Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Veit Jóhanna hvað hún er að segja?

Jóhanna Sigurðardóttir hélt því blákalt fram á RÚV áðan að það myndi kosta ríkissjóð 900 milljarða að færa niður skuldir um 20%.  Ég get ekki annað en velt því fyrir hverju ráðgjafar hennar hafa haldið að henni og hvaða reiknikúnstum þeir hafa beitt. 

En notum þessa 900 milljarða sem útgangspunkt.  Það þýðir þá að lánin sem færa á yfir í nýju bankana eru alls 4.500 milljarðar.  Samkvæmt þeim upplýsingum sem komið hafa fram, þá á að fær þessa tölu niður um 50%.  Eftir standa þá 2.250 milljarðar.  Ef við gerum ráð fyrir að af þessum 2.250 milljörðum þá sé 50% sem ekki eru hluti af öðrum afskriftum.  Þá standa eftir 1.125 milljarðar sem eru metnar góðar skuldir, þ.e. skuldir sem flytjast á 100% verðgildi milli bankanna.  20% af þessari tölu er 225 milljarðar.  Þetta er þá hámarkstalan sem fellur á ríkið vegna þessara skulda.  Stóra málið er að þessir 225 milljarðar skila sér í ríkiskassann í formi veltuskatta, tekjuskatta og sparnaði í velferðarkerfinu.  Ég giska á að það taki minna en 2 ár fyrir ríkið að vinna upp þessa tölu, ef hún er þá á annað borð rétt.

Kröfuhafar SPRON voru búnir að bjóða 20% afskriftir, þannig að þar er búið að taka tillit til 20% flats niðurskurðar.  Eftir standa lífeyrissjóðirnir, Íbúðalánasjóður og smærri fjármálafyrirtæki sem ekki hafa verið talin annars staðar.  Grundvallarhugsunin hjá þessum fyrirtækjum, að líkt og hjá gömlu bönkunum, þá er stór hluti útlána þeirra þegar tapaður.  Þetta eru lán sem aldrei innheimtast.  Tapið er því að mestu komið fram.  Það sem umfram er, er í mesta lagi 4 - 500 milljarðar.  20% af því er því 80 - 100 milljarðar.  Við erum þá komin upp í heila 325 milljarða, ekki 900 milljarða.

Þessir 325 milljarðar er rétt um helmingurinn af því sem lagt var í að bjarga innistæðunum.  Þetta er minna en það sem á að leggja í eigið fé til bankanna.  Þetta er rétt rúmlega talan sem lögð var inn í Seðlabankann.  Nú af þeirri upphæð sem notuð var til að bjarga innistæðunum, þá voru örugglega milli 150 - 200 milljarðar ávöxtun og verðbætur.  Venjan þegar verið er að bjarga svona innistæðum, þá er verið að horfa til höfuðstólsins, en ekki þarna.  Ríkisstjórn Geirs H. Haarde þurfti að vera grand og bjarga vöxtunum og verðbótunum.  Vorum við virkilega það rík, að þörf var á því að bjarga vöxtum og verðbótum stóreignaaðilanna líka?

Jóhanna nefndi líka að Samfylkingin hefði hrint í framkvæmd 18 aðgerðum til bjargar heimilunum.  Flestar af þessum aðgerðum eru í besta falli klór í versta falli slæmur brandari.  Tökum sem dæmi hækkun vaxtabóta, þar sem vaxtabætur fólks með 8-12 milljónir í árstekjur hækka um allt að 500% meðan vaxtabætur fólks með allt að 7 milljónir hækka í mesta lagi um 30%.  Nú vaxtabæturnar eru greiddar með sköttum af útgreiddum séreignasparnaði!  Þarna er ríkið ekki að gera neitt.  Það er fólkið sem er að nota séreignasparnaðinn sinn til að greiða út hærri vaxtabætur.  Annað er greiðsluaðlögunin.  Hún er ekki einu sinni komin til framkvæmda og er auk þess illframkvæmanleg.  Lögmaður kallaði þessa tillögu "líknardeildina".  Greiðsluaðlögunin var auk þess afgreidd í tveimur lögum.  Þannig að sama tillagan var talin tvisvar.  Samfylkingin stærir sig af því að standa við lög með því að hækka greiðslur til lífeyrisþega.  Í færslu frá 18. janúar 2009, afgreiddi ég þrettán tillögur sem Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum.  Ef það er þetta sem Jóhanna er að tala um sem 18 aðgerðir til bjargar heimilunum, þá eigum við ekki von á góðu.


Grein Jóns G. Jónssonar í Morgunblaðinu í dag - Skyldulesning fyrir þá sem vilja fá skýra mynd af stöðu bankanna

Jón G. Jónsson skrifar grein undir heitinu "Endurreisn án eftirskjálfta" sem birt er í Morgunblaðinu í dag.  Þetta er ákaflega áhugaverð grein, sem ég tel eiga erindi til allra sem vilja fá skýrari mynd af stöðu bankanna.

Mig langar að vitna í greinina á nokkrum stöðum.  Jón byrjar grein sína svona:

ENDURREISN bankanna er mikilvægasta efnahagsmál þjóðarinnar, en jafnframt það flóknasta í úrlausn. Samkvæmt tillögum Fjármálaeftirlitsins (FME) frá því í október á stærð nýju bankanna að miðast við innlendar eignir. Stofnefnahagsreikningar þeirra frá nóvember gera ráð fyrir eignum upp á 2.500 milljarða (áður en ríkið leggur fram eigið fé). Um mitt ár 2008 voru innlendar eignir gömlu bankanna þriggja 5.000 milljarðar, þar af einungis 3.000 milljarðar í íslenskum krónum. Gert er ráð fyrir því að eignir verði keyptar á 50% af bókfærðu verði, en niðurstöður verðmats, sem lauk 15. apríl, hafa þó enn ekki verið birtar. Nýju bankarnir gefa svo út skuldabréf til þeirra gömlu fyrir 1.200 milljarða, eða mismuninn á yfirteknum eignum (2.500 milljörðum) og innlánsskuldum (1.300 milljörðum). Nýlegar yfirlýsingar fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra benda reyndar til að bankarnir verði minni. Hins vegar bendir ekkert til að aðferðunum verði breytt. 

Þarna lýsir hann aðferðafræðinni sem nota á við gerð stofnefnahagsreiknings bankanna.  Þetta var svo sem vitað, en þetta er nauðsynlegur inngangur að því sem síðar kemur.

Ísland er eins og Indónesía, ekki Svíþjóð

Aðstæður hér á landi eru í engu líkar þeim sem voru í Svíþjóð árið 1992, en svipar mest til Indónesíu í Asíukreppunni 1997-1999 hvað varðar gengishrap, stýrivaxtastig, skuldatryggingarálag, erlenda skuldsetningu fyrirtækja og tengsl við banka landsins. Eignaumsýslufélag Indónesíu tók yfir vanskilalán sem námu 80% af bankakerfinu og endurheimti aðeins 30% af lánsfjárhæð. Nýju bankarnir eiga að taka yfir útlán upp á 4.000 milljarða að bókverði, eða 2.000 milljarða að markaðsverði. Samkvæmt þessum tölum má ætla að tap íslenska ríkisins gæti orðið 320 milljarðar, bara vegna afskrifta vanskilalána (ef þau eru tekin yfir á 40%, en venjuleg lán á 90%).

Hér er athyglisverð leiðrétting á viðtekinni trú manna að hægt sé að bera Ísland við Svíþjóð.  Mér hefur alltaf fundist sá samanburður einkennilegur og viljað frekar bera saman við Asíuríkin, þar sem þau urðu fyrir árás spákaupmanna á gjaldmiðla.  Vissulega var sú atlaga að einhverju leiti byggð á öðrum forsendum en hér.

Stærð nýju bankanna miðist við innlend innlán

Ekkert land í heiminum hefur jafnmikil tækifæri til að láta aðra kosta endurreisn sína, en þá verða nýju bankarnir að verða minni. Þeir keyptu þannig aðeins bestu eignir gömlu bankanna, sem næmi innistæðum, eða 1.300 milljörðum, í stað 2.500 milljarða áður, og gæfu þannig ekki út nein skuldabréf. Stærð bankakerfisins væri þá eins og hjá nágrannaþjóðum. Hlutafjárframlag ríkisins væri minna, eða 130 milljarðar, í stað þeirra 385 milljarða sem eru á fjárlögum. Nýju bankarnir gætu tekið til sín skuldir sjávarútvegsins og þannig færðist fiskveiðikvótinn óbeint í hendurnar á þjóðinni. Slíkir bankar fengju betra lánshæfismat og þá yrði auðveldara að einkavæða. Fjárhagsleg áhætta ríkissjóðs sem hluthafa og Seðlabanka sem mótaðila á millibankamarkaði minnkar einnig. Erlendir kröfuhafar hefðu meiri áhuga á að eignast slíka banka.

Mig langar að setja spurningu við eitt atriði í þessum texta.  Verði eingöngu bestu eignirnar keyptar hvernig verður það framkvæmt, þar sem fólk er með 100% lán á húsinu sinu, staða þess er í raun komið í 150 - 200%, en það stendur undir 80% láni.  Þýðir það þá að þetta lán verður eftir í gamla bankanum?  Hvað verður um lánin sem verða eftir í gömlu bönkunum?  Verða þau afskrifuð, færð niður eða gengið að lántakendum og veðum?

Jón kemur næst með áhugaverð lausn á fjármögnun bankanna, verðtryggingunni og jöklabréfunum:

Einnig má nota endurskipulagninguna til að létta á verðtryggingu útlána og gjaldeyrishöftum. Í stað hlutafjár frá ríkinu gætu bankarnir fjármagnað ný útlán með útgáfu óverðtryggðra skuldabréfa til þess, og lánað áfram viðskiptavinum sínum. Þannig væru útlán bankanna óverðtryggð. Vegna jöklabréfanna er stór hluti innistæðna í eigu erlendra aðila. Margar ástæður eru fyrir nýju bankana að taka þær ekki yfir (t.d. fylgja þeim vanskilalán og of dýrt er fyrir bankana að greiða háa vexti af þeim, ef þeir geta ekki lánað þær út á betri kjörum). Með því að skilja þær eftir í gömlu bönkunum gætum við fest þær þangað til greiðslustöðvun lyki í lok næsta árs. Þannig mundi þrýstingur á krónuna minnka, eftirspurn eftir ríkisskuldabréfum aukast og skilyrði til vaxtalækkunar myndast.

Og hann heldur áfram:

Samkvæmt þessu yrði stór hluti lána íslenskra fyrirtækja eftir í gömlu bönkunum. Þess vegna þarf eignaumsýslufélag til að endurskipuleggja fjárhag þeirra og styðja við bakið á nýju bönkunum, eins og umsýslufélög í öðrum löndum hafa gert. Fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækja er forsenda fyrir endurreisn íslensks efnahagslífs. Bein niðurfærsla skulda virkar ekki. Þá þyrftum við að búa til of stórt bankakerfi til að hún næði til sem flestra. Einnig tapaðist stærsti hluti eiginfjár bankanna við þetta. Niðurfærslan gæti líka leitt til lögsókna lánardrottna nýju bankanna. Einnig eru vandamál íslenskra fyrirtækja jafnflókin og þau eru mörg og ómarkviss skuldaniðurfærsla gæti aukið útlánatap bankanna síðar meir.

Næst fjallar hann um hlutverk og stöðu ríkissjóðs í þessu öllu.  Þar er mjög skýr greining sett fram:

Efnahagsleg ábyrgð, siðferðisleg skylda

Ríkið hefur ferns konar hagsmuni vegna falls og endurreisnar bankanna: sem stjórnvald, sem hluthafi í nýju bönkunum, sem forgangskröfuhafi í þá gömlu í gegnum Tryggingasjóð innistæðueigenda (að mestu leyti Landsbankann vegna Icesave) og sem venjulegur kröfuhafi (eins og erlendir bankar) í gegnum Seðlabanka (í formi markaðsbréfa o.fl.). Mikilvægt er að ríkið útbúi heildaráætlun út frá þessum hagsmunum og endurreisi bankana án þess að tilfallandi kostnaður setji ríkissjóð í þrot. Bestu mælikvarðar á árangri eru lánshæfismat Íslands og skuldatryggingarálag. Forða verður að Standard & Poor´s (S&P) lækki matið niður í »ófjárfestingarhæfan« (non-investment grade) flokk. S&P segir að hætta sé á lækkun ef kostnaður við endurreisn bankanna verði of mikill. Því miður eru alþjóðlegir lánsfjármarkaðir svartsýnir á horfur hér og skuldatryggingarálag ríkisins svipað þeim sem eru með mun lægra lánshæfismat en við.

Jón endar grein sína með áhugaverðum ábendingum og upplýsingum:

Erlendir kröfuhafar munu bera stóran hluta af afskriftum skulda íslenskra fyrirtækja. Sem fagfjárfestar eiga þeir líka að gera það frekar en íslenskir skattborgarar. Þeir voru oft varaðir við íslensku bönkunum en lánuðu þeim samt á betri kjörum en þeir gátu fengið á skuldatryggingamarkaði. Við berum hins vegar siðferðislega skyldu gagnvart þeim. Við vitum ekki hvort eignum hefur verið skotið undan en við skuldum alþjóðlegum fjárfestum að gera allt til að endurheimta þær og færa þeim. Það er ekki nóg að fá hingað franskan saksóknara fjóra daga í mánuði. Við ættum að fá til liðs við okkur aðila sem eltu uppi eignir Saddams Husseins og Ferdinands Marcos á sínum tíma. Tjón erlendra lánardrottna á falli íslensku bankanna í fyrra er a.m.k. tvöfalt meira en tap lánardrottna Enron árið 2001. Hagsmunir okkar eru einnig miklir: íslenskur iðnaður er fjármagnsfrekur og þarf á erlendu fjármagni að halda. Og þangað til við tökum á þessum hlutum af alvöru verður engin viðspyrna. Þeim sem vilja bera ábyrgð á endurreisninni ber að hafa þetta í huga.

Þessi grein er sem ferskur andblær inn í umræðuna.  Án öfga, án blússandi varnar.  Það verður samt fróðlegt að sjá á næstum dögum hvort Jón reynist sannspár um stofnefnahagsreikning bankanna.


Þetta var vitað í október - Af hverju gerði Pétur ekkert í málunum?

Stundum get ég ekki annað en furðað mig á málflutningi Sjálfstæðismanna.  Þeir býsnast yfir því að hitt og þetta hafi ekki verið gert, en átt sig ekki á því að trekk í trekk eru þeir sjálfir mesti sökudólgurinn.  Hér er eitt dæmið í viðbót, sem hefur lengið fyrir frá því að bankarnir féllu að þyrfti að leysa.  Hlutabréfin urðu verðlaus, en vegna þess að bankarnir voru ekki gerðir gjaldþrota, þá er eignin ennþá til staðar. 

Sjálfstæðisflokkurinn var í stjórn í tæpa fjóra mánuði eftir hrun bankanna.  Þeir stýrðu ráðuneyti fjármála, en það fer með skattamál.  Pétur Blöndal var formaður efnahags- og skattanefndar á þessu tímabili.  Til að bregðast við þessu vandamáli varðandi hlutabréfin, þá hefði þurft að breyta lögunum fyrir áramót.  Að það hafi ekki verið gert er alfarið á ábyrgð Sjálfstæðismanna.

Þetta er því miður eitt af fjölmörgum dæmum um klúður ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar.  Ríkisstjórnarinnar sem lét ótal tækifæri sér úr greipum ganga.  Ríkisstjórnarinnar sem tók óteljandi rangar ákvarðanir sem eiga eftir að kosta þjóðina óhemju upphæðir á næstu árum og áratugum.  Ákvarðanir sem lögðu íslenskt atvinnulíf og heimili í rúst.  Ákvarðanir sem eiga eftir að valda miklum landflótta og gjaldþroti ótal fyrirtækja og einstaklinga.


mbl.is Verðlausar eignir skattlagðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En hver er ávinningurinn ef vextir lækka um 3% án ESB-aðildar?

Merkileg getur hún verið tölfræðin.  Þarna er reiknaður út ávinningur af 3% lækkun vaxta og gefið í skyn að þessi ávinningur komi bara, ef gengið er í ESB.  Ég get alveg fullyrt að ef vextir lækka um 10% án ESB-aðildar, þá verði ávinningurinn mun meiri.  Ég get líka fullyrt að ef vextir lækka um 15% með því að ganga í NAFTA, þá verði ávinningurinn alveg ótrúlega mikill.

Að tengja ávinning af 3% vaxtalækkun við ESB-aðild er hlægileg og lýsir rökþroti mann.  Ávinningurinn er líklegast hinn sami hvað svo sem annað er gert.  Spurningin sem menn hefðu átt að svara er frekar hvort líkurnar á vaxtalækkun aukist með ESB-aðild.

Glæpsamleg vaxtastefna Seðlabanka Íslands og ríkissjóðs er grunnurinn að vanda íslenska hagkerfisins.  Það var þessi vaxtastefna Seðlabankans sem varð þess valdandi að krónan styrktist umfram það sem gat talið eðlilegt.  Þar af leiðandi óx kaupmáttur Íslendinga í útlöndum meira en hagkerfið stóð undir.  Það var þessi vaxtastefna Seðlabankans og ríkissjóðs sem bauð upp á vaxtaskiptasamninga og að erlendir aðilar leituðu hingað til að fá háa ávöxtun.  Og ennþá er þessi glæpsamlega vaxtastefna að vinna gegn uppbyggingu í þjóðfélaginu.

Raunstýrivextir eru um þessar mundir yfir 16%! og hafa þeir aldrei verið hærri í Íslandssögunni.  Meðan öll lönd í kringum okkur eru með neikvæða raunstýrivexti, þá er Seðlabankinn haldinn sjálfeyðingarhvöt fyrir hönd íslensku þjóðarinnar.  Þessi raunstýrivextir eru hengingaról atvinnulífsins, heimilanna og sveitarfélaga í landinu.  Verði þessu ekki breytt STRAX, þá verður hér engu að bjarga.  Það verður ekkert hér eftir til að ganga í ESB, þar sem það verður búið að innlima landið í eitthvert af nágrannaríkjum okkar.

Bara til að svara strax þeim sem líklegir eru til að snúa út úr orðum mínum, þá fjallar þessi færsla ekki um ESB-aðild eða ekki.  Hún fjallar um furðulega tengingu orsaka og afleiðinga.


mbl.is Vaxtaávinningur af ESB-aðild: 228 milljarða lækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afleiðing af aðgerðarleysi tveggja ríkisstjórna - Krafan er þjóðstjórn

Ég veit ekki alveg hvort það er jákvætt eða neikvætt að hærra hlutfall útlána verður skilið eftir  í gömlu bönkunum.  Ég er hins vegar alveg klár á því að aðgerðarleysi tveggja ríkisstjórna hefur orðið til þess að allt er renna niður um ræsið.  Hversu lengi eigum við landsmenn að bíða eftir að eitthvað verði gert?  Hvað kostaði málþóf Sjálfstæðismanna þjóðina mikið?  Hvers vegna voru tillögur neyðarhópanna sem Ásmundur Stefánsson verkstýrði í október ekki notaðar?

Í færslu í gærkvöldi (sjá Brýnustu málin eftir kosningar - verkefni þjóðstjórnar) set ég fram  þau verkefni sem ég tel vera brýnast að leysa úr á næstu vikum og mánuðum.  Þetta eru nákvæmlega sömu verkefni og brýnast var að leysa úr í október, nóvember, desember, janúar, febrúar, mars og núna í apríl.  Þessi verkefni eru brýnust þangað til mönnum tekst að leysa þau.  Takist það ekki er ein sniðug lausn að draga norska fánann að hún.  Takist það ekki, er tilgangslaust að velta fyrir sér umsókn um ESB aðild.  Takist það ekki, er vonlaust að láta sig dreyma um að krónan rétti úr kútnum, hvað þá að taka hér upp Evru.

Þessi brýnu verkefni eru:

1.  Koma á fót starfhæfu bankakerfi

2.  Stöðva aukningu atvinnuleysis

3.  Skapa atvinnulífinu eðlilegt rekstrarumhverfi svo endurbygging þess geti hafist

4.  Skapa heimilunum eðlileg skilyrði svo þeim hætti að blæða

5.  Fara í aðgerðir til að verja velferðarkerfi

6.  Móta framtíðarsýn fyrir Ísland

(Sjá nánar Brýnustu málin eftir kosningar - verkefni þjóðstjórnar).

 


mbl.is Sigmundur Davíð spáir öðru hruni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brýnustu málin eftir kosningar - verkefni þjóðstjórnar

Nú eru þær að hellast yfir okkur kosningarnar.  Ég var að horfa á svo kallaðan borgarafund RÚV rétt áðan og sá varla nokkurn "borgara" leggja fram spurningar.  Þarna komu frambjóðendur af hinum og þessum listum flokkanna og spurðu spurninga sem áttu að láta sinn frambjóðanda líta vel út og reyndu að koma höggi á andstæðingana.  Mér fannst á þessum fundi eins og öðrum vantar skýrari svör hjá þeim sem sátu fyrir svörum, varðandi hvað væri brýnast, hvers vegna B, D, S, V og F hefðu ekki komið því þegar í kring og hvenær það yrði gert.  Í staðinn tipluðu frambjóðendur í kringum spurningarnar eins og kettir í kringum heitan graut.

Mig langar að skoða hvað mér finnast vera brýnustu verkefni næstu ríkisstjórnar.  Þau voru brýnustu verkefni núverandi ríkisstjórnar og ríkisstjórnarinnar þar á undan.  Ég geri mér engar vonir um að næstu ríkisstjórn farnist neitt betur en hinum fyrri en útiloka það ekki.

1.  Koma á fót starfhæfu bankakerfi:  Meðan fjármálakerfið virkar ekki eðlilega, þá flæðir blóðið ekki um hagkerfið.  Það er betra að ríkisstjórnin einblíni á að byggja upp einn banka og geri hann vel starfhæfan, en að reyna að byggja upp þrjá og hjakka sífellt í sama farinu.  Lausnin er að kröfuhafar gömlu bankanna taki yfir t.d. Íslandsbanka og Kaupþing, en ríkið haldi Landsbankanum.  Ríkið leggi sínum banka til þá 385 milljarða sem áttu alls að fara inn í bankana, en kröfuhafarnir sjái um að endurfjármagna bankana sem þeir fá í hendur.  Þessu þarf að ljúka innan 30 daga.

2.  Stöðva aukningu atvinnuleysis:  Það hefði átt að vera fyrsta hlutverk ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að gera allt til að aðstoða fyrirtæki við að hafa fólk í vinnu.  Í staðinn var farin sú leið að safna fólki á atvinnuleysisbætur. Þetta voru líklegast stærstu mistök þeirrar ríkisstjórnar í kjölfar bankahrunsins.  Núverandi ríkisstjórn hefur ekki boðið upp á nein úrræði.  Fyrir hvert starf sem hefur tapast, þarf að vinna upp eitt starf.  Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar skyldi ekki þennan einfalda sannleika.  Þess vegna eru hátt í 20 þúsund manns án atvinnu.  Ég hef lagt til að fyrirtækjum sé borgað fyrir að hafa fólk í vinnu í staðinn fyrir að borga fólki fyrir að hafa ekki vinnu.  Ráðast þarf í verkið strax.  Ekki eftir viku eða hálfan mánuð eða í haust.

3.  Skapa atvinnulífinu eðlilegt rekstrarumhverfi svo endurbygging þess geti hafist:  Það er atvinnulífið sem skapar störfin.  Ríkisstjórnir skapa skilyrðin.  Búið er að setja milljarða á milljarða ofan í atvinnuleysisbætur, sem hægt hefði verið að nota til að aðstoða atvinnulífið.  Fái einn ríkisbanki 385 milljarða framlag frá ríkinu, þá ætti að vera hægt að koma hjólum atvinnulífsins í gang. Kröfuhafar hinna tveggja sjá um að endurfjármagna þá og samkeppni myndi vonandi skapast.  Ráðast þarf í víðtækar breytingar á lögum. T.d. þarf að fella tímabundið niður öll launatengd gjöld.  Fyrirtæki eru að greiða hátt í 14% í mótframlag í lífeyrissjóð og tryggingargjald.  Með því að fella þessi gjöld niður í 12 mánuði má skapa skilyrði fyrir 8 - 10% fjölgun starfa og 4% hækkun launa, þar sem launakostnaður lækkar sem þessu nemur.  Síðan má endurvekja þessi gjöld á næstu 3 - 5 árum, þegar efnahagslífið hefur rétt úr kútnum.  Ég átta mig á því að sum fyrirtæki þurfa ekki á þessu að halda, en hvað með það.  Við erum að bjarga fjöldanum.

4.  Skapa heimilunum eðlileg skilyrði svo þeim hætti að blæða:  Atriði 1 og 3 hjálpa heimilunum mikið, en það þarf meira til.  Lækka þarf greiðslubyrði lána og leiðrétta höfuðstól þeirra.  Með því er komið til móts við heimilin vegna óréttlátrar hækkunar höfuðstól vegna hruns krónunnar.  Heimilin eru mörg hver komin með bakið upp við vegg.  Úrræði þessara heimila er að hætta að greiða lánin eða hætta neyslu.  Margir eiga ekki aðra úrkosti.  Við skulum hafa í huga að sífellt stærri hluti lána heimilanna eru að tapast vegna þess að þau ráða ekki við þau.  Því fyrr sem lánveitendur átta sig á því að hér er um sokkinn kostnað að ræða og fara í afskriftir, þess betra.  Talsmaður neytenda mun leggja fram tillögur á sunnudag, sem ég hvet stjórnmálamenn til að taka til alvarlegrar athugunar.  Ég hef fengið þær til umsagnar og tel þær vera raunhæfa leið út úr vandanum.  Það á svo sem líka við um tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna um setja 4% þak á verðtryggingu á ári frá 1. janúar 2008.

5.  Fara þarf í aðgerðir til að verja velferðarkerfi:  Lífeyrisþegar hafa margir farið mjög illa út úr kreppunni.  Huga þarf að stöðu þeirra.  Einnig þarf að huga að stöðu atvinnulausra, en enginn nær að framfleyta sér og fjölskyldu á atvinnuleysisbótum samhliða því að greiða af húsnæðislánum.

6.  Móta þarf framtíðarsýn fyrir Ísland:  Það er tími til kominn að stjórnvöld ákveði hvaða stefnu á að taka í nokkrum grundvallar málum. Ég gerði tillögu að eftirfarandi aðgerðahópum í færslu hér 6.11. og 24.11. og er ég eiginlega gáttaður á því að þeir hafi ekki verið settir á fót strax á fyrstu dögum eftir bankahrunið:

  1. Fjármálaumhverfi: Verkefnið að fara yfir og endurskoða allt regluumhverfi fjármálamarkaðarins.
  2. Bankahrunið og afleiðingar þess:  Verkefnið að fara yfir aðdraganda bankahrunsins svo hægt sé að læra af reynslunni og draga menn til ábyrgða.- Er í vinnslu
  3. Atvinnumál:  Verkefnið að tryggja eins hátt atvinnustig í landinu og hægt er á komandi mánuðum.
  4. Húsnæðismál:  Verkefnið að finna leiðir til að koma veltu á fasteignamarkaði aftur á stað.
  5. Skuldir heimilanna:  Verkefnið að finna leiðir til að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot heimilanna í landinu.
  6. Ímynd Íslands:  Verkefnið að endurreisa ímynd Íslands á alþjóðavettvangi.
  7. Félagslegir þættir:  Verkefnið að byggja upp félagslega innviði landsins.
  8. Ríkisfjármál: Verkefnið að móta hugmyndir um hvernig rétta má af stöðu ríkissjóðs.
  9. Peningamál: Verkefnið að fara ofan í peningamálastefnu Seðlabanka Íslands, endurskoða hana eftir þörfum og hrinda í framkvæmd breyttri stefnu með það að markmiði endurreisa traust umheimsins á Seðlabanka Íslands - Er í gangi
  10. Gengismál:  Verkefnið að skoða möguleika í gengismálum og leggja fram tillögur um framtíðartilhögun.
  11. Verðbólga og verðbætur:  Verkefnið að fara yfir fyrirkomulag þessara mála og leggja til umbætur sem gætu stuðlað að auknum stöðugleika.
  12. Framtíð Íslands - Á hverju ætlum við að lifa: Verkefnið að móta framtíðarsýn fyrir Ísland varðandi nýja atvinnuvegi.
  13. Framtíð Íslands - Hvernig þjóðfélag viljum við:  Verkefnið að móta framtíðarsýn fyrir Ísland varðandi inniviði þjóðfélagsins.

Í færslunni 24.11. bætti ég auk þess við:

Almenningur bíður eftir áætlunum frá stjórnvöldum um hvað á að gera.  Þá er ég að tala um áætlanir sem greiða úr þeim vanda sem almenningur stendur frammi fyrir. Þær tillögur sem hingað til hafa komið, hafa einblínt á að auka skuldir fólks og tryggja því atvinnuleysisbætur.  Ég get ekki séð að þetta sé það sem fólkið í landinu vill.  Ég fyrir mína parta vil sjá að tekjur mínar dugi fyrir útgjöldum.  Ég vil sjá að fyrirtækjum verði gert kleift að halda fólki í vinnu og að rekstur þeirra breytist ekki of mikið.  Ég vil sjá að rekstrargrundvöllur fyrirtækja og heimila í landinu verði styrktur, þannig að þjóðfélagið dafni en grotni ekki niður.  Ég vil sjá hið opinbera fara út í mannaflsfrek verkefni, þó svo að það kosti pening.  Ég vil sjá hið opinbera viðhalda þjónustustigi sínu, en ekki samdrátt. ... Ég hef kallað eftir því farið sé í endurreisn íslenska þjóðfélagsins, en ekki aukið á samdráttinn með niðurskurði.  Það besta sem hægt er að hugsa sér fyrir samfélagið, er að tekjur fólks aukist, að sem flestir borgi skatta, að framleiðsla aukist, að útflutningur aukist.  Þetta er grunnurinn að nýju Íslandi og þennan grunn er hægt að leggja strax.  Við þurfum öll að leggjast á árarnar svo að þetta megi verða. 

Ég skora á öll framboðin að skoða þetta mál vandlega og leggist saman á árarnar.  Ég skora á stjórnmálaflokkana að koma upp úr skotgröfunum og stofna þjóðstjórn að loknum kosningum.  Verkefnin þarf að leysa í sameiningu og fá til þess aðstoð færustu sérfræðinga.


Óli Björn segir kosningarnar ekki snúast um spillingastyrkina!

Ég var að hlusta á Óla Björn Kárason á Bylgjunni áðan.  Hann var að býsnast yfir því að kosningabaráttan snerist um smámuni, eins og styrki til stjórnmálaflokkanna, en ekki það máli skiptir.  Ég á eiginlega ekki orð.

Ég hélt að þetta styrkjamál væri eiginlega kjarni málsins.  Það snýst um heilindi stjórnmálamanna og hvort enn sé við líði fyrirgreiðslupólitík fortíðarinnar.  Mér finnst það skipta miklu máli hvort stjórnmálamenn séu ennþá að taka við því sem er ekki hægt að túlka á neinn hátt nema mútugreiðslum stórfyrirtækja til einstakra stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka.  Síðast í kvöld var í fréttum Stöðvar 2 nefnt að nokkrir stjórnmálamenn, þar á meðal báðir efstu menn Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík hefðu tekið við milljónastyrkjum vegna prófkjörsbaráttunnar haustið 2006.  Eru þetta virkilega mennirnir sem við viljum fá inn á þing?  Því neita ég að trúa og þess vegna snúast þessar kosningar um spillingarstyrkina.  Þær snúast líka um uppbyggingu atvinnulífsins, endurreisn heimilanna og framtíðarsýn fyrir þjóðina. 

Gallinn er að fæstir hafa flokkarnir nokkuð fram að færa í þessum efnum.  Samt eru fimm þessara flokka búnir að hafa hátt í sjö mánuði frá hruni bankanna til að koma með hugmyndir.  Af hverju eigum við að trúa því að þeir hafi eitthvað fram að færa núna, þegar þeir hafa ekkert gert síðustu mánuði?  Af hverju hafa ekki verið í gangi virkir aðgerðahópar á vegum stjórnvalda til að finna lausnir?

Kosningarnar á laugardag snúast um traust.  Þær snúast um að losna við spillta stjórnmálamenn út af Alþingi.  Þess vegna skipta spillingarstyrkirnir máli. 


Sjálfstæðisflokkurinn í afneitun

Hún er frábær afneitun Guðlaugs Þórs:

"ástæðan fyrir því að vinstri flokkarnir boðuðu til kosninga á þessum tíma væri að þannig gætu þeir valdið Sjálfstæðisflokknum mestum skaða.
Það eina sem sameinaði vinstri flokkana væri andstaða við sjálfstæðismenn."


Nei, Guðlaugur Þór.  Ástæðan fyrir því að boðað er til kosninga núna er að Sjálfstæðisflokkurinn hefur VALDIÐ ÞJÓÐINNI svo miklum SKAÐA að það varð að gefa ÞJÓÐINNI færi á að SEGJA HUG SINN.  Sjálfstæðisflokkurinn er einfær um að valda sjálfum sér skaða með einkavinastjórnun og að því virðist múturþægni. 

Hvað er búið að vera stærsta mál Sjálfstæðisflokksins síðan að bankarnir hrundu?  Koma í veg fyrir breytingar stjórnarskránni!!! Hvar eru tillögur til uppbyggingar?  Það mátti ekki koma með neina tillögu um endurreisn atvinnulífsins eða heimilanna fyrstu fjóra mánuðina eftir bankahrunið vegna þess að það átti að bíða eftir landsfundi í lok janúar.  Hvers konar bull er þetta? Og upplýsingum um slæma stöðu bankanna var haldið LEYNDUM fyrir ÞJÓÐINNI svo hún GAT EKKI VARIÐ SIG.  Voru þetta verk VG?

Flokkurinn var í 17 ár samfleytt í ríkisstjórn og vissulega kom tímabil hagsældar.  Málið er að þá var bara verið að safna eldiviði á bálköstinn sem brennur ennþá glatt 13 og hálfum mánuði eftir að kveikt var í honum.  Ég held að það sé kominn tími til að Sjálfstæðisflokkurinn SKAMMIST SÍN fyrir frammistöðu sína undanfarin ár, frekar en að vera að skammast út í aðra.  Flokkurinn hefur ekki ennþá beðið ÞJÓÐINA AFSÖKUNAR á einu eða neinu, þó Geir hafi beðið landsfundinn afsökunar.

Það er um tvennt að velja fyrir Sjálfstæðisflokkinn.  Að koma fram og viðurkenna og axla ábyrgð sína á því sem gerðist eða skríða aftur ofan í afneitunarholuna og láta ekki sjá sig næstu árin.  Það er ömurlegt að heyra fyrrverandi ráðherra væla yfir því að aðrir séu að benda honum á að HANN var FANTURINN Á SKÓLALÓÐINNI.  Það var hann sem leyfði hinum FÖNTUNUM (þ.e. fjármálalífinu) að NÍÐAST Á ÞJÓÐINNI.  Og það er Sjálfstæðisflokknum að kenna að þjóðin stefnir í GJALDÞROT.

Innan Sjálfstæðisflokksins er margt hið mætasta fólk.  Ekki er vafi um það.  En á listum flokksins er líka fólk sem er atað upp fyrir haus í aur eftir atgang síðustu ára.  Ekki vegna þess að aurnum hafi verið kastað í það, heldur vegna þess að það óð hann sjálfviljugt.  Guðlaugur Þór hefur mátt sæta mikilli gagnrýni út af styrkjamálinu.  60 milljónir fóru í sjóði flokksins.  En hvað með milljarða tugina sem fóru í Sjóð 9 þar sem Illugi Gunnarsson stýrði málum!  Eru búið að þagga það hneyksli niður.  Mér er tjáð að talan sé komin í 24,5 milljarða, sem farið hafa í að bjarga andliti hans.  Svo er verið að elta Guðlaug út af 60 milljónum.  Hvernig stendur á því að hópur stjórnenda hjá Kaupþingi og nokkrir vinir þeirra völdu að færa allar eignir og skuldir yfir í einkahlutafélög í febrúar og mars á síðasta ári um svipað leiti og Seðlabankamenn fóru til London? Sjálfstæðisflokkurinn verður bara að sætta sig við, að hann er á kafi í skítnum og þar til að hann gerir hreint fyrir sínum dyrum, þá nýtur hann ekki trausts þjóðarinnar.  Það er ekki nóg að Geir H. Haarde taki á sig einhverja sök eða Guðlaugi Þór verði fórnað.  Flokkurinn þarf að viðra allan sinn óhreina þvott.  (Sem á náttúrulega við um aðra flokka líka og fyrrverandi stjórnendur og eigendur bankanna.)


mbl.is Þarf að vinna litla sigra á hverjum degi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ávöxtunin sem ríkið býður er glæpur gegn þjóðinni

Ríkissjóður Íslands hefur ákveðið að leggja línur um vaxtakjör í landinu næstu 17 ár.  Ávöxtunarkrafan er sett á 8,82 - 9,98%!  Í mínum huga er þetta glæpur gegn þjóðinni.  Með þessu er ríkissjóður að endurspegla tiltrú sína á hagkerfið og endurreisnina, þ.e. verið er að lýsa frati á uppbygginguna.  Ef ríkið er að bjóða hátt í 10% ávöxtun hvernig á að vera hægt að lækka vaxtastigið í landinu.  Mér er alveg sama þó um óverðtryggða vexti sé að ræða.

Stjórnvöld eiga að ganga fram með góðu fordæmi og bjóða þá vexti, sem þau telja að hjálpi þjóðinni til langframa, en ekki horfa til skammtímasjónarmiða.  Ef ríkisstjórnin trúir því að efnahagsástandið eigi eftir að batna, þá verður það að endurspeglast í þeirri ávöxtun sem hún bíður fjárfestum.  Verðbólgumarkmið Seðlabankans eru 2,5%.  Hæfileg raunávöxtun á 17 ára láni er 2,5%.  Ríkið hefði því ekki átt að bjóða stiginu hærra en 5% vexti.  Ef það gengur ekki, þá verður bara að reyna síðar.

Ávöxtunin sem ríkissjóður bíður setur fyrirtæki og heimili í mikinn vanda.  Varla fá þessir aðilar betri kjör en ríkið!  Þetta er vel yfir væntanlegum hagvexti og þar með umfram væntanlega verðmæta aukningu í þjóðfélaginu.  Það getur ekki þýtt neitt annað en að gert er ráð fyrir verulegri verðbólgu á líftíma þessara skuldabréfa, þar sem öðru vísi geta heimilin og atvinnulífið ekki aflað nægilegra tekna til að greiða 12 - 14% nafnvexti (miðað við að vaxtaálag þeirra sé minnst 3-4% ofan á kjör ríkisins).  Ég spyr bara, er ekki í lagi hjá þeim sem ákveða þetta?  Meðan ríkisstjórnir í nágrannalöndum eru að selja ríkisskuldabréf með ávöxtunarkröfu sem er nálægt því að vera 0%, þá gefur hið gjaldþrota Ísland kost á allt að 10%.  Það er naumast að við erum rík.


mbl.is Skuldabréf seld fyrir 15 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru gengistryggð lán ólögleg?

Í lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur er í greinum 13 og 14 fjallað um vísitölutengingu skuldbindinga.

VI. kafli. Verðtrygging sparifjár og lánsfjár.
13. gr. Ákvæði þessa kafla gilda um skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga og þar sem umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli verðtryggðar. Með verðtryggingu er í þessum kafla átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu. Um heimildir til verðtryggingar fer skv. 14. gr. nema lög kveði á um annað.
Afleiðusamningar falla ekki undir ákvæði þessa kafla.
14. gr. Heimilt er að verðtryggja sparifé og lánsfé skv. 13. gr. sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði. [Vísitala sem reiknuð er og birt í tilteknum mánuði gildir um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár frá fyrsta degi þar næsta mánaðar.]*
Í lánssamningi er þó heimilt að miða við hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna sem ekki mæla breytingar á almennu verðlagi.

*(L. 51/2007. 1. mgr.)

Það vekur athygli í þessum greinum, sem "gilda um skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum" að "[h]eimilt er að verðtryggja sparifé og lánsfé .. sé grundvöllurinn verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs" eða "hlutabréfavísi[tala]..eða safn slíkra vísitalna".  Þó svo að greinin banni ekki beint aðrar tengingar, þá verður að túlka hana á þann hátt.  Það er jú verið að nefna það sem er heimilt á grundvelli reglunnar "allt er bannað sem er ekki sérstaklega leyft".  Ekki væri verið að nota orðið "heimilt", nema vegna þess að annað er bannað.

Í greinargerð með frumvarpinu (sjá http://www.althingi.is/altext/126/s/0872.html) segir um 13. og 14. gr.:

    Í 13. gr. frumvarpsins er fjallað um gildissvið kafla um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár.
    Í 1. mgr. er lagt til að heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla verði felldar niður. Frá 1960 var almennt óheimilt að binda skuldbinding ar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Þessi almenna regla var tekin upp í lög nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o.fl. („Ólafslög“). Með breytingum á þeim árið 1989 var þó heimilað að gengisbinda skuldbindingar í íslenskum krónum með sérstökum gengis vísitölum, ECU og SDR, sem Seðlabankinn birti. Þessi breyting var liður í auknu frelsi í gjaldeyrismálum á sínum tíma. Gengisbinding á grundvelli þessara vísitalna hefur notið tak markaðrar hylli.
    Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi.

(Leturbreytingar: MGN)

Ég fæ ekki betur séð en að gengistryggð lán, hvort heldur hrein eða með myntkörfu í bland við íslenskar krónur, séu ólögleg! ".. ekki verður heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla".  Verður það nokkuð skýrar?  Fjármálafyrirtækin eru búin að vera að selja ólögleg lán í fjölmörg ár.

Þar sem  þessi lán eru helsti dragbítur margra heimila og fyrirtækja, þá skiptir þetta miklu máli.  Hvernig stendur á því að Fjármálaeftirlit, Seðlabanki Íslands og viðskiptaráðuneytið hafa látið þetta óátalið?  Hvað segir ríkissaksóknari við þessu?  Mér finnst alveg með ólíkindum að þetta hafi verið látið óátalið í öll þessi ár, þegar reyndin er að með lögum nr. 38/2001 var löggjafinn að banna þessi lán.

Nú þýðir ekki fyrir fjármálafyrirtæki að ætla sér að snúa út úr og segja að þetta hafi verið skuldbindingar í erlendum gjaldmiðli.  Lánsumsóknir eru undantekningarlaust um fjárhæð í íslensum krónum, útborgun lánanna var í íslenskum krónum, afborganir lánanna eru/voru í íslenskum krónum og þegar upplýsingar eru gefnar um stöðu lánanna, þá eru þær gefnar í íslenskum krónum.  Auk þess er einn möguleiki að fá blandað lán, þar sem hluti þess er miðaður við verðtryggð kjör samkvæmt vísitölu neysluverðs meðan restin er miðuð við "dagsgengi erlendra gjaldmiðla".  Nú er spurningin hvort skjól gömlu bankanna fyrir lögsóknum muni koma í veg fyrir að lántakendur sem tóku hin ólöglegu lán geti leitað réttar síns.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 7
  • Sl. sólarhring: 164
  • Sl. viku: 570
  • Frá upphafi: 1677587

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 51
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband