Leita í fréttum mbl.is

Svæðið milli Grindavíkur og Skálafells er eftir

Skjálftahrinan sem gengið hefur yfir landið undanfarin 9 ár minnir okkur á að Ísland er á mörkum tveggja stórra fleka, Norður-Ameríkuflekans og EvróAsíuflekans.  Þó það sé nú reyndar þriðji flekinn, Hreppaflekkinn, sem er að valda mestu vandræðunum á Suðurlandi, þá er hann líklegast bara saklaust fórnarlamb sem er að kremjast á milli hinna tveggja.

Nú hafa orðið hreyfingar á Suðurlandi allt að Skálafelli (við Hellisheiði) og síðan á svæðinu í kringum Grindavík, en hvað þá með svæðið á milli? Það á eftir að brotna.  Svæðið frá Skálafelli og út á Reykjanestá er á mörkum heimsálfuflekanna.  Hluti af sprungusvæðinu liggur frá Krísuvík um Sveifluháls og Trölladyngju í gegnum Þingin í Kópavogi og alveg upp í Mosfellsbæ. Sigdalurinn í Heiðmörk er hluti af þessu kerfi.  Jarðskjálftarnir í Fagradalsfjalli eru einmitt á þessari sprungurein.  Þetta er svo kallað Trölladyngjukerfi.  Annar hluti liggur sunnar um Brennisteinsfjöll, Bláfjöll, Vífilsfell og yfir á Mosfellsheiði (Brennisteinsfjallakerfi).  Þriðja sprungukerfið, Hengilskerfið, byrjar svo rétt ofan við Selvog og liggur um Skálafell og Hengilinn yfir í Almannagjá og upp í Skjaldbreið og myndar m.a. Þingvallasigdældina og þar með Þingvallavatn.  Nöfnin á kerfunum vísa til virku eldstöðvakerfanna sem eru í kjarna/miðju svæðanna.  Nú vestan við Trölladyngjukerfið er síðan Reykjaneskerfið, sem gengur út í sjó vestan við Straumsvík (nær líklegast yfir á Seltjarnarnes) og skáhallt yfir Reykjanesið og út í sjó á svæðinu frá Grindavík að Sandvík um Reykjanestá. Reykjavíkursvæðið liggur að mestu á milli Reykjaneskerfisins og Trölladyngjukerfisins.

sprungukerfi-reykjanes.jpg

Sögulega þá hafa ekki verið stórir jarðskjálftar á norðaustur hluta Trölladyngjukerfisins, þ.e. á þeim sprungum sem ganga í gegnum Reykjavíkursvæðið.  Þetta sprungusvæði er líklegast leifar af eldra rekbelti, sem síðar hefur færst austar og fer núna annars vegar um Hengilssvæðið og hins vegar austan við Heklu og nær líklegast alveg að Vatnajökli.  En það breytir því ekki að sunnanvert Reykjanesið tilheyrir EvróAsíuflekanum og norðanvert Norður-Ameríkuflekanum og þessi skil eru að færast í sundur.  Núna er tilfærsla búin að eiga sér stað á hluta kerfisins og þá hljóta hinir hlutarnir að fylgja eftir.  Spurningin er því bara hvenær, en ekki hvort, svæðin suðaustan Reykjavíkursvæðisins og yst á Reykjanesi hugsa sér til hreyfingar.

rekbeltin.jpg

Annað sem rétt er að hafa í huga, er að eftir að gliðnunin hefur átt sér stað, þá þarf að fylla upp í, þ.e. gliðnunin kallar á eldgos!  Ég veit ekki hve margir gera sér grein fyrir því, en mörg hraun alveg frá Garðabæ og suður á Reykjanestá eru um og innan við 1000 ára gömul.  Það sem meira er, að vitað er að eldgosahrinur verða á þessu svæði á um 1000 ára fresti.  Loks eru það gömul sannindi að "þar sem hraun hafa runnið, geta hraun aftur runnið". 

Við getum því átt von á einhverjum hristingi og meira af jarðfræðilegu fjöri hér um ókomna tíð.  Hvort núverandi kynslóð eigi eftir að upplifa eldgos á svæðinu er heldur ólíklegt, en hristingur verður það.  Svo mikið er víst.

(Þetta er sem sagt nýútskrifaði leiðsögumaðurinn, Marinó G. Njálsson, sem greinir hér frá Cool.)


mbl.is Skjálftahrinan að fjara út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Flottur og það er ólíkt skemmtilegra að skrifa og lesa um þessa hluti en helv..... kreppuna og á óáran sem henn fylgja og ollu henni.

Arinbjörn Kúld, 31.5.2009 kl. 14:43

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Eitthvað finnst mér ég kannast við spekina... 

Lára Hanna Einarsdóttir, 31.5.2009 kl. 14:53

3 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Þú kannt greinilega að skrifa um fleira en hagsmuni heimilanna og almennings í landinu Mig langar þó til að benda á að einhverjir hafa jafnvel talið að eldgos geti einmitt orðið í nágrenni Reykjavíkur á okkar tímum.

Ég hef reyndar ekki heyrt þessa umræðu í nokkurn tíma en sú sem er mér minnisstæðust var blönduð af öryggismálum eins og þeirri skuggalegu staðreynd að Miklabrautin muni aldei anna því ef íbúar Stór-Reykjavíkursvæðisins þyrftu t.d. að flýja eldgos sem ætti upptök í Bláfjöllum.

Rakel Sigurgeirsdóttir, 31.5.2009 kl. 14:53

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Já, Lára Hanna, glósurnar eru líklegast þær sömu.

Takk, Arinbjörn, ég er sammála um að þetta er ólíkt skemmtilegra.

Marinó G. Njálsson, 31.5.2009 kl. 14:54

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Rakel, rétt er það, að það getur gosið hvenær sem er á næstu 150 árum eða svo.

Það verður svo pistill eftir mig á vef Félags leiðsögumanna um hringferð okkar nýútskrifaðra leiðsögumanna.  Pistillinn er í yfirlestri og fer svo inn.  Ætli ég setji tengil á hann hér líka.

Marinó G. Njálsson, 31.5.2009 kl. 14:57

6 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

til lukku með diplómuna

Brjánn Guðjónsson, 31.5.2009 kl. 15:12

7 identicon

Ógnvænlegt.  cyclops

EE elle (IP-tala skráð) 31.5.2009 kl. 17:13

8 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það er mjög gott að halda sig bara í Reykjavík ef svo ólíklega vildi til að það færi að gjósa á Bláfjalla- eða Hengilssvæðinu, koma sér t.d. fyrir uppá Perlu og njóta útsýnisins. Engin ástæða til að fara neitt, nema kannski í rólegheitum upp úr Elliðaárdalnum ef einhverjir eru þar. Skjálftar á þessu svæði verða heldur ekki eins stórir og á Suðurlandi og eru fólki bara til skemmtunar og auk þess ágætis upplifun fyrir útlendinga.

Emil Hannes Valgeirsson, 31.5.2009 kl. 17:39

9 identicon

Mun ekk flæða yfir okkur?  cyclops

EE elle (IP-tala skráð) 31.5.2009 kl. 17:56

10 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Nei það flæðir ekkert yfir okkur. Reykjavík er aðallega byggð á nesi þar sem aldrei mun renna hraun og svo á ótal hæðum austan Elliðaárdals sem mun safna til til sín öllu hraunrennsli á svæðinu. Hinsvegar þar sem er hraun í dag getur hraun runnið aftur, eins og við Garðabæ og Hafnarfjörð. Álverið í Straumsvík gæti líka lent í hrauni, sumum til einhverrar ánægju. Eldgos á Reykjanessvæðinu yrðu svipuð Kröflueldum, þ.e. aðallega hægfara hraunrennsli útfrá sprungugosum, með lítilfjörlegu öskufalli. Hér í grenndinni eru enginn stór eldfjöll sem geta sprungið með látum. Því erum við sennilega bara að tala um vingjarnleg túristagos og lítt ógnvænleg.

Emil Hannes Valgeirsson, 31.5.2009 kl. 18:37

11 Smámynd: Jónas Jónasson

Ja Emil, svona vinarlegan bæjarlæk í gegnum í gegnum fallegu borgina okkar okkur til miklillar ánægju og ómælds yndisauka.

Marino: þetta var frábær pistill hjá þér og til hamingju með leiðsögumannaréttindin þín.

Jónas Jónasson, 31.5.2009 kl. 18:48

12 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Emil, Leitarhraunin runnu til sjávar í Elliðavogi fyrir 4.700 árum.  Við getum ekki útilokað annað slíkt gos, en líklegast mun hraunrennsli á þessu svæði ekki hafa mikil áhrif á byggðina, en gæti truflað samgöngur.  Nú nokkur hraun í Heiðmörk runnu eftir landnám, Flatahraun í Hafnarfirði rann um árið 1000 og Kapelluhraun árið 1151.  Búrfellshraunin, sem eru umfangsmestu hraunin innan bæjarmarka Hafnarfjarðar, runnu aftur fyrir um 7.200 árum.

Þú segir að nálægt Reykjavík séu "engin stór eldfjöll sem geta sprungið".  Þetta er ekki rétt Hengill er megineldstöð sem er í sínu þróunarferli.  Það er aftur ákaflega ólíklegt að Hengillinn sé á þeim stað í þróunarferlinu að þetta gerist næstu árþúsundum eða hundruð þúsundum.

Marinó G. Njálsson, 31.5.2009 kl. 19:04

13 Smámynd: Baldvin Jónsson

Var ekki Hengillinn nálægt því að gjósa 1998?

Baldvin Jónsson, 31.5.2009 kl. 20:47

14 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég var nú aðallega að skrifa þetta til að draga úr ástæðulitlum ótta við afleiðingum eldgos nálægt höfðuðborginni eins og mér fannst koma fram í athugasemdum og ég sé ekki fyrir mér tilefni til að rýma höfuðborgarsvæðið ef til eldgoss kæmi. Pistillinn frá þér Marínó, stendur þó alveg fyrir sínu. Ég minntist einmitt á Elliðaárnar vegna þess að þar er hraunið sem fór í Elliðaárvoginn en hraun leitar alltaf til sjávar eins og vatnið.

Hengillinn er ekki eldkeila svipað Heklu og Eyjafjallajökli sem geta valdið miklu meiri skaða en við höfum kynnst. Það er þó auðvitað alltaf erfitt að útiloka eitthvað í náttúrunni. Helsta hættan á öskufalli á höfuðborgarsvæðinu er hinsvegar ef það gýs í sjálfu Þingvallavatni svipað og þegar Sandey myndaðist.

Emil Hannes Valgeirsson, 31.5.2009 kl. 20:53

15 identicon

Hér á mínum heimaslóðum Vestmannaeyjum hafði ekki gosið í 5000 ár og Helgafell talið útdautt eldfjall. Það getur gosið allstaðar á öllum Reykjanesskaga,Bláfjöllum,og Hafnarfirði. Ef þið viljið vera örugg.,flytjið af landi brott

Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 31.5.2009 kl. 21:08

16 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Eldgígur mokaður í burtu

Vallahverfið í Hafnarfirði er byggt á hrauni sem rann árið 1151. Þessi gígur sem er einn þeirra sem þá rann úr er og er aðeins í 5 km fjarlægð frá byggðinni á Völlum við Hafnarfjörð.

Goshrynur hefjast á Reykjanesinu með um 1000 ára millibili og standa í 200-300  ár. Grindavík og Bláa lónið er jafn nærri svona hættum og Vestmannaeyjabær þ.e. standa hreinleg á eldvirka svæðinu. Reykjanesið er komið á tíma og næsta víst er að innan svona 300 ára hefst ný goshrina á Reykjanesinu með hraunum sem reikna má með að mörg nái til sjávar beggja vegna á nesinu. - Það getur vel gerst á morgun. 

Fyrir nokkrum árum var ég í skipulagsnefnd Kópavogs og kom að samráði um framtíðar þróun byggðar á höfuðborgarsvæðinu. Ég bað þá um upplýsingar um eldgosahættu og mögulega hraunstrauma. Enginn áhugi var á að kalla eftir slíkum upplýsingum og mér vitanlega var aldrei framar eftir þeim leitað við þá vinnu.

Að mínu viti ætti ekki að skipuleggja byggð á Völlunum og hraunum við Straumsvík en einnig Grindavík og víðar nema gera sér jafnframt grein fyrir hvernig mögulegir hraunstraumar framtíðar yrðu stöðvaðir.

Eins og áður um snjóflóðahættuna og svo nú síðast um hrunhættu bankakerfisins okkar og gjaldþrot þjóðarinnar þá látum við eins og hættan sé ekki til og ekki þurfi að  gera neinar varúðarráðstafanir fyrr en hún dynur yfir okkur.

Helgi Jóhann Hauksson, 31.5.2009 kl. 21:45

17 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Þegar ég tala um að stöðva hraunstrauma á ég við að beina þeim framhjá byggð. -AÐ það þurfi að skipuleggja byggðina á þessum hraunum með það í huga hvort það sé hægt og hvernig ef þær aðstæður skapast að hraun rinnu.

Mögulega þryfti t.d. að setja upp efnismiklar manir eins og hljóðmanir meðfram umferaðgötum eða snjóflóðavarnir ofan Flateyrar á réttum stöðum í landlaginu ofan við byggðina. Mögulega væri ekki tími til þess eftir að hraun tækju að renna, eða ef búið væri að reisa byggðina án þess að hga að þessu væri mögulega ekki lengur hægt með jafn virkum hætti að nýta landslagið til að styðja staðsetningu svona varna.

Það væri ekkert að því að reisa svona manir þó aldrei kæmi til þess að þær nýttust, þær yrðu bara hluti landlags byggðarinnar en ykju öryggistilfinngu okkar eins og snjóflóðavarnir annarsstaðar, það gæti hinsvegar orðið mjög alverlegt að hafa aldrei hugað að svona ógn sem blasir við fyrr en það er of seint.

Helgi Jóhann Hauksson, 31.5.2009 kl. 22:05

18 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég tek alveg undir það að vissar byggðir í útjaðri höfuðborgarsvæðis og t.d. Grindavík gætu verið illa staðsettar með tilliti til eldgosa og það er vissulega að koma tími á eldvirkni á Reykjanesgosbeltinu. Misskilningurinn sem ég er helst að reyna að leiðrétta og kemur stundum upp er að allt höfuðborgarsvæðið gæti verið í hættu ef kæmi til eldgoss. Eða eins og ég sagði áðan: „þar sem er hraun í dag getur hraun runnið aftur, eins og við Garðabæ og Hafnarfjörð“

Emil Hannes Valgeirsson, 31.5.2009 kl. 22:08

19 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Emil, Hekla er ekki eldkeila. Hekla er eins og árabátur á hvolfi vegna þess að hún er sprunga sem opnast aftur og aftur eins og svo sem flest eldstöðvakefi á Íslandi með kvikuþró. Að því leiti er Hengillinn eins og Hekla að hann er eldstöðvakerfi með kvikuþró - hann er bara eldri og hefur ekki verið mjög virkur sjálfur á nútíma.

Snæfellsjökull og Öræfajökull eru eldkeilur og jú Eyjafjallajökull einnig.

Það er ekkert við Hengilinn sem útilokar að hann geti ekki gosið meirháttar gosi eins og hvert annað eldstöðvakerfi með kvikuþró á Íslandi. Saga hans síðustu árþúsund vísar þó ekki til þess.

Önnur aldstöðvakerfi Reykjaness eru hinsvegar án kvikuþróar. Hraun þeirra koma því beint af miklu dýpra án þess að „þroskast“ mikið með bráðnun saman við jarðskorpuna í kvikuþróm. Þessvegna eru þau þunnfljótandi og geta farið hratt yfir en án mikillar ösku eða hamfaragosa, eins og getur orðið þar sem hraunin bræða útúr jarðskorpunni í kvikuþróm.

Helgi Jóhann Hauksson, 31.5.2009 kl. 22:21

20 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Það er bara fjör í gangi, en Hekla er reyndar talin vera hvorutveggja eldkeila og ílangur eldhryggur, skilgreiningaratriði þó. Ég nefndi Heklu vegna þess að þar geta og hafa orðið feiknamikil þeytigos t.d. fyrir 2900 árum.

Emil Hannes Valgeirsson, 31.5.2009 kl. 22:55

21 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þetta er flott umræða.  Eldstöðvakerfi á borð við Snæfellsjökul, Hengilinn og Öræfajökul svo nokkur séu nefnd (sleppi Heklu þar sem hún er frekar ung) þroskast frá því að vera gos á sprungu upp í það að vera askja.  Þau geta farið marga hringi í þessari þróun.  Árið 1362 varð stórt gos í Öræfajökli sem lagði Litla Hérað í eyði, það sem við núna þekkjum sem Öræfasveit.  1875 varð stórt gos í Öskju sem varð til þess að byggðin á Jökuldalsheiði lagðist að mestu af.  Eyjafjallajökull gæti verið næstur eða Snæfellsjökull eða Hengillinn.  Spurningin er raunar ekki hvort heldur hvenær það verða svona hamfaragos í þessum eldfjöllum.

Hættan af því að búa nálægt stórum eldstöðvakerfum er samt hverfandi.  Það eru t.d. óendanlega meiri líkur á því að láta lífið í umferðaslys (um 1/15.000 á hverju ári) en í eldgosi miðað við að síðasta dauðsfall vegna eldgoss var í Heklugosinu 1947 og síðan var einn sem talinn er að hafi látist úr gaseitrun í Vestmannaeyjum 1973.  Vissulega dóu margir í Móðuharðindum, en fjöldi þeirra sem lést í Skaftáreldur var ekki mikill.  Það hafa margfalt fleiri dáið í snjóflóðum á Íslandi en í eldgosi.  Samt hafa frekar fáir látist í snjólflóður samaborið við umferðarslys.  Þýðir þetta að við eigum að taka létt á hættunni af snjólflóðum?  Nei, við teljum nauðsynlegt að auka öryggi fólks sem býr á slíkum svæðu eða jafnvel forðumst að byggja ný hús á slíkum svæðum.  Ef Vestmannaeyjar væru á snjóflóðahættusvæði, þá væri búið að færa byggðina út í Bjarnarey eða upp á land.  Það á eftir að gjósa þar aftur og næsta gos gæti orðið beint undir fótunum á einhverjum.  Samt býr fólk þar vegna þess að allir staðir hafa kosti og galla.

Það er alveg sama hvar við byggjum, öllum stöðum fylgir áhætta.  Hugmyndir þínar, Haukur, um manir eiga alveg fyllilega rétt á sér, en tilgangurinn með þeim væru fyrst og fremst til að vernda eignir ekki bjarga mannslífum.

Vandamálin sem við þurfum hugsanlega að velta fyrir okkur hér á landi eru samgöngur til og frá landinu.  Verði kröftugt Kötlugos, að ég tali nú ekki um nýtt gos á borð við Skaftárelda eða hamfarirnar í Eldgjá, þá getum við gert ráð fyrir að það leggist af allt flug til og frá landinu í einhvern tíma.  Þegar gaus í Gjálp, þá þurfti að breyta flugleiðum í millilandaflugi.  Það gos stóð þó í stuttan tíma.  Goshrina á Reykjanesi gæti gert það að verkum að ekki væri hægt að nota Keflavíkurflugvöll.  Þetta eru allt atriði sem Almannavarnir eru búin að skoða og áhættumeta.  Hafi það ekki verið gert, þá er nauðsynlegt að fara í slíkt mat.

Umræðan er allt í einu búin að færast frá leiðsögumannsstarfinu yfir í hitt starfið mitt, sem er áhættumat og áhættustjórnun.  Ég hef auglýst eftir því að gert sé heildaráhættumat fyrir Ísland.  það var farið í slíka vinnu fyrir nokkrum árum, en gallinn við það mat (að mínu mati) er að hlutunum var snúið á hvolf.  Það var ekki gert áhættumat heldur ógnarmat, þ.e. ógnir voru skoðaðar gert mat á því að þær yrðu að veruleika í staðinn fyrir að skoða hvern þátt þjóðfélagsins og meta líkurnar á því að hann yrði fyrir það mikilli truflun að hann yrði ekki starfhæfur.  Á þessu er mikill munur. Það var kannski þess vegna sem menn voru ekki betur undir bankahrun búnir.

Skoðum eldgos á Reykjanesi og alþjóðaflug.   Eldgos gæti haft truflandi áhrif á alþjóðaflug og raunar hindrað að hægt sé að fljúga frá Keflavíkurflugvelli í mörg ár. Í ógnarmati er þessi þáttur skoðaður, líklegast komist að þeirri niðurstöðu að áhættan sé hverfandi og hægt sé að fljúga frá Akureyri.  Skoðum því næst hvað þurfi að gerast til að alþjóðaflug leggist af.  Þá kemur aftur upp þetta með eldgosið, en líka fjölmargir aðrir þættir, svo sem eldsneytisskortur, úreltur flugvélafloti, skortur á varahlutum, stórbrotin jarðskjálftahrina, alvarlegar farsóttir og svona mætti lengi telja.  Það er því ekki víst að nóg sé að færa flugið til Akureyrar til að leysa vandann!

Marinó G. Njálsson, 31.5.2009 kl. 23:17

22 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Það er frábært hvað þú ert jákvæður og umburðarlyndur maður Marinó Ég var farin að velta fyrir mér hvort það hefði verið ég sem hefði snúið umræðunni frá leiðsögumannsstarfinu þínu yfir í hugsanlega eldgosahættu í nágrenni Reykjavíkur og hvort að ég ætti að hafa móral yfir því. Þegar ég sé hvernig þú tekur stefnunni sem umræðan hefur tekið sé ég að ég þarf ekki að vera með neinar áhyggjur

Rakel Sigurgeirsdóttir, 1.6.2009 kl. 00:50

23 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Til hamingju með leiðsögumanna prófið.  Umræðan hérna hjá þér er mjög fróðleg og skemmtileg í kvöld. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 1.6.2009 kl. 01:33

24 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Frábærar umræður og yndisleg tilbreyting.

Arinbjörn Kúld, 1.6.2009 kl. 10:02

25 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Á má til með að bæta við einu sem ég heyrði eitt sinn frá Ármanni Jakobssyni jarðfræðingi, sem er það að mestu hamfarir sem gætu orðið á Faxaflóa væru ef Snæfellesjökull myndi gjósa og í framhaldi af því myndi suðurhlið fjallsins springa í St.Helens-stíl ofan í sjóinn og valda stórri flóðbylgju sem næði til alls Faxaflóa. Það er að vísu mjög ósennilegt eða eitthvað svona gerist á næstunni gerist kannski aldrei.

Í leiðinni vil ég minna Jóhann á að hraun eins og Gálgahraun á Álftanesi, „IKEA- hraunið“ í Garðabæ, Svínahraun, Bláa-Lóns hraunið við Þorbjörn o.fl. geta varla talist til dyngjuættaðra hraðfljótandi helluhrauna og ekki koma þau úr Henglinum.

Emil Hannes Valgeirsson, 1.6.2009 kl. 10:08

26 identicon

Frábær umræða,

Það eru tvö atriði sem mig langar að koma á framfæri. Marinó kemur inn á annað þeirra, þ. e. áhætta varðandi samgöngur til og frá landinu. Við eldgos á SV landi þá er gríðarlegt öryggi af því að hafa Reykjavíkurflugvöll.

Hitt atriðið er áhættan sem fylgir því að hafa orkufrekan iðnað og gagnaver staðsett yst á Reykjanesi, sem byggir talsvert á orkuflutningum frá Suðurlandi.  Flutningslínurnar liggja þvert á sprungur og hraun. Er þetta ekki svolítil "2007"áhætta fyrir þjóðfélagið?

HVG (IP-tala skráð) 1.6.2009 kl. 10:42

27 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Best að leiðrétta sjálfan sig líka, en ég fór fræðingavillt áðan og ætlaði að skrifa Ármann Höskuldsson jarðfræðingur. Helgi Jóhann kallar sig svo kannski frekar Helga heldur en Jóhann.

Emil Hannes Valgeirsson, 1.6.2009 kl. 10:53

28 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Dyngjugos verða almennt ekki nema á hlýskeiðum ísalda eða í lok ísalda.  Reykjanesið hefur að mestu orðið til á þann hátt að nokkrar dyngjur hafa tengst og síðan eru móbergsfjöll sem myndast hafa í gosi undir jökli á síðasta kludaskeiði eða þar síðasta.  Fagradagsfjall er t.d. móbergsstapi, sem þýðir að gosið hefur náð í gegnum jökulinn.  Brotabeltin og flekaskilin ganga svo í tvæ ólíkar stefnur í gengum þessi fjöll.

Síðast gaus á þessu svæði úr Reykjaneskerfinu 1211-1240 og myndaðist þá m.a. Eldey, auk þess sem runnu hraun sem ná alveg rétt sunnan Voga yfir til Húsatófta (þar sem golfvöllur Grindvíkinga er) og þaðan út á Reykjanestá.  Undir þessum hraun og allt í kringum þau eru hraun úr nokkrum dyngjum, en þær tvær stærstu eru Sandfell (Sandfellshæð), sem er hraunið sunna byggðarinnar í Keflavík, Njarðvíkur og flugvallarsvæðisins, og síðan Þráinsskjöldur, sem myndar Strandaheiði og Vatnsleysuströnd, en gígurinn sjálfur er rétt vestan við Keili.  Vegna þess hve flatur Þráinsskjöldur er, eru ekki allir sem átta sig á því að þetta er stór og mikil dyngja. Þessar dyngjur eru taldar hafa gosið undir lok ísaldarinnar fyrir um 13.000 árum, en eitthvað flökt hefur verið á jöklinum og hann því gengið að hluta aftur inn á þær að hluta.  Austar er Heiðin há (er heiðin sunnan Bláfjalla) og er hún mest þessara dyngja, en eitthvað yngri, þar sem jökullinn hopaði þar síðar en utar á nesinu.  Ofan á henni liggja mörg yngri hraun, m.a. Leitarhraunin (4.700 ára).  Þau yngstu eru frá um 1000.

Ekki er hægt að segja annað, en að það hafi verið líf og fjör í landnámi Ingólfs fyrstu árhundruðin.  Kannski var það þess vegna sem lítið er minnst á þetta svæði í Íslendingasögum.  Þarna voru sífelld eldsumbrot og ekkert þangað að sækja annað en tómt vesen!

Marinó G. Njálsson, 1.6.2009 kl. 11:58

29 identicon

Ég má til með að leggja nokkur orð í belg í þessari umræðu sem annars hefur verið hin skemmtilegastar lesning.

Fyrst vil ég benda þér á Marinó að síðustu gosin á Reykjanesskaganum voru Afstapahraun og Arnarseturshraun sem runnu um árið 1400 ( man ekki ártölin nákvæmlega ) en þetta er haft eftir skrifum Jóns Jónssonar heitins jarðfræðings sem líklega var manna fróðastur um jarðfræði Reyjanensskagans.

Vissulega getur gosið nánast hvar og hvenær sem er á öllum skaganum þegar hrynan byrjar og þegar húin byrjar þá mun gjósa víða á einhverju hundraða ára tímabili og eins og fram hefur komið í umræðunni, þá mun að öllum líkindum aftur hraun renna þar sem hraun er fyrir.

Verst finnst mér þó örnefnaruglið sem virðist vera að festa sig í sessi þar sem Reyjanesskaginn allur er nefndur Reykjanes og í ofanálagt að fara kalla Reykjnesið Reyjanestá. Ég vil benda á að nesið sem Reykjanesviti stendur á, heitir Reykjanes ( þ.e. hællinn á Reyjanesskaganum ) og úr því gengur lítil tota sem heitir Reyjanestá.

Björn J. Gðjohnsen (IP-tala skráð) 2.6.2009 kl. 02:00

30 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Björn, ég tek undir með þér varðandi örnefnin, en ákvað sjálfur að nota þau örnefni sem flestir nota.  Ég var að velta fyrir mér að nota Suðurnes og tala um svæðið sunnan við Rosmhvalaness eða jafnvel Miðness, en var ekki viss um að fólk skyldi hvað átt væri við.  Vandamálið er að kortagerðarmenn virðast vera samtaka í því að nota ekki þessi örnefni og því erfitt að vísa til þeirra, ef lesandinn getur ekki flett þeim upp.   Síðan er eitthvað á reiki við hvaða staði sum þessara örnefna eru kennd.  Þannig talar Landnáma um að Rosmhvalanes nái frá Hvassahrauni meðan seinni tíma menn tala um svæðið frá Leirum að Sandgerði.

Varðandi Afstapahraun, þá segir í mínum heimildum að það hafi runni skömmu eftir landnám.

Annars er Ferlir.is góð uppspretta heimilda um Reykjanesskaga og þar má meðal annars finna stutt yfirlit sem heitir Reykjanesskagi – náttúrusaga og eldvörp

Marinó G. Njálsson, 3.6.2009 kl. 08:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband