin sértæku "greiðsluerfiðleikaúrræði".  Hinum, sem hafa verið svo heppnir að halda óbreyttum tekjum, er sniðinn þröngur stakkur.  Vissulega eru úrræði fyrir þennan hóp, en þau eru ekki í neinu samræmi við breytingu á fjárhagsstöðu fólks.  Greiðslujöfnunarvísitalan slær ekki á nema hluta þeirrar hækkunar sem hefur orðið undanfarið eitt og hálft ár.  Sama á við um greiðslujöfnun gengisbundinna lána.  Viðmiðið upp á gengisvísitölu 152 er 32 punktum eða 26,5% yfir gengi í árslok 2007.  Það eru ekki allir sem ráða við það sem umfram stendur.  Vissulega er hópur fólks ennþá vel settur, en jafnvel það er að missa viljann til að greiða.  Hvað gerist þá? 

Mér finnst sem lánastofnanir og stjórnvöld átti sig ekki á því hversu alvarlegt ástandið er orðið.  A.m.k. viðurkenna þessir aðilar það ekki út á við.  Í tveggja manna tali eru áhyggjurnar kannski viðraðar og möguleikar, en um leið og þriðji maður bætist við, þá er dregið í land.  Átta menn sig ekki á því að verðgildi lánasafnanna lækkar dag frá degi.  Það skiptir engu máli hvort um er að ræða útlán bankanna eða Íbúðalánasjóðs verðmætin rýrna hratt.  Eina leiðin til að snúa þessari þróun við, er að koma veltunni á fasteignamarkaðnum af stað aftur.  Það verður ekki gert nema áhvílandi lán verði stillt af og miðuð við greiðslugetu lántakenda.  Hugsanlega er hægt að setja hluta lánanna til hliðar og sjá svo síðar hvort meira verði innheimt, en lausnin er ekki að lengja í lánunum.  Lausnin er heldur ekki að setja stóran hóp fólks í greiðsluaðlögun eða gjaldþrot.  Það getur verið að það sé eina lausnin fyrir suma, en þá verður að breyta fyrningareglum eða að taka upp reglur Íbúðalánasjóðs um meðhöndlun lána umfram veð, þannig að fólk sé ekki að draga eftirstöðvar á eftir sér um aldur og ævi. 

Lánastofnanir verða að sætta sig við að ákveðinn hluti útlána þeirra til heimilanna er tapaður og verður aldrei innheimtur.  Stærsti hluti lánanna er í góðum málum og munu innheimtast að fullu. Og loks eru þau lán sem óljóst er hvort innheimtast.  Markmið kröfuhafa, hvort heldur innlendra lánveitenda heimilanna eða erlendra kröfuhafa bankanna, er að hámarka það sem fæst út úr þessu vafahluta.  Að mínu áliti verður það ekki gert með því að ganga hart fram núna. Þetta verða lánastofnanir að skilja.  Þær verða að sýna þolinmæði og skilning.  Þær verða að hjálpa til við að rétta þjóðfélagið af eftir það áfall sem hér gekk yfir á síðasta ári.


Stefnuleysi stjórnvalda stærsti vandinn

Um þessar mundir eru 8 mánuðir frá því að Seðlabankinn tók þá ákvörðun fyrir hönd ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að taka yfir 75% hlut í Glitni.  Afleiðingar þessarar ákvörðunar hafa verið geigvænlegar og er ekki séð fyrir endann á þeim enn.  Þegar þáverandi formaður bankastjórnar, Davíð Oddsson, tók þessa ákvörðun í lok september á síðasta ári, þá voru hér starfandi fimm bankar (Glitnir, Kaupþing, Landsbankinn, Sparisjóðabankinn og Straumur) og öflugt sparisjóðakerfi.  Nú 8 mánuðum síðar hafa allir bankarnir fimm verið teknir yfir af ríkinu, þar af verða tveir til þrír líklega settir í þrot, stærsti og öflugasti sparisjóður landsins er ekki lengur til og margir aðrir rétt tóra.  Sem afleiðing af þessu og efnahagsóstjórn í aðdraganda hruns fjármálakerfisins eru fjölmörg heimili og fyrirtæki ýmist komin í þrot eða við það að komast í þrot.  Hvernig skyldi nú standa á þessu öllu?

Þegar stórt er spurt, er oft fátt um svör, en mig langar að gera hér smá tilraun. Í mínum huga er ástæða númer eitt, tvö og þrjú algjör skortur á stefnumótun og markmiðssetningu.  Fyrst virtist vanta skýra stefnu varðandi uppbyggingu fjármálakerfisins.  Svo vantaði stefnu varðandi hvernig á átti að vinna sig út úr vandanum sem kom fyrst í ljós á vormánuðum 2006 og síðan aftur á haustmánuðum 2007.  Þá vantaði skýr úrræði til að kljást við þau vandamál sem komu upp síðari hluta febrúar 2008 og að ég tali nú ekki um í mars það ár.  Margar misgáfulegar ákvarðanir voru teknar í tilraun Seðlabankans til að bjarga Glitni, Kaupþingi og Landsbankanum, sem síðan felldu Straum, Sparisjóðabankann og SPRON og gerðu Seðlabankann í raun gjaldþrota.  Í september voru mikilvægar ákvarðanir teknar af formanni bankastjórnar Seðlabankans í staðinn fyrir að reynt væri að leysa málin með samvinnu margra aðila.  Datt engum í hug að spyrja sig hvað það þýddi að svipta eigendur hlutabréfa í Glitni 75% af eign sinni?  Datt engum í hug að skoða tengsl eignarhalds í þessum hlutabréfum við ábyrgðir og veð vegna annarra skuldbindinga?

En í lok september var ballið rétt að byrja og skaðinn var ennþá ekki orðinn mikill.  Skaðinn varð í sjálfu sér ekkert svo svakalegur við það að bankarnir féllu út frá starfsemi bankanna.  Tjónið fólst fyrst og fremst í því að eignir manna í hlutabréfum urðu að engu.  Það var bara eins og engum hafi dottið í hug að skoða afleiðingarnar af því.  En jafnvel þá var tjónið ekki orðið alvarlegt.  Það hefði mátt koma í veg fyrir margt af því sem síðar hefur átt sér stað með réttri stefnumótun og markmiðssetningu.  Það var bara ekki gert.  Við erum í dag að súpa seyðið af því slík vinna fór ekki í gang strax á fyrstu dögunum eftir að neyðarlögin voru sett (hún fór raunar í gang en lognaðist út af) og það sem meira er að allar aðgerðir stjórnvalda eru ennþá fálmkennd og stefnulaus.

Afleiðingin af þessu stefnuleysi er að setja þjóðfélagið á hausinn.  Fyrirtækin eru að fara í þrot hvert af öðru, heimilin eru að fara í þrot hvert af öðru, skilanefndir gömlu bankanna toga hver í sína áttina, þar sem þær fengu enga línu frá stjórnvöldum.  Krónan er sígur hægt og rólega til botns enda með allt of stutta akkerisfesti sem dregur hana í dýpið. Við getum beðið eftir því að þetta skrið niður á við hætti af sjálfu sér (sem er íslenska leiðin) eða við getum hafið markvissar aðgerðir til að stöðva það.

Í færslu hér 6. nóvember 2008 gerði ég eftirfarandi tillögu:

Nú þarf strax að grípa til aðgerða og fá færustu sérfræðinga landsins og þá erlendu aðila sem næst í til að mynda nokkur aðgerðaráð.  Ég sé fyrir mér að þessi ráð verði um eftirfarandi málefni:

  1. Fjármálaumhverfi: Verkefnið að fara yfir og endurskoða allt regluumhverfi fjármálamarkaðarins.
  2. Bankahrunið og afleiðingar þess:  Verkefnið að fara yfir aðdraganda bankahrunsins svo hægt sé að læra af reynslunni og draga menn til ábyrgða.
  3. Atvinnumál:  Verkefnið að tryggja eins hátt atvinnustig í landinu og hægt er á komandi mánuðum.
  4. Húsnæðismál:  Verkefnið að finna leiðir til að koma veltu á fasteignamarkaði aftur á stað.
  5. Skuldir heimilanna:  Verkefnið að finna leiðir til að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot heimilanna í landinu.
  6. Ímynd Íslands:  Verkefnið að endurreisa ímynd Íslands á alþjóðavettvangi.
  7. Félagslegir þættir:  Verkefnið að byggja upp félagslega innviði landsins.
  8. Ríkisfjármál: Verkefnið að móta hugmyndir um hvernig rétta má af stöðu ríkissjóðs.
  9. Peningamál: Verkefnið að fara ofan í peningamálastefnu Seðlabanka Íslands, endurskoða hana eftir þörfum og hrinda í framkvæmd breyttri stefnu með það að markmiði endurreisa traust umheimsins á Seðlabanka Íslands
  10. Gengismál:  Verkefnið að skoða möguleika í gengismálum og leggja fram tillögur um framtíðartilhögun.
  11. Verðbólga og verðbætur:  Verkefnið að fara yfir fyrirkomulag þessara mála og leggja til umbætur sem gætu stuðlað að auknum stöðugleika.
  12. Framtíð Íslands - Á hverju ætlum við að lifa: Verkefnið að móta framtíðarsýn fyrir Ísland varðandi nýja atvinnuvegi.
  13. Framtíð Íslands - Hvernig þjóðfélag viljum við:  Verkefnið að móta framtíðarsýn fyrir Ísland varðandi inniviði þjóðfélagsins.

Þessir hópar þurfa að vera fleiri, en ég læt þessa upptalningu duga.

Hóparnir þurfa að vera ópólitískir.  Fyrir hverjum hópi fari einstaklingar úr atvinnulífinu eða háskólasamfélaginu.  Stærð hópa velti á umfangi vinnu og hversu brýn viðfangsefnin eru.  Stærri hópar þurfa lengri tíma.  Mikilvægt sé að allir geti komið skoðunum sínum að.  Misjafnt er hve hratt hóparnir þurfa að vinna, en ljóst að "neyðarhóparnir" þurfa að vinna hratt og vel.

Nú sé ég fyrir mér að við þurfum fleiri hópa og hlutverk þeirra sé að móta stefnu og skilgreina markmið.  Starfsvið þeirra sé að gera tillögu að aðgerðaáætlun til að vinna okkur út úr þeim vanda sem þjóðin er sífellt að sökkva dýpra og dýpra ofan í.  Að stöðva hrunið sem ennþá er í gangi.  Við höldum að sumarið verði gott vegna fjölda ferðamanna, en ég hef fyrir því heimildir að sum ferðaþjónustufyrirtæki standi frammi fyrir 60% samdrætti í pöntunum.  Vona ég að það gangi ekki eftir.

Ég sagði um daginn, að ég væri tilbúinn að leiða svona vinnu og skila niðurstöðum í formi hvítbókar á innan við 8 vikum.  Stend ég við þá yfirlýsingu mína.  Ég er svo sem viss um að úti í þjóðfélaginu séu til hæfari einstaklingar til verksins, en hver það verður valinn til að stýra svona skiptir ekki máli. Það sem skiptir máli er að einhenda sér í verkið.


Ef menn brigðust jafn hratt við málum hér innanlands

Það er forvitnilegt að sjá, að viðbrögð íslensku ríkisstjórnarinnar vegna kjarnorkutilraunar Norður Kóreumanna voru komin í morgunfréttum útvarpsstöðvanna.  Á sama tíma er ekki hægt að sýna nein viðbrögð vegna hins sífellt versnandi ástands hér innanlands.  Er það kannski bara þannig að menn hafa engin úrræði við erfiðleikum heimilanna og atvinnulífsins og þurfa því að fella pólitískarkeilur á kostnað fjarlægra þjóða?  Ég held að Össur ætti frekar að huga að íslenskum börnum sem þurfa fjárstuðning ókunnugra til að geta fengið mat í skólanum sínum, en að velta fyrir sér í hvað Norður Kórea notar peningana sína.

Sjálfum finnast mér þessar tilraunir N-Kóreu vera meiður af sömu typpasýningu og aðrir einræðisherrar og ráðmenn austanhafs og vestan hafa viðhaft undanfarna áratugi í þeirri von um að einhver taki mark á þeim.  Þ.e. flótti frá því að takast á við raunveruleg vandamál þegnanna.


mbl.is Ættu frekar að fæða fólk sem lifir við hungurmörk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Staða bankakerfisins 30. september 2008 segir annað

„Vandinn er sá að bankarnir eru með of mikið af eignum í erlendri mynt sem bera lága vexti en of mikið af skuldbindingum í krónum sem bera háa vexti. Það er afar óþægileg staða að vera í og veldur taprekstri þeirra,“ segir Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra.

Ég veit ekki frekar en aðrir landsmenn hvernig efnahagsreikningur nýju bankanna lítur út núna, en ef eitthvað er að marka stöðuna við hrun bankanna í byrjun október, þá þarf mikið að hafa breyst til þess að orð viðskiptaráðherra standist.  Skoðum tölur sem er að finna á vef Seðlabanka Íslands.

 

Reikningar lánakerfisins

Ma.kr.

Staða í lok tímabils

 

Sept. 

Eignir:

2008

Innlend útlán og verðbréfaeign, alls:

 

    Bankakerfi

5.187,6

    Ýmis lánafyrirtæki

1.083,3

        þ.a. bindiskyld lánafyrirtæki

472,6

    Lífeyrissjóðir

1.254,4

    Tryggingarfélög

56,0

    Verðbréfa- og fjárfestingasjóðir

600,8

    Útlönd

9.579,6

   Lánasjóðir ríkisins

702,5

Milli samtala

18.464,2

Frá dragast innbyrðis viðskipti lánafyrirtækja

-10.759,1

Innlend útlán og verðbréfaeign, alls

7.705,1

Skuldir:

 

Innlendar skuldir

6.049,5

    Innlán og seðlar

1.154,9

    Skuldabréf og víxlar

1.221,3

    Tryggingarsjóður

69,6

    Lífeyrissjóðir

1.753,9

    Eigið fé lánastofnana

1.351,6

    Annað nettó

498,3

Erlendar skuldir, nettó

1.655,6

  Erlendar lántökur

9.579,6

  Stuttar kröfur á útlönd

-2.248,2

  Erlend verðbréfaeign

-2.221,6

  Útlán til erlendra aðila

-3.454,1

  

Útlánaflokkun

 

Ríkissjóður og ríkisstofnanir

148,4

Bæjar- og sveitarfélög

149,6

Atvinnuvegir

5.516,7

Heimili

1.890,4

Samtals útlán

7.705,1

Samkvæmt þessum tölum eru innlán á innlánsreikningum og seðlar kr. 1.1.54 milljarðar.  Þessi innlán skiptast sem hér segir:

Innlán, alls

 
 

Staða í ma.kr.

Veltiinnlán í íslenskum kr.

355,1

Peningamarkaðsreikningar

203,9

Óbundið sparifé

153,5

Verðtryggð innlán

166,3

Innlán v/viðbótarlífeyrissparnaðar

50,5

Annað bundið sparifé

234,0

Innlán samtals

1.163,3

(Ég veit ekki hvernig stendur á þessum 9 milljörðum sem munar á þessum tölum Seðlabankans.)

Þá eru það útlánin:

Innlendir aðilar, alls

 

September 2008

Ma.kr.

Verðtryggð skuldabréf

971,4

Óverðtryggð skuldabréf

629,6

Gengisbundin skuldabréf

2.851,9

Víxlar

11,5

Yfirdráttarlán

251,5

Gengisbundin yfirdráttarlán

110,7

Innleystar ábyrgðir

0,8

Eignarleigusamningar

57,8

Útlán samtals

4.780,2

 

Berum þetta núna saman:

  • Verðtryggð innlán eru 166,3 milljarðar, en útlánin 971,4 milljarðar
  • Veltiinnlán eru 355,1 milljarðar, en yfirdráttarlán 251,5 milljarðar.  Þó svo að veltiinnlánin séu hærri en yfirdráttarlánin, þá eru vextir af yfirdráttarlánunum mun hærri.
  • Óverðtryggð innlán eru rúmlega 387 milljarðar, en óverðtryggð útlán (í skuldabréfum) 629,5 milljarðar

Ég verð að viðurkenna, að ég fæ þetta ekki til að ganga upp eins og viðskiptaráðherra er að skýra út.  Líklegasta ástæðan er sú að ég hef ekki réttar tölur, en ég hef jú bara þær tölur sem Seðlabankinn hefur birt.

Ég sé annað vandamál í þessum tölum, en það er gjaldeyrisjöfnuður innlenda hluta fjármálakerfisins.  Gengisbundin útlán nema um 2.960 milljörðum meðan gengisbundin innlán eru ekki nema í kringum 110 milljarðar.  Samkvæmt reglum Seðlabankans má þessi munur eingöngu vera 10%, en er um 96%.  Að öllum líkindum þýðir þetta að skilja verður eftir í gömlu bönkunum stóran hluta gengisbundinna útlána.  Einnig væri hægt að breyta þessum lánum yfir í íslenskar krónu, en það verður varla gert á því gengi sem var 30. september 2008.


mbl.is Ríkisbankarnir reknir með tapi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstöðufundur og samstöðutónleikar

Hagsmunasamtök heimilanna hafa blásið til samstöðufundar, eins og kemur fram í frétt mbl.is.  Það sem ekki kemur fram í fréttinni, er að Bubbi og EGÓ taka við þegar ræðuhöldum lýkur.  Vonandi sjá sem flestir sér fært að mæta á fundinn og til að njóta tónlistarinnar á eftir.

Efnisskrá vorþings gefur ekki mikið tilefni til bjartsýni.  Meðan bankarnir yfirtaka hvert fyrirtækið á fætur öðru og ein fjölskylda flyst að meðaltali úr landi á hverjum degi, þá kemur ekkert frá ríkisstjórninni til þess fólgið að gefa fólki og fyrirtækjum von.  Sorgleg staðreynd.  Allt virðist snúast um að verja hag þeirra sem unnu markvisst gegn þjóðinni og hagkerfinu.  Bankarnir eiga að fá sitt, sama hvað tautar og raular.  Ekkert er gert til að verja störfin, ekkert er gert til að fara út í mannaflsfrekar framkvæmdir.  Samráð við hagsmunaaðila er ekki til.

Þeir sem ekki eru sáttir við núverandi ástand fá tækifæri á laugardaginn til að sýna samstöðu sína.  Þetta er ekki mótmælafundur, þetta er samstöðufundur til að vekja athygli stjórnvalda á því hversu alvarlegt ástandið er.  Vonandi sjá sem flestir þingmenn sér fært að mæta til að skynja hug yfirmanna sinna, þ.e. þjóðarinnar.


mbl.is Boða til fundar á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hringferð um Ísland

Ég var að koma úr 6 daga hringferð um landið.  Ferðin var hluti af námi mínu við Leiðsöguskólann.  Ég held ég geti alveg fullyrt að þeirra fjölmörgu Íslendinga, sem ætla að ferðast innanlands í sumar, bíður svo margt spennandi að sjá.  Fróðlegar sýningar og skemmtileg söfn er að finna út um allt land.  Í liggur við hverju einasta byggðarlagi er áhugavert og fróðlegt safn eða sýning.  Menning, vísindi, jarðfræði og saga er efni þessara safna og sýninga.  Nú sé það ekki nógu spennandi, þá geta spennufíklar sótt í flúðasiglingu, klettaklifur, jöklaferðir, siglingu eða akstur á fjórhjólum.

Ég vil helst ekki tiltaka neitt eitt sérstakt, en sem gamall aðdáandi meistara Þórbergs, þá bara verð ég að nefna Þórbergssetrið á Hala í Suðursveit.  Það er tær snilld.  Þarna er búið að endurgera gömlu baðstofuna að Hala, svefnloftið í Bergshúsi við Skólavörðustíg og stofukrókinn á Hringbrautinni.  Að koma þarna var eins og að upplifa Í Suðursveit, Ofvitann og Sálminn um blómið.

Eftir þessa ferð hlakka ég bara til að takast á við krefjandi verkefni sumarsins, að draga björg í búið með vinnunum mínum tveimur, þ.e. öryggisráðgjöfinni og leiðsögn ferðamanna um landið.


Heimilin eru ekki botnlaus sjálftökusjóður fjármálafyrirtækja og slæmrar efnahagstjórnunar

Ég bið stjórnvöld og fjármálastofnanir vinsamlegast um að hugleiða eftirfarandi orð vandlega og grípa til aðgerða í samræmi við innihald þeirra:

Heimilin eru ekki botnlaus sjálftökusjóður fjármálafyrirtækja og slæmrar efnahagsstjórnunar.

 

Þessi orð komu fram hjá stjórnarmanni Hagsmunasamtaka heimilanna á stjórnarfundi í kvöld.  

Við þetta vil ég bæta:

Í ljósi stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar, þá virðist sem stjórnvöld telji að nóg sé að lækka greiðslubyrði lána.  Ég spyr: Er það virkilega svo, að greiðslubyrðin ein skiptir máli?  Það er rugl.  Það er ekki síður eignarmyndun fólks í fasteignum sínum og hve lengi fólk er að greiða sem skiptir máli.  Það þarf að verja eigið fé fólks, en í stað  þess að setja það í skuldaklafa um aldur og ævi.  Að koma greiðslubyrðinni niður er skammtímalausn.  Að leiðrétta höfuðstólinn er langtímalausn og réttlætismál. 

Þeir sem vilja ekki leiðréttingu sinna mála þurfa ekki að þiggja eðlilega, sjálfsagða og réttláta leiðréttingu.  Við hin krefjumst hennar og munum einnig þiggja það sem aðrir vilja ekki.  Við ætlum ekki að láta þá, sem láta flokkspólitíska rétthugsun blinda sér sýn, stöðva okkur í leit okkar að réttlæti.

Þó svo að greiðslubyrðin hafi með fálmkenndum úrræðum ríkisstjórnarinnar verið lækkuð til skamms tíma, þá munu langtímaáhrifin verða mikil.  Ef einstaklingur/heimili þarf að borga milljón á ári (á núvirði) tíu árum lengur en ella, þá skerðir það neyslugetu viðkomandi þessi tíu ár.  Það heldur aftur af hagvexti, fjárfestingum og atvinnusköpun og dregur úr tekjum ríkisins, velferðinni í þjóðfélaginu og lífsgæðum fólks.  Hvernig væri að hugsa eitthvað lengra en bara að næstu afborgun lána?

 


Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband